Tag Archive for: Garðabær

Selvogur

Býlin í Garðahverfi liggja svo þétt að kominn er vísir að svolitlu þorpi og var girt í kringum það allt með görðum.
gardur-221Varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustan megin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður, frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Garðinn lét séra Markús Magnússon reisa í kringum 1800 og væntanlega hafa allir íbúar hverfisins sameinast um verkið undir hans stjórn. Voru þá fjarlægð eldri garðlög við túnin ofanverð. Garðar hafa því verið þarna fyrr þótt þá þyrfti að endurhlaða með jöfnu millibili. Mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari og eru varðveittir garðar annars staðar sem vörðu heilu byggðalögin, t.d. Skagagarður á Garðskaga (Kristján Eldjárn.  Árb. ferðaf. 1903: Bls. 107-19). og Bjarnargarður í Landbroti (Sigurður Þórarinsson. Árb. ÍF 1982:bls. 5-39). Í Grágás eru jafnvel lagaákvæði um þetta og segir að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma” (Ísl. fornr. XII: Bls. 112).

gardar-221Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir:  „Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt“. Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44.
Í Örnefnaskrá 1964 segir:  „Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar. Var það mikið mannvirki. „ Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru  „vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […] „  Talað var um Austurgarð austur frá loggardurGarðahliði, en Vesturgarð vestur frá því. (G.R.G: 95). Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður (181-220). Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta. Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra garða og segir þar að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma”.

Heimildir:
-Árni Helgason:  „Lýsing Garðaprestakalls 1842”. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Rvk. 1937-9. Bls. 197-220.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931 öðlast gildi 1. apríl 1932.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 3, 6. jan. 1938. 1942-1944.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A40, 43-4 / Garðaland B38, 41-2.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir:  „1300-33/36”. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.
-Sigurður Þórarinsson:  „Bjarnagarður. „ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1981. Rvk. 1982. Bls. 5-39.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi frá 1918: Garðar, Krókur, Nýibær.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Bakki, Pálshús, Dysjar (Desjar) frá 1918.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Hausastaðir, Hausastaðakot, Katrínarkot,
-Móakot, Hlíð (2 býli), Háteigur, Miðengi frá 1918.
-Kristján Eldjárn.  Árb. ferðaf. 1903: Bls. 107-19.
-Sigurður Þórarinsson. Árb. ÍF 1982:bls. 5-39.
-Ísl. fornr. XII: Bls. 112.

Garðar

Garðar.

Flórgoði

Flórgoðinn er fallegur fugl. Hann mætir á vötnin ofan höfuðborgarsvæðisins; Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Urriðavatn, Vífilsstaðavatn, Rauðavatn o.fl., í kringum 15.-20. apríl eftir vetrardvöl s.s. við strendur Islands, Noregs og Skotlands, verpir um miðjan maí og liggur á 3-6 eggjum í u.þ.b. 21-25 daga. Ef varpið misferst getur hann verpt aftur og aftur uns allt um þrýtur. Á síðustu árum hefur flórgoðapörum fjölgað mjög á Reykjanesskaganum og er það vel.

Í Tímanum árið 1991 segir um flórgoðann:

Flórgoði

Flórgoðapar.

„Flórgoði (Podiceps auritus) er andarættar og heldur sig við tjarnir og síki. Höfuðið er gljásvart, fiðurmikið og úfið. Nefið er stutt, rýtingslaga og stélið er örstutt. Fæturnir eru með sundblöðkur á tánum.

Flórgoði

Flórgoði.

Frá höfði um aftanverðan háls, bak og vængi er fjaðurhamur svartur en á flugi koma fram áberandi hvítir vængspeglar. Flórgoðinn er hálsgrannur og búkurinn kubbslegur. Hann fellir fjaðurskúfa að vetri og litauðugt fiðrið tekur á sig dökkan lit. Röddin er lík væli nema á mökunar- og varptíma, þá er hún margvísleg. Flórgoðinn verpir 3-6 eggjum í flothreiður við sefgrónar grynningar. Á veturna dvelur hann á sjávarvogum.“

Í Morgunblaðinu árið 1993 fjallar Guðmundur Guðjónsson um flórgoðann undir fyrirsögninni „Flórgoðinn á „hættulistann““ (kynning á tegundinni í Bæjarbíói og á Ástjörn).

Flórgoði

Flórgoði með unga.

„Flórgoði, eða sefönd, heitir einn af fallegustu og sérstæðustu varpfuglum landsins. Hvergi hefur fugl þessi verið áberandi utan á Mývatni og svo ef til vill á einhverjum einstökum vötnum hér og þar án þess þó að magnið hafi verið mikið. Nú hefur brugðið svo við, að flórgoða hefur snarfækkað síðustu tvo áratugi. Ævar Petersen fuglafræðingur segir að flórgoðinn sé einn af þeim fuglum sem visindamenn hérlendis hafi sett á hættulistann.
Flórgoðinn er tiltakanlega algengur, það hafa verið þetta 300 til 400 pör og rúmlega helmingur þeirra á Mývatni en afgangurinn dreifður um landið.
Ástjörn er eini staðurinn á landinu að Mývatni undanskildu þar sem talandi er um flórgoðabyggð. Þó eru nú aðeins 6 til 8 pör á tjörninni sem er með mesta móti.

