Tag Archive for: Grindavík

Þórkötludys

Ætlunin var að reyna að staðsetja bæ Molda-Gnúps Hrólfssonar, fyrsta landnámsmannsins í Grindarvík og sona hans. Hann átti fjóra sonu, sem taldir eru hafa búið í þremur höfuðhverfum Grindvíkinga, og eina dóttur, Iðunni, er fluttist að Þjóstur á Álftanesi. Synirnir voru: Þórður leggjaldi, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Björn, síðar nefndur Hafur-Björn, sem hafa að öllum líkindum allir sest að í og við Grindavík. Hafa ber í huga að nefndur Molda-Gnúpur kom til landsins um 930.

Hóp

Tóftir á Hópi – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var um svæðin í fylgd Sigurðar Ágústssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Grindavík.
Gamlar tóttir eru bæði suðaustan við Þórkötlustaði og á túni austan við Bjarmaland (Einland). Austasta sjávargatan liggur niður frá Klöpp austan við Buðlungu og enn sést marka fyrir miðgötunni austan við Þórkötlustaði (Miðbæ). Áhugaverðasta tóttin er ferningslaga upphækkaður reitur á nokkuð sléttu túni. Greinilegt er að honum hefur verið hlíft af ásettu ráði því slegið hefur verið í kringum hann. Enginn virðist kunna skýringu á þessari tótt. Hún líkist helst haug eða dys. Mikilvægt er að finna út hvað þetta getur verið.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Birgir Guðmundsson leiddi hópinn um Hópssvæðið. Skoðað var gamla bæjarstæðið norðan við fjárhúsin. Það er á og sunnan í hól. Gamalli tótt, sem þar er, hefur aldrei mátt raska, svonefnd Goðatótt. Þegar staðið er upp á hólnum sést, ef vel er að gáð, mjög gömul jarðlægð tótt, nokkuð stór, norðaustan við hann (við suðvesturhornið á Móum). Út frá henni liggja gamlir grónir skeifulaga garðar upp að greinilega mjög gömlum megingarði er virðist hafa umlukið tóttina ofan frá.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ef garðinum er fylgt til vesturs er komið að hól, sem gæti verið forn bæjarhóll. Suðvestan við hólinn er gömul jarðlæg tótt, lík hinni. Birgir sagðist hvorki kannast við þessar tóttir né garðinn. Hann hefði aldrei velt þeim fyrir sér. Ofan við megingarðinn er steingarður. Hann liggur nú frá eystra íbúðarhúsinu til austurs og beygir síðan til suðurs, líkt og gamli garðurinn. Í beygjunni er hann farinn að þynnast verulega. Birgir sagði að tekið hefði verið úr garðinum á sínum tíma – þegar grjótið var einhvers virði og hægt var að selja það. Þessi garður hafi áður einnig legið áfram langt til vesturs í átt að Stamphólsgjá.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var að tóttum Hópskots, sem er norðan undir vegg Stakkavíkurfiskverkunarinnar, og eftir hafnargötunni að hópsvörinni og Vatnstanganum neðan hennar, skammt vestan við neðri innsiglingavörðuna.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Austan við garðana er greinilega gömul leið austur í hverfi. Norðan hennar liggur beinn hestavegur til austurs og vesturs. Birgir sagði þetta vera gömlu hestagötuna frá Járngerðarstaðahverfi austur í Þórkötlustaðahverfi. Við götuna á vinstri hönd þegar hún er gengin til vesturs er ílangur gróinn hraunhóll. Birgir sagði að hann hafi ávallt gengið undir nafninu Álfakirkja. Enn lengra til suðurs er hóll, sem nefndur var Öskuhóll. Þar mun ösku hafa verið dreift áður fyrr. Hann er nú algróinn. Skammt vestar og hægra megin við reiðgötuna er greinilega mjög gömul tótt með tveimur rýmum. Ofan hennar er efri innsiglingarvarðan. Birgir sagði að hvorki faðir hans né afi hafi vitað til hvers þessi tótt hafi verið notuð.
Birgir hafði undir höndum örnafnalýsingu á Hópslandi og Þórkötlustaðalandi, m.a. frá 1926, sem hann gaf afrit af. Tækifærið var notað til að rissa upp svæðið. Teikningin hefur nú verið fullgerð.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Litið var á dys Járngerðar í Járngerðarstaðahverfi og á bæjarhólinn á Járngerðarstöðum. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar eru núverandi húsin á eða utan í gamla hólnum. Helst væri hægt að finna minjar í hól norðan og aftan við þann hól.
Í Staðarhverfi hafa túnin verið sléttuð út, enda mikið sandfok mætt þar á. Ef taka á mið af eina hlaðna grjótgarðinum, sem þar er, hefur sandurinn hlaðist upp túnmegin við hann og hulið það, sem þar kann að hafa verið. Í túninu suðvestan við kirkjugarðinn og sunnan við gamla bæjarstæðið, eru hólar. Í öðrum þeirra er gamall bær, sem hét Krukka. Ekki er vitað hvað kann að leynast í hinum hólnum.

Húshólmi

Minjasvæði við Húshólma, ofan hinnar fornu Krýsuvíkur neðan (G)Núpshlíðar.

Leitt er að því líkum að Þórður leggjandi hafi búið í Staðarhverfi og Þórðarfell norðan þess verið nefnt eftir honum. Hafur-Björn hafi búið í Þórkötlustaðahverfi (Hópi) og Þorsteinn hrungnir hafi búið á Járngerðarstöðum. Vitnað er í það í örnefnaskránni að Hóp kunni að hafa áður heitið Hof. Hof er einnig til í Álftafirði þar sem Molda-Gnúpur kom að landi, eins og reyndar flestir landnámsmanna, og settist að. Ef rétt reyndist ætti að vera hægt að finna bæ sonar Hafur-Björns á þessum stað – einu hentugasta svæðinu til slíkrar staðsetningar í Grindavík. Tóttirnar tvær sem og gróinn bæjarhóll á Hópi er mjög forvitnilegt til frekari skoðunar.
En hvar bjó þá Molda-Gnúpur Hrólfsson? Undir (G)Núpshlíðarhálsi. Sýnilegar tóftir í Húshólma og Óbrennishólma gætu verið minjar eftir hann eða afkomendur hans…

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Festarfjall

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur má m.a. sjá pistil eftir ritstjórann, Óskar Sævarsson, um „Silfru og Festarfjall„. Þar segir:

Sifra

Silfurgjá.

„Silfurgjá heitir gjá ein í Grindavík, skammt frá Járngerðarstöðum. Gjáin ber nafn af kistum tveim er þar eiga að vera geymdar.
Skulu kistur þessar vera úr skíru silfri og að öllum líkindum ekki alveg tómar af öðru verðmæti. Kisturnar eru yfirskyggðar og ósýnilegar, en þær losna og koma í ljós ef bræður tveir frá Járngerðarstöðum sem báðir heita sama nafni ganga í gjánna, en samtímis verður dóttir bóndans á Hrauni, sem er austastaði bær í Þórkötlustaðahverfi, að ganga undir festina í Festarfjalli.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall heitir fjallið sem gengur þverhnýpt í sjó fram milli Hrauns og Ísólfsskála. „Festin“ sem fjallið dregur nafn sitt af er í raun basaltgangur sem liggur í gegnum fjallið niður í sjó, en þó gegnt fyrir festarendann um fjöru.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Festin á í raun réttri að vera úr skíru silfri, þótt hún sé svona ásýndum og losnar hún ef stúlkan gengur undir hana á sömu stundu og piltarnir hverfa í gjána.
En sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessi bóndadóttir frá Hrauni verður að heita sama nafni og tröllskessa sú sem kastaði festinni fram af fjallinu. En enginn veit hvað sú skessa hét eða heitir eða hvort hún er lífs eða liðin. Á þeirri stundur sem tröllskessan kastaði festinni fram af fjallinu hét þar Siglubergsháls sem fjallið er, en bergið Sigluberg þar sem festin liggur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hér er þá komin hin forna sögn sem gengið hefur manna á millum í árhundruð hér í Grindavík. Staðirnir og örnefnin sem fram koma eru sem greypt í mannlífið og er skemmst frá því að segja að t.d. félgasheimlið okkar hét Festi, nokkur fyrirtæki hafa borið nöfn eins og Silfurhöllin, Festi h/f og Silfurberg sem voru útgerðarfyrirtæki.
Í gamali kálfskinnsbók (að öllum líkindum að finna á Írlandi) frá anno 400 post Cristum natum ritast; að Ísland hafi verið byggt Írum er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér á landinu í 200 ár.

