Tag Archive for: Hafnir

Kirkjuvogssel

Gengið var upp í Hafnaheiðina. Ætlunin var að skoða svæðið betur í kringum Kirkjuvogssel ofan.

Kirkjuvogssel

Tóftir í Kirkjuvogsseli.

Frést hefur af gömlum hleðslum norðvestan við selið. Þar gætu verið leifarnar af Gamla Kaupstað, sem var gamall áningastaður á milli Grindavíkur og Hafna. Þar á og að vera Hestavegurinn svonefndi.
Selssvæðið er vel varið varúðarskiltum frá verndurum vorum, en þarna mun hafa verið æfingasvæði hersins um tíma. Klæðst var sprengiheldum skóm og stikklað af stað. Selið sást framundan, vel gróið undir hraunhól, mót norðvestri. Talsverar tóftir eru í selinu, m.a. stór stekkur vestan við þær, kví og önnur mannvirki. Ekki var brunn eða vatnsstæði að sjá, enda búið að vera mjög þurrt, en norðan við tóftirnar mótar fyrir reglulegu hringlaga gerði. Talsvert jarðvegsrof er þarna, en svo virðist sem hringurinn hafi verið grunnmynd af torfhlöðnu gerði eða fjárborg.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ofan við hraunhólinn er tóftir sem og mannvirki eftir verndarana þar sem þeir hafa verið við æfingar. Varða er á klapparhrygg í norðvestri, í línu að „nýja“ Kirkjuvogi og Kotvogi.
Ekki gafst tími til að leita þarna að hugsanlegum ummerkjum eftir Gamla Kaupstað eða Hestaveginn að þessu sinni, en það verður gert við tækifæri.
Ágætisveður var á svæðinu. Gangan tók 59 mínútur.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ 2012.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gengið var með Leó M. Jónssyni um Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Hafnaeyri (Eyri – Eyrarhöfn) vestan Hafna. Um er að ræða eitt áhrifamesta minjasvæði á landinu er lagðist í auðn vegna sandfoks um aldarmótin 1700.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Systursvarða.

Þarna eru tóftir í sandorpnum hólum, gerði og garðar, vörslugarðar, byrgi, refagildra, rétt, grafreitur o.fl. o.fl.
Haldið var um Merarholt sunnan Hundadals. Eftir um 10 mínútna gang um Merarholt var komið niður á gamla Hafnaveginn. Á hólum við veginn eru tvær vörður, Systur. Sú eystri er heil, en sú nyrðri fallin. Sunnan við heilu vörðuna er hringlaga gerði, sennilega gömul fjárborg. Margir gígahraukar sjást í hrauninu. Á hægri hönd sést langt nes sem gengur út í sjó til norðvesturs. Það nefnist Eyri. Nokkru sunnan við Eyri, við þríhyrningslaga klapparstrýtu, sem nefnist Klauf, þar hefst Hafnaberg sem Lágaberg og smáhækkar til suðurs og er hæst 80 metrar, þverhnípt í sjó fram.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Uppdráttur ÓSÁ.

Gamli vegurinn er lítið annað en slóð. Af honum við vörðurnar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Uppi á honum að sunnanverðu er lægð og grjót utan í kantinum. Þar gæti hafa verið stekkur fyrrum. Vestan hans, í fjörunni er klapparhóll, Hvarfklöpp. (Í henni býr álfkona segir í sögunni Marína eftir Jón Thorarensen). Ofan vegarins er annar klapparhóll og uppi á og utan í hinum hlaðið byrgi. Frá honum til suðurs og síðan ti vesturs liggur vörslugarður ofan við bæina og þau mannvirki er hafa tilheyrt þeim. Garðurinn er sennilega um 2 km langur. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Ofan hans, ofan vörslugarðsins, má sjá móta fyrir götu. Leó sagði að sagnir væru til um gamla götu milli Kirkjuhafnar og Kalmannstjarnar, auk þess em gata væri milli Hafnabæjanna og Presthóls inn á Prestastíginn til Grindavíkur.Stígurinn dregur sennilega nafn sitt af Presthól þessum, skammt ofan við Mönguselsgjá.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Bein voru tekin úr kirkjugarðinum á 18. öld og færð út í kirkjugarðinn við Kotvog, þar sem núverandi Hafnir eru. Hverfin á milli þessara staða voru Merkines (og Merkisteinn) og Kalmannstunga (og Junkaragerði), en þau voru við lendingarnar líkt og Hafnabæirnir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Þegar best lét hefur verið mikið mannlíf á þessu svæði. Það á sér merkilega þjóðfélagssögu þar sem lífið er samofið fiskgengdinni, sem var ýmist alger ládeyða eða vaðandi þegar best lét. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Hafnaeyri (Eyri).