Ýmsar orsakir…

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Ástæður fyrir svo mikilli fækkun flórgoða geta verið ýmsar og þeir aðilar sem rætt var við töldu að samspilandi þættir væru hér á ferðinni. Flórgoðinn þarf mjög sérstætt umhverfi. Einungis grunn og gróskumikil vötn með starargróðri henta honum. „Allur fjandinn“ hefur verið gerður við slík vötn hér á landi eins og menn sögðu. Minkur hefur lengi verið skaðvaldur í fuglaríkinu og vitað er að flórgoðinn er ein þeirra tegunda sem á sérstaklega erfítt með að varast minkinn og veldur því sameiginlegt kjörlendi og hættir fuglsins. Aðrir þættir geta og spilað inn í, þannig benti Ævar Pedersen á, að menn vissu lítið um vetrarheimkynni flórgoða. Þau væru talin vera um norðanverðar Bretlandseyjar, Írland, Suðureyjar og Shetlandseyjar. Eitthvað er auk þess af flórgoða við strendur landsins á veturna, að minnsta kosti kemur hann oftast fram í árlegri fuglatalningu sem fram fer nærri áramótum. Aðeins fimm sinnum hafa íslensk merki fundist á dauðum flórgoðum og eru allar heimturnar frá þessum slóðum. Hvernig fuglinum reiðir af á vetrarstöðvunum er lítið vitað og aldrei að vita nema að einhverja fækkunarorsökina sé að finna þar.

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Flórgoði hefur mikla sérstöðu í íslenska fuglaríkinu. Nægir þar að benda á skrautlegt og óvenjulegt útlit fuglsins, en margur álítur hann með fegurstu fuglum þessa lands. Þá er hann eina varptegundin af svokallaðri goðaætt, en goðarnir eru náskyldir svokölluðum brúsum, en himbrimi og lómur eru þekktastir þeirra og þekktir varpfuglar á Íslandi. En fleira er sérstætt en útlit fuglsins. Hann er eina íslenska tegundin sem gerir sér flothreiður. Hreiðurstaðurinn er í stör og öðrum vatnagróðri og hreiðurefnið nærtækur vatnagróður sem fuglinn hleður upp í dyngju. Eggin eru 3 til 5 og tekur útungun um 25 daga, en varptíminn hefst oftast í lok maí eða í byrjun júní og fer það eftir árferði. Kemur þá inn í myndina hvort varpstaðurinn er sunnanlands eða norðan. Þar sem flórgoðar eru á annað borð eru þeir mjög áberandi framan af sumri og er svo fyrir að þakka útliti þeirra og látbragði. Þá þykir mörgum falleg sjón að sjá ný- og nýlega klakta flórgoðaunga sitja á baki móður sinnar. Og það hefur sína kosti að notast við flothreiður þó svo að meinbugir séu þar einnig á. Þannig eru goðarnir næmir á veðurbreytingar eins og önnur dýr og til þeirra hefur sést „leysa landfestar“ og draga hreiðrin á nýja bletti. Hefur þá ekki brugðist að vind hefur hert og nýi bústaðurinn til muna öruggari en sá fyrri.
Það væri sjónarsviptir af flórgoðanum úr íslensku fuglaríki og það er segin saga, að fuglastofn sem er strjáll fyrir þolir illa þegar samverkandi þættir ógna honum.

Flórgoði

Flórgoði – dans tilhugalífsins.

Flórgoðinn hefur aldrei verið áberandi fugl ef Mývatn er undanskilið, en nú fækkar honum þar ár frá ári. Fleiri fuglategundir á Íslandi stefna niður á við þótt almenningur verði ekki var við það þar sem stofnarnir eru enn stórir.
Áður hefur verið getið í fréttum Morgunblaðsins um fækkun steindepils og maríuerlu. Það sama gildir um hávellu og óðinshana. Þeim fækkar stöðugt og sérfræðinga okkar bíða þau verkefni að finna út hver vandinn er og stöðva hina óheillavænlegu þróun.“ – Guðmundur Guðjónsson

Í Morgunblaðinu árið 2013 fjallar Ásgeir Ingi Jónsson um flórgoðan; „Saman á sumrin en óháð að vetri„:

Flórgoði

Úr skýrslu um fugla í Garðabæ 2018.

„Flórgoðar af sama vatninu, pör eða nágrannar sem höfðu búið sumarlangt hlið við hlið, eiga sér vetrarstöðvar hvorir á sínum stað. Þannig kom t.d. í ljós að pör fóru hvort í sína áttina að hausti og dvaldist annar fuglinn í Noregi og hinn við Skotlandsstrendur yfir veturinn. Svo komu þau aftur heim að vori, strengdu sín heit að nýju, gerðu sér hreiður á sama stað og ólu upp unga.“
Þannig greinir Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, frá merkum niðurstöðum rannsóknar starfsmanna stofnunarinnar á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða, en þær voru að mestu óþekktar. Niðurstöðurnar hafa nú þegar aukið þekkingu varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða.
Þorkell segir að það hafi til að mynda komið verulega á óvart hversu óháðir sambýlisfuglar eru hver öðrum í vetrarorlofinu. Við rannsóknina eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) festir á fætur fuglanna til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Verkefnið hófst árið 2009 og hafa nokkrir flórgoðar verið merktir á hverju ári.
Alls hafa 46 fuglar nú verið merktir með dægurritum, þar af tíu í fyrrasumar, og hafa 15 merki endurheimst nú þegar.

