Tag Archive for: Garðabær

Setbergssel

Vestan við Kershelli sér niður á grassvæði. Þarna var selstaða Setbergs í Garðahreppi hinum forna (nú að mestu í Hafnarfirði).

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur) gamla liggur niður um selstöðuna og áfram í gegnum hana uns hún sveigir að Þverhlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.
Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir, öðru nafni fyrrnefndur Ketshellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir, öðru nafni Selshellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Skammt sunnar má sjá hlaðinn stekk selstöðunnar. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir. Hamarkotsselsfjárhellir hægra megin.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Kershellir

Í Kershelli.

Um það bil 50 metrum austar og nær Smyrlabúðarhrauni, steinsnar frá Selvogsgötunni er hinn eiginlegi Kershellir í jarðfalli. Honum lýsti Ólafur Þorvaldsson á leið sinni um Selvogsgötuna.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Hann gat réttilega um að menn úr félaginu Hvati hafi helgað sér hellinn laust eftir aldamótin 1900, sem varð til þess að margt manna lagði þangað leið sína til að skoða hann. Kölluðu þeir hann Hvatshelli, sem varð til þess að Kershellisnafnið féll í skuggann um árabil.

Kershellir

Kershellir. Setbergssel og Hamarkotssel fjær t.v.

Ólafur gefur eftirfarandi lýsingu: Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.

Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á skömmum tíma.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Flatahraun

Gengið var frá Fjarðarkaup við Flatarhraun, framhjá Stekkjarlaut (þar sem sjá má tóft stekks) og inn á Flatarhraun skammt norðaustar. Ætlunin var að komast inn á Hraunsholtselsselstíg. Hann fannst fljótlega, enda vel greinlegur í hrauninu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Eftir að hafa fylgt Hraunsholtsselsstíg suður hraunið var komið að Hádegishól syðst í Flatahrauni (Vífilsstaðahrauni/Garðahrauni). Sunnan undir hólnum, sem eru landamerki og framhalda af Engidalsvörðunni (vörðunni vestan Hrafnistu og vörðunni við Balaklöpp) yfir í Miðdegishól, eru svokallaðar leifar selsins, en það hefur að mestu leyti verið skemmt vegna framkvæmda við iðnaðarhverfið í Garðabæ. Annars er það merkilegt hversu sumir láta sig litlu skipta menningarverðmæti, ef þau eru sannanlega í öðrum umdæmum, litlu skipta. Það hefði einhvern tímann verið kallað smáborgarahugsunarháttur. Tekið hefur verið úr hólnum að sunnanverðu, en þó má sjá votta fyrir selstóftunum ef vel er að gáð (6404906-2156032).

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur vestan hólsins, í lægðum í hrauninu og yfir að Hraunsholti. Norðan þess eru garðar og hleðslur á tiltölulega sléttu hrauni. Vestar er gamla þjóðleiðin um Engidal, Engidalsvegur, en enn sést hann greinilega á bak við fyrrnefnda verslun; Fjarðarkaup.
Sunnan undir Miðdegishól eru hleðslurnar undir fyrirhugaða járnbraut, sem til stóð að leggja frá Hafnarfirði og yfir hraunið skömmu eftir aldamót 1900. Brautin er svo til bein í gegnum hraunið, rétt áður en komið er yfir austurbrún þess. Hún lá áður svo til alveg niður í Hafnarfjörð, en nú stendur þessi spotti einn eftir sem dæmi um stórhug og hið mikla áræði umfram samtímann.
Veður var frábært – sól og logn. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Hraunsholt

Hraunsholt og Flatahraun.

Gvendarsel

Ákveðið var að skoða a.m.k. þrjú sel á Reykjanesi. Fyrir valinu urðu Vífilsstaðasel, Gvendarsel og Flekkuvíkursel. Þessi sel eru ekki beinlínis hvert ofan í öðru, en eiga það öll sameiginlegt að tiltölulega stutt er að ganga í þau frá vegi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekið var upp línuveginn í Vífilsstaðahlíð og spölkorn inn fyrir háhæðina. Vífilsstaðaselið er skammt innan við Vífilsstaðahlíðina þar sem hún er hæst á milli og vestan við Grunnuvötn. Á kortum er það sýnt norðar og vinstra megin við línuveginn, en er í raun hægra megin í grasigróinni hvilft inni á milli holta, opinni til norðvesturs. Tóftirnar eru norðaustan undir holtinu. Svo virðist sem kví hafi verið sunnan við þær. Ofan og norðar við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Vel gróið er í hvilftinni. Selstígurinn lá frá Vífilsstöðum um Ljósukollulág þarna skammt norðvestan í hlíðinni. Þá má einnig sjá götu niður og norður frá Gunnuvötunum, í lægðinni milli Vífilsstaðahlíðar og Sandhlíðar að austanverðu.
Þá var haldið að Gvendarseli utan í Gvendarselshæðum suðaustan við Kaldársel. Ekið var eftir línuvegi frá Bláfjallavegi og inn með hæðunum að vestanverðu, ofan Undirhlíða. Gvendaselsgígar eru norðar.
Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, Um Slysadal, Leirdal og Fagradal.

