Tag Archive for: Garðar

Garðar

Stefán Júlíusson skrifaði í Alþýðublaðið árið 1958 um „Garða á Álftanesi„:
„Fyrir nokkru var ég beðinn að tala á samkomu í, félagsheimilinu á Garðaholti, og var þess helzt óskað, að ég segði eitthvað frá Görðum á Álftanesi. Eg varð við þeim tilmælum og flutti þar óskrifaða og sundurlausa pistla um staðinn eftir prentuðum heimildum. Nú hef ég hripað inntakið í rabbi þessu Gardakirkja-21niður og birtist það hér. Aðeins vil ég taka það skýrt fram, að ég er enginn fræðimaður, og því ber ekki að líta á þetta sem ritgerð, heldur er hér á ferðinni leikmannsþáttur um merkan stað. —
Garðar á Álftanesi hafa löngum verið ein mesta jörð á Innnesjum, og í margar aldir þótti Garðaprestakall eitt af vildarbrauðum hér á landi. Vafalaust hefur það verið að miklu leyti vegna útræðis, en útræði hefur verið frá Görðum, Álftanesi og Hafnarfirði svo lengi sem sögur herma; Garðar, ásamt býlunum í kring, mynda heilt byggðarhverfi, sem ávallt er kallað Garðahverfi. Þessi býli eru öll gamlar hjáleigur frá Görðum, og hafa þau verið milli tíu og tuttugu. En ýmis önnur býli í Garðahreppi voru einnig eign Garðakirkju, enda lítur helzt út fyrir, að kirkjan hafi um eitt skeið átt mestan hluta hreppsins.
Garðar á Álftanesi eru ekki nefndir í Landnámu, en um landnám á þessum slóðum segir svo: „Ásbjörn hét maður Özurarson, bróðurson Ingólfs. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.“ Um Ásbjörn segir ekki meira í Landnámu, en minnzt er þar á, að einn afkomandi hans hafi búið á Seltjarnarnesi. Ekki er líklegt, að Ingólfur Arnarson hafi gefið svo nánum frænda sínum, sem Ásbjörn var, lélegt land, jafnvel þó hann hafi kosið að hafa hann nálægt sér. Þótt hraun hafi þá verið í upplandi Ásbjarnar eigi síður en nú, hefur „Álftanes allt“ verið hlunnindaland, ekki sízt fyrir sjósóknara. Og öll holtin beggja vegna Hafnarfjarðarhrauns og eins Garðaholt, hafa þá verið viði vaxin.
Gardakirkja - 22Það furðulega í þessum fræðum er, að Skúlastaðir fyrirfinnast hvergi í landnámi Ásbjarnar
Özurarsonar. Hefur þetta verið mönnum ráðgáta löngum, og ýmsum getum hefur verið að því leitt, hver hafi verið landnámsjörðin. Hafa ýmsir viljað halda Bessastöðum fram, en aðrir hallast að minni jörðum og ómerkari. Allt frá því ég fór að leiða hugann að þessum efnum, hefur mér þótt einsætt, að Garðar væru landnámsjörðin. Þetta var aðeins leikmannstilgáta, dregin af aðstæðum og landslagi, en aldrei hef ég getað sleppt þessari hugmynd, þótt ýmsir hafi statt og stöðugt haldið öðru fram. Sú gáta verður aftur á móti aldrei ráðin, hvernig Skúlastaðir háfa breytzt í Garða, ef hér er þá ekki um einskæra villu að ræða í Landnámu. Vera má einnig,að bærinn hafi verið nefndur svo um skeið, og þá einmitt á þeim tíma, er höfundur Landnámu þekkti til.
Eg átti margar ferðir hjá Görðum í uppvexti mínum á leið „fram á Álftanes“, en ég ólst upp í hrauninu nálægt miðju vegar milli Hafnarfjarðar og Garða. Aldrei taldi ég þá Garða vera á Álftanesi, því að innnesið var almennt talið byrja vestan Álamýrar og Selskarðs.
Hins vegar sá ég þetta í bókum og þótti skrýtið. En þótt vegur Bessastaða væri þá þegar orðinn meiri, en Garðar að setja ofan, fannst mér alltaf meira til Garða koma. Mér þótti sennilegt, að einmitt þar hefði frændi Ingólfs, landnámsmaðurinn Ásbjörn Özurarson, viljað búa, Staðurinn blasir við sól og firði, að baki bungumyndað holt, skógi vaxið á landnámstíð; víðsýnt er og fagurt heima á staðnum, sér inn til fjalla, út á flóann og „fram á nes“. Þetta var kjörið bæjarstæði landnámsmanns. Auk þess eru Garðar svo að segja í miðju landnámi Ásbjarnar, en Álftanesið hlýtur að hafa talizt byggilegasta skákin í því. Og nafngiftin, Garðar á Álftanesi, virtist einmitt benda til þess, að höfuðbólið ætti nesið allt.
Eitthvað á þessa lund voru æskuhugmyndir mínar um Garða sem landnámsjörðina, en nú hefur merkur fræðimaður í þessum efnum, Magnús Már Lárusson prófessor, í rauninni tekið af skarið. Hann segir svo í grein, sem hann reit í síðasta jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar: „Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar — „.
Fram til ársins 1891 var allt það land, sem nú er Bessastaða hreppur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, einn hreppur, og hét hann Álftnesheppur. Náði hann þannig yfir allt landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frá Hvassahrauni að Hraunsholtslæk, og þó heldur betur, því að enn eru býlin Vífilsstaðir, Hofsstaðir og Arnarnes í Garðahreppi. Hafa þessi býli vafalaust fallið undir Garðakirkju síðar. Þegar Álftaneshreppi var skipt árið 1891 í Garða- og Bessastaðahrepp, hef ur verið farið að líta á Bessastaðahrepp einan sem Álftanes, og þannig er það í rauninhi kallað nú, en hið forna Álftanes hefur verið milli Hafnarfjarðarbotns og Arnarvogs, eða vestan vegarins, þar sem hann liggur frá Hafnarfirði að Silfurtúni. Eins verður ekki fram hjá því gengið, að Bessastaðakirkja hefur jafnan verið útkirkja frá Görðum, en í Görðum hafa margir höfuðklerkar setið öld fram af öld.
Gardakirkja-23Hér verður ekki á nokkurn hátt leitazt við að rekja sögu Garða á Álftanesi. Samt langar mig til að stikla hér á stóru í persónusögu staðarins, þó aðeins eftir prentuðum heimildum, enda nægir það til að sýna, hvert höfuðból og merkiskirkju staður jörðin hefur verið frá öndverðu.
Garðar á Álftanesi munu aðeins vera nefndir í einni Íslendingasögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem gerist um miðja 10. öld. Þar er sagt, að Þormóður búi í Görðum á Álftanesi. „Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar frá Borg.“ Hrafnkatla mun yfirleitt talin skáldsaga, skrifuð á ofanverðri 13. öld, en samt verður það ljóst af þessu, að höfundi hefur fundizt sjálfsagt, að í Görðum byggju merkismenn, sem tengdir voru sjálfum Mýramönnum.
Í Sturlungu er Garða á Álftanesi að minnsta kosti tvívegis getið. Í Þórðar sögu kakala stendur svo: „Þenna vetur var Þórður Bjarnarson í Görðum með Einari Ormssyni, frænda sínum. Hann hafði verit með Órækju í Reykjaholti at drápa Klængs Bjarnarsonar. Ormr Bjarnarson reið við tólfta mann í Garða til Einars. Komu þeir þar síð um kveldit í þann tíma, er þeir Einarr ok Þórður ætluðu at ganga til baðs. Tóku þeir Ormr Þórð þar höndum. Leiddu þeir hann þá inn til stofu. Þórðr varð við alla vega sem bezt ok bauð fyrir sig allt þat, er honum sómdi. En þá er hann sá, at Ormr vildi ekki annat hafa en líf hans, þá beiddist hann prestfundar. Ok svá var gert. Eftir þat var hann leiddr í ytri stofuna. Lagðist Þórðr þá niðropinn ok bað þá hyggja at, hvárt honum blöskraði nökkut. Ormr fekk þá mann til at höggva hann. Sá hét Einarr munkr. Eftir þat reið Ormr heim austr á Breiðabólstað.“
Þessi atburður gerðist árið 1243. Af frásögninni má fá ýmsar upplýsingar um staðinn. Bóndinn, Einar Ormsson, er Svínfellingur að ætt, afkomandi Flosi Þórðarsonar, eða Brennu-Flosa. Voru þeir Svínfellingar mikils háttar menn, enda ein merkasta ætt á Sturlungaöld. Er því fullvíst, að Garðar hafa verið stórbýli, er svo ættgöfugur maður bjó þar. Þá kemur fram að kirkja er á staðnum, og þar er prestur. Ekki er líklegt, að kirkjan hafi verið nýreist, enda má gera ráð fyrir, að kirkja hafi mjög fljótlega verið reist á þessu forna höfuðbóli. Hins vegar er bóndinn ekki prestur, heldur hefur hann prest, en það var stórbændasiður á fyrstu öldum kristninnar á landi hér. Á öðrum stað í Sturlungu, Íslendingabók, stendur svo: „Gizurr jarl reið suðr á Kjalarnes ok gisti í Görðum á Álftanesi at Einars bónda Ormssonar. Var honum þar vel fagnat ok var þar nokkurar nætr.“
Þessi atburður gerðist árið 1264. Eru nú liðin tuttugu ár frá því, sem um getur í fyrri tilvitnunni, og enn er Einar Ormsson bóndi í Görðum. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, að hann hefur verið stórbóndi, því að varla hefur Gizur jarl gist nema á höfuðbólum. Ekki er þess getið, hvernig Einar fékk Garða til ábúðar, enda skiptir það ekki máli fyrir það efni, sem verið er að leitast við að draga hér fram: Garðar á Álftanesi voru; mikið höfuðból á Sturlungaöld.