Festarhringur

Festarhringur.

Eftir það er mælt að niðjar þeirra er byggð áttu á Írlandi hafi hingað komið og séð hér yfir 50 elda og var þá útdautt hið gamla fólk (nefnt Troll í hinu gamla handriti).
Þar komur og fram örnefnið Siglubergsháls; ritast „Og við Sigubergsháls sem skuli hafa verið í Grindavík“ skyldu ískir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu og segja gamlir menn að um stórstraumsfjöru megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppum.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2022 – Silfra og Festarfjall, Óskar Sævarsson, bls. 103.

Silfra

Í Silfurgjá.

Arnarseturshraun
Vísbending hafði borist um helli austan Arnarseturs í Arnarseturshrauni. FERLIR þangað.
Byrjað var á því að ganga eftir stígum til suðausturs í átt að Stóra-Skógfelli, en enginn hellir fannst á eða við þær leiðir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þá var gengið í boga til norðurs austan við Arnarsetursgíg. Gígurinn sjálfur austan við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn fannst norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarsetrið.

Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í honum. Hann er opinn til beggja enda, kannski um 30 metra langur. Í heildina er hann sennilega um 100 metra langur, ef jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með. Þetta er hið ágætasta afdrep. Um 5 mínútur tekur að ganga stíginn frá hellinum yfir á Arnarsetursveginn.
Bent skal á að þegar staðið er norðvestan við sjálft Arnarsetrið og horft til suðausturs er stór klettur utan í setrinu eins og mannsandlit.

Arnarsetur

Arnarsetursrásir.

Norðar og vestar í Arnarseturshrauni eru nokkrir fallegir hellar þótt þeir geti hvorki talist langir né stórir. Vestast er Kubburinn (falleg hraunsrás á tveimur hæðum), en nyrstur er Hestshellir (með fyrirhleðslu skammt austan við Grindavíkurveginn).

Arnarsetur

Hellir í Arnarsetri.

Milli hans og Arnarseturshellis er Hnappurinn (Geirdalur – ber nafn af þeim er fyrstur kíkti niður í hann). Fara þarf niður þröngt uppstreymisop, fylgja lágri brúnleitri fallegri rás, halda niður í víðan og háan geymi (lítið loftop efst) og út úr honum liggja nokkrir angar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra.
Gangan milli hellanna tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.

Gíghæð

Gíghæð vestan Arnarseturs.

Spenastofuhellir

Spenastofuhellir er um 100 metra langur hraunhellir í Tvíbollahrauni. Völundarhúsið er helmingi lengri sexmunnahellir í sama hrauni með mikilli litadýrð, fallegum hringleiðum með ýmsum storknunartilbrigðum, miklum flór og öðrum myndarlegheitum.
SpenastofuhellirHraunið er einna merkilegast fyrir að hafa runnið um svipað leyti og fyrstu landnámsmennirnir voru að koma sér fyrir á Reykjanesskaganum. Aldur þess er því svipaður og elstu minjar á Skaganum. Upptökin eru í Tvíbollum (Miðbollum) milli Grindarskarða og Kerlingarskarðs. Stærð hraunsins er um 18 km2. Vel má sjá hvernig elfurinn hefur runnið niður norðanverða hlíðina að Helgafelli og þaðan áfram suðvestan við það. Líklega er þarna um tvö hraun að ræða sem komið hafa upp með tiltölulega stuttu millibili, stundum nefnd Hellnahraun neðra. Erfitt er að greina skil þeirra, en þó má sjá hvernig úfnara hraunlag hefur lagst á og að því þynnra. Meginrás fyrra hraunsins sést vel norðvestan í Stórabolla og þess síðara norðvestan í Tvíbollum. Hún er fallin niður á nokkrum stöðum svo eftir standa rúmgóð jarðföll. Stærsta jarðfallið í rásinni er neðan fjallsrótanna. Af henni að merkja hefur þar verið um verulega fóðuræð að ræða.
Nokkrir hellar eru í Tvíbollahrauni. Má þar nefna Flóka í Dauðadölum, en hann er einn margflóknasti og sérkennilegasti hellir landsins. Heildarlengd hans er yfir einn kílómetri.
Hjartartröðin er nokkur vestar, en hann er hluti gróinnar hrauntraðar í eldra hrauninu. Heildarlengd hans er hátt í 500 m.
Þá má nefna Gashelli, Spenastofuhelli, Syðri lautarhelli, Spánverjahelli, Nyrðri lautarhelli, Elginn, Rósaloftshelli, Balahelli og nokkra stutta hella, sem jafnan hafa verið nefndir Selvogsgötuhellar.
Spenastofuhellir Spenastofuhellir dregur nafn sitt af sannkallaðri spenastofu í einni hliðarrásinni. Þar má líta augum spena í öllum stærðum og af öllum gerðum. Op lautarhellanna eru í grónum bölum. Spánverjahellir fékk nafn vegna þátttöku þarlendra við fyrstu skoðun hans. Elgurinn fékk nafn af hraunmynd líkri elgshaus sem kemur´“óvænt“ út úr einum veggnum og Rósaloftshellir heitir eftir einstaklega fallegu rósamynstri í lofti hellisins, sem er líklega einsdæmi í hraunhelli hér á landi.
Og þá var stefnan tekin á Völundarhúsið. Neðsta opið horfir mót norðri. Fallegar storkumyndanir eru á gólfi svo og líkt og bátur á hvolfi. Annað op er skammt ofar. en ca. 10 m suðaustan við neðra niðurfallið er 1-2 m breitt op. Innan við það tekur við rúmgóður hellir með nokkrum opum. Út frá rásinni er ýmis göng og þverrásir í allar áttir, jafnvel í hálfhringi. Hliðarrásir eru víða þröngar, en litfagrar. Í einum ganginum eru mjó undirgöng sem óvíst er hvort fara má um. Hellirinn er líklega um 100 metra í heildina. Hann hefur þó ekki verið skoðaður til hlýtar. Að þessu sinni helltu veðurguðirnir úr skolfötum sínum, en þegar farið var eftir rásinni fór það alveg fyrir ofan garð og neðan. Svo margt bar fyrir augu á skammri leið að allt annað gleymdist.
Þótt Sepastofuhellir sé hluti af sömu rásaröngum út frá hinni fyrrnefndu meginrás Tvíbolla og beri þess litbrigðarmerki eru myndanir í honum ólíkar því sem annars staðar má sjá. Þegar komið er inn fyrir munnann, sem er bæði hár og breiður, tekur við hraun framan við fallega sepaumgjörð. Í fyrst mætti ætla að rásin væri ekki lengri en þessir 10 m, en þegar betur er að gáð má sjá gat inn í rásinni. Það er nægilega stórt til þess að hægt er að renna sér áfram á maganum sléttri hraunhellunni inn í rúmgóða rás. Hrun er á gólfi, en hægt er að fylgja rásinni spölkorn upp eftir.
Spenastofuhellir Annað op er inn úr norðaustanverðum framhellinum. Þegar þangað inn er komið tekur spenastofan við. Sama sagan var þarna og í Völdunarhúsinu; gólf og veggir þurrir þótt framhellirinn gréti í rigningunni. Í rauninni er þarna um ótrúlega fallega umgjörð brúnleitra jarðmyndana að ræða.
Þessir fallegu spenar hafa orðið til við mikinn hita í hraunrásinni. Bæði hefur bráðheitt hraunið í henni brætt veggi og þak rásarinnar og mikill hiti hefur haldist inni í henni eftir að hún lokaðist í báða enda með fyrrgreindum afleiðingum. Áhrifin urðu bergbráðnir spenar (separ).
Bergkvikan frá gígnum rennur yfirleitt úr honum ofanjarðar eða um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun oft mjög lagskipt. Ekki er að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Á Reykjaneskaganum eru þekktastir slíkra hella Raufarhólshellir í Þrengslum, en óþekktastur Búri í Búrfellshrauni. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum, auk framangreindra sepa og flóra.
Spenamyndanir sem þessar má víða sjá í hellum á Reykjanesskaganum, s.s. í efri hluta Rebba á Herdísarvíkurfjalli og í Kistuhellunum í Brennisteinsfjöllum. Litbrigðin í Rebba eru svipuð og í Spenastofuhelli, en þau eru rauðleitari í Brennisteinsfjöllum, sennilega vegna nálægðar við upprunann.
Frábært veður. Gangan að hellunum frá Bláfjallavegi tók 12 mín, enda ekki nema um 900 m leið að fara.

