Tag Archive for: Hafnir

Kotvogur

3. Hafnir – Stóra Sandvík

Hér kemur flekakennings Alfreds Wegener í góðar þarfir…
Flekamót og Flekaskil… Um Ísland liggja flekaskil, þ.e. meginlandsflekarnir reka frá hvorum öðrum. Landið er því að stækka.

-Akkeri Jamestown
Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.
Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni. Eitt akkeri er þó enn á sjávarbotni nálægt Þórshöfn.

-Landnámsbærinn
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

-Höfnin
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur.
Gamla bryggjan var byggð um 1930 og var notuð fram til 1939. Sú nýja var byggð árið 1954 og hefur þjónað byggðalaginu síðan með breytingum og lagfæringum.

-Virkishóll, álfabýli
Saga af álfum, konu er giftist álfasveini, viðsnúningi og erfiðleikum.

-Kirkjan

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Kirkjugarðurinn – járnminningarmörk um grafir…
Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

-Gömlu-Hafnir
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einning hafa verið mörg og stór, eru bæði hlesðslur og rústir.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt utar, nær sjó, eru rústir tvíbýlis sem nefnist Hafnaeyri og talið hafa farið í eyði um 1830. Nokkuð heillegur hlaðinn garður er yst á Eyri um 15 m á kant. Þessi hleðsla varði kálgarð fyrir sandfoki. Þegar gengið er um þessa hóla nú er erfitt að gera sér í hugarlund að þar hafi áður fyrr verið stórbýli – svo vandlega hefur foksandurinn unnið sitt eyðingarstarf. En nú skal haldið til baka austur á akveginn. Af veginum efst á brekkubrúninni (4,4) ofan Laxeldisstöðvarinnar í Hundadal sjást grashólarnir í Kirkjuhöfn á hægri hönd. Greinilega sést ofan á kollinn á Stekkhól lengst til hægri. Framundan Stekkhóli er Stekkjarvik (Í Höfnum heita smærri skörð eða bugur í ströndina vik en stærri nefnast víkur). Sandhafnarhólar sjást upp af Eyri. Ströndin frá Kalmanstjarnarvör að Stekkjarviki nefnist Draugar (suður í Draugum). Syðst í Stekkjarviki er há klöpp sem nefnist Hvarfklöpp, (í henni býr álfkona segir í sögunni Marína eftir Jón Thorarensen).

Í fyrri daga bjó að Eyri við Hafnaberg ungur og dugandi bóndi. Átti hann góða konu, unga og fríða sýnum, bóndadóttur úr Grímsnesi. Í þá tíð var grasnyt lítil orðin á Eyri en sjósókn því meiri því að útræði var afbragð og sat bóndi því öllum stundum á sævartrjám. Var hin unga húsfreyja óvön slíkum búsháttum og áður en langt leið sóttu að henni mikil leiðindi. Varð bóndi óglaður mjög af þessu en fékk þó ekki neitt frekara að því gjört.
Nótt eina um haust dreymir húsfreyju að til hennar kemur há og tíguleg kona og segir við hana: „Viltu gefa mér höfuðið af þeirri skepnu sem eftir verður á morgun í skutnum hjá bónda þínum þegar skipt hefur verið afla og tekið á köstum. Mun ég hirða höfuð þetta sé það látið á naustavegginn og launa þér með einhverju þótt síðar verði.“ Að því búnu fannst húsfreyju kona þessi hverfa burt. Þessa sömu nótt rær bóndi í bíti með falli suður fyrir Hafnaberg og leggst í svonefndri Skjótastaðaholu. Beitir bóndi sig niður og dregur þar flakandi lúðu um fallskiptin en rétt í því örvast svo fiskur hjá þeim við upptökuna að ekki stendur á neinu nema grunnmáli og höndum háseta. Fengu þeir brátt góðan afla og nutu að því búnu bæði straums og vinds heimleiðis.
Þegar heim kom var borinn upp afli, tekið á köstum og skipt í hluti. Gekk þá húsfreyja til varar og kom að máli við bónda sinn og sagði honum draum sinn. Sagði bóndi henni þá að flyðra væri óskipt í skut skipsins og skyldi hann að öllu leyti gjöra samkvæmt vilja hennar. Fór þannig allt eins og fyrr er frá sagt og var höfuðið horfið morguninn eftir.
Leið svo á vetur með góðum gæftum því að ýmist var hæg átt eða andvari af landsuðri með ládeyðu og var bóndi bæði fiskisæll og byrsæll. En það er frá húsfreyju að segja að leiðindi hennar jókust svo mjög að hún tók að fara einförum. Svo var það í lok föstunnar að húsfreyja fór um lægri dagana inn að Kalmanstjörn sér til léttis og hugarbótar. Dvaldist hún lengi og lagði seint af stað heimleiðis. Segir ekki af ferð hennar fyrr en hún kemur suður að svo nefndum Kirkjuhafnarhólum. En húsfreyja var hindruð og settist þar því um stund til þess að hvíla sig.
Þegar hún stóð upp sá hún allt í einu hólinn standa opinn. Sá húsfreyja þar inn í stóra og mikla hvelfingu. Þar logaði eldur glatt í hlóðum og hékk pottur yfir í hóbandi. Fyrir framan eldinn stóð há og tíguleg kona sem hafði lítinn hnött undir handlegg sér en sprota í höndum. Varð húsfreyja hrædd við sýn þessa og hugði að flýja burt sem fljótast. En þá brá hin ókunna kona sprotanum í áttina til hennar. Runnu þá á húsfreyju töfrar svo miklir að hún gekk mót vilja sínum beint inn í hólinn til álfkonunnar.
Sú tók til orða og mælti: „Vita skaltu það að þú ert hingað komin af mínum völdum. Ég fékk hjá þér fiskinn en hef hann að litlu einu goldið þér. En ég veit að þú unir illa hjá bónda þínum hér við sjóinn. Ég mun því reyna að veita þér hjálp, þótt lítilfjörleg verði“
Tók þá álfkonan smyrslabauk og smurði bæði augu húsfreyju og mælti: „Upp frá þessu skaltu öðrum augum lífið líta og mæli ég svo um að lán fylgi þér.“
Lagði svo álfkonan hönd sína á höfuð húsfreyju og mælti fram vísu þessa:
Brimhljóð á köldu kveldi kyrrir og svæfir bezt;
hlóðirnar hlaðnar eldi huganum sýna flest,
glæður og glitruð bára gylla muna og rann,
þá gleymist sorgin sára, sætztu við byggð og mann.
Að því búnu leiddi álfkonan húsfreyju út úr hólnum og brá sprota sínum. Brá þá svo einkennilega við að töfrar allir og leiðsla hurfu jafnskjótt af húsfreyju og var sem hún vaknaði af draumi. Þó mundi hún vel eftir öllu sem fyrir hana bar og eins nam hún vísuna, er áður getur. En nú var álfkonan horfin, og á hólnum sáust engin verksummerki; hann var eins og hann jafnan hafði verið fyrr. En svo brá við að húsfreyja varð önnur eftir atburð þennan, hún mátti aldrei af heimili sínu sjá, varð bæði vinnusöm og stjórnsöm, jók kyn sitt og lifði farsællega með manni sínum til æviloka.

