Færslur

Dyravegur

Í “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, eftir Þorvald Thoroddsen í Andvara árið 1984 segir m.a. um Dyraveginn:
Dyravegur-222“Frá Nesjavöllum fórum við Dyraveg. Hann er mjög brattur að austan. Dyrafjöll ganga norður úr Henglinum og eru rúm 1300 fet á hæð. Þau eru úr móbergi, tveir jafnhliða fjallaranar; móbergið er fjarskalega sundurjetið af áhrifum lopts og vatns, fjallahnúðar, klungur og klif í hinum skringilegustu myndum. Á einum stað er farið milli tveggja þverhnýptra hamra, og þess vegna er nafnið Dyravegur til orðið. Vestur af Dyrafjöllum er eigi nærri eins bratt eins og austur af, enda er austurhliðin miklu hærri, um 1000 fet yfir Þingvallavatn, en hæðin yfir sljetturnar að vestan er að eins tæp 300 fet. Fyrir vestan Dyrafjöll taka við breiðar hásljettur, suður af Mosfellsheiði, því nær mishæðalausar. Þar er dólerít í jörðu, en urð og möl ofan á. Hásljettur þessar ná upp að Hengli, suður hjá Kolviðarhól, allt upp að Vífilfelli og niður undir Lækjarbotna. Við riðum beina leið niður eptir fram hjá Lyklafelli að Lækjarbotnum, og þaðan í Reykjavík.
Var þá ferðinni lokið.”

Heimild:
-Andavari, 10. árg. 1884, 1. tbl. bls. 76.

Dyravegur

Dyravegur – kort.

Grafningsvegur

Magnús Gíslason skrifaði um ferðalag sitt um “Um Grafning”, í Vísi árið 1912:
grafningsvegur-225“Það mun hvorki þykja langt nje markvert ferðalag, að fara austur í Grafning úr Reykjavík, sjer til skemtunar. En það er jafnan sjerstakt fyrir þá, sem fara að sjá gamlar æskustöðvar og eiga þar frændur og vini, að heimsækja. Þannig var það fyrir mjer, er jeg fór að sjá Grafninginn á ný. Þar eru gömlu fjöllin fríð, fjöldi skógardala; er um grundir, holt og hlíð hljóp jeg fyrr, að smala.

I.
Jeg hjelt af stað og fór eins og leið liggur, eftir veginum frá Reykjavík og um Þingvöll, til efri sveita í Árnessýslu, en gat, því miður, ekki notið hans lengur en austur á Mosfellsheiði, þar sem hún fer að halla til Þingvallasveitar, niður frá Borgarhólum; þar hjelt jeg á götuslóða þá, er liggja þar af veginum til Dyrafjalla og niður Grafning. Á Mosfellsheiði liggja saman afrjettarlönd Grafningsmanna og Mosfellinga. Hefur stundum komið fyrir, að leitarmönnnm hefur lent þar saman og lítilla heilla beðið hvorir öðrum, þar Mosfellssveitarmenn hafa viljað smala þann hluta heiðarinnar, er Grafningsmenn eiga, því þeir eiga þar jafnan talsvert fje, eða áttu, meðan þeir voru fjárríkir. En mjer virtist nú vera minna fje á heiðinni, en þá jeg var með leitarmönnum að smala hana fyrir 14 —17 árum.
skoflungur-225Nyrðsti halinn á Dyrafjöllum heitir Sköflungur. Yfir hann er farið undir háum móbergskambi, sem, þá eftir honum sjer, sýnist eins og mjór drangur eða uggi upp í loftið.
Dyrafjöllin eru mest móbergshálsar og dalir í millum. Þau eru kend við skarð, er liggur í gegnum einn móbergshálsinn, sem kallað er »Dyrnar«. Um þær lá hinn svo nefndi Dyravegur. Hann er nú nær aflagður, en þó eigi meira en um 20 ár síðan hann var alment farinn. En síðan að upphleyptur vegur var lagður yfir Mosfellsheiði, til Þingvalla, hafa menn meir notað þann veg, er jeg fór; með því geta þeir lengur notið góðs vegar; svo mun flestum þykja þar betri leið yfir Dyrafjöllin, en sú, er áður var farin.
Þegar komið er yfir Sköflunginn, er eins og annað land sje fyrir framan mann, en það, sem að baki er.

jorutindur-227

Í stað hinnar tilbreytingarlitlu og sljettu Mosfellsheiðar, koma nú fjöll og dalir, sem segja má að taki myndbreytingar með hverju fótmáli, landslagið er vítt og tilkomu mikið.
Það er líkast því, sem hver klettur og hamarsskúti geymi sögur um einhverja forna viðburði, þótt þeir nú sjeu gleymdir mönnum að miklu leyti; þó gnæfir hjer hátt snarbrattur móbergsklettur, er heitir Jórutindur. Það örnefni er eftir þjóðsögu, sem gengið hefur mann fram af manni í Árnessýslu og víðar um land.

II.
»Jóra í Jórukleyf« heitir ein tröllasagan í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, I., bls. 182. Eru þar nefnd nokkur örnefni, er við Jóru eru kend, þótt eigi beri sögum að öllu saman Um þau.
Þegar kemur fram á Dyrafjallabrúnina að austanverðu, er þaðan fagurt útsýni yfir, Þingvallavatn og sveitirnar í kring. Þaðan sjest og langt austur til Heklu og jöklanna, er ganga þar fram af hálendinu og enda á Eyjafjallajökli við sjó fram. Hjer, þar sem er svo fagurt útsýni og gott að vera, á Jóra að hafa haft aðsetur sitt. Hjer eru mörg örnefni við hana kend: Jórutindur, þar á hún að hafa setið uppi, til að sjá til mannaferða og njóta yndis af útsýninu; Jórukleyf,þar á hún að hafa dvalið löngum, er hún gekk út árla dags, og tekið þar fje bænda, er gekk í skóginum; Jóruhóll, undir honum á að hafa verið bústaður hennar, Jóruhellir; Jórugil, eftir því á hún að hafa velt sjer ofan í Þinghallavatn, þá hún var drepin.
grafningsvegur-226Er jeg var 7 – 9 ára gamall, var hjá foreldrum mínum niðursetnings karl, er hjet Þorleifur. Hann hafði lengi verið í Nesjum á yngri árum og sagði hann mjer fyrstur söguna af Jóru, og bar því að flestu saman og sagt er frá í þjóðsögum J.Á. Þó var saga hans dálítið fjölskrúðugri; t. d. sagði hann, að áður en Jóra lagðist út, hafi verið mikil bygð í kring um Nesju, sem er næsti bær og á land það, sem hún á að hafa haldið sjer. En fyrir manndráp hennar lagðist bygð sú niður, að frátekinni heimajörðinni, því þá hafi verið kirkja í Nesjum, og hafi Jóra verið fæld þaðan með því að kirkjuklukkum var hringt, er sást til ferða hennar, og hvarf hún þá jafnan frá. Einnig sagði hann að Jóra hafi greitt hár sitt með gullkambi, þá er hún sat á Jórutindi og sungið svo mikið og fagurt, að hún töfraði eða tryllti menn til sín. Hann hafði komið í Jóruhellir, þá hann var smali í Nesjum, en þá var skriða fallin mjög fyrir munna hans. Að bygð hefur verið undir Jórukleyf og víðar í Nesjalandi, má en sjá, sbr. Árbók hins íslenska fornleifafjelags, 1899. Eru þar getur leiddar að því, að Steinrauður landnámsmaður hafi búið þar sem nefnist Vatnsbrekka. Þar er mjög fagurt bæarstæði. Áður fyrri var afarmikill skógur um þetta svæði og það álit fram á vora daga, og er talsverður ennþá. Í manna minnum hefur ekkert eyðilagt hann meir en maðkur, er kom í skóginn 2 sumur hvort eftir annað, 1888—89? Þá eyðilögðust svo stórar brekkur, er áður voru alþaktar skógi, að ekki sást annað eftir en kolstönglar af viðnum.

Jórusöðull

Jórusöðull.

Á meðan jeg hefi verið að hugsa um söguna um Jóru og það, sem að nú var skráð, hefi jeg látið hestinn ganga hægt ofan sniðskorna götuslóðann, er liggur ofan með Jórutindi að austan, nú taka við skógi vaxnir smá hólar og fagrar brekkur; þar ætla jeg að taka mjer dálitla hvíld. — Jeg er búinn að velja góðan grasblett fyrir hestinn minn, og legg mig svo undir einn skógarrunnann.
Þessi áning hjer, þar sem jörðin er klædd í sitt fegursta skart, blærinn andar ilmi blómanna, og kliður fuglanna fyllir loftið unaðsómi, leiðir hugann til sælli drauma, en veruleikinn skapar; fögur æfintýri rísa uppi úr djúpi endurminninganna og mynda dýrðlegar hallir í blómfögrum dölum, þar sem unaður og ánægja ríkir. Það er hjer sem einn af vegfræðingunum vill láta járnbrautina liggja, sem einhverntíma á að koma frá Reykjayík og austur í sýslur. Ef það yrði, væri hjer gott fyrir sumarbústað, og holt að vera um tíma fyrir þá, er inni verða að kúra mest alt árið í kaupstöðunum og sjá svo sára lítið af fegurð náttúrunnar nje geta notið hins heilnæma lofts, sem við fjöllin er. Það mundi styrkja menn, lífga og kæta, bæta heilsuna og auðga andann að heilbrigðum skoðunum um veruleika og tilgang lífsins.”

Heimild:
Vísir, Magnús Gíslason, 27. september 1912, bls. 1-2.

Jórutindur

Jórutindur.

