Tag Archive for: Hafnarfjörður

Gvendarsel

Í „Byggðasögu Grafnings og Grímsness“ eftir Sigurð Kristinn Hermundarson segir m.a. eftirfarandi um Guðmund Bjarnason, svonefndan Krýsuvíkur-Guðmund:

Gljúfur

Gljúfur

„Guðmundur hét maður Bjarnason, er bjó á Gljúfri í Ölfusi, en var síðar nefndur Krýsuvíkur-Guðmundur  (Krýsuvíkur-Gvendur). Hann var bæði stór vexti og sterkur, hagur til smíða og starfsmaður mikill. Gæfur var hann í byggðalagi, óáleitinn við aðra menn og kom sér í hvívetna vel við alla. Hann var fremur fátækur og var eins og margir aðrir, að hann þurfti að hafa sig allan við að vinna fyrir sér og hyski sínu.

Blóðberg

Blóðberg á fjalli.

Þá var títt, að menn fóru til afrétta að afla sér fjallagrasa, færu á grasafjall, sem kallað var. Voru það helst skæðagrös, sem sóst var eftir, eða þá klóungur; hann var smávaxnari og þótti ekki eins góð vara, en var þó notaður til grautargerðar og annars fleira.
Sumar það, sem nú var sagt frá, nálægt sláttulokum, fór Guðmundur að heiman í grasaferð og unglingspiltur með honum. Þeir voru báðir ríðandi og höfðu auk þess einn hest með reiðingi, er þeir ætluðu að bera klyfjar á. Fylgdarmaður Guðmundar var lítilsigldur og veikbyggður, einfaldur og áræðalítill, en trúr og vinnuþarfur húsbónda sínum í öllu, sem hann mátti við koma. En til harðræðna var hann ekki vel fallinn.

Hverahlíð

Hverahlíð.

Þeir Guðmundur riðu nú að heiman snemma morguns, og var veður hið besta. Fara þeir sem leið liggur og ætla vestur í Hverahlíð. En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsaslyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít. Fylgdarmaður Guðmundar vildi þá snúa aftur, sagði, að ferða þeirra myndi ekki verða til neins gagns, ef þannig færi að veðri. Guðmundur kvað veður ef til vill batna, þegar fram á daginn kæmi, og héldu þeir því áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerði þá sólskin og logn og hið besta veður.
Í framhaldinu sagði frá viðureign Guðmundar og Fjalla-Margrétar, útilegukerlingar í Henglinum, þegar hún ásældist nestið hans, sem endaði með því að Guðmundur beit í sundur á henni barkann. Bein Margrétar fann Sogns-Gísli síðar umorpið grjóti í Svínahrauni – að talið er.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Guðmundur Bjarnason var ættaður af Fellsströnd í Dalasýslu og fæddur þar um 1765. Á yngri árum sínum var hann um eitthvert skeið í Helgafellssveit, því að þar gerðist saga sú, er hér fer á eftir, er sýnir að snemma var Guðmundur kjarkmikill og áræðinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Lækjar. Arnarfell fjær.

Þar í sveitinni hafðist við grimmur útileguköttur, sem reif sig inn í hús og hjalla og skemmdi og sleit það, sem hann náði til. Vildu menn gjarna losna við ávætti þessa, en fáir treystust til þess að ganga í berhögg við köttinn, svo grimmur og villtur sem hann var orðinn. Einu sinni var þess vart, að hann hafðist við í fjjárhúsi einu. Fóru einhverjir þá til og lokuðu dyrunum og byrgðu glugga alla vandlega, en enginn þorði að fara inn til högnans. Guðmundur lét þá sauma margfalda ullarflóka um höfuð sér og fór í þykk og sterk föt. Hann tók sér í hönd smíðatöng eina mikla og réðst síðan inn í húsið. Högninn sat þá innst í húsinu fyrir miðju gaflhlaði og horfði til dyra.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

En jafnskjótt og Guðmundur kom inn úr dyrunum, hljóp kötturinn í einu bogakasti og upp á höfuð Guðmundar og læsti að honum með klóm og kjafti af mikilli grimmd. Guðmundur tók þá til smíðatangarinnar og brá munna hennar um háls högnans og lagði fast að. Varð það hans bani. Svo hafði Guðmundur sagt frá síðar, að hann fynndi til klónna á kettinum í gegnum alla ullarflókanna, sem voru þó vel þykkir.

Ekki er nú kunnugt, hvenær Guðmundur fluttist suður á land, en á Gljúfri í Ölfusi býr hann á árabilinu 1805-1815 og þó sennilega ekki allt það tímabil. Á þeim árum varð viðureign hans við Margréti, sem fyrr er sagt frá. Árið 1816 býr hann á Miðfelli í Þingvallasveit, en farinn er hann þaðan 1820. Mun hann þá hafa flust að Ási fyrir sunnan Hafnarfjörð, en þar bjó hann í fáein ár.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Um það, sem Guðmundur hafðist að, er hann fór frá Ási, er til glögg og gagnorð frásögn síra Jóns Westmann prest í Selvogsþingum, og er hún á þessa leið: „Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan helli [Gvendarhelli í Klofningi í Krýsuvíkurhrauni, sbr. þjóðsöguna], en þar eð honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með tveim rúmum, í hinum karminum geymsluhús.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð að honum þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til étur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellisins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum, sem verið mun hafa allt að tveimur hundruðum eftir ágiskun manna, flutti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár að baki.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Eftir dvöl sína í Krýsuvíkurhverfi fluttist Guðmundur inn á Hraunabæi í Garðasókn, en eftir það var hann venjulega kallaður Krýsuvíkur-Guðmundur, og undir því nafni hefur hann gengið síðan. Á elliárum sínum var hann einhvern tíma í Straumi eða Straumsseli. Var hann þá orðinn allhrumur og staulaðist á milli bæja sér til skemmtunar, þegar gott var veður. Hafði hann jafnan prik í hendi og fór mjög hægt. Mannýg kýr, hvít að lit, var þar á næsta bæ. Lagði hún stundum í fullorðna menn og þótti allhvimleið. Einu sinni, þegar Guðmundur fór næja á milli, kom hvíta kýrin að honum að óvörum. Velti hún honum brátt um, og fékk hann ekki rönd við reist, náði þó taki á eyra hennar og gat rekið prik sitt upp í aðra nös kýrinnar. Hljóp hún á burt, en Guðmundur skreið heim. Um kvöldið fannst kýrin með prikið í nösinni. Eftir það fara engar sögur af Guðmundi. Síðast átti hann heima í Lambhaga í Hraunum, og þar dó hann 3. maí 1948, kominn á níræðisaldur.

