Tag Archive for: Garðabær

Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni „Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin“:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

„Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001 um „Helgafell við Kaldárbotna„.
Kaldárbotnar„Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.“

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Setberg

Gengið var yfir Setbergsholtið og um norðanvert Urriðavatn.
Gamli Setbergsbærin er vestan í holtinu. Enn má sjá tóftir Urriðakot-2hans og garða. Burstirnar hafa snúið á móti vestri, niður að Hamarskotslæk með útsýni yfir Hafnarfjörð. Hlöðnu vörslugarðanir standa margir hverjir enn þrátt fyrir umsvifin á golfvelli Setbergsmanna. Komið var við á Galdraprestshól, en hóllinn stendur fast við gamla veginn upp að Urriðakoti. Við hann er kennd saga prests nokkurs sem koma hafði átt undir á altari kirkju einnar norðlenskrar. Afkvæmið varð prestur og þótti göldróttur með afbrigðum. Til eru margar sögur af fjölkyngi hans.

Urriðakot

Urriðakot – rétt við Lambatanga.

Norðan við Urriðakot er Lambatangi. Á honum er nokkrar fornar hleðslur, en landamerki Setbergs og Urriðakots eru á honum vestanverðum. M.a. má, ef vel er gáð, hlaðna refagildru. Hlaðnir garðar eru á austanverðum tanganum og skammt norðar er fallega hlaðið gerði í klettasprungu. Álftir höfðu verpt í einum hólmanna austan við tangann.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Í túninu neðan við Urriðakotsbæinn, sem Jón Guðmundsson, fyrrum stórbóndi á Setbergi (áður bóndi á Bryggju og á Tortu, þeim bæjum einum í Biskupstungum er Skálholtsstóll, auk Haukadals, náði ekki að söðla undir sig), sonur Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga í Haukadal (fyrrum bónda á Álfsstöðum á Skeiðum), leit augum hinsta sinni vorið 1907, áður en hann flutti sig háaldraður á láglendið, er letursteinn klappaður af ábúandanum 1846.
Gengið var til baka um gömlu götuna að stíflunni. Sefgrasið í víkinni var orðið nokkuð hátt miðað við árstíma (sbr. meðfylgjandi mynd), en venjulega lítur það ekki svona út fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí.

Urriðakot

Urriðakot – rétt á Lambatanga.

Engan fisk var að sjá við stífluna, sem er líka nokkuð óvenjulegt.

Urriðakot

Urriðakot – leifar bæjarins 2024.

Gengið var þvert yfir golfvöllinn á bakaleiðinni. Golfarnir hættu leik sínum, tóku ofan og biðu fullir lotningar á meðan FERLIRsfélagar liðu hjá.
Veður var frábært – logn og sól.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er afleíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.

Hausastaðir

Hausastaðir og tóft Hausastaðaskóla 2024.

Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, „kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa“. Sé hann kvongaður „skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði“. Hann átti að hafa „gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla“. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.

Hausastaðir

Hausastaðaskóli (t.v.), minnismerki og Hausastaðir.

Um kennsluna var það tekið fram, að „með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar“, þá átti daglega, „kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng“, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og „stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum“, og „aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins“.

Hausastaðir

Hausastaðir 2022.

Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja „alla sálma tíðkanlega hér á landi.“ Og til þess að „lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.“
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann „eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra“.
Börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki í Njarðvíkum.

Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að ráðast í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé „afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.“

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í „sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.“ Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.

Hausastaðir

Hausastaðir og minnismerkið um Hausastaðaskóla.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.

Járnbrautarvegur

Gísli Sigurðsson ritaði eftirfarandi grein um „Vegagerð í nágrenni Hafnarfjarðar“ í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1966:
„Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Hverjir það voru, sem forgöngu höfðu í því, að leitað var til ríkisstjórnar um atvinnumál, veit ég ekki, en tel þó, að það hafi verið Gísli Sigurðssonbæjaryfirvöld kaupstaðanna. Þessi viðleitni varð til þess að stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það mun hafa verið hinn ungi Geir G. Zoëga verkfræðingur, er þá hafði verið skipaður vegamálastjóri, sem mældi út veginn og fann honum stað. Vegurinn átti að liggja út af Suðurlandsbraut um austanverða Sogamýri, vestan Blesugrófar, og upp austurenda Digranessháls, rétt austan við bæinn Digranes, þar sem gömlu göturnar lágu um hálsinn, þaðan niður að Kópavogslæk og yfir hann fyrir neðan Fífuhvamm, um mýrina þar, um Nónskarð og niður holtið úr skarðinu yfir Arnarneslæk um Kringlumýri, um Vesturmýrina rétt undir Hofstaðaholti, um Bjarnakrika, vestan Vífilsstaða og túns út á Svínahraun eða Vífilsstaðahraun, eins og það nú er kallað. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Þessi vegur átti sem sagt að bæta úr allri þörf fyrir flutninga milli kaupstaðanna, bæði mannflurninga og vöruflutninga. Mig minnir, að til þessarar dýrtíðarvinnu ætti að verja um það bil 500.000.00 – fimm hundruð þúsund krónum – úr ríkisskassanum. Reykvíkingar áttu að leggja veginn úr Sogamýri suður að Miðaftanshól, en Hafnfirðingar frá Miðaftanshól niður í Hafnarfjörð. Hverjir verkstjórar voru frá Reykjavík vissi ég aldrei, en Sigurgeir Gíslason skyldi vera verkstjóri Hafnfirðinga. Hann mun og hafa verið sá maðurinn, er ráða skyldi menn til vinnu í vegagerð þessa. Faðir minn hafði komið mér þarna í vinnu. Og nú var aðeins beðið eftir því að kallið kæmi, að vinnan skyldi hefjast.

Sigurgeir Gíslason

1. febrúar 1918. Það hlýtur að hafa verið þennan dag, sem vinnan byrjaði, því daginn eftir, 2. febrúar sem er kyndilmessa, ætlaði pabbi í verið upp í Grindavík, það var gamall siður, að menn skyldu vera komnir til verstöðva sinna þennan dag eða að minnsta kosti leggja þá af stað í verið. Þó lítil von væri með vinnu, fóru menn á hverjum degi, hverjum morgni að heiman niður á götu til þess að eigra þar milli vinnustöðva, hvort þar væri handarvik að fá. Ég mun þá eins og fleiri daga hafa farið niður á götu og gengið þar milli stöðva í snapi eftir vinnu, en ekkert bólaði á vinnu frekar en fyrri daginn. Á tíunda tímanum, er ég nálgaðist húsið, þar sem við bjuggum þennan vetur, Vesturbraut 10 í kjallara, slagafullum, mætti ég pabba. Sagði hann mér, að þá um morguninn hafi Sigurgeir verkstjóri farið með vinnuflokk til vegagerðar upp í hraun. Dýrtíðarvinnan væri að byrja. Ég yrði því að tygja mig til ferðar þegar í stað. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, fór inn til mömmu, drakk kaffisopa og mun hafa fengið brauð með. Nesti fór ég ekki með, en slíkt var þó nauðsynlegt, þar sem vinnan var svo langt í burtu, að ekki var tiltökumál að fara heim í mat í hádegi. Mamma lofaði að senda bóður minn, ellefu ára, með mat til mín. Ég lagði svo af stað, og innan stundar var ég kominn á staðinn og hitti Sigurgeir að máli. Hann úrskurðaði mig í vinnuflokk sinn. En verkstjóri fyrir öðrum flokk var Jón Einarsson, velþekktur verkstjóri.
VJón Einarssonið byrjuðum undir Miðaftanshól. Skyldi flokkur Jóns Einarssonar halda austur og upp af hólnum til móts við Reykvíkinga, en flokkur Sigurgeirs skyldi halda niður hraunið. Strax var ég settur í að bera grjót á handbörum móti ungum manni, Halldóri M. Sigmundssyni. Vorum við vinnufélagar allan tímann, sem við vorum í þessari vinnu.
Hælar voru settir niður til að fara eftir með veginn. Mælt var fyrir vegarbrúnum og þar settar niður stikur. Sérstakir menn voru til þess settir að hlaða vegarbrúnirnar. Ekki var skortur á hæfum mönnum í slík störf í Hafnarfirði. Þar var hver snillingurinn öðrum fremri. Sigurgeir hafði langa þjálfun í vegarlagningum um hraun Hafnfirðinga og Hafnfirðingarnir langa þjálfun í að hlaða vegarkanta, bæði heima í Firðinum og með Sigurgeir út um land. Þeir eru ekki margir vegarkantarnir, sem nú verða séðir, en þó eru þeir til og bera vott um vandaða vinnu, bæði handlagni og góða útsjón. Aðrir voru settir til að ryðja hólum og hæðum niður í lægðir. Svo vorum við strákarnir látnir bera grjótið að lagningarmönnunum eða smágrjót í púkkið við veginn.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning.

