Tag Archive for: Hafnarfjörður

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Krýsuvík

Í Lögbergi 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson um „Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar“:

Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið fyrrum.

Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn Óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.

Heil kirkjusókn í eyði

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna allfjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík.
Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.

Bjó einn í kirkjunni

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.

Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha.
Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlagið mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krísuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi.

Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt: í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. Í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.

Skilyrði til búskapar góð

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.

Miklar framkvæmdir

Krýsuvík

Krýsuvík.

Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugað ar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli.
Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafin er bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?

Krýsuvík

Krýsuvík – Fjósið – HH.

— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má að nú heita nær því fullgert. Á s.l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.
Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp.
Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzlu vatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s.l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar.

Framkvæmdir á þessu ári

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið í dag, 2021. Framkvæmdin var pólitískt bitbein Alþýðuflokksmanna og Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá upphafi.  Rústirnar eru ágætt dæmi um togstreytu án tilgangs…

Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, vot heysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949.
Krýsuvík
En svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.

Heimild:
-Lögberg, 21. tbl. 20.05.1948, Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar – viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdarstjóra, bls. 7.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Þjóðviljanum 1955 skrifar Elías Guðmundsson „Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt“:

Skúli Árnason

„Fyrrverandi héraðslæknis, Skúla Árnasonar, er lézt að heimili dóttur sinnar og tengdasonar hér í bænum 17. sept. sl., var getið í blöðum bæjarins um og eftir útför hans í stuttum eftirmælagreinum, skráðum af menntamönnum er þekktu hann persónulega. Í greinum þessum er Skúla lýst sem lærdómsmanni og lækni, einnig að nokkru sem bónda og dýravini, er fór sömu mjúku líknarhöndunum um manninn og málleysingjann, lá aldrei á liði sínu en gerði ætíð sitt bezta. Af því að svo undarlega vill nú til að engin af þessum Skúlagreinum á neitt skylt við venjulegt líkræðulof né eftirmælaöfgar, eins og öllum kunnugum er ljóst þá hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvað þar var, sem gerði Skúla þannig. Svona góðan, svona sannan og raunverulega mikinn mann. Ég fullyrði að það var ekki presturinn sem kenndi honum undir skóla, ekki menntaskólinn hér í Reykjavík né læknaskólinn og ekki heldur sú stofnun er hann hlaut framhaldskennslu í erlendis og hef ég þó ekki neina löngun tii að kasta hinni minnstu rýrð á neinn af þessum fjórum framangreindu aðilum. Heiðurinn og þökkina fyrir það hvernig Skúli var ber engum öðrum en foreldrum hans og heimili þeirra. Þar dvaldi hann öll sín bernsku- og uppvaxtarár. Þarna mótaðist maðurinn.
Krýsuvík
Hús og heimili foreldranna voru meðal annars hans búnaðarskóli, eins og verkin sönnuðu síðar meir og sýndu ríkulega ávexti af.
Þegar litið er um öxl 60-80 ár aftur í tímann, til bernsku-, unglings- og námsára Skúla læknis er það tvennt sem ekki verður hjá komizt að athuga, en það er hinn stórfenglegi búferlaflutningur sýslumannsins Árna Gíslasonar, föður Skúla, frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu í Skaftafellssýslu, til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu, og svo hið dæmafáa illæri, fjárfellir og þar af leiðandi hvers konar hörmungar er þá gengu yfir landið árum saman.

Klofningar

Klofningar í Krýsuvíkurhrauni.

Búferlaflutningur Árna Gíslasonar frá Klaustri að Krýsuvík fór fram á tveim árum, 1879 og 1880. Fyrra vorið, þ.e. 1879, fluttist nokkuð af heimilisfólkinu, aflaði heyja og fleira um sumarið, en svo um haustið var féð rekið, 1265 fjár, á stað að austan en eitthvað týndi það nú tölunni á leiðinni sem von var til, því margar og illar eru torfærur á þeirri löngu leið. Þá voru ekki brýrnar komnar. Næsta vor, þ.e. 1880, fluttist svo það sem eftir var af fólkinu, stórgripir allir og búslóð. Síðastur frá Klaustri og í einskonar sérfylkingu fór sýslumaður sjálfur ásamt þáverandi síðari konu sinni, Elínu Árnadóttur ættaðri frá Dyrhólum í Mýrdal, og þeim tveim börnum þeirra er til fullorðinsára komust, Ragnheiði og Skúla, en þau voru bæði fermd saman í Prestbakkakirkju á Síðu rétt áður en lagt var af stað að austan.

Krýsuvík

Krýsuvík, Arnarfell t.v. og Bæjarfell t.h.

Þáttur nýfermda drengsins, Skúla, í þessu ferðalagi var sá að hann rak stóðhross föður síns, eitthvað innan við tuttugu að tölu, flest ung. Þó voru í þessum hópi tvær nokkuð gamlar hryssur, báðar fylfullar og verður þeirra að nokkru getið síðar. Þrátt fyrir dugnað sinn og kappgirni virðist roskni sýslumaðurinn hafa tekið þetta ferðalag vestur um Suðurlandsundirlendið fremur rólega. Gistingastaði hans alla hirði ég ekki að telja, en skal þó geta þriggja þeirra, en á þeim hverjum um sig sat hann einn dag um kyrt, hvíldi fólk sitt og hesta og gisti tvær nætur.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Á vali þessara gististaða má sjá það að hann hefur einkum gist frændur og venzlafólk, en ekki valið sérstaklega úr þá staði er mesta höfðu björg í búi.
Þeir þrír staðir er Árni dvaldi á daglangt á vesturleiðinni voru þessir: Dyrhólar í Mýrdal, æskuheimili frú Elínar, Breiðabólstaður í Fljótshlíð, hjá séra Skúla bróður sínum, en þriðji og síðasti gististaðurinn var kot eitt vestarlega og neðan til í Flóanum, í grennd við Eyrarbakka, nafn á því man ég ekki, en þar bjó frændkona hans fátæk. Í þeim litla flutningi er Árni hafði með sér í þessari ferð, er var lítið annað en nauðsynlegt nesti var kistill einn er hann geymdi í peninga sína. Kistilinn, sem vitanlega var læstur, opnaði hann einu sinni í ferðinni, en það var áður en hann fór úr kotinu frá fátæku frændkonunni. Ekki opnaði hann kistilinn svo mikið að neinn sæi ofan í hann, en þó nógu mikið til þess að hann kom hægri hendi sinni inn undir lokið, en undan lokinu kom svo hnefinn fullur af silfurpeningum, þeim er þá giltu hér sem gjaldmiðill. Þetta lagði hann á borðið hjá fátæku frænkunni að skilnaði, mælt í hnefum en ekki talið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg ofan Klofninga.

Annarri fátækri frændkonu, systurdóttur sinni, þarna í Eyrarbakkanágrenninu, þurfti Árni að líta eftir um leið og hann fór vestur um. Gjafir til hennar veit ég ekki um, en af henni tók hann sex ára gamlan dreng með sér til Krýsuvíkur, ól hann upp og kom til manns. Piltur þessi var Stefán Stefánsson og var á fullorðinsárum oft nefndur túlkur. Á þessari löngu ferð Árna Gíslasonar og fjölskyldu hans, var lokaáfanginn að sjálfsögðu hin 16 km langa bæjarleið, sem er á milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Að sjálfsögðu eru landamerkin milli þessara jarða þarna á milli bæjanna og eru þau um leið sýslumörkin á milli Árnessýslu að austan en Gullbringusýslu að vestan.
Þegar komið er spölkorn vestur fyrir sýslumörkin, þ.e. inn í Krýsuvíkurland, þá er fyrsta verulega gróna landið á þeirri leið svonefndir Klofningar, en þar fækkaði tveimur í hrossarekstrinum hjá Árna. Fylfullu hryssurnar voru orðnar æði þunglamalegar svo hann skildi þær eftir þar í Klofningunum, næsta dag fór hann svo og vitjaði þeirra, var þá sitt folaldið komið hjá hvorri.
Þegar nú að þarna var komið til hins fyrirheitna lands, Krýsuvíkur, virðist svo sem Árni hafi fundið einhverja þörf hjá sér til þess að beina huga konu sinna og barna að öðru en heimilisástæðunum og búskaparafkomunni og er mér sagt að hann hafi þá kastað fram eftirfarandi stöku: Vorið blíða lífgar lýð lengist óðum dagur. Gyllir fríða Geitarhlíð geislinn sólar fagur.
Geitarhlíð heitir fjall eitt fagurt, skammt til austurs frá Krýsuvík, sem hér er um kveðið. Hvort vísan er ort fyrsta kvöld Árna í Krýsuvík, veit ég ekki með vissu, en hitt er víst að hún er ort á vorkvöldi í Krýsuvík og að Árni er höfundurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.

