Tag Archive for: Garðabær

Garðastekkur

Skilti hefur verið afhjúpað sunnan Garðastekks utan Garðahrauns (Gálgahrauns) með gagnlegum upplýsingum um sögu og minjar svæðisins.
Gardahraun-1Það voru Hraunavinir í samvinnu við umhverfisnefnd Garðabæjar sem unnu og settu skiltið upp. Á því má m.a. lesa eftirfarandi:

Gálgahraun

Gardahraun-2

Gálgahraun tilheyrir víðáttumiklu hrauni sem rann frá Búrfellsgíg fyrir um 8.000 árum. Búrfellshraun ber nokkur mismunandi nöfn og heita nyrstu hlutarnir Flatahraun, Klettar og Gálgahraun en sameiginlegt nafn þeirra er Garðahraun. Gálgahraun var friðað ásamt fjörum og grunnsævi Skerjafjarðar 6. október 2009. Friðunin spannar 1;0815 km2 svæði sem samsvarar 108 hekturum.

Fógetagata (Álftanesgata)
Gardahraun-3Gatan var alfaraleið Álftnesinga áður en vagnfær vegur var lagður snemma á 20. öld. Þeir sem áttu erindi til Bessastaða kölluðu leiðina Fógetagötu á meðan fulltrúar konungs sátu staðinn. Leiðin var greiðfær í björtu en gat verið þungfarin í dimmviðri og hríðarbil. gatan sést greinilega þar sem hún hefur grópast ofan í hraunhelluna í aldanna rás. Að austan liggur hún um grunnt skarð við Hraunvík og kvíslast í Nyrðri Fógetagötu og Syðri Fógetagötu við Litla Skyggni. Hún sameinast á smákafla nærri Stóra Skyggni áður en hún skiptist aftur í Garðastíg (Garðagötu) sem tengist kirkjustaðnum Görðum og Álftanesgötu sem liggur út á Álftanesið.

Móslóði

Móslóði

Móslóði.

Á meðan mór var notaður til að viðhalda glóðinni í eldstæðum þeirra sem bjuggu í kotunum í Álptaneshreppi hionum forna var hann tekinn í Hraunsholtsmýri, Lágumýri og Arnarnesmýri. Leiguliðar Garðakirkju sem bjuggu í Hafnarfirði og Garðahverfi fóru ófáar ferðir um Móslóða til að sækja mó í mýrarnar. Ennþá er hægt að sjá hvar vegslóðinn lá milli mýranna og Vegamóta við Álftanesveg. Þar komu leiðirnar frá Garðahverfi, Hafnarfirði og Álftanesi saman.

Gálgaklettaleið
Gardahraun-4Gálgaklettaleið sveigir út af Fógetagötu í miðju Gálgahrauni skammt frá Stóra Skyggni. Auðvelt er að rata með því að taka stefnuna til norðurs og miða við Bessastaði. Nokkrar djúpar gjótur eru sunnan Gálgakletta og hægt að fara austan eða vestan þeirra áður en komið er að Gálgaflöt.

Sakamannastígur
Sakamannastígur er í hraunjarðrinum sunnan Lambhústjarnar. Leiðin var einnig nefnd Gálgastígur eða Aftökustígur og gefa nöfnin til kynna hvað þarna fór fram. Stígurinn virðist hafa verið fjölfarin en hann liggur framhjá Litla Gálga áður en komið er að Gálgaklettum. Þokkaleg lending er við Gálgaflöt, líklega voru sakamenn stundum ferjaðir yfir Lambhústjörn frá Bessastöðum. Þeir sem hefja göngu við Hraunvík geta nálgast Gálgakletta með því að fylgja strandlengjunni. Leiðin liggur framhjá Eskinesi og smátjörnum Vatnagarða áður en komið er að Gálgaklettum.

Gálgaklettar

Gardahraun-5

Gálgaklettar sem heita allt eins Gálgar eru þrír talsins: Vestur Gálgi, Mið Gálgi og Austur Gálgi. Þeir virðast vera dekkri yfirlitum en klettarnir umhverfis þá og nafnið hefur nægt til að skjóta fólki skelk í bringu í aldanna rás. Staðkunnugir kölluðu klettana einu nafni Gálgaklofning þar sem þetta var upphaflega einn klettur sem klofnaði í þrjá hluta. Samkvæmt munnmælum voru sakamenn hengdir í Gálgaklettum, en ekki eru til ritaðar heimildir sem staðfesta þetta. Samt sem áður hafa mannabein fundist nærri Gálgaklettum. Þau styðja þessar sagnir.