Þar sem svo langt var heim, að ekki voru möguleikar á að fara í mat, átti sú regla að gilda að borða vel heima áður en farið væri til vinnu. Ferðin aðra leiðina skyldi greidd sem vinna. Svo átti að vinna sleitulaust til kl. 12 á hádegi. Þá var gefin hálf stund til matar. Síðan var unnið fram til kl. 5 e.m. og ekkert kaffihlé. Þetta fyrirkomulag þætti víst ómögulegt nú til dags. En þessu uðrum við verkamenn að hlíta í þá daga. Dálítið var þetta óþægilegt fyrst í stað, en þetta vandist þegar fram í sótti, og að síðustu vorum við farnir að kunna þessu allvel…
Alla tíð mættumst við verkamennirnir við hús Jóns Einarssonar, Strandgötu 19. Þaðan héldum við upp í hraunið, eftir stíg, sem þar lá og þeir Sigurgeir og Jón þekktu vel…

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Eins og áður segir um verkið, var hólum jafnað í holurnar og kantar hlaðnir, en það sem til vantaði, var borið á handbörum og fyllt þannig upp. Var þetta allmikilvinna, en undir stjórn þeirra Sigurgeirs og Jóns miðaði verkinu allvel áfram. Þegar eftir stuttan tíma, var smiður fengin til til að skerpa og herða járnkarla og fleyga sem notaðir voru. Var smiðjan borin upp eftir einn morguninn. Smiðurinn var Sveinn járnsmiður Sigurðsson, ætaður frá Syðri-Gróf í Flóa. Fyrst í stað var smiðjan undir berum himni, en brátt var skúr fluttur upp eftir fyrir smiðjuna. Þá var einnig annar skúr fluttur upp eftir, það var matar- og áhaldaskúr. Bættist nú hagur manna, því nú var farið að matast inni. En ekki var skúrinn stærri en það, að ekki komst nema annar flokkurinn í skúrinn í einu. Flokkarnir urðu því að skiptast á að borða…

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól.

Ég man það enn, að mikil gleði var í kjallarnum á Vesturbraut 10, þegar ég kom heim með fyrstu útborgunina. Þá var hitað kakaó og snúðar keyptir til hátíðarbrigða. Svo var farið og skuldir greiddar, en þá var ekki mikill peningur eftir. En að vera skuldlaus var sama og hafa lánstraust. Þeirri reglu héldu við móðir mín alltaf. Vinnan gekk með sama hætti frá degi til dags og áfram mjakaðist vegurinn, sjö metra breiður og byggður með það fyrir augum, að járnbraut lægi á öðrum kanti hans, þegar þar að kæmi…
Þegar hér var komið sögu, hafði flokkur Jóns Einarssonar náð upp að Miðaftanshól. Þá sneri hann við og bætti upp í skörðin, sem orðið höfðu í flokki Sigurgeirs. Var enn um stund haldið áfram verkinu. En þar kom samt, að fé það þraut, er ríkisstjórnin hafði lagt til þessarar vegagerðar. Þá var lokið þessari dýrtíðarvinnu, og við héldum heim síðasta kvöldið. Vorum við þá farnir að una þessu vel, sem nú yrði kallað harðrétti, að eta einmælt allan vinnutímann…“
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt.

Heimild:
-Gísli Sigurðsson – Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 1966

Járnbrautarvegurinn

Járnbrautarvegurinn – Miðaftanshóll fjær.

Álftanes

Breiðabólsstaðir voru meðal jarða sem Þorvarður Erlendsson hafði til kaups við brúðkaup þeirra Kristínar Gottskálksdóttur og eru nefndir í kaupmálabréfi hjónanna árið 1508:. „voru þessar jarder til greindar j þennan sama kavpmala. […] Breidabolstadir fyrir. xl.c.“

Breiðabólsstaður

Steinhúsið að Breiðabólsstað.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var jörðin hins vegar komin í konungseign árið 1703, þá kölluð hálfbýli og hafði „ekki fyrirsvar nema að helmíngi.“ Jarðardýrleiki var óviss og þrönglent á sumrin. Mikill ágangur og landbrot var af sjónum og sjávarsandur olli túnunum skaða. Eins og fleiri jarðir á Álftanesi höfðu Breiðabólsstaðir selstöðu í Norðurhellrum í Heiðmörk og sölvafjöru á Lönguskerjum í Skerfjafirði. Ábúandi var Guðlaugur Grímsson og voru 11 manns í heimili.3 Ekki virðist því hafa verið tvíbýli eins og síðar á Breiðabólsstöðum. Þegar manntal var tekið árið 1801 skiptist jörðin þó milli tveggja ábúenda. En árið 1847 voru Breiðabólsstaðir komnir í bændaeign og einungis var einn eigandi og ábúandi. Jarðardýrleiki var 20 5/6 hundruð. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru bæirnir síðan tveir þegar foreldrar hans, Björn Björnsson (1814-1879) og Oddný Hjörleifsdóttir (1838-1901), bjuggu á Breiðabólsstöðum á síðari hluta 19. aldar. Á móti þeim Bjuggu Erlendur Erlendsson hreppstjóri og Þuríður Jónsdóttir. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 náðu tún jarðarinnar yfir þrjá teiga og voru sléttuð að mestu. Kálgarðar voru samtals 1792 m2 þannig að töluvert hefur verið ræktað af kartöflum og öðru grænmeti.

Álftanes

Breiðabólsstaður.

Land Breiðabólsstaða er flatlent og gróið. Skammt norðan bæjarins er sjávarkamburinn og var sjórinn stundaður af kappi. Austan bæjastæðisins er Breiðabólsstaðatjörn og enn austar Kálfskinn en svo nefnist norðuranginn af Bessastaðatjörn. Austast breiðir Eyrin úr sér, grasi gróin og flöt. Sunnan bæjarins eru þurrar grundir og enn þá sunnar Stekkjarmýrin niður að Bessastaðatjörn. Grund hét áður hjáleiga Breiðabólsstaða norðaustur upp af Kálfskinni. Nú er Grund hins vegar húsið sem er áfast gamla bænum eða steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Önnur nýbýli á jörðinni eru Hvoll suður af bænum og Jörfi suðvestur af honum, nær Kálfskinni. Breiðabólsstaðir voru teknir eignarnámi í stríðinu og var reistur kampur á svæðinu þar sem Jörfi er nú.

Álftanes - kort 1870

Álftanes – kort 1870.

Á túnakorti frá 1917 má sjá að steinhúsið sem byggt var á Breiðabólsstöðum árið 1884 hefur verið staðsett nokkru norðar á bæjastæðinu en hin húsin. Eftir að það var byggt fluttu ábúendur sig þangað og enn þá er búið í þessu húsi. Nú hefur íbúðarhús nýbýlisins Grundar auk þess verið byggt við gamla steinhúsið. Þar eð löngum var tvíbýli á Breiðabólsstöðum hefur þó væntanlega líka verið búið í einhverjum þeirra húsa sem voru í húsaröð suðaustan við steinhúsið.
Bæjastæðið er slétt frá náttúrunnar hendi, þurrt og gróið. Breiðabólsstaðatjörn er austan bæjar og sjórinn norðan við. Eiginlegur bæjarhóll sést ekki en örlítill aflíðandi halli er þó frá gamla steinhúsinu og nýbýlinu Grund niður að tjörninni. Ætla má að núverandi byggingar standi á hinu forna bæjastæði Breiðabólsstaða og að þarna hafi bæirnir staðið um aldir. Ef bæjahóll hefur náð að safnast upp á þessum stað hefur alveg verið sléttað úr honum við byggingu nýrra húsa.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen. Endurminningar Erlends Björnssonar.

