Færslur

Sundhnúkar

Jón Jónsson jarðfræðingur tók upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dró þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í Sundhnúkagígaröðinni. Strangt til tekið ætti því að tala um Sundhnúksgíga og Sundhnúkshraun. Hnúkurinn er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund. Þeir sem sóttu sjóinn þurftu að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem báturinn færðist nær landi.
Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi: „Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Heiðarvörðu/Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“ Stamphólsvarðan er nú horfin vegna nýbyggðar.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Varir Járngerðarstaðabænda voru vestan Hópsins, þ.e. Suðurvör, Skökk (Stokkavör), Norðurvör og Staðarvör. Hópsvörin var austan við Hópið.
“Skip Járngerðarstaðabænda reru úr [Norðurvör og Suðurvör], en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan reru skip Skálholtsstóls á meðan enn var útræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað”, segir í Sögu Grindavíkur I.
1703: “Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans…Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa á stólsins skipum…”JÁM III.

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

“Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör, sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör”, segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
“Innan við Staðarvör tók við malarkampur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur …” segir í Sögu Grindavíkur I.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Stórgrýtt fjara neðan sjávargarðs og um 200 m austan við Suðurvör, verbúðirnar voru upp af henni. Engin ummerki um lendinguna eru nú greinileg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þess má geta að þekking á leiðarmerkjum hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda reru margir aðkomumenn frá Grindavík og þar var lengi aðalverstöð Skálholtsstaðar.

Heimild m.a.:
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – https://www.facebook.com/arnastofnun/

Grindavík - kort 1751

Uppdráttur Christophs Klogs af Grindavíkurhöfn frá 1751, Staður og Húsatóftir vestast og Járngerðarstaðir og Hóp austast. Grynningar og sker sýnd með ýmsum táknum. Skjalið er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

 

Hóp

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson er nam Selvog og Krýsuvík.

Hóp

Líkleg bólfesta fyrsta landnámsmannsins í Grindavík. Uppdráttur ÓSÁ.

Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur en minni að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið.)

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.

Túnakort

Hóp – Túnakort 1918.

Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.
Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.

Hóp

Hópnes – kort ÓSÁ.

Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir. Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.
Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftast Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi), en Gnúpur eða Björn á Stað og hinn á Húsatóftum.
Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri okkur. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum.
Í Krýsuvík er landnámsmaður talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið. Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu.

Engar heimildir eru um tilvist Grindavíkur á 12. og fram eftir 13. öld. Talið er að byggðin hafi lagst af á meðan á eldgosahrinutímabilinu stóð ofan bæjarins sem og næstu áratugina eftir að því lauk.

-Úr Þættir um átthagafræði Grindavíkur – Jón Gröndal tók saman 1992.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hóp

Ari Gíslason skráði örnefni í Hópslandi eftir feðgunum á Hópi í Grindavík.

Grindavík

Neðri-Hópsvarðan.

Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga…

Hóp

Hóp – örnefni.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötludys

Ætlunin var að reyna að staðsetja bæ Molda-Gnúps Hrólfssonar, fyrsta landnámsmannsins í Grindarvík og sona hans. Hann átti fjóra sonu, sem taldir eru hafa búið í þremur höfuðhverfum Grindvíkinga, og eina dóttur, Iðunni, er fluttist að Þjóstur á Álftanesi. Synirnir voru: Þórður leggjaldi, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Björn, síðar nefndur Hafur-Björn, sem hafa að öllum líkindum allir sest að í og við Grindavík. Hafa ber í huga að nefndur Molda-Gnúpur kom til landsins um 930.

