Tag Archive for: Eldvörp

Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um „Rústirnar í Grindavíkurhrauni“ í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar [19. aldar] fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn“ í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, „að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi“, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.“

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki“. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni“. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“,“ og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði“ lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.“

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn“ á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.

Járngerðarstaðahverfi

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu.

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.

Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: „Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli“.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.

Eldvörp

Eldvörp – eitt byrgjanna.

Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur

Gígur

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Eldvörp

Stefnan var tekin á Eldvörp. Ætlunin var að reyna að opna leið milli tveggja eldgíga, en í fyrri ferðum FERLIRs á svæðið hafði komið í ljós að ekki væri ómögulegt að komast í gegnum þröngt gat með því að víkka það og síðan um rás úr öðrum gígnum og áfram inn í annan hærri (dýpri). Báðir gígarnir eru um 12 metra djúpir, en hægt er að komast undir þann fremri um gat á hlið hans.

Eldvörp

Eldvörp – Tvígígahellir.

Eldvörp er gígaröð norðvestur af Grindavík. Röðin liggur á réttvísandi sprungurein, líkt og aðrar á Reykjanesskaganum. Eldvörpin eru í rauninni einstaklega falleg gígaröð með fjölmörgum formfögrum gjall- og klepragígum. Í sumum þeirra eru litlir hellar. Við sunnanverða gígaröðina eru t.d. útilegumannaskjól með mannvistarleifum í. Í nyrði hluta hennar eru hyldjúpar hraunsprungur og djúpir gígar. Auk þess má sjá í þeim fjölmargar hraunmyndanir, litasamsetningar og annað er glatt getur auga áhugafólks um jarðfræði.
Nyrsti og efsti hluti Eldvarpanna geyma t.d. fallegt hraundríli, u.þ.b. 8 m djúpt. Í því eru sérkennilegar hveraútfellingar. Ljóst er að Eldvörpin hafa ekki orðið til í einu gosi, en líklegt má telja að þau hafi orðið með stuttu millibili.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Þegar komið var niður í fremri gíginn blasti við hyldjúp sprunga, sem þunnfljótandi hraunið úr gígunum hafði runnið niður um og smurt veggi hennar slétta. Mikill gustur kom upp um rifuna. Hellasérfræðingur, sem var með í för, stóðst ekki mátið og fetaði sig u.þ.b. 8 metra niður í sprunguna. Þá sást enn önnur eins vegarlengd niður á við. Hann staðnæmdist þó áður og bað aðra um að fylgjast með sér ef hann kæmi ekki upp aftur. Þeir báðu hann í guðana bænum um að fara ekki þessa leið niður á við fyrr en fengist hefði viðhlítandi búnaður. Það væri aldrei að vita hvar hann endaði. Hann varð við þeirri beiðni. Ljóst er að ekki mun líða á löngu að þessi leið verður könnuð til fulls. Ekki er ólíklegt að ætla að hún kunni að liggja niður í stóra hraunrás þar undir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Hafist var handa við að víkka opið í gini gígsins. Það gekk bæði vel og fljótt fyrir sig. Haftið reyndist vera þunnt og auðvelt snyrtingar. Þegar hreinsað hafði verið frá var skriðið inn og síðan rás, sem þar var fyrir innan, rakin yfir að efri gígnum. Sennilega eru fáir slíkir staðir til hér á landi og jafnvel í öllum heiminum, sem bjóða upp á aðstæður sem þessar. Þarna er farið undir djúpan gíg, í gegnum rás um undirheimana og yfir í annan gíg, síst lægri. Vel má gera sér í hugalund hvað hafi gengið þarna á á meðan á eldsumbrotunum stóð.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Í efri gígnum voru fallegir hraungúlpar, sléttlagaðir. Inn úr gígnum liggur rás og síðan upp á við. Önnur liggur annars staðar svo til beint upp á við, alveg undir jarðskelina. Gifs er á veggjum og innri rásir fagurrauðar, sums staðar a.m.k. Þegar horft var upp blasti við blár himininn.
Nú er búið að skapa nýjan möguleika fyrir fólk, sem langar til að skoða stutta hella, kíkja undir og inn í gosgíga og virða fyrir sér stórbrotna sprungurein með öllum þeim gígum, sem henni fylgir – og það einungis eftir stutta göngu.
Hellir þessi hafði ekki fengið nafn, áður en ferðin var farin. Lagt hefur verið til að hann verði nefndur „Tvígígahellir“. Björn Símonarson og fleiri höfðu skoðað þetta hellasvæði áður og þá talið að þarna væri rás á milli.
„Mission completed“.
Frábært skjól var í gígunum meðan regnið barði þá utan.

Myndun Eldvarpa

Tyrkjabyrgi

Árið 2013 var gerð viðarmikil fornleifaskráning í Eldvörpum ofan Grindavíkur, „Fornleifaskráning í Eldvörpum og milli Prestastígs og Skipsstígs„. Áður hafði svæðið verið fornleifaskráð af ónákvæmni.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning.

