Hellar við Þríhnúka
Ákveðið hafði verið að líta á helli í brún Þríhnúkahrauns ofan við Þjófadali, en gengið hafði verið fram á opið á sínum tíma á leið ofan af Þríhnúkum (FERLIR-398). Opið er utan í mikilli hraunrás talsvert norðan við hnúkana. Rásin sjálf er fallin og liggur til norðurs frá stóra gígnum. Í henni er mikið og líklega um 12 metra ókannað djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður nema á bandi. Snjór er á botninum. Fallna rásin lokast síðan með hafti uns hún beygir til norðvesturs. Mikill geymur hefur verið í beygjunni áður en þakið féll niður.
Haldið var því á ská upp hlíðina þangað til komið var í nýrra hraun ofan við hana. Í því eru miklir hraunhólar fremst á brúninni. Skjól var á milli hólanna og svo til alveg að hellisgatinu. Það er uppi og utan í norðurbrún föllnu hraunrásarinnar. Opið er u.þ.b. mannhæðar hátt og snýr á móti suðri. Grófur brúnleitur hraunlækur hefur runnið niður rásina og myndar hann gólfið. Frauðkennt hraunið lét undan þegar stigið var í það svo ljóst er að þarna hefur ekki verið mikil umferð.
Rásin sjálf er nokkuð slétt. Hún hallar niður á við og beygir aflíðandi til vinstri. Fallegar bergmyndanir eru í henni. Eftir u.þ.b. 100 metra lækkar rásin en hækkar síðan á ný.
Ekki var farið lengra að þessu sinni, enda þyrfti góðan galla til að koma í veg fyrir að koma ekki allur rifinn og tættur út aftur. Á leiðinni var komið við í fallegri hraunrás undir nýja hraunkantinum í Þjófadölum. Rásin er greinilega endinn á hraunrás, sem komið hefur niður hlíðina því nokkur jarðföll eru á henni á leiðinni niður. Veggirnir eru rauðleitir og fallegir. Rásinni var fylgt u.þ.b. 60 metra, en þá var snúið við. Hún virðist beygja áfram til norðvesturs undan hallanum. Þetta er falleg rás, sem vert væri að skoða nánar.
Gangan tók 2 klst og 21 mín. Frábært veður.