Ölfusvatn

Við Ölfusvatn er letursteinn með áletruninni VES + 1736.
Steinninn, sem er friðlýstur, er kominn Olfusvatn-3undir gras, en í Fornleifaskrá 1977 segir m.a. um hann: “Jarðfastur grágrýtsisteinn með áletruninni VES + 1736 er í túninu suðaustan við gamla fjárhústóft, nærri hulinn jarðvegi,” segir í örnefnalýsingu. Steinninn er aðeins norðar en beint vestur af heimreiðinni sem gengur þvert yfir bæjarhólinn. Hann er alveg í brekkurótum, um 3 m S við allmikla grjóthrúgu sem einnig er í brekkurótunum neðan við fjárhústóftina. Steinninn er nær alveg hulinn sinu og mosa. Steinninn var friðlýstur 1927. Hann er a.m.k. 60×50 cm, heldur ávalur og er áletrunin ofaná honum, á eystri helmingi, er steinninn snýr uppí brekkuna, A-V og snýr áletrunin í norður.”
olfusvatn-5Á skilti við tóftir bæjarins Ölfusvatns stendur m.a.: “Ölfusvatn hefur verið í eyði frá 1947. Bæjarins er getið í fornum heimildum og því má ætla að hér hafi verið búið óslitið allt frá því á landnámsöld. Bæjarstæði Ölfusvatns er einstakur minjastaður og óskaddaður að mestu leyti. Bærinn fór í eyðu áður en byrjað var að beita stórvirkum vinnuvélum við sléttun túna og byggingar. Á Ölfusvatni er því óskemmdur bæjarhóll – upphlaðnar leifar af bæjarhúsum síðustu 1000 ára og útihúsatóftir og garðleifar sem gefa hugmynd um forna búskaparhætt. Bæjarstæðpið eða bæjarhóllinn er mjög greinlegur og má enn greina í honum herbergja- og húsaskipan síðasta bæjarins. Enn fremur sjást leifar nokkurra útihúsa í túninu. Uppbyggð heimreið liggur heim að bænum en framan eða austan við hann voru kálgarðar.
Ölfusvatn var stórbýli á miðöldum og þar var komin sóknarkirkja um 1200. Ölfusvatnskirkja átti hálfa jörðina og Sandey í Þingvallavatni. Hún stóð fram undir 1600 en eftir það lagðist sóknin til Úlfljótsvatnskirkju. Í byrjun 18. aldar sáust enn merki kirkjugarðs og leiða. Í brekkurótum í túninu vestan við bæjarstæðið er steinn sem var friðlýstur af þjóðminjaverði 1927. Á honum er krossmark, áletrunin VES og ártalið 1736. Ekki er ljóst fyrir hvað áletrunin stendur, hugsanlega er hún fangamark einhvers.”
Yfir 80 letursteinar eru þekktir á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Fornleifaskrá 1997.
-Örnefnalýsing fyrir Ölfusvatn.
-Skilti við Ölfusvatn.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – letursteinn.

Grafningsháls

Ætlunin var að ganga vestur yfir Grafningsháls.
Þarna var fyrrum mjög fjölfarin leið úr Ölfusi um ing-1skarðið milli Kaldbaks og Bjarnafells norður í Grafning og svo áfram. Skarðið heitir Grafningsháls. Í bók sinni Byggð og saga leiðir próf. Ólafur Lárusson rök að því, að fyrrum hafi þetta skarð verið nefnt Grafningur, en er tímar liðu hafi nafnið færst af skarðinu og yfir á sveitina fyrir norðan.
Gengið var eftir greinilegri þjóðleiðinni ofan við Torfastaði í Grafningi yfir að Gljúfri í Ölfusi, 9.6 km leið. Gatan hefur liðið fyrir nýræktun túna og nútíma gatna- og slóðagerð. Girðingargata hefur verið lögð ofan í gömlu þjóðleiðina á kafla, síðan raflínuvegur og loks slóði millum sveitarfélaganna ofanverð. Þó má sjá gömlu götuna á köflum utan þessa, s.s. á Grafningshálsi, í Djúpagrafningi og ofan við Æðagil. Á leiðinni mátti berja augum falleg náttúrufyrirbæri, s.s. Ferðamanna- og Miðmundagil í Ingólfsfjalli, Nón- og Svartagil í Bjarna- og Stórahálsfjalli, toppinn Kaga og Kagagil auk fyrrnefnds Æðagils áður komið var niður að bænum Gljúfri.
grafningshals-2Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1933 -1936 fjallar nefndur Ólafur Lárusson um örnefnið Grafningur. “Orðið grafningur er talið hafa tvær merkingar í íslenzku máli. Það getur fyrst og fremst merkt þann verknað, að grafast eftir einhverju. Þessa merkingu er orðið talið hafa á þeim eina stað í fornritunum, þar sem það kemur fyrir og er ekki staðarnafn, í Stjórn, þar sem talað er um »djúpan grafning gátu«, (sbr. orðabækur Fritzners, Claesby-Vigfússons og Björns Halldórssonar við orðið grafningur). En orðið getur líka merkt það, sem niður er grafið eða út er grafið, (sbr. þýðinguna í orðabók Sigfúsar Blöndals: »Gröfter og Jordfald, hullet Jordsmon, ru og revnet Jordbund«). Þegar orðið kemur fyrir í staðarnöfnum má gera ráð fyrir, að það sé þessarar síðarnefndu merkingar, að það merki stað, sem er niðurgrafinn.
Eins og kunnugt er heitir byggðarlag eitt í Árnessýslu Grafningur. Er það nú á tímum sérstakur hreppur, Grafningshreppur, en var áður hluti af Ölfushreppi. Eftir merkingu nafnsins mætti búast við, að sveit þessi væri sérstaklega niðurgrafin eða aðkreppt, að hún væri djúpur og þröngur dalur eða því um líkt. En þessu er ekki þannig varið. Sveitin er engin heild hvað landslag snertir. Hún skiptist í rauninni í tvær byggðir, hina neðri, sem liggur upp með Soginu að vestan, og hina efri, er liggur fyrir suðvesturendanum á Þingvallavatni.

grafningshals-3

Hver þeirra hefir sinn svip og landslagið er fjölbreytilegt í báðum, þar skiptast á sléttlendi og ásar og fell með smádölum á milli, og báðar mega byggðirnar fremur kallast opnar en aðkreptar, enda er útsýn þar á mörgum stöðum bæði frjáls og víð. Sveitin virðist því ekki bera nafn þetta með réttu.
Nafnið Grafningur er fyrst nefnt í Harðarsögu, 19. kap. Þar segir frá því, er þeir, Indriði Þorvaldsson á Indriðastöðum í Skorradal og Ormur veturtaksmaður hans, ferðuðust sunnan af Vikarsskeiði, þar sem Ormur hafði brotið skip sitt, og vestur að Indriðastöðum. Segir þar m. a. svo frá ferðum þeirra: »Þeir riðu allir sunnan hjá Bakkárholti um Grafning ok Bíldsfell ok svá hjá Úlfljóts vatni ok þaðan til Ölfusvatns) Næst er Grafningur nefndur í bréfi frá 1448. Þar kvittar Jón nokkur Oddsson Steinmóð ábóta í Viðey um greiðslu »sem hann var mier skyldvgur firir jordena aa sydra halse firir ofan Grafning«.2) Þessar tvær heimildir skýra það að minni hyggju hvernig á nafni byggðarinnar stendur.

grafningshals-4

Frá Bakkárholti í Ölfusi og upp að Ölfusvatni er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að fara austur fyrir Ingólfsfjall, hjá Kögunarhól, og upp með fjallinu að austan, hjá Tannastöðum og Alviðru, og síðan uppeftir vestan Sogsins. Hin er sú, að fara leiðina, sem nú heitir Grafningsháls, þ. e. í gegnum skarðið, sem er á milli Ingólfsfjalls og Bjarnarfells upp af bænum í Hvammi i Ölfusi. Síðarnefnda leiðin er miklu beinni og styttri og auk þess hefir hún verið miklu greiðfærari fyr á tímum, því þar hefir mátt fá nokkurnveginn þurrar götur upp með ánum, Bakkaá (Bakkárholtsá) og Gljúfurá, frá Bakkárholti og upp að skarðinu. Þessi leið hefir sjálfsagt verið alfaraleiðin úr þessum hluta Ölfusins upp á bæina fyrir ofan Ingólfsfjall, allt þar til, að akvegur var lagður austur fyrir fjallið. Höfundur Harðarsögu hefir því eflaust haft þessa leið í huga, er hann lýsti ferð þeirra lndriða.
Á þeirri leið fóru þeir Indriði og Ormur »um Grafning«. Hér getur verið um tvent að ræða, annaðhvort er Grafningur nafn á byggð, sem þeir fóru um, eða á stað, sem þeir fóru um eða hjá. Fyrri skilningurinn mun hafa verið lagður í nafnið hingað til. í registrunum við sumar útgáfur Harðarsögu er Grafningur á þessum stað í sögunni talinn vera »sveit í Árnesþingi«.

grafningshals-5

Kálund hefir einnig litið þannig á, en hann telur þó, að Grafningur sé í sögunni aðeins nafn á neðri hluta sveitarinnar, byggðinni, sem liggur upp með Soginu). En þessi skýring fær ekki staðist, jafnvel ekki með þeirri takmörkun, sem Kálund gerir. Grafningur sögunnar var á þeim kafla af leið þeirra Indriða, sem var á milli Bakkárholts og Bíldsfells. Bíldsfell er eins og kunnugt er fell og samnefndur bær, nálægt því í miðjum neðri hluta sveitarinnar. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Bíldsfell. Hafi það verið byggðarnafn hefir það þvi verið miklu yfirgripsminna en það er nú á tímum, ekki einu sinni náð yfir allan neðri hluta sveitarinnar, heldur aðeins yfir byggðina, sem er fyrir neðan Bíldsfell, en það er ekki líklegt, að þeir fáu bæir, sem þar eru og eru dreifðir og strjálir, hafi nokkurntíma heitið sérstöku byggðarnafni fyrir sig. — Þetta bendir til þess, að Grafningur sé ekki byggðarnafn í sögunni, heldur nafn á einhverjum stað, sem hefir verið á leiðinni frá Bakkárholti og upp að Bíldsfelli. Bréfið frá 1448 virðist einnig taka öll tvímæli af um, að svo hafi þetta verið. Samkvæmt bréfinu er Syðri-Háls, »fyrir ofan Grafning«. Syðri-Háls, sem nú heitir Litli-Háls, er syðsti, neðsti, bærinn í byggðinni Grafningi.

grafningshals-6

Grafningur sögunnar var fyrir neðan Litla-Háls og því í rauninni fyrir neðan byggðina Grafning. Hann er því einhver staður á milli Bakkárholts og Litla-Háls, og á þeirri leið getur varla verið um annan stað að ræða, sem borið hafi slíkt nafn, en sjálft skarðið, sem vegurinn liggur um.
Litli-Háls er líka rétt fyrir ofan skarðið, svo að það á vel við, að segja um hann, að hann sé »fyrir ofan Grafning«, ef skarðið hefir heitið því nafni. Skarð þetta á milli fellanna er djúpt. Samkvæmt uppdrætti herforingjaráðsins er það 186 mtr. yfir sjávarmál, þar sem það er hæst, en fellin til beggja handa eru miklu hærri. Kaldbakurinn, sem gengur út úr Ingólfsfjalli og liggur að skarðinu að austan og sunnan, er 311 mtr., en Bjarnarfell, sem liggur að skarðinu að vestan og norðan, en 358 mtr. Skarðið er þröngt og hlíðar fellanna brattar, beggja megin við það. Það er því mjög niðurgrafið og sannkallaður Grafningur og hefir borið það nafn með réttu. Í fyrstu virðist þannig aðeins skarðið hafa heitið Grafningur, en seinna fékk öll byggðin fyrir ofan skarðið þetta nafn.