Nokkuð tryggir varpstaðnum
Flórgoðinn
Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma. Út frá þeim er hægt að reikna staðsetningu á hverjum tíma, náist merkið aftur. Þessi tækni hefur einnig verið notuð til að skrá ferðir ritu, skúms og skrofu hér á landi. Fuglarnir voru veiddir og merktir á hreiðrum og er byggt á að þeir komi aftur á sama stað ári síðar. Þorkell segir að flórgoðinn virðist vera nokkuð tryggur varpstaðnum.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar staðfesta vetrarstöðvar við Bretlandseyjar, Noreg og Ísland. Hér sjást flórgoðar í litlum mæli að vetrarlagi á suðvesturhorni landsins og á Austfjörðum.
Út frá upplýsingum sem fengust úr dægurritum má líka sjá hversu lengi flórgoðarnir voru að ferðast til og frá vetrarstöðvum. „Flórgoði hefur ekki þótt sérlega flinkur flugfugl,“ segir Þorkell. „Hann er vatnafugl af guðs náð og hálfankannalegur á flugi, stéllaus, með lappirnar aftur úr búknum. Það vafðist þó ekki fyrir honum að fljúga heim frá Skotlandi á aðeins einum sólarhring. Það finnst okkur vel af sér vikið.“

Fjölgað hratt á síðustu árum

Flórgoði

Flórgoði á flotdyngju.

Flórgoði er eini fulltrúi sinnar ættar, goðaættarinnar, sem verpir hér á landi en tegundin finnst víða á norðurhveli. Eins og aðrir goðar er hann sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Hann fer aldrei á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður á vötnum sem hann festir yfirleitt uppi í stör eða víðibrúskum sem slúta út í vötn af bökkum.

Flórgoði

Flórgoði.

Nú er talið að um þúsund pör séu í íslenska flórgoðastofninum.“

Heimildir:
-Tíminn, 16.02.1991, bls. 12.
-Morgunblaðið, 146. tbl., 02.07.1993, Flórgoðinn á „hættulistann“ – Guðm. Guðjónsson, bls. 26.
-Morgunblaðið, 59. tbl. 12.03.2013, Saman á sumrin en óháð að vetri – Ásgeir Ingi Jónsson, bls. 16.

Flórgoði

Flórgoði með unga.

Urriðakot

Skal hér fjallað um tvö skemmtileg örnefni í landi Garðabæjar, annars vegar hina meintu dys (landamerki) Guðnýjarstapa og hins vegar álfhólinn ofan við Dýjakróka við Urriðakot.
DyjakrokshollÍ örnefnaskrá SP fyrir Urriðakot má lesa eftirfarandi um álfhólinn: „Heimildarmaður er móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.
„Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. Ofan við veginn rétt fyrir sunnan túnið er Grjótréttin, rústir gamallar réttar, sem móðir mín veit ekki, hvenær hætt var að nota. Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar.
Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókahóll. Í hólnum var talið búa Dyjakrokarhuldufólk og sá afi minn, Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld. Milli Grjótréttar og Dýjakrókahóls eru grasgeirar, er nefndust Dýjakrókaflöt. Úr uppsprettunum í Dýjakrókum rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurrumýrarlæk, en Þurrumýrarlækur rennur í vatnið. Þurrumýrarlækur dregur nafn af Þurrumýri, sem er suðvestan Dýjamýrar og er í Setbergslandi. Í Dýjamýri rétt neðan við Dýjakróka, en norðvestan við Dýjakrókalæk, er stórt dý ófært mönnum og skepnum. Það nefnist Svaðadý. Frá því rennur Svaðadýsrás í Dýjakrókalæk. Þar sem Þurrumýrarlækur rennur í Urriðakotsvatn, er tangi út í vatnið Urriðakotsmegin, er nefnist Álftatangi. Hann er á mörkum Urriðakots og Setbergs. Skammt norðaustan við hann gengur annar tangi út í vatnið, Skothústangi. Í Skothústanga eru gamlar rústir af byrgi, er nefnast Skothús. Hér fram undan í vatninu eru kaldavermsl.“
GudnyjarstapiUm hitt örnefnið, Guðnýjarstapa, má lesa eftirfarandi í bókinni  „Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar“: Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hofstaði segir m.a. um Guðnýjarstapa: „Guðnýjarstapi er klapparhóll með grasþúfu nyrst á Hofstaðaholti, landamerki milli Vífilsstaða og Hofstaða. Merkin lágu um Guðnýjarstapa frá Markavörðu að norðan og síðan um þúfu, Sérstökuþúfu (syðriþúfu) sunnan í Hofstaðaholti og í Miðaftanshól fram frá hrauninu (GS). Í lýsingu Hagakots sem GS hefur eftir Sigurlaugu Jakobsdóttur í Hraunsholti og Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti liggur línan úr Sérstökuþúfu (Syðriþúfu) í Vífilsstaðalæk.
Samkvæmt lýsingu systranna Sigríðar og Halldóru Gísladætra frá Hofstöðum voru síðustu mörk Hofstaðajarðar úr Stórakróki á Arnarneslæk í vörðuna í Dýjakróki og þaðan í Guðnýjarstapa við núverandi Holtsbíð 91. Enn sést þar rúst sem gæti verið hluti Guðnýjarstapa.“
Tilgáta er um að Guðnýjarstapi geti verið forn dys.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Urrðakot, Svanur Pálsson.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, 2001.

Garðabær

Guðnýjarstapi.

