Hettuvegur – Smérbrekkustígur

Hettustígur

Gengið var um forna stíga, götur og vegi á Sveifluhálsi. Allmörg örnefni eru tengd þessum leiðum yfir og eftir hálsinum.

Badstofa-26

Til nýjunga verður hins vegar að teljast nýlega merktur og stikaður Hettuvegur frá Ketilsstíg inn á Smérbrekkustíg og Krýsuvíkurleið um Rauðuskriðu. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður en hún  var merkt sérstaklega með nafninu „Hettuvegur“ því sá vegur er sunnan og vestan undir Hettu en ekki norðan hennar, eins hann hefur nú verið merktur. Ferðamenn á leið til eða frá Krýsuvík hefðu heldur aldrei farið að klifra upp hæðir og klungrast niður í dali til að komast þennan kafla þegar þeir gátu farið afliggjandi götu sömu leið. Þá virðast leiðsögumenn á svæðinu ekki vera með fjallsheitin á hreinu og bulla bara einhverja vitleysu.
Að þessu sinni var gengið um Drumbdalaleið, Steinabrekkustíg, Hettuveg, Smjörbrekkustíg og Hattur 26Ketilsstíg. Á göngunni uppgötvaðist a.m.k. ein áður óþekkt leið, sem hefur greinilega verið farin talsvert fyrrum.
Í örnefnalýsingum er þessara leiða getið. Gísli Sigurðsson skrifar m.a. um svæðið: „Spölkorn vestar er allhár melhóll Bleikhóll nefnist hann af lit sínum. Yrpuhóll er nokkru vestar og ber einnig nafn af lit sínum. Bleikhóll er gulbleikur, Yrphóll brúnn eða jarpleitur. Þá kemur hryggur lítill fram úr hálsinum og bak við eða vestan við hann er Seltún. Þar eru Seltúnshverir. Þar rennur Seltúnslækur en upptök sín á hann í Seltúnsgili. Seltúnshvammur er austan lækjarins og Seltúnsbrekka og upp liggur í hlykkjum og bugðum Ketilsstígurinn. Að líkindum hefur Seltúnssel verið hér í hvamminum. Á vesturbakka lækjarins stóð Brennisteinsnámahúsið. Það var gott og vandað hús í upphafi.

Hetta-26

En um 1920 var það nær eingöngu notað sem fjárhús. Seltúnsfjárrétt var við það. Í brekkunni vestan við gilið voru Brennisteinsnámurnar voru þær virkjaðar um aldabil, en með löngum hvíldum á milli. Hér uppi í brekkunni voru hverir og hétu ýmsum nöfnum, svo sem Hattshverir. Pínir eða Pínisströkkur. Hann kom upp eftir jarðskjálfta og lét mikið í honum, eins og í eimpípu gufuskips. Hann hvarf líka við jarðskjálfta og kom þá upp Fúlipollur. Dalhitur og Hechelshver getur Jónas Hallgrímsson um og svo er var Beygingahver. En um alla brekkuna voru hveraaugu. Niður undan Pínir var Pínisbrekka. Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin.

Hettuvegur-26Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver. Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þar fram undan er Gestsstaðavatn. Kringum það eru svo Gestsstaðamelar. Þess er vert að geta, að Gestsstaðavatn, Grænavatn, Augun og Stampar eru allt sprengigígar, eftir því sem jarðfræðingar telja. Hveradalalækurinn eystri rennur sem fyrr er frá sagt niður í Vaðlana og nefnist þar eftir þeim. Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri.
Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga. Vestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk.
Smerbrekkustigur-26Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur. Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur. En þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna. Einbúi er klettur enn vestar, en hjá honum sveigir vegurinn fyrir vesturenda Sveifluháls og sér hér inn í Drumbsdali. Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul. Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni.“

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Ennfremur: „Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg.

Fagraskjól

Fagraskjól.

Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.“

Krýsuvík

Krýsuvík – kort

Einnig: „Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn. Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sem hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.“

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af svæðinu segir m.a.: „Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi. Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi. Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur. Þar niður undan eru svo Drumbsdalir. Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur. Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur.“

Krýsuvík

Krýsuvík – Hveradalur.

Ennfremur: „Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir.

Kringlumýri

Kringlumýri – sennilega ein elsta selstaða landsins.

Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla. Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri).

Arnarvatn

Arnarvatn.

Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn, og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa. Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk, sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir.“
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík, Ari Gíslason skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík. Gísli Sigurðsson skráði.

Seltun-26

Í Seltúni.