Tag Archive for: Grindavík

Drykkjarsteinn

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er m.a. fjalla um brýni. Í umfölluninni er getið um tvö örnefni, sem ekki lengur eru þekkt sem slík; Móháls og Drykkjarháls.

Mohals-21

Svo virðist sem þarna sé annars vegar átt við skarð þar sem gamla þjóðleiðin liggur um Mókletta norðan við Siglubergsháls milli Festarfjalls og Fiskidalsfjalls og hins vegar hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu. Örnefnið Móklettar er enn til norðaustan í fyrrnefnda hálsinum og Drykkjarsteinn er norðaustast í nefndum Drykkjarsteinsdal.
Í Ferðabókinni segir: „Móháls, stuttur fjallvegur á Suðurnesjum, er að mestu leyti úr grófgerðu þursabergi og eitlabergi. Frumefnið í því er dökkmórauður sandsteinn, sem hraunmolar og brimsorfnir smásteinar hafa blandast saman við.
Í Drykkjarhálsi, sem liggur nokkru fjær Grindavík er Móháls, er mikið móberg. Eru þar bæði fíngerð og Drykkjarsteinn-21gróf afbrigði þess. En af þeim er brýnissteinn (lapis cotarius particulis aequalibus mollissimis) bezta tegundin. Hann er mjög fíngerður og sléttur slípisteinn, brúngulleitur á lit. Háls þessi er merkilegur vegna nafnsins, en það er dregið af keri, sem höggvið er í sandsteinsklett uppi á fjallinu rétt við veginn vegfarendum til afnota. Kletturinn kallast Drykkjarsteinn, því að þar stóð fyrrum drykkur til reiðu þeim, sem um veginn fóru. Héraðið í kring er þurrt og vatnslaust, og því var þar maður, sem safna skyldi regnvatni eða sækja vatn lengra að, þegar þurrkar gengu, og hafa kerið ætíð fullt af súrblöndu, og sótti hann sýruna til byggða. Ef til vill var honum goldið fyrir þetta.“
Eggert Ólafsson (1726-1768) fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta.

Brynisteinn-21

Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta – líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772.
Í Samvinnunni 1944 segir m.a. um Ferðabókina: „
Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna er víðtækasta og gagnmerkasta heimildarrit um Ísland og íslendinga á 18. öld, sem skráð hefur verið. Ber fátt gleggra vitni um armóð Íslendinga en sú furðulega staðreynd, að Ferðabókin skuli aldrei hafa verið gefin út á máli Söguþjóðarinnar fyrr en nú, þótt senn séu 200 ár liðin siðan ritið var fært í letur. Nú hefur verið úr þessu boett. Ferðabókin kom út um síðustu áramót í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, og hefur hann yfirleitt leyst verkið prýðisvel af hendi. Margir hefðu kosið snið og frágang bókarinnar nokkru vandaðra en raun ber vitni, en hvað sem því liður, er hitt víst, að bókinni var svo vel tekið, að upplagið seldist allt á skömmum tíma.“
Hafa ber í huga að staðar- og atvikslýsingar í Ferðabókinni eru ekki alltaf mjög nákvæmar, a.m.k. hvað Reykjanesskagann varðar. Til dæmis er getið um hverafugla, sem verpa harðsoðnum eggjum, hveri sem lita ullina ýmist svarta eða hvíta o.s.frv.
Í örnefnalýsingum fyrir Ísólfsskála segir eftirfarandi um Drykkjarstein og nágrenni: „
Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun.
Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.“ Og Brynisteinn-22
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“
Þegar FERLIR skoðaði framangreinda staði virtist örnefnið Móháls augljóst þar sem gamla þjóðleiðin lá um hann ofarlega í Móklettum. Gatan er þar grópuð í móbergið þar sem hún liggur um unnið skarð. Skammt neðar eru mörkuð landamerki Ísólfsskála og Hrauns (V1890). Móklettar svara vel til lýsingar Eggerts á dökkbrúnu þursabergi og eitlabergi.
Þar sem gamla þjóðleiðin lá yfir Borgarhraun og upp á hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals má sjá nefnt brúngulleitt slípiberg, kjörið til nota sem brýni. Bergið, sem virðist hluti af fornum berggangi, er langsneiðklofið svo auðvelt hefur verið að velja réttar þykktir á brýnin, allt eftir þörfum hverju sinni.

Heimild:
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, 1772, bls. 196
-Samvinnan 1944, bls. 119
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ísólfsskála. Heimildarmaður er Guðmundur Guðmundsson frá Skála.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar fyrrir Ísólfsskála

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Krýsuvík

Fyrir þá, sem eru lítið fyrir lestur, er ágætt að byrja á því að lesa niðurlag þessarar umfjöllunar. Við það gæti áhuginn á frekari lestri kviknað. Ekki eru hafðar myndir með textanum svo þær dragi ekki athyglina frá innihaldinu.