grafningshals-7

Það virðist vera augljóst, að byggðinni hefir verið gefið þetta nafn neðan að, úr Ölfusinu. Ölfusingar hafa talað um að fara »upp um Grafning« eða »upp í Grafning«, þegar þeir áttu leið upp á bæina fyrir ofan fjallið, og þeir hafa þá í fyrstu átt við leiðina, sem þeir fóru, skarðið milli fellanna, en seinna hefir nafnið á leiðinni festst við byggðina, sem leiðin lá til, við þann hluta hreppsins allan, sem farið var til í gegnum skarðið. Á 16. öld hefir þessi breyting verið komin á og byggðin búin að fá Grafningsnafnið. Er talað um Úlfljótsvatn »í Grafningi í bréfi frá dögum Stefáns biskups (1491—1518) og í bréfi frá 1524). Nesjar »í Grafningi« eru nefndir 1539) og Tunga »í Grafningi« 1545).
Sjálft skarðið, leiðin milli fellanna, hefir verið nefnt Grafningsháls, í öllu falli síðan snemma á 18. öld). grafningshals-8Hálfdán Jónsson á Reykjum nefnir veginn því nafni í lýsingu sinni á Ölfushreppi 1703, og segir svo: »Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpi-Grafningur, Æðargil Bjarnarfell, Kaldbak etc.«). Bjarnarfell og Kaldbakur eru fellin sitt hvoru megin við skarðið. Æðargil er gil, sem kemur ofan úr Bjarnarfelli. Hvort nafnið Djúpi-Grafningur þekkist enn, veit ég ekki, en mér þykir líklegast, að það hafi verið nafn á sjálfu skarðinu. Ef svo er, hefir Grafningsnafnið enn loðað við skarðið snemma á 18. öld, en viðbótinni Djúpi- gæti hafa verið aukið við nafnið til þess, að greina það frá byggðarnafninu Grafningur, sem þá hefir verið búið að fá fulla festu.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild:
-ÁRBÓK HINS ÍSLENZKA FORNLEIFAFÉLAGS 1933 -1936, Ólafur Lárusson: Nokkur byggðanöfn, bls. 108-11.

Grafningsháls

Grafninsgháls.

Þegar skoðaðar voru örnefnaskrár fyrir allar Grafningsjarðirnar kom ýmislegt í ljós, t.a.m. nákæmari staðsetning á Grímkellsleiði við Ölfusvatn, ártalssteinn (1736) þar í nálægð sem og enn einn hlautsteinninn – minni (skálalaga).
Útsýni úr TvídyraÞegar fyrirliggjandi upplýsingar um selstöður voru skoðaðar varð niðurstaðan einkum sú að einhvern tíma mun taka að pússla saman fyrirliggjandi upplýsingum um Grafningsselin, þ.e. aldur þeirra. Svo virðist sem “Nýjasel” hljóti að vera mun eldra en af er látið. Því ættu nýrri seltóftir að vera þarna einhvers staðar. Í lýsingunum er ekkert sagt um aldur Nýjasels, einungis að tóftir sjáist þar enn. Í öðrum heimildum er sagt að þar hafi “síðast verið haft í seli 1849”. Grunur er um að selstaðan hafi verið flutt úr “Nýjaseli” í Gamlasel undir Selhól því “Nýjaselið” virðist enn eldra. Þaðan hafi selstaðan síðan verið flutt niður í Hagavík, enda var tilhneiging að færa selstöðurnar nær bæjunum í seinni tíð, einkum vegna fólksfæðar, auk þess sem ekki var lengur þörf á að nýta upplandið líkt og var áður fyrr. Upp úr selinu í Hagavík hafi síðan byggst bær, likt og á Nesjavöllum, og líklega um tíma í Kleifarseli. Þörf er á að gaumgæfa Hagavíkina við tækifæri.
Þá var farið frá Sogsvirkjuninni upp með Björgunum og m.a. litið á Bríkarhelli og Haugahelli, fjárskjól austar með affallinu, og síðan á Tvídyra og gengið allt að Skinnhúfuhelli. Áræðin og nauðsynin voru ekki nægilegar til að feta einstigið að hellinum þjóðsagnakennda að þessu sinni, enda mjög tæpt orðið. Áhugavert væri þó að komast í hellinn og mynda. Bætt var við fyrri lýsingu á vefsíðunni, sjá
Skinnhúfuhellir.
Eitt af næstu verkefnum FERLIRs verður m.a. að skoða Króksel, en skv. örnefnalýsingu mun það vera austan Kaldár, “mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal”. Þá þarf að skoða Ingveldarsel því í örnefnalýsingu segir að “þar hafi síðast verið haft í seli í Grafningi”. Nokkur vinna er því framundan svo fyrirliggjandi upplýsingar megi koma heim og saman við vettvangsstaðreyndir.

Skinnhúfuhellir

Skinnhúfuhellir.

Dyravegur

Dyravegur var genginn frá Lyklafelli um Brekkuna, Dyradal og Sporhellu að Nesjavöllum, 18.6 km. Alls er vegurinn frá Elliðakoti að Nesjavöllum um 26 km ef farið er norður fyrir Lyklafell, en um 27 km ef farið er sunnan við Lyklafell. 

Dyravegur

Dyravegur lá að sjálfsögðu áfram til austurs. Að öllum um líkindum var hér um að ræða fyrstu ferð núlifandi Íslendinga um þessa fornu þjóðleið á þessum langa kafla. Hafa ber í huga að vegurinn er alls ekki auðrakinn þrátt fyrir mikla umferð fyrrum. Líklegt má telja að leiðin hafi nánast einungis verið farin að sumarlagi því rekja hefur þurft hana frá upphafi til enda eftir legu hennar. Einungis nokkrar vörður og vörðubrot eru á leiðinni, auk þess sem nokkur gatnamót, ef grannt er skoðað. Eitt vörðubrotið er t.d. við lækjarfarveg austan Lyklafells. Vörður eru á aflöngu holti miðja vegu og síðan er varða á öxl er nálgast tekur Hengilinn vestan við Dyradal. Vatnsstæði er nánast á miðri leið og má sjá hleðslur í því. Leifar af tóft eru þar hjá. Alls staðar er gatan þó vel greinileg, en mikilvægt er að hafa augun opin fyrir óvæntum stefnubreytingum. Ferðin var notuð til að hnitsetja götuna.
Austan Lyklafells greinast Dyravegur og Hellisheiðarvegur með glöggum skilum. Sá síðanefndi liggur síðan áfram til austurs upp með Múla, Kolviðarhóli og um Hellisskarð.
DyravegurDyravegur liggur frá Elliðakoti norðan við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og komið niður hjá Nesjavöllum. Þetta var aðalvegur þeirra sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu.
Í MBL 1991 er fjallað um “Dyraveginn” undir fyrirsögninni “Á leið um Dyraveg”.
“Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Dyravegur

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, Varðaþvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
DyravegurMarardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
DyravegurÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. 

Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.

VörðuleifarTafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.
Lesandi góður. Hér hefur verið reynt að lýsa undurfagurri og fjölbreyttri gönguleið, en sjón er sögu ríkari. Ef þú hefur í hyggju að ganga Dyraveginn á góðum degi, skalt þú ætla þér heilan dag til þess, svo marga skoðunarverða og fjölbreytta staði er um að velja. En með eðlilegum gönguhraða og skynsamlegum hvíldum má ganga götuna á 5-6 klst. hið minnsta.”

Dyravegur

Hér var leið lýst vestan Hengilsins inn á Dyraveginn um Dyrafjöllin. Vegurinn á að vera stikaður frá Dyradal um Sporhellu að Nesjavöllum, en hann víða á leiðinni er farið út af gömlu götunni. Má t.d. nefna er komið er upp úr Dyrunum er þar tilbúinn stígur. Ef grannt er skoðað liggur gamla gatan ofar og beygir síðan til vinstri áleiðis að Sporhellunni. Þar hefur skriða fallið yfir götuna, en auðveldlega hefði verið hægt að bæta um betur. Áður en komið er að Sporhellunni millum Sporhelludala hefur verið lagður nýr stígur þar upp í stað þess að fylgja gömlu götunni til hægri. Ofar greinist gatan og hefur styttri hlutinn verið stikaður. Sá lengri er hins vegar miklu mun fallegri. Þegar hallar niður að Nesjavöllum leiðbeina stikur vegfarendum svo til beint niður hlíðina, en að sjálfsögðu fór hún þar í sneiðinga fyrrum.
DyradalurVestar, áður en komið er niður í Dyradal, er gamla gatan einnig sniðgengin, því hún er þar greinileg suðvestast í dalnum, en Reykjavegurinn hefur hins vegar verið stikuð sunnan hennar – að óþörfu.
Í þessari ferð var Dyravegurinn genginn “nánast sanni” frá Lyklafelli og ekki alltaf í förum stikaðrar leiðar um Dyrafjöllin.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Í tímaritinu Mána árið 1880 segir m.a. um austurvegina: ““Yfir Reykjanesfjallgarðinn liggja 7 alfaravegir, nyrðstur er Kaldadalsvegur milli fingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals [Miðdals] í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.”
Til gamans má geta þess að FERLIR reyndi að vekja athygli OR á möguleika þess að merkja og stika þessa leið, annars vegar milli Nesjavalla að Lyklafelli og hins vegar milli Kolviðarhóls að Elliðakoti, en áhuginn var enginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Mbl. 25. júlí 1981.
-Máni , 4.-5. tölublað – laugardagur, 31. janúar 1880 , bls. 33-34.

Dyravegur

Úlfljótsvatnskirkja

Stefnan var tekin að Úlfljóstvatni með það fyrir augum að skoða nokkra staði er getið er um í heimildum, s.s. Brynkastein, Borgarvíkurhelli (fjárskjól), refgildru og gamlar leiðir í nágrenni við bæinn.
BrynkasteinnNorðan við Heiðartjörn sunnan Úlfljótsvatns er stór steinn á heiðinni skammt frá fornri þjóðleið, sem enn sést glögglega í móanum. Tveir aðrir minni steinar eru við þennan þjóðsagnakennda stein. Lóa hafði verpt fjórum eggjum við gömlu götuna.
Leið þessi liggur norður yfir heiðina á milli Bíldsfells og Úlfljótsvatns, austan við Heiðartjörn. Leiðin er allt að 3 m á breidd þar sem mest er og 0,3 – 0,6 m djúp. Hún skiptir sér í a.m.k. 2 rásir á kafla. Nýlegur malarvegur þverar leiðina skammt norður af Heiðartjörn. Þar eru krossgötur þar sem önnur fornleið beygir af í átt að Keramýri (líklega í átt að ferjustað á sunnanverðu vatninu.
Brynkasteinn er nú milli tveggja rafmagnsstaura. „Hann hefur verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð. Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn.

