Strandarkirkja – Jónas Guðmundsson

Strandarkirkja

Í Vísir 13. ágúst 1968 er grein, „Strandarkirkja – Hugleiðing úr sunnudagsferð til Strandarkirkju„, eftir Jónas Guðmundsson.

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Eftir að komið er fram hjá Kleifarvatni og Krýsuvík beygir leiðin til austurs. Útsýni opnast til suðurs. Þótt örskammt sé til þröngbýlisins í Reykjavík, er hér allt svo undarlega friðsælt og ósnortið. Hraunfossar komnir úr Trölladyngju fyrir liðlega 600 árum falla með ótrúlegu lífsmarki fram af Geithlíðarfjalli og sundrast í ótal hraunbolla, hóla og dranga. Framundan er Selvogur.
Hér er indæl fegurð og tign. Hér kaus Einar Benediktsson sér að deyja við drungalegar aðstæður. Svarrandi brim og tröllvaxnar hraunborgir kalla fram undarlegustu litbrigði og áhrif.

Selvogur

Herdísarvík

Herdísarvík – hús Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson.

Í augum vegfarandans virðist byggðarkjarni hafa verið frá Herdísarvík að vestan, að Nesi í Selvogi að austan. Herdísarvík er nú í eyði og er eign Háskólans. Lystilega gerðir hraungarðar faðma túnkrílið umhverfis íbúðarhúsið, sem sýnist sæmilega við haldið, en peningshús eru fallin, eða að falli komin.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

Þá tekur við Stakkavík, túnlaus jörð og friðlýst. Þar er nú stærsta æðarvarp á Suðurlandi.
Þá koma Vogsósar og svo austast byggðahnappurinn austan við Strandarkirkju. Síðan eru 15 kílómetrar í næsta bæ, Hlíðarenda.
Regnúðinn hefur bundið sjónir við endalaus hraun, sum ber, önnur vaxin mosa enn önnur þau elztu eru vaxin lyngi og blómum og þegar komið er gegnum skriðurnar norðanvert við Hlíðarvatn, tekur við flatlendi. Sér víða á flata eldforna hraunhellu, eða berghellu gegnum moldina. Einu sinni var hér jarðvegur og skógur sögðu þeir okkur í Selvogi, en nú hefur uppblásturinn feykt jörðinni út á bankann fyrir framan.

Vogsósar

Vogsósar.

Í regnúðanum óx himinn og jörð saman rétt fyrir ofan veginn og framundan blasti við sjónum þar sem kallað er Selvogur.
Saltstorkin strá, melgras og smári ásamt blóðbergi, setja fínleg ósýnileg litbrigði á landið og úti í móðunni blasir við helgasta kirkja álfunnar, á lágum sandi við opið haf, þar sem heitir Engilvík. Um þessa kirkju og grasbýlin í kring, fjallar þetta greinarkorn, og um það fólk er lifir í flæðarmáli þessa undarlega staðar.

Strandarsókn

Selvogur

Selvogur – bæjartóft.

Við börðum að dyrum í einu húsanna, eftir að hafa lagt leið okkar að kirkjunni. Það heitir í Þorkelsgerði. Þorkelsgerði tvö er næsta hús, örfáa metra í burtu, og þar við hliðina Torfabær, sem nú er í eyði. Í Þorkelsgerði eitt hittum við að máli Ólaf Bjarnason, bróður bóndans, Rafns Bjarnasonar, en hann var fjarverandi þennan dag, og móður þeirra bræðra, Þórunni Friðriksdóttur, mestu skýrleiksmanneskjur. Ennfremur hittum við að máli fáeina aðra bæði úti við kirkjuna og höfðum tal af kunnugum, og á því byggjum við frásögn þessa.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

