Tag Archive for: Hafnarfjörður

Krýsuvík

Í samtali við Loft Jónsson í Grindavík bar margt skemmtilegt á góða:
Loftur-21„Ég var að lesa frásögn í “Ferlir” um “Braggann á Krýsuvíkurheiði”. Þetta vekur upp ýmsar minningar frá æsku. Eins og þú veist þá ólst ég upp í Garðbæ og þar rétt við túnfótinn lá vegurinn til Krýsuvikur. Í seinni heimsstyrjöldinni, eftir að Amerikanar tóku við hersetu á Íslandi, þá önnuðust þeir stöðvar eins og á Þorbirni og í Krýsuvík. Á hverjum degi fóru fram vistaflutningar til og mannaskipti í Krýsuvík. Þessir ungu menn frá USA voru ýmsu öðru betra vanir en íslenskum vegum. Allavega, þegar maður skoðar gamla Krýsuvíkurveginn í dag þá hlýtur þetta að hafa verið mikill torfæruakstur.
Þessar sendingar áttu sér stað á sama tíma alla daga.  Og svo þegar bíllinn birtist á Vestara-Leiti þá tóku allir pollarnir á efri bæjunum sprettinn upp á veg í veg fyrir hann. Dátarnir voru mjög gjalfmildir og oftar en ekki fengum við hátt í vasana af alls konar sælgæti eða ávöxtum. Ingi í Búðum (Ingimar Magnússon) var okkar elstur og séðastur (en kannske ekki gáfaðastur). Hann betlaði af mömmu sinni daglega mjólk á þriggja pela flösku sem hann rétti síðan til hermannanna. Þeim virtist líka þetta vel því þeir skiptu mjólkinni bróðurlega á milli sín og Ingi fékk þar af leiðandi mikið meira í vasana en aðrir.

Baejarfellsrett-201Þar sem segir af Magnúsi Ólafssyni er sagt að Stóri-Nýibæ hafi farið í eyði 1938. Ég hef aðra sögu að segja. Fyrir fjárskipti í Grindavík, sem voru að ég held 1950, var ég í tvígang við réttir að vori í Krýsuvík þegar smalað var til rúnings þótt ég hafi ekki smalað vegna aldurs. Það var alltaf tjaldað við lækinn austan við kirkjuna og þá austan við lækinn við torfvegginn sem þar er. Réttað var í rétt suð-austan við Bæjarfellið. Mér er margt minnisstætt frá þessum dögum t.d. hverning karlarnir báru sig að við rúninginn, mörkun og geldingu á vorlömbunum. Í þá daga þekktist ekki annað en ketilkaffi í tjöldunum og eitt sinn er hitað var vatn í katlinum til kaffilögunar, þá setti Jón í Efralandi vasahnífinn sinn ofan í ketilinn.
Karlarnir spurðu undrandi hvað þetta ætti að þýða. Og Jón Krysuvikurkirkja 1940-21svaraði með mestu ró: “Ég ætla bara að sótthreinsa hnífinn minn. Ég skar afurfótahaft af rollu í dag og það var svolítið farið að grafa í henni”. Það hafði enginn lyst á kaffidrykkju í það sinn.
Eitt sinn var ég sendur upp í kirkju til Manga (Magnús Ólafsson) til þess að fá nál og tvinna, einhver hafði mist tölu af buxunum sínum. Ég man eins og það hefði verið í gær hverning allt var innanstokks hjá honum. Tíkin á strigapoka fram við dyr, rúmfletið í suð-austur horninu við altarið og einhver eldavél hinu megin.
En aftur að Nýja-Bæ. Einn dag vorum við Daddi í Ásgarði (Dagbjartur Einarsson), sem er tveimur árum eldri en ég, sendir upp að Stóra-Nýjabæ til að kaupa mjólk á þriggja pela flösku til notkunar í kaffi. Okkur var boðið inn í baðstofu og spurðir frétta.  Að sjálfsögðu hafði Daddi orðið þar sem hann var eldri en ég.  Og við fengum mjólk á flöskuna. Þannig að þá hefur Guðmundur í Stóra-Nýjabæ verið með kýr þarna og hann var með konu sína og dætur. Ég hef verið ca. 10-11 ára þegar þetta var.
Þetta er bara sett fram til fróðleiks og gamans en ekki til færslu í annála. – Kveðja, L.J.“

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Alþýðublaðinu árin 1957 og 1963 er umfjöllun um Vinnuskólann í Krýsuvík. Fyrrnefnda greinin bar yfirskriftina „Sumardvöl í Vinnuskólanum í Krýsuvík“:
krys-vinnuskioli-22„Vegna sívaxandi fólksfjölda í stærstu kaupstöðum landsins og stöðugt fækkandi fólks í sveitunum, verður æ erfiðara, með hverju ári sem líður, að ráða bót á hinu sígilda vandamáli, að koma kaupstaðarbörnum í sumardvöl, lengri eða skemmri tíma. Börnunum er nauðsyn, að komast úr göturykinu, í ferskt og heilnæmt loft, hafa eitthvað fyrir stafni og helzt að kynnast hinum fjölbreyttu sveitastörfum er þess er nokkur kostur.
Til þess að ráða bót á fyrrgreindu vandamáli hefur Hafnarfjarðarbær rekið vinnuskóla fyrir drengi, suður í Krýsuvík. Dvelja drengirnir þar sumarlangt, undir stjórn kennara. Vinna þeir þar ýmiss konar störf, sem til falla á Krýsuvíkurbúinu og í gróðurhúsum bæjarins, en Hafnarfjarðarbær rekur, eins og kunnugt er, myndarlegt fjárbú (4-5 hundruð fjár) í Krýsuvík og allnokkra gróðurhúsarækt.
Vinnuskólinn í Krýsuvík á miklum vinsældum að fagna meðal Hafnfirðinga, enda bætir hann úr brýnni þörf og er hið mesta þjóðþrifafyrirtæki. Þetta ný verkefni og fleiri og Hafnarfjarðarbær greiðir allan kostnað. Hann er nú orðinn þriðji stærsti kaupstaður landsins (íbúar um 6300).
Dvelja drengirnir í Krýsuvík, foreldrum algerlega að kostnaðarlausu. Ekkert bæjarfélag kosta sumardvöl barna, í jafn stórum stíl og Hafnarfjarðarbær.
Vinnuskólinn í Krýsuvík tók til starfa fyrstu dagana í júní og starfaði í sex vikur eða til 20. ágúst. Höfðu þá milli 60—70 drengir, á aldrinum 9—13 ára notið þar sumardvalar í lengri eða skemmri tíma, flestir allan tímann eða um 40. Alls bárust um 80 beiðnir, og reyndist því miður ekki hægt að sinna þeim öllum, að þessu sinni. Getur farið svo, að nauðsynlegt verði að taka upp breytt fyrirkomulag næsta sumar þannig, að skipta verði algerlega um drengi, að hálfnuðu sumri, en það hefur ekki þurft hingað til. Í Krýsuvík er aðeins rúm fyrir 50 drengi í einu.
Drengirnir kynntust ýmisskonar sveitastörfum, eins og áður getur, svo sem heyskap, skurðgreftri, grjóttínslu, gróðurhúsarækt, smölun, rúningu og réttum og fleiru. Veður var gott og fagurt nær allan tímann og undu drengirnir hið bezta. Urðu nær engin skipti, og þess vegna erfiðara að sinna hinum fjölmörgu beiðnum.
Hafnarfjarðarbær bauð öllum drengjunum, sem dvöldu í Krýsuvík í sumar í ferðalag austur um sveitir, og var komið heim um Þingvöll. Komu dreng irnir, sólforenndir, glaðir og hressir, eftir sex vikna útivist að Barnaskólanum, um hádegi s.l. þriðjudag. Þeir létu vel yfir dvöl sinni í Krýsuvík í sumar og þótti voða gaman í ferðalaginu.
Yfirumsjón með vinnuskólanum, að þessu sinni, hafði Kári Arnórsson, kennari í Flensborg og Helgi Jónasson, kennari, var honum til aðstoðar. í eldhúsi störfuðu þrjár konur, Guðrún Bjarnadóttir, frú Ingibjörg Áskelsdóttir og frú Erla Sigurjónsdóttir. Allt þetta fólk á skilið miklar þakkir fyrir vel unnin störf.“
Og síðarnefnda greinin árið 1963: „Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf. Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hóp ur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vínnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.
Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri , annast forstöðu skólans.
krys-vinnuskoli-25Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.
Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu ög margt fleira, auk þess sem þéir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhlíðum undanfarin ár.
Drengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. — Svo er verkefnum skipt á milli flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki.
krys-vinnuskoli-27Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín“ daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði. Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum þær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
krys-vinnuskoli-26Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sin. í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.
Þegar hver hópur kveðuf vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? — Svarið við þessu er skráð aftan á einkunnarbækur vinmiskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nkrys-vinnuskoli-28emenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra“.
Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginn að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15. Svo er „kaffi“ klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöld ið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið“ sitt.
Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“
Sjá meira um Vinnuskólann HÉR.

Heimildir:
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – sundlaugin.