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Þar mun hafa verið svonefndur Gvendarhellir. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta. Þeir, sem skrifað hafa um Gvendarsel, hafa álitið að þar hafi í rauninni aldrei verið sel, enda “engin merki þess.” Ef draga á ályktun af tóftunum er líklegt að annað hvort hafi staðið til að hafa þarna selstöðu eða að hún hafi verið þar í skamman tíma. Afstaða tóftanna er sú sama og í flestumöðrum seljum á Reykjanesskaganum. Talið er að nafngiftin sé Guðmundar Símonarsonar, bónda á Setbergi, fósturfaðir Guðmundar Tjörva Guðmundsssonar síðar bónda í Straumi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var haldið að Flekkuvíkurseli ofan við Hrafnhóla á Vatnsleysuströnd. Farið var eftir línuveginum vestan Afstapahrauns. Selið er undir og norðan við ás, Seláss eða Flekkavíkuseláss í u.þ.b. 5 mínútna gang frá línuveginum á móts við Bræðravörðurnar þar norðan við veginn. Þessar vörður eru hægra megin þegar línuvegurinn er ekinn til vesturs. Þetta eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Bræður sjást mjög vel ffá Reykjanesbraut þegar ekið er upp hæðina suður frá Kúagerði. Frá selinu eru vörðurnar í stefnu á Stóra-Hrafnhól en hann stendur rétt neðan við brautina (hægra megin). Um er að ræða miklar tóftir á nokkrum stöðum. Við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Ásinn greinist samkvæmt gömum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkuselás og Nyrði-Flekkuvíkurselsás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Vatnsstæðið er á ásnum ofan og norðan við þær. Norðan við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Austan við stekkinn er greinilega mjög gömul tóft. Enn austar, í hraunhólsbolla, eru hleðslur, líklega stekkur. Gæti verið frá gamla selinu, sem er þar skammt norðar. Talið er að síðast hafi verið haft í seli þarna um 1891 eða ’92. Líklegt er þó að selið hafi staðið upp enn um sinn og menn og fé leitað þar skjóls, eða þangað til það hrundi endanlega veturinn 1916.
Veður var frábært þennan dag – sól og blíða.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-Íslandskort 1942.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Arneshellir

Frægasti útlegumaður hér á landi, fyrir utan Fjalla-Eyvind, var Arnes Pálsson.

Arneshellir

Myndir með textanum eru teknar á Þorrablóti FERLIRs í Arneshelli.

FERLIRsfélagar fengu tækifæri til að berja hann augum þar sem þeir voru við þjóðkræsingar í Hraunsholtshelli eitt síðdegið á þorranum. Arnes birtist þá þar skyndilega í “ímynd” sinni. Á broddstaf í annarri hendi hafði hann dauða gæs, en öxi í hinni. Var hann greinilega að sækja í sjóð þann er hann hafði falið í hellinum um fjórðungsárþúsindinu fyrr. Hann komst þó undan við glettur og hvarf út í hríðina, enn einu sinni.
Arnes þessi Pálsson gerðist sekur fyrir endurtekna stórfellda þjófnaði og var að lokum dæmdur af stiftamtmanni til ævilangrar tugthúsvistar. Í bréfabók stiftamtmanns þeirra tíma var Arnes titlaður „den störste af alle Forbrydere i det islandske Tugthus“, eða mestur allra glæpamanna í hinu íslenska fangelsi. Sakaskrá Arnesar Pálssonar var löng og er á henni, rétt eins og á lífi hans öllu, mikill þjóðsagnablær.
Árið 1765 komst Arnes undir manna hendur og við réttarhöld sagðist hann vera fæddur á Seltjarnarnesi og hafa alist upp á Kjalarnesi. Hann væri 37 ára og því fæddur árið 1728. Arnesi Pálssyni er líst svo í sakamannalýsingu Arnórs Jónssonar sýslumanns Borgfirðinga sem hann birti á Alþingi árið 1756: „…smár vexti, smá-og snareygur með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur með litla hári vaxna vörtu neðarlega á kinnbeini, gjörnum á að brúka það orðtak: – Karl minn.
Arnes á að hafa brotist inn í Brautarholtskirkju og stolið þaðan 50 ríkisdölum.
Arneasarhellir Arnes fékk fyrsta dóminn fyrir slæðuþjófnað frá vinnukonu, síðan bættust við sauðir, fiskar o.fl. Úr Brautarholtskirkju rændi hann peningum (krónum og spesíudölum), en þá átti Þorvarður lögréttumaður Einarsson. Faldi Arnes peningapokann (í helli) í Garðahrauni (nálægt Hofstöðum), og sótti í hann þegar með þurfti. Var hann þar undir verndarvæng Þorkels bónda á Hofstöðum, sem seinna komst í bölvun fyrir aðstoðina og var dæmdur til kaghýðingar, brennimerkingar og þrælkunnar ævilangt í Brimarhólmi.
Armes þótti óþýður og grimmur í skapi og fégjarn mjög, grobbinn. Hann hafði stórt ör á kinn eftir klaufhamar. Hann var útilegumaður í 9 ár, en hafði þó athvarf víða á bæjum, t.d. í Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslum. Var hann í “yfirhilmings lausamennsku” eins og sagt var. Var Arnes í vinnumennsku í 3 ár hjá Fjalla-Eyvindi og Höllu þegar þau bjuggu í Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Eftir afbrot á Kjalarnesi og Akranesi stakk hann svo af til Vestfjarða en kom þaðan aftur og hafðist við í helli í Akrafjalli og svo í nokkrum kotum þar sem nú er Innri-Akraneshreppur. Á daginn hafðist Arnes við í helli sínum í fjallinu og stundaði hann sauðaþjófnað og stal auk þess af bæjunum í kring. Um nætur hafðist hann hvað mest við á bænum Másstöðum og svo í Móakoti og gerði hann heimilisfólkið að Móakoti meðsekt sér. Fræg er sagan þar sem bændur í grennd við Akrafjall söfnuðu liði til þess að fanga Arnes.
„Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit.
En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.“

