Saga Reykjanesbrautarinnar
Nemar á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands skrifuðu um „Reykjanesbrautina fyrr og nú“ árið 2009:
„Þegar rýnt er í sögu Reykjanesbrautarinnar, veg númer 41 í þjóðvegakerfi Vegagerðarinnar, er ljóst að hún er merkileg að mörgu leyti og hefur brautin gegnt mikilvægu hlutverki bæði fyrir íbúa Suðurnesja sem og aðra landsmenn. Hún markaði tímamót í sögu almenningssamgangna á Suðurnesjum þegar hún var lögð, síðar steypt og svo aftur þegar hún var tvöfölduð. Fyrstu skrefin í gerð hennar úr slóða í veg, sem hæfði öðru en hestvögnum, voru erfið m.a. vegna afstöðu ráðamanna og peningaskorts. Á þessum tíma bjó fólk jafnvel enn í torfkofum og fátækt var landlæg. En með þrjósku, baráttu og miklum vilja hafðist gerð Reykjanesbrautarinnar sem hefur svo breyst og þróast í áranna rás og óhætt er að segja að ástand hennar sé með besta móti í dag. Við munum fara yfir sögu hennar og skoða hvernig hún hefur breyst frá slóða í veg eins og hann lítur út í dag.
Slóðinn – Alfaraleið; Almenningsvegur; Stapagata
Vegurinn suður á nes er ævaforn; mannsfætur og hestshófar höfðu meitlað hann í hraunið í gegnum árin og aldirnar. Árið 1861 tók hins vegar gildi tilskipun um vegi á Íslandi og var þar lagður grunnur að skipulegri vegagerð hérlendis; þjóðvegir skyldu vera 5 álna (um 3,14 m) breiðir, ruddir á fastlendi, hlaðnir á votlendi, með brúm á mýrum og yfir ár og læki (Bjarni Guðmarsson 1997a:24).
Svo er veginum lýst suður á nes í Sögu Keflavíkur en þá er átt við hina gömlu þjóðleið sem lá frá Innnesjum, þ.e. Hafnarfirði, til Útnesja, þ.e. Voga, Njarðvíkur, Keflavíkur, Hafna, Garðs og Sandgerðis.
Vegurinn frá Hvaleyri í Hafnarfirði til Kúagerðis var nefndur Alfaraleið en vegurinn frá Kúagerði til Voga Almenningsvegur eða Menningsvegur. Síðasti hluti þessarar gömlu þjóðleiðar, þ.e. leiðin frá Vogum til Njarðvíkur, var nefnd Stapagata. Vegur þessi var vel varðaður og stutt á milli varða sem vísuðu ferðalöngum rétta leið. Á leiðinni, við Kúagerði, var afbragðs áningarstaður þar sem nóg var af góðu vatni í tjörninni. Einnig var þar stór og góður hagi í grenndinni (sbr. Ferlir). Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þessa gamla þjóðleið lá en hún er merkt með gulu og síðan er brautin eins og hún er í dag merkt með gráu.
Árið 1893 lagði Jens Pálsson alþingismaður og Útskálaprestur fram frumvarp til vegalaga sem tók gildi ári síðar. Þar var kveðið á um að flutningsbrautir skyldu lagðar um þéttbyggðustu héruð landsins sem auðveldaði yfirferð hestvagna sem nú voru teknir að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þetta frumvarp hefði getað komið sér einkar vel fyrir þá sem bjuggu suður með sjó en því var ekki að heilsa. Á þessum árum voru strandsiglingar við lýði á Faxaflóasvæðinu og þótti það vera betri kostur fyrir íbúana þar og því kom ekki til álita að leggja veg. Á þessum tíma má kannski segja að barátta Suðurnesjamanna hafi byrjað en þeir voru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessa lyktan mála.
Það var síðan árið 1899 sem frumvarp um vagnfæran veg á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var lagt fram á þingi. Þá eins og endranær voru skiptar skoðanir um ágæti slíks vegar. Því var það ekki fyrr en árið 1903 að ákvörðun var tekin um að vegur skyldi lagður milli Hafnarfjarðar og Vogastapa (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:25-26).
Það sést glöggt á eftirfarandi frásögn að menn urðu að beita öllum brögðum til að þessi akvegur yrði lagður:
Þegar Björn Kristjánsson var orðinn þingmaður Gullbringusýslu vildi hann láta gera akveg milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Þar var þá algerlega veglaust nema hestastígur, troðinn á þúsund árum. Þingmenn voru tregir að veita fé í þennan veg. Þá fékk Björn hesta handa öllum þingmönnum, sem áttu þá sæti í fjárveitinganefnd og bauð þeim í skemmtiför til Keflavíkur. En þegar nokkuð var komið út í hraunið dró úr ferðahug gestanna. Þeir óttuðust tjón lífs og lima, ef lengra væri haldið út í þessa ófæru. Þeir sneru við, en veittu fé til að gera veginn (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).