Eskines

Gardahraun-6

Eskines er sá hluti Búrfellshrauns sem lengst nær frá eldstöðinni Búrfelli. Ysti hluti Eskiness er í 12 km fjarlægð frá miðhluta Búrfellsgígs. Nærri hraunjaðrinum er kofarúst frá seinni hluta 19. aldar þegar Þórarinn Böðvarsson prestur frá Görðum ætlaði að koma þar upp æðarvarpi. Hann lét byggja kofann og fékk vinnuhjú til að búa þar með hænsni yfir sumartímann, en æðarvarpið misheppnaðist. Eskines er nánast flæðisker sem hefur sigið í aldanna rás og drukknuðu þar 40-50 kindur í eina tíð. Huga þarf að sjávarföllum ef farið er út á nesið, einkum á stórstraumi. Ofan Eskineseyra eru Eskinesklettar.

Garðastekkur
Gardahraun-7Garðar var einn ríkasti kirkjustaður landsins um aldir og umhverfis prestsetrið var fjöldi hjáleiga sem nefndust einu nafni Garðahverfi. Garðakirkja átti miklar lendur. Á veturna var búsmalanum haldið til beitar í Garðahrauni og Garðastekkur gegndi mikilvægu hlutverki. Vestur af honum eru húsatóftir og á hraunrana er hrunin fjárborg. Þessar minjar vitna um horfna búskaparhætti.

Kjarvalsklettar

Garðahraun

Garðahraun – Kjarvalsklettar.

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var heillaður af hraunlandslagi og fór á sömu staðina á mismunandi árstímum til að mála. Ákveðnir drangar í Klettahrauni urðu honum hugleiknir en hann málaði einnig aðra kletta sem finna má í grenndinni. Kjarvalsklettar í Garðahrauni koma fyrir í nokkrum tugum málverka meistarans. Kjarval nefndi þessi málverk ýmist Hraun, Úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni eða frá Álftanesi.

Galgahraun-kort

Auk þess má bæta við að fjölmargt annað áhugavert má berja augum í nágrenninu. Má þar t.d. nefna Garðagötuna fyrrnefndu. Hún sést enn mjög vel ofan núverandi Álftanesvegar þar sem hún liðast upp norðanvert Garðaholt. Við götuna er Mægðnadys, hlaðið hringlaga leiði, og skotgrafir frá stríðsárunum hafa verið grafnar þvert á götuna efst á holtinu auk tveggja skotbyrgja. Sambærilegar skotgrafir má sjá nánast við hvern klapparhól á Garðaholti. Austar liggur Kirkjustígurinn frá Hraunsholti að Görðum. Við hann er Völvuleiðið, hringlaga hlaðin dys. Á milli þessara tveggja dysja má auk þess sjá enn eina hringlaga hlaðna dys í holtinu.
Hafa ber í huga að kortið á skiltinu lýsir fyrst og fremst áhugaverðum gönguleiðum um svæðið, en ekki fornum þjóðleiðum. Þá myndi það líta öðruvísi út sbr. meðfylgjandi loftmynd.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

Garðaflatir

„Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928:

Gardaflatir - yfirlit

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

„Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir:

gardaflatir - minjar

Garðaflatir; eldhús?

„Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“
Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“
Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó
jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.“

Heimild:
Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir, 2004. Garðahverfi – Fornleifaskráning 2003. Bls. 29-30.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

 

Maríhellar

Kíkt var á „Maríhellana“ í Heiðmörk. Um er að ræða nútímalegt samheiti tveggja hella, sem notuð voru sem fjárskjól fyrrum; Urriðakotshelli og Vífilsstaðahelli. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hluti Urriðakotshellis verið nefndur Draugahellir, en hann þjónaði áður engum sérstökum tilgangi. Tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.

Maríhellar

Maríuhellar.

Miðhlutinn (Urriðakotshellir) er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Í austurhluta jarðfallsins er Maríuhellir. Landamerki bæjanna, Urriðakots og Vífilsstaða, eru á urðarhól (Dyngjuhól/Hádegishól) skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn (Draugahellir) er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn (Vífisstaðahellir) er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi. Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum. Einhverjum húmaristanum fannst tilvalið að nefna Vífilsstaðahelli „Jósepshelli“ eftir að hafa komið í „Maríuhelli“, en það lýsir fyrst og fremst fákunnáttu þess sama á staðháttum.

Maríuhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

„Maríuhellar“ eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma af fákunnugum. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.

Maríuhellar

Í Maríuhelli.

