Tag Archive for: Grindavík

Festisfjall

Langflestar hæðir og ásar ofan Grindavíkur hafa fellsnefnur, en þó eru þar til einstök fjöll. Festarfjall (Festisfjall) er brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er burt. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu.

Festarfjall-27

Áður hafi FERLIR farið um Skálasand frá Lambastapa yfir á Hraunssand við Hraunsvík að Hrólfsvík, en nú var leiðin tilbakagengin með það að markmiði að skoða nánar hinar fjölbreytilegu og margvíslegu jarðmyndanir í þessum þverskornu merkilegheitum, sem Festarfjallið og Lyngfellið eru. Einungis er hægt að ganga fjörunar undir fellunum á lágfjöru, en gæta þarf vel að brimlagi og flóðahættu því auðvelt er að lokast inni á Skálasandi ef og þegar aðstæður eru óhagstæðar. Þá þarf að varast að ganga og nálægt berginu vegna stöðugs grjóthruns.
Á jarðfræðikorti ÍSOR er Festarfjallið talið einn af athyglisverðari stöðum á Reykjanesskaganum: „Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti.
Festarfjall-28Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur.
Festarfjall-29Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.“
Í verndunartillögum frá 2002 segir m.a.: „Skammt austan við Hraunsvík er Festarfjall þar sem sjávarrof hefur sorfið helminginn af móbergsfjalli. Í Festarfjalli og bergstálinu vestan þess eru merkilegar opnur. Í Hraunsvík er hraunlag með mesta magni hnyðlinga sem þekkist hérlendis. Jökulberg á milli móbergs (með hnyðlingum) og hrauns. Greinilegar jökulrákir á móberginu. Hnullungabergslag í móbergi, hraunstraumur (gangur) hefur troðið sér þar inn á litlu dýpi. Festin í Festarfjalli er berggangur sem gengur upp í gegnum móbergið og tengist hraunlagi ofar. Litlu vestar eru áberandi gaspípur í berginu. Skjólgóð sandströnd er neðan Festarfjalls og er talsvert varp í björgunum og í grastorfum (lundi, rita, fýll). Ógnir: Vegagerð og námavinnsla.
Landnotkun: Einhver efnistaka er ofan vegar við Hraunsvík og við Festarfjall. Tillaga er um verndarsvæði í Hraunsvík.“

Í þjóðsögu er fjallsins getið. „Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. 

Í þessari ferð FERLIRs var ætlunin m.a. að hlusta eftir rödd úr fjallinu. Þegar staldrað var við í sjávarhelli rétt austan við syðsta bergganginn, sem skagar út úr fjallinu, mátti heyra eftirfarandi, endurtekið nokkrum sinnum með lágum og dimmum rómi:

Í Festarfjalli oss býr
á Hraunsbónda hug snýr
heitir ey[eið] björg.
Verði orð fleiri
bara einu of mörg
þætti vér miður
ef nefnds dóttir heyri
fellur þá festin niður.

Festarfjall-30Jón Trausti skrifaði eftirfarandi um Festarfjall á leið hans frá Grindavík til Krýsuvíkur: „Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur. Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum. Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.“
Frábært veður. „Þegar veðrið er gott í Grindavík er það hvergi betra“ [Guðbergur Bergsson].
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Rauðskinna I 45.
-isor.is
-Verndun jarðminja á Íslandi – Tillögur vegna náttúruverndaráætlunar 2002, Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson. Unnið af Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, Reykjavík, nóvember 2002.
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón Trausti, 6. nóv. 1949, bls. 508.

Grindavík

Festarfjall og Hraunssandur.

Hraun

Gengið var af stað fimm dögum fyrir umsnúning, hvort sem um var að ræða stystan dag, lengstu nótt eða umbirtingu nýrrar vefsíðu (www.ferlir.is). Veðrið var frábært þennan laugardagsmorgun. Sólarupprásin gyllti stilltan heiðbláan Grindavíkursjóinn sunnan Hrauns. Lognið var algert. Snær þakti jörð svo varla var auðan blett að sjá.

Vatnsheiði

Einungis gamlir garðar, tóftir og önnur mannanna verk stóðu upp úr – og reyndu að njóta augnabliksins. Kristallarnir er þöktu jörðina glitruðu í sólarljósinu líkt og  óteljandi demantar. Vestar reyndi dimmur kólgubakki að gera sig breiðan.
Ætlunin var að ganga austur með ströndinni, skoða Gamlabrunn og 15. aldar kapellu ofan Hrólfsvíkur. Jafnframt var ætlunin að nota sjónvitin til nýrra uppgötvanna, feta sporið upp Skarðið með Berjageira ofan Hálsgeira milli Húsafells og Fiskidalsfjalls og upp að gígopum Vatnsheiðar þar efra, dyngnanna þrigga ofan Hópsheiðar við Grindavík. Vatnsstæði það sem heiðin dregur nafn sitt af suðvestan undir þeim stærsta. Úr honum liggur greinileg hraunrás í sveiga til suðurs. Nokkur gróin jarðföll eru í rásinni. Eitt þeirra, það næsta Húsafelli, hefur vakið sérstaka forvitni FERLIRs. Ætlunin var að skoða þar niðurí. Einnig að komast niður í K-9, op á neðstu dyngjuhæðinni. Þá var og ætlunin að huga að hlöðnum refagildrum, gamalli leið milli Grindavíkurbæjanna og Ísólfsskála með ofanverðri Hrafnshlíð um Svartakrók og Stórusteina sem og gamalli leið milli Hrauns og Þórkötlustaða.
Vættur Efri-hellir, hinn þjóðsagnakenndi „Tyrkjahellir“, er hluti Vatnsheiðardyngnanna. Krosshlaðin refagildra kúrir í Slokahrauni sem og ýmsar aðrar minjar er geyma þjóðsögulega leyndardóma.
Ætlunin var að taka hús á Sigga (Guðjóni) Gísla á Hrauni (fæddur 1923), en hann var ekki heima. Þegar staðið er við Hraunshúsið eins og það er í dag má vel sjá hvar gamla gatan lá vestur eftir heimatúninu í átt að Hliðinu þar sem vegurinn lá yfir að Þórkötlustaðarhverfi. Enn eldri stígur (Eyrargata) lá til suðvesturs um hlið á hlöðnum garðinum og yfir Slokahraunið, framhjá Hraunkoti og niður í sendna fjöruna við Klöpp og Buðlungu. Enn mótar fyrir henni í hrauninu, norðan margra herðslugarða og -byrgja.
Heimabrunnurinn er neðan kálgarðs, en gamli bæjarhóllinn er skammt suðaustan við núverandi hús. Þegar Siggi og fleiri voru að jafna fyrir viðbyggingu við fjárhúsin kom m.a. upp stoðsteinn, sem nú er norðvestan við íbúðarhúsið („Litla-Hraun“). Af ummerkjum á steinum að dæma virðist húsið hafa verið allmyndarlegt. Steinninn hefur að öllum líkindum verið undir framgaflinum, en heimildir eru um kirkju á Hrauni á 17. öld.
NíanÍ yfirliti yfir sögu Grindavíkur samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703. Í upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703. Áttrært skip Skálholtstóls á Hrauni fórst 8. mars 1700, en þrjú skip frá Grindavík fórust með áhöfn þann dag, en það fjórða brotnaði. Skiptapar voru og á Hrauni árin 1632 og 1641. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það róið úr Þorkötlustaðanefi.
Vatnsöflun var erfið í Hrauni og sökum áfoks spilltust tún og hagar. Ekki var unnt að hafa nokkra skepnu heima við á sumrum og var farið langar leiðir með hesta á beit í dagslok, enda þótt nota ætti þá næsta dag. Vetrarbeit í fjöru var léleg á vetrum vegna þess hve há fjaran er og lítið útgrynni. Reki var allgóður á fjörum Hrauns og þar var selveiði nokkur. Í Hraunsvík voru góð skötu- og ýsumið. Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9.

