Tag Archive for: Kjós

Flekkudalur

Stefnan var tekin á ný á Flekkudal í Kjós. Ætlunin var að skoða ofanverðan dalinn, en FERLIR hafði áður gengið um hann neðanverðan (sjá síðar).
Guðný Ívarsdóttir tók vel á móti Réttinviðstöddum. Hún virtist þekkja þarna hverja þúfu og örnefnin las hún eins og staf á bók. Þegar henni var kynnt tilefni ferðarinnar, þ.e. leit að hugsanlegum minjum í ofanverðum Flekkudal, sagði hún strax að slíkar minjar væru ekki þar að finna. Hún þekkti dalinn það vel.
Að fenginni reynslu fara ekki alltaf saman fyrirliggjandi vitneskja og innliggjandi mannvistarleifar á tilteknum svæðum. Haft var í huga að í Jarðabókinni 1703 segir að Flekkudalur hafi haft „selstöðu í heimalandi“. Heimalandið er ekki mjög stórt, en þess nærtækara. Ólíklegt mátti telja að jörðin hafi ekki nýtt Flekkudalinn fyrrum m.v. hversu undirlendur og grasgjöfulur hann er. Ætlunin var m.a. að grennslast fyrir um hvort í dalnum ofanverðum kynnu að leynast gleymdar mannvistarleifar.

TóftÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Flekkudal segir m.a.: „Jörð í Kjósarhreppi næst austan Eilífsdals, en Meðalfell á land þar á milli. Upplýsingar gaf Guðni Ólafsson bóndi þar og Ólafur Einarsson, nú að Króki í Flóa.
Jörð þessi er í samnefndum dal á láglendinu, en var áður tvær jarðir, sem hétu Efri- og Neðri-Flekkudalur. Nú er sá neðri horfinn, en í stað hans er býlið Grjóteyri.

Norðan við land jarðarinnar er Meðalfellsvatn. Suður frá því liggur dalurinn suður í fjallið og heitir hann Flekkudalur. Eftir honum rennur Flekkudalsá. Vestan við dalinn gengur allmikill háls lækkandi til norðurs. Nyrzt á honum er hnúkur, sem heitir Miðmundahnúkur, öðru nafni Arnbjargarhnúkur, og er þarna í skógivaxinni hlíðinni.

KvíTveir lækir koma þarna niður, sem heita Vesturlækur og Austurlækur eftir legu sinni og afstöðu. Milli lækjanna eru smágil, sem heita Gilklofar, og þar upp af er háfjallið nefnt Nónbunga. Austan við túnið, austan við Vesturlæk, er gata niður, sem heitir Nautastígur.“ Ábúandinn í Flekkudal benti FERLIR á nefndan Nautastíg. Sagði hann (sem reyndar er hún) að hrossin færu stundum upp eftir stígnum, en þó aðallega geiturnar, sem hún hefði í vistun. Í þessum orðum sögðum birtust geiturnar ofan við brúnina. Uppi væri flói, sagði hún, sem hefði verið sleginn í gamla daga. Þá hefði fólkið farið upp eftir Nautastígnum og í flóann, heyjað, bundið í bagga og reitt þá fram á brúnina. Þaðan hefðu baggarnir verið látnir rúlla niður hlíðina, áleiðis niður að bænum. Stundum gáfu böndin sig í veltunni og þótti það slæmt. Ætlunin er að skoða GrafarfossNautastíginn  og flóann fljótlega.
„Austan og ofan við Austurlæk heitir Sauðatunga. Með henni að innan er annar lækur, sem heitir Sauðatungulækur. Innar er lægð, sem heitir Krókur. Neðan við Krók og norðan er Króksmelur, og austan hans er Krókmýri. Innar heitir Selhæðir, niðri í dalnum. Það er graslendi. Upp af þeirri hæð er gil, sem heitir Grýlugil.
Austur af Sauðatungulæk, næst túni, er svonefndur Háhóll, grasivaxinn hóll. Austur af honum gengur smárani fram, sem heitir Snasi, fram að ánni. Bæjarmegin við hann er rétt. Næst túni, norðvestan við Háhól með ánni, er Stöðull. En í gljúfrunum norður af Háhól með ánni er Stöðulhvammur. Þar fram er hár klettur, sem heitir Hrafnaklettur. Með gljúfrinu þar fyrir framan er hvammur, sem heitir Kúahvammur, en nær ekki alveg upp að Hrafnakletti. Þar fyrir framan er annar, sem heitir Skvompa. Þar fyrir framan er foss, sem heitir Grafarfoss og er beint niður undan Selhæðum, sem fyrr er getið.“
HáifossÁbúandinn þekkti öll framangreind örnefni og gat bent á þau af bæjarhlaðinu. Háhóll er t.d. beint upp af bænum suðaustanvert. Undir honum er nefndur Snasi. Þar kúrir lítil réttin, ferhyrnd, hlaðin og heilleg. Handan árinnar er Stöðullinn og sést enn móta fyrir honum (grónar ferhyrndar hleðslur). Selhæðir eru lengra upp með ánni að vestanverðu (sjá meira HÉR).
„Innan við Selhæðir neðst í dalnum er nafnlaust svæði inn að Djúpagilsskriðu. Þar upp af er gil, (sem heitir Djúpagil og er næsta gil innan við Grýlugil. Djúpagil er djúpt á kafla, en klettalaust. Þó nokkuð framar er gil, sem heitir Hnúksgil. Milli Djúpagils og Hnúksgils nokkuð uppi í brekkunum heita Flár. Uppi í brún er klettalítið, og framan við Hnúksgil er svonefndur Paradísartindur). Tindur þessi ber þetta fallega nafn að norðan, en frá vestri og suðri heitir hann Skálatindur. Í honum blasir við Skál frá Meðalfellsdal. Í Hnúksgili er alltaf snjór. Í Paradísarhnúk er annað gil, sem heitir Fossgil. Framan við Hnúkinn, upp undir klettum, er smáklettur með miklum urðum. Heitir hann Grjótdalur og úr honum er mikið gil, sem heitir Grjótdalsgil.“
StöðullBæði dalurinn og gilið eru augljós þegar komið er innst í Flekkudal. Að þessu sinni voru enn (í lok júní) stórir snjóskaflar í gilinu. Fossadýrðin er einstök efst í dalnum. Staðurinn er og dýrðarinnar tækifæri fyrir ljósmyndara.
„Í botni Flekkudals er allmikið svæði, stallar og lækir neðst. Þar er Suðurdalsfoss. „Flekka“ vildi meina að þar væri nefndur Háifoss, enda rökrétt. “ Þar upp af er spilda með fossum, Lægrifossar, og svo Hærrifossar. Stallur er milli þeirra, sem aðskilur þá. Út með Flekkudalsá að austanverðu er fyrst mikil grasbrekka sem heitir Kinn. Fjallið þar upp af heitir Miðfjall. Inn í Miðfjall gengur smádalur, fyrst til austurs, beygir svo til suðurs, og heitir hann Þverárdalur. Eftir honum rennur Þverá í Flekkudalsá, nálægt efstu grösum.
Bungan milli Þverárdals og Flekkudals heitir Hryggur. Vestan í honum, utan við Kinn, sem fyrr getur, heitir Fláar. FlekkudalsáÞverárdalur er ofan við Kinnina, og eftir honum er svo Þverá. Beggja vegna árinnar heita Þverárklettar.
Miðfjallið heldur svo áfram, þar til kemur að dal þeim, sem heitir Torfdalur. Eftir dalnum rennur á, sem heitir Torfdalsá og fellur í Flekkudalsá nokkuð suður frá bæ. Fellið hér er nefnt Miðfell. Niður af því er Miðtunga, en Miðtunguhjallinn er neðstur, um það bil þar sem þær koma saman. Í miðjum Torfdal suðvestan árinnar er Böltur. Það eru grasbörð niður að á. Hár melur er þar fyrir ofan. Fremst í Torfdal er kallað Torfdalsbotn, og innst heitir dalurinn Þrengsli. Fremst eru gilin tvö. Austan við Torfdalsá er fjallið nefnt Sandsfjall.
Neðst í Torfdal móti Miðtunguhjalla er Hjalli. Þar á móti er klettur við ána, sem heitir Kálfabani, og þar er Kálfabanafoss. Fremst á Sandfjalli heitir Sandhnúkur. Efst á Sandfjalli eru FlekkudalsáEsjuflóar og Esjuhorn.
Svæðið niður við ósinn heitir Flekkudalsnes. Í nesinu er Ólafstóft. Hún er nú horfin, því gert var tún úr valllendinu efst í nesinu. Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin. Hóll er þar austur við gilbarm, sem heitir Kerlingarhóll. Annar hóll er niður af Hjálmi, sem heitir Harðhaus. Mýrarblettur þar neðar heitir Kringla, slakki sem erfitt er að rækta. Blettur suðaustur af gamla túni heitir Dísutún.“
Í bakaleiðinni var farið yfir Flekkudalsána og inn í Torfdal og yfir Torfdalsá. Hvergi á leiðinni, utan mannvistarleifa undir Selbrekkum, var að sjá að mannshöndin hefði komið þar að verki. Þess stórbrotnari var hönd náttúrunnar á listaverkinu öllu. Það sem virtist áhugaverðast, auk umhverfisáhrifanna, var meint seltóft undir Selbrekkum, framan við Grafarfoss. Guðný sagðist hafa heyrt að þar hefði amma hennar dvalist í selstöðu og haldið ánum til haga. Ummerki benda til þess að svo hafi verið, bæði kvíin og tóftirnar.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Flekkudal.
-Guðný G Ívarsdóttir, bóndi í Flekkudal.

Háifoss

Bollastaðir

Bollastaðir er forn eyðijörð í Kjós, sem fáir ef nokkrir núlifendur vita hvar var.
Bollastadir-2Á
www.kjos.is mátti þó fyrir u.þ.b. sex árum (2006) lesa eftirfarandi um nýbýli á þessari fornu jörð: „Íbúðarhús hefur verið byggt í Valdastaðalandi vestan við Bollastaðalæk. Húsið er byggt á lóð sem er einn hektari að stærð, mælt út úr óskiptu landi Valdastaða og Grímstaða. Það stendur neðan við skógræktarreit sem Skógræktarfélag Kjósarhrepps plantaði í um miðja síðustu öld. Lóðin hefur hlotið nafnið Bollastaðir en í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jarðarinnar Bollastaða getið og hafi verið rétt austan við, þar sem hið nýja hús stendur. Þá hafði ekki verið ábúð á jörðinni í manna minnum. Var hún nýtt að jöfnu frá Valdastöðum og Hálsi.
Eigendur hinna nýju Bollastaða eru hjónin Ragnar Gunnarson málari og Unnur Sigfúsdóttir kennari, en Bollastadir-3hún var skólastjóri Ásgarðsskóla síðustu árin áður en skólahald var aflagt þar. Þau eru bæði Dýrfirðingar og áður en þau fluttust í hreppinn voru þau búsett á Þingeyri við Dýrafjörð.“
Í fyrrnefndri Jarðabók Ám og PV frá 1703 segir m.a.: „Bollastaðir: Forn eyðijörð. Veit enginn nær eyðilagst hefur, eður hvað fyrir. …Túnstæðið var mikinn part ófordjarfað inn til þess að næst umlið haust féll þar skriða yfir túnstæðið til óbóta skaða, svo að bæði fyrir því og landþröng er örvænt, að það kunni aftur að byggjast.“
Og jafnframt: „Neðri-Háls, Bollastaðir: …Á Hálsi neðra er nú tvíbýli, 2 íbúðarhús. Þar í landi eru Bollastaðir, fornt eyðiból.  …virðist hafa eyðst af skriðu.“
Í 27. kafla Harðar saga og Hólmverja segir um Bolla og Bollastaði: „Um veturinn fyrir jól fóru þeir tólf saman í Hvamm til Orms á náttarþeli. Ormur var eigi heima. Hann var farinn nokkuð að erindum sínum. Bolli hét þræll hans er annaðist um bú ávallt er Ormur var eigi heima. Þeir brutu upp útibúr og báru út vöru og mat. Þeir tóku kistu Orms er gripir hans voru í og fóru með þetta allt á burtu.
Bolla þótti sér illa tekist hafa er eigi var vakað yfir útibúrinu. Hann Bollastadir-4kveðst skyldu ná kistunni af Hólmverjum eða fá bana ella og bað þá segja bónda að hann væri við átjánda mann að naustum hina fjórðu nótt þaðan og léti hljótt yfir sér.
Bolli býst nú. Hann hafði slitna skó og vöruvoðarkufl. Hann var í Brynjudal hina fyrstu nótt og þó eigi að bæjum. Hann kom til Þorsteins gullknapps og nefndist Þorbjörn, sagðist vera sekur maður og kveðst vildu út til Harðar og koma sér í sveit með honum. Þorsteinn gullknappur flutti hann út í Hólm og er þeir Hörður og Geir sáu manninn leist þeim eigi einn veg báðum. Geir þótti ráð að taka við honum en Hörður kveðst ætla njósnarmann. Geir réð þó og sór hann þeim áður eiða en þeir tóku við honum. Margt sagði hann þeim af landi og kveðst þó vera syfjaður. Hann lagðist niður og svaf um daginn. Þeir Geir komu eigi upp kistunni og spurðu Þorbjörn hvert ráð hann legði til. Bollastadir-7 - uppdratturÞorbjörn kvað það ekki vant.
„Er þar ekki í,“ sagði hann, „utan smíðartól bónda“ – kvað Ormi það eitt mein þykja í ráni þeirra Hólmverja er tólakista hans var í burtu „en eg var þá,“ segir hann, „að Mosfelli er ránið spurðist. Mun eg færa honum kistuna ef þér viljið.“
Lítil slægja þótti Geir í vera um kistuna með því að ekki væri í nema smíðartól ein. Tvær nætur var Þorbjörn þar og taldi um fyrir þeim að þeir létu lausa kistuna. Ekki var Herði um að þeir hefðu nokkur ráð Þorbjarnar, kvað þau mundu illa gefast. Geir vildi þó ráða og fóru þeir sex saman um nátt til nausta Orms. Þeir báru þá kistuna á land og upp í naustið og settu undir húfinn á skipi Orms. Þá kallaði Þorbjörn að menn skyldu upp standa og taka þjófana. Þeir hlupu þá upp er fyrir voru og sóttu að þeim. Geir greip þá einn árarstubba og barði á tvær hendur og varðist hann þá allrösklega. Geir nær þá skipi sínu. Fjórir menn létust af Geir. Ormur tók ferju og reru eftir Geir.
Hörður tók til orða heima í Hólmi: „Það er líkara að Geir þurfi manna við og eigi þykist eg vita hve Þorbjörn sjá hefir gefist honum.“
Tók hann þá skip og rær inn á fjörð, kemur nú að eltingum þeirra Orms og Geirs. Sneri þá Ormur skjótt undan og að landi. Geir fór út í Hólm með Herði.
Ormur gaf síðan Bolla frelsi og land á Bollastöðum og öll búsefni. Bjó hann þar síðan og varð auðigur maður og ófælinn.“
Í Jarðabókinni 1703 segir ennfremur: „Þar vita menn, að yfir hundrað ár hefur hún í auðn legið, og so Bollastadir-6lengi hafa jarðirnar Valdastaðir og Háls brúkað land þessarar eyðijarðar og grasnautn alla átölulaust til helminga hvörir.“ Hvorki er getið um selstöðu frá Valdastöðum né Neðra-Hálsi, en þó má ætla að selstaða hafi verið frá þeim bæjum í heimalandi, a.m.k. um tíma, einkum þegar tvennt er haft í huga. Rústir Bollastaða er á þurrum bala ofan mýri u.þ.b. 70 metrum austan við nýbýlið Bollastaði. Rústirnar eru greinilega mjög fornar, en þó sést þar móta fyrir fjósi, u.þ.b. 14 metra löngu og tilhlýðilega breiðu, skála og þremur til fjórum rýmum öðrum, þ.a. þremur stökum sunnan við meginrústirnar. Bollastaðalækurinn er rétt austan við bæjarstæðið. Augljóst má telja að fínar aurskriður hafa fallið oftar en einu sinni ofan úr bröttum hlíðum Reynivallahálsar niður um „túnin“ því að sjá er þar víðasthvar grunnt á skriðurnar.
Því má ætla að bæjarstæðið Bollastadir-51(bæjarhóllinn) geti verið bæði hærri (dýpri) og breiðari en ætla megi. Fjóstóftin er allgreinilegust. Hún er óvenju stór af fornkotbýli að vera. Því er ekki óraunhæft að ætla að þarna hafi áður verið kúasel, annað hvort frá Valdastöðum eða Neðra-Hálsi og síðar fjársel (í heimalandi). Líklegra má ætla að kúaselið, sem virðist eldra, hafi verið frá síðarnefnda bænum og síðar fjársel frá þeim síðarnefnda. Hafa ber þó í huga, skv. samtölum við þá er til þekkja, að kýr beggja vegna markanna, hafa unað hag sínum hið besta á þeim stað er landamerkin liggja nú. Efst í þeim er stór steinn. Á hann er klappað „LM“. Fallin mosagróin varða er á honum. Þaðan liggur markalínan, að sögn Ragnars, í beina línu um skurð í klett (berggang) niður að Laxá. Þar segja heimildir að eigi einnig að vera klappað „LM“ en ummerki þess eru þar hvergi að finna (enda sagðist Ragnar ekki hafa komið auga á þau við eftirgrennslan).

Bollastadir-7 - kuastekkur

Tvennt ber að hafa í huga þegar áætlað er að í Bollastöðum hafi fyrrum verið selstöður á einhverjum tímum. Annars vegar fjósið, sem virðist óvenjustórt í fornbýli. Líklegra er að þarna hafi áður verið kúasel og þá líklega frá Neðra-Hálsi. Aðstæður eru dæmigerðar slíkar í landnámi Ingólfs. Þarna eru bæði nægt vatn og góð grasbeit. Kotið Bollastaðir, sbr. framangreinda sögu, kann því að hafa byggst upp úr selstöðunni. Hlaðinn kúastekkur (sem reyndar virðist vera frá 18. og/eða 19. öld), skammt vestar (í núverandi landi Neðri-Hálsar) bendir til þess. Stekkurinn sá gæti þó hafa verið endurhlaðinn oftar en einu sinni í gegnum tíðina vegna hagstæðra aðstæðna. Hins vegar, að teknu tilliti til fjárborgarinnar skammt norðaustar við bæjarstæðið, má ætla, út frá því hversu heillegar hleðslurnar eru, að þar hafi síðar verið selstaða nýtt sem fjársel út frá kotbúlinu, og þá líklega frá Valdastöðum. Frá bæjarstæðinu má sjá, ef vel er að hugað, selstíg áleiðis að bænum. Í hann hefur verið lagst í vegaumbætur; stuttan vagnveg, sem ætla megi að geti verið frá því um og eftir aldarmótin 1900 (þriggja álna breiðan og „púkkaðan“, eins og dæmi eru um slíkar vegaúrbætur).

Bollastadir-9

Núverandi ábúendum Bollastaða, Ragnari og Unni, var bent á fyrrum bæjarstæði hinna fornu Bollastaða, bæði til að auka líkur á að flytja megi vitneskju um það til komandi kynslóða og jafnframt til að minnka líkur á að það fari forgörðum vegna vanþekkingar (eins og svo oft vill verða). Og svo er alls ekki útilokað að sveitarstjórn Kjósar kunni að hafa áhuga á að láta grafa bæjarstæðið upp í heild sem framlag þess til varpa ljósi á sögu byggðaþróunnar og mannlífs á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-http://www.kjos.is/allar-frettir/nr/58288/
-Harðar saga og Hólmverja, 27. kafli.
-Jarðabókin 1703, bls. 428 (Gullbringa- og Kjósarsýsla).
-Björn Bjarnason, Kjósarsýsla 1937, Landnám Ingólfs II, 1936-40.

Bollastaðir

Gerði við Bollastaði.

Hvammsvík

Hvamms er getið í Landnámu, en þar segir: “Hvamm-Þórir nam land á millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref inn gamla um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; sú kvíga hafði horfit Þóri fyrir longu, en sú kvíga fannst í Brynjudal, þar er Refr átti land, ok fjórir tigir nauta með henni, þeirra er oll voru frá henni komin ok höfðu gengit sjálfala úti; því kenndi hvor tveggi sér nautin. En Þórir fell fyrir Ref með átta manna, þá er þeir borðust hjá hólum þeim, er síðan eru kallaðir Þórishólar”.
Hvammsvik-22Í Harðar sögu ok Hólmverja segir frá blóðugum viðskiptum Orms Hvamm-Þórissonar úr Hvammi og fóstbræðranna Geirs Grímssonar og Víga-Harðar Grímkelssonar goða í Geirshólmi, sem stálu af honum tólakistu hans. Segir að þeir hafi skilað henni í naustið að Hvammi og sett undir húfinn á skipi Orms. Ormur er þar talinn meðal héraðshöfðingja og má einnig ráða af sögunni að höfundur hennar hefur talið að Hvammsland hafi þá verið mun stærra en seinna varð, því að Ormur er látinn gefa Bolla þræli sínum land á Bollastöðum, sem er á milli Háls og Valdastaða sunnan undir Reynivallahálsi.
Hvammsvik-23Í Sturlungu er getið Jörundar hins mikla úr Hvammi en hann var með Þorleifi í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og má ráða af samhengi að hann hafi verið fyrirliði manna úr Kjós og Hvalfirði. Eftir bardagann var rænt í Saurbæ og Hvammi og má af því ráða að búið í Hvammi hafi verið með hinum stærri í héraðinu.
Hvammur kemur og fyrir í öðrum rituðum heimildum, svo sem í jarðabókum og í bréfum og máldögum í Íslensku fornbréfasafni.
Elsta heimild um kirkju í Hvammi er í Hítardalsbók frá árinu 1367.  Þar er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn er í Vilchinsbók frá 1397. Kirkjan var helguð heilögum Lúkasi og átti Hvammsey auk sex kúgilda. Þá átti hún smelltan kross, glitað altarisklæði, fornan dúk og litlar klukkur.

Hvammsvik-24

Kirkjan í Hvammi var hálfkirkja, en það þýðir að aðeins var messað þar annað hvern helgan dag. Prestur var ekki í Hvammi heldur kom annar af tveimur prestur á Reynivöllum þangað til að syngja messur og tíðir með reglulegu millibili.
Næst má finna Hvammskirkju nefnda í máldaga frá 1497.
Í vígslumáldaga Stefáns biskups Jónssonar í Skálholti hinn 1. september 1502 um kirkjuna í Hvammi er getið skógartungu í Skorradal, sem kirkjan hefur þá eignast. Var leyfi til gefið að í Hvammskirkju yrðu saman vígð hjón og börn skírð.
Í Gíslamáldaga frá um 1570 segir að kirkjan sé hálfkirkja og eigi m.a. fimm kýr og eitt ásauðar kúgildi, einn gamlan altarisbúning, vænar klukkur, glóðarker, gamlar bækur og einn kaleik.