Suðurnesjavegurinn
Framkvæmdir við akveginn, þ.e. Suðurnesjaveg, hófust síðan árið 1904 og var Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði verkstjóri þess. Vegagerðin hófst við sýslumannshúsið í Hafnarfirði og fyrsta árið var lagður um tveggja kílómetra langur spotti. Þremur kílómetrum var bætt við árið eftir og árið 1906 bættist enn við veginn eða um 2,5 km. Þá náði vegurinn loks að Hvassahrauni árið 1907. Árið 1908 náði vegurinn að Stóru-Vatnsleysu og ári seinna, eða um vorið 1909, var málið rætt á sýslunefndarfundi í Keflavík og þá var ákveðið að vegurinn skyldi ná alla leið til Keflavíkur. Vegakaflarnir mættust loks í Vogunum árið 1912 en vinnan Keflavíkurmegin hafði byrjað árið 1911.
Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík suður til Keflavíkur. Það er skemmtilegt að segja frá því að á sama tíma og karpað var um hestvagnaveg voru bifreiðar að ryðja sér rúms á Íslandi þannig að þessi vegur átti eftir að greiða leið þessarar nýju tækni. Árið 1913, þegar hestvagnavegur milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var fullbúinn, tókst bifreið í fyrsta sinn að komast til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:27, 25-30). Fyrsta bifreiðin, sem vitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til Íslands þann 20. júní árið 1913 og fór hann leiðina til Keflavíkur þá um haustið (sbr. Guðlaugur Jónsson 1983:63 65).
Fyrsta langferð þeirra félaga í bifreiðinni var til Keflavíkur, og kveðst Sveinn hafa valið þá leið fyrst, af því að honum hafði verið sagt að þar væri vegurinn einna bestur. Það reyndist og rétt vera að öðru leyti en því að krókar miklir voru á honum í hraununum og hættulegir ókunnugum vegfaranda á hraðskreiðu farartæki. […] Í þessari ferð var bifreiðin fullsetin, því að auk þeirra Sveins og Jóns Sigmundssonar voru þeir með í ferðinni, Björn, bróðir Sveins, Gísli Sveinsson, síðar sendiherra og Baldur Sveinsson, blaðamaður.
Allt gekk vel suður eftir en er komið var á Vogastapa á heimleiðinni um kvöldið hætti vél bifreiðarinnar að ganga, höfðu leiðslur stíflast af hinni illa hreinsuðu brennsluolíu (Guðlaugur Jónsson 1983:65).
Samkvæmt frásögninni hér á undan er greinilegt að það var tímafrekt að aka þessa leið. Um haustið 1913, eftir að hvert hraðametið af öðru hafði verið slegið, tókst að fara þessa leið akandi á rétt innan við tveimur klukkustundum. Það þótti nokkuð gott miðað við að ferðalagið hafði áður tekið um átta til tólf klukkustundir (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997b:46).
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig vegurinn leit út í þá daga. Hafði mikil vinna verið lögð í hann eins og hægt er að ímynda sér eftir um átta ára framkvæmdir.
Eftir að lagningu vegarins lauk tók við eilíf barátta um að halda veginum við en hann vildi grafast niður og verða ein klöpp. Það fór illa með bifreiðarnar sem um hann fóru enda var hann lagður fyrir hestvagna. Þó má segja að þá hafi grunnurinn verið lagður að veginum eins og við þekkjum hann í dag (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).
Keflavíkurvegurinn – steypti vegurinn
Keflvíkingar eru vaskir menn og djarfhuga. Nú ættu þeir að senda bíl eftir þingfulltrúa sínum og fjárveitinganefnd og aka með þá á þeim tíma dags, þegar umferð er mest og halda þessum framagestum síðan góða veizlu í höfuðborg Suðurnesja, en skora jafnframt á þá að sýna nú landsföðurslegt lundarlag og lofa að gera versta veg landsins öllum vegum betri með skynsamlegu átaki í nokkrar vikur (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).
Svo komst Jónas frá Hriflu að orði árið 1955 þegar til tals kom að nú þyrfti að gera almennilega við veginn margumrædda. Skúli Vigfússon atvinnubílstjóri á Suðurnesjum skrifaði síðan grein árið 1956 í Faxa, blað Suðurnesjamanna, þar sem hann gagnrýndi hvernig staðið væri að lagfæringum á Suðurnesjaveginum.
