Tag Archive for: Hvassahraun

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnesskjól

Í Hraunsnesi.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ritstjóri Lesbókarinnar, um „Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun“:

Hvassahraun

Hvassahraun 2021.

„Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær“ (It seems to be a ghost town).

Hvassahraun

Bergstaðastræti 7.

Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.“ – Gísli Sigurðsson.

Húsið að Bergsstaðastræti 7 var byggt 1902, en flutt að Hvassahrauni um 1967. Vigdís Hrefna Pálsdóttir, leikkona, og Arnar Úlfar Höskuldsson, húsasmiður, keyptu húsið 2017 og vilja færa það á lóð að Bergsstaðastræti 18 og gera það í upprunalega mynd.

Íbúðarhúsið við Hvassahraun var rifið 2024.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.

Flekkuvík

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.

Guðmundur Björgvin JónssonÍ bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.

Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt með fram allri strandlengjunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Áður hefur verið fjallað um bæina á Ströndinni allt frá Vogastapa að og með Kálfatjarnarhverfi. Hér verður fjallað um „Innheiðarbæina“ austan Kálfatjarnarhverfis.

Flekkuvík (Vesturbær)

Flekkuvík

Flekkuvík.

Innheiðarbæirnir byrja á Flekkuvík að sunnan.

Fyrir aldamótin, og reyndar eftir það, var tvíbýli í Flekkuvík. Vesturbærinn brann til grunna árið 1935. Hjónin Úlfar Bergsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir keyptu síðar Minni-Vatnsleysu af Auðunni Sæmundssyni, sem flutti til reykjavíkur árið 1938.

Flekkuvík (Austurbær – rústir)

Í Austurbæ bjuggu um 1880 hjónin Stefán Stefánsson, f. 1874, og kona hans Katrín Guðmundsdóttir. Þau ólu upp systurson Katrínar, Guðmund Jóhannesson, síðar bónda í Flekkuvík.
FlekkuvíkGuðmundur var eftirsóttur til allrar vinnu vegna dugnaðar og hagsýni og var hann oft í ábyrgðarstörfum fyrir sveit sína. Hann vann mikið út frá heimili sínu þó erfitt væri að sækja vinnu að heiman. Flekkuvík var fjærst allra byggða í hreppnum hvað samgöngur snerti, hvort sem var gamli gönguvegurinn eða fyrsti akvegurinn. Átti Guðmundur því mörg spor að heiman og heim, en húsfreyjan var bundin heimilinu með 12 börn, en gaf þó ekki bónda sínum eftir í dugnaði og nægjusemi. Þau nytjuðu túnið og höfðu mjólk handa heimilinu og ekkert fram yfir það, þó aðrir bændur væru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur.

Minni-VatnsleysaGuðmundur bóndi byggði upp bæ sinn árið 1926. Hann lést árið 1959, þá afleggst Austurbær.

Flekkuvíkurland og fjaran þar er fyrir það merkilegt, að þangað sækja fuglaskoðendur mikið.

Rifshali (rústir)

Í Rifshala bjuggu fyrir og eftir aldamót Halldór Auðunsson, f. 1855, og kona hans, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1857. Rifshali mun hafa greitt landskuld til Eystribæjar Flekkuvíkur og fór í eyði um 1922-23.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa var með stærstu býlum hreppsins hvað varðaði húsakost og heimilisfólk. Sjósókn og sjávarútvegur var þar með því mesta í hreppnum, enda oft vitnað í fjölda vermanna þar á vetrarvertíð, auk heimilisfólks. Um aldamót bjuggu þar Sæmundur Jónsson og kona hans Guðrún Lísbet Ólafsdóttir.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Sæmundur gerði út mörg skip þegar best lét, m.a. átti hann hlut í m/b Hermanni, en hann fórst 26. mars 1916. Var Sæmundur þá orðinn hálfáttræður og var farinn að láta undan síga vegna aldurs og lést hann árið 1925.

Auðunn Sæmundsson tók við búi foreldra sinna, gerist skipstjóri og stundaði sjómennskuna meðan kraftar leyfðu. Kona hans var Vilhelmína Þorsteinsdóttir og eignuðust þau 12 börn. Þaðan var seld mjólk til Reykjavíkur og voru börnin dugleg að koma mjólkurbrúsunum í veg fyrir mjólkurbílinn, þó löng væri leiðin, um óveg og í myrkri að vetri til, og svo þurfi að koma skepnufóðri og öðrum nauðþurftum heim að kvöldi.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysubrunnur.

Dugnaði þeirra var líka viðbrugðið seinna á æviskeiði þeirra. Enn í dag er minnst á Auðunssystkinin frá Minni-vatnsleysu sökum atgervis.

Margir af þessum bræðrum urðu landskunnir togaraskipstjórar og einnig mágar þeirra.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1938 og þá keypti Úlfar Bergsson hús og jörð. Reif hann síðan gamla húsið og byggði, að mestu úr efnivið þess gamla, nýtt íbúðarhús árið 1941 og lét forskala það, eins og það er kallað og þá var í tísku.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn við Minni-Vatnsleysu.

Um 1944 varð eigandi að Minni-Vatnsleysu Arngrímur Vídalín Guðmundsson, en seldi Halldóri Ágústssyni frá Halakoti árið 1948. Hann og kona hans, Eyþóra Þórðardóttir frá Stóru-Vatnsleysu, seldu Þorvaldi Guðmundssyni 1953, eiganda að stærsta svínabúi landsins. Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur vestan við Ráðsmannsbústaðinn, skammt ofan við sjávarkambinn.

Miðengi

MiðengiMiðengi var grasbýli í landi Minni-Vatnsleysu, niður við sjó við landamörk Minni- og Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu Sigurður Lárus Jónsson, f. 1877, og kona hans Ingibjörg Jónasdóttir, f. 1886.

Sigurður þótti afburða sjómaður og mannkostamaður. Hann fórst við Garðskaga 26. mars 1916 þegar Hermann m/b sökk. Eftir þetta slys flutti Ingibjörg til Hafnarfjarðar og lét flytja húsið þangað og er það nú Krosseyrarvegur 2, en hefur tekið breytingum.

Stóra-Vatnsleysa (Vesturbær)

Stóra-VatnsleysaÞar bjuggu Sigurður Jónsson, silfursmiður, f. 1814, og kona hans Oddný. Samtími og á eftir Sigurði bjuggu í Vesturbænum Sigurjón Jónsson, f. 1873, og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Síðustu ábúendurnir í Vesturbænum voru Pétur Jóakimsson, f. 1878, og kona hans, Agnes Felixdóttir. Þau fluttu til Hafnarfjarðar en bærinn lagðist undir Austurbæ og var ekki rifinn fyrr en um 1940.

Stóra-Vatnsleysa (Austurbær)

Stóra-VatnsleysaÍ Austurbænum bjuggu Stefán Pálsson frá Hvassahrauni, f. 1838, og kona hans, Guðrún Gísladóttir, f. 1823.

Stefán rak mikla útgerð, var vel efnaður og hafði fjölda vinnuhjúa. Hann byggði upp Austurbæ um 1884-85 úr „James Town“ strandinu í Höfnum. Var húsið hæð og ris með 10 herbergjum.

Bjarni Stefánsson, sem tók við búinu, var mikill búhöldur. Kona hans var Elín, dóttir Sæmundar bónda á Minni-Vatnsleysu. Bjarni hélt áfram útgerð og var ekki eftirbátur föður síns með umfangsmikinn búskap sem að sjálfsögðu þurfti mikinn mannafla, enda húsakostur stór og góður.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Bjarni seldi 2/3 hluta Stóru-Vatnsleysu, sem þá var fyrir löngu orðið einbýli. Var kaupandinn Þórður Jónasson, bóndi, og kona hans, Þórunn Einarsdóttir. Þau komu frá Keflavík.

