Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:

Krýsuvík„Til þess að standa nokkuð gegn því misræmi, sem orðið var á skráðu gengi erlendrar myntar og verðlaginu hér á landi, var talið nauðsynlegt að taka upp stranga skömmtun á hverjum hlut. Gjaldeyrisskorturinn var ekki orðinn viðráðanlegur og eftirspurnin eftir gjaldeyri og erlendum vörum var gífurlegur. Það, sem þurfti að taka upp skömmtun á m.a. voru vörur til bygginga og var það fjárhagsráð, sem hafði öll völd um það, hvort menn fengu að byggja sér íbúð eða ekki, sem og aðra fjárfestingu. Virtist þar oft ráða meiru hverjir fengu slík fjárfestingarleyfi, dugnaður manna við að tala máli sínu, heldur en þörf manna fyrir að fá leyfin.
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík 2023.

Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.“ – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.

Krýsuvík

Krýsuvík – hluta af teikningu af fjósinu. Hér er gert ráð fyrir einum votheysturni.

Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.

Draupnir

Halldór G. Ólafsson, kennari, skrifaði um „Flensborgarskólann í Hafnarfirði“ í tímaritið Hvöt 1958. Þar lýsti hann bæði gamla skólahúsnæðinu sem og því nýja:

Ólafur Þ. Kristjánsson

„Síðastliðið vor var haldið hátíðlegt 75 ára afmæli Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Þann 10. ágúst 1878 gáfu prófastshjónin í Görðum á Álftanesi, síra Þórarinn Böðvarsson og frú Þórunn Jónsdóttir, húseignina Flensborg í Hafnarfirði, ásamt heimajörðinni Hvaleyri, sunnan bæjarins, til skólastofnunar til minningar um Böðvarson sinn, sem dáið hafði 1869, er hann var í 3. bekk lærða skólans í Reykjavík.

Síra Þórarinn festi kaup á húseigninni Flensborg um sumarið 1876, en heimajörðina Hvaleyri átti hann þegar. Er það sýnt, að þá þegar hafa þau hjónin verið búin að ásetja sér að stofna skóla í Flensborg til minningar um son sinn. Húseignin dró nafn sitt af borginni Flensborg á Suður-Jótlandi, en kaupmenn frá borg þeirri stofnuðu þar verzlun og ráku um all-langan aldur. Flensborg í Hafnarfirði varð verzlunarstaður á seinustu áratugum 18. aldar, eða á tímabilinu 1778—1801.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Líklegast er, að Flensborg hafi ekki orðið til fyrr en eftir 1787, er verzlunin var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs, eða á síðasta áratug 18. aldar. Talið er, að Flensborgarhúsið, sem síðar varð skólahús og brann vorið 1930, hafi verið reist um 1816—1817. Um þetta er nú ekki frekara kunnugt, og má þetta vel rétt vera, þótt hitt virðist sennilegra, að húsið sé eldra og sé hið sama, sem reist hefur verið, þegar verzlun hófst þar fyrst. Verzlunin í Flensborg var lögð niður árið 1875.

Í gjafabréfi prófastshjónanna er það tekið fram og ítrekað í stofnunarskránni, sem gefin var út af stiftsyfirvöldunum 1878, að skóli þessi eigi fyrst og fremst að vera barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi, þ. e. fyrir hinn forna Álftaneshrepp, sem nokkru síðar var skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp með Hafnarfirði.

Flensborg

Klennslustofa 1896 -Albert Anker.

Á þeim 5 árum, sem þessi eldri Flensborgarskóli starfaði, 1877—1882, fór þar engin framhaldskennsla fram, nema lítils háttar síðasta árið, en barnakennsla fór þar fram alla veturna. Um árið 1880 tók hreppsnefndin í Bessastaðahreppi sér fyrir hendur að koma upp sérstökum barnaskóla þar í hreppnum. Ákváðu nú prófastshjónin að breyta hinu fyrra gjafabréfi í þá átt, að stofna af gjöf sinni alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Gerðu þau bréf þar um árið 1882. Þar með var Flensborgarskólinn stofnaður í þeirri mynd, sem hann hefur síðan haft, með nokkrum breytingum að vísu, og tók hann til starfa haustið 1882.

