Selsvellir – Sogasel

Sogasel

Gengið var um nýja borsvæðið vestan Trölladyngju, yfir að Oddafelli og með því að Hvernum eina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Áður en komið var að syðsta hluta Oddafellsins mátti sjá gamlan stíg yfir hraunið norðan fellsins í átt að norðausturenda Driffells. Einungis lítill gufustrókur stendur nú upp úr hvernum, sem eitt sinn var stærsti gufuhver landsins, sást jafnvel frá Reykjavík þegar best lét. Frá hvernum var genginn gamall stígur er liggur austan hversins og inn með Selsvallalæknum. Þórustaðastígurinn liggur þar upp úr Kúalág, en gegið var áfram suður yfir vellina, framhjá seljunum undir hlíðinni og að vestari seljunum suðvestast á þeim. Norðan þeirra er stígur yfir hraunið að Hraunsels-Vatnsfelli. Ákafla er hann vel markaður í klöppina. Uppi á því austanverðu er allstórt vatnsstæði. Þarna er um að ræða þrjú sel og eru fallegir stekkir við þau öll, auk réttar og fjárskjóla í hrauninu innan þeirra.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Gengið var upp með Núpshlíðarhálsi, með læknum þar sem hann kemur niður gil í hálsinum (Sogadal) og áfram utan í honum að Sogagíg. Þegar komið er að honum myndar gígurinn fallega umgjörð um selið með Trölladyngjuna í bakgrunni. Í gígnum eru a.m.k þrjár tóttasamstæður og mjög heillegur og fallegir stekkir og rétt, hlaðinn utan í norðurhlið gígsins, auk smalaskjóls. Ein tóft til viðbótar er utan gígsins. Handan hans í norðri myndaði Oddafellið litskrúðungan forgrunn að Keili er sveipaði um sig þunnri skýjahulu.

Sogasel

Í Sogaseli.

Á leiðinni var gerð leit að útilegumannahelli sem átti skv. þjóðsögunni að vera nálægt Hvernum eina. Ekki er ólíklegt að hann sé fundinn. Í hellinum áttu útilegumenn að hafa hafst við í byrjun 18. aldar. Þeir herjuðu á bændur á Vatnsleysuströnd og er Flekkuvík sérstaklega tilgreind í sögunni. Gerðir voru út leiðangrar til að handsama þá, sem að lokum tókst. Voru þeir þá færðir að Bessastöðum og hengdir í Gálgaklettum (sjá HÉR). Sagt er að bændur hafi eyðilagt bæli útilegumannanna svo aðrir tækju ekki þeirra stað.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Staðurinn, sem um ræðir er hinn ákjósanlegasti. Á aðra hönd er jarðhiti og hina kalt vatn. Innan seilingar hefur fé gengið um haga. Ofan við bælið er hæð og má auðveldlega sjá til mannaferða úr öllum áttum. Er þá auðvelt að dyljast í nágrenninu. Misskilningur er að menn hafi hafst við í hraunhellum til dvalar eða búsetu. Til þess voru þeir of rakakenndir, kaldir og hreinlega blautir. Þessi staður hefur aftur á móti að öllum líkindum verið reftur og þakinn hellum og mosa og þannig haldist þurr og verið ágæt vistarvera. Í honum hafa þrír til fimm menn auðveldlega getað dvalið með góðu móti.
Gangan tók 3 klst og 24 mín. Frábært veður – logn og hlýtt – roðagyllt fjöllin.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.