Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: „Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.“

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: „Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.“ Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

„En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: „Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.“

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: „Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn „Neðri-Fitjar“ hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998„, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.“ Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í „Fornleifaskráning í Grindavík, 2004“ segir um minjar á Fitjum: „Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.“ segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.“

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: „[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.“ Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.“ Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. „Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.“

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“, en vestan hans heitir bjargið „Krýsuvíkurberg“.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita „Skiptifoss“ eða „“Skiftifoss“.

Hlíðarvatn

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – Gísli Sigurðsson.

Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur – drykkjarsteinn.

Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.

Selvogsgata

Selvogsgata – Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.“
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: „Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Krýsuvík

Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) var í Vinnuskólanum í Krýsuvík á árunum 1953-’54.

Benedikt Elínbergsson

Benedikt Elínbergsson.

„Í þá daga fóru drengirnir heim á föstudögum og sneru aftur til vinnu á mánudögum. Síðar breyttist það í að drengirnir voru tvær vikur í senn í Krýsuvík, en fengu þá helgarfrí. Eyjólfur Guðmundsson og Snorri Jónsson, kennarar, veittu Vinnuskólanum forstöðu í fyrstu. Þeim til aðstoðar voru jafnan tvær til þrjár stúlkur, t.d. Guðrún Ágústsdóttir og Hulda Run. Viðdvölin tók breytingum eftir því sem tímar liðu“.
Benedikt var í framhaldinu við vinnu hjá Jóhannesi Trapp í garðyrkjustöðinni eitt sumar, tvö sumur hjá Reyni Ragnarssyni á búinu og eitt sumar hjá Hrafni Ólafssyni við fjárbúið. Jens Hólmgeirsson var þá kominn til starfa og turnarnir tveir við enda fjóssins byggðir.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Einungis vestari turninn var tekinn í notkun, enda hann þá með þaki. Í hann var blásið söxuðu heyi fyrir fjárhaldið. Díselknúin rafstöð (ljósavél) var í Krýsuvík og átti hún það til að „slá út“ þegar álagið á blásarann var hvað mest. Þegar upp var staðið voru þarna í fjósinu hátt í þúsund kindur. Krýsuvík var góð bújörð. Reynir var gamansamur. Eitt sinn spurði Jóhannes hann að því hvað tiltekinn tvíhornóttur lambhrútur í hjörðinni væri gamall. Reynir: „Hann er tveggja vetra“. Jóhannes: „Hvernig sérðu það?“. Reynir. „Á hornunum“. Jóhannes: „Huh, ég gat sagt mér það sjálfur“.
Ýmislegt var brasað í Krýsuvíkinni á þessum tíma, m.a. var Hlín Johnson í Herdísarvík veitt aðstoð við heyskap. Sagt var að jafnan rættist sú spá hennar að eftir að Herdísarvíkurtúnið hafði verið slegið tæki við fjögurra vikna þurrkur á Selvogssvæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík 1964 – bæjarhóllinn ruddur með jarðýtu. Ljósm. Þór Magnússon.

Hluti bæjarhóls gamla Krýsuvíkurbæjarins var ruddur með jarðýtu 1956 og restin af honum 1964. Söknuður er af mannvirkjunum þótt fátækleg hafi verið orðin. Í kirkjunni, sem Björn Jóhannesson, formaður „Krýsuvíkurnefndarinnar“ endurbyggði, var jafnan altaristafla, bogadregin að ofan. Hún var í kirkjunni að sumarlagi, en hékk uppi á vegg í Sólvangi þess á millum – eða þangað til Þjóðminjasafnið tók hana til handargagns. Ólíklegt er að almenningur fái að njóta altaristöflunnar eftir að hrammar safnsins hafi náð að klófesta hana.

„Þú mátt gjarnan fjalla um „Krýsuvíkurnefndina“ svokölluðu  sem og störf hennar“, stakk Benedikt upp á við viðmælanda. „Þá hafa störf Björns Jóhannessonar í Krýsuvík verið vanmetin. Hann endurbyggði t.d. Krýsuvíkurkirkju 1986“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.

