Tag Archive for: Grindavík

Þorbjörn

Þorbjarnarfell, eða Þorbjörn, eins og fellið er nefnt í daglegu tali ofan Grindavíkur, er eitt af vinsælustu útvistarsvæðum Grindvíkinga o.fl.
Auðveldast er að ganga á fellið eftir ruddri götu á því austanverðu, en einnig er áhugavert að ganga á það bæði upp frá Baðsvöllum og upp eftir Gyltustíg á því suðaustanverðu.

-Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

Þorbjörn (Þorbjarnarfell) er hæst 243 m.y.s.
Fellið er bæði merkilegt út frá jarðfræði og þjóðsögum. Norðan undir hlíðum þess eru minjar fornra búskaparhátta og skógræktar frá síðustu öld. Auðvelt er að ganga umhverfis fellið.

Þorbjörn

Auðveldasta leiðin upp á þorbjörn er lengst til hægri. Gyltustígur er lengst til vinstri.

Vegarlengdin er 5.0 km. Auk þess er fyrirhafnarlítið hægt að ganga á fellið frá bílastæðunum umhverfis það.
Jónsmessuhátið Grindvíkinga hefur í seinni tíð verið haldin hátíðleg á Þorbirni – og er það vel við hæfi, enda mun siðurinn vera frá heiðni kominn (þótt hann hafi í seinni tíð verið eignaður Jóni (Jóhannesi) skírara upp á kristinn sið.

Þægilegt er að ganga upp á Þorbjörn eftir aðlíðandi slóða, sem liggur upp á fellið að austanverðu eða ganga upp svonefndan Gyltustíg á suðvesturhorni þess, frá veginum um Lágafell og frá bílastæði við Selskóg norðan þess.

Sjá meira um Þorbjarnarfell HÉR.

-Gyltustígur

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Þægilegt er að ganga upp á Þorbjörn eftir vegi, sem liggur upp á fellið að austanverðu eða ganga upp svonefndan Gyltustíg á suðvesturhorni þess, frá veginum um Lágafell.
Uppi á Þorbjarnarfelli er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Þjóðsagan segir frá 15 útilegumönnum, sem sagt er að hafi hafst við í Þjófagjá og stolið fé Grindvíkinga.

Sjá meira um Gyltustíg HÉR.

-Baðsvellir

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvörtuðu um það á 19. öld að þar væru hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.

Baðsvellir

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. „…aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Sjá meira um Baðsvelli HÉR.

-Selskógur

Selskógur

Í Selskógi.

Selskógur er afurð Skógræktarfélags Grindavíkur í norðurhlíðum Þorbjarnarfells (Þorbjarnar) ofan Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

Stofnun Skógræktarfélags Grindavíkur má rekja aftur til ársins 1939. Þá varð Ingibjörg Jónsdóttir sextug og kvenfélagskonur stofnuðu sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað að verja honum til þess að koma upp skógrækt í Grindavík. Fékk hún landið í norðurhlíðum Þorbjörns og þegar hún plantaði fyrstu hríslunum, vorið 1957, gaf hún svæðinu nafnið Selskógur. Skógræktarfélag Grindavíkur var síðan stofnað um haustið.

Sjá meira um Selskóg HÉR.

-Kamp Vail

Eftirfarandi um ratsjárkampinn á Þorfjarnarfelli ofan Grindavíkur má lesa í bók Friðþórs Eydals „-Frá Heimstyrjöld til herverndar – Keflavíkurstöðin 1942-1950:
„Vegalagning upp á Þorbjörn hófst í byrjun október 1941. Þar voru að verki liðsmenn byggingarsveitar flughersins bandaríska, þeirra sömu og síðar starfaði við lagningu flugvallanna við Keflavík, og heimamenn í Grindavík sem ráðnir voru til verksins.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

Fjallið er snarbratt, myndað við gos undir jökli og mikill halli á veginum sem illfær er nema fjórhjóladrifnum bifreiðum.

Camp Vail

Grindavík – Camp Vail á Þorbirni.

Ratsjárbúðirnar nefndust Camp Vail eftirlitsmanni ratsjársveitarinnar, Reymond T. Vail, sem var fyrsti óbreytti bandaríski hermaðurinn sem lést hér á landi. Var þeim valinn staður í gígnum sem opinn er til norðurs en veitir dágott skjól fyrir öðrum áttum. Þar voru reistir 14 braggar og rafstöð en ratsjártækjunum var komið fyrir á toppi fjallsins vestan við gilið sem klýfur hann í tvennt. Hófst starfsemin 18. apríl 1942. Lá raflögn að ratsjárstöðinni sem komið var fyrir í bragga við hlið loftnetsvagnsins.

Sjá má meira um Kamp Veil HÉR.

-Þjófagjá

Þjófagjá

Þjófagjá.

Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Í toppi þess er Thjofagjahamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.
Einstigið um Þjófagjá (misgengið) er auðratað, sé rétt að farið…

Sjá meira um Þjófagjá HÉR.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Geldingadalur

Grindavík hefur að geyma ýmsa þjóðsagnakennda staði og álagabletti. Hér getur að líta upplýsingar um nokkra þeirra. Bæjarfélagið hefur, því miður, sýnt stöðunum lítinn sóma í seinni tíð. Þeir, sem vita um og/eða þekkja fleiri slíka staði í umdæmi, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Álagahóll

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík.

Við Þorbjörn – inni í portinu – er gróinn hraunhóll, varðveittur í horni malbikaðs athafnaplans inni á milli verkunnarhúsanna (elsta hús Þorbjörns h/f var jafnan nefnt Resikó því það þótti stór áhætta að hefja síldarsöltun á árunum í kringum 1950 og byggja verkunarhús yfir starfsemina).
Segir sagan að útgerðarmaður, löngur áður en hús voru reist þarna, hafi skirrast við ábendingum um að hólnum mætti ekki raska. Gerði hann það, en þó varlega. Þrátt fyrir það féll skömmu síðar á manninn bátur og hann lést. Var það talið til sannindamerkis um álfabyggð í hólnum.

Goðatóft

Goðatóft

Goðatóft við Hóp.

Þar voru kvíar, þegar fært var frá. Fram af henni er Vatnstangi. Þangað var vatnið sótt í kaffið og þótti bezta vatn hér í kring. Austar er hóll, sem heitir Öskuhóll. Hann er fullur af gamalli ösku. Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta.

Miðaftanshóll (frá Hópi)

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.

Þislar / Þyrnar

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Í austurjaðri Járngerðarstaðahverfis (gamla hlutans) uxu lengi þyrnar og þistlar. Sagan segir þennan gróður ávöxtinn, er óx upp af blóði kristinna manna og heiðinna, er rann þar saman, er Grindvíkingar börðust af mikilli hörku við Tyrki.

Sölvhóll

Sölvhóll

Sölvhóll.

Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að hún hefði, á meðan hún var á Járngerðarstöðum, jafnan séð til huldufólks við Sölvhól. Ekki hafi mátt hrófla við hólnum. Eitt sinn hafi bóndinn í Vallarhúsum tekið sig til og slegið hólinn, en daginn eftir drapst hjá honum kvíga. Sölvhóll sunnan við Járngerðarstaði tengist í hugum fólks, sem fyrrum bjó á Járngerðarstöðum, huldufólki og álfum. Vestan hólsins er Tíðarhlið, austan Hólsgarður og hádegishóll að sunnanverðu (sem sjórinn er reyndar nú búinn að taka til sín að mestu).

Járngerðarleiði

Járngerðardys

Járngerðardys.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Silfra

Silfra

Silfra.

Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum.

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu. Fast við það er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.

Títublaðavarða

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Önnur saga um að þessari vörðu mætti ekki raska. Meðan hún stæði myndi Grindavík vera óhætt (TÞ). Gömlu mennirnir á Járngerðarstöðum bættu jafnan í vörðuna eða hlóðu hana upp eftir þörfum. Nú stendur hún þarna, gróinn og hálffallin. Þetta var fyrsta varðan við Skipsstíginn er haldið var af stað frá bænum. Nú er hún fast utan við girðingu varnarliðsins. Innan hennar sést í Eldvörpin. Í þeim er (eða var) klettur er nefndur var Álfakirkjan.

Helghóll

Helghóll

Helghóll.

Upp af Silfru voru Eldvörpin en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur. Þar vestur af er Bjarnafangi (S.T.) eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum.
Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helghóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág (S.T.) eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Upp af Helghól er Lágafell.

Gíslavarða eða „Tyrkjavarða“

Gíslavarða

Gíslavarða.

Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

Hjálmagjá (Húsatóptum)

Hjálmagjá

Hjálmagjá.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Harðhaus

Hjálmagjá

Hjálmagjá t.v. og Harðhaus framar.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Álfakirkja (Hóp)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við bæinn að Hópi við Hópið er Hópsvör. Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Fast vestan við Vatnsstæðið er stakur klettur, sem heitir Einbúi. En milli Vatnsstæðis og Skiparéttar, er síðar getur, er hraunhryggur og strýta, sem heitir Álfakirkja. Suður af Vatnsstæðinu er Skiparétt. Þetta er grjótrétt, sem skipin voru sett upp í.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Þar austur af er stór hóll, sem heitir Langhóll. Álfarnir, sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna, sem fyrr var getið.

Þórkötluleiði

Þórkötludys

Sigurður Gíslason við dys Þórkötlu.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Heródes

Heródes

Heródes.

Sunnan og fast við Miðbæ er steinn er stendur upp úr jarðveginum. á austurhlið hans, efst er áletrun. Segir sagan að steininn megi ekki færa úr stað því þá hljótist af verra. Ekki er vitað með vissu fyrir hvað áletrunin stendur eða hvaðan nafnið Heródes er til komið, en áreiðanlegt er talið að hvorutveggja er mjög gamalt.

Þjófagjá

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil.

Þorbjarnarfell

Þjófagjá.

Þjóðsagan; „Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.“

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar [í Hagafelli]. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.

Festarfjall

Festarfjall

Festarfjall.

Hraun er næsta jörð við Ísólfsskála og Krýsuvík. Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða. Merkjalína sú, sem Gísli gaf mér upp, var þannig: úr austanverðu Festarfjalli úr berggang, sem þar er, og nefndur er Festi. Er það alláberandi stuðlabergsgangur, hálsfesti tröllkonu nokkurrar.
Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu. Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að láta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.

Festarfjall

Festarfjall.

Þjóðsagan; „Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.“

Kapellulág

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík. Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág. Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Kapellulág

Kapellulág.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.

Hraun

Dysin við Hraun.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir

Guðbjargarhellir.

Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.

Geldingadalur

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurveguinn um Méltunnuklif.

Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn við gömlu þjóðleiðina.

En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Örnefnaskrár
-http://bokasafn.rnb.is/default

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Náttúrufræðingurinn

Í Náttúrufræðingnum 1993 fjalla feðgarnir Jón Jónsson og Dagur Jónsson um „Hraunborgir og gervigíga„.

Inngangur

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir. Flestum Íslendingum mun aftur á móti ljóst við hvað er átt þegar talað er um gervigígi og að það eru ýmislega lagaðar myndanir á hraunum, stundum með en stundum án reglulegra gígmyndana, og sem ekki eru í beinu sambandi við eldstöðina sjálfa.
Vart verður það sagt að háspennulínur og slóðir sem þeim fylgja prýði landslagið og allra síst þar sem grámosinn má heita eini gróðurinn á hraunkarga. Slík mannvirki eru þó nauðsynleg og hafa þann kost að auðvelda leið að stöðum sem kunna að vera áhugaverðir fyrir náttúrufræðinga.

Gervigígar við Helgafell

Dagur Jónsson

Dagur Jónsson.

Í sambandi við val á línustæði fyrir Búrfellslínu III 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.

Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“).

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns. Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
Litluborgir

Myndin hér hjá sýnir hraunþak sem hvílir á súlum. Þær afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum.

Litluborgir

Litluborgir.

Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti.
Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Litluborgir

Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. Hraunið er þóleít, þétt feldspatdílótt, með allt að 12-J4 díla á cm2, 2-6 mm í þvermál. Samsetning reyndist: Plagíóklas 41,1%, pýroxen 40,0%, ólivín 1,5%, málmur 12,4%. Dílar alls 11,1%.

Katlahraun

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar. Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.

Dimmuborgir

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Hvorugur okkar hefur skoðað Dimmuborgir að ráði og leiti maður að lýsingum á þeim eða hugmyndum um myndun þeirra verður árangurinn mjög á eina leið. Norski jarðfræðingurinn Tom F.W. Barth (1942) er líklega einn sá fyrsti sem slær því föstu að þar hafi verið um „lava lake“ að ræða.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Sigurður Þórarinsson (1951) tekur upp kafla úr ritgerð Barths óbreyttan en bendir jafnframt á að hinir alþekktu Strípar við Kálfaströnd séu sams konar myndanir. Á milli þessara tveggja kemur svo Rittmann (1944) með harla frumlega en naumast raunsæja hugmynd um uppruna borganna. R.W. van Bemmelen og M.G. Rutten (1955) fjalla svo um málið og virðast vera þeir fyrstu sem fjalla sérstaklega um hvernig súlurnar hafi orðið til. Þeir telja þær vera „the result of eddies in turbulent flow of the molden lava“ (hringiður í rennandi hrauni). Síðastur til að lýsa Dimmuborgum nokkuð er svo Kristján Sæmundsson (1991). Hann telur, eins og áðurnefndir höfundar, að þarna hafi hrauntjörn verið en tekur fram að „hemað hefur verið yfir hana“, en það er þýðingarmikil ábending í þessu sambandi. Ennfremur minnist hann á gas- og gufustrompa sem í tjörninni hafi verið og er þá komið nærri skýringu okkar á því hvers vegna súlurnar standa eftir þegar tjörnin tæmist. Ennfremur bendir Kristján á að Dimmuborgir séu „í ætt við gervigíga“.

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Á öðrum stað í sama riti kemur Árni Einarsson inn á kísilgúrleifar sem ættaðar eru úr hinu forna vatni. Með því virðist því fyrst slegið föstu að hraunið hafi runnið út í vatn. Það er nú komið nokkuð á fjórða áratug frá því að bent var á að kísilgúr innan um gjall eða í bombum gervigíga sannaði að hraunið hafi runnið í vatn (Jón Jónsson 1958) og að nokkuð mætti af þörungaflóru ráða hvers konar vatn. Síðar hefur svo verið sýnt hvernig þetta kann að gerast í gervigígum (Jón Jónsson 1990).

Sappar
Katlahraun

Í Árbók Ferðafélags íslands 1983, bls. 128, er nokkuð lýst myndunum sem gefið var þetta nafn (Jón Jónsson 1983). Það var gert til heiðurs Karli Sapper (1866-1945), en hann varð fyrstur til, svo vitað sé, að lýsa þessum sérstæðu myndunum og einmitt við austurgjá Eldborgaraða (Sapper 1908).

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Þetta má sem best nota sem fræðiheiti (term) fyrir þessar myndanir. Það tengist manninum sem fyrstur lýsti þeim og það fellur algerlega að íslensku beygingarmunstri. Sjáfur nefnir Sapper þessar myndanir „Lavapilze“ (hraunsveppi), gefur lauslega upp stærð þeirra, hæð 4-5 m og þvermál 3-4 m, en lýsir þeim annars ekki ítarlega. Hann nefnir þó að þeir muni „sekundares Gehilde“ og að þeir „urspriinglich hohl gewesen wáre“.
Hans Reck (1910), sem næstur er til að skoða þennan stað, er að mestu á sama máli og Sapper, kallar þetta „Lavapropfen“ og „sekundares Gebilde“. Þetta tvennt, og áðurnefnd grein í Árbók Ferðafélagsins, er það eina sem kunnugt er að ritað hafi verið um þessar myndanir. Hvaðvarðar síðastnefnda grein, þá er sú lýsing sem þar er að nokkru leyti röng og að öðru óljós og líkleg til að valda misskilningi.
Það var fyrst sumarið 1991 að í ljós kom að vatn hefur verið þar undir sem sapparnir eru. Það sést af leirkenndu seti sem borist hefur upp á yfirborð með hrauninu og að því er virðist upp gegnum sappann. Í þessu seti eru kísilþörungaskeljar. Ekki verður sagt að um kísilgúr sé að ræða. Flóran er fátækleg að tegundum en fjöldi einstaklinga er umtalsverður og þykir benda til þess að vatnið hafi verið kalt, og setið gæti bent til áhrifa frá jökulvatni. Meira verður ekki um það sagt.
Katlahraun

Sapparnir koma fyrir í óreglulegum hópi um 1,5 km norðaustan við Laka. Hraunið hefur þar lagst upp að eldrigígum og myndað lítið eitt bungulaga hraunsléttu og upp úr henni standasapparnir, sem næst 100-150 m austan við gosstöðvarnar miklu frá 1783, en þá varð þriðja og síðasta stórgosið á þessari sömu línu.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Eftir að komin var um 50-70 cm þykk skorpa á hraunið hefur kvika haldið áfram að streyma inn undir hraunþakið, en vatn lokaðist undir því. Þar safnaðist fyrir gas úr hrauninu og vatnsgufa, sem að lokum náði að sprengja göt á þakið. Um þau hefur svo seigfljótandi hraunkvika stigið upp, myndað lóðrétta veggi í hring í opinu en í miðju hefur gas og vatnsgufa streymt upp, sennilega með allmiklum krafti, og rifið með sér brot úr hálf- eða alstorknuðu hrauni, sem síðan fyllir strompinn að innanverðu. Sú skoðun Recks að gas hafi hér ekki átt hlut að máli stenst því ekki. Fullkomin sönnun fyrir þessu blasir við á öðrum stað á svæðinu, en þar hefur orðið sprenging sem brotið hefur gat á hraunskorpuna, en brot úr henni liggja í hring kringum opið. Má þar skoða og mæla þykkt hraunþaksins.