FlensborgUm tíma var sýsluskrifstofan í landsuðurhorni hússins, en skólinn í austurendanum. Þegar gagnfræðaskólinn var stofnaður 1882, fluttist skólastjórinn, Jón Þórarinsson, sonur prófastshjónanna, í húsið og bjó uppi á lofti. Árið 1887 var sýslumannsíbúðinni í vesturhluta hússins breytt í heimavist, er sýslumaður fluttist í eigið hús. Síðar var svo sérstakt skólahús byggt árið 1906, skammt fyrir austan Flensborgarhúsið, og kennslustofurnar síðan fluttar þangað. Fór kennslan þar fram síðan, og var kennt þar allt til ársins 1937, er nýtt skólahús tók til starfa uppi á Hamrinum í Hafnarfirði. Síðar var gamla skólahúsið rifið. Er sérstakt skólahús var byggt árið 1906, var allt gamla húsið tekið til afnota fyrir heimavistina, fyrir utan íbúð skólastjóra uppi á lofti. Síðar bjó þar Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sem tók við af Jóni 1908. Um sumarið 1930 kviknaði svo í húsinu, og var það rifið um haustið vegna mikilla skemmda. Lagðist þá heimavist við skólann niður að mestu. Þó mun Lárus Bjarnason, er síðar varð skólastjóri, hafa haft nokkra nemendur í heimavist að Óseyri í nokkur ár, en í því húsi, skammt frá skólanum, bjó skólastjóri skólans, er skólastjórahúsið var brunnið.
FlensborgarskóliBarnaskóli var starfræktur áfram í skólahúsinu, er gagnfræðaskólinn tók til starfa. Nutu þar kennslu börn úr Garðahreppi og Hafnarfirði allt til ársins 1895.
Árið 1892 var stofnaður kennaraskóli í Flensborg, þannig að um þriggja ára skeið voru þar samtímis 3 skólar, og mun þá oft hafa verið nokkuð lítið olnbogarýmið.
Fljótt var litið á gagnfræðaskólann í Flensborg sem landsskóla, en ekki sem héraðsskóla, og hafa nemendur víðs vegar af landinu jafnan sótt hann, þótt þeir séu tiltölulega miklu færri núna, enda skólar risnir upp um land allt. Kennaradeild sú, sem stofnuð var við skólann 1892, og starfaði þar síðan, þangað til Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík 1908, er hinn fyrsti kennaraskóli þessa lands. Þótt barnaskólinn væri lagður þar niður árið 1895, starfaði æfingabekkur í sambandi við kennaraskólann þar fram yfir aldamótin.
Er Kennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1938, varð einn af kennurum Flensborgarskólans, síra Magnús Helgason, skólastjóri hans, en Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, var valinn í nýtt embætti fræðslumálastjóra.
Hafnarfjörður 1954Á næstu árum var kennslan enn aukin, svo að nærri svaraði til þess, sem numið var í gagnfræðadeild menntaskólans, enda tóku Flensborgarar á þeim árum fyrst að ganga undir próf upp í 4. bekk menntaskólans.
Er Ögmundur Sigurðsson lét af skólastjórastörfum 1930, var síra Sveinbjörn Högnason settur skólastjóri og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Síðar varð Lárus Bjarnason skólastjóri, svo Benedikt Tómasson, en núverandi skólastjóri er Ólafur Þ. Kristjánsson.
Með lögum frá 1930 um gagnfræðaskóla hættir Flensborgarskólinn að vera sjálfseignarskóli, eins og hann var frá upphafi, heldur er hann þar eftir að öllu leyti rekinn á kostnað bæjar og ríkis.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Er skólinn tók til starfa í hinum nýju húsakynnum á Hamrinum í Hafnarfirði haustið 1937, var þar heimavist. Síðar varð að leggja hana niður vegna þrengsla og breyta herbergjum nemenda þar í skólastofur með því að brjóta niður skilrúm og veggi. Með hinum nýju fræðslulögum, er nemendur taka að sækja skólann ári yngri en áður og þeim er gert að skyldu að stunda þar nám í 2 ár, eykst nemendafjöldinn mjög og hefur nú aukizt ár frá ári, enda er skólinn nú fjögurra ára skóli, sem útskrifar gagnfræðinga eftir fjögurra ára nám, Nú á síðasta hausti fékk skólinn að lokum allt húsnæðið til kennslu, en Bókasafn Hafnarfjarðar flutti úr húsinu, og var húsnæði þess breytt í kennslustofur.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Jafnframt flutti Iðnskóli Hafnarfjarðar úr skólahúsinu, Samt eru mikil þrengsli í skólanum, en í honum eru í vetur um 360 nemendur. Er nú mikið rætt um viðbyggingu við skólann, en landrými er nóg. Allar líkur eru á því, að byrja verði að tvísetja í skólann strax næsta vetur. Í skólanum er nú stór landsprófsbekkur með næstum 30 nemendum. Þar að auki eru tveir aðrir 3. bekkir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, 4. bekkir eru tveir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, samtals 38 nemendur, sem ganga munu undir gagnfræðapróf í vor. 2. bekkir eru svo fjórir, tveir bóknámsbekkir og tveir verknámsbekkir, 1. bekkir eru nú samtals fimm að tölu.
Þrengslin í skólanum eru öllu félagslífi fjötur um fót.

Hamarskot

Hamarskot á Hamrinum ofan við núverandi Flensborgarskóla – minjar, sem vert hefði verið að varðveita.

Hér eru að sjálfsögðu haldnar dansæfingar. Halda 1. bekkingar sérstakar dansæfingar, en hinir þrír árgangarnir hafa sameiginlegar dansæfingar. Félagslífið tekur nokkrum breytingum ár frá ári. Sum árin hafa verið gefin út skólablöð, en önnur ár hefur slíkt legið niðri. Skólablað kom hér út síðast í fyrravetur. Árshátíð er haldin síðari hluta vetrar. Nefnist hún „Kennaraskemmtunin“. Er þá kennurum og eiginkonum þeirra boðið til kaffidrykkju í skólanum. Tóku nemendur áður þátt í henni, en vegna þrengsla hefur orðið að takmarka veitingarnar við kennarana eina.

Flensborgarskóli

Viðbygging við gamla Flensborgarskólann.

Æfð eru leikrit og önnur skemmtiatriði undir skemmtun þessa. Síðan er dansað. Málfundafélag hefur oft verið starfandi í skólanum, en þessa stundina er það lítt sem ekkert starfandi. Árlega keppa bekkir innbyrðis um sundbikarinn. Hófst sú keppni síðastliðinn vetur. Sum árin fara fram keppnir milli bekkja í knattspyrnu eða handknattleik. Starfandi er hér bindindisfélag með mörgum meðlimum. Einnig iðka nemendur margir skák og halda stundum skákkeppnir í skólanum. Stundum fara bekkir í skíðaferðir, ýmist í nágrenni bæjarins eða upp á Hellisheiði, einnig er stundum farið í gönguferðir í nágrennið. Á vorin fara gagnfræðingar í langa ferð, einnig fara þeir, er landspróf taka, í aðra ferð. Njóta þeir þá góðs af ágóða þeim, er af dansæfingum verður.
Nemendur sækja einnig leikhús nokkrum sinnum á vetri í fylgd með kennurum, og virðist áhugi fyrir leiklist vera mikill og almennur meðal nemenda.

Fyrri hluti greinarinnar, þ. e. um fyrstu ár skólans, er að nokkru leyti úrdráttur úr „Minningariti Flensborgarskólans 1882—1932,“ útg. 1932, eftir Guðna Jónsson.“

Flensborg

Grunnurinn af gamla Flensborgarskólanum er enn á sínum stað – líkt og sjá má á meðf. loftmynd.