Vestri-Skógtjörn

Á norðvestanverðu Álftanesi er falleg vík, nánast falin á bak við háan sjóvarnargarð. Sumir segja víkina heita eftir húsi bæjarstjórans, en því mun vera öfugt farið, enda kom hvorutveggja til löngu fyrir hans daga í embætti. Á landakortum er Í Helguvíkhún nefnd Vestri-Skógtjörn, en á seinni árum hefur hún jafnan verið nefnd Helguvík. Víkin er grunn og sendin. Allan ársins hring er þar mikið af öndum. Hávella kemur þar gjarnan nærri landi. Á vorin eru tjaldar áberandi á leirunni innst í víkinni og ýmsir aðrir vaðfuglar sjást þar. Austan Helguvíkur var lífrík sjávartjörn, sem frá því að sjóvarnargarðar voru styrktir hefur nánast gróið upp.
Á Álftanesi einstaklega auðugt náttúrulíf. Þar eru fágæt fuglasvæði þar sem verpa um 30 fuglategundir auk þeirra þúsunda farfugla sem nýta svæðið til áningar og fæðuöflunar á ferðum sínum milli Evrópu og heimskautasvæða á Grænlandi og í Kanada vor og haust. Fjöldi fugla dvelur einnig á Álftanesi veturlangt og sækir viðurværi í hinar víðáttumiklu og gjöfulu fjörur.Um er að ræða sjóvarnir við Kasttanga, frá Kasttanga að Grund, við Akrakot og í vesturhluta Helguvíkur í Sveitarfélaginu Álftanesi.
Í úrskurði Umhverfisstofnunar árið 2005 um fyrrnefnda sjóvarnagarða segir m.a.: „Umhverfisstofnun bendir á að við Gróðurkollur í HelguvíkKasttanga muni sjóvörnin koma í efsta hluta fjörunnar og leggur Umhverfisstofnun áherslu á að við gerð sjóvarna á norðanverðu Álftanesi verði þess gætt að sjóvarnirnar hindri ekki umferð fólks um fjöruna né torveldi aðgang að fjörunni þar sem möguleikar séu til útivistar neðan sjóvarna. Umhverfisstofnun telur að ekki ætti að raska sandfjöru neðan núverandi sjóvarna frekar frá Kasttanga að Grund og sunnan við sjómerki Akrakoti.“
Um áhrif á menningarminjar segir ennfremur: „Fornleifavernd ríkisins bendir á að á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði frá Kasttanga að Grund sé hlaðinn grjótgarður sem sé nokkuð siginn en vel sýnilegur. Fram kemur að huga þurfi að því að ekki verði skemmdir á garðinum við fyrirhugaða framkvæmdir. Fornleifavernd ríkisins bendir á að við vesturhluta Helguvíkur séu nokkuð af hleðslum í og við sjávarkambinn. Norðan Haukahúsins sé hleðslugarður og garðlag upp tún að húsinu Sviðsholti. Niður af Sviðsholti séu hleðslur skotbyrgis og veggur. Norðan skotbyrgisins sé óreglulegur eldri sjóvarnargarður sem sé hruninn og frá suðurenda sjóvarnargarðsins liggi garðlag í sveig til austurs.“
Ummerki eftir sandmaðk í fjörunniEftir að hafa skoðað aðstæður við Helguvík var haldið að prestssetrinu Görðum á Álftanesi. Upplýsingar höfðu fengist um að gamla torfkirkjan og gamli Garðabærinn hafi staðið ofan við núverandi kirkju, nánast upp undir núverandi þjóðvegi. Þessir Garðar á Álftanesi er sá sem sveitarfélagið Garðabær er kenndur við. „Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Hvar Garðar voru er hvergi getið. Þjóðsagnaskýring hefur varðveist þess efnis að Garður hafi fyrrum verið þar sem Garðaflatir eru nú, ofan Búrfellsgjár. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir.“
Minjareitur þessi ofan við kirkjuna er vel afmarkaður. Hann er greinilega innan gamals hleðslugarðs. Um er að ræða forvitnilegar tóftir, sem ástæða hefði verið til að rannsaka.
Garðabærinn nær - Garðakirkja fjær

Gengið var um ~7200 ára Gálgahraunið að vestanverðu.
Komið var m.a. inn á augljósa forna götu er ekki var að Hraunkarlsjá í fornleifaskráningu um svæðið, þrátt fyrir stórkarlalegar áætlanir um vegagerð í hrauninu. Reynslan hefur sýnt að fornleifaskráningum
 almennt er verulega ábótavant. Þrátt fyrir það hafa ákvarðanir hingað til verið teknar á úrvinnslu þeirra!!!
Gatan kom inn á Fógetastíginn svonefnda, hina gömlu leið millum Bessastaða og Reykjavíkur fyrrum. Víða eru tilkomumiklar hraunmyndanir, ekki síst þær er meistari Kjarval framlengdi á ógleymanleg listaverk (Gálgahraun).
Lengi voru munnmælasögur um bein í skútum í hrauninu við Gálgakletta, en Gísli Sigurðsson telur líklegt að sakamenn hafi að henginu lokinni verið dysjaðir í Gálgaflötinni skammt norðan við Gálgakletta. Nyrst risu hinir tilkomumiklu Klettar, en krummi hafði gert sér lítið fyrir og gert sér lítilmátlegan laup í einum þeirra.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

 

 

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 segir svo um lönd Akurgerðis og Garða:
Akurgerdi 221„Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: ,,Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild.
gardar-999Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign… Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurra búðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svig um): kýr 112 (69), kvígur 5 (1), naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106).
Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 Skerseyri-221menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
„Vestast á hraunbrúninni í Garðahverfi stendur Bali, þá kemur Hraunhvammur, austar er Skerseyri, þá Brúsastaðir, en síðan Eyrarhraun. Þar næst koma Langeyrarmalir… Í kring um húsin er sléttur malarbás undir hraunbrúninni. Litlu austar er Langeyri… en síðan tekur við samfelld byggð kaupstaðarins allt frá Fiskakletti og suður undir Flensborg.“
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1951, bls. 585-591.
-Vikan, 7. árg. 1944, 5. tbl., bls. 3.

