Víða í helluhrauum Reykjanesskagans má sjá falleg og ólík hraunreipi.
Þegar yfirborð helluhrauna storknar getur þunn skánin orðið reipótt eða gárótt á köflum við kælinguna frá andrúmsloftinu. Þessi skán leggst síðan í fellingar þegar bráðin undir rennur fram. Gárurnar nefnast einu nafni hraunreipi.
Í norðvestanverðum Brennisteinsfjöllum (Kistuhrauni) eru t.d. tilkomumikil hraunreipi. Ólík reipi má finna í Stórabollahrauni, Slokahrauni, Eldvörpum og víðar á Skaganum.
Tag Archive for: jarðfræði
Magnús Á. Sigurgeirsson ritaði athyglisverða grein er hann nefnir „Þáttur úr gossögu Reykjaness – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum“ í Náttúrufræðinginn (72) árið 2004. Þar fjallar hann aðallega um eldgos á undan síðasta gosskeiði á Reykjanesskaganum fyrir um 2000 árum.
„Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.“
Í inngangi segir Magnús að „náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga. Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. Í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.“
Þá segir: „Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1200 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig var þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reyjanesskaga. Á Reykjaneshrygg hafa margsinnis orðið til „gígeyjar“ sem fjöldi skerja og boða er til vitnis um. Slíkar eyjar eru berskjaldaðar fyrir rofmætti sjávar og eyðast jafnan hratt. Vel þekkt eru afdrif Nýeyjar sem myndaðist í neðansjávargosi árið 1783 um 55 km undan Reykjanesi. Sú eyja hvarf í hafdjúpið innan árs frá því hún skaut upp kollinum. Langlífari gígeyjar hafa þó einnig orðið, s.s. Eldey og Geirfuglasker.
Ummmerki um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg hafa varðveist á landi. Við strönd Kerlingarbáss, þar sem gígaraðir á Reykjanesi liggja að sjó, hafa hvað eftir annað hlaðist upp öskugígar. Þar má nú skoða leifar þriggja slíkra gíga. Neðansjávargos fjær landi hafa skilið eftir sig öskulög á jarðvegi, fundist hafa a.m.k. ellefu slík lög á Reykjanesskaga. Öskulögin veita mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.“
Í greininni er rakin aldur nokkurra hrauna og gjóskulaga á Reykjanesskaga fyrir um tvö þúsund árum, s.s.:
Hraun: Eldstöðvakerfi: 14C-aldur: Gjóskul.tímat.: ~Áætl. aldur:
Eldra Stampahraun Reykjanesi 2155/35 >1400ár >2000 ár ~1900 ára
Tjaldstaðahraun Reykjanesi >1400 ár <2000 ár ~1900 ára
Eldvarpahraun eldra Reykjanesi 2150/65 >1100 ár ~2100 ára
Sundhnúkahraun Reykjanesi 2350/90 >1100 ár <2000 ár ~1900 ára
Óbrinnishólar Trölladyngja 2142/62 >1100 ár <2000 ár ~2000 ára
Eldra Afstapahraun Trölladyngja >1100 ár ~2000 ára?
Hólmshraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára?
Stórabollahraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára
Vörðufellsgígar Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára
Reykjafellshraun Hengill 1857/87 >1100 ~1900 ára
Eldborg undir Meitlum Hengill 2025/65 >1100 ár ~1900 ára
Nesjahraun Hengill 1880/65 > 1100 ár ~1900 ára
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulgatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Þær, sem og aðrar sýnatökur, geta gefið mikilsverðar vísbendingar um aldur hrauna. Taka ber niðurstöðum þó með hæfilegum fyrirvara.
Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós skjálftavirkni á Reykjanesi sem einkum er bundin við vestari reinina.
„Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur gos til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili.“
Í lokaorðum segir Magnús að „telja verði líklegt að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallvatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá úr þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma.“
Heimild:
-Magnús Á Sigurgeirsson, „Þáttur úr gossögu Reykjaness“, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingurinn 72 (1-2), bls. 21.-28, 2004.
Meginhálsar Reykjaneskagans eru tveir; Vesturháls og Austurháls, öðrum nöfnum Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Báðir eru afurðir gosa á sprungureinum Norður-Atlantshafshryggjarins er ísaldarjökull þakkti landið. Meiri „hryggjarleifar“ eru á Reykjanesskaganum eftir gos á sprungureinum undir jökli, s.s. hluti Brennisteinsfjalla (Sandfell og Vörðufell) og Fagradalsfjall (og Vatnsfellin, Litli-Keilir og Keilir).
Hér er ætlunin að gefa svolitla mynd af Núpshlíðarhálsi. Syðsti hluti hans er einstakur hvað varðar gosmyndanir eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Tvær gígaraðir á gossprungum liggja upp eftir honum í NA, allt inn að Djúpavatni austanverðu. Sjá má gígana utan í móbergshlíðunum. Ennþá áhugaverðara er að ganga eftir þeim og berja augum hinar einstöku jarðmyndanir og litbrigði. Gígarnir sunnan Vigdísarvalla eru einstaklega formfagrir, Slaga er austan Vallanna og gígur skammt norðaustar á sprungureininni virðist líkt og teygja sig út úr Fögruflatarhorni. Ketill austan Traðarfjalla og Djúpavatns er hluti af gígaröðinni.
Selsvellirnir vestan við Núpshlíðarháls eru eins og vin í eyðimörk, og þar var og er eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Við austanverða og suðvestanverða Vellina eru miklar tóftir frá selstöðunum.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar, sunnan Einihlíða og Mávahlíða.
Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu sunnan við hann, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun nýrra er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.
Austan í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi er gígaröð á sprungurein sem fyrr er lýst. Nær hún langleiðina upp fyrir Djúpavatn austanvert. Syðst er röðin tvískipt. Í henni austanverðri eru einstaklega fallegar gosmyndanir með mikilli litadýrð. Undir einum gíganna er hellir.