Hvammsvik-25

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman Jarðabók sína fyrir Kjósarhrepp árið 1705 var hálfkirkja enn að Hvammi en sóknarkirkjan á Reynivöllum. Þjónaði sóknarpresturinn einnig til altaris í Hvammi, en kirkjuvegur er sagður vera örðugur og langur. Dýrleiki allrar jarðarinnar er þá sagður vera 60 hundruð, en af þeim sé hjáleigan Hvammsvík 12 hundruð. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er dýrleika jarðarinnar hins vegar skipt, Hvammur talinn 48 hundruð og Hvammsvík 12 hundruð. Í skýrslu sýslumanns, sem var ein af heimildum Johnsens, er þó Hvammur aðeins talinn vera 40 hundruð og Hvammsvík metin meir sem mismuninum nemur. Þá er sagt frá landkostum eins og þeir voru árið 1802, þegar jarðabók þessi var tekin saman, svo sem æðarvarpi og selveiði að ógleymdum nytjaskóginum í Skorradal í Borgarfirði.
Naglastadir-1Í Jarðabók Árna og Páls, sem tekin var saman réttri öld áður, er sagt um landkosti að torfrista og stunga sé lítt nýtanleg en nóg til af mó og þangi til eldiviðar, selveiði gagnvænleg fyrir heimalandi, rekavon nokkur, nægur skelfiskur en sölvafjara eydd af ísalögum, heimræði jafnan þegar fiskur gengur í Hvalfjörð og lending góð og skipsuppsátur. Túnið sé allt meinþýft og útigangur besti kostur jarðarinnar, en skriður spilli úthögum og engjum, stórviðri valdi skaða nær árlega og sauðfé sé hætt fyrir sjávarflæði. Segir og að í Hvammsey, sem kirkjunni er eignuð, hafi til forna verið gott æðar- og andarvarp, en það sé eyðilagt af lunda.
Tveir bæir eru hér nefndir í landi Hvamms, sem ekki eru til heimildir um aðrar. Þetta eru Naglastaðir, sem þá voru tóftir langt innan landamerkja, og tómthúsið Ásmundarstaðir, sem verið hafði í eyði í meira en tuttugu ár.
Naglastadir-2„Naglastaði“ ætla sumir verið hafa bygt ból í Hvammslandi, og hafa það til marks, að þar hafa fundist kol og eirbrot í jörðu, og líka sjást þar tóftarleifar. Ekkert vita menn til þess annað”. Ekki er vitað hvar á landareigninni þessi hjáleiga var, en þó er þess getið að langt sé “þaðan til  landamerkja mót öðrum jörðum” og að land þetta sé “átölulaus Hvamms eign” um aldur og ævi. Er þess og getið að “tvö ár ein hefur þar selstaða verið brúkuð frá Hvammi”.“
Hvammsvik-26Kirkjan í Hvammi var tekin af með konungsbréfi 17. maí árið 1765.
Búskapur var stundaður á jörðunum fram á áttunda áratug síðustu aldar, en skiki og skiki hafði verið seldur eða leigður undir sumarbústaði.
„Hvammur og Hvammsvík, sem er syðri bærinn, standa við sjó á suðurströnd Hvalfjarðar, á tanga norður í fjörðinn, en suður af þeim gnæfir Reynivallaháls. Milli bæja eru um 200 m. Núverandi bæjarhús, sem reist voru síðast í byrjun fjórða áratugarins, standa sunnan undir hólum sem heita einu nafni Hvammshólar.“
Samkvæmt túnakorti, sem teiknað var árið 1917, voru þá þegar mest öll tún beggja jarða sléttuð. Aðeins hafi verið eftir litlir og þýfðir blettir hér og þar.  Í stríðinu urðu túnin fyrir miklum skemmdum vegna hernaðarumsvifa, en síðan hafa þau verið sléttuð á nýjan leik og stækkuð til suðurs með því að ræsa fram mýrar.
Hvammsvik-35„Hér hefst lýsing Einars Jónssonar á örnefnum í landareign Hvamms og Hvammsvíkur; byrjað er innst, frá mörkum milli Hvamms og Hvítaness. Það er djúpt gil að innanverðu við Skeiðhól, það heitir Markagil og var oft illt yfirferðar á vetrum þegar snjóar voru miklir og að vestanverðu á gilbarminum er stór hóll sem heitir Skeiðhóll, Hann er að mörgu leyti einkennilegur, en sérstaklega fyrir það að sunnan í honum stendur klettur, sem er að mestu leyti sívalur. Hann er  eitthvað á 3 m. á hæð og að mun mjórri að neðan, eða það mætti líkja honum við flösku sem stæði á stútnum. Þessi klettur heitir Steðji.
Að vestan og sunnan við Skeiðhólinn eru að mestu leyti sléttar flatir og þær heita einu nafni Skeiðhólsflatir, en klettarnir fyrir ofan Skeiðhólsklettar, en þegar kemur út á næsta skriðuhrygg, heitir sá hryggur Hæstigeiri og klettarnir þar fyrir ofan Geldingahryggur. Svo kemur nokkurt svæði sem er nokkurn veginn jafnlent að öðru leyti en hallanum.

Hvammsvik-28

Það svæði heitir Lágafell, en klettarnir þar fyrir ofan Flár. Næsti skriðuhryggur fyrir utan heitir Lambahryggur, en gil upp af þessum hrygg heitir Bjarnagi. Svo fyrir utan Lambahrygginn kemur Gjásandur og þar fyrir ofan Gjábekkur og þær ná út að Sauðhól, sem er hár og nokkuð einkennilegur. Við hann var fjárrétt, þar sem réttin stóð var eins og hvilft inn í bergið, og þurfti ekki að hlaða réttina nema á tvo vegu og svo svo var hóllinn svo gott aðhald þegar rekið var inn.
Þá er farið með sjónum. Fyrst næst fyrir norðan Sauðhól er Hvammsvíkurholt og að norðanverðu við það mýrarsund, sem nær heim að Hvammsvíkurtúni, en austast af Hvammsvíkurtúninu heitir Sjávartún, en fyrir vestan bæinn í Hvammsvík, neðst í túninu, er hóll sem heitir Gvendarhóll.

Hvammsvik-29

Fyrir ofan bæinn, uppi í túninu, er hóll, sem heitir Magurhóll og túnið þar fyrir austan heitir Leynir. Svo er nokkuð hár grjóthóll austast í Hvammshólunum, sem heitir Hjallhóll, en hólarnir sem bæirnir standa sunnan undir heita einu nafni Hvammshólar. Svo fyrir norðan þá hóla rís nokkuð hár, einstakur hóll, sem heitir Arnarhóll. Þar sat örnin löngum, því þaðan sá hún glöggt hvernig bezt væri að haga fengsælum  veiðiferðum. En rétt fyrir norðan þennan hól kemur vellisblettur, sem heitir Bátsmýri og þar fyrir norðan er ávalahóll með standbergi sjávarmegin. Sá hóll heitir Bátsmýrarhöfði. Hann hefur þau einkenni, að norðast í berginu eru tveir nokkuð stórir básar, sem ganga svona 2-3 faðma inn í bergið, og þar var hægt að reka að þó nokkrar kindur,ef manni lá á.
Hvammsvik-30Þá er komið norður undir granda sem liggur út í Hvammshöfða. Þar flæðir sjórinn yfir, þegar er hálffallinn sjór, og um há flóð er breitt sund á milli lands og höfða. Í mínu ungdæmi var talsvert varp í þessum höfða. Þar verptu þó nokkrar fuglstegundir, svo sem æður, tjaldur, teista, kría og fleiri fuglar, en suður af höfðanum er eyja, sem heitir Hvammseyja. Þar verpti margt af fugli og þar lá selurinn uppi í tugatali þegar leið á vetur, þegar sól var og góðviðri. Þar fæddi hann oft unga sína og undi lífinu hið bezta, en oft bar hann sig illa þegar ungarnir voru fastir í netum. Þá gerðu mæðurnar margháttaðar tilraunir til að bjarga börnum sínum, en þær tilraunir enduðu stundum með því að mæðurnar urðu fastar sjálfar. Það kom nú ekki oft fyrir, því þær höfðu nokkuð góðan skilning á að forðast hættuna.
Hvammsvik-31Hvammshöfði er einkennileg eyja. Þegar maður kemur norður grandann, blasir við láglendi, beint í norður, en að vestan eru háir hólar. Þaðan er mjög fallegt útsýni. Svo er austur höfðinn líka með háum hólum og þarna er bæði lyng og vellisgróður og yndislega fallegt.
Þá fer ég vestur með sjónum. Upp á meginlandi, fyrir vestan grandann, vestur með sjónum, kemur nokkurt svæði, sem heitir Smáholt, og þar fyrir ofan er mýri, sem heitir Kringlumýri. Þar var mótekja góð á meðan entist. Þá er nes vestur af hólunum, sem heitir Draganes. Þar var lendingarstaður og skiparétt. Þar voru líka fiskbyrgi.

Hvammsvik-32

Að sunnanverðu við Draganesið skerst langur ós inn í landið. Hann er vel skipgengur heim að túni um flóð, en þegar kemur heim undir túnið, kemur mjódd, sem ekki er breiðari en smá árfarvegur. Sú mjódd heitir Mjóiós. Þar fyrir innan kemur annar ós, nokkuð stór, sem heitir Grafarós, en hann er að nokkru leyti tvískiptur, því það gengur vellismói út í hann frá suðaustri. Sá mói heitir Stórimói.
Nú ætla ég að fara út með sjónum, fyrir utan ósinn. Þá kemur vellisflöt sem heitir Orustuflöt. Þar börðust þeir Hvamms-Þórir og Bárður á Þrándarstöðum út af nautgripum, sem Þórir fann, en Bárður taldi sig eiga. Það var kýr, sem Brynja hét og hafði gengið úti og falizt í skóginum. Þegar hún fannst, var hún með hóp af ungviði með sér.
Þar fyrir utan eru hólar sem heita Óshólar, en að sunnanverðu, þar sem ósinn byrjar, er klettur, sem er laus við landið, og flæðir á milli klettsins og lands. Þessi klettur heitir Kirkjuklettur. Fyrir utan Óshólana er mýri, sem heitir Spóamýri.
Nú ætla ég að fara til baka inn undir Sauðhól og lýsa landinu út með fjallinu. Næst fyrir utan Sauðhól Hvammsvik-33er mýri, sem heitir Dýjamýri, og klettarnir þar fyrir ofan Dýjamýrarklettar. Mýrin næst fyrir utan veginn að neðanverðu heitir Aur.
Þá kemur áframhaldandi mýrarfláki sem heitir einu nafni Flói. Með fjallinu, að utanverðu við það sem ég hef þegar lýst, kemur klettahóll, sem heitir Stóra-Setberg. Þar fyrir ofan er hár klettastandur sem heitir Miðmundastandur. Nokkuð utar er annar klettahóll sem heitir Litla-Setberg. Fyrir neðan Setbergin er Setbergsmýri. Niður undan Litla-Setbergi, heldur utar, er holt sem heitir Langholt og mýri þar fyrir ofan Háamýri. Fyrir ofan og utan Háumýri eru klettar sem heita Svörtuklettar og Svörtuklettamýri í kringum þá að ofan. Hlíðin þar fyrir ofan heitir Breiðhillur en að utanverðu við Langholt kemur mýri sem heitir Selveita. Utan við hana, við sjóinn, eru Borgarlaugar og upp af þeim er hóll sem heitir Bullhóll. Þar áttu að hafa heyrst strokkhljóð til forna inni í hólnum.

Hvammsvik-34

Fyrir utan Bullhólslæk, niður við sjóinn, kemur mýri, sem nær út að Hálsmörkum. Hún heitir Lágamýri. Svo kemur smá klettabelti,en fyrir ofan það kemur Breiðamýri, sem nær líka út að mörkum. Fyrir ofan Breiðumýri er klettahóll sem heitir Asklok. Þar átti að hafa heyrzt aski skellt til forna. Þar rétt fyrir utan kemur smá gillæmi sem eru mörk milli Hvamms og Háls.“
Þegar Selveitan var skoðuð kom Naglastaðaselið í ljós. Um er að ræða hringlaga tóftarhól, en í honum mótar ekki fyrir veggjum. Utan í hólnum virðast vera rými.
Þórishólar eru án minja, utan Bessastekks, skeifulaga mannvirkis, undir syðsta hólnum, næsta Spóamýri.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning, Hvammur og Hvammsvík, Fornleifavernd ríksins 1995.
-Örnefnalýsing fyrir Hvamm og Hvammsvík, Einar Jónsson skráði.
-Íslenzk fornrit I, Reykjavík 1993, bls. 56-59.
-Íslenzk fornrit XIII, Reykjavík 1993, bls. 65, 68-70, 79.
-Sturlungasaga I, Reykjavík 1946, bls. 405, 407.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn III, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 218.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn IV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 118.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 375.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 609-610.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn XV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 632.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns XIII, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 85.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 430-434.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847, bls. 101.
-Sveinn Nielsson: Prestatal og Prófasta. Hið íslenska bókmenntatal, Reykjavík 1950.
-Íslenzk fornrit I-,Reykjavík 1993-, bls 56-59.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 431.
-Túnakort af Hvammi og Hvammsvík í Kjós frá 1917, Þjóðskjalasafn Íslands, óprentuð heimild.

Hvammsvík

Hvammsvík – örnefni – ÓSÁ.

Írafell

Í Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um örnefnið „Írafell„:

Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).

Írafell

Írafell í Kjós.

Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.
Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).

Írafell

Írafell í Svartárdal.

Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.
Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir.

Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.“

Írafells-móra“ er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar sbr.:

Reynivellir

Reynivellir í Kjós.

„Kort hét maður og var Þorvarðarson (1760 – 1821), bróðir séra Odds á Reynivöllum (1786-1804); hann var nefndarmaður og gildur bóndi; hann bjó lengst á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar. Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg, en hin síðari Þórdís Jónsdóttir.
Ingibjörg var ættuð að norðan. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði öllum. Fyrri biðlarnir þóttust því sárt leiknir, er Kort fékk hennar, enn þótt hann væri þeim flestum fremri um marga hluti. Þeim svall svo þetta um hjarta, að þeir keyptu af galdramanni nyrðra að senda Kort og konu hans sendingu.

Möðruvellir

Möðruvellir í Kjós 1913.