gardakirkja-24

Vera má, að ætt Ásbjarnar landnámsmanns hafi skipt á Görðum og annarri jörð, t.d. á Seltjarnarnesi, nema Einar hafi verið kvæntur inn í ættina eða tengdur henni á annan hátt. Garða ef ekki mikið getið í prentuðum heimildum á næstu öldum, en þó koma þeir allmikið við sögu í deilumálum Staða-Árna biskups Þorlákssonar við leikmenn á ofanverðri 3. öld. Þessar deilur voru sem kunnugt er um það, hvort kirkjan skyldi eiga jörðina, þar sem, hún stóð, og aðrar jarðir, sem undir kirkjustaðinn lágu. Í Árna biskups sögu eru Garðar ávallt kallaðir Garðastaður, og eru þeir nefndir í sömu andrá og merkustu kirkjustaðir landsins á þeirri tíð. Settust leikmenn og klerkar á jörðina á víxl, eftir því hvorum veitti betur, Árna biskupi eða foringja leikmanna, Hrafni Oddssyni. Þessir atburðir hafa gerzt eftir daga Einars bónda Ormssonar. Gera má fastlega ráð fyrir því, að prestur hafi verið ábúandi í Görðum frá því staðamálum lauk fyrir 1300 til ársins 1928. En átökin um Garða síðast á 13. öld benda til þess, að kirkjan hafi þá þegar átt nokkurn hluta jarðarinnar og fleiri jarðir í kring. Og upp úr þessu tóku kennimenn að gerast héraðshöfðingjar og stórbændur.
Um siðaskiptin situr í Görðum sr. Einar Ólafsson, umboðs maður Skálholtsbiskups, þ.e. síðasta kaþólska biskupsins, Ögmundar Eálssonar, og hins fyrsta lúterska, Gizurar Einarssonar. Þá átti Skálholtskirkja orðið víða ítök, enda segir Magnús Már Lárusson prófessor í fyrrnefndri grein, að Skálholtskirkja hafi eignazt nokkrar minni jarðanna í Álftaneshreppi þegar um 1200. Einar Ólafsson var fyrst prestur í Nesi við Seltjörn, síðan í Laugarnesi, en fluttist þá að Görðum og var þar prestur í 21 ár, eða þar til hann gerðist ráðsmaður í Skálholti árið 1552. Það er eftirtakanlegt, að hann sækir að Görðum frá Nesi og Laugarnesi, en báðar þessar jarðir voru vildar setur fyrr á tímum.
Eftir siðaskipti sitja margir frægir klerkar Garðastað, og verða nú heimildir auðugri. Hér verður þó aðeins hlaupið á nokkrum staksteinum, ella yrði of langt að rekja. Fyrst skal getið tveggja nafnkunnra feðga, sr. Þorkels Arngrímssonar og Jóns biskups Vídalíns. Sr. Þorkell var sonur Arngríms lærða Jónssonar, sem einna frægastur var Íslendinga á sinni tíð, vegna vináttu við og embætti fyrir Guðbrand biskup Þorláksson og varnar- og kynnisrit hans á latínu um Ísland og Íslendinga. Var sr. Þorkell fyrsti lærði íslenzki læknirinn, en hann var prestur í Görðum frá 1658 til dauðadags 1677. Nam hann læknisfræði í Kaupmannahöfn og Noregi og e.t.v. víðar og fékkst nokkuð við lækningar. Um hann hefur Vilmundur landlæknir Jónsson skrifað merka bók, Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar, sem Háskóli Íslands mun hafa tekið gilda sem doktorsritgerð, en landlæknir hirti ekki að verja, Sr. Þorkell átti þrjá syni, sem allir voru miklir lærdóms- og merkismenn, og allir fæddir í Görðum.
Þeir gardakirkja-26voru: Þórður, sem fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði, síðar rektor í Skálholti, en mikið orð fór af lækningum hans, Jón biskup Vídalín og Arngrímur, rektor í Danmörk, sem dó ungur. Þeir foræður voru allir miklir gáfu- og atgervismenn og skáld góð, en ekki að sama skapi gæfumenn; voru þeir drykkfelldir nokkuð, og Þórður læknir þó mest, en svo var faðir þeirra einnig. Jón Vídalín var prestur í Görðum í þrjú ár, en var þó löngum aðstoðarmaður biskups í Skálholti, enda fór hann frá Görðum í Skálholt árið 1698. Í Ferðabók Sveins Pálssonar segir svo á einum stað (október 1791): „Eftir skamma dvöl á Bessastöðum fór ég að Görðum. Þar (þ.e í Görðum), á Bessastöðum, í Nesi hjá Birni lyfsala og í Reykjavík hjá Scheel fangaverði eru beztir matjurtagarðar og þessar slóðir. (Markús) prófastur Magnússon í Görðum hefur meira að segja fengið flestalla bændur í sóknum sínum til að gera kálgarða, og sjá þeir sér auðvitað hag í því. Hann er áreiðanlega beztur búhöldur hér sunnan lands — án þess þó, að embættisrekstur hans bíði nokkurt tjón við það. -Meðal annars hefur að hans ráðum verið gert hið fyrsta helluþak á Íslandi í hina nýreistu kirkju í Görðum, og eru hellurnar lagðar ofan á timbursúðina. Hyggjast menn að fylgja því dæmi hans við kirkjurnar á Bessastöðum og í Reykjavík, sem nú eru í smíðum.“
Enn segir í Ferðabók Sveins: „Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár. Óskandi væri, að sem flestir fylgdu dæmi þessa ágæta manns.“
Markús Magnússon var prestur og prófastur í Görðum frá 1780 til dauðadags árið 1825, vígður þangað aðstoðarprestur Guðlaugs prófasts Þorgeirssonar, sem var prestur í Görðum 1746—1781, og varð sr. Markús tengdasonur hans. Sr. Guðlaugur var hinn mesti merkismaður. klerkur góður og biskupsefni. Hann rak draugana af höndum Garðhverfinga og kom þeim í Stíflishóla, eins og frá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (bls. 264, I).
gardakirkja-27Sr. Markús Magnússon var hinn ágætasti maður, eins og Sveinn Pálsson segir, og lærður vel. Um hann segir Páll Eggert Ólason í íslenzkum æviskrám: „Hann var auðmaður, enda mjög hjálpsamur sóknarmönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðinn að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum. Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst of þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar í kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.
Alla 19. öld sitja höfuðklerkar í Görðum, fyrst sr. Markús til ársins 1825, þá Árni stiftprófastur Helgason 1825—1858, er hann lét af prestsskap, en bjó þó áfram í Görðum. Eftir hann varð prestur í Görðum sr., Helgi Hálfdánarson, sálmaskáld og síðar forstöðumaður prestaskólans. Hann var til ársins 1867, er sr. Þórarinn Böðvarsson kom að Görðum, en hann var þar prestur til dauðadags 1895.
Sr. Árni Helgason var hinn mesti lærdómsmaður, eins og alkunnugt er, kennari með afbrigðum, tvisvar biskup í forföllum og fékk biskupsnafnbót.
Um hann eru margar skemmtilegar sögur. Svo segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl sinni: „Eg gekk til prestsins að Görðum með hinum börnum af nesinu og var náttúrulega efstur. Faðir minn var gamall lærisveinn séra Árna, og voru þeir virkta-vinir, enda báru allir virðingu fyrir stiptprófastinum, og oft kom ég til hans. Séra Árni var einhver hinn tignarlegasti maður, sem ég hef séð, og mynd hans er mér ógleymanleg. Hann var alltaf jafnrólegur, aldrei daufur, hann var í því jafnvægi lífsins, sem mjög fáir ná; hann drakk stundum, en aldrei svo mikið að nokkuð yrði að fundið. Hann var einhver hinn fullkomnasti maður, sem hugsast getur, stór Og höfðinglegur. Stundum var hann meinyrtur og glettinn í orðum, einkum ef hann var lítið kenndur. Einhverju sinni komu þeir til hans Jón Þorleifsson og Steingrímur Thorsteinsson; þair voru þá í skóla og voru vinir. Þeir komu að Görðum um sunnudag, en ekki fyrr en messa var úti. Jón Þorleifsson fór þá að biðja prófastinn fyrirgefningar af að þeir kæmu svo seint. Þá sagði séra Árni: ,,Það er fyrirgefið, og þó þið hefðuð aldrei komið.“ — Séra Matthías Jochumsson kom þangað og fór að tala um þýzka heimspeki, en séra Árni mun ekki hafa þótt mikið til koma. Séra Matthías var þá prestur í Móum á Kjalarnesi. Eftir að hann hafði látið heimspekisdæluna ganga, þá þegir séra Árni um stund og segir loksins: „Fiskast mikið af hrokkelsum á Kjalarnesi núna?“ – „.
Helgi Hálfdánarson var prestur í Görðum, þar til hann gerðist kennari við prestaskólann 1867. Hann var þingmaður, meðan hann sat í Görðum og mikils virtur alla tíð, enda lærdóms- og gáfumaður.
Þórarinn Böðvarsson var um margt öndvegismaður, og ekki sízt eftir að hann hann kom að Görðum. Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu öll ár sín í Görðum nema tvö og mikill búsýslumaður.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Hina kunnu og velþegnu bók sína, Lestrarbók handa alþýðu, sem almennt var nefnd Alþýðubók sr. Þórarins, gaf hann út árið 1874, eða 6 árum eftir að hann kom að Görðum. Árið 1882 stofnaði hann gagnfræðaskólann í Flensborg til minningar um Böðvar son sinn, en nokkru áður hafði hann stofnað þar barnaskóla. Var Jón sonur prófasts, síðar fræðslumálastjóri, fyrsti skólastjóri í Flensborg. Þá er ótalið það framtak sr. Þórarins, sem mest snertir kirkjustaðinn í Görðum. Árið 1880 lét hann reisa í Görðum veglega steinkirkiu. Var hún úr höggnu grjóti úr Garðaholti og eftir nær áttatíu ár standa veggir ófallnir. Um það bil öld hafði nú liðið frá því, að Markús prófastur Magnússon byggði upp kirkjuna í Görðum, sem á sinni tíð þótti til fyrirmyndar,
eins og Sveinn Pálsson tekur fram. Kirkja sr. Þórarins er síðasta Garðakirkjan, og sjálfur ætlaði hann ekki í fyrstu að reisa hana þar. Á hans dögum var Hafarfjörður óðum að stækka, og þegar sr. Þórarni þótti nauðsynlegt að byggja nýja kirkju fyrir Garðasókn, fannst honum eðlilegt, að hún yrði byggð í Hafnarfirði. Þá voru íbúar Hafnarfjarðar um fjögur hundruð og Fjörðurinn að sjálfsögðu stæsta byggðin í sókninni. En Hafnfirðingar töldu sig ekki hafa bolmagn til að byggja kirkju, þótt sr. Þórarinn byði þeim fjárhagslega aðstoð, og því var kirkjan enn reist í Görðum. Hafnfirðingar höfðu alla tíð átt kirkjusókn að Görðum, en það er um þriggja og hálfs kílómetra leið. Að vísu var fyrr á öldum kirkja á Hvaleyri, annexía frá Görðum, en hún mun aðeins hafa verið fyrir Hvaleyrartorfuna, en þar var fjölbýlt áður. Þessi kirkja var lítil og lengst af hálfkirkja, þ.e. messað þar aðeins örsjaldan á ári. Hér má og geta þess, að á 16. öld var þýzk kirkja í Hafnarfirði, en hún var ekki fyrir Íslendinga, heldur þýzka kaupmenn og starfsfólk þeirra.
Hafnfirðingar reistu þjóðkirkju sína árið 1914, og er hún arftaki hinnar fornfrægu Garðakirkju, enda brauðið enn kallað Garðaprestakall. Gripir úr kirkjunni í Görðum voru þá fluttir í Hafnarfjarðarkirkju. Samt voru enn unnin ýmis prestsverk í Garðakirkju lengi: eftir þetta, allt fram yfir 1930, en mest yoru það greftranir. En nokkru síðar féll kirkjan og var rifin, svo að eftir standa naktir steinveggirnir. Nú hefur Kvenfélag Garðahrepps tekið sér fyrir hendur að endurreisa kirkjuna í Görðum. Eru framkvæmdir þegar hafnar. Verður ekki annað sagt en þetta sé hið mesta myndarframtak. Endurreist Garðakirkja væru verðugur varði um forna frægð staðarins.
Tveir prestar sátu í Görðuni, eftir sr. Þórarin Böðvarsson, báðir hinir merkustu menn, sr. Jens Pálsson 1896—1912 og sr. Árni Björnsson frá 1913 til 1928, er hann fluttist til Hafnarfjarðar.
— En hann hafði fengið leyfi safnaðarins til að sitja áfram. í Görðum, þótt kirkjan væri flutt til Hafnarfjarðar. Báðir voru þessir Garðaprestar prófastar í Kjalarnesprófastsdæmi, eins og flestir fyrirrennarar þeirra höfðu verið, Eftir að sr. Árni var flutt ur til Hafnarfjarðar, fékk Guðmundur Björnsson ábúð á jörðinni, og er hann enn bóndi í Görðum.
gardakirkja-28Eins og ég gat um í upphafi, hefur sjósókn frá Görðum, úr Hafnarfirði og af Álftanesi vafa laust rennt sterkustum stoðum undir mikilleik staðarins.
Magnús Már Lárusson prófessor telur í áðurnefndri grein, að ekki hafi verið fluttur fiskur út af þessum slóðum, að minnsta kosti ekki að ráði, heldur hafi hann mest farið á innlendan markað, og þá aðallega austur í sveitir. En hverfin kringum Garða, á Hvaleyri og Álftanesi, og seinna í Hafnarfirði, hafa myndazt vegna sjósóknar og landbúnaðar jöfnum höndum. Fólk hefur verið nægjusamt og rólegt á þessum slóðum, og sama ættin búið öld fram af öld á sömu torfu. Þannig voru mínir ættfeður í móðurætt leiguliðar og fiskimenn Garðakirkju svo langt aftur, sem rakið verður. Bjuggu þeir á ýmsum kotum í Garðahverfi, og hefur sá elzti, sem um getur í heimildum, verið landseti þeirra feðga Þorkels Arngrímssonar og Jóns Vídalíns á 17. öld. Mætti vel vera, að ættin hafi verið á torfunni frá landnámstíð. En þótt sjávarfang væri drjúgur þáttur í auðlegð Garða fyrr meir, var búskapur þar þó jafnan mikill, enda er töluvert undirlendi í Garðahverfi. Og í Görðum er getið um akuryrkju fram yfir aldamótin 1400. Land hefur minnkað fyrir neðan Garða, sjór brotið bakkana og eytt. Þannig eru tvö býlin, þar sem forfeður mínir bjuggu, Bakki og Sjávargata, horfin úr sögunni vegna sjávargangs. Einnig hefur sjórinn brotið mikið land milli Garðahverfis og þess hluta nessins, sem nú er í daglegu tali kallað Álftanes. Ekki er heldur vafi á því, að hin víðlendu holt hafa blásið upp.
Hér lýkur þessum pistlum mínum um hinn forna Garðastað, og geta þeir vart kallazt annað og meira en haldahófslegar hremsur, eins konar reytingur af reyfinu um þá jörð, sem ég hef frá barnæsku talið vera hið forna höfuðból Ásbjarnar Özurarsonar. Þótt Garðar sjálfir megi nú muna sinn fífil fegri, eru þó í fornu landi þeirra aðsetur forseta lýðveldisins, Bessastaðir á aðra hönd, en þriðji stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður, á hina.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, bls. 6-8.

