Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún „síamstvíburi“ Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru „símastvíburar“ Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.
Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við „miniture“ Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.
Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem „einbirni“ þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.
Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að „gjósa“ á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu „túristagosi“ líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. „Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki „..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…“ Síðan segir í beinu framhaldi: „Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…“
Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).
Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is