Tag Archive for: Garðabær

Gálgahraun

Árni Óla skrifaði frásögn um ferð hans um Gálgahraun í Lesbók Morgunblaðsins árið 1952:
„Meðfram öllum hinum nýju bílvegum á Íslandi eru sett upp merki til viðvörunar, svo að fólk fari sér ekki að voða með ógætilegum akstri, þar sem eru hættulegar beygjur, brekkur, eða einhverjar torfærur.
thorgardsdys-221Öðru vísi var þetta áður fyr. Þá voru nokkurs konar sáluhjálparmerki meðfram vegunum. Það voru dysjar manna og kvenna, er tekin höfðu verið af lífi. Hjá þessum dysjum skyldi menn fara af baki gæðingum sinum og kasta þremur steinum í dysjarnar, til merkis um að þeir fordæmdi athæfi hinna framliðnu og væri einráðnir í að láta sér víti þeirra að varnaði verða í lífinu. Dysjar þessar voru alls staðar, því að alltaf var verið að taka fólk af lífi hér, til þess að fullnægja erlendu réttlæti. Íslendingar töldust þá ekki færir um að setja sér lög sjálfir, heldur voru þeim fengin útlend lög til að lifa eftir.

Mæðgnadys

Mæðgnadys við Garðaveg sunnan Gálgahrauns.

En þessi lög voru ekki alltaf í samræmi við réttarmeðvitund almennings eða framkvæmdin í samræmi við eðlilega málsmeðferð, og þess vegna urðu árekstrar. Hinir  meintu seku voru gripnir dæmdir og teknir af lífi, bæði til að fullnægja „réttlætinu“ sem og öðrum til viðvörunar. Og til þess að þetta gleymdist aldrei, voru sakamennirnir dysjaðir hjá þjóðvegum, þar sem mest var umferð, svo að ókomnar kynslóðir gæti kastað að þeim grjóti óendanlegri vanþóknun á einhverju sem það hafði ekki hina minnstu hugmynd aðra en yfirvaldið hafði opinberað . Fordæmingin náði út yfir gröf og dauða, og skyldi verða öðrum til sáluhjálpar eins lengi og landið væri byggt.
galgahraun-223Hið útlenda réttlæti, sem stútaði íslenzkum mönnum og konum og urðaði hræ þeirra við þjóðvegu, eins og það hefði verið óætar pestarkindur, hlaut sjálft hin sömu örlög og það hafði öðrum skapað, að verða fordæmt. Þá hættu ferðamenn að kasta steinum í dysjarnar við vegina, og síðan hafa Íslendingar verið að bisa við að koma beinum sakamanna niður í kirkjugarða, til merkis um að fordæmingunni sé af þeim létt og ný öld með nýu réttlæti runnin upp. Ekki þótti rétt að hafa svo mikið við alla sakamenn að dysja þá hjá alfaravegi. Minni háttar sakamenn, svo sem umrenningar og þjófar, voru hengdir og dysjaðir þar á staðnum. Í þessu trjálausa landi var ekki hægt að hengja menn upp hvar sem var. En hér hafði þó náttúran látið hugvitsömum réttvísinnar þjónum annað í té, sem var jafn gagnlegt. Hún hafði gert stóra steindranga með stuttu millibili, eða þá djúpar klettasprungur og gjár, þar sem ekki þurfti annað en leggja ás yfir á milli klettanna og koma þar snörunni fyrir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Eru enn til sagnir um að á sumum stöðum hafi verið svo rúmt á milli klettanna, að marga þjófa mátti festa þar upp í einu. Þegar af tökunni svo var lokið og böðullinn hafði fengið sitt, var líkið eða líkin urðuð, annaðhvort í sömu klettasprungunni, eða rétt þar hjá. Slíkir aftökustaðir voru mjög víða, og sumir eru enn kendir við þjófa og gálga. Og það bregst varla að hægt er að benda þar á grjóthrúgu, sem á að vera dys sakamanna. Einn þessi hengingarstaður er hér í nánd við Reykjavík og heitir Gálgaklettar. Þeir eru á Álftanesi, sunnan Lambhústjarnar, gegnt Bessastöðum. Eiga nú fáir þar leið um. En ef þig langar til þess að sjá staðinn, þá skulum við bregða okkur þangað. Það er hvorki dýrt né tímafrekt ferðalag.
galgahraun-224Niður undir Kópavogslæknum ofan við veginn, voru fjórar gamlar dysjar og stóðu tvær og tvær saman. Það er langt síðan að vegfarendur hafa kastað grjóti í dvsjar þessar, enda eru þær svo að segja sokknar í jörð. Og áður en varir kemur einhver frumbýlingur með jarðýtu og umturnar móunum þarna, og sögu dysjanna er lokið. En þær áttu sér nöfn, átakanleg og ógleymanleg nöfn. Þær sem nær eru veginum hétu „Hjónadysjar“, hinar hétu „Systkinaleiði“.
Í Arnarneshálsinum, fyrir sunnan voginn, eru einnig dysjar, en þar hefir veginum verið breytt svo að nú er hann alllangt frá þeim. Þar er mælt að sé dys manns þess, er gekk aftur og varð nafnkunnur draugur á Álftanesi, og var heitinn í höfuðið á Þorgarði þeim er varð Þorleifi jarlaskáldi að bana á Þingvöllum, af því að hann hefir þótt álíka illur andi. Hafa margir gamlir menn heyrt talað um Þorgarðsdys, en tvennum sögum fer um þetta.

Gálgahraun

Hraunmyndanir í Gálgahrauni.

