Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.

Selalda
Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsinn blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur.
Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er  að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóftirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.
Skammt suðvestar við selið eru margar tóftir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775.

Eyri

Eyri.

Frá tóftunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Frábært veður.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Hvatshellir

Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá. Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.

Kershellir

Kershellir.

Hvatshellir gengur innan af og austur úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 50 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri. Heildarlengd hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-

Hleðsla í Setbergsselsfjárhelli / Kershelli

Setbergsfjæárhellir / Hamarkotsfjárhellir.

Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“
Ketshellir

Í Setbergsfjárhelli /Hamarkotsfjárhelli.

Heimild m.a.:
-Friðþjófur Einarsson, bóndi á Setbergi.

Lóa

Gengið var eftir Rauðamelsstíg. Vikið var út af stígnum til suðurs og komið við í Bekkjum, þar sem skoðaður var mikið fjárskjól á fallegum stað. Komið er að því í gegnum klofinn hól og birtast þá hleðslurnar skyndilega framundan.

Álfakirkja

Álfakirkjan – fjárskjólsop t.v.

Þá var haldið til norðvesturs og komið við í Brenniselshæðum. Norðan hæðanna eru mikla hleðslur á tveimur stöðum og tótt framan við þá stærrii. Talið er að þarna hafi verið kolagerðarvinnsla á öldum fyrrum.
Gengið var á ská upp að Álfakirkunni og skoðaður fjárhellir, sem er norður undir henni. Álfakirkjan gæti jafnframt hafa verið þriðji Krosstapinn, sem er að finna á þessu svæði.
Haldið var til norðurs og þá komið að gömlum tóftum í lág.
Í henni hafa verið hleðslur og sennilega ein tvö hús. Þessar hleðslur eru eldri en þær sem er að finna í Brenniseli. Alveg er gróið yfir þær og nær ógjörningur að finna þær að sumarlagi.

Bekkjarskúti

Bekkjarskúti.

Litið var á Bekkjaskútann, mikið fjárskjól í bakka jarðfalls, og loks á Sveinsskúta í grunnu jarðfalli nokkru ofar. Við op eru fyrirhleðslur úr þunnum hraunhellum. Allar eru þessar minjar vestan Rauðamelsstígs (Skógargötu). Gatnamót eru á stígnum skammt þar frá, sem fyrst var vikið út af honum. Annars vegar liggur stígurinn áleiðis upp í Óttarstaðasel og hins vegar til suðurs áleiðis upp í Skógarnef. Þar greinist hann annars vegar í átt að Mosunum við Böggukletta og hins vegar áfram upp í gegnum nefið áleiðis upp að Búðarvatnsstæði. Gatan er vörðuð frá gatnamótnum við Rauðamelsstíg.

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eftir Almenningsgönguna var haldið í Arnarseturshraun og leitað fyrstu vegavinnumannabúðanna, sem reistar voru þegar Grindarvíkurvegurinn var lagður 1914 til 1918. Þarna eru miklar hleðslur og hús. Þá var leitað endabúða vegagerðarmannanna, og fundust þær skammt norðan Grindavíkur. Þar með hafa sennilega allar búðir vegagerðarmannanna fundist við Grindavíkurveginn, en þær eru á tólf stöðum og hafa búðirnar að öllum líkindum verið með um 500 metra millibili í gegnum hraunið.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Á öllum stöðunum eru heilleg hús og/eða hleðslur, auk skjólveggja og garða. Vegavinnubúðunum er lýst annarss staðar. Þá liggja fyrir talsverðar upplýsingar um aðdraganda, undirbúning og framkvæmd við lagningu vegarins. Verkstjóri var Sigurgeir Gíslason, Hafnfirðingur, en víða má enn sjá vegi, einkum í kringum Hafnarfjörð, sem hann tók þátt í að leggja í upphafi 20. aldar. Sigurgeir bjó lengi á Vífilsstaðatúni.
Ávallt gaman að fylgja eftir verkum frumkvöðla fyrri kynslóða.
Frábært veður.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.

Krýsuvíkurbjarg

Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.