Vífilsstaðir

Á laugardag [4. sept. 2010] er liðin öld síðan berklahæli tók formlega til starfa á Vífilsstöðum. Af því tilefni fer fram skemmtun og fræðsla fyrir alla fjölskylduna á Vífilsstöðum. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, er formaður afmælisnefndar.

vifilsstadir-22

„Berklar hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda en urðu ekki risastórt vandamál hér á landi fyrr en upp úr aldamótunum 1900,“ segir Pétur, en á árunum 1911 til 1925 voru berklar algengasta dánarorsök Reykvíkinga og fimmtungur dauðsfalla á landsvísu.
„Berklar eru smitandi sjúkdómur og því var berklasjúklingum fyrirskipað að búa á afviknum stað til að draga úr smithættu. Í þeim tilgangi var Vífilstaðahælið byggt og valinn staður í sveit, þar sem til varð sérstætt samfélag sjúklinga sem bjuggu þar árum saman,“ segir Pétur.
Berklar eru oft kallaðir hvíti dauði, en sé ástand berklatímans fært til nútíðar væru 6.000 Íslendingar með sjúkdóminn. „Oft voru berklar dauðadómur en sjúklingar voru misjafnlega illa haldnir. Margir höfðu fótaferð meðan aðrir voru veikari. Á berklahælinu voru framkvæmdar flóknar og erfiðar skurðaðgerðir sem í dag þættu vafalaust hrottalegar, eins og þegar lungu sjúklinga voru höggvin í lækningaskyni. Þá var trú manna að ferskt loft gerði sjúklingunum gott og því útbúinn leguskáli þar sem sjúklingar voru vafðir í teppi og látnir liggja á bekkjum til að anda að sér fersku útiloftinu.“
Vifisstadir-21Pétur segir berkla hafa látið í minni pokann upp úr miðri síðustu öld þegar lyf fundust við sjúkdómnum, en eftir að berklahælinu var lokað opnaði Landspítalinn sjúkradeildir fyrir öndunarfærasjúklinga á Vífilsstöðum. „Á berklatímanum var mikið af ungu fólki á Vífilsstöðum og vitaskuld kviknuðu ástarsambönd í því lokaða samfélagi. Við undirbúning afmælishátíðarinnar hef ég hitt þónokkra sem komu undir á Vífilsstaðahælinu og eðlilega fæddust börn á þeim fjölda ára sem sjúklingar þurftu að dvelja þar. Einnig voru dæmi um að berklasjúk börn væru tekin af foreldrum sínum og látin búa á hælinu í einhver ár. 