Árni Gíslason var skemmtilegur tækifærisvísnahöfundur. Stökur hans oft svipmiklar. Kímnigáfu var Árni gæddur og henni góðri. Þann eiginleika tók Skúli í arf. Báðir fóru þeir feðgar vel með skophneigð sína.
Það er hverjum manni auðskilið mál að búferlaflutningur Árna Gíslasonar hlaut óhjákvæmilega að draga á eftir sér marga illa dilka. Fyrst og fremst það að flytja mikinn fjölda sauðfjár úr góðu sauðfjárplássi í annað miklu lakara, en það hefur engum manni tekizt án þess að verða fyrir stórtjóni, þegar svo þar ofan á bætist það ólán að þurfa fyrstu árin að mæta einhverjum þeim verstu harðinda- og fellisvetrum sem komið hafa. Svo var nú bráðapestin á einu leitinu, mjög mögnuð orðin hér um suðurkjálkann þá og hið óhagvana fé að austan mjög næmt fyrir henni. Þá má geta tófubitvargsins er þá var svo magnaður hér um Reykjanesskagann að slíks eru engin dæmi. Fyrsta vorið sem Árni átti fé sitt í Krýsuvík fundust tíu tófugreni í Krýsuvíkurlandareign og er þó ekki trúlegt að öll kurl hafi komið til grafar, svo margar eru holurnar í Krýsuvíkurhraununum…
Þegar við Skúli heitinn læknir ræddum um þessa tíma og þá erfiðleika er við var að stríða, heyrðist mér ævinlega á honum að hann hefði talið tófupláguna versta. Til skilningsauka á þessum málum vil ég greina hér frá tveimur atvikum er Skúli sagði mér frá persónulegum viðskiptum sínum við tófur.

Klofningar

Klofningar – greni.

Þetta umtalaða vor er fjölskyldan flutti til Krýsuvíkur, skeði það að áliðnu vori að Skúli var að smala í áðurnefndum Klofningum, en er leið hans lá yfir laut eina grasigróna verður hann var tófuyrðlinga nokkurra í grasinu þar í lautinni. Það varð fangaráð Skúla að hann fór úr utanyfirbuxunum, batt með snærisspottum utanum skálmarnar neðst, tíndi svo yrðlingana, sem reyndust vera 9 talsins, upp í buxurnar og labbaði svo með feng þennan á bakinu heim að Krýsuvík.
Þegar Skúli kemur í hlaðið mætir hann Guðmundi Hannessyni bónda á Ísólfsskála, er þá var að koma neðan af svokallaðri Skriðu, frá því að vinna gren þar.
Guðmundur þessi var orðlögð ágætisskytta, en er hann hafði heyrt sögu Skúla úr Klofningunum, varð hann æfareiður honum fyrir það að hafa tekið yrðlingana. Taldi Guðmundur það tiltæki Skúla geta valdið því að hann næði ekki tófunni. En hvað um það, þrátt fyrir reiði Guðmundar leggja þeir báðir af stað austur eins og leið liggur, allt þar til er þeir finna hina áður umgetnu laut, þar sem Skúli fann yrðlingana. En er þeir félagar höfðu hreiðrað um sig og legið um klukkutíma í hraungjótu einni að austanverðu við lautina, sjá þeir allt í einu tvær tófur á hraunbrúninni vestan lautarinnar, en þá varð Guðmundi að orði: „Þurftu þær nú að koma báðar í einu, bölvaðar“. Lét hann samt fjúka þarna á þær og báðar lágu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Annað atvik, sem ég vil geta gerðist 6-7 árum síðar; var Skúli þá kominn í Latínuskólann en dvaldi að venju heima í Krýsuvík í jólafríinu.
Var það þá venja hans utan sjálfra hátíðisdaganna, þegar veður leyfði það, að ganga með byssu um Krýsuvíkurland, skjóta rjúpur og eitra fyrir tófuna. Í einum slíkum leiðangri var það eitt sinn að hann rakst á för eftir eina kind rétt hjá Kleifarvatni. Snjóföl var svo að vel sáust förin og rakti Skúli þau vestur með Sveifluhálsinum sunnanverðum, allt vestur í svonefnda Seltóu þar sér hann kindina er reyndist þá vera einn af sauðum föður hans. En þannig var þá ástatt með þennan sauð að tófa ein hafði að miklu leyti hringað sig utan um hálsinn á honum og var að sjúga úr honum blóðið. Að hrista tófuna af sér hafði sauðnum ekki tekizt. Þegar nú að Skúli kemur þarna á vettvang þá verður það úrræði hans að skjóta tófuna þarna á hálsinum á sauðnum og þá auðvitað kindina um leið. Útigenginn, ljónstyggur fjallasauðurinn kunni ekki betra ráð að þýðast.

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

Sumarið 1894 er ég var 10 ára gamall dvaldi ég í Krýsuvík, en þá um vorið lauk Skúli læknanámi og kom vitanlega að þyí loknu heim að Krýsuvík. Dagur einn snemma í ágústmánuði er mér minnisstæður frá því sumri. Það var verið að breiða nokkuð hrakta há á svonefndum Ræningjahóli í sunnanverðu túninu um tíuleytið árdegis, sást þá koma ríðandi maður á rauðum hesti, allmikill í sæti, að austan. Þegar til kom þá reyndist þetta að vera hinn góðkunni myndarbóndi Þórður á Vogsósum og hafði hann með að fara bréf frá Magnúsi Stephensen landshöfðingja, hvar Skúli var beðinn um að taka að sér þjónustu læknisembættis í Grímsneshéraði í Árnessýslu. Við þessari beiðni varð Skúli og lagði af stað austur að tveim dögum liðnum. Ég kann naumast að lýsa því hver áhrif þetta „Skúla-mál“ hafði á Krýsuvíkurheimilið. Allir söknuðu Skúla og hryggðust við burtför hans, en glöddust þó af því hve fljótt hann fékk þarna álitlegt embætti. Söknuður þess að missa Skúla var heimilisfólkinu bættur með því að lesa því að minnsta kosti kafla úr bréfum hans, er bárust að austan, ég held með hverri ferð sem féll.
Krýsuvík 1998Þegar þess er gætt að frú Elín Árnadóttir, móðir Skúla, var ein sú allra bezta kona sem ég hefi þekkt, og Árni Gíslason, faðir hans, sá maður sem hann var og ég hefi lítilsháttar reynt að lýsa hér, þegar þess er ennfremur gætt að Skúli erfði í ríkum mæli alla beztu kosti beggja foreldranna, þá hlaut vel að fara.
Ég hefi engan gamlan mann þekkt sem hefur átt kost á að vera umvafinn jafn mörgum og ástríkum kærleiksföðmum og Skúli læknir.“ – Elías Guðmundsson.

Í Íslenskum æviskrám segir um Árna Gíslason; sýslumaður í Krýsuvík, 1820–1898, sonur Gísla í Vesturhópshólum og bróðir sr. Skúla á Breiðabólstað. Sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 5. tbl. 08.01.1955, Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt, – Elías Guðmundsson, bls. 7 og 8.
-Ísl. æviskrár I, bls. 44.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Helgadalur

Í Norðanfara 1880 er fjallað um stofnun „Hið íslenska fornleifafjelags„:

Norðanfari
„Næstliðið sumar stofnuðu nokkrir hinna helztu embættismanna í Reykjavík nýtt fjelag er nefnist «Hið íslenzka fornleifafjelag», og barst oss með síðasta pósti næstl. ár boðsbrjef og lög nefnds fjelags frá formanni þess herra landfógeta Árna Thorsteinsson til birtingar í blaði voru. Vjer þurfum ekki að vera margorðir um fjelag þetta, því vjer vonum og teljum víst, að landar vorir muni jafnt sjá nauðsyn sem nytsemi pess, og ætlum vjer að þeir sem unna frægðarljóma fornaldarinnar og framfór og menntun binnar yfirstandandi og komanda tíðar, muni bezt geta sýnt áhuga sinn með því að ganga í fjelagið senda því forngripi og styrkja pað á annan hátt. Eitst. Boðsbrjef.
Áhugi Íslendinga á að viðhalda fornleifum og safna þeim hefir hingað til eigi verið jafnmikill og kapp það, sem um margar aldir hefir verið lagt á, að varðveita sögur vorar, mál og þjóðerni, og er þó ljóst, að engin skýring yfir fornsögur vorar er betri, en þau þögulu vitni, er felast fá fet undir yfirborði jarðarinnar.