Í endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstöðum, Sjósókn, segir eftirfarandi: Erlendur Erlendsson hreppstjóri „bjó í stóru steinhúsi sem hann byggði árið 1884. Það er fjórtán álnir á lengd, en níu álnir á breidd með kjallara og portbyggt. Á vertíðum voru fjörutíu manns í húsi þessu. Húsið er byggt úr klofnu og höggnu grjóti, sem tekið var víðsvegar í landareigninni. Grjótið var klofið þar, sem það var, og allt borið heim á tveggja og fjögurra manna börum, en höggvið og lagað betur heima. Veggirnir voru tvöfaldir og loft á milli, og yfir gluggum og dyrum voru drangar svo langir, að þeir náðu alveg yfir. Er hús þetta að öllu leyti ágætt enn í dag. Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða […] Í kjallaranum í húsi Erlends voru þrjú herbergi, búr, eldhús og sjómannaskáli, sem var helmingur kjallarans. Voru þar tuttugu manns. Á hæðinni fyrir ofan voru þrjú herbergi, stofa fyrir gesti kvennaherbergi, – voru þar átta konur, – svo var helmingurinn af hæðinni kallaður baðstofa, og voru þar húsbændur og heimafólk, fjórtán manns. Var þar unnin ullarvinna og hampvinna á vetrum. Þar var líka vefstóll […] Uppi á loftinu var geymsla.“

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir á Álftanesi.

Steinhúsið á Breiðabólsstöðum var friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins: „Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var byggt […] úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. […] Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir – endurgerðir.

Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og er verið að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu. Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað.“

Á túnakorti frá 1917 er sýnd húsaröð sunnan og suðaustan við steinhúsið. Austast var fjórskipt bygging sem virðist vera úr torfi eða steini.

Breiðabólsstaður

Breiðabólsstaður – kort.

Samkvæmt örnefnaskrá voru Breiðabólsstaðabæirnir „norðarlega í túninu, spölkorn frá sjávarkampinum. Þar var löngum tvíbýli og er enn“, Austurbær og Vesturbær sem „stóðu saman með sameiginlega stétt og hlið og húsagarð […]“. Ef til vill hafi bæirnir tveir upprunalega staðið hlið við hlið í húsaröðinni, annar vestar en hinn austar. Þar eð farið var að búa í steinhúsinu þegar árið 1884 má hins vegar ætla að þá hafi það verið kallað Vesturbær. Eitthvert húsanna í húsalengjunni hefur þá kannski verið Austurbærinn, mögulega það austasta sem stendur suðaustan við steinhúsið á kortinu. Þarna gætu þó líka hafa verið útihús.
Byggingin í miðri húsaröðinni skiptist í þrjú hólf eða sambyggð hús sem af túnakortinu að dæma hafa verið úr steini eða timbri. Langveggirnir í austasta hólfinu eru þó teiknaðir eins og þeir séu úr þykkara efni eins og torfi.11 Mögulega hefur þessi miðjubygging í húsaröðinni verið upprunalegi Vesturbærinn, þ.e. frá því áður en steinhúsið var byggt. Hún gæti þó einnig hafa nýst sem útihús.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Vestast í röðinni er svo stakt ferhyrningslaga hús úr timbri eða steini. Erlendur Björnsson segir í endurminningum sínum að heima við bæ nafna hans Erlendssonar sé „stór fiskhjallur með lofti, er var læst, en rimlaveggi á hliðum“. Ekki er greint nánar frá staðsetningu hjallsins en hann var stór og stóð við bæinn og gæti því vel hafa verið vestasta húsið í húsaröðinni.
Engar minjar sjást lengur um húsaröðina sem er sýnd á túnakortinu því nú hefur ný húsalengja verið byggð á grunni þeirrar gömlu. Í nýju húsalengjunni eru bæði uppgerðar íbúðareiningar og útihús. Í stæði austustu byggingarinnar sem sést á túnakortinu er nú hesthús og malarborið hestagerði og er hesthúsið austast í núverandi húsaröð. Miðhúsið á túnakortinu hefur staðið undir miðhluta núverandi húsaraðar og vestasta húsið eða fiskhjallurinn undir vestasta hlutanum. Engar menjar sjást lengur um gömlu húsin.

Breiðabólstaðir

Breiðabólsstaðir – endurgerðir.

Í Jarðabókinni segir um Breiðabólsstaði árið 1703 að „vatn þrýtur í stórum frostavetrum og verður þá á aðra bæi vatn að sækja.“ Þó er vitað um að minnsta kosti tvo brunna á bænum gegnum tíðina. Á túnakortinu árið 1917 er brunnur merktur inn þar sem Breiðabólsstaðatún mætir Akrakotstúni, nokkru norðvestan við steinhúsið en suðaustan Akrakots. Brunnur er enn þá varðveittur á þessum stað, þ.e. á hlaðinu vestan við steinhúsið og nýbygginguna Grund. Hlaðið er malarborið og brunnstæðið vel greinilegt en keyrt er í kringum brunninn. Honum hefur þó verið breytt í áranna rás. Dæla hefur verið sett í hann, að líkindum fyrir stríð, og hann var notaður fram á 7. áratug 20. aldar þar til vatnsveita kom í hreppinn. Brunnurinn hefur verið hlaðinn upp og steinsteyptur og er því talsvert breyttur frá því sem áður var.

Álftanes

Álftanes – minjar á Norðurnesi.

Samkvæmt örnefnalýsingu var brunnur hins vegar einnig staðsettur suðvestan við steinhúsið: „Brunnur var í túninu, suðvestur frá bænum. Hann var á mörkum milli Breiðabólsstaða og Akrakots – þó Breiðabólsstaðamegin við merkin. Brunngata lá frá honum til bæjar. Nú er komin vatnsveita og Brunnurinn aflagður.“ Suðvestur frá steinhúsinu má sjá leifar gamals brunns á svipuðum slóðum. Hann er að vísu Akrakotsmegin við hina gömlu merkjalínu bæjatúnanna en þar eð örnefnalýsingar eru ekki alltaf nákvæmar getur þetta þó engu að síður verið sami brunnur. Varðveist hefur hleðsla sokkin á kaf í sinu og þýfi. Hún er hlaðin úr talsvert stórum steinum, ferköntuð, 1,5 m á kant og 0,3 m á hæð, innanmálið um 1 x 0,5 m. Þessi hleðsla minnir mjög á brunn. Um 3 m austan við hana er breiður skurður og byggingaframkvæmdir hafa farið fram austan hans og um 15 m suðaustan hleðslunnar. Þótt örnefnalýsingin staðsetji vatnsbólið vestan megin við mörkin getur þetta þó vel verið sá brunnur sem þar er sagt frá.

Alftanes

Borgarhóll.

Samkvæmt túnakorti er stórt útihús sem virðist vera úr torfi norðaustur af húsaröðinni en austur af steinhúsinu. Það stendur austan megin í kálgarði við bakka Breiðabólsstaðatjarnar og hefur stefnuna norðvestur – suðaustur. Það hefur staðið á mörkum hestagerðis sem er þarna núna og sléttaðs svæðis gamla kálgarðsins. „Heima var fjós og heyhlaða“ segir Erlendur Björnsson í umfjöllun um Breiðabólsstaði en ekki kemur fram nákvæmlega hvort þau hafi staðið þarna eða annars staðar. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Álftanes – kort.

Stór tóft er varðveitt á Eyrinni niðri við Seyluna, norðvestur frá Kálfskinni. Hún stendur á sendnum sjávarkambi með melgresi og eru seinni tíma sjóbúðir og naust í kring. Tóftin virðist hafa afmyndast talsvert af sandburði og auk þess hefur verið keyrt yfir hana. Hún er þó um 14 x 10 m að utanmáli með stefnuna norðaustur – suðvestur og er stórt op á langveggnum sjávarmegin.
Á þessum slóðum var áður salthús og fiskhús, byggt á seinni hluta 19. aldar og nefndist Eyrarhús eftir Eyrinni. Í örnefnalýsingu segir: „Eyrarhús var við Seyluna, rétt fyrir sunnan Rastartanga. Það var fisktökuhús. Eyrarhús var rifið um 1884 og viðirnir notaðir í steinhúsið á Breiðabólsstöðum. Tóftir Eyrarhúss sjást enn.“

Álftanes

Á 19. öld hafði engu verið raskað við Bessastaðatjörn né Dugguós. Í ósnum var mikil kolaveiði og hún talin mikil hlunnindi fyrir Bessa- og Breiðabólsstaði. Það er athyglisvert hvað Erlendur Björnsson, fæddur 1865, segir um þróun kolaveiðinnar. „Árið eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.
Ein af frásögnum Erlends er með ólíkindum. Þar segir frá róðri sem hann fór í árið 1890 á sexæringi við þriðja mann í blíðskaparveðri vestur á Svið, nánar til tekið í Fláskarðið vestur af Marflónni. Þar lögðust þeir félagar við stjóra. Eftir að hafa dregið sjóðvitlausan þyrskling þar til beituna þvarr urðu góð ráð dýr. Enn var stafalogn, heiðríkja og skammt liðið dags.
Erlendur gerði þá leit í bátnum og fann stóran öngul með blýsíld á leggnum.
Hann flakaði þyrskling og „beitti sig niður“ til að reyna við lúðu. Að „beita sig niður“ fólst í því að sitja sem lægst í bátnum og láta hægri handlegginn (væri viðkomandi rétthendur) liggja út fyrir borðstokkinn og hafa færið kyrrt í hendinni.
Skemmst er frá því að segja að Erlendur dró tuttugu og tvær „flakandi lúður“ (á bilinu 50 – 155 kg) þennan dag. Aðeins liðu fjórtán klukkutímar frá því þeir héldu í róðurinn og þar til þeir komu að. Ástæða þess að þeir héldu til lands var ekki sú að tekið hefði undan. Síður en svo, lúðan virtist jafnör og í upphafi, en það var komin lognhleðsla á bátinn.
Í lok kaflans þar sem þessum róðri er lýst er haft eftir Erlendi: „Þessi róður minn út á Sviðið….er gott dæmi þess hvílík gullkista það var, áður en botnvörpuveiðar og lúðuskip frá Ameríku hófu rányrkju sína hér í flóanum“.