Alls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi. Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Burnirót má finna í hlíðunum.
Stór hluti fjallgarðsins eru sandberg, bólstraberg, melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna undir austanverðum hlíðunum miðjum, í Krókamýri. Þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Eitt af sérkennum í Núpshlíðarhálsi eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu í Sogunum og Sogadal. Þar vaxa tegundir svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um norðanverða Selsvelli, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem einnig finnast í Geitahlíð.
Fjallgarðurinn er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.
Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum sprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Ein þeirra fer um Hálsana, þ.e Krýsuvíkurrein sem liggur frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á sprungureinuninni, þ.e. í Sogunum og nágrenni við þau.
Jarðlögin í og utan við Núpshlíðarháls eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Núpshlíðarhorni, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Austar eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er t.d. gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka vestan og austan af hálsinum. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og líkt og Núpshlíðarháls er Sveifluháls móbergshryggur sem hafa hlaðist upp undir jökli. Segja má að þessi jarðmyndum sé eitt af sérkennum Íslands. Á Reykjanesskaganum er þessar myndanir hvað mest áberandi, þar sem Norður-Atlantshafshryggurinn „gengur á land“. Landið gliðnar og meginlandsflekarnir, Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn, og fjærjaðrarnir færast hægt og rólega frá hvorum öðrum. Á millum þeirra alast upp afkvæmi herra Elds og frú Kviku.
Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.utivist.is/greinar/
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/natturuf.htm
Örnefnið „Latur“ hefur verið útskýrt á ýmsan máta. Til að fá úr tilurð nafnsins skorið spurðist FERLIR fyrir um nafnið á fyrirspurnarvef Örnefnastofnunar (sjá hér tl hliðar), en þangað er hægt að leita fróðleiks og upplýsinga um hvaðeina er lýtur að örnefnum vítt og breytt um landið, svo framarlega að þau hafi verið skráð, þau hafi skírskotun eða um þau fjallað.
Spurningin var þessi: „Hafið þið upplýsingar um tilurð örnefnisins „Latur“? Latur er t.d. hár fjallsendi í Ögmundarhrauni, stórt bjarg í fjörunni (var þar) utan við Þorlákshöfn, klettur niður við strönd á Vestfjörðum og e.t.v. víðar?“
Svavar Sigmundsson svaraði að bragði fyrir hönd Örnefnastofnunar á eftirfarandi hátt: „Líklegt er að örnefnið Latur tengist umferð á sjó. Þannig er um Lat við Þorlákshöfn. Þór Vigfússon segir að hann hafi oft verið notaður sem hraðamælir. „Var talað um að róa Lat fyrir Geitafell og slögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin“ (Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 91).
Latur er líka drangur vestur af Faxanefi í Vestmannaeyjum, en sjómönnum hefur þótt hann vera latur við að hverfa fyrir Faxanefið. Klettur á Breiðafirði milli Ólafseyja og lands heitir Latur og talinn draga nafn af því að hann „gengur mjög hægt fyrir Reykjanesið þegar siglt er úr Skarðsstöð fram í Ólafseyjar“ (Árbók Ferðafélagsins 1989, bls. 130; Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 107). Hólmi í Suðurlöndum á Breiðafirði heitir Latur og liggur undir Skarð á Skarðsströnd. Sker á Djúpavogi í S-Múl. nefnist Latur en ekki er vitað um að það hafi verið haft til viðmiðunar (Árbók Ferðafélagsins 2002, bls. 103; Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 544). Þetta gildir þó tæpast um Lat (= Siggahól) sem er strýtumyndaður hóll í Brúnunum upp af Vatnsleysuströnd vegna þess hve langt hann er frá sjó. Hann gæti þess vegna verið kenndur við leti (Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi, bls. 69).“
Sesselja bætti síðan eftirfarandi við: „Varðandi Lats umfjöllunina: Í Vatnsleysustrandarheiði er örnefnið Latur yfir hól ofarlega í heiðinni (nefndur hér neðar) og var mér sagt af gömlum bændum að þar hefðu menn fengið sér lúr af einhverjum ástæðum, e.t.v. gildum? Þeir þurftu jú að bíða eftir einhverju og nýttu því tímann.
Við fyrstu skoðun virtist mér sem að í þessu tilviki (í smölun) hafi menn verið tímanlega á staðnum og því e.t.v. getað veitt sér það að vera latir, fá sér lúr. En við nánari skoðun; öllu frekar hitt að eitthvað hafi verið lengi á leiðinni, þ.e. að koma í ljós, verið hraðamælir , eins og Þór Vigfússon nefnir. Slík biðstaða getur auðvitað vel átt við bæði á landi og á sjó, þ.e. að eitthvað var lengur að koma í ljós en menn væntu eða hugðu. Tel ég það gildari skýringu nú á örnefninu Latur þó svo að við fyrstu sýn tengi maður leti við hegðun mannsins en ekki örnefnanna.“
FERLIR þakkaði báðum greið svör, og bætti við: „Þessi skýring á örnefninu „Latur“ kemur vel heim og saman við lýsingu Vigfúsar Einarssonar í Sunnlenskar byggðir II, 1981, bls. 94, þar sem hann lýsir aðstæðum vestan við Þjórsárós, nokkru austan við Loftsstaðasundið. Þar segir m.a.: „Þegar mikið brim er og háflóð, vaða ólögin yfir hraunið og brotna við sandinn og valda mikilli “ lá“ svo vont getur verið að halda skipunum. Þurfa skiphaldsmenn að vera stinnir og vel klæddir, klofbundnir. Lendingin er ekki mjög brött og því ekki erfitt að setja skipin. Nokkru fyrir austan Loftsstaðasund hækkar hraunið, og má heita, að það endi í hraunbungu, sem er suður af Loftsstaðabænum; er þar bergstallur við sjó. Á hraunhrygg þessum er stór klettur, sem kallaður er Latur, og urðarbungan Latsgrjót. Auðgert er að miða hann við austurfjöllin.
