Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Miðdal, fremsta bæ Kjósarinnar:
„Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; fjórða stendur á túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Miðdalskot.“ Ekki er getið um selstöðu frá Miðdalsbæjunum í Jarðabókinni. Fjölmargar selstöður eru þó þekktar á Reykjanesskaganum sem ekki er getið í þeirri ágætu bók. Annað hvort hafa þær verið aflagðar fyrir skráninguna (sem reyndar fór fram í Kjósinni „17. júní og og næstu daga árið 1705“, eða voru upp teknar upp síðar. Einn var sá dalur í sveitinni, sem FERLIR hafði ekki gaumgæft, en það er Hrútadalur inn af Miðdal. Stefnan var tekin þangað, m.a. til að ganga úr skugga um hvort þar gætu leynst minjar eður ei.
Miðdalur mun áður hafa heitið Mýdalur [Mýrdalur]. „Mýrdalur heitir jörðin í ævagömlum máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá c. 1220 (Fbra. I), en Mýdalur í máldaga frá c. 1269 (Fbrs. II, 64 – (Þessi tilvitnun á einmitt við Mýdal i Kjós, en ekki Miðdal í Mosfellssveit (sbr. registur við Fbrs.jII)), Vilkinsmáld. og síðan optastnær, þar á meðal í A. M. Þykir þvi rétt að halda því nafni, þótt Mýrdalur sé eldra.“
Áður en haldið var upp í hinn hömrumgirta Hrútadal var bóndinn í Miðdal tekinn tali. Aðspurður um selstöðu frá bænum spurði hann á móti hvað selstaða væri. Að því útskýrðu sagðist hann ekki minnast þess að slíkt útgerð hafi verið frá Miðdal. Hins vegar væru tóftir skammt ofan bæjarins er bentu til þess að þar hafi verið hálfkirkja og jafnvel grafreitur. Ofan fjallsbrúnarinnar þar efra væru tóftir er með góðum vilja mætti greina sem slíkar. Líklega hefði þar verið sauðakofi eða beitarhús. Það væri þó vel þess virði að skoða nánar. Ekki kannaðist hann við minjar í Hrútadal. Aðspurður um staðsetningu Miðdalskots benti hann á stað þar sem heimkeyrslan að bænum kemur á þjóðveginn skammt norðvestar. Sagði hann að þar hefðu áður verið tóftir, en þær hefðu verið jafnaðar út þegar vegurinn var lagður og túnið sléttað. Bóndinn í Miðdal var bæði vinsamlegur og áhugasamur um efnið, ekki síst þegar upplýst var að FERLIR væri ekki að skrá fornleifar á svæðinu heldur væri umleitunin fyrst og fremst fyrir forvitninnar sakir.
Neðst í Hrútadal vottar fyrir hleðslum stekks. Ekki eru aðrar minjar þar sýnilegar. Gengið var alveg upp í dalinn til að sannreyna fyrirliggjandi vitneskju.