Skammt utar, nær sjó, eru rústir tvíbýlis sem nefnist Hafnaeyri og talið hafa farið í eyði um 1830. Nokkuð heillegur hlaðinn garður er yst á Eyri um 15 m á kant. Þessi hleðsla varði kálgarð fyrir sandfoki. Í gerðinu voru einnig bátar geymdir, enda er það skammt ofan við lendinguna. Óhætt er að segja að ströndin fyrrum hafi litið öðruvísu út en nú gerist, bæði vegna ágangs sjávar og landssigs.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – refagildra.

Ofar og gegnt lendingunni má sjá tvær vörður, hvora upp af hinni. Þær eru holar að innan líkt og vörðurnar ofan við Kirkjuhöfn. Líklega hefur verið um gónvörður að ræða. Þá gætu þær hafa verið notaðar til að kynda í bál eftir að dimma tók til að leiðbeina síðbúnum bátum rétta lið inn lendingarnar. Þegar gengið er um þessa hóla nú er erfitt að gera sér í hugarlund að þar hafi áður fyrr verið stórbýli – svo vandlega hefur foksandurinn unnið sitt eyðingarstarf. Þegar horft er yfir svæðið, einkum á berar klappirnar þar sem sandurinn hefur með tímanum þurrkað út hraunreipin, má gera sér í hugarlund hvernig hann hefur einnig eitt gróðrinum, sem þar var fyrir.

Gömlu Hafnir

Vörslugarðurinn ofan við Gömlu Hafnir.

Leó sagði svæðið hafa gróið mikið upp eftir tilkomu sandgræðslugirðingarinnar og uppgræðslunnar í Stóru-Sandvík. Þá hefði gróðurinn tekið mikið við sér á síðustu árum.
Í bakaleiðinni var kíkt á refagildruna ofan við Eyri, byrgi skammt austar, garða og síðan var vörslugarðinum fylgt að ysta klapparhólnum ofan við Hvarfklöpp, þar sem eitt byrgið trjónir ofan á. Annar vörslugarður (sennilega sandvarnargargarður) nær frá norðanverðu Hafnabergi yfir að rótum Hundadals.
Þá var haldið upp á Hafnaberg (sjá meira HÉR og HÉR).
Svæðið í og kringum Gömlu Hafnir er vanmetið minjasvæði. Þegar vel er að gáð er þar að finna flestar þær minjar er prýtt geta slík búsetusvæði frá því um og eftir miðaldir. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram á minjunum.
Frábært veður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogskirkja

Eftirfarandi „Lýsing á Höfnum“ eftir Brand Guðmundsson birtist öðru hefti Blöndu (um er að ræða útdrátt):
„Eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi. -Prentað eptir eiginhandarriti höf. í safni, Bókmentafélagsins 72 fol. í Lbs. Hefur hann sent skýrslu þessa sóknarpresti sínum síra Sigurði B. Sivertsen á Útskálum og samið hana eptir beiðni hans, sem sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar um 1840. En skýrslu þessa mun svo síra Sigurður hafa gefið Magnúsi stúdent Grímssyni, þá er hann ferðaðist um Reykjanesskaga 1847, og reit lýsingu af honum, því að handrit þetta er nú meðal plagga Magnúsar í Bókmentafélagssafninu. Brandur var fæddur á Brekkum á Rangarvöllum í september 1771. Hann flutti síðan suður að Kirkjuvogi. Brandur andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845, nálega 74 ára gamall. – (H. Þ.)

kirkjuvogskirkja-901Kirkjan í Höfnum er annexía frá Útskálum nú, áður lá hún til Hvalsnessprestakalls; hún er í Kirkjuvogi, er timburhús; það er stór bær, sæmilega húsaður að nokkru leyti; 3 eru ábúendur heima á jörðinni, kallast Austur- Mið- og Vesturbær; sá austasti, sem lengi hefir verið ábúenda eign er bezt húsaður; hinn næstnefndi, sem er Thorkelii barnaskóla stiptunar eign er miklu miður, en sá vestasti í meðallagi.— Kotvogur er bær í sama túni, og 1 utangarðs, byggt fyrir 10 árum liðnum. Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða, sandi líka í botni, marhálmi, skeljum nokkuð og ýmislegu. Selveiði á vorin var í þeim nokkur fyrrum og eptir fardagaleyti af kópum, sem nú er ekkert orðið vegna ósvífinna skota á öllum árstímum; hrognkelsaveiði er í þeim nokkur kringum miðsumarsskeið. Jörðin gengur af sér vegna sandfoks á túnið og sjávar landbrots. Stutta bæjarleið þaðan sunnar er Merkines; þar eru 2 ábúendur.
Kirkjuvogur var áður fyrir norðan Ósa, sem nú er Stafnessland, meina menn fluttan fyrir hér um 300 árum síðan liðnum (í Jarðabók AM. segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi) og voru hér þá tvær jarðir: Haugsendar (svo hdr., ef til vill réttara: Haugssandar.
Jarðabók AM. 1703 nefnir Haugsendakot, þá fyrir löngu komið í eyði, en hafnarberg-901Árnagerði (eða Arnagerði) hafi farið í auðn þá ekki fyrir löngu, sökum vatnsleysis og átroðnings kvikfénuðar frá Kirkjuvogi) og Arnagerði; sú fyrri lagðist í eyði hér um fyrir 200 árum vegna sandfoks; var á milli Kirkjuvogs og Merkiness; hin, sem er fyrir innan spölkorn mun hafa lagzt í eyði fyrir nálægt 100 árum af ágangi af mönnum og skepnum, eins og á Kirkjuvogstún og líka vegna sandfoks frá sjó og uppbrots þar. Túngarðar, hvar verður, fylgja byggðinni, og kálgarðar eru yrktir og ræktaðir eptir mætti. Hvað Kirkjuvogstún muni hafa af sér gengið má meðal annars af því ráða, að Ingigerður heitins (þ. e. Ingigerður Tómasdóttir (d: 1804) kona Vilhjálms Hákonarsonar hins eldra í Kirkjuvogi (d: 1803, 79 ára) móðir sál. Hákonar (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) sagði Gróu minni (2) Gróa Hafliðadóttir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (d: 1855) að kerling gömul, móðir Sesselju í Garðhúsum, er eg man til, hefði sagt eptir annari kerlingu, að full sáta heys hefði í hennar tíð verið slegin á Kirkjuskeri, sem nú fer í kaf í hverjum stórstraumi, og þá hefði varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og búðarbakkans, sem nú er að 30 faðma rúm í millum, en sandur skemmir þó enn meira, því að í þau 50 ár, er eg veit til, hefur blásið af norðurtúninu til vissu kýrfóðuravallarstærð auk skemmda, sem garðafærslur sýna.

gomlu hafnir-uppdrattur-2

Gömlu Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði, að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (hefur lagzt í eyði um 1660 (sjá síðar)) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurn veginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast í eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með því móti síðar orðið kóngseign (frá b.v. eptir aukablaði með hendi höf. Þar getur hann og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnagerðis“ [Þetta bréf ekki kunnugt nú, en ártalið gæti verið skakkt t, d. 1616]).
Bæjarleið sunnar með ströndinni en Merkines er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkarageri, sem 1/3 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemmdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft í kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“ (Jarðab. AM. 1703)). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri. Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („hefur óbygð legið hér um 50 ár,“ segir í Jarðab. AM. 1703)  því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
kistuberg-901Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vik nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjöra. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér a undan) og er þar lent þá verður brims vegna í norðan- og austanátt, þ& menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið. Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið.
Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá uppundan og inn til fjalla, sem myndar líka vatnsfarvegs  afarstórs, en það getur líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hann kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni viða vera um 100 faðma breið og sumstaðar miklu meir; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi eitt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita).
Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi berbergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m.fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja. Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar. Á nesinu eru jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun.
Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá  Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landsuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.“

Heimild:
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, 4.-6. hefti, bls. 51-60.