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Nóttina eftir kúrði Arnes í klettaskoru og bjó hann sig svo til brottfarar um morguninn. Þá var ferðinni heitið inn í Hvalfjörð, nánar tiltekið Botnsdal. Nokkrir bæir á þessum slóðum eru nefndir til sögunnar sem næturgriðarstaðir Arnesar, s.s. Botn í Botnsdal, Skorhagi í Brynjudal og Brekka og Sjávarhólakot á Kjalarnesi. Nokkuð ævintýralegri dvalarstaður Arnesar er einnig nefndur, en það er hellir nokkur í norðaustur hlíðum Hvalfells. Þar gengur höfði fram í vatnið og heitir þar Arnesarhellir. Segir sagan að í þessum helli hafi Arnes haft vetursetu og eiga að hafa fundist þar bæði rúmbálkur, kambur og leifar gamalla beina.
Eftir þetta flæktist Arnes norður á Strandir, en þar notaði hann dulnefnið Jón Árnason. Þar hitti hann þau Fjalla-Eyvind og Höllu, ásamt útilegumanninum, Abraham Sveinsson. Eftir að hann hafði dvalið með þeim í nokkurn tíma kom upp misklíð í hópnum sem endaði með áflogum og fékk Arnes stórt sár á annan fótinn, að eigin sögn.
Arneasarhellir Arnes Pálsson komst loks undir mannhendur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi á dómþingi á Esjubergi. Einnig var bætt við brennimarksdómi en Arnes slapp við þann dóm. Arnes hafði lag á að hafa hlutina eftir sínu höfði og í tugthúsinu naut hann forréttinda og hafði löngum sína hentisemi. Í tugthúsinu var hann m.a. dyravörður, eins konar verkstjóri hinna fanganna, að ógleymdu því hlutverki sem hann fékk, að fræða samfanga sína um kristindóm. Fyrir þetta fékk hann þóknun og ýmiss fríðindi. Arnes eignaðist þrjú börn í lausaleik á tugthúsárum sínum, en hann sat inni í 26 ár. Hann var þá látinn laus samkvæmt konungsúrskurði og varð síðan niðursetningur og dó árið 1805 í Engey og jarðaður í kirkjugarðinum við Surðurgötu, 86 ára gamall.

Arnesarhellir

Arnesarhellir í Akrafjalli.

Sagan af Arnesi er dæmigerð íslensk útilegumannasaga. Söguhetjan er sveipuð hetjuljóma, sleppur ævintýralega frá leitarmönnum og lifir hættulegu lífi fram á ystu nöf. Sök Arnesar var þjófnaður, og hann var nokkuð stórtækur í þeim efnum. Ekki er neitt minnst á kvennafar hans nema á seinni árum þegar hann var kominn í tugthúsið. Í þeim heimildum sem við lásum um Arnes, er honum ekki lýst sem óþokka og glæpamanni. Þó væri rangt að segja að um hann væri fjallað á hlutlausan hátt, því ekki er laust við að um hann sé fjallað á ofangreindan hátt, þ.e.a.s. sem hugrakka hetju. Fyrr á tímum var fólki oft refsað fyrir þjófnað þó svo að þjófnaður hafi oft verið algjört örþrifaráð fólks. Margir bjuggu við sára fátækt og oft stóð valið á milli þess að svelta heilu hungri eða stela og þurfa þá jafnvel að taka afleiðingunum. Það er hvergi minnst á hag Arnesar áður en hann lagðist út, en að öllum líkindum hefur hann ekki verið upp á marga fiska. Kannski hefur ævi Arnesar Pálssonar ekki verið jafn dramatísk og lýst er í sögubókum. Og þó, það er oft erfitt að greina á milli þjóðsagna, munnmæla og sögulegra heimilda.

Af http://www.fva.is/~isl703/dhs/arnes.html

Heimildir:
-Frásagnir – Árni Óla – 1955
-Kristján Jóhannsson -Innsveitir Hvalfjarðar – Höfundur gefur út Reykjavík 1989
-Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar – Jón Helgason -Ferðafélag Íslands – Reykjavík, 1979
-Söguferð – bæ frá bæ um Borgarfjörð – Samantekt efnis: Ingibjörg Bergþórsdóttir
-Ferðamálasamtök Mýra- og Borgarfjarðarsýslu – Reykjavík, 1994

Arneshellir

Í Arneshelli.

 

Gálgaklettar

Gengið var frá Skerseyri um Langeyri, litið á landamerkjavörðu Hafnarfjarðar og Garðabæjar neðan Bala, kíkt undir Balaklöppina, haldið yfir að Garðalind, skoðuð verk steinsmiðsins mikla frá Görðum, spáð í Völvuleiði og Garðastekk og síðan Sakamannagatan gengin að Gálgaklettum.
Skerseyri og Skerseyrarmalir var nefnd fjaran frá gamla Hafnargarðinum út að Langeyri. Langeyri var í raun stutt eyri á Langeyrarmölum, en hún náði allt að Markavörðunni á Balaklöppum.

Balavarða

Balavarða.

Á Balaklettum var gengið að Markavörðu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, sagði eitt sinn að þeir bæjarstarfsmenn hefðu gengið að markavörðunum í landi Hafnarfjarðar og “gert þær varanlegri með steinsteypu.” Þannig hafi þeir “steypt upp hlöðnu vörðurnar á Balakletti, í Engidal við Hafnarfjarðarveginn, á Miðdegishól, á Hádegishól, við Setbergsfjárhelli, við Markrakagil og víðar.
Skarfur þakti klappirnar utan við ströndina.
Guðmundur Kjartansson kannaði mó og jurtaleifar við Balakletta um 1970. Reyndist aldur jurtaleifanna verð aum 7000 ára, en niðurstaðan gefur til kynna hvenær Búrfellshraunið (Garðahraun) hefur runnið. Nokkru austar er Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar. Bali er ofan við kampinn.

Bali

Bali – Sléttubraut.

Til fróðleiks má geta þess að austan undir Balatúni er vegarspotti, kallaður Sléttubraut. Sigurgeir Gíslason, vegaverkstjóri, lagði þennan veg, en nefndur Sigurgeir var m.a. verkstjóri við Gamla Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918.
Þá tóku við Dysjar. Gengið var framhjá Dysjatjörn, en á flóðum flæðir inn í hana.
Þá var gengið um land Pálshúss og síðan áfram um Garðamýri, inn á Lindargötu og eftir henni að Garðalind. Skammt vestar var Sjávargatan frá Görðum. Hlaðin brú er á götunni neðan við lindina, aðalvatnsból Garðhverfinga. Við lindina liggur gríðamikið bjarg, Grettistak. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi eins og svo algengt var um allt Reykjanesið og víðar.

Garðar

Garðar – legsteinn.