Efst í dalnum var sest niður og rifjuð upp eftirfarandi frásögn af atburðum er áttu sér stað í Miðdalskoti fyrrum: „Kjósin er sveit, sem leynir á sér. Laxá rennur fram til sjávar um megindalinn, breiða byggð og búsældarlega, en út frá honum ganga suður í Esjuna aðrir dalir smærri, umgirtir dökkum og skuggalegum hamraveggjum og snarbröttuna hlíðum. Fannir, sem liggja lengi sumars í dalbotnum og fjallaskálum norðan í Esjunni, gera svip þessara afdala enn hrikalegri. Ósjálfrátt flýgur manni í hug, að hér hafi verið heimkynni trölla í forneskju. Einn þessara dala, sem gengur suður úr Kjósinni utanverðri, liggur í stórum sveig að fjallabaki, og horfir annað mynni hans vestur til Hvalfjarðar. í miðjum þessum dal, sem sker hálendið þannig sundur, er bærinn Miðdalur í kreppu hárra fjalla. Þar sér ekki sól fimmtán vikur í skammdeginu, ,og er þó enn skemmri sólargangur á sumum öðrum bæjum í Kjósinni, þeim sem í hrikalegustu nágrenni eru við suðurfjöllin. Annar bær, sem nú er kominn í eyði, var í grennd við Miðdal. Þar hét Miðdalskot, Ekki munu dalbúarnir hafa verið miklir efnamenn að jafnaði, en börðu furðanlega ofan af fyrir sér, og margir voru grónari við torfuna en títt var um þetta leyti. Búin voru smá og húsakynnin lágreist, en fólkið var þrautseigt og æðrulaust. Á síðari hluta vetrar fóru þeir karlmenn, sem heimangengt áttu, til sjóróðra á Seltjarnarnesi, Álftanesi og Vatnsleysuströnd, en kvenfólk og unglingar sinnti bústofninum heima og beið vorkomunnar, sem æðioft dróst svo lengi, að skörð voru komin í hjörðina, þegar sólin tók að ylja hlíðarnar og grænar nálar, hlaðnar frjómagni, gægðust loks upp úr moldinni.
Í kringum 1820 bjó í Miðdal roskinn bóndi, Þorsteinn Þórðarson að nafni. Var hann maður ólæs og lítt kunnandi og enginn skörungur. Hann var ekkill og hafði misst tvær konur sínar, Þuríði Björnsdóttur og Guðrúnu Gissurardóttur, en bjó nú með uppkomnum börnum sinum. Heima hjá honum voru enn Björn og Kristín, bæði börn fyrri konunnar, og Eyjólfur, sonur seinni konunnar. Kristín hafði alizt upp frá frumbernsku hjá frænda sínum einum, Árna bónda Jónssyni á Sandi og í Eyjum, en farið til föður síns að Miðdal, er hún var um tvítugt. Nú var hún fyrir innan stokk hjá þeim feðgum, komin talsvert á þrítugsaldur. Kristínu í Miðdal er svo lýst, að hún var lág vexti, en mjög þrekin, hárið jarpt og sítt, augun stór og blágrá á lit, nefið meðalstórt og þykkt að framan, kinnbeinin há og munnur nokkuð stór, hakan breið og framstæð, hendur breiðar, hörundið fölt, en þó nokkur dreyri í kinnum. Björn, bróðir hennar, sem var á svipuðum aldri, var nokkru hærri vexti og mjög grannur, hárið dökkjarpt og hrokkið og skörin klippt í kring, augun blágrá, nefið hátt og breitt að framan, andlitið stutt og kringluleitt og litaraftið dökkt, kinnbein nokkuð há og skeggið lítið sem ekkert.
Í Miðdalskoti bjó annar ekkill, Björn Hallvarðsson, og hjá honum var uppeldispiltur, honnum vandabundinn, Ásmundur Gissurarson að nafni. Hann var um tvítugt. Ráðskona Björns hét Sólveig og var systir bónda. Ásmundur í Miðdalskoti lagði nokkurn hug á Kristínu, en fyrirstaða virðist hafa verið af hennar hálfu. Hefur pilturinn í Kotinu sjálfsagt verið örsnauður, en einhver efni í garði í Miðdal.