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Margar af fornleifum vorum hafa lógazt og farið forgörðum. Fjöldi þeirra hefir komizt í hendur útlendra manna, sem eigi hafa skeytt þeim nema til stundargamans, og eigi skilið þýðing þeirra fyrir oss. Það eru að eins sumar þeirra, er hafa lent á útlendum söfnum, en þó hvergi svo margar, að þær geti getið nokkra ljósa eða samfasta hugmyndum menntunarástand lands vors á ýmsum tímum.
Síðan hið íslenzka forngripasafn var stofnað, hefir það að vísu borgið mörgum íslenzkum fornleifum, sem annars hefði glatazt eða tvístrazt, en mikið vantar þó á, að það, einkum sökum fjeskorts geti verndað svo íslenzkar fornleifar sem skyldi, og er því ljóst að brýn þörf er á, að landsmenm leggi sig enn betur fram, en hingað til hefir verið um það að vernda fornleifar vorar, þess vegna hafa nálega 40 menn gengið í fjelag, „sem nefnist hið íslenzka fornleifafjelag, og er það fyrirætlan fjelagsins að starfa að því af öllu megni, að Forngripasafn vort geti auðgast þannig af fornmenjum, að menn með því geti rakið lífsferil þjóðarinnar um hinar liðnu aldir. Einkum mun fjelagið verja kröptum sínum til að leita að fornleifum bæði í jörð og á, vernda þær, lýsa þeim og gjöra þær bæði þjóð vorri og erlendum fræðimönnum sem kunnastar.
Áður hefir það opt borið við að menn hafa grafið eptir feim menjum í gróðahug, en það kemur sjaldan fyrir, að slíkur gröptur svari kostnaði, heldur glatast þá jafnan sá fróðleikur, sem ætla má að fengizt hefði, ef rjett hefði verið farið að. Fjelagið mun því eptir efnum styrkja að því, að við slíkar rannsóknir sje farið eptir vísindalegum reglum, og grafið sje með nægilegu eptirliti, til þess að þjóð vor geti haft nokkra trygging fyrir, að svo rjett sje að farið, sem bezt má verða. Sje því að einhver viti til fornra mannvirkja sem þurfa friðunar, uppgraptar eða vísindalegrar rannsóknar, vonast fjelagið eptir að menn leiti sín, og mun það þá veita fullting sitt. Það er áform fjelagsins að láta rannsaka þingvöll, fyrst og fremst Lögberg, og mun rannsóknum þessum þar eptir verða framhaldið víðar.
Fjelagið leyfir, sjer því, að skora á alla á menn, innlenda og útlenda, er unna hinum fornu fræðum vorum, að ganga í fjelagið, annaðhvort með tveggja króna tillagi á ári hverju, eða 25 króna tillagi í eitt skipti. Svo eru menn og beðnir, að styrkja fjelagið í öllum starfa þess, þar á meðal með því að vísa á fornleifar og menjar frá fyrri öldum, senda þær til ráðstöfunar á forngripasafnið, láta skýrslur í tje um fornleifar, sem enn kunna að vera lítt þekktar, eða um gripi, sem æskilegt er að fá vitneskju um.“
Stjórn fornleifafjelagsins, 27. nóvbr. 1879.
Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg.
formaður. Björn Magnúss. Ólsen.
Jón Árnason. Jón þorkelsson.
Magnús Stephensen, Sigurður Vigfússon,
fjehirðir, varaformaður.
Hins íslenzka fornleifafjelags. – Indriði Einarsson.

Heimild:
-Norðanfari, 11.-12. tbl. 24.02.1880 – Hið íslenska fornleifafjelag, bls, 21.

Helgadalur

Helgadalur – minjar.

Lónakot

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Þorbjarnarstöðum:

Þorbjarnarstaðir
HafnarfjörðurÞorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.

Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðarker.

Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.

Straumur

Straumur

Straumur – túbakort 1918.

Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.

Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.

Straumssel

Í Straumsseli.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“

Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf

Markhella

Markhella – áletrun.

Kaldársel

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Kaldárseli:

Kaldársel
KaldárselKaldársel var við Kaldá og var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi. Elsta heimildin um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703: „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“10 Í ferðabók sinni sagði Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur í görðum hafði 1791 og líklega er um Kaldársel að ræða: „Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“
KaldárselÍ lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtsson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir, kona hans, voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma sem þau bjuggu á Hvaleyri og höfðu þau sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Selfarir lögðust niður í Kaldárseli eftir að Jón lést árið 1866.
Næst var getið Kaldársels árið 1867 og var þá heilsárs byggð þar. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Líklegast bjó Jón í Kaldárseli í tvö ár og var hann skrifaður þurrabúðarmaður á meðan. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi,en hann var ókvæntur og barnlaus, með honum var ráðskona og tökubarn. Þorsteinn bjó í Kaldárseli í tíu ár og voru heimilismenn allt frá honum einum upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé en einnig hafði hann eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því það var nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags 1866 og við andlát hans lauk fastri búsetu þar og voru þau mannvirki sem enn stóðu í Kaldárseli líklega eftir hann. Ólafur Þorvaldsson lýsti húsakostinum í Kaldárseli í bók sinni Áður en fífan fýkur: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“
Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 og lýsti hann rústunum: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir […] einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hésthús en ekkert fjós.“

Kaldársel

Kaldársel m.t.t. staðsetningar fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Skömmu eftir andlát Þorsteins voru öll húsin í Kaldárseli rifin fyrir utan baðstofuna en hún stóð þar til um aldamótin 1900 og var notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga sem áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Haustleitarmenn Grindavíkurhrepps nýttu sér einnig baðstofuna sem og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur. Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli og var það ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson, sem gerði þá tilraun. Hann byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu og byggði þar fjárhús. Hann hafði lömbin á húsi en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Tilraun Kristmundar entist þó einungis í einn vetur en löng ganga milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og að honum bauðst vist hjá bóndanum á Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að búskapurinn entist ekki lengur en raun ber vitni. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1912 keypti Hafnarfjörður mikið land af Garðakirkju og var Kaldársel þar á meðal. Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918.
Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1.5km á lengd. Vatnið fann sér þaðan leiða neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga. Árin 1949 – 1953 var ráðist í umbætur á vatnsleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna.17 Börnin voru flest á aldrinum 8 – 10 ára. Í Vísi 28. júlí 1929 lýsti Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Hann lýsti meðal annars húsakynnum K.F.U.M.: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.“

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Leifar Gamla Kaldárssels staðsett framan við nýrri bygginuna.

K.F.U.M. og K. er enn með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbjörns.
Tóftir Kaldársels standa nú um tæplega 10m vestan við hús K.F.U.M. og K. og er heimreiðin að húsinu alveg upp við þær. Ekki má ráðast í nokkurskonar framkvæmdir sem hafa jarðrask í för með sér án leyfist Minjastofnunar Íslands og í raun ætti að fara með einstakri varúð við allar framkvæmdir við Kaldársel en minjarnar eru friðlýstar og eru þess vegna 100 metra friðhelgað svæði í kringum sig. Fleiri friðlýstar minjar eru á svæðinu, t.a.m. fjárborgarrústir sem liggja á hæð um 280m NVN við Kaldársel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Töluvert af minjum voru skráðar við Hvaleyrarvatn og tengjast þær flestar seljabúskapi á svæðinu. Þar af er helst að nefna Hvaleyrarsel en það stóð þar sem nú er frekar hár grasivaxinn hóll við sunnanvert vatnið og tvístrast göngustígurinn sem liggur um vatnið og liggur sitthvorumegin við hólinn. Þar mótaði fyrir að minnsta kosti þrem tóftum. Miðju tóftin hefur verið aðal húsið í þyrpingunni og hin tvö mögulega verið búr og skemma.
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel20 en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar. Seljabúskapur í Hvaleyrarseli lagðist niður í kringum 1870 og segir sagan að það hafi gerst eftir að selstúlkan fannst látin við vatnið og talið var að nykur (2662-111) hafði orðið henni að bana: „Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtrisleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Um 200 metrum austan við Hvaleyrarsel á grasivöxnum bakka í skógarjaðrinum má sjá móta fyrir ógreinilegum tóftum Ássels og rúmlega 450 metrum norð-austan við þær inn á milli trjánna við göngustíg er að finna tóftir Jófríðarstaðasels. Eftir að Hvaleyri hætti seljabúskap við Hvaleyrarvatn skiptu Ás og Jófríðarstaðir með sér landinu við vatnið.

Undirhlíðar

Breiðdalur

Breiðdalur.