Galdramaður valdi til þess drenghnokka einn, er sagan segir, að hafi orðið úti milli bæja; en galdramaðurinn vakti hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins.

Þeir menn, sem hafa séð Móra, og þeir eru ekki fáir, hafa lýst honum svo, að hann sé í grárri brók að neðan og mórauðri úlpu fyrir bolfat, með svartan hatt barðastóran á hausnum, og er skarð eða geil stór inn í barðið upp undan vinstra auga. Af úlpunni dregur hann nafn, og því er hann Móri kallaður. Ummæli galdramannsins þykja hafa rætst helst of vel, því þegar Móri kom suður, lagðist hann að á Möðruvöllum, sem ætlað var, og gjörði þeim hjónum margar skráveifur með ýmsu móti, bæði í fénaðardrápi og matskemmdum. En engin eru dæmi til þess, að Móri hafi beinlínis drepið menn, hvorki fyrr né síðar.

Með því Móri ekki átti að hafa verið með öllu dauður, er hann var vakinn upp, þurfti hann, eins og allir slíkir draugar, mat sinn fullan. Varð því að skammta honum ekki síður en hverjum heimilismanni, bæði á Möðruvöllum og eins eftir það hann fór að leggjast að á Írafelli og fylgja Magnúsi Kortssyni, og var maturinn, sem honum var ætlaður, ávallt settur á afvikinn stað.

Möðruvellir

Möðruvellir í dag.

Þessu hafði Móri áorkað með því, að hann húðskemmdi allt í búrinu á Möðruvöllum fyrir Ingibjörgu; sat hann þar stundum uppi á búrbitunum og gutlaði í mjólkurtrogunum með löppunum eða steypti þeim niður, sletti skyri, bæði á hana sjálfa og upp um alla rafta, eða fleygði torfi og grjóti ofan í matinn, hvar sem stóð, og spillti honum með því. Af þessu tók Ingibjörg það til ráðs, að hún fór að skammta honum fullnaðarmat í bæði mál; við það lét hann mikið af matskemmdum.

Einhverju sinni bar þó svo við að gleymst hafði að skammta Móra að kvöldi dags. En um morguninn, er komið var í búrið, sáu menn, hvar hann sat, og hafði sína löppina niðri í hvorri skyrtunnu, en húkti á báðum tunnubörmunum; gjörði hann þá bæði að gutla í skyrinu með löppunum og sletta því með krumlunum. Eftir það var varast að gleyma að skammta honum.

En það var ekki maturinn einn, sem Móri þurfti; hann þóttist líka þurfa að hvílast eins og hver annar, og því er sagt, að eftir að hann fór að fylgja Magnúsi Kortssyni á Írafelli, hafi hann jafnan orðið að láta rúmflet standa autt handa honum gegnt rúmi sínu, og dugði engum öðrum en Móra að liggja í því.

Írafell

Írafell í Kjós.

Það var eitt sinn um réttaleytið, að margt fólk var komið að Írafelli og hafði fengið þar næturgisting. Seinna um kvöldið kom þangað drengur einn og beiddist húsa. Magnús kvað honum húsin heimil, en hvergi gæti hann lofað honum að liggja nema á gólfinu eða ef hann vildi annars kostar liggja í fletinu á móti rúminu sínu, og það þáði drengur með þökkum.

Þegar hann leggst fyrir um kvöldið, sofnar hann brátt; en þegar hann er nýsofnaður, fer óttalega upp á hann, svo að korrar í honum. Hrekkur hann svo upp og getur ekki sofnað væran blund alla nóttina fyrir einhverri ásókn.

Daginn eftir var vont veður, svo gestirnir komust ekki í burtu og voru svo á Írafelli nóttina eftir. En um kvöldið tóku drengir nokkrir sig til, sem áttu heima á Írafelli og þekktu Móra og höfðu oft verið í skítkasti við hann, og festu hnífa allt í kring um rúmfletið, svo oddarnir stóðu alls staðar upp af stokknum. Þá nótt svaf drengurinn vært, og þökkuðu menn það því, að Móri hefði ekki vogað að honum fyrir hnífsoddunum.“

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4846
-https://www.snerpa.is/net/thjod/irafell.htm (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bls. 364-365).

Írafell

Írafell í Kjós.

Vindássel

Enn og aftur var reynt að fá botn í það hvers vegna Seljadalur ofan við Fossárdal í Kjós væri jafnan nefndur í fleirtölu. Þrátt fyrir þetta – að einungis væri vitað (árið 2009) um eina selstöðu í dalnum – virtist áskornunin freistandi, þ.e. frá Reynivöllum.

Svínaskarðsvegur

FERLIR leitaði til hinna fróðustu manna í sveitinni, en þeir kváðu vafasamt að önnur selstaða en sú sem var fyrrum frá Reynivöllum, og kotbýlið Seljadalur hafi vaxið upp úr, kynni að að finnast í dalnum. Búið væri að margleita dalinn, en án árangurs.
Í einni örnefnaslýsingunni fyrir Vindás segir m.a.: „Selstígur lá yfir Ása, austan við Eystri-Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á Þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.“

VindásselHér koma a.m.k. tvær vísbendingar um staðsetninguna á Vindásseli. Annars vegar að gata hafi legið norður yfir Hryggi og að Vindás hafi átt selstöðu í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. FERLIR hafði áður rakið Selstíginn frá Vindási og Sogni upp Múlann, áleiðis í Sognsel. Einn angi hans lá inn með vestanverðu Sandfellinu og til austurs norðan þess.
Þá var bara ekki um annað að ræða en að ganga enn og aftur upp að Sandfelli og síðan norður Hryggina að austanverðu frá fellinu. Þar eru í dag bara aflangar melhæðir og því var úr vöndu að ráða. En með stóiskri ró (og gangi fram og til baka um meðhæðirnar) mátti sjá hvar Svínaskarðsvegurinn svonefndi lá til norðausturs af Sandfellsveginum norðaustan við Sandfellið. Til hliðar við hann mátti greina enn eldri götur.
Þegar getið er um „Þjóðleiðir“ í örnefnlýsingunni er sennilega átt við þessar leiðir. Af þeim tveimur hefur Svínaskarðs-vegurinn, þrátt fyrir fyrri lýsingar, verið þeir
ra veigaminni sem almenn þjóðleið. Það átti líka eftir að koma í ljós í bakaleiðinni.

Seljadalur

Reynivallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu segir: „Svínaskarðsvegur sem var mjög fjölfarinn á sumrin bæði af Kjósverjum, og þó einkum þeim sem ferðuðust á hestum milli Reykjavíkur og  norður- og vesturlandsins, lá yfir Laxá á Norðlingavaði, upp Klifsnes, Vindáshlíð, Sandfellsmela norðan  við Sandfell, sunnan við Hryggi, vestan við Dauðsmannsbrekku og síðan áfram yfir að Hvalfirði. Þessi vegur meðan hann lá um Vindásland, var alltaf í daglegu tali nefndur Þjóðvegur.“ Þessi lýsing átti eftir að öðlast nýja merkingu í lok ferðarinnar, enda mjög líklegt að Svínaskarðsvegur ofan úr Svínadal að norðanverðu hafi alls ekki legið eins og hann hefur verið sýndur á landakortum, heldur mun suðaustar.
Leiðin hefur raunar verið tvískipt; annars vegar upp í miðjar hlíðar Skálafells og hins vegar svo til beint undir rótum þess áleiðis í Vindássel. Fyrrnefnda leiðin greinist í hlíðinni; annars vegar til suðurs og hins vegar til norðurs inn með austanverðum Seljadal. Sú gata liggur beint heim að gamla Seljadalsbænum.

SvínaskarðsvegurTil varnar þeim er ekki hafa getað staðsett Vindásselið má segja að það er alls ekki auðfundið. Svínaskarðsleiðirnar tvær efst í Seljadalnum liggja bæði ofan og neðan við það. Hins vegar má segja að staðsetningin er dæmigerð fyrir selstöður á Reykjanesskaganum (sjá meira HÉR); í skjóli fyrir austanáttinni, við læk og þrískiptar tóftir. Tóftirnar eru heillegar, veggir standa grónir, hleðlslur í veggjum má sjá og op. Hið óvænta var hversu stór rýmin eru og hversu heilleg þau eru. Þarna er því að öllum líkindum um að ræða sel frá þeim tíma er selstöður voru almennt að leggjast af á þessu landssvæði (um 1870). Þessu til staðfestingar er rétt að nefna eftirfarandi. Í Jarðabókinni 1703 er getið sels frá Vindási í Seljadal: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.“ Það virðist því ljóst um hvaða tóftir ræðir á framngreindum stað í sunnanverðum dalnum, enda kemur varla annað til greina.

RéttÍ Jarðabókinni segir ennfremur: „Bústaður sóknarprestsins í Kjós, gefinn af kóngl. máð af sál. Friðrik 3ja háloflegrar minningar í staðinn þess fordjarfða beneficii Reynivalla, sem af skriðum og snjóflóði næsta því eyðilagt var.“ Eins og annars staðar er skráð hafði skriða fallið á Reynivallabæinn og jafnað við jörðu.
Seljadalurinn er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum þessa bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni. Þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Landið er gott fyrir sauðfjárbeit. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur. Í honum rennur Hjaltadalsáin fyrrenfnda. Í ánni er Folaldafoss. Fossinn er áberandi þegar gengið er má Seljadalsá framhjá ármótunum. Eftir Seljadal rennur svo Seljadalsáin, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur, sem fyrr sagði. Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar. Gísla bjó í Seljadal á árunum 1897 til 1921.
TóftTóftirnar í Sejadal eru sérstaklega áhugaverðar. Bæði vegna þess að grjót í vegghleðslur hefur ýmist verið tekið úr bæjarlæknum eða verið fluttar að annars staðar frá, t.d. með sleða á snjó. Ein tóftin, sem þarna er skammt sunnan við kotið sjálft hefur sennilega verið gamla selið. Efniviðurinn úr því hefur verið nýttur í sauðakofa og gerði. Ef glöggt er skoðað má sjá að eldri hleðslur á bæjarstæðinu hafa verið nýttar til nýrri byggingar. Hlaðin rétt neðan við bæinn er í raun dæmigerð fyrir staðsetningu stekkjar. Hún er því að öllum líkindum hlaðin upp úr stekk, sem þar var fyrir.
Í bakaleiðinni var gatan frá Seljadal fetuð til suðurs. Þegr hún kom yfir Seljadalinn ofanverðan var auðvelt að fylgja henni um melbrúnir og mela á ská til suðausturs niður hlíðarnar ofan við Vindássel. Þar neðst kom gatan inn á hinn gamla Kjósaskarðsveg.
GatnakerfiðÞessi meginleið kom ekki niður með Sandfellinu norðaustanverðu eins og ætla mætti. Hún lá á ská til suðausturs (annars eru áttir þarna á miklu reiki sbr. örnefnalýsingar) niður hlíðina austan fellsins, niður á gömlu Kjósarskarðsleiðina norðan Laxár. Tekja má líklegt að gamli Svínaskarðsvegurinn hafði legið þar inn á hana og síðan áleiðis upp hálsinn mun suðaustar en áður hefur verið talið.
Í meiri fróðleik um Reynivelli segir m.a.: „Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð byggðarinnar. Um langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús, þar var rekinn fyrsti barnaskólinn í Kjósinni, hann var stofnaður kringum 1880 og starfaði í sérstöku húsnæði, sem byggt var fyrir skólastarfið. Þá var prestur á Reynivöllum sr. Þorkell Bjarnason, sem áður er getið. Hann var afkastamikill á ýmsum sviðum menningarlífsins, ritaði m.a. Íslandssögu, sem lengi vel var eina Íslandssagan, sem kennd var í skólum landsins. Þá skrifaði hann einnig stórmerka bók um sögu siðbótarinnar hér á landi auk fjölda ritgerða um ýmis efni. Áður hefur verið getið um frumkvæði hans í laxeldi.

Eftirmaður hans var sr. Halldór Jónsson, sem prestur var á Reynivöllum í hálfa öld, frá 1900 til 1950. Sr. Halldór var sömuleiðis merkur prestur á sinni tíð, framfarasinnaður í búskaparháttum og tónskáld ágætt. Oddviti sveitarinnar var hann um árabil. Hann hefur ritað endurminningar sínar, sem eru merk heimild um líf og starf Kjósverja í þá hálfu öld, sem hann var sálnahirðir þeirra.“ (Þetta er bara, með fullri virðingu, sett inn í textann til að koma að fleiri myndum).
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
SeljadalurVindássel
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Vindás.
-Jarðabókin 1703.