Svo gerðist það seint á engjaslætti sumarið 1819, að Kristín varð léttari að barni, og vissu menn eigi, hver vera mundi faðir þess. Morguninn eftir að barnið fæddist, gaf Björn í Miðdal sig á tal við Ásmund og kallsaði það við hann, hvort hann vildi ekki gangast við faðerninu. Ekki gat hann þess, hvers vegna hann bað Ásmund að gangast við barninu, en sagði þó, „að það stæði illa á því“. Ásmundur tók lítt undir þetta. Þó vísaði hann ekki tilmælunum með öllu á bug, enda var að því vikið um leið, að hann gæti fengið Kristínu fyrir konu. Þegar Þorsteinn, faðir Kristínar, færði þetta einnig í tal við hann, vísaði hann til Björns, fóstra síns, og Sólveigar, systur hans. Ræddi Þorsteinn síðan við þau í tómi, og að því samtali loknu töluðu þau við Ásmund, og hvöttu þau hann heldur til þess að víkjast vel við bón nágrannans og „hjálpa upp á karlinn kærleikans vegna“. Þegar séra Gestur Þorláksson í Móum spurði svo Ásmund, hvort hann vildi meðganga barnið, svaraði hann: „Það held ég.“ Var síðan aldrei á þetta minnzt, hvorki fyrr né síðar, enda dó barnið eftir fáar vikur. Engu var vikið að Ásmundi fyrir þennan greiða, og ekki varð honum fremur ágengt með Kristínu eftir en áður, þrátt fyrir þann ádrátt, sem hann hafði fengið. Þóttist hann frekar kenna kulda en hlýju hjá Miðdalssystkinum, en þó einkum henni. Ekki er ljóst, hvort orðrómur barst út um það, að barnið hefði verið rangfeðrað, en ekki er það ólíklegt, þar sem það var á vitorði fólks á tveimur bæjum. Menn kunnu engu betur að þegja yfir leyndarmálum þá en nú. Enginn reki var samt gerður að því að grafast fyrir um sannleikann.
Nú liðu nokkur misseri. Annan dag páska veturinn 1822 bar gest að garði í Miðdal. Var það vinnumaður af Kjalarnesi og hét Torfi Steinólfsson.
Miðdalsmenn voru ekki farnir til róðra, og voru þeir feðgar allir úti í heygarði eða annars staðar við gegningar, en Kristín var í baðstofu og virtist sjúk. Kvöld var komið og rokkið í baðstofunni. Heyrði gesturinn, að stúlkan stundi og hljóðaði lítið eitt, líkt og hún hefði létta jóðsótt. Að nokkurri stundu liðinni snaraðist Björn, bróðir hennar, inn í baðstofuna, og um svipað leyti datt allt í dúnalogn. Nokkru síðar komu þeir Þorsteinn og Eyjólfur inn, og svaf fólkið af nóttina, eins og ekkert hefði í skorizt, og ekki var neinnar hjálpar leitað afbæjar.
Litlu síðar barst sá kvittur bæ frá bæ um Kjós og Kjalarnes, að Kristín í Miðdal hefði alið barn á laun og borið út, og fylgdi sögunni óviðfelldinn orðrómur um faðerni þess. Þegar séra Þorlákur Loftsson í Móum, sem nýlega var orðinn prestur í Kjalarnesþingum, heyrði þennan orðróm hjá sóknarbörnum sínum, skrifaði hann Lofti hreppstjóra Guðmundssyni á Neðra-Hálsi og fór þess á leit við hann, að hann færi að Miðdal og krefðist þess að sjá barnið. Innti Loftur hreppstjóri þetta erindi röggsamlega af hendi, færði presti burðinn út að Móum, en hann lét sýslumanninn, Ólaf Finsen, son Hannesar biskups, vita, hvernig komið var.
Talsverðar embættisannir hvíldu á sýslumanni um þetta leyti, en eigi að síður hélt hann með föruneyti sínu upp að Miðdal, svo skjótt sem við varð komið. Var heimilisfólkið yfirheyrt, og kannaðist það allt við, að Kristín hefði alið ófullburða fóstur, sem það vissi, að Björn var faðir að. Kristín og Björn gengust undir eins við þessu og könnuðust við burðinn, sem hafður var til sýnis við yfirheyrsluna. Kvaðst Kristín hafa alið burðinn lífvana að hálfnuðum meðgöngutíma og hefði enginn verið í baðstofunni, þegar það gerðist, nema Torfi Steinólfsson, en Björn hefði komið að, í sömu andrá og hún varð léttari. Engir höfðu séð fóstrið, nema Kristín og Björn, er sagðist hafa grafið það í moldina undir rúmi móðurinnar. Nú rifjaðist líka upp fyrri barneign Kristínar, en Björn neitaði, að hann hefði átt það barn. Kristín bar einnig á móti því og vitnaði til prestsþjónustubókarinnar: „Kirkjubókin útvísar það!“
Að þessu dagsverki loknu skipaði sýslumaður Birni bónda í Miðdalskoti og Ólafi bónda Andréssyni í Eilífsdal að taka við systkinunum og hafa þau í varðhaldi um nóttina, en flytja síðan. snemma næsta morguns að Hálsi til Lofts hreppstjóra, sem ekki hafði komið að Miðdal þennan dag sökum lasleika.