Þegar róið er til lands undan Loftsstaðasundi í norðanroki, gengur lítið, og fer Latur þá hægt fram austurfjöllin – er latur. Af þessu er nafnið dregið. Oft er það afbakað, hraunbungan kölluð Lagsgrjót og Lagsagrjót…“.
Líklegt má telja að sama skýringin gildi um Lat í Ögmundarhrauni. Hefur hann þá væntanlega verið mið við erfiðan eða „hæggengan“ róður að verstöðinni Selatöngum eða nálægum stað/stöðum. Þó er ekki útilokað að nafnið eigi við um „letilegan“ dvalarstað á langri leið því við Lat liggur gömul gata og neðan hans er gamalt sæluhús í hraunskjóli.
Segja má að skýringin á örnefninu Latur í Vatnsleysustrandarheiði geti einnig staðist sem slík. Annað dæmi um sambærilega skýringu er nafn á stórum steini í sunnanverðum Digraneshálsi í Kópavogi þar sem gatan liggur nú um Hlíðarhjalla. Um hann segir að þar „Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.“
Og þá liggja fyrir nærtækar skýringar á örnefninu Latur.
-http://www.ornefni.is/
-http://www.ismennt.is/not/ggg/latur.htm
Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesskaga. Þar segir m.a.: “Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.
Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir (dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell”.
Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.
Selin eru yfirleitt í eldri hraunum en þeim er runnu á sögulegum tíma, enda gróður þar skemmra á veg kominn en í þeim eldri. Nýrri hraunin enn mosavaxin, en önnur víða grasivaxin og klædd lyngi, birki og víði; ákjósanleg til beitar.
Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskaga HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.
Hraundrýli myndast við það að lofttegundir, sem losna úr bráðinni, streyma út um gatið með miklum hraða og bera með sér hraunflyksur sem límast í kringum loftrásina.
Hraundrýli má sjá á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum. Þekktust og nærtækust eru líklega hraundrýlin á Strokkamelum í Hvassahrauni, örskammt sunnan Reykjanesbrautar, og Tröllbörnin undir Lögbergsbrekkunni (Lækjarbotnum), við Suðurlandsveginn, en einnig eru t.d. há, stór og falleg hraundrýli í Eldvarparhrauni ofan við Grindavík og í Hnúkunum ofan við Selvog.
Hraundrýli geta verið allhá og mjó, eða lægri og gildvaxnari, og stundum mynda þau röð yfir hraunrás sem undir er.
Hraundrýli eru algeng á hraundyngjum, til dæmis í Surtsey og á Selvogsheiði (Hnúkunum). Þar er bæði hátt og fallegt hraundrýli og einnig annað stórt og mikið um sig. Opið er inn og hefur það verið notað sem skjól. Utan við það eru tættur.
Tröllabörnin í eina tíð notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Landsvæði umhverfis Tröllabörn og þar með talið hraundrýlin sjálf var friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.
Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is
Íslandi gýs að meðaltali á 5 ára fresti og verða eldgosin eingöngu á virka gosbeltinu. Smám saman dragast eldstöðvarnar út af beltinu, þannig að það gýs æ sjaldnar úr þeim þar til þær deyja út að lokum.
Komið hefur í ljós að sumar eldstöðvar tengjast þannig að þær virðast fá sams konar kviku. Þess vegna er eldstöðvum á Íslandi skipt upp í u.þ.b. 30 aðskilin eldstöðvakerfi. Innan hvers eldstöðvakerfis geta verið margar eldstöðvar en aðeins ein megineldstöð. Sum eldstöðvakerfi fá kviku sína beint úr kvikulaginu en önnur fá kvikuna úr grunnstæðum kvikuhólfum.
Ætla má að jarðskorpan undir Íslandi sé um 10 km þykk. Hún er þó mun þynnri undir flekaskilunum heldur en undir Aust- og Vestfjörðum. Undir skorpunni er svokallað kvikulag en þar er bergið bráðið að hluta til og leitar bráðin upp um sprungur í átt til yfirborðsins. Sums staðar nær kvikan að safnast saman og mynda kvikuhólf sem geta náð töluvert upp í jarðskorpuna. Slík hólf eru undir öllum helstu eldfjöllum landsins og nefnast þau megineldstöðvar.
Þgar Reykjanesskaginn er athugaður má lesa þar ákveðna jarðsögu. Greinilega má sjá hvar Reykjaneshryggurinn kemur í land hjá Reykjanestá en þar er stór sigdalur sem sýnir hvar flekaskilin eru. Enn fremur gefa stórar sprungur til kynna hvernig landið rifnar í sundur. Búast má við gosi á Reykjanesskaga á u.þ.b. þúsund ára fresti en gostímabilin geta spannað 300 til 400 ár.
iðnesið og svæðið suður af Reykjanesbæ er alsett hraunum sem runnu áður en jökull lagðist yfir landið en hann náði mestri útbreiðslu fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Þessi hraun hafa orðið fyrir miklum ágangi. Þegar þau runnu var loftslag svipað og nú en síðan lagðist jökull yfir hluta þeirra. Jafnfram því lækkaði yfirborð sjávar um 100-150 m þannig að hraunin lentu uppi á miðju landi. Jökulár fluttu bræðsluvatn til sjávar og þegar jökla leysti hækkaði sjávarmál allt upp í 10 m yfir núverandi sjávarmál.
