Fossvogskirkjugarður

Á mbl.is þann 12. september 2007 kom m.a. fram að Játvarður hertogi af Kent hafi afhjúpað minnisvarða í Fossvogskirkjugarði um fallna flugmenn bandamanna sem höfðu bækistöð á Íslandi á stríðsárunum.
Minnismerkið um fallna bandamennViðstödd voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Alph Mehmet, sendiherra Bretlands ásamt fyrrum flugmönnum hins konunglega flughers Breta. Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri og forseti Flugmálafélags, minntist á það hlutverk sem flugsveitir bandamanna gegndu hér á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni en þessi minnisvarði er gjöf Flugmálafélagsins. Hertoginn af Kent hélt einnig ræðu áður en hann afhjúpaði minnisvarðann þar sem hann heiðraði minningu hinna föllnu flugmanna. Forseti Íslands minntist sömuleiðis þeirra sem féllu og sagðist vonast til að komandi kynslóðir þyrftu ekki að færa jafn miklar fórnir til að fá að lifa við frið og lýðræði.
Séra Jón A. Baldvinsson vígslubiskup á Hólum blessaði minnisvarðann og minningu þeirra flugmanna sem minnisvarðinn er tileinkaður.
Játvarður hertogi af Kent er sonur Georgs prins sem var fjórði sonur konungsins Georgs V. og er hann 23. erfðaröðinni til bresku krúnunnar, en þrátt fyrir erfðafjarlægðina er ættarmótið hið sama. Játvarður tók við hertogatitlinum ungur að aldri, einungis sex ára er faðir hans lést í flugslysi 1942. Játvarður hlaut síðar menntun sína við Sandhurst herskólann.
Minnismerki um þýska hermennÍ tilefni þessarar athafnar er rétt að minnast þess að fleiri legstaði og minnismerki um fallna erlenda hermenn má finna í nágrenninu – og auk þeirra minnismerki um innlenda er fallið hafa, bæði vegna styrjalda og í baráttunni um lifibrauðið (sem verður að teljast öllu merkilegra og verðugra umfjöllunarefni). Þegar upp er staðið geta styrjaldir aldrei orðið verðugar, en þó má, líkt og í framangreindu tilefni, gera sér dagamun tilefnisins vegna, til að heiðra þá einstaklinga er urðu í raunininni fórnarlömb ráðamanna þess tíma.
Í Fossvogskirkjugarði má t.d. finna eftirfarandi legstaði eða minnismerki; Minningaröldur og minnisvarði óþekkta sjómannsins og minningarreit um áhöfn og farþega af Glitfaxa, en auk þess grafreiti erlendra manna, sem farist/látist hafa á eða við Ísland, þ.e. breskir, franskir, norskir, pólskir, áhöfn (m.s. Wigri) og þýskir. Auk þess minnismerki um áhöfn m.s. Clam, sem fórst utan við Reykjanesvita, flestir kínverjar.

Af slysstað í Kastinu þar sem Andrew, yfirmaður gerafla bandamanna í Evrópu fórst ásamt félögum sínum

Fossvogskirkjugarður var vígður 12. desember 1948. Fyrsti maðurinn sem grafinn var í Fossvogskirkjugarði var Gunnar Hinriksson vefari. Hann var jarðsettur 2. september 1932 og er hann því “vökumaður” garðsins. Kirkjugarðurinn í Fossvogi er um 28,2 hektarar að stærð, og er þá talið með svæðið vestast í garðinum, sem tekið var í notkun 1987. Á miðju ári 1982 var búið að nýta allt land innan marka garðsins, og var þá öll nýgreftrun færð yfir í Gufuneskirkjugarð. Áætlað er að um 40 þús. legstaðir séu í Fossvogskirkjugarði.
Minningaöldur sjómannadagsins er heiti á minnisvarða sem Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði lét reisa árið 1996 vestan Fossvogskirkju, við hlið minnisvarðans um óþekkta sjómanninn. Minnisvarðinn er gerður úr tilsöguðum grásteini og myndar fjórar öldur. Á sléttum flötum Minningaaldanna hefur verið komið fyrir nöfnum sjómanna og sæfarenda sem drukknað hafa og ekki fundist né komist í vígða mold. Á sjómannadaginn, 6. júní 1996, voru Minningaöldurnar vígðar við hátíðlega athöfn. Fyrir vígsluna höfðu verið letruð á minnisvarðann nöfn 12 skipverja sem fórust með vitaskipinu Hermóði 18. febrúar 1959 og tveggja sjómanna er fórust með m.b. Pólstjörnunni ST-33, 17. desember 1977. Á stalli Minningaalda Sjómannadagsins er áletrun úr Gamla testamentinu, Jesaja spámanni, 43. kafla, 1. versi: “Nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig með nafni, þú ert minn.”
Minnismerki eftir Einar Jónsson var reist árið 1955 um þá, sem fórust með flugvél Flugfélags Íslands, Glitfaxa, á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur 31. janúar 1951.
Tilefni athafnarinnar fyrrnefndu í Fossvogskirkjugarði var við hæfi sem og tilkoma minnisvarðans, en staðsetningin hefði verið meira viðeigandi á einhverjum sögulegum slysavettvangi atburðanna sem áþreifanlegs vitnisburðar um þá fjölmörgu er fórnuðu lífi sínu vegna ákvarðanna annarra. Minjarnar, víðast hvar, eru ekki síst merkilegar vegna þess. En þangað hefðu hinir hátignu gestir varla getað ómakað sig með góðu móti – fótgangandi.
Á vefsíðunni eru tíunduð allflest flugslys er urðu á Reykjanesskaganum á stríðsárunum.

 Heimild m.a.:
-mbl.is. 12. sept. 2007.
-kirkjugardur.is

Af slysavettvangi í Fagradalsfjalli