Vifisstadir-25

Vífilsstöðum fylgir því merkileg saga og átakanleg, því auðvitað var þungbært fyrir fólk að verða fangar síns sjúkdóms á afviknum stað. Dauðinn vofði þar alltaf yfir og margir dóu, en stundum fékk fólk að fara heim ef það var talið læknað og heimsóknir leyfðust,“ segir Pétur.  Vífilsstaðir eru landnámsjörð, þar sem Ingólfur Arnarson gaf Vífli, húskarli sínum og þræl, bústað.
„Jörðin var lengi í eigu kirkjunnar og á Vífilsstöðum hefur alltaf verið rekinn búskapur. Á tímum berklahælisins var þar umtalsverður kúabúskapur og þar stendur enn risastórt fjós. Spítalann teiknaði Rögnvaldur Ólafsson og þykir húsið enn með glæsilegustu byggingum landsins. Það reis á aðeins átján mánuðum og mikið í sjálfboðavinnu, því allir skildu hve mikið lá við og lögðust á eitt,“ segir Pétur. Hann segir fagurt landslag Vífilsstaða leika hlutverk á afmælisdaginn.
Vifisstadir-24„Við verðum með leiðsögn um landareignina, siglingar á Vífilsstaðavatni, hoppukastala og grillaðar pylsur úti við, en sögusýningu og málþing í húsnæði spítalans. Þar sýnum við gamlar sjúkrastofur, myndir og ýmislegt sem tengist sögunni, og tölum um sögu berklaveikinnar ásamt því sem fólk segir frá mannlífi á Vífilsstöðum sem var,“ segir Pétur sem í vikunni kvaddi síðasta heimilisfólkið á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Vífilsstöðum. „Hlutverk Vífilsstaða eftir afmælið er óráðið en ég vildi glaður sjá eitthvað heilbrigðistengt í húsinu áfram.“
Vifisstadir-23Við þetta má bæta að í tilefni afmælisins var gefið út fróðlegt blað; Vífilsstaðir – sagan í 100 ár. Í því kemur m.a. fram að Rögnvaldur Ólafsson hafi teiknað aðalbygginguna og Guðjón Samúelsson húsameistari yfirlæknisbústaðinn.
Á myndinni hér að ofan frá miðri 20. öld eru merkingar með eftirfarandi skýringum: 1 Mjólkurhús, 2 Fjós, 3 Hlaða, 4 Hlandþró, 5 Heygaltar, 6 Bílskúrar, 7 Trésmíðaversktæði, 8 Búshús (bústaður bústjóra), 9 Ráðhús (bústaður ráðsmanns), 10 Rimman, 11 Eilífðin, 12 Pilsakot, 13 Læknabústaður, 14 Hænsnabú, 15 Yfirlæknisbústaður, 16 Davíðsborg og Önnuborg, 17 Líkhús, smíða- og saumastofa, 18 Vífilsstaðahælið, 19 Leguskáli, 20 Smiðja og bílskúrar.
Vifisstadir-26Í afmælisblaðinu vegna 100 ára afmælis Vífilsstaðaspítala 5. sept. 2010 er komið víða við. Þar segir m.a.: „Á Vífilsstöðum er mikill húsakostur. Aðalbygginguna teiknaði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og yfirlæknisbústaðinn Guðjón Samúelsson húsameistari. Umtalsverður kúabúskapur var á Vífilsstöðum. Í dagblaðinu Vísi 20. október 1931 segir frá búskapnum á Vífilsstöðum. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að við upphaf starfsemi Vífilsstaðaspítala 1910 sé talið að ræktað land hafi gefið af sér um 60 hesta heyfengs. Búskapur á jörðinni hófst 1916 og var starfræktur til ársins 1974. Blaðið segir frá því að fljótlega eftir að búskapurinn byrjaði hafi hafist umtalsverð ræktun á landi undir forystu Þorleifs Guðmundssonar bústjóra og síðar Björns Konráðssonar, sem tók við búforráðum árið 1925. Aðallega hefur áhuganum á nýræktuninni verið beint að túnrækt og síðar að garðrækt.
Vifisstadir-27Jarðræktin tók stórstígum framförum 1921 þegar þúfubaninn kom til landsins. Í blaðinu kemur fram að bústofninn hafi aukist jafnhliða ræktuninni og hafi um 70 nautgripir verið á búinu 1931, þar af um 60 mjólkandi kýr, sem að meðaltali gáfu af sér um 3334 lítra. Auk túnræktar gáfu kartöflugarðar af sér um 80 tonn og rófur vel á annað hundrað tonn. Auk þess var mikil kálrækt á Vífilsstöðum.
Í nóvemberbyrjun 1906 kom fram hugmynd um stofnun Heilsuhælisfélags meða Oddfellowsfélaga. Hælinu var fundinn staður á Vifilsstöðum. Fljótlega kom í ljós að daggjöld sjúklinga gátu ekki staðið undir rekstrinum. Í byrjun árs 1916 yfirtók landssjóður reksturinn.
Eftir því sem heyskaparþörf minnkaði á túnum Vífilsstaða vegna minnkandi búrekstrar hófts nýtt tímabil í trjárækt á staðnum. Frumkvæði í þeim efnum tók Georg Lúðvíksson, sem var forstjóri Ríkisspítalanna 1954-1959, og naut hann góðs liðsinnis Helga Ingvarssonar yfirlæknis og Björns Konráðssonar bústjóra. Afrakstur af því starfi var hinn stórglæsilegi trjálundur sem blasir við sunnan við hælið. Lundurinn er m.a. merkur fyrir þær sakir að hann var sérstaklega skipulagður í upphafi. Það gerði Jón H. Björnsson, sem var fyrsti Íslendingurinn sem menntaði sig sem landslagsarkitekt.“

Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, bls. 26.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldá til austurs, yfir hlaðna vatnsstokkinn frá fyrstu tímum vatnsveitunnar skömmu eftir þarsíðustu aldarmót (1916), framhjá opi Níutíumetrahellisins og áfram ofan barms Helgadalsgjár að fallegum reglulega lögðum klettum mitt á milli Búrfellsgjáar og Helgadals.

helgafellshellar-221

Í Rauðshelli.