Tjörvagerði

Tjörvagerði við Straum.

Tvo sonu átti Guðmundur Bjarnason, er ég heyrði nefnda, og hét hvortveggi Guðmundur. Var annar faðir Guðmundar Tjörva, sem margir kannast við, en hinn átti þrjá sonu; Halldór bónda í Mjósundi í Flóa, er var á lífi fram yfir 1880, og Ólafa tvo. Ólafur eldri bjó á Gamlahliði á Álftanesi. Hann var skurðhagur og skar meðal annars út mörg nafnspjöld á skip fyrir ýmsa menn, og þótti prýðisvel gert. Hann skar t.d. nafnspjald á teinæringinn á Hliði, sem fórst veturinn 1884. Hann hét „Sigurvaldi“. Það skip var aðeins tveggja ára gamalt, og var eigandi þess Þórður Þórðarson á Hliði, sjálfur formaður á því, er það fórst. Ólafur yngri var húsmaður á Hliði. Síðustu ár ævi sinnar var hann húsmaður í Haukshúsum, og þar andaðist hann, að mig minnir 1883. Þóra hét koma hans. Hún var dóttir Einars skans; var hann svo nefndur að því að hann bjó í Bessastaðaskansi. Þau Ólafur og Þóra áttu fjögur börn og voru mjög fátæk.
Ólafur þessi yngri sagði mér söguna um Helgafellsköttinn og hvítu kúna í Straumi. Hann sagði mér líka söguna um viðureign Guðmundar, afa síns, við Margréti.“

(Byggt á handriti Þórðar Sigurðssonar á Tannastöðum – Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur III, 1942)

Í Blöndu, 6. bindi 1936-1939, er fjallað um nefndan Krýsuvíkur-Guðmund. Frásögnunum ber að vísu ekki að öllu leyti saman:

Búrfellsgjá

Athvarf Guðmundar í Búrfellsgjá. Hústóft fremst.

Krýsuvíkur Guðmundur – eftir Friðrik Bjarnason, kennara.
„Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hvenær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1827. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni. Einnig bjó hann í Garðshorni nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og hakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. (Um Guðmund sbr. einnig Lýsingu Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestmann (Landnám Ingólfs III, 99—100).

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, a nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verið til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. — Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ við Krýsuvík, og voru þeir Guðmundur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, öll að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lagu á túninu og sagði: „Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Það er enn sagt af Guðmundi, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sög er af Guðmundi. Kona nokkur [Fjalla-Margrét] hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún; var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerling, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð þa hennar bani. Aðrir segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldunum.“

Sjá meira um Blöndufrásögnina HÉR.

Heimildir:
-Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga, Sigurður Kristinn Hermundarson, 2014, bls. 38-39.
-Blanda, Krýsuvíkur-Guðmundur, Friðrik Bjarnason, 6. bindi 1936-1939, bls. 187-189.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

 

Hvaleyri

 Í „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005“ segir m.a. um sögu Hvaleyrar:

„Hér er stiklað á stóru í sögu Hvaleyrar.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Horft til norðvesturs af holtinu ofan við Hrafna-Flókavörðu.

Heimildir um nafnið Hvaleyri er að finna allt frá Hauksbók Landnámu frá því að Hrafna-Flóki fann hval á eyri einni og kallaði það Hvaleyri. Í Landnámu er síðan sagt frá að bróðursonur Ingólfs hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi (ÍF I, Bls. 39, 394).
Í Jarðtei[k]nabók er Teitur sagður búa á Hvaleyri 1300-1325 (Biskupasögur. 1. Bls. 286).
Árið 1395 er Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr. (DI III. Bls. 597).

Hvaleyrartjörn

Hvaleyrartjörnin fyrrum.

Þá segir í heimildum frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja (DI IV. Bls. 751).
Í Jarðabók frá 1703 segir að á Hvaleyri sé hálfkirkja og embættað þrisvar á ári (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170. Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Sögu Hafnarfjarðar frá 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið, en eigi er kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftrarkirkja, því enn sést fyrir kirkjugarði í tún heimajarðarinnar á Hvaleyri (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 23, Reykjavík).
Jarðabókin frá 1703 segir m.a. að jörðin sé í konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri á 20. öld.

