Tag Archive for: Hafnarfjörður

Gjár

Þann 3. apríl 2009 var birt „AUGLÝSING um náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar„. Hvorki í auglýsingunni né í sérstakri, væntanlega rándýrri, nánast óþarfa skýrslu, um friðlýsingarsvæðið, er hvergi, af einhverri ástæðu, getið um fyrrum skógrækt og bústað og athafnir fólks í Gjánum á síðari árum. Sagan sú virðist ekki heldur hafa verið skráð í opinberar bækur bæjarins, þrátt fyrir fyrirliggjandi heimildir þar um. Sagan sú virðist því með öllu huld þeim er hingað til hafa viljað um þær fjalla.

Gjár

Gjár – loftmynd.

FERLIR lék forvitni á að vita nánar um framangreindar mannvistir í árþúsunda gamalli hrauntjörninni frá Búrfelli vestast í Gjánum. Þar má í dag m.a. sjá hlaðna garða, hleðslu við grunn flaggstangar, húsgrunn og leifar af bústað, auk myndarlegra trjáa, sem þar hafa verið gróðursett, vonandi til langrar framtíðar.

Helgi G. Þórðarson átti bústaðinn síðastur manna uns hann varð skemmdarvörgum að bráð um og í kringum 1980. Uppaflega mun Þórir Grani Baldursson, arkitekt, hafa byggt bústaðinn þarna í skjóli innan friðsældar Gjárinnar á árunum í kringum 1949 með samþykki bæjarráðs og staðfestingu bæjarstjórnar, líkt og gekk og gerðist með frumkvöðla skógræktarmanna í Sléttuhlíð á árunum 1925 og síðar.

Gjár

Gjár – garður.

Baldvin Jónsson? eignaðist bústaðinn um tíma uns Helgi og eiginkona hans, Thorgerd Elísa Mortensen, festu kaup á honum um 1974. Þau hjónin stunduðu m.a. skógrækt í nágrenninu, eða allt þangað til bústaðurinn var gereyðilagður í kringum 1980. Áður hafði hann nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á veiklynduðum skemmdarvörgum.
Bústaðasvæðið hafði verið afgirt, en skömmu fyrir friðlýsinguna 2009 höfðu bæjaryfirvöld fyrirskipað að girðingin skyldi fjarlægð. Eftir standa í dag girðingastaurarnir sem og hliðsstólparnir. Starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafði verið fyriskipað að fjarlægja netgirðinguna á stólpunum.

Gjár

Gjár – aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2024. Skástrikaði hlutinn er friðuð svæði. 

Að sögn afkomenda Helga hefur þeim verið fyrirmunað að endurreisa bústaðinn þrátt fyrir gildandi lóðasamning sem þeim er á hverju ári gert að greiða af lögbundin fasteignagjöld.
Þórir Grani (1901-1986) var þekkur arkitekt. Hann starfaði t.d. sem forstöðumaður hjá Teiknistofu landbúnaðarins 1938-1969, teiknaði fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús víða um landið. Hann var frumkvöðull í gerð húsa með stíl fúnksjónalisma. Hins vegar er hvergi getið um hið lítillátlega athvarf hans í Gjánum.

Helgi G. Þórðarson

Helgi G. Þórðarson (1929-2003).

Nefnds Baldvins virðist hvergi vera getið í tengslum við þennan tiltekna bústað.
Á kortum danska herforingaráðsins frá 1903 til 1974 er á tímabilinu skráð örnefnið „Skátaskáli“ í Gjánum. Hingað til hefur ekki verið hægt að rekja uppruna þessa „örnefnisins“.
Helgi G. Þórðarson var í Skátafélaginu á Ísafirði, þá 18 ára. Á aðalfundi þess árið 1948 mátti t.d. lesa eftirfarandi: „Aðalfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu 7. okt. Ritari var kosinn Magnús Baldvinsson, gjaldkeri Helgi G. Þórðarson og skálavörður Kristján Arngrímsson. Á fundinum var samþykkt, að félagið segði sig úr íþróttasambandi Íslands. Var þetta gert með hliðsjón af ályktun, sem gerð var á aðalfundi B.I.S. 1944, þar sem þess er óskað, að skátafélögin taki ekki þátt i opinberum kappmótum.
1. október hyrjaði félagið á að halda regluleg varðeldakvöld eða skemmtifundi með Valkyrjum, og var fyrsti varðeldurinn haldinn í Alþýðuhúsinu 14. október. Tókst þessi varðeldur mjög vel, og hafa slíkir varðeldar verið haldnir mánaðarlega síðan. Þá byrjaði félagið einnig að gefa út fjölritað innanfélagsblað, sem nefnt var Varðeldar, og var Helgi G. Þórðarson ritstjóri þess.“

Gjár

Gjár – skógrækt.

Þess er og getið í heimildum að Helgi hafi verið ötull skógræktarmaður í upplandi Hafnarfjarðar.
Í Morgunblaðinu 2003 er minningargrein um Helga. Þar segir m.a.: „Helgi kvæntist Thorgerd Elísu Mortensen frá Frodby á Suðurey í Færeyjum, hjúkrunarfræðingi 1929. Hún er dóttir Daniel Mohr Mortensen kóngsbónda þar.
Börn Helga og Thorgerdar eru Þórður, Daníel og Hallur, allt fyrrum skátar með þeim formerkjum „skáti – ávallt skáti“).

Gjár

Gjár – herforingjaráðskortið 1967. „Skátabústaður“ var ekki til á eldri kortum ráðsins.

Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Ögurvík við alla almenna vinnu útvegsmanna eins og hún gerðist á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þar gekk hann í barnaskóla og síðar í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp. Hús foreldra hans brann 1943 og fluttist fjölskyldan ári seinna út á Ísafjörð og þremur árum seinna til Reykjavíkur. Helgi lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1945 og landsprófi 1946, stúdentsprófi frá MR 1950, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1954 og M.Sc.prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1958.

Gjár

Gjár – leifar bústaðar Helga.

Í dag (2025) mæta aðkomufólki á vettvangi annars vegar sorglegar leifar sögu bústaðarins og hins vegar blómstrandi afurð skógræktarinnar.
Skv. framangreindu má sjá að yfrið hefur verið nóg að gera hjá Helga og Elísu samfara slitdróttri dvölinni í Gjánum, enda tala vanrækt verksummerkin þar í dag sínu máli. Hafnarfjarðarskátarnir höfðu sóst eftir að kaupa (aðrir segja að yfirtaka) bústaðinn undir það síðasta, en úr varð  því skiljnlega ekki eftir eyðilegginguna. Skátarnir höfðu þá um þann mund þann draum að byggja skála í Helgadal. Bæjaryfirvöld komu í veg fyrir slíkar hugmyndir, líkt og svo margar aðrar annars góðar, en enn í dag má þó þar sjá þar fyrrum undirstöðurnar undir „draumabústað“ þeirra.

Gjár

Gjár.

Skv. upplýsingum afkomenda Helga er þeim enn gert að greiða fasteignagjöld af „bústaðnum“ í Gjánum, þrátt fyrir að hafa verið meinað af hálfu bæjaryfirvalda að endurbyggja hann og nýta svæðið á upphaflegan hátt. Girt hafði t.d. verið umhverfis bústaðastæðið, en bæjaryfirvöld fengu starfsfólk Skógrækarfélags Hafnarfjarðar til að fjarlægja girðinguna, en girðingarstaurarnir standa þó enn. Svo virðist sem bæjaryfirvöld viti ekkert hvernig þau eigi að bregðast við þessu máli, hvorki laga- né skynsamlega.

Kaldársel

Gjár – herforingjaráðskort frá 1927 – hvergi minnst á „Skátaskála“.

Hið skondna er og að á umræddu athafnasvæðinu hafa í skrám Byggðasafns Hafnarfjarðar opinberlega verið skráðar sjö „fornleifar“ þrátt fyrir að slíkar minjar skv. gildandi Minjalögum verða að teljast a.m.k. eitt hundrað ára eða eldri til að geta talist til slíkra skráninga. Engar þessara tilteknu minja í fornleifaskráningunni uppfylla þau skilyrði!

Allir sem og öll er geta gefið nánari upplýsingar um mannvistirnar í Gjánum er velkomið að hafa samband við ferlir@ferlir.is

Sjá nánar um „Friðlýsingu Kaldárhrauns og GjárnaHÉR.

Gjár

Á þessu opinberlega auglýstu korti virðist bústaðasvæðið „Skátaskáli“, efst fyrir miðju (h.m. við O7), vera undanþegið friðlýsingunni!!??

