Tag Archive for: Hafnarfjörður

Leiðarendi

Gengið var frá Bláfjallavegi um stíg norður yfir Tvíbollahraun, u.þ.b. 300 metra. Þá var komið í eldra hraun, Stórabollahraun, mosavaxið, en tiltölulega slétt. Hægra megin við stígsendann er jarðfall. Í því er Leiðarendi.

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Haldið var niður um vítt opið að vestanverðu. Stórir steinar eru næst opinu, en hellirinn er samst sem áður greiður niðurgöngu. Fljótlega er komið inn á slétt gólf og víða og háa hraunrás. Litirnir í veggjum rásarinnar eru rauðlitið og verða fallegri eftir því sem innar dregur. Komið er að svolitlu hruni þar sem önnur rás liggur upp til hægri. Á rásmótunum eru falleg steinkerti á gólfum. Þegar gengið er áfram niður rásina má víða sjá stór hraunkerti og fallegar hraunnálar í loftum. Sumsstaðar lækkar rásin og á einum stað þarf að skríða yfir hrun. Þar fyrir innan er mjög hátt og vítt. Þegar komið er innst í rásina er víður hraunpollur.

Leiðarendi

Á leið um Leiðarenda.

Þegar komið er að pollinum má sjá beinagrind af rollu þar undir veggnum hægra megin. Rollan virðist hafa villst alla þessa leið, um 200-300 metra, inn í hellinn og lagst síðan þarna undir vegginn þar sem hún hefur borið beinin. Frá hraunpollinum lækkar hellirinn verulega. Þó má skríða í gegnum hrun lengst til hægri og spölkorn áfram. Ákveðið var að gera það ekki að þessu sinni.
Haldið var til baka og farið í rásina, sem fyrr var lýst. Hraun er víða í annars víðri rásinni, en hægt að fara hægra megin með því. Hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Á einum stað er geisifalleg hraunsepamyndun í loftinu og eins og skrautleg kóróna hangi nuður úr því.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinar. Sá til vinstri er eftirgerð annars, sem glatast hefur.

Innar þrengist hellirinn á ný, en þegar komið er framhjá smá hruni opnast hann inn í víða þverrás. Hlaðin var lítið varða á mótunum svo auðveldara væri að rata til baka því auðvelt er að villast í margskiptum hellum. Þessi varða kom sér líka vel á bakaleiðinni.
Þverrásin virðist lækka nokkuð þegar neðar dregur, en hana á að vera hægt að skríða áfram út um eystra opið í jarðfallinu. Þegar ofar dregur hækkar og víttkar hellirinn og fallegir bálkar eru með veggjum. Efst í honum er hrun, en áður en komið að því er lítil varða hlaðin á mitt gólfið. Hún gaf til kynna að lengra væri ekki komist með góðu móti. Hins vegar liggur rás þarna til hægri, en hún er það lág að skríða þarf hana á maganum. Haldið var til baka að fyrr vörðunni og haldið niður eftir rásinni, sem genginn hafði verið. Þegar farið er til baka er eðlilegra að halda áfram, framhjá aðalrásinni, og því auðvelt að ganga framhjá opinu við hrunið. Seinni rásin er sviðuð að lengd og sú fyrri, um 200-300 metrar.

Leiðarendi

Leiðarendi – kort ÓSÁ.

Eftir smáhvíld var haldið inn um eystra opið í jarðfallinu. Klöngrast þarf spölkorn inn í hellinn, en síðan tekur við slétt gólf. Miklir bálkar eru til beggja handa. Fljótlega er komið að stað þar sem nýja hraunið hefur lekið niður í rásina og storknað. Hægt er að skríða meðfram því vinstra megin og er þá komið inn í víða hraunrásina á ný. Þar fyrir innan er eins og hraunpollur því gólfið framundan hækkar nokkuð. Eftir það lækkar hellirinn mikið og verður einungis skriðinn. Þá er komið inn á þann stað, sem horfið var frá áður. Með eindregnum vilja má fara þar í gegn og er þá stutt eftir í efra opið á jarðfalli Leiðarenda.
Veðrið ofan jarðar skipti í rauninni engu máli. Niðri var bæði hlýtt og skjólgott.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.

Leiðarendi

Hópur ungskáta með FERLIRsfélögum á leið í Leiðarenda.