Stjórnmálamenn hafa deilt um byggingu mannvirkja og ýmsar framkvæmdir í Krýsuvík frá því að Hafnarfjarðabær keypti landið sunnan Kleifarvatns að Krýsuvíkurbergi af Ríkinu eftir að hafa verið tekið eignarnámi 1936. „Krýsuvíkurnefndin“ svonefnda, skipuð af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fór ekki varhluta af deilunum. Hér á eftir verður lesendum gefinn nokkur smjörþefnur af álitamálum þeim er að framangreindu laut:

Í Hamri 29. sept. 1954 segir: „Á bæjarstjórafundi [í Hafnarfirði], sem haldinn var 14. þ.m. samþykkti bæjarstjórnarmeirihlutinn að stofna til sauðfjárbúskapar í Krýsuvík. Samþykkt var tillaga Björns Jóhannessonar, formanns Krýsuvíkurnefndar, að keypt verði 100 gimbralömb um haustið.“ Aðrir í nefndinni voru Gísli Guðmundsson og Helgi S. Guðmundsson.

Krýsuvík

Fyrstu fulltrúar Hafnarfjarðabæjar meta aðstæður í Krýsuvík um 1940. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 19. maí 1950, þ.e. um það bil fjórum árum fyrr er fjallað um kosningu fulltrúa í Krýsuvíkurnefnd: „Á bæjarstjórnarfundi 25. apr. s.l. var samþykkt í bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að fara með málefni Krýsuvíkur.
Frestað var að kjósa í nefndina þar sem ekki mun hafa verið fundinn framsóknarmaður, sem Alþýðuflokkurinn gat fellt sig við. Loksins fannst maður, sem fært var talið að tæki sæti í nefndinni er það Sigurður Guðmundsson kaupmaður. Mun hann hafa verið tregur til starfans þar sem heilsa hans leyfir honum því miður ekki að leggja sitt lið fram eins og sakir standa. Á síðasta fundi voru kosnir í nefndina auk Sigurðar Ingólfur Flygenring og Vigfús Sigurðsson.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegurinn lagður um Helluna við Kleifarvatn 1936-’37. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 27. maí 1950 segir í fréttum „Frá bæjarstjórnarfundi“: „Fundur var haldinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þiðjudaginn 16. maí s.l. Á þessum fundi var nokkuð rætt um garðyrkjustöðina í Krýsuvík og starfsemina þar. Samþykkt var á fundinum samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs þeirra Emils Jónssonar og Óskars Jónssonar að fela bæjarstjóra að ráða garðyrkjumann að gróðrarstöðinni, þar, sem Einar Þórir, garðyrkjumaður, hefur sagt upp starfi sínu, og hann óskar að losna úr starfi sínu, eins fljótt og orðið getur, og að upplýst er að Óskar Sveinsson, sem hefur verið veikur um hálfs árs skeið, er enn ekki fær til fullrar vinnu.
Þá lögðu þeir Emil Jónsson og Óskar Jónsson til við bæjarstjórn, að Jens Hólmgeirssyni verði falin framkvæmdastjórn við garðyrkjustöðina í Krýsuvík ásamt framkvæmdastjórn búsins, og yfirumsjón að undirbúningi þess.
Á fundinum var kosin þriggja manna Krýsuvíkurnefnd, í henni eiga sæti: Vigfús Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson og Ingólfur Flygenring.“