Daginn eftir setti sýslumaður rétt að Neðra-Hálsi, og var þá sjálfur hreppstjórinn kvaddur til þess að segja frá hlutdeild sinni í því, að þetta komst upp. Loftur Guðmundsson var röggsamur bóndi og dugandi hreppstjóri og líklega sízt eftirbátur annarra starfsbræðra sinna. Þess vegna er frásögn hans af Miðdalsförinni dágóð mynd af því, hvernig hreppstjórar á þessum árum brugðust við, þegar þeim bar að höndum einhvern meiri vanda en að ráðstafa hreppakerlingum eða byggja út kotkörlum. Ekkert skorti á, að hann ræki erindi sitt af dugnaði, og milli línanna má lesa talsverð drýgindi yfir því, hvernig hann tók á málinu.
Óneitanlega er lýsing hans á tiltektum sínum allhláleg, þrátt fyrir alvöru heimsóknarinnar að Miðdal. En það hefur hreppstjórinn áreiðanlega ekki fundið. Birtist frásögnin hér orðrétt, svo að hún missi einskis í: „Þriðjudaginn fyrstan í einmánuði fór ég af stað að Miðdal af tali fólks um þetta tilfelli, einsamall í versta veðri, og undir eins og ég kom þangað, sagðist ég vera kominn einn og skyldi Kristín Þorsteinsdóttir láta í ljós við mig, það sem hún hefði fætt, og ég krafðist þess af henni að láta það til, svo yel sem af Birni Þorsteinssyni, hróður hennar, að hann segði ’til þess. Þá kom tregða á og stanz. Ég varð þá alvarlegri við þau, og sagðist ég lofa þá járnunum — ekki á morgun, heldur hinn daginn. Svo var kveikt Ijós, og Björn för þá að grafa til undir rúmi Kristínar — ég má segja rúmlega hálft annað kvartil niður í gólfið. Björn kom þá með fóstrið úr gryfjunni og fylgjuna áfasta við og lagði upp á grafarbarminn og sagði: „Þarna er það!“ Undir eins fer ég með hnén nærri á gólfið, tek þetta upp í lúku mína og slít fylgjuna frá fóstrinu og segi við Björn:
„Láttu þetta ofan í gryfjuna aftur!“ Svo stend ég upp með þetta og skoða fóstrið. Sá ég þá á því, að það voru á því augnatóftir, nef og enni í mannslíki. Heldur sýndist mér vera eins og kambur eða röst upp úr höfðinu, en afturdregið frá hausnum með fjórum löppum. Á þeim urðu þrjár klær, eftir sem mér sýndist. Ég fór svo með fóstrið rétt að andlitinu á Kristínu og krafðist af henni að segja mér það sannasta um það, hvort þetta væri það, sem hún hefði fætt og ekki annað, og svaraði hún því óhikað: Já. Tók ég svo stokk og lét það þar í, vafið innan í ull. Fór ég svo þaðan út að Móum með það til prestsins, séra Þorláks Loftssonar, og afhenti honum það og beiddi hann að láta það ei forberast, svo að fleiri gætu séð það og hann gæfi það öðrum til kynna.