Í ár, 2023, eru liðin 145 ár frá stofnun Flensborgarskólans. Gamla skólahúsið brann 1930, eins og að framan er greint. Nú, 93 árum síðar, er lóð gamla skólans enn ófrátekin (líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd). Selfyssingum hefur tekist að vekja upp gömul hús, jafnvel horfin, í miðju bæjarins með nýjum byggingaraðferðum svo eftir hefur verið tekið. Á meðal endurreistra bygginga þar má m.a. sjá tvær slíkar frá Hafnarfirði fyrrum, nú horfnar, þ.e. Hótel Björninn og „Valmaþakshúsið“. Hvers vegna ættu Hafnfirðingar ekki nýta lóðina millum Flensborgartorgs og Flensborgarhafnar og úthluta henni til byggingaverktaka með það fyrir augum að „endurbyggja“ gamla Flensborgarskólann í tilefni dagsins? Slík bygging gæti falið í sér margvíslega möguleika í námunda við smábátahöfnina, s.s. safn að hluta, veitingastaður, íbúðir og/eða gistihús. Staðsetningin er a.m.k. góð, auk þess sem húsið myndi óhjákvæmilega undirstrika hina gömlu bæjarmynd, sem Hafnarfjörður er í upphafi sprottinn af.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1923-1930. Hér má sjá „Fjörðukrána“ í miðið. 

Talandi um uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa í hjarta Hafnarfjarðar. Nærtækt dæmi er umhverfi „Fjörukráarinnar“. Jóhannes „Fjörugoði“ hefur áhuga á að rífa austurhluta gömlu Smiðjunnar og byggja hótel í hennar stað. Skv. framkomnum hugmyndum myndi slík bygging skyggja á útsýni íbúa á neðri Hamrinum til norðurs – með tilheyrandi ónægju þeirra sömu.
Hvernig væri nú að Jóhannes og bæjaryfirvöld myndu snúa saman bökum; leyfa „Hafnarfjarðarleikhúsmyndinni“ sunnan Víkingastrætis (nafnið á götunni hefur reyndar aldrei verið samþykk formlega) og austan gistiheimilisins, að standa, en þess í stað að standa þétt saman um að endurbyggja hið glæsilega hús er fyrrum stóð norðan „Kráarinnar“ til nota sem hótel eða gistiheimili sem og veitingastaðar. Lóðin er fyrir hendi. Slík uppbygging myndi, líkt og endurgerður Flensborgarskóli, undirstrika þróun byggðar í Hafnarfirði sem slíka – og jafnvel bæta að nokkru fyrir fyrri mistök.

Jóhannes ReykdalFulltrúar Hafnarfjarðarbæjar (með tveimur undantekningum) hafa í gegnum tíðina verið duglegir að útrýma hugsunarlaust minjum fyrri tíma (hugsið ykkur ef Hamarskot hefði t.d. fengið að standa sem síðasti torfbærinn (svæðið er enn á lausu á Hamrinum þrátt fyrir að hafa verið raskað að óþörfu)), örhugum hefði ekki verið leyft að kveikja í húsum, sem bænum hafði hlotnast til varðveislu, en virtust kalla á óþarflega kostnaðarsamar úrbætur, s.s. Eyrarkot, o.s frv.
Og hugsið ykkur ef einhverjum í nútímanum hefði t.d. látið sér detta í hug að „endurbyggja“ Reykdalshúsið“ við Brekkugötu (á nýnúverandi Dvergsreit) sem brann 1931. Hversu mikilli bæjarmyndinni væri saman að jafna?…

Í dag virðast því miður flestir horfa sér nær…

Heimildir:
-HVÖT, Málgagn Sambands Bindindisfélaga í skólum, S.B.S., 23. árg. marz 1.—3. tbl. 1958, bls 11-14.
-Tíminn, sunnudagur 11. apríl 1965, bls. 319 og 320.

Flensborg

Flensborg (fyrrum Hamarskot er sett inn á loftmyndina.).

Kiwanis

FERLIR var mað kynningu á Kiwanisfundi Eldborgar í Hafnarfirði um dásemdir Reykjanesskagans, auk þess sem tækifærið var notað til að kynna sér félagsskapinn. FERLIR notar jafnan tækifærið á samkomum sem þessum að fræðast um viðfangsefnin því meðlimir klúbbanna búa sem einstaklingar yfir mikilli alhliða vitneskju.

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
KiwanisKiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið „Kiwanisklúbbur“ tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í „Kiwanis International“ (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi

FERLIR

Fulltrúi FERLIRs rakti söguna…

Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

Kiwanis

Nokkrir Kiwanisfélagar Eldborgar.

Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið
Nafnið „Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem „Nunc Keewanis“ í þeirra munni og þýðir nánast „sjálfstjáning“. Þetta var stytt í „Kiwanis“ – „tjáning“.

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið

Kiwanis

Í Kiwanis er meiri áhersla lögð á andleg verðmæti en veraldleg.

Undir kjörorðinu „Við byggjum“ hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið „Börnin fyrst og fremst“ og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:
-Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
-Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: „Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.
-Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
-Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

Kiwanis

Á Kiwanisfundir Eldborgar.

-Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
-Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar 1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá Michiganríki í Bandaríkjunum.
Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.
Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
KiwanisHeildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar

Kiwanis

Kiwanis þýðir „tjáning“.

Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“. K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joðskorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Kiwanisfréttir
KIwanisKiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

8. Kiwanis – Eldborg

Kiwanis

Kiwanis – Eldborg.

Kiwanisklúbburinn Eldborg í Hafnarfirði var stofnaður 27. nóvember 1969. Móðurklúbburinn er Katla. Fundarstaður er Helluhraun 22. Fundartími er annan hvern miðvikudag kl. 19:30.
Forsetinn er Magnús P. Sigurðsson, netfang: eldborg@kiwanis.is, ritari Bergþór Ingibergsson, féhirðir Sigurður Sigurðsson, kjörforseti Kristján Hannes Ólafsson, formúlutengill Sigurður Sigurðsson og meðstjórnendur Guðjón Guðnason, Skúli Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.