Frá þeim sést gamla Selvogsgatan mjög vel þar sem hún liggur vestan Smyrlabúðar og á ská til suðurs yfir Mosana að Helgadal. Þar liggur hún niður með austasta Kaldárhnúknum og síðan áfram á ská upp gróna hlíðina í suðaustanverðum dalnum. Þar liggur gatan svo til alveg við forna tótt, sem þar er uppi í hlíðinni. Önnur gata hefur myndast síðar austan dalsins, en hún liggur austur fyrir Helgadalshæðir og áfram áleiðis upp í Valaból og Mygludali. Frá klettunum var líka stórkostlegt útsýni að Búrfelli, sem glitraði í kvöldsólinni.
Fyrir neðan klettana er hlaðinn stekkur, greinilega mjög gamall. Hann er ekki til, þ.e. hans hefur hvergi verið getið. Skammt sunnan við stekkinn er op Rauðshellis og skammt austar op Hundraðametrahellisins. Ekki var farið inn í hellana að þessu sinni, enda veðrið utan þeirra frábært.
Á meðan áð var í hlíðinni ofan við hellana kom þar að hópur fólks, greinilega mikið útivistarfólk í grænum, gulum, bláum og rauðum rándýrum úlpum, vatnsþolnum göngubuxum, gönguskóm af dýrustu gerð og göngustöfum í stíl við fatnaðinn. Það hlaut þó hafa fengið tilboð í bakpokana því þeir voru allir eins. Fólkið virtist hvorki hafa áhuga á hinum fornu tóttum í Helgadal né hellunum skammt frá. Kannski vissi það ekki af hvorutveggja. Það hafði elt göngustíginn.
“Heyrðu!”, sagði sá sem fremstur gekk við einn í hópnum. “Veist´u hvað þetta fjall heitir?”, og benti á Helgafell.
“Gott kvöld”, svaraði sá, sem ávarpaður var. Honum var litið niður á gallabuxurnar og strigaskóna sína. Og íslenska lopapeysan hans virtist alveg út úr kortinu þessa stundina. “Þetta fjall…”, svaraði hann, leit upp og horfði á manninn. “Þetta litla fjall getur nú ekki heitið mikið”. FERLIRsþátttakandinn leit á einn félaga sinn og brosti. Hann hafði greinilega heyrt þennan einhvers staðar áður.

Raudshellir-221

Í Rauðshelli

“Veit eitthvert ykkar hvað þetta fjall heitir?”, spurði þá maðurinn og snéri sér að öðrum FERLIRsþátttakendum.
“Nei, við vorum að koma”, svaraði ein í hópnum. “Ég er úr Reykjavík, sjáðu til. Ég veit bara að þetta er ekki Hekla”, bætti hún við. “Hvaðan eruð þið?”, spurði hún síðan.
“Við erum úr Hafnarfirði”, svaraði einn úr hinum hópnum.
“Hafið þið búið það lengi”, var þá spurt.
“Þessi hjón hafa búið það í þrettán ár”, svarað

i foringinn og benti á par í stíl, “en við hin höfum bara búið þar í ellefu ár”, bætti hann við. “Við ákváðum nýlega að byrja að hreyfa okkur svolítið og höfum gengið um svæðið þarna”. Hann benti á Kaldársel. “Og svo höfum við gengið upp gjá einhvers staðar þarna”, sagði hann og benti í áttina að Búrfellsgjá. Aðrir snéru sér eftir því sem maðurinn benti.
Búnaður fólksins var greinilega góður, en nöfnin á landslaginu yrði því bara byrði.
“Hvert eruð þið að fara?”, spurði FERLIRsþátttakandinn.
“Þangað”, svaraði maðurinn og benti í átt að Valahnúkum.
“Í Músarhelli?”
“Eru mýs þarna”, spurði þá ein í hópnum. Angistin skein úr augum hennar.
“Eða ætlið þið kannski að skoða tröllin”?, spurði annar.
Fólkið leit hvert á annað. “Eigum við ekki bara að fara til baka”, spurði sá yngsti í hópnum og leit á foringjann.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

“Hafið þið reynt að skoða landakort”?, spurði þá einn FERLIRsþátttakandi og vildi greinilega reyna að gera gott úr öllu saman. Óþarfi að hræða byrjendur. “Það, sko, er alltaf betra að vita hvar maður er staddur”, bætti hann við og brosti.
Hin litu hvert á annað. Síðast sást til ofurútbúna fólksins þar sem það beygði vestur með vatnsverndargirðingunni, stystu og öruggustu leið að bílunum. Þau hafa sennilega ætlað að ná sér í landakort.
“Það mun líklega enginn trúa okkur ef við segjumst hafa séð álfa í þessari ferð”, varð einum að orði.
FERLIRsþáttakendur gengu hins vegar áleiðis að Valahnúkum, komu við í Valabóli og gengu síðan upp skarðið að Tröllunum, háum grannskornum berggangi þvert í gegnum hnúkana. Tröllafjölskyldan tók sig einstaklega vel út sem hún stóð þarna hnarrreist. Hrafnshreiður er í hæsta Hnúknum. Krunkið í krumma bergmálaði í kyrrðinni. Helgafell baðaði sig í kvöldsólinni.
“Það þarf eiginlega að merkja þetta betur”, varð einum að orði. “Hér er ekkert skilti sem segir hvað fellið heitir”. Brúnsvört lopapeysan hans féll vel inn í landslagið.
Gengið var eftir vegarslóða niður að Kaldárbotnum og að upphafsstað.
Gangan tók rúmlega klukkustund. Veður var frábært – eins og áður hefur komið fram.