Minna var um minjar við Undirhlíðar, enda svæðið að mestu úfið hraun og langt frá byggð. Þó er töluvert um leiðir og stíga á svæðinu. Tvennar þjóðleiðir liggja sitthvorumegin við hlíðarnar, þ.e. Undirhlíðavegur við norðurhliðina og Dalaleið við suðurhlíðina, báðar ganga þær frá Krýsuvík að Kaldárseli. Undirhlíðarvegur var sá vegur sem var mest farinn þegar farið var með hesta til eða frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Frá Kaldárseli „[…] lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. […]“

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleiðin var sjaldnar farin, þá helst að vetri til, en var samt stysta og beinasta leiðin. Hún var þó talin sú hægasta og gat verið hættuleg: „Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en vetrarsólhvörf. […] Á þessari leið gátu ísar verið ótryggðir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, – en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 – 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. […] Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið – Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. […] En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndast þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2-4m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hesta nái niðri, ef ofan í lenda.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Í sprunginni hæð, sem nefnist Gvendarselshæð, sem gengur í norðaustur út frá Undirhlíðum í átt að Helgafelli er að finna leifar Gvendarsels en þar var haft í seli á 19. öld. Sagt var að þar hafi verið svo þykkur rjómi á trogum að haldið hafi uppi vænni silfurskeið.26 Þar eru leifar fjögurra mannvirka, þrír stekkir og ein tóft sem var túlkuð sem búr. Ekkert íveruhús fannst á staðnum en selið er, eins og áður segir, í og við sprungur í hlíðinni og getur vel verið að þær hafi verið nýttar og þá mögulega einungis tjaldað yfir eða í þeim.
Sunnan við Undirhlíðar liggur Skúlatúnshraun, nefnt eftir um 1.3 hektara grashól sem stendur upp úr hrauninu. Árið 1902 heyrði Brynjúlfur Jónsson sagnir af Skúlatúni og taldi víst að þar væri búið að draga saman nafnið Skúlastaðatún. Brynjúlfur var búinn að vera að leita að bæjarstæði Skúlastaða en Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, á að hafa numið land á milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og á að hafa búið á Skúlastöðum. Fannst Brynjólfi líklegt að Skúlastaðir hafi staðið þarna og að nafnið Skúlatún hafi komið til eftir að hraun flæddi yfir bæinn og landareignina alla. Hann kom til Skúlatúns árið 1907: „[…]Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti ég trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleyfum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmeginn þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvesta-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upphaflega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum.

Gvendarselshæð

Gvendarselshæð – stekkur.

Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér gefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið Skúlatún, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“
Brynjúlfur vissi þó ekki að Skúlatúnshraun rann um 900 árum áður en talið er að land var numið og auk þess er staðsetninging ósennileg, ef Ásbjörn á að hafa numið land á Álftanesi öllu væri mun líklegra að bærinn hafi staðið við sjó og þar sem vatnsból væri gott. Engin ummerki um mannvistarleifar fundust við vettvangsathugun. Staðsetning Skúlastaða er þá enn óþekkt en ein kenningin er að landnámsbærinn hafi staðið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Kaldársel. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-IX-Kalda%CC%81rsel-og-na%CC%81grenni.pdf

Kaldárssel

Kaldárssel – fjárhellar.

Stekkur

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Áslandi:

Ás
HafnarfjörðurElsta heimild um Ás er svokallað Gilzbréf en það var ritað þann 4. ágúst 1506 í Ási og var vitnisburður um að Eiríkr Þorsteinsson hafi selt Þórarni Jónssyni jörðina Gil í Borgarþingum í Skagafirði fyrir þrjá tigi hundraða. Næst var sagt frá Ási í fógetareikningum frá 1553 og þar sagði að Tómas nokkur bóndi hafi greitt í skatt átta álnir vaðmála.
Árið 1585 gerðist það að unglingspiltur, Hjálmar Sveinsson, stal tveimur sauðum frá Ási. Var hann dæmdur á Kópavogsþingi til húðstrýkingar „svo sem hann þola mátti“. Var honum svo haldið á lífi í sjö daga til að fá að „lifa við minningu þessarar húðstrýkingar“ og var svo hálshöggvinn.
Næst var sagt frá Ási í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, þá var ábúandinn Þórður Jónsson. Þar sagði að jarðadýrleiki á kóngsins parti hafi verið óviss en að hlutur Jóns Péturssonar á Hliði lögréttumanns hafi líklega verið iii hundruð og lxxx álnir, var þá talið líklegt að jörðin hafi í heildina verið xii hundruð og þá hafi kóngsparturinn verið xiii hundruð og xl álnir, þó var tekið fram að tíund bóndans hafi fallið niður vegna örðugra hreppamannaflutninga yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Jörðin var að mestu í konungseign fyrir utan hlut Jóns Péturssonar. Leigukúgildi af jörðinni voru jöfn á milli þessara hluta, eitt á hvorn hlut, og greiddist leigan af konungshlutanum í smjöri til Bessastaða en af bóndahlutanum ýmist í smjöri eða fiski til bóndans eða í kaupsstað.
Kvaðir af kóngshlutanum voru mannslán um vertíð og einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða. Einnig var nýlega byrjað að heimta heyhest frá Ási til Bessastaða til þess að fóðra kvikfénaðinn sem var ætlaður til þess að fæða fálka sem seldir höfðu verið seldir úr landi og fóru með Hólmsskipi. Engar kvaðir voru á bóndahlutanum.

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Þegar Jarðabókin var skrifuð voru á Ási fjórar kýr, átta ær, einn tvívetra sauður og sjö veturgamlir, átta lömb og einn þrívetra foli. Þar gat fóðrast þrjár kýr og eitt ungnaut og heimilismenn voru fjórir. Jörðin átti þá selstöðu í eigin landi og voru hagar þar sæmilegir og vatnsból gott. Jörðin átti hrísrif í almenningi til kolagerðar og eldiviðar en notaði einnig lyngrif í eigin landi til eldiviðar og til þess að fæða fé í heyskorti. Torfrista og stunga var léleg og varla nothæf.
Jörðin var með skipsuppsátur í Ófriðarstaðalandi en það virðist ekki vera visst hvort hún fékk uppsátrið frítt eða gengt selstöðu Ófriðarstaða í landi Áss. Engar engjar fylgdu jörðinni en útigangur kvikfénaðs var sæmilegur og vatnsból brást sjaldan.
Gerð var úttekt á bæjarhúsum Áss árið 1769 en þá bjó á Ási Þórný Gísladóttir ekkja. Úttektin var gerð þann 2. maí 1769 af Jóni Jónssyni og Guðmundi Gíslasyni en Landfógeti mætti ekki né neinn á hans vegum, sem virðist hafa verið óvenjulegt.
Árið 1783 virðist að ástand húsa hafi versnað frá þessari úttekt og var álagið komið í 110 álnir.

As

Ás – túnakort 1918.

Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1842 minntist séra Árni Helgason á Ás í upptalningu á bæjunum í Garðaprestkalli og þá var Ás með tómthúsi (Stekkur). Þá sagði hann frá alfaravegum en sá syðsti upp í Krýsuvík lá upp frá Ási og hét Stórhöfðastígur, beygði hann suður með Undirhlíðum og yfir fjallið og hét þá Ketilsstígur.

Ás

Ás- loftmynd 1960.

Í Jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 169 og var hún þá alfarið í konungseign. Þá var dýrleiki jarðarinnar 12 hundruð, landskuldin 0.80, kúgildin tvö og einn ábúandi sem var leigjandi.

Ás

Ás – leifar fjóss.

Árin 1871 og 1872 kom upp miltisbrandur á Ási. Þann 16. og 17. október 1871 drápust þar snögglega tvær kýr og höfðu miltin í þessum kúm verið mjög stór og blóðhlaupin. Ekkert var þó gert í þessu fyrr en þriðja kúin drapst tæpum þrem vikum síðar og var þá dýralæknir kallaður til. Við krufningu kom fram að „blóðið var svart sem tjara og rann eigi saman; aptur af kúnni og úr nösum hennar hafði gengið blóð, rjett áður en hún drapst, lungun voru mjög sollin, miltið miklu stærra en vanalega, svart og meyrt; þarmarnir voru fullir af blóðkorgi, og að utan höfðu þeir marga blóðhlaupna bletti“. Daginn áður hafði dýralæknirinn krufið hest á Ófriðarstöðum
sem hafði sömu einkenni.

Ás

Ás – letursteinn.