Árið 1942, þegar setuliðið flutti til Suðurnesja, var þess fyrsta verk, að lagfæra allan veginn frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Þær endurbætur hófust með því, að vegurinn var allur breikkaður, en áður var þar hvergi hægt að mætast á stórum bílum, nema á útskotum, þar sem þau þá voru fyrir hendi. Eftir þessa miklu lagfæringu var borið ofan í allan veginn, og var þar sannarlega ekki klipið við nögl sér, ekki saltað í hann eins og við bílstjórar köllum ofaníburð Vegagerðar ríkisins hér á Suðurnesjum (Skúli Vigfússon 1956:18).
Á þessum árum buðust Bandaríkjamenn til þess að leggja til vélakost og liðsafla frá vegadeild hersins ef ríkisstjórnin kostaði lagfæringuna á veginum. Því miður varð aldrei neitt úr því að þiggja boðið og töldu menn það vera sökum þess að Íslendingar vildu ekki standa í þakkarskuld við Bandaríkjamenn. Svona flæktist stoltið fyrir mönnum í þá daga og eyðilagði það margar bifreiðarnar sem þarna ók um á þessum árum. Talið er að meðalaldur þeirra bifreiða, sem oft fóru um þennan veg, hafi verið um tvö ár en þá var viðhalds- og bensínkostnaður orðinn það mikill að það borgaði sig varla að gera við þá. (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).
Háværar raddir um að leggja yrði nýjan veg með bundnu slitlagi tóku að fá hljómgrunn árið 1958 þegar vegamálastjóri kom fram með þá yfirlýsingu að með tilkomu sementsverksmiðjunnar á Akranesi yrði Suðurnesjavegurinn sennilega fyrstur til að verða steyptur (sbr. Faxi 1958). Í byrjun árs 1960 fór boltinn loks að rúlla eftir þessar yfirlýsingar vegamálastjóra. Það var svo í lok ársins 1960 sem framkvæmdir hófust við nýjan Suðurnesjaveg sem nú gengur undir nafninu Reykjanesbraut. Þá hafði Ingólfur Jónsson, þáverandi samgönguráðherra, skýrt frá framkvæmdunum sem fólu í sér að fyrst yrði steyptur 15 km kafli og seinna yrði lokið við afganginn af leiðinni sem yrði alls 37 km allt frá Engidal til Keflavíkur.
Öllum undirbúningi undir steypu átti að vera lokið vorið 1965. Kostnaðurinn var áætlaður um 240 milljónir króna og gaman að segja frá því að fyrirhugað var að breikka veginn í framtíðinni sem átti þó ekki eftir að gerast í nánustu framtíð (sbr. Faxi 1964).
Eins og áður sagði hófust framkvæmdir við steypta veginn árið 1960. Þá um sumarið var mælt fyrir nýjum vegi og var ákveðið að hafa vegstæðið frá Hafnarfirði og suður fyrir Hvassahraun með tilliti til þess hvar flugvöllur gæti hugsanlega komið í framtíðinni. Á þessum tíma hafði vegurinn inn í Hafnarfjörð verið færður upp fyrir bæinn sökum mikillar umferðar sem lá í gegnum hann. En sú umferð var m.a. tilkomin vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll. Það var svo föstudaginn 25. nóvember 1960 að Vegagerðin hóf framkvæmdir við undirbyggingu vegarins og stóðu þær framkvæmdir yfir þar til þeim lauk þann 26. október 1965 en þá var vegurinn formlega opnaður eftir um fimm ára vinnu.
Vegagerðin sá um undirvinnuna til Kúagerðis en þegar þangað var komið tóku Íslenskir Aðalverktakar við og kláruðu undirvinnuna ásamt því að steypa veginn (sbr. Vegminjasafnið 1983).
Steypti vegurinn markaði ekki einungis tímamót í sögu Suðurnesjamanna heldur einnig í sögu vegagerðar á Íslandi því hann var fyrsti steypti vegurinn í þjóðvegakerfi landsins.
Flutningsgeta jókst gífurlega í kjölfarið og öll umferð bifreiða milli Suðurnesjanna og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli einnig straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að atvinnulífið á Suðurnesjum efldist þó nokkuð (sbr. Alþingi 1990).
Steypti vegurinn var formlega opnaður þann 26. október árið 1965. Þeir sem fyrstir fóru um hann voru þáverandi vegamálastjóri og Ingólfur Jónsson samgönguráðherra á þeim tíma en þeir þurftu ekki að greiða vegatoll. Það var aftur á móti Valgeir Sighvatsson bifreiðarstjóri sem fékk miða nr. 1 þar sem hann var í áætlunarferð á rútubifreið sem hann ók. Valgeir sagði að mikil bylting hafi orðið að fá þennan veg þar sem áður hafi tekið um tvær stundir að aka frá Reykjavík til Keflavíkur (sbr. Valgeir Sighvatsson 2009). Valgeir kemur svo aftur við sögu Reykjanesbrautarinnar síðar.
