Óbrennishólmi – Latur – sæluhús
Gengið var inn í Ögmundarhraun frá Lat áleiðis í Óbrennishólma. Gata liggur niður með vestanverðum Lat og beygir til austurs sunnan hans. Stígnum var fylgt yfir úfið hraun, en þegar því sleppti lá gata til hægri niður í hraunið.
Eftir að hafa fylgt henni spölkorn var komið að skúta með fallegri dyralaga hleðslu. Um er að ræða rúmgóðan skúta, sem lengi var notaður sem sæluhús á ferðalögum fólks að og frá Grindavík á leið þess með ströndinni. Loftop er á skútanum og hleðslur umhverfis það. Hurðarhellan er enn til hliðar við dyrnar. Skútinn hefur í heimildum verið nefndur „Sængukonuhellir“.
Gengið var áfram austur stíginn að Óbrennishólma. Hann skiptist sumstaðar í tvennt, en ráð er að fylgja ávallt efri stígnum – nær hraunkantinum – því hann er greiðfærari. Annars er stígurinn auðgenginn. Þar sem stígurinn liggur alveg við hraunkantinn má sjá, ef vel er gáð, stíg liggja inn á kantinn. Best er að fylgja honum og er þá komið á gróið svæði eftir að hafa farið yfir stutt hraunhaft. Í stað þess að fylgja hraunkantinum þarna til austurs var gengið upp á tiltölulega slétt mosahraun í norðaustur. Framundan sést úfnara hraun, en upp með því að vestanverðu liggur góð gata upp úr hólmanum til norðurs, í átt að Latsfjalli. Þessari götu var fylgt spölkorn upp fyrir úfna hraunið, en þar kemur stígur inn á götuna úr suðaustri. Gatan heldur áfram upp hraunið, en ákveðið var að fylgja stígnum áleiðis niður í hólmann. Stígurinn er breiður á kafla og greinilega mikið farinn. Hann kemur ofan í hólmann vestan og ofan við hæsta hólinn þar sem stóra fjárborgin (virkið) trjónir upp á. Í stað þess að fara þarna inn í hólmann var gengið til austurs ofan við gróna svæðið í hólmanum.
Komið var að görðunum utan í hraunkantinum úr vestri, en þeir eru í grónum rana norðaustan í hólmanum. Hraunið, sem rann um 1151, hefur runnið þarna að hlöðnum görðum og sjást þeir vel í kantinum. Þessir garðar, að vestanverðu í lænunni, hafa legið í boga upp hæð, en auk þeirra má sjá annan garð liggja niður með lænunni að austanverðu. Hraunkantinum var fylgt áfram til austurs og var þá gengið yfir hraunhaft og inn í gróið svæði ofan þess. Þar sem gengið var inn á svæði sást móta fyrir garði. Á austanverðu svæðinu eru leifar fjárborgar eða topphlaðins húss. FERLIRsfélagar hafa komið þarna tvisvar áður, en ekki fyrr rekið augun í borg þessa.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 1 ½ klst.