Meðan jökull lá yfir Reykjanesi urðu eldgos tíð. Þá mynduðust móbergsstapar og móbergskeilur sem standa upp úr hraunsléttunni sem þekur skagann. Fjöll, sem eru keilulaga eða lík hrúgöldum, hafa ekki náð upp úr jöklinum en hin, sem eru með hraunsléttu efst, gefa til kynna þykkt jökulsins þegar þau mynduðust. Meirihluti Reykjanesskagans er hraunslétta, gerð úr hraunum sem runnið hafa eftir að jökullinn tók að bráðna fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Mikill hluti þessarar hraunsléttu er dyngjur sem urðu flestar til á fyrri hluta tímabilsins. Þær eru víðáttumiklir, lágreistir hraunskildir og er Þráinsskjöldur ein stærsta dyngjan, 130 km2. Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir nafninu Reykjaneseldar.
Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/
Úrkoma, sem fellur á Reykjanesskagann, hripar niður um lek berglög, safnast fyrir neðanjarðar og sytrar svo hægt í átt til sjávar. Þetta vatn kallast grunnvatn. Við ströndina mætir ferska grunnvatnið söltum sjónum. Sjórinn er eðlisþyngri, svo að grunnvatnið myndar 30 – 100 m þykka ferskvatnslinsu sem flýtur ofan á honum. Neðst í grunnvatnslinsunni er lag af ísöltu vatni og er það þykkast úti við ströndina þar sem berggrunnur er afar lekur og sjávarfalla gætir mest.
Á Reykjanesskaga eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku (heit innskot). Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi. Í Svartsengi er t.d. heitur jarðsjórinn notaður til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitu á Suðurnesjum auk þess sem hann er nýttur fyrir gufuaflstöð til raforkuframleiðslu. Hluta af söltu afrennslisvatninu er veitt í Bláa Lónið en afganginum er dælt aftur niður um borholu.
Jarðskjálftar eru tíðir á Reykjanesskaganum. Upptök þeirra eru einkum á örmjóu belti sem sker eldstöðvakerfin og stefnir nærri í austur. Líta má á þetta belti sem flekaskilin sjálf. Á Reykjanesskaganum eru þrjú eldstöðvakerfi og þar sem beltið sker þau eru eitt eða fleiri háhitasvæði á yfirborði jarðar: Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll.
Vestast á jarðskjálftabeltinu er gliðnunarhreyfing ráðandi og mikið um væga jarðskjálfta sem verða ekki stærri en 4-4,5 stig á Richter. Eftir því sem austar dregur verður aftur á móti víxlgengishreyfingin, sem einkennir Suðurlandsundirlendið, greinilegri. Þar geta jarðskjálftar orðið sterkari eða allt upp í 6-6,5 stig á Richter. Um miðhluta Reykjanesskagans fara jarðskjálftar aftur á móti ekki upp fyrir 5-5,5 stig á Richter.
Á Reykjanesskaga eru átta jarðskjálftamælar sem veita hagnýtar upplýsingar um upptök og eðli skjálftavirkninnar auk þess að auðvelda Almannavörnum eftirlit með svæðinu. Hitaveita Suðurnesja kostar þrjá þessara mæla. Á Reykjanesskaga virðast skiptast á róleg og óróleg jarðskjálftatímabil. Sögulegar heimildir eru mismiklar en um og fyrir aldamótin virðist hafa verið mikil ókyrrð á og við Reykjanes. Ennfremur voru miklar skjálftahrinur á tímabilunum 1929-1935 og 1967-1973. Svo virðist sem slík óróleikatímabil geti gengið yfir Reykjanesskaga á 30-40 ára fresti.
Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/
Í Náttúrufræðingnum 1994-1995 skrifar Magnús Á Sigurgeirsson m.a. um jarðfræði Reykjaness: „Reykjanes er um 5 km langt, í SV-NAstefnu,og myndar suðvestasta hluta Reykjanesskagans. Það afmarkast af Stóru-Sandvík í vestri og Sandvík austan Háleyjabungu í austri.
Nesið er allt eldbrunnið og hrjóstrugt yfir að líta, að mestu þakið gróðurvana, sandorpnum og úfnum hraunum. Upp úr hraunbreiðunum rísa móbergs- og bólstrabergshryggir sem liggja slitrótt norðaustur eftir nesinu. Næst ströndinni er Valahnúkur sem skagar í sjó fram en innar koma Bæjarfell, sem vitinn stendur á, Litlafell, Sýrfellsdrög og Sýrfell, sem er þeirra hæst. Á austanverðu Reykjanesi eru hraundyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga. Hraun þeirra eru mjög misgengin og sprungin enda elst hrauna á nesinu. Að móbergsmyndunum og dyngjum frátöldum er nesið að mestu leyti þakið hraunum sem runnið hafa frá gossprungum. Eru það yngstu bergmyndanir þar, eins og raunar á við um Reykjanesskagann í heild. Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fimmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum.
Reykjanes liggur á mótum gliðnunar- og goshryggja Norður-Atlantshafsins og Íslands. Öll umbrot sem þar verða, eldvirkni og höggun, eru tengd gliðnunarhrinum. Á Reykjanesskaga liggja skástíg eldstöðvakerfi hvert vestur af öðru og áfram eftir Reykjaneshryggnum á hafsbotni. Vestasta eldstöðvakerfið liggur um Reykjanes og er við það kennt. Það er um 25 km langt í suðvestur-norðausturstefnu og liggja syðst 9 km þess neðansjávar (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978).
Á sjókorti má glöggt sjá neðansjávarhrygg sem gengur suðvestur frá nesinu og er neðansjávarhluti Reykjaneskerfisins (Sjómælingar Íslands 1972).
Hraun á Reykjanesi eru úr basalti. Frá gossprungum hafa runnið hraun úr þóleiíti en frá dyngjum úr ólivínþóleiíti eða pikríti (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978). Á jarðfræðikortum Jóns Jónssonar (1963, 1978) er sýnd útbreiðsla, gerð og aldursafstaða helstu jarðmyndana á Reykjanesi.“
Páll Imsland hafi m.a. skrifað eftirfarandi um jarðfræði Reykjanesskagans í Náttúrfræðinginn 1985: „Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt.
Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin Ijósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.
Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu. Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni. Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum.
Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“. Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast. Ásamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri berglögum.
Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið sprungusveimsins. Eldvirkni og sprunguvirkni hefst því á Kjalarnessprungusveimnum nokkrum hundruðum þúsunda ára áður en megineldstöðin sjálf hefur þróast svo, að hún verði þekkjanleg í jarðlagastaflanum.
Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengils-sprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.
Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir.
(1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.
(2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardalssveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).
(3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva.
(4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt. Á þeim tíma, er forverar Hengils-sprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga.
Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall.
Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana. Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp.
Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).
Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin. Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980).
Þá myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði. Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið.
Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlaga- og móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest.
Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans. Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanes-sprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á Krýsuvíkur-sprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkur-sprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun.
Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m.
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland – Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árgangur 1985, bls. 63-74.
-Náttúrufræðingurinn, Magnús Á Sigurgeirsson, 64. árg. 1994-1995, bls. 211-214.
„Hversu gamall er grunnurinn sem byggjum á í þéttbýlinu við Faxaflóa og hvaðan er það berg komið? Hversu oft hefur á síðustu árþúsundum dregið til stórtíðinda í eldstöðvum hér fyrir ofan, og hversu langt er síðan síðast?
Við búum í óskalandi jarðfræðinnar þar sem hægt er að lesa náttúruna eins og opna bók og greina sögu jarðmyndana; síendurtekinna gosa með hraunrennsli sem smám saman hefur hlaðið landið upp, en ísaldarjöklar hafa átt sinn þátt í að móta það landslag sem nú blasir við. Allt er þetta harla ungt á jarðsögulegan mælikvarða; aðeins um 14-15 milljónir ára síðan elzta berg á Austfjörðum, Vestfjörðum og við mynni Eyjafjarðar varð til. Þetta er svo nýlegur atburður á jarðsögulegan mælikvarða, að það er eins og gerst hafi í gær.
Þegar landið okkar „fæddist“ voru til dæmis liðnar um 45 milljónir ára frá því stórslysi í náttúrunni sem orsakaði að risaeðlurnar dóu út. Þá voru þessi blessuð dýr búin að vappa um jörðina í milljónir ára og miðað við það var skaparinn ekki lengi að hlaða upp Ísland.
Hér er ekki ætlunin að rekja myndunarsögu landsins, heldur verður beint sjónum að tiltölulega litlum skika, sem skiptir þó verulegu máli þar sem meirihluti þjóðarinnar býr þar. Það er Reykjavíkursvæðið suður fyrir Hafnarfjörð, en mér til halds og trausts hef ég Þorleif Einarsson jarðfræðing og prófessor við Háskóla íslands. Hann er höfundur bókar um Myndun og mótun lands, sem hefur verið gefin margsinnis út og er mikil náma um jarðfræði Íslands.
Til þess að fá gleggri mynd af því sem gerst hefur og myndað það umhverfi sem við höfum daglega fyrir augunum, ókum við Þorleifur Suðurlandsveginn upp á Svínahraun, en þar dró „nýlega“ til tíðinda með eldgosi og hraunrennsli sem náði til Reykjavíkur. Við komum nánar að því síðar. Þessi samgönguæð, Suðurlandsvegurinn, væri úr sögunni ef það endurtæki sig, að ekki sé nú talað um þann usla sem hraunrennsli niður í Elliðavog mundi valda.
Við Þorleifur námum staðar á hárri bungu í Svínahrauni, þar sem sést suðvestur eftir hækkandi hraunum með Bláfjöll á hægri hönd. Þar er sú eldstöð sem nefnd er Leitin, en ekki er hægt að segja að hún sjáist frá veginum. Þorleifur segir að gígurinn sé á stærð við fótboltavöli, en hann er fullur af framburði ofan úr fjallinu. „Hraunið rann fyrst í norður“ segir Þorleifur, „og dreifðist yfir stórt svæði, enda þunnfljótandi, og rann síðan til vesturs hjá Litlu kaffistofunni, niður á Sandskeið og þaðan í afar mjóum farvegi alla leið niður í Elliðavog. Það er hinsvegar ekki þetta hraun sem við sjáum hér af veginum í Svínahrauni. Löngu seinna, nálægt árinu 1000, varð gos í Eldborgum skammt frá Leitum. Þaðan rann það hraun sem við stöndum á hér við Suðurlandsveginn; Svínahraunsbruni hefur það verið nefnt. Það var apalhraun sem rann yfir eldra hraunið, en ekki langt, hraunjaðarinn er skammt austan við Litlu kaffistofuna.“
Hér erum við aðeins að huga að nýlegum hraunlögin undir sjálfu Reykjavíkursvæðinu? Og hvað af því sem við höfum daglega fyrir augunum er gamalt og hvað er nýlegt; Esjan til dæmis, Mosfellsheiði, Hengillinn, Vífilfell og Bláfjöllin?
Hversu gömul er sú undirstaða sem borgin er byggð á?
Þorleifur segir að hún sé tiltölulega ung. Stærstur hluti borgarinnar sé byggður á því sem nefnt er Reykjavíkurgrágrýti og það er líklega um 200 þúsund ára gamalt. Breiðholtið stendur þó á yngra grágrýti, en við komum að því síðar.
Elzt af fjöllum í næsta nágrenni Reykjavíkur er Esjan. Þorleifur segir að vesturhluti hennar sé um 3 milljón ára gamall og þá var þarna stór eldstöð sem Ingvar Birgir Friðleifsson skrifaði raunar um í Lesbók fyrir nokkrum árum. Austurhluti Esjunnar er hinsvegar mun yngri, eða um 2 milljón ára og orðinn til við gos úr eldstöð sem kennd er við Stardal.