Nú blasir við okkur Arnarnesvogur og handan við hann svartur hraunjaðar. Þar er Gálgahraun og í því eru Gálgaklettar. Þessi hraunspilda er nyrst í Garðahrauni og sker sig úr vegna þess hvað hún er úfin og hrikaleg. Þarna hefir glóandi hraunið  sennilega runnið í fyrndinni út á mýrlendi, suður af Lambhúsatjörn, og vatnsgufurnar hafa sprengt það allt sundur, gert í það gíga og stórar gjár, en hrúgað upp röðlum og klettum á öðrum stöðum.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Gamli vegurinn fram á Álftanes lá meðfram Arnarnessvogi að sunnan. Það hefði verið skemmtilegast fyrir okkur að fara hann, en nú er það ekki hægt vegna nýbýla og girðinga.
Neðan við Silfurtún er ætlunin að ganga þaðan þvert yfir holtið niður að vognum. Þar hittum við á gamla veginn, þar sem hann liggur inn í hraunið, rudd gata að fornu og hefir sýnilega verið mjög fjölfarin, vegna þess hvað hún er djúp og glögg enn. Þarna hafa líka margir hófar troðið, því að hér gengu skreiðarlestirnar af Álftanesi fyrr. „Gömlum götum á ekki að gleyma“, segja Færeyingar. Þessi gata gleymist ekki, enda þótt hún sé aflögð, því að hún er mörkuð á landabréf Björns Gunnlaugssonar sem þjóðleiðin fram á Álftanes. Gatan liggur skáhalt upp í hraunið og eru á vinstri hönd gjár miklar, en til hægri er Gálgahraunið. Mönnum hefir tekist að finna þarna mjög sæmilega leið, og hafa hinir nýju akvegir oft verið lagðir eftir hestagötum, sem voru óhentugri til þess en þessi gata, og þess vegna er það einkennilegt að Álftanesvegurinn skuli ekki liggja þarna enn í dag, í stað þess að liggja frá Engidal út háholtið.
galgahraun-226Úr því hingað er komið er bezt fyrir okkur að skoða allt Gálgahraunið. Hér eru langir klettaröðlar sprungnir sundur að endlöngu, hér eru háir klettar með sprungum og hellum, og hér eru djúpar hvosir. Hér kemur manni fyrst á óvart hve mikill gróður er í hrauninu. Í hvosum og klettaskorum er kafgras, og hér er fjölskrúðugur gróður eins og oft er í hraunum, sem farin eru að gróa.
Annað, sem manni kemur á óvart, er að hér er mikið fuglalíf. Hér flögrar stór hópur svartbaka með gargi og skrækjum. Þeir hafa eflaust orpið hér í hrauninu í vor, því að þeir láta ófriðlega, og renna sér að manni hver af öðrum með hvínandi vængjadyn. Heldur sljákkar þó í þeim þegar þrjár þrýstilofts flugvélar æða þarna yfir með svo miklum dyn, að þeir heyra ekki sjálfir sinn eigin vængjahvin. Þá er eins og þeir skammist sín. Þeir fljúga letilega lengra út í hraunið og setjast þar á kletta.

Mávur

Már í Gálgahrauni.

Hettumár kemur og gargar afskræmislega, eins og hans er von og vísa. Ut við voginn heyrist stelkur gjalla hátt og hvínandi, en hrossagaukur hneggjar í lofti. Og allt um kring ómar lóusöngur og tíst í smáfuglum, en spóar standa hingað og þangað á steinum og vella af kappi. Við heiðum ekki trúað því að óreyndu að svona mikið fuglalíf væri hér. Við höfðum haldið að Gálgahraun væri hinn ömurlegasti staður. En það er nú eitthvað annað. Þetta er allra skemmtilegasti staður, þegar maður fer að skoða hann og kynnist honum. Víða er brunagrjót, ómjúkt undir fæti og skófrekt, en yfir það verður að klöngrast til þess að geta skoðað einkennilegustu klettana. Og hér kemur maður svo í grasi gróna klettasprungu og gengur eftir henni. Allt í einu kemur maður að gloppu á þessum gróðurfeldi og sér þá niður í botnlausa gjá undir fótum sér. Gróni botninn í klettasprungunni er ekki annað en gerfibotn.
galgahraun-227Þar hafa nokkrir steinar skorðast milli klettanna, svo hefir grámosinn þakið þá og síðan hefir töðugresi numið land í mosanum og kominn er sléttur og grasi gróinn „botn“. Alls staðar eru hellisskútar. Þeir eru litlir en snotrir með hvolíþaki og er hægt að skríða inn í þá flesta. Á einum stað hefir verið hlaðinn grjótveggur fyrir framan helli, svo að þar hefir myndast dálítið byrgi. Það er svo lítið að það hefir naumast getað verið fjárbyrgi. Líklegra þykir mér að það hafi verið skotmannsbyrgi og þarna hafi einhver legið fyrir tófu að vetrarlagi.

Garðahraun

Gálgahraun – hraunmyndun.

Hraunið hefir runnið fram í voginn og eru þar klettar og gjögur, skvompur og gjótur, en framundan hafa verið flúðir orpnar lausu hraungrýti. Upp í þetta lausagrjót í fjörunni hefir sjórinn borið kynstur af þangi og marhálmi öldum saman, fyllt allar holur og sléttað, svo að þarna hefir myndast þykkt mókennt lag ofan á grjótinu. Svo hefir þetta gróið og eru þarna sléttir vellir með lágum en ótrúlega þéttum gróðri.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Liturinn á honum er einkennilegur, því að sum stráin eru brún, önnur gul og hin þriðju dökkgræn. Þetta stafar af því, að sjór gengur þarna yfir hinar grasi grónu grundir þegar stórstreymt er. Má jafnvel sjá gráa salthúð á grasinu sums staðar. En svo er sjórinn aftur farinn að brjóta niður þessar jarðabætur sínar. Og hann fer að því líkt og sandbyljir á landi, grefur undan grassverðinum þartgað til stórar torfur brotna framan af. Mundi þetta ekki vera enn ein bending um, að land sé að síga þarna?
galgaklettar-228Fremst gengur hrauntangi lágur út í sjóinn milli Arnarnessvogs og Lambhúsatjarnar. Er hann yfirleitt sléttur, nema hvað nokkrir klettar standa þar upp úr og eru þeir þó miklu lægri en efri hraunbrúnin. Rétt fyrir ofan þennan tanga, á rima í hraunbrúninni, er gömul tóft, vallgróin að nokkru, ert grjóthleðsla í veggjum glögg að innanverðu. Tóftin er að innanmáli 8×11 fet og hafa dyr verið á norðurvegg við vesturgafl. Ekki sést móta fyrir fleiri tóftum og getur því ekki verið að þetta hafi verið stekkur. Ef til vill hefir þetta verið fjárborg, en hún er þá ólík öðrum fjárborgum hér um slóðir; því að húslag er á henni, en ekki borgarlag. Máske þetta hafi verið sjóbúð? Að vísu hefir hún þá verið nokkuð lítil og gæti maður helzt hugsað sér að menn hefði legið þar við á vorvertíð. Lending er sæmileg þarna og brim aldrei neitt að ráði.

Eskines

Tóft af hænsnakofa við Eskines.

Óþarfi er fyrir okkur að velta lengur vöngum yfir því hvaða mannvirki þetta er. Hvorugur okkar getur leyzt þá gátu. Hið eina sem víð vitum með vissu er, að hér út í jaðrinum á Gálgahrauni, á mjög afskekktum stað, hafa mannshendur einhverntíma verið að verki og reist hús. Mennirnir, sem þetta gerðu eru löngu gleymdir, en hér er minnismerki þeirra, grjóthleðsla og vallgrónir veggir. Eitt lítið sýnishorn þess hvernig menn hafa reynt að hagnýta sér þetta hrjóstuga land út í æsar. Slíkar rústir á víð og dreif um landið eru þöglar minningar frá lífsbaráttu þjóðarinnar, og því merkilegar í allri sinni fátækt og einfaldleik.