Garðar

Garðar.

Garðahverfi

Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
„Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst.  Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
gardar-201Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka „at boði j Görðvm“  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: „var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr“. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn „í kirkjugarðinum þar í Görðum“. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.

gardar-233

Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að „taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði“. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur „í hönd alla kirkjunnar eign“.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa.  Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397  og 1477  kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd.  Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, „Commision for Oldsagers Opbevaring“, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

gardar-230

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801  og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð.  Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson „capellan“, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir.  Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða „arduryxn“. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn.  Í skrá frá árinu 1565 segir frá „bygging“ eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa.  Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll gardar-231Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar.  Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi.  Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr.  en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.

Gardar-299

Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi.  Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn.  Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.

gardar-234

Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. „Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.“ Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: „Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.“ Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests  1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en „hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu“ austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.

gardar - midengi

Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Hausastadir-221Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans  í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað dysjar-224Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um dysjar-225Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.

Garðar

Garðar – túnakort 1918.

Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: „Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.“.  Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari „merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, fjallid eina-21sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu  á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]moakot-21eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.“ Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: „Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: „Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“ Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“ Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
gardar-230Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.“ Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu „byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […]  ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu“. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: „Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]“. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn „þar sem Garðastaðarkirkja stóð“ kallaður „Kirkjuhóll“. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: „Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.“ Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
gardastekkur-21Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: „Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.“ Árið 1918 voru „um 40 minnisvarðar“ í Garðakirkjugarði“.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið „verbúð frá Görðum“ sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og „stóð ofanvert við vörina“, þ.e. Garðavör, „ofan við Garðasjó“. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir „framan hana var skiftivöllur“. Í Örnefnalýsingu segir: „Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.“ Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður „frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið“, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er  hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
gardastekkur-22Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði „grasnautn hina sömu“ og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.

Garðar

Garðar.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um „Garða á Álftanesi“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns.

Garðar

Garðar. Nýibær framar.

Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum.

Garðar

Garðakirkja 2022.

Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju. „Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða“.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn.

En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.

Garðabær

Garðabær – mörk.

Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól sunnan Vífilsstaða.

Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Garðahverfi

Skúlastaðir var frumbýli Garða á Álftanesi.

Garðar

Garðar á Garðaholti í Garðahverfi.

Ingólfur Arnarsson, er fyrstur norrænna manna nam Reykjanesskagann, ánafnaði frændfólki, vinum og venslafólki er á eftir honum komu landkostum úr landnámi hans. Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs (101. kafli Landnámu (Sturlubók). Skúlastaðir voru utan í hæðardragi ofan fjarðar gegnt Hvaleyri.
Skúlastaðir áttu kúaselstöðu í Litlumýri á Bessastaðanesi, auk sauðaselstöðu í Helgadal. Ásbjörn reyndi, líkt og aðrir landeigendur, að gera nágrönnum sínum mörk jarðarinnar ljós er á var herjað og nefndi í því sambandi vænlega gróninga eina með lækjarfarvegi úr Markraka á ystu mörkum hennar; „Skúlatún“, ókunnugt um að u.þ.b. 70 árum síðar áttu eftir að koma upp jarðeldar í Grindarskörðum er létu hraun renna niður hlíðarnar er nánast eyddu gróningunum, nema þeim er hæst stóð – og sést enn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Skúlastaðir gætu ekki hafa verið í Skúlatúni því allir bæir landnámsmanna á Reykjanesskaganum voru við sjávarsíðuna.

Hefur hóllinn sá hæsti æ síðan verið nefndur „Skúlatún“, til minningar fyrsta ábúandans. Hafur-Björn og bræður hans, afkomendur Molda-Gnúps, sem hafði byggt Krýsuvík (þar sem nú er Húshólmi undir (G)Núpshlíð, höfðu þá ásælst jarðnæðið, enda skammt norðan landamerkjanna, auk þess Molda-Gnúpur þótti lítt friðvænlegur.
Þegar selstaðan í Litlumýri lagðist af fékk afkomandi Skúla, Bessi, aðstöðuna til afnotar og byggði sér þar nálægan bæ, sem jafnan hefur verið nefndur „Bessastaðir“. Í nútíma hefði sá bær jafnvel mátt heita „Guðnastaðir“ eða „Höllustaðir“.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.