Í inngangi skýrslunnar, sem gefin var út í framhaldinu, segir m.a.:
„Að beiðni Ásbjörns Blöndal, forstöðumanns þróunarsviðs HS Orku, tóku skýrsluhöfundar, Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, saman fornleifaskrá um Eldvörp annars vegar og svæðisins milli Prestastígs og Skipsstígs hins vegar.
Skráningin og samantektin fól m.a. í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.
Ómar Smári sá um vettvangsvinnu, enda hefur hann um árabil gengið svæðið í þeim tilgangi að leita að minjum og skrá þær. Ragnheiður sá um úrvinnslu gagna, Margrét Valmundsdóttir fornleifafræðingur vann kort, Lísabet Guðmundsdóttir sá um innslátt á hnitum og Anna Rut Guðmundsdóttir annaðist uppsetningu á skýrslunni.

Eldvörp

Eldvörp – minjar.

Á umræddu svæði er m.a. að finna fornar leiðir, byrgi (Tyrkjabyrgin), hlaðin skjól, vörður, refagildru, garðs auk minja úr seinni heimsstyrjöld. Herminjar eru ekki verndaðar í lögum eins og þjóðminjar/fornleifar en vegna þess hve einstakar þær eru þykir rétt að skrá þær svo að framkvæmdaraðilar geti tekið tillit til þeirra við skipulagningu og framkvæmdir.
Skráningargögnin eru vistuð í landfræðilegum gagnagrunni og er öllum gögnum skilað rafrænt.“

Gerðar hafa verið afmarkaðar skráningar af svæðinu í gegnum tíðina. Hins vegar er þar að finna minjar, sem aldrei hafa verið skráðar eða settar í samhengi.

Hér má sjá fornleifaskráninguna í heild – Fornleifaskráning í Eldvörpum.

Eldvörp

Óraskað og áður óskráð byrgi í Eldvörpum.

Svartsengi

Í upphafi ferðar var Gjáin, fræðslumiðstöð Hitaveitu Suðurnesja í Eldborg við Svartsengi, skoðuð. Um er að ræða sýningu Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Ísland býður einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest, sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita, því að landið er jarðfræðilega ungt og enn þá í mótun. Landið er eins og gluggi inn í fortíð og framtíð þessarar þróunar, þannig að með lestri jarðlaga má leiða líkur að því, sem koma skal. Hérlendis eru stærstu jöklar og mestu jökulsár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjulega mikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.

Eldborg

Eldborg í Svartsengi.

Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur.

Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda.

Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.

Illahraun

Gígur í Illahrauni ofan Svartsengis – Rauðhóll.

Þá var gengið til vesturs um Illahraun og Bræðrahraun, yfir Skipsstíg og að Árnastíg þar sem hann sem hann liggur um Eldvörp. Arnarseturshraunið (apal), sem er þarna skammt norðar, rann á sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Annars eru hraunin við Svartsengi og Grindavík ca 2400 ára. Víðast hvar eru þau greiðfær yfirferðar.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Á gömlu þjóðleiðunum má víða sjá djúpt markaðar götur í bergið eftir umferðina í gegnum tíðina.
Illahraun er víða illt yfirferðar, en auðvelt er að þræða það um greiðfærar mosasléttur ef vel er að gáð. Og ekki er varra að vera vel kunnugur í hrauninu og þekkja staðhætti. Þrætt var greiðfær leið að þessu sinni og gengið að tveimur einstaklega fallegum gígum í hrauninu. Annar er reglulegur hraungígur en hinn, sá syðri er opinn mót austri. Í honum eru einstaklega fallegir kleprar. Nyrðri gígurinn er opinn mót vestri, en sá syðri mót austri.

Gíslhellir

Við Gíslhelli við Skipsstíg.

Gengið var til vesturs frá gígunum, yfir vestanvert Illahraun og var þá skömmu síðar komið inn á Skipsstíginn þar sem hann liggur um Blettahraun, hina gömlu þjóðleið, er liggur þarna milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Stígurinn er vel varðaður og sum staðar klappaður í slétt bergið. Hann liðast síðan áfram suður Skipsstígshraun og Blettahraun. Stígnum var fylgt spölkorn til suðurs uns komið var inn á Eldvarpaveginn. Sá vegur var síðan eltur út í Eldvörp.

Þaðan var haldið norður eftir Eldvörpum, um 9 km langri gígaröð er kom upp úr jarðskorpunni 1226.

Árnastígur

Árnastígur.