Katlahraun

Sappi í Katlahrauni.

Á öðrum stað má sjá gjall- og kleprahring kringum einn sappann og má af því ráða að venjulegur gervigígur hefur þar verið undanfari þess að sappinn varð til. Urðin sem er víðast hvar kringum sappana hefur verið túlkuð, m.a. af Sapper sjálfum, sem „Lavatrummer“ (grjóturð) utan af sappanum. Svo er og vissulega að hluta, en engan veginn alls staðar.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Vera má að hraunþekjan kringum sappana hafi sigið jafnframt því sem þeir mynduðust og að það hafi þannig átt þátt í myndun þeirra.
Hér þarf nánari athugana við. Ekki verður annað séð en að lausagrjótið ofan á söppunum sé hluti af þakinu. Veggir sappanna eru 60-80 cm þykkir, þéttastir í miðju en hvergi glerjaðir, stundum með skriðrákum að utan. Sumir sappanna hallast mjög og nokkrir hafa næstum lagst á hliðina. Þetta þykir benda til þess að þeir séu meira sjálfstæð myndun og ekki svo mjög háðir hreyfingum þaksins. Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að hér er um gervimyndanir að ræða þótt ekki verði gígir kallaðir. Ennfremur að vatn hefur líka hér verið til staðar og gegnt öðru meginhlutverki.
Sapper tekur fram að sams konar myndanir hafi hann séð í hrauni við Eldgjársprunguna við Brytalæki (Sapper 1908, bls. 27) og vel má vera að þessar myndanir séu ekki jafn sjaldséðar og ætla mætti; a.m.k. fundum við einn gerðarlegan sappa sumarið 1991 í rönd Skaftáreldahrauns norðan við Galta.

Rabb og niðurstöður

Katlahraun

Katlahraun og möguleg upptök; Höfðagígar eða Moshóll.

Af þeirri upptalningu sem hér hefur verið gerð verður niðurstaðan sú að gervigígir, hraunborgir og sappar séu greinar á sama meiði. En hver er meginorsök svo mismunandi útlits þótt skilyrði sýnist hin sömu? Ekki verður hér reynt að svara því.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Mesta gervígígasvæði landsins, Landbrotshólar, virðist myndað þar sem hraun rann yfir votlendi, væntanlega með árkvíslum og lónum (Jón Jónsson 1958, 1990). Í gjallinu í Rauðhólum við Reykjavík hafa fundist stykki af kísilgúr. Borun þar sýnir að vatnið sem Leitahraun þar rann út í var ekki djúpt. Mývatn virðist aldrei hafa verið djúpt. Austan við Herdísarvík hefur hraun runnið út í sjó og þannig endar Ögmundarhraun. Á hvorugum staðnum hafa gervigígir myndast heldur hefur hraunið runnið í lokuðum rásum eftir að í sjóinn kom. Hvernig svo rásirnar enda sést ekki. Í Litluborgum eru gjall-gervigígir og hraunborgir hlið við hlið. Næsta ljóst er að það sem veldur því að hraunborgir, súlurnar, stromparnir, eða hvað sem maður vill nefna það, standa eftir þegar hrauntjörn tæmist eða í henni lækkar er að hraunið hefur náð að kólna nægilega mikið kringum lóðréttar gufurásir gegnum hraunmassann til þess að þær stóðu eftir þegar tjörnin tæmdist.“

Hvernig myndast Gervigígar?

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum.

„Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig:
Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).

Litluborgir

Litluborgir og gervigígarnir.

Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.
RauðhólarGervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. En verði bara nokkrar sprengingar í þeim mynda þeir gjarnan hóla án gígskála. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn. 3.-4. tbl. 01.06.1993, Hraunborgir og gervigígar, Jón Jónsson og Dagur Jónsson, bls. 145-154.
-https://skrif.hi.is/hsh12014/17-2/

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem „dys“ Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um „Stapakenninguna og Surtsey„. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir“, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.“

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Kålund

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Vesturháls

Vesturháls á Reykjanesskaga.

„Reykjanesskaginn hefur í raun og sannleika verið sem miðstöð hvers konar eldsumbrota, og þó að skaginn hafi þegar fyrir Íslands byggð verið sama útlits og eðlis sem nú, hafa þó jarðskjálfatr þráfaldlega skekið hann á sögulegum tíma, og hraunstraumar hafa runnið ofan á hina eldri frá næstum óteljandi gígum, sem opnast í fjallgörðum skagans, en þeir eru aðeins framhald af miklu meiri og víðlendari eldfjallabjálki sem liggur til landnorðurs inn í óbyggðir landsins. Slíkt hérað gat ekki verið mjög aðlaðandi fyrir fyrstu íbúana; „til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta“, segir Karli þræll Ingólfs, þegar húsbóndi hans að tilvísun öndvegissúlna nam alla Gullbringu – og Kjósarsýslu og nærliggjandi sveitir og settist að í Reykjavík, – og hvarf síðan á brott og ambátt með honum. –

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Í fornöld var landbúskapur eðlilegastur og hæfilegastur fyrir bónda, fiskveiði aftur móti í minna áliti, arðminni og einnig óvissari atvinnugrein. Fyrst eftir að ísland var komið undir yfirráð noskra konunga, hófst fiskverslun við útlönd, sem síðar varð svo mikilvæg (Maurer: Island 420-22, sbr. 412-14). Á fyrsta tímabili Íslandssögunnar var enn óþekkt þessi undirstaða framfærslu í fiskihéruðunum, sem gat í góðæri orðið til mikils framgangs efnuðum útgerðarbændum. Salan miðaðist þá við það sem landbændur keyptu; annars fiskuðu menn aðeins til eigin afnota, en hafa sennilega næstum alltaf stuðst svo og svo mikið við landbúnað. Einnig hefur það verið sjaldgæft að bændur færu sjálfir í verið niður við ströndina og tækju þar þátt í fiskveiðinni.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga.

Í þjóðveldislögunum, Grágás, er að vísu talað um „fiskiskála“ á nokkrum stöðum og að fólk dvelst þar um veturinn til fiskveiða, og einnig nefna nokkra af sögunum „vermenn“ (fólk sem dvelst um tíma í verstöðvum) og verstöðvar, þar sem margir komu saman, en ætla má að það hafi einkum verið lausamenn eða fólk frá fiskihéruðunum sjálfum, sem var að þessum störfum; má helst ætla það af athugunum á þessum málefnum eða þögn sagnanna um þau, en aftur á móti oftsinnis minnst á skreiðarkaup af útvegsbændum.

Skreið

Skreiðalest í Ögmundarhrauni.

Af þessu leiðir, að líklegt er, að ástand í Gullbringusýslu hafi í fornöld verið með allt öðrum hætti en nú. Nú er sýsla þessi ein hin mannflesta í landinu; er þar að vísu mikil fátækt, en einnig allmargir efnamenn á íslenska vísu. Á hverjum vetri eða raunar allt árið að undateknum sumarmánuðunum þremur sækir þangað fjöldi fólks, því að næstum hver bóndi frá Skafafellssýslu til Skagafjarðar kemur annaðhvort sjálfur eða sendir vinnumann til fiskveiða eina eða fleiri „vertíðir“. Þangað koma menn þúsundum saman, og búa þeir í bæjunum í hinum mestu þrengslum eða í verbúðum sem til þess eru útbúnar, og við illar aðstæður menningar gæti þetta orðið tilefni hinna margvíslegustu atburða. Þetta hefði tæplega þekkst í fornöld, án þess að um það hefði verið talað í sögunum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum, fyrrum selstöð Grindvíkinga.

Fyrir austan Reykjanes er byggðarlagið Grindavík á suðurströnd skagans (Harðar s. 15, Gunnl. s.61). Byggðin liggur einnig hér meðfram sjónum, og er landsvipur hinn sami og fyrr hefur verið lýst. Uppi í landinu er hrjóstugt hraun, en ofar eru ýmsar hæðir og smáfjöll, sum nokkuð grasi gróin, en flest aðeins mosavaxin, jafnvel ekki einu sinni það, svört og nakin. Hraunið getur með nokkrum hætti kallast framhald af Almenningum, en gróðurminna og yngra.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Þessi eru einkenni landsins, allt út til strandar, allt heim að túnum bæjanna er ekki annað að sjá en sand, blásnar heiðar og svart brunnið hraun. Byggðarlagið skortir mjög beitiland, bæði kýr og sauðfé, bæði málnytu- og geldpening verður að reka þegar á vorin frá bæjunum og til sameiginlegra selja upp undir fjöllunum; vegna þess að þarna er ekki sameiginlegt beitarland (afréttur) verða menn þar enn – eins og nokkrum öðrum svipuðum stöðum á Íslandi – að láta lömbin ganga undir ánum kefld, þ.e. með tréprjón, bundinn með bandi sem er krosslagt yfir höfuðið, liggur sem kjaftamél í munninum, svo þau geti ekki sogið. Einnig verður að reka hestana langt burtu frá bænum í hvert skipti sem þeir hafa verið notaðir. Þar er og mikil vatnsskortur. Víðast verður að notast við hálfsalt vatn úr pollum nálægt ströndinni eða úr sprungum í hrauninu, þar sem sjór fellur út og inn við hvert flóð og fjöru.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 17-28.

Kålund

Íslandskort Kålunds.

Keilir

Það hefur varla farið framhjá nokkrum að öflug og stöðug jarðskjálftarhrina hefur gengið yfir sunnanverðan Reykjanesskagann að undanförnu (skrifað 5. mars 2021).

Í Fréttablaðinu 04.03.2021 mátti lesa eftirfarandi:
Gosspenna á Reykjanesskaga
Reykjanesskagi
Óróapúls og kvikuhlaup á Reykjanesskaganum í gær bentu til að von væri á eldgosi á svæðinu á næstu dögum. Jarðeðlisfræðingur sem Fréttablaðið ræddi við átti ekki von á því að næstu byggðir væru í hættu.

Grindavík

Grindavík.

Kaflaskil urðu í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga í gær þegar svo virtist sem von væri á eldgosi.
Óróapúls greindist á mælum um miðjan dag og var þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað til að kanna hvort gos væri að hefjast.
Þegar Fréttablaðið fór í prentun var gos ekki hafið.
„Þetta sem við sáum í dag var greinilega kvikuhlaup, kvikan hljóp þarna upp eða til hliðar en virðist ekki hafa farið nálægt yfirborði og þá hafi hlutirnir róast aftur,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um stöðu mála í gærkvöld.

Tumi Guðmundsson

Tumi Guðmundsson.

„Svo er bara spurningin hvert framhaldið verður, eftir því sem svona atburðarás dregst á langinn aukast líkurnar á að þetta endi á gosi. Það verður að koma í ljós,“ heldur Magnús Tumi áfram.
„Ef það kemur eldgos á Reykjanesskaga yrði það sögulegur atburður. Það hefur ekki komið gos á þessu svæði í 800 ár og það gæti komið hrinu af stað. Það skal samt ekki gleymast að hrinur geta staðið yfir í aldir og það voru áratugir milli gosa síðast.“
Fram kom á blaðamannafundi almannavarna að jarðskjálftavirknin væri milli Litla-Hrúts og Keilis. Þar gæti kvika verið að brjóta sér leið og færast nær yfirborðinu. Freysteinn Sigmundsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sagði erfitt að spá fyrir um nákvæma tímasetningu eldgossins.

Víðir Reynisson

Víðir Reynisson.

Um leið tilkynnti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að fyrstu tákn væru um að gosið yrði eftir þeim sviðsmyndum sem Veðurstofan var búin að teikna upp og að hraunstraumar ættu ekki eftir að ógna mannfólki.
„Ef þetta endar með eldgosi þá ætti þetta ekki að vera sprengigos heldur flæðigos með lítilli sprengivirkni. Þetta ætti fyrir vikið ekki að koma til með að ógna næstu byggðum þótt það sé skiljanlegt að fólk í næstu byggðum hafi áhyggjur. Það snertir marga að það sé eldgos á þessu svæði en miðað við fyrri gos á þessu svæði ættu byggðir ekki að vera í hættu þótt það sé aldrei fullvíst,“ sagði Magnús Tumi, aðspurður út í hættuna fyrir næstu byggðir.
„Það getur alveg gerst að það verði ekkert gos á næstunni. Í Kröflueldum voru sífellt blikur á lofti um að það færi að gjósa en það var ekki fyrr en eftir árabil sem fyrsta gosið var. Það er ekki hægt að færa það yfir á þetta en það sýnir að það getur heilmikið kvikuhlaup átt sér stað án þess að það gjósi upp,“ sagði Magnús Tumi.

Í mbl.is þann daginn sagði: „Stærsti skjálftinn í rúma tvo sólarhringa„.
ReykjanesskagiJarðskjálfti sem reið yfir klukkan 8.54 var 4,5 að stærð samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands. Jarðskjálftinn er á svipuðum slóðum og fyrri skjálftar, við Fagradalsfjall.
Skjálftinn fannst víða á suðvesturhorni landsins líkt og aðrir skjálftar af þessari stærð á Reykjanesi. Órói hefur ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum.
Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03.05 en sá var 4,6 að stærð.

Í mbls.is sama dag segir: „Nýlegar sprungur eru á svæðinu„.

Reykjanesskaginn

Vitleysan öll…

Nýlegar sprungur eru á svæðinu við Litla Hrút, Fagradalsfjall og Sandfell, aðallega suðvestan við Keili. Ekki er hægt að segja til um hvort þær mynduðust í gær eða eftir stóra jarðskjálftann sem varð í síðustu viku.
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segist ekki vita hversu stórar sprungurnar eru.

Í DV mátti einnig lesa eftirfarandi:
Reykjanesskagi

Grannt er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesi á næturvakt Veðurstofunnar. Auk eins veðurfræðings eru tveir á skjálftavakt. Sólarhringsmönnun hefur verið á skjálftavaktinni frá því skjálftahrina hófst á Reykjanesi fyrir viku síðan.

Bjarki Kaldalóns Friis

Bjarki Kaldalóns Friis.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings hefur staðan á Reykjanesi lítið breyst síðustu klukkustundir. „Það er áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu suðvestur af Keili. Óróinn er enn til staðar og hefur ekki breyst mikið frá því í kvöld.“
Skjálfti 4,1 að stærð reið yfir um klukka 00:59 í nótt, sá stærsti síðastliðinn sólarhring en þó litlu stærri en annar sem var á fjórða tímanum í dag.
Nýjar gervihnattamyndir af skjálftasvæðinu bárust í nótt, en eftir á að vinna úr þeim. Þá eru myndirnar bornar saman við fyrri myndir til að sjá þenslu jarðskorpunnar og fá vísbendingar um kvikumagn auk þess sem landris sést á myndunum. Í fyrramálið ætti yfir­ferðinni að ljúka.

Hafa ekki undan að yfirfara skjálfta
Meðal helstu verkefna næturvaktarinnar hjá Veðurstofunni er að yfirfara handvirkt þá skjálfta sem ríða yfir, greina stærð og staðsetningu. Óvinnandi vegur er þó að fara yfir þá alla enda skipta skjálftarnir þúsundum á hverjum sólarhring um þessar mundir. Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka skömmu fyrir klukkan tvö í nótt voru skjálftarnir orðnir 215 frá miðnætti.