Garðar

Garðar.

Arnesarhellir

Oscar Clausen ritar um Arnes útileguþjóf í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941:

Arneshellir

Í Arneshelli í Garðabæ.

„Frá Arnesi útileguþjóf er sagt í þætti Gísla Konráðssonar [Lbs. 1259 4to.] af Fjalla-Eyvindi, Höllu og fjelögum þeirra, en af því að Arnes er eiginlega sögulegasta persónan í þessu fjelagi, að Eyvindi undanskildum, er ekki úr vegi að segja nokkuð sérstaklega frá honum.
Arnes var Pálsson og ættaður af Kjalarnesi og er sagt að foreldrar hans hafi haft mikið dálæti á honum í uppvextinum og alið hann upp í eftirlæti, og ekkert vandað um við hann þó að hann sýndi varmensku og ójöfnuð á unglingsárunum. Hann var þegar á unga aldri hinn knálegasti maður og svo fóthvatur að fáir hestar tóku hann á hlaupum, þó að þeir væru vel fljótir, en harðgeðja var hann og grimmur í skapi og fram úr hófi fégjarn. — Þegar Arnes var orðinn iitileguþjófur var lýst eftir honum á Alþingi 1756 og er honum þá lýst svo, að hann væri smár vexti, smá- og snareygður, með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur, með litla vörtu hárvaxna neðarlega á kinninni, gjörnum á að brúka það orðtak „karl minn“. En síðar er honum lýst svo: „Lágur vexti, þrekinn, kringluleitur, þó kinnbeinahár, munn við hæfi, litla höku, snar og dökkeygur, dökkur á háralit, mælti við völu“. —
Eftir Akrafjallsveruna sprettur Arnes, fyr en varir, aftur upp á fornum stöð um og gjörir nú vart við sig við Elliðaárnar fyrir innan Reykjavík. Þar var þá þófaramylla frá klæðaverksmiðjum Skúla fógeta, í Reykjavík og gætti hennar danskur maður, — bóndi frá Sjálandi — og bjó hann á Bústöðum. Einn morgun var sá danski snemma á ferli og gekk til myllunnar, en sá þá að gluggi var þar brotinn og þegar hann gáði inn, sá hann hvar maður lá sofandi á gólfinu og hafði staf og poka sjer við hlið. — Sá danski greip þetta hvorutveggja og hljóp með það heim til Bústaða, en skömmu síðar vaknaði hinn sofandi maður og elti hann. Bóndinn kallaði þá til konu sinnar og sagði henni að senda ,,meystelpu“, sem hjá þeim var til Reykjavíkur og láta bókhaldara verksmiðjanna vita hvað í efni væri. Hann sagði henni að láta ,,meystelpuna“ fara út um reykháfinn á eldhúsinu svo lítið bæri á og biðja menn í Reykjavík að bregða þegar við og koma sem fljótast, því að sjer litist mjög illa á gestinn, sem kominn væri til sín. —

Arnesarhellir

Arnesarhellir við Elliðaár.