Við Garða má sjá mikla garða. Á loftmyndum má t.d. sjá Garðatúngarð. Garðinum var skipt í Vesturgarð og Austurgarð. Bærinn Krókur stóð við Austurtúngarð og Krókstún niður við bæ. Vestan og neðan kirkjugarðs var Sjávargatan (Gata) niður að sjó. Við sjávargötuna var þurrabúðin Hóll. Sjá má tóftir hennar neðan við norðvesturhorn kirkjugarðsins.
Margir telja að Garðar séu landnámsjörðin í Álftaneshreppi hinum forna, en hún hét Skúlastaðir. Ekki liggur þó fyrir með óyggjandi hætti hvar Skúlastaðir voru, sbr. Skúlatún ofan Undirhlíða.
Garðakirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Í Garðasókn eru tvær kirkjur: Garðakirkja og Vídalínskirkja. Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80 og Pétur Sigurgeirsson, biskup, vígði hana á öðrum degi hvítasunnu. Kirkjan er úr hlöðnu grjóti úr holtinu fyrir hana.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Hinn 20. desember 1914 var nýja kirkjan í Hafnarfirði vígð og frá sama tíma var Garðakirkja formlega lögð niður. Gekk nú á ýmsu uns konur í Garðahreppi tóku málið í sínar hendur á öndverðu ári 1953 og hafði kirkjan þá verið rústir einar að heita má í aldarfjórðung. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Björn Th. Björnsson listfræðingur velti fyrir hver steinsmiðurinn mikli í Görðum væri. Í þeim vangaveltum kom m.a. fram eftirfarandi:
“Allt of lengi hefur það farið fram hjá mönnum, að hér syðra, í næstu nálægð höfuðstaðarins, eru til slík steinhöggsverk sem vekja jafnt undrun og aðdáun á þeim ókunna manni sem beitti þar hagleik sínum. Er þar átt við svokallaða ,,Garðasteina“ stóra legsteina í kirkjugarðinum í Görðum á Álftanesi og í nálægum görðum, Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd, úr kirkjugarðinum á Gufunesi í Mosfellssveit og á Þingvöllum. Allt eru þetta stórir steinar, sem næst í grafarstærð, höggnir úr ljósu grágrýti með frábæru klassisku letri og margvíslegri myndskreytingu. Grjót þetta virðist steinafræðingum annaðhvort vera úr Garðaklettum eða úr hömrunum á Setbergi, þar skammt frá.

Garðalind

Garðalind.

Vel má ímynda sér verkferilinn við slíkt steinhögg: Fyrst að kljúfa tilætlaðan stein úr berginu, og þá líklegast með frostþenslu trékíla, svo sem reykvískir legsteinasmiðir gerðu síðar á Skólavörðuholti. Næst er að flytja steininn heim á þann stað þar sem hann á að vinna. Kemur þar naumast annað til greina en sleði á vetri. Kemur þá að því þolinmæðisverki að jafna steininn undir og yfir, slétta hann ofan og fága, höggva brúnir. Loks kemur að hagleiksverkinu sjálfu: mæla út og reikna fyrirferð letursins, stað myndskreytinga og jafnvel teikna fyrir þeim. Eftir allt þetta kemur loks til meitils og hamars, þar sem smiðurinn situr á steininum og stýrir eggjárninu um hina fögru stafi. Allt er letrið á þessum steinum hrein antikva, þ.e. rómverskt jafnstilka letur, oftast með fæti og höfði, andstætt steinskriftarletri, sem hann notar samt á elzta steininn.
Þegar hugað er að aldri legsteina, hafa þeir það fram yfir flest önnur hagleiksverk, að ártals er þar getið. Markar það tímann á eldri veginn, en mörg dæmi eru hinsvegar til þess að minningarmörk séu gerð alllöngu eftir andlát og greftrun manns.

Garðar

Legsteinn yfir guðmund Sigurðsson í Garðakirkjugarði.

Í sögu lærðra manna á 17. öld er aðeins einn mann að finna sem uppfyllir kosti steinsmiðsins, og þá ekki sízt um stað og tíma. Sá maður er Þorkell Arngrímsson sem var guðsþénari í Görðum á Álftanesi um nær tvo áratugi, frá 1657 eða ’58 og til dauðadags 1677, á þeim tíma sem flestir steinarnir eru höggnir.
Líklegt er um mann með þann feril, að hann hafi verið vel búinn tækjum og áhöldum til viðureignar við steina, enda stóð hugur hans svo lítt til prestsskapar, að hann segir í bréfi til biskups 1657, að ,,höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke er að knýja mig mig til þess að taka Garða á Álftanesi“; hefur viljað hafa slíkan vísindamann nálægt sér. En þar sem ekki var af öðru lífvænt hér á landi, gekkst hann undir það jarðarmen árið 1658. Ekki varð prestskapartíð Þorkels Vídalíns með neinum friði, heldur eilífum róstum og ákærum sóknarbarna hans, enda hefur hugur hans staðið til annars frekar en messusöngs yfir illviljuðum sálum.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Í stað slíkra leiðindaverka rannsakaði hann hverina á Laugarnesi, brennisteinsnámurnar í Krýsuvík og Surtshelli, og meitlaði steingervinga úr berglögum handa erlendum vísindamönnum. Milli þess hefur hann setið á hlaðinu heima í Görðum og hoggið út þessa makalausu legsteina. Enn er slíkt þó tilgáta ein og til frekari rannsókna.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan við Álftanesveg. Þar lá vegurinn (Fógetastígur) um til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Nafnið er frá þeim tíma er dómsvaldið var á Bessastöðum. Eins og fram hefur komið í öðrum FERLIRslýsingum (t.d. FERLIR- 541) um svæðið er Gálgahraun hluti Búrfellshrauns. Við stíginn má sjá vörðubrot og hleðslur á a.m.k. tveimur stöðum. Ekki er útilokað að þar kunni að leynast dysjar genginna vegfarenda.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Garðaholti ofan Dysja.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur (sjá FERLIR-541), lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu.
Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn.