Heimildir:
-Einhverjar 20 ára, 1. tbl. 29.02.1948.
-Morgunblaðið, 308 tbl. 13.11.2003, bls. 40.
-ust.is/library/sida/Nattura/Kald%c3%a1rhraun%20og%20Gj%c3%a1rnar
-ferlir.is/kaldarhraun-og-gjarnar-fridlysing/
Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2024

Lækjarbotnar

Þegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Á skilti þarna stendur eftirfarandi:
Leifar vatnsstokksins frá Kaldá„Fram til 1904 var engin vatnsveita í Hafnarfirði en það ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar „Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar“. Félagið stóð meðal annars fyrir því að grafnir voru brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá tengd veitunni en auk þess voru settir upp vatnspóstar bíða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttu sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerðar.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu héðan ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landfræðings en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið frá Lækjarbotnum vegna hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár en þó þurfti að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna oftar en einu sinni.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stíflan.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóhannesar Reykdals og Jóns Ísleifssonar verkfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Sléttuhlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949 en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjáanlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951.“

Vatnspípan í Lækjarbotnum

Í Sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar segir m.a. um þessar framkvæmdir: „Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu.
Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Kaldársel

Kaldársel – undirstaðan undir vatnsleiðsluna.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stíflan.

Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni. Undanfarin ár hefur verið nægilegt neysluvatn að fá í Hafnarfirði og talið að endurbætur á bæjarveitukerfinu hafi átt mestan þátt í því.“
Vatnspípan í Lækjarbotnum

Sléttuhlíð

Í deiluskipulagi fyrir Sléttuhlíð, frístundabyggð ofan Hafnarfjarðar, frá árinu 2023, segir m.a. um sumarbústaðabyggðina undir hlíðinni:

Hamarskotshellir

Hamarskotsselshellir.

„Svæðið er Sléttuhlíð sem er við Setberg-Hamarkot, í Hafnarfirði. Í kringum 1553 er ritað um jörðina Hamarskot í fógetareikningum. Árið 1579 eru landamerkjadeilur á milli Hamarkots og Setbergs. Í Jarðarbók frá árinu 1703 er Garðakirkja eigandi að Sléttuhlíð og selstöð sem heitir Hamarkotssel og helli sem heitir Kethellir. Hafnarfjarðarbær keypti jörðina Hamarkotstún árið 1912.
Sumarið 1926 úthlutaði fasteignanefnd Hafnarfjarðar fyrstu lóðunum fyrir sumarbústað á svæðinu, þeim Jóni G. Vigfússyni og Magnúsi Böðvarssyni.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980).

Um svipað leyti hófst skógrækt á svæðinu. Með þessu hófst skógrækt og uppgræðsla í hlíðunum sem var að miklu leyti ógróin þegar fyrstu bústaðirnir risu, en eitthvað var um kjarrlendi í hraunhvammi í norðurenda hlíðarinnar. Árið 1941 voru girðingar settar upp sem hjálpuðu mikið til við uppvöxt gróðurs þar sem fjárbeit var enn almenn.
Kringum 1940 fjölgaði eftirspurn eftir landi fyrir sumarhús og var þá úthlutað nokkrum lóðum. Árið 1950 bættust einnig nokkur sumarhús við eftir að vatsnveitan var leidd í stokk.
Á svæðinu er einnig að finna gróðurspildur, kallaðar Landnemaspildur sem hefur verið úthlutað til einstaklinga eða félagasamtaka sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur haft umsjón með.
Þar hefur í áranna rás vaxið upp myndarlegt skógræktarsvæði. Landnemaspildum var fyrst úhlutað árið 1979 og svo aftur um 1990. Auk þess hefur mikið verið plantað í Gráhelluhrauni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – hlið að bústað Jóns Gests.

Svæðið samanstendur af láglendu, hraunyfirborði og hlíðum, hlíðarnar mynda einskonar skeifu sem snýr á móti suðri. Láglendið er hraun, Selhraun sem er eldri en 4000 ára, mosavaxið með gjallkarga á yfirborði. Hlíðarnar eru víðast hvar aflíðandi og voru mestallar set sem hafði að geyma óhulið berg og þurrlendisjarðveg. Á svæðinu er að finna jarðmyndanir eins og hrauntraðir og jökulrákir. Svæðið liggur á bilinu 50-100 m.y.s. Hæðstu toppar Sléttuhlíða eru 96 m og 110 m.y.s. Grunnvatnshæðin við Sléttuhlíð er um 60 m.y.s.

Mikið hefur verið gróðursett á svæðinu af skógarplöntum og setur það mikinn svip á ásýnd svæðisins.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests 20225.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur úthlutað landnemaspildum til skógræktar og ásamt því hafa sumahúsaeigendur gróðursett mikið á svæðinu. Í dag er að finna á svæðinu dæmigerða skógrækt frá 1930-1980 og notaðar hafa verið tegundir eins og; sitkagreni, blágreni, stafafura, bergfura, lerki og birki. Trén dafna vel og eru orðin um 10-15 m há.

Landnemaspildum var úthlutað fyrst 1979 til 20 ára í senn, eftir þann tíma var möguleiki á að endurnýja samning til 20 ára í viðbót. Samkvæmt samningum er öll mannvirkjagerð bönnuð á úthlutaðri spildu og er svæðið ætlað til útivistar og skógræktar. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í umboði Hafnarfjarðarbæjar hefur haft umsjón með landnemaspildum. Á svæðinu eru um áætlaðar um 60 spildur, stærðir eru frá 6500-115.000 m2.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða.

Söguminjar er að finna í jaðri svæðisins til norðurs, suðurs og ofan á hlíðunum. Um er að ræða vörður, sel, stekki og gönguleiðir sem tengjast fjárbúskap fyrri tíma. Engar minjar eru í Sléttuhlíðinni sjálfri. Minjarnar sem er að finna á svæðinu eru ekki friðlýstar. Þjóðleiðin Selvogsgata er staðsett að hluta til innan svæðisins og einnig eru þar nokkrar aðrar minniháttar leiðir sem notaðar voru á fyrri tímum.“

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er minningagrein um Jón Gest Vigfússon, rituð af Hákoni Bjarnasyni. Í henni segir m.a.:

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns gests 2025.

„Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 kom það í hans hlut að verða ritari félagsins fyrstu 10 árin. Mun ekkert skógræktarfélag landsins eiga jafn greinagóðar og vel ritaðar fundargerðir sem þær, er Jón Gestur færði með sinni fögru rithönd. Síðar gegndi hann formannsstörfum í félaginu um tveggja ára skeið, en úr stjórn gekk hann 1964.
Það var ekki að ófyrirsynju að Jón Gestur var með í félagsstjórninni frá upphafi. Um 1935 fékk hann stórt land til ræktunar í Sléttuhlíð, um 5 km veg austur af bænum. Landið var ekki álitlegt við fyrstu sýn, óræktarmóar og grágrýtisklappir í hlíðinni, en þrautnagaðar valllendisgrundir við hlíðarræturnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð skilti á bústað Jóns Gests og eiginkonu.

En þar voru samhent hjón að verki ásamt stórum barnahópi, sem breyttu þessu landi í gróðursælan unaðsreit þar sem þau dvöldu allar stundir, sem fært var. Eitt sinn er ég kom til Jóns Gests og við gengum um landið sagði hann við mig eitthvað á þessa leið: „Ég kæri mig ekki um stærra land, en ég vil sýna mönnum hvað gera má án allt of mikillar fyrirhafnar svo að þetta megi verða öðrum fordæmi. Jón Gestur fann ekki til fyrirhafnarinnar, sem hefur verið ærin, í gleði sinni yfir því að hafa slíkt land undir höndum. Þau voru orðin ærið mörg sporin hans úr Hafnarfirði í Sléttuhlíð áður en sæmilegur vegur náði þangað. Á þessum stað má nú sjá hvernig allt umhverfi Hafnarfjarðar gæti litið út, ef bæjarbúar og bæjarstjórn vildu feta í fótspor hans.“

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests.

Í Morgunblaðinu 1980 er jafnframt minningargrein Ólafs Vilhjálmssonar um Jón Gest Vigfússon: „Hér verður rakinn í stórum dráttum hinn félagslegi þáttur Jóns Gests að skógræktarmálum og er nú komið að öðrum ekki veigaminni þætti og á ég þar við landnám hans og trjárækt í Sléttuhlíð sem sýna og sanna hve skógræktarhugsjónin var hans mikið hjartans mál. Það mun hafa verið árið 1925 sem Jón nam land þarna. Var þá öll hlíðin að mestu uppblásin og sundur skorin rofabörðum en á stöku stað lítilsháttar birkikjarr.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – aðkoman að bústað Jóns Gests.

Á þessum fyrstu árum Jóns í Sléttuhlíð var mjög erfitt að fá trjáplöntur nema þá helst reyni og björk en árið 1937 mun Jón hafa fengið fyrstu sitkagreniplönturnar sem setja nú mestan svip á þennan fagra lund þó aðrar trjátegundir skarti þar einnig vel.
Hver sá bær sem ætlar sér að ala upp heilbrigða og hrausta borgara kemst ekki af með götur einar og steinlögð torg, hann þarfnast ekki síður þess hreina lífslofts sem gróðurlundir veita. Takmark Hafnfirðinga hlýtur því að vera að breyta hæfilega miklum hluta bæjarlandsins í iðgræna trjálundi til skjóls, hollustu og fegurðar fyrir þá er í framtíðinni byggja þennan bæ, þar hefur Jón Gestur vísað veginn, okkar hinna er að fylgja fordæmi hans.“

Í ár, 2025, eru eitt hundrað ár liðin frá frumkvöðlastarfi skógræktarlandnámsmannanna í Sléttuhlíð. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur nú splæst í skilti af minna tilefni – sjá t.d. Kaldársel 100 ára.