Gömlu-Hafnir

Í Gömlu-Höfnum.

Við leit í og við Hafnir skammt utan Reykjaness kom í ljós áður óþekktur skáli, sem líklegt má telja að geti verið allt frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Hafnir - brunnurSkálatóftin er að mestu orðin jarðlæg og því mjög erfitt að koma auga á hana. Skammt frá henni eru leifar af hlöðnum brunni sem og garðar og gerði, sem nú er komið í sjó fram. Ekki alllangt frá er gróinn hóll úti á ysta tanga; að öllum líkindum kuml fornmanns (sjá mynd hér að ofan).
Meira verður fjallað um svæðið á vefsíðunni síðar.

Ósar

Skálatóft við Ósa.

 

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í „kumlferð“ um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Gömlu-Hafnir

Haldið var að Sandhöfn, Kirkjuhöfn og Eyrarhöfn (Eyri) og gengið þaðan vestur götuna áleiðis upp á Hafnaberg. Lýsing hafði fengist af gamalli rétt þar í slakka hægra megin götunnar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – vörslugarður.

Þrátt fyrir nokkra leit fannst réttin ekki að þessu sinni, enda getur reynst erfitt að greina eitt frá öðru þarna í flæminu. Svæðið virðist eyðilegt, en það leynir á sér. Víða má sjá landnámsplöntur, fjölskúðugt fuglalíf og auk þess ber ýmislegt fyrir augu þegar betur er að gáð. Skúmurinn verpir t.d. þarna í sandinum og getur látið ólíkindalega.
Hlaðið gerði fannst skammt vestan og norðan Sandhafnar. Það er hlaðið nokkrun veginn sporöskjulaga með hringlaga hliðargerði við það norðanvert. Til norðurs út frá því er stuttur leiðigarður. Líklega hefur þarna verið rétt fyrrum. Skammt norðvestan er vörslugarður er liggur til suðvesturs upp að meginvörslugarðinum ofan Hafnabæjanna.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Gerðinu var bætt inn á uppdrátt, sem gerður hafði verið af svæðinu. Mikið af mannvistarleifum er þarna með ströndinni og ofan hennar, s.s. hákarlabyrgi refagildra o.fl. T.a.m. er þarna sögn um grafreit. Tóft er í honum, auk annarrar utar.
Sigurjón Hinriksson frá Merkinesi sagðist muna vel eftir leifum bæjanna, einkum Kirkjuhafnar, ofan við garðana. Bæjarleifarnar hefðu síðan smám saman fokið í burtu. Lengst af hefðu leifar bæjarins Eyri verið þarna á tanganum. Sandhólarnir væru sandumorpnir klapparhólar, en bein hefðu verið flutt úr kirkjugarðinum yfir í garðinn við Kirkjuvog.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín. (Sjá meira HÉR og HÉR).

Hafnaberg

Hafnaberg.

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gamli Kirkjuvogur

Í botni Ósabotna liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. Vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur.

Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fékkst þó góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft.

Ósar

Ósar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi. Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.

Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll (dys?).

Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi. Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Frábært veður.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Hafnir

Eftirfarandi frásögn af húsum og fólki í Höfnum eftir aldarmótin 1900 birtist í Faxa árið 1968:

Hafnir

Í Höfnum.

„Lengst til vinstri sést burst á útihúsi. Önnur burst er yfir bæjardyrum vestan Vesturbæjar, sem kemur þarna næstur í röðinni. Árið 1907 hófu þar búskap Sigríður Bergsteinsdóttir og Ingvar Eiríksson, foreldrar Ólafs Ingvarssonar í Keflavík. Í þessum sama bæ bjuggu þá einnig Vilborg Sveinsdóttir og Jón Snorrason. Þó húvsakynni væru ekki stærri, var samkomulagið hjá fjölskyldunum eins og bezt varð á kosið. Má m. a. marka það á því, að Ólafur lét dóttur sína heita eftir fyrrnefndum húsfreyjum. — En víkjum nú aftur að myndinni. Næstu tvær burstirnar eru á austari Vesturbænum. — Á þessum árum bjuggu þar hjónin Sigríður Björnsdóttir og Ketill Magnússon, foreldrar Magnúsar Ketilssonar bifreiðastjóra í Keflavík, sem lézt fyrir skömmu.
Næsta hús í röðinni lét Olafur heitinn Ketilsson byggja og bjó þar fyrst sjálfur, en síðar var það keypt og endurbyggt af „templurum“ í Höfnum, sem notuðu það til samkomuhalds fyrir góðtemplararegluna í hreppnum.