Árnastígur liggur þarna yfir Eldvörpin. Áður var haldlagður endilangur stigi frá Slökkviliði Grindavíkur, nógu langur til að ná til hæstu hæða í þeim bæ. Fjóra menn þurfti til að bera hann upp í gíga, sem nú var stefnt á norðan við mið-Eldvörpin. Þar eru tveir djúpir gígar, annar um 8 metrar á dýpt og hinn (sá nyrðri) a.m.k. 10-11 metrar. Hægt er að komast inn í syðri gíginn um op vestan hans og feta sig síðan niður á við neðan við gígopið. Þar sést niður í hyldjúpar gjár, sem liggja þarna eftir gígaröðinni að sunnanverðu. Tveir tréplankar voru þar við lítið op.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Eftir að gígbotninn hafði verið fullkannaður var langur brunastiginn látinn síga niður í nyrðra opið. Þegar niður var komið blasti við stórbrotið útsýni upp um gígopið. Niðri var rúmgott og nokkrar stuttar rásir með fallegum hraunmyndunum í. Á einum stað var sem hraunkúlur hafi verið smurðar brúnlitu hrauni. Rásinar voru að mestu hvítar að innan, sennilega vegna kísilútfellinga. Litla opið, þar sem tréplankarnir voru innan við syðra opið, liggur að rás yfir í nyrðri gíginn. Ef gatið yrði rýmkað nokkuð, sem ætti að vera tiltölulega auðvelt, væri hægt að komast úr syðri gígnum yfir í þann nyrðri.
Ástæða er til að þakka Slökkviliði Grindavíkur stigaframlag þess til landkönnunar á svæðinu.
Norðar heldur falleg gígaröð Eldvarpanna áfram og eru gígarnir hver öðrum fallegri. Um er að ræða reglulega klepra- og gjallgíga, svo til óraskaða. Gígarir voru þræddir og skoðaðir.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Skammt norðaustar er stutt gígaröð til hliðar við enda Eldvarpanna. Henni var fylgt til norðurs. Við enda þeirra er eitt fallegasta hraundríli Reykjanessins. Þegar klifrað var upp á drílið, sem er um fimm metra á hæð, sást ílangt opið. Dýpið niður er um 6-7 metrar. Svo var að sjá sem þar undir væri brúnleit rás. Þangað þarf að fara með stiga við tækifæri og kíkja niður í drílið. Slóði liggurinn þarna um hraunið frá Eldvarpavegi að og inn fyrir Lat.
Framundan var nokkuð stór gígur. Utan í honum er úbrunnið hverasvæði, ljóst að lit í annars rauðlitum gíghlíðinni. Þarna má finna hveraúfellingar og gufusoðið grágrýti. Skammt norðar er Latur, fagurlega formaður eldgígur. Hann stendur nokkuð hátt og af honum er víðáttumikið útsýni yfir fjöllin og hraunin í nágrenninu. Vestan við er Sandfellshæðin, Sandfellið, Lágafell, Gígurinn og Þórðarfell. Suðaustar er Þorbjarnarfell og Sýlingafell, austar Stóra-Skógfell og gígurinn Arnarsetur.

Latur

Latur við Skipsstíg.

Hraunrásin frá Gígnum sést vel í hauninu. Austan við er slétt helluhraunslægð. Annars eru hraunskilin vel greinileg þaðan frá séð. Norðaustan við Lat er enn ein gígaröðin, nokkrir smáir en fallegir gígar. Svo er að sjá að gosið hafi þarna á a.m.k. þremur samhliða reinum á mismunandi tíma með mismiklum hraungosum. Hraunin frá Eldvörpum liggja að Gígshrauninu. Að því kemur Illahraun, en á milli liggur Bræðrahraun úr gígunum umhverfis Lat. Latur hefur sjálfur rutt úr sér miklu hrauni, en hluti þess er greinilega undir öðrum hraunum. Austar kemur Arnarseturshraun að þeim, sem vestar eru. Allt myndar þetta umkomumikið hraunspil.

Skipsstígur

Skipsstígur – gígurinn Latur.

Loks var stefnan tekin til austurs yfir tiltölulega slétt mosahraun, að Bláa lóninu, þar sem veitingar voru þegnar í boði þátttakenda.
Hitaveita Suðurnesja rekur orkuverið í Svartsengi þar sem jarðsjó er dælt upp úr 2000 metra djúpum borholum. Jarðsjóinn er ekki hægt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu og mikils steinefnainnihalds. Því er jarðsjórinn notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðvökvi sem ekki er nýttur til beinnar upphitunar er 80°C heitur þegar honum er hleypt út á hraunbreiðuna. Vökvinn ásamt þéttiefni jarðgufu myndar Bláa lónið.

Eldvörp

Eldvörp – Gígurinn.

Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísil og sérstökum blágrænþörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa lónið er líka kjörinn viðkomustaður fyrir göngufólk um hið litríka jarfræðisvæði í nágrenninu og ofan við Grindavík.
FERLIRsfélagar fengu leyfi til að ganga í gegnu athafnasvæði Bláa lónsins – yfir að Gjánni, þar sem hringferðinni lauk.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Eldvörp

Gígar í Eldvörpum.

Eldvörp

Skoðaður var svonefndur “Útilegumannahellir” vestan við borholuna í Eldvörpum ofan Grindavíkur. Í honum eru hleðslur. Ein kenningin er sú að í honum hafi Húsatóttarfólkið bakað brauðið sitt, en Brauðstígurinn, sem liggur upp í gegnum Sundvörðuhraun frá “Tyrkjabyrgjunum” kemur niður skammt frá opinu. Í þessum helli var talsverður jarðhiti áður en borholan kom til.

Eldvörp

Eldvörp – heðslur í helli.