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Sjá má hvernig vegurinn er „púkkaður“ skv. gamla laginu.  Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 21. mars 1954 er dálkur; „Eitt og annað…“. Þar segir m.a.: „Þegar veðurblíðan er svona mikil, þá er ekki óeðlilegt að þeir fari eitthvað, að hugsa til hreyfings, sem ætla að fást við landbúnað. Það var líka ekki látið bíða, að Krýsuvíkurnefnd legði land undir fót og héldi til Krýsuvíkur til að skoða öll herlegheitin þar. Enda fer varla hjá því, að margt hljóti að vera þar með myndarbrag, þar sem Krýsuvíkin mun vera orðin ein dýrasta jörðin á Íslandi.
Til er gamalt máltæki, sem segir að sjaldan launi kálfar ofeldið. Það virðist eitthvað því líkt hafa gerst í Krýsuvík. Þó að bændur þessa lands hafi ekki fengið nálægt því jafnmikið fé handa á milli og búandinn í Krýsuvík, þá hefur líklega enginn skilað eins litlum arði, ávaxtað sitt pund eins illa og hann. Það er ekki einungis, að það pund korni aftur án þess að vera ávaxtað, heldur kemur það aldrei allt aftur og ekki nóg með það, heldur dregur það til sín og sóar arði annarra punda, svo að til stórvandræða horfir.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Það vantar svo sem ekki, að í mörgu hefur verið vasast í Krýsuvík. Þar hafa verið byggð íbúðarhús yfir starfsfólk, og man fólk vel eftir því, þegar vatnið í steypuna var keyrt alla leið neðan úr Hafnarfirði. Að vísu voru fáir, sem skildu þá ráðdeildarsemi!! Það hafa verið byggð gróðurhús og minriast menn þess, að fyrstu gróðurhúsin máttu hafnfirzkar hendur ekki smíða ekki einu sinni íslenzkar, heldur voru þau flutt inn frá Noregi. Og Norðmenn eru oft gamansamir, enda höfðu þeir svo litlar dyr á húsunum, að varla var hægt að komast um þær með tómatkassa í fanginu og moldinni varð að sturta af bílunum utan dyra og moka henni svo aftur upp í hjólbörur og aka henni inn. Til þessa verks var þó notaður íslenzkur vinnukraftur.
Þá hefur verið látið mikið af ræktuninni í Krýsuvík. Þar hafa skurðir verið grafnir og lokræsi gerð. Jörðin hefur verið plægð og sums staðar herfuð. En — það hefur engan ávöxt gefið. Ekkert gras, ekkert hey, ekki einu sinni beit. Ekki hefur þó skort áburð, hann var keyptur fyrir nær áratug og er geymdur enn, að nokkru leyti og mun hann vera talinn elzti tilþúni áburðurinn á landinu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir að störfum við túnrækt…

Tveir himinháir votheysturnar gnæfa þar efra á bökkum Grænavatns en þeir eru báðir þaklausir og að sjálfsögðu tómir, aðeins steinhólkarnir. Fyrir þeim fékkst fjárfestingarleyfi á mjög erfiðum tíma, því það voru að eins veitt leyfi til að byggja 10 slíka turna á landinu öllu. Þetta voru því fágætar byggingar og gaman að eiga þær. Það mun því hafa þurft mikinn dugnað til að fá fjárfestingarleyfin og sennilega ekki nokkur leið öðruvísi en að fórna leyfum, sem e.t.v. hefði verið hægt að fá fyrir öðrum framkvæmdum eins og t.d. yfirbyggingu sundlaugarinnar, steypu á Strandgötunni, byggingu húsmæðraskóla eða einhverju slíku niður í Hafnarfjarðarbæ.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið og turnarnir tveir. Aðstaðan er nú (2022) notuð fyrir kvikmyndatöku.

Þessir turnar hafa líka verið vel varðveittir. — Þegar turnar þeir, sem bændurnir fengu að byggja hafa verið notaðir til heygeymslu og við það hafa þeir orðið blakkir að innan og loftið í þeim blandað heylykt, þá hafa turnarnir í Krýsuvík verið látnir standa auðir, svo að á þá félli ekki blettur og loftið í þeim er tært og ferskt, enda loftræsting með afbrigðum góð!!

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

En það eru fleiri byggingar í Krýsuvík. Þar hefur verið byggt fjós yfir á annað hundrað nautgripi. Það er að vísu ekki nema veggir og þak. Frá innri skipan hefur ekki verið gengið, né heldur hreinlætistækjum. Hins vegar eru geymd þar nokkur jarðvinnslutæki svona yfir vetrartímann. Fjós þetta á sér einna merkasta sögu fyrir það, að svo mikið lá á byggingu þess, að menn þeir, sem voru að byggja Sólvang, voru teknir úr þeirri vinnu til að hraða fjósbyggingunni. Sólvangur var því látinn bíða nokkuð það var meira aukaatriði, hvort hann yrði tekinn í notkun árinu fyrr eða síðar.