Sjá meira um Sléttuhlíð HÉR.

Heimildir:
-Sléttuhlíð í Hafnarfirði, deiluskipulag; frístundabyggð, greinargerð og skipulagsskilmálar 09. feb. 2023.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981, Jón Gestur Vigfússon, bls. 58.
-Morgunblaðið, 236. tbl. 24.10.1980, Minning; Jón Gestur Vigfússon Hafnarfirði, Ólafur Vilhjálmsson, bls. 22.

Sléttuhlíð

Ágústmorgunhafgolan í leik undir Sléttuhlíð.

Kaldársel

Í skrautgarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði eru sex aðskilin skilti með yfirskriftinni „Kaldársel í 100 ár„.

Fyrsta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1925-1945:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli reis fyrsti sumarbúðakálinn sem KFUMfélögin hér á landi eignuðust. Félögin byggðu húsið árið 1925 til sumardvalar fyrir börn og var það vígt 25. júní sama ár.
Jólel Friðrik Ingvarsson var mikill frumkvöðull í KFUK í Hafnarfirði og gegndi lykilhlutverki við stofnun sumarbúðanna í Kaldárseli. Hann fór með sér Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK í Reykjavík, í Kaldársel og í þeirri ferð fæddist sú hugmynd að þar væri gott fyrir KFUM að eiga bústað.

Kaldársel

Kaldársel 1926.

Náttúrfegurðin í Kaldárseli heillaði alla sem þangað komu. Nokkurra ára aðdragandi var að stofnun sumarbúðanna, þar sem félagar í KFUM báðu fyrir hugmyndinni og söfnuðu í skálasjóð.
Í Vísi árið 1929 lýsti Sigurbjörn Á Gíslason dagsferð í Kaldársel, meðal anars húsakynnum KFUM: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt [herbergi], þar eru 24 rúm. þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði“.

Annað skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1946-1965:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Börnin sem dvalið hafa í Kaldárseli í gegnum tíðina eiga þaðan fallegar minningar um fjölbreytt starf og skemmtilegan leik.
Gyða Gunnarsdóttir skrifaði eftirfarandi orð um sína fyrstu sumarbúðaferð í Kaldársel árið 1958 sem hófst á ferðalaginu þangað; „Það kom rúta á Hverfisgötuna í Hafnarfirði og stoppaði fyrir framan KFUM og K húsið. Við stelpurnar vorum að fara í Kaldársel, ég í fyrsta sinn í fjórar vikur og var aðeins sex ára. Árið 1958. Ég var spennt. Jafngaman að fara í rútu og það var að fara í strætó en núna var að hefjast ævintýri.

Kaldársel

Kaldársel – buslað í Kaldá.

Leiðin lá út Hverfisgötuna og upp Öldugötuna og upp fyrir bæinn. Þegar rútan lagði af stað vinkaði mamma, ég vinkaði á móti og fann strax fryir heimþrá sem svo gleymdist fljótt vegna alls þess sem beið mín og gerðist. Leiðin lá um hraunið fyrir ofan bæinn, framhjá Sléttuhlíð og svo niður brekkuna með klettum á báðar hliðar næstum eins og Alammangjá á Þingvöllum. Svo blasti litla hvíta húsið við, húsið við Kaldána við Kaldársel, þar sem við allar í rútunni ætluðum að dvelja næstu fjórar vikurnar….“

Þriðja skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1966-1985:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í viðtali við Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur matráðskonu í Kaldárseli við tímaritið Bjarma árið 1985 rifjaði hún upp gamla tíma í Selinu eins og flestir kölluðu Kaldársel í daglegu tali: „Eldað var á kolavél sem var um leið eina upphitunin í skálanum. […] Í þá daga voru börnin heilan mánuð í einu í Selinu og þegar þau áttu að fara í bað, eins og nauðsynlegt var, þurfti að hita allt vatn á kolavélinni. Oft bogaði af manni sveitinn við það starfs og eitt sinn var mér orðið svo heitt að ég skutlaði mér út í Kaldá á eftir.

Kaldársel

Kaldársel endurbætt.

Það gefur einnig hugmynd um starfið þá, að eitt af kvöldverkum ráðskonunnar var að hreinsa útikamrana og grafa í jörð það sem í föturnar hafði safnast um daginn. Nú eru aðstæður allar aðrar og munar þar kannski mest um breytinguna sem varð þegar byggt var við skálann og hann endurbættur [árið] 1967. Nú höfum við heitt vatn frá olíuhitun og gasvél er tekinvið af gömlu kolavélinni. Enn höfum við þó ekki fengið rafmagn“.

Fjórða skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1986-2005:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli fá börnin að heyra um Jesú og ýmsar sögur úr Biblíunni. Auk þess læra þau mörg vers og kristilega söngva. Þeir Guðmundur Vignir og Friðfinnur Freyr höfðu þetta að segja í Barnablaðinu árið 1989 þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir höfðu helst lært af verunni í Kaldárseli: „Fyrst og fremst höfum við lært um Guð. Það er allatf verið að tala um Guð hérna. Okkur eru sagðar kristilegar sögur og venjulegar sögur sem við eigum að læra eitthvað af. T.d. höfum við lært að fyrirgefa og hvað það er nauðsynlegt að vera vinir, sagði Guðmundur.

Kaldársel

Drengir í Kaldárseli.

Það slettist þó stundum upp á vinskapinn, sagði Friðfinnur, en við leysum alltaf úr öllum hlutum og allir verða vinir aftur.“
Þrisvar sinnum var farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaðurinn bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júní 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum fyrir rafmagni og hita en fyrir það hafði ekki verið rafmagn í Kaldárseli. Um 250 börn dvöldust í sumarbúðunum það árið og voru þau 38 í einu þegar flokkurinn var fullskipaður“.

Fimmta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 2006-2025:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í 100 ára hafa börn komið í Kaldársel, þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda. Umhverfi Kaldársels spilar stórt hlutverk í dagskrá sumarbúðanna og leikjanámskeiðanna. Þar er fjöldi hella og ævintýralegra staða sem gaman er að skoða. Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir börnin allan daginn. Útileikir, sullað í ánni, búleikir og virki í hrauninu, hellaferðir, fjallganga, samverustundir, fræðsla, föndur, söngur og bænir svo eitthvað sé nefnt. Í Kaldárseli er leitast við að efla og styðja góð samskipti með uppbyggilegri leiðsögn og kristnifræðslu.

Kaldársel

Stúlkur í Kaldárseli.

Ásamt sumarbúðunum hefur Vinasetrið bæst við í starfsemi Kaldársels og er það starfrækt um helgar allan ársins hring. Tilgangur og markmið Vinasetursins er að veita börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á þéttu stuðningsneti frá fagfólki að halda athvarf og stuðning. Unnið er af heilhug eftir þeirri hugsjón að hvert barn er einstakt og á skilið það allra besta.
Kaldársel hefur verið til staðar fyrir börnin okkar í 100 ár“.

Sjötta skiltið fjallar um Benedikt Arnkelsson og Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Benedkit forstöðumaður, alltaf kallaður Benni, starfaði í Kaldárseli í rúmlega 45 sumur og lengur ef talin eru sumur þar sem hann kom til aðstoðar í tyttri tíma. Hann var trúr sinni köllun af vera innanlandskristniboði. Hann hafði fastar skorður á hlutunum og náði vel til barnanna.
Sigrún Sumarrós, alltaf kölluð Rúna, var matráðskoma í Kaldárseli í um það bil 50 sumur. Eldhúsið var hjarta Kaldársels og Rúna sá til þess að hjartað sló traustum takti. Rúnu féll aldrei verk úr hendi og naut hún sín hvergi betur en í skarkala og hlátrasköllum barnanna.
Í sameiningu stýrðu Benni og Rúna sumarbúðunum í Kaldárseli með styrkri hendi og hlýju. Vitnisburðir óteljandi barna, sem nú eru löngu orðin fullorðin, segja að þau hafi gengið þeim í föður- og móðurstað meðan á dvöl þeirra stóð í Selinu góða“.

Heimild:
-Skilti í Hellisgerði í Hafnarfirði árið 2025.

Hellisgerði

Hellisgerði 2025.

Háuhnúkar

Háuhnúkar eru efstu móbergshæðir Undirhlíða. Undirhlíðar eru framhald á Sveifluhálsi til norðurs, norðan Vatnsskarðs.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Hæstu tindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar (364 m.), Stapatindar (395 m.) og Miðdegishnúkar. Sveifluháls (Austurháls) er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Efst á hálsinum miðjum er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Sveifluháls

Sveifluháls – Miðdegishnúkur efst.