-Leið að Reykjanesi
Merkines, Hafnarberg, Grænhóll, brúin milli heimsálfanna, táknræn fyrir flekaskilin, (ekki rétt að skilin séu aðeins þar á milli, ná yfir stærra svæði en er undir brúnni).

-Flekakenningin
Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti. Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakka-menn, sem komu á Lýsingar-jeppum úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fíflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum – LMJ).

Árið 1912 setti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener fram vísindalega kenningu til þess að útskýra þetta. Hann hélt því fram að meginlöndin flytu á undirlagi sínu og gætu því flust úr stað. Hann taldi að meginlöndin hefðu verið ein heild, Pangea (al-álfa) fyrir um 200 milljónum ára. Þessi álfa hefði síðan brotnað upp, fyrst í tvennt, nyðri hluta (Laurasíu) og syðri hluta (Gondwanaland). Síðan klofnuðu þessi meginlönd enn frekar og bútana rak í sundur þangað til núverandi landskipan var náð.

Líklegt er að landrekið hafi fyrst borð á góma er evrópskir landkönnuðir fóru að kortleggja strendur s-ameríku og Afríku á 17. öld. Þær pössuðu lygilega vel saman.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla

-Merkines
Sunnan við þorpið er hraðahindrun á veginum (vegur nr. 425). Þar skulum við núllstilla vegmæli bílsins á nýjan leik. (Tölurnar í svigunum segja til um vegalengd frá Kirkjuvogshverfi að næstu kennileitum). Þegar ekið er út úr Kirkjuvogshverfi og sem leið liggur í suður er brátt komið að Merkinesi, býli sem er á hægri hönd. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum (þessi grein er skrifuð 2002).

-Junkaragerði

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar. Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Hann er nú lokaður allri umferð. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir“ hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar“, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.“ Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins (3,0), neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð. Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.
Önnur saga segir að að þar hafi tveir bræður búið, afarmenn hinir mestu. Þá var sjósókn mikil í Höfnunum, en þó sköruðu þeir bræður fram úr öllum öðrum Hafnamönnum; reru þeir sex- eða áttæru skipi tveir einir. Mikil öfund lék öðrum Hafnamönnum á atgjörvi og afla þeirra bræðra. Gerðu þeir margar tilraunir til að stytta þeim aldur fyrir utan það hvað þeir spilltu veiðarfærum þeirra. Oft söguðu þeir sundur keipa-nagla þeirra, en þeir reru þá við kné sér. Loksins boruðu þeir sundur árar þeirra undir skautum; en við það fórust þeir. Sagt hefur verið að þeir væru útlendir menn og af þeim taki bærinn nafn. Það er samt óviðfellt útlenzkir jungherrar færu til sjóróðra.

-Prestastígur
Prestastígur er gömul þjóðleið sem var gengin á milli Hafna og Grindavíkur leiðin er vel vörðuð alla leið. Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi, sú skýring er þó líkleg að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.
Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.

-Stofnfiskur
Sérstaða Stofnfisks er fólgin í því að í framleiðsluferlinu fara saman eftirfarandi þættir:
1) umfangsmikil kynbótaverkefni sem byggja á
sterkri sérfræðiþekkingu Stofnfisks hf.
2) afgreiðsla laxahrogna allt árið
3) gott ástand í fisksjúkdómamálum hjá félaginu
Meginframleiðsla Stofnfisks eru laxahrogn sem fyrirtækið getur afgreitt allt árið um kring. Framleiðslan á þeim nemur um 45 milljónum á ári. Að auki framleiðir Stofnfiskur hrogn fyrir regnbogasilungs- og bleikjueldi, en framleiðsla á þeim er um 30 milljónir hrogna á ári.
Auk þess hefur Stofnfiskur hafið framleiðslu á sæeyrum, líkt og í Vogum. Stofnfiskur er leiðandi í kynbótum á ofantöldum tegundum. Stofnfiskur rekur umfangsmikil kynbótaverkefni fyrir lax, bæði á Íslandi og erlendis.
Hjá fyrirtækinu starfa um 35 starfsmenn sem hafa að baki fjölbreytta menntun.

-Hafnaberg

Hafnaberg

Hafnaberg.

Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.
Höfuðborgarsvæðið er víða vel fallið til fuglaskoðunar. Tjörnin er einstök í sinni röð, því að þar er eina kríubyggðin, sem til er í höfuðborg. Auk skógarþrasta hafa auðnutittlingar og maríuerlur komið sér fyrir í borgarlandinu. Starinn hefur látið æ meira á sér bera á höfuðborgarsvæðinu eftir 1965. Fátt er um fugla við og á höfninni um varptímann, en mávategundum fjölgar, þegar líður á sumarið og í oktober er þar að finna allt að átta tegundum eftir að bjartmávurinn kemur frá Grænlandi. Á Gróttusvæðinu er upplagt að skoða fjörufuglana á vorin og haustin. Algengustu varpfuglarnir eru sandlóa, lóuþræll og sendlingur auk rauðbrystings, tildru og sanderlu, sem eru fargestir.
Á Reykjanesskaganum eru fuglabjörg í Hafnabergi og Krýsuvíkurbjargi. Þar eru toppskarfar, síla- og bjartmávar, álka, Lundi, langvía og stuttnefja. Teista býr víðast um sig í sprungum og í skjóli stórgrýtisins neðst í fuglabjörgunum. Þórshani fannst til skamms tíma við Sandgerði og sendlingur og snjótittlingur verpa umhverfis bæinn. Við Garðskagavita er eini opinberi fuglaskoðunarstaður landsins.