Óttarsstaðaborg

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Óttarsstaðaselsstígur

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Gerandinn flutti líkið á jeppabifreið suður í hraunið, komst í skjól fyrir annarri umferð og setti líkið ofan í sprunguna. Það fannst þar allnokkrum dögum síðar eftir að gerandinn hafði bent á staðinn. Á svipuðum slóðum var á sínum tíma leiða að líki manns, sem hvarf um 1976, en hefur enn ekki fundist. Talið var að manninum hefði verið komið fyrir í hrauninu. Ekki eru mörg misseri síðan morðingi kom fórnarlambi sínu fyrir í Arnarseturshrauni, en benti síðar á staðinn. Ljóst er af þessu að hraunin geta geymt marga „afleiðingu“ fyrri tíma.
SkógargataAnnars er hraunið þarna hluti Hrútargjádyngjuhrauns, sem rann fyrir 4500-5000 árum síðan. Allt, sem þá lifði, er löngu dautt. Nú skreytir hraunin bláberja- og krækiberjalyng, beitilyng, víðir, birki og fjalldrapi, auk margra annarra flórutegunda.
Frá fjárborginni er auðvelt að komast inn á Lónakotsselsstíginn skammt sunnar. Einnig Óttarsstaðaselsstíginn skammt norðar. Nóg er að ganga spölkorn til austurs og er þá komið inn á Alfaraleiðina, hina fornu þjóðleið millu Innesja og Útnesja. Draugadalir eru þar skammt norðar. Að þessu sinni var götunni fylgt til norðurs, að Draugadölum, enda ætlunin að fylgja Óttarsstaðasselstígnum áleiðis upp í selið, allt að Meitlum, en þar vestan við voru gatnamót stígsins og Skógargötunnar. Aðaltilgangur ferðarinnar var athuga hvort Skógargatan gæti hafa verið stök sem slík og þá legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, án þess þó að hafa verið hluti af honum, með áframhaldandi aðkomu niður á Straumsselsstíginn vestari.  Jafnan hefur verið talað um Óttarsstaðaselsstíg, Skógargötu og Rauðamesstíg í einu orði. Í ljós átti hins vegar eftir að koma að um þrjá aðgreinda stíga hefur verið að ræða. Þannig virðist Skógargatan hafa legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, sem lá upp með Smalaskálahæð og kom inn á Rauðamelsstíg neðan við Bekkina. Sá síðastnefndi lá þaðan áleiðis niður að Óttarsstöðum, þvert yfir Alfaraleiðina ofan við Brúnirnar og norðan við Rauðamel, stystu leið heim að Hraunabæjunum.
Eftir að hafa gengið Óttarsstaðaselsstíginn upp að Bekkjunum var ákveðið að kíkja í Bekkjaskjólið, mikla fyrirhleðslu fyrir skúta ofan við hálfopið jarðfall. Aðkoman að skjólinu er sérstök; um hraunklofa. Ofan og norðan í Bekkjunum er torfærarar hraun og nýrra, Afstapahraunið eldra. Um er að ræða tiltölulega mjóa hraunræmu á þessu svæði og því auðvelt yfirferðar – ef stígnum er fylgt í gegnum það.
Þegar komið var upp undir Meitlana sáust tvær fallnar vörður sunnan við götuna. Sunnan í þeim er fjárskjól, Meitlaskjól (Norðurskúti).
Varða við AlfaraleiðinaÞarna neðan við Meitlana, sunnan við Óttarsstaðasels-stíginn, eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur, sem fyrr sagði, stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur.
Ætlunin var sem sagt að skoða hvort Skógargatan gæti hafa verið sjálfstæð eining í fornu gatnakerfi Almennings, eða hluti af öðrum götum. FERLIR hafði áður (oftar en eini sinni) fylgt Skógargötunni bæði upp og niður úr Skógarnefi. Þótt gatan sé ekki vel greinileg er hún vel vörðuð svo auðvelt er að fylgja henni á þeim kafla. Þegar staðið var við gatnamótin var ljóst að ekkert væri auðveldara en að fylgja henni áfram til norðurs, þvert á Óttarsstaðaselsstíginn. Eldra Afstapahraunið (4000-4500 ára gamalt) er vestar, en ofan (austan) þess er hraunið vel gróið og greiðfært. Skógargatan hefur fylgt Óttarsstaðaselsstígnum spölkorn til vesturs, en síðan tekið stefnuna yfir á Straumsselsstíginn vestari. Vörðubrot er á hraunhól skammt norðan gatnamótanna. Frá honum er haldið niður í enn grónara hraun og síðan gróningum fylgt áfram aflíðandi til norðurs, líkt og að ofanverðu. Tiltölulega stutt er yfir á Straumsselsstíginn. Þar, undir hraunbrúninni, er vörðubrot. Komið er inn á stíginn þar sem hann liðast upp á Eldra Afstapahraunið og þar eftir sléttu hrauni. Aðkoman inn á Óttarsstaðasels-stíginn er mjög svipuð, nema hvað ekki var hægt að greina tvö vörðubrot á seinni staðnum, einungis eitt.
Grunur leitendanna reyndist réttur. Skógargatan hefur verið notuð hvort sem er af þeim er fóru um Óttarsstaðaselsstíg eða Straumsselsstíg vestari – eins sjálfsagt og það gat verið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Bekkjaskúti

Óttarsstaðasel
Gengið var frá Rauðamel að áður fjölfarinni Alfaraleiðinni á milli Innesja og Útnesja. Gatan er enn vel mörkuð þrátt fyrir að umferð um hana hafi lagst af fyrir tæplega einni öld. Leiðinni var fylgt að Gvendarbrunni, einum þeirra mörgu brunna, sem Guðmundur góði vígði í sinni tíð. Norðvestan brunnsins er Gvendarbrunnshæð. Sunnan í henni er ónefnt fjárskjól frá Óttarsstöðum, hlaðið fyrir skúta.
NátthagiSkammt vestan brunnsins var beygt suður Óttarstaðaselsstíg. Önnur nöfn á stígnum eru Skógarstígur og Raftastígur (og stundum Rauðamelsstígur). Skömmu eftir að komið fyrir sporðinn á Selhrauni, yfir línuveginn og áfram upp að svonefndum Bekkjum (hækkun í hraunalandslaginu), var beygt út af og með honum til vesturs að fallegum hraunhól. Gengið var inn í stóra sprungu á hólnum og síðan inn eftir henni þangað til komið var að stóru jarðfalli. Þar blasti við mikil hleðsla fyrir víðum skúta, fjárskjól nefnt Bekkjaskúti.
Haldið var upp úr jarðfallinu og beygt til norðausturs, aftur inn á Óttarsstaðaselstíginn. Eftir stutta göngu eftir honum yfir tiltölulega gróið hraun var komið upp á hraunhól. Norðan hans var jarðfall, fjárskjól, og í því mikil vegghleðsla, algerlega heil, Sigurðarskúti.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – fjárskjól.

Áður en lagt hafði verið af stað frá Bekkjaskúta var landið skoðað norðvestan við hann. Þar skammt frá er hleðsla fyrir skúta, en í miðju jarðfallinu er greinileg tótt. Hún sést ekki yfir sumarið því birkið vex svo til alveg yfir hana og yllir jarðfallið. Þarna er um svonefnt Brennisel að ræða, sem gamlar heimildir eru til um. Það var sel notað til kolagerðar, en ofar í Almenningunum var hrístaka svo til allra bæja með ströndinni, allt fram á 19. öld. Við það er hlaðið fyrir fjárskjól. Ef vel er leitað þarna skammt norðar má finna enn eldra og líklegt kolasel, í lægð við hraunhól. Hleðslurnar eru vel mosavaxnar og erfitt að greina þær, en tótt er enn greinileg handan við hleðslurnar. Sama er að segja um þetta sel og hið fyrra, gróðurinn þekur það nú alveg yfir sumartímann.
BrenniselSunnan Brennisels er mikill krosstapi, sennilega þriðji Krosstapinn á þessu svæði, sem getið er um. Hann ber heitið Álfakirkja. Í honum norðanverðum er fjárhellir með hleðslum fyrir munna. Ef haldið er til austurs frá Álfakirkjunni, að Óttarsstaðaselsstíg og honum fylgt spölkorn til suðurs má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við jarðfall og neðan hennar eru vandlegar hleðslur fyrir skúta. Hann er lágur mjög en víður um sig. Hrísrunni vex fyrir opið og því er mjög erfitt að komast að honum yfir sumartímann. Nokkru sunnar eru Meitlarnir, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Þetta eru greinileg fjárskjól í hlofnum hraunhólum vestan stígsins (Meitlaskjól). Rétt eftir að gengið er yfir Stóruhæðir og skömmu áður en komið er upp úr litlu dalverpi við svonefnda Meitla og í Óttarsstaðasel má sjá lítinn fjárhelli vinstra megin við stíginn, Meitlahelli eða Meitlaskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og framan við opið. Líklega hafa þær verið notaðar sem kví því þarna er gott skjól fyrir suðaustanáttinni.

