Í hreinskilni sagt – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; Kakali skrifar
Í Mánudagsblaðinu árið 1967 er grein eftir Kakala undir fyrirsögninni „Í hreinskilni sagt – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum„:
„Jœja, þá er Þingvöllur aftur kominn á dagskrá, og þykjast nú allir geta lagt orð í belg og skipað fyrir, hversu staðurinn skuli byggður upp og gerður að sómasamlegum þjóðgarði í stað þess, sem nú er. Sumir vilja helzt engu um róta, vilja staðinn nú, þ.e. rústir og minningar, eins og hann var á dögum þjóðveldisins. Aðrir telja að þarna eigi að efna til annars Skálholtsævintýris, enn aðrir, að koma þurfi upp alþjóðlegum gististað svo hægt verði, ekki aðeins að gera staðinn eftirsóttan um allan heim heldur og að þéna megi á rekstri hans stórfé.
Allt er þetta, út af fyrir sig, athyglisverðar tillögur. En hvílík börn eru það nú, sem skrifa í blöð og telja Þingvöll í sama horfi og á þjóðveldistímanum, á niðurlægingartímabilinu eða á einræðisöldinni. Sennilega vita menn ekki með vissu um upprunaleg sæti nema tveggja til fjögurra búða. Um stærð tveggja er vitað með nokkurri vissu. Njálsbúð og biskupsbúð. Sennilega hafa búðir á Sturlungaöld verið miklu stærri og veigameiri, því ríki höfðingja á dögum Njáls og alveg til daga Sturlu föður Sturlunganna voru kotríki þegar þau eru borin saman við veldi höfðingjanna á næstu 150 árum. Á þeim tíma var almennt að höfðingjar riðu með 600 manna vopnað lið á þing, jafnvel yfir eitt þúsund þegar mest var við haft.
Þingreiðarlýsingar Sturlungu eru stórkostlegar og langt fram úr öllu, sem gerðst á síðari öldum meðan þingið var haldið eystra,- enda var þingtíminn lækkaður í fjóra daga um nokkurt tímabil og síðan aftur upp í 10 daga, oft lengur vegna m.a. drykkjuskapar valdsmanna, en þingið var, aldrei nema svipur hjá sjón eftir að þjóðin missti sjálfstæði.
Nú er komin ógnarhelgi yfir rústir þær sem kúra í skjóli við Lögberg og aðrar sem kúra norðan megin við Lögberg. Allt eru þetta seinni rústir, margfalt minni en þær búðir sem þar stóðu með þjóðveldið var við lýði. Eins og hér í blaðinu hefur verið rætt sumar eftir sumar, væri það m.a. eitt fyrsta verkið, að koma upp búð, sem væri byggð eftir ströngustu fyrirmælum þjóðminjavarða, en þeir hafa játað að slík búð yrði h.u.b. 95% rétt byggð að ytra og innra búningi.
Eins og sakir standa þá þekkja ekki einu sinni flestir Íslendingar né hafa nokkra hugmynd um útlit búðanna svo ekki sé talað um útlendinga þegar þeir sjá þessa þúfnakolla, sem eru búðarrústirnar. Hér er ekki um gerviminjar að ræða heldur til þess eins að gefa gestum okkar hugmynd um útlit búðanna, en sjálft búðarstæðið yrði varðveitt þar til framkvæmdar yrðu þær fornmenjarannsóknir, sem að sögn Björns Þorsteinssonar, sagnfræðings, hafa ekki farið fram að ráði. (En beinagrind af upplýsingum hér á undan er tekin úr ritgerð eftir Björn, varðandi fornminjar og búðir, og birtist í nýjasta hefti Ferðahandbókarinnar). Hljóta allir réttsýnir menn að sjá, að hér er ekki eina vanhelgi á fornum stöðum heldur sjálfsögð hjálp við ferðafólk, íslenzkt sem útlent. Gera hið sama flestar þjóðir í þessum tilgangi og okkur ekki vandara um en öðrum.
Næsti þátturinn er svo aðbúnaður fyrir gesti. Valhöll hefur verið endurbyggð og er miklu betra hótel en það var fyrir. Reksturinn sjálfur er til fyrirmyndar en betur verður að gera ef gott má teljast. Einhvern tíma verða Íslendingar að gera sér ljóst, að útlendingar koma ekki til Íslands til að finna sól. Eflaust fá flestir gnótt af sól heima hjá sér, ef sóst er eftir henni sérstaklega, þá kjósa menn sólarlöndin við Miðjarðarhaf. Það er því fyrir mestu, að allur viðurgjörningur við gesti, hvort heldur innlenda eða útlenda, sé sem beztur og í samræmi við kröfur þær sem menn gera almennt. Eins og stendur, á Valhöll óhægt með slíka fyrirgreiðslu og furðulegt að ekki skuli dugmiklum veitingamönnum, sem nú sitja staðinn, gert kleift að vinna, sem fullkomnast fyrir gesti. Af er sú sporttíð þegar drukknir unglingar og æskulýðsmótamenn gerðu innrás í Valhöll og tjaldstæðin þar og nú fréttist ekki neitt um ólifnað né slæma hegðan hjá gestum þar. Það er því fyrir öllu, að gerðar séu aðstæður til bezta veitingahalds og fyrirgreiðslu og miklu fjölbreyttar t.d. hestalán o.s.frv., vissir „túrar“ um staðinn ásamt leiðsögumanni, böð, tjaldlán og möguleikar til útilegu á fráteknum stöðum í Þingvallalandi, barnaferðir og annað í fullkomnara formi en nú er.
Í Bandaríkjunum, Evrópu og nálægari Austurlöndum hefur svo verið dyttað að fornum borgum, allskyns endurbætur verið gerðar á sögustöðum. Árlega eru haldnar sögusýningar, fólkið klæðist fornum búningum og sýnd eru atriði sem sönnust úr sögu hvers staðar. Þykir mikið til þessara hátíða koma og kemur þangað jafnan fjölmenni sér til skemmtunar og fróðleiks. Slíkar sýningar gefa miklar tekjur og væri ekki ónýtt fyrir þjóðgarðinn að geta nýtt slíkar tekjur til framkvæmda á staðnum, því rýr eru ríkisútlátin.
Sýnt er á skrifum blaða undanfarið og afstöðu einstaklinga, að við, ýmsir okkar, þjáumst af misskilningi og vissri tegund rembings þegar þingvöllur og málefnin þar eru rædd. Ýmsir telja það goðgá, að hreyfa við þúfnakollunum og vilja alls ekki láta sér skiljast, að ekki yrði um nokkurt rask á fornminjum um að ræða, heldur aðeins nokkurskonar leiðbeiningabyggingu, sem öllum, jafnvel postulum skinhelginnar kæmu að góðu.
Fleiri þjóðir eiga fornminjar en Íslendingar og fáar ef nokkrar þjóðir hafa jafn hörmulega leikið þjóðminjar sínar og víð. Um aldaraðir hefur það verið tízka og máske nauðsyn á hörmungarárum, að rífa allt gamalt í rúst, og jafn sögurík þjóð og Íslendingar, sem, að að vísu eiga aðeins um 11 aldir sér að baki, er þjóða fátækust að minjum. En við getum ýmislegt af þessu bætt upp vegna greinargóðrar sögu þjóðarinnar, sem lifað hefur í bókmenntum og bætir margt upp, sem annars væri með öllu tapað. Það eru því alveg næg verkefni til þess, að koma upp þarna sómasamlegum þjóðgarði. Það er næstum orðið leiðinlegt, að heyra ár eftir ár, sama vælið í framámönnum um helgi Þingvallar, dásemdina um útsýnið, landslagið og hina ýmsu kosti stað arins, en aldrei minnst á að gera nokkum skapaðan hlut jákvæðan heldur sífellt hálfkák og nudd.
Þingvellir eru fagur staður, en merkilegt nokk, þá munu forfeður okkar ekki hafa valið hann til þingstaðar vegna fegurðar, heldur vegna þess, að þangað var, að öllu athuguðu, bezt að sækja frá öllum landshlutum.
En hvort heldur hefur ráðið þægindi eða fegurðarskyn, þá tókst þó svo til, að landslagið er sérkennilegt og fagurt.“
Hvað svo sem fólki finnst um framangreind skrif má segja með nokkurri sanngirni að í þeim felist nokkur sannleikskorn. Aðstandendur Þingvallaþjóðgarðs mættu að meinalausu gera gestum hans meira undir höfði þegar kemur að sjálfbærum söguskýringum á vettvangi, t.d. með gerð tilgátumannvirkis er útskýrt gæti upphaflega tilgang þess á auðskiljanlegan hátt, sem og með uppsetningu viðburða í samvinnu við áhugafólk um uppruna „Íslendinga“ í nýju landi, viðbrögð þeirra við staðháttum og þróun þjóðveldisins frá upphafi til vorra daga…
Heimild:
-Mánudagsblaðið, 26. tbl. 31.07.1967, Í hreinskilni sagt – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Kakali skrifar, bls. 3.



