Garðagata var reiðgata eða stígur frá Garðahliði norður yfir Garðaholt, fast austan við skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni, vestan Götuhóls, norður í Álftanesstíg. Við nefnda Garðagötu er dys, vinstra megin þegar gengið er til norðurs, norður undir Garðaholti. Öllu sennilegra er að þarna sé um Mægðnadys að ræða, enda við götu þar sem algengt var að dysja látna ókunna ferðalanga.
Skotbyrgi frá stríðsárunum eru í Garðaholti sem og skotgrafir frá þeim tíma. Ein þeirra tekur í sundur Garðagötuna hina fornu efst á hæðinni. Að norðanverðu má sjá hana síðan liðast niður hlíðina, í átt að Álftanesvegi hinum nýja.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Utan í vesturhraunbrún Gálgahrauns, norðan við Krummakletta, er Garðastekkur, allstór hraunhlaðin fjögurra hólfa rétt, sem notuð var fram til 1930. Leifar af fimmta hólfinu sést enn. Þar hjá er gróin tóft er gæti hafa verið stekkurinn sjálfur. Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá síðustu öld, en um 200 m norðan við stekkinn er gömul hleðsla í hraunbrúninni, sem gæti verið leifar af eldri stekk. Á hraunbrúninni ofan við réttina er gömul fjárborg, sem enn sést móta vel fyrir.

Fógetagata

Fógetastígur.

Fógetastígurinn liggur þarna upp í Gálgahraunið skammt norðar. Hann var alfaraleiðin um hraunið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið; liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.

Utar með Lambhúsatjörninni var Selskarð. Bæjarhóllinn í Selskarði er hár og greinilegur og fast upp við þjóðveginn að austan. Hann geymir leifar eftir a.m.k. 600 ára mannvist og eflaust talsvert eldri. Telja má þær til merkustu fornleifa á þessu svæði.

Gálgastígur

Sakamannagata.

Gálgahraunsstígurinn nyrðri (neðri) var einnig nefndur Gálgastígur eða Sakamannastígur. Þegar komið var yfir hraunhrygg á stígnum birtust Gálgaklettanir framundan, seiðmagnaðir, svartir upp úr annars hvítum freranum í einum mestu vetrahörkum nóvembermánaðar síðan 1985. Gálgaklettarnir eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi. Í raun er um háan hraungúlp, glóandi kvikuhólf, að ræða er lokast hefur af í storknandi hrauni og flætt hefur frá allt um kring. Við það myndaðist margklofinn hraunhóll sem svo algengt er í hraunum Reykjanesskagans. Ef skoðað er umhverfi Gálgakletta má sjá jarðfræðilega skál vestan þeirra.

Líklega hefur hún verið betrumbætt að hluta, en hún er a.m.k. vel gróin með mynduðum veggjum.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Þarna gætu hafa farið fram einhvers konar atfhafnir fyrrum. Stígurinn upp í klettana að vestanverðu liggja upp með garðinum. Skammt er þaðan upp að klofinu, þar sem þvertré á að hafa verið yfir og reipi niður úr. Ef vel er að gáð má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna. Vel má gera sér í hugarlund hvernig aftakan hefur gengið fyrir sig því aðstæður tala sínu máli – þó ekki væri annað en að horfa frá klofanum uppi í klettunum heim að Bessastöðum, þar sem yfirvaldið hefur setið, sæmilega öruggt, og séð þegar “réttlætinu” var fullnægt. Sagnir eru bæði um að farið hafi verið með sakamennina gangandi að Gálgaklettum frá dómsuppkvaðningu í Kópavogsþingi (stað erfðahyllingarinnar) eða á bát frá Bessastöðum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Úr því fæst ekki skorið nema beint „samband“ náist við einhvern, sem þekkti til. Annars eru Gálgaklettar ágætt dæmi um andspænistákn samfélagsins; sjálfstöku samtvinnaðs embættisvalds og dómsvalds annars vegar og vonlitla baráttu alþýðufólksins gagnvart hvorutveggja hins vegar ef þannig skipaðist veður í lofti. Oft mátti lítið út af tilviljunum bera hjá hinum síðarnefndu til að “friðþæg” yfirstéttinn gripi til geðþóttaákvarðana. Í rauninni hefur lítil breyting orðið þar á, þótt “myndbreytingin” sé nú önnur en var. Staðreyndin er sú að margur “baráttumaðurinn” var því miður dæmdur saklaus eða fyrir litlar sakir og varð gert að taka afleiðingum, ekki endilega af sínum gerðum, heldur af hugdettum og ákvörðunum annarra að tilteknum ákveðnum hagsmunum – líkt og enn tíðkast. Dæmi þar um er dómurinn yfir Hólmfasti forðum. Þjóðfélagið hefur í rauninni lítið breyst þrátt fyrir aukna reynslu og aukna menntun – því miður.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Gálgaklettarnir í Gálgahrauni eru ágæt áminning þar um.
Lengi voru munnmælasögur um bein í skútum í hrauninu við Gálgakletta, en Gísli Sigurðsson telur líklegt að sakamenn hafi að henginu lokinni verið dysjaðir í Gálgaflötinni skammt norðan við Gálgakletta.

Gengið var um Gálgahraun yfir að Fógetastíg, hina fornu leið um Gálgahraun frá Reykjavík og Bessastaða, og hann rakin til vesturs og síðan gengið um Hafnarfjarðarhraun, stystu leið að upphafsstað.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifakönnun – FL FS087-99081 – 1999 – OV
-www.nat.is
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/steinsmidur.html
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001
-Saga Hafnarfjarðar – 1983.

Garðahverfi

Garðahverfi – Örnefnakort – ÓSÁ.