Erlendur Björnsson segir einnig frá Eyrarhúsi og steinhúsi Erlends Erlendssonar á Breiðabólsstöðum: „Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða. Siemsensverzlun átti þetta hús fyrst. Á vorin kom skip inn á Seyluna með salt, er skipað var upp í þetta hús, en seinni part sumars seldu bændur verkaðan og þurrkaðan saltfisk kaupmanni þeim, er átti þetta hús, og fluttu fiskinn í það. Kaupmaður sá, er verzlaði þarna síðast, hét G. E. Unbehagen, og átti hann þetta gríðarmikla hús.
Á haustin kom svo skip til þess að sækja fiskinn. Þessi Unbehagen kaupmaður, sem var þýzkur, seldi svo Erlendi þetta hús fyrir fjögur hundruð krónur. Salthús þetta var að minnsta kosti tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, allt byggt úr framúrskarandi góðu timbri með timburþaki og allt lagt með hellu. Var timbrið og hellan notað í hús Erlends.“
Miðað við frásögn Erlends var Eyrarhús eingöngu úr timbri og ekki er minnst á hlaðna veggi. Með hliðsjón af mögulegri lengd álnar á 19. öld hefur það verið um 12,5 x 7,5 m eða enn þá stærra. Utanmál tóftarinnar sem varðveitt er á staðnum er nokkuð meira þannig að það munar 1,5-2,5 m. Það er þó ekki að marka vegna þess hve hún er útflött og því er vel hugsanlegt að þarna séu leifar af grunni undan timburhúsinu. Þessar minjar eru í hættu vegna þess að keyrt er yfir þær.

Á túnakorti 1917 eru umgirtir kálgarðar við bæjarhúsin á Breiðabólsstöðum, norðan og sunnan við húsaröðina, en austan og suðaustan við steinhúsið. Garðarnir eru umgirtir veggjum hlöðnum úr grjóti eða torfi að sunnan, vestan og austan. Austast fellur veggurinn á nyrðri garðinum saman við túngarðinn.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Samkvæmt örnefnalýsingu var Heimagarður austan steinhússins: „Kálgarðar voru heima við húsið, Heimagarður austan þess og Hróbjartsgarður vestan þess. Hann var kenndur við Hróbjart Sigurðsson, bónda á Breiðabólsstöðum.“ Kálgarðurinn sem er á milli steinhússins og Breiðabólsstaðatjarnar á túnakortinu en norðan við húsaröðina gæti verið Heimagarður. Enn þá er grjóthleðsla austan við steinhúsið, á þeim slóðum sem vesturhlið kálgarðsins var samkvæmt túnakortinu. Hún er um 12 m löng, 0,5 m breið og 0,3 m há, farin að renna í sundur en sjást þó 3 umför af grjóti í henni. Líklegt er þó að garðurinn hafi verið endurhlaðinn í tímans rás þannig að þetta þarf ekki að vera sami garður og sýndur er á túnakortinu. Engar menjar eru um kálgarðinn sem á túnakortinu er sunnan við bæjarröðina og ekki heldur um Hróbjartsgarð sem á að hafa verið vestan við steinhúsið.

Álftanes

Borgarhóll – Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða, um 400 m suðsuðaustur frá gamla steinhúsinu [781]. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Breiðabólsstaðatúngarður landamerkjagarður garðlög Minnst er á túngarðsbrot við Breiðabólsstaði þegar í Landamerkjaskrá árið 1887: „að vestanverðu er grjótgarðsbrot sem skilur Akrakotstúnið frá Breiðabólsstaðatúninu þessi grjótgarður liggur frá brunninum (vatnsbólinu) og suður í túngarð […]“.

Borgarhóll

Borgarhóll – Bessastaðir að baki.

Á túnakorti 1917 er mestallt túnið umgirt garði hlöðnum úr grjóti eða torfi. Í örnefnaskrá 1964 segir: „Garður af grjóti, aðallega að norðan, eins milli Breiðabólsstaða og Akrakots.“ Örnefnalýsingu 1977 ber saman við landamerkjaskrána og bætir við: „Túnið var stórt og var allt í kringum bæinn. Um það mest allt var hlaðinn túngarður, alltaf nefndur Breiðabólsstaðatúngarður afbæjar. Nú er búið að rífa þennan garð. Grjótið úr honum var notað til varnar sjávargangi og svo er um grjót úr flestum túngörðum hér á nesinu.“

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Túnin við Breiðabólsstaði og Akrakot eru slétt af náttúrunnar hendi, smáþýfð og gróin, og er svæðið nú notað fyrir hesta. Túngarðurinn er enn þá varðveittur á kafla norðaustan við bæinn á Breiðabólsstöðum, vestan Breiðabólsstaðatjarnar. Deiglent er austan garðsins, við tjörnina, en þurrar grundir vestan hans. Garðurinn er grjóthlaðinn en hleðslurnar runnar í sundur. Hann er siginn og yfirgróinn og hverfur sums staðar í mosa og sinu. Hæðin er mest um 0,4 m en breiddin allt að 1 m. Þessi varðveitti hluti af gamla hlaðna túngarðinum er samtals um 61 m langur og liggur nálega norðvestur – suðaustur. Á þeim slóðum sem mörkin lágu áður milli bæjatúnanna samkvæmt túnakortinu má hins vegar sjá um 80 m langt garðlag og eru þar sennilega leifar landamerkjagarðs milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Erfitt er að greina þetta á vettvangi en garðlagið sést vel á loftmynd.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Í Jarðabók árið 1703 segir um Breiðabólsstaði: ,,Heimræði er þar árið um kríng og lendíng góð.“ Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Breiðabólsstaðavör: „Hún lá í sjó fram norður af Traðarhliðinu.“38 Í örnefnalýsingu 1977 segir: „Heimavör var einum 100-150 m norðan við Akrakotsvör. Í henni lentu Breiðabólsstaðamenn hér áður og einnig eftir að sjóvarnargarður hafði verið hlaðinn með ströndinni, en þá lokaðist leiðin beint niður að Akrakotsvör. […] Lönd heita beggja megin Traðanna – Efri-Lönd sunnan þeirra og Neðri Lönd að norðan. Fiskur var áður borinn upp á Efri-Löndin og gert að honum þar. (Ath. Sveinn [Erlendsson] telur nafnið dregið af því, sbr. að landa).“
Sandfjara er norðan bæjarhúsa en mikið land hefur brotnað á þessum slóðum og er umhverfið við sjóinn að líkindum talsvert breytt. Nú er þykkur vélhlaðinn sjóvarnargarður á sjávarkambinum við Breiðabólsstaði. Þó er rof í honum fyrir norðurenda sjávargötunnar frá bænum og þar fyrir neðan hefur vörin verið.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli.

Nokkru vestar eru stríðsminjar frá hverfinu Brighton meðfram akvegi. Á korti Erlends Björnssonar af byggð Álftaness um 1870 er Grund merkt inn norðaustan Breiðabólsstaðatjarnar og norðvestur upp af Kálfskinni. Þetta virðist í samræmi við upplýsingar úr örnefnalýsingum: Grund var „þurrabúð frá Breiðabólsstöðum […] austan bæjar […] innan við Kasttanga […] norður á Nesinu.“ Útihúsin frá Grund stóðu fast norðan Breiðabólsstaðatjarnar og fast austan við þau „stóð áður þurrabúðarbýlið Grund. Þar kom Sveinn [Erlendsson ábúandi á Grund] ofan á öskulag þegar hann fór að rækta.“

Álftanes

Álftanes – Eyri; tóft.