Kirkjuklif

Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar“, eins og segir í örnefnalýsingu fyrir Úlfljótsvatn. Steinninn er um 3 x 3 m stór og 2,5 m á hæð. Minnir hann nokkuð á hús með burst.
Skammt norðvestar, efst á hól austanvert í Hádegisholti, er eyktamark, um 70 m vestur af malarvegi. Þetta er varða úr grjóti, 1,3 x 1,7 m (ANA – VSV) og 0,7 m há.
Eyktarmarkið er nokkuð fallið. Neðstu steinarnir eru mosavaxnir.
Þá var haldið í Borgarvík vestan við Úlfljótsvatn eftir viðkomu við kirkjuna. Saga er til tengdu einu leiðanna í kirkjugarðinum, en hún var ekki rifjuð upp að þessu sinni. Í brekkunni gegnt kirkjunni að vestanverðu má greinilega sjá forna götu liggja þar upp klif; Kirkjuklif.

Borgarvikurhellir

Leiðin liggur rétt ofan við kirkjuna og neðan við núverandi malarveg og upp á hálsinn. Í örnefnalýsingunni segir: “Kirkjuklif heitir brekkan, þar sem gatan liggur upp frá bænum upp á þjóðveginn.“
Þá var komið í Borgarvíkurdal. „Borgarvíkurdalur heitir slétt harðvellisflöt vestast í Borgarvíkinni og brattar hæðir til beggja hliða. Borgarvíkurhellir er vestast í Borgarvíkurdalnum að sunnanverðu. Hann var til forna notaður fyrir fjárskýli. Þar sjást enn nokkur mannaverk.“
Engar hleðslur sáust við skoðun né nokkur önnur mannaverk. Hellirinn er innlangur, þröngur og hár; ágætt skjól fyrir nokkrar skjátur. Hugsanlega eru öll fyrrum ummerki komin á kaf í sand eða áfok, sem sjá má á vettvangi. Hellirinn er í mjög áberandi sandsteinskletti sem er sprunginn eða klofinn á nokkrum stöðum.

Gildruholl

Gengið var upp á Gildruhól skammt norðan þjóðvegarins á mörkum Úlfljótsvatns og Villingavatns. Girðing liggur austan hólsins, sem er aflöng lág hamraborg, nokkuð slétt að ofan. Efst á Gildruhólnum norðanverðum er  refagildran, sem hóllin dregur nafn sitt af. Gildran er óheilleg og að nokkru komin í mosa. Opið hefur trúlega snúið mót VSV. Gildran er nær horfinn í mosa. Hún er byggð úr hellum sem mynda einkonar göng frá opi inn í endann (þar sem agnið hefur trúlega verið sem lokaði fyrir opið þegar refurinn var kominn inn).  Um 7 m suður af gildrunni er varða; um 0,8 – 0,9 m í þvermál og 0,4 m há. Hún er fallin að hluta. Neðstu steinarnir eru vaxnir mosa. Varða þessi hefur væntanlega varðað refagildruna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Valdimar Briem. „Æfisaga Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi.“ Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1915. Reykjavík 1916.
-Örnefnaskrá. Úlfljótsvatn. Handrit 1944. Örnefnastofnun Íslands.

Brynkasteinn

Brynkasteinn.

Grafningssel

Í örnefnalýsingu fyrir Krók í Grafningi kemur fram að “Króksel er austan við Kaldá, mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal var stundum slegið.”

Krókssel - Mælifell og Sandfell fjær

Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar í Árbók fornleifafjelagsins árið 1899 koma fram upplýsingar um Grímkelsstaði, bæ landnámsmannsins, sem síðar settist að á Ölfusvatni. Tóftir fornbæjarins eru rétt norðan við túnið á Krók. Ætlunin var m.a. að taka hús á Agli Guðmundssyni, bónda, á Krók, þeim margfróða manni. Gamli suðurferðarvegurinn lá upp frá Króki í gegnum Krókssel. Stefnt var að því að fylgja honum upp fyrir Hempumela og upp í selið norðvestan í rótum Súlufells.
Egill var fjarverandi þegar FERLIRsfélaga bar að Króki, enda búskapur nú aflagður í Grafningi annars staðar en að Villingavatni. Þrátt fyrir það var stefnan tekin á gömlu suðurferðargötuna, sem liggur upp frá bænum yfir Bæjarlækinn til vesturs. Slóði er samhliða götunni, en hún er jafnan sunnan slóðans. Gatan liggur upp með norðanverðum aflíðandi hlíðum og upp í Löngudali; grannan þéttgróinn dal norðaustan Súlufells. Norðaustar er Torfdalur. Skýringin á þéttum gróningunum kom fljótlega í ljós. Vestast í dalnum eru leifar af undirstöðu fjárhúss frá Króki. Húsið sjálft er horfið, enda fauk það í heilu lagi fyrir nokkrum árum að sögn Hrefnu Sóleyjar Kjartansdóttur, húsfreyju á Villingavatni. Norðar er syðsti hluti Víðihlíðar. Í
 örnefnalýsingu fyrir Krók segir: “[Í Löngudölum] er beitarhús og tún. Súlufell er allhátt fjall, gróðurlítið, nokkuð þríhyrnt að lögun. Dalir tveir þynna það norðan til. Súlufellsdalur með nokkru landbroti að austan, Smérdalur að vestan, sléttur og gróinn. Þar er tófugren, og þar var slegið [Stardalur].” Melhryggur ofan og vestan við fjárhústóftina nefnist Hempumelur. Þar á djákni sá, sem drekkt var í Djáknapolli, að hafa verið færður úr hempunni. Gamla gatan liggur norðan megin upp úr dalnum, yfir hrygginn og áfram niður með norðanverðu Súlufelli.
Staðnæmst Fjárhúsleifar í Löngudölum - Hempumelur ofar til vinstrivar við Króksselið; tvírýma tóft, vel greinilega, fast undir rótum fellsins. Tóft er vestan við selið, en ekki er gott að sjá hvort þar hafi verið stekkur eða hús vegna sinu. Annars er einkennandi fyrir seltóftir í Grafningi að þær eru einungis með þremur rýmum, ólíkt flestum öðrum seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hafa þrjú slík. Þá er staðsetning selsins einungis skiljanleg út frá nálægð við aðgengilegt grjót úr hlíðinni, en eðlilegra hefði verið að hafa það utan í Selmýrinni, sem er þarna beint handan Kaldár.
Haldið var til baka eftir gömlu götunni og síðan út af henni til suðausturs því nú var stefnan tekin á Svartagil mun austar, norðvestan við Dagmálafell. Þar eiga tóftir Ingveldarsels að vera. Í örnefnalýsingum fyrir Villingavatn segir: “Ingveldarsel: Smá starartjörn með mýri í kring, upp af Svartagilsflötum. Síðasta selið sem notað var. Sennilega kennt við Ingveldi Gísladóttur, afasystur skrásetjara (Þorgeirs Magnússonar).”
Stekkur við Ingveldarsel - Dagmálafell fjærMjög erfitt er að finna selið. Það er í skálalaga lægð um með Svartagili, ofan Svartagilsflata, eins og segir í lýsingunni. Hrefna hafði sagt að Sigurður, frændi hennar, hefði stungið spýtu í seltóftina síaðst þegar þau voru þar. Að vísu var spýtan fallinn, en selið fannst út frá fallegum hlöðunum stekk upp undir hæðarbrún vestan Svartagilslækjar (sem reyndar var þurr að þessu sinni, en Hrefna hafði einmitt kvartað yfir miklum vatnsveðrum í vetur, en litlum snjóum). Selið er tvírýmt líkt og önnur sel í Grafningi (utan Villingavatnssels (Botnasels) í sunnanverðum Seldal). Það er vel gróið, en vel mótar fyrir veggjum. Fallegt útsýni er frá selstæðinu að Villingavatni og yfir fjöllin norðan og austan Þingvallavatns. Ekki er getið um selstöðu þarna í Jarðabók ÁM 1703.
Þá var stefnan tekin að Króki á ný með það fyrir augum að skoða hinar fornu Grímkelstóttir við Krókamýri.
Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899 segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi m.a. frá Grímkellsstöðum eftir ferð sína um Grafning í maímánuði ári fyrr.