Þá er þess getið að Hvaleyrarkot sé aftur byggt eftir að ahfa verið í eyði svo lengi sem menn muna. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem segir frá búsetu, búháttum, landgæðum og hjáleigum. Þar segir m.a.:

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyri er kirkjustaður með annexíu til Garða á Álftanesi þar er ei nema hálfkirkja og embættar þrisvar á ári. Jarðadýrleiki er óviss því jörðin tíundast engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn er Ormur Jónsson. Landskuld er eitt hundruð. Greiðist með sex vættum fiska í kaupstað síðan forpachtningin hófst en áður heim til Bessastaða. Áður til forna hefur landskuldin verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Við til húsabótar hafa ábúendur lagt uppbótarlaust yfir sextíu ár. Leigukúgildi eru þrjú. Leigur greiðist í smjöri heim til Bessastaða. Kúgildin uppyngir ábúandinn uppbótarlaust yfir sextíu ár. Kvaðir eru um mannslán um vertíð, að auki tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír eftir þörfum, en í tíð Heidmanns voru þeir sjö um árið að meðtöldum skylduhestum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæðir bóndinn verkamennina sjálfur að auki skipsferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum þarf á að halda vetur eða sumar og er hægt að áætla hve margar þær geta verið. Fæðir bóndinn þann mann ávallt sjálfur, hvort sem ferðin er löng eða stutt.
Kvikfénaður eru þrjár kýr, einn kálfur, fjórar ær, þrír sauðir veturgamlir, fjögur lömb, einn hestur, eitt hross með fyli. Fóðrast geta fjórar kýr. Heimilismenn sex. Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Hrísrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt, að öðru leyti hefur hún hrísrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolagerðar. LLyngrif og stunga í lakasta mála nærri ónýt. Fjörugrastekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara nægileg til beitu líður ágang af öðrum jörðum.
Heimræði er árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hér oft undir kongsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridts Hansson Siefing var á Bessastöðum. Heidemanns vegna hefur það ekki verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Inntökuskip hafa hér stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu.
Túnin spillast af sandágangi. Engjar eru engar. Vatnsból er ekki gott, og þrýtur bæði vetur og sumar.
Hjá kvöðunum var gleymt að skrifa að á umliðnu hausti sendi umboðsmaðurinn Páll Beyer að Hvaleyri lamb í fóður, tók ábúandinn við því á launa, sama gjörði veturinn á undan umboðsmaðurinn sem þá var Jens Jurgensson, og hefur ábúandinn heldur ekki fengið fyrir það laun. Hafa þessar kvaðir aldrei áður verið, að auki var 1701 og nú í sumar heyhestur heimtur fyrir fálkaféð. Þetta hefur ekki fyrr eða síðar gert verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Hvaleyrarkot er gömul hjáleiga byggð eftir að hafa verið í eyði svo langt sem menn muna sem eru lifandi, og nú aftur komin í eyði fyrir þremur árum. Landskuld var meðan þar var búið 60 álnir og greiddist í fiski til heimabóndans, að auki eitt kúgildi og greiddust leigur í smjöri heim til bóndans. Gæti byggst aftur ef einhver þyrði að vera upp á sjávaraflann kominn, nú hefur heimabóndinn grasnytina þar sem með fylgdi (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170, Kaupmannahöfn 1923-1924).

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a. að Hvaleyri sé í Álftaneshreppi og jarðanúmer 168. Hvaleyri sé í bændaeign, dýrleiki sé 20 hundruð, landskuld sé 0.100, kúgildi séu 2, og eigandinn sé einn. Í skýringum segi rum Hvaleyri að í Jarðabók frá 1803 séu nefndar fjórar byggðar hjáleigur, Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir (J. Johnson, Jarðatal á Íslandi. Bls. 91, Kaupmannahöfn).
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og má það vera ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 kaupir Bjarni Sívertssen jörðina af konungi, og síðan kaupir Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna riddara Sívertssens.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Jón Illugason seldi síðan jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Eftir lát Jóns tók ekkja hans , Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri, hún gaf síðan Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar 1868. Sigríður giftist síðan Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var síðan seld síra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu síðan heimajörðina Hvaleyri til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1881 (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 36-37 og 42-45. Reykjavík).
Elstu heimildir um náttúrufar á Hvaleyri eru frá árinu 1365, en þá er sagt af sandfjúki og sjávargangi á tún á Hvaleyri (Gísli Sigurðsson. Hvaleyri, Hafnarfjörður, Gullbringusýsla. Örnefnastofnun Íslands).

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tímalandnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málari sem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmundsson, barnabarn Ársæls Grímssonar fyrsta starfsmanns Keilis. Talið er að myndin sé máluð í kringum 1950.

 

Frá árinu 1703 er sagt frá að hún hafi spillst af sandgangi, og engjar séu engar.
HafnarfjörðurÁrið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var í túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna.
Á árunum 1754-1757 býr enginn á Hvaleyri, og má það vera ástæða þess að bæjarhús og tún spillast.
Á syðsta hluta Hvaleyrarholts mun hafa verið skógarítak Gufuneskirkju.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005. [Skráningin er að vísu mjög ófullkominn og erfitt að átta sig á staðháttum við lestur hennar.]

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

 

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Krýsuvíkurkirkja

Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Er hún því samkvæmt heimildum ein elsta bændakirkja landsins, en bændakirkja er kirkja, sem taldist eign bónda, þ.e. bóndi eða einhver einstaklingur átti a.m.k. helming jarðarinnar, sem kirkjan stóð á, og fékk tekjur kirkjunnar, en annaðist viðhald hennar og rekstur. Hann var jafnframt eigandi jarða kirkjunnar og fasteignaréttinda hennar og bar ábyrgð á þeim og mátti ekki selja undan henni, en gat selt allar eignirnar í einu lagi og fylgdi kaupahluti jarðarinnar og ábyrgð á kirkjunni kaupinu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Áður höfðu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu til Íslands frá Noregi árið 1000 að boða kristna trú höfðu þeir með sér efnivið og fyrirmæli frá Ólafi konungi Tryggvasyni um að reisa skyldi kirkju á fyrsta stað sem að þeir „skytu bryggjum á land“, en í Kristnisögu kemur fram að þeir hafi haft viðkomu í Dyrhólaey á leið sinni. Kirkjan var reist á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum, þar sem voru hörgar ( hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur ), voru þar blót stunduð áður. Kirkjan var svonefnd stafkirkja, og var tileinkuð heilögum Klementi, verndardýrlingi sæfara og sjósóknara. Hörgaeyri er sandbanki sunnan í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem stendur út frá Stóru-löngu.