Tóft er á Eyrinni vestan við malarveg við sjóinn rétt áður en hann liggur út á Eyrarodda milli Seylu og Kálfskinns. Þetta er skammt austan við ristusvæði og smátjörn á norðausturbakka Kálfskinns. Þurrt er á tóftarstæðinu en deiglendi í kring og tjarnirnar nálægar. Tóftin stendur á svolítilli hæð sem er heldur grónari eða grænni en umhverfið. Hún hefur hlaupið í þúfur og sést ekki grjót í henni. Stærðin er um 7,6 x 6,8 m og veggjahæð 0,4 m. Tóftin virðist vera einföld því hólf eru ekki sýnileg en op er ef til vill inn í hana norðvestan megin.

Um Akrakot segir í Jarðbókinni árið 1703: ,,hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki nema helmíngs fyrirsvar á móts við lögbýlissjarðir, hefur í manna minni, innan 60 ára, bygð verið úr Bárhaukseyrar landi á fornum tóftum, sem sumir hyggja fyr hafi bygðar verið og kallað Akrar. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat.“

Álftanes

Álftanes – brunnur í Camp Brighton við Jörfa.

Við Jarðatal Johnsens árið 1847 var Akrakot komið í bændaeign og eigandinn bjó sjálfur á jörðinni sem metin var á 12 hundruð. ,,Túnið fordjarfast af sands og sjáfar ágángi“ segir í Jarðabókinni en samkvæmt túnakorti voru Akrakotstúnin árið 1917 sléttuð að mestu og náðu yfir samtals 2,2 teiga heima við bæinn og við Breiðabólsstaði. Matjurtagarðar voru alls 380 m2. Sölvafjara var nægileg og var þangbrennsluverksmiðja rekin í Akrakoti í nokkur ár í byrjun 20. aldar. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru tveir ábúendur á Akrakoti og virðist því hafa verið tvíbýli þar á síðari hluta 19. aldar.

Álftanes

Akrakot – túnakort 1911.

Á túnakorti árið 1917 er teiknað stakt hús innan kálgarðs og þar hjá ritað „gömlu bæir“ innan sviga. Væntanlega hefur gamli Akrakotsbærinn því staðið þarna rétt sunnan við stærri byggingu, hús þangbrennsluverksmiðju frá því um 1900 sem er sýnt á kortinu og stendur enn á sama stað, nú sem íbúðarhúsið í Akrakoti eða við Blikastíg 16. Lóðin umhverfis íbúðarhúsið er fremur slétt eins og grundirnar víða á Álftanesi en ójöfnur eru í henni þar sem gamli bærinn hefur staðið miðað við túnakortið. Engar leifar frá honum eru þó sýnilegar á yfirborði.
Útihús heimild Á túnakortinu má sjá útihús við suðausturhorn kálgarðs. Þar sem útihúsið og kálgarðurinn voru er nú malarborin heimreið að Blikastíg 16 og steinsteyptur bílskúr. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Virki rista og mógrafir heimild Í Jarðabókinni segir um Akrakot árið 1703: „Torfrista og stúnga og móskurður hjálplegt.“ Ekki kemur fram hvar mórinn var tekinn en líklega hafa bæði Akrakot og Breiðabólsstaðir stundað mótekju á sama stað og síðar: „Mýri, sem liggur milli Akrakots og Landakots, heitir Virki“ segir í örnefnaskrá. Mýrin er merkt inn á örnefnakort Álftaness sunnan við Kasthústjörn beggja megin lækjar sem rann úr henni í Bessastaðatjörn og skildi milli landa Akrakots og Landakots. „Mikil mótekja var í Virkjum.“ Til marks um það er meðal annars talið að þegar Tyrkir lágu með annað skip sitt á Lönguskerjum á Skerjafirði árið 1627 voru svo „margir móhraukar í mýrinni“ að þeim sýndist „þar fara vopnaður her og lögðu þeir á flótta strax og skipið flaut. Draga Virki ef til vill nafn sitt af þessum atburði.“

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar í Camp Brighton við Jörfa.

Í örnefnalýsingu kemur líka fram að áður hafi verið „svolítil þúst niður við Kasthúsatjörn, Akrakotsmegin“ og taldi Björn Erlendsson á Breiðabólsstöðum „ekki ólíklegt að þar hafi verið leifar af einhverju virki“. Hvað sem þessari örnefnaskýringu líður var að minnsta kosti mór í mýrinni og varnir voru í Skansinum við Bessastaði. Nú hefur túnið verið sléttað og ekki sjást mógrafir á Virkinu.
Akrakotstúngarður heimild Miðað við túnakortið hefur legið girðing eða garður meðfram sjónum um 50 m norðan Akrakots. Í örnefnaskrá segir: ,,Akrakotstúngarður: Garður af grjóti á sjávarkampinum. Akrakotstúngarðshlið: Það var á garðinum út frá bænum.“ Umhverfið er mjög breytt norðan við Akrakot. Sjórinn hefur brotið mikið land og gríðarmikill vélhlaðinn sjóvarnargarður er nú á kambinum. Engar leifar sjást af Akrakotstúngarði.

Álftanes

Álftanes – Akrasteinn.

Í örnefnalýsingum segir frá álagasteini í Akrakotstúni: ,,Akrasteinn: Stór steinn suður á túninu. Álagasteinn.“ Honum fylgja þau ummæli, að hann megi ekki hreyfa. „Steinn þessi er nyrzt í svonefndu Torfholti, grýttu og þýfðu.“ Akrasteinn er um 185 m suðvestur frá Akrakoti. Í túninu er að finna einn stakan stein og síðan rétt sunnan við hann eru nokkrir steinar saman. Sennilega er þessi staki steinn Akrasteinn. Túnið í kringum hann er nú þýft og gróið og svæðið notað fyrir hrossabeit.
Rétt norðan bæjarins er á túnakortinu sýndur kálgarður og er gamla þangbrennsluhúsið á milli hans og bæjarins. Garðurinn liggur samhliða þangbrennsluhúsinu, vestur – austur, og er ekki mikið stærri en það. Girðing virðist vera í kringum hann. Þarna er nú malarborin heimreið að íbúðarhúsinu við Blikastíg 16. Engar menjar sjást lengur um þennan kálgarð.
Á túnakortinu gengur kálgarður suður út frá gamla bænum og virðist hlaðinn garður liggja utan um hann mestallan. Nú nær lóðin við Blikastíg 16 yfir svæði þessa garðs. Ekkert sést lengur til hans.

Álftanes

Álftanes – varir.

Á túnakorti Akrakots má sjá hús þangbrennsluverksmiðjunnar um 10 m norðan gamla bæjarins. Húsið var byggt rétt eftir aldamótin 1900 og stendur enn þá í nokkuð breyttri mynd, nú sem íbúðarhúsið við Blikastíg 16. Austasti hluti hússins er að stofni til gamla þangbrennsluverksmiðjan sem var starfrækt á árunum 1904-1908: „Til vinnslunnar voru reist talsvert umfangsmikil mannvirki. Á víð og dreif um túnin voru settir staurar og vírar strengdir á milli og var þarinn lagður á þá til þurrkunar […] Byggt var stórt steinhús í Akrakoti til þess að brenna þarann í. Eftir endilöngu var steyptur ofn. Fjögur steypt hólf voru til að brenna þarann í og tvö þar sem kol voru brennd.“

Álftanes

Breiðabólstaður – túnakort.

Áberandi strompur stóð lengi við austurgafl hússins og minnti á upphaflegt hlutverk þess en hann hefur nú verið rifinn frá húsinu. Það var breskt félag sem stundaði þarabrennslu á Akrakoti og var hann fluttur út til Skotlands til joðframleiðslu.67Á síðustu áratugum hefur húsið svo verið stækkað örlítið og byggður bílskúr norðan við gamla bæjarstæðið.
Í Jarðabók árið 1703 segir um Akrakot: ,,Heimræði er árið um kríng og lendíng sæmileg.“ Í örnefnalýsingum segir nánar frá lendingu við Akrakot og Breiðabólsstaði: „Akrakotsvör: Hún var vestast í fjörunni í Breiðabólsstaðafjöru.“ Vörin er beint niður af bænum [á Breiðabólsstöðum] og lágu Traðir frá íbúðarhúsinu niður í hana. Réttu nafni hét hún Akrakotsvör, þótt hún væri í landi Breiðabólsstaða. Breiðabólsstaðamenn lentu alltaf í þessari vör þegar þeir bræður [Sveinn og Björn Erlendssynir á Breiðabólsstöðum] mundu eftir, enda ekkert útræði þá frá Akrakoti. En þarna átti Akrakot áður uppsátur fyrir allan sinn skipastól endurgjaldslaust.“ Fiskurinn var borinn upp á svokölluð Efri-Lönd, völlinn sunnan við traðirnar og gert að honum þar. Lendingin hefur verið um 140 metra norðvestur frá Akrakoti. Hennar sjást engin merki nú við fjöruna en á loftmynd má greina hvar vörin hefur verið. Mikið landbrot er á þessum slóðum og hefur nú verið reistur mikill sjóvarnargarður. Sandfjara er við sjóvarnargarðinn norðan og norðvestan Akrakots.