Grímkelstóttir - uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar

“Svo segir í Harðasögu, kap. 2: “Grimkell bjó fyrst suður at Fjöllum skamt frá Ölfusvatni. Þar er nú kallat á Grímkellsstöðum ok eru nú sauðahús… Hann færði bú sitt… til Ölfusvatns, því at honum þótti þar betri landkostir”. Í fljótu bragði virðist sem orðin; “ok eru nú sauðahús”, benda til þess, að bæjartóft Grímkelsstaða sé eigi framar til, heldur hafi sauðahús verið bygð ofan á hana, svo þar sé eigi um annað að ræða en fjárgús eða fjárhústóftir. Því að þrátt fyrir það, að á þeim tíma sem sögurnar vóru ritaðar og lengi eftir það var eigi venja á Suðurlandi að hýsa sauði, þá má þó telja víst, að í Grafningi hafi það verið gjört fyr en annars staðar, vegna vetrarríkis. En raunar þurfa orðin; ” þar… eru sauðahús”, eigi beinlínis að þýða það, að sauðahús stæði í rústunum, þau gátu staðið hjá þeim, eða svo nærri að þannig mætti að orði kveða. Og þetta hefir verið tilfellið. Rúst Grímkellsstaða er enn til. Það eru 3 stórar fornrústir á sléttum völlum fyrir norðan og neðan túnið í Króki í Grafningi og heita Grímkelstóftir. Syðsta tóftin er 18 al. löng og nál. 9 al. breið; dyr í suðausturenda. Hún sýnist eigi skift í sundur. Það má hafa verið útibúr. Grímkelstóttir - Krókur fjær, Súlufell framundan og Víðihlíð t.h.Miðtóftin er bæjartóftin; hún er nál. 30 al. löng og 11 al. breið. Dyr er ekki hægt að ákveða. Miðgaflar sýnast að hafa verið tveir í henni, þó er hinn nyrðri óglöggur, og er sem þar gangi smákofatóft inn í vegginn og snúi dyrum í norðaustur, þó verður það eigi fullyrt, og er mögulegt að vatn og klaki hafi myndað þessa tóftarlíkingu, hún er svo óglögg. Nyrzta tóftin hefir að norðan víðan ferhyrning, um 16×18 al., og er það án efa heygarður; en að sunnanverðu, þar sem fjóstóftin má hafa verið, er nú stekkjartóft, nær 18 al. löng og er hún nýlegri en rústirnar sjálfar og þó ekki mjög nýlegar, Hún snýr dyrum til suðausturs, eins og fjósið mun hafa gjört. Fyrir aftan gafl hennar sér nál. 8 al. langan part af hinni fornu rúst, og er það líklega innri hluti fjóssins. Eigi er samt unt að ákveða lengd þess, því óvíst er að dyr þess hafi tekið jafnlangt fram og dyr stekkjartóftarinnar nú. Fyrir fleiri smátóftum vottar þar, en þær eru svo niðursokknar, að þeim verður eigi lýst. Aðaltóftirnar, sem nú var lýst, eru einnig mjög niðursokknar og úr lagi gengnar, Ein Grímkelstóttinþó þær séu nokkru glöggvastar. Lækur rennur ofan hjá rústunum, og hefir hann myndað vellina sem þær eru á, og enn ber hann oft aur yfir þá. Þess vegna hafa sauðahúsin, sem sagan nefir, eigi verið sett þar. Þau hafa að öllum líkindum verið sett lítið eitt sunnar og ofar, og bærinn Krókur svo verið gjörður úr þeim síðar. En meðan þar var eigi bær, hefir þetta pláss, sem er dalmyndað fengið nafnið “Krókur”, og því hefir bærinn verið nefndur svo, en eigi Grímkellsstaðir, sem réttast hefði þó verið, því raunar er það sami bær, færður úr stað um túnsbreidd eina. Vel á það við að segja, að Grímkell byggi “suður at Fjöllum”, er hann bjó þar, því hinn dalmyndaði “krókur” gengur suður í fjöllin. Krókur er í Ölfusvatnslandi, en þó svo langt þaðan, að eigi gat Grímkell vel notað landið það er Ölfusvatn notar nú, utan að flytja þangað búferlum. Var það og fýsilegt því þar er vetrarríki minna og skemra til veiða í vatninu. Ef til vill hefir og ágangur lækjarins hvatt hann til þess að flytja bú sitt. En spyrja má, hví hann settist eigi strax að Ölfusvatni? Líklega hefir þar verið bær áður, og honum hefir Grímkell síðar náð undir sig, og fært bú sitt þangað.
Önnur GrímkelstóttEitt af fjárhúsum þeim, er standa á Ölfusvatnu, er kallað hofhús. Þar á hofið Grímkells að hafa staðið, og er sem upphækkun undir húsinu. Grímkelsgerði heitir forn girðing þar austur á túninu, hér um bil 1 dagslátta að stærð. Suðvestast í henni er sýnt leiði Grímkels. Það er þúfa mikil, nær 5 fðm. löng og nær 1 fðm. á breidd við suðurendann, en mjó í norðurendann, og um 2 al. á hæð. Hvort grjót er þar í var ekki hægt að kanna fyrir klaka, er eg var þar í vor í máimánuðu á rannsóknarferð.
Bollasteinn er á hlaðinu á Ölfusvatni. Hann er úr “doleríti” og er rúml. 1 al. á hæð, 3 kvart. í þvermál á annan veg og 2 1/2 kv. á hinn. Bollinn nær 9 þuml. á vídd og 5 þuml. á dýpt. Hann er auðsjáanlega mannaverk.”
Í lýsingunni kemur Brynjúlfur einnig að Steinrauðarstöðum suðvestan Þingvallavatns, hins forna landnámsbæjar, sem nú virðist horfinn, en þó má sjá leifar af ef vel er gáð (sjá aðra FERLIRslýsingu). Einnig segir hann frá Setbergsbölum og Kleyfardölum. SHoftóft við Ölfusvatníðarnefnda örnefnið er einkar áhugavert vegna þess að þar á að vera Kleifarsel, sem fyrr hefur verið minnst á. Lýsingin hljóðar svo: “Kleyfardalur heitir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt í kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískipt og eru emgar dyr á milliveggjum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 1/2 fðm. breiðm hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tófarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum(?) og síðar orðið, ásamt þeim hjáleiga frá Nesjum.”
Selstígurinn fyrstgreindi liggur úr Króksseli því til norðausturs, en hann er raunar hluti af gamalli þjóðleið (gamli suðurferðavegurinn skv. örnefnalýsingu Guðmanns Ólafssonar) frá Villingavatni og Krók til vesturs, um Moldarklif, norður fyrir Stapafell og áfram til suðurs og upp með fellinu vestanverðu, um Þverárdal oBlótsteinn (sem er væntanlega signingafontur) við Ölfusvatng Ölkelduháls í Brúnkollublett og síðan Milli hrauns og hlíða, vestur að Kolviðarhóli. Brúnkollublettur var aðaláningarstaður ferðamann á þessari leið. Þar fer gatan yfir Þverána á vaði með viðkomu í Nýjaseli á leiðinni upp með Laka. Hálsinn, sem gatan kemur yfir norðan Súlufells heitir Hempumelur, að sögn Egils Guðmundssonar, bónda á Króki (sjá fyrri skilgreiningu).
Brynjúlfur lýsti, skv. framanskráðu, Grímkelsstöðum, sem gæti hafa verið fyrsti bústaður hins forna goða sunnan Ölversvatns (Þingvallavatns). Þær tóftir eru þarna rétt utan túngarðs á Króki, hægra megin vegarins þegar ekið er að bænum og eru vel greinanlegar enn þann dag í dag, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Og svo segja menn (jafnvel hinir fræðustu “minjaverndarar”) að engar fornleifar leynist á Reykjanesskaganum – landnámi Ingólfs). Þarna kemur Bæjarlækurinn, líkt og sjá má á uppdrætti Brynjúlfs, að og liðast síðan undir veginn. Lækurinn kemur úr gili norðvestan bæjarins, en skammt sunnar er vatnsvirkjuð uppspretta er rennur í í hann. Í örnefnalýsingunni segir: “Norðan við Nesið fellur Bæjarlækurinn í Villingavatnsána. Suðvestan við hann eru Grímkelstóttir (Brynjúlfur skrifaði jafnan “tóttir”). Norðan við hann er valllendisgrund, sem Eyri nefnist. Svo tekur við Króksmýri allt norður að Ölfusvatnsheiði.” Ölfusvatnsheiðin, þótt lítil sé, skilur af Krók og Ölfusvatn.
Göngutími og skoðunartími er áætlaður u.þ.b. 3 klst.

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1899, Brynjúlfur Jónsson, bls. 1-5.
-Örnefnalýsingar.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – bæjartóftir.

 

Úlfljótsvatnskirkja

Ætlunin var að skoða ystu norðausturmörk hins forna landnáms Ingólfs, m.a. þjóðsagnakenndan og einstígsaðgengilegan Skinnhúfuhelli norðan í Björgunum austan Hellisvíkur við Ölfusvatnsvík, fjárhelli frá Villingavatni, sem notaður hefur verið frá ómunatíð allt til loka síðustu aldar, fjárborg í Borginni vestan Úlfljótsvatns, beitarhús og nokkrar aðrar tóftir á svæðinu, auk þess sem ætlunin var að koma við á Ölfusvatni og skoða Grímkellsleiði í Grímskellsgerði, leiði Grímkells goða Bjarnasonar, sem þar bjó um 950.

Fjárborgin

Byrjað var á því að fara frá Steingrímstöðvarsvæðinu norðvestan Úlfljótsvatns með stefnu að klapparhæð er nefnd er Borg. Þar upp undir henni eiga að vera tóftir fjárborgar skv. fornleifaskráningu.
Jörðin Úlfarsvatn hefur skv. framangreindu verið fornleifaskráð. Yfir 90 fornleifar fundust á 68 stöðum á jörðinni. Var þó ekki öll landareign jarðarinnar fullkönnuð. Bjarni F. Einarsson, doktor í fornleifafræðum hjá Fornleifafræðistofunni vann að fornleifaskráningunni vegna deiliskipulags í landi Úlfljótsvatns. Meðal fornleifanna er þessi rúst fjárborgar við Borgarhóla (Borgin) sem eru NV af Hrútey, ca. miðja vegu vestan við vatnið. Aldur rústarinnar er talið vera tímabilið 1550-1900. “Ástand rústarinnar er talið ágætt. Varðveislugildi og minjagildi telur fornleifafræðingurinn vera talsvert.”
Norðan við Borgarvíkina eru Fjárhöfðarnir, ágætur útsýnisstaður yfir vatnið og suður yfir Sogið. Ekki síst er þar útsýni yfir Hrúteyna og sundið milli lands og eyjar. Tengist sundið þjóðsögu um skrímsli eða orm í vatninu og er undur yfir að líta t.d. í frostum að vetrarlagi vegna sérkennilegra strauma og fyrirbæra í vatninu. Til gamans má geta þess að samkvæmt þjóðsögunni er hið svikula eðli íssins á vatninu af völdum ormsins, hann brýtur upp ísinn þegar hann er á ferð. Að Fjárhöfðum er skammt að fara frá fjárborginni og nálægum beitarhúsatóftum við Hagavík sem eðlilegt er að tengja gönguleið með vatninu.

Borg eða beitarhús

Fjárborgin og beitarhúsatóftirnar eru norðan við Höfðana (undir Borgarhöfða) milli Borgarvíkur og Hagavíkur. “Hér mun vera um að ræða minjar um aflagða búskaparhætti og nýtingu landsins og hljóta að teljast varðveisluverðar. Auk þess tengist staðurinn fyrrnefndri þjóðsögu (Þjóðsagnasafn Guðna Jónssonar) sem gefa honum enn meira gildi.”
Upp úr Hagavíkinni er auðveld og falleg merkt gönguleið yfir að Þingvallavatni, eða upp á Björgin við sunnanvert Þingvallavatn, yfir að Sogi og að Skinnhúfuhelli (þ.e.a.s. fyrir þá sem hann finna). Op hans snýr að Þingvallavatni. Skátar hafa jafnan fengið það verkefni að fara í Skinnhúfuhelli og reyna að rekja sagnfræðilega tengingu hans.
Til að komast í Skinnhúfuhelli þarf að fara um einstigi (ef farið er að austanverðu, annars er leiðin greið að vestanverðu) og hefur sumum fundist betra að snúa við en taka áhættuna að komast hvorki í hellinn né annað eftirleiðis. Um er að ræða þjóðsagnakenndan dvalarstað, sem óþarfi er að Tóft austan Einbúaniðursetja hér til lengri framtíðar.
Í maí árið 1946 fann Jón Ögmundsson bóndi á Kaldárhöfða kuml, sem er gamall haugur, í Torfnesi. Torfnes er hólmi rétt sunnan við þann stað þar sem Sogið rennur út í Úlfljótsvatn. Af gerð forngripanna sem fundust í kumlinu má fullyrða að það sé síðan snemma á 10. öld. Þarna voru fullorðinn maður og ungur drengur, 6-8 ára, grafnir.
Enginn fornmaður sem hefur enn verið grafinn upp hér á landi, hefur verið eins ríkmannlega búinn og þessi. Í kumlinu fundust t.d. leðurbelti með bronssilgju, sverð úr silfri og bronsi, tvenn spjót, 6 örvar, bardagaöxi fatapjötlur úr fínu vaðmáli, hönk af silfurvír, fjórir tinnumolar, krókstjaki, tveir skildir, hnífur og svo mætti lengi telja. Af manninum varðveittust lítilfjörlegar beinaleifar og tvær mjólkurtennur fundust úr drengnum. Í kumlinu hafði einnig verið um 3 metra langur bátur og 80 sentimetra breiður.
Geymsluhús Skálholtsstóls?Ýmsar kynjaverur virðast hafa haldið sig í og við Úlfljótsvatn. Í Suðra II er eftirfarandi lýsingu að finna: “Í nóvember árið 1929 sást skrímsli eða vatnakind í Fjósavík sunnan við bæinn á Úlfljótsvatni. Hringsólaði skrímslið í víkinni. Voru þrjú horn eða uggar upp úr bakinu og um 2 metrar á milli þeirra. Var það að hringsóla þarna part úr degi. Hugðust menn fá meiri vitneskju um hvaða skepna þetta væri. Fóru þá tveir menn á báti með net og hugðust leggja það fyrir og króa það inni. Annar maðurinn var unglingur og var hálfhræddur og fór að henda í það. Kom þá styggð að dýrinu, svo það stakk sér niður og hvarf þar með sjónum.” Engin skýring hefur fengist á þessu fyrirbæri.
Undir Dráttarhlíð voru geymsluskemmur Skálholtsstóls og aðrar við Þingvallavatn skammt frá upptökum Sogsins. Þarna voru búvörur og skreið flutt yfir. Mikið sog var þarna og flutningur þessi því ekki með öllu hættulaus. Eitt sinn barst í Sogið hluti af líkfylgd og líkið að auki.
FjárhellirinnÁ 17. júní árið 1959 gerðist sá atburður við Efrafall að Þingvallavatn reis óvenju hátt í miklu roki þannig að stífla brast og mikið vatn streymdi í gegnum jarðgöng sem verið var að vinna við og hálfbyggt stöðvarhús. Miklar skemmdir urðu þarna og hreinasta mildi að þetta var á Þjóðhátíðardaginn og enginn við vinnu. Annars hefði eitthvað farið meira en líkfylgdin forðum, enda fjöldi manns starfandi bæði í göngum og stöðvarhúsinu virka daga. Fleiri vikur tók að týna saman spýtnabrak niður með öllu Soginu.
Þegar komið var að borginni, en hún er auðfundin í hæðinni norðaustan í Borginni er komið er úr norðri. Í fyrstu mætti ætla að um borg hefði verið að ræða, en við nánari skoðun kom í ljós að mannvirkið var tvískipt beitarhús, líkt og þrískipta beitarhúsið u.þ.b. 15 metrum norðvestar. “Borgin” hefur augsýnilega verið hlaðinn ferköntuð, en vegna hallans hefur framhliðin látið undan og veggurinn sígið og er nú bogalaga. Allir veggir eru upphlaðnir svo einungis hefur þurft að refta yfir, andstætt efri beitarhúsunum, sem eru bæði mun stærri og hafa haft trégafla mót norðri. Dyr “borgarinnar” eru tvennar; önnur snýr til austurs, að vatninu, en hin til Hellisvikurhellirsuðausturs. Mannvirkið hefur verið skipt í tvennt með garði að neðanverðu og tréþili að ofan. Að öllum líkindum er “borgin” eldri beitarhús en þau sem að ofan eru. Fyrir neðan austurvegginn er hlaðið bogadregið gerði til að stýra fé inn um báðar dyr húsanna.
Í örnefnalýsingu fyrir Úlfljótsvatn segir um þennan stað: “Fjárhöfðar heita einu nafni hæðirnar fyrir norðan Borgarvíkina. Þar eru grasbrekkur og hvammar neðan til, en klettabelti og berg í brúninni. Uppi á Fjárhöfðanum var fjárborg, hlaðin úr grjóti, en nú eru þar tóftir einar. Borgin var lögð niður sem fjárskýli 1887 og byggð fjárhús og heyhlaða. En áður var heyið haft í tóft skammt frá, suður á brúninni, og fénu gefið á gadd, þegar því var gefið. Fjárhús þessi voru lögð niður 1914.”
Skammt sunnar, á hæð er hefur útsýni yfir Hrútey, er stakt hús. Frá því sér heim að Úlfljótsvatni. Líkt og önnur sambærileg hús, er það hlaðið og snúa dyr mót suðaustri. Bæði er staðsetningin ákjósanleg til að fylgjast með beit hrútanna í Hrútey svo og fylgjast með ferðum með vatninu, einkum frá bænum. Líklega hefur þarna verið um að ræða aðsetur eða athvarf þeirra sem höfðu þann starfa að fylgjast með hrútunum og sinna fénu í beitarhúsunum. Veggir hafa verið hlaðnir og standa hleðslur enn að hluta, en eru grónar. Skv. framanskráðri örnefnalýsingu hefur þarna verið haft hey um tíma.
FjárhellirinnSuðvestan undir Björgunum, suðaustan við Einbúa, er tóft. Hún stendur hátt og eru veggir hlaðnir úr móbergssteinum. Gróið er í kringum húsið. Veggir standa að hluta. Líklegt er að gróningarnir hafi orðið til eftir að húsið lagðist af og fé nýtti það sem skól. Ef vel er að gáð má sjá vel varðaða leið til suðvesturs, að Villingavatni, en tóftin er í þess landi. Í stefnu til norðausturs er Fjárhellirinn stóri, sem Hellisvíkin í Þingvallavatni dregur nafn sitt af. Þarna hefur því að öllum líkindum verið athvarf þeirra er þurftu að sinna fé Villingavatnsmanna í Fjárhellinum þegar veður voru válynd. Frá tóftinni sér heim að Villingavatni og stutt er í Fjárhellinn vestast í Björgunum. Varða er á holti skammt sunnar, sem mun vera stefnan á leiðina að Úlfljótsvatni. Hún sést enn mjög vel ofan við Borgina. Í örnefnalýsingu fyrir Villingavatn er ferköntuð tóftin sögð hafa verið fjárborg.
Suðaustan við hæðirnar, sen tóftin stendur á, eru tjarnir. Þarna mun hið forna affall Þingvallvatns hafa verið, úr en opnað var niður í Sogið.
Enn ein tóftin er brekkunni sunnan í Björgunum, í svonefndri Dráttarhlíð. Um er að ræða tvískipta tóft, hlaðna úr móbergi. Stafn hefur verið mót suðri. Þar sem húsið hefur verið í allnokkrum halla má ætla að þar hafi ekki verið íveruhús, hugsanlega stekkur, en þá vantar Björginallt samhengi. Líklegast er þarna um að ræða geymsluhús það er Skálholtsstóll hafði vestan við Sogið og nefnt er hér að framan. Þótt tóftin virðist lítt áberandi og harla ómerkileg fyrir áhugalausa virðist hún enn merkilegri fyrir bragðið.
Þá var haldið vestur fyrir Björgin og komið að Fjárhellinum stóra vestast í þeim. Gróin tún eru vestan við Björgin og augljóst er að Fjárhellirinn hefur verið notaður um “ómunatíð” eins og segir í lýsingu, allt fram undir síðustu áratugi 20. aldar. Bæði má merkja þá á bárujárninu, sem nú er fallið niður en hefur áður verið notað sem þak yfir hinn stóra skúta, og auk þess hefur plexigler verið notað sem gluggi á einum stað við innganginn.
Ofan við hellinn er drjúgt fjárskjól, en engar hleðslur sjáanlegar. Í Fjárhellinum eru steinþrep þegar inn er komið og síðan blasa við reglulegar hleðslur; stíur og garðar. Skjólinu er skipt í a.m.k. tvennt. Af undirlaginu að sjá virðist Fjárhellirinn hafa verið notaður frá á 6. eða 7 áratug 20. aldar, og jafnvel eitthvað eftir það sem skjól, því fé frá Villingavatni hefur jafnan gengið úti allt árið um kring. Í örnefnalýsingu fyrir Villingavatn segir að fjárhellir þessi hafi tekið 120 fjár með heykumli. Á steini í hleðslu við innganginn er áletrunin ÞM 1919. Steinninn er neðarlega í hægri dyrahleðslu.  Í Árbók F.Í. 2003 segir að hellirinn hafi verið notaður 1963 og hafi rúmað 120 fjár.
Stefnan var lokst tekin á Símonarhelli og Skinnhúfuhelli. Gengið var austur með og undir Björgunum. Leiðin er greið enda er kindagötu fylgt langleiðina. Á óvart kom hversu mikið og óvenjufagurt landslagið er undir Björgunum. Bergið efra er greinilega markað af Þingvallavatni, sem þá hefur risið miklu mun hærra en það gerir nú. Bæði hefur orðið allverulegt landsig á svæðinu norðan af og auk þess hefur affalli vatnsins verið breytt. Nauðsynlegt er þó þrátt fyrir  dýrðina að hafa augun opin svo gatan liggi jafnan rétt fyrir fótum. Stór klettur, fagurlega skreyttur að ofan, verður á leiðinni. Þarna gæti Skinnhúfa steinrunnin verið komin – blessunin. Rétt er að fara varlega því niðar í fjörunni má sjá beinagrind af kind, sem orðið hefur fótaskortur á leið sinni, líklega á klaka. Framundan sést til hellisins.
Þegar að Símonarhelli er komið virðist augljóst að þarna hefur verið um fjárskjól að ræða. Hið fegursta útsýni er úr honum vestur með Björgunum. Einstigið fyrrnefnda er neðan Símonarhellirvið hellinn. Um er að ræða stutt haft, ca. 5 m langt, en alls ekki illfært. Bergið slútir þar lítillega fram og því virðist það óárennilegt. Haldið var eftir einstiginu inn í grasi gróinn uppreistan hvamm. Lengra en að næstu klettasnös verður ekki farið. Gengið var upp brattan hvamminn og upp á Björgin. Leiðin er greið.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í klettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, Einstigið að austanverðusem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.”
Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. Í eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.
“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði”
og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Ekki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678. Að öllum líkindum var hér um helli Elínar skinnhúfu að ræða.
Í örnefnalýsingu fyrir Úlfljótsvatn segir um Skinnhúfuhelli: “Skinnhúfuhellir er allstór hellir uppi í miðju berginu. Að honum liggur pallur í berginu, sem ganga má Útsýni austur með Björgunumeftir, nema á einum stað er hann u.þ.b. slitinn sundur. Þó fara það stundum kindur og fótvissir menn, sem ekki eru lofthræddir. Hellir þessi þótti ágætt fjárskýli, áður en skarðið kom í pallinn. Austast við pallinn er lágur hellir, ekki stór. Hann heitir Tvídyri.”
Reynt var að nálgast Skinnhúfuhelli að austanverðu með viðkomu í Tvídyra. Um er að ræða rúmgóðan tvíopa skúta í berginu; annað opið snýr í norðaustur og hitt, minna, í norður, að vatninu. Skútinn er í u.þ.b. 10 m hæð. Þegar komið var að einstiginu fyrir klettasnös þar sem sást yfir að Skinnhúfuhelli, var látið staðar numið. Einstigið er um 5 m langt, en verulega hefur brotnað úr því. Snarbratt er niður að vatninu. Ekki er nema fyrir fífldjarfa að fara þarna um nú orðið og þá ekki einfara. Í örnefnalýsingunni er bætt við að “þjóðsagnir segja, að í Skinnhúfuhelli hafi búið tröllkona, Skinnhúfa að nafni, og karl hennar, sem Símon hét, hafi búið í öðrum helli, sem við hann er kenndur. Sá hellir er vestan í Skinnhúfubergi, en sá hellir er í Villingavatnslandi.”
