„Hof er landnámsjörð.
Í Landnámu segir að Helgi bjóla hafi farið til Íslands af Suðureyjum og var hann með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með ráði Ingólfs “…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár [Miðdalsár]; hann bjó at Hofi.” (Í.F., [Landnámabók], I.bindi 1, s. 50 og 51). Síðar gaf hann Örlygi frænda sínum Hrappssyni hluta úr landnámi sínu, eystri hlutann allt út að Ósvífslæk, og bjó hann að Esjubergi. (Í.F. I.bindi 1, s. 54 og 55). Kjalnesingasaga gerir landnám Helga mun stærra og segir hann hafa numið Kjalarnes “millum Leiruvágs ok Botnsár… .” (Í.F.[ Kjalnesingasaga], XIV.bindi, s. 3). Síðar tók Þorgrímur Helgason bjólu við föðurleifð sinni og lét samkvæmt sögunni reisa stórt Hof í túninu “…hundrað fóta langt, en sextugt á breidd…” (Í.F., XIV. Bindi, s. 6-8). Eftir lát Þorgríms tók Helgi bróðursonur hans við búi. Á dögum Árna biskups Þorlákssonar (biskup 1269-1298) bjó á Hofi Nikulás Pétursson. (Í.F., XIV. bindi, s. 40-41 og 43).
Kirkju er getið á Hofi í kirknaskrá árið 1200. (D.I., XII.bindi, s. 9). Kirkjan á Hofi var helguð heilögum Andrési í ilchinsmáldaga 1397 og átti hún fjórar kýr auk góðra muna. (D.I., IV.bindi, s. 114). Guðrún Sæmundsdóttir, frændkona Vigfúsar hirðstjóra Ívarssonar erfði Hof í plágunni miklu, en Vigfús hélt jörðina leigulaust og er þessara mála getið í bréfi 1436. (D.I., IV.bindi, s. 561). Árið 1501 gerðu þeir Þorvarður lögmaður Erlendsson og Grímur Pálsson jarðaskiptasamning og lét Grímur meðal annars Hof fyrir sextíu hundruð. (D.I., VII.bindi, s. 583). Þorvarður lögmaður taldi fram Hof til sextíu hundraða í kaupmálabréfi hans og Kristínar Gottskálksdóttur. (D.I., VIII.bindi, s. 230). 1523 fékk Erlendur Þorvarðsson Hof, Ögmundi biskupi til fullrar eignar í reikningsskap nokkurra kirkna. (D.I., IX.bindi, s. 158-159). 1526 fékk Ögmundur biskup Halldóri Magnússyni Hof til fullrar eignar gegn Barkarstöðum í Svartárdal, en í staðinn skyldi Halldór vera maður biskups og til styrktar kirkjunni. (D.I., IX.bindi, s. 391-392). Kirkju er getið á Hofi í Gíslamáldaga frá 1570 og síðar. (D.I., XV.bindi, s. 549).
Í Jarðabók Árna og Páls er þess getið að menn segi að á Hofi hafi verið til forna hálfkirkja eða bænhús en ekki hafði verið framin þjónustugjörð þar í manna minnum. Minjar hafi þó verið þar á staðnum til skamms tíma sem skjóti stoðum undir þessa sögn hreppsbúa. Hof var metin á 60 hundruð. Heimajörðin var í eigu fjögurra einstaklinga alls 33 hundruð og reiknuðust þar í hjáleigurnar Grófartún og Prestshús. Þrjú afbýli voru að auki. Jörfi var metinn á 8 hundruð, annað var Krókur á tíu hundruð og hið þriðja var Lykkja en ekki er þess getið hver dýrleiki þess var. Þó má reikna það út að hann hafi verið níu hundruð. Sjá annars um þessi þrjú síðsut afbýli hér síðar.
Jarðatal Johnsens metur jörðina á 60 hundruð en getur þess neðanmáls að sýslumaður telji dýrleika Hofs 27 hundruð, Jörfa 7 hundruð, Krók 10 hundruð og Lykkju 10 hundruð. Einn ábúandi var á parti þeirra bræðra Magnúsar og Vigfúsar og var landskuld hans eitt hundrað og tíu álnir sem greiddust í fiski ef til var í kaupstað eða með peningum uppá fiskatal, eða hestum og skyldi greiðast á Alþingi eigendunum í hönd eða þeirra umboðsmönnum. Alls fylgdu þessum hluta fimm og hálft kúgildi, ábúandi bræðranna leigði þrjú en hin fylgdu hjáleigunum. Á þessum hluta jarðarinnar gátu fóðrast fjórar kýr, tíu lömb, og einn hestur. Annar ábúandi Sveinn Þórðarson var á átta hundraða hluta auk tveggja hundraða hluta þess eiganda sem minnst átti. Landskuld af átta hundruðunum voru fimmtíu álnir en af tveimur hundruðunum tuttugu álnir og greiddist í landaurum upp á landsvísu. Kúgildi með átta hundruðum Hallfríðar voru tvö og guldust leigur af þeim í smjöri eða fríðu heim til eigandans. Á þessum parti bar jörðin að fóðra fjórar kýr og sex lömb.
Um alla jörðina Hof tiltekur Jarðabókin fjölmörg atriði. Héðan, sem svo víða annars staðar í hreppnum voru geldneyti og hestar reknir til beitar upp í Hvannavelli á Mosfellsheiði. Þó er tekið fram að vegna fátæktar eigi menn ekki slíkan búpening og því sé ekkert rekið þangað upp. Jörðin á torfristu og stungu til gagns en tekið fram að hún sé mjög örðug frá heimabænum. Mótak til eldiviðar átti jörðin bjarlegt en þó var tekjan nokkuð erfið yfir foröðum ef mórinn væri tekinn þar sem best hentaði jörðinni.