Varðturn er hlaðinn úr ávölu sjávargrjóti og steinsteypt á milli. Hann er um 1,5 m að innanmáli og stendur vel undir þaki. Hann er sexhyrndur, með glugga á fimm hliðum en dyr á þeirri sjöttu. Lítið kringlótt op er þar sem tvær hliðarnar mætast gegnt suðri. Varðturninn er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Mikilvægt er að eitthvað verði gert til að reyna varðveita þetta hús.

Álftanes

Varðskýlið við Jörfa.

Um 150 vestur af strompinum við samkomubragga hermannanna var loftskeytastöð, sérstætt mannvirki sem stendur enn þá. Stöðin er steinsteypt, um 10 x 4 m að utanmáli, og eru tvær skábrautir á henni með dekkjabreidd á milli, líklega til að hægt hafi verið að keyra upp á hana. Við enda skábrautanna er kantaður pallur með gat í miðju.

Samkomusalur var miðju braggahverfinu, suðaustan við Jörfabæ, er hár strompur á hól. Strompurinn stóð í norðausturenda stórs bragga sem var samkomusalur hermanna og var meðal annars notaður sem bíósalur. Hóllinn suðvestan við strompinn er um 22 x 15 m stór, og gefur stærðin vísbendingu um stærð braggans. Strompurinn er eins og varðturninn [812] byggður úr ávölu sjávargrjóti sem er steypt saman. Hann er 2 x 1 m að grunnmáli og 3-4 m hár. Neðst á honum var múrsteinshlaðinn arinn og sér enn glitta í efri hluta arinopsins í hólnum. Strompurinn hefur þó sigið í hólinn og hlaðist að honum sina og jarðvegur. Þessi stóri braggi var lengi notaður undir dansleiki á Álftanesi.

Á tjarnarbakkanum í austurjaðri túnsins við Jörfa, um 40 m norðaustur frá braggagrunnunum eru leifar af steinsteyptu salerni frá setuliðinu. Það er um 7×2,3 m á stærð og snýr norður – suður. Salernið skiptist í stærra hólf í nyrðri hlutanum sem er um 5×2 m á stærð með steinsteyptri gólfplötu og minna hólf, um 2×1 m, þar sem ekki er nein gólfplata. Rennur eru á veggjaleifum sem eru eftir.

Álftanes

Álftanes – Camp Brighton.

Á tjarnarbakkanum rétt suðaustan við salernið eru leifar af óþekktu mannvirki. Ekki verður greint úr frá tætingslegum brotunum til hvers það hefur verið notað.
Verkstæði hermannanna var í bragga um 80 m vestur frá varðskála. Þar sem hann stóð má enn greina steinsteyptan grunn og tvo samsíða garða eða braggabrúnir. Um 6 m bil er á milli þeirra og hefur það verið breidd braggans. Hann hefur snúið norðnorðaustur – suðsuðvestur. Verkstæðið hefur verið talsvert langt frá öðrum byggingum hersins.
Á tjarnarbakkanum um 10 m austan við salernið er tóft frá einhverju óþekktu mannvirki. Hún er um 4×4 m á stærð og 0,5 m á hæð. Grjóthleðsla er utan með henni og auk þess hefur hún verið fyllt af grjóti sem nú er vaxið mosa. Trúlega hefur þarna verið enn eitt húsið frá setuliðinu, mögulega í sambandi við salernið eða þá skotbyrgi.
Brunnur er í túninu vestan við Jörfa frá hernámstímanum. Vatnsskortur var á svæðinu og var vatn flutt inn með tankbílum. Brunnurinn er 4×1,6 m að utanmáli en inni í honum er ferhyrninglaga niðurgröftur, 1,8×1,8 m.

Álftanes

Herforingjakortið af Álftanesi 1908.

Þar sem íbúðarhúsið Seyla stendur nokkru austan við Jörfabæ voru áður vatnstankar setuliðsins í þremur stærðum. Á áratugunum eftir stríð voru þeir notaðir sem rotþrær frá Jörfa. Vatn var flutt inn frá Reykjavík með tannbílum en vatnsból Álftnesinga dugðu heimamönnum varla í þurrkatíð.

Álftanes

Álftanes – Baðhús og samkomuhús Camp Brighton við Jörfa.

Um 25 m austur frá íbúðarhúsi Seylu var baðhús hermannanna sem voru í Brighton kampi. Það stendur enn undir þaki og nota ábúendur það sem geymsluskúr. Húsið er um 10×5 m á stærð og snýr suðvestur – norðaustur. Gengið er inn um bíslag á langvegg suðaustan megin. Rennur eru í steinsteyptu gólfinu.

Á svæðinu voru skráðar 77 fornleifar sem tengjast annars vegar sjósókn, fiskvinnslu og öðrum búskap frá bæjunum Breiðabólsstöðum, Akrakoti og Grund en hins vegar veru hersins á Álftanesi á stríðsárunum.

Álftanes

Stríðsminjar; samkomusalur, við Jörfa.

Á Breiðabólsstöðum er ekki mikið eftir af sýnilegum minjum. Eldri mannvirki hafa horfið undir nýrri byggð en gera má ráð fyrir að byggt hafi verið á svipuðum slóðum öldum saman. Leifar bæja geta því leynst í jörðu. Gamli bærinn sem nú er búið í er steinhús frá 1884 sem vafalítið er elsta húsið í Garðabæ. Hann hefur því mikilvægt sögulegt gildi fyrir bæjarfélagið. Á hlaðinu við bæinn hefur jafnframt varðveist gamall brunnur sem að nokkru leyti hefur verið gerður upp og leifar frá öðrum brunni finnast nokkru sunnar. Þá eru þarna hleðslur sem legið hafa kringum matjurtagarða, hluti af gamla Breiðabólsstaðatúngarðinum og landamerkjagarði milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Gömlu traðirnar eru enn þá sýnilegar á kafla og sjávargata liggur niður að sjó þangað sem lendingin var í Breiðabólsstaðavör. Hún er að vísu horfin í sjóinn en Akrakotsvör sem með tímanum var einnig nýtt frá Breiðabólsstöðum er enn þá greinanleg. Suður frá Breiðabólsstöðum er þústin Meyjarhóll sem virðist vera manngerð og sunnan við nýbýlið Hvol hefur varðveist tóft. Eftirtektarverður er einnig Borgarhóll.
Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi við Stekkjarmýri en þar virðast vera leifar fjárborgar. Engar menjar sjást hins vegar um stekkinn sem mýrin hefur verið kennd við.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Fyrir utan Akrakotsvör eru engar sýnilegar minjar við Akrakot nema svokallaður Akrasteinn sem á að hafa verið álagasteinn. Gömlu bæjarhúsin eru horfin en hér gildir þó sem annars staðar að eldri bæjarleifar geta leynst undir sverði. Hafi Akrakot verið byggt á fornum tóftum eins og sagt var gæti þar líka hafa verið byggð í mörg hundruð ár. Loks er sjálft íbúðarhúsið við Blikastíg 16 merkilegt fyrir að hafa áður hýst gömlu þarabrennsluna á Akrakoti. Þótt það hafi verið aðlagað breyttu hlutverki í nútímanum er það minnisvarði um forna atvinnuhætti og fyrstu og einu verksmiðjuna fyrir þangbrennslu í Garðabæ. Þessi bygging er ekki miklu yngri en steinhúsið á Breiðabólsstöðum þannig að á þessu svæði eru varðveitt tvö sérstæð gömul hús sem njóta friðunar. Steinhúsið er sérstaklega friðlýst.
Ýmsar áhugaverðar minjar leynast einnig í landslaginu á Eyrinni. Norður upp af Kálfskinni eru minjasvæði sem líkur eru á að tengist þurrabúðarbýlinu Grund. Þar eru sýnilegar tóftir sem gætu verið frá bænum og ójöfnur í sverði benda til þess að leifar gamla bæjarstæðisins séu þar undir. Aðrar tóftir nokkru vestar eru þá trúlega frá útihúsum Grundar. Tóftir sem fundust lengra úti á Eyrinni við fornleifaskráningu árið 2004 eru hins vegar horfnar. Þessar tóftir voru einnig taldar tengjast Grund en þrátt fyrir nákvæma skráningu hefur verið sléttað úr þeim án frekari rannsóknar og er það miður.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Við Seyluna er annað minjasvæði tengt útgerð og fiskvinnslu. Þar er grunnurinn frá Eyrarhúsi, stóru salthúsi og fisktökuhúsi, og mögulega leifar frá íshúsi. Örlítið sunnar, nær Kálfskinni eru fleiri tóftir sem gætu verið frá sjóbúðum og annarri starfsemi tengdri fiskveiðum. Á þessu svæði virðast einnig vera menjar um forna beðasléttun, mógrafir og torfristu.
Einstakt er svo minjasvæðið í kringum nýbýlið Jörfa í landi Breiðabólsstaða. Þarna var á stríðsárunum svokallaður Brighton kampur og hafa ábúendur á Breiðabólsstöðum og Jörfa lagt sig fram um að hrófla ekki við minjunum. Á kampinum voru fjölbreytt mannvirki sem tengdust veru setuliðslins á Álftanesi, heilu braggahverfin með varðskála, setuliðshúsi, baðhúsi, fjarskiptastöð og loftvarnarbyrgi o.fl. Þótt braggarnir hafi verið rifnir eftir stríð sjást grunnarnir enn þá vel og sumar af hinum byggingunum hafa varðveist að hluta eða í heild. Varðturn og strompur við samkomusal standa enn þá og gefa landslaginu sterkan svip. Þetta er óvenjulega heillegt stríðsminjasvæði og er mikilsvert að það skuli hafa varðveist sem heild. Brighton kampur hefur tvímælalaust mikið varðveislu- og fræðslugildi og væri tilvalið að setja upp fræðsluskilti við minjarnar sem gætu gagnast bæði skólahópum og öllum almenningi.