 

Húshellir

Gengið var upp með Fjallsgjá að Fjallinu eina og inn á hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju. Ætlunin var að skoða nokkra hella, s.s. Steinbogahelli, Híðið, Húshelli og Maístjörnuna. Nokkrir aðrir hellar eru þarna á svæðinu og sumir nokkuð langir.

Hrútagjárdyngja

Jarðmyndun í Hrútargjárdyngjuhelli.

Op Híðisins lætur lítið yfir sér. Þegar inn var komið sést einungis í fljótu bragði lág hraunbóla með sléttu gólfi. Hægt er þó að halda áfram niður í meginrásina á tveimur stöðum. Auðveldara var að fara til vinstri þegar inn var komið og láta sig síðan síga á aftur bak niður í rásins. Þá tók við greið leið til suðurs, með beygjum og bugðum, dropsteinum, hraunstráum og öðrum fallegum hraunmyndunum. Hellirinn lækkar og hækkar, stuttir hliðargangar liggja út frá meginrásinni og stundum þurfti að skríða á maganum um tíma. Híðið er alllangt með viðkvæmum helladýrgripum.
Húshellir er skammt ofar. Þegar inn var komið tók við stór salur með stuttum rásum til tveggja átta. Á miðju gólfi var hlaðið byrgi. Bein lágu á gólfinu. Erfitt reyndist að ákvarða úr hvaða skepnu þau gætu hafa verið. Jafnvel var talið að þau hafi verið úr hreindýrskálfi. Húshellir hefur alla burði til að geta talist til tímabundinna mannabústaða.

Híðið

Í Híðinu.

Gömul þjóðleið lá upp með Fjallinu eina og skammt frá opi hellisins áleiðis að norðurbrún Hrútagjárdyngju. Sagnir eru af útilegumönnum á þessum slóðum, en í þeim frásögnum er ýmist getið um Hverinn eina eða Fjallið eina. Ein sagan segir að þeir hafi fundið skúta “skammt sunnan Selsvöllu og hreiðrað þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina.” Þar voru þeir handteknir og dæmdir á Bessastöðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sunnan við Selsvelli er hellir, en ekki er fulljóst hvar nefndur hellir hafi verið nálægt Hvernum eina. Þó er þar nálægt gróið jarðfall með lóðréttum veggjum. Auðvelt hefði verið að refta yfir það og fá þannig hið ákjósanlegasta skjól. Þrátt fyrir sagnir af útilegumönnunum við Selsvelli er alls ekki útilokað að útilegumenn hafi hafst við annars staðar í hraununum í skamman tíma, s.s. í Húshelli. Þá gætu refaveiðimenn hafa haft þar skjól, en a.m.k. tvær hlaðnar refagildrur eru í Hrútargjárdyngju skammt ofar.
Samkvæmt lögum þjóðveldisins forna var skóggangur þyngsta refsing sem sakamaður gat fengið. Skóggangur var ævilangur og voru sakamenn þessir gerðir útlægir úr samfélaginu og voru réttdræpir ef til þeirra sást. Þeir leituðu því oftast skjóls í óbyggðum þar sem enginn varð þeirra var.

Húshellir

Við Húshelli.

Sumir útilegumenn áttu að búa í hellum uppi í óbyggðum við frekar kröpp kjör. Líf þessara manna var erfitt og þar eð þeir gátu ekki lifað einungis á náttúrunnar gæðum þá neyddust þeir oft til þess að stunda gripdeildir í byggð. Og þá var ekki verra að vera tiltölulega nálægt henni, en þó í öruggri fjarlægð.
Maístjarnan er með fallegri hellum. Inngangan í hana er áhrifarík, eða í gegnum auga. Hellirinn er viðkvæmur; mikið af dropsteinum og hraunstráum. Litadýrðin er allnokkur og súlnaverkið skrautlegt. Steinbogahellir er hins vegar æskilegri umgangs. Opið er stórt og hellirinn víður. Hrun er inni í rásinni, en hægt er að fara yfir það og áfram niður rásina. Hellirinn er nefndur eftir steinboga, sem er yfir jarðfallinu þar sem opið er.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tók 5 klst og 5 mín.

Híðið

Híðið – op.

Sveifluháls

Gengið var af Norðlingahálsi yfir í Folaldadali í Sveifluhálsi um Köldunámur. Haldið var upp úr suðurenda dalanna upp að Arnarvatni, niður í Hveradal með Hnakk og síðan upp Ketilsstíg af Seltúni, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal.
Sveifluháls, öðru nafni Austurháls, er móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s). Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur. Þeir sjást vel þegar komið er upp á hrygginn milli Norðlingaháls og Folaldadala.