Álfakirkjan

Óttarsstaðasel eru rústir tveggja seljahúsa og snúa þau göflum saman. Aðrar dyrnar hafa snúið í austur og hinar í vestur. Göng og tvær vistarverur hafa verið í hvoru húsi. Í seljum 250 á Reykjanesskaga voru vistarveran venjulega með sama inngang og búr eða geymsla, en eldhúsið til hliðar með sérinngangi. Undantekningar eru þó þar á og ræðst það sennilega af aldri mannvirkjanna. Vatnsstæðið er rétt hjá tóttunum í austur. Í vestur er hraunhryggur og vestan í honum er stórt fjárskjól með miklum hleðslum. Vel má greina hlaðinn stekk sunnan við selið og sunnan þess er greinilegur nátthagi.
Í litlum skúta suðvestan við vatnsstæðið er einnig gott vatn að finna. Þar vestan við er Þúfuhóll og Þúfhólsskjól vestan í honum. Hjá hólnum liggur Rauðhólastígur að Tóhólum og Rauðhól. Í Tóhólum er Tóhólahellir og í Rauðhól er Rauðhólshellir.
Stígurinn liggur síðan um BekkjaskútiSkógarnef yfir á Mosana hjá Bögguklettum um Dyngnahraun, hjá Lambafellunum að Eldborg, um Jónsbrennur undir Trölladyngju að Höskuldarvöllum. Annar Mosastígur (Skógargatan) liggur frá Óttarsstaðaselsstíg austan við Bekkina áleiðis upp í Skógarnef. Þá götu fóru Hraunamenn er þá vantaði mosa [og eða hrís] til eldiviðar.
Vestan við Óttarsstaðarsel, í u.þ.b. 15 mín. fjarlægð, er Lónakotssel. Í því eru þrjár byggingar. Auk Lónakotssels voru þar sel frá tveimur hjáleigum Óttarstaða, Eyðikoti og Kolbeinskoti. Austan við Óttarsstaðasel, í u.þ.b. 20 mín. fjarlægð, er Straumssel. Þar var búið fram á miðja 19. öld, eða þangað til bærinn brann. Enn austar eru gömul sel frá Þorbjarnarstöðum, Gjásel og Fornasel. Nýlega var grafið í tvær tóftir þess síðarnefnda og kom í ljós að þær voru frá 1500-1600.
Suðaustan við Óttarsstaðasel eru miklar hleðslur fyrir skúta, Fjárskjólið mikla (Óttarsstaðaselshellir).

Lónakotssel

Lónakotssel.

Þorbjarnastaðir

Í ferð nr. 1 á „Göngudögum Alcan“ var gengið milli Hraunabæjanna, skoðuð mannvirki og sagan metin. Á svæðinu, svo til við fótaskör höfuðborgarsvæðisins, eru minjar er endurspegla bæði búsetu- og atvinnusögu kotbændanna svo að segja frá upphafi landnáms hér á landi. Um er og að ræða eina af náttúruperlum landsins. Svæðið hefur í 30 ár búið í sátt við álverið í Straumsvík. Á sama hátt og afurðir þess hafa margfaldast að verðmæti hefur svæði til útivistar orðið dýrmætara með hverju árinu sem líður.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi.

Hraunin eru merkileg fyrir margt; stórbrotna náttúru, mikilfengleg jarðfræðifyrirbæri, sérstætt gróður- og dýralíf sem og einstakar búsetuminjar. Hraunin eru mikilsverð tákn þess sem var. Að handan er nútíðin. Álverið skilur þar á milli – svo einungis nemur nokkrum gangandi mínútum.

Bæirnir í Hraunum eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1967 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskubúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot vor hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu. Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi.

Stóra-Lambhagavör

Stóra-Lambhagavör.

Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straums(sels)stígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið er liggur út á Útnes, og áfram upp í Straumssel.Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, Óttarsstöðum eystri 1952, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Straumur

Straumsvör.

Tjarnirnar ofan við Straumsvík heita Straumstjarnir næst víkinni. Svonefndir Hólmar umlykja þær. Á neðsta hólmanum er Pétursbyrgi – þar voru merki móti Þorbjarnarstöðum.
Ofan vegar er Gerðistjörnin og Brunntjörnin þar fyrir ofan. Austan hennar, sunnan Gerðis, er Gerðistjörnin syðri. Vestan Gerðistjarnar og norðan Brunntjarnar er Stakatjörn. Brunntjörnin heitir svo vegna brunnsins syðst í henni, en þar leysir ferkst vatn undan hrauninu eins og svo víða í tjörnunum. Sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.

Norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan afleggjarans að Straumi er Brunntjörn, oft nefnd Urtartjörn. Þegar staðið er norðaustan við tjörnina í stilltu veðri má sjá líkt og sel ofan í tjörninni. Þarna er um að ræða klett sem líkist sel við vissar aðstæður.

Litli-Lambhagi

Gerði við Litla-Lambhaga.

Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Þá var það einungis norðvesturhorn hússins, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Stefanía hét kona hans. Þau bjuggi í gerði ásamt tveimur sonum og fóstursyni. Búskap var hætt í Gerði um 1930. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu. Útihúsin, hlaðin, eru vestan við bæjarhúsið. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri.

Kapella

Kapellan 2022.

Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Annar stígur, Kirkjustígur lá frá og upp á Brunabrúnina. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á Alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.

Straumur

Garður við Straum.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og dó.
Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Hádegishóll er þar skammt austar, en hann virðist hafa verið eyktarmark frá Gerði. Þorbjarnastaðaréttin efri er stór hlaðin rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Eyðikot

Garður við Eyðikot.

Bæjartóftirnar að Þorbjarnarstöðum eru þær síðustu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar. Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnastaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnastöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægð hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Útnesja. Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að „fiskgeymslunni“. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.

Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæmigerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Alfaraleið

Mosastígur.

Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum. Mosinn var reyndar sóttur út í Kapelluhraun, sem er reyndar í aðra átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti.

Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Ólaf Jónsson, bóndi á Geitabergi, Katanesi, var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar bjó hann í 12 ár sem leiguliði.
Varla var hægt að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.
Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyi mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.
Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstrandarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Hann fluttist þangað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi.
Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.

Þar mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Óttarsstaðir

Bátsflak við Óttarsstaði.

Gengið var eftir Straumsselsstíg að Straumi og yfir að Norðurgarði. Gamli bærinn stóð þar sem Straumshúsið er nú.
Vestan þess er Vesturgarðurinn. Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1986 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratugnum voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.
Vestan við Straumstúnið er Lambhúsgerði, gömul hjáleiga er lagðist af. Þar var þá sléttur völlur, notaður frá Jónsbúð.

Frá bænum lágu þrjár götur; Sjávargatan til norðausturs, Selsgatan, stundum nefnd Straumsgata, til suðurs og Brunngatan til suðvesturs. Þarna norðvestan við er gömul útgræðsla, Lambhúsgerði. Þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, að þar hafi verið hjáleiga.
Norðurgarðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Í vörinni leysir talsverðan jarðsjó.

Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis hana. Innan við norðvesturhorn hans er stórt hlaðið gerði. Þýskubúðarvarir eru austan við búðina. Sunnan þeirra er Landabyrgistangi.
Við Þýskubúð er talið að Þjóðverjar hafi haft verslun á öldum fyrrum þótt þess sjáist ekki merki í dag. Hins vegar eru þarna ýmsir garðar og gerði frá því að síðast var búið þarna, m.a. hlaðið bátshró. Eiríkur Smith, listmálari, ólst upp í Þýskubúð ásamt fleiru ágætu fólki.

Markaklettur

Markaklettur.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi, nefndur eftir Guðmundi Tjörva (f: 16.8.1850 – d: 6.21934), beyki í Straumi og Þýskubúð. Í gerðinu er fjárbyrgi og smalaskjól.
Tjörvi þessi var sonarsonur Krýsuvíkur-Gvendar, en faðir hans, Guðmundur Guðmundsson, var m.a. skógarvörður í Almenningum með aðsetur í Straumsseli. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin „Keili á og kotið Lóna“ og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Óttarsstaðir

Garður við Óttarsstaði.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.
Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur. Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – bátasmíðaverkstæði.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.
Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir; Þorbjarnarstaðaréttin, lítt hrunin, önnur rétt er við Óttarsstaði, þriðja við Straum og sú fjórða við Lónakot.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðastekkur.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Straumur

Bátahróf við Straum.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift. Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Straumur

Tjörvagerði.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.
Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ, sem fyrr segir.
Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar fékk Bjarna F. Einarsson, fornleifafræðing, árið 1997 til að kanna fornleifar á svæðinu Hraunum við Straumsvík. Ekki var um eiginlega fornleifaskráningu að ræða, heldur fornleifakönnun, sem er leitun að, og staðsetning á rústum á korti/loftljósmynd. Í framhaldi af þessari vinnu kviknaði áhugi félagsins á því að láta kanna Jónsbúð nánar með prufuholugreftri og fór sá gröftur fram á tímabilinu 26. okt. – 13. des. með hléum. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.
Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, sagði að ekkert hefði verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. Ljóst sé að menn fari sér hægt við að skipuleggja framtíð þess. Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði.
Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.

Þýskabúð

Hús við Þýskubúð.

Stutt var yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; kú, kindur, kona og krakkar.