Á Stóru-Vatnsleysu fékk Þórður tækifæri við sitt hæfi, fór fljótt að koma upp bústofni, jafnframt sjósókn og var um tíma með stærsta einkarekstur í hreppnum. Á þeim 27 árum er hann bjó á Stóru-Vatnsleysu eignaðist hann 7 vélskip frá 2 tonnum til 35 tonna. Árið 1952 byggði hann núverandi íbúðarhús og í framhaldi af því 51 kúa fjós.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Þórði höfðu aukist grasnytjar, eftir að hann sjálfur lét gera akfæran veg í gegnum hraunið um 10 km langan, frá Kúagerði og til fjalla að Höskuldarvöllum. Þegar Þórður var búinn að koma þessu í kring og nýlokið við fjósbygginguna, veiktist hann og lést árið 1959, 64 ára gamall. Sá því aldrei stærsta draum sinn rætast.

Bjarni Stefánsson var samtímis Þórði með sinn 1/3 af jarðarbúskap, þar til hann féll frá 1954.

HrafnagjáEftir lát Þórðar Jónassonar tók við búinu sonur hans, Sæmundur, og hefur hann rekið það síðan árið 1961.

Með nokkrum rétti má segja að á Stóru-Vatnsleysu hafi verið þríbýli um aldamótin, því norður og niður af Vesturbænum var lítið hús sem kallað var Skálinn og við sóknarmannatal árið 1900 var fólkið úr þessum þrem húsum allt skrifað á Stóru-Vatnsleysu án sundurliðunar.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík.

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þessa eru höggnir stafir, ME. 1888, og þar fyrir neðan S.J Stafirnir gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að ME. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.

Stóra-Vatnsleysa (Skálinn)

Stóra-VatnsleysaNorðan og neðan við Stóru-Vatnsleysu var lítið hús úr timbri sem var kallað Skálinn. Þar bjuggu hjónin Guðjón Jónsson, bátasmiður, f. 1857, og Guðrún Torfadóttir, f. 1861. Guðjón byggði Skálann sjálfur, en árið 1901 flutti fjölskyldan til keflavíkur. Guðjón reif húsið og flutti það til keflavíkur og byggði úr því íbúðarhúsið Framnes í keflavík og þar bjó fjölskyldan til dauðadags. Framnes var rifið árið 1986.

Vatnsleysa I

Vatnsleysu byggði Einar Þórðarson frá Stóru-Vatnsleysu árið 1966 í landi Stóru-Vatnsleysu. Einar stundaði sjó, einkabílarekstur og kyndiltækjaviðgerðir hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, auk annarskonar vinnu.

Vatnsleysa II

NýibærHúsið bar byggt í landi Stóru-Vatnsleysu, austan hennar við heimaksturinn og vestan Vatnsleysu. Húsið lét Sigrún Þórðardóttir kennari frá Stóru-Vatnsleysu byggja árið 1986.

Móabær (rústir)

Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var það lítið grasbýli. Þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, f. 1838, og Ragnheiður Halldórsdóttir, f. 1838. Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu búendur þar.

Nýibær (rústir)

NaustakotNýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Jónas Guðmundsson, f. 1848, og Ólöf Helgadóttir, f. 1886. Síðar flutti það fólk til Hafnarfjarðar með það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.

Naustakot (tóftir)

Naustakot var austur af Nýjabæ, niður við sjó, lítið grasbýli í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Páll Jóhannesson, f. 1849, og Guðlaug Jónsdóttir, f. 1830. Bjuggu þau þarna til dauðadags.

Páll var oft kallaður Stóri-Palli og bærinn Pálsbær eða Pallakot. Fyrir neðan bæinn var einnig Pallavör (lending) Páll var mikill sjómaður og öruggur við allt er laut að sjó. Páll mun hafa verið síðastur allra kotbænda á Stóru-Vatnsleysulandinu og var í Naustakoti lítið fram yfir 1930.

Garðhús

GarðhúsGarðhús var austur af Naustakoti niður við sjó, tómthús í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar byggðu og þangað fluttu Sigurjón Jónsson og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Komu þau frá Stóru-Vatnsleysu, Vesturbæ. Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Enginn var eftir þeirra dag í Garðhúsum.

Hvassahraun

Hvassahraun var lengi tvíbýli 1 og 2, auk hjáleigukota. Hvassahraun 1 var löngum talið höfðingjaheimili.
HvassahraunÞar höfðu búið 5 ættliðir fram til ársins 1914 og var síðasta húsfrú Þórunn Einarsdóttir. hennar maður var Guðmundur Stefánsson, f. 1860. Um aldamótin voru 12 í heimili í Hvassahrauni 1.

Árið 1914 komu ung hjó að Hvassahrauni 1, Sigurður Sæmundsson og Kristín Þórðardóttir. Sigurður var stórbóndi í Hvassahrauni, minnst af sjó, en mest af sauðfjárrækt. Þegar best lét var hann talinn fjársterkasti bóndi sunnan Hafnarfjarðar, enda jörðin kostajörð og hraunið gjöfult og snjólétt, og gekk fé þar úti að jafnaði.

Sigurður og Kristín fluttu frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar árið 1942 og bjuggu þar til dauðadags.
HvassahraunAf Sigurði keypti Þóroddur Jónsson, heildsali, Hvassahraun árið 1942 og seldi síðan aftur eftir 13 ár, eða árið 1955, Þorkeli Helgasyni, sem svo seldi Fjáreigandafelagi Reykjavíkur, en tók undan óunnið land og hefur látið það undir sumarbústaði. Árið 1962 var jörðin tekin af ábúðarskrá.

Hvassahraun 2 (horfið)

Í Hvassahraun 2, sem líka var grasbýli, bjuggu Sveinn Steindórsson, f. 1860, og Þórunn Guðmundsdóttir, f. 1864. Fleiri bæir voru þarna, td.d. Hvassahraunskot, en þaðan var Hannes Hannesson. Þarna var og bær er hét Sönghóll.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 343-366.

Vatnsleysubæir

Innheiðabæirnir.

Gvendarborg

Gengið var um Hvassahraunsland, að Hjallhólum, Hjallahólsskúti var skoðaður, og síðan haldið suður yfir Reykjanesbrautina, yfir á Strokkamela, skoðuð hraundrýli, sem þar eru, og litið niður í brugghelli.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Þaðan var haldið yfir Gráhelluhraunið, gengið vestur um það að Gráhelluhelli og síðan upp Þráinsskjaldarhraun að Gvendarborg. Síðan var gengið spölkorn til baka yfir á Rauðhólsstíg og síðan norður hann áleiðis að Reykjanesbraut. Skömmu áður en komið var að brautinni við Kúagerði var beygt til vesturs og haldið að Vatnsstæðinu og staðnæmst við Vatnaborg.
Hjallhólar heita hólar innan við Vatnsgjárnar og liggur Reykjanesbrautin um þá. Í Hjallhólum er Hjallhólaskúti og var hann notaður sem fjárskjól, en skútinn er milli veganna og sést op hans frá Reykjanesbrautinni. Ekki er vitað með vissu af hverju Hjallhólanafnið er tilkomið, en ein heimild telur líklegt að í skútanum hafi verið geymdur fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisopinu.