Annar afkomandi fékk Hofsstaði. Sá hafði kúaselstöðu við Urriðavatn og fjársel við Grunnuvötn.
Vífill, einn þræla Ingólfs, hafði fengið Vífilsstaði. Sá hafði í seli ofan Hlíða, þar sem nú eru tóftir Víðistaðasels.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Þegar fram liðu stundir eftir árþúsundið var kirkja reist á frumbýlinu. Húsráðendur, prestarnir fýsti lítt að kenna bæinn við heiðingjann þann er hann fyrst byggði, enda fátt þá til vitneskjunnar fyrrum. Þegar þar var komið höfðu nokkur kotbýli, búin leiguliðum, byggst upp í kringum bæjarstæðið. Einstaka ábúendur töldu ráðlegt að afmarka skika sína með garðshleðslum. Prestinum fannst að sér sorfið og fyrirskipaði slíkt hið sama svo enginn kotbændanna yrði í vafa um hvar mörk stórbýlisins væri versus þeirra. Varð þá til bæjarnafnið „Garðar“, enda þá orðið nauðsynlegt að aðskilja hinn forna sið frá hinum „nýja“.

Bessi reyndist drjúgur umfram efni, kom á fót ágætu búi og vildi láta að sér kveða. Hafði hann frumkvæði að því að Álftanesbændur sammæltust um selstöður í Selgjá, norðan Helgadals. Garðabóndi færði þá selstöðu sína úr Helgadal að Kaldá.

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Magnús Már Lárusson, prófessor, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Greinin var framhald greinar hans í blaðið árið 1957 er nefndist “Sitthvað um Fjörðinn”. Þar skrifar hann m.a. um Skúlastaði.
“Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er halla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðurlega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breyzt.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, “nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælst er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar uppi í hrauni, suður frá Hvaleyri.” Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöðu, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt; “Afrétt í Múlatún”, t.d. DI iv 108, vi 123, xv 638 og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni.”

Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 [1903] athuguð, þá er hún ekki sannfærandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðaból I.

Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkja nam síðar land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið ein jörðin en hin jörðin hafi verið Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Bessastaðaannáli“ forsetaskrifstofunni frá 1968 segir um Skúlastaði:
Landnámabók segir að Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Amarsonar, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftaness allt, og búið að Skúlastöðum.

Bessastaðir eftir Tryggva Gíslason, lektor. Útvarpsþáttur fluttur 30. júní 1968 Sá, sem nam Álftanes, hét Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs. Bær hans er sagður hafa heitið á Skúlastöðum, en það bæjarnafn er ekki lengur til í hinu forna Landnámi Ásbjarnar milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, en í hrauninu undir Lönguhlíðum, suðaustan Hafnarfjarðar, heitir lítill grasgeiri Skúlatún og hraunið þar norður af Skúlatúnshraun, en óvíst er með öllu, að það eigi nokkuð skylt við hið forna bæjarheiti á Álftanesi, Skúlastaði.
Engar spurnir fara af manni þeim, Bersa eða Bessa, sem Bessastaðir gætu heitið eftir.

Garðaholt

Garðaholt – jarðnæði.

Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is
-Úrval, 11. hefti 01.11.1968
-https://timarit.is/page/8005106?iabr=on#page/n51/mode/2up
-Aðalheimild: Vilhjálmur Þ. Gíslason: Bessastaðir, Reykjavík 1947.
-https://gardasokn.is/gardakirkja/
-Forsetakynning, 2. tbl. 10.06.1968.
-https://timarit.is/page/5374305?iabr=on#page/n0/mode/2up
-Magnús Már Lárusson, Enn úr Firðinum, Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) 1960, bls. 4-5.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jónas Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.

Íslandskort

Íslandskort 1824.

4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeir oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.

Staður

Staður 1925.

Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

„Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagst í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp; flestar frá um og eftir 1880.

Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn).

Kistugerði

Kistugerði – rúnasteinn.

Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur /Jónsbúð – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupm(aður) í Keflavík A. Gunnarsson hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.

Þessir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskarðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp við fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.

Flókaklöpp

Flókaklöpp við Hvaleyri.

Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparholt og Árbæ.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómhringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði varleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Brúsastaðir

Í skráningarskýrslu um „Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar“ árið 1998 segir m.a.:

„Skráningin afmarkast af Flókagötu og Hjallabraut, Skjólvangi að norðan, bæjarmótum við Garðabæ að vestan og sjó að sunnan.

Fornleifar í Hafnarfirði milli Skerseyrar og Langeyrar

Langeyri

Langeyri og nágrenni.

Svæði það sem hér er birt skýrsla um er í útjaðri Hafnarfjarðarkaupstaðar, á mörkum landbúnaðarhverfisins í kringum Garða og kaupstaðarins sem breiddist út frá botni fjarðarins frá því seint á 17. öld. Stærsti hluti svæðisins er úfið en þó víða gróið hraun og eru mannvistarleifar fyrst og fremst meðfram sjónum. Landið tilheyrði upphaflega Görðum en ekki er vitað um búsetu á því fyrr en undir lok 17. aldar að býli var reist á Skerseyri. 1703 er auk þess getið um einar sjö þurrabúðir á svæðinu sem virðast hafa verið í óstöðugri byggð og virðist sem þær hafi alla verið byggðar eftir 1650 (JÁM X, 178). Vitað er að1670 voru allar þurrabúðir norðan við Hafnarfjarðarkaupstað í eyði (SS Saga Hafnarfjarðar, 192). Vera má að útræði frá þessum stað með tilheyrandi kotbúskap hafi ekki hafist að marki fyrr en kaupstaðurinn var fluttur frá Hvaleyri inn í fjörðinn eftir 1667.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Frá þeim tíma virðist þó sennilegt að búskapur hafi verið af og til á stöðum eins og Brúsastöðum, Eyrarhrauni og Langeyri. Þessi bæjarstæði gætu því verið allfornar þurrabúðir þó ekki hafi ritheimildir varðveist um það. Þurrabúð hafði verið á Langeyri um langt skeið er verslunarhús voru reist þar 1776. Föst verslun mun þó ekki hafa verið rekin þar eftir 1793 en á 19. öld risu kotbýli á svæðinu auk Skerseyrar og Langeyrar: Gönguhóll, Eyrarhraun og Brúsastaðir. Hvalstöð virðist hafa verið reist á Rauðsnefí um 1860 en starfaði ekki lengi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954.

Um aldamótin 1900 voru risin fiskverkunarhús á Fiskakletti og í kjölfarið byggðist upp fiskverkunarðastaða á Langeyrarmölum og allmargir fískreitir voru gerði í hrauninu ofanvið á fyrstu árum 20. aldar. Þetta svæði hefur þó lengstaf verið á jaðri bæjarins og fyrir utan Langeyrarmalir hafa helstu umsvif þar á 20. öld tengst búskap í smáum stíl, en langt fram eftir þessari öld áttu margir bæjarbúar nokkrar kindur í kofum í útjöðrum bæjarins. Íbúðabyggð hefur ekki orðið á skráningarsvæðinu nema á hrauninu norðaustantil (við Sævang) en þar hefur verið lítið um eldri mannvirkjaleifar.

Skerseyri

Skerseyri – túnakort 1903. Hér má bæði sjá sjávargötuna upp með Bala og gamla Garðaveginn (kirkjugötuna frá Hafnarfirði).

Engu að síður hefur verið töluvert rask á svæðinu, tengt ýmisskonar framkvæmdum síðustu áratugi og er sáralítið eftir af fornum mannvirkjum þar. Einkenni fyrir svæði eru gtjóthleðslur frá ýmsum tímum, sem finna má mjög víða, og er oft ógerlegt að segja hvort þær eru fornar eða aðeins nokkurra ára gamlar.
Upplýsingar um minjastaði eru fengnar úr rituðum heimildum, einkum gömlum kortum, örnefnaskrám og skjölum prentuðum í Sögu Hafnarfjarðar.

Garðar

Garðar

Garðar og nágrenni.

Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk: “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …“ (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 101).
Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum. ..“ Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 102-104).
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.“ JÁM IT, 181.

Skerseyri

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

1703 segir um Skerseyri: “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul“ og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 — JÁM X,178-179. 2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842.
Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar. “Skerseyrartún: Næsta býli við Litlu|-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.“ segir í örnefnalýsingu.

Langeyri

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Hjáleiga frá Görðum. Garðakirkjueign. “Langeyri var fyrrum þurrabúð, en á síðara hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar var rekin þar verslun …“ SS: Saga Hafnarfjarðar, 408. Í jaraðbókum 1760 og 1802 er getið um smábýlin Langeyri, Bala og Skerseyri en 1842 er í skýrslu sóknarprests aðeins getið um Langeyri. Það er hinsvegar ekki nefnt í skýrslu sýslumanns frá sama tíma – JJ, 92. Langeyri hefur verið í hvað stöðugastri byggð af býlum á þessu svæði frá 18. öld og fram á þá 20. 1802 voru þar 2 ábúendur sem báðir hlutu fátækrastyrk úr konungssjóð — SS Saga Hafnarfjarðar, 248. 1816 var aðeins ein fjölskylda á Langeyri en 1845 var þar aftur komið tvíbýli. “Langeyri var stundum nefnd Skóbót, en það gæti verið afbökun eða stytting úr nafninu Skómakarahús, sem rekur lestina t.d. í bæjatali í Hafnarfirði |frá um 1805, en þar kemur Skómakarahús á eftir Gönguhóli.“ – MS: Bær í byrjun aldar, 114.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Í manntali frá 1845 er Skóbót þó talin næst á eftir Langeyri (sunnan við) þannig að ekki virðist það geta staðist að um sama býli hafi verið að ræða. Eftir aldamótin 1900 óx athafnasvæði í kringum Fiskaklett í átt að Langeyri og lét Ágúst Flygenring reisa fiskverkunarstöð á Langeyrarmölum árið 1902. Hún var keypt af hlutafélaginu Höfrungi 1920 og stækkuð og þá voru einnig gerðir þar fiskreitir – SS Saga Hafnarfjarðar, 515. Seinna átti Lýsi og Mjöl þessi hús. Þessi mannvirki eru horfin nú en þau hafa skemmt eldri mannvirki að meira eða minna leyti.

Langeyri

Langeyri um 1970.

Býlið var innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar frá því að kaupstaðurinn var stofnaður 1907 en bærinn keypti landið af Garðastað með heimild Alþingis, lögum nr. 13, 22.10.1912.
Á bæjarstæðinu stendur steinhús merkt “Langeyri 1904″ og er það númer 30 við Herjólfsgötu. Húsið stendur í lægð í hrauninu. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja. Umhverfis húsið er grasi gróin garður. Framan við húsið hefur garðurinn verið niðurgrafin að hluta til, og þar hefur verið plantað trjám.