Í bæjardyrunum snjeri sá danski sjer við og hafði járn í hendinni, en í því bar komumann þar að, en það var Arnes og heimtaði hann nú staf sinn og poka. Bóndi neitaði að láta það af hendi og sagði Arnesi að hann skyldi þá reyna að ná því úr greipum sjer. Ekki þorði Arnes að ráðast á karlinn, en eftir nokkur orðaskifti og heitingar á milli þeirra varð það úr, að Arnes gekk í bæinn og þáði heita mjólk, hefir eflaust verið orðinn langsoltinn. — Bústaðabóndinn gerði nú allt til þess að tefja fyrir Arnesi og var altaf, öðru hvoru, að hlaupa fram í bæjardyrnar til þess að gá að hvort nokkur kæmi úr Reykjavík. Hann var í þungu skapi og setti járnið um þverar dyrnar, en var svo sjálfur fyrir framan svo að Arnes kæmist ekki út. Arnes var hvergi smeikur og gjörði nú skyndiáhlaup á þann danska. Hann hljóp til og greip járnið, en snaraði sjer síðan að bónda og skelti honum flötum á ganginn, tók staf sinn og poka og hljóp út úr bænum og yfir á Digranesháls. Þaðan sá hann svo til hóps manna úr Reykjavík, sem voru komnir innan til á Öskjuhlíðina og hjeldu nú með Bústaðaholti. Bóndi hjelt nú til móts við þá og svo labbaði allur skarinn inn. að Elliðaám. Þegar þangað kom, þorðu þeir ekki yfir árnar, þótti þær ófærar gangandi mönnum og hjeldu upp með þeim, en Arnes hafði hlaupið yfir þær þar efra og sáu þeir á eftir honum. Snjór hafði fallið og var því sporrækt. Eltu þeir nú Arnes þrjátíu í hóp, flest vefarar úr Reykjavík, en þegar Arnes sá þá veita sjer eftirför, sneri hann við og hvarf þeim. Þeir ráku þá för hans suður að Hofsstöðum norðan Vífilsstaðavegs. Hljóp hann þaðan í Garðahraun yfir Vífilsstaði eða Hraunlæk, en þeir eltu hann enn. Arnes tók nú það ráð að halda sig hrauninu og stikla á hraunstríkum, svo að ekki sáust spor hans, enda mistu þeir af honum og leyndist hann í hrauninu um nóttina. Ekki gáfust Reykvíkingar samt upp við þetta og var nú safnað enn meira liði til leitarinnar að Arnesi. —  Um kvöldið var sent til Hafnarfjarðar, um Álftanes og í Garðahverfið að smala mönnum og skipuðu þeir sjer kringum hraunið uni nóttina, því að ekki átti Arnes að sleppa. Allan daginn eftir var hans leitað, en alt var það að árangurslausu og að svo búnu fóru leitarmenn hver heim til sín og þótti ver farið en heima setið. Ekki var grunlaust um, að einhverjir þarna ekki langt frá hefðu hjálpað Arnesi og leynt honum, og voru hjónin á Hofsstöðum tekin föst og sökuð „um bjargir“ við Arnes, en að lÖgum mátti honum enginn bjargir veita eða verða honum að nokkru liði, og er það harla einkennilegt þar sem hvergi sjest að hann hafi þá verið dæmdur fyrir þjófnað. Þessi Hofstaðahjón meðgengu það, að þau hefðu ..haldið Arnes á laun“ tvo eða þrjá vetur, soðið fyrir hann matvæli og hjálpað honum á ýmsa vegu. — Sýslumaður í Gullbringusýslu var þá Guðmundur Runólfsson, Jónsson frá Höfðabrekku. Hann hafði þessi mál með höndum og dæmdi hann hjónin á Hofsstöðum í miklar fjesektir fyrir það að hafa liðsinnt þessum hælislausa afbrotamanni. — Um þessar mundir var mikið um þjófnaði á Suðurlandi og var það mest kent útileguþjófum, en samt var það nú ekki fyrr en eftir þetta að Arnes lagðist út fyrir fult og alt, og yfirgaf mannabygðir. Það er nú af Arnesi að segja, að hann leyndist í Hafnarfjarðarhrauni altaf meðan á leitinni stóð og leitarmennirnir voru þar að verki og úr hrauninu fór hann ekki fyr en leitinni var hætt og allir voru farnir heim til sín. Áður en hann yfirgaf hraunið faldi hann vel og gróf peninga sína, en þeir höfðu verið í pokanum, sem Bústaðabóndinn danski hafði hrifsað frá honum, þegar hann kom að honum sofandi í þófaramyllunni, og honum hafði verið svo annt um að ná aftur. — Ekki þorði Arnes að hafast við í nágrenni höfuðstaðarins, en brá sjer inn fyrir Hvalfjörð og gjörðist nú útilegumaður.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Síðaan brá hann sjer til æskustöðvanna, suður á Kjalanes og lagðist í Esjuna, og fór þá jafnskjótt að hverfa fjenaður manna. Í Esjunni urðu menn fyrst varir við Arnes þannig, að hann sást oft fáklæddur á hlaupum í hitum að sumrinu og var hann þá að afla sjer eldiviðar til þess að sjóða við slátur það, sem hann hafði stolið. Stundum sást hann koma hlaupandi úr fjallinu ofan í byggð til þess að stela sjer mat og öðru, sem hann þá vanhagaði um. —
Það ljek líka orð á því að Arnes ætti eitthvert hæli eða athvarf einhversstaðar í byggðinni þegar honum lægi mest á og margt þótt ust menn verða varir að hann hefði haft saman að sælda við bóndann í Saltvík á Kjalarnesi sem Þorkell hjet Tómasson, og svo fannst líka fjársjóður, sem Arnes átti og hafði falið einhversstaðar og var það ekki nein smáræðisupphæð, 20 spesíur, 8 dalir krónuverðs og 12 dalir sléttir. — Þorkell í Sandvík var bendlaður við að hafa haft þessa peninga með höndum fyrir Arnes og þótti nú augljóst að Arnes lægi einhversstaðar í Esjunni. — Þegar sýslumaðurinn, Guðmundur Runólfsson frjetti þetta, sendi hann menn til þess að ná Arnes og taka Þorkel bónda í Sandvík fastan og færa sjer þá báða. Var nú safnað liði á Kjalarnesi og leitað fjallið. Fannst hreysi Arnesar, en sjálfur komst hann undan og er sagt, að hann hafi þá átt fótum sínum fjör að launa, þó segja sumir að í þetta skifti hafi hann brugðið fyrir handahlaupum, en talið er ólíklegt að hann hafi þurft þess, þar sem hann var svo frár á fæti að fljótustu hestar höfðu hann ekki á sprettinum.
Eftir að yfirvaldið hafði komið hendur yfir Arnes og flutt í Gullbringusýslu var hann oft lánaður í vinnu að Bessastöðum og er sagt, að alt af, þegar færi gafst. Hafi hann vitjað peninga sinna, sem hann hafði grafið í Garðahrauni og tekið var eftir því, að aldrei skorti hann aura.
Arnes kom sjer svo vel í vinnunni á Bessastöðum, að Wibe amtmaður fjekk konung til þess að náða hann að fullu. Sagt er, að Arnes hafi með snarræði sínu bjargað heilli skipshöfn úr sjávarháska á Álftanesinu, en allar kringumstæður að því eru gleymdar.
Arnes varð gamall maður, en varð aldrei snauður og hafði altaf nokkur peningaráð. Þó að alt væri honum andstætt og öfugt fyrri hluta æfinnar, þá var hann á elliárunum vel látinn af öllum, sem hann kyntist. Að lokum var Arnes niðursetukarl í Engey og þar dó hann 91 árs gamall 7. september 1805 og var jarðaður fjórum dögum síðar í kirkjugarðinum í Reykjavík. Þar hvíla lúin bein hans.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí 1941, bls. 233-235.
-Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1941, bls. 277-278.