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

Sunnan við Reykjanesbrautina heitir hraunsléttan Strokkamelur eða Strokksmelur. Hraundrýli, sem á honum er, draga líklega nafn sitt af lögun gíganna, sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimildir kalla gígana Hvassahraunsgíga eða Hvassahraunskatla og er katlanafnið notað í Náttúruminjaskrá. Þeir eru ekki ólíkir gervigígunum (Tröllabörnum) undir Lögbrergsbrekku eða í Hnúkum, nema hvað þeir eru minni í sniðum.

Fast við Strokkamelin að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og var til skamms tíma girðing umhverfis opið svo kindur hröpuðu ekki það niður. Í hellinum eru grjóthleðslur, en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum. Frásagnir eru til um ákafa leit yfirvaldsins (Björns Blöndal) að hellinum, en hann reyndist torfundinn. Ofan og sunnan Strokkamels eru Rjúpnadalir. Flatahraun er á milli þess og Afstapahrauns.

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamelum.

Gengið var í gegnum Afstapahraun til vesturs. Var þá komið niður í svonefnda Tóu eitt. Gengið var upp úr henni um Tóustíg, yfir hlaðinn garð í vesturkanti tóunnar og yfir að tungu í vesturkanti hraunsins er nefnist Gráhella. Hún var notuð sem mið af sjó. Í Gráhellukantinum að neðanverðu er lítill skúti, sem heitir Gráhelluhellir.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal, en suður af Hraunsnefi, er hálfhrunin fjárborg, Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmundur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskaganum um aldamótin 1900.
Haldið var spölkorn til baka, sem fyrr sagði, og Rauðhólsstígnum fyglt áleiðis að Kúagerði. Skammt áður en komið var þangað niður eftir var beygt til vesturs, áleiðis að Vatnaborginni.

Vatnaborg

Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg. Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt suðvestur af Kúagerði, sunnan Reykjanesbrautar, er vatnsstæði í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnaborg.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Lónakot

Gengið með ströndinni frá Hvassahrauni að Lónakoti. Byrjað var við gamla Keflavíkurveginn skammt ofan við gömlu Hvassahraunsréttina. Í þessari lýsingu er ekki ætlunin að lýsa örnefnum sérstaklega heldur fyrst og fremst því sem fyrir augu bar á leiðinni.

Hvassahraun

Hvassahraunsrétt.

Réttin er hlaðin, ferningslaga, norðaustan utan í hraunhól vestan í hæðinni þar sem vegurinn er hæstur austan Hvasshrauns. Gengið var skáhalt niður lyngvaxið hraunið. Lóuhreiður á mosa og þrastarhreiður í kjarri, en síðan blasti skyndilega við hinn blákaldi veruleiki; sundurtættur mávur og einungis fjaðrinar eftir. Refurinn þarf jú sitt til að geta skrimt.
Bergmyndanirnar með ströndinni eru bæði fjölbreytilegar og stórbrotnar. Sumstaðar eru þverfallnir stuðlar, annars staðar hefur hraunið runnið lagskipt í sjó fram. Aldan hefur síðan dundað við að brjóta það upp, hnoða það í grágrýtiskúlur og varpa upp á land. Víða má sjá holu- eða bráðnunarmyndanir í annars hörðu berginu. Fjölbreytileikinn virðist ótakmarkaður. Um er að ræða forsögulega hraunmyndun, líklega frá fyrra hlýskeiði, milli síðustu ísalda. Sjórinn hefur dundað sér við að brjóta upp hraunflekana og fagurgera hraunyndanirnar áður en hann skellti þeim upp á sjávarbakkann.

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

Hrafnklukka, lambagras, bláberja- og krækiberjalynd, ljónslappi og fleiri tegundir hafa tekið sér svæðisbundna búsetu; hver tengundin tekur við af annarri.

Á Hraunsnesi og ofan við það eru fallega lygnartjarnir milli stórbrotinna hraunhóla. Botninn er gróinn því þarna gætir fljóðs og fjöru. Græni liturinn undir blámanum setur sjarmerandi svip á svæðið. Þannig skiptast litirnir í tjörnunum eftir því hvernig birtan fellur til.
Á leiðinni var fjölmargt að sjá; hnyðjur, rekaviður, brúsar, kúlur, ryðgað járn, garða, fjárskjól, selsstaða, fjárskjól, flöskuskeyti og hvaðaneina er prýtt getur fallega fjöru.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Fjárskjól er í Hraunsnesi og einnig skammt austar. Þar eru garðar, stekkur og tóftir. Grunur er um að þarna hafi Lónakot haft selstöðu um tíma, en að öllum líkindum hafa mannvirkin verið nýtt til útróðra þess á millum. Gerðið er afgirt hleðslugörðum og sæmileg lending er neðan við klettaborgina, sem selsstaðan hefur verið mynduð í kringum. Skammt suðvestan við hana eru hlaðið fjárskjól í hraunkrika.
Myndarlega hlaðið gerði er skammt austar. Þarna gæti verið um bátarétt að ræða er rennir enn frekar stoðum undir nýtinguna á svæðinu. Áður en komið er að Réttarklettum er farið með Dularklettum og -tjörnum, framhjá Grænhólsskjóli (fjárskjól) og Réttarklettum með allnokkrum görðum og gerðum umleikis, Nípa, Nípuskjól og Nípurétt eru skammt austar.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot er svolítið austar. Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gerði, garðar, tóftir útihúsa, bæjarhóllinn og tóftir hans, brunnurinn sunnan við hann, heimagarðurinn og tjarnirnar (lónin) allt um kring.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Lónakot fór í eyði á 20. öldinni, en sumar minjanna gætur verið nokkuð eldri. Heimagarðurinn er líkur öðrum slíkum, en víða með tjörnunum má greina hleðslur og gömul mannvirki. Leiðir að Lónakoti eru varðaðar (sjá háar vörður ofar í hrauninu). Liggja þær að Straumi (til austurs) og að Hvasshrauni (til vesturs).

Gengið var upp gamla veginn frá Lónakoti. Sjá mátti fallegar hleðslur utan í honum sumstaðar þar sem hann liggur um jarðföll og gjár.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Lónakot

Lónakot – bæjartóftin.

 

Hvasshraun

Hvassahraun lætur ekki mikið yfir sér þrátt fyrir að bæjarstæðið hafi lengi verið í þjóðleið. Framhjá því hafa farið milljónir ferðamanna, auk Íslendinga, sem átt hafa leið um Reykjanesbrautina millum Kapelluhrauns og Kúagerðis. 

Hvassahraun

Það, sem einkum hefur náð athygli augans á þessari leið, er brúnleitt mannlaust hús, braggi í sama lit og nokkrir kofar á stangli í hrauninu. Brúnleita yfirgefna húsið og bragginn eiga sér sögu, líkt og önnur hús. Rætt var m.a. við Pétur Kornelíusson, einn eigenda Hvassahraus, bæði um húsið og örnefnin.

Hvassahraun virðist ekki hafa tilheyrt Hraunabæjunum s.s. Straumi, Óttarsstöðum, Eyðikoti, Lambhaga, Þorbjarnarstöðum og Lónakoti. Ástæða mun að öllum líkindum fyrst og fremst hafa verið hreppamarkalegs eðlis því Hvassahraun var og er í Vatnsleysustrandarhreppi, en hinir voru í Garðahreppi (nú Hafnarfirði).

Hvassahraunsvörin

Tengslin við Hraunabæina hefur áreiðanlega verið meiri en af er látið. Óvenjulítið hefur verið skrifað um Hvassahraun sem bæjarkjarna, þrátt fyrir að hann hafi  verið í fjölfarinni þjóðleið millum Innnesja og Útsnesja á Reykjanes-skaganum. Hér er að mörgu leyti um áhugaverða fyrrum „sveit“ að ræða þótt ekki væri lengur fyrir annað en minjarnar, sem þar eru; áþreifanlegur vitnisburður um gengnar kynslóðir.

Annað sérstaklega áhugavert við Hvassahraunssvæðið er fyrsta viðmót þeirra, sem þar búa, gagnvart ókunnugum. Ólíklegt er að það séu leifar frá löngu liðinni tíð, en einhverri þó. Þegar FERLIR skoðaði svæðið fyrsta sinni með örnefnalýsingar að vopni virtist við fyrstu sín af nógu að taka, enda tóftir, garðar, götur, lægðir og hólar hvert sem litið var, en þegar að íbúunum eða umráðamönnum kom mætti þátttakendum hvarvetna tortryggni og andúð – í fyrstu a.m.k.

Hvassahraun

Einn öskraði á þátttakendur og bað þá um að hypja sig af landinu (jafnvel þótt hann hefði ekkert með það að gera) og annar kom síðar út og heimtaði skýringar á veru þeirra á svæðinu. Í ljós kom, eftir stuttar viðræður við viðkomandi, að hinn fyrrnefndi var bara eins og hann er, og hinn síðarnefndi hafði ástæðu til að tortryggja fólk, sem gekk um svæðið. Öðrum hafði verið bolað frá með fé sitt og hinn hafði þurft að berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni á svæðinu.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Allir er ágætir inn við beinið. Samskiptin, þrátt fyrir tortryggni í upphafi, áttu eftir að breytast til hins betra við nánara samtal. Hafa ber í huga að FERLIR hefur haft þann hátt að kynna viðkomandi ekki strax tilefni ferðar á vettvang, heldur reynt að fá fram viðbrögð hjá viðkomandi er gætu gefið til kynna tilbrigði tilfinninga og ástæðna þeirra er undir liggja hverju sinni. Eftir að upphaflega viðmótinu sleppir og að útskýringum fengnum hefur FERLIR aftur á móti hvarvetna verið vel tekið – með tilheyrandi fróðleik og ávísun á nálægar minjar. Þessi ferð varð engin undantekning í þeim efnum.

Hvassahraun

Hvassahraun – Herforingjaráðskort 1903.

Áður en lagt var af stað voru vopn sótt til Örnefnastofnunar, á loftmyndavefinn og til Fornleifastofnunar Íslands. Fornleifakönnun var gerð um Hvassahraunsland árið 2002 að beiðni Styrktarfélags vangefinna, sem er eigandi Hvassahraunslands vestan og norðan túngarðs, í tilefni af skipulagningu sumarbústaða-byggðar á svæðinu.

Einbúi

Í skýrslunni er m.a. bæjarstæði Hvassahrauns-bæjanna (I og II – Vesturbæjar og Austur-bæjar) staðsett, auk kotanna; Suðurkots, Norðurkots, Þorvaldskots og Niðurkots.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvassahraun er m.a. fjallað um svæðið næst bæjarstæðinu. Þar segir m.a. að Hvassahraun sé  jörð í Vatnsleysus-trandarhreppi næst austan við Vatnsleysur og um leið austasta jörð hreppsins á þá vegu. Í lýsingunni segir að upplýsingar hafi Sigurður Sæmundsson frá Hvassahrauni gefið og aðallega kona hans. Hér er sennilega átt við Sæmund Sigurðsson.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar.

Kirkjuhóll

Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði.“ Skyggnir er áberandi hóll norðan við gamla Keflavíkurveginn. Á honum eru hlaðnar a.m.k. tvær vörður og þarf önnur af nútímafólki, sem hefur haft gaman að því að skilja eftir sig verksummerki. Hin varðan er gróin og gæti hafa verið eyktarmark frá Hvassahrauni.

SönghóllÞegar farið er beint niður að sjó neðan við Hvassahraun má líta yfir svæðið með hliðsjón af eftirfarandi í örnefnalýsinunni: „Svo er þar næst vík sem heitir Heimavík og inn úr henni Hvassahraunsvör. Þar fram af tanganum vestan vararinnar er sker sem heitir Snoppungur og þar uppaf er Litliklofi. Þessir Klofar stóðu hver á móti öðrum upp úr sjó þegar allt annað var farið í kaf um stórstraumsflóð [Þeir sjást mjög vel frá Austurbæjarstæðinu]. Þar er svo Sjávarbrunnur, þar er lón og þar er graslendi, Þaravíkur. Þar upp af er svonefnt Vesturhraun, nær upp að vegi. Fúla er vík sunnan við lendingarvík niður í fjöru, þar safnast saman þari og ýlda, þar voru grasflatir.
ÞjófagerðiSvo eru þar utar þrír hólar, Láturhólar, þar hjá eru Láturtjarnir og út af þeim eru tangar sem heita Láturtangar, þeir ná langt út um fjöru, á þeim er mikill þari. Svo er þar næst vestur dalur sem heitir Siggudalur þar sem vegurinn liggur næst sjó, er við veginn upp af Látrahólum. Þá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.“ Að sögn Péturs fór Siggudals-Bakkatjörn undir Reykjanesbrautina þegar hún var lögð.
Hvassahraun 2Í örnefnalýsingu kemur fram að við Heimavík er Hvassahraunsvör. Við hana eru Lendingavör á Lendingum. Stutt er þarna á millum. Ofan við eru leifar af hlöðnu húsi og gamalt gerði. Búið er að byggja huggulegt hús ofan við gerðið, sem gæti vel hafa verið rétt um tíma, en segja má eigendunum til hróss að þeir hafa látið garðana halda sér ósnerta.
„Nú færum við okkur heim í tún. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn.
BrunnurNorður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni. Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella [sést mjög vel frá Vesturbænum]. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún.
Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.

Norðurkot

Þar niður af er svæði sem heitir Fjósatunga, svo er þar niður af býli nefnt Niðurkot og Sölvhóll er þar. Uppaf í túni er svo Fimmálnaflöt, er þar vestur af þar sem nú er sumarbústaður. Sú flöt var vanalega slegin þegar lítið var um þurrka. Þá brá vanalega til þerris. Vestur undan húsinu er dalur sem heitir Stekkjardalur, þar sunnar er svo flöt í túni sem heitir Kvíavöllur. Brunnur er suður af bæ. Gíslalaut er suður í túni og þar bak við hólana er Undirlendi sem er milli hólanna og túngarðsins. Þessir hólar voru svo nefndir Suðurhólar.“
Hér að framan er getið um Sönghól. Í skýrslu um ábúendur í Kálfatjarnarsókn um 1840 nefndir prestur býlið Saunghól sem hjáleigu frá Hvassahrauni. Þar hafi verið byggð 1803 og virðist búskapur þar hafa verið skammvinnur, ef til vill nokkur ár um 1830.