Í stað þess að fara Brauðstíginn niður að “Tyrkjabyrgjunum”, var gengið suður fyrir byrgin, um tiltölulega slétt hraun, og komið að þeim úr suðvestri. Byrgin og hlaðin refagildra, sem er við byrgin, voru skoðuð. Þaðan var haldið niður eftir Brauðstígnum að girðingu, henni fylgt til vesturs út að hraunkantinum og strikið síðan tekið niður að Húsatóttum (-tóftum). Farið var yfir nokkrar gjár, s.s. Miðkrókagjá og Skothólsgjá, á leiðinni og komið að nyrsta og jafnframt heillegasta fiskbyrginu ofan Túngjár (Hjálmagjár) á Byrgjahólum.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Þaðan má sjá móta fyrir a.m.k. fjórum fiskbyrgjum öðrum sunnar á gjárbarminum. Enn sunnar eru nokkur byrgi til viðbótar, auk hlaðinna þurrkgarða. Þeir nefnast Háavíti og Lágavíti. Hjálmagjá nefndist svo því fólk taldi sig oft sjá gjáveggina upplýsta með fögrum ljósahjálmum, sem báru af lýsisstýrunum í mannheimum. Efsti hluti gjárinnar heitir Tóftagjá.
Á túninu neðan við Húsatóttir, sunnan við Stakabrunn, er hóll, sem nefndur er Pústi. Þar hitti Helgi Gamalíason hópinn og leiddi hann áfram vestur með ströndinni. Pústa sagði hann hafa fengið nafn af því að Húsatóttamenn hvíldu sig þar á leið sinni með byrðar frá vörinni. Helgi nefndi rústir gömlu bæjanna með kantinum landmeginn; Hamra, Sólvelli og Vindheima. Niður á skerjunum eru Þvottaklappir þar sem vatn streymir undan hrauninu á fjöru. Neðan Vindheima er Kóngsklöppin þar sem gamla konungsverslunin var í Grindavík. Enn má sjá tóttir hennar uppi á sjávarkambinum, en mikill hluti þeirra hefur þó sjórinn hirt.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, auk þess sem landið hefur sigið. Innan við Kóngsklöppina var Tóttarvörin og sést móta fyrir hleðslum þar sem hún var. Utan við klöppina er Ballestasker, en við það má sjá steina, sem notaðir voru í ballest hinna erlendu skipa.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

Gengið var að gömlu bryggjunni, sem var í Húsatóttalandi. Vestan við hana er varða, landamerki Húsatótta og Staðar. Vestan við bryggjuna eru minjar fiskverkunarhúsa og ofar tóttir og garðar frá Hvirfli. Vestan við Hvirfil eru Þvottaklappir Staðarbænda. Þar kemur og tært vatn undan klöppunum. Þar fyrir neðan er Staðabótin, en ofan hennar er Hvirflabrunnur, hlaðinn. Vestar er flóruð Staðarvörin og Skakkavör skammt vestar. Undan henni er Festarsker, en á því er annar kengurinn af tveimur, sem konungsskipin voru fest við. Skerið kemur einungis upp í stórstraumsfjöru.

Staðarvör

Staðarvör.

Staðarvörin er fallegt mannvirki, sem huga þarf vel að. Vestar á kambinum eru heillegar tóttir Stóra-Gerðis, brunnur og falleg heimreið. Skammt vestan við Stóra-Gerði er Litla-Gerði. Sjórinn er nú byrjaður að brjóta tóttir þess bæjar niður. Þá var strikið tekið yfir vörslugarð Staðar, eða það sem eftir er af honum, og gengið að Kvíadal, heillegum tóttum þess bæjar.
Frá Kvíadal var gengið yfir Hundadal og á hól í Staðatúni, en þar undir er talið að bærinn Krukka hafi verið, en sandurinn lagði hann í eyði á skömmu tíma fyrir alllöngu síðan og þakti hann síðan alveg. Þarna undir gætu verið mjög heillegar minjar.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Skammt norðar er Staðarbrunnurinn, nær ósnertur og fallegur brunnur frá árinu 1914.
Komið var við á hinu gamla bæjarstæði Staðar og litið inn í kirkjugarðinn. Þar í klukknaportinu er t.d. skipsklukkan úr Alnaby, sem strandaði þarna fyrir utan, á Kolasandi, árið 1902. Á klukkunni er ártalið 1898 og áletrunin ALNABY. Áður en kaffi var þegið í golfskálanum í boði bæjarstjóra, var litið á Húsatóttarbrunninn. Hann er beint fyrir neðan golfskálann.
Loks var gengið upp Árnastíg með viðkomu í gömlu tóttunum á Húsatóttum, litið á Sundvörðuna austast í hrauninu og stígurinn skoðaður þar sem hann er hvað mest markaður í klöppina norðan við Sundvörðuhraunið.
GígurÞegar komið var inn í Eldvörpin á ný voru skoðaðar hleðslur, sem Erling Einarsson benti hópnum á, í gróinni lægð skammt norðan við heitasta gíginn í Eldvörpum. Þær gætu verið merki þess að Hamarsbóndahellir sé þarna einhvers staðar skammt frá, en Helgi hafði bent á svæðið þarna á sínum tíma sem líklega staðsetningu. Verður skoðað betur síðar.
Gangan tók með hléum um fimm klukkustundir og fimm mínútur. Boðið var í byrjun upp á glænýtt súrefni, svalan grindvískan andvara og síðan áður óþekkt sólskin seinni hluta leiðarinnar. Hitinn var í kringum 10 C°.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Eldvörp

Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson unnu skýrsluna „Fornleifaskráning í Eldvörpum og milli Prestastígs og Skipsstígs“ árið 2013.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning 2013.

Í efnisyfirlitinu er m.a. lýst fyrri rannsóknum, tilgangi fornleifaskráningar, fornleifaskráningunni og aðferðarfræði, jarðarnúmeri, tegund og heiti fornleifa, staðsetningu þeirra, staðháttum lýst, hættumat ákvaðað, einstökum fornleifum á svæðinu, s.s. fornum leiðum, götum, vörðum, brúm, skjólum, refagildrum, herminjum, aðhaldi. byrgjum, görðum og hellum.