Gálgahrauni

Í Gálgahrauni.

Nú höldum við lengra norður á bóginn. Hér er margt að skoða, kynjamyndir í klettum og sprungum, og hin steinrunnu kyngimögn hraunsins, sem hefir dagað þarna uppi, er þau mættu sjónum. Hér er víðast ógreiðfært, ef maður ætlar að fara beint af augum. En fyrir gamlan smala er hægt að finna hér góða leið. Hann veit að sauðkindin er öllum slyngari í því að finna og þræða hina greiðfærustu leið, þar sem öðrum sýnist illfært. Og hér eru gamlir fjárstígar eftir gróðurtorfum milli klettanna. Þeir eru að vísu í ótal krókum, en það borgar sig að fylgja þeim, það er greiðasta og bezta leiðin.
galgaklettar-229Nú höldum við vestur með Lambhúsatjörn, sem ekki er tjörn lengur, heldur sjávarvogur. Og þar sem stígurinn liggur næst sjónum, furðar okkur á að sjá hvað sjórinn gengur hátt upp í hraunið. Það er háfjara núna og þess vegna sézt þetta svo vel. Þangrastir eru hér komnar hátt upp í grasi gróna hvamma og hraunbolla. Og hraungrjótið ber þess merki ef sjór hefir gengið yfir það. Þá er það kolsvart og stingur mjög í stúf við ljósgrátt grjótið allt um kring. Þennan svarta lit fær það sennilega úr marhálminum og þanginu, sem á það berst.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Hér eru margir sundur sprungnir klettar, þar sem mjög hentugt hefði það eru þó ekki hinir réttu Gálgaklettar. Þessir klettar eru of langt inni í hrauninu. Menn voru ekki að leggja á sig það ómak að drasla dauðadæmdum mönnum til aftökustaðar, sem illt var að komast að. Það er því ekki fyrr en við erum staddir beint á móti Bessastöðum, að við komum að Gálgaklettum. Og við sjáum þegar að þeir bera svo af öðrum klettum, að þeir hafa hlotið að vera sjálfkjörnir „til síns brúks“. Þeir eru hærri en flestir aðrir klettarnir, brattir og sprungnir sundur sitt á hvað, sprungurnar djúpar og beinir klettaveggir sitt hvorum megin við þær. Hér fram undan er líka allvíð klettakvos með sléttum og grónum botni, þar sem margt manna hefir getað staðið til að horfa á. Og rétt fram undan er dálítil vík eða vogur, þar sem hægt hefir verið að lenda báti. Er þangað stuttur sjóvegur frá Bessastöðum yfir Lambhúsatjörn.“

Gálgahraun

Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hefir mér auðnast að grafa upp hve margir menn hafa verið hengdir hér. En í annálum er þess getið, að hinn 26. janúar 1664 hafi maður verið hengdur „suður frá Bessastöðum í Garðahrauni“. Hann hét Þórður Þs (líklega Þórðarson) og honum var gefið að sök að hafa stolið „úr búðum danskra í Hólminum“. Samkvæmt þessu verður ekki um vilst, að þessi maður hefir látið lífið í Gálgaklettum. Og líklegt er að fleiri hafi verið teknir af þar og að þetta hafi verið opinber aftökustaður, líkt og Sjávarkvíar á Kjalarnesi. Kjósarannáll segir frá því, að 1634 hafi verið hengdur þjófur á Bessastöðum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Skarðsárannáll segir að 1635 hafi 2 menn verið hengdir í Gullbringusýslu fyrir stuld, sinn í hvorn tíma. Setbergsannáll segir að 1702 hafi tveir þjófar verið hengdir í Gullbringusýslu, en í Mælifellsannál segir að það ár hafi þrír þjófar verið hengdir á Suðurnesjum. Sennilega hafa allir þessir menn verið hengdir í Gálgaklettum, því að þegar þeir voru gripnir, munu þeir hafa verið fluttir í Bramshúsið á Bessastöðum. Þetta var sérstakt hús og fyrsta og eina fangelsi hér á landi þangað til hegningarhúsið á Arnarhóli var byggt. Alþýða kallaði þetta hús „Þjófakistu“ og er það kunnast undir því nafni. Í klettaskoru austan í Gálgaklettum er grjóthröngl allmikið og var talið að þetta væri dys, þar sem sakamennirnir hefði verið urðaðir. Hafa gengið sagnir um að þar hafi sézt mannabein. Auðséð er, að einhver hefir ætlað að rannsaka þessa dys, því að nokkuð af grjótinu hefir verið rifið upp, en ekki sjást þar nú nein bein, nema eitt rif úr hrossi, hvernig svo sem á því stendur að það er þangað komið. En þarna hefir verið djúp glufa út undir bergið og má vera að þar sé eitthvað af mannabeinum og þá djúpt á þeim.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Við skulum ekkert forvitnast um það. Ef þetta er dys sakamannanna, eins eða fleiri, þá hafa þeir nú legið þarna í 250—318 ár og það er bezt að lofa þeim að vera þarna í friði.
Það er fagurt og friðsælt í Gálgahrauni í svo fögru veðri, þegar sól skín af heiðum himni, alls staðar er skjól fyrir norðan næðingnum, og alls staðar er sterk angan af gróðri. En hvernig heldurðu að þér þætti að vera hér einn á ferð í skammdegisbyl, þegar stormurinn hvín óyndislega í klettum og dröngum, en þeir verða að svörtum forynjum, með gapandi höfðum og gínandi trjónum? Hér er óratandi og ekkert hægt að komast áfram fyrir klettaröðlum, gjám og hraunkvosum. Ætli það hvarflaði þá ekki að þér að þeir dauðu úr Gálgaklettum væri komnir á kreik og ætluðu að villa um fyrir þér, og að það sé vein þarna og dauðastunur, sem þú heyrir í vindinum? – Á. Ó.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. ágúst 1952, bls. 405-409.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Vífilsstaðasel

Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum. Eftir að hafa skoðað selið, sem er austan við veginn, var litið á hlaðinn stekk upp á klapparholti norðan við það. Stekkurinn er dæmigerður fyrir slíkt selsmannvirki, tvískiptur.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Tóftir selsins hvíla í kvos, í skjóli fyrir austanáttinni. Einnig dæmigerð fyrir sel á Reykjanesskaganum. Þá var haldið niður að Grunnuvötnum syðri og auga haft með hugsanlegum tóttum nálægt vötnunum, en engar slíkar fundust að þessu sinni. Gengið var áfram til austurs á brattann og nú stefnt á Vatnsendaborg efst á Hjöllum með viðkomu í Arnarsetri, vörðu á vestanverðum hálsinum þar sem sést yfir Grunnuvötn. Þaðan er einnig ágæt fjallasýn í góðu skyggni og kjörinn áningastaður eftir göngu um hjallana. Ef gengið er þaðan niður með Grunnuvötnum nyrðri er komið niður á stíg er liggur niður að Vífilsstaðavatni.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Borgin er rétt innan við landamerki Vatnsenda, en á Hjallabrúninni skammt vestan við borgina er fótur af gamalli landamerkjavörðu Vífilsstaða og Vatnsenda. Frá henni sést vel í Kolhól, en á honum er landamerkjahorn.