Fyrsta Strandarkirkjan mun hafa verið byggð árið 1615 af Norðmönnum sem velktust í sjávarháska fyrir ströndinni. — Hétu þeir að byggja kirkju þar sem þeir næðu landi heilir. — Skyndilega sjá þeir engilveru, sem lóðsar þá inn sundið, þar sem heitir síðan Engilvík. Hinir norsku sjómenn stóðu við heit sitt og reistu kirkjuna ofan við flæðarmálið, við bæinn Strönd, og eru tóftir bæjarins við kirkjugarðsvegginn norðanverðan. Strönd var höfðingjasetur og í byggð fram á 16. öld. Til eru fleiri útgáfur af upphafi og stofnun Strandarkirkju en þessi útgáfa var okkur sögð í flæðarmálinu þar eystra í heimsókn okkar þangað og hana segjum við hér.

Nes

Nes.

Áður en Strandarkirkja var grundvölluð, var bænahús í Nesi. Litlar heimildir eru um það og mun það hafa aflagzt fljótleg eftir að Strandarkirkja var reist. Enn sjást tóftir bænahússins og þar er einn legsteinn ofar moldu, sem höggvið er í krossmark. Prestar Strandarkirkju sátu lengst af í Vogsósum, en núverandi prestur kirkjunnar er búsettur í Hveragerði. Sr. Eggert í Vogsósum, undarlegur klerkur, en gáfaður, reyndi talsvert til að flytja Strandarkirkju að Vogsósum, en vættir kirkjunnar komu ávallt í veg fyrir flutning, með einhverjum ráðum. Gafst klerkur loks upp og lét varða leið til kirkjunnar og standa vörðurnar enn. Sr. Eggert notaði ekki hesta og leiddist rápið út í Engilvík. Mun hafa verið ástæðan fyrir því að hann margreyndi að fá kirkjuna flutta og nú hefur kirkjan verið endurbyggð.
EggertKirkjan sem við höfum fyrir augunum, er næstum algjörlega ný. Þakið nýtt, gólfið og allur innviður. Aðeins kirkjuskipið er úr gömlu kirkjunni, en þó var hún lengd um á að gizka 3 metra svo að hægt væri að koma fyrir sönglofti. Að innan er kirkjan vel einangruð og klædd furu, lakkaðri. Bekkir eru úr furu og mikillar smekkvísi gætir í frágangi, og teikningar eru góðar. Predikunarstóllinn er úr gömlu kirkjunni, sem var 80 ára gömul og sómir sér vel svo og altaristaflan sem er sama mynd og í Dómkirkjunni í Reykjavík, máluð af sama málara. Kirkjan á urmul gripa, merkilegra og algengra. Þá hefur ur hún þegið að gjöf. Merkastur er bikar frá 13. öld, sem Ívar Hólm, frændi Erlendar lögmanns á Strönd gaf kirkjunni. Kirkjan, sem nú hefur verið endurbyggð var hin 3 í röðinni í Engilvík.