Á túnakorti frá 1918 voru túnin við Ás sögð nálægt til helminga sléttuð og töldust 2,8 teigar, kálgarðar voru 670 fermetrar.
Ástjörn var friðuð árið 1978 til þess að vernda dýra- og jurtalíf á svæðinu og er umferð um svæðið óheimil á varptíma. Ástjörn og Ásfjall voru svo gerð að fólkvangi árið 1996.
Lítið er eftir af minjum á sjálfu bæjarstæði Áss, þar sjást nokkur veggjabrot af húsi sem reist var árið 1904 (2658-13), fjósið sem grafið er inn í bæjarhólinn og bæjarhóllinn sjálfur, en svæðið hefur verið lagt undir skógrækt og teljast þess vegna allar minjar innan skógræktarsvæðisins í mikilli hættu. Eitthvað af minjum er að finna utan skógræktarsvæðisins og er þá kannski helst að minnast á Ásbrunn og útihúsatóft, sem þó er illgreinanleg.

Stekkur

Stekkur

Stekkur – túnakort 1918.

Minna er til af heimildum um Stekk en þannig voru oft hlutskipti hjáleigna, þá sérstaklega þeim sem ekki voru í byggð lengi.
Stekkur var byggður í kringum 1830 og mun hafa hlotið nafn sitt af því að þarna á Ás hafa verið með stekk. Bærinn stóð þar sem nú er endi gatnanna Blikaás og Lóuás. Bæjarstæði Stekks var gróflega lýst í örnefnaskrá: „[…] Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.“

Ás - Stekkur

Stekkur – minjar neðan Stekks.

Jörðin var auglýst til leigu árið 1959 og þá var íbúðarhúsið sagt vera með 7 herbergi og að á jörðinni væri stórt hænsnahús. Stekkur var einnig um tíma miðstöð keðjubréfasvindls sem var mörgum til ama á árunum í kringum 1970.
Við byggingaframkvæmdir árið 2000 varð rask á minjum á og við bæjarstæði Stekks og voru t.d. leifar íbúðarhússins jafnaðar við jörðu.
Enn má þó sjá móta fyrir bæjarhólnum, matjurtagarði og kartöflukofa, túngörðum og útihúsatóftum á svæðinu.

Stekkur

Stekkur – loftmynd 1960.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar 2021 – Ásland. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf

Ás - Stekkur

Ás – stekkur við Hádegisskarð.

Setberg

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Setbergi:

Setberg

Setberg

Setbergsbærinn á ofanverðri 18. öld,

Jörðin Setberg hafði þá sérstöðu, öfugt við aðrar jarðir í kring sem voru annaðhvort í konungseign eða í eign Garðakirkju, að hún virðist hafa verið í bændaeign í gegnum aldirnar en elsta heimildin um byggð í Setbergi er frá árinu 1505 og var kvittunarbréf Þorvarðs Erlendssonar til Gríms Pálssonar um eignarbýtti þeirra.

Setberg

Setbergssel – landamerkjavarða.

Þar sagði fært yfir á nútíma stafsetningu: „Það gjörum vér Gunnlaugur Helgason, Jón Stullason, Jón Gíslason, Þorleifur Snorrason, Helgi Ormsson, Valdi Þorvarðsson, Hermann Hermannsson og Jón Eyvindsson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að þá er liðið frá guðs burði 1505 ár á Möðruvöllum í Eyjafirði. Daginn næstan eftir Maríumessu seinni um haust, vorum vér í hjá sáum og heyrðum í að Þorvarður Erlindsson lögmaður sunnan og austan í Íslandi haf með handabandi Grím Pálsson alldyngis kvittan og ókærulausan um það kaup og gjald er greindur Grímur hafði áður greiða látið og greitt, og þá amasala varð um það sem eftir stóð við fyrr greindan Þorvarð. Og að því luktu og höldnu er Grímur þá greiddi. Var það Setberg sunnan land við Hafnarfjörð. Og það með ij kúgildi eður iij hvort eður væri, iij vættir smjörs úr holum.

Setberg

Skilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Leigur frá hagatungu uppi iij ár var þetta alls x vættir sagðist Grímur hafa lokið Þorvarði áður xxxiiij kúgildi. Heyrðum vér þá engan óskilnað þessara þrátt greindra manna, heldur kom þeim allt vel saman svo nær heyrðum.
Og til sanninda hér um settum vér fyrr nefndir menn vort innsigli fyrir þetta kvittunarbréf og gjalds er skrifað var í sama stað, degi og ári sem fyrr segir.“
Næst var sagt frá Setbergi í bréfi frá 1523. Það var bréf sem vottaði að Pétur og Hallur Björnssynir hafi haft í arfaskiptum gefið Thomas Jónsson „frían og kvittan“ um jörðina Setberg á Álftanesi og handsalað honum jörðina. Í bréfinu segir frá landamerkjum jarðarinnar:

Setbergssel

Setbergssel.

„Úr miðjum Kjöthelli og í stein þann er stendur í fremstu Tjarnarholti. Úr honum og í flóðhálsinn, úr flóðhálsinum og í álftatanga, úr honum og í Hellu þá er stendur í Lambhaga.
Þaðan og í neðstu jarðbrú. Svo eftir því sem lækurinn af sker í túngarðs endann. Þaðan í Silungahellu. Svo þaðan í þúfuna og í miðjan Kjöthelli.“
Í bréfinu var einnig sagt að Garðastaður ætti á jörðinni tólf hesta reiðings ristu og að Setberg hafi á móti átt búðarstöðu í Garðalandi, þar var átt við búðarstöðu til siglinga, en jörð Setbergs náði ekki að sjó.

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í jarðabréfi frá 1703 var sagt frá því að árið 1658 seldi Tómas Björnsson 8 hndr. í jörðinni til sr. Þorsteins Björnssonar. Tómas seldi svo önnur 8 hndr. til fógetans og árið 1665 eignaðist Guðrún Björnsdóttir 8 hndr. í Setbergi.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Setbergs hafi verið sextán hundruðustu. Eigandi jarðarinnar var ekkjan Þóra Þorsteinsdóttir og bjó hún á jörðinni. Landskuld jarðarinnar var óviss en síðastliðin sextíu ár höfðu eigendur jarðarinnar búið á henni. Engar kvaðir voru á jörðinni þar sem eigandinn bjó þar sjálfur, kvikfénaður var fimm kýr, tuttugu og þrjár ær, fjórir sauðir veturgamlir, fjórir hestar og eitt hross með fyli.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – fyrrum landamerki Setbergs.

Túnin gátu fóðrað sex kýr og tuttugu lömb. Heimilsmenn voru sex. Jörðin átti selstöðu í Ketshelli, þar voru hagar góðir en vatnsból ekkert nema snjór í gjá sem sólarhiti bræddi.
Torfrista og stunga var nægileg og lyngrif mætti vera en var ekki notað fyrir hagbeitar sakir.
Setberg hafði til forna silungsveiði í Hamarskotslæk en henni hafði verið spillt með þeim netaveiðum þeirra sem neðar bjuggu. Jörðin átti ekki land til sjávar en var með búðarstöðu og skipsuppsátur við Skipaklett í Akurgerðislandi. Jörðin átti engjar en þær voru þó litlar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 173, þá var hún í bændaeign og dýrleiki hennar 16, landskuld 0.90, kúgildin þrjú og ábúendur voru tveir leiguliðar.
Árið 1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. Desember 1924 eru landamerki milli Setbergs og þessa hluta Garðakirkjulands sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupstað sem hér segir: Úr neðstu brú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinum beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi. Þaðan í beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markaþúfu suður og upp á holtinu þaðan í upptök lækjar þess sem Hafnarfjarðarbær fær vatn sitt úr, þá í Gráhellur og þaðan í miðjan Kjöthelli.“
Á túnakorti af Setbergi frá 1918 var sagt að tún bæjarins væru öll sléttuð og töldust 6,5 teigar og að kálgarðar væru samtals 1600m2. Á kortinu eru líka mældar inn bæjarrústir gamla bæjarins og „eyði kálgarður“ við þær. Vestan við nýja bæinn var líka mæld „rafleiðslu vatnsvél“.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Innan jarðarinnar er að finna Stekkjarhraun en það var friðlýst sem fólkvangur árið 2009.
Hraunið er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Markmið friðlýsingarinnar var að „vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. […] Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir i þéttbýli.“ Í bréfi frá 1670-80 sagði að Hamarskot og Garðar hafi haft stekki í Stekkjarhrauni, þ.e. stekkir og einnig hafði Setberg stekk í hrauninu.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Suðurbær. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VII-Setberg.pdf

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning fyrir Setberg.