Álftanes

Jörfi – Camp Brighton; skilti.

Herminjar eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar eð þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né heldur hefur opinber stefna verið mörkuð. Gefur engu að síður auga leið að þessar minjar frá stríðsárunum á Norðurnesi eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands fyrrum.

Heimild:
-Nordurnes_skyrsla_skra_kort_2019_utgafa_2

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Urriðakotsfjarhellir

Árið 2007 fjalla Árni Hjartarson og Ingibjörg Kaldal um „Verndargildi jarðminja í Urriðakotssdölum“ [Urriðavatnsdölum].
Hér á eftir er getið um það helsta í skýrslunni, sem unnin var fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar. Umfjöllun um hella er að mestu sleppt, enda villugjörn.

Stutt yfirlit um jarðfræði svæðisins.

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Hæðirnar beggja megin við Urriðakotshraun eru úr síðkvarterum grágrýtishraunlögum (Helgi Torfason et al. 1993). Norðan til í Urriðaholti og Vífilstaðahlíð er svonefnt Reykjavíkurgrágrýti sem myndar undirstöður undir miklum hluta höfuðborgarsvæðisins allt utan frá Engey og Viðey og suður um Álftanes og Hafnarfjörð. Ofan á það leggst Breiðholtsgrágrýtið. Báðar þessar myndanir eru beltótt dyngjuhraun, fremur ferskt, með misþykkum hallalitlum flæðieiningum (hraunbeltum) úr þéttu bergi með þunnum kargalögum í milli. Holufylling er lítil en þó er brúnleitur leir víða í sprungum og glufum. Lögin eru um 100–200 þús ára gömul, komin frá ýmsum eldstöðvum en upptök þeirra flestra eru óþekkt. Neðsti hluti þeirra ber víða vott um hraða vatnskælingu og hafa grágrýtishraunin því líklega runnið í sjó.

Hjallar

Hjallamisgengi.

Berggrunnurinn er nokkuð sprunginn og misgenginn en ekki er að sjá að sprungurnar gangi út í hraunið á svæðinu sem hér er til umfjöllunar. Það er ekki fyrr en syðst í Selgjá að komið er í yngri höggun, þ.e. sem hefur verið virk eftir að Búrfellshraunið rann (Jón Jónsson 1965, Guðmundur Kjartansson 1973). Þar ganga Hjallamisgengið svokallaða og nokkur minni misgengi því tengt austan aðalmisgengisins þvert yfir hraunið. Jón Jónsson telur Hjallamisgengið vera alls um 12 m í hrauninu en utan þess er það allt að 65 m. Af því má ráða að höggun hefur verið virk þar löngu áður en hraunið rann og hún hefur haldið áfram eftir að það rann. Í hrauninu eru misgengisbrúnir allar mjög skarpar en í grágrýtisholtunum eru þær máðar af ísaldarjöklinum.

Búrfellshraun

Kort af rennsli Búrfellshrauns.

Víðast hvar þekja laus jarðlög berggrunninn en þó má sjá berar klappir eins og t.d. milli Grunnavatna, í Víkurholti og í Hádegisholti. Jökulruðningur hylur víða holt og hæðir en annar staðar er hann þunnur og ósamfelldur. Í holtunum vestan Urriðakotshrauns er varla hægt að tala um jökulruðning heldur er þar mest um veðraðan berggrunn. Grettistök, sem ísaldarjökullinn hefur rifið laus og flutt til, sjást þó víða og eru sum þeirra allvegleg (mynd 2). Af jökulkembum og jökulrákuðum klöppum má sjá að síðasta skrið jökulsins á svæðinu var til norðvesturs frá Bláfjallasvæðinu út á Faxaflóa. Ummerki hæstu sjávarstöðu í ísaldarlokin eru í um 35 m hæð yfir sjó sunnan Urriðavatns en í um 40 m y.s. við Vífilsstaðavatn (fara hækkandi til norðausturs á þessu svæði) (Skúli Víkingsson o.fl. 1995, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson 2005). Sjór hefur því að öllum líkindum náð inn í skarðið milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í ísaldarlokin.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort frá 1908.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Sá hluti sem þessi skýrsla fjallar um nefnist Urriðakotshraun. Samkvæmt örnefnaskrám nær það frá Vífilsstaðahrauni og inn að Selgjá. 2.3.1 Aldur hraunsins
Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn.

Bali

Balavarða og Balaklettar.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar af því og birti í grein í Náttúrufræðingnum. Ein er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins, en aldursgreining á honum gaf 7240 ±130 14C ár. Þegar umreiknað er yfir í raunaldur (Stuvier og Reimer 1993) fæst að fjörumórinn er um 8100. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr.

Upptök.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Gígurinn, Búrfell, er það eldvarp sem næst er byggð á höfuðborgarsvæðinu. Hann er af þeirri gerð sem nefnist eldborg, en eldborgir einkennast af því að gosið hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Bergið í Búrfellshrauni er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Ólivínhnyðlingar finnast víða í hrauninu. Um þetta sem og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Í upphafi gossins rann hraunið til vesturs í átt að Kaldárseli því misgengisstallar vörnuðu því leið skemmstu leið í átt til strandar. Guðmundur Kjartansson nefnir að hugsanlegt sé að hluti þess hafi runnið í sjó við Straumsvík en sé nú hulinn yngri hraunum. Nýlegar boranir við skoplhreinsistöð austur af álverinu leiða í ljós að svo er. Þar kemur hraunið fram neðst í borholunni SVK-02. Þar er yfirborð hraunsins á 15,5 m dýpi, sem er 8 m undir sjávarmáli. Seinna í gosinu, þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig, komst það yfir misgengisþröskuld við Kaldá og gat þá runnið niður með Ásfjalli og til Hafnarfjarðar. Þegar enn lengra leið á gosið komst hraunið yfir misgengisstalla við Smyrlabúð og flæddi eftir það niður með Vífilsstaðahlíð og til sjávar í Arnarnesvogi. Sjór stóð lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2.

Garðabær

Garðabær – örnefna- og gönguleiðakort.

Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson (1978) álítur meðalþykkt hraunsins vera um 20Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ. Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3.

Hrauntraðir

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á sér fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill er gjáin þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið sker hraunið eru gjár og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir gjánna eru víða 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgja eru veggirnir þó lægri. Undir gjárveggjunum eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins (sjá kafla 4.3). Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er >20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta (Björn Hróarsson 1990). Önnur skilgreining sem stundum er notuð af hellarannsóknamönnum er sú að hraunhellir sé “samheiti allra holrúma í hraunum þar sem myrkur ríkir” (Björn Hróarsson 2006).