Niðurkot

Í örnefnalýsingu segir og að í Sönghól hafi verið álitin huldufólksbyggð. „Sönghóll hafi einnig verið nefndur Einbúi“. Hér hefur skrásetjari farið villur vegar um allnokkra metra þar sem hann hefur ruglað saman Sönghól og Einbúa, sem er sitthvor staðurinn, eins og annars staðar er lýst. Þegar Einbúi var skoðaður og leitað var skráningarskjóls undir honum mátti sjá þar vængbrotinn þúfutittling kúra undir honum í skjóli fyrir rammri austanáttinni, sem verið hafði undanfarna daga. Litli smáfuglinn virtist rólegur þar sem hann beið ásjár huldufólksins í hólnum – eða varanlegra örlaga sinna. Norðvestur undir hólnum mótar fyrir tóft.
„Nú flytjum við okkur vestur fyrir, þar upp á flatneskjuna og tókum þaðan svæðið þar vestar og ofar vegar. Utan við túnið er flatlendi, hraun með lausagrjóti, nefnt Melurinn, þetta er flatneskja. Vestan hans eru svo Vatnsgjár.
ÞorvaldskotOfan við núverandi veg vestur af Melnum, neðan við veg á melnum er nafnlaust þúfubrot. Vatnsgjárnar eru svo þrjár og er það Helguhola næst vegi, svo er þar Þvottagjá. Þar austar og ofar er svo smáhóll á milli, þá er Ullargjá, er svo syðst og þar fram af er svo Strokksmelur, þar eru gamlir gígir og smá gömul eldvörp.“

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson [f: 1919] gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, segir auk þessa um sama svæðið (sumt er endurtekið og annað hefur ekki verið skráð áður): „Hvassahraun er austust jarða Vatnsleysu-strandarhrepps. Hún er mikil að flatarmáli, en eldri og yngri hraunbreiður þekja hana alla. Um jörðina hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin.

Hvassahraunsbrunnur

Hvassahraun var aðallega fjárjörð, því að erfitt var til slægna. Líka var stundaður sjór, og þurfti ekki langt að fara til fanga. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana.“ Í fornleifakönnuninni segir að bæjarstæðið hfi veri þar sem íbúðarhúsið með steyptum kjallara stendur nú. „Það sem er hæð virðist að mestu náttúrlegt enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn, Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið“. Aðalheimildarmaður fornleifa-könnunarinnar er sagður Guðmundur Stefánsson, en á að öllum líkindum að vera fyrrnefndur Guðmundur Sigurðsson.

Hvassahraunsbrunnur

Þá segir í örnefnalýsingunni: „Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær (001).“ Í fornleifakönnunni segir um Austurbæinn: „Um 30 m suðaustan við [Vesturbæinn] 001 er merkt hús inn á túnakort. Guðmundur Sigurðsson telur þetta vera það hús sem kallað var Austurbær eða Hvassahraun 2. Þar er nú hlað“. Ef vel er að gáð má sjó ummerki eftir Austurbæinn á hlaðinu framan við fjárhúsbraggann. Þar mótar fyrir vegghleðslum. Ofar, vestan við braggann, eru leifar af húsi og vestan við þær eru bæjarhólshleðslur. Undir þeim er ferhyrndur torfgarður, augljóslega matjurtargarður.

SauðakofiÍ örnefnalýsingunni segir síðan: „Hvassahraunstún var allmikið um sig og lá á hraunklöppum og í lægðum milli þeirra. Túnið var girt túngarði, aðallega austan og sunnan. Hvassahraunstraðir lágu í suðaustur frá bænum. Á túngarðinum var Traðarhlíð. Suðurtún lá sunnan bæjar og traðanna. Undirlendi var lægð suðaustan við bæinn og lá út að túngarðinum við þjóðveginn. Fjósatunga var hluti túnsins, suður frá bænum. Þar rétt hjá var Fjóshóll og annar hóll, Einbúi. Þar átti að vera huldufólksbyggð. Kvíadalur er einnig í Suðurtúni og Hjallhólar. Í Kvíadal voru ærnar mjólkaðar, en það var löngu fyrir minni Guðmundar. Vestan til í Suðurtúni var Gíslalaut. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Austurtún lá austan og ofan bæjar og norðan við traðirnar.

Austurbærinn

Rófa var slakki nefndur meðfram traðarveggnum nyrðri. Beinateigur var í túninu norðan Austurbæjar. Sönghóll var í Austurtúni. Hann var álitinn huldufólksbústaður. Þarna var Sönghólsbær, stundum tvíbýli, og man Guðmundur eftir görðum þar. Langhóll var norðan við Beinateig. Norðan við Langhól voru Leynir og Þjófagerði, kriki á milli hóla. Þegar verið var að verja túnið, gátu kindur oft laumazt þangað án þess að nokkur sæi. Í Þjófagerði er tóft af hrútakofa. Norðurvöllur var einn partur túnsins, norðan Langhóls. Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Sölvhóll var niður með götunni. Þar voru sölin þurrkuð. Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði, Norðurkot með Norðurkotstúni, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir. Gerði eða Sjávargerði voru túnin og gerðin kringum kotin kölluð einu nafni, og einnig Kotabalar og Kotagerðin og Kotatún.“
SjávargatanSjávargatan er augljós niður frá Hvassahraunsbæjunum áleiðis niður að Hvassahraunsvör. Hún hefur verið gerð bílfær undir það síðasta þótt gróið sé yfir hana nú. Þá mótar fyrir Vatnsgötunni, en líklegt má telja að hún hafi öðru fremur legið að brunni í Suðurtúni. Þar mótar enn fyrir stórum brunni, sem gróið er yfir. Hvasshraunstraðirnar lágu hins vegar til suðausturs vestan við Sönghól og sést enn hvar þær lágu í gegnum Austurgarðinn skammt vestan við Braggann sem þar er. Þær hafa legið inn á Alfaraleiðina, sem þarna liðast á milli Nesjanna.

Suðurkot

Í fornleifakönnunni eru kotin staðsett. Um Suðurkot segir: „Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn (001) voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Samkvæmt örnefnalýsingu átti Suðurkot hins vegar að vera austan Sjávargötunnar, þ.e. norðan bæjarins. Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu“. Ályktun skrásetjara um að Suðurkot hafi verið við Suðurtún er að öllum líkindum rétt. Þar er tóft á grónum klapparrana, Suðurhólum, sunnan við túnið, er tóft með op mót suðvestri, svipuð að stærð og Niðurkotið. Þarna gæti vel hafa verið nefnt Suðurkot og hefur það þá verið við Vatnsgötuna en ekki Sjávargötuna. Reyndar eru hin kotin ekki við Sjávargötuna heldur nokkuð austan hennar.

Suðurkot

Um Norðurkot segir: „Sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dælum“. Norðurkotið hefur verið stærst kotanna; þrjú rými og stórt útihús. Af ummerkjum að dæma virðast bæði Niðurkot og Suðurkot hafa verið tómthús eða þurrabúðir, en Norðurkot og Þorvaldskot kotbýli eða grasbýli.
Um Niðurkot segir: „Enn sjást leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir“.

Garður

Um Þorvaldskot segir: „Þorvaldskot virðist hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni“.
Í lýsingum er einnig getið um Þóroddskot. Ekki er vitað hvar það var, en möguleiki er á að það sé annað hvort annað nafn á Þorvaldskoti eða að eitthvert hinna kotanna hafi tímabundið verið nefnt því nafni.
Auk þessa segir um Kirkjuhól: „Skáhallt suðaustru af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norð-
vestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Gróinn aflangur hóll í túni. Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.“ Fjárréttin er svo byggð utan í klapparhól. „Vesturvegginn myndar klöppin og suðurvegginn myndar túngarðurinn. Allir veggir eru sérstaklega hlaðnir. Réttin er alveg grjóthlaðin“. 

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

Í örnefnalýsingunni segir svo: „Bak við Gerðin er hóll, nefndur Miðmorgunshella, eyktamark frá Hvassahrauni.“ Hella þessi ber við Hjallhól. „Uppi í Norðurkotstúni er flöt, nefnd Fimmálnaflöt. Þar hraktist aldrei taða. Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfhóll, því að þar messaði huldufólkið. Þangað mátti einnig sjá jarðarfarir huldufólks frá Miðmorgunshellu. Gísli Sigurðsson segir, að í túninu nyrzt sé Stekkur og Stekkjardalur, en Guðmundur kannast ekki við, að þar séu nein stekkjarbrot.

 

Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Þar rétt hjá voru Suðurhólar, klappir. Stóri-Klofi er klettur vestan við Stekkjarnes. Frá honum og vestur að Litla-Klofa er Víkin eða Heimavík. Stóri- og Litli-Klofi eru klofnir klettar í fjörunni.
HvassahraunAustast í Víkinni er Svartiklettur. Ofan sjávarkampsins er fjárréttin gamla. Þar litlu vestar eru Sjávarbrunar. Fellur saltvatn inn í þá í stórstraumi, og er þar hálfgerð fúlutjörn. Næst er svo Hvassahraunsvör eða Vörin. Hún var einnig nefnd Lendingin og Víkin stundum kölluð Lendingarvík. Upp af Vörinni var Naustið. Víkurtangar heita vestan Víkurinnar og þar fram er sker, sem heitir Snoppungur. Sunnan við Lendingarvík er önnur vík, sem kallast Fúla. Þar safnast þari, sem fellur inn í stórstraumi og fúlnar í smástraumi. Þarna er einnig Fúlaklöpp og Fúlubakkar. Þá er komið að Látrum, klöppum vestan við Fúluvík. Ekki er vitað, hvort þar hefur verið selalátur áður fyrr. Þarna eru grasi grónir hólar, sem nefnast Láturhólar. Þeir eru þrír, aðgreindir sem Láturhóllinn yzti, Mið-Láturhóll og Láturhóllinn syðsti. Vestan þeirra er Látrasund. Í Látrunum er einnig Láturtjörn eða Láturtjarnir. Þangað slæddist fiskur, koli og ufsi og þyrsklingur smár. Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti.
NaustVestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur. Austast og næst vegi er Siggudalur og Siggudalstjörn, ein fúlutjörnin ennþá. Hún er alveg við veginn. Ekkert er vitað um Siggu þá, sem þessi örnefni eru dregin af. Þá voru þarna Syðri-Bakkar og Innri-Bakkar og lágu umhverfis Siggudal, einnig nefndir aðeins Bakkar eða Hvassahraunsbakkar.
Utar voru svo Ytri-Bakkar eða Lónabakkar. Svæðið þarna var líka kallað Vestur-Látrar og tjarnir utan Siggudals Bakkatjarnir.“
Að þessu sinni var athyglinni, sem fyrr sagði, beint að heimatúninu og næsta nágrenni þess að vestanverðu. Utan heimatúnsins eru fjölmargar minjar, s.s. fjárskjól, gerði, réttir, hústóftir, götur o.fl.

HvassahraunstraðirAð sögn Péturs Kornilíussonar, eiganda Hvassahrauns, væri þekking hans á örnefnum á jörðinni takmarkaður. Eftir viðræður við hann kom þó hið gagnstæða í ljós.
Pétur sagðist hafa keypt hluta af jörðinni með fermingarpeningum sínum. Hann myndi eftir því að núverandi íbúðarhús, brúnmálað þrílyft, var flutt frá Bergstaðastræti 7 að Hvassahrauni annað hvort árið 1966 eða ’67. Kirkjuhóll (Álfhóll) væri rétt austan við íbúðarhúsið. Norðan hans væri stakur hóll eða klettur; Einbúi. Hann væri álfakirkja. Langaflöt væri svo sunnan við húsið, en þar á millum væri Brunnurinn. Hann væri hlaðinn hringlega, ferlega djúpur. Sönghóll væri austan við fjárhúsið og Langhóls norðan hans. Austan þess væri Leynir því það svæði sæist ekki frá bænum. Þjófagerði væri litlu innar þar sem sauðhústóftin væri. Uppi á holti norðan við Þjófagerði væru útihúsatóftir, líklega frá þeim tíma er síðast var búið torfbæjarbúskap að Hvassahrauni.
Pétur staðsetti Bakka, Bakkatjarnir og Sigguvík neðan við Siggudals. Bakkatjarnir þar ofan við hefðu farið undir Reykjanesbrautina líkt og brugghola Hvassahraunsbónda, sem þar var skammt vestar.

Hvassahraun

Á bökkum sagði hann hafa verið fjárhús er sjá mætti leifar af. Túnið hefði fyrrum verið grónir blettir í hrauninu, en væri nú orðið samfelldara og hefði verið stækkað mikið.
Hvassahraun er í dag vel í sveit sett milli byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Suðurensjum hins vegar. Svæðið gefur góða mynd af heilstæðu bússetulandslagi sem telja verður dæmigert fyrir útvegsbændasamfélag fyrri tíma. Með skipulegum göngustígum og góðum merkingum á heimajörðinni og næsta nágrenni hennar mæti gera þarna eftirsóknarverðan áfangastað ferðamanna, en um 90% þeirra fara um Reykjanesbrautina, örskammt frá, á leið sinni til og áleiðis frá landinu hverju sinni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.
-Fornleifakönnun fyrir Hvassahraun, Elín ÓSk Hreiðarsdóttir fryir Fornleifastofnun Íslands, 2002.
-Pétur Kornelíusson, eigandi Hvassahrauns, f: 29.03.1953.
-Róbert Kristjánsson, Hvasssahrauni.
-Arndís Einarsdóttir, Hvassahrauni.
-Túnakort af Hvassahrauni frá 1919.
-Jarðatal Johnsen 1847.
-Jarðabók JÁM 1703 (Kaupm.höfn 1943).

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Hvassahraun

Marta Valgerður Jónsdóttir skrifaði um Hvassahraun í Faxa árið 1961 undir yfirskriftinni „Horfinn gististaður„:
„Milli Vatnsleysu og Þorbjarnarstaða í Hraunum, er einstakt býli, Hvassahraun. Mun vera röskur Thorunn-21klukkutíma gangur til hvorrar hliðar, þó lengri til Hrauna. Bærinn stóð á hól, rétt neðan við þjóðveginn, sjávarmegin, sem liggur frá Reykjavík til Suðurnesja. Heimreiðin lá upp hólinn, fyrst í aflíðandi halla og í dálitlum boga, miðja vega var klifið og þar fyrir ofan brattara upp að bænum. Túnið lykkjaðist um hraunbolla og hóla meðfram ströndinni, en hraunið teygði sig milli fjalls og fjöru. Þar var góð beit fyrir fé og skjól fyrir veðrum í skútum og lautum, en fjörugrösin voru líka ágæt beit. Á skerjunum úti fyrir ströndinni, óx þangið, sem var ríkur þáttur í búskapnum, aðal-eldiviður búsins. Naustið og vörin, með hlöðnum kampi niður af bænum; hjáleigurnar, Hvassahraunskot og Sönghóll innan túns, Snæfellsjökull út við hafsrönd og hafið, vítt og voldugt, gulli líkt í roða sólarlagsins. Í fallegu lautunum meðfram túnjaðrinum, sýndist eins og hvíla væri búin þreyttum ferðalang. Það var eins og fyrirboði þess, er koma skyldi, er gengið var í bæinn.
Í Hvassahrauni var áningar- og gististaður ferðamanna og hressing ávallt til reiðu. Hafði svo verið frá því að menn fyrst mundu.
Það var löng leið, að ganga alla þessa strandlengju, með nesjum og vogum, milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Stundum voru fæturnir ekki stórir, sem löbbuðu þessa leið, og mörg konan fetaði leiðina með börnum sínum, vor og haust.
Var þá farið í sumardvöl austur um sveitir. Vegurinn var vHvassahraun-992íðast hvar mjög vondur og líkari tröðum en vegi, því svo var gatan gengin niður í svörð og grjót. Frá ómunatíð, höfðu menn og hestar fetað sig eftir hraunhólum, hryggjum og lautum og myndað götuna, sem víða var orðin furðu djúp, einkum í Kapelluhrauninu og Almenningnum, en þar var gatan víða svo djúp, að baggar á hestum, námu við vegarbarmana og rákust þá oft í. Í rigningum var þarna einn vatnselgur, sem hestarnir ösluðu, en gangandi fólk varð að klöngrast á eggjagrjótinu uppi á vegarbrúninni. Það mun vera erfitt fyrir nútímamanninn, sem ekur bíl alla þessa strandlengju á einum klukkutíma, að átta sig á þeim reginmun á ferðalögum, eða var á fyrsta tug þessarar aldar, en ferðalög, eins og þau tíðkuðust þá, hafa sjálfsagt ekki verið ýkja mikið breytt frá Hvassahraun-993fyrri öldum.
Að sjálfsögðu fóru margir ríðandi, en það voru þeir efnameiri. Allur almenningur fór gangandi, en aðbúnaður þessa fólks var oftast slæmur og stundum hræðilegur, matur af skornum skammti og jafnvel enginn, skór þunnir og ónýtir, hlífðarföt óhentug og oft engin, en byrðar stórar og þungar bornar í bak og fyrir. Það var því gott að koma að byggðu bóli á þessari löngu leið og eiga vísa hressingu, jafnvel bæði andlega og líkamlega. Það hygg ég, að þeir, sem þekktu þessi ferðalög, um Suðurnesjaveg, nefni vart Hvassahraun svo, að þeim komi ekki í hug sú kona, sem gerði þar garðinn frægan, fyrir og eftir síðustu aldamót, en sú kona var Þórunn í Hvassahrauni.
Þórunn húsfreyja í Hvassahrauni, var fríð sýnum og gervileg á að líta og bar í svipmóti mikla persónu.