Krýsuvík

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Krýsuvík:

Krýsuvík
KrýsuvíkElstu heimildir um Krýsuvík má finna í Hauksbók Landnámu, þar sagði að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.
Þarna er þó verið að tala um Gömlu-Krýsuvík sem líklega hefur staðið í Húshólma en þar má sjá fornar tóftir innan um hraunið sem rann yfir þær um 1151.
Ein kenningin er að eftir að Ögmundarhraun rann yfir Gömlu-Krýsuvík hafi bærinn verið fluttur þar sem Krýsuvíkurkirkja stendur enn í dag, inn á land Gestsstaða, sem var þá í eigu Krýsuvíkurkirkju. Við það hafi nytjar Gestsstaða rýrnað eftir því sem Krýsuvík þurfti meira land undir sinn búskap og Gestsstaðir á endanum lagst í eyði.
Næst var minnst á Krýsuvík í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem er frá því um 1200, og sagt að kirkja hafi verið í Krýsuvík.
Krýsuvík var einnig nefnd í máldögum Viðeyjarklausturs árin 1234 og 1284 í sambandi við hvalreka, ef hvalreka varð vart í Krýsuvík ætti að festa hvalinn þannig að hann ræki ekki aftur út og senda orð um rekan til Viðeyjar innan þriggja daga.
Í rekaskrá Strandakirkju 1275 var sagt: „fra mijgander grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa ger mældage æ herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skalhollte a halfann vidreka. allan annan enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land.
Stadur j skalhollte og herdijsarvijk eigu iiij vættar huals og skal vega enu fiordu med brioske og beine: enn þridiung i öllum ef meire kiemur. Enn strandarmenn tuo hlute.
Skalhollt oc krijsevijk æ halfann allann reka under fuglberge vi strandar land.
Millum wogs og hellis´strandur land iiij vætter en ef meire er þa æ skalhollt oc krijsevijk flordung j öllum hval.
Enn firer austan wog til vindass æ stadur j skalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter enn ecke ellegar.“
Svo sagði í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík: „Maríu kirja í Krýsuvík á heimaland allt. Herdísarvík. ix. mæla land á Þórkötlustöðum. Hálfan hvalreka í Raunnesi millum Rangagjögurs og marks við Bedstædinga [Bessastaðamenn] og eingja grasnautn með. Þrjá hluta hvals enn Viðeyingar fjórðung. Enn frá migandi gröf til kirkju fjöru eiga staðir í Skáholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn. Krýsuvík á allan reka á kirkjufjöru. Enn frá kirkjufjöru og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn.

Krýsuvíkurkirkja

Enn í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viðar við Krýsuvík. Þriðjung hvalreka eigu staðir báðir saman til marks við Strandarmenn. Enn fjórðung hvals við Strandamenn til Vogs. Hálfan tólftung hvals á Krýsuvík í Strandar hluta. Ein messuklæði, kaleik, klukkur, ij bjöllur, ij glodarkier, altaraklæði, iij kross steindur, sacrarium, munnlaug, paxspjald, vij kýr, xvj ær og xx iij hross. Kúgildi viijc, j metfie, iij merkur vax, c vadmála, item iiij ær.“
Í bréfi dagsettu 13. maí 1367, sem voru vitnisburðir Þorbjarnar Högnasonar um máldaga og eignir Strandarkirkju í Selvogi, var einnig talað um hvalreka sem var í eigu Krýsuvíkur og Skálholts.35 Og í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá sama ári var sagt að Maríukirkja í Krýsuvík ætti heima land allt „herdijsarvijk, ix mæaland á þorkotlustodum.“
1397 reiknaðist kirkjunnar góss í Krýsuvík „að auk fornra máldaga, vc, portio vmm, ij, är hälf, viiij alin.“37 Einnig var sagt í máldaga Viðeyjarklausturs árið 1413 að staðurinn í Viðey ætti fjórðung í hvalreka í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur.

Í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík frá 1477 var sagt að kirkjan ætti heimaland allt Herdísarvík, ix mæla land á Þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Raunnesi milli Rangagjögurs og mark við Bessastaðamenn, svo voru eigur kirkjunnar taldar upp.39 Í bréfi frá 1479, sem var vitnisburður Arngerðar Halldórsdóttur um ítök upp í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, var sagt að kirkjan í Krýsuvík ætti þar j x hrundruð í jörðinni.
1487 var svo gerður vitnisburður um reka Viðeyjarklausturs á Krýsuvíkurfjörum og var hann svipaður og áður.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa frá 1491-1518 sagði að viðarhögg í Geldingasteini, fjöru í Keflavík að helmingi við Krýsuvíkurstað að öllum reka. Sauðhöfn í Krýsuvík og húsrúm manna í að geyma þar sauðfé.42 Biskup var svo fenginn til að meta kirkjuna í Krýsuvík árið 1496 og virtist honum kirkjan x hundruðir og staðin allan með hjáleiguhúsum innan garða xv hundruðir. Árið 1525 sagði Ögmundur biskup að Viðeyjarklaustur skyldi eignast þann part í Vatnsleysulandi sem Krýsuvíkurkirkja hafði átt.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Í bréfabók Gizurar frá 1539 stóð að vitrir menn hafi sagt að sigla skyldi í suðvestur undan Krýsuvíkurbergi til að komast til Nýjalands. Ekki er víst hvaða land er átt við en ein kenning er að Nýjaland hafi verið partur af austurströnd Grænlands.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa 1553-54 var sagt það sama og í máldaganum 1491-1518, og máldagi Maríukirkju í Krýsuvík 1553-54 var mjög svipaður máldaganum 1477.
Árið 1563 var sóknarkirkjan í Krýsuvík lögð niður af hirðstjóra eftir beiðni Gísla biskups Jónssonar: „Það meðkennumst ég Páll Stígsson kongleg Maiestatis Bidalningzmann yfir öllu Íslandi, að á Bessastöðum um haustið mánudaginn næstan fyrir Michaelsmessu, kom fyrir mig herra Gísli Jónsson Superintendes Skálholts Sticktis. Spurði mig ráða og tillagna hver nauðsyn mér þætti á þeirri kirkju sem haldin hafði verið í Krýsuvík. Þá tók ég með mér þessa heiðurs dánimenn Jón Bjarnason, Loft Narfason og Jón Loftsson prestmenn. Item Orm bónda Jónsson Gísla, Sveinsson og Níels skrifar Ólafsson. Þótti mér með þessum fyrrnefndum dánimönnum í fyrstu engin þörf eða nauðsyn vera eður verið hafa að í þessari nefndri Krýsuvík alkirkja væri. Því það má enginn sóknarkirkja kallast sem engin samkunda til liggur. Því leist oss svo best fara og sannlega staðfestum að þessi

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja aflagðist enn lægi til Strandar kirkju bæði tolla og tíundir og alla aðra rentu svo sem aðrir almenningsbæir skyldugir eru sínum sóknarkirkjum að veita. Enn umboðsmenn dómkirkjunnar í Skálholti skyldu Krýsuvík byggja til fulls landgildis og aftekta Skálholts dómkirkju vegna. Svo og líka Herdísarvík og annað það fleira sem þessum Krýsuvíkur stað hefur fylgt. Enn sökum þess að þessi oftnefnda Krýsuvík liggur nokkuð í fjarska að vegalengd til Strandarkirkju þá þótti oss vel fara þó í Krýsuvík stæði lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt: Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja svo að Guðs orðs þjénari mætti þar huld nætur saka hafa þá hann þar kæmi eða þyrfti að koma Guðlegrar hjarðar að vitja. Skyldi þetta vort álit og gjörningur óbregðanlega standa hér eftir.“

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

1627 áttu hin svokölluðu Tyrkjarán sér stað. Eiga þeir að hafa komið á land í Krýsuvík og sagt var frá því í Þjóðsögum Jóns Árnasonar hvernig séra Eiríkur í Vogósum, sem sagður var göldróttur, hrakti þá í burt: „Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðar heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi inn og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið þið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar sem þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).“

Eyri

Tóftir Eyris undir Selöldu.