Stefnt var að, og til þess fengið leyfi, því að kanna fleiri fornleifar í nágrenninu. Annarsvegar er um prufuholugröft við Óttarsstaði, þar sem staðfesta á hvort meint bænahús sé þar að finna eða ekki og hins vegar að kanna aldur Fornasels, sem liggur austan megin við þjóðveginn, talsverðan spöl austur af Álverinu. Sá gröftur gaf til kynna að selið gæti verið frá því á 14. eða 15. öld.

Bæjarstæði Jónsbúðar er aðeins nokkra metra frá sjávarkambinum sem skilur að býlið og uppsátur þess, eða Jónsbúðarvör. Utan um túnin er túngarður úr grjóti sem liggur frá sjávarkambinum utan um stóran klett að sunnanverðu (Skötuklett) og liggur svo að norðan nokkra metra sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðarmanna. Svæðið einkennist mjög af hraunhólum og grasi grónum bollum á milli þeirra. Þessir grasi grónu blettir hafa verið undirstaða skeppnuhalds á staðnum, auk þess sem sjórinn gaf.

Jónsbúð

Garður umhverfis Jónsbúð.

Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.
Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskubúðarvör.

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.

Jón í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti ábúandi Jónsbúðar, en búðin greinilega kennd við einhvern annan Jón en hann og ekki heldur við faðir Gunnars sem bjó í Jónsbúð árið 1910. Ekki er loku fyrir það skotið að búðin hafi haft ýmiss nöfn, stundum eftir ábúendum sínum og stundum eitthvað annað. Dæmi um slíkt eru vel þekkt.

Ekki hefur Jónsbúð verið mjög lengi í eyði áður en Jón þessi í Jónsbúð byggði upp kotið, varla nema nokkur ár (eins og altítt var með hjáleigur og smákot sem oft voru í eyði til skamms tíma).

Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.
Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn. Rúman metra vestan af bænum er garður.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur og vatnsból. Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús. Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur og nátthagi umhverfis hann.

Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þrjár prufuholur voru teknar við Jónsbúð. Prufuhola 1 var tekin inn í miðju hólfi inn í bæjarhúsinu, prufuhola 2 tekin rúma 5 m frá dyrum bæjarhúss og prufuhola 3 tekin rétt innan við dyr.
Í prufuholum fundust brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra, keramík, gler, steinkol, járn, aðrir málmar, skeljar og kuðungar, auk þess sem sjálf mannvistarlögin voru gerð úr, svo sem viðarkol, skeljasandur o.fl. Beinin benda til þess að sauðfé hafi verið hluti af bústofninum, eins og nautgripir sbr. fjósið. Fiskur og fugl hefur verið hluti af fæðunni og svartfuglar verið veiddir til matar (nema að köttur beri ábyrgð á gogginum í baðstofunni!).

Sjá mátti í prufuholu 2 að steinkolin fundust aðeins í efri hluta mannvistarlagsins og það bendir til þess að neðri hluti lagsins sé eldri en tími fyrstu eldavélanna, en þær komu upp úr 1870, þó þær hafi ekki orðið almenningseign fyrr en talsvert síðar. Steinkol voru notuð í þessar vélar. Því má draga þá ályktun að á síðasta skeiði búskaparins í Jónsbúð hafi verið eldavél og hún vafalítið verið í baðstofunni (SA – horninu?).

Straumur

Straumsrétt.

Meðalaglasið, ampúllan, sem fannst í prufuholu 1 er einnig ungt, jafnvel frá þessari öld. Trúlega hefur innihaldið í því verið notað til að bólusetja sauðfé (nautgripir og hestar ekki bólusettir!) Bólusetning af þessu tagi byrjar ekki fyrr en eftir fyrri heimstyrjöldina.

Um aldur gripanna er ekki hægt að segja mikið annað en þeir eru ungir, sennilega frá seinni helmingi síðustu aldar.

Bæjarhúsið í Jónsbúð hefur skipst í baðstofu og fjós. Fjósið liggur lítið eitt lægra en baðstofan, en það gat verið með ráðum gert til að nýta hitann af skepnunum, en hiti stígur upp eins og þekkt er. Slík ráðabreytni er þekkt úr öðrum gömlum bæjum svo sem í Sandártungu í Þjórsárdal, kotbýli frá seinni hluta 17. aldar (Kristján Eldjárn. „Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949-50. Reykjavík 1951 og „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal.

Eins og fram kemur hér að framan var eitt heilþil og eitt hálfþil á húsinu. Og eins og fundir gefa til kynna var gluggi á húsinu, jafnvel fleiri en einn. Líklega hefur húsið litið svipað út og Arnarnes nokkuð. Slík hús eru kölluð Þurrabúðargerð yngri, en sú gerð þróaðist upp úr þurrabúðinni (Þurrabúðargerð eldri), sem var án þilja, glugga og bursta. Þessi þróun átti sér stað í lok síðustu aldar.

Straumur

Straumur. Hlaðið byrgi nær.

Í Jónsbúð hefur verið búið á síðustu öld og eitthvað fram eftir þessari. Húsið hefur skipst í baðstofu og fjós og í baðstofunni hefur verið eldavél á seinni stigum búsetunnar og í henni hefur steinkol verið brennt.
Á býlinu hefur verið haldið sauðfé og nautgripir og fiskur og fugl veiddur til matar. Þang hefur verið notað sem eldiviður, auk annars sem nothæft var (bein, sprek o.fl.). Líklega hefur þangið verið talið til hlunninda eins og segir um Krýsuvíkina, ekki síst til að beita sauðfénu á.

Ekki var hægt að rekja aldur býlisins mikið lengra en til seinni hluta síðustu aldar, en baðstofan, gæti verið yngri en sum önnur mannvirki á staðnum. Vel getur hugsast að fyrir hafi verið hús af gerðinni Þurrabúðargerð eldri, sem hafi verið endurhlaðin og bætt samkvæmt þörfum samtímans og ráðandi tísku í lok síðustu aldar, eða þegar þurrabúðin varð að einskonar hjáleigu með tilkomu húsdýra. Til að komast til botns í þessu máli þarf að grafa betur á staðnum, t.d. í gegn um veggi bæjarins og kanna betur öskuhauginn.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðabrunnur.

Haldið var að Jónsbúðartjörn norðan búðarinnar. Þar er brunnstæði og vatnsstæði syðst í tjörninni. Markhóll, klofinn klettur, er norðan við tjörnina. Í gegnum hann liggja mörk Straums og Óttarsstaða. Vatnskersklöpp liggur þar útfrá og má sjá merki yst á henni.
Áður hafði verið gengið með ströndinni til norðurs, en nú beygir hún til norðvesturs. Norðvestan við Markhól er Kotabótartjörn, Kotabót ofar og Kothellan við ströndina. Framundan hægra megin eru Kisuklettar og Bakkatún á vinstri hönd. Heillegur garður liggur með því sunnanverðu.
Eyðikot er þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u,þ.b. 40 árum, en komið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla.
Kobeinskotið var þar sem bárujárnskofi er ofan við Óttarsstaðavör innan við Sundið. Vestan hennar er Læna og Innri- og Ytri-Hólmi þar út af. Utan við Ytrihólma er sker, sem nefnt er Kirkjusker. Munnmæli eru um, að þar hafi farizt bátur með fólki, sem var að koma frá kirkju í Görðum.
Snoppa heitir hár klettur vestan við vörina. Upp af henni er Fiskhóll. Framundan til norðvesturs er Langibakki neðan við Óttarsstaði-eystri.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Á kvöldin má sjá mink stinga sér innan um þangið í fjörunni í leit að einhverju ætilegu.

Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur enn þá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.

Gerði

Gerði.

Við Óttarsstaði eystri eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Íbúðarhúsið hefur verið reisulegt á sínum tíma, þótt hafi nú láti verulega á sjá. Máttarstoðir þess eru sagðir vera úr strandi Jameswon við Hafnir 1881, eins og svo mörg önnur hús á Reykjanesskagagnum á þeim tíma. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð.

Gengið var áfram framhjá fjárhúsi, sem þarna stendur nokkuð heillegt og suður fyrir Óttarstaðabæina. Þar er grasi gróinn hóll, sem talið er að hafi hýst bænahús til forna. Þar við er Álfakirkjan, klettaborg í grónu jarðfalli.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna F. Einarssonar eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða, ofan við Langabakka. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð.

Þorbjarnastaðir

Útihús við Þorbjarnastaði.

Rétt norður af Neðri-Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði, kennt við Guðrúnu, dóttur Friðfinns, sem bjó á Óttarsstöðum skömmu fyrir aldamót.
Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga.
Alveg sunnan undir húsinu á Neðri-Óttarsstöðum var jarðfall, lítið um sig. Það var alltaf kallað Prettur, en ekki er vitað um orsök nafnsins. Brunnur var í jarðfallinu, og var alltaf nóg vatn í honum, en fylgdi flóði og fjöru.
Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langabakkahús. Langabakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum. Sunnan við Kattarhrygginn var klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða.
Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.

Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll. Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðaborg.