Þann 18. júní 1999 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Hafnarfjarðarbæjar gegn íslenska ríkinu. Efnislega krafa málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var að krefjast afsals fyrir landi því sem Hafnarfjarðarbær fékk vegna eignarnáms jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ sem og öllum hlunnindum sem jörðunum fylgja. Undanskilið er það land sem þegar hafði verið afsalað með afsalsbréfi til Hafnarfjarðar af ríkinu og var útgefið 20. febrúar 1941, en það land er nú innan lögsögu Hafnarfjarðar, þ.e. landið sunnan Kleifarvatns utan nefndra jarða.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkinu heimilað að taka nefndar jarðir eignarnámi og skyldi afhenda sveitarfélaginu Hafnarfirði afnotarétt jarðanna þannig að það fengi þörf fyrir hita, ræktun og sumarbeit fullnægt. Gullbringusýslu skyldi afhenda lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé.
Með lögum nr. 101/1940 var kveðið svo á, að Gullbringusýsla skyldi fá lítt ræktanlegt beitiland jarðanna í samræmi við skiptagerð, sem gerð hafði verið á árinu 1939 samkvæmt fyrirmælum framangreindra laga, en Hafnarfjörðir skyldi fá jarðirnar að öðru leyti.
Hafnarfjörður taldi sig aðeins hafa fengið hluta þess landssvæðis sem hann hefði átt rétt á samkvæmt þessu. Talið var að megintilgangur laganna frá 1940 hefði verið sá að afla ríkinu lögformlegrar heimildar til að afsala Hafnarfirði beinum eignarrétti að því landsvæði, sem því hefði verið markað í skiptagerðinni. Framganga Hafnarfjarðar í tengslum við afsalsgerðina og eftirfarandi aðgerðarleysi þess um árabil gæfi ótvírætt tl kynna, að það hefði verið ásátt við að tilgangi laganna hefði á þeim tíma verið fullnægt. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum Hafnarfjarðar gegn ríkinu.

Í rauninni er framangrein niðurstaða mun merkilegri en í fyrstu mætti ætla.

Í dómi Hérðasdóms koma fram sögulegar staðreyndir er varða undanfara eignarnámsins. Á árinu 1935 flutti Emil Jónsson, þáverandi alþingismaður Hafnarfjarðarkaupstaðar, frumvarp til laga „um eignarheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindarvíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar“, eins og í yfirkskrift frumvarpsins segir. Frumvarpið varð að lögum nr. 11/1936. Í 4. tl. 1. gr. laganna er ríkisstjórninni veitt heimild til að taka eignarnámi jarðirnar Krýsuvík (í lögunum segir Krísuvík) og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.

Í greinargerð sem frumvarpinu fylgdi segir, að á árinu 1933 hafi verið lögð fram 3 frumvörp, sem öll hafi hnigið til sömu áttar og miðast við það, að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Ástæður hafi í engu verulegu breyst frá þeim tíma. Áhugi fyrir aukinni ræktun sé mikill og almennur í Hafnarfirði, en landið sé lítið nærtækt, nema hraun sem sé óræktanlegt með öllu. Í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu segir svo: „Enn er það nýmæli í þessu fr., að Krísuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri-Nýjibær verð tekinn með. Er það gert með tilliti til þess, að þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa kaupstaðarbúar mikinn hug á að tryggja sér þau og notfæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar út ábúð og í eyði, svo tíminn yrði aldrei betur valinn en einmitt nú.“

Í 1. mgr. 2. gr. laganna frá 1936 segir, að eignarnámsbætur til eiganda jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar skulu metnar af gerðardómi þriggja manna og mælt fyrir um það, hverjir skuli skipa þá til setu í gerðardóminum.

Gerðardómurinn skilaði niðurstöðu, sem dagsett er 4. nóvember 1936. Þar er tekin afstaða til verðmætis ýmissa kosta og hlunninda jarðarinnar í 10 liðum og verður hér á eftir gerð grein fyrir niðurstöðu gerðardómsins um hvern einstakan þátt.

Í I. kafla er húsakostur jarðanna beggja verðmetinn og komist að þeirri niðurstöðu, að þar í liggi engin verðmæti.

Í II. kafla dómsins er fjallað um ræktað og ræktanlegt land og sá hluti landsins metinn á kr. 10.000, án þess að landsvæðið sé afmarkað með nokkrum hætti.

Í III. kafla gerðardómsins eru vötn og tjarnir jarðanna verðmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé þar eftir neinu að slægjast að undanskildu Kleifarvatni. Í niðurlagi kaflans segir svo um Kleifarvatn: „En vitanlega er með öllu ómögulegt að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu mikið vatnið kynni að auka verðmæti landsins, en eitthvert tillit virðist þó verða að taka til þess, er heildarverð landsins er ákveðið.“

Í IV. kafla eru námuréttindi jarðarinnar verðmetin. Þar er einkum fjallað um möguleika á nýtingu brennisteinsnáma, en brennistein hafði áður verið unninn þar úr jörðu. Í niðurlagi kaflans segir: „Eftir því sem fyrir liggur, virðist því ekki unnt að meta námur þessar til neinnar verulegrar hækkunar á landi jarðanna. En vera má, að þær skipti einhverju máli í sambandi við iðnað þar á staðnum, vinnslu leirs eða annara efna. Námuréttindi í landinu teljum við því að meta mætti á kr. 2000-tvöþúsund-krónur.“

Næsti kafli varðar Krýsuvíkurbjarg. Þar er nýtingarmöguleikum lýst og komist að þeirri niðurstöðu, að bjargið sé nokkur þáttur í verði jarðanna, eins og það er orðað í dóminum. Matsverð þessa þáttar nam kr. 4.000.

Í VI. kafla er jarðhiti jarðanna metinn til verðs. Þar eru raktir ýmsir nýtingarkostir og komist að þeirri niðurstöðu, að verðmæti jarðhita á allri Krýsuvíkurtorfunni sé kr. 30.000.

Óræktanlegt land er metið til verðs í VII. kafla gerðardómsins og lýst kostum þess sem afréttarlands til sauðfjárbeitar. Svo virðist sem gerðardómsmenn sjái ekki að hafa megi önnur not af landinu en til beitar og verðmat gerðardómsins miðist við þau afnot. Í niðurlagi kaflans segir, að óræktanlegt eða lítt ræktanlegt land megi áætla 5.000 kr. virði.

Í VIII. og IX. kafla dómsins er greint frá ítökum, bæði umræddra jarða í annarra manna löndum og eins ítökum annarra í landi jarðanna tveggja, Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar. Í X. kafla eru önnur hlunnindi jarðanna metinn. Það var álit gerðardómsins að þeir hagsmunir, sem lýst er í þremur síðustu köflum hans, væru svo óverulegir, að þeir hefðu engin áhrif á heildarmatsverð jarðanna.

Heildarmatsverð jarðarinnar með gögnum öllum og gæðum nam þannig kr. 51.000.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var 17. nóvember 1936 var fjallað um niðurstöðu gerðardómsins og möguleg kaup bæjarfélagsins á jörðunum tveimur. Lagt var til að bjóða ríkissjóði að kaupa helming hitaréttinda jarðanna, en gengi það ekki eftir myndi bæjarfélagið kaupa jarðirnar með öllum gögnum og gæðum fyrir matsverð. Þetta var kynnt í bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar til þáverandi forsætisráðherra, sem dags. er 18. nóvember s.á. og áréttað í símskeyti 24. sama mánaðar. Tilmælum bæjarstjóra virðist hafa verið svarað með bréfi dags. 3. desember s.á. en það svarbréf liggur ekki fyrir en þetta má ráða af framlögðu bréfi bæjarstjóra til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins dags. 10. desember s.á. Í því bréfi leggur bæjarstjóri til, að kaupverð jarðanna verði greitt með tilteknum hætti, sem þar er nánar lýst. Í niðurlagi bréfsins segir svo: „Ef upphæðin, mót von minni, skyldi reynast of lág, geri jeg ráð fyrir að hana mætti auka nokkuð. Þetta vænti jeg að hið háa ráðuneyti láti nægja til þess að eignarnámið geti farið fram.“

Íslenska ríkið eignaðist jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ með afsali dags. 4. maí 1937. Í afsalinu kemur fram, að ríkissjóður hafi greitt eignarnámsþola (Einari Benediktssyni) „matsverð hinna eignarnumdu jarðeigna, sem með matsgjörð, framkvæmdri 4. nóvember 1936 samkvæmt ákvæðum niðurlags 2. gr. fyrgreindra laga, var ákveðið samtals kr. 51.000- fimmtíu og eitt þúsund kr, að frádregnum þeim kr. 2000.00- tvö þúsund-kr., sem téð námuréttindi eru metin í nefndri matsgjörð…..“ eins og þar segir.

Ekkert virðist síðan hafa verið hreyft við málinu þar til á árinu 1939 en þá var þeim mönnum, sem skipuðu gerðardóminn frá 1936, falið að ákveða landamerki milli ræktanlegs og óræktanlegs lands Krýsuvíkurtorfunnar, að beiðni þáverandi ríkisstjórnar, bæjarstjórans í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringusýslu. Hinn 1. maí 1939 var ákvörðun tekin á fundi gerðardómsmanna, sýslumanns Gullbringusýslu og bæjarstjórans í Hafnarfirði, um stærð ræktaðs og ræktanlegs land, sem tilheyra skyldi Hafnarfjarðarkaupstað og það afmarkað á sama kort og gerðardómurinn hafði áður notað. Fram kemur, að fulltrúar Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi eftir atvikum fallist á ákvörðun gerðardómsmanna og undirrita þeir hana athugasemdalaust. Afmörkun landsvæðisins er sú sama og lýst er í kröfugerð stefnanda undir A lið.

Þáverandi sýslumaður Bergur Jónsson, f.h. Gullbringusýslu, fór þess á leit við atvinnu- og samgönguráðuneytið í bréfi dags. 6. júní 1939 að fá keypt til eignar þann hluta Krýsuvíkurtorfunnar, sem félli utan þess svæðis, sem Hafnarfjarðarkaupstað hafði verið ákvarðað fyrir kr. 5.000, sem svaraði til matsverðs. Með bréfi dags. 23. júní s.á. til sama ráðuneytis var þess óskað af hálfu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Friðjóns Skarphéðinssonar, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“. Þessi tilmæli áréttaði bæjarstjórinn með bréfi dags. 29. september s.á.

Með lögum nr. 101/1940 er lögum nr. 11/1936 breytt. Í 1. mgr. 1. gr. laganna, sem raunar eru aðeins ein lagagrein, segir svo: „Jarðir þær, sem um getur í 4. tölul. 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu þannig, að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt beitarland jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð, sem framkvæmt var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber að undanteknum námuréttindum.“

Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til þessara laga kemur fram, að eldri lögin frá 1936 hafi þótt svo óljós, að landbúnaðarráðherra hafi ekki talið sig geta framkvæmt landskiptin, samkvæmt tillögu matsnefndar (gerðardómsins). Af hálfu Emils Jónssonar, flutningsmanns frumvarpsins, kemur fram, að lagafrumvarpið sé lagt fram að ósk bæjarstjórans í Hafnarfirði, til að „taka fram skýrar en áður var það, sem ég tel, að samkomulag hafi verið um þegar lögin á sínum tíma voru sett.“ Með bréfi dags. 21. maí 1940 til atvinnumálaráðuneytisins ítrekaði Friðjón Skarphéðinsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fyrri tilmæli sín með vísan til þeirra tveggja bréfa, sem áður er getið. Þar er þess óskað að ráðuneytið „láti Hafnarfjarðarbæ í tje afsal fyrir Krísuvíkurlandi samkv. lögum nr. 11, 1. febr. 1936, og samkv. lögum um breytingu á þeim lögum frá síðasta Alþingi, sem væntanlega hafa þegar hlotið staðfestingu“, eins og í bréfi hans segir.

Með afsali dags. 20. febrúar 1941 afsalaði landbúnaðarráðherra til Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landsvæði því, sem nú er í eigu kaupstaðarins og er landamerkjum lýst með sama hætti og fram kemur í kröfugerð stefnanda undir A lið og áður er vikið að. Að auki er öllum hitaréttindum afsalað til kaupstaðarins á allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til hagnýtingar þeirra. Í afsalinu kemur fram, að Hafnarfjarðarkaupstaður skuli hafa afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu, en óheimilt sé að setja girðingu meðfram vatninu, nema fyrir eigin landi. Þar segir ennfremur: „Öll námuréttindi eru undanskilin í afsali þessu og geymist eiganda þeirra óhindraður umferðar- og afnotaréttur af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir þörfum.“ Þá er getið um það í afsalinu, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi greitt að fullu andvirði landsins kr. 44.000, að viðbættum áföllnum kostnaði kr. 6.813.10 og lýst nánar með hvaða hætti greiðslan var innt af hendi. Í upphafsorðum afsalsins segir svo: „Samkvæmt lögum nr. 101,14 maí 1940, sbr. lög nr. 11, 1. febrúar 1936, afsala ég hér með f.h. ríkissjóðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vegna Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landi úr jörðunum Krísuvík og Stóra-Nýjabæ (Krísuvíkurtorfunni)…..“ Neðanmáls í afsalinu er ritað: Samþykkur f.h. Hafnafjarðarkaupstaðar þt. Rvk 24/2 ´41 Friðjón Skarphéðinsson. Undirritun hans er vottuð af tveimur vottum.

Með afsali dags. 29. september s.á. afsalaði landbúnaðarráðherra til Gullbringusýslu „öllu lítt ræktanlegu beitilandi jarðanna Krísuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krísuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir sauðfé og er þá jafnframt undanskilið úr jörðum þessum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar 1941, hefur verið afsalað Hafnarfjarðarkaupstað…“ Einnig er í afsalinu sölu hitaréttinda til Hafnarfjarðarkaupstaðar getið og afnotaréttar kaupstaðarins að Kleifarvatni. Þá kemur fram í afsalinu að andvirði landsins kr. 5.000 að viðbættum kostnaði kr. 961,86 sé að fullu greitt.

Á sjöunda áratug aldarinnar reis ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnarfjarðarbæjar, sem lauk með dómi landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu uppkveðnum 14. desember 1971 í máli nr. 329/1964. Sóknaraðilar málsins voru Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla, en Hafnarfjarðarbær var varnarmegin. Í upphafi dómsins segir: „Sýslusjóður Gullbringusýslu er aðili að máli þessu sem eigandi beitiréttar á öllu útlandi Krísuvíkur, sem ekki er eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, og hinn reglulegi dómari, þá Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður, er oddviti sýslunefndar Gullbringusýslu. Hefur hann því vikið sæti…….“. Í dóminum er hvergi að finna vísbendingu um það, að Hafnarfjarðarbær hafi þá talið sig eiga tilkall til eignarréttar að landsvæði því, sem beitarréttur Gullbringusýslu nær til.

Á árinu 1981 óskaði þáverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar eftir upplýsingum hjá landbúnaðarráðuneytinu um eignarnám það, sem átt hafði sér stað á grundvelli laganna frá 1936 og 1940. Af gögnum málsins má ráða, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi allt frá árinu 1982 gert kröfu til eignarréttar yfir þeim hluta Krýsuvíkurlands, sem Gullbringusýslu var veitt beitarafnot af með afsalinu frá 29. september 1941.

Lögin nr. 11/1936 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 101/1940, voru skýr og afdráttarlaus. Hafnarfjörður og Gullbringusýsla áttu að skipta með sér Krýsuvíkurtorfunni.

Hafnarfjörður hefur nokkrum sinnum farið fram á það við landbúnaðarráðuneytið, að gengið yrði frá afsali til bæjarins fyrir jörðunum Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í heild sinni, eins og kveðið sé á um í lögunum frá 1936 og 1940, en án árangurs. Með bréfi dags. 1. september 1982 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar komið á framfæri við ráðuneytið samþykkt sinni frá 18. maí 1982 um að skora á ráðuneytið að gefa út afsal fyrir jörðunum og sjá til þess að lögsagnarumdæmi kaupstaðarins yrði stækkað til samræmis við 4. gr. laga nr. 11/1936. Það bréf hafi verið ítrekað 18. nóvember 1983, en ráðuneytið látið hjá líða að svara erindinu. Bæjarstjóri stefnanda hafi ritað landbúnaðarráðherra bréf þann 10. september 1985 og enn óskað svars, sem fyrst hafi borist 18. nóvember 1986. Þar hafi kröfum bæjarstjórnar verið hafnað. Sama svar hafi borist við tveimur bréfum bæjarins frá 1996, þar sem kröfur bæjarins voru enn ítrekaðar og enn hafi sama afstaða borist með bréfi ráðuneytisins dags. 25. mars 1997.

Ríkið byggir á því, að allir málsaðilar hafi litið svo á, allt frá því að lögin frá 1940 komu til framkvæmda og fyrrgreind afsöl höfðu verið gefin út, að ríkissjóður væri eigandi að því lítt ræktanlega landi, sem Gullbringusýsla hafði afnot af til sumarbeitar. Það hafi verið sameiginlegur skilningur aðilanna að fullnægt hafi verið öllum skyldum ríkissjóðs, samkvæmt lögunum frá 1936 og 1940. með afsölunum tveimur. Stefnandi hafi engar kröfur sett fram í þessu sambandi, fyrr en rúmum 40 árum síðar. Líta verði til þess, hvernig umráðum og vörslum landsvæðanna hafi verið háttað sem og, hvernig huglæg afstaða málsaðila hafi verið, en hún sýni ótvírætt, að enginn þeirra hafi dregið í efa grunneignarrétt stefnda að deilulandinu með þeim takmörkunum sem falist hafi í afsölunum tveimur, en stefnandi og réttargæslustefndi eigi þar aðeins takmörkuð réttindi til afnota, annars vegar til sumarbeitar fyrir sauðfé og hins vegar hitaréttindi og takmörkuð réttindi yfir Kleifarvatni, auk umferðarréttar. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóms landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðar í málinu nr. 329/1964: Jarðeignadeild ríkisins og sýslusjóður Gullbringusýslu gegn Hafnarfjarðarkaupstað. Í máli því hafi verið deilt um landamerki jarðar, aðliggjandi Krýsuvíkurtorfunni. Jarðeignadeild ríkisins hafi verið aðili að málinu, sem og sýslusjóður Gullbringusýslu, en hinn síðarnefndi sem eigandi beitarréttar á öllu útlandi Krýsuvíkur. Stefnandi hafi verið varnaraðili málsins. Í þessu máli hafi því aldrei verið haldið fram af hálfu stefnanda, að hann væri rétthafi að landi því, sem nú sé deilt um. Beri því almennt og eins og málið horfi nú við sömu aðilum að telja dóm þennan hafa sönnunargildi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá sé ljóst, að mati ríkisins, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki greitt fyrir annað en hitaréttindi í Krýsuvíkurtorfunni og það land sem talist hafi ræktað og ræktanlegt í skiptagerðinni frá 1. maí 1939. Hafnarfjörður hafi alls greitt kr. 44.000 fyrir ræktaða og ræktanlega landið, jarðhitann og Krýsuvíkurbjarg, sem sé innan marka hins afsalaða lands, svo sem nánar sé tilgreint í afsalinu frá 20. febrúar 1941. Þrætulandið hafi aftur á móti verið afhent Gullbringusýslu til sumarbeitarafnota, sem greitt hafi fyrir, sem svaraði til matsverðs alls landsins, samkvæmt matsgerðinni frá 1936. Sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við heimildarlög eignarnámsins.

Ríkið kveðst byggja á þeirri meginreglu kröfuréttar um fasteignakaup, að sú réttarlega þýðing sé lögð í útgáfu afsals, að eignarréttur sé óskilyrtur og að kaup hafi verið efnd m.a. með greiðslu umsamins kaupverðs. Með afsalinu til Hafnarfjarðar frá 1941 hafi því landi verið afsalað, sem afnotaréttur Gullbringusýslu náði ekki til og hafi Hafnarfjörður einungis greitt fyrir það land og þau réttindi, sem afsal hafi tilgreint, en á það hafi verið ritað samþykki af hálfu Hafnarfjarðar. Fyrirsvarsmenn Hafnarfjarðar hafi á þeim tíma ekki staðið í þeirri trú, að þeir væru að greiða fyrir land það, sem nú sé krafist afsals að, enda hafi Hafnarfjörður hvorki þá né síðar greitt fyrir umþrætt landsvæði.

Ríkið byggir á því, að réttur til útgáfu afsals fyrir því landsvæði, sem um sé deilt í málinu, sé fallinn niður sökum fyrningar samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Frá útgáfu afsals þann 20. febrúar 1941, uns mál þetta var höfðað þann 30. apríl 1998 hafi liðið rúm 57 ár og hugsanlegar kröfur Hafnarfjarðar á hendur ríkinu því löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, jafnvel þótt miðað yrði við lengstan fyrningartíma, sem þau lög geri ráð fyrir. Ríkið byggir einnig á því að hugsanlegur kröfuréttur til útgáfu afsals á grundvelli laganna sjálfra frá 1940 sé fyrndur. Hafi falist í greiðslu Hafnarfjarðar árið 1941 andvirði lands sem ekki var gefið út afsal fyrir, sé réttur til afhendingar og/eða útgáfu afsals, samkvæmt þeim gerningi, löngu fallinn niður fyrir fyrningu.

Ríkið byggir einnig á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar, er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns Hafnarfjörður lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Með vísan til þess, að lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi ekki verið breytt með lögum, varðandi landsvæðið umdeilda verði einnig að telja lögin frá 1936 og 1940 úr gildi fallin, þar sem þau hafi komið að fullu til framkvæmda í samræmi við tilgang þeirra. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 40/1946 komi skýrt fram í fylgiskjali (bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar) að einungis hafi verið um að ræða landið, sem Hafnarfirði hafi verið afsalað þann 20. febrúar 1941.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umþrættu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Ekki sé ágreiningur um það, að stefndi hafi haldið eignarráðum að umræddu landsvæði allt frá því að landið var tekið eignarnámi. Það hafi verið áréttað og óumdeilt í fyrrgreindu landamerkjamáli. Hafnarfjörður hafi ekki vefengt rétt ríkisins til eignarhaldsins í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905, fyrr en með málsókn þessari, en frá því að afsalið til Hafnarfjarðar frá 20. febrúar 1941 uns málið var höfðað hefur liðið tæplega þrefaldur hefðartími samkvæmt 2. gr. laganna og enn lengri tími sé miðað við framkvæmd eignarnámsins. Liðið hafi meira en 20 ára hefðartími sé miðað við rekstur og dóm í áðurnefndu landamerkjamáli.

Af þessum sökum beri að sýkna ríkið af öllum kröfum Hafnarfjarðar. Einnig beri að líta svo á, að það sé aðeins á færi löggjafans að hlutast til um aðra tilhögun eignarréttar yfir landssvæðinu, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. og meginreglu í 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Dómurinn lítur svo á, að við túlkun laganna verði líta til tilgangs þeirra. Ber þar fyrst að nefna, að skipan sú, sem komst á með afsali ríkisins til Hafnarfjarðar hinn 20. febrúar 1941, virðist hafa þjónaði þeim tilgangi, sem að var stefnt með lögunum frá 1936. Hafnarfjörður fékk allt ræktað og ræktanlegt land Krýsuvíkurtorfunnar til eignar, ásamt hitaréttindum alls hins eignarnumda landsvæðis. Í þessu sambandi má benda á bréf Friðjóns Skaphéðinssonar, þáverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar til atvinnu- og samgönguráðuneytisins frá 23. júní 1939. Þar er þess óskað, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“, sjá bls 5 að framan. Einnig verður ekki fram hjá því litið, að sami Friðjón áritaði samþykki sitt á afsalið frá 20. febrúar 1941 án nokkurs fyrirvara. Til hins sama bendir langvarandi aðgerðarleysi Hafnarfjarðar.

Athyglisvert er að dómurinn lítur til áratuga aðgerðarleysis og tómlætis Hafnarfjarðar í garð Krýsuvíkurlands. Hafnarfjörður hafi í rauninni hvorki sýnt ræktarsemi við Krýsuvíkurlandið né reynt að nýta það síðustu áratugina.

Ríkið byggði einnig á því að krafa Hafnarfjarðar sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns stefnandi lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umræddu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign.

Þegar horft er til fyrningar og tómlætis Hafnarfjarðarbæjar á nýtingu og uppgræðslu í Krýsuvík gæti Grindavíkurbær með réttu gert tilkall til landsvæðisins því útgerðarbærinn hefur langt umfram Hafnarfjörð annast uppgræðslu á svæðinu, auk þess sem bændur þar hafa nýtt landið öðrum fremur til sauðfjárbeitar og annarra hlunninda, s.s. rjúpnaveiði, útivist og heilsueflingar. Þá má með rökum sýna fram á eðlileg landfræðileg og söguleg tengsl Krýsuvíkursvæðisins við lögsagnarumdæmi Grindavíkur, bæði í fortíð og nútíð. Það ætti því ekki, á grundvelli framangreinds dóms og sömu raka, að vera því margt til fyrirstöðu að Grindavíkurbær geri tilkall til landsvæðisins, að huta eða í heild.

Rétt er að geta þess, með vísan til nútíma stjórnsýslu, að Krýsuvíkurland var afhent Hafnarfjarðarbæ á „silfurfati“ á sínum tíma. Einn maður, öðrum fremur, átti hluta að því. Og hver voru tengslin?

Guðmundur Emil Jónsson (f. 1902) var alþingismaður fyrir Hafnarfjörð 1934-’37, 1942-’53 og 1956-’59. Landskjörinn alþingismaður var hann 1937-’42, 1953-’56 og 1959 og alþingismaður Reykjaneskjördæmis 1959-´71. Hann var samgöngumálaráðherra 1947-’49, forsætis-, sjávarútvegs og samgöngmálaráðherra 1958-’59 sjávarútvegsmála- og félagsmálaráðherra 1959-’65 og utanríkisráðherra 1965-’71.
Emil var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1930-’37 og bæjarstjóri í Hafnarfirði 1930-’62. Hann var formaður bæjarráðs 1942-’54 og formaður Krýsuvíkurnefndar 1938-’42 svo eitthvað sé nefnt.

Hvar eru nú alþingismenn Grindvíkinga? Ef hægt hefur verið að setja lög um séreignabreytinguna um 1940 ætti ekki að verða erfitt að setja lög um réttlætislagfæringu á heimfærslu landsins nú 65 árum síðar.
Alþingismenn eru jafnan ragir við að takast á við réttlætismál, einkum hagsmunatengd. Vonandi er þó til einhver slíkur – þótt ekki væri til annars en að hafa þor til að kynna sér málið.

Heimild m.a.:
-Hæstaréttardómur nr. 40/1999.
-Saga Hafnarfjarðar – III. bindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Gestsstaðir

Gengið var frá útivistarsvæði skátanna austan undir Bæjarfelli að gömlu Krýsuvíkurrréttinni. Þaðan var haldið eftir gamalli götu í átt að Drumbsdalavegi.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgata vestan Bæjarfells.

Gatan liggur fyrst norðan vegarins, fer síðan yfir hann þar sem varða er hlaðin norðan við veginn og liggur síðan áfram samhliða honum að sunnanverðu. Á einum stað má sjá hlaðið í moldarflag. Við götuna eru gamlar fallnar og hálffallnar vörður. Gengið var upp Sveifluhálsinn þar sem Drumbsdalavegur liggur upp hann og honum fylgt í lægð í hálsinn uns komið var að þeim stað austan Drumbs er sást yfir að gígum þeim er Ögmundarhraun rann úr, um Bleikingsdal og yfir að Vigdísarvöllum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Á hálsinum er lítil varða. Þar var snúið við og gengið eftir stíg norður með austanverðum Sveifluhálsi. Þar ofarlega hálsinum, í grónu dragi, er greinilega gömul tótt og hlaðið út frá henni. Tóttin virðist vera frá sama tíma og aðrar tóttir Gestsstaða, sem þarna eru nokkru norðar. Hún hefur þó hvergi verið skráð svo vitað sé. Sunnan undir hól, suðvestan Krýsuvíkurskóla, er löng tótt og skammt austar eru fleiri tóttir.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í tóttunum eru merki um friðlýstar minjar. Eftir að minjarnar höfðu verið skoðaðar var gengið til suðurs að Skugga, klettum austan undir sunnanverðum Sveifluhálsi. Frá honum var haldið yfir á Krýsuvíkurveginn og hann genginn að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tík 3 klst og 3. mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Skugga var gengið til austurs að Bæjarfelli og síðan austan með því norðanverðu. Þar var fyrst fyrir Hafliðastekkur og hleðslur undir stórum steini. Skammt austar er tótt uppi í hlíðinni og enn austar sést móta fyrir gömlum stekk. Frá honum var gengið yfir að Rauðhól og leitað réttar, sem þar átti að hafa verið skv. gamalli lýsingu. Ekkert sést nú móta fyrir réttinni, enda búið að leggja veginn utan í hólinn. Skoðað var brúarstæði á gömlu Krýsuvíkurleiðinni og skoðað hrossagaukshreiður, sem þar var undir gamla brúarstæðinu. Þá var litið á mógrafirnar sunnan vegarins. Þaðan var gengið var til suðurs að Snorrakoti, eftir vörslugarði þess til vesturs og beygt síðan til suðurs að Norðurkoti. Skammt norðan kotsins er tótt er liggur neðan við heimtröðina, sem þarna er greinileg. Í tóttum Norðurkots er merki um friðlýstar minjar. Þaðan var gengið að Læk og skoðaðar tóttir gamla bæjarins sem og tóttir austan þeirra. Á Vestarilæk, sem rennur vestan tóttanna, var fyrrum kornmylla. Gengið var yfir að Suðurkoti. Norðan utan í gömlum vörslugarði norðan nýrri garðs, sem liggur á milli Bæjarfells og Arnarfells, er gömul tótt.
Gangan endaði síðan á útivistarsvæði skrátanna eftir 3 klst og 11 mín ferð.
Frábært veður.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Þorbjörn

Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn.

Grindavík

Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Heimild:
-Huld I, bls. 60-61.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Krýsuvíkurleið

Áður en það var rutt varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi.
Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Guðmundsson frá Skála fylgdi FERLIRsfélögum að dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

-Huld I 231.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Festarfjall

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Rauðskinna I 45

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík (Hraunssandur).

Járngerðarstaðir

„Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir Grindavíkursjórofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Dys við Hraun.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. (Grafið var í hólinn á fimmta áratug 20. aldra. Í ljós kom kapella frá 15. öld. Nefnd dys mun vera á hól vestan Hrauns).

Þyrnir

Þyrnir hjá Járngerðarstöðum.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.“

Jón Árnason IV 161 – Brynjúlfur Jónsson skráði – Tillaga til alþýðlegra fornfræða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðahverfi

Þegar fornleifaskráningar eru annars vegar eiga fornleifa- eða sagnfræðingar (allt eftir hverjir vinna úr skráðum heimildum) stundum það til að taka fyrirliggjandi gögn sem gefin.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi 2018 – Túnakortið frá 1918 með yfirliggjandi loftmynd.

Tökum einfalt dæmi; Árið 2018 var gerð skýrsla um „Fornleifar í Þókötlustaðahverfi“ í Grindavík með undirskriftinni „Verndarsvæði í byggð“. Upplýsingar í skýrslunni eru m.a. byggðar á Túnakorti af Þórkötlustöðum frá 1918, gert af Vigfúsi Guðmundssyni. Kortið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – minjauppdráttur frá 2018. Þarna er Klöpp fast við og austan Buðlungu. Hrauntún er komið „innan  svæðis“.

Þegar Túnakortið er skoðað eru á því augljósar villur. Jörðin Klöpp er t.d. tekin út úr samhengi og hliðsett – líkt og hún væri Hrauntún. Jörðin Hrauntún er ekki merkt inn á Túnakortið. Á loftmynd og á uppdrætti af hverfinu sést hins vegar vel hvernig staða jarðarinnar Klappar er og hefur verið í samhenginu.

Þórkötlustaðahverfi

Hrauntún í Þórkötlustaðahverfi.

Þegar Túnakortið er verulega vandlega gaumgæft má sjá á því ótal mannvirki, þrátt fyrir alla gallana, sem ekki hafa ratað inn í skýrsluna – einhverra hluta vegna…

Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2018.
-Túnakort af Þórkötlustöðum frá 1918. Kortið gerði Vigfús Guðmundsson. Það er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands en hægt er að nálgast það á vef safnsins (hlaðið niður 14. ágúst 2017):
http://manntal.is/myndir/Tunakort/Gullbringusysla/Grindavikurhreppur/Jpg400/grindavikurhreppur 004.jpg

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason á Hrauni við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sagan segir að Þórkatla hafi verið kona Þorsteins hrúfnis (jötuns) og Járngerður hafi verið kona Þórðar leggjalda. Þeir voru synir Molda-Gnúps. Þegar eiginmaður Járngerðar fórst á Járngerðarstaðasundi mælti Járngerðu svo til um að 20 skip skyldu þar og farast. Hún var dysuð að hennar beiðni við sjávargötuna frá Járngerðarstöðum svo hún gæti fylgst með hverjir réru hverju sinni.

Dys Járngerðar er í vegkantinum, sunnanmegin, í beygjunni á milli Víkur og Hliðs. Tómas Þorvaldsson, sem vísaði á dysina, sagði það venju að sjómenn, sem gengu sjávargötuna framhjá dysinni, stöðvuðu þar og signdu sig eða báðu bænir áður en þér héldu til báts.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Í sama óveðri slapp eiginmaður Þórkötlu inn á Þórkötlustaðasundið. Þórkatla mælti þá svo til um að þar myndu engir bátar farast. Hefur hvorutveggja gengið eftir. Þórkatla mælti fyrir um að hún skyldi dysjuð þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðasundið.
Dys Þórkötlu er er í túninu austan við Hof.

Jón Árnason IV 231
Skv. upplýsingu Tómasar Þorvaldssonar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.