„Álftanes gengur fram milli Skerjafjarðar og Hafnarfjarðar og má telja að það nái alla leið upp að Hafnarfjarðarveginum.
Sagnir hef jeg og heyrt um það að norður af nesinu hafi fyrrum verið landfastir hólmar, sem nú eru horfnir og ekki annað eftir en sker, sem flæðir yfir. Einhvern tíma hefur það verið hlaðinn sjóvarnargarður fremst á nesinu og er hann stæðilegur enn og mun hafa hlíft mikið.
Úr Skógtjörn, sem er með tveimur ósum til sjávar, sjónhending úr innri ós og í Lambhúsatjörn, fyrir vestan Selskarð, er landamæri sóknanna. Heitir þar Suðurnes. Milli Bessastaðatjarnar og sjávar gengur fram Norðurnes; milli Lambhúsatjarnar og Bessastaðatjarnar er Bessastaðanes, en úti fyrir Skógtjörn, milli ósanna, er Hliðsnes. Nafnið Skógtjörn bendir til þess, að nesið hafi fyrrum verið viði vaxið, en langt mun síðan að þar var hver kvistur upprættur.
Og vegna þess hve ilt var um eldsneyti á nesinu, fóru Álftanesingar áður ránshendi um skógana í Almenningum og spiltu þeim mjög. Þurrabúðamenn, sem ekkert eldsneyti höfðu, sóttu þangað í brýnni þörf þótt í heimildarleysi væri“, segir Árni próf. Helgason. Hann segir og að skógur hafi verið höggvin til fóðurs fyrir búpening á vetrum, og hafi það verið verstu spjöllin, þegar ekki náðist nema efri hluti af hríslunum fyrir snjó og klaka. Erlendur Björnsson á Breiðabólstað getur líka um þetta skógarhögg í endurminningum sínum (Sjósókn) og þykir það hafa verið ill nauðsyn. Ekki voru Alftnesingar einir um þetta, heldur menn úr öllum næstu sveitum. Er þessa getið hjer til þess að sýna að nú mundi hafa verið mikill skógur í Almenningum, og þeir einn af fegurstu blettum sunnan lands, ef rányrkjan hefði ekki komið í veg fyrir það.
Landnáma segir frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Ásbirni Özzurarsyni frænda sínum Álftanes alt. En síðan fara litlar sögur af því langa hríð.
Bessastaða er fyrst getið í Sturlungu og eru þeir þá í eign Snorra Sturlusonar og hafði hann þar bú. Ekki er þess getið hvernig hann eignaðist þá, en líklegt er talið að hann hafi fengið þá með brögðum af arfi eftir Jórunni ríku á Gufunesi. Eftir að Hákon konungur ljet drepa Snorra, kallaði hann sjer alt fje hans og við það hafa Bessastaðir orðið konungseign. En um það hvernig þeir urðu að höfuðsetri útlenda valdsins hjer á landi, segir Hannes biskup Finnsson: ..Enda þótt Snorri ætti fleiri jarðir, hafa Bessastaðir verið besta jörðin og hin hagkvæmasta upp á aðdrætti, vegna þess að hún lá við sjó. Þess vegna hygg jeg, að þá er erlendir landstjórar komu hingað, þeir er engar eignir eða jarðir áttu hjer á landi, hafi þeir þegar sest að á Bessastöðum.
Mun það sennilega hafa skeð fyrst 1541 þegar Bótólfur Andrjesson varð hirðstjóri, eða máske ekki fyr en 1345 er Ivar Holm varð hirðstjóri, því að í gömlu skjali Bessastaðakirkju, er virðist skrifað 1352, stendur að Brynhildur kona Holta hafi krafist endurgjalds fyrir 10 kindur og eina kú, sem hún sagði að Ivar Holm hefði ekki borgað sjer. Maður hennar, Holti Þorgrímsson, varð ljensmaður 1346. — En síðan 1470 var enginn íslenskur ljensmaður nema Sveinn Þorleifsson stutta hríð, en hvar hann hefir búið er ekki vitað. En stöðugt uppfrá því hafa Bessastaðir verið aðsetursstaðtir valdsherranna, og af því fengið einir það nafn að vera kallaðir kóngsgarður, enda þótt konungar ætti fleiri jarðir hjer“. — Alftanes kemur því meira við sögu landsins á umliðnum öldum, heldur en flestir aðrir staðir á landi hjer. Og þegar erlendir valdsmenn eru þar ekki lengur, er þar æðsta mentastofnun landsins (1805—1840) og þá voru þar mestu mentamenn þjóðarinnar. Jón lektor og dr. Hallgrímur Sehcving á Bessastöðum, Sveinbjörn Egilsson á Eyvindarstöðum og Björn í Sviðholti. Og nú er þar aðsetursstaður æðsta embættismanns þjóðarinnar, forseta Íslands.
