Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krýsuvík

Þessi grein um Krýsuvík, „Landið og framtíðina„, birtist í Skinnfaxa árið 1951 og er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði. varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu:
„Myndirnar 3 af húsum í Krýsuvík eru teknar núna í marz, en óvenju mikill snjór hefur verið þar í vetur.

Krýsuvík

Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðar-kaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðf járræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. — Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum, að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á Alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengdist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri. — Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km.
Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

A. Gróðurhús.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í gróðurhúsi í Krýsuvík (HH).

Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. 1 gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró, þar sem katli hefir verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafmagn frá dieselrafstöð.

B. Búskapur.
Í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Meginhlutann mætti þó fullvinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km langir, opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m í þvermál og 14 m háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2021.

Hér er komið að framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna ræktunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

C. Boranir eftir jarðhita.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðhorar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve horar vildu festast.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur i svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbomum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þref alt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krísuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum i Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, síðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum i Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þelta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Komið hefur í ljós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan i sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns.  Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött.
Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.“ – S.J.

Heimild:
-Skinfaxi – 1. tölublað (01.04.1951), Landið og framtíðin: Krýsuvík, S.J., bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Þann 23. júní 2003 var aldarafmæli Gísla Sigurðssonar, fyrrverandi lögregluvarðstjóra, skáta, íþróttamanns, útivistarmanns, örnefna- og minjasafnara, hljómlistarmanns og fyrrum forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Gisli Sigurdsson-IIGísli Sigurðsson fæddist að Sólheimum í Hrunamannahreppi 23. júní 1903. Faðir hans, Sigurður Gíslason og móðir, Jóhanna Gestsdóttir, voru þar í vinnumennsku og fóru á milli bæja. Hjónin komu til Hafnarfjarðar árið 1910 og settust þar að. Sigurður stundaði verkamannavinnu og sjómennsku, var í veri, bæði með Ströndinni og í Grindavík. Foreldrar hans voru dugnaðarfólk þótt fátækir væru.
Tólf ára gamall hitti Gísli Stíg Sæland, lögregluþjón og stefnuvott. Tókst með þeim góður vinskapur. M.a. fóru þeir saman alla leið austur að Skálum á Langanesi á vertíð, en þá var Gísli 12 eða 13 ára gamall. Hann hafði sérstaklega orð á því að á leiðinni heim hafi þeir komið við á Seyðisfirði og skoðað þar rafmagnsverksmiðju. Þar sá hann fyrsta rafmagnsljósið og þótti mikið til koma.
Gísli SigurðssonAndrés Björnsson las í Útvarpið hugvekju eftir Gísla á jólunum 1961. Helgi Hjörvar hringdi í Gísla að henni lokinni og hældi honum fyrir efnið. Gísla þótti sérstaklega vænt um það. Hugvekjan bar heitið „Fyrsta endurminning mín um jólin“.
Árið 1931 kvæntist Gísli Vigdísi Klöru Stefánsdóttur frá Fitjum í Skorradal, og eignuðust þau tvö börn, Eyjalínu Þóru og Gunnlaug Stefán, og auk þess ólst upp hjá þeim, dóttursonur þeirra, Gísli Grettisson.
Um vorið 1985 vildu íþróttafélögin í bænum bjóða Gísla til samsætis honum til handa, en hann treysti sér ekki vegna lasleika. Gunnlaugur, sonur hans, fór í hans stað. Í samsætinu voru rifjuð upp ýmis merkilegheit varðandi íþróttaferil hans og afrek.

Lögreglumaður – safnvörður (Saga Hafnarfjarðar).
Gísli SigurðssonÞorleifur Jónsson lét af starfi lögregluþjóns 1. júlí 1930. Gísli Sigurðsson var ráðinn lögregluþjónn í hans stað. Um haustið tók Jón Guðmundsson til starfa við liðið. Þá voru fyrir þeir Stígur Sveinsson Sæland, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Vegna mikilla fjárhagsvandræða, sem bærinn átti við að glíma af völdum kreppunnar, gerði bæjarstjórn nokkrar sparnaðarráðstafanir haustið 1932. M.a. var þremur lögregluþjónum sagt upp störfum og auglýstar til umsóknar tvær lögregluþjónsstöður. Um þessar tvær stöður sóttu lögregluþjónarnir þrír og voru þær veittar Stíg Sæland og Jóni Guðmundssyni. Reynslan af þessari ráðstöfun varð sú, að veturinn 1932 – 33 varð bærinn oft og einatt að ráða mann til aðstoðar lögreglunni, og varð það síst ódýrara en þó að lögregluþjónarnir hefðu verið þrír á föstum launum. Því ákvað bæjarstjórn að bæta við einum fastlaunuðum manni í lögreglulið bæjarins frá 1. júlí 1933, og var Gísli Sigurðsson á ný ráðinn til starfans.
Gísli var skipaður varðstjóri árið 1948 ásamt Kristni Hákonarsyni. Gísli fékk síðan leyfi frá störfum árið 1957, um hálfs árs skeið. Hinn 1. mars 1968 var Gísli skipaður yfirvarðstjóri. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1. júní 1973.

Íþróttir
Gísli SigurðssonGísli var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Framsókn, 9. júní 1919. Varð hann gjaldkeri hins nýja félags. Í fyrstu var æft á Víðistöðum, en láðst hafði að fá leyfi til þess hjá landeigendum, sem brugðust illa við. Ruddu félagsmenn þá knattspyrnuvöll uppi á Öldum suðvestur af Hamrinum og æfðu þar um skeið, eða þangað til félagið tók á leigu svæðið við vesturenda hraunsins í Víðistöðum. Gísli lék um sinn bakvörð hjá liðinu. Árið 1920 færði félagið sig upp á nýjan knattspyrnuvöll á Hvaleyrarholti.

Íþróttabandalag hafnarfjarðar

Merki Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Þá fóru félagsmenn einnig að æfa aðrar íþróttir, s.s. hlaup og aðrar frjálsíþróttir. Árið 1919 var Knattspyrnufélagið stofnað. Þessi félög, auk nokkurra félaga úr Glímufélaginu Sköflungi, voru síðan sameinuð árið 1922 undir nafninu Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Gísli varð þá féhirðir þess félags. Á íþróttamóti í bænum árið eftir sigraði Gísli í 1500 metra hlaupi. Vorið 1924 hófust á vegum Íþróttafélagsins æfingar í frjálsum íþróttum. Spjótkast og kringukast var æft á Hörðuvöllum, en kúluvarp var æft inni í bæ á götunum. Félagið sendi Gísla, einan keppanda á allsherjarmót ÍSÍ. Hann keppti í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti og náði góðum árangri.
Gísli Sigurðsson
Gísli var um þetta leyti fremstur í flokki hafnfirskra frjálsíþróttamanna. Árið 1925 vann hann afreksmerki ÍSÍ. Er hann fyrsti og eini Hafnfirðingurinn sem unnið hefur það afrek (skrifað 1983). Vorið 1926 kenndi Jón Kaldal hlaup hjá Íþróttafélagi Hafnarfjarðar. Gerði hann það endurgjaldslaust. Þá um sumarið kepptu Gísli og Jón V. Hinriksson í kastgreinum á allsherjarmóti ÍSÍ fyrir hönd félagsins og árið 1927 keppti Gísli í spretthlaupi á sama móti.

Gísli Sigurðsson

Fimleikahópur pilta. Mannanöfn skv. Lista sem er límdur við myndina. „Fremri röð frá vinstri: Gísli Sigurðsson, Guðjón Sigurjónsson, Gunnar Gíslason ,Sveinn Magnússon, Geir Jóelsson, Jón Þorbjörnsson. Aftari röð frá vinstri: Hallsteinn Hinriksson, Sigurður Sigurjónsson, Ragnar Emilsson, Gunnar Magnússon, Haraldur Sigurjónsson, Oliver Steinn Jóhannesson, Kjartan Markússon, Steingrímur Atlason, Magnús Guðmundsson, Jóhannes Einarsson, Valgeir Óli Gíslason, Sveinbjörn Pálmason, Sigurður Gíslason“.

Árið 1928 var Gísli kosinn formaður á aðalfundi félagsins þótt hann væri fjarverandi. Fimm sóttu fundinn. Um sumarið tók hann þátt í allsherjarmóti ÍSÍ. Ekki tókst að hefja starf félagsins um haustið í og með vegna þess að formaður þess var í Hvítárbakkaskóla um veturinn og var Íþróttafélag Hafnarfjarðar þar með úr sögunni. FH var stofnað haustið 1929 og síðan Haukar 1931. Þessi félög hafa starfað óslitið síðan.
Árið 1934 urðu þáttaskil í starfsemi FH, en þá sendi félagið í fyrsta sinn keppendur á frjálsíþróttamót, Meistaramót Íslands, þá Hallstein Hinriksson, Sigurð Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þetta varð upphafið að blómlegu frjálsíþróttastarfi á vegum félagsins þó að ekkert æfingasvæði væri í bænum fyrir frjálsíþróttamenn. Gísli var í frjálsíþróttasveit FH árið 1942. Á 15 ára afmæli FH 1944 var gert íþróttasvæði á Hörðuvöllum undir umsjón Gísla og naut félagið fjárstuðnings frá Hafnarfjarðabæ við þessar framkvæmdir. Mikil bót var að þessu frjálsíþróttasvæði, þó að það væri ekki fullkominn íþróttavöllur. Við þessa vallargerð hljóp aukið fjör í iðkun frjálsra íþrótta í bænum og voru þær með mestum blóma á árunum 1943-1950. Á þessu tímabili háðu Hafnfirðingar sex sinnum bæjakeppni við Vestmanneyinga og sigruðu tvisvar.
Gísli Sigurðsson
Á 30 ára afmæli FH var Víðavangshlaup Hafnarfjarðar endurvakið, sumardaginn fyrsta 1959. Sama ár þreyttu Hafnarfjörður og Keflavík bæjarkeppni í frjálsum íþróttum, og bar þar helst til tíðinda, að Gísli Sigurðsson keppti í kringlukasti og átti þar með 40 ára keppnisafmæli. Hann var formaður félagsins á árunum 1940-1943.
Árið 1935 kom Íþróttaráð Hafnarfjarðar saman til fyrsta fundar síns. Fimm menn voru í ráðinu, skipaðir af ÍSÍ. Árið eftir tók Gísli sæti í ráðinu. Stofnárið stóð það fyrir íþróttanámskeiði um sumarið og varð Gísli kennari ásamt Hallsteini Hinrikssyni. Námskeiðið var haldið á skólamölinni framan við barnaskólann við Lækinn. Um haustið efni ráðið til íþróttamóts, auk þess sem það beitti sér fyrir að lagfæra knattspyrnuvöllinn á Hvaleyrarholti í samvinnu við Hauka.
Gísli SigurðssonÁ fundi ÍH árið 1936 vakti Gísli máls á því, að nauðsyn bæri til að safna saman verðlaunagripum, fundargerðarbókum og öðrum þeim gögnum, sem enn kynnu að vera til um starfsemi þeirra íþróttafélaga, sem hætt væru störfum, og bjarga frá glötun. Íþróttaráð fól Gísla að reyna að hafa upp á öllu, sem til væri af þessu tagi. Honum var vel ágengt, og tókst að hafa upp á fundargerðarbókum flestra gömlu íþróttafélaganna, en að auki skráði Gísli frásagnir nokkurra manna, sem voru félagar í elstu íþróttafélögunum í bænum. Þessi gögn eru nú í vörslu byggðasafnsnefndar Hafnarfjarðar. Árið 1943 fór bæjarráð Hafnarfjarðar þess á leit við íþróttaráð, að það hlutaðist til um, að íþróttafélögin í bænum tilnefndu menn til að gera tillögur um gerð íþróttasvæðis og tilhögun þess. Voru þeir sammála um að besti staðurinn væru Víðisstaðir.

Gísli Sigurðsson

Eldri FHingar. Gísli Sigurðsson lögreglumaður í efri röð til vinstri.

Skoruðu íþróttaráð og stjórnir íþróttafélaganna á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að kaupa Víðistaði og láta gera þar sem fyrst íþróttasvæði. Gísli lagði fram á fundinum teikningu af íþróttasvæði á Víðistöðum, sem hann hafði fengið Valgarð Thoroddsen til að gera. En þar eð Víðistaðir voru í einkaeign, reyndist ekki unnt að velja hinu fyrirhugaða íþróttasvæði stað þar, og var það gert á Hörðuvöllum árið 1944. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) var stofnað 28. apríl 1945 og var það arftaki íþróttaráðs Hafnarfjarðar. Stofnendur ÍBH voru FH, Haukar og Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar. Gísli var formaður þess á árunum 1948-1949. Árin 1947-1950 gaf Íþróttabandalag Hafnarfjarðar út blaðið Íþróttablað Hafnarfjarðar. Gísli var ritstjóri og ábyrgðarmaður þess.
Gísli SigurðssonHinn 22. febrúar 1925 var Skátafélag Hafnarfjarðar stofnað. Það fór mjög myndarlega af stað, og brátt störfuðu fjórir flokkar á vegum þess. Fyrsti sveitarforingi var Gísli, síðar lögregluþjónn. Árið 1945 var nafni félagsins breytt í Skátafélagið Hraunbúar. Lionsklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 1956. Fyrsti gestur á fundi félagsins var Gísli, sem hélt þá erindi um sögu Hafnarfjarðar. Á fyrstu árum klúbbsins unnu félagsmenn t.d. við að raða gömlum myndum í byggðasafni Hafnarfjarðar og merkja þær. Var það verk unnið undir stjórn Gísla, sem það var orðinn minjavörður.

Gísli á Hörðuvöllum

Gísli á Hörðuvöllum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar hóf starfsemi sína haustið 1923. Gísli kom fljótlega inn í sveitina og lék þar á horn um tíma.
Hinn 29. nóvember 1931 var Íþróttafélag verkamanna stofnað í bæjarþingsalnum í gamla barnaskólanum við Suðurgötu. Forgöngu um stofnun félagsins höfðu Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) og Félag ungra kommúnista (FUK). Gísli var kennari hjá félaginu fyrstu árin, sem það starfaði, og kenndi bæði karlaflokki og kvennaflokki til haustsins 1936. Haustið 1935 var nafni félagsins breytt í Íþróttafélag verkamanna og –kvenna og einnig var þá samþykkt breyting á lögum félagsins þess efnis, að það væri algerlega óháð öllum stjórnmálum. Enn var nafninu breytt haustið 1937 í Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Virðist það hafa hætt starfsemi sinni í árslok 1940. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar var stofnað 28. apríl 1945. Á stofnfundinum var því hreyft að stofna bæri sundfélag í bænum. Sundfélag Hafnarfjarðar var síðan stofnað 19. júní sama ár. Gísli var þá kosinn formaður og gegndi hann því starfi fyrsta árið.

Byggðasafn Hafnarfjarðar
Byggðasafnið

Í apríl 1953 kaus bæjarstjórn Hafnarfjarðar byggðasafnsnefnd og átti Gísli sæti í henni ásamt Óskari Jónssyni og Kristni J. Magnússyni. Hlutverk nefndarinnar var að koma upp byggðasafni í bænum. Sumarið 1955 féllst bæjarstjórn á að nefndin fengi neðri hæð Vesturgötu 6, hús Bjarna riddara, til umráða. Nauðsynlegt þótti þá að koma húsvilltu fólki fyrir á efri hæð þess vegna húsnæðisekklu í bænum.
Gísli SigurðssonÞegar byggðasafnsnefnd fékk húsið í hendur, voru fluttir þangað munir þeir, sem henni höfðu þegar áskotnast. Það var einkum Gísli, sem vann að söfnun muna á vegum byggðasafnsnefndarinnar. Setti nefndin sér í öndverðu það markmið að afla hluta, er varða iðnað, sjómennsku, húshald, rafmagn og búskap, og einnig ljósmynda frá Hafnarfirði og af Hafnfirðingum. Þegar hafist var við að endurbyggja Hús Bjarna riddara árið 1973 voru munir fluttir í geymslu í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og í Bryde-pakkhúsið við hliðina á Húsi Bjarna riddara, s.s. fiskibátur, gamli líkvagninn og ýmsar útgerðarvörur. Þegar Slökkvilið Hafnarfjarðar fluttist úr Slökkvistöðinni við hliðina á Bryde-pakkhúsi í maí 1974 fékk Byggðasafnið hana til umráða. Sama ár var Gísli ráðinn safnvörður við Byggðasafnið. Skrásetti hann mikinn fróðleik um byggðina í Hafnarfirði fyrr á tímum.
Hinn 1. júlí 1980 lét Gísli af störfum minjavarðar. Óhætt er að fullyrða, að enginn einn maður á jafnmikinn þátt í, að Byggðasafnið hefur eignast jafnmarga muni og raun ber vitni.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Þegar Gísli lét af störfum við Byggðasafnið, var Magnús Jónsson kennari, ráðinn minjavörður. Á fundi 16. desember 1980 staðfesti bæjarstjórn samning milli ríksins og bæjarins þess efnis, að sjóminjasafnsnefnd tæki Brydepakkhús og gömlu slökkvistöðina á leigu fyrir sjóminjasafn og yrði það til húsa þar, þangað til Sjóminjasafn Íslands hefði verið reist á Skerseyri.
Þegar minnst var 75 ára afmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar 1983, var m.a. haldin sögu- og sjóminjasýning í Brydepakkhúsi. Þegar hún var opnuð afhenti Gunnlaugur Stefán, listmálari, Byggðasafninu að gjöf málverk af föður sínum.

Samstarfsmenn.

Gísli Sigurðsson hóf störf í lögreglunni í Hafnarfirði árið 1930. Afstaða og stjórnmálaskoðanir skiptu máli þá eins og nú. Má segja að það hafi haft sitt að segja um að hann var ekki ráðinn á ný þegar staða hans var auglýst árið 1932.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Gísli talaði þó aldrei illa um nokkurn mann, ekki einu sinni um hörðustu andstæðinga sína.
Gísli vann lengi með Stíg Sæland. Síðan komu til starfa menn eins og Jón Guðmundsson, Þorleifur Jónsson og Kjartan Ólafsson. Steingrímur Atlason byrjaði í nóv. 1941. Þá voru fyrir Gísli, Stígur, Kristinn Hákonarson, Kristján Andrésson og Haukur Magnússon. Þá var lögreglan í einu herbergi að Suðurgötu 8.  Fangahúsið var þá í vesturenda Edinborgarhússins, tveir klefar, innréttaðir með mótatimbri. Um 1945 var flutt í viðbygginguna við Suðurgötu 8. Sýslumaðurinn hafði áður nýtt fjós þar sem viðbyggingin síðar reis, en í millitíðinni var það bílskúr (byggður 1942 eða 1943).
Gísli SigurðssonSteingrímur hætti í lögreglunni árið 1946, en kom aftur til starfa árið 1953. Hann minnist þess að þá hafi Gísli verið kominn á fullt að ræða við eldra fólk í bænum um byggðina, fólkið, örnefnin, húsheiti og annað tilheyrandi. Að hans mati hefur Gísli án efa bjargað miklum verðmætum upplýsingum því margt af þessu fólki dó næsu ár á eftir. Hann teiknaði auk þess upp gömul hús og húsaskipan eftir frásögn fólksins, sem mundi hvernig þau höfðu litið út á meðan þau voru enn brúkleg. Gísli byrjaði í fyrstu að ræða við elsta fólkið í bænum, en fór lítið út fyrir hann til að byrja með. Hann skrifaði upp og fór oft þrisvar til fjórum sinnum yfir textann áður en hann skilaði honum frá sér í formi upplýsinga eða erinda. Þegar hann fékk nýjar upplýsingar bætti hann þeim umsvifalaust inn í textann, sem fyrir var. Hann skrifaði í rit og blöð, ekki síst bæjarblöðin, um afmarkað efni. Þá sendi hann m.a. hugvekju í útvarpið skömmu eftir stríð, sem þulur las í kringum jól. Það var hjartnæm lýsing á því hvernig móðir hans meðhöndlaði krakkana sína fyrir jólin og heimfærði jólaboðskapinn yfir á uppeldið.

Gísli Sigurðsson

Gísli ásamt Edda félaga sínum við störf á Hörðuvöllum.

Gísli var byrjaður að tala við fólk um örnefni, staði, sögur og fólk og skrifa niður hjá sér fyrir 1958. Eftir 1960 var Gísli flestar næturvaktir við skriftir á meðan aðrir tefldu eða tóku í spil á milli útkalla og eftirlitsferða.
Gísli gekk mikið í kringum Hafnarfjörð, Hvaleyri og Garðahverfi. Stundum fór hann í lengri gönguferðir, jafnvel í framhaldi af næturvakt. Hann kom þá með kaffibrúsann undir hendinni niður á stöð og bað lögreglumennina á vakt um að skutla sér út fyrir bæinn, s.s. upp í Kaldársel eða út á Vatnsleysuströnd. Þar kvaddi hann og gekk einn síns liðs upp í hraunin og hvarf. Oft var hann svo „heppinn“ að hitta á lögreglumennina á bílnum undir kvöld, t.d. ofarlega á Krýsuvíkurveginum eða annars staðar, og óku þeir honum í bæinn aftur svo hann næði næturvaktinni.
Gísli SigurðssonVitað er til þess að Gísli heimsótti hvern einasta mann í Selvogi og á Vatnsleysuströndinni og tók viðtöl við fólkið. Frásagnirnar las hann síðan upp fyrir lögreglumennina á næturvöktum.
Gísli byrjaði í framhaldi af því að skoða selin og aðrar minjar fyrir ofan Hafnarfjörð. Ein ástæðan var sú að flest selin þar eru þannig staðsett að tiltölulega auðvelt er að nálgast þar vatn, en það var göngumanni nauðsynlegt á löngum leiðum. Hann fór yfirleitt einn í þessar göngur til að byrja með. Honum var þá ekið langleiðina út á Reykjanesbraut og þaðan var gengið upp í hraunið. Ef tími var til á vaktinni var reynt að aka á móti honum að kvöldi.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Kristján Eldjárn og Gísli voru ágætir mátar. Auk þess sem nokkrir menn lögðu síðar til að Gísli fengi Fálkaorðuna fyrir söfnun upplýsinga, lýsinga og örnefna, skemmdi það ekki fyrir möguleikum hans að Kristján var þá orðinn forseti. Gísli lét síðan mynda sig með orðuna og var stoltur af. Hann og Kristján fóru margar ferðir saman á hina og þessa staði, bæði til að skoða og skrá.

Sögur:
Eitt sinn á næturvakt var Gísli að skrifa eitthvað eftir Kristrúnu og Sigurði á Hvassahrauni þegar hann reis allt í einu upp og sagði: „Æ, nú er ég búinn að gleyma því nafninu. Jæja, ég nota þá bara þetta“, sagði hann og stakk upp á öðru sennilegu, settist niður og hélt áfram að skrifa. En hafa ber í huga að sami staður gat heitið fleiri en einu nafni, allt eftir því hver sagði frá, við hvaða tíma var miðað og í hvaða tilgangi örnefnið var notað.
Gísli SigurðssonÞannig voru ekki allir alltaf sammála um nöfnin og vildu jafnvel stundum halda því fram að annað en þeirra eigin vissa væri ranghermi. Það þurfti þó ekki að vera, eins og dæmin sanna.
Eitt sinn í aðdraganda 17. júní var Gísla uppálagt að muna eftir að lyfta hendi í heiðurskveðju þegar þjóðsöngurinn væri leikinn. Gísli átti að vera á vakt á Hörðuvöllum. Þegar lúðrasveitin byrjaði á „Ísland ögrum skorið“ lyfti Gísli og aðrir lögregluþjónar hendi að enni sér, en virtust fljótt átta sig á hvers kyns var. Hann lét höndina síga hægt og rólega og snérist á hæl svo lítið bar á. Hinir fylgdu á eftir. Þjóðsöngurinn var leikinn síðar.
Lögreglustöðin við Suðurgötu, nýbyggingin, var vígð árið 1947. Þar voru hurðir fyrir fangaklefum járnslegnar að innanverðu og einungis hægt að opna þær utan frá. Gísli þurfti eitt sinn að handtaka Magnús Gíslason frá Vesturhamri og færa í tukthúsið. Það þurfti oft að slást við Magnús. Þegar færa átti hann inn í klefann upphófust slagsmál sem endranær og náði Magnús einhvern veginn að krækja í hurðina með þeim afleiðingum að þeir lokuðust báðir inni í klefanum. Gísla tókst þó að tálga með vasahníf upp úr dyrastafnum eftir langa mæðu og losa sig úr prísundinni.
EGísli Sigurðssonitt sinn skilaði Gísli skýrslu um rúðubrot í verslun Valdimars Long við Strandgötu og handtöku gerningsmannsins. Hún var eitthvað á þessa leið: „Ég elti hann, en hann dreifði sér vestur Strandgötuna. Móts við Skafta (hús þar sem verslun Ól. Steins, var reist síðar) náði ég að umkringja hann“.
Gísli var kallaður á árekstursvettvang. Hann gerði uppdrátt eins og venja var. Á uppdrættinum var merktur rauður punktur og við hann stóð: „Hér stóð ég“. Gísli gat verið gamansamur, eins og sögur herma. Hann var líka traustur og gott var að vera með honum í átökum. Eftir að hann náði taki á einhverjum sleppti hann því ekki svo auðveldlega.
Gísli hafði mikinn áhuga á að aka lögreglubílnum. Kom til útkalls rauk hann jafnan fyrstur til , greip bíllyklana og þusti. Hann var hins vegar ekki alveg að sama skapi laginn ökumaður. Vantaði stundum svolítið á samhæfingu á milli tengils og eldsneytisgjafar, en allt bjargaðist þetta þó að lokum. Eitt sinn var útkall á Nýju bryggjuna vegna ölvaðra manna, sem þar voru að slást. Eftir að þeir höfðu verið afgreiddir og komið í bílinn kom í ljós að bílinn var fastur í bakkgírnum. Það vafðist þó ekki fyrir Gísla frekar en margt annað. Hann setti bara í gang og ók bílnum aftur á bak sem leið lá um bryggjuna, Strandgötu og staðnæmdist ekki fyrr en komið var framan við lögreglustöðina. Þegar taka átti mennina út úr bílnum var runnið af þeim öllum.
Gísli SigurðssonGísli var oft heppinn í sínum aðgerðum og afgreiddi mál oftar af skynsemi en nákvæmlega eftir laganna bókstaf. Þá átti hann það jafnvel stundum til að framkvæma án þess að hugsa, en allt fór þó yfirleitt vel að lokum. Hann kom m.a. einu sinni í veg fyrir stórkostleg slagsmál. Þannig var að lýður hafði safnast að lögreglustöðinni við Suðurgötu á þrettándanum með hrópum og köllum. Fór svo að hópurinn reyndi að loka lögreglumennina inni á stöðinni með því að bera hlera fyrir hurðina. Gísli tók sig þá til, náði að ryðjast út og byrjaði á því að rota þann fyrsta sem hann náði til. Við það lagði lýðurinn á flótta.
Gísli gat verið forn í orðavali og tali og hafði góðan orðaforða. Hann notaði t.d. orðið þormur fyrir stuðara á bíl, sem þá þótti sérstakt. Þá hafði hann sinn sérstaka hátt á að lýsa atvikum, sem stundum gat valdið kátínu.

Gísli með Egon Hitzler

Gísli með Egon Hitzler.

Lítillátur:
Eitt sinn hitti félagi Gísla hann í sjoppu í Keflavík. Félaginn spurði á hvaða leið hann væri. „Ég er svo sem ekki að fara neitt. Ég er bara á ferð með félaga mínum. Við ætlum hér norðureftir að líta á Skagagarðinn mikla“. Að því búnu gekk hann út og steig þar upp í bíl, sem beið fyrir utan. Undir stýri sat Kristján Eldjárn, fyrrv. þjóðminjavörður, sem þá var orðinn forseti Íslands.

Garpur.
Gísli var fæddur og uppalinn í Árnessýslu. Hann fór á Íþróttaskóla á Hvítárbökkum í Borgarfirði, og var þar tvo vetur. Síðar keppti hann í sleggjukasti og í kúluvarpi. Steingrímur kynntist Gísla fyrst á árunum 1938 og 1939, þegar Steingrímur bar út póst. Gísli kom þá oft á pósthúsið fyrir sýslumann og ræddi við póstberana.

Gísli með Egon Hitzler

Gísli með Egon Hitzler.

Eitt sinn hvatti hann Steingrím til að koma með sér upp á íþróttavöll á Holtinu til að reyna sig í hlaupum. Þar tók Gísli tímann og sagðist að því búnu myndi skrá hann á mót í Reykjavík daginn eftir. Varð úr að Steingrímur keppti þar í 1500 m og 3000 m hlaupum, varð fjórði í því fyrrnefnda, en annar í því síðarnefnda, af 10-15 keppendum. Síðar skráði Gísli hann í 10 km kappgöngu frá Árbæ, vestur Suðurlandsbraut, niður Laugaveg, inn Aðalstræti, um Suðurgötu og inn á Melavöll. Þetta var á sunnudagsmorgni í september. Gísli hafði þá á orði að Steingrímur hefði bara staðið sig vel. Hann hefði orðið annar í göngunni. Ekki fylgdi sögunni að keppendur höfðu einungis verið tveir að þessu sinni.
Gísli SigurðssonGísli var mikill íþróttamaður. Hann keppti m.a. í sleggjukasti, kúluvarpi og kappgöngu. Hann keppti alltaf í sleggjukasti í bæjarkeppnum milli Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja. Sagan segir að eitt sinn hafi Gísli misst sleggjuna aftur fyrir sig í einni slíkri keppni á Hörðuvöllum og stefni hún beint á dómarana, sem stóðu til hliðar. Þeir sáu þó sem betur fer hvað verða vildi og náðu að skýla sér á bak við jarðfastan staur áður en sleggjan lenti á staurnum er bjargaði dómurunum.
Gísli keppti t.d. í kappgöngu á einu Íslandsmóti. Gísli varð nr. 1 og félagi hans nr. 2. Þegar lögreglumenn spurðu hvað hefðu verið margir í göngunni sagði Gísli: „Þeir voru a.m.k. tveir, svo mikið get ég sagt ykkur“.
Gísli var mikill skáti í sér og stundaði m.a. skátamótin í Krýsuvík samhliða því sem hann og félagar hans voru þar á vakt um tíma. Ástæðan var aðallega sú að bandarískir skátar voru þá á mótunum og nokkrir hernaðarandstæðingar áttu erfitt með að þola að sjá bandaríska fána þar við hún. Á nóttunni svaf Gísli í svefnpoka í fjárhellinum syðst í Bæjarfelli.

Lokaorð.
Gísli SigurðssonGísli Sigurðsson ólst upp í fátækt, varð snemma að aðstoða foreldra sína og vinna fyrir sér. Hann kynntist því snemma hvernig er að heyja erfiða lífsbaráttu við þröngan kost og erfiðar aðstæður. Mótaði það mjög hug hans og afstöðu til lífsins síðar meir. Gísli var eljusamur, ósérhlífinn og hjálpsamur. Hann lagði snemma stund á íþróttir og varði ásamt öðrum miklum tíma til að byggja upp og viðhalda íþróttastarfi í Hafnarfirði. Hann var í stjórnum margra ólíkra íþróttafélaga og varð sjálfur mikill afreksmaður.

Gísli Sigurðsson

Gísli, fremst lengt t.h. ásamt félögum ganga á undan skrúðgöngu um Hellisgötu.

Um og eftir þrítugt starfaði Gísli sem lögreglumaður og gegndi hann því starfi uns hann hætti fyrir aldurs sakir, þá sjötugur. Um og eftir miðjan aldur hóf hann að ræða við og skrá sögur og sagnir, upplýsingar og fróðleik ýmis konar eftir eldri Hafnfirðingum og síðar öðru fólki, bæði á Reykanesi og víðar. Safnaði hann m.a. upplýsingum um sögu Hafnarfjarðar, örnefni, gamlar leiðir og minjar og skrifaði margar greinar og erindi um efnið. Enn í dag leitar áhugafólk um útivist og göngur í yfirgripsmikið efni það er Gísli skyldi eftir sig og varðveitt hefur verið á Bókasafni Hafnarfjarðar og í Byggðasafninu. Þá hafa fjölmargir fræðimenn notið góðs af fjömörgum örnefnalýsingunum og öðrum skrifum er skoða þarf og meta hin ýmsu svæði byggðalagsins.
Gísli SigurðssonEf ekki hefði verið fyrir þetta starf Gísla væri margt af þessu með öllu glatað í dag. Margir núlifandi mættu taka hann sér til fyrirmyndar, safna fróðleik og efni frá eldra fólki, sem enn býr yfir mikilli vitneskju um liðna tíma og minjar, sem líklegt er að kunni að glatast ella.
Gísli lét ávallt gott af sér leiða. Störf hans og áhugi hafði ekki einungis jákvæð áhrif á meðan hann lifði. Hvorutveggja hefur jákvæð áhrif enn þann dag í dag. Eftirlifandi kynslóðir hafa notið og munu njóta góðs af því. Gísli var alþýðuhetja, sem verðskuldar að hans verði minnst, ekki bara af þeim sem hann þekktu heldur og þeim er bera hag uppvaxandi æsku og umhverfis fyrir brjósti. Hafnarfjörður, eftirlifandi samferðamenn Gísla og komandi kynslóðir eiga honum mikið að þakka.
Gísli Sigurðsson lést á Hrafnistu þann 30. okt. 1985, 82 ára að aldri.

-Ómar Smári Ármannsson tók saman á aldarafmæli Gísla 23. júní 2003.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurkirkja

Eyjólfur Sæmundsson skrifaði þrjár greinar í Fjarðarpóstinn árið 1998 undir fyrirsögninni „Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður„:

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson

„Að undanförnu hefur orðið vart aukins áhuga Hafnfirðinga á Krýsuvík. Þessi víðáttumesta jörð í landnámi Ingólfs er að hluta í eigu Hafnfirðinga, en að hluta er eignarhaldið umdeilt og standa málaferli fyrír dyrum til að skera úr umþað. Sumir bæjarbúar þekkja Krýsuvík og eiga jafnvel uppruna sinn að rekja þangað. Aðrir hafa gengið þar um fornar þjóðbrautir eða hrjóstruga og víða hrikalega náttúruna sem er svo fjölbreytileg að undrum sætir. Þangað hafa menn sótt kraft og innblástur til sköpunar, svo sem Sveinn Björnsson listmálari sem þar hafði vinnustofu. Enn aðrir sjá fyrir sér nýtingu jarðvarmans og telja hann geta orðið auðsuppsprettu Hafnfirðinga.
En þeir eru líka fjölmargir sem lítið vita um Krýsuvík og þekkja ekki þá náttúruperlu, nema e.t.v. hina gjósandi borholu í Seltúni. Upplýsingar eru heldur ekki á lausu og full þörf á að bæta þar úr. Eyjólfur Sæmundsson hefur verið tengiliður bæjarins við Hitaveitu Reykjavíkur, m.a. varðandi hitaréttindin í Krýsuvík, en er auk þess áhugamaður um allt er varðar staðinn. Hann mun skrifa greinaflokk hér í blaðið til þess að upplýsa bæjarbúa um þessa náttúruparadís og kraumandi orkulind.

Inngangur

Grindarskörð

Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.

Í þessum greinarflokki mun ég leitast við að gera lesendum nokkra grein fyrir málefnum Krýsuvíkur, landamerkjum jarðarinnar, tildrögum þessi að hún komst í eigu Hafnfirðinga, jarðhita sem þar er að finna og álitamálum sem uppi eru um eignarhald á landinu. Sögu og náttúrufari verða gerð nokkur skil, en það væri efni í langan greinaflokk eitt og sér ef vel ætti að vera.

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort; ÓSÁ

Þegar rætt er um Krýsuvík eða Krýsuvíkurland í dag er í raun átt við land jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og er það stundum nefnt Krýsuvíkurtorfan. Auk þessara jarða sem töldust eiga landið voru þarna allmörg kot, Norðurkot, Suðurkot, Snorrakot, Litli-Nýibær, Lækur, Fitjar, Arnarfell o.fl. voru á svæðinu umhverfis Bæjarfell og Arnarfell. Vigdísarvellir eru aftur á móti á milli Sveifluháls og Vesturháls og þar held ég að tvö kot hafi verið um skeið. Útræði var fram á síðustu öld frá Selatöngum sem eru austasti hluti Ögmundarhrauns þar sem það fellur í sjó fram. Þar eru miklar og merkar minjar sem friðlýstar hafa verið, en vert væri að gefa meiri gaum.

Víðátta og fjölbreytni

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Landsvæðið er gríðarstórt eða rúmlega 200 ferkílómetrar sem jafngildir 20.000 hekturum. Það nær frá Brennisteinsfjöllum í austri að Höskuldarvöllum í vestri og frá sjó í suðri að Vatnsskarði í norðri. Landslagið er ótrúlega fjölbreytilegt, eldfjöll, stöðuvötn, Krýsuvíkurbjarg sem er mesta fuglabjarg utan Vestfjarðakjálkans, framræstar mýrar, sprengigýgar, rennislétt helluhraun, úfin og illfær apalhraun, móbergshryggir, ófærar gjár, hellar, formfagrir eldgígar, litfögur hverasvæði og svo mætti lengi telja. Fáar jarðir á Íslandi, ef nokkrar, eru jafn fjölbreytilegar hvað varðar jarðræði og landmótun. Það er helst gróðurleysið og hin hrjóstruga ásýnd sem kann að virka fráhrindandi á suma. Vitað er að gróður var mun meiri á svæðinu fyrr á tímum og landið er illa farið af ágangi búfjár og manna. Enn beita Grindvíkingar fé sínu á svæðið þó vonandi hilli nú undir endalok þess.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Jarðvegurinn er öskublandinn og mjög viðkvæmur. Nýlokið er könnun á ástandi gróðurfars og ljóst að mikið verk þarf að vinna við endurheimt landgæða.
Hraunstraumur fyllir víkina Byggðin sem lýst var að framan er ekki hin upprunalega Krýsuvík. Reyndar er ekki sjáanleg nein vík á ströndinni í dag sem landsvæðið gæti dregið nafn af. Líklegt er að hin upphaflega Krýsuvík hafi fyllst af hrauni þegar Ögmundarhraun rann árið 1151 (síðari ártöl hafa verið nefnd en þau koma ekki heim og saman við geislakolsmælingu á aldri hraunsins). Kapelluhraun rann í sjó fram í Straumsvík, hinum megin á nesinu um sama leyti, sennilega í sama gosi eða goshrinu.
Á hólma sem stendur upp úr Ögmundarhrauni má greina bæjarrústir sem að hluta fóru undir hraunið og nefnist hann Húshólmi. Líklegast er að þarna hafi hin gamla Krýsuvík staðið en hún lagst af í gosinu og íbúarnir fært sig ofar í landið. Þjóðsagan skýrir nafn Krýsuvíkur með frásögninni af tröllskessunum Krýsu og Herdísi sem heima áttu í víkunum og elduðu grátt silfur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Landnám og þróun byggðar
Byggð hefur verið í Krýsuvík frá landnámsöld, en hún var innan landnáms Ingólfs Arnarsonar. Í Landnámu segir frá því að Þórir haustmyrkur nam land í Herdísarvík og Krýsuvík og að Heggur sonur hans bjó að Vogi (Selvogi). Því er freistandi að álykta að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Lítið er vitað um sögu byggðarinnar gegn um aldirnar. Skipst hafa á skin og skúrir í mannlífinu þar sem annars staðar og mannfjöldi sveiflast upp og niður. Við manntalið 1801 voru 39 í Krýsuvíkursókn og er þá aðeins búið á jörðunum tveim og þremur kotum. Ekki er þá byggð á Vigdísarvöllum.

Stóri-Nýibær

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú? „Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“

17 systkini í Stór-Nýjabæ

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Eftir því sem leið á síðustu öld virðist íbúum hafa eitthvað fjölgað og hef ég heyrt að þeir hafi komist upp undir hundraðið þegar flest var í byrjun þessarar aldar, en það er óstaðfest. Allmargir Hafnfirðingar eiga rætur að rekja til Krýsuvíkur. Hjónin Magnús Ólafsson frá Lónakoti og Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum bjuggu í Krýsuvík. Þau eignuðust 5 börn og komust fjögur upp.  Magnús dvaldist síðast á sumrin í Krýsuvík en flutti alfarið til Hafnarfjarðar 1945.
Hjónin Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir úr Herdísarvík voru gefin saman í Krýsuvíkurkirju 8. september 1895 og bjuggu í Stóra-Nýjabæ þaðan í frá til 1933. Þau eignuðust 18 börn og komust 17 á legg. Frá þeim er mikill ættbogi kominn.
Guðrún Runólfsdóttir, langamma þessi sem þetta ritar, fæddist í Krýsuvík 1865. Þá sat þar Sigurður Sverresen sýslumaður og sóknarprestur var Þórður Árnason, bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Kirkja hefur sennilega verið í Krýsuvík frá ómuna tíð en sú sem nú stendur var reist árið 1857 af Beinteini Stefánssyni sem þá bjó á Arnarfelli en flutti síðar á Hvaleyri. Kirkjan fór í niðurníðslu og var endurvígð 1931 og svo aftur í maí 1964 eftir endurbyggingu sem Björn Jóhannesson bæjarfulltrúi stóð fyrir og kostaði af eigin fé. Yfirsmiður við það verk var kunnur Hafnfirðingur, Sigurbent Gíslason, barnabarn Beinteins sem upphaflega byggði kirkjuna. Hún er nú friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafnsins [skrifað fyrir 2010 þegar kirkjan brann].

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.

Krýsuvíkurkirkja er fábrotin að allri gerð. Ef hún er borin saman við aðrar kirkjur frá svipuðum tíma, t.d. Skútustaðakirkju í Mývatnssveit, og gengið er út frá því að kirkjubyggingar endurspegli efnahag sóknarbarna, þá virðist ljóst að fremur hafi fólk verið fátækt í Krýsuvík um miðja síðustu öld. En Guðs ríki kemur til fátækra og margir skynja þann djúpa frið sem ríkir í þessu litla guðshúsi mitt í tröllaukinni náttúrunni.
Í þessari framhaldsgrein um málefni Krýsuvíkur er fjallað um landamerki hinna jarðanna þar, eignarnám þeirra og afsal til Hafnarfjarðar.

Árni Gíslason

Húshólmi

Húshólmi.

Vorið 1880 urðu nokkur straumhvörf í Krýsuvík. Þá flutti þangað Árni Gíslason sem verið hafði sýslumaður Skaftfellinga og búið að Kirkjubæjarklaustri, en haft annað bú í Holti. Árni þótti búhöldur mikill. Reisulegt tvíflyft timburhús sem hann bjó í hefur verið endurreist á byggðasafninu í Skógum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Árni var sonur séra Gísla Gíslasonar í Vesturhópshólum. Bróðir Árni var Gísli Gíslasonar, síðari maður Skáld- Rósu, en þau bjuggu nokkur ár hér í Hafnarfirði í Flensborgarverslun og Óseyrarkoti. Árni lét af sýslumannsembættinu þegar hann flutti til Krýsuvíkur, en var þó gjarnan kallaður Arni sýslumaður í almannatali. Hann var einn mesti fjárbóndi landsins og hafði með sér hundruð fjár. Stór hluti þess strauk fljótlega og stefndi á heimaslóðir, en drukknaði flestallt í stórám á leiðinni. Sagt er að ein kind hafi komist alla leið heim í Holt.
Hvers vegna Árni fór frá embætti og eignum fyrir austan er ekki vitað. Það hlýtur að hafa farið gott orð af landkostum í Krýsuvík. Árni lést um síðustu aldamót og hvílir í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Gróðurkort

Gróðurkort af landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík.

Landamerkjabréfið
Nokkru fyrir 1890 tóku gildi ný jarðalög sem kváðu á um að fyrir allar jarðir þyrfti að vera til þinglýst landamerkjabréf. Eigandi jarðar þurfti að standa fyrir gerð bréfsins og eigendur allra aðliggjandi jarða að skrifa upp á. Ef ekki voru uppi deilur um landamerki var greiður vegur að ganga frá málum.
Árni Gíslason gerði landamerkjabréf fyrir land Maríukirkju í Krýsuvík sem hann hafði keypt. Bréfið er dagsett 14. maí 1890 og því þinglýst 20. júní sama ár. Þar er Iandamerkjum lýst þannig:
1. að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við sjávarmál á Selatöngum, í Trölladyngju fjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall, norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan; úr Markhelluhól, sjónhending norðan við Fjallið Eina í Melrakkagil (Markrakkagil (ofanlínu)) í Undirhlíðum og þaðan sjónhending að vesturmörkum Herdísarvfkur, eða sýslumörkum Gullbringu og Árnessýslu.
3. Að austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg, umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn frá Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. Að sunnan nær landið allt að sjó.

Krýsuvíkurbúið

Krýsuvíkurbúið.

Allir nábúar skrifuðu upp á bréfið án umtalsverðra athugasemda, þar á meðal bændur á Vatnsleysuströnd sem skiptir miklu máli nú þegar landeigendur þar ásælast hluta landsins vegna jarðhitans. Athugasemd ábúenda Hvassahrauns um að „Markhellu“ skyldi breytt í „Markhelluhól“ var tekin til greina. Mótmæli séra Odds Sigurðssonar á Stað í Grindavík vegna vesturlandamerkja voru ekki tekin til greina enda var harm ekki aðili að málinu. Ýmislegt áhugavert kemur fram í bréfinu. Staðfest var t.d. að Krýsuvík ætti Sogasel en Kálfatjörn hefði þar sem ítak mánaðarselsetu á sumri hverju. Sogasel er í eldgíg sem er á jarðhitasvæðinu við Trölladyngju.

Landamerkjum breytt

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Áhöld voru um það hvar Melrakkagil væri en með umdeildum dómi 1971 var það ákveðið.
Árið 1980 var gerð „dómsátt“ sem breytti landamerkjunum að austanverðu þannig að þau væru ekki beint úr Stóra-Kóngsfelli í Seljarbótarnef heldur úr fellinu í svonefndan Sýslustein og þaðan í nefið. Þetta færði sneið úr Krýsuvíkurlandi yfir til Herdísarvíkur sem er í eigu Háskóla Íslands. „Sáttin“ var gerð án aðildar Hafnarfjarðar sem þó á mestu verðmætín á svæðinu, þ.e. jarðhitann í Brennisteinsfjöllum. Bæjaryfirvöld þurfa að krefjast ógildingar á þessum gjörningi. Eignarnámið á fjórða áratugnum fara Hafnfirðingar að sýna áhuga á því að eignast Krýsuvíkurland og beitti Emil Jónsson sér í því máli.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Heimildin nær m.a. til jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar sem þá voru í eigu dánarbús Einars Benediktssonar skálds. Gerðu þau ráð fyrir að lönd þessi skyldu seld eða leigð bænum. Þessi lög þóttu óljós og taldi ríkisvaldið ekki unnt að afsala landinu eftir eignarnám á grundvelli þeirra. Því var þeim breytt með lögum nr. 101/1940. Í þeim segir: „Jarðir þær sem um getur í 4. tölulið 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu, þannig að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt land jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð sem framkvæmd var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939. En Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber, að undanteknum námuréttindum.“

Afsalið til Hafnarfjarðar

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Afsal var gefið út 20. febrúar 1941, en einungis hluti landsins var lýstur full eign Hafnarfjarðar, þ.e. um 43 ferkílómetrar sem töldust ræktanlegt land og varð það síðar fært undir lögsögu Hafnarfjarðar. Hitaréttindum á öllu landi jarðanna fylgja í afsalinu, þ.e. einnig þau réttindi sem eru utan hins afsalaða landsvæðis. Bærinn hefur rétt til að athafna sig á öllu landinu vegna nýtingar hans. Greiddar voru kr. 44.000 fyrir hin afsöluðu réttindi samkvæmt matsgerð sem fyrir lá auk kostnaðar kr. 6.813,10. Ekki var greitt fyrir námuréttindi sem metin voru á kr.2.000 né lítt ræktanlegt land til sumarbeitar á kr. 5.000, þar sem þessi réttindi voru undanskilin. Greiðsla Hafnarfjarðar var fyrir jarðhita kr. 30.000, ræktanlegt land kr. 10.000, Krýsuvíkurbjarg kr. 4.000 og Kleifarvatn kr. O.
Ekki er kunnugt um að Gullbringusýsla hafi greitt fyrir beitarréttindin og ekki hefur verið gefið út afsal vegna þeirra.

Kúabú í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvíkurfjósið.

Tilgangur bæjaryfirvalda með því að eignast Krýsuvíkurland var tvíþættur, að komast yfir jarðhitaréttindin til húshitunar í bænum og að koma upp kúabúi á vegum bæjarins. Meirihluti Alþýðuflokksins í bæjarstjórn stóð fyrir kúabúshugmyndinni gegn króftugri andstöðu Sjálfstæðismanna. Byggð voru heilmikil mannvirki, en hugmyndin komst þó aldrei í framkvæmd.

Umdeilt beitarland og námuréttindi

Seltún

Seltún – námuréttindin í Krýsuvík 1950.

Hér verður ekki farið út í lögskýringu á fyrrgreindum lögum og afsali, slíkt er fremur á færi annarra. Eðlilegt er að Hafnarfjörður krefjist eignarhalds á landinu öllu og láti á það reyna fyrir dómstólum. Það hefur verið undirbúið og er stefna í vændum. Til andsvars eru helst Grindvfkingar, en sá hluti landsins sem ekki var afsalað til Hafnarfjarðar er nú í lögsögu þeirra þó þeir eigi það ekki.
Í eignarnámslögunum kemur fram að ekki skuli afhenda Hafnarfirði námuréttindi, en í greinargerðum kemur fram að átt er við brennisteinsnámur vegna þess að eignarhald á þeim var óljóst eftir að erlendir aðilar höfðu eignast þau.
Í skjóli þessa hefur Landbúnaðarráðuneytið leyft stórfellda vinnslu jarðrefna við Vatnsskarð. Þetta verður að telja fullkomlega óeðlilegt. Engin hefð var fyrir slfkri efnistöku á svæðinu og vafasamt að hún teljist námaréttindi í skilningi eignarnámslaganna.

Hafnfirðingar standi á rétti sínum

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Ég leyfi mér að fullyrða að Landbúnaðarráðuneytið hefur verið Hafnfirðingum óvilhallt í gegnum tíðina og reynt að draga úr ítökum okkar eins og það hefur getað. Hér að framan var fjallað um breytinguna á landamerkjum 1980 sem gerð var að tilhlutan ráðuneytisins án samráðs við bæjaryfirvöld og vafasama efnistöku. Jafnframt stendur ráðuneytið í vegi þess að landinu sé öllu afsalað til Hafnarfjarðar, hefur margsynjað erindum þess efnis.
Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið verið að kanna frekari skerðingu á landinu með breytingu á landamerkjum og fulltrúar þess farið í könnunarleiðangra með öðrum landeigendum í þessu skyni án minnsta samráðs við Hafnfirðinga. Þessari atlögu hefur tekist að hrinda, í bili a.m.k.
Hafnfirðingar þurfa að vera á varðbergi gegn ásælni annarra landeigenda á svæðinu og hlutdrægni ríkisvaldsins og krefjast síns réttar í Krýsuvík skilyrðislaust. Það er alveg ljóst af eignarnámslögunum að ríkinu var ekki ætlað að halda eftir neinum ítökum í Krýsuvfk öðrum en brennisteinsnámum.

Í nœstu grein verður fjallað um jarðhitann í Krýsuvík, mögulega nýtingu hans og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarfirði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Í þessari þriðju og síðustu grein um Krýsuvík er fjallað um jarðhitann þar, mögulega nýtingu lians og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarflrði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Eðli jarðhitans

Seltún

Í Seltúni.

Jarðhitasvæðum er skipt í tvo flokka. Svokallaður lághiti er á svæðum þar sem ekki er eldvirkni (t.d. Mosfellsbæ). Þar er vatnið oftast innan við 100’C og yfirleitt má nota það beint á dreifikerfi hitaveitna. Háhiti er á eldvirkum svæðum og fær vatnið þá hitann frá bráðinni eða nýstorknaðri bergkviku sem þrengt hefur sér inn í jarðlögin eða orðið eftir við eldgos. Hitastig vatnsins er mun hærra en á lághitasvæðum, allt að 300’C og jafnvel hærra.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Mikill þrýstingur er á vatninu og ryðst það út sem gufa ef borað er ofan í það og holan höfð opin. Þetta vatn er mettað af uppleystum efnum úr berginu og ekki hægt að nota það beint á dreifikerfi. Viðnám í jarðlögum er vísbending um jarðhita Þegar heitt vatn kraumar í jörðu leysir það upp ýmis efni úr berginu sem verður til þess að vatnið og jarðlögin sem það mettar leiða rafmagn mun betur en ella. Þvf hærri sem hitinn er þeim mun betur leíðir bergið rafmagn. Við rannsóknir á jarðhitasvæðum mæla menn viðnámið gegn rafleiðni. Því lægra sem það er, þeim mun betur leiða jarðlögin rafmagn og þeim mun sterkari vísbending er um jarðhita. Með þar til gerðum tækjum má mæla viðnámið djúpt í jörðu. Með því að kortleggja það á stórum svæðum þar sem jarðhita gætir má fara nokkuð nærri um útbreiðslu jarðhitans og uppstreymi.

Tvö háhitasvæði

Seltún - Trölladyngja

Seltún – Trölladyngja.

Á Reykjanesskaganum eru fimm háhitasvæði sem tengjast jafnmörgum megineldstöðvum. Þetta eru Hengill (Nesjavellir eru innan þess), Brennisteinsfjöll, Sveifluháls-Trölladyngja, Svartsengi og Reykjanes. Af þeim eru tvö í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, Sveifluháls-Trölladyngja og Brennisteinsfjöll, og eru þau sýnd á kortinu sem fylgir greininni.
Svæðin teygja sig bæði út úr Krýsuvíkurlandi og eru hitaréttindin því sameign Hafnarfjarðar og annarra eigenda. Eins og fram kom í síðustu grein eignuðust Hafnfirðingar öll hitaréttindin í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar með afsali sem gefið var út 20. febrúar 1941 og greiddi fyrir þau kr. 30.000. Þetta gildir bæði um þann jarðhita sem er á þeim hluta landsins sem bærinn eignaðist og þeim hluta sem átti að vera beitarland Gullbringusýslu.

Sveifluháls-Trölladyngja

Seltún

Seltún árið 1950.

Þetta svæði hefur nokkuð verið rannsakað og tilraunir verið gerðar til nýtingar þess. Svæðið er nokkuð dreift, þ.e. viðnám í jörðu mælist lágt á mjög mörgum stöðum. Við Sveifluhálsinn og víðar er jarðhitinn áberandi á yfirborði, en annars staðar er hveravirkni vart sjáanleg.
Sveifluhálsinn er allur í landi Krýsuvíkur sem og fleiri „augu“ á þessu kerfi þar í grennd. Borholan kunna við Seltún er ein nokkurra hola sem þarna hafa verið boraðar, flestar upp úr 1970. Því miður gáfu þær ekki nógu góða raun. Hiti er mikill ofarlega í jarðlögunum (efstu 500 m) en lækkar síðan eftir því sem neðar dregur í stað þess að hækka. Þetta bendir til þess að holurnar séu of fjarri meginuppstreymi hitans sem í raun og veru er ekki þekkt ennþá.
Við Trölladyngju eru tvö mjög álitleg hitasvæði sem kenna má við Sog og Eldborg. Landamæri Krýsuvíkur liggja í gegnum þessi svæði. Ein hola var boruð á Eldborgarblettinum upp úr 1970 og mældist þar hæsta hitastig í borholu á svæðinu öllu eða um 260’C. Hann lækkaði hins vegar þegar neðar kom eins og í öðrum holum sem boraðar voru og olli það vonbrigðum. Heitt svæði við Sandafell er hluti háhitasvæðisins, en það er utan landamæra Krýsuvíkur. Þar hefur ekki verið borað.
Nokkuð er um liðið síðan þetta svæði var rannsakað og holurnar sem boraðar voru þættu ekki merkilegar í dag. Nauðsynlegt er að rannsaka svæðið allt á ný með nýjustu tækni og ef menn hyggja á nýtingu þarf að bora 2 – 4 holur. Efnasamsetning vatns- og gasinnihald bendir til að þarna streymi upp mun heitara vatn en fannst í gömlu holunum eða allt að 290’C. Það væri mjög álitlegt til virkjunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er minna rannsakað, þar hafa t.d engar holur verið boraðar. Orkustofnun hefur gert þarna viðnámsmælingar og birti um þær skýrslu haustið 1995. Niðurstöður gáfu skýra mynd af jarðhitasvæði sem þarna er og er það töluvert frábrugðið Sveifluháls-Trölladyngjusvæðinu, myndar meira eina heild eins og sést á kortinu. Hitastig á 700 – 800 m. dýpi er líklega um 240 °C en það gæti verið töluvert hærra á meira dýpi. Þetta svæði virðist efnilegt til nýtingar í framtíðinni. Hér erum við hins vegar komin í stórbrotna og lítt snortna náttúru og fara verður að öllu með gát.

Virkjun jarðhitans

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hagkvæmasta leiðin til að virkja háhitasvæði er að framleiða bæði raforku og heitt vatn. Heita vatnið er þá tekið út borholunum sem gufa við háan þrýsting og látið knýja hverfla og framleiða rafmagn. Afgangur orkunnar er síðan notaður til að hita upp ferskt vatn til húshitunar.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Ef einungis er framleitt rafmagn nýtast aðeins 10 – 15 % orkunnar, afganginum er kastað á glæ og það telst varla verjanleg nýting auðlindar sem annars myndi varðveitast að mestu í jörðu og nýtast komandi kynslóðum. Til umræðu hefur verið að nýta jarðhitann að hluta til iðnaðar á Straumsvíkursvæðinu og virðist það geta orðið vænlegur kostur. Þá gæti komið til greina raforkuvinnsla, iðnaðaraotkun og framleiðsla heits vatns, allt í senn. Kröfur Kyoto bókunarinnar gera okkur erfitt um vik að byggja frekari iðnvæðingu á brennslu eldsneytis og virkjanir á hálendinu eru umdeildar. Nýting jarðhitans getur skapað tækifæri sem eru laus við þessi vandamál bæði.
Nýtingu jarðhita á svæðum sem þessum má líkja við námavinnslu. Hitinn endurnýjast ekki og klárast því á endanum, nema eldgos eða kvikuinnstreymi eigi sér stað. Jarðhitinn er því ekki endurnýjanleg auðlind á sama hátt og vatnsaflið. Orkuinnihald einstakra svæða getur hins vegar verið geysimikið og kann að endast áratugum eða jafnvel öldum saman ef rétt er að nýtingu staðið.

Aðrir ásælast landið

Sog

Sog í Trölladyngju.

Eins og fram kom í síðustu grein eru rætur Trölladyngju að vestanverðu landamerki Krýsuvíkurlands. Þarna liggja landamærin í gegn um tvo heita reiti við Sog og Eldborg. Jarðirnar Stóra- og Minni Vatnsleysa eiga í þessum reitum einnig og er hlutur þeirra ámóta stór og Hafnfirðinga. Þessir landeigendur hafa talið sig eiga jarðhitann allan og viljað fá landamerkin færð upp í Grænavatnseggjar í fjalllendinu þarna fyrir ofan og notið stuðnings sveitarstjórnar Vatnsleysustrandarhrepps. Leitað var til Landbúnaðaráðuneytisins á árinu 1996 og beðið um atbeina þess í málinu. Eftir að ráðuneytið hafði legið yfir þessu í heilt ár var erindi landeigendanna loks synjað.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Hafnarfjarðarbær gerði samning við Reykjavfkurborg um hitaveitu í Hafnarfirði. 11. gr. hans hljóðar þannig: „Hitaveitan skal hafa rétt til jarðhitaleitar og virkjunar til húshitunar í eignarlandi Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Ef Hitaveitan rœðst til virkjunar í Krýsuvík ber henni að greiða bœjarsjóði Hafnarfjarðar hlutfallslega sama verð og hitaréttindin hafa kostað Hafnarfjarðarkaupstað samkvœmt mati á hitaréttindunum þegar kaupstaðurinn fékk þau, og hlutfallslegan kostnað hans af rannsóknum, sem fram hafa farið á jarðhitasvœðinu, samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þessi réttur Hitaveitunnar nær eingöngu til húshitunar og annarrar venjubundinnar notkunar Hitaveitu Reykjavíkur. Verðmæti þessi skal meta til verðs á sama hátt og Hitaveita Reykjavíkur notar til endurmats eigna sinna á sama tíma, sbr. 8. gr. Aðilar eru sammála um, að önnur notkun jarðhitans í Krýsuvík verði ákveðin þannig að möguleikinn til virkjunar til húshitunar verði tryggður.“ Ekki verður betur séð en að með þessu ákvæði sé Hitaveita Reykjavíkur orðinn eigandi jarðhitaréttindanna í Krýsuvík að miklu leyti. Þó er hugsanleg sú túlkun að jarðhitaréttur bæjarins á því svæði sem hann fékk ekki afsal fyrir (beitarland fyrir Gullbringusýslu) falli ekki undir þetta ákvæði og sjálfsagt að láta á það reyna.

Víti

Víti í Krýsuvík.

Lokaorð
Um þessar mundir er mjög til umræðu hvernig Hafnarfjörður skuli standa að orkumálum í framtíðinni og horft til samstafs við Suðurnesjamenn. Sjálfsagt er eiga samstarf við þá, en það á alls ekki að útiloka samstarf við nýtt orkufyrirtæki Reykvíkinga í þessum málum. En við þurfum að gæta okkar því báðir þessir aðilar ásælast jarðhitann í Krýsuvík. Við þurfum að gæta vel að stöðu okkar og hagsmunum. En við þurfum einnig að huga að því að Krýsuvíkurland er náttúruperla og eitt víðáttumesta útivistarsvæði á Suðvesturlandi. Við verðum að finna leiðir sem gera okkur kleift að nýta auðlindirnar á ábyrgan hátt án þess að spilla landinu varanlega.“

Heimild:
– Fjarðarpósturinn – 40. tölublað (26.11.1998) – I – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 41. tölublað (03.12.1998) – II – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (10.12.1998) – III – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.

Víti

Víti í Kálfadölum.

Hettustígur

Gengið var um forna stíga, götur og vegi á Sveifluhálsi. Allmörg örnefni eru tengd þessum leiðum yfir og eftir hálsinum.

Badstofa-26

Til nýjunga verður hins vegar að teljast nýlega merktur og stikaður Hettuvegur frá Ketilsstíg inn á Smérbrekkustíg og Krýsuvíkurleið um Rauðuskriðu. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður en hún  var merkt sérstaklega með nafninu „Hettuvegur“ því sá vegur er sunnan og vestan undir Hettu en ekki norðan hennar, eins hann hefur nú verið merktur. Ferðamenn á leið til eða frá Krýsuvík hefðu heldur aldrei farið að klifra upp hæðir og klungrast niður í dali til að komast þennan kafla þegar þeir gátu farið afliggjandi götu sömu leið. Þá virðast leiðsögumenn á svæðinu ekki vera með fjallsheitin á hreinu og bulla bara einhverja vitleysu.
Að þessu sinni var gengið um Drumbdalaleið, Steinabrekkustíg, Hettuveg, Smjörbrekkustíg og Hattur 26Ketilsstíg. Á göngunni uppgötvaðist a.m.k. ein áður óþekkt leið, sem hefur greinilega verið farin talsvert fyrrum.
Í örnefnalýsingum er þessara leiða getið. Gísli Sigurðsson skrifar m.a. um svæðið: „Spölkorn vestar er allhár melhóll Bleikhóll nefnist hann af lit sínum. Yrpuhóll er nokkru vestar og ber einnig nafn af lit sínum. Bleikhóll er gulbleikur, Yrphóll brúnn eða jarpleitur. Þá kemur hryggur lítill fram úr hálsinum og bak við eða vestan við hann er Seltún. Þar eru Seltúnshverir. Þar rennur Seltúnslækur en upptök sín á hann í Seltúnsgili. Seltúnshvammur er austan lækjarins og Seltúnsbrekka og upp liggur í hlykkjum og bugðum Ketilsstígurinn. Að líkindum hefur Seltúnssel verið hér í hvamminum. Á vesturbakka lækjarins stóð Brennisteinsnámahúsið. Það var gott og vandað hús í upphafi.

Hetta-26

En um 1920 var það nær eingöngu notað sem fjárhús. Seltúnsfjárrétt var við það. Í brekkunni vestan við gilið voru Brennisteinsnámurnar voru þær virkjaðar um aldabil, en með löngum hvíldum á milli. Hér uppi í brekkunni voru hverir og hétu ýmsum nöfnum, svo sem Hattshverir. Pínir eða Pínisströkkur. Hann kom upp eftir jarðskjálfta og lét mikið í honum, eins og í eimpípu gufuskips. Hann hvarf líka við jarðskjálfta og kom þá upp Fúlipollur. Dalhitur og Hechelshver getur Jónas Hallgrímsson um og svo er var Beygingahver. En um alla brekkuna voru hveraaugu. Niður undan Pínir var Pínisbrekka. Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin.

Hettuvegur-26Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver. Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þar fram undan er Gestsstaðavatn. Kringum það eru svo Gestsstaðamelar. Þess er vert að geta, að Gestsstaðavatn, Grænavatn, Augun og Stampar eru allt sprengigígar, eftir því sem jarðfræðingar telja. Hveradalalækurinn eystri rennur sem fyrr er frá sagt niður í Vaðlana og nefnist þar eftir þeim. Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri.
Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga. Vestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk.
Smerbrekkustigur-26Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur. Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur. En þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna. Einbúi er klettur enn vestar, en hjá honum sveigir vegurinn fyrir vesturenda Sveifluháls og sér hér inn í Drumbsdali. Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul. Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni.“

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Ennfremur: „Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg.

Fagraskjól

Fagraskjól.

Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.“

Krýsuvík

Krýsuvík – kort

Einnig: „Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn. Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sem hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.“

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af svæðinu segir m.a.: „Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi. Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi. Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur. Þar niður undan eru svo Drumbsdalir. Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur. Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur.“

Krýsuvík

Krýsuvík – Hveradalur.

Ennfremur: „Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir.

Kringlumýri

Kringlumýri – sennilega ein elsta selstaða landsins.

Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla. Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri).

Arnarvatn

Arnarvatn.

Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn, og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa. Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk, sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir.“
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík, Ari Gíslason skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík. Gísli Sigurðsson skráði.

Seltun-26

Í Seltúni.

Krýsuvíkurkirkja

Á Vísindavefunum má lesa eftirfarandi svar við spurningunni; „Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík?“:

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna Herdísar og Krýsu og smalans neðan Kerlingadals.

Í heild hljóðar spurningin svona:
Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.
Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512).

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.
Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna. Þjóðsöguna má lesa með því að smella HÉR.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Brunntorfuhellir

Kristbjörg Ágústsdóttir skrifaði um skógræktina í Brunntorfum (Brundtorfum/Brunatorfum) í Skógræktarritið árið 2012 undir fyrirsögninni „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar„:

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

„Um miðbik síðustu aldar hófu fjórir menn að gróðursetja tré í hrjóstrugu hrauni suður af Hafnarfirði. Skógrækt ríkisins átti landið en taldi ekki miklar líkur á því að þar gæti risið skógur. Í dag er þarna stór og mikill sjálfbær skógur, sambland náttúrulegs gróðurs og gróðursettra trjáa. Þetta svæði kallar fjölskylda höfundar „Hraunið“ og þangað hafa þrjár kynslóðir lagt reglulega leið sína til að gróðursetja, bera á, hlúa að, njóta og upplifa. Í þessari yfirlitsgrein er ætlunin að segja frá tilurð svæðisins og landnámsmönnunum fjórum og kynna svæði sem fleiri og fleiri eru að uppgötva. Greinin er byggð á BS ritgerð minni úr Umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006.
Í upphafi 6. áratugarins féll hluti jarðarinnar Straums, um 2000 ha, til Skógræktar ríkisins. Var það Bjarni Bjarnason, skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, sem gaf landið. Straumur var landstór jörð og þar hafði verið fjárbúskapur til margra ára. Landið var því mikið beitt, hrjóstrugt og ófrjótt og kallaði það á friðun og gróðursetningu. Svæðið, sem kallast Almenningur og er sunnan við Kapelluhraun í Hafnarfirði, var það fyrsta sem Skógræktin eignaðist nálægt höfuðborginni og var hafist handa við að girða af um 200 ha árið 1953.
Með nýjum skógræktarlögum, sem tóku gildi 1955, var skógræktarstjóra heimilt að leigja land til einstaklinga, félaga eða stofnana innan girðinga Skógræktar ríkisins, gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landið.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Þessi leigusvæði voru með erfðafestu og gerðir voru sérstakir samningar um þau. Þetta voru kallaðar landnemaspildur og fengu landnemar allar plöntur gefins en ekki mátti byggja á landinu.
Þrátt fyrir að svæðið í Straumi væri ókræsilegt til gróðursetningar voru fjórir félagar sem gerðu samning við skógræktina um leigu á landi. Þeir fengu hver 10 ha svæði í suðvestur hluta girðingarinnar. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson (1918–1986), Broddi Jóhannesson (1916–1994), Marteinn Björnsson (1913-1999) og Þorbjörn Sigurgeirsson (1917–1988). Það sem þessir menn áttu sameiginlegt, auk þess að vera tengdir fjölskylduböndum, voru hugsjónir þeirra, eldmóður og áhugi á náttúrunni. En hverjir voru þessir menn?

Upphafsmenn skógræktar í „Hrauninu“

Brunntorfuhellir

Brunntorfuhellir (Brundtorfuskjól).

Björn Þorsteinsson fæddist á Þjótanda í Villingaholtshreppi. Hann ólst upp á Hellu og í Selsundi undir Heklurótum. Hann var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands en hafði áður kennt bæði við Menntaskólann við Hamrahlíð og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Margar bækur og greinar liggja eftir hann, meðal annars Íslandssaga til okkar daga sem kom út eftir andlát hans. Vorið 1985 hlaut hann viðurkenningu fyrir ræktunarstörf sín í „Hrauninu“ frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir merkilegt framlag til umhverfismála á höfuðborgarsvæðinu. Björn lést árið 1986, 68 ára gamall.

Fornasel

Fornasel.

Broddi Jóhannesson fæddist í Litladalskoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann lauk doktorsprófi í sálarfræði í München 1940 og fór þá að kenna við Kennaraskólann, en þar tók hann við skólastjórastöðu árið 1962.

Broddi Jóhannesson

Broddi Jóhannesson.

Árið 1971 varð skólinn að Kennaraháskóla Íslands og var Broddi rektor hans til ársins 1975. Broddi setti sitt mark á þróun kennaramenntunar á Íslandi með hugsjónum sínum og dug. Hann var mikill náttúruunnandi og náttúruverndarsinni löngu áður en talað var um menn sem slíka. Broddi lést árið 1994, 78 ára gamall.
Marteinn Björnsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann lauk prófi í verkfræði við Danmarks Tekniske Højskole árið 1944 og vann sem verkfræðingur hjá Bæjarverkfræðingnum í Reykjavík og Almenna byggingafélaginu meðal annars en einnig var hann með sjálfstæðan rekstur.

Þorbjörn Sigurgeirsson

Þorbjörn Sigurgeirsson.

Lengst af starfaði Marteinn sem byggingafulltrúi Suðurlands með aðsetur á Selfossi (1958–83). Marteinn lést árið 1999, 86 ára gamall.

Þorbjörn Sigurgeirsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var doktor í eðlisfræði og frumkvöðull greinarinnar á Íslandi. Hann var meðal annars forstöðumaður Eðlisfræðistofnunar frá upphafi hennar árið 1958 til ársins 1966. Þorbjörn starfaði fyrst og fremst sem tilraunaeðlisfræðingur og jarðeðlisfræðingur og varð þjóðkunnur fyrir hraunkælingu við eldgos í Heimaey árið 1973. Þorbjörn lést árið 1988, 70 ára gamall.

Í upphafi höfðu menn ekki mikla trú á að hægt væri að rækta skóg í „Hrauninu“.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Það var í raun tilraunastarfsemi hjá Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra að láta þá félaga hafa landið til að sjá hvort það væri hægt. Á Hákon að hafa sagt við Björn eitt sinn að þetta hafi gengið betur en hann hafði búist við þar sem hann hafði talið landið vera allt of þurrt. Þrátt fyrir að búið væri að girða svæðið var ekki friður fyrir sauðfé, þarna voru frekar og heimavanar kindur sem fóru í gegnum allar girðingar. Suðurhluti girðingarinnar var að auki lélegur, þoldi illa snjó og var til vandræða. Girðinguna var reynt að laga á hverju vori og dró þá aðeins úr ágangi sauðfjár, nægjanlega til að í ljós kæmu ýmis fjölgresi sem ekki höfðu sést áður.

Gróðursetning og trjátegundir í „Hrauninu“

Fornaselsvarða

Fornaselsvarða.

Aðkoma Kristins Skæringssonar að „Hrauninu“ var tengd starfi hans hjá Skógrækt ríkisins, fyrst sem starfsmaður í plöntuafgreiðslu og síðar sem skógarvörður Suðvesturlands. Kristinn fylgdist með þeim félögum við skógræktarstörfin og gaf þeim ráðleggingar. Það var aðallega stafafura sem var gróðursett, enda landið rýrt og hentaði fyrir furuna, en einnig voru gerðar tilraunir með margar aðrar tegundir. Plönturnar voru til reiðu hjá Skógræktinni svo lengi sem þeir tóku við. Mikið var gróðursett í upphafi og þétt en ekki mikið klippt frá þar sem verið var að hugsa um skjólið.

Hellishólsskjól

Hellishólsskjól.

Eftir að Marteinn hóf störf á Suðurlandi árið 1958 og flutti á Selfoss fékk hann svæði fyrir austan og lagði áherslu á ræktun þess. Broddi gróðursetti heilmikið í „Hrauninu“ en fékk síðar land á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem hann gróðursetti. Það voru því Björn og Þorbjörn sem sinntu „Hrauninu“ langmest. Þeir gengust upp í þessu og hrifu fólk með sér. Einn af þeim sem hreifst með var Arngrímur Ísberg og fékk hann úthlutað svæði við hlið Marteins árið 1980.
Í gegnum árin gengu félagarnir um svæðið og báru á áburð en einnig voru gerðar tilraunir með lífrænan heimilisúrgang. Auk þessa var gróðursett lúpína í leirflög til að undirbúa jarðveg betur. Þessi vinna bar þann árangur að allskonar gróður fór að spretta sem enginn vissi að væri til staðar eins og blágresi og fleiri blómategundir.

Hellishólshellir

Hellishólsskúti.

Félagarnir reyndu að gróðursetja Bæjarstaðabirki en einhverra hluta vegna gekk það ekki, það þreifst illa og lognaðist út af. Það var ekki fyrr en upp úr 1980, þegar girðingin varð loks fjárheld, að náttúrulega birkið tók aðeins við sér þegar kindin, eða ókindin eins og „Hraunverjar“ kölluðu hana, fór og eftir árið 1990 tók það virkilega við sér. Einirinn tók einnig við sér og reis upp og burknar sýndu sig í hellisskútum.
Stafafura er ríkjandi tegund í „Hrauninu“ en einnig má þar finna sitkagreni, rauðgreni, broddfuru, lindifuru (alpa-afbrigði), alaskaelri og þöll en ekki í miklum mæli. Mikið var reynt við lerki en því virtist ekki líka vel vistin, hvorki rússalerki né síberíulerki. Þar er einnig að finna tvo silfurreyni og töluvert af ilmreyni en hjónin Arngrímur og Bergljót týndu reyniber, dreifðu yfir birkikjarr og létu svo fuglana um afganginn. Í viðtali orðaði Arngrímur afraksturinn á þann hátt að: „þegar maður lítur yfir þessi ár sem við höfum verið þarna þá finnst mér að ávöxturinn hafi verið meiri og betri en maður bjóst við“.

Mörk svæðisins

Fornasel

Vatnsból í Fornaseli.

„Hraunið“ afmarkast af landamerkjum sem gerð voru fyrst á korti 1955 og svo endurgerð á korti 1989 og þá hnitsett. Alls er svæðið um 55 hektarar og er innan vatnsverndarsvæðis Hafnarfj arðar, að hluta til innan grannsvæðis (vatnsvernd II) og að hinum hluta innan fjarsvæðis (vatnsvernd III).
Frá Krýsuvíkurvegi liggur slóði inn á svæðið sem greinist í tvennt. Þetta er einbreiður, grófur malarslóði og er á köflum aðeins jeppafær. Ekki eru nein bílastæði en við enda slóðanna er breikkun þar sem hægt er að snúa við bíl. Girðing er umhverfis hluta svæðisins sem er orðin mjög léleg og liggur niðri á köflum. Með því að fjarlægja girðinguna og opna svæðið væri auðveldara fyrir fólk að fara þar um og njóta þessarar leyndu náttúruperlu. Stigi er yfir girðingu á einum stað en hann er orðinn fúinn og hættulegur.

Gjásel

Gjásel.

Tvær þekktar minjar eru í „Hrauninu“. Fyrst skal nefna fallega hlaðna fjárborg sem er heilleg, en hún varð fyrir skemmdum í jarðskjálftanum 1968 sem átti upptök sín í Krýsuvík. Fjárborgin nefnist Þorbjarnarstaðarborg og var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Tóftir eru af seli sem talið er að hafi tilheyrt Þorbjarnarstöðum, nefnt Fornasel. Við Fornasel er stórt vatnsból nánast í miðju tóftanna en þær eru af húsi og eldhúsi nokkru fjær. Sumarið 2002 gróf Bjarni Einarsson fornleifafræðingur í tóftirnar og kom í ljós að þær virtust vera frá því um 1400–1500. Það var Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar sem stóð að þessari rannsókn.

Marteinn Björnsson

Marteinn Björnsson.

Rétt utan við skógræktarsvæðið eru tóftir af Gjáseli. Töluvert er af vörðum á svæðinu og eru þær ýmist leiðarvörður eða landamerkjavörður.

Nokkuð er um gönguleiðir á svæðinu og hafa Loftmyndir ehf. gefið út göngukorti af Reykjanesi. Hluti gönguleiðanna eru gamlar þjóðleiðir til Hafnarfjarðar, til dæmis Hrauntungustígur. Aðrar gönguleiðir eru til að mynda Gerðarstígur sem liggur frá Straumsvík upp í Gjásel og Straumselsstígur samsíða en vestar, frá Straumsvík að Straumsseli.
Á síðustu árum hefur Sigurgeir Þorbjörnsson, sonur Þorbjörns Sigurgeirssonar, verið duglegur við að marka stíga innan svæðisins ásamt fjölskyldu sinni. Einnig er byrjað að hnitsetja stígana og er vilji til að útbúa skilti sem sýna gönguleiðir og segja frá sögu svæðisins, tilurð þess og minjum.

Gránuskúti

Gránuskúti við Gjásel.

Framsýni landnámsmannanna var mikil og ber að þakka þeim öllum fyrir dugnað þeirra og þrautseigju. „Hraunið“ er arfleið þeirra til komandi kynslóða.“

Sjá meira um skógrækt í Brunntorfum HÉR.

Heimild:
-Skógræktarritið 2012, 2. tbl., Skógræktarfélag Íslands; Kristbjörg Ágústsdóttir, „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, bls. 8-13.
http://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/03/Rit2012-2-lr.pdf

Brunntorfuhellir

Í Brunntorfuhelli. Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði: „Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur. Þá er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“ [Hér ruglað saman Fornaseli annars vegar og Gjáseli hins vegar, þ.e. hið síðarnefnda er nefnt „Fornasel“. Við það er nefndur Gránuskúti. – ÓSÁ]

Krýsuvík

FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.

 „Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.

,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu. 

Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.

„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“

Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.

Seltún

Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“

Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Landvinningar á Reykjanesi“ um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

„Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

„Brunnurinn“ (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt „Brunnsel“, sbr. „Brunntorfur“. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Gjár

Ómar Smári Ármannsson skrifaði um „Kaldársel og nágrenni“ í Fjarðarpóstinn árið 2002:

Kaldársel og nágrenni

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

„Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum.

Kaldársel

Kaldársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna er felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt við þau til búsetu.

Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.

Heimildir frá 1703
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Útlendir ferðamenn

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1882.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. A hans tíma voru í Kaldárseli nokkrar byggingar, matjurtagarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr.

Kaldársel

Kaldársel eftir uppdrætti Daniels Bruun – teikning ÓSÁ.

Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum.

Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Síðasti bóndinn í Kaldárseli
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Letursteinar KFUM-K

Kaldársel

Kaldársel – einn letursteinanna.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM  og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsisins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfir Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi.

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlu ljósmyndum frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.
Eins og sjá má þarf ekki að ganga alla leið á Helgafell til að finna tilefni til gönguferða í kringum Kaldársel.“

Sjá meira um Kaldársel og  nágrenni m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (31.10.2002), Ómar Smári Ármannsson, Kaldársel og nágrenni, bls. 4.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá.

Flensborg

Eftirfarandi ávarp Ingvars Gíslasonar, menntamálaráðherra, er hann flutti á afmælishátíð Flensborgarskóla, gat að lesa í Lesborg Morgunblaðsins árið 1982 undir fyrirsögninni „Fyrsti kennaraskóli landsins„:

Flensborgarskóli„Í dag er mikill hátíðisdagur í Flensborgarskóla. Liðin eru á þessu ári 100 ár frá stofnun hans, og þess er nú minnst á veglegan hátt við skólaslit. Flensborgarskóli er því með allra elstu skólum í landinu og á sér hina merkustu sögu.
Ég vil leyfa mér að benda áheyrendum á að kynna sér sögu Flensborgarskóla í 100 ár og persónusögu þeirra mikilhæfu manna, sem mestu hafa ráðið um störf skólans þetta tímabil. Það er menntandi út af fyrir sig að kynnast mönnum og málefnum tengdum Flensborgarskóla. Í ljós mun koma að áhrif skólans á þróun almennra skólamála í landinu og þjóðlífið að sínu leyti, eru mikil og eftirtektarverð.
FlensborgarskóliFlensborgarskóli skipar virðulegan sess í skólasögu Íslendinga og það svo, að sumt í starfi hans hefur skipt sköpum í sögu íslenskra skólamála. 100 ár eru að vísu langur tími, og margt hlýtur að gerast á heilli öld í þjóðarævi. En síðustu 100 ár skera sig úr öðrum öldum Íslandssögunnar vegna hinna miklu og öru breytinga sem orðið hafa á þjóðarhögum. Þetta á ekki síst við um skólamál.
Varla er hægt að segja að verulegar umræður um stofnun almennra skóla komi til fyrr en um og eftir miðja 19. öld, eða jafnvel síðar, og framkvæmdir í þeim efnum voru býsna hægfara lengi framan af. Eiginlegur vöxtur skólakerfisins gerist reyndar ekki fyrr en á þessari öld og þá á nokkrum síðustu áratugum öðrum fremur. Svo stutt er saga almennra skóla á Íslandi.
FlensborgFlensborgarskólinn ruddi nýjar brautir í skólamálum á sinni tíð ásamt Möðruvallaskóla, sem stofnaður var um svipað leyti á Norðurlandi. Þessir tveir skólar eru fyrstu gagnfræðaskólar landsins þar sem unglingum voru kenndar almennar námsgreinar eftir að barnafræðslu var lokið. Miðað við skólamenntunaraðstöðu í landinu á þeirri tíð var það ekkert lítilræði fyrir menn að stunda nám í Flensborg eða á Möðruvöllum, enda voru gagnfræðingar frá þessum skólum taldir til menntamanna og voru eftirsóttir til vandasamra starfa og félagsmálaforystu. Því var það að á fyrri hluta þessarar aldar mátti finna í hópi forystumanna í landinu fjölmarga Flensborgara. Þannig síuðust áhrifin frá skólanum víða um þjóðlífið. Og reyndin er sú að Flensborgarskólinn var lengst af kunnur sem merkur gagnfræðaskóli á gamla vísu, sem skólinn var að meginstefnu allt frá stofnun 1882 fram til þess að honum var breytt í fjölbrautaskóla árið 1975, samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið. Reyndar hafði skólinn nokkru áður stofnað framhaldsdeildir og stefnt að því að búa nemendur undir stúdentspróf.

Flensborg

Stefán Júlíusson.

Fyrsti kennaraskóli landsins
En vafalaust er þó sá þáttur Flensborgarsögu merkastur og minnisstæðastur, að Flensborgarskólinn er fyrsti kennaraskóli á Íslandi. Á þessu vori eru 90 ár síðan Flensborgarskóli brautskráði fyrstu sérþjálfuðu kennarana á Íslandi samkvæmt sérstakri reglugerð um kennaranámskeið, sem skólanum hafði verið sett. Frá 1896—1908 starfaði föst kennaradeild við Flensborgarskóla, og hún var ekki lögð niður fyrr en Kennaraskóli íslands tók til starfa 1908. Eftir það gegndi Flensborgarskóli áfram aðalhlutverki sínu sem gagnfræðaskóli í Hafnarfirði, sem þó var sóttur af nemendum víða að af landinu og hafði algera sérstöðu áratugum saman ásamt Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem nú er menntaskóli.
Það er varla hægt að segja sögu Flensborgarskóla í færri orðum en ég hef gert, og mannanöfn hef ég ekki nefnt  í þessari frásögn. Því má þó ekki gleyma að þessi skóli var stofnaður af merkum mönnum, og honum hafa ætíð stjórnað mikilhæfir skólamenn, og hér hafa starfað ágætir kennarar mann fram af manni. Ég vil leyfa mér að þakka öllum — lifandi og látnum — sem unnið hafa Flensborgarskóla, og innt af hendi ágæt störf á þessu aldarskeiði. Nöfn þeirra eru geymd en ekki gleymd.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki má þó láta ógetið stofnenda skólans, sr. Þórarins Böðvarssonar í Görðum og konu hans, Þórunnar Jónsdóttur. Þau voru að vísu stórefnafólk, en við skulum minnast þess að þau létu stofna Flensborgarskóla sem einkaskóla og sjálfseignarstofnun og gáfu skólahús og allstóra bújörð með öllum húsum til skólahaldsins. Það er vandasamt nú að meta þessa gjöf til fjár þannig að nútímamenn skilji hvers virði hún var peningum, en engin smágjöf var þetta, heldur stórgjöf til menningarmála, sem varla á sinn líka. Einnig vil ég minnast fyrsta skólastjórans, Jóns Þórarinssonar, sem reyndar var sonur stofnenda, en Jón Þórarinsson var fyrir margra hluta sakir tímamótamaður í sögu íslenskra fræðslumála. Barátta hans á Alþingi og virk forganga hans fyrir kennaramenntun mun lengi halda minningu hans lifandi. Auk þess varð hann síðar æðsti embættismaður yfir almennum fræðslumálum í landinu og mikill áhrifamaður í þeim efnum.

Í fararbroddi enn í dag
Þannig getum við rakið sögu Flensborgarskóla og þeirra sem við hann hafa starfað og hljótum að sannfærast um að skólinn hefur verið farsæl stofnun og gegnt hlutverki sínum með ágætum alla tíð. Það er vissulega gott að eiga góða fortíð. Það hlýtur að vera skólanum styrkur og hvatning. En ég vil þó umfram allt minnast skólans eins og hann er í dag og þakka núverandi skólameistara og kennurum og nemendum fyrir það sem Flensborgarskóli er á líðandi stund. Skóli á að vera lifandi stofnun handa lifandi fólki. Og það veit ég að Flensborgarskólinn er.
Skólinn gerist e.t.v. gamall að stofni til, orðinn 100 ára, en hann er ekki rykfallinn og enginn safngripur. Flensborgarskólinn tekur þátt í framsæknu skólastarfi af lífi og sál og hefur tekið að sér ný hlutverk af áhuga og einurð. Miklar breytingar hafa verið að gerast í skólanum síðustu 10 ár, og það hefur einmitt komið í hlut núverandi skólameistara að fylgja þeim eftir. Flyt ég honum og samstarfsmönnum hans þakkir og árnaóaróskir.
Ég óska Flensborgarskóla innilega til hamingju með 100 ára afmælið.“

Stefán Júlíusson skrifaði um sögu Flensborgarskólans í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1962:

„Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, vitnuðu mörg örnefni í bænum um starfsemi erlendra manna á liðnum öldum. Þar var Hellyersstöð, Brydehús, Hansensbúð, Haddensbryggja, Linnetsstígur, Proppélóð. Sum þessara örnefna voru ný, önnur aldagömul, enda mátti svo heita, að Hafnarfjörður væri vettvangur erlendra kaupsýslu- og útgerðarmanna frá því um aldamótin 1400 og fram á þriðja tug þessarar aldar.

Flest þessi nöfn eru nú horfin, eða að hverfa. Enn hef ég þó ekki nefnt það útlenda heitið, sem einna oftast var á vörum fólks, og raunar var landskunnugt, en það er Flensborg. Og þetta heiti mun ekki hverfa úr sögunni, þótt önnur erlend nöfn týni nú óðum tölunni, því að gagnfræðaskólinn í bænum hefur nú borið þetta nafn í átta áratugi, og engar líkur eru fyrir því, að þar verði breyting á gerð. Enda er svo ráð fyrir gert í ráðuneytisbréfi frá árinu 1932, að skólinn skuli framvegis heita Flensborgarskóli, eins og hann hafði þá verið kallaður í hálfa öld.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Það er naumast nema von, að ég velti því fyrir sér, hvers vegna Hafnfirðingar telja það sjálfsagt og eðlilegt, að framhaldsskóli þeirra ber þetta gamla, danska nafn. Eins mætti líka spyrja: Hvernig stendur á þessu nafni í bænum, og hvers vegna hefur það unnið sér slíkan þegnrétt í hugum bæjarbúa og landsmanna allra? Skólar á Íslandi bera yfirleitt ekki erlend nöfn, og fremur hefur verið hamlað gegn því á undanförnum áratugum, að opinberar stofnanir beri útlend heiti. Flensborgarar settu ávallt allmikinn svip á bæinn , þegar ég var að alast upp, og í fyrstu þótti mér þetta auðkennisheiti skólafólksins þar dálítið furðulegt. En þegar ég var sjálfur orðinn nemandi í skólanum, hefði ég ekki annað viljað kallast en Flensborgari, þótt við skólafélagarnir værum stundum kallaðir Flensarar í háðungarskyni, ef einhver þóttist eiga okkur grátt að gjalda.
Flensborg í Hafnarfirði dregur nafn sitt af jósku borginni Flensborg, en hún stendur sunnarlega á Jótlandi, í Slésvíkurhéraði, sem ásamt Holtsetalandi var löngum þrætuepli Dana og Þjóðverja. Nú eru landamærin rétt norðan við borgina, og mun hún vera nokkru stærri en Reykjavík. Frá þessari suðurjózku borg komu kaupmenn   til Hafnarfjarðar fyrir um það bil eitt hundrað og áttatíu árum og reistu sér síðar verslunarhús fyrir botni fjarðarins, þar sem hann gengur lengst inn í landið að sunnanverðu.
FlensborgEkki verður fyllilega séð af gögnum, hvaða ár þetta var, en líkur mæla með því, að þeir hafi byggt árið 1794. Tóku þeir lóðina á leigu af konungi. Var hinn nýi verslunarstaður kallaður eftir heimaborg þeirra, og festist nafnið fljótt við staðinn. Var þetta allmikið landsvæði, enda þurfti töluvert olnbogarými fyrir verslun á þeirri tíð. Seinna keypti verslunin svo landareignina.
í Flensborg var verslað til ársins 1875, og voru margir verslunarstjórar á þeim átta til níu áratugum, sem þar var verslað, ýmist danskir eða íslenskir. Afkomendur þeirra sumra urðu merkir menn í íslensku þjóðlífi. Má meðal þeirra nefna Thorgrímsen verslunarstjóra á Eyrarbakka og Morten Nansen skólastjóra í Reykjavík, sem báðir voru fæddir í Flensborg í Hafnarfirði. Gísli J. Johnsen stórkaupmaður mun vera afkomandi Flensborgarkaupmanna.
En árið 1876 urðu mikil þáttaskil í sögu Flensborgar. Það voru þessi þáttaskil, sem urðu því valdandi, að nafnið lifir til þessa dags og mun halda áfram að lifa um ókomin ár. Þá keypti íslenskur maður Flensborgareignina, ekki í því augnamiði að reka þar áfram verslun, heldur til þess að setja þar á stofn barnaskóla fyrir Garðaprestakall á Álftanesi. Þetta var harla merkilegt tiltæki af kaupandanum, í rauninni einstakt framtak, því að á þeirri tíð var enn næsta lítið hugsað fyrir alþýðumenntun og barnafræðslu með föstu sniði.
Sá, sem keypti Flensborgareignina í þessum tilgangi fyrir áttatíu og sex árum, var prófasturinn í Görðum, sr. Þórarinn Böðvarsson. Seljendur voru Knudtzonfeðgar, sem lengi höfðu verið athafnasamir kaupmenn í Hafnarfirði, enda var ætt þeirra kunn kaupsýsluætt í Danmörku. Ári síðar en kaupin voru gerð, stofnuðu þau prófastshjónin í Görðum skólasetur í Flensborg og gáfu til þess miklar eignir, svo skólinn gæti orðið sjálfseignarstofnun, er stæði sem mest á eigin fótum. Skólann stofnuðu þau til minningar um son sinn, Böðvar, er andaðist árið 1869, 19 ára gamall, þá nemandi í lærða skólanum í Reykjavík. Var Böðvar bráðefnilegur piltur, góður námsmaður og hvers manns hugljúfi. Gjafabréf þeirra prófastshjóna er á þessa leið:

Flensborg

Ómar Smári Ármannson, Inspector Scholae í Flensborg 1875-’76, með Páli Þorleifssyni, húsverði. Axel, Sigurður og Gunni Einars í bakgrunni.

Síðan forsjóninni fyrir 8 árum síðan þóknaðist að svipta okkur hjónin okkar elskaða syni Böðvari, hefur það verið ósk okkar að heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar, og höfum við í þessum tilgangi afsalað og gefið til stofnunar alþýðuskóla þær fasteignir, er nú skal greina:
1. Húseign okkar í Flensborg í Hafnarfirði með þar tilheyrandi túni og annarri lóð, eins og hún er afsöluð með afsalsbréfi hins fyrra eiganda, stórkaupmanns P. C. Knudtzons, dags. 17. júlímán. f.á.
2. Eignarjörð okkar, heimajörðina Hvaleyri í Álftaneshreppi í Gullbringusýslu, 18.3 hndr. að dýrleika eftir nýju mati, með tilheyrandi húsum.

Um þessa gjöf lýsum við yfir þeim vilja okkar, að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla, að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.

Flensborg

Stjórn Nemedafélags Flensborgarskóla 1975-’76. Þarna má sjá marga þjóðþekkta einstaklinga.

-að hún verði höfð til stofnunar alþýðuskóla,
-að þessi skóli verði fyrst og fremst barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi.
-að hann þar næst, eftir því sem efni og kringumstæður leyfa, jafnframt verði almennur menntunarskóli, þar sem kostur sé á að afla sér þeirrar þekkingar, sem álíta má nauðsynleg hverjum alþýðumanni, er á að geta kallast vel að sér.

Flensborg

Inga Blandon, kennari, og Ólafur Þ. kristjánsson, skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Enn fremur er það vilji okkar, að skólinn og skólaeignirnar séu undir stjórn þriggja manna nefndar, er stiftsyfirvöldin yfir Íslandi skipi, en að stiftsyfirvöldin hafi yfirumsjón með skólanum og gæti þess, að efnum hans sé varið samkvæmt tilgangi gjafarinnar, svo og, að stiftsyfirvöldin eftir tillögum skólanefndarinnar setji reglugerð fyrir skólann um allt fyrirkomulag hans og stjórn. Fyrir því afsölum við hér með frá okkur og okkar erfingjum í hinu umrædda augnamiði ofannefnda húseign og jörð, og eru eignir þessar upp frá þessu fullkomlega heimilar til allra umráða og afnota handa slíkri skólastofnun, sem að ofan er um getið, en verða undir okkar umsjón þangað til skólanefnd hefur verið skipuð og hún getur tekið við umráðum yfir þeim; Görðum, 10. ágúst 1877 – Þórarinn Böðvarsson / Þórunn Jónsdóttir.“

FlensborgVerslunarhúsið í Flensborg, sem nú varð skóli, var mikil bygging og traustlega byggt. Það var reist upp úr 1812, en þá brann fyrsta verslunarhúsið í Flensborg. Byggingin var næstum 20 m löng og 9 m breið, með háu risi, sem sneitt var við báðar burstir. Byggingarlistin var dönsk, og má enn sjá mikil hús af þessari gerð frá valdadögum Dana á ýmsum stöðum hér á landi. Ekki þurfti að nota allt húsið til kennslu, enda hafði það bæði verið íbúð verslunarstjórans, skrifstofur og búð. Varð Flensborg nú um skeið sýslumannssetur, eða fram undir áratug, til ársins 1887. Barnaskólinn var til húsa í norðaustur-endanum, sýsluskrifstofan í hinum endanum, en sýslumaður bjó uppi.

Flensborg

Kristján Bersi Ólafsson, kennari og skólastjóri. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Vísir að fastri barnakennslu hafði komist á fót í Hafnarfirði nokkru áður, þótt mjór væri, svo að telja má, að í bænum hafi verið föst barnakennsla í um það bil 90 ár. Þorsteinn Egilsson cand. theol., sonur Sveinbjarnar Egilsson rektors og tengdasonur sr. Þórarins í Görðum, byrjaði að kenna börnum tveim árum áður en skólinn í Flensborg tók til starfa. Hann var einnig fyrsti kennari þar.

Áður en lengra er haldið, er rétt að gera hér grein fyrir því, hversu mikil sú gjöf var, sem prófastshjónin í Görðum gáfu til skólahaldsins. Húsið sjálft var metið á 10.000 kr., geymsluhús á 450 kr., þriggja dagslátta tún og kálgarðar á 750 kr. Heimajörðin á Hvaleyri, sem skyldi renna stoðunum undir skólahaldið, var metin á 2.200 kr. Nokkrum árum seinna bætti svo sr. Þórarinn við strandlengjunni með fram Flensborgarlóðinni, sem hann keypti í þeim tilgangi og metin var á 1000 kr. Auk þess gaf hann þá skólanum ágóða af óseldum eintökum af Lestrarbók handa alþýðu, sem hann hafði gefið út þjóðhátíðarárið 1874. Alþýðubókin var hið merkasta rit og vitnar mætavel um hug sr. Þórarins til alþýðumenntunar, áður en hann stofnaði skólann í Flensborg. Til marks um það, hve Alþýðubókin var mikill aufúsugestur á heimilum víða um land, má geta þess, að þegar skáldið Örn Arnarson var beðið að yrkja vígsluljóð, er nýja Flensborgarskólahúsið á Hamrinum var tekið í notkun haustið 1937, lét hann svo ummælt, er hann varð við þessum tilmælum, að sér væri ljúft að minnast útgefanda Alþýðubókarinnar. Ekki er nú vitað, hve mikið hefur runnið til skólans fyrir bókina, en gjöf þeirra prófastshjóna hefur alltaf numið allt að 15 þús. kr. Varla munu tök á því að umreikna þessa fjárhæð nákvæmlega í núgildandi peninga, en víst er, að gjöfin hefði skipt milljónum í dag, þótt ekki væri að öllu leyti reiknað með breyttum aðstæðum.

Flensborg

Halldór Ólafsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars]

Barnaskóli var í Flensborg í átján ár, eða til ársins 1895. En þremur árum eftir að skólinn tók til starfa, kom hinn nýstofnaði Bessastaðahreppur á fót hjá sér skóla þar úti á nesinu. Grímur skáld Thomsen á Bessastöðum mun hafa átt frumkvæðið að þessari skólastofnun. Var því fleygt, að hann hefði að öðrum þræði gert það til að skaprauna nágranna sínum, sr. Þórarni í Görðum, og draga frá skólanum í Flensborg. Hann hafði frá upphafi fengið nokkurn opinberan styrk, en nú hlaut skólinn úti á nesinu að fá hluta af honum. Þótt grunnt væri á því góða með þeim prófastinum í Görðum og skáldinu á Bessastöðum, og þeir eltu stundum grátt silfur saman, þarf þessi skólastofnun úti á nesinu ekki að hafa verið af þeim toga spunnin, því að óneitanlega var erfitt fyrir börn framan af nesi að sækja skóla inn í Hafnarfjörð. En hvort sem þessir úfar með þeim stórmennunum hafa valdið eða ekki, varð þessi skólastofnun úti á nesinu meðal annars til þess, að sr. Þórarinn tók að hyggja að skólanum í Flensborg á nýjan leik. Og þessi athugun leiddi til þess, að þau prófastshjónin í Görðum breyttu gjafabréfi sínu árið 1882 og stofnuðu gagnfræðaskólann í Flensborg. Þá bættu þau líka við gjöfina, eins og áður var rakið. Og nú gátu þau hjónin lagt skólanum til meira en hús, land og fé: Nú varð sonur þeirra, Jón, skólastjóri hins nýja gagnfræðaskóla. Hafði hann með námi erlendis beinlínis búið sig undir skólastjórnina. Það var einstætt á þeirri tíð.

Flensborg

Einar Bollason, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Sr. Þórarinn Böðvarsson var mikill umsýslu- og búmaður og kunni vel að sjá fótum sínum forráð á veraldlega vísu. Með því að láta Jón son sinn búa sig undir skólastjórn í Flensborg, sló hann tvær flugur í einu höggi: Hann sá syni sínum fyrir framtíðaratvinnu, og hann tryggði óskabarni sínu, skólanum í Flensborg, trausta og farsæla stjórn gegnum brim og boða í upphafi siglingar. Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að hagsýni sr. Þórarins hefur ekki síður miðað að því, að skólastofnun þeirra hjóna færi ekki forgörðum, þótt þeirra missti við. Ekki hefur hann lagt sig minna fram um þetta, eftir að hann fann andann frá skáldinu á Bessastöðum og öðrum öfundarmönnum. Hann hefur treyst syni sínum vel til starfans, og þar reyndist hann sannspár og giftudrjúgur, því að Jón Þórarinsson hafði erft traustleika og raunhyggju föður síns í ríkum mæli. Auk þess var hann mikill skólamaður og frumkvöðull í þeim efnum, svo að engin ráð voru ráðin í skólamálum um hans daga nema hann kæmi þar til, enda varð hann fyrsti fræðslumálastjórinn árið 1908. Þeir feðgar mótuðu þannig í sameiningu starfsemi skólans í Flensborg á byrjunarskeiði hans, en sr. Þórarinn sat að sjálfsögðu í skólanefndinni til dauðadags árið 1895.

Flensborg

Jón Thor Haraldsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Miklar breytingar urðu í Flensborg, eftir að gagnfræðaskólinn var stofnaður þar árið 1882 og Jón Þórarinsson tekinn við skólastjórn. Húsið var stækkað með því að setja tvo kvisti þvert yfir það, og var það íbúð skólastjóra æ síðan, meðan húsið stóð. Þegar sýslumannssetrið var flutt þaðan árið 1887, var sett þar á stofn heimavist. Nokkru síðar var allmikill tómstundaskáli byggður norðan við húsið, þar sem skólapiltar iðkuðu leika og smíði, en seinna var bókasafn skólans, Skinfaxi, þar til húsa. Um skeið störfuðu þrír skólar í Flensborg, barnaskóli, gagnfræðaskóli og kennaraskóli. Kennaradeildin var sett á stofn tíu árum eftir að gagnfræðaskólinn tók til starfa. Var hún fyrst 6 vikna vornámskeið að gagnfræðaprófi loknu, en gagnfræðaskólinn var þá tveggja vetra skóli. En árið 1896 varð hún eins konar 3. bekkur og starfaði í 7 1/2 mánuð árlega. Þetta var fyrsti kennaraskóli á Íslandi, og eru því á þessu ári 70 ár liðin frá því að reglubundin kennsla undir kennarastarf hófst hér á landi. Þessi fyrsti kennaraskóli komst á fót fyrir áhuga, dugnað og framsýni Jóns Þórarinssonar skólastjóra. En ekki væri sanngjarnt að geta þar að engu samverkamanns hans, Jóhannesar Sigfússonar kennara í Flensborg, sem studdi hann með ráðum og dáð í þessum framkvæmdum, enda var hann hinn merkasti skólamaður.

Flensborg

Hallgrímur Hróðmarsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Árið 1906 var byggt sérstakt skólahús á Flensborgarlóðinni, snertispöl norðan við gamla húsið. Þetta nýja skólahús var einlyft, 18 m langt og 9 m breitt; í því voru 3 kennslustofur, góður gangur og kennaraherbergi. Þetta hús entist skólanum í rúm 30 ár. Við þessa byggingu rýmkaðist mjög um heimavistina í gamla húsinu, svo að nú rúmaði hún 28 pilta, en áður komust þar fyrir helmingi færri. Eins og alkunnugt er, voru fyrstu almennu fræðslulögin sett hér á landi árið 1907. Ekkert sýnir betur gengi Flensborgarskólans um þessar mundir en það, að þegar kom til að framkvæma þessi lög (árið eftir), urðu kennarar frá Flensborg til að hafa þar á hendi forustuna. Skólastjórinn, Jón Þórarinsson, gekk inn í hið nýja embætti fræðslumálastjóra, og annar kennari þaðan, sr. Magnús Helgason, varð skólastjóri nýstofnaðs kennaraskóla í Reykjavík. Hann hafði komið að skólanum árið 1904, þegar Jóhannes Sigfússon varð yfirkennari við menntaskólann, en raunar hafði hann verið kennari þar fyrsta vetur gagnfræðaskólans, áður en hann gerðist prestur.
FlensborgÞriðji kennarinn í Flensborg, Ögmundur Sigurðsson, hefði vel mátt fá stöðu við kennaraskólann nýja, enda sótti hann um stöðu þar. Hann hafði gerst kennari í Flensborg árið 1896 og hafði jafnan á hendi æfingakennslu í kennaradeildinni, enda var hann óumdeilanlega í fremstu röð skólamanna landsins. En Ögmundur fékk ekki stöðu við kennaraskólann, hann varð skólastjóri í Flensborg. Vafalaust hefur það þótt of mikil blóðtaka fyrir Flensborg að missa alla þrjá aðalkennarana í einu, og má fara nærri um það, að Jóni Þórarinssyni hefur ekki getist að því. Ögmundur Sigurðsson var svo skólastjóri í Flensborg í 23 ár við mikinn og góðan orðstír. Í hans tíð, eða árið 1912, varð skólinn þriggja vetra skóli, og það var hann fram á síðasta áratug. Nú er hann fjögurra vetra skóli, eins og aðrir gagnfræðaskólar í kaupstöðum.
Lengi var það áhugamál skólastjóra og kennara í Flensborg, að nemendur með góðu gagnfræðaprófi þaðan hefðu rétt til að setjast í lærdómsdeild menntaskólans. Það varð þó aldrei. Til þess þurftu þeir viðbótarnám og að heyja inntökupróf í 4. bekk menntaskólans. Ýmsir nemendur úr Flensborg fóru þó þessa leið sama vor og þeir tóku  gagnfræðapróf þaðan. Nú hefur landsprófið leyst þennan vanda.

Flensborg

Þórarinn Andrewsson, kennari, með stærðfræðina á hreinu. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Ég var í Flensborg á árunum 1929—32. Þessi ár voru mikil breytinga- og umbrotaár í sögu skólans. Eftir fyrsta vetur minn í skólanum skemmdist gamla Flensborgarhúsið svo 1 eldi, að ekki þóttu tiltök að gera við það. Var þá rifið það, sem eftir stóð. Þá stóð eftir á sjávarbakkanum gamla skólahúsið frá 1906, lág bygging og hnípin, gisin og úr sér gengin á margan hátt, svo að gjörla mátti sjá endalokin. Samt varð hún að endast í sjö ár enn. Eftir brunann hætti Ögmundur Sigurðsson skólastjórn, sjötugur að aldri, og heimavistin lagðist að sjálfsögðu niður. Fullur hugur var í forráðamönnum skólans að fá ungan og ötulan skólastjóra til að taka við starfi hins kunna skólamanns. Það tókst líka. Sr. Sveinbjörn Högnason varð skólastjóri haustið 1930, þá rúmlega þrítugur. En hann var aðeins einn vetur. Sóknarbörn hans austur í Rangárþingi vildu ekki missa hann, og hvarf hann þá austur aftur. Hef ég varla séð meira eftir öðrum manni úr starfi. Þá tók Lárus Bjarnason við skólastjórn, en hann hafði komið að skólanum með sr. Sveinbirni. Stýrði hann skólanum í tíu ár.

Þorvaldur Jakobsson

sr. Þorvaldur Jakobsson.

Við gagnfræðingarnir, sem brautskráðumst frá Flensborg á hálfrar aldar afmæli skólans, árið 1932, höfðum því þrjá skólastjóra, og önnur kennaraskipti voru einnig mikil. Hellubjargið í kennaraliðinu á þessum umbrotaárum var sr. Þorvaldur Jakobsson, sem kenndi íslensku og stærðfræði, merkur ágætiskennari. Á þessum árum sagði heimskreppan til sín í skólahaldi sem öðru. Við vorum tuttugu og fjögur, sem hófum nám í 1. bekk, en aðeins tíu runnu skeiðið til enda, hin höfðu helst úr lestinni. Samt brautskráðumst við þrettán gagnfræðingar þetta vor; þrír höfðu bæst í hópinn á leiðinni. En aðalbreytingin var þó sú, að á þessum árum komu til framkvæmda ný lög um gagnfræðaskóla í landinu. Skyldu þeir kostaðir af opinberu fé í öllum kaupstöðum landsins.

Á þessum árum breyttist Flensborgarskólinn því úr sjálfseignarstofnun í ríkisskóla. Reglugerð fyrir ríkisskólann var einmitt sett árið 1932, á hálfrar aldar afmæli skólans, og setti ráðuneytið þá ný ákvæði um gjöf prófastshjónanna í Görðum, sem ekki þurfti lengur að standa undir skólanum í Flensborg.

Flensborg

Arnaldur Árnason, kennari, ábúðarfullur. [ljósm: Guðm. Böðvars.]

Þegar héraðs- og gagnfræðaskólar tóku að rísa upp víðs vegar um landið, varð Flensborgarskólinn að sjálfsögðu í æ ríkari mæli skóli fyrir Hafnarfjörð, en áður höfðu löngum sótt hann nemendur víðs vegar að, enda voru gagnfræðaskólar lengi aðeins tveir á landinu. Forráðamenn skólans vildu þó gera sitt til að halda við gamalli skipan, og þegar nýtt skólahús var reist á Hamrinum, var höfð í því heimavist. En tímarnir voru óumdeilanlega breyttir; heimavistin lagðist fljótlega niður. Bæjarbúum fjölgaði líka ört á þessum árum. Ekki kom til greina að byggja aftur upp á gamla staðnum niðri í fjörunni fyrir botni fjarðarins. Aukið athafnalíf og nýtt skipulag kaupstaðarins hlaut að krefjast Flensborgarlóðarinnar gömlu til annarra hluta. Nú stendur íshús Hafnarfjarðar þar, sem skólahúsið stóð, og Strandgata og Hvaleyrarbraut greinast þar, sem Flensborgartúnið var áður.

Flensborg

Bjarni Jónsson, kennari. [ljósm: Guðm. Böðvarsson].

Lárus Bjarnason var skólastjóri, þegar skólinn flutti í hina veglegu byggingu uppi á Hamrinum árið 1937. Hann var skólastjóri til ársins 1941 en þá tók Benedikt Tómasson skólayfirlæknir við skólastjórn. Var hann til ársins 1955, að núverandi skólastjóri, Ólafur Þ. Kristjánsson, tók við. Þannig hafa aðeins sex skólastjórar verið í Flensborg þau áttatíu ár, sem gagnfræðaskólinn hefur starfað; þar með talinn sr. Sveinbjörn Högnason, sem aðeins var eitt ár.

Nú kynni einhver að spyrja: Hvað varð þá um gjöf þeirra prófastshjóna í Görðum, þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir sjálfseignarskólann Flensborg. Því er til að svara, að gjafasjóður sr. Þórarins og frú Þórunnar er enn til, og enn er hann í tengslum við skólann. En í reglugerðinni frá 1932, sem ég gat um fyrr, er þetta ákvæði: „Aldrei má verja fé sjóðsins til útgjalda, sem greiða skal lögum samkvæmt af opinberu fé.“ Þótt ákvæðið sé að sjálfsögðu réttmætt, er hlutverki sjóðsins þannig óneitanlega þröngur stakkur skorinn. Þó hafa nemendur skólans oft notið fjárframlaga úr sjóðnum á undanförnum árum, bæði til gagns og ánægju. Bæjarfógeti og bæjarstjóri í Hafnarfirði hafa á hendi stjórn sjóðsins, ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa, sem nú er skólastjórinn í Flensborg. Árið 1956 keypti Hafnarfjarðarbær eignarlendir sjóðsins með mjög hagstæðum kjörum. Og alla tíð hefur bærinn notið ríkulega gjafar þeirra prófastshjóna, og stendur Hafnarfjarðarkaupstaður því í ævarandi þakkar- og fjárhagsskuld við Flensborgarskólann. Gjafasjóðurinn er nú rúmar 2 milljónir króna.

Flensborg

Úr félagslífi Flensborgarskóla 1975-’76.  Tryggvi Harðarson, Daníel Hálfdánarson o.fl. fylgjast með félaga sínum Halldóri Árna Sveinssyni.

Af því, sem ég hef nú rakið, má það ljóst vera, að Flensborgarnafnið á gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði er eins konar minnistákn um höfðingslund prófastshjónanna í Görðum og þann merka skóla, sem þau stofnuðu til minningar um son sinn. En jafnframt er í nafninu bundin minning um hinn soninn, sem svo farsællega stýrði skólanum fyrsta aldarfjórðunginn og gerði garðinn frægan. Þótt nafnið hljómi allútlenskulega, er það samt norrænt að uppruna.

Flensborg

Flensborgarskóli 2021.

Borgin á Jótlandi hét upprunalega Fleinsárborg, virkið við Fleinsá. Mannsnafnið Fleinn mun hafa verið til á Norðurlöndum í fornöld, í líkingu við nafnið Geir. En vel gat áin líka dregið nafn sitt af vopni, sem þar hefur týnst eða fundist. Fleinsárborg hefur síðan breyst í Flensborg, og Fleinsborg í Flensborg.
Ég get þessa hér í lokin til gamans fyrir þá, sem áhuga hafa á nafngiftum og nafnbreytingum. Mestu máli skiptir þó hitt, að í átta áratugi hefur í skjóli Flensborgarnafnsins gerst í Hafnarfirði hin merkasta saga, sem er snar þáttur af þjóðarsögunni sjálfri. Vonandi verður svo áfram um alla framtíð.
(Grein þessi er útvarpserindi, flutt s. l. sumar. Heimildir: Saga Hafnarfjarðar, Minningarrit Flensborgarskóla, skólaskýrslur o. fl. S.J.)“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 23. tölublað (03.07.1982), Ingvar Gíslason, menntamálaráðherra; „Fyrsti kennaraskóli landsins“, bls. 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1962 (15.12.1962), Stefán Júlíusson, Flensborg í Hafnarfirði, bls.8-10.

Flensborg

Flensborg.