Inngangur
Að beiðni Ásbjörns Blöndal, forstöðumanns þróunarsviðs HS Orku, tóku skýrsluhöfundar, Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, saman fornleifaskrá um Eldvörp annars vegar og svæðisins milli Prestastígs og Skipsstígs hins vegar.
Skráningin og samantektin fól m.a. í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Ómar Smári sá um vettvangsvinnu, enda hefur hann um árabil gengið svæðið í þeim tilgangi að leita að minjum og skrá þær. Ragnheiður sá um úrvinnslu gagna, Margrét Valmundsdóttir fornleifafræðingur vann kort, Lísabet Guðmundsdóttir sá um innslátt á hnitum og Anna Rut Guðmundsdóttir annaðist uppsetningu á skýrslunni.
Á umræddu svæði er m.a. að finna fornar leiðir, byrgi (Tyrkjabyrgin), hlaðin skjól, vörður, refagildru, garðs auk minja úr seinni heimsstyrjöld. Herminjar eru ekki verndaðar í lögum eins og þjóðminjar/fornleifar en vegna þess hve einstakar þær eru þykir rétt að skrá þær svo að framkvæmdaraðilar geti tekið tillit til þeirra við skipulagningu og framkvæmdir.
Skráningargögnin eru vistuð í landfræðilegum gagnagrunni og er öllum gögnum skilað rafrænt.

Fyrri rannsóknir

Eldvörp

Hleðslur í helli í Eldvörpum.

Í neðangreindum ritum er að finna fornleifaskráningar á afmörkuðum hlutum svæðisins.
• Agnes Stefánsdóttir, 2008. Svartsengi – Eldvörp. Fornleifaskráning. Fornleifavernd ríkisins, 2008. (Rit Fornleifaverndar ríkisins 2008:7).
• Katrín Gunnarsdóttir, 2012. Grindavík. Fornleifaskráning í Eldvörpum í landi Húsatófta vegna rannsóknaborana HS Orku.
• Þóra Pétursdóttir, 2002. Fornleifaskráning í Grindavík. 2. áfangi. Fornleifastofnun Íslands ses., Reykjavík.

Eldvörp

Ósnert „tyrkjabyrgi“ í Eldvörpum.

Auk þess skráðu Brynjúlfur Jónsson minjar á svæðinu sumarið 1902 og Ólafur Briem 1959 Tyrkjabyrgi sem Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um í Ferðabók árið 1883. Ómar Smári Ármannsson skráði Grindarvíkurvegi í ritinu Grindavíkurvegir, saga og minjar árið 2012. Loks rannsakaði Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur rannsakaði útilegumannahelli við Eldvörp árið 2008.

Eldvörp

Eldvörp.

Heildarskrá um svæðið er nú í fyrsta sinn tekin saman. Hefur allt svæðið verið gengið að nýju í þeim tilgangi. Hnitsetningar eru allar á ábyrgð skýrsluhöfunda.

Niðurstöður

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.

Þrjár meginleiðir hafa verið skráðar á hinu afmarkaða svæði í þeim tilgangi að gera heilstætt yfirlit um og greina minjar sem kunna að vera í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Skráðar voru 206 vörður; fimm brýr; níu hella, skjól og aðhald; greni, refabyrgi og refagildrur voru níu; einn garður; og herminjar á einum stað.
Hinar fornu leiðir hafa verið troðnar á mörgum öldum, byrgin eru afar áhugaverð og mörg friðlýst og útilegumannahellarnir merkileg heimild um mannlífið til forna, svo að sumt það helsta sé nefnt. Herminjarnar eru vissulega ekki fornleifar eða þjóðminjar í skilningi laganna en engu að síður merkilegar minjar um hlut Íslands í heimsstyrjöldinni síðari sem er almennt séð sjálfsagt að reyna að varðveita ef kostur er.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgin“ – uppdráttur ÓSÁ.

Á svæðinu virðast ekki vera margar minjar í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda HS Orku, sbr. meðfylgjandi kort, en með því að hér er merkilegt minjasvæði í húfi er rétt að minna á þá almennu varúðarreglu að fara ávallt gætilega fram með vinnuvélar þar sem von er á fornleifum og varast allt óþarfa rask sem gæti stofnað minjum í hættu.
Ekki er víst að allar minjar á svæðinu sjáist á yfirborðinu eða hafi verið skráðar. Ef áður óþekktar fornleifar koma í ljós á framkvæmdasvæðinu ber að stöðva framkvæmdir, varast frekara rask og tilkynna þegar í stað um fundinn til Minjastofnunar Íslands, sbr. 38. gr. mml. Minjastofnun Íslands metur eðli þeirra og umfang og hvort frekari rannsókna sé þörf áður en framkvæmdir geta haldið áfram.“

Sjá Fornleifaskráninguna HÉR.

Árnastígur

Árnastígur.

Eldvörp

Gengið var suður fyrir Eldvörpin um Árnastíg, inn á Brauðstíginn og áfram áleiðis eftir honum til vesturs. Af honum var stefnan síðan tekin að Tyrkjabyrgjunum í suðvesturkrika Sundvörðuhrauns.

Á leið

Brauðstígurinn liggur  frá Árnastíg frá Húsatóttum og þaðan inn í krikann. Frá honum liggur stuttur stígur að byrgjunum. Er komið var að þeim fyrir nokkrum árum var mosinn næstum óhreyfður. Nú hefur myndast moldar hringstígur um byrginn, sem segir nokkuð um áhugann. Erfitt er að koma auga á þau úr fjarlægð vegna þess hversu vel þau hafa samlagast landslaginu. Þrjú byrgi eru í röð utan við kverkina, en eitt hlaðið inni í henni. Hlaðið skjól er aðeins utar og síðan smá hleðsla. Sunnan og ofan við krikan er eitt byrgi og hringlaga geymsla eða varðturn. Utar með kantinum eru tvö byrgi. Norðan þeirra er hlaðin refagildra. Gengið var yfir hraunið vestur frá byrgjunum. Þar er slétt hraun, sem auðvelt var að fylga upp í Eldvörpin til baka – bakatil við þau.

Tyrkjabyrgi

Í „Tyrkjabyrgjum“.

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum. Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Á þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskbyrgi.

Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgin“ – uppdráttur ÓSÁ.

sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Gengið

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.

Byrgi

Og þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Ranghugmyndir hafa verið uppi um byrgin, allt frá því að Þorvaldur Thorarensen skrifaði um þau á ofanverðri 19. öld. Margir fleiri hafa apað hugmyndirnar eftir.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Staðsetning byrgjanna kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga færðist um tíma að Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum. Verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær fiskgeymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig má sjá dæmi um leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta. 

Gengið

Ákjósanlegt hefur verið að hafa geymslurnar miðsvæðis, hvort sem þær voru frá bæjum á norðanverðum Skaganum, t.d. nálægt Stafnesi, eða frá Grindavíkurbæjunum á sunnanverðu því aldrei var hægt að vita fyrirfram á þeim tíma hvort Þjóðverjar eða Englendingar fengju vorhafnir á hvorum staðnum hvert árið. Reglan var sú að sú áhöfn er fyrst kæmi að höfn að vori héldi henni um sumarið (fyrstur kemur – fyrstur fær).

Nótarhóll

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, austan Nótarhóls við Ísólfsskála, á Seltaöngum og í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan gæti verið sú að þau hafi gleymst eftir að notkun þeirra lauk þegar aðstæður breyttust. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.

Nótarhóll

Nótarhóll – minjar (ÓSÁ.

Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til með sömu lögun, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um innihaldið. Sléttar þunnar hraunhellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast varninginn í byrgjunum.
Hlaðnar refagildrur eru  nálægt við öll fiskibyrgi í nágrenni Grindavíkur. Bendir það til þess að vargurinn hafi ásælst innihaldið. Það gildir einnig um „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.

Eldvörp

Eldvörp – hleðslur í helli.

Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt Byrgifrá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Önnur skýring er til á tilvist byrgjanna og alls ekki sú ólíklegasta. Hún er þessi: „Byrgin í Eldvarparhraunum eru fyrir „stuldfisk“.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Skálholtsbiskup átti nánast allt útræði á sunnanverðum Reykjanesskaganum frá því á 12. öld og fram á 16. öld. Eftir það eignuðust erlendir kaupmenn verslunina. Útvegsbændur í Grindavík líkt og annars staðar þurftu skv. laganna bókstaf að greiða Skálholti eða yfirvaldinu hverju sinni hluta af aflanum, sem annað hvort var fluttur að Skálholti eða seldur til útflutnings. Greindir útvegsbændur eða kotbændur hafa séð sér leik á borði, stolið undan hluta aflans og komið honum í þessar faldar geymslur í ofanverðum hraununum. Þurrkaður fiskurinn hefur síðan verið sóttur þangað ef nauðsyn bar til er sulturinn svarf að. Á einokunartímabilinu, frá 1602 til 1787, hvarf fiskur af Grindavíkurmiðum svo erfitt var um aðdrætti fyrir marga.

Tyrkjabyrgi-21

Þagnargildi hefur ríkt um geymslur þessar svo þær hafa alla tíð verið fáum kunnar.“ Sem sagt; „tyrkjabyrgin“ ku hafa verið með fyrstu skattaskjólum Íslendinga. Með því gæti aldur þeirra framlengst allt fram á 13. öld.
Auðvitað er ávallt „leiðinlegt“ að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan „Tyrkunum“ í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR.

Eldvörp

Fiskbyrgin í Sundvörðuhrauni. Moldarstígur hefur myndast um minjarnar.

Ástæðulaust er að draga úr „sannleiksgildi“ annarra mögulegra ályktana um tilurð og notkun byrgjanna í Sundvörðuhrauni og Eldvörpum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín. Þátttakendur voru um 150.

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.

 

NRTF-varnarstöðin

Naval Radio Transmitter Facility Grindavik“ er sendistöð bandaríska sjóhersins í Grindavík, sem N62 deildin er sögð halda utan um. Hún er virk á stuttbylgju og langbylgju undir kallmerkinu TFK á 37,5 kHz.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

NRTF Grindavík átti upphaflega við um tvo turna fyrir langbylgjuþjónustuna – vesturturninn sem var 243,8 metrar á hæð og austurturninn 182,9 metrar á hæð. Þeir voru þá hæstu manngerðu turnhlutar á Íslandi. Árið 1983 var austurturninum skipt út fyrir nýjan turn af sömu hæð. Í stað vesturturnsins kom nýtt 304,8 metra (1.000 fet) mastur, sem þá varð hæsta mannvirkið á Íslandi.