Hvassahraun-994

Strax við fyrstu sýn, vakti hún traust, enda varð hún víðfræg á þeim þrjátíu árum, sem hún var húsfreyja í Hvassahrauni, sakir höfðinglegrar fyrirgreiðslu og hjartagæzku við ferðafólk og alla þá, er hún náði til. Var það allra manna mál, að hún vildi hvers manns vandræði leysa, ef þess var nokkur kostur og lét margur svo um mælt, að manngæzkan vísaði henni veginn í mörgum vanda og hefði hún verið fundvís á leið til líknar, enda var hún dugnaðarkona, eins og hún átti kyn til. Þórunn var greind kona og ljómandi skemmtileg og laðaði að sér gesti. Þótti öllum tíminn fljótur að líða í návist hennar. Snauðu fólki var svo vel tekið í Hvassahrauni, að á orði var haft. Var því öllu svo innilega vel tekið, engu síður en embættismönnum og efnuðu fólki, en öllum hjálpað og líknað, eins og vinir og ættingjar væru. Átti Guðmundur bóndi Stefánsson, maður Þórunnar, þar jafnan hlut að máli, en hann var valmenni og samhentur konu sinni til allra góðra verka.

gudmundur-21

Stundum var þannig komið högum ferðafólks, að lífsnauðsyn bar til að þetta fólk kæmist í góðra manna hús. Það kom ekki ósjaldan fyrir að fólk félli í yfirlið, er það hafði t.d. lagt af sér þungar byrðar sínar og setzt niður til hvíldar í hlýjunni, svo aðfram komnir voru sumir eftir langa göngu, lítið viðurværi og margs konar erfiðleika. Fyrir kom það, að Þórunn tók á móti fæðandi konu í forstofu sinni. Mun þá hafa komið sér vel, að Þórunn var skjótráð og kunni vel að líkna í þeim vanda, þar að auki var Ingibjörg móðir hennar á heimilinu, kempa mikil, og ljósmóðir frá fyrri árum. Konan var lögð í hjónarúmið, Ingibjörg tók á móti barninu og allt fór vel og að sængurlegu lokinni fór konan heim þaðan alheil með barn sitt.
Foreldrar Þórunnar, þau Ingibjörg Pálsdóttir og Einar Þorláksson, höfðu búið allan sinn búskap í Hvassahrauni og sýnt ferðafólki sömu góðvild og fyrirgreiðslu og þau Þórunn og Guðmundur. Þau giftust 7. júlí 1855 og tóku þá við búi þar, af Önnu Jónsdóttur, móður Ingibjargar, en Einar hafði það sama vor komið frá Neðradal í Biskupstungum, föðurleifð sinn.
Frú Þórunn var fædd í Hvassahrauni 2. júní 1864. Var hún fimmta barn foreldra sinna. Mun það hafa verið ættgengt í Hvassahraunsætt. Frú Þórunn var fimmti ættliður, sem sat að búi í Hvassahrauni, óslitið.

Hvassahraun-995

Um miðjan október 1908 voru opnaðar sex landssímastöðvar á nýrri símalínu er lögð hafði verið frá Hafnarfirði suður með sjó til Gerða í Garði. Stöðvarnar voru: Hvassahraun, Auðnar, Hábær í Vogum, Keflavík, Litli-Hólmur í Leiru og Gerðar. Það féll í minn hlut að vinna við Keflavíkurstöðina. Kynntist ég því vel fólki á stöðvunum og varð þetta líkast stóru heimili, einkum fyrst í stað meðan lítið var að gera, og það var tekið þátt í önn og ys dagsins, gleði og sorg, öllu smáu og stóru, sem gerðist á hverju heimili. Við vissum, að húsbóndinn í Hvassahrauni lá á spítala í Reykjavík og við vorum kvíðin. Nógur var sá ógnar harmur, sem yfir þetta heimili hafði dunið, er efnilegum einkasyni var á burtu kippt. Þessi uggur varð að veruleika. Húsbóndinn kom heim, helsjúkur, rétt til þess að eiga síðustu dagana heima.
Hvassahraun-996Guðmundur bóndi andaðist 10. des. 1910. Þórunn tók þessum harmi með hetjudug. Hún hélt áfram búi með börnunum, móður sinni og Margréti Matthíasdóttur, er lengi hafði verið í Hvassahrauni, góð kona og fyrirtaks dyggðahjú. Vorið 1914, er yngstu börnin fermdust, seldi Þórunn jörð og bú og flutti til Reykjavíkur með hópinn sinn, ásamt Ingibjörgu móður sinni og Margréti. Var þá lokið búsetu þeirra fimm ættliða í Hvassahrauni.
Ekki mun Þórunn hafa verið rík af veraldarauði, er hún hætti búskap og greiðasölu, því sú fyrirgreiðsla við ferðafólk, sem var þar í té látin, mun aldrei hafa verið nein tekjulind, engum var gert að skyldu að greiða fyrir sig, og margir voru svo snauðir, að þeir áttu ekki eyri til, og aldrei fengu þau hjón neinn opinberan styrk til þess að halda uppi greiðasölunni.
Frú Þórunn andaðist í Reykjavík hjá Stefaníu dóttur sinni 8. febr. 1942. Hafði hún þjáðst af hjartabilun hin síðustu ár. (Morgunbl. 2. júní 1939).
Ennþá má sjá gamla veginn um Hraunin, bæði í Kapelluhrauninu og víðar. Er hann nú orðinn gróinn, en furðu glöggur. Gvendarbrunnur var í hrauninu, við veginn milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða. Var það skál eða hola í hraunklöpp, en vatn sitraði í skálina, svo að alltaf var dreitill í skálinni, sem aldrei þornaði alveg. En þreytt og þyrst ferðafólki, sem um veginn fór, kraup niður við skálina, signdi sig og drakk svo, ýmist úr lófa sínum, eða að það lagðist alveg niður að vatnsfletinum.
Væri vel ef gamla veginum ásamt Kapellunni í Hrauninu og þessum Gvendarbrunni væri þyrmt, þegar nýr vegur verður lagður um Hraunin, sem þegar er byrjað á.“

Heimild:
-Faxi, 21. árg. 1961, 10. tbl., bls. 199-203.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er frásögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi minjavarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar, af ferð suður í Voga á Vatnsleysutrönd:
„Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við Stóru-Voga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við . . . á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi. Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki . . . en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna „innbæina“, og verður síðar komið að því.

Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.
En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.
En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við jarðskjálfta, eldsvoða og þessháttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og finnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið „andlitslyftingu“ og er þar átt við húsakynnin í Straumi.

Straumur

Straumur.

Straumur er aðsetur listamanna. Íbúðarhúsið er í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með. Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.
Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots..

„Fyrst“ er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun. Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvel enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari. Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra- Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík. Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Hér var aðeins ætlunin að spyrna við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Kálfatjörn
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“

-Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Loftsskúti
Gengið var upp frá Hvassahrauni og Rjúpnadals- og Geldingahraunin gaumgæfð. Ætlunin var að skoða skúta skammt sunnan Reykjanesbrautar, suðaustan við Hjallhóla, mögulegan Loftsskúta ofan við Virkishóla, kíkja niður í svonefndan Virkishólahelli, nýfundinn, og skoða svo hugsanlegan stað í Skógarnefi er leitt gæti til langþráðrar uppljóstrunar um Skógarnefsskútann, sem getið er um í örnefnaslýsingu fyrir Hvassahraun, og mikið hefur verið leitað að.
HvassahraunMeð í för voru Björn Hróarsson, Hellarannsóknarfélaginu, og Ásbjörn frá Garpar. Í leiðinni var m.a. kíkt á Skógarnefsgrenin og Urðarás sunnan við Hraunkrossstapa, en hann er einn stórbrotnasti brothringur landsins.
Fyrsti skútinn, sem skoðaður var, er sunnan í hól skammt sunnan við Reykjanesbrautina. Fyrirhleðslan er fallin. Skútinn er beint suður af réttinni, fyrsti hóll strax sunnan vegar, syðstur svonefndra Hjallhóla. Líklegt má telja að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól, en annar skúti, Hjallhólaskúti, er í hólunum milli gömlu og nýju Reykjanesbrautarinnar. Opið snýr til suðurs og mótar fyrir hleðslum við opið. Í þeim skúta er talið að geymdur hafi verið fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisloftinu (SG).
HvassahraunGrunur var um að Loftsskúti gæti verið vestan í hól, milli Smalaskála, Virkis- og Brennihóla, þ.e. sunnan við Virkið. Þar er skúti í jarðfalli. Greinilegt er að fé hefur notað skútann sem skjól. Hafði verið hlaðið fyrir skútann er sú hleðsla fallin og gróið yfir. Þyrfti að róta með skóflu í garðinum fyrir framan skútann til að sjá hvað þar leyndist. Varða er á hólnum. Skútinn er um 350m suður af Virkinu, 300m NA af Smalaskála og 600m NV af Brennihólum. Hann er grunnur, en gefur gott skjól fyrir SA áttinni.
Litið var ofan í Virkishólahelli. Hellirinn er í litlu jarðfalli suðvestan undir í hraunhól, u.þ.b. 200 metrum ofan (suðaustan) við Virkið. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið farið niður í hellinn. Gatið liggur til norðurs úr opi mót suðri, en inn undir jarðfallinu að austanverðu er m.a. mosavaxinn kindarkjálki.
Björn liðaðist með ljós niður í hellinn, líklega sá fyrsti mannkyns, sem sögur fara af. Ekki er langt síðan einn FERLIRsfélaga ætlaði að kíkja í annan slíkan þarna skammt norðar, en mætti þá rebba innan við gættina.
Björn var hins vegar óragur. Þegar niður var komið blasti við sæmileg hraunbóla, en engin endagangur annar. Innst í bólunni voru nokkrar sauðatennur er bentu til þess að rebbi hafi gert sig þar heimakominn. Þarna hefur hann verið kóngur í hásölum um stund. Kjálkinn ofar í munnanum gæti staðfest það.
HvassahraunÞá var haldið til austurs upp Rjúpnadalahraunið, stundum nefnt Afstapahraunið eldra, og upp í Geldingahraunið með stefnu á Skógarnefið. Í rauninni er grunnurinn gamla Hrútagjárdyngjuhraunið, en inni á milli og til vængjanna má sjá móta fyrir minni hraunum, t.d. Dyngnahrauninu er kom út úr Dyngjurananum og Mávahlíðum ofan við Einihlíðar. Einn fallegasta hraunfoss þess má sjá í vestanverðum Einihlíðum ofan við Mosa. Þarna, í neðanverðu Skógarnefninu, hafði Ásbjörn komið auga á stað, sem gæti leitt til fundar Skógarnefsskúta.
Gengið var vestan við Hvassahraunssel og í gegnum selið. Vel mátti sjá á tóftunum við þessar aðstæður hversu kalsasamt hefði verið þarna að vetrarlagi, en selin voru að jafnaði ekki setin á þeim tíma. Ofan við selið eru tvær vörður við hraunsprungu. Gengið var í gegnum nýrra hraunhaft, sem virðist hafa komið úr litlu skammvænu gosi, vestan við Urðarás.
Skútinn er inn í sprungu austan í hól, rétt ofan við Skógargötuna og skammt vestan og innan landamerkja Hvassahrauns. Girðingin, sem talin hefur verið á mörkunum, er svolítið vestan markanna. Það virtist vera allnokkurt rými þarna inn í hólnum, eins og reft hafi verið yfir sprunguna en þakið fallið niður. Hellirinn er ofan við efsta krossstapann (Hraunkrossstapa). Ljós þurfti til að skoða hann. Björn fór bæði inn í hann að norðanverðu og einnig að vestanverðu, en engar mannvistarleifar var að sjá á þeim stöðum. Snjó hafði skafið yfir hliðarskúta, svo skoða þarf aðstæður betur í auðu. Þarna skammt norðvestar eru tvær vörður á litlum klapparhól; landamerki Hvassahrauns og Óttarsstaða.

Urðarás

Urðarás.

Skútinn er um 1 km fyrir ofan krossstapann, um 140m ofan við Skógargötuna og um 40m NA við línu sem dregin er milli Miðkrosstapa og Markhelluhóls (girðingu milli Hvassahrauns og Óttarsstaða).
Á bakaleiðinni var komið við í Skógarnefsgrenum. Grenin eru neðan við Skógarnefið, skammt ofan við efsta krosstapann. Grenjaskyttubyrgið er hlaðið um hraunskjól og grenin skammt frá. Tekinn var gps-punktur á byrgið.
Skammt norðvestan við grenin er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.
SkógarnefErfitt er að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.
Í rauninni er Hvassahraunið að meginefni til eitt hraun; Hrútagjárdyngjuhraun sem fyrr segir, en inn á milli koma lítil hraun, sem að framan greinir.
Lítið sást af rjúpu, en þegar að henni var komið var hún mjög gæf. Hins vegar sáust víða spor eftir hana í snjónum – og rebba.

Urðarás

Urðarás.

Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða „Menningsleið“ vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.