Gljúfursel

Ofan við Sogn og Gljúfur í Ölfusi er nafnið Seldalur. Ofar eru Selá, Selás og Selfjall.
SaurbæjarselÍ örnefnalýsingu fyrir Gljúfur er getið um að „sá hluti á Seldalnum, sem er austan Gljúfurárinnar“ nefnist Gljúfurseldalur. Í örnefnalýsingu fyrir Sogn segir að „Sognsselsdalur [er] vestan Gljúfurár, Gljúfursselsdalur austan, þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot“. Þá segir að í Seldanum hafi verið „selstaða frá Bakkárholti í skiptum fyrir engjaland, sbr. JÁM 1703. Sér enn fyrir tóftum“. Sú selstaða er hins vegar í Kvíadal, austan Reykjafjalls og norðan Sogna, eins og síðar átti eftir að koma í ljós. Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns.
Í örnefnalýsingu fyrir Öxnalæk segir að „rétt fyrir innan Skyggni hefur verið sel frá Öxnalæk, í Öxnalækjarlandi. Selið er í Öxnalækjar-Seldal.“  Einnig er getið um Selhöfða milli Efra-Sniðs og Neðra-Sniðs ofan við Hamarinn, sbr.: „Selhöfðar eru í Öxnalækjarlandi innan til við Svarthamar, í hærra landi, sem liggur til hánorðurs.“Gata í Bakkárholtssel
Í örnefnalýsingu fyrir Saurbæ segir að „Saurbæjarskyggnir (Skyggnir) [er] grjóthóll bið vesturenda Hamarsins, í mörkum. Selstígur [er] grasbrekka með götu suður af Skyggni. Hraunið (Saurbæjarhraun) [er] hraunbreiðan norður og austur af Kömbum og Seldalur [er] gróin laut í hrauninu. Þar sér fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ.“
Í örnefnalýsingu fyrir Reykjatorfuna er getið um Selgil fyrir norðan Gufudal og Selmýri fyrir norðan Selgil. Og í örnefnalýsingu fyrir Núpa er getið um Selás og Selásbrekkur uppi á Núpafjalli svo og Seldal, gróna dæld, upp frá Núpastíg. Ætlunin er að skoða síðastnefndu staðina síðar.
Áður en lagt var af stað var haft samband við Björn Pálsson, 
skjalavörð í Héraðsskjalasafni Árnesinga, en hann er manna fróðastur um Hveragerði og nágrenni. Björn brást vel við og rakti þegar í stað staðsetningar þeirra selja er ætlunin var að skoða í ferðinni. M.a. kom fram hjá honum eftirfarandi:
Bakkárholtssel er utan í Reykjafjalli ofan við Ölfusborgir. Gengið er upp með girðingu uns komið er að þvergirðingu er myndar horn. Norður og upp af horninu er hæðardrag, lækjarsitra og vatnsból. Þar við sel selið. Það á að vera greinilegt.
Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum.
Undir Sognum er forn þjóðleið. Skammt vestar er Hellisfjall og í því gamalt fjárskjól er rýma átti tiltekinn fjölda sauða. Það er svolítið upp í hlíðinni en sést vel.
Bakkárholtssel - Sognar fjærRétt áður en komið er að Ölfusborgum er stekkjarbrot við þjóðleiðina.“
Auk þess bætti Björn við: „Öxnalækjarsel er í Sauðabrekkunni, sem nú eru jafnan nefnd Kambar. Nýi þjóðvegurinn liggur um brekkuna. Í henni miðri, rétt ofan vegarins, er Öxnalækjarsel í hraunkrika, svo til beint upp af Hömrum. Ein tóftin í selinu virðist hafa verið brunnhús.“ Þá benti hann á að Vallasel væri að finna í Seldal undir Ástaðafjalli, rétt ofan við Reykjadalsána. Líklega er þar um að ræða örnefni, sem getið er um í örnefnalýsingunni fyrir Reykjatorfuna. Ætlunin var að skoða það síðar, ásamt Núpaseli.
Byrjað var á því að skoða Öxnalækjarselið (Saurbæjarselið) ofan Hamra í Sauðabrekku. Þjóðvegurinn um „Kambana“ liggur nú um brekkuna, en Kambarnir er þarna skammt ofar, sem gamla vegstæðið lá um. Skammt ofan við þjóðveginn í miðjum „Kömbunum“ er gróinn læna upp hraunið, Seldalurinn. Þar, undir lágri Sognasel - Bjarnarfell fjærnorðurbrún hraunsins, kúrir selið; tvær tóftir og er önnur tvískipt. Tóftirnar eru grónar, en þó má sjá móta fyrir hleðslum að innanverðu í stærri tóftinni.
Þegar aðstæður voru kannaðar fékkst svar við því hvers vegna getið er um selstöður frá tveimur bæjum í þessum Seldal, bæði frá Saurbæ og Öxnalæk. Minjar um aðra selstöðu er í sunnanverðum „dalnum“, undir suðurbrún hraunsins. Þar eru tvær tóftir, önnur hús og hitt sennilega kví. Þótt þessar tvær selstöður hafi verið svo nálægt hvor annarri er ekki þar með sagt að þær hafi verið báðar í notkun á sama tíma, sem reyndar verður að telja vafasamt. Nyrðri tóftin, sennilega frá Saurbæ, virðist yngri.
Þá var gengið áleiðis upp með austanverðu Reykjafjalli ofan Sogna. Um Sogn sem bæjarnafn segir m.a.í örnefnalýsingunni: „Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður).  Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það æfinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu.“
GljúfurselÍ lýsingunni er m.a. getið um Stóra-Helli: „Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri.“ Áður en haldið var á hálsinn milli Sogna og Reykjafjalls var kíkt á hellinn. Hann er upp í miðju berginu, en gróið er undir. Stígur liggur upp í opið.
Vestan Sogna eru heillegar tóftir fjárhúsa.
Sunnan undan fjallsrananum er
Stóri-Einbúi. Í örnefnalýsingunni segir um hann: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sogseinbúa). Klettahóll í EInbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja. Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölvessveit upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinna“.
Kaldavermsl við GljúfurselStefnan var tekin í Bakkárholtsselið í Kvíadal. Í örnefnalýsingu segir m.a. um Bakkárholt: „Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi.  Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggjahreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703)… Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.“
Í örnefnalýsingu fyrir Sogn má sjá eftirfarandi um selstöðu frá Bakkárholti: „Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í lítlu gili í Selá í Seldalnum. Þarna var selstaða frá Bakkárholti í skiptum fyrir engjaland.  Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab.A.M.). Sér enn fyrir tóftum.“
Rétt við GljúfurLeiðin er tiltölulega greið. Þegar komið var inn á greinilegan stíg inn með vestanverðum Sognum var honum fylgt til norðurs – beint í selið. Það stendur á gróðurtorfu. Lítill lækur rennur sunnan við það. Selið hefur verið nokkuð stórt. Þrjú rými eru í því, eitt stórt að austanverðu og tvö minni að vestanverðu. Op hefur verið mót suðri, að Sognum. Tóftin er vel gróin og stendur hátt í þýfinu. Skammt suðaustan við tóftirnar mótar fyrir eldri tóftum, en erfitt er að greina rýmisskipan.
Fyrst komið var upp fyrir Sognin var ákveðið að skoða Sognabotnana. Um þá liggur mikið gljúfur til norðurs. Um það rennur lítil á, Selá. Henni var fylgt til austurs, niður með sunnanverðum Selás, niður í Seldal. Þar átti að hafa verið selstaða frá Sogni, sbr.:
„Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot.  Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni.“
Stóri-HellirSeltóftirnar eru á gróinni tungu ofan (norðan) við Selá skammt vestan við þar sem hún og Gljúfurá koma saman. Tóftirnar, sem eru mjög grónar, mynda háan hól með nokkrum rýmum. Líklegt má telja að selið hafi verið alllengi í notkun, enda eru aðstæður þarna einstaklega hagstæðar selbúskap. Dalurinn er vel gróinn og veðursæld er án efna mikil á sumrum. Skammt norðan við tóftarhólinn mótar fyrir eldri minjum.
Í örnefnalýsingu fyrir Gljúfur er ekki minnst á selrústir, einungis: „Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur.“ Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að finna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.
Á bakaleiðinni, niður með Lynghól austan hinna hrikalegu gljúfra austan Sogna voru rifjuð upp örnefni á leiðinni
„Gljúfurshellir: (Hellirinn)  Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús.“  „Hellirinn á Gljúfri er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegarins. Nýleg fjárhús standa við lækinn nokkru ogan við hellinn.  Hellirinn er grafinn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum í. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m.  hellismuninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg með dyrum á fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í hellisgólfinu innan við dyrnar og smálækur rennur út um þær í aðallækinn.  Leifar af jötum sjást með veggjum.“ „Örfáar áletranir eru á veggjum, virðast unglegar. Þar er m.a. hakakross.“ Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellin segjir Gljúfursbóndi.“
„Litli-Hellir:  Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tímann notað sem fjárhús.“
Loks var skoðuð hlaðinn rétt austur undir klettum vestan Gljúfurár.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar.
-Björn Pálsson.

Sognsel

Sognsel.

 

Sognsel

Þegar FERLIR var á leið um Sandfellsveg fyrir skömmu virtist augljóst að selstaða væri einhvers staðar nálægt Sandfellstjörninni. Við hana austan- og suðaustanverða er grasmikill flói og svo virtist einnig vera vestan og norðvestan við hana, en melhryggur skilur þar af. Leit var þá gerð við flóann, en án árangurs.

Selstígurinn

Þegar niður var komið og gluggað var í gamlar lýsingar virtist í fyrstu fátt er staðfest gæti ályktunina. Í Jarðabókinni 1703 er getið um jörðina Sogn í Kjós. Þar segir: „Eigandinn Reynivallakirkja“. Ekki er getið um selstöðu frá bænum í Jarðabókinni. Það bendir annað hvort til þess að þá hafi hún verið aflögð fyrir löngu eða verið tekin upp eftir þetta og væri þá yngri. Hvorutveggja gerði áskorunina um að finna og staðsetja selstöðu þarna einkar áhugaverða. Hafa ber í huga að FERLIR hefur áður náð að staðsetja 257 selstöður á Reykjanesskaganum (auk fjölmargra annarra menningarverðmæta eins og sjá má á vefsíðunni), í fyrrum landnámi Ingólfs, svo næmni fyrir mögulegri selstöðu á fyrrnefndum stað kom ekki af engu. Það var því ekki góð tilfinning að þurfa að yfirgefa svæðið án þess að hafa fullnægt næmninni. Ekki bar þó á uppgjafartilfinningu því reynslan hefur kennt leitendum a.m.k. tvennt; reyna aftur og aftur þangað þangað til fullreynt er. Stundum hefur þurft að gera allnokkrar ferðir inn á tiltekin svæði áður en árangur hefur náðst. Oftar en ekki hefur fólk talið ólíklegt að nokkuð væri þar að finna ef ekki hefði þegar verið getið um það í rituðum heimildum.
Þegar skoðuð var örnefnalýsing fyrir Vindás, sem Ari Gíslason skráði eftir Hannesi Guðbrandssyni í Hækingsdal og að nokkru frá Bjarna Ólafssyni segir hins vegar: „
Suður af Hryggjunum, sem eru holt og hæðir, sunnarlega, er Sandfellstjörn, og Sandfell er hátt fell [395 m.y.s]. Austur af því eru Sandfellsmelar. Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognsel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir. Sandfellsás liggur norðvestur úr Sandfelli, austur af tjörninni. Í Sandfelli er gren gamalt sunnan í fellinu; þar er hellisskúti og Gren.“

SelstígurÍ örnefnalýsingu Bjarna Ólafssonar um Vindás segir m.a. um þetta: „Sandfell er suðvestan við Skiptagilsbotn og suðaustur af því  Sandfellsmelar. Lóma heitir seftjörn norðaustur  af Skiptagilsbotni. Vestur af Lómu, og allt vestur að Dauðsmannsbrekku eru víðáttumiklir melar sem einu nafni nefnast Hryggir. Vestur af Sandfelli er Sandfellsflói og þá Sandfellstjörn, síðan Tjarnarflói, þar næst flói sem heitir Stóri-Krókur og annar vestur af honum sem heitir Litli-Krókur. Allir þessir flóar eru einu nafni nefndir Vindásflóar. Sunnan við Sandfellsflóa er Sandfellsás. Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognsel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur.
Fossá sem áður er nefnd, fellur fram af Reynivallahálsi niður í Hvammá, beygir síðan meir til vesturs og fellur í smá fossum niður í Leyni og heitir þar frá Leynislækur. Úr Leyni  rennur hann milli Leynismýrar og Kvíamýrar, um Leynislækjarmóa og saman við Gíslalæk áður en þeir falla á.
SelstígurSelstígur lá yfir Ása, austan við Eystri-Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa
 verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.“

Ekki er vitað hvenær Sognbærinn gamli var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. Til er mynd af gamla bænum frá árinu 1918.