Móskarðshnjúkarnir úr gulbrúnu líparíti, gætu verið með því yngsta sem kom úr þeirri eldstöð. Á sama tíma, eða fyrir rúmum 2 milljónum ára, er talið að hafi verið eldstöð miklu nær Reykjavík því austurhluti Viðeyjar er öskjufylling, svo og við Köllunarklett hjá Viðeyjarsundi. Það er með öðrum orðum ekki undarlegt þó eitthvað eimi eftir af hita undir Reykjavík, enda taldi Ingvar Birgir í fyrrnefndri grein, að vel mætti hugsa sér verulegan hita undir Öskjuhlíðinni, en útmörk þessa hita væru við Hvaleyri, suðvestan Hafnarfjarðar.
En hvaðan er þá bergið komið sem Reykjavík og næstu bæir eru byggðir á?
„Til þess að finna uppsprettu þess, verðum við að fara hæst á Mosfellsheiði, þar sem heita Borgarhólar“, segir Þorleifur. Mosfellsheiði er dyngja. Þar hefur orðið heljarmikið gos fyrir um 200 þúsund árum, segir hann. Það var á næst síðasta hlýskeiði ísaldar; allt jökullaust þarna og skilyrði til þess að hraunið rynni langar leiðir og dyngja myndaðist. Stundum rennur hraun í allar áttir í dyngjugosum, en stundum langlengst í eina átt, í þessu tilfelli til vesturs.
„Fyrir þetta gos sem hlóð upp Mosfellsheiði hefur verið tiltölulega flatt land hérna í nágrenninu og sjórinn var í svipaðri stöðu og nú“, segir Þorleifur. Hraunin runnu alla leið til sjávar og eitthvað út í Faxaflóa, en við vitum ekki hve langt. í öllum eyjum og nesjum frá Brimnesi á Kjalarnesi og suður. Í Hvaleyrarholt upp af Hvaleyri við Hafnarfjörð er þessi undirstaða, Reykjavíkurgrágrýtið sem svo er nefnt. Við Brimnes og Álfsnes er bólstraberg undir, sem gerist við snögga kólnun þegar hraun rennur út í vatn. Þetta hraun er sömuleiðis undir Seltjarnarnesi, Álftanesi, Þerney og Lundey. Smærri fellin upp af Reykjavíkursvæðinu, Úlfarsfell, Hafrafell og Helgafell ofan Hafnarfjarðar eru á svipuðum aldri, eða aðeins yngra en bergið við Stardal. Þau eru um 2 milljón ára gömul, en eitt fell er yngra; orðið til við gos undir jökli eitthvað áður en Reykjavíkurgrágrýtið rann. Það er Mosfell, sem Mosfellssveit og Mosfellsdalur eru kennd við. Það er líklega 250-300 þúsund ára, segir Þorleifur. Þarna varð eldgos sem náði aldrei uppúr jökli, en nokkrum tugum árþúsunda síðar var sá jökulskjöldur á bak og burt þegar gosið varð í Mosfellsheiði og lagði okkur til grágrýtið undir Reykjavík. Á myndunartíma þessa umhverfís hafa ísaldarjöklar margsinnis lagst yfir og orsakað gífurlegt rof. Í stórum dráttum var landslagið orðið til, en jöklarnir mótuðu það. „Þeir náðu stundum langt út á landgrunn, eða jafnvel út af því“ segir Þorleifur. „Landið seig undan ofurþunga þeirra, en reis síðan að nýju.“
Síðari tíma landmyndanir
Þegar hér er komið sögu er undirstaða höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurgrágrýtið, komin á sinn stað. Ekki er hægt að segja um það með neinni nákvæmni, hversu langan tíma Mosfellsheiðareldar brunnu, en jarðfræðingar segja það einkenni og eðli dyngjugosa, að þau séu samfelld og geti tekið langan tíma, ár eða áratugi.
Eftir gosið í Mosfellsheiði liðu um 80 þúsund ár án þess að drægi til tíðinda ofan Reykjavíkur, en fyrir um 120 þúsund árum segir Þorleifur að hafi orðið gos á Reykjanesskaga með hraunrennsli til norðurs. „Þetta, hraun rann inn yfir eldra hraunið og myndaði hæðirnar þar sem Breiðholt er nú og Hnoðraholt í landi Garðabæjar; þar er endi þeirra. Lengst náði það út að farvegi Elliðaánna og niður undir Mjódd. Ef við ökum úr Mjóddinni suður eftir Reykjanesbrautinni, er hæðin á vinstri hönd brún þessa hrauns, sem nefnt hefur verið Heiðmerkurgrágrýti“.
Eins og staðkunnugir þekkja er land austan við Rjúpnahæð talsvert lægra og þar hefur Elliðavatn myndast í lægðinni. En hversvegna fylltist hún ekki af hrauni þegar Heiðmerkurgrágrýtið rann? „Á stóru svæði austan við Rjúpnahæð – svæðinu þar sem Elliðavatn og Rauðavatn eru – hafa orðið sprungur og misgengi. Þar hefur land sigið og auk þess er þar jökulrof“, segir Þorleifur.