Á Sveifluhálsi er móbergið megin bergtegundin. það verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun.

Móberg

Móberg – skessukatlar.

Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.

„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vesturhluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.

Sveifluháls

Sveifluháls – móbergsfjallgarður.

Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum, bæði frá mismunandi ísaldaskeiðum og nútíma.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttumiklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

Undirhlíðarnar eru af að mörgu leyti af sama meiði og Sveifluháls. Þó er sá stigsmunur á þessum samfellda ási að í Undirhlíðum er grágrýti og brotaberg meira áberandi samhliða móbergsásunum, s.s. Háuhnúkum. Grágrýtisberggangar, uppsprettur hraunanna, eru þar víða áberandi og má segja að einn tilkomumesta bergganginn megi berja augum efst á hnúkunum.

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“ segir: „Þá eru Undirhlíðarnar. Norðan við Vatnsskarð rís upp allhár hnúkur, sem heitir Háuhnúkar. Þetta er móberg, en upp úr því kemur eins og garður. Nokkuð norðar, vestan undir hlíðunum, er allmikill hvammur, sem heitir Stóri-Skógarhvammur, vestur af Slysadölum. Þá lækka hlíðarnar, og þar norður af er önnur hæð, sem heitir Gvendarselshæð.“ Í örnefnalýsingunni er ekki getið um Móskarðshnúka, sem bendir til þess að örnefnið sé tiltölulega ný til komið.

Háuhnúkar

Háuhnúkar – berggangur.

Í skrá um „Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði“, segir: „Inn með Lönguhlíð að vestan eru Undirhlíðar. Austan í þeim er Leirdalur,
Breiðdalur og Slysadalur. Austan við Leirdal er Leirdalshöfði. Uppi á Undirhlíðum er Gvendarsel og Háuhnúkar.“

Háuhnúkar, móbergsstaparnir, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir sem fyrr segir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háuhnúkum.

Berggangur

Berggangur.

Þarna er um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.

Auðvelt er að ganga að Háuhnúkum frá Bláfjallavegi ofan við aflagða malarnámuna, upp á hæðina sunnanverða og fylgja henni og nöfnum hennar að hnúkunum.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“.
-Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði – Þorsteinn Bjarnason.

Háuhnúkar

Háuhnúkar (Móskarðshnúkar). Horft frá Krýsuvíkurvegi.

Stórkonusteinar

Gengið var spölkorn eftir Selvogsgötunni áleiðis upp í Kerlingarskarð. Áður en síga tók í var vent til hægri, niður slóða til vesturs undir Lönguhlíðum. Komið var m.a. við hjá Stórkonusteinum, gengið um Stórahvamm, framhjá Leirhöfðaatnsstæðinu, upp á Móskarðshnúka norðan Háuhnúka, niður Markrakagil og síðan til norðurs með Undirhlíðum, um Stóra-Skógarhvamm og að Gígbrekkum við Bláfjallaveg.

Stórkonusteinar

Stórkonusteinar.

Selvogsgatan var þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún var farin í einum áfanga. Eftir að komið var upp úr Mosunum í Þríhnúkahrauni ofan við Strandatorfur greindist leiðin, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð. Ef haldið var um Kerlingarskarð var staðnæmst við vatnsstæði skammt ofan við skarðið. Svolítið vatn var þó einnig fáanlegt í drykkjarsteinum efst í skarðinu. Við vatnsstæðið er hlaðið í götuna. skammt frá því greinist gatan í tvennt; annars vegar niður Hlíðarveg, vel varðaða áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn, og hins vegar til austurs yfir á Selvogsgötuna, sem kom þar ofan frá Grindarskörðum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Skammt austar var svo Heiðarvegurinn um Heiðina há niður í austanverðan Selvog. Selvogsgatan lá með gjám (m.a. Stórkonugjá) gígum og hlíðum niður að Hvalsskarði. Neðan þess tóku við Strandardalur og Hlíðardalur þar sem Sælubuna var kærkomin áningarstaður. Þaðan lá gatan áfram niður heiðina, um Strandarhæð og niður í Selvog. Vörðurnar við gömlu Selvogsgötuna, eru flestar fallnar. Þar sem gatan liggur um Þríhnúkahraun hafa vörður þó verið endurhlaðnar.
Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðarkróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingagili. Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.

Háuhnúkar

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar).

Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið er úr Bollunum í Skörðunum fyrrnefndu. Stóribolli er einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna eru einnig háir móbergsveggir.
Lönguhlíðarhorn skagar út úr hlíðinni líkt og Vatnshlíðarhornið norðan Lambhagatjarnar, Í því sunnanverðu er Kerlingagil, ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Haldið var um Leirdali. Dalirnir eru í lægðarslakka, sem fyllast af vatni á veturna, með gróðurtorfum á milli. Álftanesskógar voru á þessum slóðum til forna, en nú finnast eingöngu stakir víði- og birkirunnar og einibrúskar hér og þar. Tvö vatnsstæði eru í Leirdölum, það syðra líkara vatni. Líklega hefur það verið ástæðan fyrir tóftunum í Fagradal, skammt sunnan þess.
Sunnan Leirdalshöfðavatnsstæðis liggur forn þjóðleið, Leirdalshöfðaleið.
Leirdalshöfðaleið liggur eins og Dalaleið frá Kaldárseli að Leirhöfða. Hún þræðir sig suður með höfðanum og fylgir suðurhlíðum hans að Leirhöfðavatnsstæði. Þar er stefnan tekin á Fagradalsmúla og Fagradal, eða um Breiðdal að Blesaflöt og fylgir síðan Vatnaleiðinni til Krýsuvíkur. Rjúpnaveiðimenn héldu gjarnan inn í Fagradal og fylgdu bröttum slóða, sem liggur frá dalbotni upp á brún Lönguhlíðarfjalls. Þegar upp er komið er hægt að velja ýmsar leiðir, en gömul þjóðleið liggur í áttina að Hvannahrauni (Hvammahrauni) og Gullbringu, hjá Geithöfða, um Hvamma og fram með Lambafellum að Krýsuvík.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.

Gengið var á Móskarðshnúka um ás milli Breiðhdals og Slysadala.
Háuhnúkar eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markagils (Markrakagils) og skammt frá Vatnsskarði, vestan (sunnan) við Móskarðshnúka. Þeir eru allt að 263 m. háir. Á milli hnúkanna eru grónir hvammar og víða standa móbergskollar upp úr ásunum sem vatn og vindar hafa sorfið og mótað í aldanna rás. Þessi syðsti hluti Undirhlíðanna hefur af sumum verið nefndur Undurhlíðaendi því í Vatnsskarðinu (sem aðrir telja reyndar að hafi verið skarðið vestan Vatnshlíðarenda þar sem menn sjá fyrst niður að Kleifarvatni ofan Blesaflatar) tekur Sveifluhálsinn við.

Háuhnúkar

Háuhnúkar (Móskarðshnúkar).

Móskarðshnúkarnir (Háuhúkar) eru hins vegar heimur út af fyrir sig. Hæstur er syðsti hnúkurinn. Þegar horft er á hann úr vestri má sjá andlit horfa efst úr honum til norðurs. Norðan hans er hnúkaþyrping. Norðvestast í henni er falleg lítill móbergsskál, sem vindar og vatn hafa leikið sér að móta svo um munar. Skálin er bæði skjólsæl og einstaklega falleg. Skessukatlar eru við hana vestanverða. Á Undirhlíðum, skammt norðan við Móskarðshnúka, virðist vera gerð tilraun til melræktunar með neti, sem lagt hefurverið á jörðina, þ.e. að láta netið mynda skjól fyrir lággróðurinn.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Móskarðshnúkagil.

Móskarðsgil, á milli Móskarðshnúka og Stóraskógarhvamms, þykir fremur torfarið og svo er reyndar um öll gilin fjögur á vestanverðum Undirhlíðum milli Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, nema Markagil (Markrakagil). Mörk Hafnarfjarðar liggja um gilið og þar mætast og mörk Garðabæjar og Grindavíkur í sneiðing með Lönguhlíðarhorninu.

Markagil virðist torvelt uppgöngu, en ofan frá séð er engum torfærum fyrir að vara. Neðst í gilinu eru fallegur smágerður stuðlabergshamar. Ystagil er skammt sunnar og Sneiðingur nyrst þessarra gilja.

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.