Tyrkjahellir

Skóg til kolagerðar brúkaði jörðin 1703 í almenningum sem aðrar jarðir í sveitinni. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmaskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti. Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík. Um eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum. Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.” Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði. Sigurður Gíslason býr nú (2006) á allri jörðinni og er þar annars vegar stundaður sauðfjárbúskapur og hins vegar námavinnsla jarðefna. Jafnframt eru önnur hlunnindi jarðarinnar nytjuð.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Skammt austan við gamla bæjarhólinn, sem nú hýsir fjárhúsin, eru gömu fjárhús, líklega frá því um aldarmótin 1900. Vörslugarður heimatúnanna sést enn vel. Honum var lengi haldið við, enda fékk bóndinn á Hrauni „Dannebrogsorðu“ fyrir hleðslu hans og fleiri garða við hraun fyrrum á 18. öld. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Garðarnir standa að mestu enn – og minningin lifir. Sambærilegir garðar í Járngerðarstaðarhverfi og í Staðarhverfi fóru í ferðalag á fjórða áratug 20 aldar. Grjótinu úr þeim var kastað upp á vörubílspalla, enda lá það vel við – snyrtilega upp raðað og beið þess að menn kæmu og hirtu það. Grjótinu var síðan sturtað undir bryggjurnar, sem þá voru í byggingu og urðu grundvöllur framþróunar byggðarlagsins. Það má því segja að grjótið hafi gengið í endurnýjun lífdaga, enn og aftur með tilhlýðilegum árangri – eða a.m.k. tilgangi.
Skammt austan fjárhústóftanna eru leifar af gamalli refagildru. Enn austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Hraunssandur virðist lítt áhugaverður, nema þegar krían er þar á varptímanum og sækir með harðræði að forvitnum vegfarendum. Hraunsmenn hafa löngum staðið vörð um kríuvarpið og stuggað eggglöðum frá. Deilur við nágrannana, sem vildu nýta varpið, er flestum löngu gleymdar. Þó lifa enn nokkrar smellnar sögur, sem síðar verða kannski birtar – í bók.
BerjarimiÍ Gamlabrunn sóttu m.a. Þórkötlustaðabúar vatn fyrrum. Vatnið í honum þótti gott. Í dag er einungis lítið op efst á brunninum, en ef höfðinu er stungið niður um það má sjá formlegar hringlaga hleðslur. Dýptin er nú um 80 cm, en talsverður sandur hefur sest í botninn.
Milli brunnsins og kapellunnar ofan við Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er nokkuð stór þúst, um 60 cm há. Hún er gróin og sker sig nokkuð úr umhverfinu. Strandlínan er nú næstum komin að henni, en ekki er ólíklegt að undir bungunni kunni að leynast mannvistarleifar. Utar gæti fyrrum hafa verið byggingar, en sjórinn nú tekið til sín. Kapellan sem og brunnurinn bendir til nálægðar við meiri byggð fyrrum.
Einhverra hluta vegna var kapellutóftin tekin sem dys sú, sem enn sést ofan Hrauns í byrjun 20. aldar og komst þannig á skráningarspjöld sögunnar.
„Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
VatnsstæðiðHann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.“
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á fyrrnefndum manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.
Kapellunni hefur lítt sómi verið sýndur í seinni tíð. Ryðgað járndrasl er umhverfis tóftina, sem var orpin sandi eftir uppgröftinn.
Fiskidalsfjall (202 m.y.s.) er eitt fárra „fjalla“ á Reykjanesskaganum, önnur fjöll eru fell. Vestan þess er Húsafell (172 m.y.s.). Milli þeirra er Berjageiri. Haldið var upp með honum. Neðar var ein af fjarskiptastöðvum NATO (Bandaríkjamanna) allt fram á sjöunda áratug 20. aldar. Leifar hennar sjást enn mitt upp í geiranum, grunnar tveggja húsa og fæstur og festingar mastranna á víð og dreif. Nú eru þana sandnámur Hraunsmanna.
VatnsstæðiðEfst í geiranum eru minjar eftir vatnsþró varnarliðsmannanna í loftskeytastöðinni. Borhola hefur verið þar og vatni dælt upp. Síðan hefur það verið sjálfrennandi um lögn niður geirann. Vatnið þótti gott og vildu sumir Þórkötlustaðabúar að fá að nýta holuna eftir að herinn hvarf á braut.
Loftur Jónsson segir m.a. um þetta svæði: „Alla mína vitneskju  um örnefni í Hraunslandi hef ég frá Magnúsi Hafliðasyni, þeim fróma manni.
Berjageiri er næstum þríhyrnd gróðurtorfa utan í hlíðinni á Fiskidalsfjalli, þar sem það snýr að Húsafjalli, og nær aðeins niður í rætur fjallsins. Rýmið á milli fjallanna heitir SKARÐ. Þegar menn ferðuðust þarna um gengu þeir ýmist niður Skarð eða upp Skarð eftir því í hvora átt þeir fóru.
Bandaríkjamenn (Nato-Varnarmáladeild) tóku eignarnámi einhverja hektara lands neðan við Skarð á árunum milli 1950 og 1960.  Þarna á melunum var ekki stíngandi strá og allra síst krækiber, í mesta lagi óx þarna geldingahnappur. Það var sáð þarna grasfræi á milli vélaskemmanna þannig að í dag gætu menn haldið að þarna hefðu þeir tillt niður fæti á gróðurlendi.
Þar sem húsin voru byggð var eiginlega efsti hluti Hraunssands.  Þar sem dæluhúsið stóð þá eru menn komnir í Vatnsheiði.
Á unglingsárum mínum og síðar átti ég mörg spor um þessar slóðir og landið þarna er mér í fersku minni.“
Hraunsmenn hafa verið að reyna að nýta sér efni bakatil í fjöllunum (fellunum). Stórusteinar voru þar, þ.e. stórt grjót er hrunið hafði úr efri brúnum, en þeir voru færðir í nýjan varnargarð í Járngerðarstaðahverfi. Það eru því engir „Stórusteinar“ til lengur, en örnefnið lifir með varnargarðinum. Hann mætti því að ósekju heita „Stórusteinagarður“.
Skammt norðar er stórt jarðfall. Um er að ræða hluta af hrauntröðinni úr miðgíg Vatnsheiðardyngjunnar. Þrátt fyrir leit fannst engin leið inn í rás úr jarðfallinu.
Skoðað var hið hrikalega gígop efstu dyngjunnar á Vatnsheiði sem og vatnsstæðið, sem heiðin ber nafn sitt af suðaustan undir því.

Minjar

Ætlunin var að fara niður í K-9. Búið var að forfæra 12 m langan stiga upp að opinu, en þegar til átti að taka reyndist dýptin vera rétt rúmlega það. Það var því ákveðið, af öryggisástæðum, að bíða með niðurför. Samkvæmt upplýsingum afkomanda Hraunsbóndans á þarna niðri að vera um 300 metra löng göng, en Hellarannsóknarfélagsmenn hafa talið þau mun syttri.
K-9 var nefndur svo eftir að jarðýtu, Catepilar 9, var ekið um Vatnsheiðina er jörðin opnaðist skyndilega undir henni á þessum stað. Ýtustjóranum tókst að koma sér og farartækinu á jarðfastan stað, en litlu mátti muna að illa færi. Dýptin er, sem fyrr sagði, um 12 metrar.

K-9

K-9.

Þá var stefnan tekin á „Tyrkjahellinn“ eða Efri-helli á hæðarbrúninni vestan Húsafells. Á leiðinni voru tvær vörður. Þær munu vera við gömlu efri leiðina, sem fyrr var minnst á, milli Skála og Járngerðarstaða. Þá var farið ofan við Hrafnshlíð, með hæðunum vestanverðum og síðan af Vatnsheiðinni niður á Hópsheiði þar sem alfararvegur lá heim að bæjum.
KapellanUm Efri-helli er sagt að í hann hafi Grindvíkingar ætlað að fljýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.
Tvö op eru á hellinum. Það vestara er auðveldara umleikis. Þar fyrir innan er rúmgóður hellir. Nú er mold í botni sem er afrakstur moldroks af heiðinni sem og vatnsfærslu niður á við.
Rýmið gefur vel tilefni til að hýsa álitlegan fjölda.
Í aðdraganda jólanna las einn þátttakendanna, Gugga Erlings, jólasögu frá fyrri hluta fyrri aldar („Stórkostlegastur allra“, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18. desember 2001). Efnisinnihaldið var vel við hæfi en þar sagði frá ungu grenitré er vaxið hafði við hliðina á gömlu og óálitlegu lauftré. Litla grenitréð, sem átti framtíðina fyrir sér, vildi ekki að gamla lauftréð, sem hafði gefið öðrum laufin af sér til ýmissa nota, skyggði á það. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir allt – að lokum, fannst fólki mikið til fórnlundar gamla trésins koma. Líf er líf – hvers stofa sem það er.

Gamli brunnur

Gengið var niður af heiðinni inn á Slokahraun, sem rann úr Moshól undir Hagafelli á sínum tíma, í mjórri ræmu niður heiðina og myndaði nesið milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis; Sloka.  Niðurlútur hraunkarl fylgdist vel með mannaferðum. Í hrauninu er krosshlaðin refagildra, sem nú var barin augum. Inngangarnir hafa verið fjórir. Líklega er þarna um að ræða þá tegund af gildrum er trégrindur þjónuðu síðar er yrðlingar voru teknir úr grenjum og refaskyttan reyndi með ámótlegu væli þeirra að laða foreldrana að til hirðingar.
Á heiðinni sem og í hrauninu mátti víða sjá fótspor eftir ref í snjónum.
Eldri refagildra er neðar í Sandleyni. Loks voru skoðaðar gamlar götur vestan heimatúnsgarða hrauns, s.s. Eyrargatan og fyrsti akvegurinn yfir að Þórkötlustöðum.
Dysin sú, sem minnst var á í tengslum við kapelluna á Hraunssandi, er ofan túngarðs. Sigurður Gíslasyni, bóndi á Hrauni, sagði FERLIR á sínum tíma frá þessum á grónum hraunhólnum norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum. Hann sagði aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem að framan greinir.
Ekki er þó loku fyrir það skotið að hleðslurnar á hólnum kunni að hafa þjónað þeim tilgangi að vera mið inn í Hraunsvörina, sem er þarna neðan við. Líklega hefur sundvarða verið þar á millum, sem nú er horfin, eða varða á þessum hól hafi tekið mið í eitthvert kennileitið efra, s.s. Þorbjörn.
Frábært veður, sem fyrr sagði. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/04.pdf
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.
-„Stórkostlegastur allra“, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18.desember 2001.

Vatnsheiðarvatnsstæði

Frykkjarsteinn

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurgatan gamla.

Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkrar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn að vetrarlagi.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda.
DrykkjarsteinnÁtti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan. 

Ljóð hefur verið ort um Drykkjarsteininn í Drykkjarsteinsdal. Það er eftir Símon Dalaskáld og er svona:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að hann hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót.“
Þegar FERLIR var á ferð um dalinn s.l. sumar hafði þornað í báðum skálum hans, enda óvenjumikil þurr- og og hlýviðri það sumarið.

-Sagan er úr Rauðskinnu, bls. 120, II. bindi.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Vegavinnubúðir

Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1831 er Sandakravegur sýndur milli Voga-Stapa og Slögu ofan við Ísólfsskála.
Kort Björns frá 1831Skv. uppdrættinum ætti vegurinn að hafa legið yfir norðanvert Arnarseturshraun að Litla-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hraunssvæðið norðvestan Litla-Skógfells og rekja Sandakraveginn, sem markaður er í slétta hraunhelluna, frá Skógfellinu að Sandhól og til baka niður frá norðanverðu Litla-Skógfelli að Snorrastaðatjörnum (Vatnsgjám) austan Háabjalla. Gatan hafði áður verið rakin niður (suður) frá Voga-Stapa (skammt austan fyrsta akvegarins til Grindavíkur 1913-1918), um Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram undir aðliggjandi vestlægum grónum brúnum Háabjalla. Þar beygir gatan til austurs að Snorrastaðatjörnum. Spurningin var, sem eftir stóð, ef tekið er mið af uppdrættinum fyrrnefnda, hvort leið hafi legið yfir Arnarseturshraunið norðanvert eður ei.
Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns, en frumgerðin er enn í Kaupmannahöfn. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir. [Taka verður þó mið af nákvæmari staðsetningum síðari tíma og munar stundum töluverðu].
Gata að vegavinnubúðunumBjörn hafði lokið háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann var kennari við latínuskólann á Bessastöðum. Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Gerði við vegavinnubúðirnar

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga á mælingaleiðangrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.
Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af Myndanir í Arnarseturshraunilandinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar. Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd Í Arnarseturshraunistærra kortsins með færri nöfnum. Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.
Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðangrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum.
SandakravegurKortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Flóraður stígur um Stóru-Aragjá

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.
Með framangreint að leiðarljósi var byrjað að leita að mögulegum götum þvert í gegnum norðanvert Arnarseturshraun. Greiðfærasta svæðið var hins vegar sunnan við eðlilega leið millum Voga-Stapa og Litla-Skógfells.
Þegar komið var yfir að Litla-Skógfelli var þegar haldið inn á Sandakraveginn. Millum Skógfellanna er gatan djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna.

Byrgi refaskyttu

Sandakravegur er vel markaður í hraunhelluna áleiðis að Litla-Skógfelli. Þá hverfur hún skyndilega í mosann. Vörðurnar, sem nú eru, virðast hafa komið til seinna. Vegurinn virðist hafa legið beint að miðju fellinu, enda þar verið hinn ákjósanlegasti áningarstaður. Síðan hefur hann legið með fellinu til austurs og inn á núverandi Skógfellastíg. Þegar staðið er uppi á Litla-Skógfelli og horft yfir undirlendið til norðurs mátti glögglega sjá hvar „eðlilegasta“ leiðin hefur legið; annars vegar eftir Skógfellastígnum og hins vegar niður með austanverðum hraunkanti Arnarseturshrauns áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Líklega hefur sú leið fremur verið valin af kunnugum. Um er að ræða bæði gróna og slétta leið, ýmist með hraunkanti og/eða gjám. Þessi leið er svolítið styttri en t.a.m. núverandi Skógfellastígur, sem liggur niður í Voga. Sandakravegurinn lá hins vegar ekki niður í Voga, heldur var leið milli Njarðvíkna og Skála. Leiðirnar koma þó aftur saman á öðrum stað, þ.e. skammt austan Snorrastaðatjarna. Þar liggur gata sú, sem fylgt hafði verið niður með hraunkantinum og niður um gjár, inn á Skógfellaveginn og fylgir honum síðan á u.þ.b. 100 metra kafla. Þá eru aftur gatnamót þar sem Sandakravegurinn af Skógfellavegi áleiðis niður að miðjum Snorrastaðatjörnum að austanverðu.
Varða við SandakraveginnÞegar „Skógfellastíg“ var fylgt yfir hraunhaft norðan Litla-Skógfells var komið að stórri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá af stígnum niður með gróinni hraunbrúninni. Auðvelt var að rekja götuna niður sléttu og um gjár. Á brún Stóru-Aragjá (Brandsgjá) var t.a.m. varða. Við hana var gatan flóruð, þrep fyrir þrep, niður gjána. Þaðan lá hún glögglega niður að austanverðum Snorrastaðatjörnum. Niður Litlu-Aragjá var gengið um gróið haft og götunni síðan fylgt áfram áleiðis að tjörnunum. Þegar komið var að austustu tjörninni virtist gatan hafa legið yfir hana (nú var reyndar óvenjumikið vatn í tjörnunum). Handan hennar sást gatan vel. Vestan veið núverandi skátaskála er vestasta tjörnin hvar mjóst. Þar er og grynnst. Gatan liggur að þeim  stað og sást síðan vel handan hans. Þaðan lá gatan að vestanverðum undirlátum Háabjalla, áleiðis að norðanverði Seltjörn og síðan upp heiðina að Voga-Stapa.
Gengnir voru 12 km og margt gaumgæft. Ljóst er að á leiðinni milli Litla-Skógfells og Snorrastaðatjarna eru nokkrar mosagrónar vörður er vísa leiðina. Svo var að sjá að ferðalangar hafi ekki lagt í Arnarseturshraunið með öllum þeim varnöglum er það hafði upp á að bjóða. Þeir virtust hafa farið öruggu leiðina, með gróningum og hraunköntum, þvert á Snorrastaðatjarnir – þar sem þær eru grynnstar. Leiðin í heild hefur verið nokkuð greiðfær og nánast hindrunarlaus. Á leiðinni að tjörnunum var gengið fram á tvö hlaðin byrgi refaskyttna nálægt grenjum.
Af framangreindu má sjá að uppdregin leið Björns Gunnlaugssonar af Sandakravegi millum Slögu og Voga-stapa, hefur verið nokkuð nærri lagi. Ljóst er að á þeim „scala“, sem umræddur uppdráttur er, hefur verið erfitt að teikna leiðina með mikilli nákvæmni, en þegar hún er skoðuð „í heildina litið“ má telja nokkuð víst að leiðin hafi legið um Snorrastaðatjarnir.
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 44 mín.
Heimildir m.a.:
-http://kort.bok.hi.is/kort.php?a=g&cat=8