Hóp

Tóftir á Hópi – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var um svæðin í fylgd Sigurðar Ágústssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Grindavík.
Gamlar tóttir eru bæði suðaustan við Þórkötlustaði og á túni austan við Bjarmaland (Einland). Austasta sjávargatan liggur niður frá Klöpp austan við Buðlungu og enn sést marka fyrir miðgötunni austan við Þórkötlustaði (Miðbæ). Áhugaverðasta tóttin er ferningslaga upphækkaður reitur á nokkuð sléttu túni. Greinilegt er að honum hefur verið hlíft af ásettu ráði því slegið hefur verið í kringum hann. Enginn virðist kunna skýringu á þessari tótt. Hún líkist helst haug eða dys. Mikilvægt er að finna út hvað þetta getur verið.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Birgir Guðmundsson leiddi hópinn um Hópssvæðið. Skoðað var gamla bæjarstæðið norðan við fjárhúsin. Það er á og sunnan í hól. Gamalli tótt, sem þar er, hefur aldrei mátt raska, svonefnd Goðatótt. Þegar staðið er upp á hólnum sést, ef vel er að gáð, mjög gömul jarðlægð tótt, nokkuð stór, norðaustan við hann (við suðvesturhornið á Móum). Út frá henni liggja gamlir grónir skeifulaga garðar upp að greinilega mjög gömlum megingarði er virðist hafa umlukið tóttina ofan frá.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ef garðinum er fylgt til vesturs er komið að hól, sem gæti verið forn bæjarhóll. Suðvestan við hólinn er gömul jarðlæg tótt, lík hinni. Birgir sagðist hvorki kannast við þessar tóttir né garðinn. Hann hefði aldrei velt þeim fyrir sér. Ofan við megingarðinn er steingarður. Hann liggur nú frá eystra íbúðarhúsinu til austurs og beygir síðan til suðurs, líkt og gamli garðurinn. Í beygjunni er hann farinn að þynnast verulega. Birgir sagði að tekið hefði verið úr garðinum á sínum tíma – þegar grjótið var einhvers virði og hægt var að selja það. Þessi garður hafi áður einnig legið áfram langt til vesturs í átt að Stamphólsgjá.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var að tóttum Hópskots, sem er norðan undir vegg Stakkavíkurfiskverkunarinnar, og eftir hafnargötunni að hópsvörinni og Vatnstanganum neðan hennar, skammt vestan við neðri innsiglingavörðuna.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Austan við garðana er greinilega gömul leið austur í hverfi. Norðan hennar liggur beinn hestavegur til austurs og vesturs. Birgir sagði þetta vera gömlu hestagötuna frá Járngerðarstaðahverfi austur í Þórkötlustaðahverfi. Við götuna á vinstri hönd þegar hún er gengin til vesturs er ílangur gróinn hraunhóll. Birgir sagði að hann hafi ávallt gengið undir nafninu Álfakirkja. Enn lengra til suðurs er hóll, sem nefndur var Öskuhóll. Þar mun ösku hafa verið dreift áður fyrr. Hann er nú algróinn. Skammt vestar og hægra megin við reiðgötuna er greinilega mjög gömul tótt með tveimur rýmum. Ofan hennar er efri innsiglingarvarðan. Birgir sagði að hvorki faðir hans né afi hafi vitað til hvers þessi tótt hafi verið notuð.
Birgir hafði undir höndum örnafnalýsingu á Hópslandi og Þórkötlustaðalandi, m.a. frá 1926, sem hann gaf afrit af. Tækifærið var notað til að rissa upp svæðið. Teikningin hefur nú verið fullgerð.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Litið var á dys Járngerðar í Járngerðarstaðahverfi og á bæjarhólinn á Járngerðarstöðum. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar eru núverandi húsin á eða utan í gamla hólnum. Helst væri hægt að finna minjar í hól norðan og aftan við þann hól.
Í Staðarhverfi hafa túnin verið sléttuð út, enda mikið sandfok mætt þar á. Ef taka á mið af eina hlaðna grjótgarðinum, sem þar er, hefur sandurinn hlaðist upp túnmegin við hann og hulið það, sem þar kann að hafa verið. Í túninu suðvestan við kirkjugarðinn og sunnan við gamla bæjarstæðið, eru hólar. Í öðrum þeirra er gamall bær, sem hét Krukka. Ekki er vitað hvað kann að leynast í hinum hólnum.

Húshólmi

Minjasvæði við Húshólma, ofan hinnar fornu Krýsuvíkur neðan (G)Núpshlíðar.

Leitt er að því líkum að Þórður leggjandi hafi búið í Staðarhverfi og Þórðarfell norðan þess verið nefnt eftir honum. Hafur-Björn hafi búið í Þórkötlustaðahverfi (Hópi) og Þorsteinn hrungnir hafi búið á Járngerðarstöðum. Vitnað er í það í örnefnaskránni að Hóp kunni að hafa áður heitið Hof. Hof er einnig til í Álftafirði þar sem Molda-Gnúpur kom að landi, eins og reyndar flestir landnámsmanna, og settist að. Ef rétt reyndist ætti að vera hægt að finna bæ sonar Hafur-Björns á þessum stað – einu hentugasta svæðinu til slíkrar staðsetningar í Grindavík. Tóttirnar tvær sem og gróinn bæjarhóll á Hópi er mjög forvitnilegt til frekari skoðunar.
En hvar bjó þá Molda-Gnúpur Hrólfsson? Undir (G)Núpshlíðarhálsi. Sýnilegar tóftir í Húshólma og Óbrennishólma gætu verið minjar eftir hann eða afkomendur hans…

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Hóp

Gengið var með Tómasi Þorvaldssyni, útgerðarmanni í Grindavík, um Hóp og Nes.
Fyrst var farið að Fornuvör neðan Járngerðarstaða. Vörin sést enn vel og er skammt vestan við Brimbrjótinn (neðan við fjárhúsin). Þá leið fóru m.a. Tyrkir þegar þeir komu til Grindavíkur 1627 og hnepptu allt heimilsfólkið á Járngerðastöðum í fjötra. Fólkið var rekið niður sjávargötuna og niður í Fornuvör. Þá var litið á lifrapressuna úr lifrabræðslu Einars í Einarsbúð, en hún stendur undir gafli eins húsanna niður við sjó.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Við Hóp eru gömul hús og fornar tóttir. Talið er að einn sona landsnámsmanns Moldar-Gnúps hafi sest þar að og þá nefnt staðinn Hof, sem síðan hafi breyst í Hóp. Í nágrenni staðarins má sjá margt minja. Þar eru t.d. tóttir forns átrúnaðar, auk þess sem gamla austurleiðin er þar vel mörkuð á kafla. Reyndar eru leiðirnar tvær, svo til hlið við hlið, sem bendir til að þar hafi verið talsverð umferð um tíma. Gróið er yfir göturnar, en þær sjást þó vel.

Hóp

Hópsvörin.

Neðan við Hóp sést enn móta fyrir gamalli bryggju, sem þar var gerð við Hópsvörina innri. Bátar komust inn yfir eiðið, Barnasundið, á flóði og var þessi vör þá notuð. Ofan við vörina er tótt af gömlu fiskhúsi.

Í Nesi var býli. Enn má sjá sjóbúð, bátarétt og mjög heilleg hús – svo heilleg að nægilegt væri að refta yfir og setja framgafl á þau til að koma þeim í gagnið aftur. Svæðið býður upp á mikla möguleika. Þarna eru mjög heillegar minjar svo til inni í miðjum bæ er auðvelt væri að endurgera. Búið er þó að þrengja verulega að svæðinu með greftri og jarðraski hingað og þangað, auk þess sem búið er að sturta möl og rusli svo til alveg að minjunum. Ofar eru heilir þurrkgarðar og byrgi. Utar var Hópsvörin ytri. Enn markar fyrir henni utan við varnargarðinn.

Grindavík

Varðan Sigga austan Síkis.

Öllum sjóbúðum, sem voru uppi á kampinum, hefur verið rutt um kolli. Notað var tækifærið og svæðið rissað upp eftir lýsingu Tómasar.
Sigga, eða Digra-Sigga, var skoðuð. Hún er varða er þótti mikil um sig hér áður fyrr. Nú er hún ekki svipur hjá sjón. Sigga og varða nær kampinum, Sundvarðan, voru merki skipverja, sem komu að austan, að nú væri komið inn á djúpsundið og venda ætti að leiðinni inn. Þá tóku við Svíravarða og Stamphólsvarða, en þær hafa báðar verið vel varðveittar.
Frábært veður.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hóp

Fimmta Minja- og söguskiltið af sex í Grindavík verður afhjúpað við Hópið laugardaginn 11. október n.k. Staðsetningin sem og dagskráin verða auglýst á www.grindavik.is er nær dregur.
KortiðÍ Manntali 1880 var bæjarstæðan að Hópi nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á hinum ýmsu tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má og sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness, auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Hóp

Um var að ræða fyrsta áfanga af fjórum í menningar- og sögutengdri ferð í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins í tilefni að Gönguhátíð í Grindavík 2009.
KvíabryggjaFerðin hófst við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. 105 manns gengu niður á hafnarsvæðið, Kvíabryggju, þar sem rifjuð var upp 70 ára gömul saga af forsögu og opnun Hópsins. Rifið var grafið út árið 1939 með handafli og Hópið opnað fyrir vélbátum þess tíma. Áður höfðu Hópsbændur opnað rifið á öðrum stað fyrir umferð smærri árabáta. Alla tíð síðan hafa verið framkvæmdir í Hópinu er ýmist hafa miðað að því að dýpka það eða byggja viðlegu- og löndunarbryggjur. Í dag er Grindavíkurhöfn ein besta höfn landsins og um hana fara mest aflaverðmæti á ári hverju.
Staldrað var við Fiskmarkaðinn og aðstöðu Björgunarsveitarinnar Þorbjörn áður en rifjuð voru upp eyktarmörk tengd Miðaftanshól.

Hópurinn

Þá var gengið að tóftum gamla Hópsbæjar og Neðri-sundvörðu. Þar var vígt fimmta söguskiltið sem sett er upp í Grindavík og nú í Hópshverfi. Þar mátti má sjá ýmsar minjar, s.s. tóftir gamla torfbæjarins á Hópi og jafnvel minjar um landnámsskála Molda-Gnúps, landnámsmanns Grindavíkur.
Gengið var með strandlengjunni áleiðis að Eyjagarði, hafnarbakkanum sem reistur var í Vestmannaeyjagosinu, og að minjum á Hópsnesi. Í ferðinni var og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Maríuvöndullinn var t.d. í miklum blóma í austanverðu Hópstúninu þessa kvöldstund.

Miðmundarhóll

Þegar komið var að söguskiltinu við Hóp mátti m.a. lesa eftirfarandi: “Þú ert ofan við Vatnstanga norðan við Hópið, núverandi hafnarlægi Grindvíkinga. Til hægri handar eru tóftir gamla bæjarins á Hópi. Í Manntali 1880 var bæjarstæðan nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).

Hóp

Húsið Hóp var byggt árið 1935 af Einari Einarssyni í Garðhúsum og húsið Sjónarhóll var byggt af Guðmundi Þorsteinssyni árið 1951. Á túnakorti frá 1918 var hlaðin sundvarða þar sem íbúðarhúsið er nú. Rétt neðan við húsið Hóp er rúst. Hún mun vera leifar þurrabúðar sem byggð var ábúanda um tíma frá Þórkötlustöðum fyrir aldamótin 1900. Útihús var þarna skammt vestar.
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á ýmsum tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Hún hefur verið endurbyggð til annarra nota líkt og flest önnur mannvirki á svæðinu.

Goðatóft

Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness (síðasta íbúðarhúsið var flutt yfir Hópið á bát og er nú Túngata 9), auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa. Elsta bryggjan neðan við Hópskot er sýnd á uppdrættinum, en hún er nú horfin og aðrar nýrri teknar við hlutverki hennar.
Auk örnefnanna má sjá ýmiss gömul mannvirki í Hópinu á þessu sögu- og minjakorti.

Landnám

Gerðistóft

Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..? Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?
Í Landnámu segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra… En um vorið eftir fóru þeir  Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.”

 

Ískofi

Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar. Í örnefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, „sem hefur um langt skeið hefur verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þórkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum.
Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.”

Gamla

Á túninu umhverfis gamla bæinn eru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert sjónmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir þeirra eldri verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess hefur verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa. Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk. Um er að ræða áhugaverðar minjar, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu í Landnámu.

Hóp

Hópsgatan

Í Jarðabókinni 1703 segir að „öngvar engjar” séu á Hópi. Þar var þá tvíbýli. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.” Þá eru þarna kýr, hestar og fé hjá báðum ábúendum. „Heimræði árið um kring og lending hin besta sem hjer í sveit er, en ærið lángt að setja, nema með flóði verði lent. Þar gánga vetur og sumar skip heimabænda. Item áttrætt skip stólsins og fylgir því búð og vergögn, sem hvorutveggja er innkomið í tíð Mag. Brynjólfs, en var ekki fyrr.” Þá segir að „fjörugæði eru mikil til beitar fyrir fje á Hópi.”
Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar. Verminjarnar ofan við Hópsvör virðast skv. þessu því geta tengst útveri Skálholtsstóls á staðnum. Árið 1840 er „Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir Austanvið tvennt það síðarnefnda.
Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.” Í Landnámi Ingólfs segir að „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.” Þar stingur skökku við því ferskvatnsuppspretta kemur undan landinu í fjörunni við Vatnstanga. Í fjöruborðinu hefur því verið mikið og fjölbreytt lífríki frá náttúrunnar hendi þar sem ferskvatnið kemur undan berginu og sameinast sjónum.
Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (Stóri- og Litliparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880, sem fyrr er lýst.
MaríuvöndullInn á Túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og er bæjarstæðið sjálft því horfið. Skv. lýsingu Huldu D. Gísladóttur (f:1918) stóð bærinn ofan við núverandi smábátahöfn, sunnan við Skiparéttina. Hann hafi jafnan verið nefndur Hópsnes, en ábúandinn í hennar tíð gjarnan kenndur við „Nes”, t.d. Guðmundur í Nesi.
Á tjaldstæðinuÍ bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í Jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum.

Pálmar

Melbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamalt bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún. Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá austurhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Loftur Jónsson segir um Vatnsstæðið: „Þar sem mýrin sunnan við þar sem fyrirtækið Stakkavík er nú var vatnsstæði þar sem sjór rann í á flóði. Þetta var þó nokkuð stór tjörn. Ósinn inn í vatnsstæðið var það mikill að ekki var hann fær þurrum fótum á flóði. Einhverntíma þegar dýpkun fór fram í höfninni var botndrullu dælt í þetta vatnsstæði og það fyllt upp. Smám saman greri þetta upp.”

Hópsnes

Tóft á Langhól.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. “Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,” segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör. Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Þetta voru herslugarðar. Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur að Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,” segir í Sögu Grindavíkur.
Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin Þátttakendurliggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Gömul þjóðleið liggur ofan við Hóp áleiðis í Voga. Um var að ræða svonefnda Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.

Hafnargerð
BrekkuÁ fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.

Þátttakendur

Engar heimildir eru um að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu.
Á 20. öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í hafnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum. Árið 1902 fól hreppsnefnd þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.

Hópið

Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarflóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót.

HÓPIÐ

Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið mjög í víkinni er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðar-staðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöru-borð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd.
HópSem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.

Grindavik

Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944.

Leiðsögn

Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.
Göngunni lauk með söngskemmtun á nýju tjaldstæði Grindarvíkur. Pálmar Guðmundsson leiddi sönginn. Hann mun að sögn hafa staðið Brekkusöng Árna nokkurs Johnsen lítt að baki.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín. 

Gangan

Hóp

Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?

Loftmynd af Hópi

Í Landnámu (IV.hluti) segir að “Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.”
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: “Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Goðatóftin fremst - og gamli bæjarhóllinnAustur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.

Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.

Hópið

Hóp

Ofan við Hóp í Grindavík er heilleg og falleg hlaðin refagildra, sú 59. í röðinni, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesskaganum (sjá meira um refagildrur HÉR).
RefagildranSvo er að sjá, að notkun slíkra veiðitækja, hafi verið mun algengari hér áður fyrr en áætlað hefur verið. Mjög lítið hefur verið skrifað um gildrurnar, sennilega aðallega af tveimur ástæðum; notkun og staðsetning þeirra var á fárra vitorði og því lítið um þær talað. Veiðiaðferðin hefur líklega ekki heldur þótt í frásögu færandi því refurinn, sem létt ginnast, svalt venjulega í hel þar sem hann var fastur í þröngri rásinni eftir að fallhellan hafði lokað hann inni.
Lítið sem ekkert er getið um hlaðnar refagildrur í örnefnalýsingum, en nokkur örnefni þeim tengdum er þó þar að finna, s.s. Gildruholt.

Refagildran

Þegar svæðið ofan við Hóp var skoðað mátti glögglega sjá að þar væri að finna  “minjasafn” mannvistarleifa eftir refaveiðar; hlaðin byrgi og hlaðin skjól fyrir refaskyttur, merkingar á grenjum og svo áðurnefnd refagildra, sem líklega er elsta mannvirkið á svæðinu. Talið er að fyrirmynda að gerð gildranna megi leita til landnáms-manna. Minjarnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og ætti að reyna að varðveita það sem líkt.
Refagildran, sem um ræðir, er með op til suðurs og norðurs. Fallhellur eru við bæði opin. Í þessari gildru má enn sjá uppbyggingu slíkra mannvirkja, auk þess sem staðsetningin gefur vel til kynna að lágfóta fór ekki með brúnum heldur “lægðirnar smjó”, eins og segir í kvæðinu.
“Svæðið fyrir ofan veginn ofan við Hóp er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur. Hún er ofan við utasta húsið.
ByrgiÞar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki. Þar ofar uppi á brekkunum er holt, sem heitir Bláberjaholt. Skammt þar ofar er gamall eldgígur, sem heitir Melhóll. Þangað er sóttur ofaníburður. Vestur af Melhól er lægð, sem Grindavíkurvegurinn liggur yfir.”
Þegar svæðið var skoðað nánar kom í ljós enn ein refagildran, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda. Þessi stendur upp á lágum hól. Í hana er ágætt útsýni frá Þórkötlustaðabæjunum. Enn má sjá grunninn í hleðslunni, en að öðru leyti hefur gildrunni verið spillt. Gróið er að mestu yfir hana, en vel má sjá hleðslurnar, sem fyrr segir.
Sjá ennmeira um refagildur HÉR.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hóp

Hóp

Refagildra ofan við Hóp.