Tag Archive for: Grindavík

Arnarsetur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.

Dollan

Í Dollunni.

Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Kuppbur

Op í Kubbnum.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.

Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymi. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð.

Kubbur

Í Kubbnum.

Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).

Gíghæð

Vegavinnubyrgin á Gíghæð.

Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.

Dátahellir

Dátahellir.

Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.

Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

Arnarsetur

Arnarsetushraunshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Sjá meira HÉR.

Kubbur

Kubburinn.

Snorri

Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.

Snorri

Haldið upp í Snorra.

Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.

Snorri

Á leið í Snorra.

Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.

Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.

Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.

Snorri

Snorri – kort.

Sýslusteinn

Gengið var framhjá bæ Einars Benediktssonar, skálds, og Hlínar Johnson í Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Dyttað hafði verið að húsinu daginn áður og lítur það bara nokkuð vel út núna. Þegar farið var eftir heimtröðinni að gamla bænum mátti sjá gamla netasteina, steinum með mörkum í sem og gamla myllusteina. Framan við gamla bæinn er sjórinn að brjóta bakka og undan honum er smám saman að koma ýmislegt, sem einhvern tímann hefur tilheyrt smiðjunni við bæinn. Sjá má gólfborð undan bakkanum og einstaka málmhlut, s.s. fötuhald, nagla, stangir o.fl. Sjá má móta fyrir útlínum hússins á klöppunum framan við bakann.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Gengið var suður með Herdísarvíkurtjörninni. Sunnan hennar eru góðir beitihagar auk þess sem vatnsbollar eru þar á víð og dreif. Lítið sést þar af minjum.
Haldið var vestur með ströndinni, sem hækkaði smám saman. Gróið er ofan við bakkann, en þar fyrir ofan tekur við lyng og kjarrivaxið Herdísarvíkurhraunið. Gengið var framhjá sandlóuhreiðri með þremur eggjum í, skammt vestar var stelkshreiður auk hreiðra nokkurra annarra fugla. Tófuspor sáust í sandinum ofan við bergið. Á nokkurum stöðum mátti sjá greni og voru sumhver merkt með hefðbundnum hætti; tveir steinar, annar ofan á hinum. Kjói flaug lágt yfir mosahrauninu, greinilega í leit að eggjum eða öðru ætilegu. Kríur sáust svo að sjálfsögðu ýmsar mávategundir. Gata liggur ofan við bergið, en hún er ógreinileg á köflum. Sjá má einstaka heila vörðu á leiðinni ef vel er að gáð, en einnig má sjá vörðurnar á leiðinni að Herdísarvík austan við selið, þá er liggur upp á og sameinast gömlu þjóðleiðinni skammt austan við Sláttudal.

Herdísarvík

Herdísarvík- hnyðja.

Víða var mikill reki ofan rekamarka og mátti innan um sjá fallegar hnyðjur og hnoðja, kúlur og keilur.
Gullkollur hafði skotið upp kollinum á nokkrum stöðum, en hann er eitt af einkennisblómum Reykjanessins. Hrafnaklukka, brjóstagras og smjörgras sáust einnig á stangli. Hluti hrossaleggjar lá í götunni, hauskúpa af selskóp, sakka og sérkennilegir steinar, sem sjórinn hafði kastað hátt á land.

Sjórinn var tiltölulega ládauður og virtist ekki abbast mikið upp á bergið. Gott tóm gafst því til að skoða bergsylluraðirnar, en þær voru sumstaðar allt að sex talsins, hver ofan á annarri. Skiptist á grágrýti og gjall.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg – brotgangur.

Á einum stað hafði sjórinn í einhverju reiðiskastinu brotið gat upp í gegnum bergið, en nú mátti sjá hann leika ljúft við það undir niðri. Á öðrum stað mátti sjá bergþursa ræðast við fyrir opinni vík. Litadýrð bergsins á kafla var einstök. Sjá mátti rautt innan um svart og grátt sem og gula og bleika steina, sem sjórinn hafði brotið úr berginu fyrir neðan og kastað upp á bakkann.