Gamansemi

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanisfélagar eru gamansamir og eru þekktir fyrir að sjá hið jákvæða í tilverunni. Þessi var látinn flakka á fundinum: „Jón var lagður inn á spítala. Fjarlægja þurfti vinstri fótinn. Eftir aðgerðina kom í ljós að í misgripum hafði hægri fóturinn verið fjarlægður. Slæmu fréttirnar voru þær að fjarlægja þyrfti vinstri fótinn, en góðu fréttirnar voru að sjúklingurinn í næsta rúmi var tilbúinn að kaupa af Jóni báða inniskóna.“

Heimild:
-https://kiwanis.is/page/saga-kiwanis
-https://www.facebook.com/people/Kiwaniskl%C3%BAbburinn-Eldborg/100069024344466/
Kiwanis

Skotbyrgi

Leifar skotbyrgja frá tímum Síðari heimstyrjaldarinnar er að finna á 23 stöðum á og við höfuðborgarsvæðið. Á þessum 23 stöðum eru 49 minjar, s.s. á Valhúsahæð (10), í Öskjuhlíð (6), á Garðaholti (5) og á Ásfjalli (5). Ýmist er um að ræða grjóthlaðin hringlaga skjól eða steypt.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Ofan við Setberg í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi, á svonefndum Setbergshamri ofan við Þórsberg eru 4 grjóthlaðin byrgi. Þrjú þeirra má glöggt sjá á loftmyndum af Hafnarfirði frá árunum 1954 og 1958. Hið fjórða er í skjóli norðvestan undir hamrinum þar sem minna ber á því en hinum, sem ofar stóðu. Varðmönnum byrgjanna var greinilega ætlað að fylgjast með umferð norðan, vestan og sunnan hamarsins. Austar var Camp Russel á Urriðaholti (sem nú hefur verið þurrkaður út vegna nýrrar íbúðarbyggðar) og virkið á Flóðahjalla (Svínaholti).

Setberg

Setbergshamar – fornleifar.

Framangreind skotbyrgi ofan Setbergs eru augljós enn í dag (2023). Einhverra hluta vegna hafa misvísanir varðandi skráningu þeirra ratað inn í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar„. Þá hefur misfarist að skrá eina þá helstu, efst á standinum ofan Þórsbergs.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021“ segir m.a. um framangreindar minjar:
„Númer: 2625-12.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Skotbyrgi. Ástand: Vel greinanleg. Aldur: 1900-1950. Lýsing: Kringlótt hleðsla sem er mikið hrunin, líklega skotbyrgi úr seinni heimsstyrjöldinni. Enginn sjáanlegur inngangur, gott útsýni í allar áttir. Veggjahæð er frá 0–0.2m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1m. Heimildir: Loftmyndir frá 1945, 1956 & 1958″

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

„Númer: 2625-22
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Tóft. Hlutverk: Útihús. Ástand: Vel greinanleg. Lengd: 8.6m. Breidd: 6.2m. Vegghæð: 0–0.7m. Breidd veggja: 0.6m. Lýsing: Grjóthlaðið útihús, inngangur í suður og timburleifar innan í rústinni. Töluvert hrunin. Veggjahæð er frá 0–0.7m og veggjabreidd er að jafnaði um 0.6m.“

„Númer: 2625-23
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Stekkur. Aldur: 1550-1900. Lengd: 8.1m.
Breidd: 4.8m. Vegghæð: 0–0.3m. Breidd veggja: 0.4m. Lýsing: Stekkur, bogadregin hleðsla við klett sem myndar þannig aðhald, austur veggur er klettur. Vel siginn, mikill trjávöxtur í og við hleðsluna. Veggjahæð er frá 0–0.3m og upprunaleg veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 0.4m.“

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Af framangreindu má sjá að þrjár fornleifar af fjórum eru í Fornleifaskránni skráðar á tiltölulega afmörkuðu svæði. Þá, sem vantar (skotbyrgi), má augljóslega sjá á loftmyndum frá því um miðja síðustu öld. Ein fornleifin af þremur er réttilega sögð vera „skotbyrgi“, hinar tvær eru sagðar vera „útihús“ og „stekkur“, sem fer víðs fjarri. „Timburleifar innan í“ meintu „útihúsi“ segir ekkert um fyrrum nýtingu minjanna.

Nú mætti ætla, af loftmyndunum að dæma, að ofan Setbergs hafi verið hlaðnar fjárborgir, líkt og aðrar 97 slíkar á Reykjanesskaganum, en við skoðun á vettvangi var augljóst að um „skotbyrgi“ hafi verið að ræða. Hermennirnir hefðu ekki fúlsað við vel og vandlega hlöðum fjárborgum Íslendinga þeim til skjóls og þar af leiðandi ekki talið ástæðu til að umbreyta þeim í þau hróf er dæmin eru um. Grjóthlöðnu skotbyrgin á stríðsárunum voru ekki „hlaðin“ sem slík, líkt og þau voru fyrrum ætluð til að veita búfénaði skjól í snjóum og vondum veðrum, heldur var þeim „hrófað“ skipulagslaust upp í svipuðum tilgangi; að veita hermönnum skjól fyrir veðri og vindum sem og mögulegum óvinum.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Þegar minjarnar ofan Setbergshamars eru skoðaðar er augljóst að um skotbyrgi er um að ræða, en hvorki „útihús“ né „stekk“. Útihús voru yfirbyggð og stekkir voru tvískiptir. Hvorugu virðist í fljótu fari fyrir að fara ofan Setbergshamars. Til að gæta þó allrar sanngirni gætu minjarnar nr. 2625-23 mögulega hafa verið stekkur fyrrum, en hafa ber í huga að „stekkjartíðin“ lagðist af á þessu svæði fyrir aldarmótin 1900.

FERLIR er farið að lengja eftir góðum og gagnmerkum fornleifaskráningum á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Loftmyndir af Hafnarfirði 1954, 1956 og 1958.
-Vettvangsskoðun.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021, bls. 25, 35, 42.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Reykdal

Á vefsíðinni „Legstaðaleit.com“ má lesa eftirfarandi um heimagrafreit Reykdalsfjöldskyldunnar við Setberg ofan Hafnarfjarðar:

Reykdal

Grafhýsi Reykdals.

„Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn).

Jóhannes Jóhannesson Reykdal fæddist að Vallarkoti í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu þann 18. janúar 1874. Á Akureyri hóf hann trésmíðanám og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára nám þar flutti hann heim til Íslands með það í huga að setjast að á Akureyri. Á leið sinni hitti hann þó unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, sem varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Jóhannesson Reykdal.

Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fljótlega leitaði hugurinn hærra, sem varð til þess að hann reisti verksmiðju við Lækinn, hans fyrsta stórvirki. Jóhannes virkjaði Lækinn til þess að knýja vélar verksmiðjunnar áfram. Þetta dugði Jóhannesi þó ekki lengi því árið 1904, þá þrítugur að aldri, fór hann til Noregs og festi þar kaup á rafal og með aðstoð íslensks raffræðings, Halldórs Guðmundssonar, setti Jóhannes rafalinn upp.