Þegar vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar með tilheyrandi aukinni umferð.
Framkvæmdin við Suðurnesjaveginn var viðamikil og efnisfrek.
Samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra er Suðurnesjavegur byggður samkv. þýzkum stöðlum um fyrsta flokks þjóðvegi. Lega hans í hæð og fleti er reiknuð fyrir 100 km. á klst. Akbrautin er 7,5 m. breið og tveggja metra breiðir vegbakkar hvorum megin hennar. Í undirbyggingu vegarins hafa verið notaðir um 1.500.000 rúmmetrar af fyllingarefni og spprengdar [sic] hafa verið úr vegarstæðinu 55.000 rúmmetrar af klöpp og fjarlægðir 200.000 rúmmetrar af moldarjarðvegi, 32.785 metrar af akbrautinni er úr 22 cm. þykkri steinsteypu og í hana hafa farið 55.200 rúmmetrar af steypu og 160 tonn af steypustyrktarjárni. 3.780 km. af akbrautinni er úr malbiki, 9 cm. þykku, nema stuttur tilraunakafli, þar sem malbikið er 5 cm. Í þennan hluta akbrautarinnar hafa farið 5.650 tonn af malbiki með 400 tonnum af asfalti (Faxi 1965:146).
Gjaldskylda
Kostnaður við slíkar vegaframkvæmdir er umtalsverður og því þurfti að leita leiða til að afla fjár til verksins. Ákvörðun um að setja upp tollskúr var tekin þar sem ökumenn skyldu greiða sérstakt gjald aðra leiðina til að mega aka veginn. Sú ákvörðun átti eftir að skapa mikla óánægju meðal fólks, sér í lagi meðal Suðurnesjamanna, og upp hófust mikil blaðaskrif um málið. Fólk var mjög undrandi yfir því að slíkt gjald skyldi aðeins lagt á þennan eina veg og taldi það vera mismunun þar sem að þetta þekktist hvergi annars staðar á landinu. Vegatollur þessi var notaður til að borga lánið sem tekið hafði verið til að gera veginn.
Vegaframkvæmdir voru yfirleitt kostaðar með framlagi ríkissjóðs (Ingvar Guðmundsson 1965:193-197). Sagan segir að margur hafi ekið Krýsuvíkurleiðina til að sleppa við að greiða gjaldið en það þótti afar hátt í þá daga.
Tollur þessi var við lýði frá árinu 1965 til loka ársins 1972 en þann 31. desember það sama ár var innheimtu umferðargjalds hætt (sbr. Vegminjasafnið1983).
Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar
Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina og því miður með aukinni slysatíðni. Augljósar úrbætur voru að aðskilja akstursstefnur til að draga úr slysum.
Tillaga til þingsályktunar á Alþingi um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu árið 1987 til 1988. Þar kom meðal annars fram að Reykjanesbrautin í þáverandi mynd fullnægði engan veginn þeim kröfum sem gerðar voru til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin taldi ekki nauðsynlegt að aðskilja aksturstefnur fyrr en umferðarþunginn næði 8.000-10.000 bifreiðum á sólarhring. Umferðin á Reykjanesbrautinni hafði aukist jafnt og þétt og fjöldi bifreiða sem um hana óku náði yfir 8000 bifreiðum á sólarhring í september 1988. Þrátt fyrir það fékk sú umræða engan hljómgrunn í það skiptið (sbr. Alþingi 1990).
Lagning fullkominnar hraðbrautar með aðskildum akstursstefnum þótti mörgum jafn nauðsynlegt og það var að leggja veg með bundnu slitlagi á milli Keflavíkur og Reykjavíkur áður. Í janúar 1992 bárust samgönguráðherra áskoranir frá um fjögur þúsund manns um nákvæma athugun á hugmynd nokkurra aðila um tvöföldun Reykjanesbrautar. Á árunum 1987–1992 voru þingsályktunartillögur, um tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, fluttar sex sinnum á Alþingi (sbr. Alþingi 1992). Á meðan umferðarþunginn jókst ár frá ári og þrátt fyrir tíð umferðarslys var lítið aðhafst.“
Nú er unnið að tvöföldun á síðasta Reykjanesbrautar millum Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, þ.e. frá gatamótum Krýsuvíkurvegar og Hvassahraun. Framkvæmdunum á að vera lokið snemmsumars 2026.
Heimild:
-Reykjanesbrautin fyrr og nú – Birgitta María Vilbergsdóttir, Elín Ólafsdóttir og Karl Einar Óskarsson, Háskóli Íslands 2009.