Á landakorti LÍ frá árinu 1977 sést dregin gata er fylgir Skógfellavegi frá Grindavík að Stóra-Skógfelli. Í stað þess að halda áfram að Litla-Skógfelli og síðan áleiðis í Voga, eins og þekkt er, er gatan dregin til norðausturs frá Stóra-Skógfellshorni og upp að Nauthólaflötum í Fagradal og áfram í Dalssel. Þessi gata er merkt sem „vörðuð leið“. Annað hvort er um misskilning að ræða eða þarna hafi fyrrum legið gata frá Skógfellavegi og upp í Dalssel, selstígur Þórkötlunga á meðan þeir nýttu Dalsselið.
Í von um að enn gætu vörðubrot sést þarna er gæfu leiðina til kynna var haldið inn á svæðið frá Arnarsetri, austur með norðanverðu Stóra-Skógfelli og áfram inn á Skógfellahraunið. Þar var stefnan tekin til norðausturs, áleiðis að Fagradal.
Þrátt fyrir erfið gönguskilyrði í byrjun (snjór þakti jörð) lék veðrið við þátttakendur – logn og blíða í fjallasal. Snjóhlífar og -þrúgur auðvelduðu sumum gönguna til muna.
Í Arnarsetri hefur verið gerð bragarbót. Í stað mikils magns efnis, sem tekið var á sínum tíma við endurbætur á Grindavíkurveginum, hefur nú verið ekið þangað efni af framkvæmdarsvæði Bláa lónsins, bæði með það fyrir augum að nota svæðið sem efnistipp og um leið að endurheimta fyrri ásýnd þess. Ef haldið verður skipulega áfram með verkið má vænta þess að gígsvæðið sjálft hafi nánast fengið fyrri mynd eftir u.þ.b. tvær aldir. Hafa ber í huga að verðmæti Arnarseturssvæðisins á eftir að margfaldast á næstu áratugum og hundruðum.
Eftir að hafa fetað snævi þakið hraunssvæðið varlega, yfir hugsanlegar sprungur og gjár, þurfti að komast upp með Stóra-Skógfelli, sem hafði dregið að sér fannfergið. Við vörðu á norðausturhorni fellsins, við Skógfellastíginn, var áð og lagt á ráðin.
Meint gata af Skógfellavegi suðaustan við Stóra-Skógfell með stefnu í Fagradal gat auðveldlega legið þar inn í „dal“ þann er Sandakravegurinn liggur um millum Sandhóls og Skógfellavegs. Dalur þessi er mosavaxin hraunslétta (helluhraun), sem runnið hefur eftir að Skógfellahraunið rann. Það hraun hefur fyllt upp í sprungur, misfellur og jafnvel inn í eldri gíga á svæðinu. Dalurinn heitir Mosdalur. Ofan hans er fyrrnefndur Fagirdalur. Hraunið hefur það verið nefnt Dalaraun og þaðekki af ástæðulausu. Í ljósi þessa er enn áhugaverðara að skoða ummerki hinna fornu gatna yfir hraunið – því víða eru þær djúpt markaðar í hraunhelluna. Það eitt gefur til kynna hina miklu umferð um þær á u.þ.b. 600 ára tímabili, eða allt til 1910 er ferðir fólks um þær voru að leggjast af.
Á áningarstaðnum var tilvalið að rifað upp ferðalýsingu um Skógfellastíginn er birtist í Lesbók Mbl árið 2000: „Þessi grein um Skógfellaveg birtist í Lesbók Mbl í septembermánuði árið 2000: „Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svi sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar. Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Nokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur.
Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til þess að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfararleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Hér er greint frá Útivistargöngu um hluta þessarar leiðar s.l. sunnudag 3. september… frá Vogum. Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum. Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og hæsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var um síðar.
Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að komast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg, sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuðu eftir slysið. Við litum á gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæist til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.
Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið áfram, enda auðvelt og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógefll er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellana er þétt röð varða.
Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfell, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn, utan eins þátttakaanda sem raunar gekk á öll fell sem urðu á vegi okkar og dásamaði hann mjög útsýnið.
Þegar suður fyrir Stóra-Skógfell kom blasti við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. Á þessums lóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi göngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls. Rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga. Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því er kærkominn endapunktur á goðri gönguferð.“
Þá var stefnan tekinn upp í „dalinn“ og honum fylgt til norðausturs. Varða sást á hraunnibbu áður en komið var inn á Sandakraveginn. Í rauninni var ekkert eðlilegra en framhalda göngunni eftir sléttu helluhrauninu áleiðis í Fagradal. Til að gera langa göngusögu stutta má segja að þessi leið er svo greiðfær að hægt væri að aka eftir henni á óbreyttum jeppa. Úfið hraun birtist framundan, en vestan þess lá slétt hraunlæna inn að Aurum vestan Nauthólaflata. Frá hraunjaðrinum var leiðin greið inn í Fagradal og að Dalsseli.
Á stöku stað var að sjá hellu ofan á hellu, en verksummerkin gætu þess vegna hafa verið eftir refaskyttur, er sóttu inn í hraunið. Ekki var að sjá að þeim hafi tekist að útrýma skolla á svæðinu því fótspor eftir hann sáust víða á leiðinni, ekki síst við Stóra-Skógfell. Augljóst má vera að víða leynast greni á þessu svæði, enda lágrennanlegar hraunrásir margar.
Þótt ekki hafi verið hægt að sjá augljóslega varðaða leið frá Stóra-Skógfelli áleiðis í Fagradal verður að telja víst að hún hefur verið farin, enda bæði stysta og greiðfærasta leiðin milli Járngerðarstaða og Dalssels. Til stendur að fara inn á svæðið þegar snjóa leysir og gaumgæfa það betur með hliðsjón af framangreindu.
Eitt stendur þó upp úr – umhverfið og útsýnið er stórbrotið.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimild m.a.:
-Kort frá Landmælingum Íslands 1977.
-Lesbók Mbl 16. sept. 2000 – Kristján M. Baldursson.