Snorrastaðatjarnir (Vatnsgjár)

Baðsvellir

Sel og selstöður í Grindavík“ – eftir Guðrúnu Ólafsdóttur.

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Í ritinu “Söguslóðir”, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, ritar Guðrún Ólafsdóttir um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi. Í því segir hún m.a.: Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir.

Einbúi

Sel Ísólfsskála sunnan Selskálar.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum. Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fék aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa selstöðu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Járngerðarstaðamenn geru og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. “.aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangar var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæ góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Það eru aðeins Krýsuvíkurbændur, sem njóta þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. Skúli Magnússon landfógeti kallar jörðina fremur landjörð en sjávarjörð og lýsir henni m.a. á þess leið: “Landrými er mikið; eru þar hraun, fjöll og rauðleitar moldir; tún og engi er gott, og má auka það með tilkostnaði, svo að fleiri ábúendur getið setið þar”.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Ef til vill er það þessi góðu búskaparskilyrði, sem valda því, að ekki hefur tekist að hafa upp á neinum heimildum um selstöður frá Krýsuvík eftir daga Jarðarbókarinnar 1703. Um aðra hluta hreppsins gegnir öðru máli. Í verðlaunaritgerð Skúla Magnússonar, sem áður er getið, er ekkert minnst á selstöðu í Krýsuvíkursókn, en um Grindavíkursókn segir hins vegar: “En 2 mílur í norðaustur frá byggðalaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar í selstöðu. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selstöðurnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
Sr. Geir lýsir einnig selsstöðunni á Selsvöllum, að þar sé allgrösugt og bítist fljótt upp, vegna þess að allir bæirnir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli, þótt þeir greiði Staðarprestinum ekkert fyrir, og segir hann, að hann hafi heyrt, að flestir bæir hafi haft í seli einhvers staðar til fjalla, en vatnsleysi hafi valdið því, að þau væru niðurlögð og allir hafi þyrpst á Selsvelli, því að þar sé dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt sé að reka í selið 8. viku sumars en úr því í 16 eða 17. viku sumars, “nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum”. Af því að ekkert sé afréttarlandið sé allt fé, ungt og gamalt, lömb og sauðir, rekið í selið og smalað á hverju máli og lömbin séu kefluð.

Hraunssel

Hraunssel.

Þessum siða að kefla lömb er lýst hjá Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili í íslenskum þjóðháttum og Þorvaldi Thoroddsen.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega, enda ekki margir kostir heima fyrir ef marka má lýsingu sr. Geirs: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá séra Geir til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsunum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis.

Selsvellir

Selsvellir – horft af Þórustaðastíg að Kúaflöt.

Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ.e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars horaðan og nytlausan “þegar peningur allstaðar annarstaðar gjörir hvar mest gagn, og er í bestum holdum, og er þetta til allmikils ama mörgum búanda hér í sveit sem á stundum ekki þá hafa náð inn töðum sínum af túnunum.”

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
Í nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Rétt er að geta þess hér að óvíst er að Fitjar hafi vaxið úr seli líkt og Vigdísarvellir. Þó er það ekki með öllu ólíklegt. Hins vegar er Selshóll austan við Selöldu og undir honum eru mjög gamlar tóftir, sem gætu verið af seli því er nefndir eru í þjóðsögunni af Tyrkjunum er komu upp Ræningjaastíginn og selstúlkunum. Skammt vestsuðvestan við tóftirnar eru aðrar fleiri og heillegri, en þær munu vera af bænum Eyri, sem þar var. Sá bær gæti hins vegar hafa sprottið upp úr gama selinu því þar hafa landshagir verið góðir, en nú er þar veruleg landeyðing eins og annars staðar á Krýsuvíkurheiðinni.
Skammt sunnan við þær tóftir mótar fyrir fornum garði og a.m.k. tveimur fjárborgum og ílöngum stekk, líkt og í Strandarseli (lambastekkur).

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

“Hvenær lögðust selfarir í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. “Síðar”, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, “þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag”.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um Reykjanesskagann sumarið 1883 kom hann bæði að Hraunseli og seljunum á Selsvöllum í rústum. Hann kom á Baðsvelli, sem hann reyndar kallar Baðvelli, og minnist ekki á selstöður þar né heldur rústir eftir sel, og á Vigdísarvöllum fann hann samnefndan kotbæ.
Hér er komin gróf tímasetning. Einhvern tímann eftir 1850 og fyrir 1883. Samt er ekki öll sagan sögð.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram fór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.

Magnús kennir fólk á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870.

Selsvellir

Stekkur (rétt) á Selsvöllum.

Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.
Það má spyrja, hvað lifi enn eftir af þessum búskaparháttum, sem lögðust af fyrir um það bil öld. Í huga Magnúsar Hafliðasonar lifir minningin um selfarir foreldra hans. Hann kann einnig að segja frá öðrum seljum en Hraunseli, sem hann álítur að sé á Selsvöllum. Innar á Selsvöllum veit hann um Sogasel.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg – Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt mun vera, að Sogasel er fyrir norðaustan Selsvelli við Sog, suðvestan við Trölladyngju og Grænudyngju og var í landi Stóru-Vatnsleysu og nytjað frá Kálfatjörn, en ekki frá Stað eða Tóftum eins og haft er eftir Magnúsi. Magnús þekkir einnig Dalsel og segir það vera frá Húsatóftum, og hann veit um sel á Baðsvöllum. Margrét Daníelsdóttir, f: 1899, og Þorsteinn Ólafsson, f: 1901, bæði frá Grindavík,vissu um tvö sel á Baðsvöllum, það eystra frá Hópi, en hinu vissu þau eingin deili á. Ennfremur vissu þau um sel á Selsvöllum, sem þau þekktu ekki. Gísli Guðjónsson frá Hlíð í Gerðahreppi, f: 1891, hafði drukkið kaffi á Vigdísarvöllum, þegar hann var smákrakki. Hann áleit, að á Selsvöllum hefði getað verið sel. “Það veit enginn fyrir víst”. Þetta er það sem stúdentar grófu upp um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sumarið 1976.

Dalssel

Dalssel.