SognselGuðbrandur Hannesson, bóndi í Hækingsdal, kvaðst ekki vita af tóftum á nefndum stað innan við Sandfellstjörn, en ef faðir hans, sem var mjög kunnugur þar, hefði getið þeirra í lýsingu sinni þá væri það áreiðanlega rétt. Sagði hann Sogn vera næsta bæ vestan við Reynivelli, milli Valdastaða og Reynivalla. Selstígurinn væri nú mjög greinilegur því hrossin á Vindási sæktu mjög upp Múlann eftir stígnum um þessar mundir. Það því væri kjörið að reyna að rekja Selstíginn einmitt núna.

Sognsel

Sognsel – uppdráttur ÓSÁ.

Og þá var ekkert annað gera en að leggja land undir fót. Þegar komið var að Hvammá ofan við Leynislæk blasti fossinn í Fossá við. Með Múlanum liggur gömul gata. Henni var fylgt til suðurs. Staldrað var við undir Múlanum. Þar liggur gatan áfram á ská áleiðis upp hann fyrir Múlahornið. Hún er þarna mjög vel greinileg og auðrötuð. Nokkru áður en þangað er komið liggur Selstígurinn af götunni ofar í Múlann á a.m.k. þremur stöðum. Ef miðstígurinn er valinn er auðveldast að feta sig upp brekkuna áleiðis upp á brún. Neðan hennar beygir stígurinn til vinstri og aftur til hægri áður en upp er komið. Þaðan er gengið spölkorn beint af augum og síðan til vinstri á ská upp sandás og síðan til hægri ofan hans með stefnu á gilskorning í stuttu hamrabelti. Þar liggur stígurinn í sneiðing uns upp er komið. Þá sést varða. Stígurinn liggur upp með henni vinstra megin og síðan beygi hann til hægri áleiðis upp ásana með stefnu á Sandfell. Þarna sést stígurinn greinilega.
Áður en upp á efsta ásinn er komið greinist Selstígurinn; annars vegar áfram upp ásana Gatna- og stígakerfiáleiðis að suðvestaverðu Sandfelli með tengingu inn á Sandfellsveg og Svínaskarðsveg norðaustan við fellið, og hins vegar til vinstri, áleiðis í Sognsel. Fyrrnefnda gatan greinist á leiðinni; annars vegar beint áfram og hins vegar til hægri, til austurs með sunnanverðu Sandfelli. Það gæti verið beinni tenging við Svínaskarðs-veginn. Síðarnefnda gatan þarna á fyrrnefndu gatnamótunum er óljósari og ekki auðvelt að koma auga á hana á melnum. Þegar Selstígurinn var rakinn til baka frá selinu kom hann þarna niður. Nú var stígnum fylgt áfram áleiðis að Sandfelli. Þar greindist hann aftur; annars vegar beint áfram inn á fyrrnefndar Þjóðleiðir, og hins vegar upp í selið. Síðanefndu leiðinni var fylgt upp á móbergsás. Þaðan var ágætt útsýni yfir Sandfellstjörn og á Kjöl. Neðan ássin lá stígurinn við enda grágrýtisholts og að Fossá þar sem hún fellur úr tjörninni. Álftarpar neri saman hálsum og gæsir horfðu á með aðdáun.

VarðaSelið kúrir undir lágu holti, einu af nokkrum austan Sandfellstjarnar, skammt norðan við Fossá. Ekki er ólíklegt að áin hafi fengið nafn sitt af litlum fallegum fossi (sjá mynd hér að neðan) neðan við selið. Stekkurinn er við fossinn. Selið er óvenjulegt að því leyti að það hefur fjögur rými í stað þriggja, sem hefðbundið er í seljum á Reykjanes-skaganum. Það virðist vera af seinni tíma gerð selja, þ.e. reglulegri mynd en þekktist í þeim eldri. Líklegt má telja, af tóftunum að dæma, að haft hafi verið í seli þarna vel fram á 19. öld. Veggir standa grónir (0.60 m) og augljóslega má sjá húsaskipan og gangverk milli rýma. Hleðslur eru fallnar, en sjást, t.d. í meginrýminu, þ.e. baðstofunni, sem hefur verið innst og aukarýmið hefur augsýnilega tengst henni. Búrið hefur verið vinstra megin við innganginn í baðstofuna og eldhúsið hægra megin.
FossáAð vettvangsskoðun lokinni var ákveðið að fylgja Sel-stígnum utanverðum, enda augljós þar sem hann lá frá selinu. Liggur hann eðlilega sem leið liggur neðan við grágrýtis- og móbergsholtin sunnan við selið, niður með hæðardrögum á vinstri hönd og að fyrrnefndum gatnamótum (stígsmótum) ofanvið vörðuna. Frá stígnum er frábært útsýni yfir neðanverða Kjósina.

Þegar að vörðunni var komið var stígnum fylgt hvylftina í hamraveggnum, á ská niður sandása og að brúninni. Þarna mætti að ósekju hlaða vörðu fyrir þá, sem áhuga hafa á áhuagverðri leið, en eru ekki fulllæsir á landslagið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

SognP.S. Hafa ber í huga að ekkert hefur fundist hingað til nema að því hafi verið leitað, þ.e. farið á staðinn, með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir. Hluti fyrirhafnarinnar hefur falist í eftirgrennslan, leit, grúski og viðtölum við fólk, sem gerst þekkir til á hlutaðeigandi svæði. Útvega hefur þurft kort, loftmyndir og skrár er upplýst geta um möguleikana, skoða vettvang, meta aðstæður, bíða eftir ákjósanlegu veðri eða jafnvel árstíma og leggja síðan af stað, horfa, meta, leita og fylgja vísbendingum. Þegar allt þetta hefur borið árangur þarf að ljósmynda, teikna upp, hnitsetja, skrá og borða nestið. Og ekki má gleyma þeim tíma, sem fer í að koma öllu þessu heim og saman í stuttum texta og útvali ljósmynda, búa til uppdrætti, gera kort, færa inn á þau helstu upplýsingar til glöggvunar. Og síðan þarf að uppfæra allt þetta í réttu hlutfalli við síbreytilega tæknimöguleika – en allt er þetta fyrirhafnarinnar virði.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Vindás
-Guðbrandur Hannesson

SelstígurinnSognsel

Sandfellsvegur

Stutt var síðan Kirkjugatan milli Reynivalla og Fossár var rakin. Nú var ætlunin að fara um Gíslagötu austar á Reynivallahálsi, upp á Selgötuna (Sandfellsleið), fylgja þeim niður í Fossárdal og ganga síðan til baka eftir Svínaskarðsvegi, hinni fornu þjóðleið, að Vindáshlíð.
GíslagataÁ hálsinum eru Dauðsmanns-brekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna, þar sem hún kemur inn á og yfir Sandfellsveg, er dys.
Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lýsti Gíslagötunni þannig áður en lagt var af stað: „Gíslagatan sést þegar komið er upp úr lúpínubreiðu neðan við Gíslalæk og ofan við Gíslalækjardrög. Gatan er skágengin upp hlíðina vestan  við gilið, sem lækurinn rennur um. Fyrst fer hún frá gilinu, en síðan aftur nær því. Kemur hún upp á hamrana um skarð, sem þar er nokkru frá gilinu. Þegar upp er komið er upp á brúnir er varða. Við hana liggur gatan til norðurs, en beygir síðan aftur til austurs uns hún kemur inn á Sandfellsveg í Dauðsmanns-brekkum. Gengið til austurs inn á Sandfellsveg. Hann liggur þar til norðurs. Þegar veginum er fylgt beygir hann fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þá eru Dauðsmannsbrekkur á hægri hönd en ekki vinstri eins og sýnt er á landakortum. Í þessum beygjum, við gatnamótin, er Dysin.
Gíslagata á að vera greinileg þegar upp úr drögunum er komið ofan við gilið. Þá er Sandfellsvegurinn vel greinilegur. Ekki eiga að vera vörður við  hann utan þeirrar er ég nefndi. Þá er Svínaskarðsvegurinn vel greinilegur. Hafa ber í huga að Gíslagata hefur ekkert með Sandfellsveginn að gera. Hún var leið á milli Gíslholts og Seljadals, en gatan heitir eftir Gísla Einarssyni, bónda á báðum stöðum, síðar í Seljadal þar sem hann bjó á árunum 1897 til 1921. Þetta er leiðin sem Gísli og hans fólk fór á millum bæjanna. Gísli var afabróðir minn. Afi minn hét Guðbrandur Einarsson frá Hækingsdal. Þar er skyldleikinn kominn milli ábúandans í Seljadals og ábúenda í Hækingsdals.“

Varða

Ábendingar Guðbrands komu sér vel því bæði er búið að sá lúpínu þar sem gatan liggur af fyrrum kirkjugötunni frá nálægum bæjum að Reynivöllum og auk þess hefur gatan verið lítið farin í seinni tíð af öðrum en hestamönnum. Fyrir þá, sem vanir eru að rekja gamlar götur, er gatan augljós upp fyrir brúnirnar. Þar taka við gróningar, en ofan þeirra má sjá hvar gatan liggur á ská til austurs, yfir Gíslalæk ofan gilsins og upp á brún, sem þar er vörðuð.
GíslagataVið vörðuna beygir gatan til norðurs, en hins vegar er auðvelt að villast af henni áfram til austurs því kindagata liggur þar af henni áleiðis að Sandfellstjörnum og nágrennisgróningum. Ef götunni er rétt fylgt héðan í frá verður hún auðlesin allt yfir Dauðsmannsbrekkur og að dysinni, sem þar er við Sandfellsveginn. Við götuna eru þrjár vörður og auk þess tvö vörðubrot. Gatan virðist af umsögninni ekki mjög gömul, en er samt sem áður orðin af fornleif skv. skilgreiningu þjóðminjalaga.

Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum lýsir leiðunum þannig:

„Gíslagata

DysinÖnnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.

Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna er dys. Í örnefnaskrá segir: „Dauðsmannsbrekkur, talið var að einhvern tíma hefði fundizt þar látinn ferðamaður“. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.“

Gíslagata

Gíslagata – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.” 

Séra Gunnar lýsir einnig Svínaskarðsvegi:
„Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.

Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmanns-brekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.

Leiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.

Göngusvæðið

Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.

Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.

Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.“

SandfellsvegurGíslagatan er vel greinileg yfir hálsinn. Á Dauðsmannsbrekkum verður hún ógreinileg á melum, en auðvelt er að sjá hvernig hún hefur legið á ská niður malarbrekkuna.
Þá var Sandfellsvegi fylgt upp að Sandfelli. Um er að ræða unnin veg, en sjá má gömlu götuna á stuttum köflum beggja vegna hans. Veginum er auðvelt að fylgja. Tvær vörður eru á brúnum austan hans. Sandfellstjörn verður á hægri hönd sem og Sandfellið. Utan í því austanverðu eru gatnamót Svínaskarðsvegar. Neðar hverfur gatan undir veginn, en beygir síðan til hægri ofan við Vindássel. Þaðan í frá er auðvelt að fylgja henni niður á kirkjugötuna gömlu.

Á næstunni er fyrirhuguð ferð upp frá Fossá inn á Sandfellsveg. Ætlunin er að fylgja honum upp að dysinni, rekja síðan Gíslagötu áfram yfir í Seljadal og ganga Svínaskarðsveginn upp að Sandfelli og niður að Vindáshlíð.

Sandfellstjörn

Þegar komið var niður að Vindáshlíð blasti húsakostur KFUMogK við. Einn þátttakenda, fyrrum félagsmaður og síðar starfsmaður, lýsti kirkjunni með eftirfarandi hætti: „Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar Sandfellfrá árinu 1878. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu. Tveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina.
VindáshlíðÍ miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“. Kirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð.
KirkjanInni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð. 