Skammt austan Seljabótar eru leifar af hlöðnum refagildrum. Hafa þær mjög látið á sjá. Einungis ein er nú með einhverju lagi og má vel sjá hlaðinn ganginn og hleðsluna utan um hana.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Haldið var að Herdísarvíkurseli. Ró hvíldi yfir tóftunum undir hraunkantinum. Upp úr einni þeirra stakk sér svartur hyrndur haus. Reyndist það vera rolla með lamb. Hafði hún leitað næðis í stærstu tóftinni. Þegar komið var nær sást þar önnur ær, þríhyrnd, með golsótt lamb. Þriðja hornið stóð svo til beint upp úr höfði kindarinnar og var það kindarlegt á að líta, líkara einhyrningi. Greyin voru ekki það styggar að ekki væri hægt að virða þær fyrir sér nokkra stund. Þá gengu þær í hægðum sínum út með hraunkantinum og fylgdu lömbin á eftir. Ær og lömb í seli tilheyra víst liðinni tíð.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvegir – ÓSÁ.

 Vatnsstæði selsins reyndust tóm, enda varla komið dropi úr lofti í marga daga. Megintóftin er undir hraunbrúninni, einn skammt sunnar, önnur austar og tvær sunnan hennar. Gerði eða kví er í hraunkantinum vestan megintóftarinnar. Herdísarvíkursel hefur verið myndarlegt sel á meðan var.
Gengið var upp með Seljabótagirðingunni að Sýslusteini. Í bakaleiðinni bauð fótgangandi álftapar ferðalöngum að virða fyrir sér tvo unga þess. Mátti varla á milli sjá hvort faðirinn eða móðirin væru stoltara af afkvæmunum sínum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn var óvenjugrænt og Krýsuvíkurhverirnir skörtuðu sérkennilegri skerpu undir sólstöfunum; rautt, blátt, grænt, grátt, hvítt og svart. Svæðið allt, sem reyndar allt tilheyrir Hafnarfirði nú af einhverjum óskiljanlegum nútímaástæðum (var reyndar ekki heldur skiljanlegar í þá daga er koma átti rauðum kúm þar til mjalta), en ætti með réttu að tilheyra Grindavík, enda í lögsagnarumdæmi þess, býður upp á mikla útivistarmöguleika, enda landslagið bæði fjölbreytt og fagurt. Hafnfirðingar hafa sýnt þessu sagnaríka og mikilfenglega svæði tilsýndaráhuga um nokkurt skeið. Á meðan hefur það slegið í eðlislægum takti við hjarta Grindvíkinga. Nafnið Krýsuvík (Deiluvík) er ekki komið af engu.
Veður var frábært – sólstafir og sætukoppar, en rigning í bænum.
Gangan tók 2 klst og 53 mín.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Reykjanes

Drepið á örnefni:

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

„Þegar sagt er í veðurfregnum, að djúp og kröpp lægð sé skammt undan Reykjanesi, vita sjómenn, hvað átt er við, en í máli fréttamanna og ýmissa, sem vilja þó fræða um landið, er Reykjanes alloft allur Reykjanesskagi. Ef menn vilja virða mál sjómanna og hefðbundið mál Suðurnesjamanna, segja þeir ekki, að Keflavík sé á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum, og ekki, að Keilir sé á Reykjanesi, heldur á Reykjanesskaga. Ég kom eitt sinn á bæ á Suðurlandi og var settur við borð með ungri konu af næsta bæ. Hún kvaðst vera frá Reykjanesi. Þetta reyndist vera nákvæm kynning; hún var nefnilega dóttir vitavarðarhjónanna á Reykjanesi. Þar undan er Reykjanesröst, og ekkert lamb að leika við fyrir sjófarendur.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Reykjanes í merkingunni Reykjanesskagi fór að tíðkast, eftir að Reykjaneskjördæmi varð til (það var árið 1959). Þá varð svæði þess umdæmi ýmissar opinberrar starfsemi, einnar af annarri. Ég nefni aðeins dómsmál, þar sem heitið varð Héraðsdómur Reykjaness. Heitið Dómur Reykjaneshéraðs á betur við. Brátt heyrir Reykjaneskjördæmi sögunni til, og mætti það vera tækifæri til að virða betur málfar Suðurnesjamanna í tali um Reykjanes.“

Fjölmiðlafólk fer oft villu vega og tala um Reykjanes þegar fjallað er um Reykjanesskagann. Skaginn nær yfir fyrrum landnám Ingólfs, sem úthlutaði síðan vinum og vandamönnum einstök svæði, þ.a. Herjólfi, sem fékk Reykjanes.
Þá er rétt að geta þess að Suðurnes nær einungis yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga, en ekki Skagann allan vestanverðan.

-Björn S. Stefánsson
-http://www.simnet.is/bss/oernefni02.htm

Reykjanes

Reykjanes.