Samt má enn um sumardaga ganga selgöturnar gömlu og skoða tóftarbrot víða um Reykjanesskagann og einnig í Grindavíkurhreppi. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, hefur um áraraðir viðað að sér fróðleik um þetta efni og veit man best um það. Hann hefur farið um allan skagann og leitað seljarústa, mælt og teiknað upp grunnmyndir af þeim, sem hann hefur fundið. Hann fullyrðir að leifar sé að finna eftir sel á öllum þeim stöðum, sem nefndir hafa verið hér að framan nema við Seltún, á Baðsvöllum og í Fagradal. Við Seltún hafa ummerki horfið vegna umsvifa í sambandi við brennisteinsnám á 18. og 19. öld. Á Baðsvöllum er nú skógræktarlundur Grindvíkinga. Dalsel hefur Gísli aldrei fundið, þrátt fyrir nokkra leit, en um það segir svo í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, 1961: “Dalsel er í Fagradal við samfellt fjall. Þar sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur eru nú uppblásin fyrir löngu”.
[Tóftir sels í Fagradal sjást vel norðan Nauthólaflata. Dalurinn sjálfur er uppblásinn, en grónar torftur er norðaustast í dalnum. Þar eru tóftirnar á bakka gamals árfarvegar. Vestan við selið eru grónar brekkur. Farið var nokkrum sinnum á staðinn til að leita að selinu, en þangað er langt að fara og torsótt. Það fannst loks á nefndum stað.

Litlahraun

Selstaða í Litlahrauni.

Hér hefur verið sýnt fram á að sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: “Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.”.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

„Ekki hefur tekist að tímasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll“.
Tveir staðir eru þó ónefndir í framangreindum lýsingum. Það eru selstöður Krýsuvkurbænda í Kringlumýri undir Hettu og í Litlahrauni. Í Kringlumýri er væntanlega að finna elstu selsminjar hér á landi, allt frá tímum Húshólmsbæjanna við hina fornu Krýsuvík – jafnvel fyrir sögulegt landnám…

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanes

Jón S. Guðlaugsson skrifaði B.Ed.-ritgerð um „Skólasögu úr sjávarplássi“ í KHÍ 2007. Hér verður hún skoðuð að hluta með hliðsjón af sögu millistríðsáranna.
Hrönn GK 50 - 1935Í inngangi segir m.a.: „Til umfjöllunar er skólafyrirkomulag, uppeldi barna og atvinnuhættir á millistríðsárunum í tveimur sjávarþorpum á Suðurnesjum. Þorpin eru Grindavík og Hafnir. Hvað varðar atvinnuhætti þá snerist nánast allt um fiskveiðar og landbúnað í sjávarþorpum á þessum tíma. Stundaður var sjálfsþurftarbúskapur þar sem allir voru sjálfum sér nógir og þurftu lítið að sækja annað um aðdrætti. Menn nýttu sér náttúruna og hugurinn var við sjóinn. Börn voru fegin þegar skóli endaði á vorin og þau gátu hjálpað til við meðhöndlun á fiski, tekið þátt í sauðburði á vorin og síðar heyskap yfir sumarið. Skólaganga var ekki löng á þessum tíma. Börn sóttu skóla frá tíu ára aldri til fermingar en árið 1926 kom löggjöf sem leyfði sveitarfélögum að hefja nám barna við sjö ára aldur. Stundað var hefðbundið bóknám en lítil aðstaða var til kennslu í leikfimi, handmennt og smíði. Sund var kennt við mjög frumstæð skilyrði. Skemmtanir voru sjaldan haldnar. Svokallaðir flakkarar vöktu gleði og kátínu þegar þeir birtust. Á þessum tíma var þeirra skeið að renna út vegna breytts tíðaranda.“
Fyrsti barnaskólinnViðmælendur voru Sigurður Gíslason á Hrauni og Guðlaugur Eyjólfsson frá Höfnum.
„Bæði Hafnir og Grindavík eru sjávarþorp frá gamalli tíð. Afkoma fólks byggðist á fiskveiðum og landbúnaði. Algengt var að fjölskyldur hefðu eina til tvær kýr og nokkrar kindur til viðbótar. Að mestu var um að ræða sjálfsþurftarbúskap. Fólk lifði á því sem náttúran gaf. Vinnuaðferðir voru staðnaðar og höfðu nánast ekkert breyst í nokkrar aldir. En framfarir í landbúnaði komu fram í byrjun 20. aldar með tilkomu nýrrar tækni.
Börn á millistríðsárunum ólust upp við mjög ólík skilyrði miðað við í dag, í byrjun 21. aldar. Þeirra lífssýn var allt önnur en tíðkast hjá börnum í dag. Þau ólust upp í beinum tengslum við atvinnulífið. Fóru á unga aldri að fylgjast með hvað var um að vera bæði til lands og sjávar. Börn voru í náinni snertingu við náttúruna. Þeirra leiksvæði var náttúran sjálf, fjaran steinar, klettar og grjót. Þegar bátar komu að landi var fylgst með af áhuga og setið dreymandi um að einhvern tíma færu þau á sjóinn eins og pabbi og afi. Á þessum tíma var verkaskipting þannig að karlmenn fóru á sjóinn en konur voru heima að hugsa um barnauppeldi, sjá um heimilið og sinna þeim  skepnum sem til staðar voru. Fyrir börnin var þetta einn ævintýraheimur þar sem alltaf var eitthvað um að vera til að fylgjast með. Áhugi var á að fylgjast með og læra þau vinnubrögð sem fyrir augu bar. Báðir viðmælendur mínir, þeir Guðlaugur og Sigurður, eru sammála um að sjórinn og það sem tengdist honum hafi verið þeirra heimur.

Kennsla

Samgöngur voru frumstæðar miðað við það sem er í dag. Ýmist var gengið, farið á hestum eða sjóleiðin valin. Þeir efnameiri áttu hesta en aðrir þurftu að ganga. Ekki var auðvelt að ganga á þessum árum. Það voru langar leiðir í verslun. Ekki voru til vegir heldur vegslóðar sem voru grýttir og egglaga steinar voru á vegi fólks sem fóru illa með fætur. Leiðin var löng í verslun og gat verið hættuleg að vetri til enda kom fyrir að menn urðu úti í slæmum veðrum. Þetta stuðlaði að því að ekki var farið að heiman nema brýna nauðsyn bar til.
Allt fram til loka 18. aldar fór kennsla fram á  heimilum landsmanna. Kenndur var lestur, skrift og kristindómur. Yfirleitt voru það foreldrar barna sem sáu um kennsluna og eins og gefur að skilja var algjörlega undir þeim komið hvernig til tókst.
Í Grindavík hófst farkennsla hjá Jóni bónda í Krosshúsum árið 1883. Þar var kennt lestur, skrift og reikningur. Aðal hvatamaður að stofnun skóla var séra Oddur V. Gíslason prestur á Stað. Hann var ekki ánægður með menntun barna í sinni sveit. Hann lagði það á sig að safna fé til skóalgjalds með því að bændur legðu sitt af mörkum auk þess sótti hann styrk út Torkellisjóði. Kennsla hófst síðan á þremur stöðum í Grindavík árið 1888, það er á Stað í Staðarhverfi, Garðhúsum og Járngerðarstaðarhverfi og Hrauni í Þórkötlustaðahverfi.