Vífilsfelli er varla yngra en 20 þúsund ára. En Vífilsfell sem rís bratt og tignarlegt upp af Sandskeiðinu; hvenær steig það fullskapað fram á þettta svið, spurði ég Þorleif þegar við settumst með kaffibolla framan við Litlu kaffistofuna á sólríkum haustdegi og virtum fjallið fyrir okkur? Hvassar brúnir þess, minnisstæðar meðal annars úr fjölmörgum málverkum Jóhannesar Kjarvals, bera þess vitni að ísaldarjöklar hafi ekki náð að skafa ofan af þeim og gera fjallið kollhúfulegt. Vífilsfellið er frá siðasta jökulskeiði“, segir Þorleifur, „varla yngra en 20 þúsund ára og ekki eldra en 100 þúsund ára. Það þó fremur til þess að myndun þess hafi orðið seint á þessu jökulskeiði. Fjallið er stapi og gosið hefur náð uppúr jóklinum. Vatn hefur þó komizt í kvikuna undir lok gossins ofan á hraunlaginu, því efst í fjallinu er móberg.“
Það var enginn smáræðis jökulskjöldur hér á suðvesturhorninu þegar ljóst er að hann var hátt í eins þykkur og hæð Vífilsfells. Engin furða að jarðskorpan léti eitthvað undan þeim þunga. ísaldarjökiar eiga það til að hopa hratt, en jarðskorpan er svifaseinni og lyftir sér á löngum tíma. Þessvegna fylgdi sjórinn jökulbrúninni og kaffærði láglendið sem komið var undan jöklinum: „Þá leit Reykjavíkursvæðið talsvert öðruvísi út en nú“, segir Þorleifur. „Keldnaholtið var líklega eyja, Laugarásinn var sker; sömuleiðis Öskjuhlíð og Háaleiti, en Skólavörðuholtið var boði. Hæstu fjörumörk í Öskjuhlíð í eru í 43 m hæð og á Hvaleyrarholti í 32 m hæð því þar seig land minna. Sjórinn náði þá lengst upp að Reykjum í Mosfellssveit. Hann náði inn eftir Elliðaárdalnum, líklega að Höfðabakkabrúnni. Sunnar hefur hann náð yfir Vetrarmýri við Vífílsstaði þar sem golfvölur Garðabæjar og Kópavogs er nú, og enn sunnar hefur fjöruborðið verið í hlíðunum ofan við Urriðavatn. Á þessum slóðum var ströndin fyrir 10-11 þúsund árum en var komin þangað sem hún er nú fyrir um 9 þúsund árum og reyndar aðeins neðar eins og fjörumórinn í Seltjörn sýnir. Þar nær hann 4,5 m niður fyrir fjöruborð.
En hversu lengi var megnið af Reykjavíkursvæðinu undir sjó? „Þegar ísinn var horfinn var landið að lyftast í 1-2 þúsund ár“, segir Þorleifur. Það er merkilegt, að síðan fór landið að síga aftur af ástæðum sem menn vita ekki um og er enn að síga. Verzlunarhús í Reykjavík voru í Hólminum framyfir 1650; þá varð að flytja þau í Örfirisey og enn síðar inn í Reykjavík. Í báðum tilvikum varð að flýja undan hækkaðri sjávarstöðu.
Álftanesjökull
Eftir að meginskeið síðustu ísaldar var liðið hjá, urðu minni kuldaköst, einskonar vorhret, sem voru þó það grimm að stór og þykkur jökull myndaðist á sunnanverðu hálendinu og “ ýtti upp jökulgörðum sem kenndir eru við fossinn Búða í Þjórsá og Alftanes. Fyrir 12.000 árum, eða jafnvel fyrir tæpum 11.000 árum, náði jökull í sjó út á Álftanes og í Hvalfjarðarmynni þar sem jarðgöngin eru.
Tímabil síðustu 10 þúsund ára er skilgreint sem nútími. Hvernig ætli hafi verið umhorfs á Reykjavíkursvæðinu við upphaf þess? „Þá hafði jökullinn hopað tiltölulega hratt“, segir Þorleifur, „hann var kominn langt inn á öræfi, með framhlaupi að jökulgörðunum við Búða. Það sést af því að Þjórsárhraun gat runnið hindrunarlaust innan frá Veiðivötnum og fram í sjó fyrir um 8 þúsund árum. Hér vestan heiðar hefur allt verið nakið og gróðurvana í fyrstu, en gróðurinn hefur verið fljótur að koma eftir að jökullinn hopaði, til dæmis var birki komið til sögunnar fyrir 9.000 árum. AUt var með kyrrum kjörum í um 3000 ár. Þá fór aftur að hitna í kolunum ofan við Reykjavíkursvæðið“.
Enn dregur til tíðinda
Við höfum rakið þá sögu, að í upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum voru fjöllin umhverfis Reykjavík, hæðir sund og eyjar, svipuð útlits og nú; Mosfellsheiðin einnig, Vífilfell og Bláfjöllin. Reykjavíkurgrágrýtið hefur þá trúlega verið gróðri vafið.
En fyrir um 7.000 árum varð eldgos í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð. Hraunflóð rann þá fram með Vífilsstaðahlíð og sést vel af hinni vinsælu gönguleið inn með hlíðinni og eins af golfvelli Oddfellowfélaga í Urriðavatnslandi sem nýtur góðs af hárri og fallegri hraunbrún. Við sjáum hvar hraunstraumurinn hefur steypst fram af brekkunni við vesturbrún Vífilsstaðahlíðar og dreifst um flatlendi suður af Flatahverfi í Garðabæ og allt suður til Hafnarfjarðar, en kvísl úr þessum straumi hefur runnið suðaustur með brekkunum og út í Urriðavatn. Þetta hraun er allstaðar mjög fallegt; kjarri vaxið vestur af Vífilsstaðahlíð, en vestar og sunnar með myndrænum hraunhólum og gróðumiklum hraunbollum. Það er sem betur fer ósnert og óskemmt á allstórri spildu frá Reykjanesbraut og framan við Flatahverfi í Garðabæ. Við Engidal liggur Hafnarfjarðarvegurinn upp á hraunbrúnina, en allur „Norðurbærinn í Hafnarfirði og megnið af elzta bæjarhlutanum er byggður á þessu hrauni. Vestarlega, suður af Hrafnistu, er þó enn ósnortið afar fallegt hraun sem vonandi verður varðveitt. Sama hraun rann í áttina út á Álftanes, en sveigði síðan til norðurs og út í sjó; þar heitir Gálgahraun. Mjó kvísl úr Búrfellsgíg rann frá eldstöðinni fram með Setbergshlíð og niður í Hafnarfjörð þar sem hún hefur sameinast hrauninu norðanfrá. Brúfellshraun hefur runnið lengra til suðurs ofan Hafnarfjarðar, en þar er það hulið enn yngri hraunum.