Gengið var niður Norðurtúnið að Langabakka. Þar mótar fyrir gömlum rústum, mun eldri en aðrar sýnilegar. Aðeins austar, rétt við kampinn, var lítil rétt, sem notuð var fyrir sláturfé á haustin. Hún var kölluð Langabakkarétt. Sjórinn tók hana og jafnaði við jörðu í sama flóði og Langabakkahúsið fór af. Austan við Langabakkarétt eru stórir klapparhólar og sunnan við þá tjörn. Er þetta kallað Vatnsgjá. Þarna var kofi eða byrgi frá Eyðikotinu, og var þar geymdur harðfiskur í gamla daga. Veggirnir standa enn.
Vestan við Langatanga er Arnarklettur og Hrúðurinn norðan hans. Vestar er Langiklettur. Út á hann liggur vandlega hlaðinn garður Óttarsstaðarbæjanna. Stekkurinn er í kvos vestan við Garðinn og leirlág þar sunnan við.

Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Í henni er m.a. hlaðin lambakróg. Líklega hefur réttin verið heim- og rúningsrétt líkt og Þorbjarnarstaðaréttin (Stekkurinn). Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa.
Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur.

Straumur

Gengið um Straumssvæðið.

Í Kúarétt eru hleðslur. Réttin er í skjólgóðri hraunlaut með háa barma allt í kring. Rjúpa kúrði enn sem oft áður efst í barminum. Gengið var upp úr réttinni og yfir að Kotaklifsvörðu. Við hana eru gatnamót; annars vegar efri stígurinn yfir að Lónakoti og hins vegar gata niður að Miðmundarhæð. Síðarnefndu götunni var fylgt niður að Miðmundarvörðu vestast í hæðinni. Beint þar fyrir neðan, í stórum hraunkrika er Óttarstaðaréttin, falleg og vel hlaðin rétt. Innst í henni er hlaðin kró.

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Gerði. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum. Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Fagrivöllur var á vinstri hönd. Hlaðinn garður er um hann og var Péturskot við norðausturhornið á honum. Reykjanesbrautin var að hluta til lögð yfir völlinn og skilur af svæðið við Péturskot og Péturskotshróf og Péturskotsvör ofan við Straumstjarnir. Austar og ofan við þjóðveginn er Aukatún. Sjá má hleðslur um túnið undir hraunkantinum þar sem gatnamót gamla vegarins er að Gerði. Hefur garðurinn oft verið nefndur Brunagarður.
Áður fyrr lá flóraður stígur frá Lambhaga langt austur inn á Kapelluhraun.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrár Örnefnastofnunar.
-Magnús Jónsson.
-Gísli Sigurðsson.
-Ólafur Jónsson.
-Guðjón Jónsson.
-Bjarni F. Einarsson.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Jarðfall

 Kominn var tími til að skilgreina nákvæmar Straumsselsstíginn (vestari). Jafnan hefur verið haldið fram að Fornaselsstígur hafi verið hluti Straumsselsstígsins, en nýjustu uppgötvanir benda til þess að svonefndur „Straumsselsstígur vestari“ hafi fyrrum verið stígurinn upp í selið. Bæði er hann greiðfærari og miklum mun eðlilegri. Tóftir ÞorbjarnarstaðaÞað sem háð hefur lokaákvörðun um staðsetninguna er kafli ofan klapparhæðardraga suðvestan við Draughólshraun. Spurnir höfðu borist af bæði greinilegu og vörðuðu framhaldi stígsins á því svæði.
Eflaust hefur verið farið upp í Straumssel af Fornaselsstíg, en ekki með hesta. Vestari stígurinn, eins og hann hefur verið kynntu, hefur heldur ekki verið farinn með hesta. Samt hefur verið farið á hestum með allan kost upp í selið og afurðir til baka. Auk þess hefur hrís að mestu verið reiddur af hestum ofan úr Almenningi, en þar var Straumselið miðstöð um tíma. Ætlunin er að rekja selstíginn frá Straumi upp í selið.
Straumsstíg var fylgt upp í hraunið til suðurs skammt vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða. Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan lá frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið (Geldingahraunið/Eldra Afstapahraunið) og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir síðan vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Rautt; reiðleið - Gult; gönguleið (styttingur)
Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt austar. Gallinn við síðastnefnda kaflann er á að hann er ekki hestfær. Þarna gæti því hafa verið styttingur (gönguleið) upp í selstöðuna, en þótt hún stytti leiðina svolítið, m.v. það sem átti eftir að koma í ljós, þá sparaði hún ekki tíma.
Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem nefndur er svo, er liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af mun fyrr en Straumsselið, þ.e. að segja bærinn í Straumsseli. Tóftir gömlu selstöðunnar eru skammt austan við bæjartóftirnar. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af. Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem styttingurinn á vestari selsstígum mætir túninu.
Eystri selstígurinn (Fornaselsstígur) er merktur að hluta. Sá selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum og Vestari-Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á þessari leið sést vel yfir að vörðu í suðvestri ofan við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum. Annars gengu hlutar Gerðarstígsins undir nokkrum nöfnum, allt eftir því til hvers hann var notaður hverju sinni.
Straumsselsstígur vestariFyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Varðan hefur ekki þjónað vegfarendum um vestari selstíginn, en hún hefur vissulega gert það fyrir þá er komu að vestan því þá blasir varðan við beint fyrir ofan selstöðuna og er þá eitt helsta kennileitið á leiðinni. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Og þá aftur að Straumsselsstíg vestari. Eftir að hafa fylgt honum yfir Alfaraleiðina lá hann um lágt hraunhaft. Við það er varða á hægri hönd. Handan haftsins er hlaðið skjól fyrir grenjaskyttu. Stígurinn lá nú um slétt gróið hraun (Hrútargjárdyngjuhraun) með stefnu til suðausturs, um stutt hraunhaft í Geldingarhrauninu og áfram með stefnu upp Mjósund. Við hraunhaftið stendur ábúðarmikill hraunkarl (Geldingurinn) og horfir heim til bæja. Nokkrar vörður eru hér á klettum. Önnur vörðuröð er skammt ofar. Líklega eru hér um hrístökumörk fyrrum einstakra bæja að ræða.
Þegar stígnum hafði verið fylgt upp Mjósund var komið á hábrúnir gegnt suðvestanverðu Draughólshraunshorni. Þaðan lá „styttingurinn“ áleiðis upp í Straumssel, skammt sunnan Draughólshrauns (úfið apalhraun á afmörkuðu svæði vestan Straumsselshæða). Í því ofanverðu er Draughóll. Nafngiftin hefur eflaust átt að fæla fólk frá að fara inn í hraunið, enda illt yfirferðar (nema kannski að vetrarlagi þegar mosinn er frosinn). Þessa leið hefur enginn farið með hest fyrrum, hvað þá hest með byrgðar.
Þegar aðstæður voru skoðaðar betur mátti sjá undirhleðslu markagirðingar Straums og Óttarsstaða skammt sunnar. Varða við Straumsselsstíg vestariInnan hennar eru enn vænlegri gróningar í svo til beina stefnu upp Hrútargjárdyngjuhraunið. Norðan þeirra eru mishæðir og jarðföll. Þegar staðið var uppi á hábrúnunum virtist augljóst að ef fara átti með hest áfram upp hraunið var ekki um annað að ræða en að halda beint áfram til austurs, með sunnanverðum hæðunum – upp gróningana. Á þeirri leið var engin fyrirstaða alla leiðina. Að vísu fór gatan stundum undir girðinguna, en hafa ber í huga að hún er miklu mun yngri en gatan og hefur verið sett upp eftir að Straumselið lagðist af. Enn standa járnstaurar sumsstaðar upp úr undirhleðslunni.
Þegar verið var að rekja götuna var komið að jarðfalli, einu af fjölmörgum, norðan götunnar. Lítil varða var á brún þess. Undir vörðunni voru leifar af hlöðnu skjóli. Hleðslan var heil að vestanverðu við skúta, en fallin að öðru leiti. Staðnum var gefið nafnið „Straumsselsskjólið“.
Gróningunum var fylgt upp í hraunið, með beina stefnu á háa vörðu á hæðarbrún. Norðan hennar beygði gatan til norðausturs und komið var upp á stíg, sem liggur milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þeim stíg var síðan fylgt að Straumsseli. Þá var komið að selinu úr suðri, beint á gamla selstíginn.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær, sem fyrr sagði, fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn.
Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.Undirhleðslur markagirðingar Straums og Óttarsstaða
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.
Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.
Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum.

Hleðslur í skjóli við Straumsselsstíg vestari (nefnt Straumsselsstígsskjól)

Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“
Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.

Vörður eru víða við leiðina

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var ákveðið að feta sömu leið til baka til að gaumgæfa betur hvort um aðra kosti hafi verið að ræða. Eftir að hafa fylgt milliselsstígnum til suðvesturs beygði Straumsselsstígurinn vestari aflíðandi til norðvesturs. Á þessari leið, sem og frá Straumsseli, er hið ágætasta útsýni heim að Straumi. Gróningunum var fylgt niður aflíðandi hraunið, kannað með útúrdúra og aðra möguleika, en leiðin virtist augljós. Ljóst var að ef fara átti með hesta upp í Straumssel þá hefði þessi leið orðið fyrir valinu. Og jafnvel einnig upp í Óttarsstaðasel því jafn auðvelt var að fara milliselsstíginn yfir í það.
Á leiðinni var reynt að skoða hvort Skógargatan, sem kemur niður á Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg, lægi hugsanlega áfram sem áframhald til norðurs, þvert á þá. Ekki fékkst úr því skorið að þessu sinni, en líklegt verður að telja að Efri-Hraunamenn hafi farið þá leið ef þurfa þótti upp í gegnum Skógarnef og áfram suður eftir. Út því verður skorið innan skamms tíma.
Frábært veður í frábæru landslagi. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Straumssel

FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað leifa Hraunsréttar ofan við Hafnarfjörð. Vitað var að áhugasamir bæjarbúar (og jafnvel aðrir lengra að komnir) höfðu haft ágirnd á steinhleðslum þessar aflögðu réttar til nota í nágörðum sínum heimavið. 