Ferlir

Haldið var upp Mosaskarð með öflugri sveit HERFÍsmanna.
Á leiðinni var litið ofan í Mosaskarðshelli, en ekki farið niður í hann. Uppi við brún að vestanverðu fundu hinir vönu hellamenn strax lykt af opinni rás og fannst þá op (Mosaskarðshellir efri) er reyndist vera um 20 metra hellir í lítilli rás.

Ferlir

Í Ferli.

Gengið var beint upp hraunið yfir á jökulskjöldinn og þaðan á ská áleiðis í FERLIR. Hann var skoðaður í um 3 klst. Skoðaðir voru um 450 metrar af hellinum, en hann mun enn ekki vera fullkannaður. Kúbeinið góða var ekki með í för og takmarkaði það möguleikana að nokkru. Litið var á djásnin og ýmislegt fleira kom í ljós við nánari skoðun.
Björn Hóarsson lifir á reynslunni enda hefur hann ásamt félögum sínum skoðað flestalla hraunhella á Íslandi. Hann er ekki vanur að láta háfleyg lýsingarorð fylgja útlistunum á nýfundnum hellum, vill í seinni tíð hafa þá rúma og mikla um sig. Hann sagði þó litadýrðina í FERLIR vera sérstæðu hans, glerjunginn á veggunum og lengdina og þar með hliðarrásirnar.

K-4

K-4

Leitað var að opnum ofar eftir stækkaðri loftmynd. Reyndust þar vera göt, sem skoðuð voru í maímánuði í fyrra. Þær rásir eru heldur ekki fullkannaðar.
Þá var haldið niður á K-hellasvæðið og það skoðað. Fundust enn fleiri op en í síðasta leiðangri. Nefnast þau K-4, K-5 og K-6. Þá fannst K-7, en hann er framhald af K-6. Á svæðinu virðast vera hellingur af hellum.

K-4 er með fallega niðurgöngu. Um er að ræða gasuppstreymisop að hluta og upp úr því er liggur um 40 metra rás. Grönn rás liggur þvert á hana, en niðurleiðin skiptist í tvær rásir. Reyndist önnur vera um 80 metra og hin um 120 metra. Hellirinn er því um 240 metra langur.
K-5 er 60-70 m langur.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

K-6 er víð og há rás. Liggur um 120 metra löng rás til hægri, en framundan er þverrás, bæði upp í hraunið og niður. Hliðarrásin opnast í jarðfalli og heldur síðan áfram niður um 60 metra. Þar er hann mjög hár og víður og var ís í botninum.
Ljóst er að hellasvæði þetta er að mestu ókannað, en þarna leynast áreiðanlega fjölmargar fallegar rásir sem og aðrar gersemar.
Í bakaleiðinni var gengið niður helluhraun, farið yfir fallega hrauntröð í apalhrauni og gróinni hlíð fylgt nokkra leið. Þá var gömlu girðingunni upp úr Mosaskaði henni fylgt áleiðis að skarðinu, farið yfir stóra og fallega hraunrás og síðan áfram niður skarðið. Á leiðinni niður voru nokkrar hraunbombur teknar til handargangs.
Hlýtt og bjart. Gangan tók 7 klst og 2 mín.

Mosaskardshellir

Í Mosaskardshelli. (BH)

Skagagarður

Í skýrslu Samvinnunefndar um skipulagsmál á Suðurnesjum og gefin var út árið 1989 koma fram margir áhugaverðir punktar um náttúruminjar, menningarminjar og útivist. Þessir eru helstir:

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

1. Mosaþemban (gamburmosi) er einkennisgróður á Suðurnesjum.
2. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Má með sanni segja að gamburmosi sé einkennispnanta Reykjanesskaga.
3. Um aldir hefur svæðið verið ofnýtt af mönnum og skepnum, þar sem sauðfé nagaði stráin, en mannfólkið hjó kjarrið og reif lyngið til eldiviðar meðan eitthvað var eftir í þessu mýrarlausa og þá um leið mólausa landi. Sandfok tók einnig stóran toll af gróðrinum. Búseta manna hefur því haft mjög mikil áhrif á gróðurfarið og því miður hafa þau áhrif í flestum tilvikum verið til hins verra hingað til.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

4. Skilningur íbúa á friðun lands hefur verið að aukast.
5. Á áratug má sjá árangur friðunnar vestan svonefndrar Grindvíkurgirðingar, en það hefur verið friðað fyrir beit þann tíma.
6. Kjarrlendi á í vök að verjast bæði vegna uppblásturs og beitar, sem er alls staðar nema innan skógræktargirðingar.
7. Um Reykjanessfólkvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins.

