Jarðfræði Reykjanesskaga IV

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallaðum „Eldgos á Svartsengis/Sundhnúksgosreininni eftir ísöld„:

„Svartsengiskerfið er um 30 km langt og 6-7 km breitt. Eftir að jökla ísaldar leysti fyrir um fimmtán þúsund árum hefur gosvirknin í kerfinu einskorðast við Eldvarpa-gosreinina annars vegar og Svartsengis/Sundhnúks-gosreinina hins vegar.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Sú síðarnefnda liggur skammt austan móbergsfjallanna Þorbjarnar, Sýlingarfells (einnig nefnt Svartsengisfell) og Stóra-Skógfells. Þótt ýmislegt sé vitað um sögu gosvirkni á Sundhnúksgosreininni er margt enn óljóst, einkum um elstu hraunin. Á það reyndar við um allan Reykjanesskaga.
Hraunum sem eiga upptök á gosreininni verður lýst stuttlega hér að neðan í aldursröð. Í umfjölluninni er vísað er í kenni á meðfylgjandi korti.

Grindavík

Grindavík – eldgos 2021-2024 (ÍSOR).

Bleðla af máðum og fornlegum hraunum má finna víða utan í móbergsfjöllum austan Svartsengis, s.s. í austan- og norðanverðum Þorbirni, við Sýlingarfell og Stóra-Skógfell (s.s. ks, sb, mk á korti). Á láglendi eru þessi hraun hulin yngri hraunum og útbreiðsla því óþekkt. Þessi hraun eru að mestu samsett úr sambræddum kleprum, sem bendir til að þau hafi myndast við ákafa kvikustrókavirkni. Hraun af þessu tagi má kalla kleprahraun. Eru þau líklega frá því snemma á eftirjökultíma, jafnvel síðjökultíma. Engar aldursgreiningar liggja fyrir á hraununum enn sem komið er. Vísbending um aldur eins þeirra kemur þó fram í grjótnámu við Hagafell, en þar liggur það vel undir 8000 ára gömlu hrauni (sjá neðar) og er áætlaður aldur þess um 10.000 ár (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn).

Hagafell

Hagafell.

Bæði suðvestan og austan megin í Hagafelli eru stuttar fornlegar gígaraðir. Hraunið frá þeim hefur verið nefnt Hópsheiðar- og Hópsnesshraun (hh á korti). Aldursgreining C-14 á gróðurleifum undan hrauninu leiddi í ljós að þær eru um 8000 ára gamlar og líklegt að hraunið sé af líkum aldri. Stærstu flákarnir í þessu hrauni koma fram á Hópsheiði og Hópsnesi við Grindavík. Einnig kemur hraunið fram í hraunhólmum við Sundhnúk, um 500-700 m norðan Hagafells, sem sýnir að gossprungan hefur verið a.m.k. 1,5 km löng.
Við norðurenda Sundhnúkshrauns má sjá fjögur hraun sem koma undan því (merkt kh, ed, hf og da). Aldur þessara hrauna er óljós en þau eru þó talsvert meira en 4000 ára gömul. Einnig má nefna fornt hraun með upptök í Lágafelli vestan Þorbjarnar (lf á korti). Þarna er verk að vinna við nákvæmari aldursgreiningar.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sundhnúksgígaröðin er ein af lengri gígaröðum Reykjanesskaga, alls um 11,5 km löng og þekur hraunið um 22 km2 lands. Aldursgreining á koluðum kvistum undan hrauninu gaf aldurinn 2300-2400 ár. Hins vegar benda gjóskulagarannsóknir til að hraunið sé nær 2000 áum í aldri (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn). Gígaröðin liggur vestan með Hagafelli og áfram sundurslitin 3 km til suðvesturs. Syðstu gígarnir eru á 250 m langri gígaröð, sem er aðskilin frá megingígaröðinni (á afgirtu svæði fjarskiptastöðvarinnar norðan Grindavíkur). Þessir gígar liggja rúma 400 m frá næstu húsum í Grindavík og er hraunjaðarinn mun nær, við Nesveg. Athyglivert er að í gosinu 14. janúar hófst gos á stuttri gígaröð 600 m sunnan megingígaraðarinnar líkt og gerðist fyrir 2000 árum. Mörg dæmi mætti nefna um goshegðun af þessu tagi, þ.e. þar sem gýs á stuttri gígaröð sem er aðskilin megingígaröðinni.

ReykjanesskagiÁ tímabilinu 1210-1240 e.Kr. voru eldgos tíð í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, gjarnan nefnt Reykjaneseldar 1210-1240. Sundhnúksgosreinin var ekki virk á þeim tíma en þá gaus hins vegar á Eldvarpagosreininni 4 km vestar. Rannsóknir á hraunum og gjóskulögum benda til að virknin á 13. öld hafi byrjað á Reykjanesi en síðan færst til austurs yfir á Svartsengiskerfið um 1230 og síðan lokið árið 1240 þegar Arnarseturshraun rann. Ritaðar heimildir eru rýrar en nefna þó a.m.k. sex eldgos á þessum 30 árum, flest í sjó við Reykjanes. Telja má líklegt að gosin hafi verið fleiri sé tekið mið af þeim tíðu eldgosum sem nú ganga yfir á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort (ÍSOR).

Í ljósi sögunnar má telja líklegt að yfirstandandi virkni á Sundhnúksreininni geti dregist á langinn, í nokkur ár að minnsta kosti. Í undangengnum eldum, á síðustu 2000 árum, hefur verið algengast að hraun þeki um 40-50 km2 í hverjum eldum, eða meira, sem styður frekar þá ályktun að eldvirkni í Svartsengiskerfinu gæti staðið yfir eitthvað lengur.“

Helstu heimildir:
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2013). Reykjanesskagi. Í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson (2016). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, 1:100 000 (2. útgáfa). Íslenskar orkurannsóknir.

Heimild:
-https://isor.is/eldgos-a-svartsengis-sundhnuksgosreininni-eftir-isold/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – nútímahraun.