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).

Maríuhellar

Maríuhellar.

Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður.

Á Vísindavef HÍ er spurt; „Hvers vegna heita Maríuhellar í Heiðmörk þessu nafni?“ Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar, svarar:

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Maríuhellar eru tveir hellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).
Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar“ (Örnefnaskrá Urriðakots; Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. 2001, bls. 30, 37, 123).

Maríuhellar

Maríuhellar – kort.

Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191).
Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185).
Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374).
Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni.“

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Árið 2014 var neðri hluti Urriðahrauns og Maríuhellar friðlýstir sem fólkvangur. Friðlýsingin var endurskoðuð 2021 og fólkvangurinn stækkaður upp í vestari hluta Selgjár.
Í auglýsingunni „um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ“ segir í 1. gr.:

„Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa Garðahraun, Vífilsstaðahraun (Svínahraun) og Maríuhella sem fólkvang samkvæmt 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Meginhraunstraumurinn rann til sjávar til norðurs og nefnist þar Gálgahraun og var það friðlýst með auglýsingu nr. 877/2009. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Hraunsvæðin eru ekki samfelld.
Hin friðlýstu svæði eru alls 156,3 ha að flatarmáli.“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Mar%C3%ADuhellar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3986
-Nr. 510 30. apríl 2014 – Auglýsing um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ.

Maríuhellar

Maríuhellar – kort af  neðra friðlýsingarsvæðinu.

Valaból

Valaból, sunnan við Hafnarfjörð, hefur á stundum verið nefnt fyrsta Farfuglaheimilið á Íslandi. Fljótlega eftir að Bandalag íslenskra farfugla var stofnað árið 1939 var hafist handa við að leita að hellisskútum sem unnt væri að nota sem gististaði. Fyrstur fyrir valinu varð Músarhellir við Valahnúka, sunnan við Hafnarfjörð.
MúsarhellirFékk staðurinn snemma nafnið Valaból og hefur hann verið þekktur undir því nafni æ síðan. Engar öruggar heimildir finnast um það hvers vegna hellirinn fékk nafnið Músarhellir. En tvær tilgátur hafa einkum verið í gangi. Önnur er sú að hellirinn hafi verið svo lítill að hann minnti einna helst á músarholu. Hin kenningin er að mýs hafi leitað í nesti gangnamanna, en hellirinn var notaður sem náttstaður gangnamanna fram undir 1900.

Eina opinbera staðfestingin á landnámi Farfugla í Valabóli er að finna í fundargerðarbók Bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 13. júlí 1942 og er hún þannig: Farfugladeild Reykjavíkur fer fram á leyfi til þess að mega innrétta og hlaða fyrir hellisskúta norðanvert í Valahnjúkum. Bæjarráð leggur til að þetta leyfi verði veitt meðan ekki kemur í bága við annað sem talið er nauðsynlegra.

Frá upphafi átti Valaból að gegna tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að verða áninga- og gististaður Farfugla og annars útivistarfólks, Farfuglahreiður. Í öðru lagi var hugmyndin að lagfæra og fegra umhverfi hellisins og gróðursetja blóm og tré.

Strax eftir að þetta leyfi var veitt hófust Farfuglar handa við að standsetja hellinn. Hann var mokaður út, því það var langt í frá að hann væti Í Valabólimanngengur. Var gólfið lækkað um hálfan metra og segl sett á moldargólfið. Auk þess voru veggir hlaðnir og sett var upp hurð með glugga. Þegar grafið var út úr hellinum fundust þar bein og fyrirhleðsla sem bentu til þess að einhvern tíma í fyrndinni hafi fólk dvalist í hellinum. Síðar var segldúknum skipt út fyrir trégólf, innréttingar gerðar og komið var upp aðstöðu til eldunar. Þá voru geymd þar ullarteppi sem voru næturgestum til afnota. Komu þau í góðar þarfir því hellirinn var óspart notaður til gistingar. Trégólfið var í hellinum allt fram til 1960 en þá var það orðið svo fúið að það var fjarlægt ásamt eldunar- og viðlegubúnaði. Um leið og trégólfið var fjarlægt var gólfið enn lækkað og það lagt steinhellum.

Fyrstu árin eftir að Músarhellir var gerður upp var hann mikið notaður til gistingar. Sú hefð skapaðist fljótt að hafa gestabók í hellinum og er svo enn í dag. Þessar gestabækur eru frábær heimild um þá stemningu sem myndaðist á staðnum og þann mikla fjölda gesta sem árlega heimsækir staðinn.

