Ætlunin var að berja augum hina sjaldgæfu hákolla Brennisteinsfjalla snævislausa, jarðfastar eldborgir, mannvistarleifar (sem fáir vita af) og helstu undirheima þessa ómetanlega og jafnframt ósnortna náttúrundurs við fótskör höfðuborgarsvæðisins, s.s. dropsteins-, litabrigða- og jökulhella. Líklegt má telja að svæðinu verði fórnað innan fárra missera á altari sjóndaprar stóriðjustefnu vegna áhugaleysis meirihluta „hinna 63. bekkjarsystkina“, sem ættu þó skv. ákvæðum stjórnarskráar landsins og allra annarra skynsemissjónarmiða að standa einarða vörð um varðveislu þess. Brennisteinsfjallasvæðið er ómetanlegt, jafnvel á heimsvísu, ekki síst út frá náttúru- og jarðfræði þess. Einhverjir hafa tjáð sig um svæðið, en sumir þeirra hafa ekki komið þangað.
Gengið var upp frá Sýslusteini við Herdísarvíkurveg og stefnan tekin á Jafndægur suðvestan við Sandfell. Þaðan átti að ganga um Vörðufellsgíg, Vörðufellsborgir, Eldborg, Kistu, Kistufell, niður í Námuhvamm að brennisteinsnámunum og síðan um Kerlingahnúka og Kerlingarskarð niður að Bláfjallavegi. Í leiðinni átti og að skoða nokkra hella og önnur sjaldséð náttúrufyrirbæri.
Spáð hafði verið sól á svæðinu, en auk þess hafði að semja um sérstaklega áhrifarík áttaskil þar (meðan á göngunni stóð), lygnu og 16° hita.
Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem mynda þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hraunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 (Draugahlíðagígshraunið/Stakkavíkurhraunið). Í Kistu má sjá gíga frá öllum tímabilum nútímans, grónar hrauntraðir og berar, mosavaxin hraun og hraun án mosa.
Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Nú var haldið inn Fagradal til austurs með suðurjaðri Breiðdalshrauns, sem rann úr Kistu á sínum tíma (árið 1000), og síðan fetaður stígur upp hlíðina innanverða. Þegar komið var upp á brún var vent til vinstri eftir stíg rjúpnaveiðimanna inn á úfið apalhraun. Eftir stutta göngu var komið inn á slétt helluhraun. Þaðan var leiðin greið upp í Brennisteinsfjöll.
Í leiðinni upp var m.a. kíkt á hraunskjól í Fagradal. Hleðsla er við opið. Frá skjólinu er ágætt útsýni yfir dalinn. Ekki er ólíklegt að þarna hafi refaskytta átt athvarf. Slitrur úr dráttartógi, mosavaxið, lá innan við munnann.
Þegar staðnæmst var á hraunbrún á miðri sléttu Kistuhraun sást vel til Brennisteinsfjallanna; eldborgirnar í suðaustri, Kistu í austri og Kistufells í norðaustri, var ekki hjá því komist að rifja upp ásókn virkjunarverktaka í þessa dásemd.
Hjá iðnaðarráðuneytinu liggja fyrir umsóknir frá orkufyrirtækjum um rannsóknarleyfi á þremur svæðum á suðvesturhorninu sem ekki hafa verið virkjuð. Eitt þeirra eru Brennisteinsfjöllin. Um þessar mundir virðast þau eftirsóttasti virkjunarkosturinn.
Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hefur m.a. gagnrýnt seinagang í umsóknarferli vegna rannsóknarleyfa og undraði sig á því að staðið skildi á umsögn umhverfisráðuneytisins. „Í lögum sé kveðið á um skjóta afgreiðslu en ráðuneytið virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að brjóta lög með því að draga að klára sína umsögn, mun hann hafa látið út úr sér vegna þessa.“
Á svæðinu eru merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Á svæðinu má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið.
Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos á sögulegum tíma. Í Herdísarvíkurhrauni er kjarrlendi fyrir opnu Atlantshafi og er það eitt heilsteyptasta kjarrið sem eftir er á Reykjanesskaga. Meðal menningarminja á svæðinu er hluti Selvogsgötu, sem liggur frá Hafnarfirði í Selvog og brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum.
Verndartillögur ná yfir austasta hluta þess háhitakerfis sem kennt er við Krýsuvík en ákvörðum um nýtingu liggur ekki fyrir.