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Gunnar Kristjánsson – Í Kjósinni.
-Örnefnalýsing fyrir Vindás.
-Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.Dys

Gíslagata

Stutt var síðan Kirkjugatan milli Reynivalla og Fossár var rakin. Nú var ætlunin að fara um Gíslagötu austar á Reynivallahálsi, upp á Selgötuna (Sandfellsleið), fylgja þeim niður í Fossárdal og ganga síðan til baka eftir Svínaskarðsvegi, hinni fornu þjóðleið, að Vindáshlíð.
GíslagataÁ hálsinum eru Dauðsmanns-brekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna, þar sem hún kemur inn á og yfir Sandfellsveg, er dys.
Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lýsti Gíslagötunni þannig áður en lagt var af stað: „Gíslagatan sést þegar komið er upp úr lúpínubreiðu neðan við Gíslalæk og ofan við Gíslalækjardrög. Gatan er skágengin upp hlíðina vestan  við gilið, sem lækurinn rennur um. Fyrst fer hún frá gilinu, en síðan aftur nær því. Kemur hún upp á hamrana um skarð, sem þar er nokkru frá gilinu. Þegar upp er komið er upp á brúnir er varða. Við hana liggur gatan til norðurs, en beygir síðan aftur til austurs uns hún kemur inn á Sandfellsveg í Dauðsmanns-brekkum. Gengið til austurs inn á Sandfellsveg. Hann liggur þar til norðurs. Þegar veginum er fylgt beygir hann fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þá eru Dauðsmannsbrekkur á hægri hönd en ekki vinstri eins og sýnt er á landakortum. Í þessum beygjum, við gatnamótin, er Dysin.
Gíslagata á að vera greinileg þegar upp úr drögunum er komið ofan við gilið. Þá er Sandfellsvegurinn vel greinilegur. Ekki eiga að vera vörður við  hann utan þeirrar er ég nefndi. Þá er Svínaskarðsvegurinn vel greinilegur. Hafa ber í huga að Gíslagata hefur ekkert með Sandfellsveginn að gera. Hún var leið á milli Gíslholts og Seljadals, en gatan heitir eftir Gísla Einarssyni, bónda á báðum stöðum, síðar í Seljadal þar sem hann bjó á árunum 1897 til 1921. Þetta er leiðin sem Gísli og hans fólk fór á millum bæjanna. Gísli var afabróðir minn. Afi minn hét Guðbrandur Einarsson frá Hækingsdal. Þar er skyldleikinn kominn milli ábúandans í Seljadals og ábúenda í Hækingsdals.“

Varða

Ábendingar Guðbrands komu sér vel því bæði er búið að sá lúpínu þar sem gatan liggur af fyrrum kirkjugötunni frá nálægum bæjum að Reynivöllum og auk þess hefur gatan verið lítið farin í seinni tíð af öðrum en hestamönnum. Fyrir þá, sem vanir eru að rekja gamlar götur, er gatan augljós upp fyrir brúnirnar. Þar taka við gróningar, en ofan þeirra má sjá hvar gatan liggur á ská til austurs, yfir Gíslalæk ofan gilsins og upp á brún, sem þar er vörðuð. Við vörðuna beygir gatan til norðurs, en hins vegar er auðvelt að villast af henni áfram til austurs því kindagata liggur þar af henni áleiðis að Sandfellstjörnum og nágrennisgróningum.
GíslagataEf götunni er rétt fylgt héðan í frá verður hún auðlesin allt yfir Dauðsmannsbrekkur og að dysinni, sem þar er við Sandfellsveginn. Við götuna eru þrjár vörður og auk þess tvö vörðubrot. Gatan virðist af umsögninni ekki mjög gömul, en er samt sem áður orðin af fornleif skv. skilgreiningu þjóðminjalaga.

Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum lýsir leiðunum þannig:

„Gíslagata

DysinÖnnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.

Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna er dys. Í örnefnaskrá segir: „Dauðsmannsbrekkur, talið var að einhvern tíma hefði fundizt þar látinn ferðamaður“. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.“

Gíslagata

Gíslagata – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.” 

Séra Gunnar lýsir einnig Svínaskarðsvegi:
„Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.

Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmanns-brekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.

GöngusvæðiðLeiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.

Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.

Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.

Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.“

SandfellsvegurGíslagatan er vel greinileg yfir hálsinn. Á Dauðsmannsbrekkum verður hún ógreinileg á melum, en auðvelt er að sjá hvernig hún hefur legið á ská niður malarbrekkuna.
Þá var Sandfellsvegi fylgt upp að Sandfelli. Um er að ræða unnin veg, en sjá má gömlu götuna á stuttum köflum beggja vegna hans. Veginum er auðvelt að fylgja. Tvær vörður eru á brúnum austan hans. Sandfellstjörn verður á hægri hönd sem og Sandfellið. Utan í því austanverðu eru gatnamót Svínaskarðsvegar. Neðar hverfur gatan undir veginn, en beygir síðan til hægri ofan við Vindássel. Þaðan í frá er auðvelt að fylgja henni niður á kirkjugötuna gömlu.

Á næstunni er fyrirhuguð ferð upp frá Fossá inn á Sandfellsveg. Ætlunin er að fylgja honum upp að dysinni, rekja síðan Gíslagötu áfram yfir í Seljadal og ganga Svínaskarðsveginn upp að Sandfelli og niður að Vindáshlíð (sjá væntanlega lýsingu HÉR).

Sandfellstjörn

Þegar komið var niður að Vindáshlíð blasti húsakostur KFUMogK við. Einn þátttakenda, fyrrum félagsmaður og síðar starfsmaður, lýsti kirkjunni með eftirfarandi hætti: „Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar frá árinu 1878. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu.
SandfellTveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“.
VindáshlíðKirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð.
KirkjanInni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð.
Sjá einnig Kirkjugötuna yfir Reynivallahálsinn HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Gunnar Kristjánsson – Í Kjósinni.
-Örnefnalýsing fyrir Vindás.
-Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.

Varða

 