Við Valaból

Eftir að búið var að lagfæra hellinn og gera hann nothæfan fyrir gistingu var hafist handa við ræktunarstarf. Fyrst verkefnið var að girða nágrenni hellisins, en þar sem ekki var bílfært lengra en í Kaldárbotna varð að bera þaðan allt girðingarefnið. Við girðingarframkvæmdirnar var reynt eftir föngum að nota náttúrulegar hindranir, s.s. kletta sem hluta girðingarinnar. Annars staðar voru hlaðnir steingarðar og á sléttlendi var sett upp girðing á staurum.

Í Valabóli

Eftir að búið var að girða af svæðið var hafist handa við að undirbúa landið fyrir gróðursetningu því það var mest stórgrýtisurð og því illa fallið til ræktunar. Fyrst var stórgrýtinu safnað saman til að hlaða úr því stalla, síðan fyllt ofan á það með smærra grjóti, leir og öðru sem fyrir var og loks var sett mold til þess að unnt væri að þekja svæðið. Lítið var um farartæki á þessum árum og þurfti því að bera mold, þökur, áburð og annað sem til þurfti langan veg.

Mikill hugur var í mönnum við gróðursetninguna og fljótlega þurfti að fá leyfi til að færa út girðinguna. Til eru heimildir um að Farfuglar hafi 5 sinnum sótt um það til Hafnarfjarðarbæjar að stækka svæðið. Síðast var svæðið stækkað 1990 og var girðingin þá færð á þann stað sem hún er nú. Síðustu framkvæmdir í Valabóli áttu sér stað sumarið 2004 en þá var girðingin kringum svæðið lagfærð. Var þar um að ræða samstarfsverkefni Hafnafjarðarbæjar og Farfugla.

Valaból

Þrátt fyrir erfið skilyrði til ræktunar má fullyrða að árangurinn hafi verið vonum framar. Samkvæmt flórulista sem byggður var á athugunum Gests Guðfinnssonar og Mattihasar Guðfinnssonar 24. júlí og 23. ágúst 1970 þá fundust alls 103 innlendar plöntur og 9 erlendar í Valabóli þetta sumarið. Það eru ekki eingöngu hin náttúrulegu skilyrði sem hafa tafið uppgræðsluna í Valabóli heldur hefur ágangur sauðfés verið mikill í svæðið, enda gróðurlítið á stóru svæði umhverfis. En eftir að mönnum tókst að setja upp fjárheldar girðingar tók gróðurinn verulega við sér og tegundum fjölgaði.

Segja má að Valból sé sannkölluð vin í eyðimörkinni í Reykjanesfólkvanginum og er staðurinn í dag vinsæll áningarstaður gangandi fólks og hestamanna.

Heimild:
-www.hostel.is

Valaból

Valaból – Músarhellir 1952.

Urriðakotshraun

Gengið var um Urriðakotshraun með  það fyrir augum að skoða nokkrrar klettamyndanir sem þar eru. Sumir klettanna hafa verið nefndir, s.s. Grásteinn og Einbúi, en aðrir bíða skírnar. Urriðakotshraun er hluti Búrfellshrauns.
Urridakotshraun-22„Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Nafnið Búrfellshraun er samheiti yfir allt hraunið en einstakir hlutar þess heita sínum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Stekkjarhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hraunið rann í tveimur meginkvíslum frá Búrfelli norðvestur á milli grágrýtisholtanna og allt í sjó í Hafnarfirði og Skerjafirði. Sjór stóð mun lægra við ströndina þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Urridakotshraun-23

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Það er 18 km2 að flatarmáli, meðalþykktin hefur verið áætluð um 16 m og rúmmálið því um 0,3 km3 (Guðmundur Kjartansson 1972). Þykkt hraunsins norður af vatninu er samkvæmt svarfgreiningu í borholum sem þar hafa verið boraðar 6-11 m. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, birti aldursgreiningar af því árið 1972.  Eitt af sýnunum er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins. Það er því um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f.Kr. Sprungur og misgengi í hrauninu sýna hvar jörð hefur hreyfst og brotnað á síðastliðnum 8000 árum, þ.e. frá því hraunið rann. Sprungusvæðin eru nær eingöngu í þeim hluta hraunsins sem nefnist Smyrlabúðarhraun, þ.e. grennd við gíginn sjálfan og við Kaldárbotna. Ekki er vitað um neinar sprungur eða brot í hrauninu á láglendi eða nærri byggð.“

„Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfellsgígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Urridakotshraun-24Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum sem fyrr er getið, eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun.

Urridakotshraun-25

Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Hraunið er ólivínbasalt og stærð þess er 18 km2. Grunnmassinn er fremur fínkornóttur og samanstendur af plagióklas, pyroxen, olivín, ilmenít og seguljárni (magnetíti). Búrfellshraun er ólivíndílótt og eru dílarnir 5-8mm í þvermál og stundum stærri.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur.
Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 Urridakotshraun-26metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í gjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst.“
Hin ýmsu nafnkenndu hraun Búrfelsshrauns eru bæði lík og ólík. Í flestum þeirra rísa miklir klettadrangar, s.s. Gálgaklettar í Gálgahrauni, Gráhella í Gráhelluhrauni, Einstakihóll í Urriðakotshrauni, Miðdegishóll í Flatahraunu o.s.frv. Urriðakotshraun er hins vegar óvenjuríkt af stökum klettamyndunum eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Hjartarson – Vatnafar við Urriðakotsvatn – Vatnafarsrannsóknir 2005.
-Verkefni í Jarðfræði 303 – Hildur Einarsdóttir og Þóra Helgadóttir – Flensborgarskólanum vorönn 2000.

Gálgaklettar

Við Gálgakletta.