Í bakaleiðinni var komið við í Haugahelli og Bríkarhelli austar með berginu, þar sem affallið er í Sogið. Um er að ræða smáskúta. Báðir þessir “hellar” voru notaðir fyrir fjárskýli til forna, á meðan ekki voru hús fyrir fullorðið fé – segir í örnefnalýsingunni.
ÚlfljótsvatnÞá var haldið yfir að Ölfusvatni með það fyrir augum að staðsetja leiði Grímkells.
Sagan segir að Illugi hafi búið á Hólmi á Akranesi og var hann Hrólfsson. Hann var gildur bóndi. Sagt er frá því í Harðar sögu og Hólmverja, að hann fór til Ölfusvatns í bónorðsför og bað Þuríðar dóttur Grímkels, sem hann átti með fyrstu konu sinni. Grímkell tók honum vel og fóru festar fram.
Síðan segir í Harðar sögu: “Að tvímánuði skyldi brúðlaupið vera heima að Ölfusvatni. En er kom að þeirri stefnu bjóst Illugi heiman við þrjá tigu manna til brúðlaupsins. Með honum var Þorsteinn öxnabroddur úr Saurbæ, mikill bóndi, og Þormóður úr Brekku af Hvalfjarðarströnd. Þeir fóru yfir fjörð til Kjalarness og fyrir norðan Mosfell og svo upp hjá Vilborgarkeldu, þaðan til Jórukleifar og svo til Hagavíkur og svo heim til Ölfusvatns og komu snemma dags.”
Jórukleif heitir eins og kunnugt er eftir Jórunni bóndadóttur úr Sandvíkurhreppi í Flóa, sem ærðist þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati. Hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Svo hljóp hún með lærið yfir Ölfusá og upp Grafning og nam ekki staðar fyrr en uppi í Hengli. Þar settist hún að í Jóruhelli.
JóruhellirAf Jórusöðli, hnjúk í Henglafjöllum, fylgdist hún með ferðamönnum bæði sem fóru um Grafning og Dyraveg. Í Jórukleif sat hún svo fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap. Þessu linnti ekki fyrr en Noregskonungur fann upp ráð til að koma henni fyrir kattarnef. Í dag eru læri þó ekki rifin undan hrossum þegar illa gengur. Eins og sjá má í
Lýsingu FERLIRs um Grafningsselin er Kleifarsel í Jórukleif.
Miklar minjar eru að Ölfusvatni, bæði nýlegar og einnig miklu mun eldri. Forn garður er utan “nýjagarðs” og ef tekið er mið af honum og jarðlægar tóftir skoðarar af nákvæmni má m.a. sjá fornan skála suðaustar í núverandi túni. Blótsteinn er við innganginn í “nýja” bæinn, en hann mun hafa staðið framan við kirkjuna, sem mun hafa verið sunnan við núverandi bæjartóftir.
Lítum nánar á upplýsingaskilti á staðnum: “Ölfusvatn hefu verið í eyði frá 1947. Bæjarins er getið í  fornum heimildum og því má ætla að hér hagi verið búið óslitið allt frá landnámsöld. Bæjarstæði Ölfusvatns er einstakur minjastaður og óskaddaður að mestu leyti. Bærinn fór í eyði áður en byrjað var að beita stórvirkum vinnuvélum við sléttun túna og byggingar. Á Ölfusvatni er því óskemmdur bæjarhóll – upphlaðnar leifar af bæjarhúsum síðustu 1000 ára og útihúsatóftir og garðleifar sem gefa hugmynd um forna búskaparhætti. Bæjarstæðið eða bæjarhóllinn er mjög greinilgur og má enn greina í honum herbergja- og húsaskipan síðasta bæjarins. Enn fremur sjást leifar nokkurra útihúsa í túninu. Uppbyggð heimreið liggur heim að bænum en framan eða austan við hann voru kálgraðar.”
Auk þess stendur skrifað: “Ölfusvatn var stórbýli á miðöldum og var þar komin sóknarkirkja um 1200. Jarðirnar Hagavík og Krókur eru gamlar hjáleigur frá Ölfusvatni sem ekki urðu stjálfstæð býli fyrr en á 10. öld. Sóknin sem Ölfusvatni tilheyrði var hins vegar með þeim minnstu í landinu – auk heimamanna og hjáleigubænda sótti þessa kirkju aðeins heimilisfólk á Nesjum. Ölfusvatnskirkja átti hálfa jörðina og Sandey í Þingvallavatni. Hún stóð fram undir 1600 en eftir það lagðist sóknin til Úlfljótskirkju, Í byrjun 18. aldar sáust enn “merki kirkjugarðs og leiða, og er þar nú skemmuhús, sem Jórutindurkirkjan skyldi staðið hafa.” Ekki er nú hvar kirkjan stóð en fast sunnan við bæjarhólinn er sjálfstæð rústabunga sem mögulega er hið forna kirkjustæði.
Nokkrar fleiri minjar eru þess verðar að skoða. Í brekkurótunum í túninu vestan við bæjarstæðið er steinn sem var friðlýstur af þjóðminjaverði 1927. Á honum er kossmark, áletrunin VES og ártalið 1736. Ekki er ljóst fyri hvað áletrunin stendur, hugsanlega er hún fangamark einhvers. Þá er svonefndur Blótsteinn, steinn með tilhöggvinni skál, á hlaðinu um 2 m austan við leifarnar af framhlið gaml bæjarins. Steinn þessi hefur löngum þótt merkilegur og ýmsar getgátur verið uppi um tilgang hans og uppruna. Sumir telja að hann hafi staðið fyrir dyrum hinnar fornu Ölfusvatnskirkju með vígðu vatni í en aðrir hafa leitt að því líkum að hann hafi verið hlautsteinn úr heiðni og hafi verið í hofi Grímkells goða. Sagt er frá slíkum steinum í fornum heimildum, t.d. Eyrbyggju og Hákonar sögu góða. Orðið hlaut merkir blóð fórnardýrs eða það sem guðirnir hljóta. Dýrum var slátrað goðunum til dýrðar og blóð þeirra sett í hlautbolla. Þaðan var því slökkt með svonefndum hlautteini á veggi hofsins og þá menn sem að blótinu komu.
Í örnefnalýsingu fyrir Ölfusvatn segir m.a. um hrautsetin þennan: “Hlautsteinn með bolla stendur í hlaðinu á Blótsteinn (hlautsteinn) á ÖlfusvatniÖlfusvatni. Sæmundur [Gíslason] segir, að steinninn hafi  um tíma verið notaður í hleðslu í bæjarhúsavegg. (Steinn þessi kann að vera úr hofi Þorgerðar hörgabrúðar, sem var að Ölfusvatni í heiðni, svo sem getið er í sögu Harðar Hólmverjakappa Grímkelssonar. Steinninn er nú friðlýstur og hefur varðveist vel).” Benda má að annar hlautsteinn, minni og handhægari, líkur skál, er þarna skammt frá. Sá virðist hafa verið í “smíðum” þegar hætt var við hann í hálfu kafi. Gæti sá steinn hafa verið gerður á tímamótum heiðini og kristni?
Í Harðar sögu segir frá því er Grímkell goði flytur bú seitt að Ölfusvatni: “Grímkell átti vítt goðorð. Hann var auðugur maður og höfðingi mesti og kallaður ekki um allt jafnaðarmaður. Hann færði bú sitt eftir konu sína dauða til Ölfusvatns, því að honum þóttu þar betri landskostir.” Síðar í sögunni er greint frá því að hof hafi verið við bæinn “því Grímkell var blótmaður mikill”. Hof þetta var helgað Þorgerði hörgabrúði, en hún var yfirnáttúruleg vera sem víða er getið í fornritum. Engar ótvíræðar hoftóftir sjást á yfirborði en örnefnið Hofkofi gefur þó vísbendinu hvar menn hafa talið að hofið hafi staðið á Ölfusvatni. Kofinn er eitt af fjárhúsum bæjarins en á seinni hluta 19. aldar var talið að hann hefði verið byggður á þeim stað sem hofið stóð áður.
Leiði Grímkells goðaÍ túni Ölfusvatns eru tvö örnefni sem minna á hinn forna goða, Grímkel. Annars vegar er það Grímkelsleiði sem er ógreinilegur og mjög forn garðstubbur sem liggur í boga suðvestur af gamla bænum. Ekki er nú vitað hvaða tilgangi hann hefur þjónað en innan hans er ójafna eða þúfa sem er kölluð Grímkelsleiði. Það telst til minja á Ölfusvatni sem hafa verið friðlýstar af þjóðminjaverði. Hér er talið að fornmaðurinn Grímkell hafi verið grafinn þótt nokkuð sé það málum blandið. Raunar töldu menn óræka sönnun þess koma fram í Harðar sögu. Þar segir að Grímkell hafi orðið bráðkvaddur undir borðum “ok var hann jarðaðr suð frá garði”. Þessi lýsing kemur óneitanlega heim og saman við staðsetningu Grímkelsleiðis en á síðari tímum hafa menn dregið sannleiksgildi Íslendingasagna nokkuð í efa og þar með frásögn þess.
Fleiri gerði eru í og við túnið, kölluð Utastagerði, heimastagerði og Stöðulgerði. Þau eru nú öll horfin og ekki vitað til hvers þau voru en getum hefur verið að því leitt að þau hafi verið akurgirðingar. Stöðulgerði var þar sem nú er tóft Stöðulhúsa, austast í túnjarðrinum, sunnan við gönguleiðina að bænum. Þar voru ær mjaltaðar eins og nafnið bendir til. Margar útihúsatóftir sjást í túninu, bæði niðri á flatanum og uppi í brekkunni ofan við bæinn.
Fjárborg við ÖlfusvatnAðeins er vitað um nafn á einu þessara húsa., Horkofa, en þar voru geymdar veiklulegar ær. Mógrafir voru í Bæjarmýri norðan við túnið og sjást þær enn. Suður frá Grímkelsgerði liggur breiður upphækkaður garður allt suður að Ölfusvatnsá. Ekki er vitað hvaða hlutverki hann gegndi en mögulegt er að þetta sé forn vegur. Skammt frá þar sem þessi garður endar við ána er rúst af fjárborg. Árbakkinn austan við Ölfusvatnsá gegnt bænum heitir Höggorrustubakki en ekki er vitað af hverju það nafn stafar. Innan garðs er tóft, nefnd hofkofi. Í örnefnalýsingunni segir að ” [þar] er gömul fjárhústóft, rétt norðan við Grímkelsdys. Munnmælasögur segja, að þar hafi verið hof í heiðni. Matthías Þórðarson taldi líklegra, að það myndi hafa verið í hól utan (vestan) við túnið, er ber í Tindgil. Sæmundur Gíslason telur, að þar hafi verið gömul fjárborg.” Að skoðun lokinni verður skoðun Sæmundar að teljast líklegri.
Þórðar saga kakala í Sturlungu greinir frá því er Símon knútur var veginn á Ölfusvatni árið 1243, en hann var einn þeirra er stóðu að vígi Snorra Sturlusonar. Tumi Sighvatsson – bróðursonur Snorra – kom á Ölfusvatn og lét taka Símon: “Var hann út leiddur og höggvin. Sá maður vá að honum, er Gunnar hét og var Hallsson, – hann var kallaður nautatík.”
NesjavellirSímon þessi var bóndi á Ölfusvatni en hafði frá blautu barnsbeini verið fylgdarmaður Gissuarar Þorvardssonar höfingja Haukdæla og síðar jarls yfir Íslandi. Símon hafði m.a. verið með Gissuri í Örlygsstaðabardaga. Svo virðist sem Ölfusvatn hafi á þessum tíma verið einskonar útstöð Haukdæla í vestri, Á 15. öld hafði jörðin komist undir Skálholtsdómkirkju og bjuggu þar eftirleiðis leiguliðar en margir þeirra voru þó mikilsvirtir menn og nokkrir lögréttumenn í þeim hópi á 17. og 18. öld.”
Fjárborgin fyrrnefnda vakti strax athygli FERLIRsfélaga við komuna að Ölfusvatni. Einnig forn garður utan við hinn “forna garð”. Þá vakti það ekki síst athygli að þrátt fyrir gagnmerkar upplýsingar á staðnum sem og tilvitnun í friðlýsingu þjóðminjavarðar frá árinu 1927, bæði hvar varðar áletrunina frá 1736 og á Grímkelsleiði, að hvorutveggja skuli ekki vera bæði haldið til haga og gert aðgengilegt, þ.e. merkt, áhugasömu fólki. Fyrirspurn um hvorutveggja mun hefur verið lögð bæði fyrir Þjóðminjasafn Íslands sem og Fornleifavernd ríkisins – með von um greið svör. Svörin munu án efa verða áhugaverð, sérstaklega í ljósi þess “létta” mikilvægis sem fornleifar á Reykjanesskaganum hafa haft til þessa.
FERLIR hefur að vísu leitað að og skoðað hinar merkustu fornleifar á svæðinu – en hvað um launaða Olfusvatn - 6varðmenn menningarverðmætanna, sem skv. lögum og reglugerðum eiga að gæta þess að allt sé skráð og allt það skráð sé jafnan varðveitt. Þá á FR að sjá til þess að friðlýstar minjar séu jafnan skráðar og að hægt sé að ganga að þeim þar sem þær eru. Merki þess til stuðnings eiga að vera við minjarnar – en þær var ekki að sjá við Ölfusvatn. Skv. Friðlýsingaskrá frá árinu 1990 segir m.a. um friðslýstar minjar við Ölfusvatn: ” 1. Girðing forn, er nefnist Grímkelsgerði og stór þúfa í því, nefnd leiði Grímkels, sbr. Árb. 1898: 2. 2. Jarðfastur grágrýtissteinn, með áletruninni VES+1736; hann er í túninu, suðaustan við gamla fjárhústóft, nær hulinn jarðvegi. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.”
Ölfusvatn – menningarminjar þess, ekki síst þær óskráðu – má án efa telja til merkustu fornleifastaða hér á landi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://ulfljotsvatn.blog.is/blog/ulfljotsvatn/guestbook/
-http://www.or.is/
-http://www.847.is/index0.php?pistill_id=31&valmynd=3&vo=12
-Örn H. Bjarnason.
-Örnefnalýsingar fyrir Ölfusvatn og Villingavatn.
-Árbók Fornleifafélagsins 1899, bls. 2.