Krýsuvík

Seltún – borað með „höggbor“. Ljósm. Emil Jónsson.

Krýsuvíkurnefnd hefur nú skoðað alla þessa dýrð og rifjað upp söguna um allar framkvæmdirnar og hugsar „ráðstjórnar“-hluti nefndarinnar sér að sjálfsögðu eitthvað til hreyfings, þar sem nýbúið er að samþykkja stóra fjárveitingu til Krýsuvíkur. Einn ljóður er þó á þessu öllu saman. Í upphafi vega hafði verið ráðinn bústjóri. Var hann sendur utan til að forframast í búskap. Var einkum talað um það, að hann hefði kynnt sér, hvernig fara ætti með rauðar kýr, svo að þær gæfu sem beztan arð, en að sjálfsögðu hefur hann kynnt sér margt fleira og verið mjög vel að sér, þegar hann kom, að minnsta kosti skrifaði hann um nýja tegund kúa, sem hann nefndi „votheyskýr“, í Tímann eftir að hann kom úr utanför sinni.
En það var fleira, sem hann lærði í búvísindum, — Þegar hann gerði áætlun um rekstur kúabús í Krýsuvík, þá reiknaði hann alla mjólkina til tekna og svo reiknaði hann á móti til gjalda þá mjólk, sem fór til kálfaeldis. Það merkilegasta í þessu var það, að hann reiknaði hvern lítra 8 aurum meira til tekna en hann reiknaði hann til gjalda aftur. Þannig græddi hann 8 aura á hverjum lítra, sem kálfarnir drukku, náttúrlega auk gróðans af eldi kálfanna.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2023.

En nú er bústjórinn horfinn með alla þekkinguna, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að láta hann afla sér. „Ráðstjórnin“ þarf því að grípa til nýrra ráða í þessum efnum. En hver verða þau? Á að halda áfram að koma upp kúabúi og baka bæjarbúum þannig stórra fjárútláta í viðbót við það sem orðið er? Eða á að fara að tillögum Sjálfstæðismanna um að athuga möguleikana til að koma upp iðnaðarfyrirtæki eða tækjum í Krýsuvík og hagnýta þá fjárfestingu, sem þegar er orðin í Krýsuvík, til þeirra hluta, eftir því sem við verður komið? „

Svo mörg voru þau orð… eða eins og Benedikt orðaði það: „Ég man aldrei eftir, meðan ég dvaldi í Krýsuvík, að nokkurn skugga hafi fallið á starfsemina þar“.

Þrátt fyrir pólitískar deilur um uppbyggingu og framkvæmdir í Krýsuvík eftir miðja síðustu öld hefur engum slíkum verið að dreifa um Vinnuskólann…

Heimildir:
-Hamar VIII. árg. 29. sept. 1954, bls. 1.
-Hamar IV. árg. 19. maí 1950, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 27. maí 1950, bls. 2.
-Hamar VIII. árg. 21. mars 1954, bls. 2 og 3.
-Viðtal ÓSÁ við Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) 31. mars 2023.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og starfsmannahúsið, auk gróðurstöðvarinnar ofar. Hetta efst og Hveradalur t.h.

Hamarinn

Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson skrifaði bók, „Bær í byrjun aldar„, og gaf út handskrifaða, á eigin kostnað, árið 1967. Í henni fjallar hann m.a. um nánast alla íbúa sem og hús og bæi í Hafnarfirði árið 1902. Um Hamarskot segir hann:

Magnús Jónsson

Baksíða bókar Magnúsar Jónssonar „Bær í byrjun aldar“.

„Hamarskot; nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn af hamrinum, en svo var farið að kenna hamrinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarkoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt.
Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi?, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn.
Börnin sem heima voru; Júlíus, bjó með Herdísi Stígsdóttur Auðunnarsonar, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík -, Sigurður Gunnlaugur trésmiður, kvæntur Ólöfu Rósmundsdóttur, Una, dó um fermingaraldur og Jarðþrúður, giftist fyrst Kjartani Jakobssyni en síðar Helga Kristjánssyni. Agnar var farinn að heiman og einnig Anna og Sigríður, en þeirra verður getið síðar.
Þorlákur dó 1926, en Anna kona hans 1930.
Sigurður Gunnlaugur Þorláksson trésmiður dó 1974 og kona hans Ólöf Rósmundsdóttir 1975.“

Hamarskot

Hamarskot – örnefni skv. lýsingum fyrrum.

