Hellisheiði II
Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.
Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“
Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.
Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.
Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.
Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.
Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.
Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.
Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.
Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.
Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.
Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.
„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“
Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.
Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.
Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.
„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.
Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.
Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.
Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“
Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“
Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.
Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.
Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.
Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.
„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.
Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“
Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.
Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.
Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.
Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.
En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.
Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.
Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …
Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.
1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“
„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.
Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.
Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.