Gengið var framhjá bæ Einars Benediktssonar, skálds, og Hlínar Johnson í Herdísarvík.
Herdísarvík.
Dyttað hafði verið að húsinu daginn áður og lítur það bara nokkuð vel út núna. Þegar farið var eftir heimtröðinni að gamla bænum mátti sjá gamla netasteina, steinum með mörkum í sem og gamla myllusteina. Framan við gamla bæinn er sjórinn að brjóta bakka og undan honum er smám saman að koma ýmislegt, sem einhvern tímann hefur tilheyrt smiðjunni við bæinn. Sjá má gólfborð undan bakkanum og einstaka málmhlut, s.s. fötuhald, nagla, stangir o.fl. Sjá má móta fyrir útlínum hússins á klöppunum framan við bakann.
Herdísarvík um 1900.
Gengið var suður með Herdísarvíkurtjörninni. Sunnan hennar eru góðir beitihagar auk þess sem vatnsbollar eru þar á víð og dreif. Lítið sést þar af minjum.
Haldið var vestur með ströndinni, sem hækkaði smám saman. Gróið er ofan við bakkann, en þar fyrir ofan tekur við lyng og kjarrivaxið Herdísarvíkurhraunið. Gengið var framhjá sandlóuhreiðri með þremur eggjum í, skammt vestar var stelkshreiður auk hreiðra nokkurra annarra fugla. Tófuspor sáust í sandinum ofan við bergið. Á nokkurum stöðum mátti sjá greni og voru sumhver merkt með hefðbundnum hætti; tveir steinar, annar ofan á hinum. Kjói flaug lágt yfir mosahrauninu, greinilega í leit að eggjum eða öðru ætilegu. Kríur sáust svo að sjálfsögðu ýmsar mávategundir. Gata liggur ofan við bergið, en hún er ógreinileg á köflum. Sjá má einstaka heila vörðu á leiðinni ef vel er að gáð, en einnig má sjá vörðurnar á leiðinni að Herdísarvík austan við selið, þá er liggur upp á og sameinast gömlu þjóðleiðinni skammt austan við Sláttudal.
Herdísarvík- hnyðja.
Víða var mikill reki ofan rekamarka og mátti innan um sjá fallegar hnyðjur og hnoðja, kúlur og keilur.
Gullkollur hafði skotið upp kollinum á nokkrum stöðum, en hann er eitt af einkennisblómum Reykjanessins. Hrafnaklukka, brjóstagras og smjörgras sáust einnig á stangli. Hluti hrossaleggjar lá í götunni, hauskúpa af selskóp, sakka og sérkennilegir steinar, sem sjórinn hafði kastað hátt á land.
Sjórinn var tiltölulega ládauður og virtist ekki abbast mikið upp á bergið. Gott tóm gafst því til að skoða bergsylluraðirnar, en þær voru sumstaðar allt að sex talsins, hver ofan á annarri. Skiptist á grágrýti og gjall.
Herdísarvíkurbjarg – brotgangur.
Á einum stað hafði sjórinn í einhverju reiðiskastinu brotið gat upp í gegnum bergið, en nú mátti sjá hann leika ljúft við það undir niðri. Á öðrum stað mátti sjá bergþursa ræðast við fyrir opinni vík. Litadýrð bergsins á kafla var einstök. Sjá mátti rautt innan um svart og grátt sem og gula og bleika steina, sem sjórinn hafði brotið úr berginu fyrir neðan og kastað upp á bakkann.
Skammt austan Seljabótar eru leifar af hlöðnum refagildrum. Hafa þær mjög látið á sjá. Einungis ein er nú með einhverju lagi og má vel sjá hlaðinn ganginn og hleðsluna utan um hana.
Herdísarvíkursel.
Haldið var að Herdísarvíkurseli. Ró hvíldi yfir tóftunum undir hraunkantinum. Upp úr einni þeirra stakk sér svartur hyrndur haus. Reyndist það vera rolla með lamb. Hafði hún leitað næðis í stærstu tóftinni. Þegar komið var nær sást þar önnur ær, þríhyrnd, með golsótt lamb. Þriðja hornið stóð svo til beint upp úr höfði kindarinnar og var það kindarlegt á að líta, líkara einhyrningi. Greyin voru ekki það styggar að ekki væri hægt að virða þær fyrir sér nokkra stund. Þá gengu þær í hægðum sínum út með hraunkantinum og fylgdu lömbin á eftir. Ær og lömb í seli tilheyra víst liðinni tíð.
Herdísarvegir – ÓSÁ.
Vatnsstæði selsins reyndust tóm, enda varla komið dropi úr lofti í marga daga. Megintóftin er undir hraunbrúninni, einn skammt sunnar, önnur austar og tvær sunnan hennar. Gerði eða kví er í hraunkantinum vestan megintóftarinnar. Herdísarvíkursel hefur verið myndarlegt sel á meðan var.
Gengið var upp með Seljabótagirðingunni að Sýslusteini. Í bakaleiðinni bauð fótgangandi álftapar ferðalöngum að virða fyrir sér tvo unga þess. Mátti varla á milli sjá hvort faðirinn eða móðirin væru stoltara af afkvæmunum sínum.
Grænavatn.
Grænavatn var óvenjugrænt og Krýsuvíkurhverirnir skörtuðu sérkennilegri skerpu undir sólstöfunum; rautt, blátt, grænt, grátt, hvítt og svart. Svæðið allt, sem reyndar allt tilheyrir Hafnarfirði nú af einhverjum óskiljanlegum nútímaástæðum (var reyndar ekki heldur skiljanlegar í þá daga er koma átti rauðum kúm þar til mjalta), en ætti með réttu að tilheyra Grindavík, enda í lögsagnarumdæmi þess, býður upp á mikla útivistarmöguleika, enda landslagið bæði fjölbreytt og fagurt. Hafnfirðingar hafa sýnt þessu sagnaríka og mikilfenglega svæði tilsýndaráhuga um nokkurt skeið. Á meðan hefur það slegið í eðlislægum takti við hjarta Grindvíkinga. Nafnið Krýsuvík (Deiluvík) er ekki komið af engu.
Veður var frábært – sólstafir og sætukoppar, en rigning í bænum.
Gangan tók 2 klst og 53 mín.
Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.