Gengið var niður Hjallana og til suðurs að Löngubrekku. Henni var síðan fylgt til vesturs að Garðaflötum þar sem skoðaðar voru nýfundnar tóttir.
Gengið var um Búrfellsgjá að Gerðinu vestan Gjáarréttar og það skoðað. Hleðslur í skúta inn undir Gerðinu virðast hafa haldið sér nokkuð vel, en rúmlega 60 ár eru síðan síðast var réttað í gjánni.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Haldið var í gegnum Gjáarréttina að Vatnsgjánni og litið ofan í það gamla vatnsstæði áður en gengið var vestur norðanverða Selgjá og aftur að upphafsreit.
Gangan tók um 3 og ½ klst í hinu besta verði – logn og blíða.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu árið 2002 birtist grein undir fyrirsögninni „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti„. Greinin var skrifuð af Þorkeli Jóhannessyni og Óttari Kjartanssyni. Hér birtist hluti hennar:

Flodahjalli-225„Ný tegund tófta hér á landi er leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér eina tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka: húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsa, skothúsa, brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ. Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar.
Urridakot-221Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli.

Flóðahjalli

Á Flóðahjalla.

Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar.

Flóðahjalli

Flóðahjalli og nágrenni – Herforingjaráðskort 1903.

Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið.
Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi, og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Hádegisholt

Hádegisvarðan á Hádegisholti.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls. Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal, skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Hádegisholti  (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti). Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.

Urriðakot

Urriðakot.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar. Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið. Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 19043. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.

Urriðavatn

Urriðavatn 2023.

Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu.
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin.

Flóð'ahjalli

Flóðahjalli – uppdráttur.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli. Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst Flodahjalli-222eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D. S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J. A. og G. H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.
Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn. Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.

Flodahjalli-223

Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði.
Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru. Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar. Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brenvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212).

Camp Russel

Camp Russel á Urriðakotsholti – kort.

Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja11. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m. a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.
Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).

Urridakot-uppdrattur

Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).
Urriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.

Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.
Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakot

Fjárhús í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“). Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – uppdráttur.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir“. Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur neðst t.h.

Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu.
Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort frá 1908.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa. Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.

Urriðakot

Urriðakot.

Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli. Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 19787.“

Heimildir:
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: Fjórar leiðir í Gjáarrétt. Hesturinn okkar, 1. og 2. tbl. 1983.
-Elísabet Reykdal (f. 1912), Setbergi, viðtal 20. apríl 1998.
-Guðmundur Björnsson (1917-2001), augnlæknir, prófessor, Reykjavík (viðtöl apríl 1998 og maí 2000). Einnig Urriðakotsættin. Niðjatal (handrit 1995) og fleiri gögn (nr. 5, 7 og 13 hér á eftir). – Guðmundur var ættaður frá Urriðakoti og að nokkru alinn þar upp og var þar gerkunnugur. Höfundar eru í þakkarskuld við Guðmund heitinn fyrir þann áhuga, sem hann sýndi snuddi þeirra og fyrir lán á heimildum.
-Golklúbbur Oddfellowa (Heimasíða á Netinu).
-Urriðavatnsland. Oddfellowreglan. Handrit, 1987.
-Valgarð Thoroddsen: Elzta rafstöð á Íslandi. Ársskýrsla Sambands íslenzkra rafveitna 12. ár (bls. 175–181). Reykjavík 1955.
-Svanur Pálsson: Örnefnalýsing í Urriðakotslandi. Handrit 15.10. 1978. – Svanur Pálsson er ættaður frá Urriðakoti og er þar gerkunnugur.
-Ólafur Valsson, kortagerðarmaður: Útvegun loftmynda og gerð korts
-Þór Whitehead: Bretarnir koma. Vaka-Helgafell, 1999.
-Páll Lýðsson: Hernaðarsaga stórveldis. Þjóðólfur 11.12. 1967.
-Þór Whitehead: Persónulegar upplýsingar (1999 og 2001). – Höfundar eiga Þór að þakka að hafa komist í samband við ritara herfylkis Wellingtons hertoga, bls. 12.
-Bréf D. L. J. Harraps, majórs, ritara herfylkis Wellingtons hertoga, aðalstöðvum herfylkisins í Halifax, Vestur-Jórvíkurskíri, til Þ. J., dagsett 17.8.2001.
-Jón Sigurðsson í Skollagróf: Þáttur af Jóni á Setbergi. Handrit, 1996.
-Jónína Hafsteinsdóttir, Örnefnastofnun: Persónulegar upplýsingar (22.1. 2001).
-Svanur Pálsson: Bréf til Þ.J., dags. 24.9. 2001.

Heimild:
-Morgunblaðið 13. janúar 2002, bls. 10-11.

Urriðakot

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að „þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman“.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

„Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Garðar

Sigurður Björnsson skrifaði um „Garðabæ“ í Félagsrit eldri borgara árið 2007:
„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort.

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess. Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Garður/brú milli Skógtjarnar og Aukatjarnar.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.

Garðahverfi

Garðahverfi – Örnefnakort.

Fyrstu jarðýturnar í eigu íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar. Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri.

Selur

Selur í Skógtjörn.

Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.

Álftanes

Álftanes – herforningaráðskort 1903. Hér sjást landamerkimum Skógtjörnina.

Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi. Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi. Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð.

Garðaholt

Garðaholt – hringsjá.

Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.
Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf. Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun.

Hádegishóll

Hádegishóll – landamerkjavarða.

Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.“

Heimild:
-Félagsrit eldri borgara, 2. tbl. 12. árg. 2007. „Listin að lifa“ – 2. tölublað (01.06.2007), Sigurður Björnsson, verkfraðingur, Gengið um Garðabæ, bls. 44-45.

Garðabær

Garðabær – uppland – kort.