Spenastofuhellir

Hrútagjárdyngja

Gengið var um meginhrauntröð Hrútagjárdyngju, gígtappi dyngjunnar barinn augum og ályktað um jarðfræði myndunarinnar. Ætlunin var að kíkja inn í Steinbogahelli, líta í Húshelli og í Maístjörnuna, Aðventuna og auk þess renna eftir tveimur langrásum nokkur hundruð metra inn undir yfirborðið. Í lokin var svo dáðst að útsýninu að Fjallinu eina og að Sauðabrekkum áður en haldið var til baka um Stórhöfðastíg milli Sandfells og Hrútargjárdyngjubarms.

Fjallið eina

Hrútagjá er sigdalur sem liggur í norðvesturjaðri eldstöðvarinnar Hrútagjárdyngju í Móhálsadal sunnan við Fjallið eina. Gjáin sjálf líkist tröð með mosagrónum hraunbotni á milli klofinna hraunhryggja. Allt svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ef hraungosunum er skipt upp í sprungugos og dyngjugos kemur fram athyglisverður munur á goshegðuninni. Nánast öll hin stærri dyngjugos urðu strax á síðjökultíma í kjölsogi jökulleysingarinnar og framleiðni þeirra var í hámarki fyrir meira en 11.000 árum. Síðan dvínaði hún og á síðustu 4000 árum hafa einungis orðið þrjú dyngjugos.
OpDyngjutímabilið hófst fyrir um 14000 árum spannaði því 10.000 ár. Engin stór sprungugos eru þekkt frá síðjökultíma. Hins vegar komu upp mikil hraun snemma á nútíma og þá náði framleiðni gossprungnanna hámarki. Á tímabili um miðbik nútímans, frá því fyrir 6000 árum og þar til fyrir 4000 árum, urðu engin stór sprungugos en síðan fór eldvirkni og hraunaframleiðsla vaxandi og náði nýju hámarki á sögulegum tíma. Svipað mynstur sést í tíðni súrra, plíniskra gjóskugosa. Á fyrstu árþúsundunum eftir að ísa leysti er vitað um fjögur slík gos. Um miðbik nútímans varð lengsta goshléið en síðan jókst gosvirknin og hefur hún verið mikil á sögulegum tíma.
Meginhrauntröð Hrútagjárdyngjunnar var fylgt að gígrótunum, fallegum hringlaga tappa í henni miðri. Þá var hrauntröðinni fylgt áfram til norðurs út úr „upprisu“ hraunsins í kringum og út frá gígnum. Landið hefur risið þarna allnokkuð vegna þrýstings kvikuhólfsins undir niðri og sést það berlega á „upphluta“ hennar á jöðrunum.
Þegar komið var út úr tröðinni blasti höfuðborgarsvæðið við – sólbaðað. Fjallið eina var í forgrunni – formlagað sem fyrr.
Hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju tekur við rétt handan við meginformið. Næst er Steinbogahellir. Hann ber nafn sitt af steinboga, sem enn stendur yfir jarðfallinu, sem opið er í. Niðri er hin myndarlegasta rás, en fremur stutt. Hún endar í hruni.
MaistjarnanÞá var litið á op Neyðarútgöngudyrahellis áður en stefnan var tekin á Maístjörnuna. Þegar komið var að opinu sást vel hversu mikinn varma hellar sem þessi geyma í sér fram eftir vetri. Úti var -9°C, en þegar inn var komið var hitinn milli + 10°C-15°C. Hitinn hafði brætt af sér snjóinn fyrir opinu svo inngangan var auðveld. „Augað“ í Maístjörninni er alltaf jafn áhrifamikið. Um er að ræða tiltölulega þrönga rás, sléttbotna. Fyrir innan taka við rásir til beggja handa. Þegar farið er til hægri er um formfagra rás að ræða. Hún skiptist fljótlega í tvennt. Sé farið niður eftir vinstri rásinni skiptist hún í tvennt – og þrengist beggja vegna.
Hægri rásin liggur að þverrás, lægri. Ef henni er fylgt til hægri er komið upp þar sem farið er inn í „augað“. Ef haldið er áfram er komið inn í litskrúðugan hraunsal. Úr honum má vel leita leiða til annarra átta. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni.
Þegar haldið er til vinstri er komið er inn úr „auganu“ taka við dropsteinar. Sæta þarf lagni til að komast framhjá þeim án þess að valda skemmdum. Ofan við er komið inn í rás. Hún liggur annars vegar upp á við og skiptist þar í tvennt. ÞverhellirSé haldið til hægri niður rás er komið niður í fyrrnefnda rás. Hún leiðir viðkomandi áfram niður einstaklega fallega formmyndun. Í henni er m.a. litskrúðugur flór. Þegar horft er til baka frá þessum stað er að sjá tvískipta rás. Þetta sjónarhorn getur ruglað margan nýliðann í rýminu. Hvaðan kom ég? Hvert á ég eiginlega að fara til að komast til baka? Augnabliks hræðsla getur gripið um sig – en það er óþarfi. Með því að fara til baka með rásvegginn á vinstri hönd er auðvelt að finna útgönguleiðina.
Formfegurðin þarna í rásum Maístjörnunnar er óvíða meiri. Litadýrðin er engu öðru lík. Í rauninni er um slíka gersemi að ræða að sem fyrr er ástæða til að takmarka aðgengi að hellinum. Því miður er reynslan sú að fólk kann yfirleitt ekki að umgangast gersemar sem þessar eins og ætlast er til.
Næst var leitað að helli, sem FERLIR fann fyrir nokkrum árum og var gefið númer í samræmi við hellaskráningarkerfi HRFÍ. Um er að ræða myndarlegt op. Þegar komið er inn tekur við nokkuð víð rás, en stutt. Þarna er galdurinn að fara til hægri um leið og inn er komið. Þar liggur um 400 metra löng rás til norðurs. Henni var fylgt nokkurn spöl. Að þessu sinni settu ljósgráir dropsteinar umluktir svarleitu klakaumleitan skemmtilegan svip á rásina. Gólfið er ljósbrúnt svo gráir veggirnir njóta sín vel í slíku umhverfi. Og ekki skemmdu hin fallegu grýlukerti fyrir stemmingunni.

Húshellir

Í Húshelli.