8. Mosaþemba er útbreiddasta gróðurlendið. Henni er skipt í fernt: 1. Í einföldustu mynd, 2. með lyngi, 3. með lyngi og kjarri, 4. og með grasi.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

9. Reykjanesskagi er ákaflega eldbrunninn og eru sprungur og gígaraðir algengar. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum sem runnið hafa eftir að jöklar síðasta jökulsskeiðs hopuðu. Á Reykjanesi munu jöklar hafa horfið fyrir um 12-13 þúsund árum, nokkru fyrr en víðast annars staðar á landinu.
10. Á Suðvesturhorninu er áhugi fólks á útiveru og náttúruskoðun mikill. Reykjanesskaginn er eins og stór sýningarsalur fyrir það afl sem skapar Ísland, þ.e. eldvirkni.

Hrútagjárdyngja

Í Hrútagjárdyngju.

11. Mikill hluti Reykjanesskagans er þakinn nútímahraunum. Þeim má skipta í tvo flokka eftir uppruna þeirra og útliti. Annars vegar eru hraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum (apalhraun). Hins vegar eru hraun sem runnið hafa frá svonefndum dyngjum (helluhraun).
12. Utanverður Reykjanesskagi einkennist af þremur stórum dyngjum; Sandfellshæð, Þráinsskyldi og Hrútargjárdyngju.
13. Nokkrar minni dyngjur eru á Reykjanesi og eru þær flestar svonefndar „píkrit“ dyngjur, s.s. Skálafell, Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Hraunssels-Vatnsfell.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.

14. Hraun á sögulegum tíma eru t.d.; Stampahraun (1226), Tjaldstaðagjá (1226), Klofningshraun (1226), Eldvarpahraun (1226), Illahraun (1226), Arnarseturshraun (1226), Afstapahraun (runnið skömmu eftir landnám), Ögmundarhraun (1151), Hraun vestan Mávahlíða (1151 eða síðar), Kapelluhraun (1151), Flatahraun (Hvaleyrarholtshraun) (1000), nokkur hraun í Brennisteinsfjöllum (runnin eftir landnám og einhver á fjórtándu öld), nokkur hraun í Heiðmörk (runnin eftir landnám).
15. Auk þess hefir oft gosið á sögulegum tíma í sjó undan Reykjanesi og munu flest þau gos hafa verið í grennd við Eldey.
16. Dæmi um menningarminjar eru; Drykkjarsteinn, selsrústir, varir og uppsátur, Skagagarður og gamlar þjóðleiðir.
17. Síðasta stóra goshrinan á Reykjanesi var um landnám opg önnur fyrir um 2500 árum.
18. Grindavík er reist á hrauni sem rann fyrir 2000-2500 árum frá Sundhnúkagígum.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

19. Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari, og fer það saman við bergmyndun hans; móbergssvæði, grágrýtissvæði og mójarðveg á Miðnesheiði.
20. Gildi útivistar- og íþróttasvæða hefur aukist mikið hin síðar ár.
21. Einn mikilvægasti þáttur í skipulagi útivistar eru göngur og útivera.
22. Fá svæði á landinu eru auðugri að menningarminjum. Sumir vitna um forna atvinnuhætti, t.d. gamlar verstöðvar og seljarústir. Tilvalið væri að skipuleggja útivist og ferðamál með tilliti til þessa. Þeirra á meðal eru gömlu þjóðleiðirnar, en á svæðinu eru margar leiðir og bera flestar nafn. Sums staðar vitna hófklöppuð för í hraunklappir um það hversu fjölfarnar þær voru. Nauðsynlegt er að þeim verði haldið við og varðaðar upp.
23. Nauðsynlegt er að opna útivistarsvæði fyrir allan almenning.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Hraun

Gengið var frá Hrauni austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík í fylgd Péturs Guðjónssonar, fyrrverandi skipstjóra, uppalinn í Höfn á Þórkötlustaðanesi.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

Byrjað var þó á því að kasta kveðju á Sigga á Hrauni. Hann benti m.a. á að skírnarfontur sá, sem fannst við gröft utan í hól austan við bæinn fyrir u.þ.b. ári síðan, hafi verið færður norður fyrir bæinn. Gat hann þess að Árni Magnússon hafi á sínum tíma sagt frá því í dönsku blaði að kirkja hafi verið á Hrauni frá 1226. Kapellan skammt austan við Hraun, ofan við Hrólfsvíkina, mun vera frá því á 15. öld. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í hana um miðja 20. öld og fundu í henni nokkuð af munum, en síðan var hún orpin sandi að nýju.