Urriðakot

Í Þjóðviljanum árið 1967 mátti lesa eftirfarandi um bruna Urriðakotsbæjarins:
„Slökkviðliðinu í Hafnarfirði var tilkynnt að eldur væri laus í Urriðakoti um klukkan tvö í gær. Urriðakot er eyðibýli fyrir ofan Setberg við Urriðavatn. Voru húsin orðin hálfónýt en notuð sem gripahús. Brunnu húsin til grunna og slökktu slökkviliðsmennimir í rústunum.“
Urridakot-221Í Morgunblaðið þennan sama dag var skrifað: „Í
 gær kom upp eldur í húsum á jörðinni Setberg, sem er rétt ofan við Hafnarfjörð. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var eldurinn töluvert mikill, en þó tókst fljótlega að ráða að niðurlögum hans. Ekki hefur verið búið í húsum þessum lengi og eru þau í niðurníðslu. Reyk sást leggja þaðan sl. þriðjudag og (fór þá fólk til að slökkva eldinn, en slökkvilið Hafnarfjarðar var ekki kvatt út. Er talið líklegast að neistar hafi enn leynst 5 húsunum þegar fólkið fór og eldurinn svo blossað upp að nýju. Líklegast hefur einhver verið á ferðinni þarna með eld og kveikt í, viljandi eða óviljandi.“
Í Morgunblaðinu árið 1988 mátti lesa eftirfarandi eftir Guðmund Björnsson um síðustu ábúendurna í Urriðakoti:
„Móðursystir mín, frú Vilborg Guðmundsdóttir, andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 22. þ.m. 94 ára að aldri. Vilborg fæddist í Urriðakoti í Garðahreppi 24. apríl 1894 dóttir hjónanna Guðmundar Jónssonar og Sigurbjargar Jónsdóttur. Var hún þriðja barn þeirra hjóna af tíu, sem upp komust. Guðmundur hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum.
Urridakot-222Faðir Jóns Þorvarðssonar, föðurafa Vilborgar, var Þorvarður Jónsson bóndi á Vötnum í Ölfusi, en kona hans var Guðbjörg Eyjólfsdóttir bónda og hreppstjóra á Kröggólfsstöðum. Þorvarður var sonur Jóns Sigurðssonar á Bíldsfelli í Grafningi, sem var fæddur 1746 í Nýjabæ í Ölfusi. Föðuramma Vilborgar var Jórunn Magnúsdóttir frá Litlalandi í Ölfusi, Magnússonar, Beinteinssonar bónda í Þorlákshöfn, en móðir Jórunnar var Herdís Þorgeirsdóttir bónda á Litlalandi.
Móðurforeldrar Vilborgar voru Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi í Garðahreppi, sem er næsti bær við Urriðakot, og kona hans, Vilborg Jónsdóttir, sem ættuð var frá Einholti í Biskupstungum. Jón á Setbergi var sonur Guðmundar Eiríkssonar, sem nefndur var „hinn ríki eða sauðglöggi“ og löngum hefur verið kenndur við Haukadal í Biskupstungum en bjó síðast í Miðdal í Mosfellssveit. Kona hans var Guðbjörg Jónsdóttir frá Ósabakka af Hörgsholtsætt. Jón á Setbergi átti 18 börn og er hann ættfaðir Setbergsættarinnar og er margt kjarnafólk komið af þeirri ætt eins og af Bíldfellsættinni.“

Heimildir:
-Þjóðviljinn 8. júní 1967, bls. 12
-Morgunblaðið 30. okt. 1988, bls. 63.

Urriðakot

Urriðakot 2005.

Búrfellsgjá

Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann.

Tóftir við Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. Ýmis merki megi sjá þar enn þann dag í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð”.

Smyrlabúð

Minjar við Smyrlabúð.

Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að nefndir garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir á milli þess og grágrýtisholta. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann geta heitið Garðaflatir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum. Telja verður þó líklegra að nefndar flatir hafi verið þar sem þær eru nú merktar á landakort.

Fornar tóttir finnast á Garðaflötum.

Rústir við Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast“.

Garðaflatir

Garður við Garðaflatir.

Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af einn mjög stór og garður, langur. Fundurinn gefur framangreindri sögu byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina rústirnar.
Ósennilega er örnefnið „Garðaflatir“ tengt bæjarnafninu Görðum á Álftanesi. Líklegra er að þær hafi tekið nafn sitt af hinum miklu nálægu görðum er umlykja svæðið.
Frábært veður.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Rjúpa

Gengið var um Heykrika, Svartakrika, Grenikrika, Miðkrika, Vatnsendakrika, Réttarkrika, Kolhólskrika, Einihlíð/ar, Löngubrekkur og Tungu niður á Garðaflatir. Á leiðinni var ætlunin að gefa gaum mannvistarleifum, sem Heykrikiku leynast á svæðinu. Réttarkriki tekur t.d. nafn af búsetuminjum og á Garðaflötum mótar enn fyrir húsum, sem þjóðsaga segir að hafi verið hinir fornu Garðar. Hinn ægilegi Húsfellsbruni liggur um göngusvæðið ofanvert. Elsti- og miðhluti þess rann um árið 950.
Í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins segir m.a. um upphafssvæðið: „
Riðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs. [Væri vel við hæfi að nefna stað þennan Réttarkrika.]
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. VarðaHeimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu.“
Þjóðsagan segir eftirfarandi um Garðaflatir: „
Sagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.“

Vatnsból Kópavogsbúa

Einnig segir sagan að „maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðsta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“
Sú tillgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki þess ma sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“
Eflaust hefur áður fyrr verið heyjað í fyrrnefndum krikum. Réttarkriki er nú innan við vatnsverndarsvæði Tóft í HeiðmörkKópavogs í Heiðmörk. Há og ókleif girðing umlykur svæðið á þrjá vegu. Að austanverðu er gamla Heiðmerkurgirðingin, fallin að hluta, enda til einskis nýt nú orðið. Haldið var inn á vatnsverndarsvæðið um Heiðmerkurgirðinguna og hraunkantur Húsfellsbruna gaumgæfður. Svæðinu við hraunkantinn hefur verið talsvert raskað, svo mikið að líklegt verður að telja að umræddri rétt hafi verið eytt. Hafi einhver vitneskju um annað væru upplýsingar um slíkt vel þegnar.
Í Umhverfisskýrslu Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðrar vatnstöku í Vatnsendakrika er ekkert um fornleifaleit, sem verður að teljast til vankanta. Í l
ögum um náttúruvernd segir og að „Eldhraun falla undir sérstaka vernd skv. 37. gr. laga um náttúruvernd og ber að forðast að raska þeim“. Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Eldhraun frá nútíma njóta því sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. „Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Það er talið hafa óveruleg áhrif að leggja vatnsvernd yfir svæði sem njóta einnig verndar skv. lögum um náttúruvernd.“ Samt sem áður virðist sem lögin hafi verið hunsuð að hluta.