Kíkt var á opið á Híðinu, einum af fallegustu hellum svæðisins. Þrátt fyrir lengdina er hann fremur lágur og þarf að hafa góðar hnéhlífar við skoðun hans.
Húshellir var næstur. Einnig þar hafði undirliggjandi hitinn brætt snjóinn frá opinu svo inngangan var greið. Hlaðið hús úr grjóti er innan við innganginn. Rásir liggja til beggja hliða. Loftin eru heil og ekkert hrun er á gólfi. Bein eru í vinstri rásinni, bæði kindabein og stórgipabein, líklega af hreindýri.
Við skoðun á mannvirkinu var að sjá sem það hafi verið hlaðið af gefnu tilefni. Stórir steinar, a.m.k. þriggja mann tak, eru neðst. Það grjót hefur væntanlega verið sótt í munnann. Síðan hefur verið hlaðið ofan á með hraunhellum fengnum utan við hellinn.
Ljóst er að húsið hefur ekki verið hlaðið af refaskyttum eða hreindýraveiðimönnum. Líklegasta skýringin er sú að útilegumenn, eða einhverjir aðrir, sem hafa þurft að dvelja þarna um lengri tíma, hafi komið að verkinu. A.m.k. er um að ræða hina vandlegustu hleðslu er standa hefur átt til lengri tíma.
Tjaldað hefur verið yfir veggina og mosi verið settur í gólfið. Fróðlegt væri að aldursgreina beinin og jafnvel athuga nánar gólflagið í húsinu. Þarna er um að ræða eina af óleystum ráðgátum Reykjanesskagans – sem fáir sérfræðingar og fjárveitingahaldsmenn virðast hafa haft áhuga á fram að þessu.
Allt þetta svæði er í umdæmi Grindavíkur – jafnvel þótt sumir vildu staðsetja það annars staðar. Húshellir er algerlega óhreyfður. Loft eru heil og gólf slétt. Stærð hans er umtalsverð í rúmmetrum.
Að þessu búnu var haldið yfir á Stórhöfðastíg og honum fylgt upp með Sandfelli og milli Hrútfells og Hrútagjárdyngju. Stígurinn hefur verið merktur, en stikurnar á honum sunnanverðum hafa eitthvað verið aflagaðar. Þær eiga að vera svolítið vestar og koma inn á Undirhlíðaveginn skammt vestan núverandi staðsetningar. Þar er gatan augljós. Vonandi verður þetta lagað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.isor.is

Hrútagjárdyngja

Garðhús

„Einar G. Einarsson, bóndasonur frá Garðhúsum í Grindavík, var aðeins tuttugu og fjögurra ára er hann sótti um verslunarleyfi til sýslunefndar og sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Grindavík

Grindavík – Einarsbúð og nágrenni.

Ekki þarf að efa að þurft hefur kjark og mikið áræði til þeirrar ákvörðunar. Að fá leyfi til verslunarreksturs þá var ekki kvaðalaust, til dæmis þurftu menn að vera bindindismenn og stúkubundnir. ekki var leyfið heldur gefins því það kostaði fimmtíu sem voru miklir peningar árið 1897. Leyfi sitt til reksturs sveitaverslunar í Grindavíkurhreppi fékk Einar svo staðfest með bréfi frá sýslumanni hinn 1. maí með því skilyrði að sækja leyfisbréfið til Hafnarfjarðar á skrifstofu sýslumanns og greiða tilgreinda upphæð, fyrr mætti ekki hefja reksturinn.
Þegar eftir það hófst Einar handa og reisti verslunarhús miðsvæðis í hreppnum fyrir ofan lendinguna í Járngerðarstaðahverfi. Staðsetningin hefir að sjálfsögðu einnig miðast við það að vera sem næst sjómönnunum, því öll úttekt myndi greiðast með sjávarafla hvers og eins. Vafalítið hefir hann þá þegar verið búinn að ákveða að gerast firskverkandi jafnframt, vitað sem var að án þess gæti verslun í Grindavíkurhreppi ekki þrifist. Á þessum tíma voru nær öll viðskipti á Íslandi í vöruskiptum.
Einar G. EinarssonUm fyrstu árin segir Tómas Snorrason svo frá í Ægi, 5.tbl árið 1929: „Það mun flestum skiljast, að erfið hafi staða hans verið í byrjun, hann óþekktur, efnalítill og lítt kunnur verslunarsökum, en staðhættir þannig, að helst varð að byrgja verslunina að vörum að sumrinu, er endast þurfti til næsta sumars. Auðvitað þraut ýmislegt, einkum fyrst framan af, og margan leiðangurinn mun hann hafa gert út með þá hesta er fáanlegir voru að vetrinum til, til að viða að sér nauðsynjum; mun margt hafa stuðlað að því, t.d. varfærni að binda sér ekki þær skuldabyrðar, er hann gæti ekki staðið í skilum með, ört vaxandi viðskipti o.fl. Vafalaust hefir það í byrjun aukið tiltrú til hans hjá þeim, sem hann fékk vörur hjá, að hann átti ríka foreldra…“
Við þetta er því til að bæta að stórbóndinn Lárus í Grímstungu sagði mér, höfundi þessarar greinar, svo frá er ég heimsótti hann í Vatnsdalinn sem oftar að hann hefði í mörg haust rekið stóðhesta til Grindavíkur eingöngu fyrir Einar bónda og kaupmann í garðhúsum. Hann hefðis taðgreitt hrosson og veitt vel bæði í mat og drykk. Sagði hann mér að þessi viðskipti hefðu verið þau ánægjulegustu sem hann hefði átt, og bætti því við að þar hefði verið maður að sínu skapi. Ekki er ólíklegt að einkitt þessir hestar hafi borið mikið af varningi Grindvíkinga.
Einar í Garðhúsum hafði áður en hann hóf kaupmennsku verið sjómaður á bátum förður síns frá sextán ára aldri til tvítugs, en þá byrjaði hann með sinn eigin bát og var formaður á þeim báti næstu fjögur árin. Honum tókst vel til við formennskuna og átti, eftir því sem best verður séð, bjarta framtíð í útgerð og fiskverkun auk búskapar. En það var nokkuð sem han ngat ekki fellt sig við og það voru verslunarhættir þess tíma.

Einarsbúð

Ástæðu þess að hann ákvað að stofna til reksturs lýsir hann í blaðaviðtali við Sigurð Benediktsson í „Stundinni“ árið 1940, á þessa leið: „Mér er í barnsminni, þegar Grindvíkingar báru flestar nauðsynjar sínar á bakinu frá Keflavík, en það er um tuttugu kílómetrar. Jafnvel voru dæmi þess, að fólk bar salt á bakinu frá Keflavík til fiskverkunar í Grindavík.. Og vegna fátæktar áttu Grindvíkingar ekki upp á háborðið í Keflavíkruverslun og urðu ósjaldan að híma þar við búðadyrnar hálfa og heila dagana áður en þeir fengu áheyrn, sem eins vel gat falið í sér fullkomna synjun um úttekt og úrbætur. Svona var þetta þá. Ungur fylltist ég beiskju og uppreisnaranda gegn þessum viðskiptaviðbjóði og ákvað að gera það, sem ég gæti til að bæta úr þessu böli sveitunga minna. Þessvegna, og fyrst og fremst þess vegna, setti ég á stofn fyrstu og einu verslunina í Grindavík.“

Gamla búðin 1961

Ég man allvel hvernig Einarsbúð, en svo var hún oftast nefnd, leit út en vel þó frekar að vitna í æviminingar Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns, en þar segir svo: „Búð Einars eins og ég man fyrst eftir henni, þætti ekki stór nú á dögum; varla meira en um þrjátíu fermetrar. En hún breyttist og stækkaði smátt og smátt. Verslunarhúsið var úr timbri, ein hæð með lágu risi. Í fyrstu var gengið beint inn í búðina, en fljótlega var byggð lítil forstofa.“
Í búðinni hjá Einari fékkst allt milli heinmins og jarðar, bæði stórt og smátt. Þar ægði saman óskyldustu hlutum eins og sápu og  súkkulaði eða sykri og pipar. Og margs konar varningur hékk í loftinu, einkum búsáhöld og blikuðu eins og stjörnur á heiðskíru húmkvöldi.
Einari í Garðhúsum tókst ætlunarverk sitt, verslunin jókst jafnt og þétt svo og útgerð hans, fiskverkun og búskapur. Fyrr en varði var hann orðinn einn af umsvifamestu athafnamönnum á sínum tíma. Hann hóf nokkuð fljótlega að flytja inn vörur fyrir versluns ína og útgerð beint frá útlöndum með leiguskipum og mun einhverju hafa verið skipað upp í Grindavík og jafnframt skipað út fiski í sömus kip. Hann stofnaði svo Eimskipafélag Reykjavíkur ásamt tveimur tengdasonum sínum, þeim Einari Kristjánssyni og rafni Sigurðssyni ásamt Haraldi Forberg skipamiðlara.

Einarsbúð

Einar í Garðhúsum var einn af fáum athafnamönnum þessa lands sem stóð af sér kreppnuna árið 1930 og er ekki að efa að það eitt hefir verið mikið stórmál fyrir byggðalagið allt ekki síður en hann sjálfan.
Í blaðavitali við Faxa árið 1942 segir Einar m.a.: „Maður kemur í manns stað. Annars held ég að það verði framtíð Grindavíkur að útgerðin færist öll að Hópinu…“
Segja má að Einar í Garðhúsum hafi að miklu leyti lagt grundvöllinn að kauptúninu Grindavík, þeim grundvelli, sem uppvaxandi kynslóð byggði síðan upp af.
Einar rak verslun sína til dauðadags 1954. Einar var fæddur 16. apríl 1872 í Garðhúsum í Grindavík og bjó þar alla sína ævi. Hann kvæntist Ólafíu Ásbjarnardóttur. Eignuðust þau tíu börn og náðu sjö þeirra fullorðinsaldri; fjórar dætur og þrír synir.“

Heimild:
-Mbl 13. des. 1977 – Ólafur Einarsson.

Bryggjan

Rafnshús

Hér segir frá „Sjósókn og fólki á Suðurnesjum“ snemma á öldinni. Frásögnin í heild birtist í mbl. árið 1970. Höfundurinn, Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði tók saman. Ekki kemur fram við hvern er rætt.“

 Grindavík á fyrri hluta 20. aldar

Ótrúlegt, en samt er það satt, að 8 ára að aldri fór ég í verið upp í Grindavík.
Foreldrar mínir settust að í Hafnarfirði vorið 1911. Faðir minn hafði um árabil róið í Grindavík. Verið þar útróðramaður, útgerðarmaður. Það er; hann réðst til róðra fyrir ákveðið  kaup hjá einhverjum formanni. Hann hafði lengi verið útgerðarmaður hjá hjónunum í Rafnshúsum, Jóni Jónssyni og konu hans Marenu Jónsdóttur, en róið alla tíð hjá Gísla í Vík, syni þeirra Rafnshúsahjóna. Gísli fór með teinæring og var aflasæll alla sína tíð, svo að aldrei hlekktist honum á né mönnum hans. Hann var einnig með aflahæstu formönnum og því hafði hann ráð á góðum mönnum og dugmiklum. Ráð hafði verið fyrir því gjört, að faðir minn væri í Rafnshúsum þessa vertíð. Þótti foreldrum mínum sjálfsagt að leysa upp heimilið. Móðir mín skyldi vera hlutakona í Vík. Það er þjónustustúlka hjá konu Gísla, Kristjönu Jónsdóttur. Ég átti að fljóta með og vera í Rafnshúsum.

Skógfellavegur

Á kyndilmessu, 1. febrúar, skyldi hver útróðramaður vera kominn til skips.
Við lögðum svo af stað. veður var hið bezta. Pabbi minn bar allt dótið, en við gengum laus. Við gengum sem leið liggur Vagnveginn gamla suður Hraun. Undir túngarðinum í Hvassahrauni fengum við okkur bita. Fórum svo heim og fengum molakaffi. Minnir mig að bollinn kostaði 10 aura. Þaðan héldum við svo áfram eins og leið liggur suður Vatnsleysuströnd. Faðri minn þekkti hvern bæ og kannaðist við flesta bændurna.
Allmikið var farið að skyggja er við komum í Vogana. Ætlunin var að leita þar gistingar á einhverjum bæ. Gistum við að mig minnir í Hábæ hjá Ásmundi Jónssyni og konu hans. Vel var við okkur tekið og gisting auðfengin. Um kvöldið ræddu þeir margt saman Ámundur og faðir minn, um sjósókn og sjómennsku, formenn og sjógarpa á Suðurnesjum. Varð þeim um þetta skrafdrjúgt körlunum.
Snemma morguninn eftir vorum við á fótum. Fengum hressingu og ný skyldi lagt upp í seinni áfangann. veður hafði ekki breytzt og því hið ágætasta veður.
Sigurgeir Gíslason var um þetta leyti ekki lengra kominn með Suðurnesjaveginn en í Voga. Við fórum því eftir hestatroðningunum fyrsta spölinn, eða suður undir Stapa. Þar rétt undir Fálkaþúfu tekur við Alfaraleiðin suður til Grindavíkur, Skógfellaleiðin. Sunnan Bjallanna taka við Gjárnar. Þær hafa allar verið brúaðar með grjóthleðslu. En hættulegar gátu þær verið þegar yfir þær hemaði snjó, því hyldýpi er beggja megin brúnna, sem eru um þrjú til fjögur fet á breidd. Mörg skepnan hefur horfið með öllu í þessar gjár. Menn hafa einnig horfið í gjárnar bæði þarna og í Strandarheiðinni. Óhugnanlegar sögur ganga þar um. 

Brandsgjá

Maður nokkur var hér við smalamennsku og hvarf með öllu. Tugum ára seinna sáu smalar á eftir kind niður í eina gjána. Þegar sigið var eftir henni, fundust bein þessa ógæfusama manns. Og verksummerki þess, að hann hafði hlaðið vegg í gjána, til að komast upp, en ekki komið hleðslunni nógu hátt.
Þegar við komum að syðstu gjánni, Stóru-Aragjá, segir faðir minn: „Hér var það sem Brandur bóndi á Ísólfsskála missti hest sinn niður í vetur á jölaföstunni“. Og faðir minn sagði okkur söguna, en hún verður ekki rakin hér. Það setur að manni hroll við hugsunina um hætturnar. Þó hafa menn verið á ferð um þessar gjár frá alda öðli eins og ekkert hafi í skorizt.
Skógfellaleið var á þessum tímum greiðfær vel og víða vörðuð og því auðrötuð. Gatan liggur upp með austuröxl Litla-Skógfells og vestur með hlíðum þess og þar út á eggslétt klapparhraun, þar sem hestar fortíðarinnar hafa sorfið í hraunhellurnar alldjúpar götur. Á einum stað má greina þrjár götur hlið við hlið. Leiðin stefnir nú á Stóra-Skógfell, en rétt áður er komið að hraunhóli ekki stórum, sem heitir Hálfnunarhóll og er þar hálfnuð leið úr Vogum til Grindavíkur, hvort sem farið er í Járngerðarstaða- eða Þorkötlustaðahverfin eða að Ísólfsskála.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur gatan um úfið hraunið, austan við Svartsengi, Sundhnúk, Hagafell og Melhól. Skammt þar sunnar er mikil varða á hraunbrún, en niður undan tekur við Hópsheiðin. Af hraunbrúninni sést vel niður í Járngerðarstaðahverfi. Við héldum götunni niður undir Hópið og  vestan þess og lögðum leið okkar í búðirnar ofan til við Varirnar.

Tóftir

Rafnshús var lítill bær. Baðstofa, bæjardyr og eldhús inn af þeim. Baðastofan var þriggja stafgólfa og hólfuð sundur. Tvö rúm undir hvorri súð í sjálfri baðstofunni. Borð fram milli rúmanna undir sexrúða glugga. Skarðsúð. Framan við milliþilið var borð undir vestursúð, þar sem maturinn var skammtaður og fjögrarúðugluggi, sneri í vestur. Kistur og skápar voru þarna inni. Fyrir bæjardyrum var hurð með klinku og hleypijárni, en lítill gluggi yfir dyrunum. Inni í göngunum var hurð á vinstri hönd í baðstofuna, en inn af göngunum var milligerð með dyrum í eldhúsið, sem var hlóðareldhús. Þar inni voru nokkur ílát sem geymdu mat ýmiss konar og þar var líka geymdur eldiviður. Það var aðallega þang og þari, sem sóttur var í fjöruna neðan við túnið. Lagði af eldiviði þessum sérkennilegan og höfgan þef um bæinn. Lang í frá var hann óþægilegur. Til hliðar við bæinn var fjós fyrir tvær kýr og hlaða. Svolítinn spöl frá bænum stóð hjallur. Þar var allur matur geymdur bæði niðri og uppi, en nokkur hluti hjallsins var þurrkhjallur með grindum. Beint fram af bæjardyrunum var for. Þar var öllu skolpi hellt sem til féll og þangað var slori ekið. Á vorin var svo öllu þessu ekið á tún til áburðar.“

Heimild:
Lesbók mbl 22. nóv. 1970.

Sundhnúkahraun

Sprungur í Sundhnúkahrauni.

Grindavík

„Allt fram yfir síðustu aldamót var á lífi fók fyrir austan Fjall, sem tók svo til orða um sveitunga sína, er löngu voru safnaðir til feðra sinna: Hann er einn af þeim, sem komu úr Eldinum. Þannig var talað um þá, sem höfðu orðið að flýja ógnir Skaftárelda og náð bólfestu í útsveitum Suðurlandsundirlendisins.

Sjómenn

Sjómenn í Grindavík.

En löngu, löngu fyrr, mörgum öldum áður en ölmusulýður Móðurharðindanna hlaut að flýja hraunflóðið úr Laka, höfðu orðið eldsumbrotum í Skaftárþingi með þeim afleðingum að menn urðu að flytjast þaðan á brott. Þeir voru að vísu landnemar á þessum slóðum. Samt höfðu þeir ekki tjaldað tile innar nætur heldur ætlað sér að una þar ævi sinnar daga.
Í Landnámu segir frá Hrólfi höggvanda. Hann átti syni tvo: Vémund og Molda-Gnúp. Hér segir ekki af Vémundi, hvorki vígum hans né smíðum, heldur hinum bróðurnum, Molda-Gnúpi, sem kom til Íslands og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, þar sem nú er Álftaver og austurhluti Mýrdalssands. Molda-Gnúpur seldi mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt áður en en jarðeldur rann ofan og urðu þeir nú að flýja út yfir Sand, í Mýrdal. En ekki var þeim leyfð þar vist til langframa, enda sjálfsagt setinn bekkurinn. Vorið eftir héldu þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestust þar. „Þeir höfðu fátt kvikfjár“, segir í sögunni, svo sem ekki var óeðlilegt eftir þessa hrakningar. Skyldi maður nú ætla að ekki hefði gengið greitt að koma upp stórum bústofni á hrjóstrum Reykjaness, „þessu geigvænlega héraði, þar sem ferleg hraunflóð hafa brotizt hvert á annað ofan frá fjöllunum og allt í sæinn fram“, eins og Sveinn Pálsson kemst að orði í frásögn af ferð sinni um Sandakraveg.
GeitEn hér fór á aðra leið. Einn af sonum Molda-Gnúps hét Björn. Hann dreyndi um nótt, að bergbúi kæmi til hans og bauð að gera félag við hann og þóttist hann játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð vellauðugur. Eftir það var hann kallaður Hafyr-Björn, en af bergbúanum fer ekki fleiri sögum og ekki er þess getið hver varð hans hlutur í þessu hálfmennska kompaníi.
En hversu mikið, sem hæft er í þessum þjóðsögukenndu frásögnum af auði Hafur-Bjarnar í gangandi fé, þá er það sjórinn en ekki landið, sem hefur fætt Grindvíkinga frá upphafi og til þessa dags. Um 1700 bjuggu í Grindavík um 200 manns sem höfðu 66 kýr, 385 fullorðið fé og 58 hross. Þetta eru ekki nema eins og 2-3 væn bú nú á dögum.
Grindavíkurbátar fyrrumÍ ritgerð Skúla fógeta um Gullbringu- og Kjósarsýslu 1782 segir hann 202 menn búsetta í Grindavík, alls 43 fjölskyldur. Á sjö jörðum eru þar 15 bændur, að presti meðtöldum og kaupmanninum, 18 hjáleigumenn og 10 þurrabúðarmenn. En ekki er bústofninn mikill; 55 kýr, rúmlega 300 fjár, þar af 102 sauðir, en hrossin yfir 70. Þetta er ekki nema eins og eitt stórt bú nú á dögum. Það er heldur ekki von. Hér er erfitt að framfleyta nokkrum búpeningi að ráði. Því að það er eins og segir í sóknarlýsingu sr. Geirs Bachmanns, þá er „allt Grindarvíkurland ákaflega hrjóstugt og grýtt…“ Það mun óhætt að fullyrða, að eigi finnist á Suðurlandi jafngraslítil og gróðurlaus sveit sem þessi. Varla má það heita, að nokkurs staðar í nánd við bæi og í svokölluðum heimahögum verði áð hesti um hásumarið.
GrafiðÞað var því engin furða þótt sr. Geir breytti til og færði sig þangað sem mýkra var undir fótinn. Hann fékk seinna Miklholt á Snæfellsnesi. Þó var annað í Grindavík ekki minni annmarki heldur en grasleysið. Það var vatnsskorturinn. Víðast hvar eru fjöruvötn brúkuð til neyzlu eður þá þeim verri sjóblendingur úr stöðupollum og gjám, í hverjar sjórinn fellur að og út með hverju sjávarfalli… Það einasta rennandi vatn, sem finnst í nánd við bæi, er í afardjúpri gjá, Baðstofu nefndri, hér um bil 200 faðma frá bænum Húsatóttum. Eru niður að vatninu nálega 15 faðmar eða máske 20, hvað ei verður með vissu mælt, því það er ekki standberg og vatnsdýpið, þar til að verður komizt, við 3 faðma.
HópiðÞað væri því mikil synd að segja að gott væri undir bú á þessum slóðum og engin furða þótt menn hefðu þar „fátt kvikfjár“ eins og í Landnámu segir.
Um búskap Grindvíkinga segir sr. Geir Bachmann í fyrrnefndri sóknarlýsingu, að kýr verði „alla tíma að hafa inni nema þá tvo mánuði sem í seli eru.
Aldrei eru hestar traðaðir, hvað kopa mundi of mikið þeim gripum með brúkuninni, þar ei má heita hestar kviði sig á hálfri viku eftir eins dags brúkun til Keflavíkur.“
Um sauðféð og aðbúnað þess fer sr. Geir þessum orðum: „Engin eru hér beitarhús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni, gjafalaust og kemur aldrei í hús. Það liggur undir upphrófuðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi.“
Það má því með sanni segja, að eins og manneskjan átti sitt undir sjónum og því sem úr honum fékkst svo var líf hrossanna og sauðskepnunnar háð fjörunni og því, sem hafaldan rak upp á hana.
Þótt liðið sé nokuð á aðra öld síðan þetta var ritað hafa tímarnir furðu lítið breytzt hvað þetta snertir. Landið er það sama. Úfin hraun og gróðurlaus, berar klappir, gráir sandar. Það er ekki betra undir bú heldur en þegar Geir barmaði sér yfir grasleysinu svo varla var hægt að æja hesti um hásumarið. Og eftir þessu hafa menn eðlilega hagað sér á þessum tímum hagræðingar og sívaxandi skipulagningar atvinnuveganna. Nú mun enginn nautpeningur til í Grindavíkurhreppi. Þar eru nú örfá hross og eittyhvað um hálft annað þúsund fjár.

