Tag Archive for: Hraun

Hólahjalli

Eftirfarandi spurning var send til FERLIRs þann 1. ágúst 2021. Sendandinn nefndi sig Björgvin.

„Góðan daginn.

Hólahjalli

Hólahjalli – göngustígur og skúr framundan.

Vitið þið söguna á geymslunni hjá rólóvellinum fyrir neðan Hólahjalla? – hnit: 64°06’31.3″N – 21°52’57.4″W.
Bestu kveðjur og takk fyrir fróðleikinn hérna inn á.“

FERLIRsfélagar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður. Þarna, neðan Hólahjalla og ofan Heiðarhjalla í Digraneshæð (-hlíð) í Kópavogi, er trjágróið svæði á milli. Lítill róluvöllur er á því vestanverðu. Göngustígur gengur langsum eftir því neðan og ofan húsaraðanna. Skammt austan og ofan við róluvöllinn eru læsta dyr á steyptum skúr þöktum torfi. Svo virtist sem skúrinn væru leifar af eldri byggð í hæðinni, en þarna voru á frumbýlisárum Kópavogs u.þ.b. 15 smábýli eða „blettir“.

Send var fyrirspurn til skipulags Kópavogsbæjar.
„Sæl, getið þið upplýst hvað mannvirki er hérna um að ræða – á grónu svæði neðan Hólahjalla (gulur hringur) – sjá meðfylgjandi mynd. Á það sér einhverja sögu?“
Ólíkt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þegar sambærilegar fyrirspurnir eru sendar á vefföng þeirra, barst fljótlega svar frá Karlottu.

„Sæll FERLIR.
Skúrinn er á bæjarlandi og er læstur, það eru í raun einu upplýsingarnar sem ég hef fyrir þig núna en ég ætla að áframsenda fyrirspurn þína til garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar sem kemur úr sumarfríi eftir helgi. Mér þykir líklegast að hann hafi upplýsingar um mannvirkið.“

„Sæl Karlotta,
og þakka viðbrögðin. Líklega er þarna um að ræða hluta af einu smáhýsanna 15 sem voru þarna í hlíðinni fyrrum, en voru látin víkja fyrir nýrri byggð. Spurningin er um hvort vitað sé hvaða smábýli það tilheyrði og á það sér einhverja skráða sögu fyrst þessi hluti fékk að standa óhreyfður?“

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri, brást vel við:

Hólahjalli

Hólahjalli – skúrinn.

„Sæl verið þið.
Skemmtilega útgáfan er að þetta sé inngangur í neðanjarðabyrgi frá kaldastríðsárunum en raunveruleikinn er sá að þetta var víst byggt sem kartöflugeymsla af þeim sem þarna fengu úthlutað sk. ræktunarreit á fimmta áratug síðustu aldar, þar sem nú er Hólahjalli og Heiðarhjalli.“

„Sæll,
þakka kærlega fyrir upplýsingarnar. Getur þú nokkuð frætt okkur hverjum ræktunarbletturinn tilheyrði á meðan var?“

„Sæl aftur.

Hólahjalli

Uppdráttur frá 1990. Hús nr. 2 er Digranesblettur 73.

Sjá meðfylgjandi uppdrátt frá 1988 sem ég skannaði. Grunnurinn gæti samt verið eitthvað eldri því sum þessara húsa voru horfin 1988.
Þarna var Digranesblettur 73, kallaður Hraun, sem var 0,71 ha að stærð. Erfðafestusamningur var gerður um landið við Axel H. Sölvason 9. ágúst 1938.
Skv. grófmælingu stóð húsið þar sem rólan er núna og kartöflugeymslan hefur þá verið aftan við húsið.
Hér að neðan er svo annar uppdráttur gerður 1990, áður en gatnagerð hófst á svæðinu, þar sem gróður er innmældur. Hús merkt nr. 2 er Digranesblettur 73 og nr. 1 er Digranesblettur 61A.“

Kveðja,
Friðrik Baldursson.

FERLIR þakkar framangreindu fólki sérstaklega góð viðbrögð og fróðleikinn.
Skúrinn, sem spurt var um, er sem sagt hluti leifa af Digranesbletti 73, nefndur Hraun. Ef einhver lesandinn kann nánari skil á smábýlinu og því fólki, sem þar bjó, væri gaman að geta þess í framhaldinu. Veffangið er ferlir@ferlir.is.

Hólahjalli

Digranesblettir 73 – uppdráttur frá 1988.

Festarfjall

Í Faxa 1985 fjallar Ingvar Agnarsson um „Festarfjall„:

Útlit og myndun
Festarfjall
Lóðrétt rís Festarfjall upp frá flæðarmáli, þar sem öldur úthafsins brotna á ströndinni og skella á klettum fjallsins í fjöruborði og mynda sumstaðar hella og skúta.
Þetta sífellda gnauð hafsins við rætur fjallsins veldur því, að stöðugt hrynur úr því, og allt það efni sem niður hrynur, hreinsar hafið burt úr fjörunni og ber með sér út í djúpið, þar sem lygnara er. Skemmtilegt er að virða fyrir sér þetta stórbrotna fjall, skoða lögun þess og línur og reyna að gera sér nokkra grein fyrir myndunarsögu þess. Við sjáum í raun inn í miðju þessa fjalls, því eitt sinn var það miklu meira um sig. En sjórinn hefur mulið niður allan suðurhelming þess svo nú sjáum við þversnið af fjallinu allt frá tindi þess, sem er 193 m hár og niður að sjó. Og hér gefur á að líta: Fjallið er að mestu leyti móbergsfjall, og þá sennilega myndað við eldgos undir jökli. En ekki er hér um eindregna móbergsmyndun að ræða. Sýnist mér, að skipta megi myndun fjallsins í nokkra hluta eða þætti.
Festarfjall
Fyrst er þykkur móbergsstabbi frá sjó og upp undir þriðjung af hæð fjallsins, en þar gengur blágrýtislag lárétt frá austri og næstum þvert í gegnum fjallið, en endar þar snögglega við breiða gjá er gengur upp fjallið. Vantar aðeins spölkorn á, að það nái út úr því að vestanverðu. Undir þessu blágrýtislagi er lag af rauðri eldfjallaösku eða gjalli. Þetta hraunlag hlýtur að hafa runnið á hlýskeiði, og sennilega eftir að jökull hefur sorfið ofan af upphaflegri móbergsmyndun fjallsins, svo að það hefur verið orðið allt að því lárétt, a.m.k. á þessum kafla sem hraunlagið hefur runnið yfir. En þessi hluti móbergsins undir blágrýtislaginu er hluti af miklu víðáttumeira móbergssvæði, bæði austan og vestan við Festarfjall. Á einum stað gengur berggangur sem kallast Festi lóðrétt upp í gegnum móbergsstabbann frá fjöru og endar uppi við blágrýtislagið. Þessi gangur er um 1—1,5 m þykkur og er myndaður úr þunnum lóðréttum flögum, en ystu flögurnar, þær er snerta móbergsveggina beggja vegna eru þó dálítið stuðlaðar lárétt.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur Íslands, í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli. Uppgötvaði m.a. berggang Lyngfells í ferðinni.

Eftir myndun þessa hraunlags í neðri hluta fjallsins hafa jöklar aftur fært hér allt í kaf og á því ísaldarskeiði, líklega því síðasta, hefur svo aftur farið að gjósa á svipuðum slóðum og fyrra skiptið, og nú undir þessum nýja jökulskildi.

Festisfjall

Festisfjall – kort.

Og hér hefur hlaðist upp móbergsfjall ofan á blágrýtislaginu og eldra móberginu, sem undir því liggur. Nú verður þessi nýi móbergsstabbi svo hár að hann nær alla leið upp úr jöklinum. Og eftir það getur hraunið, sem vellur upp úr gígnum, runnið óhindrað án þess að breytast í móberg í köldu jökulvatninu. Hin hraða kólnun gosefnanna á sér ekki lengur stað. Og blágrýtishetta myndast efst á þessu fjalli, sem nú hefur skotið kryppunni upp úr hinum mikla frera, tindur Festarfjalls ber þessu vitni enn í dag. Því efsti hluti fjallsins, sem reyndar er lítill um sig, er þakinn blágrýtishellu í nokkrum goslögum þó og undir henni er allþykkt lag af rauðu gjalli eða eldfjallaösku. Hér mun vera um svokallaða stapamyndun að ræða, en skv. kenningum Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings, eru slík fjöll mynduð undir jökli (eða í vatni), nema efsti hlutinn, sem upp úr hefur komið.

Festarfjall

Festarfjall og nágrenni – loftmynd.

Nefna mætti ýmis stapafjöll, eins og t.d. Hrútfell, Herðubreið, Hrafnbjörg, Eiríksjökul og m.fl. sem talin eru mynduð undir jökli og Surtsey sem nýlega myndaðist í sjó.
Ef þessi tilgáta mín er rétt, um myndun Festarfjalls, þá er hér um að ræða eitt af þessum merkilegu fjöllum, sem myndast hafa á þennan sérstaka hátt, og sem svo mjög einkenna landslag á Íslandi.
Og ef Festarfjall hefur hlaðist upp í tveim aðaláföngum á tveim ísaldarskeiðum eins og hér var gert ráð fyrir þá mun hér vera um nokkra sérstöðu að ræða meðal íslenskra stapafjalla.

Fjara og brim undir Festarfjalli

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skemmtilegt er að koma í fjöruna undir Festarfjalli, þegar sól skín í heiði, enda eru margir farnir að leggja þangað leið sína á góðviðrisdögum á sumrum. Hjón koma þarna með börn sín, sem hlaupa glöð um sandinn. Og séð hef ég fólk steikja kjöt á grilltækjum sínum og nokkrar fjölskyldur safnast saman og halda einskonar útihátíð þarna undir gnæfandi björgunum, sem enduróma af undirleik öldunnar, þar sem hún freyðir við sandinn og leikur sér við að væta litla fætur, sem fara í eltingarleik við hana. En sá leikur er auðvitað ekki hættulaus og betra að gæta varúðar; í norðanátt er þarna ávallt logn, en nær aldrei mun vera bárulaust með öllu, og stundum duna öldurnar við ströndina með miklum gný, þótt logn sé um allan sjó. Þarna mætist hrikalegt landslag og stórbrotnar haföldur, og hefur landið orðið að láta undan síga í þeim átökum. Staðhættir allir bera þess ljós merki.

Festarfjall

Festarfjall – brim.

Ekki er hættulaust að ganga undir þessum hrikabjörgum. Varð ég vitni að því eitt sinn, er ég var þarna staddur, ásamt mörgu öðru fólki, að stórgrýtisskriða hrundi úr björgunum nálægt Festi, ganginum sem áður var lýst, og dreifðist um allstórt svæði í fjörunni með miklum gný. Rétt áður var þarna fólk á ferli, hjón frá Keflavík. Þau heyrðu drunur rétt fyrir aftan sig og varð heldur en ekki hverft við. Þarna munaði litlu að stórslys yrði.
Ekki veit ég hvort svona skriðuföll gerast oft. Helst mundi það vera í rigningu, því bergið er nokkuð laust í sér. En einnig er hér talsvert af sjófugli í klettunum og kunna þeir að koma grjóthruni af stað.

Nauðsyn undirstöðuþekkingar í jarðfræði

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Þegar ferðast er um byggðir og óbyggðir landsins, er nauðsynlegt að þekkja helstu örnefni og setja á sig helstu útlitseinkenni og legu hins fjölbreytta landslags á hverjum stað.

Festarfjall

Forn setlög.

Þar er um að ræða aðalatriði landafræðinnar. Ekki er síður áhugavert, að kynna sér þá þætti landsins, sem tilheyra jarðfræðinni, myndun og þróunarsögu landslagsins á hverjum stað.
Í barnaskólum er snemma byrjað á að kenna landafræði, og er það vel. En ekki er síður mikilvægt að kunna nokkur skil á jarðfræðilegum atriðum. Þegar ferðast er um landið, mundi það mjög auka á ánægju hvers og eins að geta skoðað og hugleitt það sem fyrir augu ber, út frá jarðfræðilegum skilningi, og þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi í þeirri grein, en þar hefur orðið um miklar framfarir að ræða, allt frá síðustu aldamótum. Kennslu um helstu atriði jarðfræðinnar þyrfti að taka upp í öllum skólum, miklu fyrr en nú er gert.“ – IA

Í Lesbók Morgunblaðsins 06.11.1949 er í „Fjaðrafoki“ vitnað í lýsingu Jóns Trausta á Fagradalsfjalli:

Festarfjall – nafnið

Festarfjall

Festarfjall – málverk.

„Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum.
Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.“ – (Jón Trausti).

Í Rauðskinnu er sagan af festinni í Festarfjalli:

Festarfjall – þjóðsagan

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

„Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.“ – Rauðskinna I 45

Heimildir:
-Faxi, 6. tbl. 01.08.1985, Festarfjall – Ingvar Agnarsson, bls. 260 og 276.
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 06.11.1949, Fjarðrafok, bls. 508.
-Rauðskinna I 45.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellar.

Hraun

Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni „Í stríði á Fagradalsfjalli„:

„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,“ sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.“„

Langholl-221

En hvað er þetta?“ spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,“ svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.“
„Ætlarðu ekki að hirða þær?“
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.“
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?“
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.“

 

Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks.
Lois-221Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,“ sagði hann og benti.
„Í túnfætinum?“ spurði ég undrandi.
magnus Haflidason-21„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,“ sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,“ sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni“ — benti síðan í fjöruna nær túninu:  „Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.“ Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.“ Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Langihryggur-221Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.“
Langihryggur-222En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.“ Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
Kastid-221„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,“ sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.

 

Kastid-223

Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.“ Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,“ sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.“
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?“ spurði ég.
„Sextíu,“ svaraði hann.
„En á hausti?“
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,“ bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,“ sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?“ spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.“
Rjupa-221Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.“
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,“ sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.“
Fagradalsfjall-225Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,“ sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,“ sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.“
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,“ svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?“ bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.“
„Það er mörg matarholan í landinu,“ sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.“ Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,“ sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
Magnus Haflidason-22Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.“
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:

Langihryggur

Á slysstað í Langahrygg.

„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, Kastid-229fótur.
Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.“
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,“ sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili.
Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Andrews-221Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi biskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar.

Andrews-memorial

Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.“ Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.“ Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu.

Kastid-331

Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi  brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.“ Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.“
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,“ sagði Magnús, „þá er hún hvergi.“
„Er ekki vissara að hvísla?“ spurði ég.
Hann hló. „Nei,“ sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?“ spurði ég.
„Já,“ sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.“ „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?“ „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….“ Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?“ spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.“ Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,“ sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.“
Kastid-frett-229Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,“ sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.“
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?“ spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.“
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,“ hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu Kastid-frett-3bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.“ Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?“
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.“ –
M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason – Fæddur 21. nóvember 1891, dáinn 17. desember 1983.

Hafnarfjörður

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II“ árið 2021 segir eftirfarandi um Miðbæ og Hraun:

„Miðbær Hafnarfjarðar er gróflega innan þess landsvæðis sem áður var Akurgerði. Nafn jarðarinnar bendir til þess að einhverntímann hafi verið reynt við akuryrkju á henni en undir hraunbrúninni við fjörðinn var mikil veðursæld og skjól fyrir norðanátt. Engar heimildir eru þó til fyrir þessari akuryrkju fyrir utan nafn jarðarinnar.

Hanarfjörður 1882

Hafnarfjörður 1882.

Fram til 1677 var Akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en það ár eignaðist Hans Nansen, Hafnarfjarðarkaupmaður, jörðina í makaskiptum fyrir hálfa Rauðakollsstaði í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Við eignaskiptin fluttist verslunarstaðurinn, sem hafði verið í Hvaleyrarlandi, til Akurgerðis og eftir þau voru þar einungis þurrabúðir og eignarráð landsins í höndum
Hafnarfjarðarkaupmanna og saga jarðarinnar er þá í raun saga verslunarstaðarins.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Akurgerði hafi verið eign Garðakirkju til forna og hjáleiga í Garðalandi. Hafnarfjarðarkaupmaður hafði þar eignarráð og að dýrleiki gömlu hjáleigunnar hafi verið óviss, þar sem hún stóð í óskiptu landi og tíundaðist ekki. Þar bjuggu Guðmundur Þórðarson og Þorleifur Sveinsson og greiddur þeir enga húsaleigu en voru í staðin skyldir til handarvika sem kaupmaðurinn þurfti á sumri og eftirliggjarinn á vetri.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Þeir viðhéldu búðinni með styrk kaupmanna og héldu engan kvikfénað vegna þess að þar gat enginn kvikfénaður fóðrast, því túnstæðið var allt farið undir byggingar.
Í sýslu- og sóknalýsingum sagði séra Árni Helgason að „Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað sona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndulráðssetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets. Bæði Thomsen og Linnet betala þeim fyrstnefnda eiganda lóðatoll.
Auk þessara höfuðbýla eru á sömu lóð meir en 20 tómthús og fleiri en ein familie í sumum. Enginn sem býr í þessum höndlunarstað, hefir grasnyt. Tómthúsin fjölga og nöfnin breytast, þegar nýir íbúar koma.“

Hraunin

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Hraunahverfið í Hafnarfirði er á því svæði sem áður var í eigu Garða. Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það er skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða:
1307 „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið. Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða, en Garðar fengu í staðinn Vífilstaði.

Garðar

Garðar 1900.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum.
Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn. Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.

Garðar

Garðar – túnakort 1918.

Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landsstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:
1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða.

3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.
Hamarskot var innifalið í þessum kaupum en Hamarskotstún innan girðingar og Undirhamarstúnsblettur voru undanskilin. Átti presturinn að hafa þar grasnytjar ef hann flyttist til Hafnarfjarðar.
Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti frumvarp um söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.

Einarsreitur

Einarsreitur,

Einnig er vert að minnast á Einarssreit, saltfiskreit sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét útbúa árið 1913 og var hann stækkaður árið 1929, en þetta er líklega eini fiskreiturinn á landinu sem hefur verið metinn til fjár. Í dómi frá 1994, í eignarnáms máli Hafnarfjarðarbæjar og Einar Þorgilsson & Co. HF., er reiturinn metinn á 9,4 milljónir króna.“

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II; miðbær og Hraun, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-II-Midbaer-og-Hraun-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd.

Kapelluhraun

Jónatan Garðason skrifaði grein í Morgunblaðið 1995 undir fyrirsögninni „Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar„:

Auðvinnanlegasta efnið er skafið ofan af, segir Jónatan Garðarsson, og landið skilið eftir í sárum.

Jónatan garðarson„Umhverfismál eru í brennidepli, landeyðing hér á landi er með því mesta sem þekkist í heiminum og stöðvun gróðureyðingar er afar brýnt verkefni. Þjóðin er að vakna til vitundar um ástandið, það sýnir áhugi almennings á hverskyns ræktun og uppgræðslu.
Mörg fyrirtæki hafa lagt lóð á vogarskálarnar, sala áburðarpökum gerir sitt gagn og ekki má gleyma fjölda félagasamtaka sem vinna þrotlaust starf á þessu sviði. í okkar harðbýla landi þarf lítið að fara úrskeiðis til að röskun verði á lögmálum náttúrunnar. Um aldir gekk þjóðin ótæpilega á gæði landsins eins og óþrjótandi nægtarbrunn. Það var því mikið gæfuspor þegar Skógrækt ríkisins var stofnuð samkvæmt lögum árið 1907. Hlutverk hennar er m.a. að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar, græða upp skóga þar sem henta þykir og leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs svo nokkuð sé nefnt. Starfsemi skógræktarfólks hefur leitt til mikilla framfara í ræktunar- og uppgræðslumálum þjóðarinnar og víða hefur útliti landsins verið breytt úr auðn í græna reiti. Það skýtur því skökku við að í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni á sér nú stað gríðarleg landeyðing. Fyrir nokkrum áratugum fékk skógræktin um 2.000 ha lands úr Kapelluhrauni að gjöf til ræktunar. Svæðið telst hluti af Almenningi og utan skipulags. Þar hefur ræktunarstarf skapað myndarlega lundi á fallegum reit sem á eftir að gleðja komandi kynslóðir. Í hluta gamallar hraunnámu á sömu slóðum var rallykross-braut komið fyrir uppúr 1990, með leyfi skógræktarinnar og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.
Náman átti að vera aflögð, en 6. febrúar 1992 gerði Skógrækt ríkisins samning við Borgartak og seldi fyrirtækinu 1.000.000 m3 (eina milljón rúmmetra) af hraunfyllingu í Kapelluhrauni. Vinnslusvæðið er í miðju hrauninu, sem er mosagróið apalhraun með stökum birkihríslum, burknum, lyngi og öðrum hraungróðri á stangli í skjólgóðum gjótum. Hraunið rann á sögulegum tíma, árið 1151, úr eldstöð í Undirhlíðum, yfir eldra hraun og er því stundum nefnt Nýjahraun. Þarna má lesa jarð- og gróðursögu á mjög glöggan og skýran máta.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið.