Þekktir hraunhellar í Búrfellshrauni (Björn Hróarsson 2006):

Nafn Lengd – m. aths.
Kaldárselshellar Nokkrar hraunbólur, fjárskjól
Hreiðrið 60
Ketshellir 30 Í Smyrlabúðarhrauni
Kershellir/Hvatshellir 50 Í Smyrlabúðarhrauni
Setbergsselshellir 15
Þorsteinshellir (Sauðahellirinn syðri)
Selgjárhellir (Skátahellir syðri) 237
Skátahellir nyrðri Skúti
Vífilsstaðahellir 22 Maríuhellar
Urriðakotshellir 22 Maríuhellar
Draugahellir 80 Maríuhellar
Jónshellir (Jónshellar) 79
Hraunsholtshellir (Arneshellir) Skúti

Niðurstöður.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Urriðakotshraun er merkileg náttúrusmíð eins og segja má um öll hraun á Íslandi og fágætt landslagsform þegar litið er til jarðarinnar í heild. Það er hins vegar ekki hægt að segja að það sé ósnortið í dag og verður að skoðast í því samhengi. Um hraunið liggja akvegir, göngustígar, reiðvegir og raflínur og auk þess var umtalsverð efnistaka um tíma í Bruna skammt sunnan við Dyngjuhól. Þar hefur nú verið útbúið útivistarsvæði. Einnig hefur töluvert verið gróðursett af trjám á kafla í hrauninu. Mest af þessum framkvæmdum eru snyrtilega gerðar og falla víðast hvar vel að hrauninu en helst má setja út á reiðveginn, en dæmi eru um að rutt hafi verið úr hraunkollum við lagningu hans. Slík sár eru ákaflega ljót og áferð hraunsins þar spillt. Hraunið í heild er skemmtilegt útivistarsvæði og býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum. Hinar jarðfræðilegu minjar eru, eins og rakið hefur verið hér að framan, hraunsvigður, hrauntraðir, fallegir hólar og hryggir, sprungur og gjár og ekki síst hraunhellar. Þetta þarf allt að vernda.

Heimild:
-Árni Hjartarson Ingibjörg Kaldal – Urriðavöllur; Verndargildi jarðminja í Urriðakotsdölum. Unnið fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar, ÍSOR – febrúar 2007.

Urriðakotsdalir

Land Oddfellow í Urriðakotsdölum.

Garðaholt

Tveir „stríðskampar“ voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts). Á báðum stöðunum má enn sjá leifar mikilla minja frá þessum tíma.

Garðaholt Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.

Garðar

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi.

Garðaholt

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar.

Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.

Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar; skilti.

Gálgaklettar

Maður var hengdur í Gálgaklettum „í Garðahrauni“ árið 1664 skv. heimildum. Sennilega er þetta elsta heimildin um örnefnið „Garðahraun“, sem síðar, þ.e. nyrsti hluti þess, var nefnt „Gálgahraun„. Gefum Árna Óla orðið:

Galgaklettar-141

„Í þessu trjálausa landi var ekki hægt að hengja menn upp hvar sem var. En hér hafði þó náttúran látið hugvitsömum réttvísinnar þjónum annað í té, sem var jafn gagnlegt. Hún hafði gert stóra steindranga með stuttu millibili, eða þá djúpar klettasprungur og gjár, þar sem ekki þurfti annað en leggja ás yfir á milli klettanna og koma þar snörunni fyrir. Eru enn til sagnir um að á sumum stöðum hafi verið svo rúmt á milli klettanna, að marga þjófa mátti festa þar upp í einu. Þegar af tökunni svo var lokið og böðullinn hafði fengið sitt, var líkið eða líkin urðuð, annaðhvort í sömu klettasprungunni, eða rétt þar hjá.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Slíkir aftökustaðir voru mjög víða, og sumir eru enn kendir við þjófa og gálga. Og það bregst varla að hægt er að benda þar á grjóthrúgu, sem á að vera dys sakamanna. Einn þessi hengingarstaður er hér í nánd við Reykjavík og heitir Gálgaklettar. Þeir eru á Álftanesi, sunnan Lambhústjarnar, gegnt Bessastöðum.
Hér eru langir klettaröðlar sprungnir sundur að endlöngu, hér eru háir klettar með sprungum og hellum, og hér eru djúpar hvosir.

Gálgahraun

Gálgahraun – herslugarðar.

Við höfðum haldið að Gálgahraun væri hinn ömurlegasti staður. En það er nú eitthvað annað. Þetta er allra skemmtilegasti staður, þegar maður fer að skoða hann og kynnist honum. Víða er brunagrjót, ómjúkt undir fæti og skófrekt, en yfir það verður að klöngrast til þess að geta skoðað einkennilegustu klettana.
Og hér kemur maður svo í grasi gróna klettasprungu og gengur eftir henni. Allt í Galgaklettar - AOeinu kemur maður að gloppu á þessum gróðurfeldi og sér þá niður í botnlausa gjá undir fótum sér.
Hér eru margir sundur sprungnir klettar, þar sem mjög hentugt hefði verið að koma fyrir gálgatré. En það eru þó ekki hinir réttu Gálgaklettar. Þessir klettar eru of langt inni í hrauninu. Menn voru ekki að leggja á sig það ómak að drasla dauðadæmdum mönnum til aftökustaðar, sem illt var að komast að. Það er því ekki fyrr en við erum staddir beint á móti Bessastöðum, að við komum að Gálgaklettum. Og við sjáum þegar að þeir bera svo af öðrum klettum, að þeir hafa hlotið að vera sjálfkjörnir „til síns brúks“.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Þeir eru hærri en flestir aðrir klettarnir, brattir og sprungnir sundur sitt á hvað, sprungurnar djúpar og beinir klettaveggir sitt hvorum megin við þær. Hér fram undan er líka allvíð klettakvos með sléttum og grónum botni, þar sem margt manna hefir getað staðið til að horfa á. Og rétt fram undan er dálítil vík eða vogur, þar sem hægt hefir verið að lenda báti. Er þangað stuttur sjóvegur frá Bessastöðum yfir Lambhúsatjörn.
Ekki hefir mér auðnast að grafa upp hve margir menn hafa verið hengdir hér. En í annálum er þess getið, að hinn 26. janúar 1664 hafi maður verið hengdur „suður frá Bessastöðum í Garðahrauni“. Hann hét Þórður Þs. (líklega Þórðarson) og honum var gefið að sök að hafa stolið „úr búðum danskra í Hólminum“.

Gálgahraun

Fornar götur um Gálgahraun.

Samkvæmt þessu verður ekki um vilst, að þessi maður hefir látið lífið í Gálgaklettum. Og líklegt er að fleiri hafi verið teknir af þar og að þetta hafi verið opinber aftökustaður, líkt og Sjávarkvíar á Kjalarnesi. Kjósarannáll segir frá því, að 1634 hafi verið hengdur þjófur á Bessastöðum. Skarðsárannáll segir að 1635 hafi 2 menn verið hengdir í Gullbringusýslu fyrir stuld, sinn í hvorn tíma. Setbergsannáll segir að 1702 hafi tveir þjófar verið hengdir í Gullbringusýslu, en í Mælifellsannál segir að það ár hafi þrír þjófar verið hengdir á Suðurnesjum.
Sennilega hafa allir þessir menn verið hengdir í Gálgaklettum, því að þegar þeir voru gripnir, munu þeir hafa verið fluttir í Bramshúsið á Bessastöðum. Þetta var sérstakt hús og fyrsta og eina fangelsi hér á landi þangað til hegningarhúsið á Arnarhóli var byggt. Alþýða kallaði þetta hús „Þjófakistu“ og er það kunnast undir því nafni.
Galgaklettar-140Í klettaskoru austan í Gálgaklettum er grjóthröngl allmikið og var talið að þetta væri dys, þar sem sakamennirnir hefði verið urðaðir. Hafa gengið sagnir um að þar hafi sézt mannabein. Auðséð er, að einhver hefir ætlað að rannsaka þessa dys, því að nokkuð af grjótinu hefir verið rifið upp, en ekki sjást þar nú nein bein, nema eitt rif úr hrossi, hvernig svo sem á því stendur að það er þangað komið. En þarna hefir verið djúp glufa út undir bergið og má vera að þar sé eitthvað af mannabeinum og þá djúpt á þeim. Við skulum ekkert forvitnast um það. Ef þetta er dys sakamannanna, eins eða fleiri, þá hafa þeir nú legið þarna í 250—318 ár og það er bezt að lofa þeim að vera þarna í friði.“

Heimild:
-Í Gálgahrauni – Árni Óla – Lesbók Morgunblaðsins 24. ágúst 1952, bls. 405-409.

Gálgahraun

Gálgahraun og Garðahraun – minjar.