Jarðabókarritarar telja að selveiði mætti stunda frá jörðinni til nokkurs gagns en það var ekki verið gert. Rekavon var talin lítil á jörðinni, einnig sölvafjara og skelfisksfjara ekki nema til beitu. Litlu betri var hrognkelsafjara talin. Frá jörðinni var heimræði árið um kring og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum. Á jörðinni hafði margt aðkomusjófólk verið um vertíð og fram á sumar þar fiskur gekk, en fiskveiðar virðist á þessum tíma vera hrundar. Nefnt er að aldri hafi verið verbúðir í landi jarðarinnar heldur hafi sjómenn þegar þeir voru haft herbergi, þjónustur og soðningu hjá bændum og hjáleigumönnum. Vertíð á jörðinni mun hafa hafist, sem á Suðurnesjum, um Kyndilmessu og endað vanalega á Hallvarðarmessu. Fengur skiptist jafn, skiphlutur var einn af tveggjamannafari árið um kring og engin skipaleiga. Af fjögurra manna fari voru tveir skiphlutir um vertíð og engin skipleiga, utan vertíðar einn skiphlutur og engin skipleiga. Langræði var mikið ef ekki gekk fiskur inn á firði. Hof átti hálfa Andríðsey til móts við Brautarholt. Þar átti jörðin slægjur og eggver sem var, þegar þetta var ritað, mjög gagnlítið en hafði áður verið betra.
Jarðabókin getur þess að ekki sé að telja dúntekju á eyjunni en í dag er þar stærsta æðarvarp á Suðurlandi. Sölvafjara var þó þar talin gagnvænleg og nokkur rekavon. Stórviðri spilltu túnum jarðarinnar að mati skrásetjara, engar engjar lágu til jarðarinnar nema í Andríðsey. Landþrengsli voru á þrjá vegu en á hinn fjórða lá meginland jarðarinnar og mætti miklum ágangi kvikfjár jarðanna í kring sem voru landþröngar. Sjór braut af túni hjáleigunnar Presthúsa og engja í eyjunni. Sauðfé var mjög flæðihætt bæði vor og vetur. Túnið að neðanverðu lá undir skemmdum af sandfoki, húsum og heyjum var hætt vegna stórviðra og hafði af því marg oft skaði orðið. Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts. Í landi Hofs var lending hin besta og brást aldrei. (Jarðabók, III.bindi, s. 357-360).“
Í örnefnalýsingu fyrir Hof segir m.a.: „Hofstangi skilur Jörfavík og Hofsvík. Hofið gæti verið komið undir sjó og hefði þá staðið neðan við húsið, sem nú er.“ Brynjúlfur Jónsson skrifar: „Að Hofi á Kjalarnesi er sýnd hoftóft; skoðaði eg hana í vor (1890?). Hún er í túninu suðaustur frá bæjarhlaðinu hjá tröðinni. Mjög er hún niðursokkin; sér þó fyrir veggjum, nema vesturhliðarvegg neðri tóftarinnar. Þar gat verið þilveggur. Efri tóftin (goðastúka?) er 6X6 fðm. út fyrir veggi; virðast dyr á suðvesturhorni. Neðri tóftin er 6X8 fðm. Efasamt tel eg að þetta sé hin rétta hoftóft. Hún líkist öllu fremur tveim litlum sáðgörðum. Yfir ótrúlega vídd gátu menn samt reft með stoðrefti.“
„Hoftóftin“ var friðlýst með skjali, undirrituðu af Matthíasi Þórðarsyni þann 25. október 1930 og var því þinglýst 17. nóvember 1938. Í spjaldskrá á fornleifadeild segir: „K:E. kom á staðinn 18.7.1965. Allt er þar óbreytt og eins og það var, þegar Br. J. sá það. Ekki þesslegt að vera hús. Friðlýsingarmerki ekki sett upp að sinni, þetta er rétt hjá bæ og eigendur vita málavexti. Hóllinn fyrir vestan heitir Goðhóll, blótklettur var jafnvel talinn vera neðan undir honum. Til var og blótsteinn, sem enn mun vera þarna.“
Heimildaskrá:
-Fornleifaskráning fyrir Hof – Árbæjarsafn.
-Diplomatarium Islandicum [Íslenzkt fornbréfasafn. Hér eftir D.I.], sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn, I.-XV. bindi , Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöfn og Reykjavík, 1857-1950.
-Íslenzk Fornrit [hér eftir Í.F.], I.bindi 1 [Landnámabók] , Jakob Benediktsson gaf út, Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1968.
-Íslenzk Fornrit, XIV.bindi [Kjalnesingasaga], Jóhannes Halldórsson gaf út, Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1959.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, með brauðlýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu, J. Johnsen gaf út, Kaupmannahöfn, 1847.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns [hér eftir Jarðabók], III.bindi Gullbringu- og Kjósarsýsla, 2.útg. [ljósprentun], Hið íslenzka fræðafélag, Kaupmannahöfn, 1982.
-Brynjúlfur Jónsson – Hoftóft að Hofi á Kjalarnesi, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1902, bls. 35.
-Örnefnalýsing fyrir Hof.
Hof – túnakort 1916.