Norðan Móskarðsgils er gróskumikill furuskógur, sem unglingspiltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu út 1959 til 1964, m.a. sá sem þetta skrifar, í samstarfi við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Sumir hafa viljað Markagil þar sem nú er Vatnsskarð. Aðrir hafa fært það að næsta gili að norðan, en á kortum er gilið á fyrrnefndum stað. Á milli þess og Stóra-Skógarhvamms er Höfðinn, stundum nefndur Út-Höfði til aðgreiningar frá Inn-Höfða, sem er sunnan þess.
Brunahryggur nefnist hraunbrún í Nýjabruna norðvestan Undirhlíða. Í skjólsælum hvammi sunnan hraunbrúnarinnar hafa birkitré fest rætur og fengið frið til að vaxa. Þessi sérkennilegi blettur í mosagrónu hrauni er utan alfaraleiðar og fáir venja þangað komu sínar.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Undirhlíðaleið hófst við Kaldársel og lá norðan Undirhlíða yfir núverandi Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar var haldið áfram yfir núverandi Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tók Ketilsstígur við og lá yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur tóku við.
Nú er búið að stika Undirhlíðaleiðina. Á a.m.k. einum stað á þessum kafla má vel sjá móta fyrir hinni gömlu götu, þar sem hún er mörkuð í slétta hraunhelluna, en annars hefur slóði verið lagður yfir hana að hluta.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður – skin og skúrir.

Heimildir m.a.:
-Raleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Þorkell Árnason.

 Grindarskörð

Grindarskörð v.m. Kerlingarskarð h.m.

 

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú, árið 2025, haldinn í 29. sinn.

Leikurinn er, líkt og jafnan, bæði fjölbreyttur og skemmtilegur. Þemað að þessu sinni er Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar.

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson.

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta og forstjóri Hönnunarhússins, lagði út leikinn og hefur borið hita og þunga af tilurð hans. Ómar Smári Ármannsson, svæðisleiðsögumaður og fornleifafræðingur, tók saman lítillátlega fróðleiksmola um einstaka staði leiksins.
Lykillinn að leiknum, Ratleikskortin, liggja frammi, án endurgjalds, á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaupum, Bókasafni Hafnarfjarðar, Ráðhúsinu, Bensínstöðvum N1, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Sundhöll Hafnarfjarðar og víðar. Guðni lofar góðum verðlaunum þeim er verðskulda.

Ratleikur 2025

Ratleikjakortið 2025.

Ef einhver vill hins vegar koma einhverjum athugasemdum á framfæri er rétt að sá/sú snúi sér til Valdimars Víðissonar bæjarstjóra í Hafnarfirði. Hann þekkir væntanlega hverja þúfu í umdæminu!

Öllum bæjar- og varabæjarfulltrúunum, sem og öllu starfsfólki bæjarins hefur verið boðið sérstaklega að taka þátt í ratleiknum í ár. Virk þátttaka þeirra er vissulega gott fordæmi fyrir aðra bæjarbúa er búa í bæ er gefur sig út fyrir markvissa lýðheilsu og hollustu.

Þess má geta að veglegir verðlaunamöguleikarnir eru í boði fyrir alla/öll er skila inn réttum lausum fyrir lok leiksins um og eftir miðjan septembermánuð.

Ferðist og fræðist með Ratleiknum og njótið um leið fjölbreytilegra dásemda bæjarlandsins.

Hér má lesa fróðleik Ratleiksins að þessu sinni:

1.    Hæðin / Ljósaklif

Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjarðarland segir:

Ljósaklif

Ljósaklif.

„Ljósaklif er klettaklif í suðausturenda hæðarinnar (Hæðarinnar með klifinu) ofan samnefnds húss, neðan Garðavegar, vestan Herjólfsgötu sem ofan Garðavegar nefnist Herjólfsbraut. Þröngt skarð milli kletta, vel manngengt þó, grasi vaxið í botni. Er í suðaustasta klettinum á Hæðinni. Upp á Hæðinni vestanverðri eru leifar skotgrafa (lagfærðar hraunsprungur) og vígi frá hernámsárunum. Þar sást ljós er skyggja tók. Þetta er haft eftir Þórði Eyjólfssyni á Brúsastöðum er sagði Benedikt í Ljósaklifi þegar hann var að byggja nefnt  hús sitt.“
Milli Brúsastaða og Hrafnistu liggur lokaður vegstubbur að sökkli Dalbæjar. Húsið var um stund í eigu Árna Gunnlaugssonar. Í því bjó m.a. Jökull Jakobsson, rithöfundur, uns hann lést af slysförum.

2.    Hádegishóll

Hádegishóll

Hádegishóll.

Klofhóll var vestan til við Fjarðargötu (norðvestan Fjarðarkaupa). Af hraunbrúninni úr Fjarðargötu lá Hraunsholtsselsstígur fram á hraunið.

Stöðulgjóta lá á hægri hönd eða vestan við Fjarðargötu. Langalaut aftur á móti austan við og lá inn eftir hrauninu. Flatahraun lá suður af Löngulaut, sem einnig nefndist Sléttahraun. Kolla var laut rétt við Bruna suður af Flatahrauni. Þá  var Stekkurinn í Stekkjarlautinni vestur af Fjarðargötu og Húfugjóta þar suður af. Þar suður af var svo Hádegishóll. Eyktarmark frá Hraunsholti og hornmark landa milli Hraunsholts, Garðahrepps og Hafnarfjarðar. Stórhóll lá suðaustur frá Hádegishól. Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel (sem var fyrrum suðaustan við hólinn). Um hólinn liggja girðingarmörk jarðarinnar.

3.    Miðdegishóll / Miðaftanshóll

Miðdegishóll

Miðdegishóll.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Leggja átti t.d. nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna.

Járnbrautarvegurinn

Upplýsingaskilti um Járnbrautarveginn.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun.

Grjótið í vörðunni á Miðdegishól er fest saman með steinsteypu, líkt og í öðrum á fyrrum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Á henni stendur ártalið 1969. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, lét þá styrkja landmerkjavörður bæjarins með steinsteypu.

4.    Hamarinn

Hafnarfjörður

Hamarinn (Hamarskotshamar).

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar (Austurhamar), í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar).

Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Litlibróðir nefnist Vesturhamar, milli Strandgötu og Suðurgötu.

Hafnarfjörður

Hamarinn – jökulsorfnar klappir.

Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum. Af þeirri ástæðu, sem og vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul, var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Hamarinn dregur nafn sitt af Hamarskoti, sem var þarna á túninu milllum hans og núverandi Flensborgarskóla.

5.    Holtið

Holtið

Holtið.

Hamarinn skiptist fyrrum í Austurhamar og Vesturhamar. Sá fyrrnefndi er nú jafnan nefndur „Hamarinn í Hafnarfirði“ og sá síðarnefndi hefur einnig verið nefndur „Litlihamar“. Vélsmiðja Hafnarfjarðar var byggð undir Litlahamri. Sjórinn náði fyrrum upp að hamrinum svo illfært var fyrir umferð þar neðanvert, eða þangað til uppfylling var lögð undir veg. Áður fór nánast öll umferð um Illubrekku (Bröttubrekku) á Suðurgötu millum hamranna. Suður og ofan af Litlahamri er Jófríðarstaðaholt. Það náði allt að sunnanverðum Austurhamri.

Holtsgatan dregur nafn sitt af holtinu. Enn má sjá leifar þess á auðu svæði milli Holtsgötu, Hlíðarbrautar og Hringbrautar. Í holtinu má sjá jökulsorfin hvalbök. Í því er og umtalsverð álfabyggð.

Hafnarfjörður

Holtið – óröskuð álfabyggð.

Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, hlíðar, hæðir og hólar í og ofan Hafnarfjarðar eru mótuð af ísaldarjöklinum, sem og hinum hefðbundnu roföflum. Ísöldinni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var hún þó einn fimbulvetur, heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið — hér á landi eru merki um einar 24 slíkar lotur, þar sem kuldaskeiðin kunna að hafa varað um 100.000 ár en hlýskeiðin mun skemur.

Auðvelt er að komast að Holtinu frá Hlíðarbraut um göngustíg við hús nr. 5.

6.    Ófriðarstaðaholt (Jófríðarstaðaholt)

Jófríðastaðir

Jófríðarstaðaholt.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens, en Bjarni keypti jörðina árið 1804.

Jófríðarstaðir eru á Jófríðarstaðaholti. Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á.  Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðaholt.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni.

Á Ófriðarstaðahól efst á holtinu var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki  niður með traðagörðunum.

Víðsýnt er yfir Hafnarfjörð frá Jófríðarstaðaholtinu. Margar yfirlitsmyndir af bænum fyrrum voru teknar af holtinu.

7.    Hvaleyrarholt

Hvaleyri

Hvaleyri – Heiðarbrunnur.

Í suður frá Hvaleyri sunnan túngarðs, ofurlítið uppi í holtinu, er lind, sem heitir Heiðarbrunnur. Upp á háholtinu voru nefndir Hjallar. Þangað var fiskurinn borinn til þurrkunar. Innar á holtinu var Fuglastapaþúfa nyrðri, landamerki Hvaleyrarlands í fjörunni við Hvaleyrarlón. Hún lenti í uppfyllingu Olíufélagsins. Hærra í holtinu var, og er,  Fuglstapaþúfa syðri. Umleikis hana má sjá jökulssorfnar grágrýtisklappir. Þar rétt sunnar, handan vegar og Þorgeirsstaða, eru Leirdalir.  Um þúfuna syðri lágu hornmörk Hvaleyrar, Áss, Jófriðarstaða, Óseyrar og Ásbúðar.