Hraun

Hraun – signingarfontur (skírnarfontur).

Skírnarfonturinn er ekki ólíkur þeim sem er við Kálfatjarnarkirkju og er sagður vera úr kaþólskum sið. Einnig kemur til greina að þarna hafi verið um „stoðholustein“ að ræða líkt og sjá má í gamla Herdísarvíkurbænum. Þá hefur komið fram tillaga að um steinninn gæti hafa verið drykkjarsteinn fyrir hesta, líkt og er við Glaumbæ í Skagafirði.*
Gengið var vestur með norðurgarðinum og staðnæmst við við gamla túnhliðið þar sem gatan út í hverfi og áfram út á Þórkötlustaðanes lá. Pétur sagði að áður hafi brekkan þar norðvestan við verið sandorpin og því stundum erfið yfirferðar, en nú er hún að mestu gróin, sennilega mest eftir kríuna.
Gengið var áleiðis út á Slokahraun. Fylgt var gamla grjótgarðinum. Pétur benti á fyrrum áningarstað hestamanna á leið þarna um, en síðan voru fiskbyrgin og garðarnir skoðaðir þarna í hrauninu. Þeir eru Hraunsmegin og hafa að mestu fengið að vera óáreittir. Minna á hina gömlu fiskverkunaraðferð.

Slokahraun

Sögunarhóll.

Vestan við Sögurnarhól mátti enn sjá brennivínsflöskuna frá fyrri ferðum. Hún er nú rúmlega hálffull. Gengið var um þurrkgarðana sunnan við Hraunkot og inn á Klappartúnið, því fylgt framhjá tóftum gamla Klapparbæjarins og yfir að Buðlungu. Þar var Ólafur Gamalíasson að bjástra við spýtur. Tekið var tal af honum. Fræddi hann viðstadda m.a. um hvaða stefnu Suðurstrandarvegsmálið hefði nú tekið með tilkomu orkuvers á Reyjanesi.

Klöpp

Klöpp.

Gamli bærinn í Klöpp lagðist af á fyrri hluta 20. aldar. Þar gistu áður margir mektarmenn, s.s. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Timburhús, sem þá var byggt, flaut upp í óveðrinu 1925. Um 1930 var húsið Klöpp og Teigur sambyggð í brekkunni ofan við réttina.

Hóp

Hóp – kort ÓSÁ.

Gengið var niður að Buðlunguvör. Pétur sagði að áður hafi verið stór varða neðst í Buðlungutúninu og hefði hún borið í vörðu uppi á heiði. Það hafi verið stefnan inn á Bótina, en síðan hafi vörðurnar ofan við bryggjuna á Nesinu tekið við. Skoðaðar voru svonefndar Þvottaklappir þar sem ferskt vatn kemur undan klöppunum, litið á æðaregg, brúnleit hraunreipi, gæsarhreiður o.fl. á leiðinni neðan við fiskverkunarhúsin.
Eftir að hafa gengið yfir Kónga var stefnan tekin þvert á Þórkötlustaðanesið áleiðis yfir að Nesi Hópsnesmegin. Á leiðinni mátti sjá æðaregg, hrauntröðina miklu um þvert Nesið, en hún er í hrauninu er kom úr gígunum Vatnsheiðinni ofan við Húsfell (Húsafell).

Hópsnes

Hópsnes – þurrkgarðar.

Miklir þurrkgarðar eru Hópsnesmegin, sjóbúðartóft á grónum hól o.fl. Gengið var að Goðatóftinni neðan við Hóp og litið á hugsanleg ummerki eftir landsnámsbæ þar í túninu. Fróðlegt væri að fara með jarðsjá yfir túnin á þessum stað og kanna undirlagið. Mótar fyrir stórri tóft og hringlaga garði, auk fleiri tófta utar í túninu.
Loks var litið á blóðþyrnirinn á Tyrkjaflöt, en hann er sagður hafa vaxið upp af blóði kristinna manna og heiðinna þar sem mættust heimamenn og Tyrkir 1627. Talið er að þyrnir (þystill) þessi vaxi á tveimur stöðum á landinu.
Frábært veður – sól og hlýtt. (2 klst og 2 mín).

*Guðbjartur Kristófersson

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna.
Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina. Vatninu var safnað af húsþökum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.
Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða.
Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Áður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.
Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Áður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.
Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.