Helgafell

Helgafell – séð frá Valahnúkum.

Bollar

Gengið var um Selvogsgötu (Suðurfararleið) um Grindarskörð austan Stórabolla með það fyrir augum að skoða Bollana ofan Skarðanna, þ.e. Stórabolla, Tvíbolla (miðbolla) og Syðstubolla (Þríbolla). Þoka setti dulúðlegan svip á umhverfi eldvarpanna efst í Skörðunum.
bollar-2„Grindaskörðin blasa við sjónum manna frá Innnesjum. Í þeim eru nokkrir gígar, stundum nefndir Grindaskarðahnúkar, en heita samt sínum nöfnum. Austastur er Stóribolli, þá Tvíbollar, en vestastir eru Þríbollar (Syðstubollar). Skarðið milli Tvíbolla og Þríbolla heitir Kerlingarskarð og þar upp liggur gata. Vestan undir Tvíbollum, austan við götuna, er smá slakki. þar eru nokkrar snapir fyrir hesta og segir Ólafur þorvaldsson í fyrrnefndri grein, að lausríðandi menn hafi oft farið þar af baki, einkum á austurleið. þarna munu vera einhverjar leifar af húsarúst. Ólafur gerir þá grein fyrir henni að W.G.Spencer Paterson forstjóri brennisteinsvinnslunnar hafi látið byggja umhleðslustöð í þessum slakka. Brennisteinninn var selfluttur þannig “ að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú sem frá Hafnarfirði kom, stansaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga hinnar og fór sína leið aftur til baka“.
Bollar-loftmynd„Framundan eru sex hnúkar sem nefnast Grindaskarðshnúkar eða Bollar og milli þeirra eru Grindaskörð. Austast er Stóri Bolli, sem reyndar er talinn vera hið eina sanna Kóngsfell, en framan í bollanum er gígur sem er líkur bolla í lögun. Þetta er gamalt fiskimið sem sjómenn miðuðu út um aldir og tóku þá gjarnan stefnuna um Helgafell. Næst koma Tvíbollar, einnig nefndir Miðbollar, en vestan þeirra er Kerlingaskarð þar sem Selvogsgatan liggur um. Vestast eru berghnúkar sem nefnast Syðstubollar eða Þríbollar. Leiðin liggur eftir varðaðri leið upp í skörðin um Kerlingaskarðsstíg og þegar komið er upp á brúnina er hægt að velja nokkrar leiðir.“
Bollar-3Stórabollahraun kom úr Stóribolla. Um er að ræða dyngjuhraun. Annað nafn á hrauninu neðanverðu er Skúlatúnshraun. Það mun vera um 2000 ára gamalt, en gæti þí verið yngra, jafnvel einungis svolítið eldra en Tvíbollarhraun. Tvíbollahraun kom úr Tvíbollum, Grindarskörðum um 875.
Þrú öskulög eru jafnan notuð á þessu svæði til að greina aldur nútímahraunanna eftir landnám.
• Landnámslagið 870–880 er eitt mikilvægasta öskulagið á Íslandi, en það mun hafa fallið skömmu eftir að land byggðist og hefur dreifst víða. Öskulagið er talið vera komið frá Torfajökuls- og Veiðivatnasvæðinu árið 870–880 og er tvílitt, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta (Guðrún Larsen 1984; Karl Grönvold o.fl. 1995; Zielinski o.fl. 1997). Landnámslagið finnst víða og er grundvöllur margra aldursákvarðana á hraunum.
Oskulog• Miðaldalagið er dökkgrátt öskulag komið frá gosi við Reykjanes 1226–27 og er nokkuð auðgreint á svæðinu þar sem það er ívið grófkornóttara en önnur dökk öskulög þar. Þetta er mikilvægt öskulag á Reykjanesskaga og var því fyrst lýst af Gunnari Ólafssyni sem nefnir þrjú möguleg gos ábyrg fyrir gjóskunni (Gunnar Ólafsson 1983) en síðari athuganir benda til að gosið hafi verið 1226–27 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992; Magnús Á. Sigurgeirsson 1995).
• Katla-1500 er yngsta öskulagið sem stundum sést efst í sniðum í Brennisteinsfjöllum. Það skiptir litlu máli varðandi eldvirkni á svæðinu því gos hafa ekki orðið eftir að Miðaldalagið féll árið 1226. Lagið styrkir hinsvegar tilvist og greiningu annarra laga, en er yfirleitt þunnt og ræfilslegt þar sem það sést (Guðrún Larsen 1978; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992).
Bollar-4Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.“
Í Tvíbollahrauni eru nokkrir hellar, s.s.
Spenastofuhellir. Hann er um 200 metra langur og í honum margslungnar og sérkennilegar hraunmyndanir. Völundarhúsið hefur sex hellismunna og teygir arma sína víða eins og völundarhúsum er tamt. Mikil litadýrð og ýmis storknunarform hraunsins gleðja augað. Hellirinn er um 200 metra langur.
Spenastofuhellir-21Nyrðri-Lautarhellir hefur fjóra hellismunna og í honum skiptast á heillegir kaflar og nokkuð hrundir. Víðast er hægt að ganga uppréttur. Í heild er hellirinn um 150 metrar að lengd. Syðri-Lautarhellir er um 170 metra langur og í honum er að finna fjölmargar áhugaverðar hraunmyndanir.
Í Stórabollahrauni er m.a. Leiðarendi. Hann er um 900 metra langur og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Tómas Einarsson.
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands. Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins – Brennisteinsfjöll, Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, 2002.
-Björn Hróarsson.