Reykjanesskagi
„Við náum auðvitað ekki yfir þetta allt saman. En ef maður er mjög duglegur getur maður náð 100-200 skjálftum á dag,“ segir hann. Því til viðbótar þarf að senda út tilkynningar, taka við símtölum frá almenningi og auðvitað svara fjölmiðlamönnum. „Þegar það er eitthvað mikið að gerast þá hringir almenningur mikið og sendir inn fyrirspurnir, en núna þegar þessi atburður er búinn að vera í gangi í yfir viku þá eru þau ekki mikið að senda tilkynningar eða hringja inn lengur,“ segir Bjarki.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Fjallið er fjölbreytt, bæði að gerð og lögun.

Ef gos hefst er aðeins einn á formlegri bakvakt, en Bjarki segist þó viss um að starfsfólk muni hrúgast inn ef til þess kemur. Því mætti segja að allir væru á óformlegri bakvakt.

Þá fer enda mikið ferli af stað. Breyta þarf litakóða fyrir flug yfir á rautt, senda út fréttatilkynningar og skrifa á vefinn. „Þess vegna eru þau sem eru ekki á vakt löngu farin heim að hvíla sig þannig að þau verði tilbúin ef eitthvað gerist. Það verða vonandi einhverjir sem eru úthvíldir,“ segir Bjarki.

Í DV samdægurs segir; „Hvað er óróapúls?

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Flestir landsmenn heyrðu í fyrsta skipti í gær orðið „óróapúls“. Það koma víða fyrir í fréttum í eftirmiðdaginn og um kvöldið en flestir hafa líklega í besta falli óljósa hugmynd um hvað það þýðir. „Óróapúls mældist í gær kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili, við Litla Hrút,“ segir í samantekt Veðurstofunnar um atburði gærdagsins.

Sigurlaug Hjaltadóttir

Sigurlaug Hjaltadóttir.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili. „Það sem við teljum að gerst hafi í gær var að kvika var að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpuna. Virknin sýnir þá hvar spenna er í jarðskorpunni. Þegar hún rýkur upp köllum við það púls. Þá verður fjöldi lítilla jarðskjálfta, jafnvel með fárra sekúndna millibili,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við DV.

Eins og Sigurlaug segir er líkleg skýring á óróanum í gær sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið inn í jarðskorpuna. En óróapúls getur átt sér aðrar skýringar: „Í öðrum kringumstæðum geta verið aðrar skýringar, til dæmis suða á jarðhitakerfi,“ segir Sigurlaug en tekur fram að það eigi alls ekki við um atburði gærdagsins. Þar er líklegasta skýringin sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpu og valdið fjölda lítilla skjálfta með örstuttu millibili.

Sem sagt, stutta skýringin á orðinu „óróapúls“ er: Fjöldi lítilla jarðskjálfta með örstuttu millibili.

Í RÚV er sagt að „Eldgos við Keili gæti komið af stað keðjuverkun
Reykjanesskagi
Eldgos við Keili gæti komið af stað kvikuinnskotum á öðrum sprungusveimum á Reykjanesskaganum að mati Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Reykjanesskaginn sé allur virkt svæði og eldvirkni á svæðinu tengist milli kerfa. Páll telur mögulegt að kvikuinnskot geti orðið í Reykjaneskerfinu, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Henglinum. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Gígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Páll sagði að undanfarið ár hafi orðið ítrekuð kvikuinnskot í þessum kerfum en þau hafi ekki valdið tjóni. Hinsvegar sé ekki hægt að útiloka að ef kæmi til eldgoss myndi það hafa í för með sér kvikuinnskot á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum sem gæti opnað sprungur ofanjarðar án þess að eldgos yrði á þeim stað.
Slíkar sprungur gætu haft í för með sér tjón á ýmsum innviðum eins og vegum, rafmagnslínum, vatnsæðum og fjarskiptum.

„Þegar svona virkni tekur sig upp þá virðist vera að öll svæðin taki undir“ segir Páll og bætir við að eina svæðið sem ekki hafi tekið undir ennþá séu Brennisteinsfjöll en að það sé bara tímaspursmál hvenær virkni hefjst þar líka.
„Eitt af því sem getur valdið tjóni eru sprunguhreyfingar og það er nokkuð sem við getum ekki horft framhjá. Kannski er það það alvarlegasta sem getur gerst þarna“ segir Páll og bendir á að Krísuvíkurkerfið teygi anga sína alveg inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins og sprungur samhliða kvikuinnskotum geti farið í sér tjón á innviðum. Því sé Krísuvíkurkerfið undir alveg sérstöku eftirliti vísindamanna.
Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta gerist segir Páll að litlir skjálftar síðdegis í gær hafi verið óþægilega nálægt Krísuvíkursvæðinu.

Í Vísi segir: „Áfram gert ráð fyrir að gos muni hefjast
Reykjanesskagi
Áfram er mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaganum þó eitthvað hafi dregið úr óróapúlsi í nótt. Þó er enn gert ráð fyrir að eldgos muni hefjast, að sögn Kristínar Jónsdóttur náttúruvársérfræðings. Stór skjálfti reið yfir í morgun en hann er sá stærsti í rúma tvo sólarhringa.

Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir.

Um 2500 jarðskjálftar mældust í gær, og frá miðnætti eru þeir um 800 talsins. Í heildina hafa ríflega átján þúsund skjálftar síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt en jókst aftur um fimm leytið. Þá mældist skjálfti af stærðinni 4,5 um klukkan 8.54 í morgun við Fagradalsfjall en hann fannst vel á suðvesturhorni landsins.
„Staðan núna er sú að það hefur kannski aðeins dregið úr ákafanum í þessari skjálftahrinu en hún er samt enn þá í gangi. Og hún er dálítið hviðótt þannig að það koma svona mjög öflugar hviður, stundum með stærri skjálftum og svo koma svona smá hlé inn á milli,“ segir Kristín.

Í miðjum atburði akkúrat núna

Keilir t.h. og Fagradalsfjalll t.v.

„Núna er búið að vera frekar rólegt síðustu tvo klukkutímana en þegar við horfum aftur í tímann þá sjáum við að það eru klukkutímar, jafnvel tveir til þrír klukkutímar, á milli sem eru frekar rólegir en svo tekur þetta sig alltaf upp aftur. Þannig að við erum bara inni í miðjum atburði akkúrat núna,“ bætir hún við.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Kristín segir að viðbúið sé að fleiri öflugir skjálftar verði. „Þessum umbrotum fylgja greinilega sterkir skjálftar eða sæmilega sterkir skjálftar og við verðum bara að vera í þeim gírnum að þetta geti haldið eitthvað áfram,“ segir Kristín og bætir við að helstu breytingarnar í nótt hafi verið að virknin hafi fært sig til suðvesturs en sé áfram bundin við Fagradalsfjall.
Þá sé enn búist við að eldgos muni hefjast. „Á meðan hrinan stendur enn yfir að þá verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika. Ég held að flestir jarðvísindamenn séu sammála þeirri túlkun að þessi jarðskjálftavirkni og óróahviða sem kemur í gær að hún sé líklega til marks um kvikuhreyfingar. Og kvikan er á ferð þarna á þessu svæði. Á meðan kvikan er á ferð þá er auðvitað hætt við því að hún komi ofar í jarðskorpuna og komi upp. Þannig að við erum með þá sviðsmynd enn þá á borðinu, já.“
Vonir stóðu til að niðurstöður úr gervihnattamyndatöku lægju fyrir um hádegisbil í dag. Það hefur hins vegar frestast og að sögn Kristínar verða niðurstöðurnar að líkindum klárar seint í kvöld eða á morgun.

Í mbl.is segir: „Líklega byrjun á gosskeiði fari að gjósa
Reykjanesskagi
„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:

Eldgos

Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir hana á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen (nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprung­um sem geta orðið allt að 12 km langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár
Reykjanesskagi
Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.

Reykjanes

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/​Hellnahraun.

Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í Óbrennishólmum.
ReykjaneseldarEftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 km langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.

Reykjanesskagi„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:
Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hóló­sen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfun­um á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.

Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Í DV segir jarðfræðingur „atburðarásina á Reykjanesskaga koma stöðugt á óvart

Reykjanesskagi

Hraunflæðispá – ein af mörgum.

Eins og kunnugt er mældist óróapúls sunnan við Keili á miðvikudaginn en slíkt er fyrirboði eldgoss en enn er ekki byrjað að gjósa á svæðinu. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir að vísindamenn séu að reyna að átta sig á hvaða möguleikar eru í stöðunni og að þeir séu mjög margir.

Gígaröð

Gígaröð í Eldvörpum.

Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Páli að atburðarásin komi vísindamönnum á óvart daglega.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Enn er mikil virkni á svæðinu en hún hefur færst í suðvestur frá Keili. Hefur Morgunblaðið eftir Páli að ekki sé nein leið að spá um hvert framhaldið verður því sérfræðingar eigi fullt í fangi með að reyna að skilja hvað gerðist eftir að óróapúlsinn mældist á miðvikudaginn.

Á gervihnattarmyndum sem ná frá 25. febrúar til 3. mars sést kvikugangur á milli Fagradalsfjalls og Keilis en þær sýna ekki verulega aukningu í kvikuhreyfingum í óróanum á miðvikudaginn. „Það hefði enginn orðið hissa þótt breytingarnar hefðu verið talsverðar og eitthvað hægt að ráða í þær. Það hefur verið kvikuhlaup en mjög lítið,“ er haft eftir Páli.

Hraunfæðispá

Hraunflæðispá 2021: Hér kemur ný hraunflæðispá miðað við atburði næturinnar. Eldsuppkomunæmi reiknað kl 11 í morgun. Nú koma fram 4 möguleg svæði hvar eldur gæti komið upp. Smá punktur er í Móhálsadal, Fagradalsfjalls svæðið, við Sýlingafell og Hauksvörðugjá. Af þeim sökum koma hraun frá 4 svæðinu. Nú tökum við sérstaklega fram að möguleikar á því að það komi til eldgoss á öllum svæðum í einu eru engar.
Kortið sýnir mögulega hraunrennslis leiðir, ef litur er dökkur er líklegra að hraun fari þar um og að sama skapi ef litur er ljós eru mun minni líkur á að hraun fari þar um. Þar sem það er eru nánast engar líkur á að gjósi á öllum svæðum munu ávalt vera opnir vegir, eins og komið hefur áður fram hjá Þorvaldi. Þá er mikilvægt að hraun tekur tíma að renna og því ávalt viðrbragðstími.
Kortið er til að glöggva okkur á hvar hraun gætu runnið.

Samkvæmt nýrri hraunflæðispá vísindamanna við Háskóla Íslands er gert ráð fyrir fjórum svæðum þar sem gæti gosið. Þetta eru Fagradalssvæðið, Hauksvörðugjá, Móhálsadalur og Sýlingarfell sem er rétt norðan við Grindavík. Breytingin frá fyrri spám eru að skjálftavirknin hefur dreift úr sér og því eru fleiri svæði talin líkleg en áður.

Á mbl.is má lesa eftirfarandi: „Dvínandi jarðskjálftavirkni

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga hefur dvínað aðeins eftir að hafa færst í aukana á sjötta tímanum í morgun. Enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu en ekki eins mikil og um hálfþrjúleytið í gær.
Að sögn náttúruvársérfræðingsins kemur þetta í bylgjum. Þegar átt er við að óróinn og virknin hafi dvínað er átt við þéttleika skjálftanna. Þar af leiðandi er óróapúlsinn ekki eins áberandi og í gær.
Spurður hvaða þýðingu þetta hefur segir sérfræðingurinn ekkert hægt að lesa úr stöðunni eins og hún er núna. Hlutirnir verði að koma betur í ljós.

Ekki séð gervihnattarmyndir

Flogið var yfir svæðið í þyrlu í gær og teknar myndir, auk þess sem starfsfólk var á staðnum áður en óróapúlsinn myndaðist. Fara þarf betur yfir þær upplýsingar sem fengust.

Sudhnúkur

Sundhnúkur – loftmynd.

Spurður hvort starfsfólk Veðurstofunnar muni fara á svæðið í dag segir hann það fara eftir því hvernig hlutirnir þróast.
Gervihnattamyndir áttu einnig að berast núna í morgun sem eiga að hjálpa til við að meta stöðuna en náttúruvársérfræðingurinn hefur ekki séð þær enn þá.

Funda með Veðurstofunni
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að næstu skref verði að fá upplýsingar um hvernig nóttin var og funda svo með Veðurstofunni. Hann segir stöðuna óbreytta frá því sem var í gærkvöldi.

HÉR má sjá myndskeið gossögunnar í Geldingadölum fyrstu tíu dagana á fimm mínútum….

Reykjanesskagi

Jarðfræðikort.

Ergo
Þegar þetta er skrifað 4. mars 2021 skelfur jörðin enn á Reykjanesskaganum.
Málið er að allt framangreint virðist fljótt á litið vera hjóm eitt, þ.e.a. ályktanir svonefndra „sérfræðinga“ er hvorki byggja gögn sín á sögulegum staðreyndum né víðtækri þekkingu á landssvæði Reykjanesskagans.
FlekaskilÍ fyrsta lagi ganga skil Evrasíu- og Ameríkufleka jarðskorpunnar upp í gegnum Reykjanesið er liggja síðan austan með sunnanverðu landinu að miðsvæði þess þá er þau skera það í tvennt til norðausturs uns hlaup verða á skilununum til vesturs á leið þeirra áfram til norðurs.
Engin ummerki eru enn um að gosið hafi orðið á flekaskilunum sjálfum, a.m.k. ekki á landi. Stóru dyngjugosin fyrir meira en 5000 árum voru á kvikuþróm út frá flekaskilunum, flest til norðurs, s.s. Þráinsskjöldur, Hrútargjárdyngja, Stóra-Lambafell, Kistufell og Ölkelduháls. Möttulstrókurinn, sem nú er undir Vatnajökli, var í þá daga mun vestar og hefur eflaust ýtt undir kvikumyndun á þessum svæðum.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Í öðru lagi hafa langflest gos á Reykjanesskaganum síðustu 5000 árin verið svonefnd sprungureinagos, þ.e. gosið hafa orðið á sprungum, mislöngum eftir aðstæðum. Sprungureinar þessar liggja langflestar til norðnorðausturs út frá flekaskilunum. Lengsta sprungureinagosið varð 1151 er Ögmundarhraun rann, en þá náði sprungan frá sunnanverðum Núpshlíðarhálsi að Helgafelli ofan Hafnarfjarðar. Af þessum gosum hafa jarðfræðingar dregið ályktanir að svonefndar kvikuþrær lægju þvert á flekaskilin í tilgreindum sveimum inn til landsins. Það segir hins vegar lítið um það hvort og hve mikla kviku er þar að finna í dag.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Hér má sjá flekaskilin (svart) og fyrrum kvikuhólfin (hvít).

Í þriðja lagi sýna jarðskjálftamælingar nánast einungis hreyfingar á flekaskilunum, sem verður að teljast eðlilegar þótt það kunni að þykja óþægilegt. Ef um aukna kvikumyndun væri að ræða undir niðri myndu skjálftamælar og gps-mælingar bæði sýna auka hreyfingu á jarðskorpunni út frá flekaskilunum sem og landris. Því hefur ekki verið til að heilsa. a.m.k. ekki hingað til.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Í fjórða lagi má líta á landfræðilegar aðstæður á svæðinu í kringum Keili, Fagradalsfjall og nágrenni. Þegar Þráinsskjöldur gaus fyrir u.þ.b. 9000 árum rann hraun bæði til austurs og norðvesturs, myndaði t.d. Vatnsleysuströndina og heiðina upp af henni. Þá má ætla að frá dyngjunni hafi legið jafnlæg hraunbreiða niður að ströndinni. Nú má hins vegar sjá á landssvæðinu miklar gjár og misgengi upp á tugi metra. Slík landmótun hefur ekki gengið þegjandi og hljóðlaust fyrir sig í gegnum árþúsundin, en þó án nýrrar uppstreymiskvikumyndunar, að einum stað undanskildum, þ.e. í smáum „Eldvörpum“ ofan Knarrarnessels. Hraungosin í Kálffelli, í Rauðhólsröðinni ofan Skógfella og Sundhnúkagígaröðin eru seinna til kominn, líkt og Eldvörp og Stamparnir.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í fimmta lagi virðast jarðfræðingar fyrrum, sem unnu frábært skráningarstarf á hraunaupptökum og -rennsi, hafa dregið þá ályktun að gígaraðirnar séu enn tákn um virkar kvikuþrær undir niðri. Reyndar er fátt, sem bendir til þess, umfram það sem jarðarþróin stóra getur annars eðlilega boðið upp á. Hún er og verður reyndar óútreiknanleg svo lengi sem Jörðin mun verða til.
Í sjötta lagi hafa Grindvíkingar löngum þurft að upplifa skjálftahrinur líkar þessum. Á tólftu öld var nánast ólíft á svæðinu. Á þrettándu öld flúðu íbúarnir og byggðin lagðist í eyði um langt skeið. Í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hrundu bæir í jarðskjálftum, s.s. á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík. Núlifandi Grindvíkingar munu að vísu ekki þau tímabil, en óþægindatímabil voru þau samt, þeim er þá lifðu.