Hraunstraumur niður í Elliðavog Þá er aðeins eftir að líta á það sem nýlega hefur gerst. Á tímum Forn-Egypta, svona fyrir 4.600 árum, varð eldur uppi á vatnaskilum austan í Bláfjöllum. Við minntumst á þetta gos í upphafi og vorum að reyna að sjá eldstöðina, sem nefnd er Leitin, af veginum í Svínahrauni. Þaðan rann Leitahraun, bæði í austurátt og út í sjó hjá Þorlákshöfn, svo og allar götur í Elliðavog. Sá hraunstraumur féll fyrst norður og er undir Svínahraunsbruna, en síðan sveigði þetta þunnfljótandi hraun til vesturs og rann út yfir Reykjavíkurgrágrýtið hjá Nýju kaffistofunni. Þaðan sveigði hraunstraumurinn eins og beljandi fljót í mjóum farvegi undan hallanum til vesturs, en dreifði nokkuð úr sér á Sandskeiði, þar sem leysingavatn hefur hulið hraunið með framburði.“
Við Þorleifur reyndum að sjá þetta fyrir okkur þar sem við sátum og sötruðum kaffið á veröndinni við Litlu Kaffistofuna. „Það er merkilegt“ sagði Þorleifur, „að þetta hraun hefur siðan runnið í örmjóum farvegi niður brekkuna hjá Lækjarbotnum, nákvæmlega á sama stað og vegurinn liggur. Brekkan sú hafði orðið til fyrir um 100 þúsund árum, þegar gos hefur orðið í Lyklafelli, smáfelli norðvestan við Sandskeið. Þar eru merki um eldstöð, en hraunið hefur runnið skammt og myndað háa hraunbrún hjá Lækjarbotnum og þaðan í norður.“
Neðan við Lækjarbotna hefur hraunið dreifst yfír grunnan slakka; yfirborð þess tiltölulega slétt undir túninu á Gunnarshólma og niður með Hólmsánni. Sunnan við veginn rísa þó nokkrir sérkennilegir hraunhólar upp úr flatneskjunni og þegar betur er að gáð, sést að þeir eru eins og kramarhús, að hluta holir að innan og jarðfræðingar nefna þá hraundrýli. Þetta eru ekki smágígar þótt svo gæti virzt. Þorleifur segir að gas sen; myndazt hafl undir hraunrennslinu, hafi leitað þarna upp og þá urðu þessar strýtur til. Þegar gasið komst í snertingu við súrefni loftsins hefur orðið til blár gaslogi og má sjá að hitinn hefur verið slíkur að hraunið á börmum strýtanna hefur bráðnað og lekið niður.
„Lítið eitt neðar hefur hið forna Elliðavatn verið“ segir Þorleifur, og þegar hraunið rann út í það varð gjallmyndun og við það urðu Rauðhólarnir til.“
Hraunstraumur eftir farvegi Elliðaánna
Suðurlandsvegurinn liggur á þessu hrauni ofan frá Litlu kaffistofu og þar til kemur yfir brúna á Hólmsá og síðan aftur á kafla lítið eitt norðaustan við Rauðhóla. Þetta þraun rann ekki yfir Heiðmerkurhraunin; þau eru yngri. En það er auðvelt að sjá það fyrir sér, að Suðurlandsvegurinn yrði heldur ógreiðfær ef sagan endurtæki sig. Eftir að hraunið hafði fyllt það sem Þorleifur kallar hið forna Elliðavatn, var það nægilega þunnfljótandi til þess að geta enn runnið langa leið. Það náði í slakkann þar sem farvegur Elliðaánna er og hraunstraumurinn hefur á köflum ekki verið mikið breiðari en áin er nú. Af Höfðabakkabrúnni sést vel að hraunið er þar í þröngum farvegi árinnar og með hraunreipum á langri klöpp í miðjunni. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að hraunstraumurinn hélt áfram niður farveg Elliðaánna og lengst náði hann út í Elliðavog.
Hraunrennsli eftir landnám
Síðustu 4.600 árin hefur ekki runnið hraun til Reykjavíkur, eða inn á það svæði sem nú er byggt. Aftur á móti eru enn yngri hraun í næsta nágrenni. Hólmshraun heitir það sem síðast rann yfir Heiðmörk; það yngsta frá því um landnám. Segja má að það sé rétt utan við túngarðinn. Þorleifur telur að það Elliðavatn sem við þekkjum núna, hafi fyrst orðið til við hraunstíflu sem myndaðist í þessu allra síðasta gosi ofan við Reykjavík, svo og af stíflu Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1921, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar.
Ef við teygjum Reykjavíkursvæðið suður að Straumsvík, hefur það tvívegis gerst eftir landnám, að eldur varð uppi undir Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunrennslið náði inn á svæði þar sem nú er byggt, eða verið að undirbúa byggingar. Það eldra, sem menn telja að sé frá um 950, er Hellnahraun sem rann yfir Hvaleyrarhraun á mjórri spildu meðfram Hvaleyrarholti, en náði ekki alveg til sjávar. Þessi hraunrimi er eins og hraun geta orðið fegurst og myndrænust og sorgleg skammsýni er það að Hafnfirðingar eru nú að mylja þennan náttúrufjársjóð undir byggingar.
Yngsta jarðmyndunin á höfuðborgarsvæðinu segir Þorleifur Einarsson að lokum að sé líklega frá árinu 1151, þegar Kapelluhraun rann út í Straumsvík á svo mjórri spildu, að samsvarar nokkurnveginn lengd álversins. Þetta er síðasta hraunið í nánd við Reykjavík sem runnið hefur út í sjó eftir að land byggðist og hefur þá heldur betur girt fyrir samgönguleiðina á landi suður með sjó. „
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. nóv. 1997, Þorleifur Einasson, bls. 10-13.