-Stóra-Sandvík
Nú komum við að syðri troðningnum (8,0) sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, voru stofnuð fyrir rúmum þrjátíu árum með það meginmarkmið að græða upp landið og sporna við uppblæstri og landeyðingu. Þá var þjóðin á fleygiferð inn í nútímann með tilheyrandi uppbyggingu og nýjungum og lítill ágreiningur um nýtingu náttúruauðlindanna. Menn veiddu fisk úr sjó og beisluðu fallvötn landsins til að veita birtu og yl inn á heimili landsmanna. Fátæk þjóð þróaðist á örskömmum tíma í nútíma þjóðfélag. Tækninýjungar, betri húsakynni og greiðari samgöngur hafa bætt líf okkar og auðveldað á margan hátt. En í skeytingarleysi mannsins og kappi við að lifa við allsnægtir hefur verið gengið of nærri náttúrunni sem var ætlað að klæða okkur og fæða um ókomin ár.

Áherslur í starfi Landverndar hafa breyst í takt við tímann og ný viðfangsefni á sviði umhverfismála blasa við. Heimsmyndin er önnur og vandamál sem áður voru óþekkt eða staðbundin hafa skotið upp kollinum og eru orðin sameiginleg vandamál heimsins. Fátækt, ofnýting náttúruauðlinda, eyðing regnskóga, mengað andrúmsloft, skortur á hreinu vatni, gróðurhúsaáhrif og mengun hafsins eru viðfangsefni sem voru áður ekki fyrirferðamikil í umræðunni en eru nú viðurkennd vandamál sem þjóðir heims þurfa að takast sameiginlega á við. Þar er Ísland ekki undanskilið.

-Stampar
Á árunum 1210-1230 má segja að Reykjanesið hafi logað stafnanna á milli og leikið á reiðskjálfi. Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211).
Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjóómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.

-Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta Súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði (6,7) á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina en þar mun hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (7,0) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptippingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka. Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali Hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu og blásandi borholum austan Reykjanessvita.

Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í eldsumbrotum 1830.
Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Hafnaheiði

Gengið var að Kirkjuvogsseli og þaðan að Arnarbæli um Sauðhól. Þá var ætlunin að taka stefnuna til norðausturs að Gamla-Kaupstað. Staðurinn hefir gjarnan verið settur í samhengi við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og að þar kynni að hafa verið áningarstaður. Í norðaustur frá honum átti að vera, skv. örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi, gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn; Grákolluhóll.

Fyrirhleðsla í Gjáhól

Á svæðinu hafði og spurst um vegghleðslur í gjám, sprungum og víðar.
Svæði, sem hér um ræðir, er miklu mun víðfeðmnara en virðist við fyrstu sýn. Um er að ræða heiðina millum Súlna og Hafna annars vegar og Arnarbælis og Patterssonsflugvallar hins vegar. Svæðið norðanvert var meira og minna notað til æfinga fyrir hermenn á Keflavíkurflugvelli, allt fram til þessa daga. Víða má sjá minjar eftir æfingarnar; hleðslur, byrgi, skjól, spýtnabrak, sprengjubrot og ekki síst ótal slóða eftir skriðtæki og önnur beltatól.
Skoðum fyrst örnefnalýsingu Hinriks í Merkinesi: „
Þetta eru Norður-Nauthólar. Þarna hallar landinu til norðurs og austurs, en stefna brekkuhallans er til vesturs alveg niður í sjó sunnan Kalmanstjarnar. Í norðvestur frá Norður-Nauthólum [er] stór, dyngjumynduð hæð. Hún heitir Arnarbæli.“ Nauthólaflatir eru milli Merkiness og Norður-Nauthóla. Arnarbæli er mest áberandi kennileitið í heiðinni; hátt holt með klofinni vörðu ofan á, séð frá vegi.
Þá segir í lýsinngunni um ö
rnefni, séð af veginum til Stapafells: „Um Stapafell (Stapafellsþúfu) eru hreppamörk Hafna-, Grindavíkur- og Eitt af mörgum byrgjum eftir hermenn í heiðinniNjarðvíkurhreppa. Vegurinn, sem liggur til vinstri, er Stapafellsvegur [hér er átt við gamla veginn nokkru vestan núverandi vegar]. Lautin, eða lægðin, er nefnd Lágar. Þegar suður fyrir Lágar kemur, hækkar landið og á hægri hönd er geysimikil hæðarbunga með klappahólum. Norðvestan í hæð þessari eru rústir gamlar og heitir það Kirkjuvogssel. Þar litlu ofar – til hægri – er klofinn, hár klapparhóll, sem heitir Sauðhóll. Þar er gamalt refagren undir klapparbrún mót suðvestri. Það heitir Sauðhólsgren. Dálítið ofar sjáum við bera við loft nokkrar hólóttar hæðir, það eru einu nafni Gjáhólar. Í norðaustur frá hæsta hólnum er lág, bungumynduð, lítil klöpp með tvær holur inn undir, önnur til austurs, hin til suðvesturs, þetta er Gjáhólagren. [Víða voru litlar vörður á klapparhólum. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að hér voru leiðarmerki að grenjum að ræða].
Nú komum við að miklu landsigi, er liggur langt suðvestur í Hafnaheiði og til norðausturs í Njarðvíkurheiði. Þetta landsig heitir Súlnagjá. [Súlnagjá er syðsta gjáin í hallandanum, næst Súlum. Norðar er Mönguselsgjá og Arnarbælisgjá nyrst. Gjárnar sjást betur úr suðri] Hér stönzum við og horfum til Stapafells, því að mörgu er að hyggja.
Á hægri hönd, svo sem 300 faðma til norðvesturs, er dálítil flesja milli tveggja hæða, er liggja frá suðaustri til norðvesturs. Á flesjunni er dálítill grasi gróinn hóll með Stríðstól í heiðinnilágum sperrulöguðum helli mót suðvestri, og uppi á brúninni er vörðubrot. Þetta heitir Hellisgreni. Á vinstri hönd ([til] austurs) er nokkuð stór hóll og er nefndur Urðarhóll. [Í rauninni er mjög erfitt að fylgja lýsingunni verandi á staðnum. Hinrik var þaulkunnugur á svæðinu og gat lesið landið án hindrana, en fyrir ókunnuga með þessa lýsingu í höndunum virðist hvert kennileitið öðru líkara og í rauninni öll passa við lýsinguna. Þó má nota útilokunaraðferðina, t.d. með því að gaumgæfa hvern stað vandlega, líkt og hér var gert, en það er mjög tímafrekt.] Í hól þessum var greni, Urðarhólsgreni. Greni þetta eyðilagði herliðið með jarðróti. [Að öllum líkindum er Urðarhóll ranglega merktur inn á landakort m.v. þessa lýsingu.]
Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður. Gren var í hól þessum áður fyrr, en aldrei í tíð núlifandi manna. [Hafa ber í huga að sjaldan voru gren í stórum hólum í heiðinni. Hólarnir vildu þó gjarnan stækka í augum grenjaskytta, ef þar var greni. Hinrik var mikil grenjaskytta].“
„Í norðaustur frá því, er við stöndum, er gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn. Hann heitir Grákolluhóll. Þar norðaustur af er hár, klofinn klapparhóll, Stóri-Klofningur. Dálítið ofar er annar hóll, líkur hinum, en minni, Litli-Klofningur. Báðir eru hólar þessir neðan við sjálfa heiðarbrúnina.“
Gata, þó ekki skriðdrekagata, og hóll, Gamli-Kaupstaður?Eins og fyrr sagði er heiðin norðanverð meira og minna útsporuð eftir stríðstól. Í ljósi nútíma rýni skilaði „vitleysan“ nákvæmlega engu fyrir land og þjóð öðru en því að spilla umhverfinu sem og menningarverðmætum á svæðinu. Mannvirki, hlaðin af forfeðrum vorum, hefur verið umverpt og grjótið notað í skjól fyrir erlendar skyttur, sem voru hér til tímabundinnar afþreyingar og dægradvalar. Ef einhvern tíma hafa verið fornar götur að og frá Gamla-kaupstað, áningarstað Grindavíkurútvegsbænda um aldir, eru þær nú horfnar undir skriðbelti forgenginna stríðstóla. Þó má á einum stað, um skamman veg, sjá móta fyrir götunni.
Þegar gengið er um Hafnaheiði má víða sjá gamlar hleðslur í gjám og sprungum. Sumar virðast hafa verið undir fyrrum girðingar, en aðrar hafa fáar tilvísanir aðrar en að hafa verið skjól óskráðra ferðalanga um heiðina. Hinar mörgu vörður gætu hins vegar, ef vel væri gengið, gefið hina fornu þjóðleið millum Grindavíkur og Keflavíkur til kynna. Hún mun líklega tengjast Árnastíg norðvestan við Þórðafell, eða hinum forna Prestastíg nokkru sunnar, norðan Sandfellshæðar (sjá HÉR). Þar í brúninni er forn ferhyrnd hleðsla í gróanda.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarhrepp.