Vatnsverndarsvæði

Til frekari upplýsinga má geta þess að Vatnsendakrikar eru um 3 km sunnan við Elliðavatn, „við jaðar hrauns sem kallað hefur verið Húsfellsbruni og er talið hafa runnið skömmu eftir landnám eða í kringum árið 950. Umhverfi Vatnsendakrika einkennist af mosagrónum hraunum frá nútíma. Fyrirhuguð vatnstaka er við hraunjaðar sem er nokkuð sléttur en er úfnari er austar og norðar dregur. Víða um kring má finna lautir og hraunbolla með trjágróðri og blómlendi. Í Heiðmörk er fjölskrúðugt dýralíf. Þar lifa refir, minkar og hagamýs og þar er kjörlendi fyrir margskonar fuglalíf.
Gengið var um gróninga Einihlíða og ofan Löngubrekkna, framhjá Hnífhól og niður á nefndar Garðaflatir. Leið þessi er bæði greið og tiltölulega slétt. Á Hnífhól er markavarða á línunni upp í Kolhól (170 m.y.s.).
Á Garðaflötum mótar vel fyrir grónum tóftum. Hús er suðvestast á svæðinu, en norðan þess mótar fyrir gerði, eins og sjá má á myndinni hér neðst.

Hnífhóll

Neðar er hin tilkomumikla Búrfellsgjá. Búrfell og Búrfellsgjá eru þarna í einungis örskotsfæri frá höfuðborgarsvæðinu; við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar. Þetta er ein af mörgum perlum í Heiðmörk, einu vinsælasta útivistarsvæði landsins. Þegar gengið er um svæðið norðan Búrfellsgjáar er Búrfellið jafnan mest áberandi kennileitið. Fellið er í raun eldgígur í um 7 km fjarlægð suðaustur af Hafnarfirði og Garðabæ. Fellið er nánast hringlaga og hæsti gígbarmurinn er í um 179 m.y.s. en dýptin á sjálfum gígnum er 58 m miðað við hæsta barm, en 26 m þar sem hann er lægstur. Ummál gígsins er 140 m þar sem hann er breiðastur. Búrfell og nærliggjandi hraunsvæði eru á misgengisbroti sem hefur sigið talsvert eftir gos. Þegar horft er af gígbrún Búrfells blasir Helgadals sigdældinni við í vestri en Hjallamisgengið í norðri.

Markavarða

Búrfellshraun varð til í einu flæðigosi fyrir um 7200 árum, samkvæmt aldursgreiningu á mó sem fannst undir hrauninu við Bala í Garðahverfi. Stórbrotið apalhraunið hefur myndað mikið landflæmi þegar það rann fram í tveimur megin hraunstraumum eftir dalkvosum og fyllti voga og víkur. Vestari hraunrásin nefnist Lambagjá en nyrðri rásin Búrfellsgjá. Líklega hefur vestasti hlutinn horfið undir yngri hraun og mikið landbrot hefur átt sér stað við strandlengjuna á sjö öldum. Erfitt er að reikna nákvæmlega út hvert heildarflatarmál hraunsins hefur verið en núverandi flatarmál Búrfellshrauns er um 18 ferkílómetrar. Það myndar stóran hluta þess landsvæðis sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á.

Búrfellsdalir

Nafnið Búrfellshraun er tiltölulega nýtt og nær yfir heildarfláka þess hrauns sem kom frá gígnum. Áður en jarðfræðingar fóru að kanna svæðið skiptist hraunið í marga mismunandi hluta sem báru margbreytileg nöfn. Suður, vestur og norður af gígnum eru t.d. Kringljóttagjá, Helgadalshraun, Smyrlabúðarhraun, Gjárhraunin og Sléttuhlíðarhraun. Nær Hafnarfirði eru Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjahraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Hafnarfjarðarhraun, sem nefnist Balahraun norðvestast. Garðabæjarmegin eru Garðaflatir, Búrfellsgjá og Selgjá. Næst eru Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Flatahraun, Hraunholtshraun, Engidalshraun, Klettahraun (Klettar) og Gálgahraun.
Búrfellsgjá er rómuð fyrir fegurð og þar er vinsælt útivistarsvæði. Gjáin sjálf er 3,5 km löng og þrengst rétt neðan við gíginn þar sem hún er ekki Gjáarrétt - Selvogsdilkurnema 20-30 m breið. Gjáin breikkar eftir því sem fjær Búrfelli dregur og er um 300 m breið þar sem Gjáarrétt og Réttargerðið eru. Framhald Búrfellsgjár er Selgjá sem stendur miklu hærra í landinu vegna misgengisins sem liggur þvert á hrauntröðina. Víða slúta gjárveggirnir bogadregnir inn yfir gjána og mynda skúta. Hlaðið hefur verið fyrir flesta skútana sem voru nýttir sem fjárskjól þegar vetrarbeit var enn stunduð í upplandinu. Stærsti skútinn er í Réttargerðinu og þar skammt frá er fallega hlaðin fjárrétt á sléttum traðarbotninum sem nefnist Gjárétt, en líka nefnd Gjáarrétt og var fjallskilarétt Álftaneshrepps hins forna. Vatnsgjá er þar skammt undan í missgengissprungu. Allar mannvistarminjar s.s. réttin, gerðið og hleðslur við skúta eru friðlýstar.
Þegar komið var niður að réttinni var m.a. kíkt á dilk Grindvíkinga og Selvogsbúa, austast í henni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Jónatan Garðason.