Leifar HraunsréttarEnda hvarf uppraðað dilka- og gerðisgrjótið furðufljótt og það að því er virðist án hinnar minnstu vitundar minjavörslunnar í landinu.
Þegar FERLIR var nýlega á ferð um Gráhelluhraun í leita að allt öðru en réttinni snart tá skyndilega leifar réttarinnar (sjá mynd) inni í grenitrjálundi. Erfitt er að koma auga á leifar hleðslurnar, en svo virðist sem innsti hluti réttarinnar hafi orðið eftir í grjótaðsókninni miklu, enda bæði stærsta grjótið og fjærst veginum.
Gjáaréttin í Búrfellsgjá var fjallskilarétt og lögrétt þessa svæðis fram til 1920. Þessi fjallaskilarétt var byggð 1839. Smalað var þó til hennar fram yfir 1940. Réttin þar var hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð í seinni tíð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu. Réttin sú stendur á þéttri hraunhellu. Gjáaréttin er á fornminjaskrá. Það eitt kæmi þó ekki í veg fyrir að fólk sæki sér grjót úr réttinni, en það gerir fjarlægðin frá akvegi hins vegar. Ágætt dæmi um hið gagnstæða er gömu fjárborg nokkru vestar, nálægt vegi. Úr henni hefur verið tekið nær allt grjót. Og hver ætti s.s. að koma í veg fyrir það?
Árið 1920 var Gjáarrétt flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist þá Hraunrétt. Sú rétt þjónaði Hafnarfjarðarfjárbændum og öðrum allt fram  á sjötta áratug 20. aldar eða í rúmlega 40 ár. Þá var réttin færð upp í Kaldársel, þar sem enn má sjá steinsteypta fjárrétt. Sú rétt hefur hins vegar ekki verið notuð sem slík síðustu árin, nema ef vera skyldi af hestafólki.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun.

 

Kapelluhraun

Ætlunin var að ganga upp og niður meginhrauntröð Nýjahrauns, sem myndaðist haustið 1151, frá upptökunum og til baka. Í tröðinni, sem er bæðidjúp og breið á köflum, eru formfagrar hraunmyndanir, auk þess sem landslagið á svæðinu er ægifagurt.
SnókalöndAð þessu tilefni var gengið inn í Nýjahraun (Kapelluhraun) við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Norðan gatnamótanna eru hin grónu Snókalönd, hluti Hrútagjárdyngjuhrauns, og sunnan þeirra er hin stórbrotna hrauntröð Rauðhóls. Fyrir hugsandi hugmyndasmiði og myndlistamenn eru fáir staðir áhugaverðari.
Jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af Reykjanesi fyrir um 12.000 – 13.000 árum og er það nokkru fyrr en annars staðar á landinu. Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólstraberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin á nútíma, það er eftir að jökull hvarf af svæðinu.
Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það er væntanlega leifar af fornum dyngjum og hefur líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Hraunkarl KapelluhraunsSunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli síðasta ísaldarskeiðs. Syðst og austast í fólkvanginum eru t.d. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám og á 14. öld. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Þá opnaðist 25 km löng gossprunga og rann hraun bæði til norðurs og suðurs allt til sjávar. Norðurelfa þessa hrauns er Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Ögmundarhraun rann yfir þéttbýlisbyggð Krýsuvíkur sem þá stóð á sjávarbakka við grunna vík (nafnið „krys“ táknar grunna skoru í ask) innan í landinu, allt nema kirkjuna, skála og mikla garða, sem nú liggja innan Húshólma og Óbrennishólma. Þar eru og fornar fjárborgir (nema borgin mikla í Óbrennishólma hafi verið hringlaga virki). Heita má að svæðið sé órannaskað þrátt fyrir merkilegheitin, en yfirlýst „stefna“ Fornleifaverndar ríkisins hefur frá upphafi verið sú að „engar merkilegar fornleifar er að finna á Reykjanesskaganum“ (haft eftir forstöðumanni stofnunarinnar í fornleifafræðitíma í HÍ 2006). Viðbrögð stofnunarinnar sem slíkrar svo og aðgerðir hennar hafa hingað til endurspeglast í þessum orðum.
Hrauntröð NýjahraunsReykjanesið er þó óumdeilanlega jarðfræðilega merkilegt, þ.e. gosbeltið sem slíkt, landmótunin og ekki síst nútímaleg hraunamyndunin. Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast
þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum, en stundum er erfitt að taka eftir þeim þar sem hallinn er svo lítill og
stærð þeirra er slík að auðvelt er að sjá þær ekki.

Myndun í Nýjhrauni

Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001). Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 4.500 – 5000 árum síðan.
Nálægt gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, sem fyrr segir, eru Snókalöndin. Allt umleikis er vaxið hraungambra, en löndin sjálf eru gróin birki, enda miklu mun eldri en umhverfið. Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“.
Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Garðmyndanir í Nýjahrauni - Straumur og ÁsAðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Ofar eru garðhleðslur landamarka Straums og Áss. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.
Kapelluhraunið er á köflum mjög úfið apalhraun, en jaðrar þess, ofan hrauntraðarinnar, eru slétt helluhraun. Að þessu sinni voru litbrigðin óvenjumikil því það haustaði að. Víðirinn var orðinn gulur, bláberjalyngið brúnt og mosinn var bæði hvanngrænn og grár eftir undangengin regnskúr. Mosahraunin verða nefnilega grá í þurrkum, en græn í vætutíð. Litbrigðin margfaldast þannig áþeim tímamótum fyrir áhugasamt listafólk, hvort sem um er að ræða ljósmyndara eða málara.
Kapelluhraun er, se, fyr segir, ákaflega fallegt úfið á köflum og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum þess vestanverðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.
Um aldur Kapelluhrauns hefur Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson ritað árið 1989; Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Einnig Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80. Þá rituðu Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998 um; Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177. Páll Imsland sitaði 1998; Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273. Nýjahraun í dag - 856 árum síðar
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Í framangreindum skrifum kemur m.a. fram að; yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.“

Hrauntröð Nýjahrauns - Fjallið eina fjær

Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177): „Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“

Gata í Nýjahrauni

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.: „Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Þegar gengið var til suðurs með austurjaðri hrauntraðar Rauðhóls mátti sjá þar gamla götu, að mestu mosavaxna. Hún gæti hvort sem er verið eftir skepnur eða menn. Þeir, sem vel þekktu til og áttu leið um Undirhlíðaleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, gætu með góðu móti hafa smeygt sér þarna niður Brunann með greiðfærum hætti því leiðin er jafnvel auðveldari yfirferðar en Stórhöfðastígurinn, sem þarna er nokkru sunnar.
Hraunið, tröðin eða hraunmyndanir í Kapelluhrauninu eru einu sagt ómótstæðilegt – en fara þar varlega svo ekki hljótist af skrokkskjóður eða beinbrot. Göngusvæðið er eitt hið aðgengilegasta á höfuðborgarsvæði Hafnarfjarðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Jónas Guðnason.
-Hjörleifur Guttormsson.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.

Nýjahraun

Krýsuvíkurheiði

Lagt var af stað frá timburrétt Hafnarfjarðarfjárbænda undir Stóru-Eldborg. Þar neðan við eru austurmörk beitahólfs þeirra.
JónsbúðMiðað við gögn á Þjóðskjalasafninu frá árinu 1941 mun svæðið vera í Grindavíkurlandi því spilda sú er Hafnfirðingum var afhent á silfurfati af þáverandi ráðherra (fyrrverandi bæjarfulltrúa og bæjarstjóra í Hafnarfirði nær alls ekki svo langt til austurs sem beitarhólfið. Fjárbændur í Hafnarfirði hafa því verið þarna í óþökk Grindvíkinga í 67 ár með fé sitt. Auk þess er skv. lögum óheimilt að girða af svæði með ströndum landsins eða þvert á þjóðleiðir, eins og raunin mun vera þarna núna. Hafnfirðingum til varnar má geta þess að fyrsta beitarhólfsgirðingin náði ekki alveg niður á Krýsuvíkurbjarg. Hún var u.þ.b. 100 metrum ofan þess (leifar hennar sjást enn), en Landgræðsla ríkisins mun síðan hafa farið offari og sett upp nýja girðingu (í Grindavíkurlandi án þess að biðja um leyfi) frá þjóðveginum og alla leið niður á bjargbrún skammt vestan við Bergsenda. Spildumörk Hafnfirðinga sunnan Kleifarvatns eru mun þrengri en þeir hafa viljað vera láta.
Stefnan var tekin á suðaustanverða Krýsuvíkurheiðina. Í Litlahrauni ofan við Bergsenda á Krýsuvíkurbergi, sunnan Uppdrátturheiðarendans, eru búskaparminjar frá fyrri öldum, s.s. fjárskjól, grjóthlaðin rétt (og stekkur), húsarúst o.fl. Þarna hefur Gvendarhellir, sem reyndar er í Klofningum, nokkru austar, verið ranglega staðsettur. Ofar, í heiðarbrúninni, eru tvö hlaðin hús. Á korti eru þarna merktar tvær réttir. Á heiðarendanum er beitarhúsarúst. Allt er þetta hluti af heilstæðu búsetulandslagi Krýsuvíkur.