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Fyrir Kristintökuna árið 1000, hafði Þorvarður Spak-Böðvarsson sem bjó á Ási í Hjaltadal seint á 10. öld gerðst kristinn, og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), þá er Þorvaldur Koðránsson frá Giljá og Friðrekur biskup komu „til Íslands er landið hafði verið byggt tíu tigu vetra og sjö vetur“ þ.e. 981.
Þeir félagar voru fyrsta veturinn í Húnavatnsþingi en héldu síðan til Skagafjarðar.
Kristni saga greinir frá því að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi reist guðshúsið árið 984. „En kirkja sú var ger sextán vetrum áðr kristni var í lög tekin á Íslandi…“. Í Þorvaldar þætti er þess getið að þremur vetrum eftir útkomu þeirra hafi Þorvarður Spak-Böðvarsson byggt kirkju sína í Ási og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann 1151. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275, þá var kirkjan helguð Maríu mey.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kirkjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirkja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.

Málverkið hér að ofan sýnir nýja bæjarstæði Krýsurvíkurbæjarins 1801 við rætur Bæjarfells, sett inn í umhverfið eins og það er í dag. Krýsurvíkurbærinn var fluttur ofar í landið við rætur Bæjarfells norðvestur af Arnarfelli, eftir eldgosið 1151, þegar Ögmundarhraun rann, var hann reistur á svokölluðum Bæjarhól undir Bæjarfelli, má sjá fjallgarðinn vestan Kleifavatns t.d Sveifluháls og Miðdegishnjúk. Talið er að fyrstu kirkju landsins sé að finna í Húshólma þar sem Gamla-Krýsuvík var. Það mun hafa verið fyrir landnám norrænna manna.

Krýsuvík

Krýsuvík undir Bæjarfelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið við rætur Bæjafells norðvestur af Arnarfelli , og síðar var Krýsuvíkurkirkja formlega aflögð með bréfi 27. sept. 1563, þar sem Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, leggur niður sóknarkirkju í Krýsuvík 1563, en síðan er hún endurbyggð árið 1857 af Beinteini Stefánssyni smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar og hún friðuð, en þá hafði hún verið í mjög lélegu ástandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir brunann.

Krýsurvíkurkirkja var reist úr rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið. Var Krýsurvíkurkirkja þá útkirkja frá Selvogi, og voru um 70 manns í sókninni, síðar var kirkjan aftur gerð upp og endurbyggð 1964, en það var svo hin 31. maí 1964 að Krýsuvíkurkirkja er vígð af biskupi landsins, en hann hefst síðan aftur 1986 við endurbyggingu Krýsurvíkurkirkju, þar sem hún er færð sem næst í upprunalegt horf.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-1870, Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Krýsuvíkurkirkja var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929. Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810.

Hin 31. maí 1964 var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins eftir að hafa verið gerð upp og endurbyggð, viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Mynd sýnir útlit Krýsurvíkurkirkju fyrir brunan, en hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, ásamt Altaristöflu kirkjunar sem var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara; „himingulur bogi upprisunnar“, er talið að bruninn í Krýsuvíkurkirkju hafi verið óviljaverk, mögulega hafi gestur skilið eftir logandi kerti í kirkjunni. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli.

Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja var komin á grunn 10 október 2020. Helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar, en formleg vígsla fer fram síða af biskupi Ísland.

Eins og flestum er kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Syndaraflausn Héraðsdóms Reykjavíkur fólst í að dæmda rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að kirkjunni og brenna hana til grunna.

Krýsuvíkurkirkja

Altari Krýsurvíkurkirkju sem brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Málverkið er eftir Svein Björnsson listmálara; himingulur bogi upprisunnar.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2011 – nýsmíði.

Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumar.
Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð. Hafnarfjarðarkirkja mun þá eiga og reka hana eftir það en Vinafélag Krýsuvíkurkirkju verður þá lagt niður.

Hafnarfjarðarkaupstaður gaf Krýsuvíkurkirkju 7.097 m² lóð.
Nú er kirkjan komin til Krýsuvíkur og verður hífð á sinn stað í Krýsuvík, við rætur Bæjarfells á morgun. Síðar verður hún vígð og afhent Hafnarfjarðarkirkjumun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja eftir brunann. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Ögmundarhraun stendur milli Latsfjalls og Krýsurvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsurvíkurberg er hraunbreiða á Reykjanesskaga sem rann árið 1151, sem komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, eða Krýsurvíkureldum og á upptök sín í norðurhluta gígaraða austan í Núpshlíðarhálsi.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit. Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Í Húshólma eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum í hrauninu skammt vestan við Húshólma eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því, en samkvæmt munnmælasögum stóð Krýsurvíkurkirkja í kirkjulág og stóð löngu eftir að hraunflóð eyddi bænum. Leifar kirkjunnar sjást enn.

Kröflueldar, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann honum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Sjá meira HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

 

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu, blaði B, 2002, fjalla Þorkell Jóhannsson og Óttar Kjartansson um „Tóftina á Flóðahjalla og horfna tíð í Urriðakoti„:

Þorkell Jóhannson

Þorkell Jóhannsson.