Þann 12. desember 1904 urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar með því að virkjun Jóhannesar neðst í læknum tók til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar og fjögurra götuljósa. Með þessum atburði var rafvæðing Íslands hafin.
Mikil eftirspurn var eftir rafmagni virkjunarinnar og fór Jóhannes því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í Læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð á Hörðuvöllum. Sú rafstöð tók til starfa haustið 1906 og var að afli 37 kW, sem fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Sú virkjun stendur enn og kallast Reykdalsvirkjun og var fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi. Ellefu árum síðar reis þriðja rafstöð Jóhannesar nú enn ofar í Læknum.

Þórunn Reykdal

Þórunn Böðvarsdóttir Reykdal.

Í DV árið 2007 er m.a. fjallað um grafhýsi hér á landi. Þar segir:
„Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.“

Væntanlega hefur hvatinn fyrir stofnun heimagrafreita víða verið sá að fólk vildi hvíla á jörðinni sinni og vera áfram heima. Árið 1885 sótti Jón Bergsson í Brokey á Breiðafirði um að fá að gera heimagrafreit á eyjunni og þar kemur þetta viðhorf skýrt fram. Í bréfi sínu segir hann að „löng dvöl á þessum stað hefur gjört mjer hann svo kæran að jeg vil hvorki lífs nje liðinn hjeðan fara en óska innilega, að bein mín mættu hvílast hjer í friði“.

Reykdal

Minningarsteinn við grafhýsi Reykdals.

Frumbyggjar þessa lands á söguöld voru jarðsettir í túnjaðrinum heima, uppi á hólum, við haf eða vatn, á fjöllum og víðar. Eftir að kristni varð almennari í landinu tóku að myndast skipulagðir kirkjugarðar við kirkjur landsins og varð það venjan að fólk var jarðsett í slíkum görðum. Á síðari hluta 19. aldar virðist sem að aukið frjálslyndi í trúmálum hafi gert Íslendingum kleift að auka fjölbreytni við jarðsetningu látinna og eru einkagrafreitir engan veginn sér-íslenskt fyrirbæri, því þeir þekkjast vel í nágrannalöndum okkar. Árið 1963 var tekið fyrir stofnun nýrra heimagrafreita á Íslandi, en þá voru þeir orðnir 158 víða um land. En allt til dagsins í dag eru gamlir heimagrafreitir nýttir.

Reykdal

Minningarskjöldur við grafhýsið.

Stefán Ólafsson fjallar um „Heimagrafreiti á Íslandi“, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016:
„Hér verða til umfjöllunar leyfi til sjálfseignabænda um greftrun fyrir sig og fjölskyldu sína annars staðar en í sóknarkirkjugarðinum. Þessar lagabreytingar voru samþykktar 1901 og 1902 og fólst í þeim tækifæri fyrir þá sem það vildu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að jarða fólk í þar til gerðum heimagrafreit sem var í þeirra eigin landi. Þessar reglubreytingar urðu í kjölfar umsókna frá bændum til biskups og konungs á seinni hluta 19. aldar um að mega taka upp slíka grafreiti.

Reykdal

Fiskreitur þar sem nú er N1. Í baksýn er Setbergshamar. Húsið lengst til vinstri er Hléberg [Þórsberg]. Litla húsið efst í brekkunni (annað frá hægri) er grafhýsi Jóhannesar Reykdals og fjölsk, en hann bjó á Hlébergi [Þórsbergi]. Annað hús frá vinstri er byggt af Hans Kristiansen. Hús til hægri (að undanskildu grafhýsinu) eru sumarbústaðir. Jóhannes Reykdal byggði nýbýlið Þórsberg þegar hann hætti búskap á Setbergi. Hann hafði þar allmikla garðrækt.

Elsta umsókn um heimagrafreit er frá Þórði Sigurðssyni á Fiskilæk í Borgarfirði. Hugmyndina að heimagrafreitum má hugsanlega rekja til þekkingar bænda á kumlum eða haugum landnámsmanna sem almennt var álitið að væru heygðir á jörðum sínum.
Þá hafa margir þeirra vitað að til forna stóðu bænhús við marga bæi og í raun má ætla að þau hafi verið á svo til annarri til þriðju hverri jörð og þar var viðkomandi heimilisfólk jarðsungið. Út frá þessu má því ætla að hugmyndin um heimagrafreitina sé sprottin frá þjóðernisrómantík og frjálshyggju sem þá einkenndi tíðarandann en þessar tvær stefnur höfðu til að mynda mikil áhrif á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Í upphafi hefur vonin um að hvíla í sinni eigin jörð verið sterk því að það þurfti töluverða staðfestu að verða sér úti um slík leyfi.

Reykdal

Nöfn hvílenda.

Með lögum í byrjun febrúar 1963 var sett bann við gerð grafhýsa og heimagrafreita. Þegar hætt var að gefa leyfi til upptöku heimagrafreita 1963 voru þeir orðnir 158 talsins, þar af 5 í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Leyfi til heimagrafreita hafa þó a.m.k. verið 159 því vitað er um eitt tilfelli þar sem heimagrafreitur var lagður niður og einstaklingurinn sem í honum var, grafinn upp og futtur í kirkjugarð þegar jörðin fór úr ábúð ættarinnar.“

Hjalti Hugason krifaði grein í Ritröð Guðfræðistofnunar HÍ árið 2021 undir fyrirsögninni „Jarðsett verður í heimagrafreit“ – Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld:
„Lítið hefur verið ritað fræðilega um íslenska heimagrafreiti. Nýlega birti Stefán Ólafsson fornleifafræðingur þó grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags þar sem hann fjallaði um upphaf heimagrafreitanna, ákvæði laga um þá, fjölda þeirra og dreifingu um landið.