Ferlir

FERLIR á Sveifluhálsi.

Köldunámur eru þarna vestan í Sveifluhálsinum, alllangt frá öðrum jarðhitasvæðum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Þar sem staðið er á hryggnum og horft anars vegar upp að Stapatindum í austri og Hrútargjárdyngju og hraunin í vestri hlýtur þjóðtrú og útilegumenna ð koma upp í hugann. Orðið þjóðtrú er oft notað um trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í umhverfinu og náttúrunni.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Gísli Sigurðsson segir einhvers staðar að orðið “þjóð” í þjóðtrú vísi til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.
Þekking á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur – sem dæmi eru um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks.

Folaldadalir

Í Folaldadölum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd.

Miðdegishnúkur fór stækkandi á vinstri hönd og Hofmannflöt lá undir hálsinum á þá hægri. Á brúninni var tröllsandlit er fylgdist með mannaferðum úr vestri.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Gengið var um sléttan sendinn dal í miðjum Sveifluhálsi og upp úr honum að Arnarvatni. Svæði þetta er ákaflega tilkomumikið og fallegt þrátt fyrir gróðurfátæktina. Haldið var suður fyrir vatnið og þar beygt til austurs, gengið nuður með Hnakk og stefnan tekin á Hveradal. Kleifarvatnið var framundan, en það er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m.

Sveifluháls

Við Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Í Hveradal eða Seltúni, eins og svæið allt er jafnan nefnt, varð mikil gufusprenging í októbermánuði 1999. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Haldið var upp frá hverasvæðinu um Ketilsstíg, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal um Ketilinn. Af brúninni er fallegt útsýni yfir að Hrútafelli og Núpshlíðarhálsi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2065
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Sveifluhals/
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Óttarsstaðasel

Gengið var eftir Óttarsstaðaselsstíg (Skógargötu/Rauðamelsstíg) upp í Óttarstaðasel. Til hliðsjónar var uppdráttur frá árinu 1932, en á hann er stígurinn merktur.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Tóftir selsins voru skoðaðar, litið á fallegt vatnsstæðið norðaustan þess og síðan haldið áfram sem leið lá upp eftir ætluðum stíg sunnan selsins. Hraunið er vel gróið þarna og ef stígur hefur legið í gegnum selið og áfram upp á hæðirnar væri hann að öllum líkindum horfinn. Gengið var framhjá Rauðhólsskúta og mið tekið á vörðu á hraunhól í hæðunum. Önnur varða var skammt ofan við hana, en síðan ekki söguna meir. Stefnan var því tekin meira ti vesturs, yfir í Skógarnef. Þegar komið var að landamerkjagirðingu Óttarsstaða og Hvassahrans var byrjað að skyggnast eftir Skógarnefsskúta, bæði ofan við ásana neðst í nefninu og neðan þeirra, en án árangurs að þessu sinni.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjalínan, sem kemur ofan úr Markhelluhólnum við Búðarvatnsstæðið, um Kolhól og Skógarnef, á að liggja um Skógarnefsskútann og Skógarnefnsgrenin og áfram niður í gegnum Mið-Krossstapa og niður með Skorás. Grenin sáust skammt neðan við bakkana, skammt vestan girðingarinnar. Hlaðið er um eitt grenið og tveir uppraðaðir steinar þar hjá. Heilleg varða er á hraunhól við girðinguna ofan við bakkana.
Á leið til norðurs í gegnum gróið hraunið neðan við Skógarnefið var komið að hlaðinni vörðu. Við hana var gata með stefnu upp að þeirri við girðinguna í Skógarnefi. Önnur stærri var á hraunhól skammt frá. Þegar betur var að gáð sáust vörður eða vörðubrot í stefnu til norðurs með ca. 10-20 metra millibili.

Þeim var fylgt áfram niður hraunið, en ekki var að sjá greinilegan stíg. Hins vegar var leiðin mjög greiðfær í hrauninu þar sem hún lá með hólum og hryggjum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Vörðurnar voru greinilega mjög gamlar, en auðvelt var að fylgja þeim. Þegar komið var á stíginn, sem liggur milli Óttarstaðasels og Lónakotssels, skammt vestan við hið fyrrnefnda, mátti sjá vel hlaðna vörðu. Stígurinn hélt þar spölkorn áfram til norðurs og beygði síðan til norðausturs, inn á Óttarsstaðaselsstíg / Rauðamelsstíg neðan (norðan) við Meitlana. Þar við gatnamótin voru tvær fallnar vörður og enn önnur skammt sunnar, með stefnu á milli hinna tveggja. Rauðamelsstígurinn upp í Óttarstaðaselið er þarna greinilegur, en gatnamótin hins vegar ekki, nema mjög vel sé að gáð. Telja má nær öruggt að þarna sé sá hluti Rauðamelsstígsins er nefnist Mosastígur.

Óttarsstaðaselsstígur

Gatnamót Skógargötu (tvær vörður).

Þetta er mjög líklega sá hinn sami stígur og Hraunamenn nefndu Mosastíg. Hann var farinn þegar menn voru að rífa mosa til upphitunar (JG). Það er reyndar annar Mosastígur sem liggur upp með Brunanum, sem er á allt öðrum stað (miklu mun vestar og liggur frá Mosum áleiðis niður að Hvassahrauni).
Í Skógarnefi er hann varðaður þar í gegn, áleiðis upp á Mosa þar sem Mosastígur tekur við áleiðis upp fyrir Lambafell. Á uppdrættinum er hann sýndur liggja til vesturs norðan Trölladyngju, en af stígnum að dæma virðist hann liggja til suðurs austan við Trölladyngju, áleiðis yfir að Hrútafelli og að Ketilsstíg yfir Sveifluháls.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaselsstígur.

Kaldársel

Eftirfarandi er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII„, Reykjavík 1957, safnað hefur Guðni Jónsson“

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

„Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Er það nokkur nær Hafnarfirði en Helgafell, en þó mun vera þangað fullur stundargangur, jafnvel þótt hart sé farið. Nú er að sumarlagi unnt að komast í bíl mest af leiðinni. Fyrir nokkrum áratugum var búið í Kaldárseli, ei eigi að staðaldri, heldur 2-3 ár í senn, því fremur hefir það verið lítil og léleg jörð. Túnið var lítið og hefir verið fátt nautgripa, en fjárbeit hefir sennilega verið þar góð.
Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Bjuggu þar foreldrar mínir, Jón Guðmundsson og Vilborg Jónsdóttir. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga. Áttu þau hjón eina kú og nokkrar kindur. Stóð kýrin geld frá því um nýár og þar til vika var af góu, þá bar kýrin.
Þegar hún er um það bil fullgrædd, þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: „Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við“. Þá segi ég: „Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann“.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Lét húsfreyja jafnan mjólk í askinn á hverju kvöldi, og var hann ætíð horfinn næsta dag. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: „Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína“.

Kaldársel

Borgarstandur við Kaldársel.

Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið. Húsfreyja virtist leggja lítið upp úr þessum draum og vildi láta sem minnst á þessu bera. Ég sagði ýmsum drauminn, en húsfreyja var þá vön að þagga niður í mér og sagði: „Vertu ekki að þessu, Sigga. Þetta er eintóm vitleysa“.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Slær nú mamma upp á glensi við Sigríði og segir: „Nú held ég, að glaðni yfir þér, þegar þú fer að taka upp úr rúminu þínu. Það verður líklega eitthvað fémætt, sem þú finnur“. En húsfreyja vildi eigi láta á það minnast með einu orði.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: „Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera“. Mamma svarar þá: „Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor“. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.

Kaldársel

Borgarstandur – garður og stekkur.

Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.“

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta og músagangs.

-http://tradisjoner.no/text91.html

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyrarsel

Gengið var um Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns. Skoðaður var hlaðinn stekkur norðan á höfðanum og beitarhús frá Ási, Vetrarhús, austan í honum. Þar við eru tóftir sels frá Jófríðarstöðum.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni; minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var haldið niður að og suður fyrir vatnið. Skammt neðan og vestan við skátaskálann er gróinn hóll og á honum tótt, Ássel. Um er að ræða sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás undir Ásfjalli skiptu með sér aðstöðunni við vatnið.
Á odda skammt vestar eru tóttir Hvaleyrarsels. Um er að ræða þrjár tóttir og er ein þeirra stærst. Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykur í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn á a.m.k. tveimur stöðum og síðar um hríð í Kaldárseli. Höfðinn ofan við selin heitir Selshöfði. Á honum eru hringlaga hleðslur, sem fróðir menn segja vera gamla fjárborg, í heimildum nefnd „Borgin“. Skammt frá þeim er annað mannvirki, nánast jarðlægt. Ekki er með öllu útilokað að þarna geti verið um að ræða leifar mannvirkis frá hernum, en Bretarnir voru þarna svo til út um allar hæðir á heimstyrjaldarárunum. Enn má sjá hlaðin mannvirki þeirra á nokkrum stöðum á Ásfjalli, Grísanesi, Svínahöfða og víðar.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – tilgáta (ÓSÁ).

Í Selshöfða sunnanverðum sést til hleðslna á barði. Þar er sagt að hafi verið fjárhús, en öllu sennilegra er að þar hafi verð stekkur frá Hvaleyrarseli.
Stórhöfði er sunnan dals á milli hans og Selshöfða. Í botni dalsins er mikil gróðurtorfa, en að öðru leyti er dalurinn nú gróðurlaus. Líklegt má telja að dalurinn hafi verið algróin á öldum áður og hafi hann þá verið notaður til beitar, en fénu haldið að Hvaleyrarvatni vegna vökvans. Uppi á grasbala er þar enn ein rústin frá þeim tíma.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Gangan tók um 1 og ½ klst. Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Urðarás

Gengið var frá Sprengilendi (ekki er vitað af hverju nafnið er dregið) rétt innan við hreppamörk Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar, yfir Alfaraleið, um Taglhæð og stefnan tekin á Lónakotssel undir Skorás. Skorásvarðan sést vel ofanvert. Skorásinn er þversprunginn klapparveggur og ber hæðin því nafnið með réttu. Taglhæðin er á mörkunum þar sem hún rís suðaustur af Sprengilendinu. Taglhæð er flöt en mikil um sig og liggur rétt fyrir ofan Alfaraleiðina. Suður af selinu eru Krossstapar, fallegir klofnir hraunhólar.

Urðarás

Kyrrt var í Lónakotsselinu þennan gamlárdagsmorgun. Jörð var alauð, ekki hreyfði strá og tóftirnar kúrðu undir Skorásnum. Ofan við selið og vestan við neðsta krossstapann eru greni. Þar er skúti, sem hlaðið hefur verið fyrir að hluta.
Urðarás er suður af efsta Krossstapanum í Almenningi, mjög stórt jarðfall sem snýr í suður-norður. Jarðfallið er umlukið björgum en ofan í því er töluverður gróður. Ein heimild segir að kerið heita Urðarás og er það nafn vel við hæfi. Vestan í jarðfallinu er Urðarásgrenið og reyndar er fleiri greni þarna á næsta leiti. Gróðurinn gæti verið tilkominn vegna skjólsins í lægðinni.
Ekki liggur ljóst fyrir hvernig nafnið Urðarás er til komið. Gæti það m.a. verið með tvennum hætti; annars vegar vegna sérstöðu og ólíks umhverfis. Orðið ás stendur jafnan fyrir hæð, en umhverfis Urðarás eru háir barmar, líkt og á Krossstöpunum þarna norðar.
Urðarás er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Erfitt er fyrir óvana að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.

Urðarás

Urðarás.

Upplýsingar hafði borist frá helsta hraunhellasérfræðingi heims, Chris Wood, að sennilega hafi Urðarás og svæðið þar fyrir ofan að geyma geysistóran hraunhelli. Brothringir myndast er stórar hraunrásir neðanjarðar á gostíma stíflast og þær brjóta af sér þakið vegna mikils þrýstings. Þegar glóandi hraunið nær að renna á ný fellur þakið niður og brothringurinn verður til. Þannig opnast stærstu og þekktustu hraunhellar landsins í brothringjum.
Líklegt má telja að hin stóra hraunrás geti verið á nokkru dýpi, en það gefur jafnframt von um að hún geti verið nokkuð heilleg. Hraunið kom úr Hrútargjárdyngju fyrir u.þ.b. 5000 árum. Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík).
Nú var ætlunin að gaumgæfa Urðarásinn eins vel og mögulegt var með tilliti til framangreinds. Þegar svæðið var sett í samhengi og skoðað vandlega uppgötvaðist a.m.k. þrennt: Í fyrsta lagi virðast Krossstaparnir (Miðkrossstapi og Hraunkrossstapi vera í beinni línu við Urðarás og hafa myndast með mjög svipuðum hætti. Í öðru lagi var ekki að finna op niður í rás í Urðarásnum sjálfum, enda ólíklegt að hún finnist eða sé til staðar. Bæði er það vegna þess að þrýstingur glóandi hraunkvikunnar í rásinni hefur stöðvast á milli kvikuhólfanna eftir að hafa náð að þrýsta upp þakinu og mynda hraunhóla. Glóandi kvikan náði síðan að bræða grannbergið og renna frá þannig að hólarnir (þökin) sigu niður í miðjunni, en storknir jaðrarnir stóðu eftir.