Eitt sel var skráð í suðaustur hlíðum Selöldunnar, ekki skal fullyrt um að Tyrkir hafi drepið þar matseljuna en þjóðsagan virðist staðfesta selið. Einnig stendur Eiríksvarða enn á Arnarfelli, þó hún hefur verið bætt á seinni tíð.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Krýsuvík sögð kirkjustaður og var hún annekteruð til Selvogsþinga. Jarðardýrleikinn var óviss og eigandinn dómkirkjan í Skálholti. Landskuldin var i hundraðir þrjátíu álnir og borgaðist með fiski ef hann var til, annars með peningum eða landaurum upp á danskan taxta. Ábúandi átti rekavið frjálsan til uppbóta á húsum nema ef um stór tré var að ræða, þá tók dómkirkjan í Skálholti helminginn. Þá sagði Jarðabókin einnig frá sex hjáleigum, Nýjabæ, Litla Nýjabæ, Norðurhjáleigu (seinna Norðurkot), Suðurhjáleigu (seinna Suðurkot) Austurhús og Vesturhús.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík á árunum 1752 – 1757 og sögðu að Krýsuvík væri kunn á Íslandi og meira að segja erlendis vegna brennisteinsins sem hafði verið safnað þar til útflutnings og gerðu þeir greinagóða lýsingu á hverasvæðinu í Seltúni.

Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Henry Holland kom til Krýsuvíkur árið 1810 og lýsti staðarhaldi þar sem heldur slæmri upplifun: „Til Krýsuvíkur komum við kl. 5. Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við ræturnar á stakri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja, 18 fet á lengd og 8 á breidd, en hæðin er 5 fet og 8 þumlungar undir bita. Við höfðum ráðgerðt að búa í kirkjunni, meðan við dveldumst í Krýsuvík, og í því skyni fengum við kirkjulykilinn léðan. En við höfðum naumast litið inn í hana, er við hurfum frá því ráði. Svo mátti heita, að þar kæmu saman öll þau ógeðugheit, sem framast væri að hugsa sér, skítur, myrkur og óþefur af fiski á öllum mögulegum herzlustigum o.s.frv. Gólfið var óslétt, að við hefðum naumast getað skorað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani.“
Árið 1818 svaraði séra Jón Vestmann, prestur í Selvogi, bréfi konunglegu nefndarinnar, Commissionen for oldsagers opbevaring, sem hafði sent fyrirspurn um fornleifar í landinu. Þar skrifar hann um þær fornminjar sem hann þekkir en nefnir engar í núverandi landi Krýsuvíkur.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Þó minnist hann á fornminjar í Ögmundarhrauni: „Húshólmi niður við sjóinn í hama hrauni; hefur þar verið mikil byggð áður en brann, sem sést af húsa tófta brotum, að hvar um hraunið gengið hefur, að norðan – vestan – sunnan, og næstum saman að austan-verðu; er þar 1 tóftarform 12 feta breitt, og 24 feta langt, innan niður fallinna veggja rústa; húsið hefur snúið líkt og kirkjur vorar, meinast gamalt goða-hof; fundið hafa menn þar nokkuð smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett túngarðs form með 20 faðma millibili, hvar nú er lyng mói; enn graslendi innan innri garðs, austanvert við hraunið.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hin nýja.

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna eftir íkveikju þann 2. janúar 2010 og í framhaldi á því fór fram fornleifarannsókn á kirkjugrunninum vegna undirbúnings fyrir nýju kirkjuna sem Iðnskólinn í Hafnarfirði smíðaði og stendur sú kirkja þar í dag.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Krýsuvík. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-XII-Kry%CC%81suvi%CC%81k.pdf

Selalda

Selalda – Strákar; fjárskjól.

Setbergsbærinn

Í Fjarðarpóstinum 1991 er viðtal við Elísabetu Reykdal, fyrrum húsfreyju á Setbergi, undir fyrirsögninni „Hornið í stofunni er sálin mín„:

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

„Elísabet Reykdal hefur talsverða sérstööu aö því leyti, að hún og hennar fólk var þekkt í bænum sem Garðhreppingar, en nú er Elísabet oröin Hafnfirðingur, þó hún hafi aldrei flutt um set og alltaf búið í sama húsinu. Þetta er meira en lítið sérstætt, en á þó sínar eðlilegu skýringar vegna útfærslu á bæjarmörkum Hafnarfjarðar. Elísabet er dóttir hins kunna athafnamanns Jóhannesar Reykdal, sem byggði fyrstu vatnsknúnu rafstöðina á Íslandi, og konu hans, Þórunnar Böðvarsdóttur. Nú býr Elísabet í miðju glæsilegu íbúðahverfi þar sem áður var búskapur, tún og kýr á beit.

Já, Setberg var næststærsta býlið í Garðahreppi. Það voru aðeins Vífilsstaðir sem var stærra býli“, sagði Elísabet í upphaf viðtals okkar.
– Þið voruð mörg í heimili á Setbergi?
„Já, það voru oft um 20 manns og stundum upp í 25 yfir sumartímann. Það bjuggu hérna heima lærlingar og smiðir sem unnu hjá pabba. Annars vorum við 10 systkinin sem upp komust, en yngst dó systir mín, aðeins 12 ára. Það voru berklarnir sem herjuðu á fjölskylduna. Það dóu fimm uppkomnir bræður úr berklum.
Ég er fædd á Setbergi en annars byrjuðu pabbi og mamma sinn búskap í Hafnarfirði. Þau giftu sig 1904 og sama haustið voru kveikt fyrstu rafljósin, en verksmiðjuna reisti pabbi 1903, Timburverksmiðjuna Dverg. Það var fyrir Dverg sem hann virkjaði Lækinn, ennfremur fengu 16 hús ljós í fyrstu.“
– Hvaðan kom pabbi þinn til Hafnarfjarðar?
„Hann kom hingað frá Danmörku. Fyrst flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann var í tvö ár, en síðan til Hafnarfjarðar. Annars var hann Þingeyingur að uppruna. Mamma fæddist hins vegar í Hafnarfirði en hennar fólk kom frá Miðfirði. Pabbi og mamma kynntust hér í Hafnarfirði. Afi hafði þá skólapilta í fæði og smáveitingasölu.“
„Það blundaði bóndi í pabba og Einari“
– Þannig að faðir þinn Jóhannes Reykdal lærði í Danmörku?
„Já, hann lærði í Danmörku en fyrsta verkefnið hans hér var að byggja gamla barnaskólann. Upp úr því setti hann upp verksmiðjuna og síðan kvæntist hann um vorið. Pabbi og mamma bjuggu fyrst í Hafnarfirði en síðan keypti pabbi Setbergið 1909 og 1911 fluttu þau hingað upp eftir. Á meðan þau voru niðri í bæ hafði hann ráðsmann við búskapinn en rak síðan búið sjálfur eftir að þau fluttu. Það blundað bóndi í pabba og hann var alltaf mikið fyrir skepnur.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal.

– Síðan verða kynslóðaskipti og þú tókst við búskapnum?
„Já, en þá hafði búið verið í leigu í fimm ár eða frá því 1931, en þá dóu tvö systkini mín. Þá auglýsti pabbi Setbergið til leigu. Eitt árið ráku systkini mín búið, en þá dó bróðir minn, sem aðallega stóð fyrir búinu. Þá hættum við aftur en tókum síðan við búinu áný árið 1938.“
– Þú varst ung heimasæta á Setbergi en giftist síðan sjómanni, Einari Halldórssyni. Þú gerðir þér lítið fyrir og gerðir hann að bónda?
„Já, hann var lengi kallaður Einar á Maí af því að hann var svo lengi stýrimaður með Bendikt Ögmundarsyni. Annars byrjaði hann sína sjómennsku á Skúla fógeta, en var nýfarinn af honum þegar Skúli fógeti fórst. Hann var kominn með pokann sinn niður á Steindórsstöð til að fara til Reykjavíkur en þá kom Benni hlaupandi og sagði: „Hann Ásgeir Stefánsson er búinn að reyna að ná í þig í allan dag, því að það er plássfyrirþighjámér“. Svo Einar hringdi inn eftir og lét vita af því, að hann kæmi ekki og fór um borð í Maí. Þar var hann til ársins 1937. Síðan var hann á Hafsteini með Ólafi Ófeigssyni. Hann var stýrimaður hjá honum.“
– Þótti Einari manni þínum ekki súrt í broti að vera kippt af sjónum til að gerast bóndi?
„Nei, það held ég ekki. Það blundaði í honum bóndi. Hann var búinn að vera níu sumur á bæ upp í Borgarfirði sem kaupamaður og þá var hann einu sinni alveg að því kominn að kaupa þar jörð og ætlaði að fara að búa. Það var áður en við kynntumst. Hann hafði alltaf gaman af búskap. Það var Fossatún í Bæjarhreppi sem hann var næstum búinn að kaupa. Það var smákot þá, en er orðið stórbýli núna. En einhvern veginn varð ekkert úr því að hann keypti jörðina.“
– Síðan hófst búskapur ykkar á Setbergi?
„Já, við rákum hér búskap í 40 ár. Við hefðum átt fjörtíu ára giftingarafmæli haustið eftir að Einardóíjanúar 1978. Við giftum okkur í september 1938.“
– Þróunin hefur verið ör. Í staðinn fyrir græn tún og kúabúskap er komin þétt byggð?
– „Já, hér voru yfirleitt um 35 kýr og á annað hundrað fjár.“
„Víst á ég heima á Setbergi“
Setberg
„Þannig að nú átt þú ekki lengur heima á Setbergi samkvæmt skipulaginu?
„Víst á ég heima á Setbergi.
Þegar ég fékk tilkynningu um það að nú ætti ég heima á Fagrabergi 32, þá fór ég niður á bæjarskrifstofu og neitaði og sagði, að ef ég mætti ekki eiga heima á Setbergi þá byggði ég mér bara hús fyrir ofan, uppi í Garðabæ, því að á Setbergi ætlaði ég að eiga heima.