Hrútadalur

Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Miðdal, fremsta bæ Kjósarinnar:
„Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; Middalur-21fjórða stendur á túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Miðdalskot.“ Ekki er getið um selstöðu frá Miðdalsbæjunum í Jarðabókinni. Fjölmargar selstöður eru þó þekktar á Reykjanesskaganum sem ekki er getið í þeirri ágætu bók. Annað hvort hafa þær verið aflagðar fyrir skráninguna (sem reyndar fór fram í Kjósinni „17. júní og og næstu daga árið 1705“, eða voru upp teknar upp síðar. Einn var sá dalur í sveitinni, sem FERLIR hafði ekki gaumgæft, en það er Hrútadalur inn af Miðdal. Stefnan var tekin þangað, m.a. til að ganga úr skugga um hvort þar gætu leynst minjar eður ei.
Miðdalur mun áður hafa heitið
Mýdalur [Mýrdalur]. „Mýrdalur heitir jörðin í ævagömlum máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá c. 1220 (Fbra. I), en Mýdalur í máldaga frá c. 1269 (Fbrs. II, 64 – (Þessi tilvitnun á einmitt við Mýdal i Kjós, en ekki Miðdal í Mosfellssveit (sbr. registur við Fbrs.jII)), Vilkinsmáld. og síðan optastnær, þar á meðal í A. M. Þykir þvi rétt að halda því nafni, þótt Mýrdalur sé eldra.“
Hrutadalur-22Áður en haldið var upp í hinn hömrumgirta Hrútadal var bóndinn í Miðdal tekinn tali. Aðspurður um selstöðu frá bænum spurði hann á móti hvað selstaða væri. Að því útskýrðu sagðist hann ekki minnast þess að slíkt útgerð hafi verið frá Miðdal. Hins vegar væru tóftir skammt ofan bæjarins er bentu til þess að þar hafi verið hálfkirkja og jafnvel grafreitur. Ofan fjallsbrúnarinnar þar efra væru tóftir er með góðum vilja mætti greina sem slíkar. Líklega hefði þar verið sauðakofi eða beitarhús. Það væri þó vel þess virði að skoða nánar. Ekki kannaðist hann við minjar í Hrútadal. Aðspurður um staðsetningu Miðdalskots benti hann á stað þar sem heimkeyrslan að bænum kemur á þjóðveginn skammt norðvestar. Sagði hann að þar hefðu áður verið tóftir, en þær hefðu verið jafnaðar út þegar vegurinn var lagður og túnið sléttað. Bóndinn í Miðdal var bæði vinsamlegur og áhugasamur um efnið, ekki síst þegar upplýst var að FERLIR væri ekki að skrá fornleifar á svæðinu heldur væri umleitunin fyrst og fremst fyrir forvitninnar sakir.
Neðst í Hrútadal vottar fyrir hleðslum stekks. Ekki eru aðrar minjar þar sýnilegar. Gengið var alveg upp í dalinn til að sannreyna fyrirliggjandi vitneskju.
Hrutadalur-23Efst í dalnum var sest niður og rifjuð upp eftirfarandi frásögn af atburðum er áttu sér stað í Miðdalskoti fyrrum:
„Kjósin er sveit, sem leynir á sér. Laxá rennur fram til sjávar um megindalinn, breiða byggð og búsældarlega, en út frá honum ganga suður í Esjuna aðrir dalir smærri, umgirtir dökkum og skuggalegum hamraveggjum og snarbröttuna hlíðum. Fannir, sem liggja lengi sumars í dalbotnum og fjallaskálum norðan í Esjunni, gera svip þessara afdala enn hrikalegri. Ósjálfrátt flýgur manni í hug, að hér hafi verið heimkynni trölla í forneskju. Einn þessara dala, sem gengur suður úr Kjósinni utanverðri, liggur í stórum sveig að fjallabaki, og horfir annað mynni hans vestur til Hvalfjarðar. í miðjum þessum dal, sem sker hálendið þannig sundur, er bærinn Miðdalur í kreppu hárra fjalla. Þar sér ekki sól fimmtán vikur í skammdeginu, ,og er þó enn skemmri sólargangur á sumum öðrum bæjum í Kjósinni, þeim sem í hrikalegustu nágrenni eru við suðurfjöllin. Annar bær, sem nú er kominn í eyði, var í grennd við Miðdal. Þar hét Miðdalskot, Ekki munu dalbúarnir hafa verið miklir efnamenn að jafnaði, en börðu furðanlega ofan af fyrir sér, og margir voru grónari við torfuna en títt var um þetta leyti. Búin voru smá og húsakynnin lágreist, en fólkið var þrautseigt og æðrulaust. Á síðari hluta vetrar fóru þeir karlmenn, sem heimangengt áttu, til sjóróðra á Seltjarnarnesi, Álftanesi og Vatnsleysuströnd, en kvenfólk og unglingar sinnti bústofninum heima og beið vorkomunnar, sem æðioft dróst svo lengi, að skörð voru komin í hjörðina, þegar sólin tók að ylja hlíðarnar og grænar nálar, hlaðnar frjómagni, gægðust loks upp úr moldinni.
Hrutadalur-24Í kringum 1820 bjó í Miðdal roskinn bóndi, Þorsteinn Þórðarson að nafni. Var hann maður ólæs og lítt kunnandi og enginn skörungur. Hann var ekkill og hafði misst tvær konur sínar, Þuríði Björnsdóttur og Guðrúnu Gissurardóttur, en bjó nú með uppkomnum börnum sinum. Heima hjá honum voru enn Björn og Kristín, bæði börn fyrri konunnar, og Eyjólfur, sonur seinni konunnar. Kristín hafði alizt upp frá frumbernsku hjá frænda sínum einum, Árna bónda Jónssyni á Sandi og í Eyjum, en farið til föður síns að Miðdal, er hún var um tvítugt. Nú var hún fyrir innan stokk hjá þeim feðgum, komin talsvert á þrítugsaldur. Kristínu í Miðdal er svo lýst, að hún var lág vexti, en mjög þrekin, hárið jarpt og sítt, augun stór og blágrá á lit, nefið meðalstórt og þykkt að framan, kinnbeinin há og munnur nokkuð stór, hakan breið og framstæð, hendur breiðar, hörundið fölt, en þó nokkur dreyri í kinnum. Björn, bróðir hennar, sem var á svipuðum aldri, var nokkru hærri vexti og mjög grannur, hárið dökkjarpt og hrokkið og skörin klippt í kring, augun blágrá, nefið hátt og breitt að framan, andlitið stutt og kringluleitt og litaraftið dökkt, kinnbein nokkuð há og skeggið lítið sem ekkert.
Í Miðdalskoti bjó annar ekkill, Björn Hallvarðsson, og hjá honum var uppeldispiltur, honnum vandabundinn, Ásmundur Gissurarson að nafni. Hann var um tvítugt. Ráðskona Björns hét Sólveig og var systir bónda. Ásmundur í Miðdalskoti lagði nokkurn hug á Kristínu, en fyrirstaða virðist hafa verið af hennar hálfu. Hefur pilturinn í Kotinu sjálfsagt verið örsnauður, en einhver efni í garði í Miðdal.
Svo gerðist það seint á engjaslætti sumarið 1819, að Kristín varð léttari að barni, og vissu menn eigi, hver vera mundi faðir þess. Morguninn eftir að barnið fæddist, gaf Björn í Miðdal sig á tal við Ásmund og kallsaði það við hann, hvort hann vildi ekki gangast við faðerninu. Ekki gat hann þess, hvers vegna hann bað Ásmund að gangast við barninu, en sagði þó, „að það stæði illa á því“. Ásmundur tók lítt undir þetta. Þó vísaði hann ekki tilmælunum með öllu á bug, enda var að því vikið um leið, að hann gæti fengið Kristínu fyrir konu. Þegar Þorsteinn, faðir Kristínar, færði þetta einnig í tal við hann, vísaði hann til Björns, fóstra síns, og Sólveigar, systur hans. Ræddi Þorsteinn síðan við þau í tómi, og að því samtali loknu töluðu þau við Ásmund, og hvöttu þau hann heldur til þess að víkjast vel við bón nágrannans og „hjálpa upp á karlinn kærleikans vegna“. Þegar séra Gestur Þorláksson í Móum spurði svo Ásmund, hvort hann vildi meðganga barnið, svaraði hann: „Það held ég.“ Var síðan aldrei á þetta minnzt, hvorki fyrr né síðar, enda dó barnið eftir fáar vikur. Engu var vikið að Ásmundi fyrir þennan greiða, og ekki varð honum fremur ágengt með Kristínu eftir en áður, þrátt fyrir þann ádrátt, sem hann hafði fengið. Þóttist hann frekar kenna kulda en hlýju hjá Miðdalssystkinum, en þó einkum henni. Ekki er ljóst, hvort orðrómur barst út um það, að barnið hefði verið rangfeðrað, en ekki er það ólíklegt, þar sem það var á vitorði fólks á tveimur bæjum. Menn kunnu engu betur að þegja yfir leyndarmálum þá en nú. Enginn reki var samt gerður að því að grafast fyrir um sannleikann.
Nú liðu nokkur misseri. Annan dag páska veturinn 1822 bar gest að garði í Miðdal. Var það vinnumaður af Kjalarnesi og hét Torfi Steinólfsson.
Miðdalsmenn voru ekki farnir til róðra, og voru þeir feðgar allir úti í heygarði eða annars staðar við gegningar, en Kristín var í baðstofu og virtist sjúk. Kvöld var komið og rokkið í baðstofunni. Heyrði gesturinn, að stúlkan stundi og hljóðaði lítið eitt, líkt og hún hefði létta jóðsótt. Að nokkurri stundu liðinni snaraðist Björn, bróðir hennar, inn í baðstofuna, og um svipað leyti datt allt í dúnalogn. Nokkru síðar komu þeir Þorsteinn og Eyjólfur inn, og svaf fólkið af nóttina, eins og ekkert hefði í skorizt, og ekki var neinnar hjálpar leitað afbæjar.
Hrutadalur-25Litlu síðar barst sá kvittur bæ frá bæ um Kjós og Kjalarnes, að Kristín í Miðdal hefði alið barn á laun og borið út, og fylgdi sögunni óviðfelldinn orðrómur um faðerni þess. Þegar séra Þorlákur Loftsson í Móum, sem nýlega var orðinn prestur í Kjalarnesþingum, heyrði þennan orðróm hjá sóknarbörnum sínum, skrifaði hann Lofti hreppstjóra Guðmundssyni á Neðra-Hálsi og fór þess á leit við hann, að hann færi að Miðdal og krefðist þess að sjá barnið. Innti Loftur hreppstjóri þetta erindi röggsamlega af hendi, færði presti burðinn út að Móum, en hann lét sýslumanninn, Ólaf Finsen, son Hannesar biskups, vita, hvernig komið var.
Talsverðar embættisannir hvíldu á sýslumanni um þetta leyti, en eigi að síður hélt hann með föruneyti sínu upp að Miðdal, svo skjótt sem við varð komið. Var heimilisfólkið yfirheyrt, og kannaðist það allt við, að Kristín hefði alið ófullburða fóstur, sem það vissi, að Björn var faðir að. Kristín og Björn gengust undir eins við þessu og könnuðust við burðinn, sem hafður var til sýnis við yfirheyrsluna. Kvaðst Kristín hafa alið burðinn lífvana að hálfnuðum meðgöngutíma og hefði enginn verið í baðstofunni, þegar það gerðist, nema Torfi Steinólfsson, en Björn hefði komið að, í sömu andrá og hún varð léttari. Engir höfðu séð fóstrið, nema Kristín og Björn, er sagðist hafa grafið það í moldina undir rúmi móðurinnar. Nú rifjaðist líka upp fyrri barneign Kristínar, en Björn neitaði, að hann hefði átt það barn. Kristín bar einnig á móti því og vitnaði til prestsþjónustubókarinnar: „Kirkjubókin útvísar það!“
Að þessu dagsverki loknu skipaði sýslumaður Birni bónda í Miðdalskoti og Ólafi bónda Andréssyni í Eilífsdal að taka við systkinunum og hafa þau í varðhaldi um nóttina, en flytja síðan. snemma næsta morguns að Hálsi til Lofts hreppstjóra, sem ekki hafði komið að Miðdal þennan dag sökum lasleika.
Hrutadalur-26Daginn eftir setti sýslumaður rétt að Neðra-Hálsi, og var þá sjálfur hreppstjórinn kvaddur til þess að segja frá hlutdeild sinni í því, að þetta komst upp. Loftur Guðmundsson var röggsamur bóndi og dugandi hreppstjóri og líklega sízt eftirbátur annarra starfsbræðra sinna. Þess vegna er frásögn hans af Miðdalsförinni dágóð mynd af því, hvernig hreppstjórar á þessum árum brugðust við, þegar þeim bar að höndum einhvern meiri vanda en að ráðstafa hreppakerlingum eða byggja út kotkörlum. Ekkert skorti á, að hann ræki erindi sitt af dugnaði, og milli línanna má lesa talsverð drýgindi yfir því, hvernig hann tók á málinu.
Óneitanlega er lýsing hans á tiltektum sínum allhláleg, þrátt fyrir alvöru heimsóknarinnar að Miðdal. En það hefur hreppstjórinn áreiðanlega ekki fundið. Birtist frásögnin hér orðrétt, svo að hún missi einskis í: „Þriðjudaginn fyrstan í einmánuði fór ég af stað að Miðdal af tali fólks um þetta tilfelli, einsamall í versta veðri, og undir eins og ég kom þangað, sagðist ég vera kominn einn og skyldi Kristín Þorsteinsdóttir láta í ljós við mig, það sem hún hefði fætt, og ég krafðist þess af henni að láta það til, svo yel sem af Birni Þorsteinssyni, hróður hennar, að hann segði ’til þess. Þá kom tregða á og stanz. Ég varð þá alvarlegri við þau, og sagðist ég lofa þá járnunum — ekki á morgun, heldur hinn daginn. Svo var kveikt Ijós, og Björn för þá að grafa til undir rúmi Kristínar — ég má segja rúmlega hálft annað kvartil niður í gólfið. Björn kom þá með fóstrið úr gryfjunni og fylgjuna áfasta við og lagði upp á grafarbarminn og sagði: „Þarna er það!“ Undir eins fer ég með hnén nærri á gólfið, tek þetta upp í lúku mína og slít fylgjuna frá fóstrinu og segi við Björn: 

Hrutadalur-27

„Láttu þetta ofan í gryfjuna aftur!“ Svo stend ég upp með þetta og skoða fóstrið. Sá ég þá á því, að það voru á því augnatóftir, nef og enni í mannslíki. Heldur sýndist mér vera eins og kambur eða röst upp úr höfðinu, en afturdregið frá hausnum með fjórum löppum. Á þeim urðu þrjár klær, eftir sem mér sýndist. Ég fór svo með fóstrið rétt að andlitinu á Kristínu og krafðist af henni að segja mér það sannasta um það, hvort þetta væri það, sem hún hefði fætt og ekki annað, og svaraði hún því óhikað: Já. Tók ég svo stokk og lét það þar í, vafið innan í ull. Fór ég svo þaðan út að Móum með það til prestsins, séra Þorláks Loftssonar, og afhenti honum það og beiddi hann að láta það ei forberast, svo að fleiri gætu séð það og hann gæfi það öðrum til kynna.
Enn á ný sýndu valdsmennirnir móðurinni fóstrið, sem nú var búið að reiða fram og aftur um héraðið, og jafnframt skoðuðu þeir það sjálfir, ásamt réttarvitnunum. Kvaðst Loftur þekkja það aftur, þótt það væri) orðið samanskroppið og visið og brotnar af því klærnar þrjár, sem hann hafði séð á því. Nú þótti allt fullrannsakað, er vék að þessum barnsburði, og var því farið að leita að föður fyrra barnsins, sem Kristín hafði átt. Ásmundur Gissurarson harðneitaði því, að hann hefði átt það, enda meðgekk Miðdalsfólk, að Björn hefði líka verið faðir að því. Þegar Þorsteinn, faðir systkinanna, var að því spurður, hvers vegna hann hefði ekki stíað systkinunum í sundur, þegar svo var komið, kvaðst hann að sönnu hafa ýjað að því við Kristínu, en hún hefði talið það þarflaust, því að þau myndu ekki hrasa í annað sinn. Vegna fávizku sinnar og dugnaðarleysis hefði hann ekki leitað aðstoðar annarra til þess að skilja þau. — Gruna má þó, að hitt hafi eins miklu valdið, að karl hafi horft í það að missa annaðhvort systkinanna frá bústörfum.
Hrutadalur-28Loks var málið tekið í dóm. Pétur Pétursson, bóndi í Eyjum, var skipaður sækjandi, en Gísli Skæringsson, bóndi á Hvítanesi, verjandi. Lítið mun hafa orðið um sókn og vörn, enda var slíkt að jafnaði formsatriði, sem litlu eða engu breytti. Var dómur kveðinn upp og Björn og Kristín talin hafa fyrirgert lífi sínu. Þessum líflátsdómi skyldi þó vikið undir atkvæði æðri dómstóls og leitað konungs náðar. Þorsteini var gert að greiða tuttugu ríkisdali í sekt til Kjósarhrepps. Nokkrum vikum síðar staðfestí landsyfirréttur þennan dóm, að öðru leyti en því, að lausafé systkinanna skyldi falla til konungs og sekt Þorsteins var lækkuð. í tíu dali. Um haustið staðfesti hæstiréttur dóm landsyfirréttar. Horfði nú illa fyrir systkinunum frá Miðdal. Þó var ekki öll von úti. Enn hafði ekki reynt á konungsnáðina. Varla hefur þess þó verið vænzt, að þau systkinin slyppu við langa fangelsisvist í Kaupmannahöfn. En að þessu sinni var óvenjulega skjótt við vikizt í stjórnarskrifstofunum dönsku. Konungur náðaði systkinin þegar þetta sama haust og akvað, að hýðing, þrisvar sinnum tuttugu og sjö vandarhögg, skyldi koma í stað dauðarefsingarinnar. Það var vissulega nokkuð ströng refsing, ef hún var harkalega á lögð, en tók þó fljótt af. Þorsteinn mun hafa hrökklazt frá búskap í Miðdal um þetta leyti eða litlu síðar. En margt af því fólki, sem þarna kom við sögu, bjó síðar á Kjalarnesi og í Kjós. Þorsteinn dó úr ellilasleika hjá Eyjólfi, syni sínum, er gerðist bóndi á Mora-Stöðum. Ásmundur Gissurarson bjó lengi í Stekkjarkoti á Kjalarnesi, öðru nafni Bjargi, skammt frá Saurbæ. Björn bjó í Snússu og átti að konu — bróðurdóttur hreppstjórans, er sótti hann heim í Miðdal á útmánuðum 1822.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Helztu heimildir: Dóma- og þingabók Gullbringu- og Kjósarsýslu, prestsþjónustubækur og sóknarmanntöl Kjalarnesþinga og Reynivalla Annál 19. aldar, Landsyfirvéttardómar.)

Heimild:
-Jarðabók ÁM og PV 1703, III. bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 385.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 37. árg., 1923, bls. 34.
-Frjáls þjóð, 8. árg 1959, 4. tbl. bls. 4 og 7.

Miðdalur

Miðdalur og Hrútadalur – kort.