Litla Langeyri/Brúsastaðir (býli)

Brúsastaðir

Brúsastaðir.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeyrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar.
“Litla-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. Litlu-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið.

7 þurrabúðir

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem tekin var saman fyrir Garðahrepp árið 1703 er sagt að eftiralin tómthús standi út með Hafnarfirði í Garðastaðarlandi: “Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar tómthúsmönnum fyrir x álna leigu og mannslán.

Brúsastaðir

Brúsastaðir um 1975.

Í sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthúsmaðurinn soðningarkaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskirfið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallanda fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst.“ JÁM X, 178
Ekki er vitað hvar þessar þurrabúðir hafa verið að öðru leyti en því að þær hafa verið milli kaupstaðarlóðarinnar (þ.e. norðan við Fiskaklett) og Skerseyrar sem næst er talin af hjáleigum Garða. Langeyrarbúð hlýtur að hafa verið nálægt Langeyri eða jafnvel á því bæjarstæði því býlisins er ekki getið í jarðabókinni. Líklegt er að einhverjar hinna hafi verið á bæjarstæðum sem seinna eru þekkt undir öðrum nöfnum, s.s. Gönguhóll, Flatir og Brúsastaðir en ekkert verður þó um það fullyrt.

Verslunarhús

Langeyri

Langeyri (lengst til vinstri) um 1950.

Á árabilinu 1774-1787 var tekin hér við land konungleg þilskipaútgerð, m.a. í því augnamiði að kenna Íslendingum fiskveiðar. Bækistöðvar þessarar útgerðar voru í Hafnarfirði og þar “var fiskurinn verkaður, og þar voru reist geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki. Bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi sýslumanni Runólfssyni með bréfi, dagsettu í júní 1776, að út sjá hentuga staði til þessara húsbygginga og tjáði honum í því sambandi, að hin konunglega tollstofa hefði tilkynnt sér, að vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði þyrfti að reisa þar tvö ný hús, annað á Hvaleyri til vetrarbústaðar stýrimönnum og hásetum á jöktunum, en hitt á Langeyri handa eftirlegumönnum. Óskaði stiftamtmaður eftir því, að sýslumaður veldi hentugar lóðir undir þessi hús …

Langeyri

Langeyri um 1920.

Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást … verzlunarhúsið á Langeyri … aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins.
Þetta hús er merkt sem verslunarhús á uppdrætti af Hafnarfirði frá um 1778. Það var reist á kostnað konungs en selt ásamt öðrum eignum hans í Hafnarfirði á uppboði 31.7.1792 og keyti það Dyrkjær skipstjóri fyrir 17 rd. og 4 sk. (SS Saga Hafnarfjarðar, 249) en hann hafði áður verið leigjandi í húsinu. Þann 28.5.1793 skipaði danska rentukammerið Jochum Brinck Lund að hætta verslun á Langeyri frá næsta hausti og 8.6.1793 var Kyhn kaupmanni, sem rekið hafði lausaverslun og fiskverkunarstöð á Langeyri bannað að halda þeirri starfsemi áfram (SS Saga Hafnarfjarðar, 252). Þessar aðgerðir voru til stuðnings fastakaupmanni í Hafnarfirði og virðist ekki hafa verið verslað á Langeyri eftir þette. Þó leyfði stiftamtmaður O.P. Möller kaupmanni í reykjavík að reka útibú á Langeyri sumarið 1832. Rentukammerið hafnaði þessu hins vegar og varð Möller að hætta verslun sinni 1833 (SS Saga Hafnarfjarðar, 244).
Ekki er vitað nákvæmlega hvar þetta hús stóð nema að það mun hafa staðið í grennd við þurrabúðina Langeyri. Ekki er að sjá neinar húsaleifar á því svæði enda hefur þar verið ýmiskonar rask undanliðnar tvær aldir. Fiskverkunin hefur verið á sama svæði skammt frá fjörunni.

Langeyrarbyrgi (fiskbyrgi)

Langeyri

Garðar og hús í hrauninu vestan Langeyrar.

“Fyrrum voru allmikil fiskibyrgi á hraunhólum þarna.“ segir í örnefnalýsingu.
Tvö fiskbyrgi sjást enn. Þau eru í halla í N hrauninu. Ofar er lítil tóft (3x2m) með tveim rekaviðar-drumbum þvert yfir tóftina og netaleifum. Neðan við hana er stærri og ógreinilegri tóft (1 1×1 lm), skipt í hólf. Allt hlaðið úr hraungrýti, neðri tóftin að miklu leyti grasigróin.

Langeyrarbrunnur (brunnur)
“Var neðst í túninu. Aðeins vatn á fjöru“, segir í örnefnalýsingu.
Brunnur þessi er nú horfinn. Hann hefur annaðhvort lent undir Herjólfsgötu eða er horfinn fyrir raski neðan við hana.

Langeyrarstígur (leið)

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

“Langeyrarstígur lá úr Langeyrartúni, austur og upp hraunið eftir lægð í því upp á bala vestan við Víðastaði á Garðaveginn. Verslunarvegur er verslun var á Langeyri“, segir í örnefnalýsingu.
Þessi gata sést enn að hluta frá enda Drangagötu og til austurs. Þar tvískiptist hún, liggur annarsvegar til norðurs og endar þar við enda Klettagötu, og hinsvegar til norðurs og endar þar aftan við Herjólfsgötu 18. Gatan liggur yfir hraunið og er að hluta til upphlaðinn vegur. Ef það er rétt að gata þessi séð frá þeim tíma er verslað var á Langeyri þá er hún frá 18. öld.

Draugaklif (örnefni)

Langeyri

Eyrarhraunsgata ofan Langeyrar.

„Vestur af Melunum er Gatklettur. Nú hruninn að mestu, var allhár áður fyrr, og vestan við hann er bás, sem nefndur er Bás. Þetta er djúpt malarvik, Þar aðeins vestar var einstigi með sjónum, sem var nokkuð tæpt, og var það nefnt Draugaklif.“ segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar eftir Ara Gíslason en í örnefnaskrá fyrir Álftaneshrepp segir að Gatklettur hafi verið fallinn saman 1929 og hafi verið fram frá Sundhöllinni vestanverðri“.
Dregaklif. Sigurgeir Gíslason segir að þetta nafn muni hafa verið réttara. Þarna strandaði skip og kjölurinn – dregarinn – lá þarna lengi eftir í fjörunni.“
Einstigið er horfið enda liggur Herjólfsgata tæpt með sjónum á þessum stað og hlaðinn kantur sjávarmegin við hana. Ekki er vitað við hvaða draugagang klifið var kennt.

Gönguhóll (bústaður)

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll).

Gönguhóll eða Sönghóll var klapparrani kallaður sem gekk fram í sjó framan við Langeyrarbæ. “Bær stóð þarna vestan undir, lóðin kölluð svo“ segir í örnefnalýsingu. Þar er einnig bætt við að Lifrarbræðslustöð hafi verið sett á bæjarrústunum 1903 en byggð mun hafa lagst af í Gönguhóli skömmu fyrir 1902. Þá var einnig bryggja byggð niður frá þessum stað og stóð neðsti hluti hennar enn 1964. Litlar heimildir eru um byggð við Gönguhól en býlið er nefnt í bæjatali úr Hafnarfirði frá 1805 milli Fiskakletts og Skómakarahúss, sem mun vera sama og Langeyri.

Langeyri

Lifrabræðslan við Hvaleyri, byggð af August Flyrening um 1910.

Ekki er óhugsandi að Gönguhóll sé sama býli og Hraunbrekka sem getið er um í sóknarlýsingu frá 1842, sem næsta býlis austan við Langeyri – SSGK, 206. Gönguhóls er ekki getið í manntölum frá 19. öld en í manntali frá 1845 er Skóbót með tveimur fjögurra manna fjölskyldum talin næst á eftir Langeyri og má vera að um sama býli sé að ræða.
Gönguhóll var nálægt því sem nú er Herjólfsgata 24. Allar minjar eru horfnar á þessum stað. Þarna standa nú hús á öllum lóðum og sker Drangapata það svæði þar sem líklegt er að túnið hafi verið.

Flatir/Eyrarhraun (býli)

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

Í sóknarlýsingu frá 1842 er getið um býlið Flatir milli Langeyrar og Litlu-Langeyrar. “Flatirnar: Sléttar flatir innan við Malarkambinn fyrir Mölunum miðjum. Þarna var býli, þurrabúð, hér óx brenninetla. Eyrarhraunstún: Svo voru Flatirnar kallaðar eftir nafnbreytinguna á þessari þurrabúð. Eyrarhraunstúngarður: Garður er lá innan við Malarkampinn og var á hlið og stétt heim að Flötunum og Mýrarhrauni.

Langeyri

Eyrarhraunstúngarður.

Flata eða Eyrarhrauns er ekki getið í manntölum 1801, 1816 eða 1845.
Nú stendur steinhúsið Eyrarhraun, sem að hluta til er grafið inn í hólinn, á hæð í hrauninu, um 200m frá sjó, SOm norðaustur af Eyrartjörn. Þar er einnig grunnur úr bragga. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja.

Tjarnarbryggja (bryggja)

Langeyri

Leifar lifrabræðslunnar vestan Gönguhóls.

“Tjarnarbryggjan: Bryggja að Steinboga yfir Eyrarhraunstjörn.“ segir í örnefnalýsingu.
Vestan við Eyrartjörn eru leifar af sementsstöpli með járna- og grjóthrúgu „sem gætu verið leifar Tjarnarbryggju.
Fiskreitir; Dísureitur og Ingveldarreitur, voru ofan Eyrarhraunstjarnar. Þeir eru nú horfnir.

Vegur

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

Vegur sem að hluta til er hlaðinn upp sitthvoru megin með hraungrýti, með smásteinum og mold á milli, er sunnan við Sævang 33 og liggur yfir hraunið að Eyrarhrauni.