Fornleifaskráning er framkvæmd var á svæðinu vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar 2003 virðist í besta falli hafa verið lélegu brandari. Þrátt fyrir það lagði Vegagerðin hana til grundvallar rökstuðningi sínum fyrir vegstæðinu – sem reyndar er dæmigert fyrir slíkar framkvæmdir víðar um land. Þegar skoða á svo stór svæði með hliðsjón af öllum hugsanlegum og mögulegum minjum þarf að áætla miklu meiri tíma í slík en gert hefur verið og viðurkenna um leið mikilvægi þess. Svo virðist sem verktakar fornleifaskráninga hafi annað hvort slegið slöku við eða þeim ekki verið gert kleift að sinna starfi sínu sem skyldi.
HúsiðÁ slíkum búsetusvæðum, sem nýtt hafa verið í árþúsund mætti ætla að væru ýmsar mannvistaleifar, sem erfitt væri að koma auga á, einkum þegar haft er að leiðarljósi að landssvæðið er bæði víðfeðmt og hefur tekið verulegum gróðufarslegum breytingum á umliðnum öldum. Kannski að þarna kynnu að leynast enn áður óþekktar minjar?!!
Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Erfitt reyndist að staðsetja arnarhreiðrið af nákvæmni því nokkrir staðir komu til greina. Hafa ber í huga að gróðurfar á þessu svæði, einkum norðvestan við Litlahraun, hefur tekið miklum breytingum tiltölulega skömmum tíma.
Fyrst var komið við í Jónsbúð. Í fornleifaskráningunni segir m.a.: „Rúst (beitarhús?). 6 x 13 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1,5 – 2,3 m Húsiðbreiðir og 0,5 – 1,1 m háir. Dyr eru á rústinni til S. Mikið er af grjóti inni í rústinni norðanverðri og við dyrnar. Veggir eru farnir að gróa mosa og grasi. Garðlög sjást í innanverðum veggjum að vestanverðu og utanverðum veggjum að austan og vestan. Gólf er vel vaxið grasi og mosa. Í kring um rústina er svæðið vel gróið. Hugsanlega er þetta ekki Jónsbúð, heldur eru það fornleifar nr. 285 [húsið er fjallað verður um næst]. Ekki er ágreiningur um staðsetningu Jónsbúðar því Magnús, síðasti bóndinn í Krýsuvík lýsti vist sinni þar í viðtölum.
„Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var beitarhús. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.“

Skjól

Eftir að hafa skoðað leifar Jónsbúðar var stefnan tekin á hlaðið hús suðaustan í Krýsuvíkurheiðinni. Það, sem slíkt, hefur valdið þeim fáu, sem það þekkja, öllu meiri höfuðverk. Húsið er hlaðið með þykkjum veggjum með dyr mót suðri. Ljóri hefur verið á norðurvegg. Gengið hefur verið niður um þrep við dyr. Í fornleifaskráningunni segir: „Rúst 6 x 8 m (N – S). [Á að vera 3 x 8]. Veggir úr grjóti, 1,3 – 1,6 m breiðir og 0,6 – 1,4 m háir. Dyr eru á rústinni mót S (mót hafinu).
Garðlög eru greinileg víðast hvar. Rústin er felld inn í dæld í slakkanum. Gólf er vel gróið grasi og mosa. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er það grafið niður. Nánasta umhverfi rústarinnar er vel gróið grasi. Hugsanlega er þetta Jónsbúð en ekki fornleifar nr. 283.“
Ýmsar kenningar hafa verið um notkunargildi þessarar heillegu rústar. Sérstaklega stórir steinar hafa verið færðir í vegghleðsluna svo þarna hljóta margir menn hafa verið að verki. Getgátur hafa verið um að a) þarna kunni að vera mannvirki frá pöpum, b) varðhýsi til að fylgjast með skipakomum eftir Tyrkjaránið, c) sæluhús skreiðaflutningslestarmanna millum Grindavíkur (Selatanga) og Suðurlands, d) skjól fyrir refaskyttur, e) aðhald fyrir stórgripi og fleira mætti nefna.

Rof

Skammt vestar er hleðsla. Í fornleifaskráningunni segir um hana: „Byrgi. 2 x 2,5 m (NNA – SSV). Veggir úr grjóti, ca. 0,3 – 0,7 m breiðir og 0,2 – 0,7 m háir. Dyr eru á byrginu mót SSV (mót hafinu). Við NV – horn byrgisins er fuglastapi. Gólf er vaxið grasi og mosa. Hugsanlega er þetta skotbyrgi, en ekki hægt að útiloka að það tengist fornleifum nr. 285 á einhvern hátt (smalakofi?) eða útsýnisstaður frá tímum Tyrkjaránsins 1627.“ Augsýnilega hefur hér verið um að ræða tímabundið skjól fyrir tófuskyttur á heiðarbrúninni.
Hafa má í huga hina miklu umferð skreiðarlestanna fyrrum. Skreiðarlestargatan frá Grindavík lá við Arnarvatn suðaustan við samnefnt fellið.
Þegar gengið var til suðausturs niður Krýsuvíkurheiðina, áleiðis að Litlahrauni, blasti hin mikla gróðureyðing liðinna áratuga við. Mótvægisaðgerðir Grindavíkurbæjar virtust þó hafa skilað sér vel því vel var gróið millum hárra (1.20 m) moldarbarða.

Stekkur

Dr. Guðrún Gísladóttir, náttúrulandfræðingur og prófessor við Land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands, hefur fjallað um gróðureyðinguna á Krýsuvíkurheiði.
„Krýsuvíkurheiði á Reykjanesskaga er eitt þeirra svæða á landinu sem hafa liðið fyrir alvarlega gróðurhnignun og ákaft jarðvegsrof og er meginhluti svæðisins nú ógróinn. Gerð verður grein fyrir áhrifum jarðvegsrofs á kolefnisbúskap jarðvegs og landgæði á þessu svæði á sögulegum tíma. Í þeim tilgangi voru mæld jarðvegssnið þar sem jarðvegsþykknun frá landnámi var mæld, sem og kolefnishlutfall og uppsöfnun kolefnis. Einnig var áætlað heildarmagn áfoks og jarðvegstap á svæðinu frá landnámi og magn kolefnis sem hefur safnast upp í kjölfar áfoks og hversu mikið hefur tapast af svæðinu vegna rofs.

Rétt

Fljótlega eftir landnám fór að bera á auknu áfoki, sem jókst til mikilla muna eftir 1226 vestast á svæðinu. Jarðvegsþykknun varð mikil og jarðvegur allur grófari og lausari í sér. Sambærilegar breytingar urðu ekki fyrr en eftir 1500 austar á rannsóknarsvæðinu. Hið mikla áfok og jarðvegsrof hefur leit til gríðarlegrar landhnignunar á svæðinu. Þó ber að geta þess að mikil uppgræðsla hefur átt sér stað á Krýsuvíkurheiði á undanförnum árum, en svæðið á langt í land með að ná þeim landgæðum sem voru á svæðinu við landnám.
Krýsuvík og nágrenni á sunnanverðum Reykjanesskaga er alvarlegasta og verst farna svæði gróðureyðingar og jarðvegsrofs í Gullbringu- og Kjósarsýslum. Þar er unnið að umfangsmiklum landgræðsluverkefnum með það að markmiði að stöðva hið mikla jarðvegsrof sem enn á sér stað, skapa með uppgræðslu skilyrði til þess að staðargróður geti numið land á ógrónum svæðum og koma í veg fyrir að gróður í beitarhólfunum, sem þar eru, skaðist vegna búfjárbeitar.

Fjárskjól

Þótt upplýsingar um gróður fyrr á tímum í Krýsuvík séu litlar og ekki nákvæmar, er ljóst að þar hefur orðið mikil landhnignun. Líkur eru á að þar hafi fyrrum vaxið birkiskógur, en af þeim birkiskógi sem nefndur er í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og nýttur var til kolagerðar og eldiviðar um 1700 er nú ekkert eftir nema nokkrar jarðlægar hríslur. Ekki er ljóst hvenær gróður- og jarðvegseyðing hófst í Krýsuvík, en líklegt er að hún hafi verið einna mest á 18. og 19. öld.
Niðurstöður rannsókna, m.a. Guðrúnar Gísladóttur (1993, 1998 og 2001), Ólafs Arnalds o.fl. (1997) og Sigurðar H. Magnússonar (1998) sýna fram á vægast sagt slæmt ástand lands í Krýsuvík og nágrenni. Í riti Ólafs o.fl.(1997) um jarðvegsrof á Íslandi er tilgreint fyrir Krýsuvík, bls. 133; „Mikið jarðvegsrof á sér stað í Krýsuvík, á 72% landsins á sér stað mikið og mjög mikið rof (einkunnir 4 og 5). Þetta rof veldur tapi á samfelldu gróðurlendi og segja má að stærsti hluti Krýsuvíkursvæðisins sé samfellt rofabarðasvæði (samtals 34 km2 í flokkum 3, 4 og 5). Krýsuvík er á meðal þeirra svæða landsins þar sem rof er mest“.