Kotvogur

Kotvogur.

Næsti bær gekk alltaf undir nafninu Rönkubær. Þar bjó um þessar mundir Guðbjörn Björnsson, með aldraðri móður sinni, sem Rannveig hét. Þaðan mun bærinn hafa fengið Rönkunafnið.
Síðasti burstabærinn á þessari mynd hét Miðbær. Þar bjuggu þá ung hjón, Guðbjörg Þorsteinsdóttir og Jón Olafsson frá Garðbæ í Höfnum.
Þegar hér er komið upptalningunni, færumst við yfir í nútímann. Stóra húsið, sem við blasir, var laust eftir aldamótin í eigu Vilhjálms Ketilssonar. Hús þetta var nefnt Glaumbær og brann það árið 1910 eða 1912. — Kvöldið áður en það brann mun hafa verið haldinn dansleikur í húsinu, í endanum sem snýr að kirkjunni. Í þessu sama húsi bjó Vilhjálmur Hákonarson lengi miklu rausnarbúi og var reyndar þjóðkunnur maður. Hús þetta með tilheyrandi jarðnæði, hét Kirkjuvogur. Var sú jörð ávallt til stórbýla talin.
Næsta bygging er hús Friðriks Gunnlaugssonar, er hann síðar flutti til Keflavíkur, en á það var minnst í löngu viðtali við Friðrik í jólablaði Faxa 1965. Næstur á undan Friðrik bjó í þessu húsi Magnús Guðmundsson, faðir Guðmundar Ingvars Magnússonar, Hafnargötu 70 í Keflavík. Síðar byggði þessi sami Magnús sér íbúðarhús vestan við þessa bæjaröð, lengra til vinstri. Í því húsi býr nú fyrrverandi oddviti Hafnahrepps, Eggert Ólafsson. Turninn á milli húsanna er reykháfur á hlóðareldhúsi, sem tilheyrði fyrrnefndu íbúðarhúsi Friðriks heitins Gunnlaugssonar. Lengst til hægri skartar svo Kirkjuvogskirkja eins og hún er í dag. Engin teljandi breyting mun hafa verið á henni gerð nú á síðari árum.
Upplýsingar þessar hefi ég fengið hjá Ólafi Ingvarssyni, sem eins og fyrr segir, er fæddur og upp alinn þarna í þessu hverfi og því gagnkunnugur allri húsaskipan þar. – H.Th.B.“

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 2. tbl. bls. 17.
Hafnir

Prestastígur

Farið var Prestastíginn frá Höfnum að Húsatóftum – 16 km leið.

Prestastígur

Varða við Presthól.

Lagt var af stað úr Hundadal og haldið yfir Presthól, um Haugsvörðugjá og Eldvörp. Útsýni yfir að Reykjanesvita og Eldey var stórkostlegt í kvöldsólinni. Komið var við í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni, litið á fiskibyrgin ofan við Húsatóftir og gengið að Kóngshellu og Búðarsandi, skoðað í brunn við Vaðla og litið á brunninn á Stað, sem er einn sá stærsti og fallegasti á Reykjanesi.
Prestastígurinn er bæði þægileg og falleg gönguleið. Í fyrstu, þegar farið er frá Höfnum, er hún svolítið á fótinn, sendinn og gróðursnauð, en þegar komið er yfir Haugsvörðugjá verða skörp gróðurskil. Þar taka við mosar og mógróður. Sandfellshæðin, dyngja, er á vinstri hönd, en í henni er stór gígur.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Reykjavegurinn kemur inn á Prestastíginn vestan Eldvarpa, en skilur við hann er sá síðarnefndi beygir til suðurs skammt vestan þeirra. Gangan í gegnum Eldvörpin gefa tilefni til að rifja upp Reykjaneseldana 1226 og allar hamfarirnar, sem þær höfðu í för með sér. Verksummerkin má bæði sjá þarna og þreifa á.

Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Haugur

Prestastígur – Haugur framundan.