HeimagrafreitirHöfundur þessarar greinar hefur á öðrum vettvangi grafist fyrir um almennar skýringar á því hvers vegna heimagröftur ruddi sér til rúms og hvaða ástæður umsækjendur gáfu upp fyrir óskum sínum um að stofna einstaka grafreiti, sem og sýnt fram á spennu sem nýbreytnin hafði í för með sér milli þeirra sem helst áttu hlut að máli: bænda, kirkjunnar manna og veraldlegra yfirvalda.
Í þessari rannsókn hafa fundist gögn um rúmlega 200 umsóknir um heimild til að stofna heimagrafreiti. Flestar fengu jákvæðar undirtektir, sumum var hafnað, nokkrar dagaði uppi eða fólk féll frá fyrirætlunum sínum. Leiddu þær til þess að stofnaðir voru 170 grafreitir eftir því sem næst verður komist.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Heimagrafreitum fjölgaði ekki jafnt og þétt allt tímabilið 1878–1963. Í fyrstu fór fjöldi þeirra hægt vaxandi en 1910 voru þeir þó orðnir 19. Upp úr því hófst fyrsta fjölgunartímabilið af þrem og stóð til 1918. Þegar því lauk voru grafreitirnir orðnir rúmlega 40. Eftir 1918 var flestum umsóknum hafnað og fækkaði þeim þegar frá leið mjög vegna þessarar breyttu stefnu stjórnvalda. Árið 1928 hófst svo annað fjölgunartímabil sem fjaraði út 1936–1937. Á þeim tæpa áratug voru rúmlega 20 grafreitir teknir upp. Við lok þess tímabils voru þeir því samtals rúmlega 60. Þriðja og öflugasta fjölgunartímabilið hófst svo um 1940 og stóð með sveiflum næstu tvo áratugi er um 100 grafreitir bættust við. Athygli vekur hversu seint helsta fjölgunartímabilið gekk yfir.
Sigurbjörn Einarsson (1911–2008) sem gegndi biskupsembætti til 1981 var mjög andvígur heimagrafreitum og hafði beitt sér fyrir lagabreytingunni 1963.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Nærtækasta skýringin á þeim vinsældum sem heimagrafreitir greinilega nutu hér á landi er að þá beri að skoða sem sýnilegt tákn þeirrar vakningarhreyfingar meðal bænda sem hér ríkti á tímabilinu frá um 1880 og lengst af blómatíma heimagrafreitanna. Þá má því skoða sem minjar um þær félagssálfræðilegu aðstæður sem ríktu í sveitum landsins á tímabilinu og einkenndust af ættarhyggju og átthagaást.“

Jóhannes seldi Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og trésmiðunum verksmiðjuna en keypti sjálfur jörðina Setberg 1931 og hóf þar myndarbúskap. Hafnarfjarðarbær hafði keypt jörðina af Jóni Guðmundssyni, bónda, 1912.

Setberg

Setbergsbærinn.

Hann var lengi með 20 kýr í fjósi og um 200 ær, keypti fystu mjaltavélina sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélina, en hún var með framdrifna vél sem hægt var að tengja við ýmis vinnutæki. Jóhannes reisti síðan enn eina rafstöðina við Lækinn, árið 1917, sem fyrr sagði. Þá reisti hann timburverslun og trésmiðju neðan við Setbergsbæinn.
Jóhannes lést 1 ágúst 1946 og Þórunn kona hans lést 3. janúar 1964.“

ÞórsbergÍ Iðnaðarritinu 5.-6. XIX. 1946, segir m.a. um „Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestara og fyrirtæki hans„: „Jarðarför Jóhannesar var hin virðulegasta. Húskveðja að Þórsbergi, og Fríkirkjan í Hafnarfirði fullskipuð ættingjum og vinum. Hann var á sólbjörtum sumardegi lagður til hvíldar í garfhvelfingu fjölskyldunnar, sem hann sjálfur hafði byggt í hlíðinni milli Þórsbergs og Setbergs og ræktað iðngrænt tún í kringum. Þaðan sést vel til fyrirtækja hans, Lækjarins, sem hann meistaralega gerði að afls- og ljósgjafa fyrir 40 árum, til bæjarins, sem vaxið hafði með honum langa æfi og hann átt mikinn þátt í að byggja og út yfir hafðið breiða, sem sólin gyllir og himininn hvelfist yfir.“ – S.J.

ReykdalÍ „Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940“ segir um Jóhannes (18. jan. 1874– 1. ágúst 1946): „Framkv.stjóri, bóndi. Foreldrar: Jóhannes (d. 1889) Magnússon í Vallakoti í Reykjadal og á Litlu Laugum og kona hans Ásdís (d. 29. okt. 1905, 74 ára) Ólafsdóttir á Efsta-Samtúni, Jónssonar.

Var við nám nokkra mánuði eftir fermingu hjá Sigurði Jónssyni á Yztafelli. Lærði húsasmíði á Akureyri og í Kh. Settist að í Hafnarfirði 1902; reisti þar árið eftir trésmíðavinnustofuna „Dverg“, hina fyrstu hér á landi, er gekk fyrir vatnsafli; rak hana í 11 ár. Setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa 1905 og aðra stærri 1907, hinar fyrstu á landinu, er komu Hafnarfjarðarbæ að notum; gengu báðar fyrir vatnsafli; seldi bænum stöðvarnar 1909. Bóndi á Setbergi við Hafnarfjörð 1909 –31 og síðan til æviloka á nýbýlinu Þórsbergi, er hann reisti; ræktaði nær 50 dagsláttur lands.

ReykdalReisti verksmiðju og íshús á Setbergi. Rak timburverzlun í Hafnarfirði, Var í hreppsnefnd Garðahrepps í 17 ár og oddviti um skeið; sýslunefndarmaður; í fasteignamatsnefnd frá 1918.

Jóhannes var lengi í stjórn Búnaðarsambands Kjalarnesþings. Virðingarmaður Búnaðarbankans og Nýbýlasjóðs. Kona (16. maí 1904): Þórunn (f. 21. nóv. 1884) Böðvarsdóttir í Hafnarfirði, Böðvarssonar. Börn þeirra sem upp komust: Kristín átti Hans Christiansen á Ásbergi við Hafnarfjörð, Ásgeir, Böðvar, Jóhannes, Friðþjófur, dóu allir ókv., Þórarinn á Setbergi, Þórður á Setbergi, Elísabet átti Einar Halldórsson á Setbergi, Ásdís átti Hermann Sigurðsson á Þórsbergi við Hafnarfjörð (Br7.; Óðinn X o. fl.).“

Til fróðleiks mátti lesa eftirfarandi í Nýja tímanum, fimmtudaginn 16. desember 1954 þar sem fjallað var um virkjanir Jóhannesar: „Ör þróun rafvirkjana hér á landi er eðlileg, en þó er jafnvel talið að allt vatnsafl landsins verði fullnotað til rafvirkjana eftir 66 ár, eða árið 2020.“