Áður en framangreindar endurbætur voru gerðar, um 1976, var stöðinni falið að reka 600 feta (180 m) loftnet sitt á mjög lágri tíðni, nokkurri lægri tíðni sem það hafði nokkru sinni áður verið starfrækt á. Það voru nokkrar áhyggjur af því að keyra styttra loftnet á svo lágri tíðni, en 800 feta (240 m) loftnetinu var þegar falið verkefni með hærri forgang. Þegar 600 feta (180 m) loftnetið og sendistöð þess voru stillt á æskilega tíðni og aflgjafa sendisins var aukið í tilskilið stig, bognaði stærsti spólinn í sendistöðinni og eyðilagðist.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Takmarkaður fjöldi varaspóla var fáanlegur í veitukerfinu og var einni þeirra komið fyrir að nýju. Vandamálið var að lág tíðni og samsvarandi hátt viðbragð sem þarf til að enduróma loftnetið leiddi til óeðlilega hárrar spennu við úttak sendistöðvarinnar sem olli því að síðasti og stærsti póllinn bognaði innvortis og eyðilagðist. Lausnin á vandamálinu var að hanna og setja upp annan lokaspólu í sendistöðinni með innleiðni og línulegri lögun sem þurftitil að veita nauðsynlega viðbragð án myndunar ljósboga. HQ hófu nauðsynlegar aðgerðir til að útvega slíka spólu. Capt. Ralph L Spaulding, útskrifaður frá Naval Post Graduate School í fjarskiptaverkfræði, hannaði bráðabirgðaspólu með viðeigandi eiginleikum og áhöfnin í Grindavík smíðaði hana. Fullbúna spólan var um 6 fet á lengd og 2 fet í þvermál, með þurrum valhnetuviði sem notað var til að búa um spóluna. Fullbúinni spólu var komið fyrir á viðarstól í spóluhúsinu, tengda við upprunalegu spólukeðjuna og úttakstengi sendistöðvarinnar. Þetta fyrirkomulag virkaði vel.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin 1958.

NRTF Grindavík var 1999 sigurvegari Defence Information Systems Agency (DISA) Outstanding Transmission Facility Award (Category II), og var í öðru sæti í sama flokki árið 1997. Nýja hærra loftnetið og sendistöðin voru hannað af Donald W. Anderson, PE sem stjórnaði auk þess hönnunar- og byggingaráætlunum á meðan hann starfaði hjá Naval Facilities Engineering Command (NAVFAC), Atlantic. Lokahönnun stöðvarinnar fól í sér marga nýja og endurbætta hluti sem kröfðust samþættingar rafrænnar- og byggingarhönnunar, þar á meðal sendistöð með koparhlífðarhönnun og nýrri uppsetningaraðferð. Allur árangur í hönnuninni bætti til muna fyrri hönnun og hafði að hluta til áhrif á áðurnefnd verðlaun.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

N62 deildinni er skipt í þrjár undirdeildir: N62A, Loftnetsviðhald; N62B, langbylgjubúnaður og ISABPS viðhald; og N62C, stuttbylgjubúnað og viðhald á aukabúnaði.

Í nóvember 2019 var formlega skipaður framkvæmdastjóri til að stýra stöðinni, sem fékk nafngiftina U.S. Naval Computer and Telecommunications Area Masters Station Atlantic Detachment Grindavík, Iceland (NCTAMS LANT DET GRINDAVIK IC).

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1922.

Loftskeytastöðin sunnan Lágafells ofan Grindavíkur var sett á stofn skömmu eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1941. Aðstaðan hefur síðan gefið af sér arð til Félags Jángerðarstaðabænda, en svæðið verið undir stjórn bandaríska flotans. Óljóst er um fasteignaskattgreiðslur til Grindavíkurbæjar þau ár, sem stöðin hefur starfað.
Eflaust hafa verið skiptar skoðanir um staðsetningu stöðvarinnar á sínum tíma. Nú, u.þ.b. 80 árum síðar, er líklegt að deilur um tilvist hennar verði fyrirferðameiri en áður hefur verið því stöðin er á mikilvægu framtíðaríbúðauppbyggingarsvæði bæjarins. Um tíma stóðu grindvísk verkalðsfélög vörslu um stöðina er hún varð að tímabundnu bitbeini.

Grindavík

Grindavík – herforningjakortið 1903.

Eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Kögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur liggur um athafnasvæði sendistöðvarinnar.

Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana. Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum.

NRFT-varnarstöðin

NRTF-varnarstöðin ofan Grindavíkur – möstrin tvö.

Strangar umgengisreglur gilda þarna innvortis. FERLIRsfélagi fékk þó aðgang að svæðinu með það að markmiði að hnitsetja Skipsstíginn, sem liggur þvert um svæðið, auk þess að reyna að staðsetja Kirkjuhólinn, þjóðsagnakenndan álfhól innan þess. Sækja þurfti um leyfi með góðum fyrirvara, fá heimild og mæta hjá framangreindum jakkaklæddum hæstráðanda.

Sá varð reyndar bæði áhugasamur um verkefnið sem og félagsskapinn. Sýndi hann FERLIRsfélaganum upphaflegu „blueprint-inn“ af stöðinni, sem þar eru varðveitt, auk þess þeim hinum sama var leyft að fara frjálsum um svæðið með ákveðnum fyrirvörum umleikis áhættusvæðin nálægt möstrunum.
Landssvæðið, sem loftskeytastöðin er á, var fyrrum nefnt „Eldvörp“ og það ekki af ástæðulausu. Fjölmörg eldvörp voru þarna ofan Járngerðarstaða, en þau voru nánast öll jöfnuð við jörðu með tilkomu athafnarýmis loftskeytastöðvarinnar. Svo virðist um sem um gervigíga hafa verið að ræða.