Kvikuþró

Kvikuþró.

Í sjöunda lagi mættu fjölmiðlar vera meira vakandi; ekki bara endurtaka og mata almenning á upplýsingum frá „sérfæðingunum“, heldur gera sínar eigin athuganir. Hversu margt fjölmiðlafólk skyldi hafa gengið um svæðið, lesið landið og ályktað tilurð þess út frá landfræðilegum aðstæðum í gegnum tíðina? Nánast hver einasti nútíma fjölmiðlaumfjallandi virðist nú vera orðinn sérfræðingur í landsháttum svæðisins á örskömmum tíma.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Í áttunda lagi finnst mér sorglegt hversu margt fjölmiðlafólk kann ekki að stafsetja örnefnið „Krýsuvík“ – sjá HÉR.
Í nýjunda lagi á bæði „sérfræðingar“ og fjölmiðlafólk það til að rugla saman örnefnum; skjálftarsvæðið við Fagradalsfjall er ekki á Reykjanesi. Reykjanes er syðsti hluti Reykjanesskagans, þar sem m.a. Reykjanesvitinn trjónar nú. Reykjanesskaginn er landssvæðið allt, landnám Ingólfs fyrrum er hann nam á milli „Brynjudals og Ölfusárósa“. Alltaf betra þegar fjölmiðlafólk gerir sér annt um að geta réttra heimilda – ekki síst út frá sögulegu samhengi.

Fjallasýn

Útsýni að Keili og nágrenni frá höfðuborgarsvæðinu – örnefni.

Las í gær áhyggjur íbúa á Völlunum í Hafnarfirði í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla af væntanlegu gosi. Hann virtist hræddur og krafðist skýringa af hálfu lögregluyfirvalda. Náði að útskýra fyrir honum að hann þyrfti ekkert að óttast, ef spár „sérfræðinganna“ gengi eftir; millum væntanlegs eldgoss suðvestan Keilis væru a.m.k. þrjú hraun frá 12. og 13. öld er myndu hindra hraunstraum í átt til hans. Hann gæti því bara setið rólegur á sínum svölum og notið dásemdanna, ef af yrðu.

Rykjaneskaginn

Krútt.

Með fullri virðingu fyrir svonefndum „jarðvársérfræðingum“, sem virðast vera nokkurs konar „veðurfréttamenn“ hversdagsins, er á stundum svolítið erfitt að hlusta á glaðklakkanlegar útskýringar þeirra, að því að virðist, án nokkurs rökstuðnings m.t.t., eins og að framan sagði; sögulegra og landfræðilegra aðstæðna. Undantekningin er þó söguleg umfjöllun mbl.is.
Sakna gömlu góðu jarðfræðinganna; Jóns Jónssonar og Kristjáns Sæmundssonar, sem kenndu mér svo margt. Hólósenheilkennið virðist hafa truflað margan nútímajarðfræðinginn.

Ef svo ólíklega vildi til að eldgos birtist ofan jarðar í framhaldinu á þessu tilgreinda landssvæði yrði það bara kærkomin sjón. Flest fólk upplifir slíka ásýnd ekki nema einu sinni á ævinni…

Hér má sjá það nýjasta á Vísir.is (6. mars):
Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð.

Keilir

Yfirlit yfir væntanlegt jarðgosasvæði milli Keilis og Fagradalsfjalls.

Enn er full ástæða til að hafa gætur á vegna jarðhræringanna á Reykjanesi að sögn jarðeðlisfræðings. Skjálftavirkni sé enn mikil þrátt fyrir að fólk finn ef til vill minna fyrir skjálftum eins og staðan er núna. Það kunni að vera að framundan sé ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum sem gæti spannað nokkur hundruð ára tímabil.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

„Það er áframhaldandi skjálftavirkni þó að fólk finni kannski ekki jarðskjálftana þannig að þeir eru minni heldur en þeir hafa verið. En þeir eru mjög tíðir og GPS-mælar sem ég vinn helst með sýna að það er áframhaldandi þensla á svæðinu,“ segir Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við fréttastofu.

Halldór sérhæfir sig einkum í jarðskorpuhreyfingum. „Sumir kalla okkur krumpufólkið. Við erum að skoða hvernig jarðskorpan beyglast og reyna að túlka þannig hvað er að gerast ofan í jarðskorpunni,“ segir Halldór.

Hærri líkur ekki það sama og háar líkur
Þá segir hann heilmargt hafa komið á óvart hvað varðar þær jarðhræringar sem nú standa yfir. „Það er búið að vera magnað að fylgjast með þessu núna síðastliðna rúma viku og bara til dæmis það að við séum að sjá kviku á ferð þarna er eitthvað sem að mörg okkar hafi kannski ekki alveg órað fyrir. Það er langt síðan að það hefur gosið akkúrat á þessum slóðum þótt að þar hafi gosið mörgum sinnum áður. En þetta er kannski ekki það fyrsta sem fólk átti von á. Það er spennandi fyrir jarðvísindaáhugafólk að fylgjast með þessu,“ segir Halldór.

Hvernig metur þú líkurnar á eldgosi akkúrat núna?

„Það er mjög erfitt að segja til um einhverjar líkur. En á meðan við sjáum að einhver kvika er að flæða inn í kerfið, sem við sjáum núna, það er að flæða inn nokkuð magn af kviku á hverjum degi, og á meðan að það er í gangi þá eru alltaf hærri líkur á eldgosi. En það þýðir ekki endilega að það séu háar líkur,“ segir Halldór. „Það þarf bara að fylgjast vel með öllum tiltækum ráðum.“

Kvikugangurinn á hreyfingu

Eldgos

Tölvugerð skjámynd í Kastljósi RÚV um það sem landsmenn kynnu að vænta.

Hann segir útlit fyrir að þessi kvikugangurinn hafi færst aðeins til suðvesturs fyrir nokkrum dögum og hann haldi áfram að þenjast út. „Þannig það er full ástæða til að hafa fullar gætur á öllu,“ segir Halldór.

Er ekki ástæða til að ætla að þetta sé að verða búið?

„Nei það held ég ekki og ekki vísbendingar um það. Þannig að eins og ég segi, það er stöðug skjálftavirkni í gangi, þeir eru bara það litlir að fólk finnur fæsta þeirra,“ svarar Halldór.

Eldgos
„Jarðskjálftavirknin færist aðeins til, þannig milli 25. febrúar og fram til 3. mars þá var mest af virkninni á milli Fagradalsfjalls og Keilis en svo 3. mars var heilmikil jarðskjálftavirkni og þá er kvikan að brjóta sér leið lengra í raun og veru inn í Fagradalsfjall, eða undir það, og er að fara kannski kílómetra, einn eða tvo þar undir eða eitthvað svoleiðis, og það hefur líka svolítil áhrif á jarðskjálftavirknina. Þannig að þegar svona berggangar, eða kvikugangar troðast út þá breyta þeir líka spennu á mismunandi misgengjum og á miklu stærra svæði heldur en akkúrat þar sem þessi gangur er að þenjast út,“ útskýrir Halldór.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Það orsaki kannski að einhverju leiti þá jarðskjálftavirkni sem hefur verið nær Grindavík. „Það er alla veganna ein helsta skýringin sem við erum með þessa dagana. Kvikugangurinn virðist ekki vera á neinni ferð þangað beinlínis, það er frekar að stefnan sé núna meira suðlæg heldur en að hann sé að ferðast til suðvesturs. Þannig að það er ekkert sem að styður að það séu einhverjar kvikufærslur þarna nærri bænum,“ segir Halldór.

En eru enn jafn miklar líkur á að það verði stór skjálfti líkt og talað var um fyrir helgi. Er viðbúið að skjálfti upp á 6 eða meira kunni að ríða yfir á svæðinu?

Kvikugangur

Kvikugangur.

„Það eru heilmiklar breytingar á landinu og aflögun á landinu um einhverja sentímetra eða tugi sentímetra og þetta hefur áhrif á þessi jarðskjálftamisgengi sem geta jafnvel verið þó nokkuð í burtu. Þannig að það lítur út fyrir að það hafi kannski heldur minnkað líkur á jarðskjálfta í Brenniseinsfjöllum, þessi tegund af hreyfingu hefur tilhneigingu til að ýta aðeins saman misgengjunum þar þannig að þau festast frekar. En það eru í sjálfu sér ekki miklar breytingar þannig að sú hætta er alltaf enn fyrir hendi svona í bakgrunninum en það er síður líklegt,“ svarar Halldór.

Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð?
Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hversu lengi þetta muni halda áfram eða hvenær þessu muni ljúka. Ekki sjái fyrir endann á virkninni ennþá.

Grindavík

Grindavík.

„Við höfum kannski verið í tiltölulega rólegu tímabili síðustu áratugina og síðustu árhundruðin en það er náttúrlega ekki útilokað að það hafi verið viðlíka hrinur áður en að góðar mælingar voru til. En svo getur líka verið að við séum að fara inn í ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum og það getur þá spannað tímabil sem við myndum mæla þá í einhverjum hundruðum ára, með einhverjum smá gosi hér og hvar, stundum stærri og stundum minni og stundum jarðskjálftar og fleira. En þetta er nú allt í stóra samhenginu þá er þetta nú kannski frekar smátt í sniði yfirleitt, alla veganna sýnir jarðsagan okkur það,“ segir Halldór.

Heimildir:
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/210304_ny.pdf
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/staersti_skjalftinn_i_ruma_tvo_solarhringa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/nylegar_sprungur_eru_a_svaedinu/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/allir_a_tanum_a_vedurstofunni/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/4/ord-gaerdagsins-hvad-er-oroapuls/
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/03/eldgos-vid-keili-gaeti-komid-af-stad-kedjuverkun
-https://www.visir.is/g/20212080792d/afram-gert-rad-fyrir-ad-gos-muni-hefjast
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/5/pall-segir-atburdarasina-reykjanesskaga-koma-stodugt-ovart/
-https://www.visir.is/g/20212081717d/gaetum-sed-fram-a-virknitimabil-sem-spannar-arhundrud

Goshrina

Goshrina – sem spáð var á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Grænadyngja

Árni Óla skrifaði um „Heiðina og Eldfjöllin“ umleikis Keili í bók sinni „Strönd og Vogar“.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

„Vatnsleysuströnd hefir ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefir rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skagi á Íslandi og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög grimilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos. Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og sem eru einu nafni nefndir Móhálsar.

Trölladyngja

Trölladyngja.

En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.

Vesturháls

Vesturháls.

Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða em þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum em tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m). Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og er auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvemig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra.

Sog

Í Sogum.

Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400—500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Vesturháls

Vesturháls og Austurháls með hraunin á millum.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389—90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur“. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við ömefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau em nú notuð, en gá ekki að því, að þau vom yfirgripsmeiri forðum.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi“ mun hafa verið kölluð öll ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám. Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þama af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík“. Í hólmanum er á einum stað nefndur Kirkjuflötur og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.

Ögmundarhraun er komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur“. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Trölladyngja vita menn ekkert, má vera að mönnum hafi þótt „dyngjan“ svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það. Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar vora landvættir.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.“ Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert. Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum“. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?
Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Líklegt má telja, að menn fari að venja komur sínar á þessar slóðir úr því að vegur er þangað kominn. Hér er að sjá stórbrotið og einkennilegt landslag. Óvíða eða hvergi munu vera jafnmargir eldgígar á jafn-takmörkuðu svæði og hér er, og þó mikill gróður. En til þess að skoða sig um, verða menn að ferðast fótgangandi, og er það engum ofætlun, sérstaklega ef þeir hafa nægan tíma, og góða tjaldstaði má finna hér á fallegum stöðum. Menn ætti því að dveljast hér nokkra daga og skoða „öræfadýrð Íslands í miðri byggð“, því að það er fyrirhafnarminna heldur en að þeytast inn á hálendið.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Hér skal aðeins drepið á hvaða leiðir er heppilegt að fara. Er þá bezt að fara fyrst umhverfis Dyngjunnar.
Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir em eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr jámi. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því að limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.
Hörðuvellir heita austan við Dyngjurnar. Þaðan liggur götuslóði gamall suðurfyrir þær og að Sogi og má svo fara niður með því.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Hjá Sogi hefir áður verið mikill jarðhiti og er þar allt sundur soðið af hveragufum og móbergið orðið að marglitum leirtegundum. Sunnan við Sog, uppi á fjallinu, er rauður leirhver með mörgum opum. Þar fyrir sunnan er Grænavatn. Sunnan við það eru um 100 eldgígar uppi á hálsinum. Eru þeir í mörgum röðum og sumir geysistórir. Við neðri rönd vatnsins er sá stærsti. Umhverfis þessa gíga eru fjöldamargir smærri gígar með ýmsu móti. I hlíðinni hjá Sogi eru eldgígarnir óteljandi.
Skemmtileg og greiðfær leið er frá Sogi suður með hálsinum. Er þar fyrst Oddafell á hægri hönd, en síðan kemur Driffell. Sunnan við það, úti í hrauninu, er Hverinn eini, sem hefir fært sig úr stað oftar en um sinn.

Selsvellir

Selsvellir.

Þar fyrir sunnan er komið á Selsvelli. Þar var áður selstaða frá Hrauni og Stað í Grindavík. Selsvöllum hefir dr. Bjarni Sæmundsson lýst svo: „Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum.

Selsvellir

Selsvellir – seltóftir fremst.

Selsvellir ná milli hrauns og hlíðar 2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o. fl.“ Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2—3 bæir.
Fyrir sunnan Selsvelli em svonefnd Þrengsli. Um þau liggja landamerki Vatnsleysustrandarhrepps í Núpshlíð fremst. Á hlíðinni upp af Selsvöllum er gríðarstór eldgígur, um 3000 fet að ummáli. Niðri í honum em aðrir smærri gígar, og margir einkennilegir smágígar eru utan í hálsbrúninni. Fyrir sunnan Selsvelli eru stórir gígar í hrauninu fyrir neðan hálsinn, en inn með hlíðinni að austan em gígar þeir, sem Ögmundarhraun kom úr.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Sé nú haldið inn með hlíðinni að austan, liggur leiðin um Stóra-Hamradal og Litla-Hamradal. Enn innar er komið að bæjarrústum. Voru þar fyrrum tveir bæir, kot eitt, er Bali hét og komið er í eyði fyrir löngu, og Vigdísarvellir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þarna var áður sel frá Krýsuvík, en bæirnir voru byggðir sem hjáleigur þaðan um 1830. Í miklum jarðskjálfta í lok janúarmánaðar 1905 hrundu öll hús eða stórskemmdust á Vigdísarvöllmn, og fór bærinn þá í eyði. Þarna er enn mikið og slétt tún, en komið í mosa. Eggert Ólafsson segir í Ferðabók sinni, að Núpshlíð sé mjög rómuð fyrir það, hve margt fagurra jurta vaxi þar. Getur hann um nokkrar tegundir, þar á meðal jarðarber.
Norðan við Vigdísarvelli skagar háls fram í hraunið og heitir Vigdísarháls. Innan við hann er graslendi, sem heitir Krókamýri, og innan við hana skagar fram annar háls, sem heitir Traðarfjöll. Þar fyrir norðan er graslendi, sem heitir Lækjarvellir. Þar er dálítil tjörn og rennur úr henni lækur í Djúpavatn. En úr Djúpavatni rennur lækur niður Sog, og sé honum fylgt, er aftur komið á Höskuldarvelli og þar með er hringferðinni um Vesturháls lokið.

Húshellir

Í Húshelli.