Garðar

Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata „frá Garðahliði norður holtið hjá Prestahól í Stekkinn“, þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, „klapparhóll litlu norðar en Prestahóll, rétt við Garðagötu“. Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Í Örnefnalýsingu 1958 er Garðastekkur sagður vera norðaustan Presthóls, „niður við hraun“. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hann „í hraunbrún Gálgahrauns miðs vegar milli Garðaholtsenda og Lambhúsatjarnar […] spölkorn niður frá vegamótum. Þar eru hleðslur og tættur gamla stekksins.“ Við hann eru kennd Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“

Garðastekkur

Fjárborg ofan Garðastekks.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“

Garðahverfi

Garðahverfi.

Kristján Eldjárn skoðaði svo minjarnar og lýsti þeim árið 1978: „Beint austur af [Presthól], við jaðar Gálgahrauns, heitir Stekkur og er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti. Vafalítið mun hafa verið þarna stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Talsverðar minjar er enn að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. En rétt fyrir norðan réttina er grasivaxin tóft, um 10 m löng og 4-5 m breið. Ekki er skynsamlegt að fullyrða hvað þetta er, en sennilega eru öll þessi gömlu ummerki á einhvern hátt tengd stekkjarlífinu. Mikill graslubbi torveldar að gera sér grein fyrir rústunum. Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt. Heim að Görðum er hæfilegur stekkjarvegur og staðurinn er upplagður sem stekkjarstæði.“

Garðahraun

Götur í og við Garðahraun.

Kristján rissaði upp réttina, hugsanlegar stekkjarleifar og tóft en suðurveggur hennar liggur nokkurn veginn samhliða norðurvegg réttarinnar. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta um 350 m í norðaustur frá Bessastaðaveg. Þarna er ræktað tún sunnan undir hraunbrúninni, tveir túnbleðlar, og rústirnar þar upp við hraunið. Í vestsuðvestur sést lítill grýttur hóll. Um 10 m eru milli réttarinnar og tóftarinnar en hún er í vestari túnblettinum. Tóftin er skýr þótt hún sé grasi vaxin en lögunin ógreinileg. Hún mælist 10,1 m á lengd og 5,2 á breidd, veggirnir um 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Skrásetjari giskar á að þarna hafi verið fjárkofi. Aftur fór svo fram Fornleifakönnun 1999 og segir þá að í krikanum sem myndast vestan við réttina sé „grasi gróin tóft, 10 x 4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Tóftin hefur stefnuna norðvestur-suðaustur.

Fógetastígur

Fógetastígur.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u. þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“  Eftir að hafa sagt frá stekknum segir Kristján Eldjárn 1978 að þarna í stekkjarstæðinu séu enn „talsverðar minjar […] að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin.“

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta „vel hlaðin rétt, skiptist í 4 megin hólf – 1 „safn“ og 3 hólf […] hlaðin úr hvössu grjótinu úr Gálgahrauninu“. Veggir eru 0,3-1 m á breidd og 0,5-1 m á hæð. Við Fornleifakönnun 1999 segir svo: „Grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. […] Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19 x 6 m og er aðeins gengt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnan við. Þau eru bæði um 5 x 5 m með dyr á suðurvegg.“

Garðastekkur

Garðastekkur (Garðarétt).

Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“  Um það segir Kristján Eldjárn árið 1978: „[…] er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti […] stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt.“ Við Fornleifakönnun 1991 segir: „Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp og er enn notað. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá þessari öld […] Fjær eru stórgrýttir flagmóar.“

Garðaflatir

Garðaflatir og Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Minnispunktum úr skoðunarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: „Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir.

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað  þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.“

Garðastekkur

Garðastekkur – tóft.

Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera „á hrauntá í jaðri Gálgahrauns“ um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaða veg. Rústin er þá mjög skýr, „hringlaga eða réttur hringur að utanmáli“, um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið. Líklegt má telja að veggir fjárborgarinnar hafi síðar verið nýttir í réttina (stekkinn).

Sjá meira um Fógetastíg og Garðahraun.

Mæðgnadys

Mæðgnadys við Garðagötu.

Heimildir:
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum.
-Orri Vésteinsson: 1999, Fornleifakönnun. Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs. Fornleifastofnun Íslands FS087-99081. Rvk.
-Ari Gíslason: 1958, Örnefnalýsing Garðahverfis.
-Kristján Eiríksson: 1976-7, Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna.
-Kristján Eldjárn: Garðar, Garðahreppi, Gullbringusýslu. Minnispunktar úr skoðunarferð, dags. 20. sept. 1978.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: „1300-80“. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.

Fógetastígur

Fógetastígur.

Garðahraun

Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata „frá Garðahliði norður holtið hjá Prestahól í Stekkinn„, þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, „klapparhóll litlu norðar en Prestahóll, rétt við Garðagötu“. Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Í Örnefnalýsingu 1958 er Garðastekkur sagður vera norðaustan Presthóls, „niður við hraun„. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hann „í hraunbrún Gálgahrauns miðs vegar milli Garðaholtsenda og Lambhúsatjarnar […] spölkorn niður frá vegamótum. Þar eru hleðslur og tættur gamla stekksins.“ Við hann eru kennd Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“

Garðastekkur- fjárborg

Fjárborg ofan við Garðastekk.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið.
Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“

Garðastekkur

Garðastekkur – tóft.

Kristján Eldjárn skoðaði svo minjarnar og lýsti þeim árið 1978: „Beint austur af [Presthól], við jaðar Gálgahrauns, heitir Stekkur og er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti. Vafalítið mun hafa verið þarna stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. Talsverðar minjar er enn að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. En rétt fyrir norðan réttina er grasivaxin tóft, um 10 m löng og 4-5 m breið. Ekki er skynsamlegt að fullyrða hvað þetta er, en sennilega eru öll þessi gömlu ummerki á einhvern hátt tengd stekkjarlífinu. Mikill graslubbi torveldar að gera sér grein fyrir rústunum. Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt. Heim að Görðum er hæfilegur stekkjarvegur og staðurinn er upplagður sem stekkjarstæði.“

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Kristján rissaði upp réttina, hugsanlegar stekkjarleifar og tóft en suðurveggur hennar liggur nokkurn veginn samhliða norðurvegg réttarinnar. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta um 350 m í norðaustur frá Bessastaðavegi. „Þarna er ræktað tún sunnan undir hraunbrúninni, tveir túnbleðlar, og rústirnar þar upp við hraunið. Í vestsuðvestur sést lítill grýttur hóll. Um 10 m eru milli réttarinnar og tóftarinnar en hún er í vestari túnblettinum. Tóftin er skýr þótt hún sé grasi vaxin en lögunin ógreinileg. Hún mælist 10,1 m á lengd og 5,2 á breidd, veggirnir um 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Skrásetjari giskar á að þarna hafi verið fjárkofi. Aftur fór svo fram Fornleifakönnun 1999 og segir þá að í krikanum sem myndast vestan við réttina sé „grasi gróin tóft, 10 x 4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Tóftin hefur stefnuna norðvestur-suðaustur.