Enn á ný sýndu valdsmennirnir móðurinni fóstrið, sem nú var búið að reiða fram og aftur um héraðið, og jafnframt skoðuðu þeir það sjálfir, ásamt réttarvitnunum. Kvaðst Loftur þekkja það aftur, þótt það væri) orðið samanskroppið og visið og brotnar af því klærnar þrjár, sem hann hafði séð á því. Nú þótti allt fullrannsakað, er vék að þessum barnsburði, og var því farið að leita að föður fyrra barnsins, sem Kristín hafði átt. Ásmundur Gissurarson harðneitaði því, að hann hefði átt það, enda meðgekk Miðdalsfólk, að Björn hefði líka verið faðir að því. Þegar Þorsteinn, faðir systkinanna, var að því spurður, hvers vegna hann hefði ekki stíað systkinunum í sundur, þegar svo var komið, kvaðst hann að sönnu hafa ýjað að því við Kristínu, en hún hefði talið það þarflaust, því að þau myndu ekki hrasa í annað sinn. Vegna fávizku sinnar og dugnaðarleysis hefði hann ekki leitað aðstoðar annarra til þess að skilja þau. — Gruna má þó, að hitt hafi eins miklu valdið, að karl hafi horft í það að missa annaðhvort systkinanna frá bústörfum.
Loks var málið tekið í dóm. Pétur Pétursson, bóndi í Eyjum, var skipaður sækjandi, en Gísli Skæringsson, bóndi á Hvítanesi, verjandi. Lítið mun hafa orðið um sókn og vörn, enda var slíkt að jafnaði formsatriði, sem litlu eða engu breytti. Var dómur kveðinn upp og Björn og Kristín talin hafa fyrirgert lífi sínu. Þessum líflátsdómi skyldi þó vikið undir atkvæði æðri dómstóls og leitað konungs náðar. Þorsteini var gert að greiða tuttugu ríkisdali í sekt til Kjósarhrepps. Nokkrum vikum síðar staðfestí landsyfirréttur þennan dóm, að öðru leyti en því, að lausafé systkinanna skyldi falla til konungs og sekt Þorsteins var lækkuð. í tíu dali. Um haustið staðfesti hæstiréttur dóm landsyfirréttar. Horfði nú illa fyrir systkinunum frá Miðdal. Þó var ekki öll von úti. Enn hafði ekki reynt á konungsnáðina. Varla hefur þess þó verið vænzt, að þau systkinin slyppu við langa fangelsisvist í Kaupmannahöfn. En að þessu sinni var óvenjulega skjótt við vikizt í stjórnarskrifstofunum dönsku. Konungur náðaði systkinin þegar þetta sama haust og akvað, að hýðing, þrisvar sinnum tuttugu og sjö vandarhögg, skyldi koma í stað dauðarefsingarinnar. Það var vissulega nokkuð ströng refsing, ef hún var harkalega á lögð, en tók þó fljótt af. Þorsteinn mun hafa hrökklazt frá búskap í Miðdal um þetta leyti eða litlu síðar. En margt af því fólki, sem þarna kom við sögu, bjó síðar á Kjalarnesi og í Kjós. Þorsteinn dó úr ellilasleika hjá Eyjólfi, syni sínum, er gerðist bóndi á Mora-Stöðum. Ásmundur Gissurarson bjó lengi í Stekkjarkoti á Kjalarnesi, öðru nafni Bjargi, skammt frá Saurbæ. Björn bjó í Snússu og átti að konu — bróðurdóttur hreppstjórans, er sótti hann heim í Miðdal á útmánuðum 1822.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Helztu heimildir: Dóma- og þingabók Gullbringu- og Kjósarsýslu, prestsþjónustubækur og sóknarmanntöl Kjalarnesþinga og Reynivalla Annál 19. aldar, Landsyfirvéttardómar.)
Heimild:
-Jarðabók ÁM og PV 1703, III. bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 385.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 37. árg., 1923, bls. 34.
-Frjáls þjóð, 8. árg 1959, 4. tbl. bls. 4 og 7.
Miðdalur og Hrútadalur – kort.