Gamli-kaupstaður?

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum).

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.

Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir

Gönguferð um Hafnir.

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu.

Hafnir

Hafnir – frumdrög af meintum landnámsskála.

Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins.

Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanesbaer.is/
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Miðsel

Í örnefnalýsingu Merkiness segir m.a.:
mongusel-221„Upp frá Merkineslægðum og sunnan Arnarbælis hækkar landið ört , og austur undir mörkum rísa nokkrir brattir hólar gróðurlausir, sem nefndir eru Norður-Nauthólar. Í suðvestur frá þeim, miðja vegu að merkjum, er graslendi nokkuð, þar sem landið er einna hæst.  Þar mót norðvestri má sjá tóftir, sem nefndar eru Merkinessel.  Hvort það er sama selstaðan, sem sagt er frá 1703, að væri vatnslaus og þyrfti að þíða snjó fyrir pening, og ef hann væri ekki til, væri ekki vært í selinu (?).  Þetta er talið mjög gamalt sel.  Svo var þetta sel aflagt og fært enn innar.
Merkinsessel-221Ofan í djúpum, þröngum dal, austan við þar sem landið er hæst, eru tóftir, og er mælt, að einsetukerling, er bjó í Merkinesi, hafi haft þar í seli.  Enn í dag er þetta nefnt Möngusel. Þá skerst landið þvert af gjá, sem er frá suðvestri til norðausturs, og í þeirri gjá austanvert í landareigninni er annað sel, Merkinessel.  Það hafa margir nefnt Möngusel.  Upp frá þessari gjá, sem er nokkuð breið og óregluleg, nyrzt í landinu er mjó (?), eins og 150 faðmar, er öll gróin lyngi, valllendi.  Þar er jarðsig og hamraveggir.  Öll þessi gjá heitir Mönguselsgjá. Stefnir hún svo til suðvesturs, og syðst er hún ekki undir 300 faðma breið. Þar hættir gjáin, og við tekur Kinn, sem nær alla leið út að sjó hjá Stóru-Sandvík.Midsel-221
Suður og upp frá Mönguselsgjá hækkar landið aftur, og eru mosaþembur með hraunhólum.  Lengst til suðvesturs eru tveir einstakir hólar, nefndir Syðri-Nauthólar.  Vafi er, hvort þeir eru um merkin.  Upp frá þessu landi, sem enn hækkar, vex lynggróður.“
Ætlunin var að leita uppi hinar fornu minjar Miðsels (eldra Merkinessels), Merkinessels (hins yngra) og Möngusels. Hafnaheiðin býður ókunnugum ekki upp á mikla möguleika því hún er bæði tilbreytingarlaus og villandi göngufólki. En ef horft er framhjá hvorutveggja má með þolinmæði og góðum vilja nálgast framangreinda áfangastaði.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Merkines.

Merkinessel

Merkinessel.

Lágafellsleið

Í annarri frásögn hér á vefsíðunni má lesa um svonefnda Lágafellsleið, þ.e. forna leið milli Grindavíkur og Ósa um Lágafell og áfram yfir að verslunarstöðunum við Þórshöfn og Básenda. Í þeirri ferð tókst að rekja götuna frá Lágafelli niður í Ósabotna. Litlar vörður voru víða við þann kafla leiðarinnar. Núna var suðurhlutinn rakinn, frá Lágafelli að Árnastíg í norðvestanverðum Eldvörpum.