Krysuvikurbjarg-802

Krýsuvíkurbjarg.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Rauðshellir

Haldið í hellana norðan Helgadals. Dagurinn var annar í jólum. Frostkyrrð og enginn maður á ferð. Hálfrökkvað, en stjörnunar glitruðu í snjónum. Smáfuglarnir sátu hljóðir fremst í smáskútum og biðu. Mýsnar höfðu greinilega verið að leita matar undir gjárbarminum, en refurinn virtist eiga nóg í greninu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var inn í Rauðshelli hlýnaði og ljósið frá lugtinni laðaði fram rauða litinn úr veggjum og gólfi. Í þessu umhverfi er listaverk náttúrunnar merkilegra og margbreytilegra en nokkurt listaverk uppi á stofuvegg eða á borðum. Ljóslifandi list án þess að nokkur hafi gætt hana lífi. Klakakerti hékk úr lofti og neðst í því hélt sér dropi. Óþarfi að sleppa sér of fljótt niður í óvissuna.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Yfirgefið þrastarhreiður á syllu. Ungarnir, sem það hýsti í sumar, voru nú orðnir fullfærir um að sjá sér farborða. Dropahljóð í þögninni. Litskrúðugt umhverfi í myrkrinu.
Aðkoman í Hundraðmetrarhellinn er ekkí ólíkt því er birtist gestum Maríu og Jóseps í fjárhúsinu forðum; garðar beggja vegna. Gangurinn liðast inn eftir hellinum og virðist enda í rökkrinu. En líkt og lífið – þar sem virðist endir er áframhald. Þrengsli, skrið og síðan nóg rými til að halda auðveldlega áfram. Komið var út á milli stórra steina í jarðfallinu nokkru austar. Haldið var áfram til hægri, inn í hvelfingu Fosshellis. Mikið hrun er í hvelfingunni. Líklegt má telja að rásin haldi áfram til vesturs á bak við það, en talsvert verk er að forfæra grjótið til að komast megi að því.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Hraunfossinn er fallegur. Fyrir nokkrum þúsundum ára var lækurinn lifandi rennsli. Birtan frá honum lýsti upp rásina og sló fagurlituðum bjarma á umhverfið. Síðan hjaðnaði fæðan og efnið leitaði jafnvægir. Umhverfið varð stöðugt og hefur verið það síðan. Eftir stendur flórinn, áhugaverðar hraunmyndanir og frásögnin af því hvernig þetta allt gekk fyrir sig í upphafi. Hana má lesa af veggjunum. Þótt rásin sé ekki löng segir hún frá hringrás efnisins, viðleytninni og átökunum við að komast upp á yfirborðið á ný, kraftaverkunum á leiðinni, lögmálum jarðarinnar og óendanleika alls upphafs. Lífið er samsvarandi þótt í minna mæli sé, bæði í rúmi og í tíma.
Myrkrið breytir litlu við hellaskoðanir.

Rauðshellir

Rauðshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Leitað var fjárhella í Kaldárseli, en gamlar sagnir eru til af hellum þessum norðan selsins. Þrátt fyrir mikla leit höfðu þeir ekki fundist, en þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Hellarnir, 6 talsins, fundust á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.
Í Helgadal eru og minjar. Kaldárselið sjálft var sunnan við núverandi hús KFUMogK á norðurbakka Kaldár.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.
Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurheiði

Haldið var inn á Krýsuvíkurheiði frá gömlu réttinni undir Stóru-Eldborg.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Heiðin er mikið fokin upp og sjá má stór rofabörð á stangli. Auðvelt er að ganga um heiðina og af henni er hið fallegasta útsýni, bæði til fjalla og hafs. Eldborgin tekur sig vel út sem og Geitahlíðin, Vegghamrarnir, Sveifluhálsinn, og heimafellin í Krýsuvík. Efst á heiðinni er stór fjárhústóft eða sauðakofi, stundum nefnd Jónsbúð eða Jónsvörðubúð. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Krýsuvíkurheiði

Krýsuvíkurheiði – skjól.

Skammt suðsuðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt og vandlega hlaðið hús. Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið. Þá gæti Magnús hafa dundað sér við að hlaða húsið sem skjól á meðan hann fylgdist með sauðunum. A.m.k. tiplaði hvítur rebbi eftir neðanverðri heiðinni þegar FERLIRsfélagar sátu í tóftinni og virtu fyrir umhverfið.
Húsin eru, nákvæmlega á þessari stundu, hvorki á kortum né skráð í fornminjaskrár.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.