Skipakostur

Hér hefur eins og allir vita, útgerðin, sjósóknin og fiskverkunin, verið fólksins lifibrauð. Ef sjórinn brást áður fyrr, þá tók sveitin og sulturinn við. Nú er það bankinn og samfélagsins breiða bak. Hvílíkur munur.
Á vetrarvertíðinni 1780 reru 27 skip úr Grindavík, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 fjögramannaför. Áhöfn þeirra var 50 heimamenn og 160 „Austmenn“ eins og skúlu fógeti nefnir þá. Og hér koma fleri við sögu. Stórútgerð þeirra tíma lét sig ekki vanta í þessari aflasælu veiðistöð. Stóllinn – biskupsstóllinn í Skálholti – hélt þar úti 12 skipum, einum tíoæringi og 11 áttæringum, en „áhöfn þeirra var 2 heimamenn og 131 Austmaður.“ Var því engin furða þótt oft sé tekið svo til orða um landseta á stólsjörðunum, að ein af skyldum þeirra sé að róa á skipum stólsins á vetrarvertíðum. Sama máli gegndi um þá, sem sátu á konungsjörðunum. Þar var Bessastaðavaldið sem réði og lagði lítt bærar skyldur og kvaðir á landslýðinn. En hvað þýddi að mögla eða kvarta. 

Nútíminn

Þetta var óumflýjanlegt hlutskipti ófrjálsrar þjóðar, sem var kúguð og þrælkuð í sínu eigin landi. Sjálfsagt mundi ríkisins landsetum þykja hart undir slíku að búa nú á tímum.
Allt er þetta nú löngu liðið. Þetta er eins og ljótur draumur. Börnum sjálfstæðrar þjóðar í ríki velmegunarinnar finnst þetta ekki geta verið veruleiki. Nú sækja Grindvíkingar sjóinn á glæsilegum flota stórra vélbáta allt upp í 300 tonn. Á síðustu vetrarvertíð reru þaðan um 40 bátar. Meira en helmingur þeirra á heima í Grindavík. Slík gjörbylting í sjósókn á sér vitanlega langa sögu. Er hún öllum kunn, þeim, sem fylgzt hafa með atvinnuþróun þjóðarinnar. Og að hún gerist í Grindavík, eins og í mörgum öðrum sjávarplássum, á sér eina höfuð-orsök. Hinn stóri bátafloti Grindvíkinga og öll sú mikla „drift“, sem hann hefur sett í þetta sjópláss og þar með uppgangur staðarins, fjölgun fólksins, – allt byggist þetta á höfninni og þeirri aðstöðu, sem þessum mikla flota er búinn í Hópinu í Grindavík.
Hópið 1945Um Hópið fer sr. Beir Bachmann allmörgum orðum í sóknarlýsingu sinni. Er ekki úr vegi að taka það hér upp að nokkru, svo mjög byggist lífsbjörg Grindvíkinga á því nú framar öllu öðru.
Sr. Geir segir að Hóp (jörðin) hafi miklar nytjar af tjörn þessari, sem sé helmingi stærri en Reykjavíkurtjörn, umkringd af landi á alla vegu nema þeim, sem til vesturs veit. Þar er rif, ca. 200 faðma langt milli Sundvörðu og Svíravörðu, sem eru sundmerki á Járngerðarstöðum. Yfir rifið fellur um hvert flóð, og í stórstraumi fer það svo að segja allt í kaf varða á milli. Ós er út úr Hópinu rétt í útsuður. Má heita í sömu stefnu og Járngerðarstaðasund… „Hafa bændur fyrrum hér í Grindavík eftir tilmælum kaupmanna og fyrir litla þóknun grafið ósinn, dýpri, þótt enn sé hverju haffæru skipi ófær, sökum þess hve grunnur hann er. Mætti þó með litlum tilkostnaði hann dýpri gjöra, svo þiljubátar og smærri fiskiskip örugg gætu haft þar inni lægi og flúið þangað í viðlögum. Kæmust stærri skip inn í Hópið er það ein sú bezta skipalega. Mundi og einn kaupmaður hafa hér nóga verzlun, ef einn væri um hituna, og í engu sakna hinna nálægu kaupstaðanna.“
HópiðEn þetta eru bara ímyndanir, áætlanir, óskir og vonir. Enginn veruleiki. – Þau einu not, sem hægt var að hafa af Hópinu í tíð Geirs Bachmanns, voru þau að „í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll.“
En sú kom tíðin, að Hópið í Grindavík varð Grindvíkingum til annarra og meiri nytja heldur en hrognkelsaveiða (sjá HÉR). Nú má segja að Hópið sé lífæð plássins, undirstaða tilverunnar á þessum uppgangsstað. Nú er Hópið ein sú bezta höfn á landinu þar sem stærstu fiskiskip geta farið hindrunarlaust út og inn. Í staðinn fyrir opna og erfiða brimlendingu smárra báta – er nú öruggt lægi stórra skipa, sem leggjast upp að bryggjum og bólverkum, þar sem er öll hin fullkomnasta aðstaða til útgerðar.
Þessi bylting í útgerðaraðstöðunni hefur valdið miklum breytingum í „byggðaþróun“ Grindavíkur.“

Heimild:
-Lesbók mbl 1. okt. 1955 – Gísli Brynjólfsson.

Grindavík

Höfnin í Grindavík.

Leiðarendi

Löng bílalest liðaðist hægt eftir Bláfjallaveginum. Ferðinni var heitið í Leiðarenda. Þátttakendur voru um 90 talsins. Ferðin var m.a. farin til að kenna ungu fólki að umgangast og bera virðingu fyrir hellum landsins. Ferðin var hluti af “Ævintýranámskeiði Hraunbúa”, skátanna í Hafnarfirði.

Leiðarendi

Leiðarendi dregur nafn sitt af endalokum þessarar kindar fyrir árhundruðum.

Áður en farið var í hellinn var unga fólkinu sagt var frá myndun hellanna og hversu nauðsynlegt væri að gæta þess vel að valda engum skemmdum, hvorki á dropsteinum og hraunstráum né nokkru öðru. Gengið var í röð inn eftir hellinum, fyrst skoðað rauðlitur framgangurinn, dropsteinarnir undir veggnum við gangnamótin og hraunstráin þar, flögurnar á veggjunum og dropsteinarnir inn undir á leiðinni. Farið var fetið niður beinu rásina og staðnæmst í stórri niðursettri hrauntjörninni. Þar var unga fólkinu sýndir dropsteinar og enn og aftur brýnt fyrir því að skemmdir á slíkum mörg þúsund ára fyrirbærum væri ekki hægt að bæta. Greinilega var hlustað með andakt. Loks var tvísungið “Lítið skátablóm” áður en haldið var til baka út úr hellinum.

Leiðarendi

Leiðarendi – op.