Lagafellsleid-22

„Á 14. öld varð skreið aðalútflutningsvara landsmanna og fiskveiðar munu hafa eflst mjög. Þar var Grindavík engin undantekning. Framan af var skreiðarverslunin í höndum norskra kaupmanna og miðstöð hennar var í Bergen. Þegar kom fram á 15. öld urðu Englendingar sífellt umsvifameiri á fiskimiðunum hér við land og í helstu verstöðvum. Í kjölfar þeirra fylgdu þýskir Hansakaupmenn sem brátt náðu yfirhöndinni í skreiðarversluninni af Norðmönnum. Hörð samkeppni ríkti milli Englendinga og annarra kaupmanna um íslensku skreiðina, og sló oft í brýnu með þeim.
Lagafellsleid-27Þegar kemur fram á 16. öld bundust valdsmenn innanlands og Hansakaupmenn samtökum um að reka Englendinga burt héðan. Þess má geta að umboðsstjórn konungs var um þetta leyti oftast í höndum þýskra manna. Englendingar höfðu aðalbækistöðvar sínar í Hafnarfirði, en voru hraktir þaðan 1518. Eftir það varð Grindavík þeirra aðalhöfn, en ekki sátu þeir lengi á friðarstóli þar. Englendingar stunduðu hér miklar fiskveiðar úr landi, og höfðu því fjölda innlendra manna í sinni þjónustu – eða allt þar til þeir voru hraktir af landi brott 1539.
Englendingar höfðu aðalbækistöðvar sínar í Hafnarfirði, en voru hraktir þaðan 1518. Eftir það varð Grindavík þeirra aðalhöfn, en ekki sátu þeir lengi á friðarstóli þar. Englendingar stunduðu hér miklar fiskveiðar úr landi, og höfðu því fjölda innlendra manna í sinni þjónustu – eða allt þar til þeir voru hraktir af landi brott 1539.
Árið 1640 hættu kaupmenn að sigla á Grindavík og tóku upp kaupskap á Básendum ís taðinn. Hefur þetta sjálfsagt verið vegna þess að ekki var óalgengt aðs kipum hlekktist á í höfninni og eitt sinn, skömmu eftir tilkomu einokunarinnar mun skip hafa farist þar. Grindvíkingar kvörtuðu sáran undan missi verlsunarinnar, enda var það þeim til mikil óhagræðis að þurfa að flytja afurðir og verslunarvörur sínar til og frá Básendum. Þá varð þetta til að fæla frá utanhéraðsmenn sem gerðu út á vertíðina. Þar var svo eftir að Brynjólfur Sveinsson biskup beitti sér í málinu að Grindavíkurhöfn var tekin upp aftur 1664.

Staðarvör

Staðarvör.

Var höfnin nú flutt í Staðarhverfi. Hélst verslun þar allt til 1745 að hún var aftur felld niður, og þurftu Grindvíkingar síðan að flytja vörur sínar á Básenda enn á ný. Var því nú borið við að höfnin væri að fyllast af sandi svo skipin tækju niðri. Til að bæta mönnum upp óþægindin var Grindvíkingum heitið flutningsgjaldi fyrir vörur sem þeir legðu inn hjá Básendakaupmanni. 

Lagafellsleid-24

Þrátt fyrir það voru þeir óánægðir með þetta ástand og stóð oft í stappi út af flutningsgjaldinu. Eftir 1745 var engin föst verslun í Grindavík í einaoghálfaöld. Sagt er að kaupmannshúsin færu í sjóinn í miklu flóði 1799. Þá brotnuðu einnig verslunarhúsin á Básendum í þessu sama flóði og féll verslun niður þar. Grindavík var ætíð með minnstu verslunarhöfnum á einokunartímanum. Hún var þó eftirsótt vegna fisksins sem þaðan kom. Jón Aðils segir í bók sinni um einokunarverslunina að Grindavík og Básendar saman hefðu verið leigð fyrir 743 ríkisdali á ári 1684, en leigan hækkað í 1150 ríkisdali 1689. Hafnirnar voru þá boðnar hæstbjóðendum. Kaupsvæði verslunarinnar náði aðeins um hreppinn, Grindavík og Krýsuvík, en öðru hvoru var verslun sótt þangað úr Höfnum, Selvogi og Ölfusi, meðan slíkt leyfðist á einokunartímanum.“
Lagafellsleid-34Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: „Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.“
Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær. Norðan í hlíðinni sést gatan mjög vel.
Sem fyrr sagði var ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Lítið sést til gömlu leiðarinnar suðaustan undir Lágafelli (þ.e. milli Lágafells og Sandfells, en þegar komið er inn á Eldvarpahraunin þar sem þau eru sléttust um mið Eldvörpin, sést gatan glögglega þar sem hún er mörkuð í hraunhelluna, allt þar til hún sameinast Árnastíg við háa og myndarlega vörðu. Á meðfylgjandi korti (því neðra) er umrædd leið grænlituð.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 301-308.

Lágafell

Varða við Lágafellsleið.

Gamli Kirkjuvogur

Gengið var um sunnanverða Ósabotna að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
osar-22Á þessari leið má velja um gömlu reiðleiðina er liggur rétt ofan við ströndina eða gamla vagnveginn. Hann, líkt og reiðleiðin, er enn sýnilegur austan túngarðs hins horfna bæjar Teigs (enn má þó sjá skorsteininn af bænum skammt austan Hafna). Ef vel er að gáð má sjá að vagnvegurinn hefur á einhverjum tíma verið útfærður í bílveg og að hætt hafi verið við þær vegabætur í miðjum kliðum. Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.
Af og til mátti þó osar-23sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. Vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna.
osar-24Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla á tveimur stöðum, sú efri hringlaga og sú neðrir ferhyrningslaga. Þarna gæti hafa verið osar-25kirkjugarður og kirkja eða bær. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir.
Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður, sem verður að teljast vafasamt. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Vikið var út af vagngötunni til suðurs vestan Illaklifs og gamalli götu niður lága brekku. Þar sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Einnig á öðrum skammt suðvestar. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kaf í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.

osar-26

Skammt austar er önnur tótt, mun stærri, og sú þriðja suðvestar. Við hana er hlaðið gerði, sennileg aupp úr eldri fjárborg, sem enn mótar fyrir. Götunni var fylgt upp brekkuna uns komið var að manngerðum stórum grónum hól á klöpp. Þarna kanna að vera dys, a.m.k. benda ummerkin til þess. Umleikis hólinn miðsvæðis er hringlaga hleðsla. Skammt þarna vestar er Gamli Kirkjuvogur. “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipan er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.“

osar-27

Kaupstaðaleiðin er falleg vagngata á melhálsi upp af Djúpavogi, en gamla þjóðleiðin liggur sunnar, að Gamla-Kirkjuvogi. Enn önnur leið, greinilega minn farin, liggur frá Djúpavogstóftunum og rétt ofan við strönina að Gamla-Kirkjuvogi. Þar á leiðinni er slétt flöt og gerði. Liggur veggur þess út í sjó, en land mun hafa sigið þarna verulega á umliðnum öldum (nokkra millimetra á ári skv. mælingum).
Gamli-Kirkjuvogur er sagður vera mjög gamall, forveri bæjanna handan Ósa. Sumir segja það þar hafi verið landnámsjörð. Sjá má þar tóftir, garða, gerði o.fl. og virðast þær allar mjög komnar við aldur. Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn osar-28prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.
Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 um „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“. Þar segir hann m.a. um Gamla-Kirkjuvog og Gamla-Kotvog, sem áttu að hafa verið norðan Ósa en ekki sunnan eins og síðar varð. „Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna.
Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, osar-29þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn. Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.