Í hraununum á Reykjanesskaga má finna óteljandi fylgsni, enda hafa útilegumenn hafzt þar við. Glöggvastar sagnir eru af þremur útilegumönnum, sem settust að í helli hjá Selsvöllum 1703. Hét einn Jón Þórðarson úr Eystrihrepp, annar Jón Þorkelsson úr Landeyjum og sá þriðji unglingspiltur, er Gísli hét Oddsson. Höfðu þeir verið á flækingi áður – og stálu víða á bæjum, seinast í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Bóndinn á Ísólfsskála varð þeirra var, og fluttust þeir þá í annan helli norðar, skammt frá Hvernum eina. (Þess má geta hér, að Hverinn eini þýðir hverinn frábæri). Hellir þessi er í hrauninu milli Selsvalla og Sogs. Meðan þeir voru þarna stálu þeir nokkrum sauðum, og rændu svo ferðamann, Bárð Gunnarsson úr Flóanum. Þarna var þá alfaraleið. Eftir þetta söfnuðu bændur á Vatnsleysuströnd liði, handtóku útilegumennina og fluttu þá til Bessastaða. Þaðan voru þeir svo fluttir til Alþingis á Þingvöllum og dæmdir. Jónarnir voru báðir hengdir hinn 13. júlí, en Gísla var hlíft vegna æsku, en þó fékk hann þá húðstrýkingu, er næst gekk lífi hans.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Heiðin og Eldfjöllin, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 246-253.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir og Bali – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Í Dagur-Tíminn 1996 er fjallað um „Frumbyggja Íslands – Krýsana„. Þar er og m.a. skrif um höfundinn; „Skugga“, Jockum M. Eggertsson.

Uppruni Skugga og ferill

Jochum M. Eggertsson

Jochum M. Eggertsson.

Hugmyndir um búsetu á Íslandi fyrir daga Ingólfs Arnarsonar eru mörgum hugleiknar og eru víða til. Meðal þeirra sem sett hafa fram kenningar um efnið er Jochum M. Eggertsson, sem tók sér höfundarnafnið Skuggi.

Hér á síðunni er leitast við að gefa nokkra hugmynd um kenningar hans um Krýsa, sem vöktu talsverða athygli á sínum tíma, en hafa nú fallið í skuggann fyrir enn öðrum kenningum, sumum miklu ótrúlegri, en margir taka samt sem góðar og gildar.
Jochum M. Eggertsson fæddist á Ísafirði 1896, sonur Eggerts Jochumssonar, bróður Matthíasar skálds og Einars trúmálahöfundar og margra fleiri systkina. Móðir hans var seinni kona Eggerts, Guðrún Kristjánsdóttir frá Gullbringu.
Eggert faðir hans var um tíma skrifari hjá Jóni Þ. Thoroddsen, sýslumanni og rithöfundi, sem þá sat í Haga á Barðaströnd. Annars var hann vitavörður á Naustum, gegnt Ísafirði, en var lengstum ævinnar heimiliskennari hér og þar um Vestfirði og síðar á Ísafirði við barnaskólann. Skáldmæltur, fjölfróður og ritfær, en gaf lítið út. Jochum kallaði sjálfan sig Skugga og gaf út bækur undir því heiti.

Skógar

Skógar í Þorskafirði.

Hann varð búfræðingur frá Hvanneyri, fór síðan til Norðurlanda ungur maður og lærði ostagerð og fleiri hagnýt fræði. Heimkominn snéri hann sér þó ekki að sérgrein sinni, heldur skriftum, afar fjölbreyttum. Þýddi hundruð ljóða eftir þekkta erlenda höfunda, gaf út Galdraskræðu um hvíta- og svartagaldur, ritaði Syndir guðanna 1-3, magnað ádeilurit um samtíð sína, samdi fyrsta kvikmyndahandrit á íslensku, þýddi Rubayat Ómars Khajjam og gaf út kenningar sínar um margvísleg efni. Þar á meðal um landnám Krýsa, sem leita verður uppi í fleiri bókum, því svo virðist sem nokkuð skorti á skipulag í framsetningu Skugga. Alls eru útgefin rit hans um 30 talsins.

Skógar

Trjárækt að Skógum.

Skóga í Þorskafirði keypti Jochum 1950 og stundaði þar skógrækt og víðfeðmar hugsanir. Síðustu árin gekk hann til liðs við Baháisöfnuðinn og arfleiddi hann að Skógum. Þar ólst faðir hans upp ásamt systkinum sínum, þar á meðal Matthías skáld Jochumsson.
Jochum Magnús Eggertsson (1896-1966) var einn af fyrstu bahá’íunum á Íslandi.  Jochum má telja til frumkvöðla skógræktar á Íslandi. Hann arfleiddi íslenska bahá’í samfélagið að landinu eftir sinn dag.
Jochum var rithöfundur og skáld. Hann skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi.

Jochum M. EggertssonÍ Vikunni 1963 er grein um Skugga; „Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur.“ Þar segir m.a.:

 

JOCKUM EGGERTSSON (SKUGGI) ER ALLRA HÉRLENDRA MANNA FRÓÐASTUR UM GALDRALETUR FRÁ FORNRITÍÐ. HANN HEFUR KOMIST YFIR GALDRASKRIF, SEM SEGJA FRÁ KRÝSUM, SEM BJUGGU í KRÝSAVÍK OG NÁGRENNI ÁÐUR EN LANDNÁMSMENN KOMU. ÞAR SEGIR EINNIG FRÁ ÞVÍ, AÐ ÞEIR SKRÁÐU SÍÐAR ÍSLENDINGASÖGUR, EN KOMUST í ANDSTÖÐU VIÐ KIRKJUVALDIÐ OG VAR NÁLEGA EYTT MEÐ AÐFÖR ÁRIÐ 1054.

ÞEIR SÁU FYRIR LANDNÁMIÐ OG KOMU VÍKINGA. ÞEIR FUNDU SÚLUR INGÓLFS FYRIR SUNNAN LAND OG FLUTTU ÞÆR Á DRAUGI VESTUR FYRIR HEIÐI. ÞEIM LEIST VEL Á INGÓLF OG HELGUÐU HONUM ÞAÐ LAND ER HANN LYSTI.

Skuggi

Brísingarmen Freyju.

„Fyrir skömmu síðan bárust mér í hendur bækur nokkrar sjaldséðar, en að sama skapi merkilegar. Þær eru skrifaðar af Jochum Eggertssyni, skáldi og fræðimanni. Hann er einn af þeim sjaldséðu ágætismönnum, sem troða ekki hefðbundnar slóðir, heldur ryðja nýjum skoðunum rúm í samfélagi mannanna. Hann hefur varið miklum hluta ævi sinnar til rannsókna á íslenzkum bókmenntum, rúnaletri og náttúru landsins. Það sem ég geri hér að umtalsefni er þáttur Papanna, sem bjuggu að Krýsavík, í sköpun fornsagnanna samkvæmt þeim heimildum, sem koma fram í einu ritverki Jochums er hann nefnir „Skammir“. Jochum Eggertsson hefur ferðazt mikið um Vestfirði og víða um landið og hefur komizt yfir gömul handrit og handritaafrit, sem hann telur fjalla um frumlandnám Austmanna og einnig um dvöl Vestmannanna eða Papanna, sem hingað voru komnir miklu fyrr.

Galdraskræða

Úr Galdraskræðu Jockums.

Aðalheimildarritið er Gullbringa eða Gullskinna, sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum á undangengnum rúmum 900 árum síðan hún var færð í letur af Kolskeggi Ýrberasyni frá Krýsavík, má þar meðal annars nefna Gráskinna, Rauðskinna og ýms önnur nöfn, sem yið galdra eru tengd. Eigendur bókarinnar eða handhafar þóttu og jafnan fjölkunnugir, að undanteknum biskupum þeim er fyrst varðveittu hana að Skálholti eftir víg Kolskeggs Ýrberasonar árið 1054. í galdrakveri, sem er í einkaeign, afrituðu eftir skinnbókarslitri frá 13. öld stendur eftirfarandi málsgrein með „brimrúnum“, opnuðum með dverglykli, III. skerðingar, og hér færð til nútímamáls.

Skuggi

Landnámsmenn“ nálgast landið.

„Kolskeggur Krýs orti Hávamál, var heiðinn sagður, fordæmdur af helgum mönnum og kirkjustoðum. Hans nafni var útskúfað. Kristinn mun þó Kolskeggur verið hafa. Mestur var hann kunnáttumaður; lifði eftir þann tíma er upp var tekinn Christum og sankti Maríá. (þ. e. kristni lögtekin) aflífaður áður en Ísleifur vígðist.
Stórvitur var Kolskeggur og langglygginn, hans sporningar ógengilegir. Marga hluti hann fullfurðulega gerði, svo sem af litum, letur og stafi, að eigi kunni fölna eður aflýsast. Af kunnáttu (sinni) sauð hann efni saman af jurtum og dýrum og svo af steinum og málmi; rauð á skinn og gerði af bækur að eigi kunni granda feyskja, vatn eður eldur. Þá bók (eina) hafði hann fullkomna, þá hann aflézt, þar á öll hin fornustu fræði, og svo vitur að biskupar og fróðustu klerkar fá eigi af numið. Sú bókin segir um alla landsbygging og sköpun og skifting jarðarinnar, nafngiftir og örnefni og áttvísi, frá Krýsum og Vestmönnum og landvættum þeirra, þá Austmönnum öllum, þeirra áttum og uppákomu. Helgir menn vilja eigi þessa bókina upp taka vegna villu og galdurs. Nú er þessi bókin Kolskeggs sögð undir Skálholtsbiskup og afturreirð, að eigi uppljúkist. Snorri (Sturluson í Reykholti) fékk hana eigi léða eður keypta þó margleitaði til með miklum fjármunum. Þessi Krýsabókin Kolskeggs vitra, hefur Arinbjörn prestur mér sagt, að héti Gullbringa eður Gullskinna.

Öndvegissúlur Ingólfs.

Skuggi

Flutningur öndveigissúlna Ingólfs vestur fyrir land.

Í Gullbringu skýtur nokkuð öðru við í frásögnum af landnáminu heldur en kemur fram í síðari tíma afritum á Landnámabókum. Í Landnámabók þeirri, sem Guðni Jónsson sá um til prentunar segir: „Þá Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla. Hann mælti svá fyrir, at hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.“ Í næsta kafla segir: „Þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan Heiði.“

Fornagata

Fornagata (Hellugatan) við Krýsuvík.

Enda þótt Ingólfur Arnarson yrði fyrstur norrænna víkinga til að staðfesta ráð sitt á þessu landi, verður þó, sannleikanum samkvæmt, varla hægt að kalla hann landnámsmann í þessa orðs fyllstu merkingu. Suðvesturströnd landsins var löngu numin af Vestmönnum og margar kynslóðir lifað og dáið í „Landnámi Ingólfs“ á undan honum. Hér var fyrir friðsamt fólk og vopnlaust, en úrval af mannkostum. Hér voru fyrir framsýnir menn og vitrir, er sáu þann kostinn vænstan, að taka þeim víkingum, er setjast vildu að, með opnum ömrum, gera þá að höfðingjum sínum og allan veg þeirra sem virðulegastan.
Allt Norðurlandið ásamt Vestfjörðum og Austfjörðum var enn óbyggt, er norrænir víkingar komu hér fyrst, þá landshluti höfðu Vestmenn að vísu kannað fyrir löngu síðan, en töldu þá lakari að gæðum og lítt byggilega.
SkuggiVíkingar fengu því venjulega með sér Vestmenn, er voru landinu kunnir, er þeir hugðu til könnunarferða og voru þessir Vestmenn venjulega þaulkunnugir siglingamenn og jafnframt trúnaðarmenn Krýsa.
Frumlandnáma segir frá ferðum Ingólfs Arnarsonar og staðfestu hans í Reykjavík, á allt annan hátt en núverandi gerð. Þeir Vífill Kormáksson og Karli Njálsson, systursonur Vífils, voru EKKI ÞRÆLAR Ingólfs, heldur leiðsögumenn hans og trúnaðarmenn Krýsa. Vífill var siglingagarpur mikill. Og þegar Ingólfur kom hingað til lands könnunarferðina, áður en hann afréð að setjast hér að, þá fylgdu þeir honum út, Vífill og Karli, að ráðum Krýsa. Ingólfur dvaldi vetrarlangt við suðurströndina og ræddi við þá, er fyrirmenn voru innbyggjanna, og sögðu þeir honum allt landið betra suður en norður. Krýsar voru forvitrir menn og framsýnir og sáu fyrir þjóðflutninginn og það los, er komið var á víkinga í Noregi. Þeim leizt Ingólfur gæfusamlegur og höfðu þegar ákveðið að setja hann yfir bezta landshlutann og allt það land, er hann fýsti.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill var kunnur suðurströnd landsins allri og þekkti þar voga alla og svo vötnin. Fóru þeir Karli jafnan tveir saman vestur með landi og höfðu fengið drauga stytting úr drómetar, þ. e. úlfalda, af Krýsum og svo prjám (léttur skinnbátur).

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Þá er Ingólfur hafði verið að Hjörleifshöfða einn vetur, en þangað fluttist hann með farangur sinn og skip eftir víg Hjörleifs, fundu þeir Vífill aðra súlu hans að landi komna en hina hvergi. Þar voru fyrir opnir sandar. Færðu þeir súlu þá vestan allra vatna, vestur fyrir Ölvésósa, festu við armtré og reistu upp og jarteinuðu Kristikross. Þeir voru menn kristnir. En þá Ingólfur frétti af þeim, að fundið hefðu þeir aðra súlu hans, en hina hvergi, þá líkaði honum stórum illa tiltektir. Hélt hann þá skipum sínum vestur með landi og inn í ósa og kallaði Arnarbæli, þar, er hann lagðist með skip sín. Reisti Ingólfur skála að Arnarbæli, en aðrir af liði hans höfðu skipin að skjóli. Voru þá með Ingólfi konur þeirra Hjörleifs, svo og skip hans. Ingólfur gekk á fellið, hvaðan bezt varð séð af. Honum leizt landið gott, bæði gnóglegt og fagurt. Þar heitir síðan Ingólfsfell og er Ingólfur heygður þar á fellinu. En þar, sem heitir að Reykjum bjó Ingólfur vé og setti þar völvur tvær og fretti. Þar voru vötn heit og svo jörðin um kring. Lét Ingólfur búa þar til gerði og færa niður sæði og melti þar kornið og hafði þar ölhitu. Heitti hann á Æsi, þá Óðinn og Frey.

Ölfusölkelda

Ölfusölkelda.

Vötn voru heit, að eigi þurfti að elda. Er þar Ölvé kallað og vötn þar við kennd. En það er af þeim Vífli að segja, að þeir hlupu á prjám og létu í haf tveir saman. Lintu þeir eigi fyrr en þeir tóku Suðureyjar. Þar var þá fyrir frændfólk þeirra Ingólfs og svo Vífils. Sagði Vífill þeim Herjúlfi og Steinúði innilega um för þeirra Ingólfs og svo um andlát Hjörleifs. Lofaði Vífill landið mjög og bað Steinúði og svo Herjúlf upp að koma og hafa land með Ingólfi. Þau höfðu þá bæði kristni tekið. Varð það að ráði. En þeir Vífill létu aftur í haf það sama sumar og komu að landi við Krýsavík. En Krýsar höfðu þá séð allt fyrir. Tóku þeir þá súlu Ingólfs og færðu á draugi og fluttu á landi vestur fyrir Reykjanes og allt þangað er heitir Reykjavík og reistu upp á hóli einum og gáfu nafnið Arnarhvoll, en það land átti Vífill.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Það mun hafa vafizt fyrir mörgum að trúa því að hlutur, sem settur er í haf suð-austur af Íslandi ræki vestur með ströndinni fyrir Reykjanestangann og upp á fjörur þar sem landkostir voru beztir. Hitt er mikið líklegra að öndvegissúlurnar hafi rekið einhversstaðar upp á suðurströndina og verið hreinlega fluttar á þann stað sem Reykjavíkurborg stendur nú á.
Krýsar helguðu Ingólfi svo mikið land, er hann lysti og settu hann yfir það allt og voru þá þar eftir í hvor annars vernd og forsjá og svo hans afkomendur. Krýsar einir höfðu alla ströndina frá Reykjanesi til Ölvésósa og öll fjöll þar yfir. Þar heitir Arnarnes, og víkin Arnarnesvík, er þeir Ingólfur geymdu skipa sinna. Vífill fór utan á skipum Ingólfs, er eigi fór heill af holund, er hann ungur hlaut í orrustu og deyddi hann ógamlan 49 ára eða árið 899.

Krýsar

Kringlumýri

Kringlumýri – hinir fornu Gestsstaðir?

Kolskeggur vitri þ. e. kölski samkv. þjóðtrúnni var 5. liður frá Vífli Kormákssyni, þeim er með Ingólfi var, en þó ekki í beinan karllegg, því Vífill átti engan son, en 4 dætur, sem upp komust.
Kolskeggi var veitt það bezta uppeldi og sú hæsta menntun, semhugsanleg var. Kolskeggur var í frændsemi við þá Njálssonu á Bergþórshvoli og í búð með þeim á Þingvelli þegar rætt var um vígsmálin, vorið á undan Njálsbrennu. Hann segist hafa verið 16 ára þá um haustið, er brennan var framin. Ætti þá Njálsbrenna að hafa gerzt haustið 1012.