Sundvarðan

Á rannsóknasvæði Guðrúnar nam hlutdeild ógróna landsins 61%, en smárunnar þöktu um 20%. Hjá Sigurði kemur m.a. fram að rofdílar eru algengir á gróðurtorfum, þ.e. að gróðurhulan þar er veik, sérstaklega á Krýsuvíkurheiði, og þar er frostlyfting mikil og gróður á því erfitt með að nema land af sjálfsdáðum.
Meginmarkmið uppgræðslustarfsins hefur verið að stöðva hina geigvænlegu eyðingu gróðurs og jarðvegs sem þarna hefur herjað síðustu tvær aldirnar. Verkefnið undirstrikar m.a. hve mikilvægt það er að stöðva samspil frostlyftingar, vatnsrofs og vindrofs. Vatnið sem veldur mestu rofi berst langt og fer hratt á gróðurlausu landi, og því þarf að vinna m.t.t. þess. Laust efni getur einnig borist langa leið með vindi og sargað úr börðum. Því þarf að taka stór svæði fyrir í einu.

Krýsuvíkurbjarg

Annað meginmarkmið er að skapa skilyrði fyrir staðargróður að nema land á ógrónum svæðum. Markmið áburðardreifingar og sáningar er fyrst og fremst að skapa slík skilyrði, hinum áburðarkæru grösum er ætlað að deyja, sinunni að rotna og annar gróður á að taka við. Þá þarf að rata hinn gullna meðalveg milli þess að bera nóg á, bæði í magni og tíðni, og þess að bera ekki það mikið á að það trufli landnám þeirra plantna sem taka eiga við. Misjafnt er hvað við á eftir aðstæðum og erfitt að yfirfæra þekkingu annars staðar frá með beinum hætti.

Vatnsstæði

Landgræðslan hefur lengi átt gott samstarf við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um uppgræðslu í Krýsuvík, en gert er ráð fyrir að verkefnum þar ljúki að mestu 2010. Aðferðafræðin felur að mestu í sér væga áburðargjöf, um 150 til 250 kg/ha, í tvö til fjögur ár til að laða fram staðargróður sem lúrir í landinu. Þar sem land er naktast, t.d. með minna en 5% gróðurhulu, er sáð blöndu af túnvingli og vallarsveifgrasi til að m.a. stöðva frostlyftingu og skapa skilyrði fyrir gróður úr nágrenninu að nema land. Reikna má með að heildarkostnaður við uppgræðslu og stöðvun jarðvegsrofs á þessum slóðum á árabilinu 1976 til 2010 verði í allt um 70 til 100 milljónir króna. Allt uppgræðslulandið hefur verið notað til sauðfjárbeitar, en vorið 2005 verður hluti þess friðaður.
Stór hluti hins illa farna uppgræðslulands er innan beitarhólfa fyrir sauðfé, og líta má að hluta á uppgræðslustarfið sem mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir að beitin valdi frekara tjóni á landi. Land HafnarfjarðarBeitin hefur mikil áhrif á þróunarmöguleika gróðurfarsins, ekki síst vaxtarmöguleika víðis og blómplantna, en óljóst er hve áhrifin eru mikil í heild. Með beitarhólfunum tókst að friða margfalt stærri svæði utan þeirra, stóran hluta Reykjanesskaga, sem örvar mjög gróðurframfarir þar. Eftir stendur sú spurning hvernig meta eigi saman þann ávinning og aukinn uppgræðslukostnað vegna beitar innan beitarhólfanna.“

Aðhald

Litlahraun eru tvær vestustu spýjurnar úr Litlu-Eldborg (fyrir tæplega 3000 árum). Í hrauninu er að finna ílangan stekk (sennilega kúastekk), hlaðna rétt, sem eflaust hefur verið stekkur, fjárskjól og vörður, auk fyrirhleðslna víðast hvar og nátthaga. Þrátt fyrir leit fundust ekki leifar íveruhúsa, sem ætla mætti að ættu að vera þarna á svæðinu. Lausnin gæti verið fólgin í hlaðna húsinu fyrrnefnda utan í Krýsuvíkurheiðinni.
Hlaðin sundvarða, friðuð, er á Krýsuvíkurbjargi. Hún hefur sennilega verið mið af sjó – og þá jafnvel fleiri en eitt. Skammt ofan við hana er hlaðið aðhald. Eflaust má finna fleiri búsetuminjar á þessu svæði ef gaumgæft væri. Bergsendi er t.d. skammt austar og ofan við hann er Krýsuvíkurhellir með mannvistarleifum.
Þegar komið var til baka að réttinni fyrstnefndu voru þar fyrir nokkrir fjárbændur. Voru þeir að lagfæra timburverkið því ætlunin var að rétta þar að þremur vikum liðum. Þeir, einkum sá minnsti og belgmesti, byrjuðu móttökurnar með látum: „Hvað eru þið að gera hér? Hvaðan komið þið? Vitið þið ekki að bannað er að vera með hund í beitarhólfinu? Þið eigið bara ekkert að vera hér á þessu svæði? Þið vitið ekkert um landamerki hér!“

Hafflöturinn

Svörin voru þessi: „Og hverjir eruð þið? Hafnfirskir tómstundafjárbændur, einmitt það? Þá eigið þið ekkert með að vera hér í Grindavíkurlandi. Reyndar megið þið ekki einu sinni standa hér án leyfis Grindvíkinga, strangt til tekið. Og hundurinn gerir engum mein, allra síst öðrum ferfætlingum og öðrum fáfættari. Komið ykkur bara yfir á land Hafnfirðinga, sem er þarna vestar á Krýsuvíkurheiðinni! Og hvað segir Jónsbók um aðgengi fólks að svæðum sem þessum? Það væri hægt að dæma ykkur, eða þá er girtu svæðið af, í háar sektir, gerið ykkur grein fyrir því.“ (Það er alltaf auðvelt að rífa kjaft á móti þegar svo ber undir.) Og talandi um landamerki – þá er fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkur hér með í för, sá er hvað mesta og besta vitneskju hefur einmitt um þennan fróðleik – gjörið svo vel!“

Göngusvæðið

Við þessi svör sljákkaði heldur betur í áður kotrosknu hobbýfjárbændunum, einkum þeim litla. Héðan í frá gátu umræðurnar farið fram með rólyndislegri og vitsmunalegri hætti. Í ljós kom að Hafnarfjarðarfjárbændur og nágrannar þeirra voru með um 300 fjár í beitarhólfinu, helmingi færri en Grindvíkingar í sínu – höfðu aldrei verið færri í manna minnum. Einn síðasti fjárbóndinn innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar var t.d. með 10 skjátur, en hafði haft mest 300. Hann var búinn að stunda þennan búskap í áratugi. Fjárhús hans eru við Kaldárselsveginn við gatnamót Flóttamannavegar. Aðrir bændur þarna voru með fé ofan við Lónakot og á Álftanesi.
Já, það þýðir ekkert að reyna að rífa kjaft við FERLIRsfélaga þegar kemur að heimildum og sögulegu samhengi hlutanna.
Þegar upp er staðið, eftir hvíld á langri göngu, er ljóst að Krýsuvíkursvæðið sem heildstætt búseturlandslag hefur verið vanmetið sem slíkt. Ekki er að sjá að áhugi hafi verið hjá hlutaðeigandi yfirvöldum, sér í lagi Fornleifavernd ríkisins, að kortleggja minjasvæðið í heild sinni af þeirri nákvæmni sem það verðskuldar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðrún Gísladóttir, 1993. Gróður, jarðvegur og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi. Ástand og tillögur til úrbóta. Óbirt skýrsla unnin fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs, 44 bls.
-Guðrún Gísladóttir, 1998. Environmental characterisation and change in south-western Iceland. Doktorsritgerð, Háskólinn í Stokkhólmi, Svíþjóð.
-Gísladottir, G, 2001. Ecological disturbance and soil erosion on grazing land in Southwest Iceland. pp. 109–126, in: A. Conacher (ed). Land Degradation. Kluwer Academic Publishers: Dordrecht, The Netherlands.
-Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Sigmar Metúsalemson, Ásgeir Jónsson, Einar Grétarsson og Arnór Árnason. Jarðvegsrof á Íslandi, 1997. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. 157 bls.
-Sigurður H. Magnússon, 1998. Ástand lands í Krýsuvík sumarið 1997. Áætlun um uppgræðslu. Unnið fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, 53 bls.
-Guðrún Gísladóttir – Áhrif jarðvegsrofs á kolefnisbúskap og landgæði, 5. mars 2008.
-Fornleifaskráning 2003.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: „Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.“
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um „Menningardag Evrópu“, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við „kapelluna“ í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.“
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum „evrópska menningardegi“ sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum „meðvitaðra“ óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) „kapelluuppgerð“ getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega „menningararfleifð“ á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.