Brúsastaðir
Í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. … Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.“ segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið.
Tvö hús standa í bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Draugur (Stifnishólar)

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar (t.v.).

“Fram af Brúsastöðum (012), fram í sjó, eru háir hraundrangar, sem heita Stifnishólar. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800″.
Stifnishólar eru rétt sunnan við Brúsastaði.

Skerseyrarvör (lending)

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.“ — “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð (1964).“
Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Hvíluhóll (áfangastaður)
“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Landamerkjavarða

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgðir á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn með vörðunni horfinn.

Markvarða (landamerkjavarða)
“Stóð ofanvert við Árnagerði.“ “Svo var svæðið nefnt frá Garðaveginum allt upp að Hellisgerði. Árni Hildibrandsson ræktaði það um 1866.“
Mikill hluti af þessu svæði er byggt upp. Ekkert sést og því ekki hægt að staðsetja nákvæmlega, en líklegast er að varðan hafi staðið á svæðinu frá Sævangi 18 að
enda Klettagötu.

Hvalstöð

Langeyri

Kofatóft ofan Langeyrar.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys“, segir í örnefnalýsingu.
Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A.m.k 7 litlar (3×5 m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

Hammershús (bæjarstæði)
“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.“
Enginn húsgrunnur er þó þar.

Litla-Langeyrarvör/Brúsastaðavör (lending)
“L-Langeyrarvör. … vestan við Stifnishóla“, segir í örnefnalýsingu.

Allans-reitur (fiskreitur)

Allians

Allans-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

“Langstærsti fiskreiturinn, sem Hellyer bræður létu gera eftir að þeir keyptu Svendborg 1924 og hófu útgerð frá Hafnarfirði varAllans-reiturinn, sem svo var nefndur, en hann var kenndur við Allen majór, framkvæmdastjóra Hellyers-bræðra í Hafnarfirði. Allans-reiturinn var þar, sem nú er Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Hafnarfirði.“
Um 100 m austur af suð-austur horni Hrafnistu eru leifar af fiskreit (60 m langur, liggur norður-suður) og hefur nyðri hluti hans lent undir aðkeyrslu að Hrafnistu.
Reiturinn liggur ofan á lágum hraunhólum, en sunnan við hann og um 2 m neðar ganga tveir garðar (eða leifar af görðum) til suðurs og er grunn dokk á milli ca. 50×20 m.

Heimild:
-Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar, Fornleifaskráning í Hafnarfirði ll – Hildur Gestsdóttir og Sædís Gunnarsdóttir; Fornleifastofnun Íslands 1998.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjNurDJrNnrAhVB66QKHSSeDVwQFjARegQICBAB&url=https%3A%2F%2Ffornleif.is%2Fwp-content%2Fuploads%2F2018%2F01%2FFS063-98131-Skerseyri-og-Langeyri.pdf&usg=AOvVaw3vonlzqTOr5qFbmLymG6pw

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Garðar

Fjallað er m.a. um „Séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.

Í Lesbókinni segir:

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

„Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefir nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)“

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.

Í Alþýðublaðinu segir:
„Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.“

Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Garðar

Gengið var um Ráðagerði og nágrenni í fylgd Ágústar, bónda í Miðengi.

Garðalind

Garðalind.

Gengið var til austurs frá bænum og þá komið að hárri tótt með nokkrum hleðslum fyrir. Ágúst sagði að þarna hafi áður staðið þurrabúðin Hóll. Hún er gott dæmi um hinar mörgu hjáleigur frá Görðum, sem þarna voru víða. Hóllinn er svo til einu ummerkin eftir þær á svæðinu. Hver hjáleigubóndi átti að slá eina dagsláttur til að létt af leigu. Neðan við búðina og austan við hana má enn sjá móta fyrir Lindargötu. Gatan lá að Garðalind, aðalvatnsbóli Garðhverfinga. Ofan við lindina stendur stórt bjarg, Grettistak. Lindin er í raun undir steininum. Hlaðinn stokkur er niður frá henni og á honum hlaðin brú. Lindargatan heldur síðan áfram að Austurbæjunum. Sauðkind drapst í Garðalind og var brunnurinn þá fylltur með grjóti og möl. Það sést þó enn móta vel fyrir lindinni sjálfri og hlaðni stokkurinn er enn vel greinanlegur. Ofan og austan við hana er tótt, Garðhús.

Völvuleiði

Völvuleiði.

Gengið var til norðurs og austurs um Garðaholt. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist luktin Garðaviti. Frá túnhliðinu liggur stígur í austur um Garðaholt, framhjá Torfavörðu og á Völvuleiði að Flatahrauni. Í dag er hæðin öll sögð heita Völvuleiði. Á og utan í því eru skotgrafir frá því á stríðsárunum. Ágúst fylgdi okkur suður með girðingunni neðan við rétt, sem þarna er og tilheyrir Ráðagerði, að þúfnahólum skammt ofan við skurð í mýri. Sagði hann hólinn líklega hafa verið hið svonefnda Völvuleiði, en nafnið síðan færst á holtið er fólk hafi ekki lengur vitað hvar leiðið var að finna.

Garðahverfi

Hallargerði.

Gengið var upp á holtið að skotbyrgjum, sem þar eru og snúa til norðurs. Um og í kringum þær eru ýmist grafnar eða hlaðnar skotgrafir. Sunnan þeirra, þegar fer að halla að Garðakirkju, eru hleðslur. Þar var þurrabúðin Höll í Hallargerði. Sést gerðið enn. Þegar gengið er frá túnhliðinu á Görðum, Garðatúnshliði, lá Garðagata vestan við svonefndan Götuhól, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól, sem enn er þar nokkuð áberandi við gatnamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Gengið var spölkorn eftir veginum til vesturs og síðan beygt vestur götuna að Miðengi. Þar við veginn voru bæirnir Gata, Háteigur og Ráðagerði. Ágúst sagðist ekki treysta sér til að benda á hvaða bær hafi verið hvar. Þarna eru allnokkrar hleðslur, sem skoða þarf nánar. Þá eru gamlar sagnir um dómhring við Ráðagerði, en ætlunin er að fara síðar á vettvang og reyna að staðsetja hringinn. Ágúst sagðist sjálfur ekki hafa heyrt af dómhring þarna, en svæðið næst og ofan við Ráðagerði hefur verið látið óhreyft að mestu.
Garðahverfi er minjasvæði. Við hvert fótmál birtist saga fyrri tíma. Óvíða annars staðar er að finna jafn ósnert heildarlandslag minja en umhverfis Garðakirkju.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Bakki

Ætlunin var að ganga um svæðið neðan við Garðakirkju á Álftanesi. Neðan Kirkjugarðs er Lindarflöt og lá Lindargata eftir henni að Garðalind. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi. Þar var um tíma þurrabúð, Garðhús [tóftir þess eru vestan við núverandi aðkeyrslu að Garðakirkju]. Ofar var Höll í Hallargerði. Sjást leifar gerðisins enn.
Leifar BakkaVestan við Garðamýri var hjáleigan Háteigur. Vestan við Garðamýri var býlið Miðengi. Neðan við Miðengi er breið klapparfjara og klapparnef, Miðengisklappir. Miðengisbrunnur var austan til í Miðengistúni.
Fjaran sunnan við Garðahverfi var oft nefnt einu nafni Garðafjara. Þar var áður góð skelfiskfjara og sölvatekja. Vestan við Bakka tók við Garðagrandi, allt vestur í Garðavarir (Háteigsvör, Ráðgerðisvör, Miðengisvör), milli Garðatjarnar og Garðamýrar. Þar var Garðamýrartjörn. Í Garðavörum var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í hverfinu. Garðabúð stóð ofan varanna og þar var Skiptivöllurinn.
Byrjað var á því að taka hús á Guðjóni Jósepssyni í Pálshúsi. Hann er uppalinn á staðnum og þekkir því vel til kennileita. Hann benti líka hiklaust á fyrrum bæjarstæði Bakka austast á Garðagranda. Það er sunnan við núverandi fjárhús frá bænum. Þrátt fyrir sléttanir mótar enn fyrir veggjum og görðum. Enn mótar fyrir hlöðnum veggjum skemmu, sem nú hefur verið fyllt af rusli. Gegnt hefur verið úr skemmunni um göng niður á sjávarkambinn þar sem sjórinn hefur náð að brjóta verulega framan af. Sagði Guðjón að verulega sæi á bakkanum á tiltölulega skömmum tíma.

Garðagrandi

Ekki er langt um liðið að allar tóftirnar voru landmegin, en nú hefur sjórinn náð að brjóta hluta þeirra undir sig. Smá má móta fyrir hleðslum í moldarbakka sjávarmegin.Guðjón sagði að faðir hans, Jósep, hefði róið frá útræði vestan við Bakka, þ.e. austast í Garðafjöru. Bakki hefði farið í eyði 1927.
Guðjón benti á að þegar komið væri vestur yfir Grandann mætti þar sjá greinilega Sjávargötu upp frá vörunum áleiðis að Görðum.
Í Jarðabókinni 1703 er greint frá nokkrum Garðakirkjujörðum sem höfðu aðgang að skógi eða hrísi í staðarins landi. Skerseyri var hjáleiga Garða og hafði eldiviðartak í landi staðarins. Pálshús voru einnig hjáleiga Garða sem höfðu eldivið bæði af torfi og skógi í óskiptu landi kirkjunnar. Nýibær var eign Garðakirkju en um þá jörð segir Jarðabókin: „Selskarð og Hraunsholt voru einnig Garðakirkjujarðir og höfðu báðar hrístak til kolgerðar og hríshestskvöð í Garðakirkjulandi.

Tóft vestast á Garðagranda

Eftirtaldar Garðakirkjujarðir höfðu hríshest meðal virkra eða aflagðra kvaða sinna: Dysjar, Ráðagerði, Garðabúð, Miðengi, Hlíð, Móakot og Hausastaðakot.“  Ekki er getið um að þær eigi skóg, aðeins sagt að þær eigi eldiviðartak af móskurði í landi staðarins, og því verður að ætla að hríshesturinn hafi verið sóttur í Garðakirkjuland. Loks skal minnst á Vífilsstaði sem voru Garðakirkjujörð.
Garðalind var aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna autast í hverfinu (G.S.) Austan kirkjustaðarins lá Lindargata að Garðalind. Árni Helgason segir í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842: „…mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli sem heitir Garðalind.“

Sjávargata og tóft vestast í Garðamýri

Markús Magnússon segir í lýsingu sinni á Görðum: „Ekki eru hér nein Grettistök en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk er á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum sem að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann. Annars er brunnurinn afmarkaður á báðar hliðar inni undir klettinum með stórum steinum, óhræranlegum, enda hvílir kletturinn á þeim.“
Garðamýri var niður undan Garðatúni og var til forna allmikið flæmi en hefur nú verið minnkað með ári hverju (G.S.). Í Jarðabókinni 1703 segir: „Þessum bæ [Bakka] fylgdi til forna Garðamýri… Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útiheysiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt eina kúgidið og mannslánið.“
Í lýsingu Markúsar um Garðatún fjallar hann um klett í miðju túninu. Þar segir: „Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins – er 13 álnir að umfangi og 1 1/3 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann.

Miðengisbrunnur

Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja á sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“
Gengið var vestur eftir Garðagranda og um Garðafjöru að Garðavörum. Vestast í þeim er gróinn hóll, fremur lítill. Beint ofan við hann er brunnur; Miðengisbrunnurinn.
Í Jarðabókinni 1703 segir um Garðabúd: „Gardabud, hjáleiga í óskiptu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem ðaur fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú sama hjáleiga“. Um Skemmu segir: „Skiemma, útihús heima við staðinn á Görðum. hefur um féina tíma ljeð manni einum til ábúðar so sem hjáleiga, og fylgdi því þá grasnyt, er sú er með hjáleigunni, er Garðatún heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð“. Skemma stóð ofan við Garðavarir líkt og Garðabúð. Í Örnefnalýsingu GS segir: „Garðabúð stóð ofan við Garðavarir með Skiptivöllinn þar sem hlutum var skipt“:
Garðavarir voru vestan við Garðamýri. Þar var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í Garðahverfi, Háteigsvör, Ráðagerðisvör og Miðengisvör.“
GötusteinninnGarðabúð, auk Garðalindar, eru einu friðlýstu fornleifarnar á þessu svæði, þó svo að fleiri slíkra hafi t.d. verið getið í lýsingum prestsins á Görðum í skýrslu sinni til dönsku fonleifanefndarinnar á ofanverðri 19. öld (sjá hér á eftir).
Þegar staðið var við fyrrnefndan hól var að sjá skeljasandsrákir í honum, auk steina á stangli. Fljótt á litið virtust þarna hafa verið leifar af sjóbúð, en ekki kotbýli. Hafa ber þó í huga að land hefur bæði breyst á þessu svæði í aldanna rás og sjórinn tekið talsvert af því til sín, einkum í útsinningi líkt og verið hefur að undanförnu [desember 2007]. Eftir að hafa skoðað Miðengisbrunninn var tekið hús á Ágústi Kristjánssyni í Miðengi. Hann var við gegninga úti við og tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum (þekkti suma þeirra aftur af fyrri heimsóknum).
Ágúst sagði að ekki væri ólíklegt að Garðabúð hefði verið þar sem hóllinn er nú vestast í Garðafjöru, en skeljasandsrákirnar bentu þó fremur til þess að þar hefði verið minni sjóbúð svo framarlega á kampinum. Skeljalögin bentu til þess að þar hefði verið unnin beita úr skelfiski. Benti hann á aðra gróna tóft vestast í Garðamýri, sem hefði verið þar svo lengi sem hann myndi eftir sér, en Ágúst er fæddur í Miðengi 1931, ólst þar upp og hefur búið síðan á staðnum.Túnsteinninn
Tvennu vildi Ágúst vekja athygli á; annars vegar Götusteininum norðvestan við bæinn á Miðengi, og hins vegar Lindargötunni þar sem hún hafði legið frá Garðalind til suðvesturs suður fyrir bæinn og siðan upp með honum að vestanverðu með stefnu að bænum Hlíð [og Grjóta skammt ofar]. Hliðstólpinn sæist enn í griðingunni austan við bæinn og Götusteinninn væri enn ágætt kennileiti þess hvar gatan hefði legið fyrrum – þótt engin sæjust þess merki nú vegna túnsléttna.
Ágúst benti á ferkantaða hlaðna garða norðaustan við Miðengi; sagði það þar væru Hólsgarðar. Ef vel væri gáð mætti sjá leifar bæjarins þar í norðausturhorninu. Sunnar hefði Sjávargatan heim að Görðum legið.
Um Miðengisbrunninn sagði Ágúst að hann hefði ávallt verið notaður til að brynna dýrum. Vatnið hefði verið saltkeimað. Brunnurinn hefði verið hlaðinn þannig að neðst var sett trétunna, hlaðið um hana og siðan upp fyrir yfirborð. Brunnurinn hafi verið alldjúpur, en fylltur þegar vatn kom rennandi heim til bæja og brúkun hans var hætt.
GarðalindUm „Túnsteininn“ fyrrnefnda sagðist Ágúst ekki vera alveg viss, en allt benti til þess að um væri að ræða tiltekinn stein sunnan við suðausturhornið á Háteigsgarðinum. Garðatúnið hefði fyrrum náð bæði allnokkru vestar og austar. Þrátt fyrir hjáleigurnar hefði veriðum óskipt land að ræða, m.a.s. þegar faðir hans fluttist að Miðengi hefði því enn verið þannig háttað.
Þegar steinninn í túninu var skoðaður passaði hann  vel við framangreinda lýsingu. Steinninn er um þriðjungur á hæð á við steininn yfir Garðalindinni og svipaður að sverleika. Hann er greinilega ekki jarðfastur, en nú hefur gróið í kringum hann svo ekki loftar undir. Sagði Ágúst að bóndinn í Háteig hafi jafnan haft á orði að ýmislegt væri um þennan stein að segja og að ekki væri hægt að skýra það allt með eðlilegum hætti. Taldi hann álög hvíla á steininum og að honum mætti ekki raska, enda hefði hann fengið að vera í friði allt til þessa dags. Hins vegar væri alveg eins líklegt að einhverjir framkvæmdamenn myndu ekki hika við að raska steininum ef þeir fengju að leika lausum hala á svæðinu eins og útlit væri fyrir um því búið væri að skipuleggja byggð á þessu svæði til lengri framtíðar. Taldi Ágúst það miður þvi þetta svæði væri síðasti óraskaði sveitarbletturinn á höfðuborgarsvæðinu og ætti fremur að varðveitast sem slíkur – í besta falli að endurbyggja þau bæjarhús, sem fyrir væru, enda mörg hver orðin æri lúin eins og á bárum mátti sjá.
Þegar Hólsgarðar voru skoðaðir virtist augljóst að leifar húsa voru þar í norðausturhorninu; grónar hleðslur, – veggir og stuttur gangur. Hóll skammt austar hefur gjarnan verið talinn til bæjarstæðis Hóls, en við athugun á honum virtist augljóst að þar hefur ekki staðið bær. Hleðslur eru í hólnum vestanverðum, í skjóli fyrir austanáttinni. Líklega hefur þar verið um að ræða gerði eða heimastekk.
BLindargataeint niður af Hóli er fyrrnefnd tóft, sem Ágúst hafði bent á, vestast í Garðamýri. Um er að ræða hóllaga þúst er stendur upp úr mýrinni. Sunnan hennar mótar fyrir götu; Sjávargötunni. Líklegt má telja að Garðavörin hafi verið þarna beint fyrir neðan og gatan verið notuð til að komast milli hennar og bæjar, enda styst að fara um hana heim og að heiman. Þústin gæti mögulega hafa verið fyrrnefnd Garðabúð. Hafa ber í huga að land hefur sigið á þessu svæði á löngum tíma, auk þess sem mýrin hefur áður fyrr þótt arðvænleg, bæði til mó- og torftekju, auk þess sem ætla má að hjáleigan (kotið) hafi fyrst og fremst grundvallast á útræði. Þurrara hefur verið þarna fyrrum því sjávarkamburinn hefur færst mun innar, jafnvel sem nemur hálfum hundraði metra á einum mannsaldri. Mýrin sjálf hefur því verið framar og kotið þá staðið á þurru. Garðhúsabrunnurinn skammt austar gaf það a.m.k. vel til kynna.
Í lýsingum er sagt að Garðhúsabrunnur hafi verið „vestan við Garðalind“. Svo mun og vera. Skammt vestsuðvestan við lindina má enn sjá leifar brunnsins. Hann er nú efst í Garðamýri, en hefur líklegast verið í jarðri hennar á meðan var. Brunnurinn hefur verið fylltur, svo vel að upphlaðningur hefur myndast á honum og gert hann greinilegan.
Skammt austar er Garðalind. Garðaflöt er í raun hallandi þurrþýfi neðan við kirkjugarðinn. Undir grágrýtisklöpp er uppspretta, sem mótuð hefur verið með holu í klöpp. Hlaðið afrennsli (yfirfall) liggur suður úr henni. Á því er hlaðin brú á Lindargötunni, sem lá frá henni bæði til austurs og vesturs. Ofan lindarinnar eru ummerki eftir seinni tíma „tækninýjungar“, þ.e. hlaðið brunnhýsi til að geyma rafmagnsdælu er tengt var við brunninn, sem gefur vel til kynna ágæti innihaldsins til langs tíma.
Lindargötunni var loks fylgt áleiðis að Pálshúsi (Dysjum).
Ljóst er að Garðasvæðið er ómetanlegt menningarminjasvæði. Telja má víst að minjar þess muni týna tölunni, ein af annarri þegar fram líða stundir, en vonandi fær það að verða sem mest óraskað sem lengst.
FERLIR stefnir að því að rissa upp allar minjar á svæðinu og koma á uppdrátt er gæti orðið innlegg í heilstæða mynd af búsetusögu þess um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – 2001.
-Frásagnir um fornaldarleifar, bls. 242-243.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing.
-Guðjón Jósepsson – Pálshúsi.
-Ágúst Kristjánsson – Miðengi.