„Ný tegund tófta hér á landi eru leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunna eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka; húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsam skothúsam brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvrkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar. Segja má, að tóftin „hafi ekki látið okkur í friði“ og því hafi skrif þessi orðið til.

Flóðahjalli

Hluti af tóftinni á Flóðahjalla.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli

Flóðahjalli

Flóðahjalli er grágrýtisrani (sjá yfirlitskort), sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar. Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið. Vel mætti því vera að skarðið hefði upphaflega kallast „klyft“ (þ.e.a.s. klauf í hæðarhrygginn).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – mannvirki.

Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi (sjá á eftir), og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Oddsmýrardalur

Oddsmýrardalur.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls.

Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal,  skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Flóðahjalla (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti).

Setberg

Setberg – fjárhús í Oddsmýrardal.

Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu og þar má einnig ganga eða ríða upp hálsinn beina leið að tóftinni.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar.

Urriðavatn

Urriðavatn í nútíma.

Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið.
Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 1904. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.

Urriðakot

Álfhóll við Urriðakotsvatn.

Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu).
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans.
Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m².

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli; og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli;). Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.

Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn.

Setberg

Setbergshamar – skotbyrgi.

Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði. Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar.

Setbergshamar

Setbergshamar – skotbyrgi.

Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brynvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212). Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m.a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.

Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).

FlóðahjalliUrriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.

Urriðakot

Urriðakot.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot.

Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“) Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir.“

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur á Hofstaðaseli neðst t.h.

Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu. Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – Dagmálavarða.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa.
Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.

Camp Russel

Camp Russel – Bíóbraggi hermanna 1943.

Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli.
Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 1978.“

Heimild:
-Morgunblaðið, blað B, 13.01.2002, „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti“, Þorkell Jóhannson og Óttar Kjartansson, bls. 10-11.

Urriðakot

Urriðakot – upplýsingaskilti.

Selhraun

Í Náttúrufræðingnum 1965 má lesa um „Forn eldvörp í Selhrauni“ eftir Jón Jónsson, jarðfræðing.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá.
Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.
Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring. Það er peltspat-ólivín-porfyritiskt basalthraun með ólivínkristöllum, sem eru 1,5—2 mm í þvermál, og með einstaka allt að 3 cm stórum og allmiklu af 0,5—1 mm stórum feltspatkristöllum. Bæði stærri og minni feltspatkristallarnir virðast vera eins eða a. m. k. mjög líkir að samsetningu. Ljósbrot þeirra reyndist vera nWl 1.574, en samkvæmt Tröger (1959) er það An 70, en það eru mörkin milli labradorit og bytonit. Taldar voru steintegundir í tveim þunnsneiðum, samtals 2970 punktar. Útfrá því reyndist samansetning hraunsinsvera:
Plagioklas 45,4 %
Pyroxen 36,5 %
Ólivín 7,3 %
Ógegnsætt (opaque) 10,8 %

Selhraun
Hið síðastnefnda er að nokkru svart, ógegnsætt gler, en að mestu málmur, seguljárn og títanjárn.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
SelhraunÍ gígnum í Selhrauni fannst ennfremur stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ekki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim liefur verið farið að veðrast dálítið. Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t.d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið.

Selhraun

Bergstandur í Selhrauni,

Á a. m. k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaða-Rauðamel.

Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálaegt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e.t.v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.05.1965, Forn eldvörp í Selhrauni, Jón Jónsson, bls. 1-4.

Selhraun

Selhraun – berggangur.

Ás - letursteinn

Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.
Svar barst loks frá Tryggva: „Kann að meta þetta. Haukur var þarna, en hann virðist ekki muna eftir letursteininum þeim arna. Skondið. Á steininum virðist þó eitthvert táknrænt hafa  verið“…

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.

Ás - brúarsmíði

Ás – brúarsmíði.

Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: „Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.“
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Náttúrufræðingurinn

Í Náttúrufræðingnum 1993 fjalla feðgarnir Jón Jónsson og Dagur Jónsson um „Hraunborgir og gervigíga„.

Inngangur

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir. Flestum Íslendingum mun aftur á móti ljóst við hvað er átt þegar talað er um gervigígi og að það eru ýmislega lagaðar myndanir á hraunum, stundum með en stundum án reglulegra gígmyndana, og sem ekki eru í beinu sambandi við eldstöðina sjálfa.
Vart verður það sagt að háspennulínur og slóðir sem þeim fylgja prýði landslagið og allra síst þar sem grámosinn má heita eini gróðurinn á hraunkarga. Slík mannvirki eru þó nauðsynleg og hafa þann kost að auðvelda leið að stöðum sem kunna að vera áhugaverðir fyrir náttúrufræðinga.

Gervigígar við Helgafell

Dagur Jónsson

Dagur Jónsson.

Í sambandi við val á línustæði fyrir Búrfellslínu III 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.

Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“).

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns. Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
Litluborgir

Myndin hér hjá sýnir hraunþak sem hvílir á súlum. Þær afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum.

Litluborgir

Litluborgir.

Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti.
Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Litluborgir

Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. Hraunið er þóleít, þétt feldspatdílótt, með allt að 12-J4 díla á cm2, 2-6 mm í þvermál. Samsetning reyndist: Plagíóklas 41,1%, pýroxen 40,0%, ólivín 1,5%, málmur 12,4%. Dílar alls 11,1%.

Katlahraun

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar. Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.