Úlfljótsvatn

Fjárhöfðar

Jörðin Úlfljótsvatn hefur verið fornleifaskráð. Yfir 90 fornleifar fundust á 68 stöðum á jörðinni. Var þó ekki öll landareign jarðarinnar fullkönnuð. Bjarni F. Einarsson, doktor í fornleifafræðum hjá Fornleifafræðistofunni vann að fornleifaskráningunni vegna deiliskipulags í landi Úlfljótsvatns. Meðal fornleifanna er rúst fjárborgar við Borgarhóla (Borgin) sem eru NV af Hrútey, ca. miðja vegu vestan við vatnið. Aldur rústarinnar er talið vera tímabilið 1550-1900. Ástand rústarinnar er talið ágætt. Varðveislugildi og minjagildi telur fornleifafræðingurinn vera talsvert.

Kort af svæðinu

Norðan við Borgarvíkina eru Fjárhöfðarnir, ágætur útsýnisstaður yfir vatnið og suður yfir Sogið. Ekki síst er þar útsýni yfir Hrúteyna og sundið milli lands og eyjar. Tengist sundið þjóðsögu um skrímsli eða orm í vatninu og er undur yfir að líta t.d. í frostum að vetrarlagi vegna sérkennilegra strauma og fyrirbæra í vatninu. Til gamans má geta þess að samkvæmt þjóðsögunni er hið svikula eðli íssins á vatninu af völdum ormsins, hann brýtur upp ísinn þegar hann er á ferð. Að Fjárhöfðum er skammt að fara frá fjárborginni og nálægum beitarhúsatóftum við Hagavík sem eðlilegt er að tengja gönguleið með vatninu.
Fjárborgin og beitarhúsatóftirnar eru norðan við Höfðana (undir Borgarhöfða) milli Borgarvíkur og Hagavíkur. Hér er um að ræða minjar um aflagða búskaparhætti og nýtingu landsins og hljóta að teljast varðveisluverðar. Auk þess tengist staðurinn fyrrnefndri þjóðsögu (Þjóðsagnasafn Guðna Jónssonar) sem gefa honum enn meira gildi.

Fjárborg

Upp úr Hagavíkinni er auðveld og falleg gönguleið yfir að Þingvallavatni, eða upp á Björgin við sunnanvert Þingvallavatn, yfir að Sogi og Skinnhúfuhelli. Op hans snýr að Þingvallavatni. Skátar hafa jafnan fengið það verkefni að fara í Skinnhúfuhelli og reyna að rekja sagnfræðilega tengingu hans.
Til að komast í Skinnhúfuhelli þarf að fara um einstigi og hefur sumum fundist betra að snúa við en taka áhættuna að komast hvorki í hellinn né annað eftirleiðis. Um er að ræða þjóðsagnakenndan dvalarstað, sem óþarfi er að niðursetja hér til lengri framtíðar.
Í maí árið 1946 fann Jón Ögmundsson bóndi á Kaldárhöfða kuml, sem er gamall haugur, í Torfnesi. Torfnes er hólmi rétt sunnan við þann stað þar sem Sogið rennur út í Úlfljótsvatn. Af gerð forngripanna sem fundust í kumlinu má fullyrða að það sé síðan snemma á 10. Öld. Þarna voru fullorðinn maður og ungur drengur, 6-8 ára, grafnir.
BorginEnginn fornmaður sem hefur enn verið grafinn upp hér á landi, hefur verið eins ríkmannlega búinn og þessi. Í kumlinu fundust t.d. leðurbelti með bronssilgju, sverð úr silfri og bronsi, tvenn spjót, 6 örvar, bardagaöxi fatapjötlur úr fínu vaðmáli, hönk af silfurvír, fjórir tinnumolar, krókstjaki, tveir skildir, hnífur og svo mætti lengi telja. Af manninum varðveittust lítilfjörlegar beinaleifar og tvær mjólkurtennur fundust úr drengnum. Í kumlinu hafði einnig verið um 3 metra langur bátur og 80 sentimetra breiður.
Ýmsar kynjaverur virðast hafa haldið sig í og við Úlfljótsvatn. Í Suðra II er eftirfarandi lýsingu að finna:
“Í nóvember árið 1929 sást skrímsli eða vatnakind í Fjósavík sunnan við bæinn á Úlfljótsvatni. Hringsólaði skrímslið í víkinni. Voru þrjú horn eða uggar upp úr bakinu og um 2 metrar á milli þeirra. Var það að hringsóla þarna part úr degi. Hugðust menn fá meiri vitneskju um hvaða skepna þetta væri. Fóru þá tveir menn á báti með net og hugðust leggja það fyrir og króa það inni. Annar maðurinn var unglingur og var hálfhræddur og fór að henda í það. Kom þá styggð að dýrinu, svo það stakk sér niður og hvarf þar með sjónum.”
HruteyEngin skýring hefur fengist á þessu fyrirbæri.
Undir Dráttarhlíð voru geymsluskemmur Skálholtsstóls og aðrar við Þingvallavatn skammt frá upptökum Sogsins. Þarna voru búvörur og skreið flutt yfir. Mikið sog var þarna og flutningur þessi því ekki með öllu hættulaus. Eitt sinn barst í Sogið hluti af líkfylgd og líkið að auki.
Á 17. júní árið 1959 gerðist sá atburður við Efrafall að Þingvallavatn reis óvenju hátt í miklu roki þannig að stífla brast og mikið vatn streymdi í gegnum jarðgöng sem verið var að vinna við og hálfbyggt stöðvarhús. Miklar skemmdir urðu þarna og hreinasta mildi að þetta var á Þjóðhátíðardaginn og enginn við vinnu. Annars hefði eitthvað farið meira en líkfylgdin forðum, enda fjöldi manns starfandi bæði í göngum og stöðvarhúsinu virka daga. Fleiri vikur tók að týna saman spýtnabrak niður með öllu Soginu.

Heimild m.a.:
-http://ulfljotsvatn.blog.is/blog/ulfljotsvatn/guestbook/
-http://www.or.is/
-http://www.847.is/index0.php?pistill_id=31&valmynd=3&vo=12

Skinnhúfuhellir