Brennisteinsfjöll eru sunnan Lönguhlíðar á Reykjanesi. Þau eru mjög eldbrunnin og hraunfossar frá þeim liggja niður fjallahlíðar í átt að Herdísarvík. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Englendingar hófu brennisteinsnám austanverðum Brennisteinsfjöllum í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði (sjá umfjöllun á annarri FERLIRssíðu). Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar. Enn má sjá brennisteinskjarnana, göturnar og afkastið í námunum, auk ofnsins, sem notaður var til að móta afurðirnar áður en þær voru fluttar til hafnar.
Umhverfisstofnun vakti athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, fór rektor Háskóla Íslands þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum.
Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Fram kom að „í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.“
Í þingsályktunartillögu var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes-Eldvörp-Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp-Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.
Í ljósi framangreindrar beiðni um breytingu á auglýsingu um friðland í Herdísarvík, telur Umhverfisstofnun æskilegt að fjallað verði um Brennisteinsfjöll-Herdísarvík í náttúruverndaráætlun 2004-2008.
Umhverfissamtökin Landvernd hafa sett fram sýn til framtíðar um verndun Reykjanesskagans og að frá Þingvallavatni út á Reykjanestá verði stofnaður „Eldfjallagarður og fólkvangur“. Framtíðarsýnin grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum skagans. Hvatt er til nýtingar jarðvarma til orkuframleiðslu þar sem þegar hefur verið virkjað en ósnortin jarðhitasvæði verði vernduð. Þar er horft til tilrauna sem sýna að með djúpborunum sé jafnvel hægt að tífalda þá orku sem fæst úr hverri borholu í dag.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að í framtíðarsýn samtakanna sé rými fyrir allt og alla, en bara ekki á sama stað. „Menn verða að taka frá svæði fyrir ólíkar nýtingarleiðir. Það hafa þegar verið tekin frá svæði til orkuvinnslu en það hafa hins vegar ekki verið tekin frá svæði til náttúruverndar með fullnægjandi hætti.“ Bergur segir að Brennisteinsfjöll séu ósnortið víðerni sem þurfi að taka frá fyrir náttúruvernd og koma þurfi í veg fyrir rannsóknaboranir þar. „Á Reykjanesi eru fjögur eldstöðvakerfi. Tvö af þessum kerfum hafa þegar verið virkjuð að talsverðu leyti og það eru komnar af stað rannsóknaboranir á þriðja svæðinu sem er Trölladyngjusvæðið.
Brennisteinsfjöllin eru síðasta kerfið sem er ósnortið. Við leggjum áherslu á rannsóknir og djúpboranir á þeim svæðum sem þegar eru nýtt til orkuvinnslu með jarðvarma því hver virkjun; Hellisheiðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, getur orðið ígildi Kárahnjúkavirkjunar.“
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskra orkurannsókna, segir að hafa beri í huga að djúpboranir muni ekki leysa einhvern bráðavanda en staðfestir að yfirgnæfandi líkur séu á að mögulegt sé að margfalda orkuframleiðslu úr borholum sem fyrir eru með nýrri tækni í framtíðinni.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt til að gera Brennisteinsfjöll að friðlandi en Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagðist í viðtali við Fréttablaðið nýlega ekki geta tjáð sig um þær hugmyndir á meðan umsóknir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknaboranir í Brennisteinsfjöllum eru til afgreiðslu hjá iðnaðarráðuneytinu??? Það ætti a.m.k. að gefa ákveðna vísbendingu um það sem ætlað er.
Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar. Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, hraunæðar, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].
Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós.
Búðir námumanna voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar. Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi svæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.
Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla. Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur.
Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.
Í samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa
umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn.
Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.
Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.
Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”
Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: „– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.“
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, fjallar einn fárra meðvitaðra um Brennisteinsfjöll á vefsíðunni http://www.samfylking.is/.
Yfirskriftin er „Einkavædd stóriðjustefna“. „Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna.“
Það er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.“ Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.
Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: „Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“
Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils – og sérfræðingar slá feilnótur.
Í þessari ferð var m.a. gengið fram á stórt op á þykkri hraunhellu Kistufellshrauns. Af ummerkjum að dæma virðist jörðin þarna hafa opnast nýlega. Um 10 metrar eru niður á gólf. Rásin þar undir er um 6 m breið og virðist heilleg. Til að komast niður þar u.þ.b. 6 m langan stiga eða kaðal til að komast niður á hrunið. Þarna er um að ræða eitt af verkefnum nánustu framtíðar.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 51 mín. (þar af 7.07 á göngu). Gengnir voru 23.3 km.
Brennisteinsfjöll.