osar-30

Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«. Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.

osar-31

Hér virðist »Djúpivogur « vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla. Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.

osar-33

Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla á tveimur stöðum, sú efri hringlaga og sú neðrir ferhyrningslaga. Þarna gæti hafa verið kirkjugarður og kirkja eða bær.

osar-32

Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður, sem verður að teljast vafasamt. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi. Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
osar-34Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.
Áletranir eru á klöppum austan við Þórshöfn. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrím Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644).

osar-35

Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.
Gengið var út með víkinni beggja vegna og festarhringjanna leitað. En þrátt fyrir útfjöru fundust hringirnir ekki. Jón Borgarson í Höfnum kvaðst hafa siglt þangað yfir fyrir nokkrum árum og þá m.a. litið festarhringina augum. Næsta skref verður að fara með Jóni í Þórshöfnina og skoða hringina.
Vestan þræsingur stóð inn í Ósana og því auðvelt að ímynda sér við hvaða aðstæður þurfti að takast á við er koma þurfi vélavana skipunum inn fyrir skerjagarðinn og inn í örugga höfnina í Þórshöfn. Utan hennar var hvítfyssandi öldurótið, en innan var lygna og angurværð. Auðvelt var að sjá fyrir sér hversu góð Þórshöfn var skipum hér fyrr á öldum.

osar-37

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum.
osar-38Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
osar-36Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
osar-39Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: „Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“ Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður „klinker“ sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Jón Thorarensen

Í greinasafni MBL.is má finna eftirfarandi minningarskrif Valdimars Briem að Jóni Thorarensen gegnum:

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

„Jón Thorarnesen var fæddur 31. október 1902 og dó 23. febrúar 1986. Hann ólst upp í Kotvogi í Höfnum. Þegar sr. Jón var fimm ára, var hann tekinn í fóstur af mikilhæfum merkishjónum í Kotvogi: Katli útgerðarmanni og bónda Ketilssyni og Hildi Thorarensen, sem var föðursystir sr. Jóns. Hjá þeim fékk hann gott uppeldi, eins og ætla má. Var honum unnað af þeim hjónum og öllu heimilisfólki. Kotvogsheimilið var menningarheimili í gömlum stíl og umsvif mikil við útgerð og verulegan landbúnað. Heimilisfólkið kunni firnin öll af gömlum ættarsögum frá Útnesjum, þjóðsögum og ævintýrum. Allt var krökkt af dularfullum vættum, sumum góðum, öðrum illum. Sjódraugar voru á sveimi, álfar ávallt nálægir og höfðu tíð samskipti við mennska menn, áttu jafnvel ástarævintýri með þeim. Álagablettir voru, þar sem ekki mátti hrófla við. Ef því var ekki hlýtt, hlaust af því illt gengi. Menn voru draumspakir og forvitrir og vissu margt um óorðna hluti, hvort heldur þeir voru til góðs eða ills.

Jón Thorarensen

Útnesjamenn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón Thorarensen fæddist í Stórholti í Saurbæ vestur 31. október 1902. Foreldrar hans voru Bjarni Jón bóndi og seinna bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, Jónssonar prests í Stórholti, er var sonur Bjarna amtmanns og skálds á Möðruvöllum í Hörgárdal, og kona hans, Elín Jónsdóttir. Hjónunum í Kotvogi duldist ekki, að fóstursonurinn var góðum gáfum gæddur, bókhneigður og vel fallinn til mennta. Um fermingaraldur hóf hann nám í Flensborgarskóla og lauk þar burtfararprófi 1918. Þaðan lá leiðin í menntaskólann og tók sr. Jón stúdentspróf árið 1924. Hann settist í guðfræðideild Háskólans haustið 1925 og lauk embættisprófi vorið 1929. Prestvígður var hann til Hruna í Árnesþingi 18. maí 1930. Ungur að árum fór hann að safna þjóðsögum og viða að sér fræðslu um þjóðhætti. Þá er sr. Jón kunnur fyrir skáldsögur sínar. Fyrsta skáldsaga hans, Útnesjamenn, kom út 1949 og vakti mikla athygli. Næst kom Marína 1960. Hafa báðar þessar sögur verið endurprentaðar og seinni útgáfurnar því nær útseldar. Enn átti sr. Jón eftir að skrifa skáldsöguna Svalheimamenn 1977 og loks bókina Litla skinnið, með blönduðu efni.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón var allra manna fróðastur um sjósókn í gamla daga og varðveitti í ritum sínum fjölda orða úr fornu sjómannamáli, sem er tungunni mikils virði. Um þetta efni gaf hann út tvær bækur gagnmerkar. Hin fyrri er Sjómennska og sjávarstörf 1932 og hin síðari Sjósókn 1945. Þá tók hann saman sagnabálkinn Rauðskinnu, sem fjallar um mannlíf og sagnir úr Höfnum og nágrenni.
Jón var velmetinn rithöfundur og heiðursfélagi í Félagi íslenskra rithöfunda frá 1982. En tæplega var hann metinn að verðleikum. Ritverk hans munu lifa lengur en mörg þau sem hærra hefur verið hossað á síðustu áratugum. Á efstu árum sínum tók sr. Jón að mála myndir, enda maður listrænn. Hann málaði einkum landslagsmyndir og bera þær vott næmum smekk hans og góðu handbragði. Sæmdir hlaut hann af opinberri hálfu, m.a. Fálkaorðuna. Heiðursborgari Hafnahrepps var hann.
Að ytra útliti var sr. Jón maður fríður sýnum. Röskur meðalmaður á hæð og þrekinn. Vörpulegur á velli, virðulegur og prúðmannlegur í framkomu og kurteis. Það var tekið eftir honum á götu. Þó að hann væri alþýðlegur í viðmóti, duldist ekki, að honum fylgdi höfðingjabragur, enda stórmenni í ættum hans.

Jón Thorarensen

Ingibjörg og Jón.