Hafa ber í huga að fyrrihlutinn að þessum texta er „transleitaður“ af engelsku yfir á íslensku. Þar gæti einhverju „skipað að sköpluðu“.
Sjá meira um loftskeytastöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Naval_Radio_Transmitter_Facility_Grindavik
-Wikimedia Commons has media related to Grindavík transmission towers. References Donald W. Anderson, PE
-https://www.secnav.navy.mil/doni/Directives/05000%20General%20Management%20Security%20and%20Safety%20Services/05-400%20Organization%20and%20Functional%20Support%20Services/5400.2305.pdf[bare URL PDF]
-http://www.globalsecurity.org/military/facility/grindavik.htm
-https://ferlir.is/skipsstigur-um-loftskeytastodina-ofan-grindavikur/

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar.

Eldvörp

Haldið var í Eldvörp.

Eldvörp

Eldvörp.

Þegar þangað var komið var dregin upp loftmynd af svæðinu og farið vandlega yfir hana. Forvitnileg göt var að sjá við einn gíganna í suðri. Áður en lagt var af stað var komið við í Brauðhellinum og skoðaðar hleðslurnar. Hitaveita Suðurnesja hafa gengið snyrtilega frá umhverfi opsins, en þegar framkvæmdir stóðu sem hæst hafði verið gengið óþarflega nærri skútanum. Þá voru skoðaðar hleðslur nokkuð austar við Brauðstíginn. Annað hvort hafa þær verið í tenglsum við fjárhald á svæðinu (hugsanlega útilegumanna) eða refaveiðar (stýringu lágfótu frá hraunbrún, sem þarna er).
Jarðlægur einir er eitt af sérkennum Reykjanessins. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum.

Eldvörp

Eldvörp.

Klepragíganir mynda svo til beina röð til suðvesturs og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll. Farið var ofan í nokkur þeirra, en rásirnar voru frekar stuttar. Þó mætti fara lengra ef skriðmönnum væri ekki annt um brækurnar sínar því hraunið í botnrásunum er víða allhrjúft.
Við leit fundust nokkrar rásir yfir 20 metra langar. Og þá gerðist það allt í einu sem svo oft fyrr; lítið gat, hleðsla, rásir upp og niður og inni voru greinilegar mannvistaleifar.

Eldvörp

Mannvistarleifar í helli í Eldvörpum.

Þarna hafði enginn stigið fæti í alllangan tíma. Mosinn á gólfinu var óhreyfður með öllu. Í efri rásinni var steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Teknir voru gps-punktar. Ummerki í þessum helli er svipuð og í Brauðhellinum. Hraunhellurnar voru ekki úr hellinum sjálfum. Þær höfðu greinilegar verið færðar þangað og raðað upp í einhverjum tilgangi. Eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær það var notað. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum.

Mannvistaleifar

Mannvistarleifar í skúta.

Haldið var í efri Eldvörpin, nú með 8 metra langan stiga meðferðis. Burnirót í mosa og fallegar hraunæðar á leiðinni. Hraunið molnaði undan fæti.

Þegar komið var á staðinn reyndist stiginn því miður of stuttur í annan endann. Þegar dýpið á niðurfallinu var mælt reyndist það vera yfir 5 faðmar. Niðri er rás og hellir. Skessuhár (usne subfloridana – ísl. flétta) óx á börmum. Fléttan er ljósgræn og léku sólargeislarnir við hana á annars dökkum kleprunum.
Farið var niður fyrir gatið og stiganum stungið niður í annað uppsstreymi þar með von um að hægt væri að komast þaðan inn í það efra. Þegar niður var komið reyndist þar vera djúp gjá í rásinni og lá hún inn undir gígana. Sá sem færi þarna niður þyrfti að hafa band um sig til að týnast ekki. Ákveðið var að staldra við og freysta þess að semja við BYKO eða Húsasmiðjuna um að kosta næstu ferð með stiga á þeirra kostnað, a.m.k. 12 metra langan. Forvitnilegt væri að sjá hvað undirniðrið hefur upp á að bjóða. Teknir voru gps-punktar.

Eldvörp

Eldvörp – undirniðrið skoðað.

Gengið var niður sólbakaðan grámosann (gamburmosann). Þurfti þá einn leiðangursmanna endilega að stíga ofan á einu burnirótana sem náð hafði festu á svæðinu. Honum var fyrirgefið því stiginn, sem burðast var með, hafði byrgt útsýnið. Mikilvægt er að gefa gróðrinum á svæðinu þá möguleika, sem hann á skilið eftir harðbýlið og baráttuna við náttúruöflin.
Á bakaleiðinni var komið við í vegavinnubúðunum á Gíghæð og þau skoðuð enn einu sinni. Ætunin var að kíkja ofan í Dolluna, en annars nýtilkominn stiginn hafði verið fjarlægður úr henni. Ekki tók því að setja þarna niður hinn 8 metra langa stiga úr því sem komið var.
Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt fyrir vegagerðamennina – sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð. Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægur þáttur í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 2 klst og 12 mín.
Sjá meira um Eldvörp HÉR, HÉR og HÉR, HÉR, HÉR og einkum HÉR. Auk þess HÉR og HÉR.

Eldvörp

Eldvörp – útilegumannahellir.