Dimmuborgir

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Hvorugur okkar hefur skoðað Dimmuborgir að ráði og leiti maður að lýsingum á þeim eða hugmyndum um myndun þeirra verður árangurinn mjög á eina leið. Norski jarðfræðingurinn Tom F.W. Barth (1942) er líklega einn sá fyrsti sem slær því föstu að þar hafi verið um „lava lake“ að ræða.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Sigurður Þórarinsson (1951) tekur upp kafla úr ritgerð Barths óbreyttan en bendir jafnframt á að hinir alþekktu Strípar við Kálfaströnd séu sams konar myndanir. Á milli þessara tveggja kemur svo Rittmann (1944) með harla frumlega en naumast raunsæja hugmynd um uppruna borganna. R.W. van Bemmelen og M.G. Rutten (1955) fjalla svo um málið og virðast vera þeir fyrstu sem fjalla sérstaklega um hvernig súlurnar hafi orðið til. Þeir telja þær vera „the result of eddies in turbulent flow of the molden lava“ (hringiður í rennandi hrauni). Síðastur til að lýsa Dimmuborgum nokkuð er svo Kristján Sæmundsson (1991). Hann telur, eins og áðurnefndir höfundar, að þarna hafi hrauntjörn verið en tekur fram að „hemað hefur verið yfir hana“, en það er þýðingarmikil ábending í þessu sambandi. Ennfremur minnist hann á gas- og gufustrompa sem í tjörninni hafi verið og er þá komið nærri skýringu okkar á því hvers vegna súlurnar standa eftir þegar tjörnin tæmist. Ennfremur bendir Kristján á að Dimmuborgir séu „í ætt við gervigíga“.

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Á öðrum stað í sama riti kemur Árni Einarsson inn á kísilgúrleifar sem ættaðar eru úr hinu forna vatni. Með því virðist því fyrst slegið föstu að hraunið hafi runnið út í vatn. Það er nú komið nokkuð á fjórða áratug frá því að bent var á að kísilgúr innan um gjall eða í bombum gervigíga sannaði að hraunið hafi runnið í vatn (Jón Jónsson 1958) og að nokkuð mætti af þörungaflóru ráða hvers konar vatn. Síðar hefur svo verið sýnt hvernig þetta kann að gerast í gervigígum (Jón Jónsson 1990).

Sappar
Katlahraun

Í Árbók Ferðafélags íslands 1983, bls. 128, er nokkuð lýst myndunum sem gefið var þetta nafn (Jón Jónsson 1983). Það var gert til heiðurs Karli Sapper (1866-1945), en hann varð fyrstur til, svo vitað sé, að lýsa þessum sérstæðu myndunum og einmitt við austurgjá Eldborgaraða (Sapper 1908).

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Þetta má sem best nota sem fræðiheiti (term) fyrir þessar myndanir. Það tengist manninum sem fyrstur lýsti þeim og það fellur algerlega að íslensku beygingarmunstri. Sjáfur nefnir Sapper þessar myndanir „Lavapilze“ (hraunsveppi), gefur lauslega upp stærð þeirra, hæð 4-5 m og þvermál 3-4 m, en lýsir þeim annars ekki ítarlega. Hann nefnir þó að þeir muni „sekundares Gehilde“ og að þeir „urspriinglich hohl gewesen wáre“.
Hans Reck (1910), sem næstur er til að skoða þennan stað, er að mestu á sama máli og Sapper, kallar þetta „Lavapropfen“ og „sekundares Gebilde“. Þetta tvennt, og áðurnefnd grein í Árbók Ferðafélagsins, er það eina sem kunnugt er að ritað hafi verið um þessar myndanir. Hvaðvarðar síðastnefnda grein, þá er sú lýsing sem þar er að nokkru leyti röng og að öðru óljós og líkleg til að valda misskilningi.
Það var fyrst sumarið 1991 að í ljós kom að vatn hefur verið þar undir sem sapparnir eru. Það sést af leirkenndu seti sem borist hefur upp á yfirborð með hrauninu og að því er virðist upp gegnum sappann. Í þessu seti eru kísilþörungaskeljar. Ekki verður sagt að um kísilgúr sé að ræða. Flóran er fátækleg að tegundum en fjöldi einstaklinga er umtalsverður og þykir benda til þess að vatnið hafi verið kalt, og setið gæti bent til áhrifa frá jökulvatni. Meira verður ekki um það sagt.
Katlahraun

Sapparnir koma fyrir í óreglulegum hópi um 1,5 km norðaustan við Laka. Hraunið hefur þar lagst upp að eldrigígum og myndað lítið eitt bungulaga hraunsléttu og upp úr henni standasapparnir, sem næst 100-150 m austan við gosstöðvarnar miklu frá 1783, en þá varð þriðja og síðasta stórgosið á þessari sömu línu.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Eftir að komin var um 50-70 cm þykk skorpa á hraunið hefur kvika haldið áfram að streyma inn undir hraunþakið, en vatn lokaðist undir því. Þar safnaðist fyrir gas úr hrauninu og vatnsgufa, sem að lokum náði að sprengja göt á þakið. Um þau hefur svo seigfljótandi hraunkvika stigið upp, myndað lóðrétta veggi í hring í opinu en í miðju hefur gas og vatnsgufa streymt upp, sennilega með allmiklum krafti, og rifið með sér brot úr hálf- eða alstorknuðu hrauni, sem síðan fyllir strompinn að innanverðu. Sú skoðun Recks að gas hafi hér ekki átt hlut að máli stenst því ekki. Fullkomin sönnun fyrir þessu blasir við á öðrum stað á svæðinu, en þar hefur orðið sprenging sem brotið hefur gat á hraunskorpuna, en brot úr henni liggja í hring kringum opið. Má þar skoða og mæla þykkt hraunþaksins.

Katlahraun

Sappi í Katlahrauni.