Saga Bessastaða er saga þjóðarinnar í stórum dráttum. Fyrstur býr þar frægasti höfundur gullaldar bókmenta vorra, svo kemur niðurlægingin með erlendu valdsherrum. Svo er skólinn tákn endurreisnartímabilsins og forsetinn nú ímynd fullkomins sjálfstæðis og frelsis. Enn fremur má líta á það, að um langt skeið mátti kalla að Álftanes væri miðstöð þess athafnalífs, sem best hefir borgið þjóðinni, sjávarútvegsins. Það var sú tíðin að 300 bátar voru gerðir út á vertíð á Álftanesi og í Hafnarfirði. Og í tíð þeirra manna, er enn lifa, voru gerðir út á Álftanesi 70—100 bátar, og um 900 aðkomumenn stunduðu sjómensku þar.
Fyrir tveimur öldum veiddist mikið af beinhákarli í Hafnarfirði Og Skerjafirði og stunduðu Álftnesingar þá veiði af kappi. Gekk hákarlinn alveg upp undir landsteina og elti báta, án þess þó að vinna þeim mein.
Þegar hann var veiddur fóru 8 eða 10 menn saman á áttæring að skutla hann. Var þetta mjög arðsöm veiði, vegna þess hve mikil lifur var í honum. Nú er öldin önnur í þessu efni. Með breyttum háttum hefir smábátaútgerðin lagst niður, og nú stunda Álftnesingar búskap, og lifa á því að selja mjólk til Reykjavíkur.
Árið 1805 fluttist Ísleifur Einarsson prófessor frá Reykjavík að Brekku á Álftanesi. Ljet hann þegar að gera þar miklar jarðabætur, en þær höfðu ekki þekst á nesinu áður. En er bændur sáu, að gagn var að jarðabótum, tóku þeir einnig að gera jarðabætur hjá sjer. Býlin Hákot, Gesthús, Sveinshús og Bjarnastaðir voru upphafloga tómthús, bygð í Sviðholtslandi. Nú fóru þeir, sem þar bjuggu, að græða út í kringum sig og um miðja öldina var svo komið,- að á grasnyt þessara býla voru fóðraðar 3 kýr. Nú er langmestur hlutinn af Suðurnesi og Norðurnesi kominn í tún, svo að lítið sem ekkert er orðið eftir af bithaga fyrir kýrnar. En á Bessastöðum er verið að gera stórfelda
ræktun.
Fagurt er í góðu veðri að horfa af hálsinum yfir Álftanesið. Nesið er alt skrúðgrænt með blikandi vogum og bláum sjó framundan. Risulegar byggingar og snotur býli standa þar í hverfinu. Nema hvað höfuðbólið Bessastaðir er eitt sjer og er framt að því hálf sveitin landareign þess, alt hið mikla Bessastaðanes, þar sem er kríuvarp og æðarvarp, óþrjótandi haglendi og ræktunarskilyrði góð. Þar yst við ósinn úr Bessastaðatjörn er Skansinn, vígi sem Danir hlóðu. Víkin þar fyrir utan heitir Seyla, og var fyrrum skipalagi. Í Skansinum var eitt sinn býli, og þar var Óli Skans, sem hin alkunna vísa var kveðin um.
Um Skansinn segir svo í ævisögu Jóns Ólafssonar Indiafara: Holger Rosenkranz höfuðsmaður . . . . hafði um þennan tíma miklu að gegna í viðurbúningi í Seylunni, hvar hann ljet virki gera á móti þessum ránsmönnum (Tyrkjum; þetta var 1627), hvar í hann til varnar skikkaði alla þá íslenska, sem til Bessastaða með sinna ljena afgiftir komnir voru, með þeirra mönnum, og vildi höfuðsmaður engum burtfararleyfi gefa. Einnig hafði höfuðsmaður til sín í Seyluna kallað þau kaupför, sem voru kaupskip úr Keflavík, annað úr Hafnarfirði, þriðja úr Hólminum. Þessi þrjú skip lágu til varnar með höfuðsmannsskipinu í Seylunni, með þeirra innihafandi skipsfólki, vel búnu.
Þá strandaði annað ræningjaskipið á skeri og var farið að flytja úr því í hitt skipið til að ljetta á því. Vildi þá Jón Indiafari, sem var þaulvanur stórskotaliðsmaður, og aðrir íslendingar, endilega veria Tyrkjum varnar kveðjur, því að svo virtist sem menn gætu haft ráð þeirra í liendi sjer. En Danir voru hræddir og bannaði höfuðsmaður að skjóta. Var hann á hesti viðbúinn að flýja ef Tyrkjir ætluðu að ganga á land. Svo losnaði skipið með aðfalli og silgtu þá bæði skipin aftur suður fyrir land og rænti í Vestmannaeyjum í júlí.
— Staðarlegt er heim að líta til Bessastaða. Þar gnæfir kirkjan og mörg hvítmáluð hús með rauðum þökum, og fara þeir litir einkar vel við græna litinn á túninu. Hvítt, rautt og grænt eru skartlegir litir þegar þeir fara saman.
Bílvegir liggja um alt nesið. Skiftast þeir á landbrúnni milli Skógtjarnar og Lambhúsatjarnar. Liggur þá annar til norðurs út í Eyvindarstaðahverfi og af honum vegur til hægri heim að Bessastöðum. Einn liggur vestur Skógtjarnarhverfi að Svalbarði og síðan norðan á nesinu alla leið að Breiðabólstað. Er sá vegur snjóhvítur tilsýndar, vegna þess að skeljasandur hefir verið borinn ofan í hann.
Bessastaðakirkja 2023.
Þá er og vegur frá Svalbarði út að Hliði, og annar af Garðaveginum út á Hliðsnes. Hlið og hjáleigur þess lágu fyrrum undir Garðakirkju og voru í Garðasókn. En árið 1558 tók Knútur Steinsson hirðstjóri þessa jörð frá kallinu og sókninni og ljet Vífilsstaði í staðinn. Í makaskiftabrjefinu lofaði hann að greiða árlega eina tunnu mjöls í milligjöf fyrir afgjaldsmismun á þessum jörðuni. En sú mjöltunna galst ekki nema nokkur ár, og prestum þótti ráðlegast að ganga ekki eftir því að samningurinn væri haldinn.
Garðrækt hefir verið stunduð mjög lengi á Álftanesi og trjárækt átti að hefja á Bessastöðum 1752. Voru þá settar þar niður nokkrar ungar víðiplöntur, komu á þær ný blöð, en samt dóu þær þegar á fyrsta sumri. Hjá Vífilsstöðum var hellir, sem bændur höfðu lengi notað fyrir beitarhús og var mikið tað komið í hann. Sendi Thodd amtmaður á Bessastöðum þangað menn til að stinga út úr hellinum og hafði taðið til áburðar í sáðreit sinn. Ljet hann aka því á vetrum þegar snjóalög voru og ísar og gaf 4 skildinga fyrir sleðan. Hann sáði byggi, baunum og kúmeni í akur sinn, og er svo sagt að hann hafi haft með sjer bygg af akrinum til alþingis og gætt lögrjettumönnum á íslenskum bygggraut. (Þessa sögðu sagði Ingibjörg móðir Gríms Thomsens Páli Fjelsted sagnfræðingi). Þessi ræktun hefir þó fallið niður aftur. En enn í dag má víða um nesið sjá langar raðir af kúmeni vaxa sjálfsáið meðfram girðingum og víðar. Líklega á það ætt sína að rekja til kúmensyrkjunnar á Bessastöðum.
Lengi vel höfðu menn ótrú á því að kartöflur gæti þrifist á nesinu, og voru aðallega ræktaðar rófur. En nú eru þar sums staðar geisistórir kartöflugarðar og gefa góða uppskeru. Er þar víða, einkum norðan á nesinu, sendin jörð og vel fallin til kartöflugarða. Athyglisvert er það hve mikið er um njóla og hvönn víða á nesinu. Er hvannstóð heima við suma bæi, eins og t.d. Gesthús. Má gera ráð fyrir að hvönn og njóli hafi verið flutt til nessins og upphaflega verið ræktað þar sem nytjajurtir.
Þess var áður getið að Björn Gunnlaugsson landmælingamaður átti heima í Sviðholti þegar hann var kennari við Bessastaðaskóla. Hann kvæntist Ragnheiði Bjarnadóttur, ekkju Jóns adjunkts Jónssonar, er týndist með póstskipi undir Svörtuloftum í marsmánuði 1817. Ragnheiður dó 1834, og síðan giftist Björn Guðlaugu Aradóttur frá Flugumýri, ekkju Þórðar stúdents Bjarnasonar frá Sviðholti, bróður Ragnheiðar. Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga: Halldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur.Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þar fara væri að verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fékk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður.