Einar Halldórsson

Einar Halldórsson á Setbergi.

Ég fékk síðan bréf upp á það að húsið mætti áfram heita Setberg, enda er þetta sama húsið og áður og hefur alltaf verið Setberg og er enn á jörðinni. Það er ekki búið að leggja jörðina niður, þó að Hafnarfjarðarbær hafi keypt hluta af henni.“

– Synir ykkar ráku jörðina síðustu árin eftir að Einar dó, eða þar til þensla Hafnarfjarðar krafðist meira landrýmis?
„Já, þeir ráku búið, en þetta var einn fjórði hluti af jörðinni sem Hafnarfjörður keypti. Hinn hlutinn er ennþá í Garðabæ. Eiginlega get ég bæði kallað mig Hafnfirðing og Garðbæing. Þó verð ég að kjósa í Hafnarfirði.“
– Ef við rifjum upp, þá var Einar oddviti í Garðahreppi?
„Já, í nokkur ár en um leið og hann varð oddviti þá var ráðinn sveitarstjóri. Hann vildi ekki hafa nein fjármálaumsvif, enda þróaðist byggðin ört þar líka.“

Hóf heimsreisur á efri árum
– Þú ert orðin fullorðin kona og ein á báti, má segja, síðan þú varðst ekkja og börnin búin að stofna eigin heimili. Þá tekur þú þig til og hefur gert sérstaklega víðreist af fullorðinni konu að vera?
„Ég byrjaði á þessu árið 1979 en þá fór ég fyrstu ferðina en það var árið eftir að Einar dó. Þá fór ég til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, til Winnipeg og reyndar alveg til Vesturstrandarinnar og hitti marga Íslendinga. Það var mjög gaman. Næsta ferð var til Grikklands með mági mínum og systur og við vorum þar í þrjár vikur. Þar á eftir fór ég hringferð um Mið-Evrópu, um Alpana. Það var þriggja vikna ferð, alveg ágætis ferð.
Síðan fórum við aftur saman, mágur minn og systir, til Norðurlandanna. Við flugum til Þrándheims en þar eigum við ættingja og vorum þar í fjóra daga en ókum síðan suður Noreg. Þar er víða mjög fallegt og þetta var mjög skemmtilegt.
Síðan fór ég til Egyptalands og Ísrael. Eftir það fór ég í heimsreisuklúbbinn og þá fyrst í ferð til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Síðan tók við ferð til Kína og svo ferð til Indlands. Þá var ferð til Suður-Ameríku og önnur til Suður-Afríku og núna síðast til Japans, Filippseyja og Formósu.“
– Hvaða heimshluti féll þér best?
Elísabet Reykdal„Það var óskaplega gaman að koma til Kína. Það var svo sérstakt. Suður-Afríkuferðin var líka mjög vel heppnuð. Nú og síðan er Ástralía og Nýja-Sjáland alveg sérstakt líka. Mannlífið þar var að mörgu leyti líkara okkar. Ástralía, þó að hún sé stór, þá er hún líka eyja af því að hún er ekki tengd við önnur lönd og þetta á einnig við um Nýja-Sjáland, ekki síður.“
– Ég vil ræða aðeins við þig um fullorðna fólkið og lífsgleðina?
„Það verður hver og einn að sætta sig við sitt hlutskipti í lífinu og reyna að finna björtu hliðarnar á því sem eftir er. Tímann er ekki hægt að stöðva og við verðum að reyna að fínna björtu hliðarnar á því sem er eftir. Tímann getur maður ekki stoppað. Það verður bara að fylgja honum eftir eins og hægt er.“
Í notalegu stofunni hennar Elísabetar er gömul og vegleg gólfklukka sem vekur athygli. Hún er í horninu hjá henni, þar sem flestar fjölskyldumyndirnar eru. Um hornið segir hún: „Þetta horn í stofunni er sálin mín. Klukkan er smíðuð af Jóni Stefánssyni, það er að segja umgjörðin. Hann var frá Fagurhólsmýri og er bróðir Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli. Jón vann hjá pabba í verksmiðjunni og hann lét Jón smíða þrjá klukkukassa. Pabbi pantaði klukkuverk í tvo þeirra. Eina klukkuna gaf pabbi Matthíasi Einarssyni, lækni í Reykjavík, því að hann hafði gert svo stóra „operasjón“ á honum bróður mínum, sem varð fyrir slysi austur á Söndum. Það féll mastur á höfuðið á honum. Það var ekki auðvelt að eiga við svoleiðis þá.
Það tók tæpa tvo sólarhringa að sækja lækninn, þó fékk hann alltaf óþreytta hesta á hverjum bæ til að halda áfram. Læknirinn gat náttúrlega ekkert gert, en báturinn sem sótti bróður minn var Skaftfellingur. Pabbi var með Skaftfellingi og fór að Fagurhólsmýri, en þangað var bróðir minn fluttur og þar lá hann slasaður þangað til hægt var að flytja hann til Reykjavíkur.
Hann bróðir minn var alveg mállaus og máttlaus öðru megin, en hann gat látið pabba vita um veskið sitt og pappíra undir koddanum. Því hafði hann hug á, þó hann væri svona á sig kominn. Síðan var það Matthías sem skar bróður minn upp, en hann kom síðan heim eftir mánuð. Þá var hann byrjaður að tala aftur og ganga svolítið. Pabba fannst hann því standa í þakkarskuld við Matthías Einarsson lækni, fyrir utan það að þeir þekktust áður.

Og klukkan tók undir
ReykdalEin klukkan fór þannig til Matthíasar sem þakklætisvottur en hin klukkan fór til mömmu.
Þá var ein klukka eftir og hún var búin að vera niður í verksmiðju í mörg ár. Árið 1944 hringdi pabbi í mig og spurði, hvort ég hefði ekki pláss fyrir klukkukassann. Hann sagðist vera í vandræðum með hann, því að þeir væru að laga til í verksmiðjunni. „Enda hefi ég alltaf ætlað þér hann“, sagði hann. Ég hélt nú að ég skyldi taka við honum. Síðan vildi svo til, að tveimur eða þremur vikum síðar brann verksmiðjan þannig að þá hefði klukkan glatast. Við fengum Magnús Guðlaugsson, úrsmið, til að panta klukkuverk í hana eftir stríðið og þá var klukkan sett upp. Það er eins og ég segi: Þetta er sálin mín.“
Um leið og ég þakkaði fyrir mig og kvaddi, tók stóra klukkan í horninu hennar Elísabetar undir með dimmum og virðulegum tónum.“ – J.Kr.G.

Elísabet Reykdal fæddist á Setbergi Garðahreppi 17. desember 1912. Hún lést á Sólvangi 21. desember 2013.
Elísabet bjó á Setbergi nær alla sína ævi fyrir utan nokkur ár í æsku á Þórsbergi, nýbýli úr Setbergslandi sem Jóhannes faðir hennar byggði. Síðustu fimm æviárin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í jaðri Setbergs. Skólaganga Elísabetar var ekki löng, hún var einn vetur í Flensborg og einn vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Elísabet og Einar Halldórsson hófu búskap á Setbergi á fardögum vorið 1938 og allt þar til að Einar lést, og í samstarfi við syni sína þar til búskapur lagðist af að mestu árið 1985. Á efri árum ferðaðist Elísabet mikið bæði innan og utan, oft ein en líka með systurdóttur sinni, Ragnheiði Hermannsdóttur. Ferðaðist Elísabet til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 36. tbl. 18.12.1991, „Hornið í stofunni er sálin mín“, Jólaviðtal við Elísabetu Reykdal á Setbergi, bls. 8-9.

Setberg

Mikið tjón í bruna að Setbergi í Garðahreppi í gær, Þjóðviljinn 5. sept. 1965, bls. 1.