Heiðarbrunnur var gott vatnsstæði en þraut bæði í frostum á vetrum og þurrkum á sumrum. Úr brunni þessum var um 1930 lögð vatnsveita heim í Hjörtskot og þraut þá aldrei vatn (G.S.).

Hvaleyri

Skotgrafir ofan Hvaleyrar.

Neðan undir Heiðarbrunni í Hvaleyrarholti var Sædýrasafn Hafnarfjarðar, nú golfvallaflatir. Ofan við brunninn er Flókavarða. Íbúar í Sveio í Noregi  reistu vörðuna til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og færðu Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan. Vestan við Heiðarbrunn eru leifar af skotkröf bandamanna, en þeir reistu braggabyggð sína á Hvaleyrartanganum á stríðsárunum.

8. Setbergshamrar / Þórsbergshamar

Setbergshamar

Setbergshamar.

Setbergshamrar, norðan við Setbergsbæinn eru nefndir tveir hamrar í örnefnalýsingu eftir Gísla Sigurðsson, Setbergshamarinn eystri og Setbergshamarinn litli. Þar segir: „Setbergshamrar skiptast í Setbergshamar nyrðri og Setbergshamar syðri (Setbergshamar stóri og Setbergshamar minni). Þá eru þeir einnig nefndir Setbergshamar efri og Setbergshamar neðri, og er þá átt við klettana, sem Þórsberg stendur á og Ásberg stendur neðan undir.“

Á hömrunum eru stríðsminjar; þrjú skotbyrgi o.fl. auk steypts landamerkjastöpuls með koparskildi (sem stolið var af óánægðum landeiganda með landaskiptin millum Hafnfirðinga og Garðbæinga).

9. Setbergsholt / Setbergshlíð /Fjárhúsholt

Setbergsholt

Setbergsholt.

Setbergsholt er allt holtið kallað vestan frá hömrunum og austur eða suður um að Þverhlíð.

Upp frá fjárhúsinu (nú horfið) var Fjárhúsholt og þar efst á holtinu Nónklettar, en þeir voru eyktamark frá Urriðakoti. Ekkert annað nafn var á sunnanverðu Setbergsholti.

Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð sunnan Setbergsholts, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu,  þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selin. Þessi staður, Setbergssel,  er  reyndar einnig kallaður Kethellir, Kjöthellir og Selhellir.

Fjárhúsholt

Fjárhúsholt.

Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er nefndur hellir. Honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur  örlítið hærra. Hér er líka að finna seljarústir; gerði og stekk. Meira er hér um rústir.

Kershellir  er jarðfall, átta metrar að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann Hvatshellir.

Auðveldast er að nálgast merkið frá bílastæði við enda Klukkubergs.

10. Ásholt

Ás

Lambhúshóll.

Neðan við Ás voru Börð og Ásmelar, nú gróin tún. Þau lágu austan og ofan frá Ásholti (þar sem nú er leikskólinn Stekkjarás), en ofar og norðar voru fyrrum garðlönd Hafnfirðinga (nú Áslandshverfi). Ásvegur lá frá Norðurtröðum Áss norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti, síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.

Suðurtraðir lágu um Suðurtraðarhlið áleiðis að Hádegisskarði. Við þær var lambúsið undir Lambhúshól, jökulsorfnu bergstáli.

Ás

Ás – plógur neðan við gamla bæjarstæðið.

Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur.  Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið  austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.

11. Grísanesháls

Grísanes

Grísanes.

Ásflatir voru þar sem nú er byggðin í Hamranesi sunnan Skarðshlíðahverfis. Flatirnar voru einnig nefndar Hellisdalur og Dalurinn. Í honum var Grísanesfjárskjól, sem nú hefur verið eyðilagt sökum kæruleysis. Fram í hann rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg, millum Ásfjalls og Vatnshlíðar. Stígur liggur um Ásflatir (Dalinn) vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Landamerkjalínan liggur norður af Grísaneshálsi norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekk í Fuglstapaþúfu syðri. Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði Áss. Þaðan liggur hann á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxlinni vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð, Skarðið. Vestan undir Grísanesi er tóftir fjárhúss frá Hvaleyri og rétt norðan hans er gömul rétt frá Ási. Á hálsinum eru einnig stríðsminjar, s.s. fjögur hlaðin skotbyrgi.

12. Bleiksteinsháls / Vatnshlíðarhnúkur

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: “Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinsháls eða Bleiksteinaháls. Á honum er landamerkjavarða við tvo steina ljósa að lit, sem heita Bliksteinar (Bleiksteinar). Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.” Nefnd markavarða hefur nýlega verið eyðilögð vegna framkvæmda.

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls.

Ef hins vegar er skoðuð örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: “”Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselshöfða (Selhöfða), svo um Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús norðvestan Kaldársels. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.”

13. Vatnshlíð / Hákon Bjarnason

Vatnshlíð - Rat

Vatnshlíð – Ratleikur.

Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn.

Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Rofabarðstorfur voru stungnar niður, áburður borinn á börðin og grasfræi sáð þar sem þurfa þótti. Með mikilli elju, þrautsegju og óbilandi trú á að hægt væri að græða landið tókst að breyta leirkenndum moldarflögum í gróskumikið gróðurlendi á löngum tíma.

14. Húshöfði / Værðarlundur

Húshöfði

Húshöfði – Værðarlundur.

Lionsklúbburinn Ásbjörn í Hafnarfirði lét útbúa reitinn og var verkið fjármagnað af Minningarsjóði Gísla S. Geirssonar, sem var félagi í klúbbnum og lést langt um aldur fram. Klúbburinn kostaði gerð bílastæðis, lagningu göngustígs upp á Húshöfðann, gerð áningarstaðar á höfðanum, kaup á bekkjum og fleira. Værðar-bílastæðið er við Kaldárselsveg ögn lengra til suðurs en aðkeyrslan  að gróðrastöðinni Þöll.

15. Selhöfði / Seldalur

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hins vegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt.

Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af átaki Landgræðsluskóga sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þetta sama ár. Seldalur leit ekkert sérstaklega vel út þegar ræktunarstarfið hófst.

Seldalur

Seldalur – stekkur.

Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, höglum og örðu sem minnti á veru félagsmanna þar. Nú hefur dalbotninn verið græddur upp. Sunnan í Selhöfða eru leifar af stekk á grónum bala, sem bendir til að Seldalurinn hafi verið nýttur fyrr á árum.

16. Höfðarnir

Miðhöfði

Miðhöfðavarða.

Höfðarnir ofan Hvaleyrarvatns heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn.

Miðhöfði

Miðhöfði og Kjóadalur.

Landsvæðin sem tekin voru í fóstur hafa notið landbótanna í ríkum mæli og hafa holtin skrýðst hægt en örugglega margvíslegum gróðri. Þar sem áður voru moldarflög og viðvarandi uppblástur er nánast órofin gróðurþekja.

Stikaður, þjappaður, göngustígur liggur að vörðunni á Miðhöfða, bæði frá Fremstahöfða og Skátalundarvegi.

17. Sléttuhlíð

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Í Hamri 1951 segir: „Byggðin í Sléttuhlíð 25 ára“: „Í upphafi fóru tveir bjartsýnir ungir menn upp í svokallaða Sléttuhlíð, sem er um klukkutíma gang frá Hafnarfirði. Þessir ungu menn voru Jón Gestur Vigfússon, verzlunarmaður og Magnús Böðvarsson, bakari. Vildu þeir leita til fjallanna með fjölskyldur sínar til þess að geta látið þær njóta útivistar og hressandi fjallalofts. Þeir fengu leyfi þáverandi forráðamanna bæjarins, til að byggja sumarskála í Sléttuhlíð, en þó með því skilyrði að ekki mætti girða, eða gera neitt fyrir þann blett sem þeim var úthlutaður.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð og nágrenni. Hvítu línurnar sýna nálæg bílastæði við merki 17.

Fjáreigendur risu nú heldur betur upp á móti þessu og fannst víst þeirra kostir þrengdir til muna. En 12. júlí 1926, fluttu þeir Jón og Magnús þó með fjölskyldur sínar í nýjan skála, sem þeir höfðu byggt sér og nefndu hann Sléttuhlíð.

Undu þessar fjölskyldur kyrrðinni og fjallafegurðinni vel, þó margir væru örðugleikarnir í fyrstu, slæmur vegur, þar sem vegur var, en sums staðar fjárslóðir eingöngu. Vatnið þurfti að sækja að rennustokksendanum, sem var löng og erfið leið.

Jón Gestur og fjölskylda hans gerðu lóð sína að einhverjum fallegasta bletti í nágrenni Hafnarfjarðar, með ötulli árvekni og framúrskarandi áhuga á ræktun hlíðarinnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða suðaustan merkisins.