Hólsgarðar - gula línan sýnir legu Lindargötu

Garðakirkja

Á vefsíðu Garðakirkju er m.a. fjallað um kirkjuna fyrr og síðar. Fyrrum var kirkjan sóknarkirkja Hafnfirðinga og þurftu þá bæði bæjarbúar og sóknarbörn Garðaprestakalls, sem bjuggju sunnan bæjarins, að sækja þangað messur. Í þá daga var ekki þyrlum fyrir að fara svo nota þurfti annað hvort tvo jafnfljóta eða þess umfram tveimur fljótari.

Garðavegur

Kirkjugatan – gamla sjávargatan.

Löngum fetaði fólkið austan kirkjunnar fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.
Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma).
Hér verður reynt að gefa fólki mynd af legu þessa gamla tímabundna kirkjuvegar, er þjónaði sínu hlutverki allt fram yfir fyrsta áratug 20. aldar.

Garðavegur

Garðavegur 1942.

„Garðakirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Jón Vídalín

Jón Vídalín.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag.

Garðavegur

Garðavegur 1957.

Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952 m.v. loftmynd 1992.

Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson. Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

GarðakirkjaSvo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. „

Hátíðarræða flutt í Garðakirkju 6. mars 2016.

Garðavegur

Garðavegur í dag – Fátt markvert að sjá….

Við hátíðarguðsþjónustu, sem haldin var þann 6. mars af tilefni 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju, fluttu hjónin Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir afar fróðlega og skemmtilega hátíðarræðu um sögu Garðakirkju.

„Hér erum við stödd í helgu húsi á sögufrægum stað. Senn eru liðin 50 ár frá því kirkjan okkar hér í Görðum var endurreist og endurvígð til þeirra mikilvægu verkefna sem unnin eru í kristilegu starfi í bæjarfélaginu okkar. Garðakirkja er eitt af kennileitum bæjarfélagsins. Kennileiti sem okkur þykir einkar vænt um og vístum til með virðingu og stolti. Að stofni til er kirkjubyggingin senn 140 ára sem telst hár aldur í byggingasögu landsins. Hún var á sínum tíma reist af miklum stórhug og þótti þá ein glæsilegasta kirkjubygging landsins.

Garðavegur

Garðavegur í gegnum Norðurbæinn fyrrum (1952).

Á þeim tímamótum að minnst er 50 ára endurvígslu Garðakirkju er ekki nmea eðlilegt að hugurinn reiki til fyrra tíma og hann sé borinn saman við þann tíma sem við lifum nú. Það er undarlegt að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir mannsaldrar síðan að næfellt fjórðungur íslensku þjóðarinnar var á flótta. Voru flóttamenn í eigin landi og að á tveimur árum fórst nærfellt fimmtungur þjóðarinnar af fátækt og hungri. Miðað við það alsnæktaborð sem við sitjum nú við er hollt fyrir okkur að minnast þess að hér á þessu svæði bjó kynslóð afa okkar og önnu við það að vita ekki hvort til væri málungi matar næsta dag, – hvort unnt yrði að gefa börnunum eitthvað að borða þótt ekki væri nema þang eða fiskruður.

Garðar

Garðar í nútíma..

Og vert er líka að geyma í minni að það eru innan við hundrað ár síðan hreppsnefnd Garðahrepps sat á rökstólum í þinghúsinu hérna á holtinu og freistaði þess að útdeila mat til nánast allra heimila í hreppnum. Það var ekki auðvelt hlutskipti, ekki síst vegna þess að þá vildi enginn sem átti veraldleg verðmæti lána þau Garðahreppi.

Þótt fátækt og erfiðleikar væru miklir hér á svæðinu hélt kirkjustaðurinn Garðar jafnan reisn sinni. Í gegnum tíðina urðu margir Garðaklerkar nafntogaðir og landsþekktir og höfðu mikil áhrif á samtíð sína. Enginn þó eins og Jón Vídalín sem fæddist og ólst upp hér. Var hér sóknarprestur í eitt ár en lengst af starfsævi sinnar biskup í Skálholti.

Garðakirkja

Garðakirkja 2023.

Hér er ekki staður né stund til að fjalla um þann merka mann en aðeins sagt að enginn einn maður hefur haft eins djúpstæð áhrif á trúarlíf Íslendinga í langan tíma sem hann, auk þess sem hann lagði mikilvæg lóð á vogaskálar menntunar og uppbyggingar landsins á mörgum sviðum. Faðir Jóns, Þorkell Arngrímsson, sonur Arngríms lærða, var prestur hér í tvo áratugi. Hann var sagður lærðasti maður samtíðar sinnar – fyrsti Íslendingurinn sem lauk háskólanámi í læknisfræði og var einnig hámenntaður í jarðvísindum en mun aldrei hafa lokið námi í guðfræði. Marga aðra mætti nefna svo sem séra Jón Kráksson sem sat embættið í 50 ár, séra Guðlaug Þorgeirsson, séra Árna Helgason sem jafnan var nefndur „biskupinn í Görðum.“ Honum margstóð til boða biskupsdómur en afþakkaði jafnan, séra Helga Hálfdánarson sálmaskál, séra Þórarin Böðvarsson og séra Jens Pálsson. Og meðal merkra presta hér má vissulega líka nefna samtímamann okkar, séra Braga Friðriksson.

Garðaholt

Garðaholt 1952.

Fáum sögum fer af kirkjubyggingum í Görðum. Líklega hafa þær verið eins og víðast annars staðar á Íslandi, fyrst byggðar úr torfi og grjóti en síðar úr timbri. Ugglaust hefur það verið timburkirkja sem á sínum tíma fauk í ofvirði alla leið út á Svið. Vildi til að þar sat maður undir árum á báti sínum og sá svarta flyksu stefna til sín. Greip hann flyksunar og reyndist hún vera Garðakirkja. Lét hann sig ekki muna um að hengja hana aftan í bátinn er hann reri til lands og koma henni fyrir á grunninum. Ekki var kannski alveg að marka söguna, þótt góð væri, því sá er hana sagði var Vellygni Bjarni sem sjaldan gerði lítið úr afrekum sínum.

Garðavegur

Garðavegur í dag (2022).

Þegar leið á 19. öldina tók byggðamynstrið hér á svæðinu verulegum breytingum. Með skútuútgerðinni myndaðist þéttbýli í Hafnarfirði og þá fóru að heyrast raddir um að sóknarkirkjan væri best komin þar. Hafnfirðingar þóttu latir að ganga illfæra leið út að Görðum til kirkjulegra athafna. Á sama tíma var kirkjan í Görðum orðin svo hrörleg að endurbygging var nauðsynleg. Þegar ekkert gerðist í málinu bauð séra Þórarinn Böðvarsson sókninni að byggja hér steinkirkju á eigin kostnað. Var það ekki eina stórgjöfin sem séra Þórarinn færði sveitarfélaginu þar sem hann og eiginkona hans Þórunn Jónsdóttur gáfu líka skóla – Flensborgarskólann – til minningar um son þeirra, Böðvar, sem þótti einstakur efnismaður en lést ungur, þegar hann var við nám í Lærða skólanum.

Víðistaðir

Garðavegurinn um Víðistaði.

Nýja kirkjan var reist á árunum 1878-1880. Hleðslugrjótið var tekið hér í Garðaholti en gífurleg vinna var að höggva það til. Kalkið sem notað var til að líma steinana saman var úr Esjunni, unnið í kalkofni sem stóð skammt frá Arnarhól. Ekki hafa fundist heimildir um vígsludag kirkjunnar en séra Bragi Friðriksson taldi líklegt að hann hefði verið hvítasunnudagur árið 1880.

Nú þarf að gera langa sögu stutta.

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Árið 1909 var ákveðið að byggja sóknarkirkju í Hafnarfirði og var hún vígð 20. desember árið 1914. Eftir stóð yfirgefin kirkja að Görðum sem nýbyggð var talin ein glæsilegasta kirkja á Íslandi. Nú laut hún allt í einu lögmálum yfirgefinna bygginga, – að láta smátt og smátt undan veðri og vindum og grotna niður. Árið 1938 var turn kirkjunnar rifinn svo og þak og gluggar. Eftir stóð gapandi steintóft sem enginn vissi hvað átti að gera við. Til stóð reyndar að rífa hleðsluna og nota sem uppfyllingu í hafnarmannvirki í Hafnarfirði en þegar á herti var slíkt ekki talið svara kostnaði. Úr varð að kirkjan var auglýst til sölu og barst í hana tilboð upp á tvö þúsund krónur. Enn átti kirkjan sér velunnara?. Nokkrir menn sem áttu rætur í Garðahverfinu yfirbuðu og keyptu rústirnar á 2.800 krónur.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Og árin liðu. Garðakirkja hafði verið traustlega byggð og steinhleðslan stóð eins og hún vildi sýna að hennar tími myndi koma. Og sá tími kom þegar konur í Garðahreppi tóku málin í sínar hendur.  Stórt skref var stigið er Garðasókn var endurvakin árið 1960 en þá tók sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé við framkvæmdum við kirkjuna.

Garðakirkja var endurvígð 20.mars 1966. Var það vel við hæfi þar sem þá var þess minnst að þrjár aldir voru liðnar frá fæðingu Jóns Vídalín.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðskort frá 1903. Hér sjást báðir kirkjuvegirnir á milli Garða og Hafnarfjarðar.

Í framgreindum fróðleik kemur ekki fram hvaða veg og torfærur allan ársins hring Hafnfirðingar og útliggjandi Garðhreppingar þurftu að feta til að komast að og frá Garðakirkju til að hlusta á guðspjallið er annað er klerkinum lá að hjarta, þá og meðan kirkjan var við líði. Hér hefur verið úr því bætt…

Heimild:
-http://gardasokn.is/gardakirkja/

Garðakirkja

Garðakirkja.