Á öðrum stað má sjá gjall- og kleprahring kringum einn sappann og má af því ráða að venjulegur gervigígur hefur þar verið undanfari þess að sappinn varð til. Urðin sem er víðast hvar kringum sappana hefur verið túlkuð, m.a. af Sapper sjálfum, sem „Lavatrummer“ (grjóturð) utan af sappanum. Svo er og vissulega að hluta, en engan veginn alls staðar.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Vera má að hraunþekjan kringum sappana hafi sigið jafnframt því sem þeir mynduðust og að það hafi þannig átt þátt í myndun þeirra.
Hér þarf nánari athugana við. Ekki verður annað séð en að lausagrjótið ofan á söppunum sé hluti af þakinu. Veggir sappanna eru 60-80 cm þykkir, þéttastir í miðju en hvergi glerjaðir, stundum með skriðrákum að utan. Sumir sappanna hallast mjög og nokkrir hafa næstum lagst á hliðina. Þetta þykir benda til þess að þeir séu meira sjálfstæð myndun og ekki svo mjög háðir hreyfingum þaksins. Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að hér er um gervimyndanir að ræða þótt ekki verði gígir kallaðir. Ennfremur að vatn hefur líka hér verið til staðar og gegnt öðru meginhlutverki.
Sapper tekur fram að sams konar myndanir hafi hann séð í hrauni við Eldgjársprunguna við Brytalæki (Sapper 1908, bls. 27) og vel má vera að þessar myndanir séu ekki jafn sjaldséðar og ætla mætti; a.m.k. fundum við einn gerðarlegan sappa sumarið 1991 í rönd Skaftáreldahrauns norðan við Galta.

Rabb og niðurstöður

Katlahraun

Katlahraun og möguleg upptök; Höfðagígar eða Moshóll.

Af þeirri upptalningu sem hér hefur verið gerð verður niðurstaðan sú að gervigígir, hraunborgir og sappar séu greinar á sama meiði. En hver er meginorsök svo mismunandi útlits þótt skilyrði sýnist hin sömu? Ekki verður hér reynt að svara því.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Mesta gervígígasvæði landsins, Landbrotshólar, virðist myndað þar sem hraun rann yfir votlendi, væntanlega með árkvíslum og lónum (Jón Jónsson 1958, 1990). Í gjallinu í Rauðhólum við Reykjavík hafa fundist stykki af kísilgúr. Borun þar sýnir að vatnið sem Leitahraun þar rann út í var ekki djúpt. Mývatn virðist aldrei hafa verið djúpt. Austan við Herdísarvík hefur hraun runnið út í sjó og þannig endar Ögmundarhraun. Á hvorugum staðnum hafa gervigígir myndast heldur hefur hraunið runnið í lokuðum rásum eftir að í sjóinn kom. Hvernig svo rásirnar enda sést ekki. Í Litluborgum eru gjall-gervigígir og hraunborgir hlið við hlið. Næsta ljóst er að það sem veldur því að hraunborgir, súlurnar, stromparnir, eða hvað sem maður vill nefna það, standa eftir þegar hrauntjörn tæmist eða í henni lækkar er að hraunið hefur náð að kólna nægilega mikið kringum lóðréttar gufurásir gegnum hraunmassann til þess að þær stóðu eftir þegar tjörnin tæmdist.“

Hvernig myndast Gervigígar?

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum.

„Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig:
Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).

Litluborgir

Litluborgir og gervigígarnir.

Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.
RauðhólarGervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. En verði bara nokkrar sprengingar í þeim mynda þeir gjarnan hóla án gígskála. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn. 3.-4. tbl. 01.06.1993, Hraunborgir og gervigígar, Jón Jónsson og Dagur Jónsson, bls. 145-154.
-https://skrif.hi.is/hsh12014/17-2/

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Litluborgir

Í nágrenni Helgafells, sem í dag er orðið aðdráttarafl fyrir göngufólk í auknum mæli, er fjölmargt að skoða, s.s. Kaldárbotna, Helgadal, Valaból, Valahnúka, Húsfell, Litluborgir og Gvendarselshæðargígaröðina, svo eitthvað sé nefnt. Flest göngufólkið virðist þó hafa það að markmiði að ganga á fellið, njóta útsýnisins og þramma síðan umhugsunarlaust til baka. Þó eru þeir/þau til er vilja gefa sér tíma og njóta njóta allra dásemdanna, sem fellið og umhverfi þess hefur upp á bjóða…

-Kaldárbotnar

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar.

Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.

KaldárbotnarNeysluvatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins.

Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri.
Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar.

Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aítur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Sjá meira um Kaldárbotna HÉR  og HÉR.

-Vatnsveitan

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Misgengið í Helgadal – Búrfell fjærGráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.

Lækjarbotnar

Inntakið í Lækjarbotnum.

„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“

Sjá meira um Vatnsveituna úr Kaldárbotnum HÉR og HÉR.

-Helgadalur

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Helgadalur ofan við Kaldársel var lengi vinsæll staður fyrir skátamót. Strax árið 1938 héldu Hraunbúar Vormót sitt þar en fyrsta Vormótið var haldið í Kaldárseli árið áður.

Helgadalur

Helgadalur – skátamót.

Kaldársel var einnig vinsæll útilegustaðir og komu skátar t.d. úr Reykjavík oft þangað, ekki síst skátar sr. Friðriks Friðrikssonar í Væringjum.

Síðasta Vormót Hraunbúa var haldið í Helgadal árið 1963. Var svæðið þá skilgreint sem vatnsverndarsvæði og síðar lokað af. Bæjaryfirvöld virðast, í seinni tíð, vera meira annt um að loka af svæðinu en að bæta aðgengi að því.

Göngufólk gengur gjarnan um Helgadal á leið í Valaból – eftir gömlu Selvogsgötunni. Þegar komið er niður í dalinn, þar sem vatnsverndargirðingunni sleppir, má sjá inn í dalinn til hægri; fallega tjörn umlukta runnagróðri og misgengisvegg með mosavaxna Kaldárhnúka í bakgrunni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið er í Helgadal sést vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, í ofanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þennan stað, og fór eg þangað í sumar…

Sjá meira um Helgadal og Helgardalshella HÉR, HÉR og HÉR.

-Valaból

Valaból

Valaból.

Þegar við erum vel hálfnuð með gönguna komum við að trjálundi nokkrum, þokkalega stórum. Er það Valaból. Hefur það stundum verið nefnt fyrsta farfuglaheimili okkar Íslendingar. Farfuglar hófu þarna uppbyggingu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var reyndar staðurinn kallaður Músarhellir. Þar var hellisskúti sem Farfuglar mokuðu út úr. Þeir girtu svo af svæðið og hófu þar ræktun með þessum líka góða árangri. Í dag er bólið orðið af fallegum gróðurreit í annars gróðursnauðu umhverfi.

Sjá meira um Valaból HÉR.

-Valahnúkar

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“

Sjá meira um tröllin á Valahnúkum HÉR.

-Litluborgir

Litluborgir

Litluborgir.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Litluborgir

Litluborgir – Gervigígur.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Sjá meira um Litluborgir HÉR.

-Helgafell

Helgafell

Helgafell.

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Ýmsar leiðir liggja um Helgafell. Auðveldasta uppgangan er að norðvestanverðu. Efst á vestanverðu fellinu er móbergskletturinn „Riddari“ og neðan hans til suðvesturs er klettaborg; „Kastali“.
Hugsanlega er nafnið „Riddarinn“ tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.

Helgafell

Helgafell – krossinn.

„Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.

Sjá meira um Helgafell HÉR.

-Gvendaselshæðargígar

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs. Gvendarsel er í ofanverðum Bakhlíðum.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
Gatið svonefnda í suðvestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Þar er niðurgönguleið, ef varlega er farið.

Sjá meira um Gvendarselshæðargíga HÉR.

-Kaldársel

Kaldársel

Kaldársel.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur Daniels Bruun í lok 19. aldar.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir Garðapresta við Kaldá. Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

-Kaldárhraun

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 ha.

Sjá meira um hraunin í kringum Helgafell HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://vatnsidnadur.net/2019/09/13/kaldarbotnar-vatnsbol-hafnarfjardar/
-https://www.hafnarfjordur.is/media/uppland/GreinargerdKaldarselKaldarbotnarGjarnar.pdf
-https://timarit.is/page/4262872?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/kald%C3%A1rbotnar
-https://www.fjardarfrettir.is/ljosmyndir/thegar-skatamot-voru-haldin-helgadal
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/13-valahnukar-troll/

Litluborgir

Hraunmyndanir í Litluborgum.

Tjörvaskjól

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ og í „Örnefnalýsingu fyrir Straum; Gísli Sigurðsson“ er getið um „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól„.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

„Vestur frá þýskubúð og sunnan undir klöpp eru „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól“…. hvort tveggja er hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýskubúð.“

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Skjólið er skammt (20m) vestur af gerðinu og rétt sunnan við hleðslu undir girðingu (landamerki Óttarsstaða og Straums“. Í hrauni þar sem langar klappir reynast skeifulaga skjól með opið til suð vesturs.“ „Skjólveggur hlaðinn þvert fyrir og hellisskúta. Veggur hæstur…

„Vestur frá Þýzkubúð er sunnan undir hárri klöpp Tjörvagerði. Þar er Tjörvabyrgi og Tjörvaskjól, hvort tveggja hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýzkubúð“.

Svæðið umleikis Straum og nágrenni er fyllilega gönguferðarinnar virði…

Heimild:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð.
-Örnefnalýsing fyrir Straum, Gísli Sigurðsson.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Hafnarfjörður

Í Morgunblaðinu 1975 er grein; „Fjörðurinn fyrir fjölda ára„, þar sem birtur er stuttur texti um Brookless í bænum með meðfylgjandi áhugaverðum myndum úr bænum frá því um 1915:

Hafnarfjörður„Þessar gömlu myndir frá Hafnarfirði eru úr merkilegu ljósmyndasafni, sem brezki togaraútgerðarmaðurinn og saltfiskframleiðandinn Bookless tók í Hafnarfirði. Flestar myndanna í safninu eru teknar á fyrstu árum aldarinnar.
Bookless hóf fiskkaup hér og saltfiskverkun í Hafnarfirði árið 1909 eða 10. Bookless Brothers hét fyrirtækið en það varð gjaldþrota 1919. Hægri hönd Bookless var Þórarinn Egilson í Hafnarfirði.
HafnarfjörðurStöðina keypti svo árið 1924 annað brezkt útgerðarfyrirtæki, Heliyers Brothers. Þeir ráku stöðina til ársloka 1929. Var Geir Zoega framkvæmdastjóri Hellyers-bræðra meðan þeir ráku stöðina. Myndasafnið sem hér um ræðir, sendi ekkja Bookless á sínum tíma til Hellyers, en frá Hellyersbræðrum fékk Geir myndasafnið sent. Safnið varð fyrir nokkrum skemmdum í heimsstyrjöldinni síðustu í loftárás á Hull er myndasafnið skemmdist af vatni í slökkvistarfinu.“Hafnarfjörður

Heimild:
-Morgunblaðið, 70. tbl. 27.03.1975, Fjörðurinn fyrir fjölda ára, bls. 10.
Hafnarfjörður