Samningurinn við Borgartak færði skógræktinni 12.000.000,- krónur í nettó tekjur eða kr. 12 án vsk. á rúmmetra. Borgartak selur síðan hvern m3 af unnu efni á 104 krónur án vsk. í ársbyrjun 1995 komu fram upplýsingar um að búið væri að vinna 1/4 efnisins eða 250.000 m3, en í maílok, aðeins 5 mánuðum síðar, kemur í ljós að Borgartak hefur nú þegar unnið helming umsamins efnis, 500.000 rúmmetra.

Mosi

Mosi í Selhrauni.

Verktakinn hefur líkast til fjórfaldað kaupverðið og hagnast um tugi milljóna, enda gerði hann einkar hagstæðan samning við skógræktina. Ef eingöngu hefði verið unnið frekara efni úr gömlu námunni, hún t.d. dýpkuð og jarðefni unnin nokkra metra niður í hraunæðina hefði mátt réttlæta vinnsluna. En verktakinn er fyrst og fremst að yfirborðsvinna mosagróið hraun upp á eina milljón fermetra. Það er unnið hörðum höndum við að ryðja burt gróðurþekjunni á sem skjótastan hátt. Efsta laginu af grónu landi er rutt burt, en samkvæmt stefnumörkun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði er alfarið lagst gegn slíkri yfirborðsvinnslu á óröskuðu hrauni. Þessu mikla jarðraski virðist ætlað að tryggja frekari námavinnslu þarna í framtíðinni. Aðeins er farið einn til tvo metra niður þar sem dýpst er unnið ofan í hraunæðina, auðvinnanlegasta efnið skafið ofan af og landið skilið eftir í sárum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið sunnan Hafnarfjarðar.

Það kom íbúum Hafnarfjarðar í opna skjöldu að verið væri að aka tugþúsundum tonna úr. Kapelluhrauni á sama tíma og Umhverfisnefnd og bæjarverkfræðingur voru að móta stefnu um efnistökumál í bæjarlandinu. Samningurinn virðist hafa verið gerður án vitundar bæjaryfirvalda og komst málið nýverið í hámæli. Náttúruverndarráði Íslands var heldur ekki tilkynnt um þessar fyrirætlanir skógræktarinnar. Nú hefur ráðið blandað sér í málið og reynir að leita samninga, en tíminn vinnur með verktakanum. Á meðan heldur gegndarlaus efnistaka áfram af fullum krafti. Flest bendir til að reynt hafi verið að láta samningsgerðina fara hljótt.

Raiðimelur

Stóri-Rauðimelur neðan Almennings 2023.

Almennt var álitið að landspjöll vegna yfirborðsvinnslu hrauns heyrðu sögunni til. Í greinargerð sem Þóroddur F. Þóroddson jarðfræðingur vann fyrir bæjaryfirvöld 27. október 1986 um „Hagnýt jarðefni í landi Hafnarfjarðar“ mælir hann eindregið gegn slíkri vinnslu í Kapelluhrauni og víðar: „Efnistaka úr apalhrauni er yfirleitt til mikilla lýta í landinu,“ segir í greinargerðinni. Þá segir Þóroddur einnig: „Efnistaka eins og tíðkast hefur t.d. meðfram Krýsuvíkurvegi og Bláfjallavegi er óverjandi frá sjónarmiði umhverfisverndar. Mikið efni má fá af svæðum sem „búið“ er að vinna með því að hirða upp hrúgöld og ganga betur frá námusvæðum.“ Hraunvinnslu í bæjarlandinu var að mestu hætt þegar skýrslan kom fram, en um langt árabil hafði Landgræðslusjóður leyft umfangsmikla vinnslu í landi sínu sunnan Straumsvíkur og haft um 50 milljónir á núvirði í tekjur af efnissölunni. Hraunvinnsla á vegum Hafnarfjarðarbæjar var einnig að mestu aflögð á þessum tíma, en sú vinnsla var þó margfalt minni í sniðum en í landi Landgræðslusjóðs. Á þessum tíma var einhugur að skapast um að opna ekki nýjar námur til vinnslu, heldur nýta betur „gamlar námur“ að undangenginni skipulegri úttekt á efnisgæðum námanna.

Kaspelluhraun

Kapelluhraun – gróðurvin í hrauninu.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Jóns Loftssonar skógræktarstjóra við málinu. í frétt sem birtist í DV 22. apríl sl. vegna mótmæla skotveiðimanna á malarnáminu í Kapelluhrauni er haft eftir Jóni: „Ég átta mig ekki á því hvað mennirnir eru að fara. Þarna var náma sem ekki var nógu vel gengið frá. Þá er gert ráð fyrir samkvæmt skipulagi að þarna rísi iðnaðarbyggð. Þess vegna var gengið til þessara samninga og gerðar strangar kröfur um frágang. Þegar þetta verður búið verða tilbúnar þarna lóðir og þá geta Hafnfirðingar tekið til við að byggja þarna einhverjar ljótar verksmiðjur.“

Lönguhlíðahorn

Mosi undir Lönguhlíðahorni.

Skógræktarstjóri heldur í það haldreipi að svæðið sé skipulagt fyrir iðnað og því þarft að ryðja það. Þetta er alrangt. Hið sanna í málinu er að árið 1990 var lögð fram tillaga að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1988-2008. Þar var m.a. sýnt iðnaðarsvæði sem gæti komið til álita eftir 40-50 ár. Tillögunni var hafnað hjá skipulagsstjórn ríkisins og fór aldrei í kynningu og auglýsingu í samræmi við skipulagslög. Hún hefur því ekkert lagalegt gildi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1980-2000 er gert ráð fyrir framtíðariðnaðarbyggð einum kílómetra suður af núverandi iðnaðarsvæði eða um tvo kílómetra frá umræddu hrauntökusvæði. Það er því ljóst að ætlunin var alls ekki að hreyfa neitt við hrauninu í landi skógræktarinnar.
Í ársbyrjun 1992 sótti Skógrækt ríkisins til bæjaryfirvalda um leyfi til að skipuleggja iðnaðarbyggð á þessu svæði, en málið var ekki samþykkt. Þrátt fyrir það fór stórfelld jarðvinnsla í gang. Stærð vinnslusvæðisins sem skógræktin seldi er milljón rúmmetrar og jafnast það á við 150-200 fótboltavelli á stærð við Laugardalsvöllinn. Ef mið er tekið af íbúðarbyggð má reisa 15 einbýlishús á ha, en svæðið er 100 ha og gætu 1.500 einbýlishús rúmast á því. Samkvæmt núgildandi staðli búa 3,5 íbúar í hverju einbýlishúsi sem þýðir 5.200 íbúa byggð og mun það teljast eitt og hálft skólahverfi. Námaréttindi á þessu svæði seldi skógræktin fyrir 12 milljónir króna, sem er u.þ.b. verðgildi eins einbýlishúss.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Skógræktin og Landgræðslusjóður hafa unnið mikið gagn við erfiðar aðstæður þrátt fyrir rýra sjóði. Það réttlætir samt ekki allar gerðir þeirra. Þeim hafa einfaldlega verið mislagðar hendur hin síðari ár í þessum efnissölumálum. Sjónarmiðin voru vissulega önnur á árum áður, þegar augu fólks voru lokuð fyrir málefninu. En svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í dag.
Það er ekki óraunhæf krafa, að stjórnendur Skógræktar ríkisins og Landgræðslusjóðs ígrundi málin vel og leiti utanaðkomandi álitsgerða áður en ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Að sjálfsögðu verða þeim á mistök eins og öðrum, það er mannlegt. En tímarnir breytast stöðugt og kröfurnar með og þess vegna er nauðsynlegt að líta öðru hvoru yfir farinn veg og leiðrétta mistök sem kunna að hafa verið gerð. Þetta á jafnt við um menn og málefni, stofnanir og stjórnvöld.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Nú er Náttúruverndarár Evrópu og megináhersla er lögð á náttúruvernd utan friðlýstra svæða. „Tilgangur Náttúrverndarársins er að opna augu almennings, landeigenda, landnotenda, skipulagsyfirvalda og bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að það er ekki nóg að vernda náttúruna á ákveðnum friðlýstum svæðum, svo sem þjóðgörðum, friðlöndum eða fólkvöngum. Eigi náttúruvernd að vera virk og árangursrík er jafnframt nauðsynlegt að hlúa að náttúrunni utan slíkra svæða,“ segir Sigurðar Á. Þráinssonar, starfsmaður umhverfisráðuneytis, í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl s.l. Í ljósi þessa er óskiljanlegt að skógræktarstjóri skuli reyna að verja gerð samningsins við Borgartak. Hann yrði maður að meiri ef hann viðurkenndi einfaldlega að um mistök hafi veriðað ræða, rifti samningnum og stöðvaði efnistökuna áður en meiri spjöll verða unnin á svæðinu. Hraunið tilheyrir fornum Almenningi Álftneshrepps, sem nú er með réttu í lögsögu Hafnarfjarðar, og ég leyfi mér að efast um rétt skógræktarinnar eða annarra aðila, til að selja, gefa eða ráðstafa þessu landi með einum eða öðrum hætti.
Skógræktarstjóri hefur slæman málstað að verja og framganga hans í málinu hingað til hefur aðeins grafið undan því trausti sem fólk hefur borið til Skógræktar ríkisins um áratugaskeið. Skógræktinni ber að bæta land, ekki eyða því eins og nú er verið að gera í Kapelluhrauni.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar, Jónatan Garðarsson, bls. 34.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – Helgafell fjær.

Fagradalsfjall

Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:

„Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – örnefni (ÓSÁ).

Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:

Fagradasfjall

Fagradalsfjall – herforingjaráðskort.

„Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.

Kastið

Kastið.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.

Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.

Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum „Fagradalshraun„. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin „Fagrahraun“, „Fagradalsfjallshraun“ eða „Geldingadalahraun“. En örnefnið „Fagradalshraun“ til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…

Sjá meira um Fagradal HÉR.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

Ölfus

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla II“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Auðsholt, Egilsstaði, Hala, Arnarbæli, Bakkárholt, Reyki, Kross, Saurbæ, Kröggólfsstaði og Hraun, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Auðsholt (býli)

Ölfus

Auðsholt.

30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.

„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs.

Ölfus

Auðholtsbyrgi.

Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa. Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.

Auðsholtskirkja (kirkja)

Ölfus

Auðsholt – túnakort 1918.

Í máldaga kirkjunnar frá 1397 segir: „LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ Í örnefnalýsingu jarðarinnar segir: „Auðsholt er ein af stærri jörðum í Ölfusi. Þar var kirkja samkvæmt gömlum máldögum. Nú vita menn ekki hvar hún stóð. Ýmsar sterkar líkur benda til að hún hafi staðið á hól þar, sem nú stendur fjós og heyhlaða og eru til þess þessar orsakir. Þegar Grímur Hákonarson keypti Auðsholtið skömmu eftir 1930, lét hann byggja myndarleg peningshús í hól norðvestur af íbúðarhúsinu. Þar var djúpur jarðvegur og mikið flutt til af mold. Í moldinni sáust leifar af beinum. Þó varla svo greinilegum að sannað væri að það væru mannabein, enda lítið grannskoðað. Síðar þóttust skyggnir menn verða vara við „hreifing“ í fjósinu, þegar farið var að ganga þar um. Í Jarðab. A.M. er ekki minnst á kirkjuna, hún er þá gleymd.“ Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett. Samkvæmt Magnúsi Gíslasyni, heimildamanni, var þessum uppmokstri hent í Bæjarmýri skammt frá bænum og kallaðist hóllinn Beinahóll. Lengi sáust bein í hólnum en þau eru horfinn nú. Þetta voru einungis dýrabein, þarna var ekki neitt um stór bein. Fjósið var vestan við hlöðuna sem ennþá stendur en það var rifið eftir 2008.
Engin ummerki kirkjunnar sjást á yfirborði.

Miðhjáleiga (býli)

Ölfus

Miðhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Auðsholtshjáleiga heimari, bygð af heimalandi fyrir manna minni.“ „Mið hjáleiga: […] Smáhóll í túninu, mitt á milli bæjanna,“ segir í örnefnalýsingu. Miðhjáleiga er rúmum 110 m sunnan við bæ 001 og tæpum 170 m norðan við Auðsholtshjáleigu. Bæjarhóllinn sést ennþá þrátt fyrir að svæðið hafi margsinnis verið plægt og sléttað hér yfir. Við sléttun hefur komið upp mikið af grjóti, veggir og aðrar mannvistarleifar að sögn Runólfs Gíslasonar, heimildamanns.
Slétt, ræktað tún er umhverfis bæjarhólinn. Miðhjáleiga, Auðsholt og Auðsholtshjáleiga, eru á sama holtinu en mýrlent er til allra átta frá því. Bæirnir raðast í einfalda röð, N-S, eftir holtinu. Klettar eru uppi á holtinu og var Miðhjáleiga eflaust á einum slíkum, við vesturmörk holtsins, þar sem það lækkar niður í mýrina.
Bæjarhóllinn er 55 x 35 m að stærð, snýr norður-suður og er hæstur um 2 m. Hann fjarar út til allra átta og er það af völdum sléttunar. Bærinn er á miðjum bæjarhólnum.

Audsholt station (herminjar)

Ölfus

Camp Audsholt.

„Ærhúshólar: Hólar austan við Miðskák […] Breski herinn byggði þar byssustæði og skotgrafir á stríðsárunum, sér enn fyrir þeim mannvirkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Reist voru ein 20 topptjöld á árbakkanum við Ólafsstekk, fram af Auðsholtshjáleigu. Aðrar tjaldbúðir reistu þeir uppi á Auðsholtstúni, norðaustur frá bænum og timburskúr fyrir eldhús. Þangað fór einnig 40 manna kanadísk vélbyssusveit, […] nefndu þeir herbúðirnar Audsholt station. […] Áttu þeir að styðja Kanadamenn við varnir flugvallarins í Kaldaðarnesi og settu upp stórar loftvarnarbyssur syðst á hæðardraginu austur af Auðsholtsbænum. […] Uppi á hæðardraginu, skammt norðan við byssurnar, var steypt gluggalaust byrgi með steyptu lofti og hulið með mold og sniddu. Það var 14 m langt, tæpir 4 á vídd og með 2,25 metra lofthæð. Það var stjórnstöðin fyrir byssurnar. Dyr voru á norðurenda og tvær á hvorri hlið. Með vesturhliðinni var axlarhá skotgröf fram í vígi með þremur smáútskotum sunnan við byrgið. […] ekið var inn í kampinn af Arnarbælisvegi úr norðri framhjá varðmönnum í skýli. Þaðan lá vegur til suðurs, austan við Gónhól og byrgið og að loftvarnarbyssunum. Þegar ekið var suður herbúðarveginn, var fyrst komið að eldhúsinu vestan við veginn. Þar tóku við hlaðnir garðar beggja vegna vegarins. Fyrir ofan veginn voru skotgrafir og 1-2 braggar í brekkunni upp að Gónhól, þar sem vatnsgeymir var byggður. Fyrir neðan veginn voru einir tíu braggar og suður af þeim var stakur braggi offísera. Og niðri á láglendinu syðst var 5 metra djúpur brunnur, steyptur og dæluhús úr holsteini. Tveir braggar voru reistir austur við Tjaldhól, annar fyrir skotfæri en hinn fyrir verkfæri.
Þegar herinn fór frá Kaldaðarnesi haustið 1943, yfirgáfu hermennirnir kampinn í Auðsholti og tóku niður stóru loftvarnarbyssurnar. Settu þeir í staðinn upp langa, svarta símastaura til þess að villa um fyrir óvinaflugvélum.“ Herbúðirnar eru rúmum 150 m suðaustan við bæ, uppi á Ærhúshólum. Hluti af mannvirkjunum eru ennþá varðveitt en minjarnar hafa látið á sjá frá árinu 1998 þegar þeim var fyrst lýst.

Sorgarsteinn (þjóðsaga)

Ölfus

Sorgarsteinn.

„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras.
Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.

Auðsholtshellir (fjárskýli)

Ölfus

Auðsholtshellir.

„Auðsholtshellir: Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ og tæpa 300 m suðvestan við mógrafir. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum. Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.

Brú (brú)

Ölfus

Brú við Stapakletta.

„Stapaklettar: (heimri og syðri). Tveir klettar, sem skaga út í Ölfusá […] Mannvirki eru á þeim frá hernámsárunum. Þessir klettar eru ranglega nefndir Laxaklettar,“ segir í örnefnaskrá. Brúin er rúmum 1 km suðaustan við bæ og tæpum 800 m vestan við mógrafir. Stapaklettar eru tveir og mannvirki eru á þeim báðum. Bát þarf til að komast á milli Stapaklettanna þrátt fyrir að stutt sé þar á milli, Ölfusá rennur þar í djúpum, straumhörðum ál. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Bretar ákváðu að setja létta göngubrú fyrir benzínleiðslu á Ölfusá hjá Kaldaðarnesi. Skyldi hún liggja frá Stapaklettum fyrir austan Auðsholt í Ölfusi að vestanverðum flugvellinum í Kaldaðarnesi. En þar er Ölfusá um 800 metra breið. Þetta yrði því lengsta brúarmannvirki, sem gert hefði verið á landinu. Þetta var hengibrú á 20 stöplum, aðeins um 1,5 m breið, og var hvert brúarhaf um 40 metrar.

Ölfus

Brúin.

Stöplarnir voru gerðir af fjórum trjám, fet á kant, sem rekin voru niður í ána. Þau voru boltuð saman með krosstrjám og mynduðu undirstöður undir brúargólfin. Ofan á hvern stöpul voru reist há stauravirki með krosstrjám, sem báru uppi burðarstrengi brúarinnar, og á hana var sett tæplega meters hátt handrið. (…) Á árbakkanum var hlaðinn mannhæðarhár pallur úr grjóti og sementi fyrir olíubíla, þaðan sem benzíni skyldi dælt um brúarleiðsluna í geyma við flugvöllinn. Pallinn hlóð Sigurjón Steinþórsson, frá Króki, sem var snillingshleðslumaður, ásamt Guðbirni, syni sínum. […] Þannig þokaðist brúin lengra og lengra út í ána […] Sunnudaginn 25. október voru 10 brúarhöf sunnan megin brúarinnar fullgerð […] 11. nóvember […] gerði hvassann landsynning og illviðri […] Veðurofsinn stóð allan daginn en snérist á áttinni um hádegi. Þá gjöreyðilögðust stokkfestingar, svo að brúargólfin […] snérust og stórskemmdust.
[…] Um veturinn brotnaði þessi lengsta brú, sem smíðuð hafði verið á landinu, í spón.“ Brúin er rúman kílómetra suðaustan við bæ og fast sunnan við rétt.
Stapaklettar eru á norðurbakka Ölfusár og úti í ánni sjálfri, skammt frá landi. Umhverfis þá er sendinn árbakki og áin breiðir úr sér.
Klettarnir eru áberandi og sjást víða að.
Á syðri klettinum, sem er úti í ánni er steypt mannvirki en ekki reyndist unnað komast þangað. Þetta er brúarstöpull. Á heimri klettinum, sem er landfastur, er einnig brúarstöpull og fleiri steinsteypt mannvirki. Samtals eru þau um 30 x 1,5 m á stærð og liggja eftir endilöngum klettinum. Þarna var mögulega hús eða sambyggt rými. Olíupallurinn er 60 m norðar, við rétt 021. Hann sést vel í gegnum gróður og hleðslan að utan. Steinsteypa er á milli umfara. Pallurinn er 21 x 3 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann mjókkar eftir því sem ofar dregur og er 2 m á hæð.

Auðsholtshjáleiga (býli)

Ölfus

Auðsholtshjáleiga.

„Sydri hjáleiga, önnur af sömu jörðu. Dýrleikinn áðurtalinn með heimajörðunni.“ JÁM II, 409. Hjáleiga frá Auðsholti. „Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1708 nefnir tvær hjáleigur frá Auðsholti: Auðsholtshjáleigu heimari, sem er löngu komin í eyði, og Syðri-hjáleigu. Hún er enn sérstök jörð og kallast Auðsholtshjáleiga.“ SB III, 389. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Grænhól og nýtt samhliða henni. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 8/9 slétt. Garðar 1105 m2.
„…Auðsholtshjáleiga (syðri hjáleiga) standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhús Auðsholtshjáleigu eru sýnd á túnakorti frá 1918. Bærinn er á svipuðum stað og þá, var sunnarlega á holti. Ekki er vitað nákvæmlega hvar bæjarhúsin sem sýnd eru túnakortinu stóðu en líklega er hús byggt 1948 á svipuðum stað. Ekki er föst ábúð á jörðinni en hún er nytjuð frá Grænhól og í eigu ábúenda þar. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var þar í brekkunni fyrir neðan, allt niður að mýrlendi sem þar tekur við.
Mikið rask er á bæjarhólnum, aðallega vegna bygginga og gróðurs. Þar eru öll 20. aldar útihúsin ásamt tilheyrandi raski.
Íbúðarhúsið er í miðjum hólnum, útihús frá seinni hluta 20. aldar eru í norðurhlutanum og gróinn bakgarður til suðurs, þar sem kálgarðurinn var áður. Erfitt er að átta sig á náttúrulegri upphækkun og mannvistarlögum af þessum sökum. Bæjarhóllinn er um 50 x 30 m að stærð og snýr austur-vestur. Bærinn hefur líklega staðið á náttúrulegum hól. Fyrir austan húsið er malarplan og umhverfis byggingarnar eru ræktuð tún. Þegar komið er að bænum er ekið upp brekku sem mögulega er uppsöfnuð mannvistarlög að einhverju leyti.

Egilsstaðir (býli)

Ölfus

Egilsstaðir.

20 hdr. 1847. JJ, 74. „Jarðardýrleikinn áðurtalinnn í heimastaðnum Arnarbæli.“ JÁM II, 414. Hjáleiga frá Arnarbæli. „Gömul jörð, nátengd Arnarbælinu. Prestekkjujörðin. Að fornu mati 20 jarðhundruð. Landið allt gróið og grasgefið, mýrar og holt. Liggur undir flóðhættu frá Ölfusá, bærinn stendur á lágum hól. Hjábýli var í túninu, hér Egilsstaðahali, nefnt Hali.“ SB III, 381. Ekki er lengur föst ábúð á jörðinni, hún hefur verið í eyði nokkur ár. Jörðin er í eigu ábúenda á næstu jörð sem nýta hana til beitar.
1917: Tún 2.2 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 1026 m2.
„Egilsstaðir: Hafa staðið á sama stað: Tvíbýli var á Egilsstöðum og átti prestekkjan rétt á hálfri jörðinni þegar náðarárið var á enda,“ segir í örnefnaskrá. Egilsstaðir eru rúmum 650 m norðan við Arnarbæli. Bærinn er á náttúrulegum, stakstæðum hól og hefur alltaf staðið þar. Ástæðan er flóðahætta, Ölfusá hefur í gegnum tíðina flætt hér yfir en hóllinn stendur alltaf uppúr. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum). Timbrhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og sambyggður kálgarður var þar framan við. Traðir lágu þar þvert í gegnum hann. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Ósgerði sem nýta hana til hrossabeitar. Öll hús á jörðinni eru í mikilli niðurníðslu.
Bæjarhóllinn er á tiltölulega sléttu landi. Á honum eru nokkur 20. aldar útihús ásamt íbúðarhúsinu.
Íbúðarhúsið er byggt 1925-1953 á miðjum bæjarhólum sem er frekar lágur og lítið áberandi. Hóllinn er mikið athafnasvæði og jarðrask þar mikið. Ekki er hægt að segja til um nákvæma stærð, hæð og legu bæjarhólsins, hann rennur saman við náttúrulega hólinn. Þarna eru mikið af byggingum, malarvegur liggur upp á hólinn úr suðri og þvert yfir hólinn að útihúsum til norðurs.

Hali (býli)

Ölfus

Hali.

Hjáleiga frá Egilsstöðum. „Hjábýli var í túninu, hét Egilsstaðahali, nefnt Hali. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín árið 1708 er talið að Hali hafi í byggð verið undir 40 ár. Í byggð fram undir síðustu aldamót [1900].“ SB III, 381.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Hjáleiga af Egilsstöðum, hefur bygð undir 40 ár.“ Í örnefnalýsingu Arnarbælis segir: „Hali (Egilsstaðahali): Eitt af kotunum í Arnabælistorfunni stóð suðvestur af Egilsstöðum, sér enn hól þar, sem bærinn var.“
Hali var fast sunnan við bæjarhól Egilsstaða en nákvæm staðsetning er á reiki. Býlið var á svipuðum slóðum og núverandi hesthús, fast vestan við heimreiðina að Egilsstöðum, áður en ekið er upp á hólinn. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er Hali sýndur SSV við Egilsstaði, þar sem fyrrnefnt hesthús er núna. Sú staðsetning kemur einnig heim og saman við lýsingu í örnefnaskrá hér ofar. Hali var rúmum 20 m suðvestan við Egilsstaði og rúmum 630 m norðaustan við Arnarbæli. Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns, voru lágir hólar nyrst í heimatúninu sem kenndir voru við Hala en þar voru ekki tóftir. Þessi hólar eru horfnir en mögulega voru þetta útihús frá hjáleigunni.
Ekki sér til minja né hóla þar sem Hali stóð. Bygging hesthússins sem og túnasléttun á eflaust stóran þátt í því. Hali var á mörkum holts og mýrlendis, fyrir suðvestan hesthúsið er mýrarsund sem náði allt að hólnum sem Arnarbæli og fleiri bæir eru á. Fyrir sunnan hesthúsið er smá hólmyndun en erfitt er að greina hvort að hún tengist því eða eldri mannvirkjum án frekari rannsókna. Túnið til suðurs frá hesthúsinu er óræktað og þar eru einnig fleiri lágir hólar á mörkum mýrlendis. Ekki sást til mannvistar í þeim. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja bæinn með enn meiri nákvæmni.
Engin ummerki Hala sjást á yfirborði.

Ósgerði (býli)

Ölfus

Ósgerði – túnakort 1918.

5 hdr. 1847, JJ, 74. „Úrskift býli úr heimastaðnum Arnarbæli, og er haldið almennielga sextándi partur jarðarinnar, skyldi þá heimastaðurinn allur vera 80 hdr, en þetta býli v hdr. Jarðdýrleiki var v og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM, 409. „Ósgerði er sérstök jörð og hefur verið það lengi. Hún var að fornu talin 1/17 hluti úr Arnarbælistorfunni. […] Ósgerði stóð austast á Arnarbælishólnum.“ Nú er búið í Ósgerði og jörðin nýtt til hrossabeitar.“ SB III, 387.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 2/3 slétt. Garðar 336 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir að Ósgerði sé hjáleiga frá Arnarbæli. „Ósgerði: Bærinn stendur á sama stað, norðan Nethamra. (1/16. hluti úr Arnarbælinu, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ósgerði er um 230 m ANA við Arnarbæli og 100 m norðan við Nethamra, malarvegur liggur á milli þeirra. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemmdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […] Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. Í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum).

Ölfus

Ósgerði.

Timburhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Búið var að rífa öll mannvirki á jörðinni þegar Sunnlenskar byggðir III koma út árið 1983 en ljósmynd er þar af bænum. Þá var ekki búið að vera ábúð á jörðinni í tæp 20 ár, hún einungis nytjuð.
Árið 1997 var reistur sumarbústaður á bæjarhólnum og íbúðarhús fast norðvestan þess árið 2014 – 2015 samkvæmt Fasteignaskrá. Nú er föst ábúð á jörðinni og hrossarækt. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sést á túnakorti frá 1918 og bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1908 var staðsettur, líklega var hann á sama stað og fyrrnefndur sumarbústaður. Mikið rask er á bæjarhólnum, það er búið að byggja og rífa nokkur hús á 20. öld.
Mynd af 20. aldar bænum er í Sunnlenskum byggðum III eins og áður sagði. Þar sést að íbúðarhúsið var á svipuðum stað og sumarbústaður frá 1997, útihúsin voru þar skammt suðaustar, á hólbruninni. Þarna eru nú ræktuð tún nýtt til beitar, skjólbelti, malarvegir og fleiri mannvirki. Ekki sér til greinilegrar upphækkunar á yfirborði en mannvist er án efa enn undir sverði þrátt fyrir mikið rask. Kálgarður var suðvestan við bæinn, líklega í brekku sem þar er og sést hann á bæjarteikningunni og túnakorti.
Engin ummerki um bæjarhólinn sjást á yfirborði.

Arnarbæli (býli)

Ölfus

Arnarbæli – bæjarhóll.

80 hdr. JJ, 74. Getið í Harðar sögu: “Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla, en utan um Arnarbæli ok upp eptir Flóa í Oddgeirsshóla …” ÍF XIII, 25. 6.10.1289: “Reið [Árni biskup Þorláksson] í Arnarbæli og var þar fögur veisla. Þar bjó herra Þorvarður [Þórarinsson d. 1296], Árna saga biskups, Sturl, 874. „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja. Jarðardýrleiki segja menn áður hafa verið 80 með Ósgerði. Skyldi þá staðurinn sjálfur lxxv.“ JÁM, 410. 23.4.1509 er borinn vitnisburður um að kirkjan í Arnarbæli eigi fjórðung í hvalreka og viðreka á Skeiði, þ.e. frá Ölfusá og út til Þorlákshafnar – DI VIII, 277. [1524] selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni Arnarbæli – DI IX, 258. [1545] hafði Arnór Eyjólfsson tekið út eitt kúgildi
Skálholtsstóls í Arnarbæli – DI XI, 450. 1547 byggir Gissur biskup Arnóri Eyjólfssyni “Schalholltzstadar jord. arnarbæli j auluesi … til äbylis. sua leingi sem ec a med at giora … skal hann giallda j landskylld af iordunni vppa huertt äar ij malnytu kugilldi – DI XI, 597. 1550: Arnór bóndi, sem þá bjó í Arnarbæli … Bsk II, 352. 1575: Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. … Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. DI XV 643.
[Um 1600]: Síra Sigurður Oddsson, vel lærður maður, hélt Arnarbæli í Ölvesi og átti Brynhildi dóttur Ara Magnússonar [Sigurður var sonur sr. Odds Stefánssonar og Ingibjargar Eiríksdóttur Eyjólfssonar Einarssonar og Helgu Jónsdóttur biskups Arasonar] – Bsk II, 399, 640. [um 1670]: Katrín Kortsdóttir [systir Þorleifs] kvinna síra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, Bsk II, 625, 639. 30.4.1675 seldi konungur Henrik Bjelke m.a. 5 hdr í Arnarbæli, en hann seldi strax aftur Árna Pálssyni – JJ, 444, JÁM XIII, 500.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálfta 1896.

„Arnarbæli er ein af stærstu jörðum í Ölfusi, 60 jarðarhundruð. Arnarbæli og fylgijarðir standa á stórum hól, sem allur er gróin tún. […] Arnarbælinu fylgdu „kot“ sem presturinn hafði umráð yfir, leifar af fátækraframfæri kirkjunnar á liðnum öldum. Vitað er um nöfn á 11 kotum, þar af eru 6 komin í eyði fyrir síðustu aldamót: Bjálkhús (Búlkhús), Litli-Krókur, Kaldakinn, Garðshús, Sigurðarhús. Þessi kot eru komin í eyði fyrir 1703. Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót. Réttindi kotanna voru túnblettur á hólnum (1 ha.), slægjustykki í „flóðum“ (kúgæft hey) og „rimi“ í útjaðri.“ SB III, 382-383. Ekki er búið í Arnarbæli og öll hús þar hafa verið rifin. Íbúðarhúsið var brennt á seinnihluta 20. aldar. Jörðin er nytjuð.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1578 m2.
„Arnarbæli hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi gegnum aldirnar. Þar var snemma kirkja, […] Ýmsir þekktir menn úr sögunni bjuggu í Arnarbæli. Tumi Sighvatsson um 1200 og Þorvarður Þórarinsson 1289. Þar hefur hann skrifað Njálu, ef trúa má tilgátum Barða Guðmundss. Árið 1510 lætur Stefán Jónsson dæma jörðina, sem var í konungs eign, til handa dómkirkjunni í Skálholti, vegna vanskila bóndans við kirkjuna.

Arnarbæli

Arnarbæli 1907.

Prestsetur (Beneficum) verður hún 1580. […] Arnarbæli: (Staðurinn) hefur alltaf staðið á sama stað og nú,“ segir í örnefnaskrá. Í Fitjaannál segir: „En sá stóri hræðilegi skeði þann 20. Aprilis […] Í þeim jarðskjálfta hrundu niður í Ölfusi 24 lögbýli og að auki hjáleigur margar. En þessi bæir niðurhrundu gersamlega: Staðurinn Arnarbæli allur (nema kirkjan, hver þó mjög laskaðist) […]“. Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Bærinn er syðst á stórum hól, Arnarbælishól, og hjáleigur og minni býli raðast þar umhverfis eins og kragi. Bærinn er á Ölfusárbökkum en þar er ekki flóðahætta sökum þess hve hátt uppi bæjarhóllinn er. Þar sem bærinn var er upphækkað plan, norðan við kirkjugarð 002. Undir hluta af þessu plani stóð bærinn og sést enn í hleðslur af skúr sem tengdist húsinu. Gyðríður Einarsdóttir, heimildarmaður, sagði að íbúðarhúsið sem var byggt 1897, hafi staðið svotil beint fyrir ofan kirkjuna en litlu vestar en kirkjugarðurinn er hóll sem hefur greinileg ummerki eftir byggingar og má finna þar steyptan sökkul, mikið af grjóti og steypubrotum. Þetta eru útihús, útihús og útihús. Þeim var öllum rutt út fyrir árið 2000. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er teikning af bænum frá 1890.
ArnarbæliÞar sést að breytingar verða á bæjarskipuninni, líklega í kjölfar jarðskjálfta árið 1896. Á ljósmynd sem tekin er af bænum árið 1907 sést að hvorki íbúðarhúsið og útihúsin eru á sama stað, þau voru færð til á bæjarhólnum. Eldra íbúðarhúsið var vestar og útihúsin voru norðar og norðaustar, þar sem yngra íbúðarhúsið var síðar reist.
Fyrir norðan bæjarhólinn er malarvegur, á sama stað og traðir. Til annarra átta er slétt, ræktað tún. Hlutar þess eru í órækt. Túnið er í aflíðandi halla til suðurs.
Bæjarhóllin er 90×40 m og snýr norðvestursuðaustur. Hann er 0,5-5 m á hæð og algróinn. Hann er lægstur til norðurs, upp brekkuna en hæstur til suðvesturs og suðausturs. Það er búið að slétta yfir svæðið og öll mannvirki horfinn.
Íbúðarhúsið var byggt 1897 og sést því bæði á bæjarteikningunni og túnakortinu. Íbúðarhúsið var uppi á „planinu“ sem þarna er. Á loftmynd sem tekin er um 1998-2000 sést eitt 20. aldar útihús vestarlega á bæjarhólnum. Kveikt var í íbúðarhúsinu í stað þess að rífa það og var það umdeilt á þeim tíma. Hér er greinilega mikil mannvist ennþá undir sverði.

Arnarbæliskirkja (kirkja)

Ölfus

Arnarbæliskirkja.

c. 1200: Kirknaskrá Páls. DI XII 8
c. 1200: Magnús bóndi þar, Páll bp á yfirreið, rigning; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339 [gæti fullt eins átt við Arnarbæli undir Eyjafjöllum].
1382-91: XCIV. Arnarbæle. Kirkia j Arnarbæli j Avlfvesi er helgud hinum heilaga Nicholao. Þar er heimilisprestskylld oc diakns. Hun a .xvj. kyr. fiordung j Skeidi. fiordung j Skierdingarholmi. tiolld vmm kirkiu. messuklædi tvenn .iij. alltarisklædi .ij. kantarakapur. psalltara oc .ij. Bækur adrar. kaleik. kiertistikur .ij. sacrarium mvnnlaug. krossar .iij. Nichulasskriptt. merki. glodarkier. vattzkietill. Mariuskriptter .ij. kluckur .v. fonts vmmbuning .iiij. merkur vax. Reiknadist portio Ecclesiæ vmm .vj. är med[an] Erlingur sat .c. oc .xij. alnar a hveriu äre. DI IV, 97-98.
1397: Hun aa ad auk þess sem j maldaga herra Michels er skrifad .v. hross vc. er Biarni gaf kirkiunni i sitt Testamentum og þar j eitt hross. portio Ecclesiæ vmm .ij. är næstu medann Jon hefr bued .c. oc ix. Alnar Enn vmm .iij. är medann Arnvidur bio .ij. merkur aa hveriu äre. vmm næstu .v. ar fyrr er Sturli atti .xij. aurar aa hveriu are. gaf Jon kirkiunni gridungh; DI IV, 97-98.
11.2.1487: Jörðin Alviðra í Ölfusi er í Arnarbæliskirkjusókn. DI VI, 589 30.6.1501: [Dómur klerka og leikmanna dæmir] um jnstædu porcionem og mortuarium kirkiu hins heilaga nikolai biskups j … rnarbæli og um þann reikningskap annan fleira sem þa hafdi upp a fallith um kirkiuspell. tiunder og afgiolld. taulldum uær peninga uoxt j kirkiusokninni. nu um nalægan ärgang og reiknadizt upp a atian aura kirkiunnar pocio þetta arit. Jtem kuomu fyrir os þesser menn sem suo heita. kolbeirn biarnarson og bergsteirn oddzson og saugduzt hafa ut lukt og afhent kirkiunar peninga j arnarbæli epter odd oddzson. xxx. hundrada j kum og äum. natum og saudum. suo at j þessum. xxx. hundrada uoru ecki meir enn .iij. hestar. uoru til uitnis um þenna peninga lyktning gudbrandr sygurdson og gudmundr þorsteinsson og handfestu biskupinum at sueria hier epter fullan bokareid nær sem þurfa þiker. Jtem litu uær a kirkiu uidin þann sem nu er til og giordu uær hann fyrir cccc. Enn ef kirkian uæri sup upp giord sem henni somdi strafanarlaust þa leitz oss hun mundi verd. xv. hundrut. Jtem hafdi og fallit j plagunni. cccc. j mortuarium. Jtem reiknadiz porcio uppa summeran um .xxx. ära og vj. ar. tolf hundrut og. xx. og vi aurar betur. Enn jnstædan syndizt eingin suo sem stod og adur hafdi med kirkiunni golldit uerit. Jtem j reikningskap biskupsens j tiunder og sekter einfalldar. uoru reiknut .xx. hundrut og halfri maurk midr. Enn allur saman talin reikningskapur kirkiunar og biskupsen[s] upp a arnarbæli reiknadizt. xvi. hundrut og .lxxx.
hundrada og er þa þo oreiknut biskups afgiolld um .x. är. Og ad heilax anda nad til kalladri og suo proffudu og fyrir oss komnu dæmdum uær jordina arnarbæli j auluose alla at frateknum. v. hundrada parti kongsins j greindri jordu. fallna uera kirkiuni og biskupinum j reikningskap. og .xvic. meir en jordin er dyr til. med þeim skilmala at þeir sem eigendur uerda jardarenar leysi hana til sin med þrennum saulum hin fystu j næstum fardaugum komendum aunnr at mikaels messo. hin þridiu at audrum fardaugum. og skal gialldazt j kugillda uirdum peningum heima j arnarbæli jnnan greindz tima. Enn þat æfinlig eign kirkiunar og biskupsens sem eigi er leyst at siduztum saulum. og eignazt suo micid j jordo huort fyrir sig sem tala rennur til epter fiarmagni … DI VII, 567-69 [Þjsks Bps A, Fasc XI, 14, frumrit; AM Apogr. 2441 – AM: Af þessu Arnarbælisbrefi 1501 siest, ad Arnarbæli var þá allz ad dyrleika 80c. atti kongur þar i 5c enn bondinn 75c.]
1575: CLXXXIX. Arnarbæle. Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. Jtem Jnnan kirkiu. ein messuklæde. ein klucka. ij koparpijpur. metaskäler einar. hialmsbrot. eirn silfur kaleikur. alltarisdukur. eirn Jarnkall. Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. Jtem fastagötz Lxxc. Lausagötz jc. hundrada. og xxxc. betur. Máld DI XV 643.
1708: Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja.“
16.2.1907: Strandarsókn í Selvogi lögð til Arnarbælis; (PP, 93) [lög].
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í Arnarbæli er kirkju fyrst getið um 1200. Hún var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara, og var ætið í umsjá prestsins. […] Kirkja stóð þar til 1909 þegar sóknir Arnarbælis og Reykja voru sameinaðar og kirkja reist á Kotströnd. Enn sér fyrir kirkjustaði og grafreit en tímans tönn vinnur að því að útmá það og er lítið við því hamlað.“ „Þar var snemma kirkja, getið fyrst í máld. Páls biskups um 1200. […] Prestsetur (Beneficum) verður hún [Arnarbælisjörðin] 1580.
Kirkja í Arnarbæli var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara. […] Kirkja er í Arnarbæli til 1909, að sameinaðar voru Arnarbælis og Reykjasókn og kirkja reist að Kotströnd. Síðasti prestur í Arnarbæli var Sr. Helgi Sveinsson, sem flutti þaðan í 1943 í Hveragerði. Þar með var sögu prestsetursins lokið,“ segir í örnefnalýsingu. Kirkjugarðurinn er merktur á túnakort frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kirkjan er 25 m sunnan við bæ, neðan við bæjarhólinn á „stalli“ þar. Tóft kirkjunnar er í miðjum kirkjugarðinum en hann er afgirtur með girðingu.
Kirkjugarðurinn er grasivaxinn og þar eru þrír járnkrossar. Minnismerki úr stuðlabergi er inni í tóftinni. Umhverfis kirkjugarðinn eru ræktuð tún og Ölfusá er skammt sunnar, árbakkinn er brattur og sandur að ánni. Tóftin er 9×6 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er útflött og greinilega verið sléttað úr henni ásamt leiðum innan kirkjugarðsins. Það ber lítið á tóftinni til norðurs en suðurveggurinn er 0,4 m á hæð og þar glittir í þrjá hornsteina. Engin dæld er inni í þústinni.

Sigurðarhús (býli)
„Sigurdarhús. Þriðja hjáleiga í auðn yfir 20 ár. […] Túnið og engið að mestu brúka nú Nethamrar.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Sigurðarhús: Kot, stóð við Ullarklöpp. Ölfusá hefur brotið landið, svo að nú sést ekkert eftir af því (Í eyði yfir 20 ár. Túnið og engið nota Nethamrar. Jarðab. A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Sigurðarhús voru 150 m suðaustan við bæ 001 en öll ummerki um bæinn eru að öllum líkindum horfin vegna landbrots.
Slétt, grasivaxið tún er meðfram Ölfusárbökkum. Árbakkinn er aflíðandi, gróinn og 0,2-0,4 m á hæð.
Engin ummerki býlisins eru varðveitt á yfirborði.

Bjálkhús (býli)

Ölfus

Bjálkhús.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Búlkhús. Fimmta hjáleiga, hefur í auðn verið yfir 20 ár. […] Túnið hálft brúkar heimastaðurinn, en hálft túnið og allt engið brúkar hjáleigan Stöðlar.“ “Fyrir vestan staðinn, í túninu, hefur býli verið, nú fyrir nokkrum árum í eyði, er Búlkhús var kallað. Þar var farmur tekinn af því skipi og öðrum fleirum, er Ögmundur biskup lét til Noregs sækja timbur á.” Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu segir. „Sagnir herma að hafskip hafi silgt upp Ölfusá að Arnarbæli og bendir nafnið Bjálkhús (Búlkhús) til þess að farmur hafi verið borinn af skipi þar.“ Í örnefnalýsingu segir: „Bjálkhús: Grænn hóll í Bjálkhústúni, með laut í. (Búlkhús: í eyði yfir 20 ár, 1/2 notar Staðurinn, hitt og engið nota Stöðlar. Jarðab.A.M.),“ Bjálkhús eru 170 m VSV við bæ og 15 m VSV við traðir. Bjálkhús eru norðvestarlega í heimatúninu og sést bæjarhóllinn vel.
Allt umhverfis bæjarhólinn er slétt, ræktað tún. Það er slegið en hluti þess er komið órækt. Bærinn er uppi á hólbrúninni í aflíðandi halla til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðurs, í átt að Ölfusá.
Bæjarhóllinn er 45×35 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hóllinn er 0,3-0,5 m hæð, bratt er niður af honum sunnan við bæjartóftina. Á hólnum eru ennþá bæjartóftir, bæjarhúsin voru sunnar og hey-/kálgarður til norðurs.

Skottusteinn (þjóðsaga/draugur)
„Skottusteinn. Var í bakkanum vestast í Bjálkhústúni. Horfinn nú, grafinn í sand. Þar var Arnarbælisskotta sett niður,“ segir í örnefnalýsingu. Í bók Árna Björnssonar, Íslenskt vættatal segir: „Arnarbælisskotta. Jón Daðason var prestur í Ögurþingum og varð þar mannsbani. Eftir það varð hann prestur í Arnarbæli í Ölfusi 1642-1676, en Vestfirðingar sendu til hans kvendraug sem að endanum varð honum að bana. Skotta settist síðan að í Arnarbæli. Hún hafði prjónaskotthúfu á höfði og sat í koluskugga á vökunni, tafði fyrir og skemmdi verk manna. Ætla varð henni auðan fjósbás til að sofa í, ella gerði hún einhverja skömm af sér. Henni var að lokum komið fyrir seint á 18. öld við stein í Búlkhúsósi.“ Skottusteinn var um 200 m norðvestan við bæ og 40 m vestan við Bjálkhús.
Steinninn sést ekki lengur enda grafinn í Bjálkhúsósi ef sagan reynist rétt. Hann er skammt vestan við heimatúnið, við Ölfusá.
Vestan við heimatúnið er óræktað tún. Þar er mikill sandur sem víða kemur uppúr sverði og það er nýtt til hrossabeitar. Áður fyrr runnu hér fjölmargir lækir en það breyttist með framræslu.

Þingholt (þingstaður)

Ölfus

Þingholt.

Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1905 segir: „Norður frá túni í Arnarbæli er lágt holt, er Þingholt heitir. Holtið er aflangt frá norðri til suðurs, og er það upplásið eftir endilangri miðjunni, en óblásið utan með. Þar eru á því margar tóftir, en flestar eru þær frá seinni tímum: það er fjárhústóft ein nýleg og margar stekkjartóftir, misgamlar að sjá. Aðeins ein tóft er þar verulega forn, og er hún svo sokkin og óglögg, að ekki er hægt að mæla hana. En allstór er hún að sjá og eigi ólíklegt til að vera forn búðartóft, þó að það verði nú ekki fullyrt, þar eð eigi sjást fleiri á hennar reki.
Þær geta nú verið eyðilagðar, hver veit hve margar, bæði verið blásnar burtu, og líka verið teknar upp í hinar nýrri tóftir. En þótt það geti verið, og þótt, meira að segja, engin ólíkindi séu á því þá vantar samt vissuna um það.“ Í friðlýsingarskrá segir: „Arnarbæli, Forn og mikil tóft á Þingholti, sem er norður frá bænum.” Tóftin á Þingholti var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927, sem kvöð á landi Arnarbælis.
Þar er nú einungis ein tóft rúman 1,1 km norðan við bæ og rúmum 500 m norðan við áveitu.
Á Þingholti er nú ræktað tún og öll mannvirki horfin fyrir utan hina meintu þingbúð. Tóftin er á grónu svæði rétt sunnan við túnið. Fallin vírgirðing er þar á milli. Ekkert friðlýsingarskilti er við tóftina.
Tóftin er á háum hól sem að mestu er uppsöfnuð mannvistarlög. Tóftin er 17×15 m að stærð, einföld og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er 0,3 m á hæð og tóftin er uppi á honum. Hún er opin til norðvesturs og er einföld. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, 5-7 m á breidd og algrónir. Hvergi sér til hólfaskiptingar.

Garðhús (býli)
„Gardhús. Önnur hjáleiga, hefur í auð legið yfir 20 ár.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Garðhús: Austan í hólnum, sér enn fyrir. (Í auðn yfir 20 ár… Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar þessi bær var, fyrir utan að hann var austan í Arnarbælishól.
Svæðið sem um ræðir er nokkuð stórt og allt eins líklegt að útihús frá Nýjabæ og Stöðla séu á sama stað. Einnig kemur til greina að bærinn sé innan sumarbústaðarlands í eigu Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Sá bústaður er suðaustarlega í hólnum, fast við vegum rétt áður en komið er að bæ. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Holt (býli)

Ölfus

Holt.

„Holt: Þurrabúð, stóð á Bæjarholtinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Holt var þurrabúð sem stóð á holtinu norðan við Arnarbælishverfi. Sigurður Þorbjörnsson og Ingigerður Björnsdóttir bjuggu þar 1896-1903. Þá komu þangað Jón Jónsson og Signý Pálsdóttir og voru þar til 1903 -1935.“ Holt dregur nafn sitt af Bæjarholtinu og var þar nánast fyrir miðju. Bæjarholtið er stakstætt, lítið holt norðan við Arnarbælishól. Bærinn er á austurhluta holtsins en ekki er vitað hvort að eldri búseta var þarna þegar bærinn er byggður 1896.
Bæjarholt er tæplega 200×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það er mýrlent allt umhverfis það nema til suðvesturs, þar er hryggur sem sameinast Arnarbælishól. Allt holtið er ræktað en túnið er í órækt og nýtt til hrossabeitar. Ekki sér til fleiri mannvirkja við bæjarhólinn eða á holtinu. Bæjarhóllinn er 28×20 m að stærð og snýr austurvestur. Hann er brattur til norðurs og bakkarnir þar eru fremur háir. Hann er 0,5-1 m á hæð og algróinn. Til suðurs lækkar hóllinn og fjarar út. Hvergi sér til mannvistar á yfirborði, fyrir utan nokkra útveggi íbúðarhússins sem var byggt um 1930. Hlutar af útveggjunum sjást enn, þeir eru 2,5 m á hæð og steinsteyptir. Bárujárn og annað rusl liggur „inni“ í húsinu en þakið er farið ásamt innri veggjum.

Kerlingagöng (þjóðsaga)
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Hjá Arnarbæli í Ölfusi heitir á einum stað Kerlingagöng […] [þangað] fóru konur sem ekki treystust til að fara krossför alla leið til Kaldaðarness […] [þaðan] mátti sjá Kaldaðarnes fyrir austan Ölfusá þar sem krossinn var sem mest helgi og trú var höfð á páfadómi. En því sóttu menn eftir að sjá krossinn að því var trúað að menn fengju af því lækningu meina sinna.“ Í örnefnaskrá segir: „Nafnsins er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar, II, bls. 56. Þekkir enginn nú. Gömul munnmæli herma að konur í Arnarbæli og Kaldaðarnesi hafi notað sama klappið og henst því á milli sín.“ Í tímaritinu Sögu frá 1970 segir: „Heldur litlar sagnir um dýrkun á krossinum helga í Kaldaðarnesi geymdust fram á 19. öld. Þó eru tvö örnefni tengd dýrkuninni, en það eru Kerlingagöng hjá Arnarbæli í Ölfusi og Kvennagönguhólar. Frá báðum stöðunum mátti sjá Kaldaðarnes, en það var trú manna, að það dygði til að fá bót meina sinna, og á þessa staði fóru konur, sem ekki treystust alla leið til Kaldaðarness. Virðist þarna um gamlar sagnir vera að ræða, því að Jón Halldórsson prófastur segir í Biskupsannálum sínum, að mönnum fyndist það duga sér til meinabótar og huggunar að komast þó ekki væri nema á Kambabrún.“ Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Grímshús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 17108 segir: „Ellefta hjáleiga, hefur í auðn legið undir 20 ár. […] Tún og engi er ekkert, hafinn brúkast af staðnum.“ Í örnefnalýsingu segir: „Grímshús: Engar upplýsingar hvar hafi verið.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Nethamrar (býli)

Ölfus

Nethamrar.

„Fyrsta hjáleiga af Arnarbæli.“ JÁM II, 411. „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ SB III, 385. „Nethmaratún: Austast, mill árinnar og vegarins.
Innanvið hektar að stærð. Ölfusá hefur brotið það mjög í manna minnum.“ Ö-Arnarbæli a, 2.
Ekki til túnakort en bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907.
„Nethamrar: Eitt „kotið“, syðst og austast í hólnum [svo],“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, þá var bærinn í norðvesturhorni bæjarhúsanna, kálgarður til suðurs og aðar sambyggðar byggingar fyrir austan og vestan bæinn. Túngarður lá fast austan við bæinn. Stafnar snéru til suðurs að ánni. Engin mannvirki eru nú á bæjahólnum né ábúð jörðinni. Það er lítið sem ber bænum vitni á yfirborði. Í dag er þetta ríkisjörð líkt og Arnarbæli.
Slétt, ræktað tún nýtt til beitar. Traðir lágu fast norðan við bæinn, þar er nú malarvegur að Ósgerði og Arnarbæli.
Nethamrar voru um 250 m austan við Arnarbæli og 90 m sunnan við Ósgerði. Bæjarhóllinn er 34×28 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er sléttur, 0,2-0,3 m á hæð en hvergi sér móta fyri mannvist á yfirborði. Til norðausturs og austurs sést glitta í steypu, líklega úr útihúsum sem sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Hér er búið að slétta mikið yfir bæjarhóllinn og taka jarðveg, það glittir í klöpp ofan á bæjarhólnum.

Hóll (býli)

Ölfus

Hóll.

„Hóll. Fjórða hjáleiga.“ JÁM II, 412. „Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót.“ SB III, 383. Ekki er föst ábúð á jörðinni né vitað hvar hún stóð nákvæmlega. Mastur sem er uppi á háhólnum er þó líklega byggt í bæjarhólinn. Ekki til túnakort né er hann sýndur á bæjateikningu danskra landmælingamanna 1907.
„Hóll: Kot, stóð upp á hólnum, þar, sem hann er hæstur, norðaustur af Arnarbæli og átti tún suðaustur í hólnum. (Í byggð, fóðrar 7 kýr. Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1926 byggðu þarna á holtinu Þórður Magnússon frá Ósgerði og Arnþrúður Hannesdóttir. Þau ræktuðu þarna blett í kringum hús sitt. Þennan blett nefndi Þórður Hól (…) nafnið er dregið af koti sem áður stóð á háhólnum norðan Arnarbælis.“ Ekki er vitað hvar nákvæmlega yngri bærinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og eldri Hóllinn. Hóll var 70 m norðaustan við Arnarbæli og 30 m norðaustan við kálgarð. Mastur er uppi á háhólnum, líklega á sama stað og bærinn var. Ekki er vitað hvenær ábúð féll niður, áður en yngra býlið er byggt 1926. Í manntölum 1835-1870 er ábúð á jörðinni. Eftir það fer bærinn í eyði, líklega á millu 1870-1880.
Mikið rask er uppi á háhólnum. Þar er mastur ofan á litlu húsi og malarvegur að því. Mastrið og húsið eru á steyptum grunni. Allt umhverfis er ræktað tún, nýtt til hrossabeitar.
Bæjarhóllinn er 38 x 26 m að stærð og snýr austur-vestur. Stafnar bæjarins snéru líklega til suðurs, í átt að Ölfusá. Til suðausturs sést glitta í grjóthlaðinn kant, hann er 1 m á hæð og bogadreginn. Fyrir norðan mastrið er einnig hóll, líklega hluti af bæjarhólnum. Þar sjást ummerki um mannvist, járnrör og grjót standa þar upp úr hólnum. Tún Hóls tilheyrir nú sumarbústaðalandi Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Vírgirðing liggur yfir austurhluta hólsins og þar er búið að planta miklu magni af trjám. Hvergi sjást ummerki um greinilegar tóftir á yfirborði.

Krókur/Stóri-Krókur (býli)

Ölfus

Krókur – túnakort 1918.

„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ JÁM II, 413. Ekki er föst ábúð á jörðinni, þar er nú sumarbústaður og trjárækt í heimatúninu.
1917: Tún 1.1 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 747 m2. „Krókstún: Vestan í hólnum, frá gömlu tröðunum og norður að veitu.“ Ö-Arnarbæli a, 3.
„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708.
„Krókur: Stendur enn á sama stað og áður (Stóri-Krókur í ábúð 1/2, hitt notað frá Stöðlum, fóðrar 9 kýr, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnaskrá. Krókur er um 150 m NNV við Arnarbæli og 50 m sunnan við Stöðla. Bærinn var uppi á hólnum, vestan við traðir sem lágu áfram að Stöðlum og Nýjabæ. Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Kálgarður var sambyggður bænum til vesturs og suðurs og útihús til norðurs og norðausturs. Kálgarður Stöðla var sambyggður útihúsunum að norðan. Öll bæjarhús hafa verið rifin og lítil ummerki um bæjarhól sjást á yfirborði. Þarna er nú sumarbústaður og gróinn bakgarður honum tengdur með tilheyrnandi jarðraski. Ekki er lengur ábúð á jörðinni. Samkvæmt túnakorti frá 1918 var bærinn efst í túninu til norðurs, nánast fyrir miðju. Túnið var allt fyrir sunnan bæinn og sést það einnig á bæjarteikningunni, afmarkarð með gaddavír að öllum líkundum.
Bakgarður sumarbústaðarins er gróinn. Þar er búið að planta miklu af trjám og gera sléttar grasflatir inn á milli.
Erfitt er að greina stærð bæjarhólsins á yfirborði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Sjöunda hjáleiga, hefur í auðn verið síðan fardaga. […] Grasnautn alla brúkar áðurnefnd húskona á Stöðlum.“ „Litli-Krókur: Stóð hjá Stóra-Króki (Í eyði frá síðustu fardögum… Jarðab.A.M),“ segir í örnefnalýsingu.
Litli-Krókur er 30 m sunnan við bæ og rúmum 100 m NNV við Arnarbæli. Staðsetning býlisins er sýnd á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, syðst í túni Króks. Umrætt svæði er í miðri skógrækt, miklu af trjám hefur verið plantað á merkjum við Arnarbæli með tilheyrandi jarðraski. Ekki er vitað hvernig stafnar bæjarins snéru, líklega til austurs eða vesturs sé tekið mið af lagi hólsins.
Bæjarhóllinn er á hólhrygg sem snýr NNV-SSA. Hóllinn er brattur til norðurs en fjarar út til annarra hliða. Bæjarhóllinn er um 18 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Hliðar hans eru aflíðandi og grónar.
Erfitt er að greina nákvæma stærð bæjarhólsins á yfirborði.

Stöðlar (býli)

Ölfus

Stöðlar.

„Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu. Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni LitlaKróki.“ JÁM II, 412. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1961 féllu jarðnot Stöðla til Króks.
Ríkissjóður á jörðina.“ SB III, 384. Ekki er búið á jörðinni, þar er sumarhús.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 11/12 slétt. Garðar 720 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu.
Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni Litla-Króki.“ Í örnefnalýsingu segir: „Stöðlatún: Suðvestan í Hólnum, norðan vegarins vestur á engjar að gömlum tröðum, sem lágu frá Króki og niður að Bjálkhúsós. […] Stöðlar: (í Stöðlum) Stóðu áður norðan Króks, áfast við (í ábúð, fóðrast 9 kýr, Jarðab.A.M.).“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir
bæir: Stöðlar, Nýibær, […].“ Stöðlar eru sýndir á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Bærinn var uppi á háhólnum, milli Króks og Nýjabæjar. Stöðlar eru rúmum 200 m norðan við Arnarbæli og um 50 m norðan við Krók. Bærinn var austan við veginn sem lá upp að Nýjabæ, kálgarður var fyrir sunnan, suðvestan og norðvestan bæinn. Túnið var fyrir suðvestan bæinn og það var stækkað til vesturs á milli þess sem bæjarteikningin og túnakortið er gert.
Bæjarhóllinn er horfinn, þarna eru nú sléttar grasflatir, skógrækt og skjólbelti úr öspum og birki. Sumarbústaður er nú á vesturhluta bæjarhólsins og öll hús horfin. Miklar breytingar hefur átt sér stað frá því að ábúð var hætt á jörðinni 1961.
Bæjarhóllinn sést ekki né ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði. Hvar nákvæmlega bærinn stóð er ekki vitað, líklega var það skammt austan eða norðaustan við sumarhús sem þarna er nú.
Umhverfis sumarhúsið er búið að planta trjám og gera grasflatir.

Nýibær (býli)

Ölfus

Nýibær.

„Níunda hjáleiga.“ JÁM II, 413. „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1950. Króksbóndi fékk þá túnið.“ SB III, 386. Ekki er föst ábúð á jörðinni og hún innan sumarbústaðalands á Króki og Stöðlum.
1917: Tún 1.6 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 910 m2. „Nýjabæjartún: Norðurbrekkan á hólnum“ Ö-Arnarbæli a, 3.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Níunda hjáleiga.“ „Nýjibær: Stóð norðast í hólnum, sér fyrir bæjarstæði.
Nýlega kominn í eyði. Síðasti ábúandi, Björn Sigurðsson, bróðir heimildarmanns,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1960. Krókur fékk þá túnið.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […].“ Nýibær er 270 m norðan við Arnarbæli og 100 m NNA við Stöðla. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kálgarður var sambyggður bæjahúsunum til suðurs og vesturs. Öll hús á jörðinni hafa verið rifin en þau sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Túngarður lá að bænum til norðurs. Hóllinn er sléttur og bærinn var nyrst á honum. Þarna eru nú tún og skógrækt í tengslum við sumarbústaði sem þarna eru.
Bæjarhóllinn er 16×10 m að stærð, snýr norður-suður og er 0,5 m á hæð. Hóllinn er mikið raskaður, bæði vegna niðurrifs, sléttunar og skógræktar. Fyrir sunnan hólinn hefur mikið af trjám verið plantað, aðallega öspum og birki. Bæjarhóllinn er algróinn en uppi á norðurhluta hans er búið að stafla miklu af trjágreinum. Hóllinn skagar fram í brekkubrúnina og ennþá er líklega mannvist undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs að öllum líkindum.

Kaldakinn (býli)

Ölfus

Kaldakinn.

„Kaldakinn: Smáhóll norðaustan í hólnum, syðst í Nýjabæjartúni. Þar stóð kot (í eyði síðustu árdaga, staðurinn notar túnið),“ segir í örnefnalýsingu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Tíunda hjáleiga, bygð fyrir 2 árum. Nú í eyði síðan fardaga. […] Túnið er brúkað til slægna frá staðnum.“ Þegar Jarðabókin er gerð í ágúst en jörðin búin að vera í eyði um 2 mánuði. Ekki er vitað hvort að býlið byggðist upp aftur, hafi það eins verið í byggð í 6 ár er ekki mikilla minja að vænta. Ekki er vitað með vissu hvar Kaldakinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og útihús. Kaldakinn var tæpum 60 m suðaustan við bæ og 15 m norðan við útihús. Kaldakinn var á brekkubrúninni, hóllinn lækkar til austurs frá bænum. Gróið tún í halla til austurs. Svæðið er innan sumarbústaðalóða og þar eru víða skjólbelti og grænar flatir. Túnið er ekki nýtt.
Tvær þústir komu til greina sem Kaldakinn.

Bakkárholt (býli)

Ölfus

Bakkárholt.

30 hdr. JÁM II, 405. 12 ½ hdr. 1847, JJ, 74. „Jarðdýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum. NB. Þessi jörð er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr XX hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr XXX hdr, er kallað Partur (ÁR507] […]“ JÁM II, 405. Bærinn stendur á holti og þar var túnið. Vestur af því eru blautar engjar nema bakkar Gljúfurholtsár. […] Mótak gott. Selstaða var í Sogni og beit í Gljúfri. Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ SB III, 378.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1460 m2.
Bærinn á Bakkarholti stendur enn á samnefndu holti. Bærinn er sýndur, nánast í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918.
Íbúðarhús var byggt 1908 – 1910 á bæjarhólnum og núverandi íbúðarhús þar rétt norðar, árið 1944. Það hús er ónýtt og fór bærinn úr ábúð árið 2016 þegar síðasti ábúandi flutti burt. Útihús voru reist á 20. öld í suðurhluta bæjarhólsins en þau voru rifin í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Þau útihús sjást á loftmynd frá árunum 1998 – 2000. Þegar „stóra hlaðan“ var rifin komu í ljós minjar í gólfi hennar og eru þær ennþá varðveittar þar undir sverði. Þetta eru minjar líklega allt frá landnámstíma að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og útihúsin röðuðust til norðurs á túnakorti frá 1918.

Ölfus

Bakkárholt – túnakort.

Bærinn hefur alltaf staðið á þessum slóðum að sögn Margrétar.
Núverandi íbúðarhús var um 30 m norðvestan við úthús frá 20. öld sem reist voru í suðurhluta bæjarhólsins. Þar er slétt, grasivaxið svæði og þar norðar er „hóll“ sem er að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög þrátt fyrir mikið rask. Allur bæjarhóllinn er mikið raskaður og þar er nú slétt, gróið svæði. Bæjarhóllinn er 60 x 40 m að stærð og snýr austur-vestur. Á túnakortinu eru bæjarhúsin til norðurs en svo hefur ekki alltaf verið sé tekið mið af stærð bæjarhólsins. Bærinn náði mögulega allt fram á brekkubrúnina fyrir sunnan 20. aldar útihúsin að sögn Margrétar. Ljósmynd af bænum er til í fórum Margrétar en erfitt er að sjá hvar húsið var nákvæmlega, mikið rask er sem fyrr segir á bæjarhólnum. Erfitt er að greina náttúrulega uppsöfnun mannvistarlaga á yfirborði en nóg er af þeim undir sverði.
Þegar hlaðan var rifin komu m.a. í ljós hlóðir og ummerki um langeld. Margrét Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur, skoðaði þessar minjar árið 2009. Núverandi hóll sem sést á yfirborði er að mestu ummerki um mannvist tengd 20. aldar mannvirkjum. Víða má sjá timburleifar, járnarusl og tilfallandi brak. Bæjarhóllinn er 0,5-1 m á hæð, á köflum eru brattar brúnir þar. Alls svæðið er mjög gróið, aðallega gras og njóli.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Ölfus

Gálgaklettar.

„Gálgaklettar. Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, en hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni,“ segir í örnefnalýsingu. Gálgakletta er getið í Lýsingu Ölfus frá 1703 sem birt er í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu. Þetta eru ekki hinir eiginlegu Gálgaklettar að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Þeir eru sunnar og skráðir undir númeri 032 hér í skránni. Þessir klettar fá að njóta vafans og taldir til fornleifa. Þetta er nyrsti hluti Bakkárholtskletta, um 190 m norðan við bæ og 30 m norðan við hestarétt.
Þetta er norðvesturendi Bakkárholtskletta, vestarlega í heimatúni bæjarins. Skoran sem lýst er í örnefnaskrá sést vel en ekki sér til neinna mannvirkja þarna.

Þinglaut (þingstaður)

Ölfus

Þinglaut.

„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum [ÁR-525] og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús [sjá 039] stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“
Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt 015, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.

Borgarkotsmelsrétt (rétt)

Ölfus

Borgarkotsrétt.

Tóft er í svokölluðum Borgarkotsmel, í vesturhluta hans. Þetta land tilheyrði Strýtu eftir að jörðinni var skipt upp. Tóftin er rúmum 30 m vestan við tóft og um 840 m suðaustan við bæ. Tóftin er vestan við hraunhól/hrygg og sést ekki fyrr en að henni er komið. Lag og staðsetning tóftarinnar bendir einna helst til þess að um heimarétt sé að ræða. Gróinn mói. Víða koma klapparhólar og hryggir upp úr sverði. Hóllinn er 2 – 3 m á hæð. Uppblásinn melur er þar á milli. Skammt vestan við tóftina er uppblásið svæði. Þetta svæði er nýtt til hrossabeitar.
Tóftin er 11,5 x 7 m að stærð og snýr norður-suður. Hún skiptist í þrjú hólf og aðrekstrargarður liggur að henni til suðurs.

Gálgaklettar (aftökustaður)
„Gálgaklettar. Stakir klettar nyrzt á Másteinsholti. Þar er nú fjárhús. Ég tel ólíklegra, að þar hafi sakamenn verið hengdir en í hinum Gálgaklettunum,“ segir í örnefnaskrá. Gálgaklettar eru tæpum 600 m suðvestan við bæ og 90 m vestan við tóftir. Þetta eru náttúrulegir klettar syðst á Másteinsholti. Þeir eru innan landsvæðis sem tilheyrir Grænhól í dag.
Fjárhúsin voru byggð um miðja 20. öld. Allt umhverfis þau, og klettana, er ræktað tún, nýtt til beitar.
Gálaklettar eru sunnarlega í klettahól. Þeir eru þrír talsins, sá vestasti hefur klofnað frá hinum tveimur. Hliðar klettanna eru víða beinar og lóðréttar. Þeir eru 1 – 2 m á hæð og gróður er neðst í þeim. Víða má ímynda sér að gálgi hafi verið.

Bakkárholtspartur (býli)

7,5 hdr. JJ, 75. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Þessi jörð [Bakkárholt] er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr 30 hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr 30 hdr, er kallað Partur og stundum Bakkárholtspartur, vide infra.“ JÁM II, 405. „Sandhóll hét áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum. Engjastykki í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því.
Árið 1935 keypti ábúandinn […] gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hét það.“ SB III, 377. Ennþá er búið á jörðinni og er hún ein af síðustu jörðum í Ölfusi með sauðfjárbúskap.
Ekki til túnakort.
Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e.m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. —
Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ „Bakkárholtspartur heitir nú Sandhóll – núverandi bóndi þar, […] keypti samkomuhús með því nafni og flutti bæinn og „Parturinn“ hefur nú fengið það nafn; […] Sandhóll. Hóll norðan Partstúns. Þar byggði Umf. Skarphéðinn samkomuhús, sem notað var til skólahalds og samkomu, þar til þinghús var byggt í Hveragerði 1931. Þá keypti Þorlákur Sveinsson, sem bjó í Bakkárholtsparti, húsið og flutti búsetu þangað; þá hvarf nafnið á Partinum,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sandhóll hér áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum.
Engjastykki var í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því. Árið 1935 keypti ábúandinn, Þorlákur Sveinsson, gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hér það.“ Öll hús sem stóðu þegar bærinn var fluttur 1931 eru horfin af bæjarhólnum.
Það eina sem ber bænum vitni er steypt haughús sem skagar fram til austurs úr brekkunni. Bærinn var þar vestar, uppi í brekkunni, að sögn Páls Auðar Þorlákssonar, heimildamanns. Bæjahóllinn er rúmum 330 m sunnan við Sandhól.
Bæjarhóllinn er í sléttu túni. Það er slegið og nýtt ennþá. Brekkan er aflíðandi, um 10 m há og bærinn var ofarlega í henni. Lagnaskurður úr Partslind 003 liggur fyrir vestan bæjarhólinn en ekki eru sagnir um mannvist hafi komið í ljós við gerð hans. Bæjarhóllinn er um 50 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er sléttur, 0,2-0,4 m á hæð og hliðar hans aflíðandi. Ekki sér til annarra mannvirkja þar. Bærinn var ofarlega í Bæjarholtinu, á halla til austurs. Þarna er smá „stallur“ í brekkunni og var bærinn þar. Haughúsið er í austurhluta bæjarhólsins, þar er slétt plata og er það grafið niður í bæjarhólinn. Platan er 10 x 7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hægt er að kíkja þar inn, op sést til austurs. Ekki eru önnur mannvirki sjáanleg á hólnum eða ummerki um mannvist, gera má ráð fyrir að töluvert sé ennþá undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til austurs að öllum líkindum.

Borgarkot (býli)

Ölfus

Borgarkot.

5 hdr, 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Borgarkot, hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn með heimajörunni og er því óviss. Eigandinn sami og heimajarðarinnar.“ JÁM II, 407.
„Ingólfshvoll. Hét áður Borgarkot en nafninu breytt árið 1931, 5 hundruð úr Bakkárholtstorfunni.“ SB III, 379. Ekki er föst ábúð á jörðinni. Þar er nú starfrækt fyrirtæki, Fákasel. Það sérhæfir sig í hestasýningum, þar er búð og veitingastaður. Einnig er hrossarækt og tamningastöð þarna.
Ekki til túnakort.
„…Borgarkot (heitir Ingólfshvoll frá 1931) austan árinnar; […] Lágt holt er austan gamla bæjarins.
Þar stendur nú íbúðarhúsið og peningshús. (Borgarkotsholt?),“ segir í örnefnalýsingu.
Borgarkot var rúmum 310 m ASA við Bakkárholt, austan við ánna á stakstæðu holti. Holtið er ekki mjög stórt en bærinn var á því miðju og til austurs. Á loftmynd sem tekin var skömmu fyrir 2000 sjást ennþá bæjarhús/útihús á gamla bæjarstæðinu en þau hafa nú verið rifin og mikið jarðrask er á bæjarhólnum. Bærinn var fluttur 130 m suðaustar árið 1963. Ekki er ljóst í hvaða átt stafnar bæjarins snéru. Það er ólíklegt að mikil mannvistarlög séu undir sverði á bæjarhólnum, þar sést í klappir. Holtið er 10 m hátt, 90 x 50 m að stærð og snýr NNV-SSA. Klettar eru efst á holtinu og mynda grónar þústir þar uppi á. Jarðvegurinn er þunnur þar. Umhverfis bæinn var sléttað tún sem nú er komið í órækt og nýtt sem beitarhólf fyrir hross.
Ekki er vitað hvar bærinn var nákvæmlega á holtinu, líklega hefur hann þó alltaf verið á sama stað, austan við útihúsið sem sést á loftmyndinni. Þar er mikið jarðrask, sérstaklega þar sem útihúsin voru vestan í holtinu. Þau voru mögulega niðurgrafin eða að öllum bæjarhólnum hefur verið rutt burtu. Uppi á holtinu er flatt svæði og það lítur út fyrir að uppblástur hafi verið að verki, raskið er slíkt. Það er ekki tilfellið, þetta er manngert rask. Bæjarhóllinn en nánast niðurgrafinn, það er „laut“ þarna og hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga. Það má sjá grjótdreif, steinsteypu norðan í holtinu, bars þangað með vinnuvélum. Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins af þessum sökum. Fyrir austan holtið er nokkuð djúp laut vegna jarðrasks og þar er einnig rusl úr 20. aldar byggingum.

Strýta (býli)

Ölfus

Strýta.

Hjáleiga frá Bakkárholti. 2,5 hdr. 1847. JJ, 75. „Önnur hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn og tíundaður í heimajörðunni.“ JÁM II, 407. „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Landið þar um kring er blautt en jörðin notaði mest landið niður með ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ SM III, 380. Grænhóll notar enn jörðina og hún er nytjuð samhliða þeirri jörð.
Ekki til túnakort.
„Strýta. Gamalt býli á vestri árbakkanum, sunnan Bakkárholts,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Ekki er til túnakort af jörðinni en bærinn var rúmum 220 m sunnan við Bakkárholt og rúmum 210 m suðaustan við Grænhól. Þar sjást engin hús og sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru eða hvar á bæjarhólum bærinn stóð.
Strýta tilheyrir Grænhól, heimatúnið er komið í órækt, er smáþýft og nýtt til hrossabeitar. Það liggur undir miklum ágangi af þeim sökum. Túnið er grasivaxið, í aflíðandi halla til suðurs. Bakkárholtsá rennur fast suðaustan við bæjarhólinn.
Bærinn var á náttúrulegum hól sem skagar til SSA, fram að Bakkárholtsá. Hóllinn er sléttaður og mikið raskaður. Hann er um 30 x 20 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er 0,2 – 1,5 m á hæð, þýfður, grasivaxinn og víða glittir í hleðslugrjót. Bæjarhóllinn er greinilegastur til suðurs, þar er brún hans hæst og brött. Þar er hann jafnframt sléttur og mögulega var kálgarður þar. Hóllinn hækkar til norðurs, líkt og holtið og þar er mikið jarðrask.

Grænhóll (býli)

Ölfus

Grænhóll.

2 ½ hdr. 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Þriðja hjáleiga í eyði, bygð í heimalandi fyrir vel 40 árum, varðaði bygðin inn til næstliðinna 4 ára. Dýrleikinn talinn í heimajörðunni ut supra.“ JÁM II, 407-408. „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landsnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar. Þar voru þurrlendir móar sem nú eru ræktaðir. Engjar góðar, lágu á bökkum Gljúfurholtsár.“ SB III, 380.
1917: Tún 6 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1844 m2.
„Grænhóll. Býli suðvestur af Bakkárholti. Heitir eftir hólnum sem það stendur á,“ segir í örnefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Núverandi íbúðarhús er það þriðja síðan bærinn brann árið 1936. Sá bær var nyrstur, þá var byggt hús rétt sunnar sem var rifið. Núverandi hús er syðst en engu að síður á bæjarhólnum að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns. Húsin hafa smám saman færst til suðvesturs. Ekki er vitað í hvaða átt stafnar bæjarins snéru en mikið rask er á bæjarhólnum og hann sést ekki á yfirborði. Bærinn dregur nafn sitt af stakstæðum hól/holti og er hann ennþá á honum. Bærinn hefur alltaf verið á sama stað en húsin færst til á holtinu.
Þarna er mikið rask vegna bygginga og annarra framkvæmda. Yfir norðurhluta bæjarhólsins er malbikað plan og 20. aldar útihús sem nýtt eru sem hesthús. Í suðurhlutanum er núverandi íbúðarhús og bakgarður þess. Enginn ummerki um eldri húsin sjást. Planið er hæst í miðjunni en erfitt er að áætla hvort þar er vegna mannvistarlaga.
Engin ummerki bæjarhólsins sjást á yfirborði.

Vellir (býli)
Ölfus„Bærinn á Völlum stendur á litlum hól, sem sennilega hefur myndast af því að bærinn hefur verið byggður þar öld eftir öld.“ segir í örnefnalýsingu. Íbúðarhús – elsti hluti þess byggður 1906 – stendur enn á hólnum. Í suðurmörkum hans hafa verið byggð fjögur lítil sumarhús/svefnskálar. Uppi á hólnum er íbúðarhús vestast með hálfniðugröfnum kjallara en útihús eru sambyggð því að austanverðu, hlaða næst íbúðarhús og fjós austan við hana – þar austan við er hlað. Hólnum sjálfum og umhverfi hans hefur verið breytt mikið og eru þar nú aðkeyrslur og göngustígar, lystigarður að sunnan og vestan en athafnasvæði að austan og norðan.
Stór ávalur hóll, rúmlega 40 m frá austri til vesturs og um 30 m frá suðri til norðurs. Bærinn hefur verið byggður á lágri brún í landslaginu og er hóllinn því mun brattari að vestan og sunnan – þar rúmlega 2 m hár. Hlaðan sem er næst íbúðarhúsinu að austan brann að hluta 1955 og var þá handgrafinn kjallari undir núverandi hlöðu. Eldra fjós þar austan við – forveri þess sem nú er, snéri stafni til suðurs. Þegar grafið var fyrir súrheysgryfju norðan við íbúðarhúsið var komið niðurá hveraleir. Húsin eru nú í eigu Eldhesta.

Vallakirkja (kirkja)
20 hdr. 1706 og 1847. JJ, 75. Reykjakirkjujörð.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. DI IV 96.
1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. DI XV 643-644.
1708: “ Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einninn til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni frá 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“
Jörðin var hluti af Reykjatorfu og átti hluta í óskiptu landi. Núverandi eignamörk ná aðeins yfir næsta nágrenni bæjarins, milli þjóðvegar 1 og gamla farvegar Varmár/Vorsabæjarlands.
1918: Tún 4,2 ha, 4/5 slétt. Garðar 984 m2. Túnið var að mestu náttúrulega slétt og sama gildir um valllendið austan við það, austur að núverandi farvegi Vallalækjar (sem áður rann um túnið). Þar er harðbali og hefur aldrei verið sléttað með vélum. Sunnan við túnið voru engjar, blautari eftir því sem sunnar dró og þar hefur verið ræst fram.
„Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einning til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1706. Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“ Í örnefnalýsingu segir: “ Á hlaðinu framan (suðaustan) við bæinn stendur hjallur. Munnmæli herma að þar hafi staðið kirkja eða bænhús. […] Ég spurði sérstaklega um hvort nokkurn tíma hefði komið nokkuð fram, sem benti til þess að þar hefði verið grafreitur. Heim. vissi ekki til þess. En sú trú er enn við lýði að á þessum stað eigi alltaf að standa hús.“ Hjallurinn hafði norðvesturhorn þar sem nú er hliðstólpi um 4 m sunnan við suðausturhorn hlöðu sem er sambyggð íbúðarhúsi að austan. Kirkjugarðurinn náði innundir núverandi hlöðugrunn.
Nú er malarborið hlað að austan, stétt að vestan en lystigarður með trjáhríslum að sunnanverðu. Þegar hlaðan var undurbyggð eftir bruna 1956 var handgrafinn kjallari undir henni. Komu þá í ljós mannabein syðst í grunninum. Hjallurinn – sem staðið hefur á hinni fornu kirkjutóft – fauk en var endurbyggður á sama stað um 1960. Yngri hjallurinn snéri eins og framhlið húsanna en mjög þröngt hafði verið að komast á milli gamla hjallsins og bæjarhúsanna.

Vallasel (sel)

Ölfus

Vallasel.

„Vallasel: Grasflöt neðan við brekkuna, frá Lækjum og að borholunni,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Vallasel er um 60 m sunnan við fjárborg og 150 m norðaustan við brýr.
Selið er 2 m vestan við upplýsingaskilti neðan við Rjúpnabrekkur. Malarvegur að fyrrnefndri borholu er 2 – 4 m frá tóftinni og ferðamenn fara þar fram hjá við upphaf göngu inn Reykjadal. Selið er í stórhættu vegna staðsetningar skiltisins og ágangs sem því fylgir. Vallasel er á grasivöxnu svæði neðan við brekku. Svæðið er slétt en grjót kemur á stöku stað upp úr sverði. Seltóftirnar eru ógreinilegar, frekar er um rústahól með veggjabrotum en skýra tóft að ræða. Hóllinn er 30 x 12 m að stærð og snýr norður-suður. Framhlið selsins snéri til austurs, enn má sjá op og dyrastein um 2 m til austurs frá fyrrnefndu minjaskilti.

Reykir (býli)

Ölfus

Reykir.

1706. 67 2/3 hdr. Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399. 1847. 27 hdr. JJ, 75. “Maðr bjó at Reykjum í Ölfusi, er Ingólfr hét ok var Arnarson. Setti hann fyrstr manna byggð á Íslandi. Þá var hann á gamals aldri ok sjónlauss. Þar beiddist Ármann gistingar [Ingólfr vísar Ármanni til landa uppi við Hrafnabjörg].” Ármanns saga, Íslendinga sögur II, 423.
“Eftir jól 1237 fór Snorri Sturluson vestur í Ölfus til Gissurar Þorvaldssonar. Hann fór síðan aftur af nesjum suður til Reykja og var með Gissuri um föstuna […] Gissur Þorvaldsson bjó að Reykjum í Ölfusi þau misseri er þeir önduðust Magnús biskup og Guðmundur biskup [1237]”, Sturlunga, 383, 388.
“1238, eftir Apavatnsför […] Gissur var hinn kátasti og reið um kveldið út til Reykja. voru þá sendir menn um Grímsnes og Ölfus eftir nautum og voru rekin til reykja og etin þar um helgina.” Sturlunga, 400 sbr. 406.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. … Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæarland. … Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are. DI ??
1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. … lagdi Sturli til kirkiunnar … firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. DI IV 96-97.
6.5.1446 voru 20 hdr í Reykjum meðal eigna Þorvarðar Loptssonar að honum látnum. DI IV, 679.

Ölfus

Reykir, Stanley 1789.

22.9.1540 er dæmt að Gissur biskup mætti heimta allan reikningsskap Skálholtsstól eftir Ögmund biskup og var jörðin Reykir í Ölvesi þar nefnd sérstaklega. DI X, 561.
1540 fyrirbýðir Gissur biskup öllum að byggja eða bæla jörðina Reyki í Ölfusi “Sakir þess ad kyrckiunnar radi hefur virdst sem reikir j Olvesi væri riettileg domkyrckiunnar Eign og ecki yfer þeigia meiga ad þessi jord drægist vndan heilagri Scalholltz kyrkiu.” DI X, 579 sbr. bréf Gissurar til Ögmundar biskups í byrjun árs 1541 þar sem hann biður Ögmund að leggja sitt til að Reykir drægist ekki undan dómkirkjunni “þui eg vil helst giarnan eiga allt gott vid ydvart folk mier ad vijtalausu.” DI X, 600.
1540 veitir Gissur biskup Oddi Gottskálkssyni alla jörðina Reyki til leigulausrar ábúðar “Suo skulu og fyrrgreindir reyker eiga skipstodu frij j þorlakshofn epter þui sem adur uar j tijd b[iskups] augmundar.”
DI X, 576 (sbr. “settest [Oddur] i bu med Þuride Einarsdottur oc bio med henne nockur aar aa Reykium i Olvese ogiptur. þangad til hann ætti son med henne. Petur ad nafne. sijdan tok hann hana til egta – DI XIII, 134. Á Reykjum þýddi Oddur Píningarsögu Bugenhagens 1545 en hún kom út 1558).
1541 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla kærður fyrir að hafa markað undan kirkjumarki Reykjakirkju. DI X, 677-78.
1541 lögfestir Gissur biskup Skálholtskirkju Reyki í Ölfusi. DI X, 686.
11.1.1542 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla dæmdur fyrir að hafa haldið fyrir kirkjunni á Reykjum 6 kúgildum. DI X, 698.
[1553-54] Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. DI XII, 662.

Ölfus

Reykir 1930, berklahæli…

1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. Ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga I Surbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. DI XV 643-644.
1706 eru kirkjujörðin Vellir í óskiptu landi Reykja, og auk þess hjáleigurnar Reykjakot, Reykjahjáleiga og Kross, sem síðar urðu sjálfstæðar jarðir. Þá nefnir jarðabókin eyðihjáleigurnar Engjagarð, Grændalsvöll og Litlu-Reyki. Reykjahjáleiga var lögð undir búið 1931.
1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
Hefðbundin búskapur hætti á Reykjum 1930 og árið 1931-1938 var rekið þar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Árið 1939 tók Garðyrkjuskóli ríkisins við jörðinni, nú er Landbúnaðarháskóli Íslands með starfsstöð á jörðinni. Árið 1963 var Skógrækt ríkisins falið að girða og friða landið til skógræktar í samvinnu við Garðyrkjuskólann. 1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
„Reykir hafa verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi, gegnum aldirnar. Þar sátu höfðingjar á Sturlungaöld. […] Síðar sátu þar merkisklerkar . […] Bærinn á Reykjum stóð þar sem nú stendur geymsluhús Garðyrkjuskólans. Bæjardyr til suðurs og kálgarður sunnan undir bænum vestanverðum. Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. […] Af hlaðinu lágu traðir til suðausturs, sér enn fyrir og götuna austur með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, fyrir miðju gamla heimatúnsins. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sumir telja að Reykir muni vera fyrsti bærinn í Ölfusi. Þar hafi fengið bólfestu Karli „Þræll“ Ingólfs Arnarsonar, sá er fór fyrir ásamt Vífli og leitaði öndvegissúlnanna.“ Öll ummerki bæjarhóls og bæjahúsa eru horfin af yfirborði vegna bygginga frá á 20. öld og annarra framkvæmda á svæðinu. Bærinn var nánast í miðju þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands hefur til umráða.
Malbikaður vegur liggur að bæ 001 úr vestri og annar vegur liggur yfir bæjarhólinn til austurs. Nú er tvílyft, steinsteypt geymsluhús þar sem bærinn var áður og bílaplan til norðurs og suðurs. Húsið er notað sem geymsla og verkstæði en þarfnast viðhalds.
Kirkjugarður er 10 m austan við bæ en teikningar af bæjarhúsum á Reykjum er m.a. að finna í bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789.
Malarvegur liggur milli kirkjugarðsins og geymsluhússins. Öllu svæðinu umhverfis geymsluhúsið hefur verið raskað. Malarborin bílastæði eru til norðurs og suðurs, vegur til austurs og gróðurhús til vesturs.
Lág hólmyndum sést sunnan við húsið en ekki er hægt að fullyrða að um ummerki bæjarhóls sé að ræða, jarðrask er of mikið.

Reykjakirkja (kirkja)

Ölfus

Reykir – kirkja.

Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykir eru og gamall kirkjustaður. Sú kirkja var helguð heiligum Laurentsíusi […] Kirkjan var flutt um skamman tíma að Völlum „vegna þess að hver kom upp í kikrjunni“ eins og segir í heimildum. Kirkjan á Reykjum fauk af grunni í ofviðri haustið 1908. Ekki byggð upp aftur. […] Grafreitur er sléttaður, sér enn fyrir kirkjustæðinu. Er vel girtur og í góðri hirðu.“
c. 1200: Páll bp Þar á yfirreið, munngát á móti honum; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339.
c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 8.
1382-91: XCII. Reyker. Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. Þar skal vera heimilisprestur. Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæar land. tvenn messuklædi oc hokul med pell .ij. alltarisklædi. annad med pell. kaleik. kiertistikur .iij. sacrarium mvnnlaug. glodarkier. krossar .ij. Mariuskriptt. Laurentiusskriptt oc tiolld vmm kor. fontklædi .xiij. bækur. kantarakapa. merki. glerglugg. Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are 1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. Jtem .c. er Halldora gaf oc .c. er Jon Gilsson gaf oc hestr er gafst eptir Jon Jvarsson. lagdi Sturli til kirkiunnar alltaraklædi oc dvk. hokul. paxspiolld .ij. oc pentan frammi firir kor. þetta allt saman firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. ar fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. Jtem forn tyund er i maldaga Herra Michaels er skrifad .viijc. og .xvij. aurar. DI IV 96-97.
[1553-54]: Reyker j Olvese. Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. Þar liggia til x Bæer. og fellur nu: [vantar] kirkian sterck og nockud geingin. DI XII, 662.
1575: CXCI. Reyker. Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga i Saurbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. Jtem i kirkiunne ij messuklæde. ein klucka. korbialla. silffur kaleikur. Jtem lijtill Jarnkall. ij koparpijpur. Jtem fastagötz Lxc. Lausagötz Lxxxxiiijc. DI XV 643-644.
f. 1700: Reykjakirkja var flutt að Völlum um 30 ára tíma; (PP, 93).
1706: Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399.
21.7.1786: Skipað að Reykjakirkja skuli aftakast; (PP, 93) [konungsbréf].
21.5.1790: Fyrri skipun tekin aftur; (PP, 93) [konungsbréf].
Þar segir í SSÁ: „2ur að Reykjum, sem er annexíukirkja. Sóknarbæir þangað liggjandi 12.“
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
„Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. Garðurinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og vel gripheldur 1929. Sú girðing, sem nú er um garðinn, var gerð seinna og lögðu ýmsir, sem áttu þar ættingja í jörðu fé til, sér enn fyrir kirkjustæðinu og fáeinum leiðum,“ segir í örnefnalýsingu. Lág veggjabrot bera kirkjunni vitni sem og kirkjugarður þar umhverfis. Kirkjan er 10 m austan við bæ, innan þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands er með starfsemi.
Fyrir vestan og sunnan kirkjugarðinn eru byggingar tengdar skólastarfsemi Landbúnaðarháskólans. Til norðurs er malarvegur og slétt grasflöt.
Kirkjugarðurinn er 24×20 m að stærð, snýr austur-vestur og afmarkast af torf- og grjóthlöðnum veggjum. Eins og segir hér ofar, er ekki um fornan vegg að ræða, hann var hlaðinn um miðja 20. öld á sama stað og eldri veggurinn að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns. Veggurinn er algróinn innan kirkjugarðsins en að utan má sjá 3-4 umför af grjóthleðslu. Hann er 0,4-1 m á hæð. Gengið er inn í kirkjugarðinn að norðan en ekki vestan líkt og áður var. Kirkjutóftin er í miðjum kirkjugarðinum sem er grasivaxinn og sléttur. Ekki sér móta fyrir gröfum né minnismerkjum þar. Kirkjutóftin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð að utan, snyrtilegir og jafnir. Það bendir til þess að tóftin og nánasta umhverfi hafi verið snyrt, sléttað og lagfært á einhverjum tímapunkti. Mögulega var fyllt upp í tóftina, veggirnir eru það lágir. Ekki sér móta fyrir opi inn í kirkjuna en líklega var það á miðjum austurvegg.

Engjagarður (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 stendur: „Hjáleiga hefur hjer ein verið í engjatakmarki, nú í auðn í 20 ár og 6 ár, er kölluð var Engiagardur, og hyggja menn verið mun hafa þar, þá bygð var, landskuld lx álnir og kúgildi iii, er og víst að ei kann aftur að byggjast jörðinni að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett nema að hún var í engjum samkvæmt Jarðabókinni.
Þetta býli hefur gjarnan verið sett í samhengi við örnefnin Innri- og Fremri Engjamúla, Húsmúla og Nóngiljalæki í Grændal án beinna tengsla. Í Grændal voru engjar og ekkert sem bendir til þess að örnefnin tengist þessu býli frekar en slætti. Lýsing á staðsetningu býlisins gæti allt eins átt við Engjahól. Ekki er hægt að staðsetja býlið án frekari heimilda.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Önnur hjáleiga kölluð Grændalsvöllur, bygð í fyrstu innan 20 ára, varaði sú bygð 4 ár; síðan hefur hún í auðn legið og brúkast nú fyrir stekkatún frá Reykjakoti, kann ei aftur byggjast nema jörðinni til skaða.“ Í örnefnalýsingu Reykjakots eru leiddar líkur að því að Grændalsvöllur sé í Stekkatúni. Ekki er hægt að staðsetja Grændalsvöll án frekari heimilda né staðfesta að um sama stað og Stekkatún sé að ræða. Ekki er mikilla búsetjuminja að vænta eftir fjögurra ára búsetu en líklega var hjáleigan innan landsvæðis sem nýtt var frá Reykjakoti.

Reykjarétt (rétt)

Ölfus

Reykjarétt.

„Reykjarétt: Var í brekkunni upp undan Tumavelli, sér enn fyrir,“ segir í örnefnalýsingu. Reykjarétt er 230 m austan við bæ og 170 m suðaustan við fjárhús. Réttin er ofarlega í brekku, upp Reykjafjall. Þar er autt svæði á milli hárra greni- og furutrjáa sem plantað var á seinni hluta 20. aldar. Stórt grenitré vex í einu horni réttarinnar og hefur raskað henni að hluta. Réttin sést illa fyrr að henni er komið.
Réttin er í brekku í vesturhlíðum Reykjafjalls, nánast beint austan við bæ. Réttin er á náttúrulegum „stalli“ og hallar lítillega til vesturs. Allt umhverfis réttina eru há greni- og furutré og stór björg sem hrunið hafa niður fjallshlíðina. Réttin er 18 x 14 m að stærð, gróin og snýr norður-suður. Suðurhluti réttarinnar er raskaður, þar er 10-15 m hátt grenitré sem rutt hefur veggjum um koll. Reykjarétt er grjóthlaðin og skiptist í fimm hólf.

Selgil (sel)

Ölfus

Reykjasel.

„Selgil: Gróið gil, kemur ofan af fjalli, fyrir norðan Gufudal, rennur í Sauðá fyrir norðan Búra. Selmýri: Mýrarblettur fyrir norðan Selgil, nær að Sauðá.“ segir í örnefnalýsingu. Sennilega er þetta sami staður og getið er í lýsingu Ölfus frá 1703 eftir Hálfdan Jónsson. Þar segir:“ En til austurs frá Grænsdal taka til Klóarmelar, aldeilis graslausir. Plássið þar fyrir austan er selhagar frá Reykjum og það pláss kallað Reykjafjall, þó lágt liggi sem annar dalur. Þetta takmark er með grasi víða, so valllendi sem mýrum, gott til haglendis en undirlagt af snjóum á vetrartímanum […]“. Selið er tæpum 1,7 km norðan við bæ og 1 km norðan við Hrútastíg 019. Tóftir sjást þar á gróinni tungu, milli tveggja lækjardraga, beint vestan við Selgil og norðan við golfvölinn í Gufudal.
Selið er á gróinni tungu, sem hallar til vesturs frá Selgili. Þær eru innan afgirts beitarhólfs fyrir hross. Tóftirnar eru undir hólbarði og fornlegar að sjá. Þýfður mói er allt umhverfis þær.

Reykjakot (býli)

Ölfus

Reykjakot – túnakort 1918.

1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847, 20 hdr. JJ, 75. Fór í eyði 1967, en frá 1980 garðyrkjubýli á 3,3 ha og nefnist Reykjakot. Reykjakot II byggt 1947.
1918: Tún 8,2 ha, slétt. Garðar 1282 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í norðvesturhorni heimatúnsins. Mikil skekkja er á túnakortinu, afstaða minjanna er rétt en fjarlægðir rangar. Núverandi ábúendur fluttu að Reykjakoti 1980 og reistu íbúðarhús sama ár, 20 m norðan við bæjarhólinn. Þá var gamli bærinn horfinn og búið að slétta yfir svæðið. Við byggingu íbúðarhússins var ekki komið niður á mannvistarlög en kjallari er undir húsinu. Að sögn Margrétar Magnúsdóttur, heimildamanns, þurfti að grafa djúpt niður til að komast á fast berg við bygginguna og mikil mold þar yfir. Mikið rask er innan gamla heimatúnsins og hefur verið lengi.
Skólasel Menntaskólans í Reykjavík var byggt milli 1930-1940 sunnan við bæinn og í tengslum við það voru reistir nokkrir sumarbústaðir, gróðurhús og önnur mannvirki sem nýtt voru af kennurum skólans. Á tímabili var hippakommúna í einum þessara bústaða. Reykjakot II var reist 1947, tæpum 250 m sunnan við bæ. Að sögn Margrétar, var gamli bærinn þar sem rólur eru nú í bakgarði þeirra. Til eru gamlar ljósmyndir af bænum.
Frá árinu 1980 hefur hundruðum trjáa verðið plantað í og við bæjarhólinn, aðallega greni, öspum og lerki. Þar er nú bakgarður, sunnan við núverandi íbúðarhús. Inn á milli trjánna eru sléttar grasflatir, rólur og fleiri leiktæki fyrir börn. Fast SSV við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins er upphækkað, malbikað bílaplan og vegur.
Bæjarhóllinn og bæjarhúsin í Reykjakoti eru horfinn af yfirborði.

Reykjahjáleiga (býli)

Ölfus

Reykjahjáleiga.

706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847. 10 hdr. JJ, 75. Lögð undir Reyki 1931 og fór í eyði 1938.
1918: Tún 3,8 ha, slétt. Garðar 728 m2. 1932: Tún 5 ha.
„[Bærinn í Reykjahjáleigu stóð] undir Neðra-Dekkinu, neðst á þurrlendinu. Bæjardyr sneru til suðvesturs og kálgarður var í bæjarskjólinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykjahjáleiga var 1/8 partur úr Reykjatorfunni. Bærinn stóð austast í túninu á Reykjum. Notaði mest landið suðaustur frá bænum. […] Átti sameiginlegt beitiland með öðrum jörðum í torfunni, einnig torfristu og mótak […] og ákveðið slægjuland í engjunum.“ Í Sunnlenskum byggðum III er jafnframt teikning af bæjarhúsunum. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, syðst í miðju túninu. Á gömlum loftmyndum frá 1946 og 1956 í eigu Héraðsskjalasafns Árnesinga má sjá óljós mannvirki á bæjarhólnum. Bæjarhúsin voru sléttuð út árið 1938 þegar síðasti ábúandi flutti þaðan. Að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns, var grjót tekið úr bæjarhúsum og bæjarhólnum þegar gróðurhús Garðyrkjuskólans voru byggð, um miðja 20. öld. Reykjahjáleiga var rúmum 370 m suðaustan við Reyki. Reiðstígur er 10 m norðan við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins og vírgirðing liggur eftir suðurhlutanum.
Bæjarhóllinn og öll bæjarhús eru horfin af yfirborði. Svæðið var sléttað og öllum mannvirkjum rutt niður barð sunnan kálgarðsins. Barðið kallast Neðra-Dekk og er náttúruleg brún. Slétt, grasivaxið tún er á svæðinu og reiðstígur. Ennþá má sjá grjót sunnan undir Neðra-Dekki en mikið af því var tekið þegar gróðurhúsin voru byggð. Útivistarsvæði er meðfram allri vesturhlíð Reykjafjalls og bæjarstæði Reykjahjáleigu er innan þess.
Þar sem bæjahóllinn var er nú óljós hólmyndun en ekkert er hægt að áætla um umfang mannvistarlaga. Mögulega er hólbungan tilkomin vegna sléttunar og niðurrifs á svæðinu. Suðurveggur kálgarðsins er ennþá varðveittur sem kantur í brún Neðra-Dekks. Kanturinn er 26 m langur, 1-1,5 m á hæð og er grjóthlaðinn. Þar má sjá 3-4 umför gjóthleðslu, inni á milli gróðurs.

Kross (býli)

Ölfus

Kross – túnakort 1918.

1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 401-402. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Mörkin á milli Kross og Valla [ÁR-516] eru um gamalt árfar (Sennilega eftir Varmá).“ Ö-Reykjatorfa, 2
1918: Tún 3,4 ha, 2/3 slétt. Garðar 874 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Kross er gömul hjáleiga frá Reykjum, 10 hdr jörð og 1/8 partur úr Reykjatorfu. Bærinn stendur á mótum mýrar og engja, suðaustast í landi Reykjatorfu. Á sameinginlegt beitiland, mótak og torfristu með öðrum jörðum torfunnar.“ „Bærinn í Krossi stendur suðaustan undir Krossklettum. […] Bærinn stóð áður þar, sem fjósið og heyhlaðan er nú, en íbúðarhúsið er austast,“ segir í örnefnalýsingu. Hlaðan og fjósið voru norðvestan við bæjarhólinn að sögn Eyrúnar Þorláksdóttur, heimildamanns. Frá 1918 er búið að flytja bæjarstæðið á Krossi tvisvar sinnum. Fyrst var bærinn fluttur 1955, þá var íbúðarhús byggt um 60 norðar. Það íbúðarhús eyðilagðist í jarðskjálfta 2008. Þriðja íbúðarhúsið var byggt á Móholti syðst í jörðinni um 2010, rúmum 320 m suðaustar. Elstu bæjarhúsunum var rutt út 1954, fljótlega eftir að Eyrún fluttist þangað. Sléttað var yfir svæðið og ræktað tún er þar nú. Búskap var hætt á Krossi 2002-2003 en nýbýlið Lind var byggt 2008, á miðri jörðinni. Engin búskapur er á jörðinni né er hún nýtt að stórum hluta.
Bæjarhóllinn er horfinn. Þar eru nú gróin tún til allra átta nema norðurs, þar er íbúðarhúsið frá 1955 og garður umhverfis það. Malarvegur að íbúðarhúsinu liggur þvert yfir hólinn. Túnið er í órækt og þar mikið gras og bleyta til vesturs.
Öll ummerki bæjarhólsins eru horfin af yfirborði. Stafnar bæjarhúsanna snéru til suðvesturs en hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga.

Krossselsflöt (sel)

Ölfus

Krosssel.

„Krossselsflöt: Slétt grasflöt neðan (austan) Nóngilja,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Krosssel er tæpum 200 m VSV við tóft og rúmum 550 m suðvestan við Vallasel. Selið er á graslendi í aflíðandi halla til suðurs og austurs. Svæðið er slétt og lækir renna úr báðum Nóngiljum rúmum 50 m sunnan við selið. Selið er á sléttu graslendi austan við Nóngilsbrekku. Til austurs frá Krossselsflöt er rofbakki og hrauntunga, á milli selsins og Djúpagils. Á svæði sem er 30 x 13 m að stærð og snýr austur-vestur eru tvær tóftir, báðar tilheyrðu þær selinu.

Saurbær (býli)

26 hdr 1847. JJ, 75. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 416. „26 hundruð að fornu mati. Á land upp á fjall, allt að afréttarmörkum, sæmilega gróið, góð sumarbeit. Neðar er gamalt gróið hraun „heiði“, skjólsælt með grónum lautum. Bærinn stendur í hraunbrúninni.“ SB III, 352. Stóri-Saurbær er ekki í fastri ábúð. Búið er að stofna fjögur lögbýli, á jörðinni, Litla-Saurbæ, Hreiður, Vindás og Víðigerði.
Ekki er föst ábúð á Stóra-Saurbæ. Árið 1979 var bærinn fluttur tæplega 50 til NNV, af bæjarhólnum. Þar er íbúðarhús er byggt sama ár. Eldra íbúðarhúsið var byggt 1933 og var fast VSV við 20. aldar útihús sem eru á miðjum bæjarhólnum. Það hefur verið rifið en þar sést hólmyndun, líklega hluti af bæjarhólnum. Hluti af útihúsinum voru einnig rifin. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, sunnarlega í heimatúninu. Ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakortinu var á bæjarhólnum. Líklega var íbúðarhúsið frá 1933 byggt í miðjan hólinn eða vesturhlutann.
Bæjarhóllinn er grasivaxinn og njóli vex í vesturhluta hans. Íbúðarhús byggt 1933 var vestast á bæjarröndinni og það sést enn á loftmynd frá um 2000. Líklega var það rifið í kjölfar jarðskjálftans 2000 eða 2008. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún, bæði ræktuð og óræktuð. Bæjarhóllinn er um 60 x 30 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Bærinn raðaðist eftir hólnum endilöngum og stafnar snéru til suðurs. Bæjarhóllinn er algróinn en mikið jarðrask er til norðurs og austurs. Þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Þar sjást engin ummerki um mannvist á yfirborði. Bærinn er byggður á hraunbrún, mýri er til suðurs frá honum. Vesturhluti bæjarhólsins sést ennþá en þar er jafnramt jarðrask. Hóllinn er 0,3 – 0,5 m á hæð og skagar fram í mýrina.

Seldalur (sel)

Ölfus

Saurbæjarsel.

„Seldalur: Gróin laut í Hrauninu. Þar sér enn fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ,“ segir í örnefnaskrá. Í dalnum var einnig sel frá Öxnalæk. Í örnefnalýsingu þess bæjar segir: „Rétt fyrir innan Skyggni hefur verið sel frá Öxnalæk, í Öxnalækjarlandi. Ögmundur man eftir að hafa séð þarna grjóttóft, þegar hann var barn. Líklega má sjá tóftina enn. Selið er í Öxnalækjar-Seldal.“ Í skýrslu Fornleifaverndar ríkisins, nú Minjastofnunar Íslands, Hengill og umhverfi segir: „Öxnalækjar-Seldalur liggur austan í Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum U-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla.“ Selið er 3,6 km norðvestan við bæ, þjóðvegur 1 er um 200 m austar. Hér eru tvö sel, annað sunnan í dalnum og hitt norðan í honum. Hér er fremur um gróið vik en dal að ræða sem liggur austurvestur.
Dalurinn, eða vikið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 35 – 50 m breiður og austarlega liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.

Saurbæjarhjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Saurbæjarhjáleiga hefur hjer verið í túninu, bygð fyrir innan 30 ára tíma, hefur í auðn legið undir eður yfir 20 ár.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Litli-Saurbær (býli)

Ölfus

Litli-Saurbær, túnakort 1918.

„Um 1850 er fjórði hluti úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni […].“ SB III, 351. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er á söluskrá og hluti hennar er kominn undir sveitarfélagið Hveragerði. Jörðin féll úr ábúð eftir að jarðeignafélagið Lífsval hætti starfsemi milli 2008-2012 eða svo.
1917:
„Um 1850 er fjórði úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut hann þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni.“ segir í Sunnlenskum byggðum III. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Litli-Saurbær og Þórustaðir.

Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði (býli)
Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum.“ Íbúðarhús var byggt árið 1938 en árið 1962 varð þarna mikill bruni. Í Sunnlenskum byggðum III segir að nýtt íbúðarhús hafi verið reist síðar (en húsið byggt 1938) en ekki er vitað hvort það er að hluta sama húsið né hvaða ár það var byggt. Nú er eitt íbúðarhús á Litla-Saurbæ og það er nokkurra áratuga gamalt og er hér líklega um sama hús að ræða.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Sá bær var líklega á svipuðum stað og núverandi íbúðarhús en ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og það þarfnast staðfestingar. Bærinn var þó líklega á þessum slóðum, flest útihúsin sem þar sjást núna eru byggð á árunum 1950 – 1960. Ábúð á þessum stað hófst ekki fyrr en um 1850 og því lítilla ummerkja um búsetu að vænta undir sverði. Hvergi sér til uppsafnaðra mannvistarlaga á yfirborði, líklega vegna jarðrasks.
Umhverfis núverandi bæjarstæði eru 20. aldar útihús, íbúðarhús og malarplan. Til allra átta frá bæjarstæðinu eru grasivaxin tún sem komin eru að hluta í órækt.
Engin ummerki bæjarhóls sjást á yfirborði.

Þúfa (býli)

Ölfus

Þúfa.

1708. „Jarðdýrleiki er x og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 417. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […]
Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.6 ha, 2/3 slétt. Garðar 1485 m2.
„Bærinn á Þúfu er norðaustur af Kröggólfsstöðum. Hann hefur staðið á sama stað. Heimvegi hefur verið breytt, færður sunnar,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í suðausturhorni heimatúnsins. Þúfutjörn er vestan við bæinn og var innan heimatúnsins. Gamli bærinn stóð í „sundi“ á milli núverandi íbúðarhúss, byggt 1955, og fjóssins sem var byggt á 20. öld. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var framan við bæinn að sögn Sigurðar Ragnarssonar, heimildamanns. Sundið er 5 m breitt og öll ummerki bæjarins sem og bæjarhólsins eru horfin. Íbúðarhúsið frá 1955 er byggt í suðurhluta bæjarhólsins og fjósið í austurhlutann. Að sögn Sigurðar sléttaði hann út hól norðan og vestan við íbúðarhúsið og gerði malbikað bílaplan. Að hans sögn var eingöngu mold í hólnum. Við jarðrask í kálgarðinum kom fannst hestasteinn úr stuðlabergi, líklega úr landi Auðsholts. Bæjarstæðið er á náttúrulegri, lágri brún sem lækkar til suðurs og afmarkast heimatúnið af henni.
Engin ummerki bæjarins né bæjarhóls sjást á yfirborði.

Þúfuhjáleiga (býli)

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Bygð fyrir 8 árum. Varaði bygðin til næstliðins hausts, þá dó fólkið sem þar var, nema kona ein, og hefur síðan í auðn legið.“ Ekki er vitað með vissu hvar Þúfuhjáleiga var staðsett, byggðin varði í tæp 8 ár og því ekki mikilla ummerkja að vænta. Samkvæmt Sigurði Ragnarssyni, heimildamanni, er örnefnið Hjáleiguengi þekkt og líklega nýtt til sláttar frá Þúfuhjáleigu. Hann hafði einnig heyrt að Þúfuhjáleiga hafi verið sunnan við bæ, utan heimatúnsins. Nánari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Kröggólfsstaðir (býli)

Ölfus

Kröggólfsstaðir.

1708. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum […]“ JÁM II, 418. 1847. 32 hdr. JJ, 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn… Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin…Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“
1918: Tún 5.1 ha, 2/5 slétt. Garðar 1752 m2.
„Kröggólfsstaðir: Bærinn á Kröggólfsstöðum hefur staðið á sama stað svo lengi sem elstu menn muna. […] Þjóðsaga sem ég hef heyrt hér í Ölfusi hermir. Þegar Karl þræll Ingólfs stauk frá honum af því að hann neitaði að byggja útsker það, sem guðirnir settu Ingólf á, (Landnáma) Hann fannst þar sem eru Reykir í Ölfusi. Hann bjó þar síðar. Þegar hann fór huldu höfði átti hann í mestu kröggum. Þá fæddi „kona hans“ son, sem þau nefna Kröggólf. Hann byggði Kröggólfsstaði.“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Íbúðarhúsið á Kröggólfsstöðum er byggt 1961, í suðurhluta bæjarhólsins. Að sögn Moniku S. Pálsdóttur, heimildamanns, var annað íbúðarhús norðan þess, rúmur 1 metri var á milli þeirra. Það hús var byggt á fyrri hluta 20. aldar en var rifið í minni Moniku. Núverandi íbúðarhús snýr austur-vestur en eldra húsið snéri norðaustur-suðvestur og var á miðjum bæjarhólnum. Að sögn Moniku koma alltaf upp hleðslusteinar og ummerki um búsetu við jarðrask í kringum íbúðarhúsið.
Bærinn á Kröggólfsstöðum er á lágu holti, allt umhverfis það eru grasivaxin tún. Bærinn er nánast á miðju holtinu. Núverandi íbúðarhús er í suðurhluta bæjarhólsins, bakgarður er sunnan og suðvestan þess.
Til austurs er malarplan og liggur malarvegur þar að bænum. Vírgirðing liggur þvert yfir norðurhluta hólsins.
Mikið rask hefur orðið á bæjarhólnum, ekki síst vegna byggingaframkvæmda á síðustu öld. Það hafa tvö íbúðarhús verið byggð í hólinn á 20. öld, malarplan er yfir norðurhlutanum og vegur þvert yfir hann.
Auk þess hafa flest útihús frá 20. öld verið byggð nærri hólnum og nartað af hliðum hans. Enn má greina norður- og norðausturhluta bæjarhólsins á 21 x 10 m stóru svæði. Þar er grasivaxið, slétt tún nýtt til beitar. Greinilegt er að sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn sem er ávöl hólbunga, um 0,4 m þar sem hún er hæst. Erfitt er að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegu holtinu en víða glittir í staka hleðslusteina og beina bakka. Dæld, 7 x 5 m að stærð, sést til norðurs á hólnum.

Vatnastekkur (stekkur)

Ölfus

Vatnstekkur.

„Vatnastekkur: Gamall stekkur á Vatnabrekkum, síðar var þar sauðahús, sér enn fyrir,“ segir í örnefnaskrá. Vatnastekkur er 900 m norðvestan við bæ 001 og tæpum 600 m norðvestan við Vötn. Stekkurinn er fast austan við landamerki Núpa ÁR-527 og þar er vírgirðing á merkjum. Að sögn Aldísar Pálsdóttur, heimildamanns, voru sauðahúsin notuð langt fram á 20. öld. Grasivaxið, slétt tún er allt umhverfis tóftina. Túnið er nýtt til hrossabeitar og er ekki slegið. Tóftin er 23 x 10 m að stærð, snýr norður-suður og skiptist í tvö hólf.

Gvendarbrunnur (þjóðsaga)
„Gvendarbrunnur: Uppspretta suður af Vatnabrekkum, sennilega hefur Guðmundur góði vígt hana,“ segir í örnefnalýsingu. Gvendarbrunnur er rúma 700 m norðvestan við bæ og 200 m austan við Vatnastekk. Hraunbrúnin er 3-4 m há og algróin. Vatn seytlar undan henni á nokkrum stöðum og myndar litla tjörn
sem sameinast Vatnatjörn.
Undan gróinni hraunbrún sprettur vatn upp á nokkrum stöðum og myndar læk sem rennur í Vatnatjörn nokkru sunnar. Stærsta uppsprettan rennur í miðjan lækinn og steypt rör er þar. Minni uppsprettur eru þar víða og svæðið undir hraunbrúninni er mýrlent. Fyrir vestan lækinn er búið að raða steinum ofan á steinsteypt rör og líklega er uppspretta þar líka. Hver þeirra er Gvendarbrunnur er ekki vitað.

Kröggólfsstaðahjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Kröggólfsstaðahjáleiga. Dýrleikinn talinn með heimajörðinni.“ Ekki er vitað hvar Kröggólfsstaðahjáleiga var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Vötn (býli)

Ölfus

Vötn.

1708. „Jarðdýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 419. 1847. 32 hdr. JJ. 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […] Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.1 ha, 2/3 slétt. Garðar 1440 m2.
„Vötn: Bærinn Vötnum stendur í hraunjaðrinum, norður frá Kröggólfsstöðum. Núverandi íbúðarhús stendur skammt suðaustur af gamla bænum. Heimreið til suðausturs á svipuðum stað og nú,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og stóð við norðausturhorn Vatnatjarnar. Í örnefnalýsingunni er talað um íbúðarhús, byggt 1944, sem er horfið.
Núverandi íbúðarhús er byggt 1974, um 100 m austar. Um miðja 20. öld voru byggð steinsteypt útihús í bæjarhólinn sem röskuðu honum mikið og hann horfinn af yfirborði.
Stafnar bæjarins snéru líklega til austurs.
Gamli bærinn er til á myndum í eigu Aldísar Eyjólfsdóttur, heimildamanns. Bæjarhóllinn var við norðausturbrún hraunjaðarsins, við Vatnatjörn. Um 30 m voru frá bænum að tjörninni sem afmakaði vesturhlið heimatúnsins. Að sögn Aldísar var kálgarður suðvestan við bæinn, allt að vatninu. Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarhólnum og nánasta umhverfi. Íbúðarhúsið frá 1944 var líklega byggt fast suðaustan við hólinn. Öll ummerki þess eru horfin. Um miðja 20. öld voru einnig byggð steinsteypt útihús sem röskuðu öllum bæjarhólnum. Öll þessi mannvirki frá 20. öld hafa verið rifin en sjást að hluta á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Nú, 2014, er búið að hlaða gerði úr efni þessara mannvirkja, á bæjarhólnum. Gerðið er 50 x 20 m að stærð og snýr NNV-SSA. Veggir þess eru 1,5 – 2 m háir, 3 m breiðir og grasivaxnir. Innan þess er m.a. búvélar og rusl. Til norðausturs frá gerðinu er malarplan. Til suðvesturs, allt að tjörninni sést víða grjót úr mannvirkjum, líklega eftir sléttun og niðurrif.

Hraun (býli)

Ölfus

Hraun.

1708. „Jarðadýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 430. 1847. 20 hdr. Bændaeign. JJ,76. „Landamerki eru, samkvæmt bréfi: Framan frá sjó í vörðu fyrir ofan Leirar og um fjórar vörður í stefnu á Skóghlíð (svo er skráð þar, en annars er miðað við Skóghlíðargafl), merktar M hjá þeim, upp að Tíðagötu. Hana austur þar til varða: sézt á hrauninu fyrir framan veginn og önnur í Eiríksstekkatúni, í krossmark í klöpp í Ferðamannahól, allt í sömu línu, ósinn sem liggur milli Lágaengja og Grímslækjarengja.“ Ö-Hraun, 1.
1918: Tún 3.9 ha, 9/10 slétt. Garðar 1144 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar
kalla Leitahraun. […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru: Hraun, síðar Vesturbær, Lágar, síðar Austurbær, Hraunshóll, Hof, Slapp og Hraunshjáleiga,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhóll Hrauns er mikið rakskaður sökum byggingaframkvæmda.

Eldri bæjarhús voru fast norðaustan við tvö hús sem byggð voru 1924 og 1945-56, þ.e. Hraun I og Hraun II. Þau hús eru í útleigu og yngri íbúðarhús beggja bæjanna voru byggð 130-200 m til austurs eftir 1970. Samtals eru því fjögur íbúðarhús nú á Hrauni. Fast austan við eldra íbúðarhúsið Hraun I er malbikað bílaplan. Það er yfir bæjarhólnum og er í halla til suðurs, niður af honum…

Ölfus

Hraun fyrrum.

Íbúðarhúsin frá 1924 og 1945 standa hlið við hlið, suðvestan við bæjarhólinn. Norðan við eystra húsið er skemma og súrheysturn, byggð í bæjarhólinn. Til suðvesturs frá húsinu eru tré og rotþró.
Suðvesturshluti bæjarhólsins sést að hluta. Þar má greina upphækkun, 22 x 8 m að stærð, 0,6 m á hæð og snýr hún norðaustur-suðvestur. Upphækkunin fjarar út til suðurs, líkt og fyrrnefnt bílapalan. Stafnar bæjarins snéru til suðvesturs og sambyggður kálgarður var þar framan við smkv. túnakorti frá 1918.

Hof (býli)

Ölfus

Hof.

„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru. […] Hof […] Hof var austan túnsins, fjær læknum en Lágar, þar sem nú er hlaðinn túngarður,“ segir í örefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá 1858-1873. Not féllu þá til Hrauns.“ Hof er rúma 100 m NNA við bæ og 40 m austan við þúst. Ekki var löng ábúð á býlinu og lítilla uppsafnaðra mannvistarlaga að vænta.
Malarvegur að Hrauni er 20 um til austurs og suðausturs frá áætlaðri staðsetningu Hofs. Þar sem Hof stóð er grasblettur meðfram afgirtu túni nýttu til hrossabeitar. Túngarður afmarkar það tún ásamt vírgirðingu.
Hof var austan við túnið. Ekki er um eiginlegan bæjarhól né bæjarstæði að ræða. Á svæði sem er 15×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur eru tvær þústir. Við austurhorn túngarðisins er grasivaxin upphækkun 7×7 m að stærð og 0,5 m á hæð. Mögulega er hún tengd búsetunni á Hofi. Önnur þúst, 4×4 m að stærð og 0,4 m á hæð, er 4 m norðaustar. Hvergi sér til hleðslugrjóts eða annarra ummerkja sem gefa stærð bæjarins, áttahorf og lag hans til kynna.

Slapp (býli)

Ölfus

Slapp.

„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […]
Slapp […] Slapp [stóð] að bæjarbaki,“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá því fyrir 1700 og til 1842. Þá féllu not til Hrauns.“ Slapp var innan heimatúns Lága eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1918. Slapp er tæpum 200 m norðvestan við bæ og 130 m norðvestan við Hof, undir gróinni hraunbrún. Blaut tjörn er 100 m sunnan við bæjarhólinn. Á örnefnauppdrætti Ingólfs Einarssonar er Slapp sýnd mun nær bæ, þar sem þúst er. Það er ekki rétt að sögn Hrafnkels Karlssonar,
heimildamanns.
Bæjarhóllinn er í grasivöxnu, óræktuðu túni. Náttúrulegir hólar og lægðir eru í túninu. Þar vex mikið af njóla.
Bæjarhóllinn er 20 x 10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er 1-1,5 m á hæð, algróinn og sléttur. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til suðvesturs. Óljóst mótar fyrir dældum ofan á hólnum ekki er hægt að segja til um nákvæmt lag bæjarins né stærð hans.

Hraunssel (sel)

Ölfus

Hraunssel.

„Selstöðu hefur jörðin keypt í Hjallalandi, vide Hjalla supra.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. Um 1980 var heimildum um helstu menningarleifar í Ölfusi safnað saman að frumkvæði Ölfushrepps. Skýrslan var ekki útgefin en Hrafnkell Karlsson, heimildamaður, átti handrit sem var afritað. Þar segir í kafla 3.2 um sel: „22. Hraunssel. Það stóð vestan Lönguhlíðarhorns, í hraunjaðrinum fyrir ofan Selstíg. Þar sjást rústir nokkrar.“ Hraunssel er í landi Hjalla. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 2,5 km norðvestan við vörðu.
Selið er við svokallaðan Selsstíg sem er gömul leið sem liggur milli hraunbrúnar og gróinnar brekku á þessum slóðum, þar er 10-15 m breitt gróðurlendi. Allt selið er mjög gróið, hleðslur signar og óskýrar á köflum. Úfið, mosa- og lyngivaxið hraun er vestan við selið. Til austurs er há brekka. Selið er á grasivöxnu svæði milli hraunsins og brekkunnar.
Selið samanstendur af tveimur tóftum og helli á svæði sem er 20×14 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Dys Lénharðs fógeta (legstaður)

Ölfus

Dys Lénharðs.

Á heimasíðu Ferlis segir: „Í öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta: „Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann. […] Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann var ófriðarins var. […] Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, […]“. Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkuð ofar í ánni. Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannabein er stóð út úr hólnum. […] Munnmæli hafa verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi allt eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.“ Dysin er rúma 1,7 km suðaustan við bæ og 1,5 m km suðaustan við fjárhús. Dysin, eða hóllinn, er á tanga sem skagar til austurs út í Ölfusá. Tanginn er vaxinn lyngi, mosa og víðtrjám. Dysin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er hæst 2,2 m til austurs og vestur- og suðurhliðar brattar. Dysin er algróin nema til vesturs, þar sést glitta í grjót. Ekki var unnt að greina hvort að um hleðslu sé að ræða sökum gróðurs. Dysin er þó líklega náttúruleg.

Lágar (býli)

Ölfus

Lágar – túnakort 1918.

1708. „Lágar, hjáleiga bygð fyrir manna minni. Dýrleikinn áðurtalin í heimajörðinni.“ JÁM II, 431.
„Forn hjáleiga frá Hrauni. Í byggð til 1950. Síðan nytjuð frá Hrauni.“ SB III, 322.
1918: Tún 2,6 ha, 4/5 slétt. Garðar 420 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Lágar, síðar Austurbær […] Lágar [stóðu] austan við Hraun,“ segir í örnefnalýsingu. Síðasti bærinn í Lágum var rifinn árið 2012 og var líklega á bæjarhólnum. Lágar eru 40 m norðan við Hraun og 50 m SSA við þúst. Á túnakorti Lága frá 1918 er sambyggður kálgarður sunnan við bæjarhúsin. Stafnar bæjarins snéru jafnframt í þá átt. Síðasta húsið í Lágum var á hægri hönd þegar ekið er yfir brú að eldri íbúðarhúsunum í Hrauni. Sá vegur liggur fast upp við bæjarstæðið til austurs. Þar er nú steinsteyptur grunnur en húsið er ennþá uppstandandi á loftmynd frá 1999.
Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarstæði Lága. Íbúðarhús og útihús voru byggð á 20. öld, líklega í bæjarstæðið. Þau hús hafa verið rifin og sléttað yfir svæðið.
Lítið sést til ummerkja um bæinn í Lágum. Þar sem bæjarhúsin voru er malarplan, fast suðaustan við steinsteyptan grunn útihúsa sem byggð voru á 20. öld. Mölin er á 20 x 8 m stóru svæði og snýr norðaustur-suðvestur. Malarpalnið er slétt en steypuleifar sjást víða. Óljóst mótar fyrir uppsöfnuðum mannvistarlögum fyrir norðaustan malarplanið. Þar er 0,5 m aflíðandi brekka í átt að fyrrnefndum malarvegi. Bærinn var upp á náttúrulegum klapparhól og sést víða í grjót.

Hraunshjáleiga (býli)

Ölfus

Hraunshjáleiga.

1708: „Sudur Hjáleiga, fjórða hjáleiga af heimajörðunni, bygð fyrir manna minni. Varaði bygðin þar til næstu fardaga. Síðan hefur verið þar fyrirvinnulaus kona, og er til vonar að hún viki þaðan á næstkomandi hausti.“ JÁM II, 432. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Nefnd Suðurhjáleiga í Jarðabókinni 1706. Hjáleigan var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1906 féllu not hennar til Lága“
Sunnlenskar byggðir III, 332.
1918: Tún 1.5 ha, 9/10 slétt. Garðar 868 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshjáleiga, sem oftar var nefnd Hjáleiga […] Hjáleigan er suður frá Hrauni, vestan lækjarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu.
Hraunshjáleiga er um 220 m sunnan við Hraun. Hesthús var byggð á 20. öld í bæjarstæðið og eru þau enn í notkun. Á túnakorti frá 1918, sést að kálgarður var sambyggður bæjarhúsunum til suðurs. Stafnar bæjarhúsanna snéru jafnframt í þá átt. Á túnakortinu eru sýndar traðir fast vestan við bæinn, þetta er framhald traða sem skráðar voru með Hrauni.
Engin ummerki bæjarstæðisins sjást á yfirborði.

Hraunshóll/Hóll (býli)

Ölfus

Hraunshóll.

1708. „Hooll, önnur hjáleiga, bygð fyrir manna minni. Jarðardýrleikinn talinn í heimajörðinni“. JÁM II, 431. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1905 féllu not hennar að jöfnu til Hrauns og Ytri-Grímslækjar.“ SB III, 332.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshóll […] Hraunshóll, sem oft var nefndur aðeins Hóll, er austan lækjarins, sunnan vegarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu. Hraunshóll er 60 m norðaustan við Hraun, austan bæjarlækjarins. Bæjarhóllinn er á tanga sem skagar til suðurs fram í bæjarlækinn, á milli tveggja uppsprettna. Bærinn var syðst á tanganum.
Bæjarhóllinn er á grasivöxnum tanga, um 5 m háum. Svæðið hefur verið ræktað án þess að sléttað hafi verið þar yfir. Brú yfir lækinn er um 10 m VSV við bæjarstæðið. Hóllinn sem bærinn var er 4 m hár og hlíðarnar brattar til suðurs, vesturs og austurs, niður í bæjarlækinn. Bæjarhóllinn sjálfur er 10 x 10 m að stærð, 0,4 m á hæð og sléttur að ofan. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til norðurs. Á bæjarhólnum er veggjabrot, líklega hluti af austurvegg. Hann er 6 m langur, 1,5 m breiður og 0,4 m á hæð. Veggurinn er algróinn og hvergi glittir í grjót.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Ölfus

Hraun – örnefnakort.

Festarfjall

Árið 2001 var gerð svæðaskráning um „Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.“ DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á „Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.“ DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.“ DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, „og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.“ – DI VII, 324. 1563: „Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.“ DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. „Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).“ Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: „Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.“ JÁM III, 7.
1840: „Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.“ SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. „Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.“ Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.

Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)

Arngrímshellir

Í Gvendarhelli.

„Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.“
„Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Herdís og Krýs og smali (dysjar)

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

„Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …“ segir í örnefnalýsingu. „80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Dysjar tvær eða vörður („Krýs og Herdís“) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.“ Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: „Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.“ Kålund I, 29. 1950:

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

„Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.

Krýsa

Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.

Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.“ Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: „Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.“

Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.“
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.“ ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: „Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.“ [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

1840: „Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.“ Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: „Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.“ – ÞT Ferðabók I, 189-90. „Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.

Húshólmastígur

Húshólmastígur.

Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.“
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu „sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.“ Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) „Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er „Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er „Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.“ Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: „Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.“

Óbrennishólmi (fjárskýli)

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.“ segir í örnefnalýsingu. „Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.“ segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. „Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.“ segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.“
8.8.1979: „Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.“ segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.

Ögmundastígur (leið)

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.“

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.

Ögmundarleiði (legstaður)

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.“ „Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …“
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Hettuvegur (leið)

Hetturvegur

Hettuvegur.

„[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.“
1883: „Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Ketilstígur (leið)

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

1755: „Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.“ segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. „Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er  kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.“
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: „Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.“ Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: „Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.“ SSÁ, 222.
1879: „Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.“ Kålund I, 29.

Sogasel (sel)

Sogasel

Í Sogaseli.

„Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: „Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.“

Selatangar (verbúð)

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: „Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. „Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. „Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.“ Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

„Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“ Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.“ „Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.

Tangadraugur (draugur)
„Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann „fyllti út í fjallaskörðin“ að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.“

Vigdísarvellir (sel/bústaður)

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.“JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“ “ … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Bali (bústaður)

Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“

Ísólfskáli (bústaður)

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“ JÁM III, 8-9.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

1840: „Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“, segir í örnefnaskrá.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

„…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: „Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.“ – JÁM III, 22. 1840: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.“ segir í sóknarlýsingu og ennfremur: „Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.“ Landnám Ingólfs III, 134. 1844:

Selsvellir

Á Selsvöllum.

“ … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins „leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu“. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir „óhemju átroðning og yfirgang“.“ GB Mannlíf, 43-44. 1883: „Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: „Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.“ – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Drykkjarsteinn (þjóðsaga)

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.“, segir í örnefnaskrá AG. „Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“, segir í örnefnaskrá.
„Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1840: „… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.“ segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: „Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.“ ÞT Ferðabók I, 180.

Hraunssel (sel)

Hraunssel

Hraunssel.

„Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.“, segir í örnefnaskrá.
„…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: „Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.“ segir í sóknarlýsingu. 1883: „Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: „Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.“

Hraun (bústaður)

Hraun

Hraun við Grindavík.

26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.

Hraun

Brunnur á Hrauni.

1703: „Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.“JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: „Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.“ Landnám Ingólfs III, 140.
„Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.“SSG

Bænhús (kapella)

Fornleifar

Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.

1840: „Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“ segir í sóknarlýsingu. „Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með „Lónalandi“, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um „Lónaland“ og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og „…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í „Lónalandi“, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á „Lónalandi“ (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).“ Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku „sem kom frá Hrauni“ – Saga Grindavíkur I, 108-109.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

1840: „Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“SSG.
„Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.“, segir í örnefnaskrá AG. „Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.“, segir í örnefnaskrá LJ. „Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.“ Saga Grindavíkur I. „Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.“ Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. „Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.“, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.

Kapella

Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.

En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.“ BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: „Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið „Húsið“. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
„Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): „Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás“. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.“ KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: „5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.“
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.

Dalssel (sel)

Dalssel

Í Dalsseli.

„Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.“, segir í örnefnaskrá AG.

Sandakravegur (leið)

Sandakravegur

Sandakravegur.

„…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“ segir í sóknarlýsingu.

Dúnkhellir (hellir)

Dunknahellir

Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).

„Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…“ KE.
„… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.“KE. „Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.“ segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.

Þorkötlustaðir (bústaður)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 12, 14.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

1840: „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ Landnám Ingólfs III, 139. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: „Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“ Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum „eldaskdla“. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“BJ.

Þorkötlustaðaviti (viti)

„Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.“, segir í örnefnaskrá AG.

Vogavegur / Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…“, segir í örnefnaskrá AG.
„Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.“, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er „afleggjari“ af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Látragötur (leið)
„Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.“, segir í örnefnaskrá LJ. „… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Hóp (bústaður)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: „Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“JÁM III, 15. 1840: „Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.“ Landnám Ingólfs III, 138-39. „Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.“Ö-Hóp, 1.
„Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1902: „Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni.“BJ.

Goðatóft (álagablettur)

Hóp

Hóp – Goðatóft.

„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…“, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Goðahús“ svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós“ – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: „Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.“ Árb. 1903, 46-47
„…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.“, segir í örnefnaskrá AG.

Selháls (sel)

Hópssel

Hópssel.

„Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerðarstaðir (bústaður)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.“ Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“ Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: „Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…“ segir í örnefnalýsingu „Nokkur um Dalinn…Þessar „holur“ voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.

Gerðavellir (búðir)

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

„Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG. „Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 251. „Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. „Heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …“ segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.

Skipstígur (leið)

Skipsstígur

Skipsstígur.

„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.“ segir í sóknarlýsingu.

Baðsvellir (sel)

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“ segir í jarðabók Árna og Páls. „Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.“, segir í örnefnaskrá AG.

Stekkjarhóll (stekkur)
„Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]“, segir í örnefnaskrá AG. „Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.

Gyltustígur (leið)

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

„Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerður (legstaður)

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: “ Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“BJ.

Engelska lág (vígi)

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

„Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …“ – „Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir „úti á Hellum“, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.

Jángerðarstaðir

Virkið.

Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …“ segir í Sögu Grindavíkur I. „… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.“, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“ Skarðsárannáll.

Þjófagjá (þjóðsaga)

Grindavík

Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

„Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Húsatóptir (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir.

33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: „Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.“ SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).

Húsatóftir

Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.

1703: „Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.“JÁM III, 20. 1840: „…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.“ Landnám Ingólfs III, 136.
1840: „Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…“ segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns“húsin“ hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóftum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.

Kóngshús (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …“ Hjáleiga 1703. JÁM III

Búðasandur (verslunarstaður)

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.“ – GB Mannlíf, 21. „Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.“, segir í örnefnaskrá. „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.“ segir í sóknarlýsingu frá 1840. „Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
„Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.“ ÞT Ferðabók I, 179 „Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.“ GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …“ seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“ en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.

Prestastígur (leið)

Prestastígur

Prestastígur.

„Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“, segir í örnefnaskrá.
1840: „Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.“ segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur

Byrgi (útilegumannabústaður)

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

„Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.“, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „“Útilegumannabæli“ svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.“ friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.“ ÞT Ferðabók I, 177-78. „Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.“, segir í örnefnaskrá.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: „Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.“ Árbók 1903. 1959: „Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.

Eldvörp

Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.

Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.“ segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Árnastígur (leið)

Árnastígur

Árnastígur.

„Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.“ GB Mannlíf, 23.

Staður (bústaður)

Staðahverfi

Staður.

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).

1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …“ sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.

21.1.1925: „Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“ “ GB Mannlíf, 49.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.“ „Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.

Kirkjugarður / kirkja

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.

Sjávarhús (bústaður)
1840: „Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ segir í sóknarlýsingu. „Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.“ Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: „Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: „Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.“ GE Frá Valahnúk.

Staðarvör (lending)

Staðarvör

Staðarvör.

Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.“ segir í örnefnalýsingu.
„Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.“ segir Guðsteinn Einarsson.

Básar (þjóðsaga / býli)
„Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.“
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Háleyjar (þjóðsaga / býli)

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

„Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
„Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Í örnefnalýsingu segir: „Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.“ sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.“ Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: „Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …“ sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma  verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.“ segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: „… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.“
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.

Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.“ Um 1860: „… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …“ ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.“ segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: „… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.“ segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. „Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.“ segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Krossvík (þjóðsaga / býli)
„Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.

Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
„Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.

Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
„Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar  engum amnni byggjandi.“ hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.

Sundlaug

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

„… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.“ segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar „U“ á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.

Gunnuhver (þjóðsaga)

Gunnuhver

Gunnuhver.

1841: „Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.“ – „Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.“ Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: „“Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.“ – MG. „… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá „Gunnu“ er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.“ Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510

Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.

Grindavík

Grindavík.