Þingvellir

Örn yfir Lögbergi á Þingvöllum.

Segir Kolskeggur að það hafi verið í annað sinn er hann hafi komið á Lögberg á Alþingi, en var þá búinn að vera nokkra vetur í klausturskóla á eynni Iona á Suðureyjum.
Árið eftir Njálsbrennu fór Kolskeggur til Suðureyja aftur og þaðan til Skotlands og Englands. Eftir það fór hann til Frakklands og var í Svartaskóla næstu árin. Síðan hélt hann til Miklagarðs, Grikklands, Egyptalands og Jórsala. Um Danmörk, Garðaríki, Bjarmaland og Norðurveg fór hann á heimleiðinni. Er hann kom úr þessum miklu leiðöngrum af Austurvegi, lét hann þó ekki staðar numið, heldur brá sér til Vesturheims, til Grænlands og Vínlands og var þar á skipi, er hann stýrði sjálfur. Var hann tvö ár í þeim leiðangri. En að því loknu hóf hann margra ára ferðalag um Ísland, þvert og endilangt. Var hann þá að afla sér gagna og staðfæra ýmislegt viðkomandi frumlandnámu og fornsögu.

Strandardalur

Strandardalur. Talið er að séra Eiríkur á Vogsósum hafi komið Gullskinnu fyrir í Kálfsgili í enda dalsins.

Árið 1044 hafði hann fullgert frumlandnámu sína („Gullbringu“, „Gullskinnu“) og tekur þá til óspilltra málanna að skrá fornsagnirnar, fornkvæðin, konungasögur o. m. fl. jafnframt því sem hann stjórnaði stórum skóla og stórbúi í Gömlu-Krýsavík og hafði yfirumsjón með öllum ritstörfunum og samræmdi þau, bæði í Krýsavík og Vífilsstöðum. Allar voru sögurnar settar saman úr fjölda þátta og skiptu þeir hundruðum. Ætt og uppruni og lífshlaup hvers einastalandnámsmanns og afkomenda þeirra allt fram til 1030, var skráð í þáttum og svo vísur, sem ortar höfðu verið um atburðina. Allt var þetta skráð á papyrus og biblos, og því allt sem nokkurs konar uppköst, en tilætlunin að koma öllu á kodex (bókfell, skinn), þegar fullsamið væri og fullkarrað og til þess hafði Kolskeggur mikinn útbúnað síðustu misserin, en entist ekki aldur til að koma því í verk.

Húshólmi

Húshólmi (Gamla-Krýsuvík) – tilgáta.

Sigrún, móðir Kolskeggs, stóð fyrir búi með honum í Gömlu Krýsavík og sýndi hann móður sinni jafnan slíka kurteisi og virðingu, sem væri hún konungborin. Hún er sögð hafa bjargað öllum handritunumog komið þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en látið sjálf lífið í reyknum og svælunni og fundist dauð í þessum undirgangi, löngu síðar; því þeir, sem að sóttu létu sér ekki nægja minna, en brenna staðinn til kaldra kola, áður en frá var horfið. En þessari miklu dáð þessarar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en það, að hún var, að minningum verka sinna, kölluð: „Sigrún kelling“, eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði“.
Helztu samstarfsmenn Kolskeggs vitra, voru fyrst og fremst fyrirrennari hans, meistarinn Ioan „inn gamli“ Kjarualarson, höfundur Völuspár og Land-Erna-Sögu, þríleiksins mikla, sem var afmáður eftir að norræna höfðingja-, kirkju- og konungsvaldið náði tókum og yfirráðum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Ioan „inn gamli“ var sagður hafa legið dag og nótt við arineld, er vaktaður var, að aldrei kulnaði. Hann neytti engrar fæðu utan lítið eitt fuglaeggja og sýrðrar mjólkur, en drakk jurtaseyði. Engum manni veitti hann áheyrn eða viðtal nema Kolskeggi einum og var enginn viðstaddur samræður þeirra. Þjóna sína ávarpaði hann aldrei, en gaf allt til kynna með táknum og merkjum. Hann mun hafa verið orðinn mjög gamall, er hann orti Völuspá, og var þá enn í gömlu Krýsavík.
En þeir Krýsar og aðalrithöfundar, sem næstir gengu Kolskeggi voru þeir Grímur Hrafnsson og Rymskati Asklaugarson. Grímur Hrafnsson tók saman Egils-Sögu Skallagrímssonar og fleiri sögur og þætti og orti skáldkvæði. Hann var fæddur árið 999, af Mýramannaætt, laungetinn. Var ungur tekinn í fóstur af Krýsum og naut þar kennslu og menntunar. Það var Grímur þessi, er reit fræðimikil með tánum fóta sinna, að Bæ í Borgarfirði, eftir að hann hafði verið fluttur þangað og búið að tunguskera hann og handhöggva.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík eftir að hraunið rann 1151.

Rymskati Asklaugarson var sagður mesta hamhleypa til ritstarfa og efnilegasta skáld allra þeirra yngri krýsostómasa (gullmunna). Réðst ungur á kaupskip Krýsa og í siglingar með kaupmönnum þeirra. Fór uppkominn í skóla til þeirra Krýsa og reyndist afburðamaður aðnámsþroska og gáfum. Hann var örlagatrúarmaður meiri en Grímur Hrafnsson, draumamaður mikill og dulspakur, Rymskati setti saman Grettis-sögu, Gísla-sögu Súrssonar, Fóstbræðrasögu, Snorra-sögu goða (þ.e. Eyrbyggju), Kormáks-sögu, Vatnsdælu, Heiðarvíga-sögu, Hallfreðar-sögu o.fl. auk fjölda þátta og lausavísna, er hann orti fyrir munn persónanna, bæði í sínar sögur og hinna.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Rymskati ferðaðist mest allra um sögusvæðin, ræddi við aðstandendur söguhetjanna og aðra fróða og minnuga, er séð höfðu eða heyrt frásagt, staðhæfði efnið, safnaði vísum, er ortar höfðu verið um atburðina eða orti þær sjálfur eftir munnlegri umsögn. Rymskati var sá, er valdist til að flytja þeim „Bandamönnum“ Ófeigs-sögu bragðakarls (nú Bandamannasaga), en var þá þegar tunguskorinn. Hann var ekki fluttur að Bæ í Borgarfirði með þeim Grími Hrafnssyni og öðrum limlestingum, er af lifðu aðförina, haustið 1054. Hann var hafður í haldi einn sér annars staðar og geymdur vendilega. En árið 1056, undir eins á fyrsta stjórnarári Ísleifs biskups í Skálholti, var hann fluttur þangað og handhöggvinn. En biskup þorði samt sem áður ekki að eiga hann yfir höfði sér, og var hann þar skamma stund í gæzlu, en síðan líflátinn.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi við Gömlu Krýsuvík – fjárborg/virki.

Gamla Krýsavík var, all-löngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutningakvíslarinnar, orðin höfuðstöð Iona-þjóðflutningakvíslarinnar, er voru sægarpar og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dan-kvíslin (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „Papar“, þ. e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna. Jónarnir skoðuðu Krist sem guðmenni, er hægt væri að líkjast og urðu umræðilega vitrir og máttugir. Kristjónar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt, sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu ofsatrúarmenn og ofstækisfullir og liggur fátt eftir þá af viti.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia er nefndur var Krýsostómas-gullmunnur. Þeir voru því kallaðir Krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostómosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi. Gamla Krýsavík var, fyrir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvað mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu Jóna og Krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargazt án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og Krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væri viðhöfð mannblót eða annað ódæði.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Vestmannaþjóðflutningakvíslin (þ. e. Jónar, Krýsar) voru því löngu búnir að kanna allt landið, skipa niður landvættum og gefa því nafn (Þýli) áður en austmannaþjóðflutningakvíslin: (Danirnir, víkingarnir) tóku að hefja hér landnám. Og það voru fleiri en einsetumenn, er hér höfðu aðsetur. Flestir „Papanna“ voru fæddir hér á landi. Eins og hverjum skynbærum manni ætti að vera augljóst hafa ekki fornkvæði vor og fornsögur, konungasögur, ættartölur og frumlandnámssögur gert sig sjálfar, ort sig og skráð, heldur stendur þar afar harðsnúin, glöggskyggn, lærð, þrautþjálfuð og raunvísindalega skipulögð starfsemi bak við. Hvorki Ari prestur Þorgilsson fróði né Snorri Sturluson eiga þar frumkvæðið enda þótt Snorri endursemdi með vissu Heimskringlu og Egilssögu Skallagrímssonar.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Það voru íslenzkir krýsostómasar-gyllinmynnar, er hér á á landi höfðu starfsemi sína og aðalbækistöð, löngu á undan landnámi norrænna víkinga og allt fram yfir miðja elleftu öld, er starfsemi þeirra stóð með mestum blóma, að þeir voru líflátnir og eignir þeirra lagðar undir eigna- og kirkjuvaldið. Fyrsti biskupsstóll landsins, Skálholtsstóll, var þá stofnaður og lagður undir hann mikill hluti af hinu svokallaða „Landnámi Ingólfs“ auk margra stóreigna annarra, er allt var eign Krýsa. Meðal annars áttu þeir 9 hafskip (kaupskip) í förum, er þeir voru líflátnir, og sigldu skip þeirra til Grænlands, Vínlands (er þá var kölluð Albania), suður til Miðjarðarhafslanda og allt til Egyptalands og inn í Nílarósa. Út fluttu þeir íslenzka og grænlenzka grávöru og margt annað, þar á meðal hinar afar dýrmætu og eftirsóttu rostungaog náhvalatennur. Krýsar fluttu inn á skipum sínum margs konar varning og meðal annars fluttu þeir hingað inn bæði arabiska hesta og úlfalda. Gengu stórar úlfaldalestir undir klyfjum að og frá aðalbækistöð þeirra, Gömlu-Krýsavík. Þeir lánuðu og úlfalda langleiðir til skreiðarflutninga. Krýsar höfðu eingöngu tvíkryppuúlfalda og voru þeir kallaðir „drógir“ og „draugar“, íslenzkun af heitinu „drómetar“. Draugalestirnar hafa verið ærið ferlegar undir skreiðarflutningi, enda eimdi eftir af því í þjóðtrúnni í margar aldir jafnvel fram í okkar tíma hafa Draugalestir sést á Krýsavíkurvegi.

Endalok Krýsa

Hallmundarhraun

Hallmundarhraun.

Krýsar voru nokkurskonar kristnir heiðingjar, örlagatrúar, frelisunnandi stjórnleysingjar, óháðir ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir hér á landi, undir stjórn Kolskeggs, og andlegir yfirburðir þeirra svo stórkostlegir, að víkingahöfðingja- og kirkjuvaldið nötraði og riðaði.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns
konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri.
Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin
er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V Danakonungs. Í handritaskrá Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (AM 477 fol.) eru nefnd fleiri kort með þessu sem ekki finnast lengur í safni Árna Magnússonar.

Þeir voru að verða ríki í ríkinu og átökin jukust með kristinni og sameinuðu kirkjuvaldi, svo að hlaut að skríða til skarar. Þeir voru engum háðir nema sjálfum sér og því enn hættulegri höfðingjavaldinu og áttu auk þess mikinn kaupskipastól og bezta hérað landsins með ágætustu veiðistöðvunum. Það var löngu farið að slást í kekki milli kristnivaldsins og Krýsa, þegar höfðingjar loks sendu Kolskeggi úrslitakosti vorið 1054. En Kolskeggur svaraði með „Ófeigs sögu bragðakarls“ (Bandamannasögu), er hann reit með latínuletri og sendi einn lærisvein sinn með hana til að „staðfæra“ hana og færa hana hlutaðeigendum. En þeir svöruðu Kolskeggi með því að skera úr sendimanni tunguna og höggva af honum hægri höndina, en gerðu sendimenn á fund Kolskeggs og kváðu honum sæmra að rita níð sitt og rógburð á því letri er þeir læsu sjálfir og skildu. Kolskeggur reit þá söguna í annað sinn, og „þá á málrúnum, og gerði það á tveim dægrum, en sendimenn biðu á meðan.

Skuggi

Kolskeggur verst landvinngamönnum við Straum.

Eftir það skáru Bandamenn herör, söfnuðu liði um flest héruð landsins og fóru að Kolskeggi og þeim Krýsum, haustið 1054, með tvö þúsund vopnaðra manna. Ioan Kjarvalarson „inn gamli“ var brenndur inni á Vífilsstöðum og margt manna með honum. Kolskeggur hafði víggirt Krýsavík og hafði þar harðsnúið lið, sem þó var ofurefli borið. En Kolskeggur slapp þó undan þar, á Brimfaxa, miklum hesti, hvítum af arabisku kyni og náðist ekki fyrr en í Straumrandahrauni, sunnan Hafnarfjarðar eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur.

Mosi

Mosahraun.

Þar festist hestur hans í hrauni og brotnaði fóturinn, „inn vinstri afturfótur“, og sat hann þar fastur, en var þó svo sár af spjótalögum, að iðrin lágu úti.
Kolskeggur hraut af hesti sínum og kom niður standandi. Hesturinn var móður og blés mjög og þeyttist blóðgufa og froða úr vitum hans. Kolskeggur hafði aldrei annað vopna en rýting einn lítinn, gullrekinn, við belti sér, dró hann úr slíðrum, og varð það jafnsnemma að þeir þustu að, er eftir sóttu, og kom þá spjót eitt fljúgandi og stefndi á Kolskegg. Kolskeggur tók spjótið á lofti og lagði hest sinn í brjóstið, er mjög reisti höfuð til lofts, barðist um og prjónaði. En Kolskeggur mælti: „Sækja sóknhvattar sveitir háleitan“. Féll þá hesturinn dauður og Kolskeggur jafnsnemma, því að þá stóðu á honum mörg vopn. Hjuggu þeir þar höfuð af Kolskeggi og alla útlimi og stungu augun úr höfðinu og skáru úr tunguna; settu síðan höfuðið á stengur og svo útlimi. Lágu bein Kolskeggs og hestsins þar við reiðgöturnar næstu árin.

Kapella

Kapellan ofan Straums.

En er ferðamönnum öllum og vegfarendum stóð ógn og fordæming af þessum slóðum var svo fyrirskipað af hinum fyrsta biskupi í Skálholti, Ísleifi Gizurarsyni, að kapella skyldi reist á þessum stað yfir beinum Kolskeggs og þeirra félaga. Sést enn móta fyrir allri lögun kapellunnar, þó nýtt hraun hafi á hana runnið yfir hið gamla bungumyndaða helluhraun, sem undir var.
Krýsar voru ekki allir drepnir er aðförin var gerð að þeim hauslið 1054. Sumum var gefið líf að nafninu til, en voru ýmist blindaðir, tunguskornir eða handhöggnir, og síðan fluttir að Bæ í Borgarfirði, en þar áttu Krýsar mikið land og gengu nokkur kaupskip þeirra jafnan í Hvítá. Var svo látið heita að með þessu tiltæki hefði „munkaregla“ stofnuð verið að Bæ í Borgarfirði. Þrír Krýsar komust þó undan ómeiddir og lögðust í óbyggðir, lágu í Hallmundarhrauni og Arnarvatnsheiði næstu missiri, en komust þá í skip með írskum kaupmönnum og af landi brott.

Um lærisveina Kolskeggs

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Kolskeggur vitri hafði ritara sína og lærisveina í tveim flokkum. Var annar flokkurinn (helmingur liðsins) á Vífilsstöðum undir forustu Ioans Kiarualarsonar „inns gamla“, en hinn í Krýsavík undir forustu Kolskeggs sjálfs. En yfirumsjón með báðum stöðunum hafði Kolskeggur. Alls voru hinir lærðu Krýsar og nemar þeirra 26 talsins, 13 í hverjum stað. Kolskeggur og allir lærðir Krýsar fóru ávallt hvítklæddir. Sagður er Kolskeggur hafa átt 12 hvíta hesta, mikla fáka, blendinga af arabisku og norrænu kyn og báru allir Faxanöfn. Hafði Kolskeggur sex þeirra á Vífilsstöðum en sex í Krýsavík og skipti jafnan um, er hann reið í milli. Hundar tveir, hvítir og stórir, eltu hann og runnu með honum hvert er hann fór.