Síst má gleyma því að á bak við sr. Jón stóð góð og mikilhæf kona, frú Ingibjörg Ólafsdóttir. Þau gengu í hjónaband nokkrum dögum eftir að hann var vígður til Hruna. Minnisstæð eru þau sr. Jón og frú Ingibjörg er þau stóðu við altari Dómkirkjunnar að lokinni vígslu hans. Glæsileg, ung kona. Sambúð þerra var alla tíð ástúðleg og var frú Ingibjörg sr. Jóni oft hollur ráðgjafi. Hún stóð stöðug og virk í starfi prestskonunnar, sem er ábyrgðarfullt og þýðingarmikið. Frú Ingibjörg var formaður Kvenfélags Nessóknar áratugum saman og átti sinn mikla þátt í því að Neskirkja komst upp, þar sem áður hafði engin kirkja fyrirfundist. Fyrir félagsstörf var frú Ingibjörg sæmd Fálkaorðunni. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru: Hildur, Elín og Ólafur.“ – (Vald. Briem)

Heimild:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/34/

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur í Höfnum.

Kotvogur

Gengið var um Hafnir, en athyglinni var þó fyrst og fremst beint að hinum gömlu býlum Kirkjuvogi og Kotvogi. Austan við Kotvogsbæinn gamla er fallega hlaðinn brunnur, sem að mestu er gróið yfir.

Kotvogur

Kotvogur.

Hafnir eru heitið yfir gamla Kirkjuvogshverfið. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði. Kirkjuvogusbærinn var á hólnum gegnt kirkjunni, en ummerki eftir hann eru nú horfin.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogur.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn.

Kotvogur

Kotvogur.

Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.
Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni.

Kotvogur

Kotvogur.

Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón. Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kotvogur

Kotvogur.

Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Hún er ágæt áminning um aðstæður þær er ábúendur í Kirkjuvogi og Kotvogi þurftu að búa við við fyrr á öldum.

Heimildir m.a.:
-http://www.leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var um Gamla-Kirkjuvog.
Þar, norðan Ósa, má enn sjá bæjarhólinn forna. Á honum mótar fyrir hleðslum. Skammt sunnar eru grónar og sandorpnar hleðslur á tveimur lægri hólum. Vestar sést Svæðiðgreinilega bogadreginn jarðlægur garður og nokkru austar manngerður hóll (dys?), virki eða eftirlitsstaður. Er hann jafnframt ein áhugaverðasta fornleifin á svæðinu. Enn austar eru tóftir við suðaustanverðan Djúpavog (hóll, brunnur og gerði). Enn austar, handan Djúpavogs, eru leifar a.m.k. tveggja selja.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 um „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“. Þar segir hann m.a. um Gamla-Kirkjuvog og Gamla-Kotvog, sem áttu að hafa verið norðan Ósa en ekki sunnan eins og síðar varð.
„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar.
KaupstaðagatanEr löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn.
Gamli-Kirkjuvogur - 2Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.
Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«.
Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Gamli-Kirkjuvogur - 3Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi. Hér virðist »Djúpivogur « vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla.
Gamli-Kirkjuvogur - 4Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.
— Hannes hét maður, Erlendsson, er var á Stafnesi hjá Guðna sýslumanni Sigurðssyni og fluttist með honum að Kirkjuvogi 1752. Um Hannes er þess getið í riti séra Sigurðar, að hann hafði oft farið i Geirfuglasker á tólfæringi. Þá var skerið sem kýrfóðurvöllur að stærð, og alþakið fugli. Nú er skerið alveg í kafi. Efni þess var móberg, og hefir sjórinn smámsaman máð það burtu.
Gamli-Kirkjuvogur - 5Á dögum Guðna sýslumanns fékkst sáta af heyi þar sem nú heitir Kirkjusker fyrir framan Kotvog. Það er nú þangi vaxið. Þetta sagði séra Sigurði Gróa Hafliðadóttir, merk kona í Kirkjuvogi, en henni hafði sagt Ragnhildur Jónsdóttur, er var ráðskona Guðna sýslumanns á síðustu árum hans. Hún komst á níræðisaldur og var einkarfróð kona. Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland. Nú í seinni tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.“

Gamli-Kirkjuvogur - 6

Í Morgunblaðinu 2001 er frétt undir fyrirsögninni „Sækja um styrk til fornleifarannsókna í gamla Kirkjuvogi“. BYGGÐASAFN Suðurnesja og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar hafa sótt um styrk úr Kristnihátíðarsjóði til að láta gera fornleifarannsóknir á gamla Kirkjuvogi í Höfnum í Reykjanesbæ. Áætlað er að rannsóknirnar hefjist á miðju næsta ári og taki tvö ár.
Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Í skýrslu um fornleifaskráningu á Miðnesheiði sem Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur vann fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, en eyðibýlið er inni á varnarsvæðinu, kemur fram að jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á
sextándu öld. Kirkjuvogur var fluttur suður fyrir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.
Gamli-KotvogurTil aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur gamli Kirkjuvogur en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur. Í skýrslu Ragnheiðar kemur fram að afar áhugavert væri að ráðast í fornleifarannsókn í gamla Kirkjuvogi. Bæjarhóllinn sé óspilltur af nútíma-framkvæmdum. Hóllinn er rúmir 23 metrar á lengd, 10 á breidd og tveggja metra hár þar sem hann er hæstur. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Bæjarhólnum stafar hætta af landbroti eins og fleiri minjum í gamla Kirkjuvogi. Skammt vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti. Norðan við hólinn eru ógreinilegar leifar túngarðs úr grjóti.
Gamli-Kotvogur - 2Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarð í Kirkjugarði í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð. Lengra frá er sel, Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðar rústir og nokkrar sagnir til um það. Einnig eru heimildir um blóðvöll sem nefnist Beinhóll og fleiri minjar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Suðurnesja, segir að fornleifaskráning Ragnheiðar Traustadóttur staðfesti mikilvægi fornleifarannsóknar í gamla Kirkjuvogi. Hún segir að ef fjármagn fáist verði ráðinn fornleifafræðingur eða stofnun í tvö ár til að annast rannsóknina.
GeirfuglinnHún segir að áhugi sé á að nýta rannsóknina einnig í þágu bæjarfélagsins og íbúa þess. Þannig hafi komið upp hugmyndir um að bjóða nemendum skólanna að fylgjast með rannsókninni, með því að koma í heimsóknir og fá útskýringar sérfræðinga. Einnig mætti hugsanlega nýta rannsóknina við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu sem unnið hefur verið að á Suðurnesjum.“
Hér að framan er greinilega verið að lýsa rústunum við Djúpavog sem Brynjúlfur segir að kunni að hafa verið gamli Kotvogur eða bærinn Djúpivogur.