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær frá 2020 segir m.a. um Hamarskot: „Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel.
Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði.15 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona: „ Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.“

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 1906 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona: „Hamarskot: Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum. Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.“

Hamarskot

Hamarskot – Hafnarfjörður um 1930.

„Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e. 9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti“. Ekki er til túnakort af Hamarskoti.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hamarskot

Hafnarfjörður 1902.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar.
Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar.

Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.

Hamarskot

Hamarskot. Uppdráttur Jóns Víðis 1925-1926 af Hafnarfirði. Hamarskot neðst t.v.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hafnarfjörð segir m.a.:
„Þar innar [Vesturshamars] tekur svo við hið forna Hamarkotsland. Nú er allt Hamarkotsland innlimað í kaupstaðinn.
Þá er, eða réttara var, Hamarkotsmöl. Þar upp af austast var Hamarkotshamar, en milli hamranna uppi er stundum nefndur Austurhamar. Allmikið og gott útsýni er af Hamrinum. Neðan hans og inn með honum er undirlendi frá Hamarskoti, og heitir það Brekka, og neðan hennar Undir brekku eða Undirhamarstún. Frá Vesturhamri náði svo mölin alla leið að stærsta vatnsfallinu, er rennur í Hafnarfjörð, sem heitir Hamarkotslækur eða Hafnarfjarðarlækur. Lækur þessi kemur með suðurbrún Garðahrauns. Um það bil syðst í mölinni var lækur, sem hét Góðholulækur. Hann kom úr lítilli uppsprettulind, sem hét Góðhola og var vatnsbólið frá Hamarkoti. Við Hamarkotslæk, þar sem h/f Dvergur er nú, hét Moldarflöt. Yfir hana flæddi stundum, sökum þess, hve lág hún var, og rétt ofar var smáhólmi í læknum, er hét „Á Myllunni“. Þar hafði verið mylla áður fyrr. Sagt var, að þegar flúðir, sem voru í læknum, báru í Setberg, hafi verið rétt innsigling á Hafnarfjörð. Í svonefndu Loftsstaðatúni er steinn fastur við þjóðkirkjuna, sem heitir Dvergasteinn. Stein þennan vill enginn hreyfa, því munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta óhegnt.“

Hamarskot

Ábúendur í Hamarskoti 1902.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni Hamarskots:
„Hamarskot, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Var fyrr meir hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en allt frá stofnun kaupstaðar í Hafnarfirði hefur jörðin tilheyrt Hafnarfirði.
Hamarskotsbærinn stóð í Hamarskotstúni vestarlega, rétt ofan til við Hamarskotshól. Túnið liggur í slakka ofan, norðan frá Hamrinum sem gengið hefur undir nöfnunum Hamarskotshamar eða Hafnarfjarðarhamar. Syðsti hluti Hamarsins er nefndur Háhamar. Hamarskotstúngarðar lágu að túninu, að sunnan Suðurtúngarður, og austan Austurtúngarður. Ofan frá bænum lágu Suðurtraðir í Suðurtraðarhlið. Austur frá bænum lágu Austurtraðir í Austurtraðarhlið. Hamarskotsbrunnur lá í slakkanum suðvestur og niður frá bænum og þangað lá Brunngatan. Brunnurinn var þar sem nú er húsið nr. 25 við Brekkugötu [á að vera Selvogsgata 2]. Hamarskotsstígur lá frá bæ norður og niður í bæ. Rétt við Suðurgarðinn rann lækur ofan frá Öldum. Var að jafnaði vatnslítill en óx mjög oft í leysingum. Nefnist hann Aldnalækur hér efra.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hér sunnan lækjarins lá Selvogsgatan og áfram upp á Öldurnar. Hér fram og upp sá Kvíholtið, þar á austurbrún var Kvíholtsvarðan, markavarða milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Niður undan holtin[u] rann Kvíholtslækur. Varla til nema þegar leysingar voru. Þar voru gróin börð, nefndust Fagridalur, þar er nú byggðin Hlíðarbraut. Neðan lækjarins var Austurhamar, mest berar klappir. Þar var klapparbrún nefnd Strýta. Vestan við var slakki, þar um lá Ófriðarstaðastígur um Hamarsbrekkuna. Eftir að Suðurgatan var lögð þar um, nefndist hér Illubrekka. Var hún allbrött og hálka mikil þar á vetrum. Ennfremur gott sleðafæri og óspart notað. Hér vestur af tók við Vesturhamar. Norðan í honum sniðskar sig Alfaravegurinn, var þar þjóðbraut. Vesturhamar var einnig nefndur Sjávarhamar, Skiphamar og Knud Zimsen nefnir hann Flensborgarhamar. Á nyrstu brún hans var mark Hamarskots og Ófriðarstaða. Rétt austan við Ófriðarstaðastíg við Selvogsgötuna var lindin Góðhola. Var það besta vatnsból hér um slóðir.

Hamarskot

Fjárhellir við Hamarskotssel.

Austan við Hamarinn lágu götutroðningar nafnlausir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð. Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan. Hér kom Selvogsgatan og lá inn á Mosahlíð en þar var í eina tíð Mosahlíðarvarða, landamerki milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Héðan lá gatan niður á hraunspöngina við Lækjarbotna, Efri-. Vestan af Markaþúfu lá landamerkjalína hér um og upp á og suðaustur eftir Gráhelluhrauni, um Gráhellu upp í Kethellisvörðu á Kethelli eða Hamarskotsseli. Niður undir hrauninu sunnan Lækjarbotna lá Kaldárselsstígur inn með hrauninu. Var þar í hraunbrúninni Hraunréttin, Gamla-. Rétt innar, þar sem nú er Fjárhliðið, var upp á hryggnum Hlíðarþúfur og voru þar mörkin. Þessi hluti hraunsins er nú allur trjáræktargirðing. Spölkorn innar eru Flatirnar, þar var lagður skeiðvöllur í eina tíð. Út á hrauninu er Hraunréttin, Nýja- . Er nú langur vegur inn með hrauninu þar til komið er í Moldarkrika en í Moldarkrikavörðu eru mörkin og liggja svo héðan í Steinhús eða Steinhes á Fremstaholti. En úr Steinhúsi liggur línan um Sléttuhlíð vestanverða og Sléttuhlíðarhorn í Kethellisvörðu.“

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í minningargrein um Magnús Jónsson í Morgunblaðinu 11. febrúar 2000 segir m.a.:
„Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn.
Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.
Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.“

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson, 1967, bls. 23-24.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-Örnefnaskrá fyrir Hamarskot – Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær, 2020, bls. 6-11.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Þórukot

Þórukot var bær á holtinu ofan Litla-Hamars skammt frá Mýrarhúsum og Holti, norðan Ófriðarstaða (Jófríðarstaða). Norðan Þórukots var myndarlegur grjótgarður er afmarkaði umdæmið. Bærinn stóð skammt vestar þar sem [fyrrverandi] leikskóli austan St. Jósepsspítala var [áður en hann var rifinn].

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) 1926 og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Þjóðsaga var skráð á landi Þórukots. Tengist hún svonefndri „Þóruklöpp“, sem var innan nefnds túngarðs og var nefnd eftir síðasta ábúanda kotsins.
Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni.

Önnur þjóðsaga tengist Jófríðarstaðahól, þar skammt sunnar, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

Þórukot

Þórukot – uppdráttur settur ofan á loftmynd frá 2022.

Enn sést hluti grjótgarðs Þórukots, sem hlaðinn var á öðrum áratug síðustu aldar. Sumir hafa talið garðinn þann vera a.m.k. frá tímum siðaskipta og þar af leiðandi elstan slíkra í Hafnarfirði.