Þuríður hjet systir Bjarna í Sviðholti. En einu sinni er hann mætli Þorgarði á hann að hafa sagt: „Ekki ber jeg að jeg fari nú að þjera yður“. Þorgarður fylgdi Bjarna rektor, syni Jóns adjunkts og Ragnheiðar.
Bjarni rektor þurfti ekki annað en fara yfir Skerjafjörð eða út í Viðey til að losna við hann. Eftir lát Bjarna fara engar sögur af Þorgarði.
Loksins skrifaði Bjarni eftir Sigmundi, fóstursyni Latínu-Bjarna, sem var ramgöldróttur, en hann kom að vestan og dvaldist hjá Bjarna um hríð. Við það ljetti ásókn Þorgarðs. Sigmundur bjóst við góðum launum hjá Bjarna, en minna varð úr en hann hafði ætlað. Það er mælt að Björn Gunnlaugsson hafi haft mestu skömm á Þorgarði, en sjeð hann oft.
Þegar Fuhrmann amtmaður bjó á Bessastöðum arfleiddi Guðmundur ríki Þorleifsson í Brokey hann að öllum sínum eignum. Mæltist það mjög misjafnlega fyrir. En amtmaður fór vestur að sækja arfinn. Voru það þrjár skjóður með peningum, rúmfatnaður og dýrgripir. Var þetta flutt á fjórum hestum suður og látið inn í skemmu á Bessastöðum. Morguninn eftir var skemman brunnin með öllu saman, en peningar þeir, er amtmaður hafði haft með sjer frá Brokey, gengu í Swartzkopf-málið og munu þeir varla hafa hrokkið. — Um Swartzkopf-málið og reimleikana á Bessastöðum skrifaði Einar H. Kvaran skemtilega grein.
Bessastaðastofa var reist árið 1763, sem bústaður fyrir Magnús amtmann Gíslason. Er hún ákaflega veggjaþykk og bygð úr steini, sem tekinn var þar á nesinu. Segir Eggert Ólafsson frá því að hann hafi skoðað þetta byggingarefni meðan á byggingunni stóð. Kölluðu menn þetta sandstein, en kvörtuðu þó undan því að hann væri óvenjulega harður. Segir Eggert að þetta sje grár steinn, sem hafi bakast af hægum jarðeldi, bæði heil lög hans og einstakir hlutar. Sje hann bæði fallegur og endingargóður til húsagerðar.
Vottur af jarðhita er á tveimur stöðum á nesinu, í skeri út af Hliði, er laug, sem kemur upp um stórstraumsfjöru, og önnur laug eða volgra er í stutt hjá Bessastöðum. Þar hefir verið reynt að bora eftir jarðhita, en ekki borið neinn árangur.
Í Akrakoti, sem er nyrst á Norðurnesi, rjett hjá Breiðabólstað, gnæfir verksmiðjureykhváfur. En engin verksmiðja er þarna nú. Áður var þarna þangbrensla og joðvinsla og var það þýskt fyrirtæki. Langt er nú síðan það lagðist niður, og ekkert eftir til minja um það nema þessi reykháfur. Máske verður sú atvinnugrein tekin aftur upp á Alftanesi, því að nóg er þar af þanginu. Bændur skáru löngum þang, þurkuðu það og höfðu til eldneytis. Var það ekkert smáræði sem þeir tóku af því, eins og sjá má á því að á stærri heimilum voru fluttir 150—300 hestar af blautu þangi upp úr fjörunni á hverju sumri.
Byggð er góð á Álftanesi, eins og áður er sagt. Mundu mörg húsin sóma sjer í kaupstað, og rafmagn er þar á hverjum bæ. En nú er líka farið að byggja þar sumarbústaði, og eru þar tveir einkennilegustu sumarbústaðirnir sem jeg hefi sjeð. Annan þeirra á byggingameistari í Reykjavík. Er sá bústaður veggjalaus, aðeins hátt þak, með dálítilli viðbyggingu. Hinn bústaðinn á kaupkona í Reykjavík. Stendur sá bústaður fram við sjó og heitir Marbakki. Er hann allur hlaðinn úr grjóti og með torfþaki. Umhverfis er dálítill garður og hár grjótgarður í kring, svo að þarna er altaf skjól. Verönd er sunnan undir honum með glerveggjum og glerþaki, nokkurs konar gróðurhús, og er þar inni blómahaf mikið. Í garðinum eru líka blóm og trje, og er þetta eins og lítill ævintýraheimur eða álfaborg sem mjög auðvelt er að öfunda eigandann af.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. ágúst 1946, Árni Óla, bls. 341-347.
Tóftir Lásakots.