Dýralíf á dögum Kolskeggs

Sæskrímsli

Sæskrímsli utan við Reykjanes.

All fróðleg er frásögn Kolskeggs um dýralíf hér á landi, fyrir og eftir landnám norrænna manna. Hann segir, að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði og enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafa ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjist ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í kvofti og beittu þeim sem vopni.“
Kolskeggur gaf fyrstur Íslendingum stafróf, (latneska stafrófið). Kolskeggur orti Hávamál og reit sjálfur hina miklu bók: Brenna“, (Þrísögn. Gunnars, Höskuldar og Njálssaga).
Auk þess er Kolskeggur sagður hafa ritað með eigin hendi: Laxdælu, Gunnlaugssögu, Hrafnkelssögu og Ófeigssögu (Bandamannasögu), er var síðust ritverka hans og kostaði hann lífið.

Handrit

Handrit.

Eins og gefur að skilja hefur lítið sem ekkert varðveizt óbreytt af ritum Krýsa. Fornsögurnar, Íslendingasögurnar og fornkvæðin voru flestar endurritaðar og endursamdar um daga Snorra Sturlusonar, fyrir og eftir lok þjóðveldisins. En margt var þá þegar glatað eða affært og margt hefur misfarizt síðan.
Frásagnir af Krýsum hafa varðveitzt í gegn um aldirnar á mörgum tugum stafrófa af „galdrarúnum“. Jochum Eggertssyni hefur tekizt að finna lykla að og ráða nær 30 tegundir af dulrúnum af nær 100 stafrófum er hann hefur í sínum fórum auk allmargra „kerfa“ af málrúnum, „viðkenndum“ og „óviðkenndum“. Mun Jochum vera fróðastur allra núlifandi Íslendinga í þýðingu galdrarúna svonefndra. Það mun sennilega vera algjörlega ókannað mál, hvað Papar á Írlandi og Suðureyjum hafa ritað um Ísland og Íslendinga til forna og vissulega verðugt rannsóknarefni, og vissulega stendur íslenzka þjóðin í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem leggja fram annan eins skerf og Jochum Eggertsson hefur gert á þýðingu fornra rúna.“ – Þór Baldurs.

Í Degi-Tímanum 1996 er fjallað um „Frumbyggja Íslands, Krýsana„.

Handrit

Handrit.

„Gullbringa“ var rituð 100 árum á undan Landnámu, að sögn Jochums Eggertssonar. Í henni er mikill fróðleikur um hverjir námu Ísland og um menningarafrek Krýsa, sem voru búnir að búa á Íslandi í hundruð ára áður en Norðmenn komu til landsins. Um þá miklu sögu er hægt að fræðast í galdraskræðum og leynibókum. „Bók sjómanna“ dró Jochum úr jörðu fimmtudaginn 6. október 1938 og voru þá 27 blöð heil. Engum vildi Jochum sýna þessi gögn né þau galdrakver, sem hann þóttist rýna í og lesa úr allt aðra Íslendingasögu en almennt er talin vera í gildi.
Um Ara fróða fer hann háðulegum orðum og segir hann aðeins hafa verið vesælt peð biskupa og alinn upp sem fugl í búri af þeim. Hann segir um hin frægu orð Landnámu, að hafa skuli það heldur sem sannara reynist, að þau séu einhver siðspilltustu orð og sannleikanum fjandsamlegustu sem nokkru
sinni hafi skráð verið.

Launhelgar Egyptalands

Hellugata

Helllugata (Fornagata) við Krýsuvík.

Eðlilega þurfti Jochum að gera Ara fróða Þorgilsson og skrif hans ómerk til að koma að sinni „Frumlandnámu“.
Í stuttu máli er kenningin sú, að Krýsar hafi numið hér land mörgum mannsöldrum á undan Norðmönnum og er Krýsuvík við þá kennd. Þeir bjuggu á gósenlandinu Krýsuvík, sem var drjúgur hluti Reykjanesskagans. Allt var þar skógi vaxið, gnægð flskjar í sjó og dýralíf fjölskrúðugt. Þeir þurftu ekki á meira landi að halda.
Krýsar voru upprunnir úr launhelgum Egyptalands, gáfaðir og mennilegir með afbrigðum. Höfundur Krýsakenningar gefur þeim heitið gullmunnar. Þeir dreifðust víða og voru afbragð annarra hvar sem þeir fóru. Meðal gullmunna má nefna Lao Tse og Jesú frá Nasaret, og má sjá að mannval var gott meðal þeirra.
Kolskeggur vitri, eða Kölski, var einnig Krýsi og var hann höfuðpaur íslensku nýlendunnar þegar aðkomnir landnemar gengu milli bols og höfuðs Krýsanna árið 1054. Síðar reyndu þeir að leyna ódæðisverkum sínum með sögufölsunum.

Stærðfræði og landnám

Völuspá

Úr Völuspá; Urður, Verðandi og Skuld.

Öll helstu bókmenntaafrek fornaldarinnar eignar Skuggi Krýsum. Völuspá, Hávamál, Njála og Egils saga eru samdar af nafnkenndum Krýsum, svo að eitt- og guð er í mannssálinni. Ef hvað sé nefnt. pelikani ætti sér guð, væri hann Gullmunnakerfið er fremur pelíkani, segir Jochum, og hina vísindastarfsemi en trúarbrögð djúpvitru Krýsa skapar hann auðvitað í eigin mynd, enda flestir afburðamenn af þeim komnir.
Ábendingar pýramídafræðinnar til Íslands eru vel kunnar og á okkar dögum eru uppi miklar kenningar um stærðfræðilega útreikninga á landnámi og byggð. Kenningar Jochums Eggertssonar um örlagabendingar frá Keopspýramídanum ti Íslands eru því alls ekki einstakar. En satt best að segja virðast þær byggjast eingöngu á hugmyndaflugi fremur en stærðfræðiþekkingu.

Flóttinn til Sóleyjar

Hávamál

Úr Hávamálum.

Leið gullmunna til Íslands kortleggur Skuggi á þessa leið í bók sinni „Brísingamen Freyju“: Á 5.-6. öld eftir Krist var aðal gullmunnastarfsemin með aðsetri á eynni Iona í gríska Eyjahafinu, en fluttist svo vegna uppreisna, óeirða og ágengni sjóræningja vestur á bóginn og var sett niður á Suðureyjaklasanum (nú Hebrideseyjar), sem þá töldust til Írlands (er nú kallað Skotland).
Allt var þetta gert samkvæmt örlagabendingum Keopsmerkisins í Egyptalandi, því gullmunnarnir þekktu alla leyndardóma, stærðfræðiútreikninga og örlagabendingar Khúfusar, sem fólgnar eru í pýramídanum mikla. En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar voru yfirleitt nefndir Danir, tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu, er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þessa óbyggða eylands, er nú heitir fsland — en hét þá Þúla eða Þýli, sem merkir Sóley, síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi — og sett niður eftir bendingum Keopsmerkisins, sem enn heitir Krýsavík undir Gullbringum, er Gullbringusúsann (sýslan) ber enn í dag. Víkin við sjóinn,

Gullbringa

Gullbringa í Krýsuvík.

Gamla Krýsavík, er síðan kennd við Chrýsiana, eða gullmunnanna, og ber enn þeirra nafn, þótt nafn höfuðbólsins, Víkurinnar, flyttist síðar, eða nálægt 1340, sakir eldsumbrota, hraunrennslis og eyðileggingar alla leið upp í dalinn milli Gullbringnanna, en það er enn í dag eina óbrunna svæðið á öllu Reykjanesinu.

Vellauðugir og vitrir

Húshólmi

Húshólmi (Gamla-Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir eyðilegginguna var Krýsavík blómlegasta svæði landsins og víða vaxið stórskógi. Í Krýsavík var eftir þetta höfuðbækistöð Krýsanna og síðasta skipulagða starfsemi þeirra í veröldinni, starfandi vitandi vits og í vaxandi gengi allt til haustsins 1054, er gerð var fullnaðaraðför að þeim og þeir ýmist fangaðir eða drepnir. Það var Kolskeggur vitri (Kölski) er þá var aðalforystumaður Krýsa. Undir hans stjórn tók starfsemin öll þeirri stökkþróun, er einsdæmi er, hvar sem leitað er í veraldarsögunni.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Auðugir voru Krýsar sem vænta má: Krýsar áttu mestallt þetta svokallaða „landnám Ingólfs“, er þeir voru drepnir, og miklar eignir aðrar í löndum og lausum aurum, því þeir voru vellauðugir. Meðal annars voru níu hafskip af þeim tekin, en kaupskip þeirra sigldu mest til Suðurlanda og voru aðalviðskipti þeirra við Marseille í Frakklandi, en fóru þó stundum allt til Egyptalands og inn í Niflarósa. Aðalviðskiptastæði þeirra hér og skipalægi voru í Ölvésá við Arnarbæli og Hvítá í Borgarfirði.
Fyrsti biskupsstóllinn á Íslandi, Skálholtsstóll, var stofnaður af reytum þeirra skömmu eftir aðförina, eða nánar sagt árið 1056.

Leiðbeindu Norðmönnum

Hellugata

Forn gata við Krýsuvík.

Nokkrar frásagnir eru á víð og dreif í skrifum Skugga um hvernig Krýsar tóku norsku landnámsmönnunum og leiðbeindu þeim og aðstoðuðu við að taka sér bólfestu. Skýring er á þeim viðtökum: „Ungúlf Arnarson, fyrsta norræna landnámsmanninn, eða fyrsta „Danann“, settu þeir til höfðingja yfir „allan og einasta“ byggða hluta landsins, og gerðu allan veg hans sem virðulegastan „til þess eins að þar yrði ekki síðar á leitað með ránum og hernaði“.
En kirkjan og annað erlent áhrifavald hafði horn í síðu Krýsa, sem voru sannkristnari er páfinn í Róm og konungur ránkristninnar, Ólafur digri, að áliti Skugga. Eigi að síður börðust þeir á móti kristninni á sína andlegu vísu og gerðu Ásadýrkun allt til vegs og sóma. Rétt er að reyna ekki að velta of mikið fyrir sér hvernig þetta kemur heim og saman, en í hugarheimi Skugga er kirkja og kristni ekki endilega hið sama og létt fer hann með að gera Jesúm Krist að Krýsa, hvað sem kenningum guðfræðinnar líður.

Kristnir heiðingjar

Sandakravegur

Sandakravegur millum Gömlu-Krýsuvíkur og Vífilsstaða.

Skuggi segir Krýsa hafa verið nokkurs konar kristna heiðingja, örlagatrúar, frelsisunnandi stjórnleysingja, óháða ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir undir stjórn Kolskeggs, eða Kölska, og yfirburðir þeirra svo miklir að víkingahöfðingja- og kirkjuveldið nötraði og riðaði.
Þar kom að ráðist var að Krýsum, en þeir voru þá orðnir ríki í ríkinu. Höfðingjaveldið safnaði saman tvö þúsund manna liði og fór að Krýsum. Ion Kjarvalsson, sem orðinn var 200 ára gamall, var brenndur inni á Vífilsstöðum og Kolskeggur var ofurliði borinn í Krýsavík, þar sem hann varðist með vösku liði. Hann slapp þó undan á Brimfaxa sínum, arabískum gæðingi, og náðist síðan fyrir sunnan Hafnarfjörð, eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur. Þar fótbrotnaði hesturinn í hrauni og þar var Kolskeggur veginn eftir vasklega framgöngu. Lík hans var smánað og steglt á stengur. Þar lét Ísleifur biskup Gissurarson síðar reisa kapellu og er hraunið síðan við hana kennt og heitir Kapelluhraun.

Kappella

Kapellan ofan Straums.

Ekki var guðshúsið reist Kölska til heiðurs, heldur vegna þess að þarna var felldur heiðingi, galdraskratti og holdi klæddur djöfull. Áttu vegfarendur að biðjast þarna fyrir.
Ekki voru allir Krýsar drepnir, en þeir sem lifðu voru ofsóttir og illa með þá farið. Samt kváðu hinir bestu menn á Íslandi vera af þeim komnir.
Eftir fall Krýsa varð alger kyrrstaða í hinu forna menningarstarfi, segir Skuggi, og lágu öll ritstörf niðri þar til loks að Ari fróði var orðinn svo ritfær, sextugur að aldri, að biskupar gerðu tilraun með að láta hann gera bók, og þykir höfundi Brísingamens Freyju og fleiri ævintýralegra athugana lítið til koma.

Furðudýr á fjöllum og í sjó

Skrímsli

Skrímsli.

Það land sem Krýsar byggðu var land ævintýra og hefur Skuggi eftirfarandi lýsingu frá Kolskeggi: Hann segir að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði, og að enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafi ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjast ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í hvofti og beitu þeim sem vopni.“

Thule

Thule.

Þá segir að Krýsar hafi ferðast með ströndum fram og jafnvel yfir höfin í skinnbátum, sem kallaðir voru „briamar“. Það er sama og Brjánn, Brjánslækur og ættarnafnið Briem er þaðan dregið. Brian (bátur) er algengt mannsnafn á Írlandi.
Skinnbátana gerðu Krýsar af húðum sædýrs af spendýrakyni, er þeir nefndu þangkú, hafmær eða sírenu, en Austmenn nefndu skrumsl (skrýmsli). Segir Kolskeggur mikið af þessum dýrum hafa verið við landið, en þau séu horfin á hans dögum og harmar það mjög.
Dýrið var búið öllum þeim kostum sem voru mönnum gagnlegri til flestra hluta en nokkurt annað dýr sem í sjónum býr.

Thule

Thule?

Dýrið var svo gæft að það kunni ekki að hræðast og hafðist við á grunnsævi við sker og flúðir og lifði eingöngu af þangi og fjörugróðri. Dýr þetta hafði tvenn húðlög og var hvítt fitulag, betri en öll önnur feiti, milli húðlaganna. Ytri húðin var miklu þykkari og ekki ósvipuð trjáberki, en seig og óslítandi.

Var þessi ytri húð tekin af dýrinu í heilu lagi og réð stærð dýrsins bátsstærðinni. Var baklína dýrsins höfð fyrir kjöllínu bátsins, en sporðurinn, er látinn var fylgja, gerði stýrið.
Skuggi lýsti ágæti þessa farartækis í löngu máli, sem hafði yfirburði fram yfir aðra þekkta báta eða skip.
Fleiri dýr koma við sögu, því Krýsar fluttu með sér arabíska hesta til landsins og úlfalda notuðu þeir til að flytja varning á landi.

Kellingar varðveita bókmenntir

Galdrahver

Galdrahver – galdrastafir.

Faðir Kolskeggs hins vitra var Úrban Colombos, sem var ráðsmaður flota Krýsa og sat hann á Vífilsstöðum. Móðirin hét Sigrún og var 14 ára gömul ambátt, þegar hún ól sveininn, en faðirinn var þá orðinn aldraður. Sigrún var afbragð annarra kvenna að mannkostum og atgjörvi og var aldrei við karlmann kennd eftír að hún ól Kölska. Varð hún mikil virðingarmanneskja og stóð fyrir búi í Gömlu Krýsavík. Þegar aðförin var gerð að Krýsum, var hún sögð hafa bjargað öllum handritunum og þar með norrænni menningararfleifð. Hún kom þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en lét sjálf lífið í reyk og svælu er bærinn var brenndur af innrásarmönnum. Fannst hún dauð löngu síðar í undirganginum. En þessari miklu dáð hinnar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en svo, að hún var í minningum verka sinna kölluð: „Sigrún kelling“ eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði“, skrifar Skuggi af mikilli foragt.

Galdrastafur

Galdrastafur.

Hér má minna á að annar höfundur lætur kellingu varðveita bókmenntalegan dýrgrip í frægu skáldverki. Það er þegar móðir Jóns Hreggviðssonar dregur blöð úr sjálfri Skáldu upp úr bosi sínu á Rein. Hvar Skálda er núna niðurkomin veit enginn og ekki annað um það sem í henni stóð, en ævintýralegar sögur, sem voru fremur draumsýnir en sagnfræði, eða jafnvel skáldskapur. Enginn spyr um sannfræði þeirrar sögu, en á sínum tíma var heimtað að Skuggi legði fram gömul skinnhandrit og rúnir til að sanna sinn skáldskap, annars væri hann ómerkur.
En Jochum Eggertssyni var sama. Hann þurfti ekki að sanna sitt mál fyrir öðrum en sjálfum sér. Töflur þær og skinnpjötlur, sem hann segist hafa fróðleik sinn úr, eru hvergi finnanlegar og ekki til nema í hans eigin hugarheimi. Þær eru draumar sveitapiltsins að vestan um fagurt mannlíf í landi þar sem lífsbaráttan var ljúf og andlega lífið nærri fullkomnun.“ -OÓ tók saman.