Ekki var farið upp í efri hluta hellisins. Hann liggur þar um hliðarrás. Gæta þarf vel að öllum kennileitum þegar komið er inn í meginrásina að nýju því annars getur verið erfitt að finna leiðina til baka. Hellirinn er bæði litskrúðugur og hlaðinn „djásnum“.
Unga fólkið stóð sig frábærlega vel, gætti vel að öllu og fræddi hvort annað um að gæta þyrfti að því að skemma ekkert.
Ferðin tók um 90 mínútur. Frábært veður.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

 

Hraun

Sögu- og minjaskilti var vígt við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Þetta var sjöunda skiltið á jafnmörgum stöðum víðsvegar í Grindavík. Af því tilefni var efnt til gönguferðar um svæðið með leiðsögn.
Skiltið er staðsett við Ísólfsskálaveg á mörkum Hrauns og Þórkötlustaða. Á því er örnefna- og minjakort og auk þess má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik:

Uppdráttur

„Molda-Gnúpur Hrólfsson nam land í Grindavík árið 934. Lítið sem ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu aldir. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270.  Í Fitjaannál segir að árið 1602 hafi 24 piltar og 1 stúlka drukknað þegar stórt farmskip Skálholtsstaðar fórst utan við Hraun. Þau voru grafin við kirkjuna á Hrauni. Annað skip frá Skálholtsstóli fórst með allri áhöfn 8. mars árið 1700, auk þriggja annarra frá Grindavík.
Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Önnur var við heimabæinn en bar ekkert sérstakt nafn og hin var hjáleigan Vatnagarðar. Þriðja hjáleigan nefndist Garðhús. Ekki kemur fram hvar hún var. Um gæti verið að ræða býli við túngarðinn í svonefndu Draugagerði við Tíðahliðið. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það aðallega róið úr Þorkötlustaðanesi.
Jón Jónsson bjó á Hrauni eftir 1822. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Voru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Selstaða frá Hrauni fram til u.þ.b. 1900 var inn undir Núpshlíðarhálsi. Minjar þar sjást enn.
HraunSkammt austan við gamla bæjarhólinn, sem fjárhúsin eru nú, eru tóftir. Þar var áður sjóbúð ofan við Hraunsvörina. Ofan við hana var kirkjan.
Þegar kemur fram á 19. öld er Hraun orðið hið mesta myndarbýli. Þrjár hjáleigur eru þá á Hrauni, auk Vatnagarða; Hraunkot, Sunnuhvoll og Bakkar (Bakki).
Skammt ofar, milli Húsafells og Fiskidalsfjalls, var loftskeytastöð  hersins um og eftir miðjan síðasta áratug. Við Hraun hefur löngum verið eitt stærsta kríuvarp landsins.

Túngarður, brunnur og refagildra
VatnagarðurHlaðinn garður heimatúnanna sést enn. Honum hefur verið haldið við, enda fékk Jón bóndi „Dannebrogsorðuna“ fyrir hleðslu garða við Hraun. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Grjót úr görðunum var fyrir miðja síðustu öld tekið og notað undir Grindavíkurbryggjur.
Gömul hlaðin refagild
ra er ofar í hrauninu og önnur nær. Austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Í hann sótti fólk úr Þórkötlustaðahverfi vatn í þurrkatíð.

Kapellulág

garður

Í Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er þúst. Við hana er merki: „Friðlýstar minjar”. Á 6. áratug 20. aldar gróf Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörður, þar upp kapellu og fann í henni ýmsa gripi. Síðan var sandi mokað yfir minjarnar. Talið er að kapellan sé frá því á 14. öld.

Dys

Kapellan

Þegar „Tyrkir“ rændu hér á landi árið 1627 gerðu þeir landgöngu í Grindavík.  Sagt er að þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
„Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkir væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.“

„Tyrkirnir“ eru sagðir hafa verið settir í Dysina, sem er rétt við þjóðveginn.

Hellar
FiskigarðarVið Efri-Hellu sunnan undir Húsafelli er hellir. Um hellinn er sagt að í hann ætluðu Grindvíkingar að flýja kæmu „Tyrkir“ aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin.
Guðbjargarhellir er skammt ofan við Hraun. Í hann á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði.

Festarfjall
Frá Hrauni blasir Festarfjall við í norðnorðaustri. Í miðju berginu er grá rák, berggangur upp í gegnum bergið, og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefur verið auðvelt að láta heita eftir henni. Hangir festin því enn óhreyfð. 

Hnyðlingar

Dysin

Í Hrólfsvíkinni eru hnyðlingar; brot úr framandbergi. Brotin eru úr gígrás eða úr þaki kvikuþróar. Oft eru þau úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassanum. 

Gamlar götur
Frá Hrauni lágu fyrrum götur til vesturs yfir í Þorkötlustaðahverfi. Neðst (syðst) var Eyrarvegur (Randeiðarstígur), ofar Hraunkotsgata og Þorkötlustaðagata og efst Hraunsvegur. Leið lá einnig til austurs frá Hrauni um Siglubergsháls.

Fiskgarðar
SunnuhvollÍ Slokahrauni eru miklir fiskgarðar, svonefndir Hraunsgarðar, og -byrgi frá þeim tíma þegar fiskur var þurrkaður. Talið eru að þeir séu að hluta frá þeim tíma er Skálholtsstóll átti og gerði út frá Hrauni.

Kirkja
Bænahús eða kirkja var á Hrauni frá 1397 og fram yfir 1600. Þegar kirkjan var aflögð var hún flutt að Stað. Í lýsingu kirkjunnar að Stað segir m.a.: „Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni“.
Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.“

Þórkötlustaðagata

Skömmu eftir aldamótin 1900 hafði vertíðarfiskur verið saltaður í sjóhúsi við Hraunsbæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að grafa holu utan við húsvegginn. Átti að veita pæklinum í hana. Við fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hinnar fornu kirkju, þar sem Skálholtssveinar höfðu verið grafnir eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason á Hrauni fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda skemmu (nú fjárhús). SauðagerðiGætti Sigurður þess að halda honum til haga.

Cap Fagnet
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum utan við Skarfatanga í slæmu veðri. Áhöfnin, 38 menn, gátu ekki yfirgefið skipið á björgunarbátum togarans. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við. Fluglínutæki voru flutt á strandstað. Í fyrsta skipti var skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Skipbrotsmenn voru dregnir á land í björgunarstól og gekk allt að óskum. Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja því örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Síðar um daginn brotnaði það í spón.

Steinn

Björgunin markaði tímamót og færði mönnum sannindi þess hversu öflugt björgunartæki línubyssan var og flýtti mjög fyrir útbreiðslu hennar. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjum og björgunarsveitum á Íslandi lífið að launa.

Þakkir
Uppdrátturinn er byggður á örnefnalýsingum fyrir Hraun. Sigurði Gíslasyni frá Hrauni eru færðar sérstakar þakkir fyrir ómetanlegan fróðleik og vísan á örnefni og einstakar minjar. Þá er öðrum heimildarmönnum, Herði Sigurðssyni, Gísla Sigurðssyni, Árna Jóni Konráðssyni og Lofti Jónssyni, færðar þakkir.“

Skiltið er lokaþáttur í þriggja ára áætlun um gerð sögu- og minjaskilta í Grindavík – frá Skiltiðvestri til austurs. Líklega getur ekkert annað sveitarfélag á landinu státað af því að eiga heilstæðan uppdrátt af örnefnum og sýnilegum minjum í bæjarfélaginu. Verkefnið hefur, og mun verða, notað til kennslu í grunnskólum bæjarins. Uppdrættirnir eru þegar aðgengilegir íbúum og gestum þeirra í Saltfisksetrinu (fyrir sanngjarnt verð), auk þess sem ætlunin er að útbúa á næstunni handhægan bækling með öllum uppdráttunum, ítarlegri textum, teikningum og ljósmyndum af einstökum minjum og minjasvæðum í bæjarfélaginu.

Gengið um HraunÞað er FERLIR (ÓSÁ) sem hefur séð um upplýsinga- og heimildaöflun, texta, uppdrætti, ljósmyndir og teikningar á sögu- og minjaskiltum þessum. Martak hefur séð um hönnun og smíði standsins og Stapaprent um setningu og prentun. Saltfisksetur Íslands, Grindavíkurbær og Pokasjóður fjármögnuðu verkið og verkefnastjóri viðburðardagskrár Grindavíkurbæjar, Sigrún Jónsdóttir Franklín, hefur annast undirbúning, kynningar og framkvæmd sögugangna í tengslum við vígslu skiltanna. Aðstoðarfólk og heimildarmenn eru fjölmargir og eiga allir miklar þakkir skyldar.Hraun