Hafa þau hlynnt vel að þeim gróðri, sem fyrir var og plantað út ógrynni af plöntum af margs konar tegundum og er yndislegt að vera þarna uppfrá á fögrum sumardegi. En Jón hefur ekki verið einn í þessu starfi, hann á ágætis konu, frú Sesselju Magnúsdóttur, sem er ein af hinum kunnu Skuldarsystkinum hér í bæ. Hafa þau hjón lagt sinn stóra skerf, þjóðinni til handa í ýmsu fleiru en skógræktinni.“

Nú eru í Sléttuhlíðinni fjöldi bústaða þar sem fólk unir hag sínum vel – líkt og frumkvölarnir.

18. Klifsholt

Klifsholt

Varða á Klifsholti.

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað land við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli

Listaverk við Smalaskála undir Klifsholti.

Í MBL 1986 segir að „skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biði því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð. Upp af örfoka landi væri þar risinn gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gæti beðið holtanna í kring. Jón minntist á áníðsluna, sem landið hefði  af illri nauðsyn verið beitt um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Auðvelt er að ganga upp að Klifholtsvörðunni eftir stikuðum stíg frá Rotary-lundinum vestan holtsins.

19. Undirhlíðar /Sandfell

Undirhlíðar

Undirhlíðar – varða á Sandfelli. Kaldársel fjær.

Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912.

Undirhlíðar

Í Undirhlíðum.

Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli nyrst norðan hlíðanna um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Landgæðum hrakaði í kjölfar langvarandi harðinda á seinni hluta 19. aldar sem stóðu fram undir annan áratug 20. aldar með tilheyrandi landrofi, uppblæstri og gróðureyðingu. Við þetta ástand bættist ríkjandi eldiviðarskortur Hafnfirðinga þegar kol bárust ekki til landsins vegna stríðsátakanna í Evrópu 1914-18.

Austan Kaldárbotna eru Kaldárhnúkar og austan þeirra Sandfell, austasta hæðin á Undirhlíðum.

20. Undirhlíðar / Skólalundur

Undirhlíðar

Undirhlíðar ofan Kýrsgils.

Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar.

Ingvarslundur

Minnisvarði í Ingvarslundi.

Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum, en meðal annarra tegunda sem dafna ágætlega má nefna sitkabastarð, rauðgreni, blágreni, stafafuru, fjallafuru, bergfuru og fjallaþin, auk birki- og víðikjarrs. Árið 1961 bættist Kúadalur við ræktunarsvæðið. Drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík voru einnig duglegir að planta trjám í Undirhlíðum á fyrstu árum sjöunda áratugs síðustu aldar.

Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.“

Hafa ber í huga að gönguleiðin um „Kúadal“ er ranglega merkt á kortum. Dalurinn gengur inn í og upp úr næstu kvos fyrir sunnan. Merkið er þar norðan við efst á holti þegar upp er komið.

21. Leirdalshöfði

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Ofan Undirhlíða er Breiðdalur og Breiðdalshnúkur, Kjóadalirnir vestari og eystri og Slysadalir (Leirdalir) milli Undirhlíða og Leirdalshöfða. Handan höfðans myndast tjarnir á veturnar sem nefnast Leirdalshöfðatjarnir. Þegar horft er til austurs af hnúknum sjást Bollarnir eða Grindaskarðahnúkar ásamt Þríhnúkum og Kristjánsdalahorni, og í fjarska bera Vífilsfell og Hengill við himinn og í góðu skyggni sjást Skálafell, Botnsúlur og fleiri fjöll.

Leirdalshöfði

Leirdalshöfði.

Á láglendi er þarna fjöldi hrauna frá ýmsum tímum, t.d. Tvíbollahraun, Skúlatúnshraun, Þríbollahraun, Rjúpnadyngjuhraun og Húsfellsbruni.

Í suðri er Fagradalur. Í dalnum er óskráðar seltóftir, væntanlega frá Krýsuvíkurbæjunum. Dalirnir norðan höfðans nefnast Leirdalur (Slysadalur) og Breiðdalur vestast.

22. Undirhlíðar / Móskarðshnúkar / Háuhnúkar

Háuhnúkar

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar).

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar) nefnast móbergshæðir á Undirhlíðum ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri. Það er vel þess virði að ganga upp að hnúkunum, t.d. á hlíðunum frá Bláfjallavegi ofan Óbrinnishóla, og skoða þessa náttúrusmíð sem lítur út eins tröll hafi útbúið þar hásæti sitt. Þegar horft er af hæstu hnúkum blasa Undirhlíðar við til beggja handa. Í norðurátt má greina Kaldársel, Gjárnar, Klifsholt, Vífilsstaðahlíð, Móskarðshnúka, Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall og fleiri fjöll.

Um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.

23. Hafurbjarnarholt / Fornuselshæð

Hafurbjarnarholt heitir hæð milli Straumssels og Fornasels í Almenningi. Í örnefnalýsingu svæðisins segir m.a.:

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarh0lt framundan.

„Fyrir neðan og norðan Stórastein (kennileiti við Hrauntungustíg) eru Fornasel og Gjásel, þar er líka Kolbeinshæð. Hjá Gjáseli er Gjáselsskyggni, í norður frá honum er Hafurbjarnarholt, þá Markhóll, Norðastihöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Fyrir sunnan þessa hóla er mikið af nafnlausum hraunstrýtum, sem ná upp að mörkum milli Hraunabæja og Krýsuvíkur. Litlaholt liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts. Á holtiu er steyptur landmælingastólpi. Neðan hans er landamerkjavarða Straums og Þorbjarnastaða, Hafurbjarnarholtsvarða.  Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – landamerkjavarða.

Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel [Gjásel], sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“

Gísli Sigurðsson segir, að Fornuselshæðir  hafi verið nefndar Lýritti. Hafur-Björn hefur jafnan verið kenndur við Grindavík, einn sona Molda-Gnúps, landnámsmanns. Telja verður hæpið að nefndur Björn hafi verið heimakominn í holtinu því at’arna. Líklegra verður að telja að holtið hafi dregið nafn sitt af Þorbirni á Þorbjarnarstöðum, hafi heitið „Þorbjarnarholt“, en örnefnið breyst einhverra hluta vegna. A.m.k. er landamerkjavarða Þorbjarnastaða þarna enn efst á holtinu, undir nefndum steinteyptum landmælingastöpli.

24. Laufhöfði / Straumselshöfðar

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir: „Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með  Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna. Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar.“

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Efst á Laufhöfða er Laufhöfðavarða. Hún er skammt norðan við Fornaselsstíg er lá upp í Gjásel og fyrrum alla leið upp í Fornasel. Varðan sú arna virðist fyrst og fremst vísa á Gránuskúta (Gránuhelli) í Litlaholt skammt sunnar.

25. Sölvhóll

Frá Þorbjarnarstaðabænum lá Réttarstígur til norðurs út í Réttarhliðið. Vestan við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð.

Þorbjarnastaðir

Sölvhóll – Þorbjarnarstaðarétt.

Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búist var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

26. Smalaskálahæðir

Smalaskáli

Smalaskálahæð – smalaskáli.

Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Ofan við Jakobsvörðu, upp undir Keflavíkurvegi (gamla), neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigurðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.

Ofan við gamla [Suðurnesja]veginn er hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker, Smalaskálaker. Í því var listaverkið „Slunkaríki“. Smalaskálahæðir heita hæðirnar umleikis.“

Smalaskáli

Smalaskáli við Smalaskálahæð.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna, neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni (Óttarsstaðafjárborg/Kristrúnarborg) vestan við Smalaskálahæðir.

Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, skammt ofan við gamla veginn. Annar grjóthlaðinn aflangur smalaskáli er utan í hraunhól skammt vestar. Hann sést vel frá veginum.

27. Sigurðarhæð

Sigurðarhellir

Sigurðarhellir.

Vestur götunnar að Óttarsstöðum á vinstri hönd er Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann fyrir mörgum árum). Rétt þar fyrir norðan var jarðfall slétt í botn og réttarveggir hlaðnir á brúnunum. Rétt þessi var venjulega notuð á haustin, en hún hefur nú verið rifin niður. Talsvert suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Í henni er hellisskúti með fyrirhleðslum, sem Sigurðarhellir heitir. Talið er að einhver Sigurður  hafi haldið þarna til um stund í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í hellum og skútum um tíma.

Sigurðarvarða

Sigurðarvarða.

Við hellinn eru leifar af hlöðnu gerði. Suðvestar er mikill áfastur klapparrani, hár og aflangur. Á honum er há varða, Sigurðarvarða, við Óttarsstaðaselstíginn. Suðaustan í honum er feikna mikið jarðfall. Í því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þarna mun hafa verið nátthagi  Straumskúnna  –  þrátt fyrir að hvylftin sé vestan við landamerkin milli Straums og Óttarsstaða, þ.e. Óttarsstaðamegin. Ekki var óvanalegt að nágrannar skiptust á nytjum í skiptum t.d. skógarítak, útræði, kolagerð, fjárskjól o.s.frv.