Bollar

Bollar framundan.

Meltunga

Við fyrrum nýbýlið Meltungu í Kópavogi má sjá eftirfarandi lesningu á skilti, sem þar hefur verið  komið fyrir:
Meltunga„Árið 1936 tóku gildi lög um nýbýli og samvinnubýli á jörðum í opinberri eigu. Í Seltjarnarneshreppi var jörðunum Digranesi og Kópavogi skipt í hreinar bújarðir annars begar og smábýli hins vegar. Smábýlin voru ætlaðir sem ræktunarblettir án búsetu en föst búseta var á nýbýlunum. Aðkoma að nýbýlisjörðunum var eftir nýjum vegi sem lagður var sunnan sunnan Fossvogsdals og var nefndur Nýbýlavegur vegna þessa.
Leigjendur nýbýla máttu ekki eiga jörð né hafa átt jörð á undangengnu ári. Þá urðu þeir að geta lagt fram sinn hluta storfnkostnaðar býlisins, hafa nokkra þekkingu á landbúnaði og hafa starfað við hann í tvö ár hið minnsta.
Nýbýlin norðan Nýbýlavegar voru Lundur, Birkihlíð, Snæland, Ástún, Grænahlíð og austast var Meltunga sem einig nefndist Digranesblettur I.
GrjótnámLeigutakar Meltungu frá árinu 1938 voru Gestur Gunnlaugsson og Loftveig Guðmundsdóttir. Landið var 16.3 ha. Á því voru hvorki tún né girðingar, aðeins mýri og grjót. Því þurfti að leita fanga víða til að heyja handa 18 kúm og 140-150 fjár en þeirri stærð náði búið er mest var. Búskapur var aflagður árið 1972 og íbúðarhúsið að Meltungu rifið árið 1989.
Á tímum heimskreppunnar upp úr 1930 var mikið atvinnuleysi hérlendis. Stjórnvöld brugðust við þessu með svokallaðri atvinnubótavinnu þar sem menn voru ráðnir í tímabundna verkamannavinnu, oft við erfiðar aðstæður. Eitt verkefnanna var að undirbúa lagningu járnbrautar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á þeim slóðum þar sem Reykjanesbrautin er nú. Í Meltungu var höggvið til grjót sem talið er að hafi verið ætlað í undirstöður járnbrautarteinanna sem aldrei voru lagðir. Þessar minjar eru bæjarverndaðar og aðrar sambærilegar er að finna við landamerkjahólinn Einbúa við Skemmuveg.“

Meltunga

Tilhöggvinn steinn við Meltungu.

 

Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann „tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.“

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður „skilríkr maðr“, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: „Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: „Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.“
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. „Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.“ Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi „listamanns“ hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.is

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.

