Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um „Krýsuvík„:
„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna pess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig að minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.
Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka. Árið 1861 segir hann þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík.
Búandi Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.
Á heimajörðinni Krýsuvík: Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Arnarfelli og Fitjum. Í Vigdísarvöllum 2 búendur. Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot. Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.
Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð — fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.
Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrirsauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð. Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.
Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu bnennisteinsnámur í Krýsuvík, ogvar brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu pá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og messaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.
Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.
Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um í Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.
Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.
Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum.
En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.
Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið.
Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdísarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum,
Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stiga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa, En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.
En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breytingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.
Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við blíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.
Mér, sem þetta ritar, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhrið þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.
Þá bjó í Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kend verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka staði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar — atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargleg verða eins haldgóð til að viðhalda karlmensku og hreysti í búskapnum í Krýsuvík, skal ósagt látið.
Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.
Heimild:
-Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík.