Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Þorbjarnarstöðum:
Þorbjarnarstaðir
Þorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.
Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.
Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“
Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.
Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.
Þorbjarnarstaðarker.
Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.
Péturskot – útihús.
Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.
Straumur
Straumur – túbakort 1918.
Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“
Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.
Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Straumsseli.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).
Straumssel – bær skógavarðarins.
Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís
Óttarsstaðir
Óttarsstaðir eystri – eldhús.
Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“
Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Óttarsstaðir – túnakort 1919.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.
Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.
Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“
Lónakot
Lónakot – túnakort 1917.
Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.
Lónakot – bærinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n
Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.
okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.
Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf
Markhella – áletrun.