Fógetastígur

Fógetastígur í Garðahrauni.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u. þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ Eftir að hafa sagt frá stekknum segir Kristján Eldjárn 1978 að „þarna í stekkjarstæðinu séu enn „talsverðar minjar […] að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul.“

Garðastekkur

Garðastekkur (Garðarétt).

Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta „vel hlaðin rétt, skiptist í 4 megin hólf – 1 „safn“ og 3 hólf […] hlaðin úr hvössu grjótinu úr Gálgahrauninu. Veggir eru 0,3-1 m á breidd og 0,5-1 m á hæð. Við Fornleifakönnun 1999 segir svo: „Grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. […] Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19 x 6 m og er aðeins gengt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnan við. Þau eru bæði um 5 x 5 m með dyr á suðurvegg.“

Garðahraun

Götur í og við Garðahraun. ÓSÁ

Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Garðastekkatún „grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […]. Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.“ Um það segir Kristján Eldjárn árið 1978: „[…] er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti […] stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt.“ Við Fornleifakönnun 1991 segir: „Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp og er enn notað. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá þessari öld […] Fjær eru stórgrýttir flagmóar.“

Mægnadys

Mæðgnadys við Garðagötu.

Í Minnispunktum úr skoðunarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: „Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur.

Garðastekkur

Garðastekkur – fjárborg.

Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað  þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.“
Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera „á hrauntá í jaðri Gálgahrauns“ – um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðaveg. Rústin er mjög skýr, „hringlaga eða réttur hringur að utanmáli“, um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið“.

Sjá meira um Fógetastíg og Garðahraun.

Heimildir:
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum.
-Orri Vésteinsson: 1999, Fornleifakönnun. Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs. Fornleifastofnun Íslands FS087-99081. Rvk.
-Ari Gíslason: 1958, Örnefnalýsing Garðahverfis.
-Kristján Eiríksson: 1976-7, Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna.
-Kristján Eldjárn: Garðar, Garðahreppi, Gullbringusýslu. Minnispunktar úr skoðunarferð, dags. 20. sept. 1978.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: „1300-80“. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Selgjá

Í Selgjá [Norðurhellragjá] eru leifar a.m.k. 11 selja Álftanesbæja; Sandhúsa, Hliðs, Selskarðs, Miðhúss, Brekku, Svalbarðs, Sviðholts, Deildar, Mölshúss, Breiðabólastaða og Urriðakots.

Selgjá

Selgjá – skilti.

Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Sandhúsum: „Selstöðu á jörðin og hefur brúkað átölulaust þar sem heita Norðurhellrar.“

Selgjá

Norðurhellrahellir nyrst í Selgjá.

Í Örnefnaslýsingum má m.a. sjá eftirfarandi um selstöðurnar:
(Ö)  Selgjá: Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellrasel Álftnesinga.

(Ö)  Selgjársel: Selstættur eru þarna margar hlaðnar upp við Barmana [Selgjárbama] bæði sunnan og vestan. Mun þarna vera um 11 samstæður, með nær 30 byggingum bæði húsarústum og kvíarústum.

(Ö) Selgjá: Mikill hluti hennar heyrir til Fjallinu, syðri hlutinn.

(Ö) Um Norðurhellragjársel segir: Nokkur seljanna í gjánni eru sunnan markalínu.

Árið 1839 var Garðabrauð metið. Í lýsingu koma m.a. fram eftirfarandi upplýsingar: „Kirkiann i Gördum á land sem liggr til fialls fyrir ofan Setbergs, Áss, Ofridarstada og Hvaleyrarland; þar hefir verid og getur verid gód Selstada,“ …

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Árni Helgason segir í Lýsing Garðaprestakalls 1842: „Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.“

Í Jarðatali á Íslandi, gefið út af J. Johsen, segir um Garða: “ Örnefnalýsing fyrir Urriðakot (Urriðavatn).  279 Örnefnalýsing fyrir Urriðakot (Urriðavatn). 280 Álftanes – Afréttarland – Fjallið.  281 Álftanes – Afréttarland – Fjallið. 282 Garðakirkjuland. 283 Brauðamat Garða 1839, ásamt uppskrift að hluta (C. V. 79 B). 284 Árni Helgason, Lýsing Garðaprestakalls 1842, s. 209, …en á sumrum nær því hagalaust heima við; en upp til fjalla fyrir ofan Setberg, Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar land, á kirkjan land, og getur þar verið selstaða góð, enda má heyja þar, en fjarlægðarinnar vegna er heldur keypt eingi á Elliðavatni.“

Selgjá

Fjárskjól í Selgjá.

Í Guðlaugur Rúnar Guðmundsson segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar að: „Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegan, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabókinni 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa hafr þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“

Selgjá

Seltóftir í Selgjá.

Höfundur skoðaði minjarnar í Selgjá  árið 2002: Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var.  Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar ver. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel, sem er þarna skammt norðar. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana og eru mjög aðgengilegar. Einnig má sjá rústir á tveimur stöðum með börmum Búrfellsgjár, en gjárnar eru í sömu hrauntröðinni.

Selgjá

Selgjá – Uppdráttur ÓSÁ.

Heimildir um selin eru þessar helstar:

-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum o.fl. Kaupmannahöfn 1847, bls. 103.

-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson. Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. 2001. Bls. 133. Fjárskjól í Selgjá.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Hliði: „Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.”

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Selskarði: „Selstöðu má jörðin brúka í staðarins landi.“

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Mölshúsum: „Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Brekku: „Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Svalbarði: „Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Sviðholti: „Selstöðu hefur jörðin brúkað í Norðurhellrum.“

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Deild: „Selstaða hefur brúkuð verið til forna í Norðurhellrum.“

-Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Breiðabólstað: „Jörðin er þrönglend á sumardag og hefur selstaða brúkuð verið fyrir ofan Álftanes þar sem Norðurhellrar heita.“

-Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um selstöðu frá Urriðakoti, en hins vegar segir: „Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sumar þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi… Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“

Samantekt:
-BA-ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um „Sel vestan Esju“ – 2007.

Selgjá

Selgjá – Uppdráttur ÓSÁ.

Búrfellsgjá

Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um „Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð„:

Skilgreining og nafngift.
Búrfellshraun
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:

„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.

Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Búrfell - Kringlóttagjá

Búrfell og Kringlóttagjá

Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.

Búrfell

Kringlóttagjá

Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.

Búrfell

Búrfell.

Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.

Garðaflatir

Garðaflatir. Garður milli Búrfellsgjár og Vatnsholts.

Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.

Búfellsgjá

Búrfellsgjá.

Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur Gk.

Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.

Búrfellsgjá

Hellisskúti í Búrfellsgjá.

Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.

Maríhellar

Í Maríuhellum.

Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.

Búrfellsgjá

Í Gerðinu.

Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.

Búrfellsgjá

Gerðið.

Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.

Kaldá

Kaldá.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.

Búrfellsgjá

Búrfell

Búrfellsgjá.

Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga“ þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.

Búrfell

Búrfell.

Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.


Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.

Búrfellsgjá

Búrfell og Búrfellsgjá.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.

Lambagjá

Lambagjá.

Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin“ tæmdist að meira eða minna leyti.

Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni“, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði.

Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.

Búrfell

Búrfell.

En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.

Búrfell

Kringlóttagjá.

Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Búrfell

Árni Hjartarson skrifaði um „Búrfellshraun og Maríuhella“ í Náttúrufræðinginn árið 2009:

Búrfellshraun og Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli; það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum (1. mynd). Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Um þetta og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Stekkjarhraun, Selhraun, Kaldárselshaun, Hafnarfjarðarhraun, Balahraun, Garðahraun og Gálgahraun.“

Búrfell

Búrfellsgígur.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun, lét gera á því aldursgreiningar og ritaði um það – sjá  HÉR.

Flest sem síðar hefur verið skrifað um hraunið grundvallast á rannsóknum hans, m.a. þessi grein.

Stærð hraunsins og aldur Mikil misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanesi. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota.

Maríuhellar

Maríuhellar (Urriðakotsfjárhellir).

Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Selhraun

Selhraun vestan Kapelluhrauns.

Nýverið benti Haukur Jóhannesson greinarhöfundi á að Búrfellshraun sæist hugsanlega á yfirborði á dálitlum bletti í svokölluðu Selhrauni sunnan við Straumsvík. Á jarðfræðikorti hefur þetta hraun verið nefnt Selhraun 1 og uppruni þess talinn óljós en tekið er fram að um dyngjuhraun sé að ræða. Ekkert í landslaginu mælir gegn því að Búrfellshraun gæti hafa runnið þarna yfir en bæði útlit, berggerð og dílasamsetning, sem og aldursafstaða hraunsins til annarra hrauna, benda til þess að þetta sé Búrfellshraunið.

II. Lambagjárlota.

Lambagjá

Lambagjá.

Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota.
BúrfellshraunÞegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa og hrauntraðir og hellar í hraunum þurfa oftast nokkurn tíma til að myndast. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þetta var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Í borholunni við skolphreinsistöðina hjá álverinu í Straumsvík sést að sjávarborð var a.m.k. 8 m neðar en nú og Guðmundur Kjartansson nefnir að aðstæður í Hafnarfirði sýni að sjór gæti hafa staðið um 10 m neðar en í dag þegar hraunið rann.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 24 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson álítur meðalþykkt þess vera um 20 m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undir og ofan á því og birti um það grein í Náttúrufræðingnum. Þegar aldursgreiningarnar eru umreiknaðar yfir í raunaldur fæst að fjörumórinn undir hrauninu er um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú. Athugunum á hrauninu, sem fyrr hefur verið greint frá, ber saman við þetta.

Hrauntraðir.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð, við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá, svo sem fyrr er nefnt. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20–30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim er einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er meira en 20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta. Hraunhellum má skipta í nokkra flokka eftir því hvernig þeir mynduðust; hraunrásarhella, gíghella, hraunbólur, sprunguhella o.fl.
Í Búrfellshrauni eru nær allir þeir hellar sem ná máli hraunrásarhellar. Skútarnir í hrauninu eru ýmist í hraunrásum, undir hraunbólum eða myndaðir á annan hátt. Hraunrásarhellar eru orðnir til við rennsli hrauns í hraunrás undir storknuðu yfirborði. Þegar kvika berst ekki lengur til hraunrásarinnar getur hún tæmt sig ef landhalli er nægilegur og þá myndast hellir. Oft er þakið svo þunnt að það hrynur ofan í hraunrásina og því stundum erfitt að segja til um hvar einn hellir endar og annar hefst.

Skátahellir

Búrfellshraun – Skátahellir.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Í hinni miklu hellabók Björns Hróarssonar eru nafngreindir 13 hellar og skútar í hrauninu, en þó munu þeir vera fleiri.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns (Urriðakots) og Vífilsstaða rétt við veginn upp í Heiðmörk.
Björn Hróarsson lýsir stuttlega þremur hellum á þessum slóðum, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósefshelli.

Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella. Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. september 1834 og birt er í riti Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni og leiðir í landi Garðabæjar: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar, fram í vörðuna sín megin á Norðurhellragjárbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni, þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni, úr henni í Álptatanga, þaðan í hellu sem er í miðjum Hrauntanganum, kölluð Sílingarhella, úr henni í uppmjóan háan klett með klofavörðu upp á sín megin Stórakróks og í gamlar fjárréttargrjótgirðingar í Moldarhrauni, og upp í áðurnefnda Urriðakotsfjárhellra.“

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Þessi lýsing var þinglesin 1890 en þá gerði umboðsmaður Garðakirkju eftirfarandi athugasemd um leið og hann skrifaði undir skjalið: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju, að öðru leyti en því að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilsstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það sem Vífilsstaðir eiga sjerstaklega“. Af þessu skjali má ljóst vera að Maríuhellanafnið er gamalt og að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.

Engar sagnir fylgja þessari nafngift en Maríuvellir (Maríuflöt) eru illi hrauns og hlíðar þarna skammt frá, þar sem bílastæði eru nú. Mörg dæmi eru um það að Maríuörnefni tengist kirkjum sem helgaðar voru guðsmóðurinni. Í Múlafjalli í Kjós er t.d. hellir sem nefnist Maríuhellir og á Reynivöllum er Maríukirkja. Í máldaga frá 1397 segir að kirkjan eigi: „… sauðahöfn í Múlafjalli og skjól í Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“

Maríuhellar

Maríuhellar.