Grindarskörð

Eftirfarandi fyrirspurn barst FERLIR um Bollana ofan Grindarskarða.
„Mig langar til að forvitnast um hvað þið (Ferlir.is) nefnið bollana í Grindaskörðum. Ég hef vanist Stóribolli, Miðbollar og Syðstibolli. Einnig séð: StSelvogsgata-21óribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Syðribollar væri þó fremur réttnefni því að aðeins einn bolli getur verið syðstur. Ennfremur að einungis Stóribolli sé nafngreindur sem slíkur en aðrir „bollar“ kallaðir Grindaskarðahnjúkar. Þar að auki segir Jón Jónsson að næstu bollar við Stórabolla heiti Tvíbollar og aðeins gígurinn í þeim stóra eigi að bera nafnið Stórabolli – ekki fellið sjálft. Það er þó væntanlega búið að vinna sér hefð og skilgreinist sem hluti fyrir heild.“
Framangreint er reyndar allt rétt – svo langt sem það nær. Öll nöfnin hafa heyrst og verið skráð af ýmsum, einkum í seinni tíð.
Áður fyrr var einungis tala um Bollana og/eða Grindaskarðshnúka, sem reyndar er rangnefni því Grindaskörð eru utar (norðan við Stóra bolla), en Kerlingarskarð þar sem nefndir Grindarskarðshnúkar eru. Reyndar hafa menn kallað Kerlingarskarðið Grindarskörð í seinni tíð.

Midbollar

Á landakortum eru tilgreindir Stóribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Stóribolli er greinilegur úr fjarlægð sem og Miðbollar. Um er að ræða nokkra gíga utan í aðalgígnum (Miðbolla), einum þeim fallegasta á brúninni. Um Syðstubolla gildir annað því þeir sjást ekki neðan frá. Þeir eru minni og rétt innan (ofan) við Grindarskarðshnúka. Þeir koma í ljós þegar komið er upp á brúnina, vestan við Hlíðarveginn og beygt er til vesturs, að ofanverðum Draugahlíðum. Grindarskarðshnúkarnir eru hins vegar tindarnir vestan Kerlingarskarðs og eru ekki gígar. Um þá liggur leið (styttingur) ofan frá námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum.
Í einni lýsingunni segir: „Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar.“ Hér er talað um Tvíbolla og Þríbolla, auk Stóla bolla. Hægt væri að tala um, líkt og Jón gerði, Tvíbolla vestan Stórabolla. Miðbolli og Syðstubollar eru þó aðskilin gígasvæði, bæði með nokkrum gígum (3-5). Kóngsfellið (sunnan Miðbolla) er hluti af þessum gígum og mætti því vel teljast til Bollanna. Þar hittust fjárkóngar Grindvíkinga, Hafnfirðinga (Seltjerninga) og Ölfusmanna við upphaf leita á haustin.
Midbollar-2Gísli Sigurðsson lýsti Selvogsgötunni og örnefnum á henni á sínum tíma. Hann talar um bollana þrjá. Þá lýsti Ólafur Þorvaldsson leiðinni, en fer skarðsvillt. Konráð í Selvogi lýsir Suðurfaraleiðinni (en svo nefndu Selvogsmenn Selvogsgötuna). Þegar herflugvél fórst þarna ofan við á stríðsárunum var slysstaðurinn tilgreindur Bollar. Þorkell Kristmundsson frá Stakkavík (síðar Brunnastöðum), sem fór þarna oft um talaði einungis um Bollana. Annars fór hann, og bræður hans, Múlann (Fagradalsmúla). Sama nafni nefndi Eggert bróðir hans hábrúnina. (Greiðfærasta leiðin milli Stakkavíkur og Hafnarfjarðar er um Múlann, Breiðdalshraunið, Eldborgina og um Stakkavíkurstíg ofan Selsstígs (munar tveimur tímum). Hún er jafnframt sú fallegasta).
Svona til smábúbótar; Selvogsgatan lá um Grindarskörð (austan við Stórabolla). Þá var einnig farið um Kerlingarskarðið, en einungis fótgangandi eða með lausbeislað. Undir Kerlingarskarði eru tóftir húss námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þegar Hlíðarvegurinn var varðaður með stefnu á Kerlingarskarðið tók fólk hann sem Selvogsgötuna. Þá leið hafa leiðsögumenn farið með heilu hópa og talið sig vera á Selvogsgötunni. Selvogsgatan liggur hins vegar frá Stórabolla niður með Litla-Kóngsfelli og um Hvalsskarð, Hlíðardal, Strandardal og áfram niður um Strandarhæð. Hún er vel greinileg, en vörður eru flestar fallnar, nema kannski gatnamótavörður á tveimur stöðum (Heiðarvegur og afleggjari yfir á Hlíðarveg).

Grindarskörð

Grindaskörð og Bollar. Helgafell nær.

Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.