Garður þessi gæti vel verið sá elsti í Hafnarfirði, þótt ungur sé (gæti ekki verið heillegri), enda hafa bæjarbúar verið iðnir við að endurnýta allt tilfallandi grjót í gegnum tíðina og bæjaryfirvöld hafa á sama tíma verið sérstaklega dugleg við að horfa framhjá öllu því sem gamalt getur talist. Skv. fornleifaskráningu Byggðasafnsins 2020 er garðurinn þessi frá Þórukoti er stóð þarna skammt frá; sagður í fornleifaskráningu vera frá 1900-1950. Gamli túngarður Ófriðarstaða (Jófríðarstaða) skv. túnakorti náði langleiðina þangað niður eftir. Hamarskot var skammt norðaustar. Bærinn Holt var í millum. Holtsgata dregur nafn sitt af bænum. Þarna var landamerkjagarður fyrrum. Sá garður er horfinn undir nýja byggð fyrir löngu.

Þórukot

Þórukot – garður.

Ekki er með öllu hægt að útiloka að einhverjir steinar úr görðum á þessum slóðum, hvort sem þeir hafi verið hlaðnir í veggi um siðaskiptin eða jafnvel umhverfis einstaka kot í upphafi byggðarinnar millum Akurgerðis að austanverðu og Hvaleyrar að vestanverðu, hafi ratað í garðinn þann arna. Þó verður að telja ólíklegt að grjótið hafi verið borið í þá um langan veg. Steinarnir í garðinum eru margir allstórir. Ýtir það undir þau rök að hann hafi verið hlaðinn eftir að viðhlítandi tækjabúnaður hafi verið orðinn til.

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Hafa ber í huga að Jófríðarstaðir voru fyrrum jörð út frá Hvaleyri. Ófriðarstaðir (Jófríðastaðir) eru því mun yngri sbr. https://ferlir.is/sitthvad-um-fjordinn-magnus-mar-larusson/. Ef leita ætti að elstu garðleifunum í „Hafnarfirði“ (hafa ber í huga að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1908) væri nær að leita að eldri minjum á Hvaleyri og nágrenni. Þar hafa golfarar því miður farið offari við að afmá einstakar minjar frá fyrri tíð, líkt og bæjaryfirvöld hafa reyndar gert í gegnum tíðina.
Jón og ÞóraMikilvægt er að gefa fólki kost á að deila um „hluti“ sem þessa, sem í raun skipta engu máli í samhengi hlutanna. Merkilegustu fornleifar byggðalagsins hafa, því miður, síðustu árin, legið óbættar hjá garði.

Í bók Magnúsar Jónssonar, „Bær í byrjun aldar“ segir m.a.: „Hér verður einnig minnst á á önnur hjón sem voru á þessum stað? [Holti] stuttan tíma og máttu þá þröngt sáttir sitja. Það voru hjónin Jón Ólafsson og Þóra Elísabet Þorsteinsdóttir. Þau höfðu gifst 1892 og voru nýflutt til Hafnarfjarðar frá Svalbarða á Álftanesi. Bæði voru þau fædd í því byggðarlagi, hann á Gamla-Hliði 1864 og hún í Haugshúsum 1863?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kynning í Fréttablaðinu 31. mars 2023, bls. 4 (kynningarblað).

Þau voru með einkabarn sitt Sigríði, en hana misstu þau 1908. Þessi hjón komu sér upp bæ sem þau vildu nefna Klapparholt, en aðrir létu Holts-nafnið nægja. Sá bær er nú bílgeymsla st. Jósepssystra í Hafnarfirði. Jón Ólafsson dó 1916, en Þóra 1954.“

Vonir standa til að Hafnarfjarðarbær muni leggja sig fram um að varðveita eitthvað af framangreindum minjum er enn sjást, enda hafa bæjaryfirvöld gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja „varðveita menningarminjar“ í bænum, sbr. Fréttablaðið 31, mars 2023, bls 4 (kynningarblað).

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær 2020, bls. 16 og 27.
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson, 1967, bls. 14.
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/230331.pdf

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, „Krýsuvík – á móti sólu„, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

„Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.“

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

„Starfsmaður“ Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

„Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

„Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.