Geiri

Í Morgunblaðinu 2002 er frétt um uppgröft í Höfnum, „Skáli og útihús frá landnámsöld fundin í Kirkjuvogi í Höfnum – Hugsanlegt að þar sé bær Herjólfs Bárðarsonar fóstbróður Ingólfs“. Þar segir: „FUNDNAR eru minjar sem taldar eru vera frá landnámsöld, skammt frá Kirkjuvogskirkju í Höfnum, að öllum líkindum skáli og útihús. Forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar telur ekki fráleitt að fundinn sé bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stjórnar skráningu fornminja í Reykjanesbæ. Þegar farið var að skoða loftmyndir af Höfnum taldi hann sig strax sjá móta fyrir landnámsskála. Í fyrradag var grafin hola ofan í miðjan skálann og þar fengust vísbendingar um að kenning Bjarna væri rétt þótt frekari rannsóknir eigi eftir að fara fram. Komið var niður á heillegt gólf frá landnámsöld og hleðslu sem talið er að geti verið úr langeldinum. Þarna fannst brot úr brýni og af járnhring, viðarkol og soðsteinar.

Hafnir

Landnámsskáli í Vogi í Höfnum.

Bjarni telur allar líkur á að þarna hafi verið skáli og útihús á landnámsöld. Hann sér móta fyrir 5 öðrum tóttum á svæðinu og garði.
Jón Borgarsson, sem lengi hefur búið skammt frá þessum stað, sagði að nú áttuðu menn sig á því hvað þeir hefðu verið vitlausir að vera ekki búnir að sjá þetta út fyrir löngu. Allt Reykjanesið tilheyrir landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, rifjar það upp að Ingólfur hafi gefið vini sínum og fóstbróður, Herjólfi Bárðarsyni, landið milli Vogs og Reykjaness. Hann hafi búið í Vogi sem menn hafi til þessa helst talið að væri gamli Kirkjuvogur, sem er norðan Ósabotna.
Hafnir - skiltiFornleifafundurinn geti bent til þess að Herjólfur hafi byggt bæ sinn þar sem nú eru Hafnir en hann verið fluttur yfir Ósbotna 100 árum síðar. Fyrir liggi að bærinn hafi á 16. öld verið fluttur til baka en Kirkjuvogsbærinn stóð eftir það skammt frá kirkjunni og þá um leið gömlu tóttunum. Sigrún Ásta segir að þetta sé mikilvægur fornleifafundur. Mikilvægt sé að hefja viðamikla rannsókn á staðnum og víðar því Reykjanesið hafi lítið verið rannsakað. Tóttirnar eru inni í miðju byggðahverfinu í Höfnum og þær gætu nýst við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.“ (Sjá meira HÉR.)

Geirfugladrangur

Um Geirfuglasker (Geirfugladrang) var nýlega fjallað í Fréttablaðinu: „Á þessum degi árið 1972 kom í ljós að Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hafði hrunið eða sokkið í sæ. Dranginn er grunnlínupunktur landhelginnar, vestasti viðmiðunarpunktur og var áður um 10 metra hár. Í dag kemur hann aðeins upp úr sjó á fjöru.
Fréttir af því að Geirfugladrangur hefði horfið bárust seinnipart dagsins en það var mótorbáturinn Venus frá Hafnarfirði sem tilkynnti landhelgisgæslunni um hvarfið. Báturinn hafði verið á veiðum þar nærri, sem dranginn hafði staðið og var hvergi sjáanlegur þegar skipsverjar fóru að svipast um eftir honum. Varðskip á staðnum voru send til að kanna málið. Nokkrar umræður sköpuðust um það hvort reglugerðin um hina þá fyrirhuguðu fimmtíu mílna landhelgislínu yrði að endurskoða og gildandi landhelgi. 

Leifar

Nokkrum dögum eftir hvarfið gaf forstjóri Landhelgisgæslunnar út þá yfirlýsingu að atvikið hefði engin áhrif á landhelgina. Ekki var ljóst hvort hafið hafði sorfið drangann niður eða hvort jarðsig hafði orðið. Í kjölfarið lýstu margir því yfir að merkja þyrfti drangann vel þar sem hann væri orðinn eitt helsta blindsker landsins.“

Þegar gengið var eftir Kaupstaðaleiðinni frá Þórshöfn að Djúpavogi mátti glögglega sjá að hún hafði verið unnin á köflum, en látið hefur nægja að kasta annars staðar úr götunni. Leiðin endar annarsvegar við austanverða Þórshöfn þar sem líklegt er að verslunarhúsin hafi staðið forðum og hins vegar ofan og vestan Djúpavogs.
Leifar-2Frá Gamla-Kirkjuvogi er, auk Kaupstaðaleiðarinnar, önnur gata nær sjónum. Liggur hún yfir að tóftunum fyrrnefndu suðvestan Djúpavogs. Þegar svæðið neðan við Gamla-Kirkjuvog var skoðað af gaumgæfni kom í ljós hringlaga hleðsla við götu er legið hefur austan við suðaustasta rústahólinn. Þar gæti hafa verið brunnur fyrrum.
Varða ofan Gamla-KirkjuvogsÞegar skoðað var allnokkuð upp í heiðina ofan við Gamla-Kirkjuvog kom svolítið sérkennilegt í ljós; fornar hleðslur á klettastöllum, sem víða má sjá þar uppi. Dátar á 20. öld hafa gert sér hreiður víðsvegar í heiðinni, en þessar mannvistarleifar eru miklu mun eldri. A.m.k.fjórar hleðslur eru á þremur stöðum og er ein þeirra gróin að mestu. Þær virðast hafa verið ca. 250×120 cm. Einungis sést neðsta steinröðin, sú er mótað hefur mannvirkið á hverjum stað. Líklegt er að það hafi verið gert úr torfi, en það fokið frá líkt og heiðin öll. Erfitt er að geta sér til um hlutverk þessara leifa. Gömul varða er við tvö þeirra. Þau gætu hafa verið smalaskjól þótt heiðin beri ekki með sér að hafa fóstrað fé.
Brunnur?Stafsnessel, sem er þarna skammt frá, bendir þó til annars. Þau gætu líka hafa verið einhvers konar geymslustaðir eða jafnvel grafir þar sem urðað hefur verið yfir viðkomandi. Þá er ekki ólíklegt að um hafi verið að ræða gerði er ungir yrðlingar hafa verið geymdir í til að laða að fullorðna refi svo auðveldara hafi verið að ná þeim, a.m.k. benda leifar af ævagömlum refagildrum í nágrenninu til þess að svo geti hafa verið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 41-42.
-Morgunblaðið 5. okt. 2001, bls. 22.
-Morgunblaðið 1. des. 2002, baksíða.
-Fréttablaðið 22. mars. 2010,  bls. 18.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur