Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.