Ríkasta kirkja landsins
Ólafur BjarnasonStrandarkirkja er ríkasta kirkja landsins, ef innistæður í bönkum eru taldar saman og verðbréf hennar. Þetta litla óskiljanlega guðshús í flæðarmáli Engilvíkur býr yfir huldum dómum. Hið ytra er ekki til yfirlætislausara hús í öllum heiminum. Það stendur á sæbarinni strönd undir tignum himni guðs, innan um melgras og blóðberg. Hér, þar sem ekki þrífst einu sinni venjulegt gras, býr það volduga afl sem sneiðir hjá háum turnum dómkirknanna hér i prestsleysinu sú tign og festa, sem á sér enga líka, eða hliðstæðu í hinni samanlögðu evangelisku lúthersku kirkju. Opnaðu barnsaugu þín til himins og hlustaðu á brimgný og vindinn salta og þú finnur að hér er helgur staður, tvímælalaust.
En í hverju er þetta fólgið?
Kirkjan verður við, sem kallað er. Menn heita á hana og hún verður við heitum manna. Í raun og veru hefur enginn getað útskýrt þetta, og engar sögur fara af því. Menn gera þetta einir innra með sér. Þetta er aðeins milli þeirra og guðs.
Þórunn FriðriksdóttirEkki vita menn um annað guðshús í lútherskum sið, sem gætt er þessum eiginleika. Svo voldugt er þetta samband Strandarkirkju við fólkið, að kirkjustjómir og guðfræðingar kirkjunnar, ganga í stóran hring og hætta sér ekki í útskýringar. Það er ekki einasta, að heitið sé á kirkjuna í Strandarsókn, af fólki í Reykjavík, á Langanesi og um allt Ísland. Bréf berast líka frá Bretlandi, Þýzkalandi, Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Eitt sterlingspund, eitt þýzkt mark, dollar, eða svo berst í bréfi. Pílagrímar koma yfir þúsund mílna haf til að sjá með eigin augum kirkjuna í Engilvík, til að fá að ganga á söltum sandinum umhverfis hana og anda að sér þeim ilmi er berst frá hafi og jörð á þessum stað. Í sumar kom hér t.d. áttræð ensk kona, varla rólfær og Ólafur Bjamason studdi hana út að kirkju. Strandarkirkja var hennar kirkja líka, eins og hún var kirkjan hans. Með einhverjum hætti hefur kirkjan í Engilvík orðið að stórveldi í hjörtum fólksins, þrátt fyrir látleysi sitt og einangrun. Og eins og brimaldan fyllir loftið niði af bárum, sem borizt hafa yfir þúsund mílna haf til að brotna á sendinni strönd, stíga bylgjur nýrra vona til himins hér.

Sóknarbörn

Selvogur

Selvogur – Guðnabær.

Þó Strandarkirkja hafi staðizt veðrin reið nær fimm aldir og hafi haldið vellii á kjamorkuöld þá hefur sóknarbömum hennar ekki vegnað eins vel, ef hið veraldlega er haft i huga. Sauðfé líður hér bærflega og það kemur fram í holdum, úr hraunum, hvert haust, en nýtízkubúskapur þróast ekki hér. Selvogstorfan er aðeins í þrengsta skilningi aðili að því mannfélagi sem nú byggir Ísland. Þeir hafa að vísu kosningarétt og allt það og borga skatta. En þeir eru t.d. rafmagnslausir ennþá einir bæja á stærsta Orkusölusvæði landsins.

Selvogur

Selvogur – Bjarnastaðir.

Það er of langt til ykkar er viðkvæðið. Landið fyrir ofan hefur orðið uppblæstrinum að bráð og berghellan skín víðast hvar undan, eins og undan götóttri flík. Hinn gljúpi sandur er nær fjörunni og þar þrífast aðeins melur og blóðberg. Nægt vatn er víðast hvar, en aðeins melur nær því. Nú munu vera um 1000 fjár á þeim 4—5 bæjum sem eru í byggð þarna og yfirleitt er fólk komið yfir miðjan aldur. Sumt dáið, annað hefur flutzt burt. Ungt fólk nennir ekki að rölta alla ævina eftir sauðfé.

Selvogur

Selvogur – Þorkelsgerði og Torfabær.

Það vill ekki hóa og æpa að skepnum. Það vill ræktun. Það vill kýr, mjaltavélar, stórbúskap. Samgöngur og dansleiki.

Selvogur

Selvogur – ströndin.

En Strandarkirkja? Jarðeigandinn. Hún á margar jarðanna þama. Vill hún ræktun? Vill hún sóknarbörn, vonglaða æsku, torfur af bömum og akra?
Biskup svarar fyrir hana. Nei. Fjármunir Strandarkirkju fást ekki til að ala upp beljur. Ekki til að rækta venjulegt gras. Ekki í raflínur, þeir fyrir sunnan þekkja þarfir kirkjunnar. Hver eyrir rennur þangað . Meira að segja er sturtað úr samskotabauk Strandarkirkju í kirkjusjóð.

Selvogur

Selvogur – bautasteinar í kirkjugarðinum í Nesi.