Krýsa og Herdís

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

„Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvfkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Herd´siarvík

Herdísarvík – tóftir elsta bæjarins undir Búrkletti..

Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og. Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“

Heimildir:
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4.
-Vikan, 36. tbl. 05.09.1963, Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur, Þór Baldurs tók saman, bls. 6-9 og 36-37.
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4-5.
-http://hreinberg.is/?p=1277

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Grindavík

Í Bæjarbót – óháðu fréttablaði í Grindavík, var m.a. fjallað um umhverfismál árið 1991.

Grindavík

Grindavík.

Umhverfismál í brennidepli – Mjög mikill áhugi á skógræktinni – nokkur þúsund plöntur gróðursettar í Selskógi í fyrra!
Fróðlegt er að lesa eftirfarandi í ljósi þess að orðum virðast ekki hafa fylgt gerðum – líkt og svo oft þegar dægurstjórnmálaflokkar eru annars vegar.

„Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru Náttúruverndarnefnd og Fegrunanefnd sameinaðar í eina, Umhverfisnefnd. Mun sú nefnd reyna eins og tök eru á að halda þeim störfum áfram sem forverar hennar hófu. Áfram verður fylgst með umgengni innan bæjar og utan og reynt að hindra náttúruspjöll. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi fyrirtækja.
Nefndin tekur öllum ábendingum með þökkum.

Hafnarsvæðið
Grindavík
Höfnin og hafnarsvæðið hefur um langan aldur verið miðpunktur og hjarta Grindavíkur og verður trúlega lengi enn. Fátt er því mikilvægara en að þar ríki fyllsta hreinlæti og snyrtimennska, tákn þess að þar séu meðhöndluð matvæli. Ferðamenn, innlendir og eriendir, eru næstum daglegir gestir við höfnina og í þeirra hópi áreiðanlega bæði fiskkaupendur og neytendur. Því miður má allvíða á hafnarbakkanum sjá rusl og drasl, sem ekki á þar heima. Opnir sorpgámar eru síst til prýði og feykir vindurinn innihaldi þeirra iðulega um nágrennið. Setja þarf upp lokaða gáma fyrir smærra sorp og léttara og sjá til þess að allir gámar séu losaðir nægilega oft.
Ekki er heldur til fyrirmyndar að skólp skuli renna í höfnina, en lausn á þeim vanda er tæpast í augsýn, enda er dýrt að leggja allar lagnir út fyrir varnargarðinn.

„Fjaran mín“

Grindavík

Fjaran við Grindavík.

Nú á vordögum verður verkefnið „Fjaran mín“ endurvakið og er fólk eindregið hvatt til að veita því brautargengi með því að velja sér fjörurein til að fylgjast með.
Upplýsingar og eyðublöð er hægt að fá á bókasafninu. Kerfisbundnar upplýsingar um ástand fjörunnar, lífríki og mengun eru mikilvægar til ákvörðunar um leiðir til úrbóta og verndunar. Einnig eru sjómenn hvattir til að koma með allt sorp að landi í stað þess að láta það fara í sjóinn. Á mörgum bátum er þetta í góðu lagi, en víða má betur gera. Sjórinn er nú einu sinni matarkistan okkar og í hana hendum við ekki sorpi.

Skógrækt

Selskógur

Í Selskógi.

Á liðnu ári voru gróðursettar nokkur þúsund trjáplöntur í Selskógi og suðurhlíðum Þorbjarnar. Voru þar að verki bæði félagasamtök og einstaklingar. Var greinilega mikill áhugi meðal þátttakenda að þessu starfi verði haldið áfram og eru nú allar horfur á að svo geti orðið. Er því full ástæða til að Skógræktarfélag Grindavíkur, sem verið hefur heldur atkvæðalítið sem slíkt, taki nú á sig rögg og nýti þennan áhuga almennings til frekara átaks. Margt hefur breyst síðan félagið var stofnað í litlu sjávarþorpi og því þarf að aðlaga félagið öðrum aðstæðum. Í dag er einnig vitað mun meira um skógrækt en þá, um plöntuval og aðferðir og því meiri líkur á góðum árangri. Næg eru verkefnin.

Sögulegar minjar

Strýthólahraun

Sögulegar minjar við Grindavík.

Mjög víða í landi Grindavíkur, svo og víðar á Suðurnesjum, eru sögulegar minjar sem vitna um atvinnuhætti liðinna tíma. Má þar nefna seljarústir víðs vegar inn til landsins og minjar um útræði og fiskverkun við sjóinn. Saga þessara staða er að falla í gleymsku og því síðustu forvöð að skrá þá vitneskju sem enn er að finna, ljósmynda staðina og merkja inn á kort. Þá þyrfti að friðlýsa merkustu minjarnar í samráði við þjóðminjavörð. Á síðasta aðalfundi SSS mun hafa verið gerð samþykkt í þessa veru, en fylgja þarf málinu eftir hér heima.

Hreinsunarátak

Grindavík

Grindavík.

Fyrirhuguð er hreinsunarátak helgina 25.-26. maí næstkomandi. Ætlunin er að þetta átak verði á öllum Suðumesjunum þessa helgi. Er fólk hvatt til að hreinsa til á lóðum sínum og annars staðar þar sem rusl er. Allt rusl verður svo fjarlægt af bæjarstarfsmönnum.
Fólk getur fengið plastpoka hjá bænum undir ruslið.
Verum samtaka í þessu hreinsunarátaki og gerum bæinn okkar fallegri og snyrtilegri.“ – Umhverfisnefnd Grindavíkur; Guðrún Sigurðardóttir, Haukur Guðjónsson, Ólafur Guðbjartsson.

Heimild:
-Bæjarbót – óháð fréttablað í Grindavík, Umhverfismál í brennidepli, 5 tbl. 01.05.1991. bls. 2.
Bæjarbót

Kleifarvatn

Orðið „Kaldrani“ virðist hafa verið til í ýmsum myndum; sem nafnorð, þ.e. bæjarnafn, tröllsnafn og nafn á fjalli eða vík, eða sem lýsingarorð á veðurfyrirbæri eða karllægri hegðan. Hér á eftir er nokkurra þeirra getið í ljósi örnefnisins við Kleifarvatn í Krýsuvík.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Eina orðmyndina má finna í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 þar sem Brynjúlfur Jónsson lýsir rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902: „Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt hún hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti. Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“
Vissulega má sjá garðleifar á nefndum stað, en þar hefur væntanlega aldrei verið bær undir hraunkatli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatnið hefur um aldana rás hlaupið fram og aftur um umhverfi sitt. Í manna minnum myndaðist t.d. svonefnt Nýjaland sunnan þess. Það er nú grasi gróin mýrardrög og nýtt af hestamannafélaginu Sörla á sumrum. Áður voru þarna Vesturengjar Krýsuvíkurbæjanna. Ef Kaldrani hefur verið bær í Krýsuvík fyrrum hefur hann verið í Hvömmum. „Kaldranaminjarnar“ munu líklega hafa verið útstöð frá honum. Í Hvömmum eru nú „Hnakkageymslur“ hestafólks. Það hefur fært verulega út kvíarnar og komið sér upp sumarafdrepum í óþökk sveitarfélagsins.

Hvammur

Hnakkageymslur í Hvammi sunnan Kleifarvatns. Húsið með gæna þakinu er ofan á tóftum.

Eitt afdrepið hefur, illu heilli, verið fyrirkomið ofan á merkilegum minjum í hvamminum. Þar gæti mögulega hafa verið bærinn Kaldrani fyrrum, og síðar selstaða frá Stóra-Nýjabæ (Austurbæ). Sellækur liðast um hvamminn, auk þess að þarna hefur fyrrum verið ákjósanlegt bæjarstæði með Hvammahlíðarnar og Austurengjarnar sem ákjósanleg slægjulönd. Nyrst á Austurengjum eru fornar minjar um gerði og önnur mannvirki.

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943 skrifar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“. Þar getur hann um „bæinn“ Kaldrana:
„Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – veggur.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á.
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt.“
Hér etur Ólafur upp, gagnrýnislaust, upp þjóðsöguna af Kaldrana og bendir á enn „geti menn bent á“ bæinn á þeim stað. Þarna virðist hanna fara villu vega, líkt og svo margir aðrir, sem eftir upp átu.

Í Degi 1996 má lesa upprifjun úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar um Krýsu og Herdís: „Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvíkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir híðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvfkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum.
Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Dysjar eru vissulega neðst í Kerlingardal við gömlu þjóðleiðina millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, sem og lítil dys smalans í hlíðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að í hvert sinn sem fornleifafræðingar grafa í svonefndar sögulegar dysjar og grafir gerist fátt annað en ekkert. Líklega mun sú raunin verða ef framangreindar dysjar yrðu afhjúpaðar – því miður.

Kaldrani

Kaldrani – veggur.

Í Griplu 2013 er grein er nefnist; „Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat“ og er þar vísa til sögulegs samhengis jöðrunar ú Hrafnistumannasögum. Þar segir m.a.: „Í Ketils sögu hængs er getið um Kaldrana. Í þessari sögu er ómögulegt að vita, en þó er Kaldrani alltaf kallaður jötunn en vinir hans tröll.“

Í Ægi 1916 er frásaga „Ferðar um Norðurland“: „Austasta víkin í Hafnalandi [á Skaga norðan] er Kaldranavík. Stendur bærinn Hafnir fyrir botni víkurinnar og þó nokkurn kipp frá sjó. Austan megin vikurinnar er bær sá er Kaldrani nefnist og á hann land austan megin víkurinnar og alt að miðjum botni hennar.“

Í Islandske Maaneds-Tidende 1773, Nyheder, segir af bæjartali Reykhóla kirkjusóknar. Þar kemur bæjarnafnið Kaldrani fyrir, nr. 15.
Beretning om ode-Gaarder.
Med mindre man havde tydelige Beviisligheder at grunde fine Tanker paa ikulde man fortære at Landet havde faa meget aftaget i nogle ioo Aar, fom det virkelig har: Til Exempel er dette at udi Stade og Reykhole Kirke-Sogn findes 25 ode-Gaarder nu omftunder fom alle forher have været beboede.

Í Breiðfirðingi 1992 er mynd af fjallahring, m.a. af Kaldrana.

KaldraniÍ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1049 er fjallar Hans Kuhn um „Vestfirsk örnefni“.
„Svo sem nöfnin Hreggnasi—Hreggnes og Arnarstapi fann eg og flest önnur nöfn af þessari gerð, sem dreifð eru um stóra hluta lands eða allt landið, Arnarbæli, Brimnes, Kaldbakur og Svalbaroð“—Svalbarði, í nyrzta hrepp Strandasýslu (Árnessveit), en hvergi í öllum hinum hreppum hennar. Helzta undantekningin, sem eg þekki, er Kaldrani. Svo heitir holtahryggur í Arnkötludal í Steingrímsfirði. Stærsti bærinn í Bjarnarfirði heitir Kaldrananes, en hann hét í upphafi Kallaðarnes og seinna Kaldaðarnes.“

Í Iðunni; nýr flokkur, 1918, er birt ljóðið „Konan í Hvannadalabjörgum – íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon“;
Nú vaknar bergið —
það bifast og stynur,
það beljar og dynur
sem hefji tröllin
bamrafargið
og hristi fjöllin. —
Himinkljúfandi
hark og sköll,
gegnumsmjúgandi
gnístran og köll.
»Vaknaðu Víðgrani!
Vaknaðu Kaldrani!
Alsvartur, Öskruður,
Ámur, Rangbeinn!
Rís upp, Þrúðgelmir,
Þrívaldur, Hraunbarði,
Bölþorni, Brokkur,
Blakkur, Dumbur.
Skyndið ykkur, Skellinefja,
Skjaldvör, Gláma, Brana, Fála,
Henginkjaíta, Hrottintanna,
Hágríður, Blágríður!
Gerið sköll og skelli,
skark og hark í felli,
hjá oss er í helli
Hálfdán á Felli,
Hálfdán á Felli«.

Í Póstmannablaðinu 1944 er grein; „Póstmannafélag Íslands 25 ára“:
„Ný skipan – Frá ársbyrjun 1920 varð sú breyting á stjórn póstmálanna, að aðalpóstmeistaraembættið var stofnað og tók Sigurður Briem við því, en Þorleifur Jónsson varð póstmeistari í Reykjavík. Póstmálaskrifstofan varð nú til, með sérstöku starfsliði og sérstökum yfirmanni — póstritara —, er gengi næst aðalpóstmeistara að völdum. Um þetta nýja embætti kepptu tveir gamlir og gegnir póstmenn og varð annar hlutskarpari, eins og venjulegt er. Upp úr þessu myndaðist á Póststofunni einhvers konar kaldrani til skrifstofunnar og var fátt fært til betri vegar, ef önnur leið var tiltæk. Hefur þetta haldist æ síðan, á mismunandi stigum, en mætti nú vera úr sögunni og saknaði þess sennilega enginn.“

Í Skírni 1929 eru „Ritfregnir“:
„Einkennilega eru þau orð samsett, er málfræðingar kalla einu nafni »Bahuvrihi«. Þessar samsetningar voru að upphafi nafnorð, segir höf., en urðu síðar lýsingarorð, eða voru notuð í stað lýsingarorða. Hefir þessum samsettu orðum fjölgað mjög í germönskum málum á síðari tímum og nefnir höfundur fjölda dæma, eins og t. d.: hrokkinskinna, litilhugaður, mjóeygur, Kaldgrani ( = Kaldrani) o. s. frv.“

Í Morgunblaðið 1983 fjallar Hildur Einarsdóttir um „Áhrif veðursfars á fólk“.
„Fyrir rúmri viku var ég stödd i París í stórri verslunarmiðstöð, þar sem áður var gamli matvörumarkaðurlnn í París, les Halles. Þar er myndband á einni hæðinni, sem flytur fréttir hvaðanæva úr heiminum. Ég fór að góna á skerminn og allt í einu var komin þar frétt frá Íslandi. Það voru tíðindin um að sl. júlímánuður heföi veriö sá kaldasti hér á landi frá því árið 1874 og bætt var við, að nú stæði Ísland svo sannarlega undir nafni. — Skyldi nokkurn undra þótt við séum orðin svolítið fúl yfir veðrinu, þegar við rigninguna bætist svo þessi kaldrani.“

Kaldrani

Kaldrani við Kleifarvatn.

Í Fálkanum 1943 er jólahugvekja eftir sjera Jakob Jónsson; „Ljós skal skína fram úr myrkri“.
„Hinn kristni heimur heldur jól. Ljósinu bregður fyrir í myrkrinu. Sjerhver sá, sem enn ú nokkurn veginn óspiltar tilfinningar, finnur á hinni helgu nótt, að ljósið skín í hjarta hans. Og jafnvel þó að kaldrani hversdagslífsins leggisi aflur yfir borg og byggð, er enginn samur maður, sem fundið hefir ljósið skína fram úr myrkrinu. Hann hefir, þótt ekki sje nema stundarkorn lifað í heimi jólanna.“

Niðurstaðan er sú að orðið „kaldrani“ í íslenskri málhefð er flóknara en svo að hægt verði að skýrskota það til nákvæmlega eins staðar á Reykjanesskaganum….

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 50.
-Dagur, 19.10.1996, Krýsa og Herdís, bls. 5.
-Gripla, 24. árg. 20.12.2013, Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat – Hið sögulega samhengi jöðrunar ú Hrafnistumannasögum, bls. 193.
-Ægir, 11.-12. tbl. 01.12.1916, Ferð um Norðurland, bls. 137.
-Islandske Maaneds-Tidende, 2. tbl. 01.11.1773, Nyheder, bls. 29.
-Breiðfirðingur, 1. tbl. 01.04.1992, Á tildi Vallahnúks, bls. 171.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags, 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 92-93.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1049, Vestfirsk örnefni eftir Hans Kuhn, bls. 17.
-Iðunn; nýr flokkur, 3. tbl. 01.01.1918, Konan í Hvannadalabjörgum, íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon, bls. 170-171.
-Póstmannablaðið, 1. bbl. 01.07.1944, Póstmannafélag Íslands 25 ára, bls. 4.
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1029, Ritfregnir, bls. 240.
-Morgunblaðið 26.08.1983, Áhrif veðursfars á fólk, Hildur Einarsdóttir, bls. 34.
-Fálkinn, 17.12.1943, Ljós skal sklina fram úr myrkri, jólahugleiðing eftir sjera Jakob Jónsson, bls. 1.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.