Sjá meira um Ratleik Hafnarfjarðar HÉR.

Sölvhóll

Sölvhóll – merki.

Krýsuvík

Orkurannsóknir á vegum HS Orku eru hafnar á ný í Krýsuvík. Stór borpallur hefur verið gerður á svæði undir Hettu þar sem áður voru fornar tóftir námuvinnslunnar í Baðsofunámunum.

Þrjú skilti hafa verið sett upp við afleggjarann að Starfsmannahúsinu frá Krýsuvíkurvegi. Á þeim má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Í leit að orku

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Hér í Krýsuvík fer nú fram rannsóknarborun til að kanna möguleika á að nýta jarðvarma til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni á Krýsuvíkursvæðinu. Jarðfræðilegar rannsóknir benda til þess að Sveifluháls g Austurengjar geymi öfluga háhitaauðlind sem hægt verður að nýta til orkuvinnslu og hitaveitu til framtíður

Stefnuborun

Krýsuvík

Krýsuvík.

Við munum kanna svæðið niður á allt 2500 metra dýpi. Til að auka líkur á að orkuríkt jarðhitavatn finnist er stefnuborað undir hálsinn, þvert á sprungur sem oft geyma heitan jarðhitavökva.

Jarðvarmaver

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Frá árinu 1941 hafa farið fram umfangsmiklar jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu með jarðborunum niður á allt að 260 metra. Hitastig í borholunum hefur mælst á bilinu 50-120°C. Nú er unnið að mun dýpri borunum til að meta nýtingarmöguleika svæðisins og grundvöllinn fyrir nýtt jarðvarmaver – það þriðja á vegum HS Orku.

Lífsggæði

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Verði nýtt orkuver að veruleika verður hér framleitt bæði rafmagn og heitt vatn. Markmiðið er að auka afhendingaröryggi á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og mæta vaxandi raforkuþörf í landinu. Í framkvæmdunum verður rík áhersla lögð á að mannvirki falli vel að fegurð og sérstöðu svæðisins.

Auðlindagarður

Krýsuvík

Krýsuvík.

Hafnarfjarðarbær og HS Orka vilja vinna að hugmyndum um auðlindagarð með áherslu á útivist, ferðaþjónustu og vistvæna atvinnustarfsemi. Sjálfbær orkuvinnsla skapar óvenjulegt aðdráttarafl fyrir fyrirtæki og ferðalanga sem vilja njóta þessa einstaka svæðis.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Krýsuvík

Skátafélag var stofnað í Hafnarfirði þann 22. febrúar 1925. Starfsemin hafði því varað í eitt hundrað ár þann 22. febrúar s.l.

Skátar

Skátar – merki Hraunbúa.

Hreyfingin hefur allan þennan tíma átt dygga og trausta félaga og gott forystufólk hér í Hafnarfirði og víðar. Góður félagsskapur, þroskandi uppeldi, útivist, ríkur skilningur og þekking á umhverfi og samfélaginu hafa einkennt skátastarfið. Þetta eru þau gildi sem fylgja öllum sem verið hafa góðir félagar í skátastarfinu alla tíð.

Félagsskapurinn stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að læra, öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Starfið stuðlar að vexti, þroska og framförum ungmenna. Þau fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki sem verður að þykja dýrmætt vegarnesti til undirbúnings framtíðarinnar.

SkátiFramangreind gildi hafa þó ekki einungs verið bundið við skráða félaga í bækur hreyfingarinnar. Starfsemin hefur náð langt út fyrir hana, þótt leynt hafi farið, og má því segja að hún eigi sér miklu fleiri velvildarmenn í bænum en í fljótu bragði virðist.

Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í starfsmannahúsi Krýsuvíkurbúsins. Þessi starfsemi naut mikilla vinsælda meðal Hafnarfirðinga, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Í skólanum kynntust þeir ýmsum hagnýtum vinnubrögðum, voru undir góðum aga, lærðu að bjarga sér og var kennt að meta gildi vinnunnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir.

Meðal verkefna innan dyra þurfti að búa um rúm, þvo þvott, skúra gólf, vinna við eldhússtörf, leggja á borð og vaska upp. Utan dyra var unnið að lagfæringu og snyrtingu á lóðum, vinnu í gróðurhúsum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og heyskap, viðgerðir á girðingum og margt fleira. Auk þess stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í langar gönguferðir undir leiðsögn.

Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn að störfum…

Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals 100.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.

Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var gengið um fjöll og fyrnindi. Um helgar voru leikir eða íþróttakeppnir.

Krýsuvík

Krýsuvík – kappleikur…

Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni, sem lauk með samsöng vors- eða sumarlags. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu jafnan auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.

Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. eitt handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir…

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og svæðisleiðsögunám, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í nefndum og formaður nokkurra þeirra.

Sú „prófgráða“, sem hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnusklóadrengir við sundlaugagerð…

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður 1964 vegna ómerkilegar þrætur stjórnmálamanna bæjarins sem og tilkomu nýrra skilyrða í heilbrigðisreglugerð af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar stýrðu starfseminni, en skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum og stýrðu nemendum til verka. Má þar t.d. nefna skólastjórnedurnar Helga Jónasson og Hauk Helgason og skátaforingjana Ólaf Proppe, Hörð Zóphanísson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson, Sævar Örn Jónsson, auk kennaranna Eyjólfs Guðmundssonar og Snorra Jónssonar o.fl.

Krýsuvík

Krýsuvík – sigurvegarar…

Framangreindir aðilar nutu mikillar virðingar hinna 550 ungu Vinnuskólanemenda á tímabilinu, langt umfram það sem ætlast var til, bæði vegna mannkosta þeirra sjálfra, en ekki síst vegna þeirrar aðferðarfræði sem þeir notuðu. Fræðin sú var í anda skátahreyfingarinnar. Segja má að allir stjórnendurnir, sem og hver og einn, hafi verið hreyfingunni til mikils sóma í hvívetna.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er skátaforinginn Hörður Zóphaníason:

:Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…:.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.
-Myndir tók Haukur Helgason.

-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-i/
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-ii/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-i-krysuvik/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-rjomaterta-fyrir-goda-umgengni/

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Guðni Gíslason skrifaði í Fjarðarfréttir 2023 um „Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi“ í Hafnarfirði. Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti og Minjastofnun var með málið í skoðun. Í ritstjórnarpisli í inngangi umfjöllunarinnar segir hann m.a. um þátt bæjaryfirvalda í Hafnarfirði:

Guðni Gíslason

Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.

„Greinilegt er að taka þarf til í meðferð skipulagsmála í Hafnarfirði. Klúður og ógagnsæi virðist sífellt aukast og menn virðast ekki lengur muna hvort deiliskipulag byggist á aðalskipulagi eða öfugt eins og nýlegar aðalskipulagsbreytingar í Hamraneshverfinu sýna. Þrátt fyrir að ekki sé búið að gera deiliskipulag finnst embættismönnum allt í lagi að veita framkvæmdaleyfi, sem segja lítið um hvað má og hvað ekki, og finnst ekki að það þurfi að kynna t.d. lagningu reiðvega eða vega í ósnortnu landi. Þetta skapar hættur þar sem minjaskráning er ófullkomin og minjar ekki skráðar vegna þess að sá sem skráir hefur ekki fyrir því að ráðfæra sig við þá sem þekkja til í bæjarlandinu. Það sakar ekki að vanda sig.“

HamranesÍ umfjöllunni segir: „Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsing arnar á síðustu öld.

Var með í Ratleik Hafnarfjarðar

Ratleikur

Bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbartsdóttur, afhent Ratleikskortið.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleiks kortið þar sem fjárskjólið er merkt.
Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

Fjárskjól eyðilagt án nokkurra heimilda
HamranesVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Minjastofnun benti á minjarnar
Í bréfi til umhverfis og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunar innar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

Hvað varð um ábendinguna
HamranesSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minja stofnunar hafi ekki komist til skila í skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjastofnun með málið í skoðun

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna bygginga fram kvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“
Í pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Fleiri minjar sem ekki eru merktar í skipulagi

Leynir

Skjól í Leyni. Nú horfið.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu.
Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamels námurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól. Óskráð.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjar landinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrir hugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.“

Samtrygging aðila innan minjavörslunnar, s.s. Minjaráðs, virðist slík að nánast ómögulegt er fyrir venjulegt fólk að mótmæla eða vekja athygli á því sem miður fer þegar fornleifarnar eru annars vegar.
Ekkert hefur a.m.k. heyrst frá Minjastofnun vegna framangreindrar eyðileggingar fornminjanna í Dalnum.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.03.2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Guðni Gíslason, bls. 10.

Hafnarfjörður

Heiðarbrunnur. Flókavarða ofar. Óskáð fornleif í Hafnarfirði.