Sundlaugin

Kennt var eina viku í senn á hverjum stað. Ráðinn var til kennslunnar maður að nafni Pétur Guðmundsson sem hafði kennt áður í barnaskólanum í Garði. Kenndi hann í tvo vetur. Fyrsta skólahúsnæðið í eigu Grindavíkur var hús byggt úr steini í Járngerðarstaðahverfi. Það var vígt 6. janúar 1913. Árið 1929 var skólasókn færð niður í sjö ára aldur. Þá voru nemendur 19 í eldri deild (12 og 13 ára) og 22 í ynrgi deild (10 og 11 ára) og 27 í ungbarnadeildinni (7 til 9 ára). Þá var bætt við einum kennara. Auk þess var nauðsynlegt að kenna í Þórkötlustaðahverfi. Það þótti ekki stætt á því að láta ung börn ganga á milli hverfa. Á tímabili var kennt á þremur stöðum. Í Þórkötlustaðahverfi þar sem skólastofan var í kjallarakompu (á Hrauni), í Járngerðarstaðahverfi í gamla skólanum og í Kvenfélagshúsinu, einnig í Járngerðarstaðahverfi.
Sigurður, heimildarmaður minn, hóf nám í Garðhúsm árið 1930, þá 7 ára gamall. Þá var búið að setja lög að sveitarfélögum væri heimilt að láta börn hefja nám 7 ára gömul. Meðal barnanna var skólinn kallaður Rollingaskóli. Eftir þrjá fyrstu veturna fór hann síðan út í hverfi og hóf nám 10 ára gamall í fyrsta skóla Grindavíkur sem var byggður árið 1912 úr steini. Fyrir þann tíma fékk hann kennslu heima hjá móður sinni.
Eftir að Sigurður var fermdur bauðst kennsla í kvöldskóla en hann var ekki tilbúinn að þiggja hana. Hann fór að vinna við sjómennsku, fékk réttindi sem vélstjóri og stýrimaður.
Sigurður lærði að synda í gjá sem er nálægt Reykjanesvita. Hún er nálægt sjó og er volg. Búið var að byggja yfir hana. Búningsklefar voru ekki til staðar þannig að strákar og stelpur skiptu um föt sitt hvou megin við vegg. Sundkennarinn var með aðstöðu inni í litlu húsi sem stóð við gjána.“

Heimild:
-Jón S. Guðlaugsson – Skólasaga ú sjávarplássi – KHÍ, B.Ed – 2007.

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Stóra-gerði

Ætlunin var að ganga um Staðarhverfi í Grindavík, rekja staðsetningar einstakra bæja, sem þar voru, sem og önnur gömul mannvirki á svæðinu. Má þar nefna útgerðarminjarnar á Hvirflum, konungsverslunarminjarnar við Kóngshellu og Hvirfla, Staðarhverfi-loftmyndhreppsstjórasamfélagsminjarnar á Húsatóftum o.fl. o.fl.
Gangan var liður í undirbúningi að gerð sögu- og örnefnaskiltis, sem fyrirhugað er að setja upp í Staðarhverfi. Með í fartaskinu var örnefnalýsing fyrir Húsatóftir og Stað sem og fornleifaskráning fyrir Stað frá árinu 1999 auk fleiri gagna.
Haldið var rangsælis um hverfið, frá Húsatóftum að Stað. Skoðaðar voru tóftir tómthúsanna Hamra, Blómsturvalla, Dalbæjar, Vindheima og Reynisstaðar (Reynivalla). Öll þessi hús voru byggð eftir 1910. Sunnar eru leifar dönsku konungsverslunarinnar, alls sex hús og brunnur.
Fyrrum bæjarstæðið á stað var skoðað, einkum eldri bæjarins. Bergskot var austan við bæinn, upp á svonefndum Bringum. Leifar þess þess sjást enn. Einnig tóftir Nýjabæjar, u.þ.b. 100 metra norður af þeim.
Íbúðarhúsið að Móakoti var rifið nýlega svo þar sjást enn ummerki eftir það svo og garða og tún. Lönd voru austan við Stað og Merki á Hvirflum, á ystu  mörkum.
Hjáleigan Kvíadalur var suður af Stað. Þar sjást enn heillegar tóftir. Austar var Litla-Gerði og enn austar, á miðjum Gerðistöngum, var Staðargerði eða Stóra-Gerði öðru nafni. Þar sjást enn vegglegar vegghleðslu bæjarins, garða og sem og falleg heimtröð.
Staðarbrunnurinn hefur nú verið lagaður, en hann var upphaflega hlaðinn árið 1914. Dýptin á honum er 23 fet. Hóll er sunnan við brunninn. Sagt er að þar hafi fyrir löngu verið hjáleigan Krubba, eða Krukka eins og sr. Geir Backmann nefnir hana. Annar hóll er skammt suðaustar, líklega leifar hjáleigunnar Króks.
Tóftir KvíadalsMelstaður var sunnan við Hvirfla, nýbýli frá Stað frá árinu 1936. Þá má nefna hjáleiguna Sjávarhús, sem áður stóð á Staðarklöppinni, rétt við Staðarvörina. Þau munu hafa farið í eyði í sjávarflóðinu mikla árið 1799.
Hlaðnir brunnar eru nokkrir í Staðarhverfi, s.s. við Stað, Stóra-Gerði, Melstað, Hústóftir  og Kóngshelluna. Gamla réttin sést að hluta til enn ofan við Gerðistanga. Með ströndinni eru víða grunnar og ker síðan frá saltfiskverkuninni, einkum eftir 1930. Nokkrir grunnanna eru ofan við gömlu brygguna við Hvirfla, í Húsatóftarlandi. Vestan í Hvirflum er Vatnstangi yst

ur. Á honum er gróin tóft. Vestan við hana er lítil vík. Í henni leysir ferskvatn. Vegna seinni tíma bygginga sést orðið lítið af verslunarstaðnum, sem þar var fyrr á öldum. Á einokunartímabilinu kom t.d. öll sigling á þessa vík, en mun hafa lagst endanlega af í tíð Hörmangara. Víkin hefur ekki sérstakt nafn svo vitað sér, en hefur stundum verið nefnd Staðarvík því Staðarsundið er þarna utan við hana.

Staðarvör

Hvirflavörður eru tvær; neðri varðan er ofan við efsta flóðfar og hin 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsund og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá. Steinbryggjan austan við neðri vörðuna var reist árið 1933, en hún er í landi Húsatófta þrátt fyrir að lending hafi verið betri í Staðarvíkinni. Ástæðan er ágreiningur, sem var, um gjald fyrir bryggjuaðstöðuna.
Þótt landið sunnan Kóngshellunnar sé komið undir sjó, má þó enn sjá leifar á skerjum, m.a. hluta af flóraðri götu. Barlestasker er syðst sunnan Garðafjörðu. Þar munu verslunarskipin fyrrum hafa tekið barlest. Upp af þeim er stór og mikil klöpp, Kóngshellan, sbr. framangreindar minjar.
Brunnur við KóngshellunaÖrnefni á þessu svæði eru fjölmörg. Við gerð sögu- og örnefnaskiltis í Staðarhverfi er m.a. stuðst við „Örnefni í Staðarhverfi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, lýsingum Einars, Jóns og Þórhalls Einarssona frá Húsatóftum, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók“, heimilda Gamalíels Jónssonar bónda á Stað, Árna Vilmundasonar, Þorsteins Bjarnasonar o.fl., auk þess sem Loftur Jónsson mun gæta samræmis. Þá verður og byggt á lýsingum bræðranna Helga og ÓLafs Gamalíelssona frá því er þeir gengu með FERLIR um svæðið fyrir nokkrum misserum og lýstu örnefnum, minjum og staðháttum á svæðinu. Loks verður tekið mið af nýjum uppgötvunum við þéttriðna vettvangsleit á svæðinu. Nú þegar er uppkast uppdráttarsins svo þakin örnefnum og minjum að varla sést í auðan díl. Líklega verður að grisja uppdráttinn eitthvað áður en hann kemur endanlega fyrir almenningssjónir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Staðarkirkjugarður - gamli bærinn var ofarlega fyrir miðri mynd

Staðsetning gamla bæjarins m.v. gamla ljósmynd

Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um nýjan Suðurstrandarveg birtist í Fréttablaðinu þann 5. nóv. 2011.
Af Krysuvik-222umfjölluninni að dæma mátti ætla að engar samgöngur hefðu verið á svæðinu fram að opnun Suðurstrandarvegar, þrátt fyrir að fjölfarin forn þjóðleið hafi legið þar um fyrrum auk þess sem vagnvegur var lagður um það 1932 og síðan vinsæll bílvegur áratug síðar. Þegar framangreint er haft í huga vekur lestur greinarinnar á köflum allnokkra kátínu þeirra er til þekkja.