Heimildir:
-https://www.legstadaleit.com/heimagrafreitur-setbergi/
-https://timarit.is/files/51343345
-DV, föstudagur 30. nóv. 2007, bls. 6.
-Stefán Ólafsson, „Heimagrafreitir á Íslandi“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016, 2017, bls. 153–170.
-Ritröð Guðfræðistofnunar 52/2021, bls. 3–17 3 DOI: 10.33112/theol. Hjalti Hugason, Háskóla Íslands „Jarðsett verður í heimagrafreit“ Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld – Önnur grein.
-MBL 18. janúar 2013.
-Iðnaðarritið 5.-6. XIX. 1946, Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestari og fyrirtæki hans.
-https://smb.adlib.is/islenzkar/2697
-Nýi tíminn, fimmtudagur 16. desember 1954 — 14. árgangur — 41. tölublað, bls. 12 og 8.

Reykdal

Reykdalshús við Brekkugötu. Það brann í maí 1930. Enginn var í húsinu.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Dalurinn

Þegar FERLIR skoðaði Hellishraunsskjólið í Dalnum norðan Hamraness 23. febrúar 2023 kom í ljós að því hafði verið rústað með stórvirkum vinnuvélum – svo vel að ekki var einn einasti sentimeter eftir af þessu fyrrum fjárskjóli frá Ási.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól fyrrum.

Ekki er minnst á fjárskjólið í örnefnalýsingu Ara Gíslansonar fyrir Ás. Þar segir einungis: „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“

Gísli Sigurðsson getur um skjólið í örnefnalýsingu sinni fyrir Ás: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.“

FERLIR fjallaði um Hellishraunssfjárskjólið í umfjöllun um svæðið árið 2019. Þar var m.a. vísað til takmarkaðrar fornleifaskráningar frá árinu 2015 á vegum Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem síðari skráningaraðili vegna deiliskipulags þess frá árinu 2019 vísaði athugasemdalaust til, án þess þó að tiltaka verðmæti minjanna með hliðsjón af heildar búseturlandslagi jarðarinnar sem og nálægðarinnar við aðrar slíkar.

Dalurinn

Hafnarfjörður – Hamranes, fornleifaskráning vegna deiliskipulags 2019 – forsíða.

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags; Hafnarfjörður – Hamranes“ eftir Heiðrúnu Evu Konráðsdóttur, sagnfræðing fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019 segir um Hellishraunsskjólið (sem reyndar er án tilvísunar til örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar):

Fornleifaskráning
Hamranes 2061-1
Fornleifa nr.: 2061-1
Hlutverk: Fjárskýli
Tegund: Hleðsla
Aldur: 1550-1900
Hnit: 355825,924 396542,873
Staðarhættir: Hellirinn er norðan í hraunrana, rétt sunnan við veg sem er frá spennistöðinni upp á Ásfjall.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Lýsing: Fjárhellirinn er á svæði sem merkt er J á korti yfir ný byggingasvæði í landi Hvaleyrar, Hamranes. Hann er rétt sunnan við veg sem er frá spennistöðinni upp á Ásfjall, svokallaðan línuveg. Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness. Hafnarfirði frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Minjagildi: Lítið
Hætta: Hætta
Hættuorsök: Vegna bygginga
Ástand: Greinanlegar fornleifar

Fornleifaskráning katrínarVísað til óaðgengilegrar fornleifaskráningar Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni – „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar, Hafnarfirði frá árinu 2005“. Í þeirri skráningu er einungis einnar fornleifar getið á svæðinu, þ.e. fjárskjólinu ótilgreinda. Ekkert er minnst á götur þær er lágu um „Dalinn“ að og frá Ási og nálægum bæ, Hvaleyri, þ.e. Hrauntungustíg, Stórhöfðastíg, selstígana frá Ási að Ásseli og frá Hvaleyri að Hvaleyrarseli við Hvaleyrarvatn. Svo virðist sem hlutaðeigendur hafi fyrrum farið í þyrlum á millum bæja og selja, þrátt fyrir að allar þessar götur hafi verið vel greinilegar áður en framkvæmdir hófust við svonefna „Skarðshlíð“.

Ekki er getið um fjárskjólið í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VIII“, unna af Atla Rúnarssyni fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar 2021. Sú skráning er reyndar meingölluð. Í henni eru t.d. nútímaminjar skráðar sem fornleifar, hleðslur undir seinni tíma girðingar skráðar sem „vörslugarðar“ eða „merkjagarðar“, nútíma ræsi skráð sem fornar götur o.s.frv. Hins vegar er ógetið ýmissa merkra minja á svæðinu. Lítið sem ekkert samráð virðist hafa verið við þá núlifandi er gerst til þekkja fornleifa innan umdæmisins.

Þegar fornleifar eru annars vegar ráða Lög um menningarminjar frá árinu 2012. Þar segir m.a.:

3. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Fornminjar.
Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem: búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum, vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri, tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra, virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum, þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð, áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum, haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, skipsflök eða hlutar þeirra.

Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

13. gr.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Minjaverðir.
Minjaverðir eru starfsmenn Minjastofnunar Íslands og sinna þeim verkefnum sem undir stofnunina heyra samkvæmt nánari fyrirmælum forstöðumanns. Minjaverðir skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu á einhverju þeirra fagsviða sem undir stofnunina falla.
Í þjónustusamningi milli Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands má fela minjavörðum eftirlit með minjum sem heyra undir Þjóðminjasafn Íslands.

15. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019 – gangurinn.

Skráning og skil á gögnum.
Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja.
Stofnunin heldur heildarskrár yfir allar þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Stofnunin birtir skrárnar og skulu þær vera aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni.
Minjastofnun Íslands er heimilt að fela tilteknum einstaklingum eða stofnunum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina.
Öll gögn sem varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja skulu afhent Minjastofnun Íslands. Skráningarskýrslur skulu afhentar stofnuninni á rafrænu formi. Eintök af skránum skulu afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum á rafrænu formi.
Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði telst ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Stofnunin skal veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum aðgang að skráningargögnum í vörslu stofnunarinnar.
Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. gr.