Urðaráshellir

Urðaráshellir.

Í þriðja lagi fannst fallegur hellir vestan við Urðarás. Þegar svæðið í kringum ásinn var skoðað komu í ljós nokkrir skútar þar sem hraunkvika hefur streymt um. Þeir eru flestir stuttir, nema einn. Þegar kíkt var til hliðar inn undir grunnt jarðfall komu í ljós fyrirhleðslur fyrir rásop. Einhver hafði hlaðið upp í opið að hálfu, sennilega til að koma í veg fyrir að fé rataði þangað inn, en inni var slétt gólf. Eftir að hafa fært hleðsluna var komið inn í 10-15 metra langan rýmilegan helli, hér nefndur Urðaráshellir. Út frá honum á þremur stöðum voru lág op, ekki þó nægilega rýmilega fyrir mann. Eitt opanna er sérstaklega áhugavert. Það er kringlótt. Þegar lýst var inn var að sjá miklu mun víðari rás, en vegna myrkurs þar inni var ekki hægt að áætla rýmið. Áhugavert væri að láta myndavélarana þarna inn og skoða hvað þar kann að leynast. Bein voru í hellinum. Líklega hefur refur borið þau þangað.

Urðarás

Skjól við Urðarás.

Ljóst er að Urðarásinn hefur myndast með svipuðum eða eins hætti og Krossstapanir norðan hans. Ásinn er efstur og þar hefur stærsta kvikuhólfið verið. Sunnan Urðaráss er þunnt en úfið apalhraun, sem runnið hefur í mjórri ræmu til norðurs milli hans og norðvesturbakka Skógarnefs. Líklegt er að það hraun hafi fundið sér leið upp á yfirborðið úr þessari stóru rás miklu mun sunnar, eða einhverri annarri. Ef svo er minnka enn líkur á að sú stóra rás, sem þarna hefur verið, muni finnast. Hraunið á þessu svæði er blandað; annars vegar slétt helluhraun vestan Krossstapanna og hins vegar úfið apalhraun sunnan við þá og austan.
Krossstaparnir eiga að vera þrír. Getum hefur verið leitt að því hver þriðji krossstapinn er og hafa nokkrar fjarrænar tillögur komið fram. Langlíklegast er að Urðarásinn sé sá, sem leitað hefur verið að. Bæði er aðkoman að honum lík og að hinum tveimur norðan hans þótt hann sé sýnu umfangsmestur og þá eru þeir allir í svo til beinni línu með jöfnu millibili. Urðarásinn er bæði við úfnara hraun, auk þess sem meira „hraun“ er í honum en hinum tveimur. Hraunkrossstapi væri því réttnefni á hann, en það nafn hefur krossstapinn norðan hans borið.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Urdaras

Urðarás.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
„Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.

Valahnúkar

Gengið var frá Kaldárseli á Helgafell, um Valahnúka með viðkomu í Valabóli og síðan stolist um Kaldárhnúka á leiðinni til baka.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og ekki leið á löngu áður en þær lögðust af í Álftaneshreppi og síðan á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.

Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Áð efst á Helgafelli.

Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni. Að þessu sinni var haldið suður fyrir fjallið og niður og í gegnum gataklett, sem þar er. Niðurgangurinn er auðveldur. Þegar komið var niður á jafnsléttu var gengið til austurs með sunnanverðu fjallinu, upp á Valahnúka þar sem heilsað var upp á tröllin, og niður að Valabóli þar sem áð var um stund. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir.

Frá Valabóli var gengið niður í Helgadal, sem áður var vinsæll útivistarstaður, einkum af hálfu skátanna, upp á Kaldárhnúka og komið niður í Kaldárbotnum þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa. Venjulega er svæðið girt af, en vegna mikilla snjóa var girðingin á kafi og leiðin því greið um hnúkana.

Valaból

Valaból.

Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins.
Neðar sprettur Kaldá fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, allmerkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.