Í Tímanum árið 1947 var m.a. fjallað um Nýtt hitaveitu svæði í nágrenni Hafnarfjarðar og Rvíkur – „Heitu vatni dælt upp úr borholu á túninu á Hliði á Álftanesi„.
„Hlið á Álftanesi var fyrir nokkrum áratugum frægt útvegssetur, og þar bjuggu lengi einhverjir harðskeyttustu útvegsbændurnir við Faxaflóa. Á seinni árum hefir verið hljóðara um höfuðból hinna gömlu sægarpa. Nú kann þó svo að fara, að athygli manna beinist aftur að þessum stað, þótt af öðrum ástæðum sé en fyrrum. Síðastliðinn laugardag kom nefnilega mikið af heitu vatni upp ur borholu, sem þar hefir verið gerð, og líkindi eru til, að þarna sé enn meira af enn heitara vatni. Hiti og vatnsmagn hefir þó eigi verið mælt enn.
Boranir þær, sem gerðar hafa verið á Hliði á Álftanesi, voru hafnar sumarið 1943. Hefir verið unnið að þeim síðan, eftir því sem ástæður hafa leyft. Munu þessar rannsóknir þegar hafa kostað yfir 140 þúsund krónur.
Á laugardaginn var fór Jón Einarsson, forstjóri Orku, sem fyrir nokkru hefir yfirtekið hitarannsóknirnar, út að Hliði og lét dæla lofti niður í borholuna, sem mun vera hátt á fjórða hundrað metra djúp. Hafði áður verið settur þar upp turn og pípum verið rennt um 80 metra niður í hana. Kom innan stundar upp gusa mikil af brennheitu vatni. Þegar á þessu hafði gengið um stund, fóru Jón og aðstoðarmenn hans heim að Hliði og drukku þar kaffi í makindum, en létu dæluna vera í gangi á meðan. Hélt vatnið áfram að streyma upp úr holunni meðan þeir voru inni og allt þar til dælan var stöðvuð.
Sigurður Jónasson forstjóri festi kaup á jörðinni Hliði árið 1943. Lét hann hefja þar vatnsboranir þegar samsumars. Var notaður til þessa fjögurra þumlunga bor, sem fenginn var að láni hjá Reykjavíkurbæ. Um 230 metra út frá túninu á Hliði, út af svonefndri Helguvík, er heitt vatn í skeri, sem nú orðið kemur ekki upp úr sjó nema um stórstraumsfjöru nokkrum sinnum á ári.
Dr. Trausti Einarsson og Helgi Sigurðsson, nú hitaveitustjóri, og fleiri höfðu mælt þar 80—85 stiga heitt vatn, sem kom upp úr augum og sprungum á skerinu, og virtist margt benda til þess, að þarna væri enn heitara vatn, þar eð sjór gjálpar alltaf við og við yfir hitasvæðið, svo að erfitt var að mæla hitann nákvæmlega. Þótti sérfræðingum þessi mikli hiti á þessum stað benda til þess, að jarðhiti myndi einnig vera undir túninu á Hliði.
Samkvæmt ráði dr. Trausta Einarssonar var byrjað að bora eftir jarðhita utarlega í túninu á Hliði, og kom það fljótt á daginn, að hiti var í jörðinni. Borunin gekk aftur á móti illa, þar eð spennan á rafstraumnum frá Sogsstöðinni var mjög lág á þessum árum. Enduðu þessar tilraunir að lokum með því, að borinn brotnaði, þegar búið var að bora hátt á fjórða hundrað metra niður í jörðina. Ekkert vatn hafði þá komið upp, en hitinn mældist um 80 stig niðri í holunni. Hafði hitinn aukizt um 42 stig við síðustu hundrað metrana, nokkurn veginn jafnt og þétt. Virtist allt benda til þess, að náðzt hefði yfir hundrað stiga hiti, ef unnt hefði verið að bora álíka djúpt og gert var með slíkum borum á Reykjum í Mosfellssveit, um 600 metra.
Árið 1945 kom þingað til lands á vegum hlutafélagsins Orku sænskur verkfræðingur, Sven Petterson að nafni, frá hinu heimskunna borfélagi, Svenska Diamantbergborrnings A/B. — Hann taldi, að þarna hlyti að vera heitt vatn, og lagði þau ráð til, að reynt yrði að dæla því upp. Árið 1946 voru fengin tæki frá sænska félaginu, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt til nota í Krýsuvík, en lánaði til tilraunanna á Hliði. Var hafizt handa á laugardaginn um að dæla upp vatninu, og gaf tilraunin góða raun, sem þegar hefir verið lýst, og má líklegt telja, ef dæma má eftir árangri þessarar fyrstu tilraunar, að þarna megi dæla upp miklu heitu vatni, þótt það flæði ekki upp af sjálfu sér.
Þetta nýja- hitasvæði, sem þarna virðist fundið, getur haft mikla þýðingu, ef vatnsmagn og hitamagn reynist þar nægjanlega mikið. Mestu máli skiptir, að ekkert hitasvæði hér á landi (að sundlaugunum í Reykjavík undanskildum) liggur jafn vel við þéttbýli eins og þetta hitasvæði þarna í túninu á Hliði og á ströndinni vestur af því. Þaðan eru aðeins rúmlega fimm kílómetrar til Hafnarfjarðar og rúmlega tólf kílómetrar til Reykjavíkur.“
Myndirnar eru teknar í skerinu út af Helguvík hjá Hliði á Álftanesi. Eins og segir í greininni um jarðhitann á Hliði, kemur skerið nú orðið aðeins úr sjó um stórstraumsfjöru, og voru myndir teknar, þegar svo stóð á sjó. Skerið er gróið þara og þörungum, en af þvi miðju leggur upp gufu mikla frá heita vatninu. Þetta heita vatn þarna í skerinu leiddi hug manna
að því, að víðar myndi jarðhiti á þessum slóðum. —
/ SKERINU UT AF HELGUVIK
Heimild:
-Tíminn 25. febrúar 1947, forsíða.
Hlið á Álftanesi.