Þetta þýðir að bóndinn í Múla átti að telja kindurnar við Maríuhelli eftir hvert hríðarveður, vafalaust til gæta þess að enga vantaði. Reynivallakirkja átti einnig sölvafjöru þar sem heitir Maríusker og rétt til kolagerðar á Maríuhjalla í Ingunnarstaðaskógi í Brynjudal. Þarna virðast ótvíræð tengsl kirkju og örnefnis. Vífilsstaðir voru lengi í eigu Garðakirkju en hún er helguð Pétri postula svo ekki er nafnið þaðan runnið. Garðakirkja eignaðist jörðina 1558 en þar áður hafði hún lengi tilheyrt Viðeyjarklaustri. Kirkjan og klaustrið í Viðey voru helguð Maríu mey og því er líklegast að nafn hellanna sé frá þeim tíma er þeir voru eign og hlunnindi klaustursins. Ekki er vitað hvenær Vífilsstaðir féllu undir Viðey en klaustrið þar var stofnað um 1225 og starfaði til siðaskipta.
Maríuhellanafnið gæti því verið frá 13. öld. Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás svo í augum sumra hellarannsóknamanna er hér um einn þrískiptan helli að ræða sem alls er 150–160 m langur ef mælt er eftir meginlínu.
Þarna er hægt að ganga ofan í allmikið niðurfall um 15 vel hlaðin hraunhelluþrep. Þar niðri eru tveir víðir hellismunnar hvor gegnt öðrum. Niðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots (Urriðavatns) og Vífilsstaða. Urriðakotshellir gengur suður frá niðurfallinu. Hann er víðastur yst en dregst saman og lækkar innar. Auðvelt er að komast 22 m inn en þá taka við þröng göng sem ekki verður skriðið í. Gat er á hellisþaki. Þarna átti Urriðakot fjárból. Vífilsstaðahellir gengur til norðvesturs frá niðurfallinu. Aðeins 22 m eru á milli hellanna. Hann er 22 m langur undir þaki, fallega hvelfdur og 3–4 m á hæð. Hann er mun rúmbetri en Urriðakotshellirinn þótt lengdin sé sú sama. Þröngur munni er þar við hellisendann sem frá niðurfallinu snýr og því hægt að ganga í gegnum hellinn. Talsvert tað var þar á gólfinu fram eftir 20. öld en það var að lokum allt stungið út og notað að Vífilsstöðum.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðafjárhellir.

Úti fyrir munnanum þrönga er annað niðurfall þar sem hellisþakið hefur hrunið. Það er grunnt en 22 m langt. Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellis. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr föllnu þakinu. Fyrst er farið 3,5 m niður en síðan má smeygja sér milli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hrunið, á 5–6 m dýpi í hrauninu. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli, en rúmgóð og hvelfd hellisgöng þar inn af. Hellirinn er í heild 65–70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Víð hvelfing með kúpulaga þaki gengur út frá honum til hægri. Allmikið hrun hefur orðið þar úr loftinu svo hrúgur af stórgrýti eru á gólfi. Annars staðar er lítið um hrun. Hellirinn gengur inn undir þjóðveginn upp í Heiðmörk þannig að vel heyrist í bílum sem aka yfir hann. Nafn hellisins er tilgreint í örnefnaskrá Guðlaugs R. Guðmundssonar, en engin saga fylgir því. Eitthvað er þó órökrétt við það að draugar haldi til í Maríuhellunum.

Jósefshellir (?) er 70 m austan við Maríuhella skammt frá göngustíg um hraunið. Þar er allmikið niðurfall en norður úr því gengur lágur hvelfdur hellir, 22 m á lengd en um 12 m víður yst. Mold er á gólfi og ljóst að þar hefur sauðfé haft afdrep þótt óvíst sé hvort um gamlan fjárhelli sé að ræða. Í hellabók sinni frá 19908 segir Björn Hróarsson að skammt frá Maríuhellum sé lítill hellir sem nefndur sé Jósefshellir og oftast talinn með Maríuhellum. Í hellabókinni frá 2009 nefnir Björn þennan helli, Vífilsstaðahelli en þar er Jósefshellir horfinn úr hellatali.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Örnefnaflækja.
Af ofanrituðu sést að óvissa er um nöfn hellanna. Hér er að mestu fylgt lýsingu Guðlaugs R. Guðmundssonar10 en einnig var farið á vettvang með Svani Pálssyni, sem er fæddur í Urriðakoti 1937 og þekkir öllum betur örnefni á þessum slóðum. Guðlaugi og Svani ber saman um nafngiftir hellanna þriggja en hvorugur þeirra kannast við Jósefshelli. Samkvæmt lýsingu Björns Hróarssonar frá 2009 og hnitum sem hann gefur upp, slær hann saman Vífilsstaða- og Urriðakotshellum og nefnir einu nafni Urriðakotshelli.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Um Draugahelli er hann sammála Svani og Guðlaugi en hellinn sem hann nefnir Jósefshelli í bók sinni og kallar hann Vífilsstaðahelli í stóru hellabókinni frá 2006, sem fyrr er greint. Enn annar skilningur kemur fram í örnefnaskrá Vífilsstaða frá 1991; þar er Vífilsstaðahellir nefndur Maríuhellir en Urriðakotshellir kallaður Jósefshellir. Þessari örnefnaskrá ber ekki saman við eldri skrár og virðist hér komið dæmi um nýlega örnefnaþróun því engar heimildir finnast um Jósefshelli fyrr en 1990.
Upphaflega virðist Maríuhellanafnið hafa átt við fjárhellana tvo sem kenndir eru við Vífilsstaði og Urriðakot. Seinna bætist Draugahellir í hópinn enda í raun hluti af sömu hellasamstæðu. Örnefnið er líklega ungt og sést ekki á prenti fyrr en undir lok 20. aldar. Að lokum kemur fjórði hellirinn til sögunnar, kenndur við Jósef, enda réttlætismál að eigna honum helli nálægt hellum eiginkonu sinnar.

Niðurstöður.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – Þorsteinshellir.

Helstu niðurstöður þessarar greinar eru þær að Búrfellshraun við Hafnarfjörð sé stærra en áður hefur verið talið og eru færð rök fyrir því. Hraunflóð virðist hafa fallið til Straumsvíkur en nú er sú hrauntunga að mestu hulin yngri hraunum. Rannsóknir benda þó til að Selhraun 1 sunnan Straumsvíkur sé hluti Búrfellshrauns. Saga Búrfellsgossins er rakin og henni skipt upp í fjóra þætti. Birt er nýtt kort af Maríuhellum og reynt er að greiða úr örnefnaflækju sem þeim tengist. Hér er um einn þrískiptan hraunrásarhelli að ræða og stakan helli, Jósefshelli, þar skammt frá. Nafnið Maríuhellar virðist hafa fest við þá þegar þeir voru eign Maríukirkjunnar og klaustursins í Viðey. Örnefnið er því gamalt og gæti verið frá 13. öld.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 3.-4. hefti (01.03.2009), Árni Hjartarsson, bls.  93-100.
https://timarit.is/page/6468192?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/búrfellsgjá

Maríhellar

Maríuhellar.