Garðafaltir

Flatahraun

Gengið var frá Hraunsholtstúni upp á Gjárréttarstíg með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum var fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun, framhjá Miðaftanshól og yfir Reykjanesbraut, en stígurinn er undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól, á Moldargötur og eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun að Kolanefi og þaðan stíg upp í Selgjá.

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Á Flatahrauni eru hlaðnir garðar og sjá má móta fyrir öðrum minjum. Réttin er hlaðin utan í hraunhól og við hana er tóft. Sunnar liggur Hraunsholtsselsstígur upp í Hraunsholtssel sunnan undir Hádegishól og Hraunsholtsstígur um Álftanesstíg og Kirkjusstíg að Görðum. Norðvestar í hraunkantinum sést móta fyrir tóft í gróinni kvos. Hraunsholtshellir er í norðanverðum hraunkantinum skammt vestan við þar sem stígurinn liggur upp á hraunið.
Flatahraun og önnur hraun, sem nefnd verða hér á eftir, eru í rauninni öll komin frá Búrfellsgígnum; Búrfellshraun – 7270 ára gamalt -, en hafa verið nefnd ýmsum nöfnum á leið þeirra að endamörkum, s.s. Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun og Gálgahraun að austanverðu og Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun að vestanverðu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Ofan við Miðaftanshól er járnbrautargatan yfir Garðahraunið, eða sá hluti, sem eftir er af henni. Járnbrautin átti að ganga milli Hafnarfjarðar og Vífilsstaða, en gatan er vera átti undir teinana er það sem eftir er af þeirri framkvæmd. Um er að ræða tiltölulega slétta götu og miklar hleðslur á köflum. Fallegasti hluti hennar lá ofan við fiskreitina ofan við Hafnarfjörð, en byggt hefur verið á öllu því svæði. Eftir er u.þ.b. 100 metra kafli í Garðahrauni þar sem, að því er virðist, hafi verið hætt við framkvæmdina við norðurbrún hraunsins.

Jónshellar

Jónshellar.

Austan brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt.

Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Gjáarrétt

Hér er úrdráttur af lýsingu Kolhólsleiðar í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins: „Við ríðum út úr hesthúsahverfi hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og stefnum ti austurs. Farinn er slóði. sem Tóftmyndast hefur á síðustu árum norðanvert í Hnoðraholti. Liggur hann að tveimur sérkennilegm hólum, nyrst og austast í Hnoðraholti. Hólar þessir heita Hádegishólar og eru gamalt eyktarmark frá Fífuhvammi.
Bærinn í Fífuhvammi blasti við af leiðinni að Hádegishólum. Hús voru þar að falli komin og voru rifin um mitt sumar 1982. Í Fífuhvammi hafði ekki verið búið frá því 1953. Þar var fyrrum allstórt kúabú. Voru þar tólf kýr í fjósi, sem þótti mikið. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammslandið. Áður hét bærinn Hvammkot.
Nokkru fyrir sunnan og vestan Fífuhvamm, en neðan og til norðurs við Hádegishóla, voru gömul fjárhús, sem voru rifin sumarið 1983.
Farið er um Leirdal. Að austan og norðaustan takmarkast dalurinn af miklum hálsi, sem heitir Selhryggur. Um hann voru landamörk milli býlanna Breiðholts og Fífuhvamms.
Ef vel er að gáð má sjá Fífuhvammsseltóftir nokkuð uppi í hlíðinni á hægri hönd. Þetta eru gamlar fjár- og beitarhúsatóftir frá Fífuhvammi. Þar var síðast haft fé í tíð Þorláks Guðmundssonar (1834-1906). Fyrir miðjum Selhrygg að austanverðu og í landi Breiðholts hétu Selvellir. Þar var vatn og trúlega selstaða. Ekki er okkur kunnugt um hverjir hafa haft þar í seli. Í Jarðabók 1703 er hvorki talað um selstöðu í landi Hvammkots, nú Fífuhvamms, né í landi Breiðholts. Svæði þetta er komið undir byggð og verður því tæpast kannað héðan af.
Í Efri-Leirdal, í vesturtagli Vatnsendahvarfs, er Markasteinn. Í hann eru klappaðir verklegir járnkengir. Girðingarvír hefur verið strengdur í þessa kengi. Kengina festu að öllum líkindum í steininn þeir bræður í Fífuhvammi, Kristján og Guðmundur, skömmu fyrir 1940. Sáttargerð fá 1923 bendir til þess að Vífilsstaðir eigi land að steininum eða jafnvel norður fyrir hann.
StrípurVið ríðum upp á Flóttamannaveg og yfir hann til suðurs, norðaustanvert við Kjóavelli. Þaðan er fylgt ruddum bílevgi til austurs, norðan í Vatnsendahlíð og framhjá nokkrum sumarbústöðum, sem þar eru. Haldið er áfram þar til kemur á vegm sem liggur meðfram Elliðavatni vestanverðu. Vesturströnd vatnsins, norðanvert við Vatnsendahlíð, heitir Laxatangi. Áður en stífla var sett við Elliðavatn 1924-1925 vegna virkjunarframkvæmda í Ellðaánum, en þá hækkaði vatnsborðið að meðaltali um rúmlega einn metra, var þarna lítill tangi út í vatnið.
Á Hjallabrún er komið á Hjallaleið á stuttum kafla. Þegar komið er upp á Hjallabraut, sem er akvegur um þvera Heiðmörk, er Strípshtraun framundan til suðurs. Fremst í Strípshrauni austanverðu, mjög nærri bílveginum og til austurs við okkur, rís einstakur hraundrangur eða klettur, sem nefnist Strípur. Tekur hraunið nafn af honum. Um Stríp voru landamerki milli Vatnsenda og Elliðavatns.
GarðaflatirRiðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs.
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. Heimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu. Austanvert við flatirnar er mjög skammt í girðingu á vesturmörkum Heiðmerkur. Ólafur Þorvaldsson getur um útisamkomur á Garðaflötum.
Þá er haldið í Búrfellsgjá að Gjáarrétt.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.Búrfell