Gagnstætt venju fer biskup með fjármál Strandarkirkju en ekki sóknamefndin, eða kirkjuhaldarinn. Í upphafi mun kirkjuhaldara Strandarkirkju hafa óað varzla svo gildra sjóða og farið þess á leit að biskup tæki að sér vörzlu kirkjusjóðsins. Hér er því ekki um slettirekuskap að ræða. En sú ábyrgð er kirkjuhaldari staðarins hafði færzt undan, hún hvílir nú á biskupsembættinu. Gjafir þær, sem áheit færa kirkjunni eru fjármunir. Þær eru gefnar án skilyrða, a.m.k. oftast nær. Úrskurður um ráðstöfun þessa fjár er hins vegar mat einstakra manna á afmörkuðu sviði, sem verja má fénu til.
Dýrlingar koma kaþólikkum ekki í bobba af þessu tagi. Hið innra skipulag kaþólsku kirkjunnar gerir ráð fyrir tekjum af kraftaverkum. Sú ráðabreytni að verja fé Strandarkirkju í aðrar kirkjur en Strandarkirkju þó í formi lána sé, virðist jafnvel hæpnari en að rækta gras í Selvogi, á Strönd, eða í uppblæstrinum. Vörzlumenn sjóða Strandrkirkju neituðu að lána til raflínu þá 15 kílómetra sem vantar á að rafmagn nái til Strandarkirkju og báru við „starfsreglu“. Hins vegar var rándýr einkarafstöð sett upp við kirkjuna, svo þar er rafmagn.

Selvogur

Selvogur – Gata. Gamla skólahúsið t.v.

Hvernig vita forráðamenn kirkjusjóðs að gera beri mun á dieselrafmagni og Sogsrafmagni? Hitt er komið í eyði. Nes í eyði, Torfabær í eyði, og maður finnur að til úrslita dregur senn í sögu þessarar byggðar. Í dularfullum gufum, sem leggur frá hafi, sést úthafsbrimið við hina fornu lendingu. Inni í landi bendir sundmerkið til himins.

Selvogur

Selvogur – Bjarnastaðir.

Enginn heitir lengur á Strandarkirkju í lífróðri í Engilvík. Við erum ekki sveit, segir Ólafur Bjarnason, við erum sjávarþorp.
Hver verða örlög þessarar lágreistu byggðar i Selvogi er ekki gott að segja. Sjálft Skálholt var að afleggjast, en kirkjunnar menn komu vitinu fyrir þjóðina og byggðu staðinn upp. Ekki einasta kirkjuna, heldur líka hinn lifandi stað. Hvað er um Strönd? Verður hún senn arfsögnin, ein byggðin þar? Landsins frægasta kirkja skilin eftir ein og yfirgefin á sandflákunum í Engilvík?

Strandarkirkja

Í Strandarkirkju.

Biskup hefur nú endumýjað Strandarkirkju og notið þar hollráða hinna færustu smiða og teiknara. Vel hefur varðveitzt fomlegur blær og þokki. Enn á biskupinn leik. Vafalaust eru margvíslegir annmarkar því fylgjandi að beita sér fyrir nútímamannlífi í Selvogi. En með eins góðu liði og hann safnaði um sig við kirkjusmíðina mun takast að varðveita lífsstíl þessarar byggðar, þótt stefnt sé samhliða því að endumýja búskaparhættina. Bezt verður þetta starf unnið sem skipulagsverk, með stórbúskap fyrir augum, og þá mun ekki standa á fólki, sem ann sveitalífi, að setjast að í Selvogi og þá mun glaðværðin aftur ríkja í sandhólunum upp af hafi Engilvíkur.“ – Jónas Guðmundsson, stýrimaður

Heimildir:
-https://timarit.is/page/2397738?iabr=on#page/n11/mode/2up/search/selvogur
-Vísir 13. ágúst 1968, Strandarkirkja – Hugleiðing úr sunnudagsferð til Strandarkirkju, bls. 9 og 13 – Jónas Guðmundsson.

Selvogur

Selvogur – Strandarkirkja.