Dalurinn

Fjáskjólið 2019 – gangurinn.

Skráning vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda.
Skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út skal skráning ætíð fara fram á vettvangi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og er heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma.

Sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið. Skulu skipulagsyfirvöld hafa samráð við Minjastofnun Íslands um tilhögun skráningar eða endurskoðun á fyrri fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar. Þegar sérstaklega stendur á getur Minjastofnun Íslands veitt undanþágu fyrir framkvæmdum með tilteknum skilyrðum.
Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum.
Skylt er að heimila þá för um landareign sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd skráningar sem gerð er fyrir opinbera aðila. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki raski eða ónæði að þarflausu.

21. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

Verndun fornleifa.
Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

23. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Fornleifar í hættu.
Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Minjastofnun Íslands viðvart án tafar.
Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða.
Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.

Stofnunin skal hafa samráð við Umhverfisstofnun þegar fjallað er um blandaðar minjar, þ.e. menningarminjar sem einnig teljast til náttúruminja.

Fornleifaskráning katrínar

Hafnarfjörður – Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Hamranes… – Katrín Gunnarsdóttir.

Í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-12025“ er vísað til greinagerðar 19. apríl 2014: „Fornleifaskráning hefur verið unnin fyrir Velli, Selhraun, Ásland, Hvaleyri, Sléttuhlíð og Hleinar að Langeyrarmölum, auk nokkurra minni svæða, einkum í tengslum við þéttingu byggðar„. Þessara greinargerða er getið í heimildaskrá aðalskipulagsins.

Fornleifaskráning í landi Áss í Hafnarfirði var unnin af Katrínu Gunnarsdóttur fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar, janúar 2005.

Hvorki er í þeim heimildum vísað í fyrirliggjandi örnefnalýsingar né er merkra minja getið. Skráningunni verður að teljast verulega ábótavant.

Í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi fyrir Hamranes segir:
2.3 Menningarminjar.
Engar þekktar fornleifar eru á svæðinu skv. forleifaskráningu sem unnin var af Byggðasafni Hafnarfjarðar árið 2019 vegna fyrirhugaðrar vinnu við deiliskipulagningu Hamranes„.

Dalurinn

Deiliskipulag fyrir Dalinn. Ekki er gert ráð fyrir nýtingu svæðisins umhverfis fjárskjólið.

Í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025“ er fjárskjólsins ekki getið.

Ljóst er skv. fyrirliggjandi gögnum að Minjastofnun hafði verið upplýst um fornminjarnar og stofnunin hafði sent hlutaðeigandi hjá Hafnarfjarðarbæ varnaðarorð vegna þeirra í tíma, þ.e. árið 2020.

Þann 24. febrúar 2023 var Henny Hafsteinsdóttur, minjaverði Reykjavíkur og nágrennis hjá Minjastofnun, sent eftirfarandi:

Sæl,
Sendi þér ábendingu um Hellishraunsskjólið í Áslandi í Hafnarfirði.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

Í dag lítur skjólið út sbr. meðfylgjandi myndum; ekki sentimeter eftir af því með þriggja akreina götu í ofanílag. Væntanlega hefur einhver tekið ákvörðun um eyðingu þessa. Fróðlegt væri að fá upplýst hver það gerði og með hvaða rökum?

FERLIR mun fylgjast með framvindu málsins og uppfæra umfjöllunina til samræmis eftir því sem fram vindur. Spurningin er; var tekin meðvituð ákvörðun um eyðingu framangreindra minja og þá af hverjum? Getur verið að lögmæld skráning fornleifa skipti í raun litlu þegar eyðileggingu þeirra er lokið. „Úps“ er gjarnan svar verktaka eftir að hafa farið með stórvirkar vinnuvélar yfir fornleifar, „án vitundar vits“, að eigin sögn.
Hveru mikið mark er takandi á ákvæðum laga um vernd og varðveislu fornleifa hér á landi eða eru fornleifaskráningar bara svo lélegar að ekki er mark á þeim takandi?…

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Rauðimelur

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði er m.a. getið um Stóra- og Litla-Rauðamel. Þar segir:

Rauðimelur

Rauðimelur – kort 1903.

„Lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing, sem hér fer á eftir. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.
Óttarsstaðir eru í Hraununum svonefndu og tilheyrðu áður Garðahreppi, en land jarðarinnar var lagt undir Hafnarfjörð, þegar álverksmiðjan kom.

Rauðimelur

Stóri-Rauðimelur skv. fyrirliggjandi tillögum. Óttarsstaðaselsstígsins (Rauðamelsstígs) er ekki getið í fyrirliggjandi gögnum.

Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla (132) og austan við Rauðamel stóra (133), en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var.

Rauðimelur

Stóri-Rauðimelur – ný vegslóð 2023.

Þrátt fyrir fullyrðingu þess efnis að Litli-Rauðimelur sé horfin „lifir“ hann enn góðu „lífi“ skammt norðnorðaustan þess Stóra, sem nú er orðinn að námusvæði. Nú, þegar fyrirhugað er að stækka námusvæðið vegna fyrirhugðrar stækkunar Straumsvíkurhafnar, er full ástæða til að fylgjast vel framvæmdum á svæðinu – því reynslan sýnir að verktaka eiga það til að virða takmarkanir leyfa af vettugi þá og þegar það hentar þeim. Sem dæmi þá voru þeir búnir að leggja nýjan veg í hrauninu sunnan og vestan gamla námusvæðins skv. ákvörðun byggingafulltrúa án þess að deiliskipulag fyrir það hafi verið samþykkt í bæjarstjórn. Vegslóðinn liggur í gegnum skráða fornleif, svonefndan „vörslugarð“, auk þess sem Óttarsstaðaselstígs (Rauðamelsstígs) er hvergi getið í gögnum málsins.  Stígurinn sá telst óyggjandi til fornleifa þrátt fyrir að finnast ekki í fornleifaskráningu Byggðasafns Hafnarfjarðar af svæðinu. Í fyrirliggjandi fornleifaskráningum safnsins er fornra stíga og gatna sjaldnast getið. Ætla mætti, í hugum skráningaraðila, að fólk hafi ferðast á millum staða í þyrlum fyrrum?!

Raiðimelur

Stóri-Rauðimelur 2023.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.