„Nýr Suðurstrandarvegur er tilbúinn. Loksins, segja íbúar Suðurnesja og Suðurlands enda biðin orðin löng eftir því að eitt vinsælasta kosningaloforð allra tíma yrði efnt. Gunnar V. Andrésson ljósmyndari og Svavar Hávarðsson fóru á rúntinn einn dagpart.
Einhver hafði á orði nýlega að íbúar Grindavíkur og Þorlákshafnar væru búnir að fá sín jarðgöng. Þar Arnarfellsrett-222er vísað til nýs Suðurstrandarvegar á milli staðanna tveggja sem var opnaður almennri umferð á dögunum og þeirra möguleika sem hann gefur í atvinnu- og byggðamálum almennt. Varla er ofsagt að þessi tenging Suðurnesja og Suðurlands sé bylting sem er samanburðarhæf við tengingu byggða með jarðgöngum.

Loforð
Hugmyndir um lagningu góðs vegar á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eru ekki nýjar af nálinni. Það var þó ekki fyrr en með kjördæmabreytingu fyrir alþingiskosningarnar 2003 sem málið komst á verulegt flug. Þá voru Suðurnes og Suðurland sameinað í eitt kjördæmi, Suðurkjördæmi, og kosið eftir því breytta fyrirkomulagi.
Krysuvikurbjarg-222Í kjölfarið var mikið rætt um aukna samvinnu þessara ólíku svæða og forsenda þess talin nýr Suðurstrandarvegur. Þá strax, árið 2003, lá fyrir mat á umhverfisáhrifum og í raun ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Frá þeim tíma hefur nýr vegur ítrekað verið notaður sem gulrót í atkvæðaveiðum stjórnmálanna en einhverra hluta vegna hefur framkvæmdum verið frestað eða fjármagn, sem til framkvæmdarinnar hefur verið ætlað á fjárlögum, verið nýtt til annarra verka. Gárungar hafa því kallað Suðurstrandarveg „mest svikna kosningaloforðið“ með réttu eða röngu.
Þegar grannt er skoðað var lokið við smá stubba við Grindavík og Þorlákshöfn árið 2006 og lengt í árin 2009 og 2010. Tveir áfangar eru teknir í Selalda-222notkun núna, tíu mánuðum fyrr en ætlað var þó það hljómi undarlega þegar saga vegarins er höfð í huga.

Torfærur
Suðurstrandar-vegurinn gamli, sem nú hefur verið leystur af hólmi, var lélegur malarvegur. Alræmdur var hann fyrir að teppast fljótt í snjókomu eða skafrenningi; hann var krókóttur og blindhæðir fjölmargar. Á löngum köflum var erfitt að mæta öðrum bíl og þegar allt er talið var vegurinn vart nothæfur, og alls ekki þegar kröfur tímans og umferðaröryggi og þægindi eru höfð í huga.

Eitt atvinnusvæði
Selatangar-222Kannski má segja að mesta breytingin sé sameining byggða á Suðurnesjum og á Suðurlandi í eitt atvinnusvæði. Fyrst koma upp í hugann hagsmunir útgerðanna; fiskflutningar og nýting hafnarmannvirkja.
Tenging við Keflavíkurflugvöll hlýtur að nýtast þeim sem flytja út ferskt sjávarfang en þegar eru flutningar á fiski miklir á milli landshluta, allt frá Austfjörðum. Álagið hefur allt verið á öðrum samgönguæðum, eins og Hellisheiði og öðrum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Líta þarf því til þess að nýr Suðurstrandarvegur dreifir álagi slíkra þungaflutninga og annarra á milli landshluta. Það hefur í för með sér hagræði og aukið umferðaröryggi sem mjög hefur verið kallað eftir á fjölförnum leiðum.

Husholmi-222

Í anda þeirra hugmynda um nýja kjördæmaskipan sem kynntar voru fyrir kosningarnar 2003 hlýtur samstarf sveitarfélaga að aukast. Hvernig því verður háttað á eftir að koma í ljós en auðvitað auðveldar samgöngubót sem þessi öll samskipti fólks og fyrirtækja.

Ferðaþjónusta
Þá er ónefndur helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs sem er ferðaþjónusta. Mikill meirihluti erlendra gesta fer um Leifsstöð og þaðan norður Reykjanes til Reykjavíkur. Nú er þetta náttúrulögmál úr sögunni með Suðurstrandarvegi. Ekkert mælir því lengur mót að sniðganga höfuðborgarsvæðið, alfarið eða tímabundið, og leggja í ferð um landið sunnanmegin frá.

 

Katlahraun 222

Kannski má taka svo djúpt í árinni að fyrir margan ferðamanninn sé eftirsóknarvert að sniðganga Reykjanesbrautina og Hellisheiði í upphafi ferðalags. Sá sem hér heldur á penna vill meina að náttúruupplifun sé takmörkuð á þeirri leið, sé það tilgangur ferðalangsins að „skoða landið“.
En kannski er það vegna hughrifa frá ferðalagi mínu í vikunni um þetta svæði sem mér var framandi allt til þessa dags.

Sunnudagsrúnturinn
En fyrir allan almenning er breytingin ekki minni. Styttri ferðalög, eða „sunnudagsrúnturinn“, er fastur liður hjá fjölda fólks og er ekki ofsagt að Suðurstrandarvegur gæti valdið þessum hópi valkvíða þar sem nú opnast möguleikar til hring ferða af öllum stærðum og gerðum um Reykjanes. Það væri til að æra óstöðugan að geta þeirra möguleika allra, enda smekkur fólks misjafn.
Saengurkonuhellir-222

Hins vegar mun ferðamennska og útivist á svæðinu aukast að mun frá því sem er í dag. Það gæti kannski komið einhverjum á óvart en Reykjanesið sunnanvert geymir perlur hvert sem litið er. Mannvistarleifar eru sérstakar og við hvert fótmál. Ekki þarf að leggjast í miklar rannsóknir til að finna óviðjafnanlega fegurð og dæmi um lífið í landinu sem eiga sér vart hliðstæðu annars staðar. Reykjanesið er jafnframt gnægtahorn fyrir áhugafólk um jarðfræði og má þá ekki líta fram hjá Krýsuvíkurleiðinni fram hjá Kleifarvatni sem tengist Suðurstrandarvegi. Yfirvöld mættu hins vegar gera nauðsynlegar vegabætur á þeirri leið í samhengi við aukinn áhuga fólks á að ferðast um svæðið.

Öryggi
Notarholl-222Þegar hefur verið minnst á aukið umferðaröryggi samfara opnun vegarins. Þar stendur upp úr að ný leið mun létta álagi af stofnbrautum þar sem umferðarálag er meira en gott þykir. Það er þó önnur hlið á þeim peningi.
Tenging Suðurlands við höfuðborgarsvæðið til þessa hefur verið um fjallvegi; Hellisheiði og Þrengsli. Árlega kemur upp sú staða að þessir vegir lokast eða verða torfærir vegna veðurs. Nú er kominn valkostur til að forðast þessar erfiðu aðstæður og augljósa hættu. Suðurstrandarvegur liggur miklum mun lægra og er hannaður með það fyrir augum að vera auðfarinn á öllum tímum árs.
Þegar Suðurstrandarvegur er keyrður vekur það hugmyndir um aukin lífsgæði íbúanna nær og fjær. Er þá vert að hafa hugfast að landið er dyntótt. Kannski mun gildi þessa vegspotta endanlega sanna sig þegar vá ber að höndum vegna náttúruhamfara.“
Við þetta má bæta að þrátt fyrir rándýrt nýtt vegarstæði er hvorki gert ráð fyrir útskotum svo áhugasamt fólk um útivist getur lagt ökutækjum sínum til að berja dásemd svæðisins augum né merkingum til að auðvelda fólki aðgengi að því.

Heimild:
-Fréttablaðið 5. nóv. 2011, bls. 36.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi.
Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan Gunnuhver-12leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri.
Gunnuhver-13Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Heimild:
-http://isor.is/efni/9-gunnuhver-%E2%80%93-hverasvaedi

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Fagradalsfjall

Dalssel er eitt þeirra 400 selstöðva, sem hvað erfiðast er að staðsetja á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Minjarnar um þetta fyrrum sel eru þó enn vel sýnilegar á ystu mörkum Þórkötlustaðabæjanna í Grindavík (sem þó hafði verið ágreiningur um, bæði af hálfu Vogamanna og Járngerðarstaðabænda).
Vestan EsjuÍ BA-ritgerð ÓSÁ í fornleifafræði (birt með góðfúsleguleyfi höfundar), nefnir hann allar þekktar og óþekktar selstöður á Reykjanesskaganum vestan Esju. Þar kemur eftirfarandi fróðleikur um Dalssel. „Guðrún Ólafsdóttir segir um Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi að Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar. Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu Jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi: …aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Um selstöður frá Stóru-Vogum segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.‘‘
Í Dalsseli norðan Nauthólaflata - í FagradalÁrni Óla segir í bók sinni strönd og Vogar frá Dalsseli: „…auk þess eignuðust Stóru-Vogar sér selstöðu í Fagradal, þar sem heitir Dalssel, en um það var ágreiningur, því að Járngerðarstaðamenn í Grindavík eignuðu sér það líka.“
Höfundur skoðaði tóftir Dalssels í Fagradal árið 2003. Þær eru á sunnanverðum uppþornuðum lækjarbakka norðan við Nauthóla og Nautaflatir. Sjá má móta fyrir húsum og stekk eða kví ofar. Veggir sjást grónir, en ekki er að sjá hleðslur í þeim. Erfitt er að greina nákvæma rýmisskipan.“
Rétt er að geta þess að fyrrnefnd ritgerð er án efa það rit, sem finna má hvað viðarmestar upplýsingar um sel, staðsetningu þeirra og nýtingu á tilteknu svæði landsins, er um getur fyrr og síðar. Þá má vel koma fram að eftir að ritgerðin var skrifuð (vorið 2007) hefur höfundur bætt um betur og skráð allar selstöður norðan, vestan og austan Esju, þ.e. í öllu fyrrum landnámi Ingólfs, eða u.þ.b. 250 selstöður, rissað þær upp, staðsett þær með hnitum og lýst ástandi þeirra. Ekki er þó vitað til þess að sótt hafi verið um styrk til verksins, en slíks væri vel veitandi þótt ekki væri til annars en gefa mætti ritgerðina sem og viðbótina við hana út á prenti (með meðfylgjandi ljósmyndum og uppdráttum) – til varðveislu og fróðleiks upplýsinganna. Það er alltaf sárt til þess að vita að eintak slíks verks skuli að lokinni langri og mikilli vinnu vera lagt upp í hillu á safni, sem einungis örfáir hafa aðgang að.

Í DalsseliSkoðum Dalsselið svolítið nánar. Skógfellshraun er norðan Skógfellanna. Upp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sunnanvert, sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar, en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða (að sumir telja). Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða (að aðrir telja) og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur (frá fyrri hluta 19. aldra var hann nefndur Sandakravegur) og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum. Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur. Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða.

Fagridalur - loftmynd

Aurar heita melar innan við og austan Dalahrauns og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. [Hér hefur jafnan gleymst að Þórkötlustaðir höfðu selstöðu í Dalseli í Fagradal, norðan Nauthólaflata]. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Slokahraun er á milli túnanna á Hrauni og Þórkötlustöða. Aðrar heimildir, sem fyrr er getið, kveða á um að Járngerðarstaðamenn hafi haft selstöðu í Fagradal. [Að öllum líkindum er um misskilning að ræða því engar skráðar heimildir eru til um að Járngerðarstaðabændur hafi haft selstöðu í Fagradal]. Bæði þeir og Hraunsmenn hafa hins vegar viljað eigna sér svæðið milli Vatnskatla, Kálffells og Litla-Skógfells. Það hafa einnig Vogamenn viljað gera sbr. framangreindu.
Í skrifum Guðrúnar Ólafsdóttur um sel og selstöður í Grindavík (Söguslóðir, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979) segir hún m.a.: „Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum. Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar.

Staðarhverfi - næsta "landnemaverkefni" FERLIRs

Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum (sjá meira undir lýsingar). Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fékk aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. [Hér segir af selstöðu Þórkötlustaðabænda á Vigdísarvöllum, sem er skammt sunnan við þann stað er samnefndur bær stóð síðar undir Bæjarhálsi.]
Krýsuvíkurbændur nutu þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. [Hér er hinu týnda Kaldranaseli lýst í mýrinni austan Nýjalands].
Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, hefur um áraraðir viðað að sér fróðleik um þetta efni og vissi manna best um það. Hann hefur farið um allan skagann og leitað seljarústa, mælt og teiknað upp grunnmyndir af þeim, sem hann hefur fundið. Hann fullyrti að leifar væru að finna eftir sel á öllum þeim stöðum, sem nefndir hafa verið hér að framan nema við Seltún, á Baðsvöllum og í Fagradal. Við Seltún hafa ummerki horfið vegna umsvifa í sambandi við brennisteinsnám á 18. og 19. öld. Á Baðsvöllum er nú skógræktarlundur Grindvíkinga. Dalssel hefur Gísli aldrei fundið, þrátt fyrir nokkra leit.
BaðsvallaselDalssel er að öllum líkindum millitíðaselsminjar, þ.e. leifar minja frá 17. og 18. öld. Áður voru selin óregluleg hús, þrískipt; annars vegar sambyggð baðstofa og búr og hins vegar eldhús, en en undir lokin, líkt og áður, tók húsaskipanin og -gerðin mið af þróun íslensla torfbæjarins – í fyrstu óregluleg, en er á leið með reglulegri rýmisskipan. Þannig má sjá nýjustu selstöðurnar með reglulegri formgerð og jafnvel svolítið stærri rýmum en áður var. Hafa ber í huga að hér er miðað við selstöður á Reykjanesskaganum, en sel í öðrum landshlutum gætu verið með öðrum kennimiðum en hér er greint frá.
Sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: “Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.”.
Ekki hefur tekist að timasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll.“
Nýjustu upplýsingar benda til þess að selstöður hafi tíðkast á landssvæðinu allt frá landnámi til loka 19. aldar. Selstöður einstakra bæja breyttust á tímabilinu – nýjar voru teknar upp og eldri lögðust af. Ástæður staðsetninga þeirra breyttust einnig. Elstu selstöðurnar voru hvorutveggja tákn um nýtingarþörf og landnámsvernd, þ.e. þær voru staðsettar á ystu mörkum líkt og til að sýna fram á eignarréttinn. Síðar endurspegluðu selstöður bæði ástand í búskaparmálum landssvæðisins og möguleikum ábúendanna. Harðræði og erfitt árferði fækkaði selstöðum og jafnvel sameinaði aðrar nálægar. Hafa ber í huga að að allt líf landsmanna snerist um að halda lífi í sauðkindinni svo hún mætti halda lífi í mannskepnunni. Undir lok 19. aldar urðu umtalsverðar breytingar – líkt og oft vilja verða – sauðfé fjölgaði margfalt með aukinni heimatúnræktun, fólki fækkaði að sama skapi, en kúm bænda fjölgaði að sama skapi. Þetta varð til þess að ekki varð lengur nauðsynlegt að nytja ær í seli heldur var kúamjólkin unnin heima á bæ til mótvægis. Fé, sem áður var nýtt til mjólkurnytja, var nú fyrst og fremst nýtt til kjötnytja – í því fólst ágóðinn. Hér verður, fyrrum líkt og eftirleiðis, að horfa til markaðslögmálanna tveggja – framboðs og eftirspurnar sem og breyttrar samfélagsmyndar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall, Nauthólar og Dalssel.