Þórkötlustaðanes

Bátarnir í Nesi.

En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.

Þórkötlustaðanes

Þórshamar.

Jóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.
Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana. Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim aftur.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu.

Þórkötlustaðanes

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.
Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi. Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Sundvörður á Þórkötlustaðanesi.

Innsiglingavörðurnar (sundvörðurnar) voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.
Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi. Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

Þegar gengið er um Þórkötlustaðanesið og út á Hópsnesið má víða sjá upplýsingarskilti um strönd og skipsskaða og jafnvel brak úr bátum.
Þurrkgarðar eru frá fyrr tíð ofar á Nesinu sem og gömul þurrkbyrgi í Strýthólahrauni, skammt vestan við Þórshamar.
Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.

ÓSÁ skráði eftir Pétri Guðjónssyni.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Sigvaldi Kaldalóns

Eftirfarandi ljóð Guðmundar E. Geirdals var tileinkað Sigvalda Kaldalóns, tónskáldi, en eins og kunnugt er bjó Sigvaldi í Grindavík. Ljóðið heitir „Gleymdu ekki að hlusta…“ og birtist í ljóðabók Guðmundar „Lindir niða“ er gefin var út árið 1951. Ljóðið minnir Grindvíkinga og aðra á hversu mikilvægt er að kunna að hlusta á þögnina, umhverfið og njóta þess „ævintýralands“, sem þeir eiga.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Komir þú í Grindavík um glæsta júnínótt,
gleymdu ekki að hlusta þegar allt er kyrrt og hljótt.

„Maðurinn í hrauninu“ hörpu sína slær,
hreinni tónum enginn úr strengjunum nær.

Þér finnst hraunið lifna og ljóma slá á sand,
litla víkin breytist í ævintýraland.

Þarna ríkir ástin og æskuvonin hlær.
Úthafið og byggðin þér færist hjarta nær.

Berg og hólar opnast og álfar fara á kreik,
þeir iðka faldafeykinn við hörpuslagans leik.

Strönd

Strönd.

Hafgúur á ströndinni stíga léttan dans,
stefna brúnaljósum í áttina til hans.

Fögur er sú hönd, sem þér opnar æðri svið
og eyrað næmt, sem hlerar hinn dulda strengjaklið.

Það hjarta er milt og göfugt, sem gengur list á hönd
og gullnar perlur finnur á þagnarinnar strönd.

Mundu að vaka og hlusta, þó að morgunn færist nær,
því „maðurinn í hrauninu“ gígju sína slær.“

Sundhnúkur

Við Sundhnúk.

Mikilvægt er fyrir Grindvíkinga, líkt og alla aðra, að kunna að hlusta. Sagt er að virk hlustun sé góð leið til að láta öðrum líða betur – og verða sjálf/ur fróðari á eftir. Það er því til mikils að vinna – án nokkurs tilkostnaðar.

Vilji til að hlusta felur í sér virðingu og hvatningu. Hlustun er lykill að góðum samskiptum því „maður hlustar á þann sem maður virðir“. Það er slæmur síður að grípa fram í fyrir fólki, en slíkt virðist því miður of algengt á meðal landans. Sá sem hlustar á síður á hættu að missa af gullkornum.

Sjá minnisathöfn um Sigvalda í Grindavík HÉR.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns.

Ferlir

Tveir fræknir FERLIRsfélagagar tóku að sér að kanna bestu hugsanlegar leiðir að FERLIR, m.a. til að undirbúa væntanlega för þangað með HERFÍsmönnum.

Ferlir

Í Ferli.

Skv. kortamælingum virtist vera jafn langt á svæðið frá öllum hugsanlegum nálgunarstöðum. En með því að fara upp Mosaskarð og síðan velja þaðan hentuga um tvo Óbrennishólma leið virtist nokkuð greiðfært að opinu. Gangan frá skarðinu tók um eina og hálfa klukkustund og tiltölulega greiðfært. Einnig er ætlunin að skoða hið nýfundna hellakerfi, auk þess sem næsta nágrenni FERLIRs verður gaumgæft.

Ferlir

Í Ferli.

Félagarnir skoðuðu hellinn, en ljóst er að í honum eru lágar rásir, sem virðast opnast inn í stærri rásir. Þær þarf að skoða nánar. Mikil litadýrð er í hellinum og virðist hann mjög viðkæmur fyrir ágangi, einkum vegna hins þunna glerjungslags, sem þekur svo til allar rásir.
Fleiri myndir úr hellinum munu birtast á næstunni (sjá HÉR).

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.