Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot.
Reynivellir
Beneficial. 30 hdr. 1847. „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.) Staður, dýrleiki ekki gefin upp 1705 vegna þess að þá var jörðin í eyði eftir snjóflóð sem féll um 1699. Þá var henni skipt upp í 3 býli, Nýjabæ, Austurkot og Vesturkot sem öll voru í byggð.
Kirkjunnar á Reynivöllum er fyrst getið í máldaga Ingunnarstaðakirkju og kirkjunnar í Eyjum: [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ DI I, 266.
[1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reynevollom;“ DI I, 267. c. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Biskupasögur I, 340.
1200: Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls biksups. DI XII, 9. Í máldaga kirkjunnar frá 1352 segir: „a kirkian. allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. kiosar sker. fiogara tiga sauda beit j mula lannd. lamba hofnn j eilyfsdal. ellefu tigum. ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. er annar kastar skurdur j eyiarlannd. þridie til valldastada. xij rossa beit j þufu lannd. vj j eyrar lannd.“ DI III, 70-71. Næsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá um 1367: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann.“ DI III, 219. Í Vilcinsbók frá því um 1397 segir: „a heimaland allt. Sornsland. þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnada.“ DI IV, 116-117. Í mádlaga Eyjakirkju frá 1397 segir: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. paskadag oc kyndilmessv.“ DI IV, 116. Í máldaga Ingunnarstaðakrikju frá því 1397 segir: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia,“ DI IV 118. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1478 segir: „Mariukirkia a reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. þridiunng j laxfosse. siofarfoss allann. kiosarsker. bollstædijnngahyl. ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. kastar skurd j vinndas lannd. annan j þorlaksstada lannd. þ[ridia] j ualldastada lannd. tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. xij hrossa beit a veturinn j þufu land. vj hrossa beit [j] eyrar lannd.“ DI VI, 178-79. 1486: Bréf um kirkjuna. DI VI, 586-87. 1575: Máldagi kirkjunnar. DI XV, 632-633. 1847: „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.). Einnig var um tíma búið á Reynivallaseli og á Gerði en þar var byggt timburhús yfir vinnumann um 1930.
1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð, þau eru sjálum heimastaðnum fylgdu, og mikinn part eyðilögð, og er jafnan voði fyrir meiri skaða, so að ekki dirfast menn bygð að setja í hinu forna bæjarstæi síðan snjóflóð 1699 yfirfjell staðinn, braut hús, deyddi prestinn og 6 manneskjur aðrar, en beinbraut og limlesti þá, sem þó urðu með stórerfiði úr snjóflóðarústunum með mannsöfnuð upp mokaðir og náðust lífs, en þó að bana komnir. Engið, sem þó er bæði gott og mikið, skemmir stundum Laxá með grjóti og aur, þar með eru foruð á engjavegi, so að ekki verður tilsókt nema brúkað sje. Landþröngt er, so að ábúendur verða engið að beita, því að heimahagar eru mikinn part fordjarfaðir af skriðum.“ JÁM III, 425. 1847: „Hve mikinn fénað prestsetrið Reynivellir framfæri, skýrir prestur eigi frá, en segir, að 5 kúg. fylgi heimajörðunni, og að túnið sé undirorpið skemmdum af snjóflóðum og aurskriðum, ef eigi árlega er við gjört með mannafla og kostnaði. Staðurinn á rétt til móskurðar og skóg til kola á Vindási, svo og skógarreit í Reynivallatúngum í Skoradal, en óvist var (1839) hvort hann á laxveiði í Laxá, sem eigi heldur í mörg undanfarin ár hefir verið notuð.“ JJ,
Reynivellir (eldri bær)
Reynivellir.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir m.a.: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldreiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar ríðir fluttar. Er í staðinu þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja, gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Elsti bærinn á Reynivöllum var nálega 30 m ofan við gömlu kirkjuna fast norðaustan við kirkjugarðsvegginn. Snjóflóð féll á bæinn 1699 og eftir það var hann fluttur um 200 m til SSA um 50 m neðan og VSV við núverandi íbúðarhús. Bærinn var á lágum, grasigrónum og grýttum hæðarrana norðaustan við kirkjugarðinn sem hallar um 5° í suðvestur. Lækur rennur rétt norðvestan við hólinn og kirkjugarðinn. Ofan við hæðina tekur við grasigróin brött brekka svo að bærinn hefur verið efst í heimatúni. Í Kjósarmenn segir m.a.:“… segir Fitjaannáll þannig frá þeim atburði [snjóflóði 1699], og getur jafnframt síra Odds: „Þann 15. janúar (1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið.[…] Síðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli [Nýibær] skammt frá.“ Þar sem bærinn stóð er mjög þýft og grýtt en engar tóftir sjást. Greina má lága hæð norðaustan við kirkjugarðinn sem er um 40×40 m að flatarmáli en innan við 1 m á hæð.
Kirkjugarður (kirkja)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldeiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar tíðir fluttar. Er í staðinn þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Kirkjan á Reynivöllum stóð áður inni í kirkjugarði, um 190 m NNV við nýja bæinn 003 en rétt suðvestan við elsta þekkta bæjarstæðið á Reynivöllum. Kirkjan, sem byggð var 1859 (004), var færð úr garðinum (fyrir 1917), í um 100 m til suðausturs þar sem hún stendur nú. Garðurinn og kirkjan snúa bæði VNV-ASA eða samsíða dalnum. Garðurinn er í aflíðandi halla til suðurs. Hann er stór og í honum fjöldamargar grafir. Garðurinn hefur greinilega verið stækkaður til suðurs og líklega til vesturs líka. Vírgirðing er umhverfis garðinn. Að norðan (norðaustan) er steinsteyptur kirkjugarðsveggur en að austan (suðaustan) þar sem aðkoman er að garðinum er grjóthlaðinn garður sem greinilega hefur nýverið verið endurhlaðinn. Garðurinn er nú (2003) um 55 X 60 m að stærð. Merki fjölmargra grafa sjást þó garðurinn hafi verið sléttaður að hluta. Elstu merktu leiðin eru frá því snemma á 19. öld en örfá ómerkt leiði sjást. Mikið hefur verið gróðursett í garðinn af ösp, birki og greni. Ekki er mjög greinilegt hvar kirkjan stóð en auður blettur er þó í garðinum, nálega í miðjum gamla garðinum. Er líklegast að kirkjan hafi verið þar. Bletturinn er um 15 m sunnan við við norðurhlið en 20-30 m vestan við austurhlið. Snemma á 20. öld lá leiðin heim að bænum fast neðan við kirkjugarð og kirkju en rétt ofan við bæ. Vegurinn lá áður um Kirkjustíg. Kirkjustígur byrjaði „vestur við Kipp á Hjallholti [sem er holtið upp af kirkjunni] heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í
krókum,“ segir í örnefnaskrá. REYNIVELLIR Í KJÓS (K) -Maríu [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ Máld DI I 266 [Ingunnarstaða]. [1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom,“ Máld DI I 267 [Eyja]. C. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Jarteinabók 1200, Bsk I, 340. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9. 1352: „Anno domini M°. Ccc°. L°. Secundo a þridia are biskups doms virduligs herra gyrdiz med gudz näd biskups j skalhollte so sem hann kom a[t] reynevollum j sinni visitacione reiknadist suo mikid gotz þad er kirkian ätte. Jnn primis vij manna klædi med hoklum. Iij kalekar. Þriar kanntara kapur. Ein med pell. Avnnur ed lynvef. Þridia med salun. Vj. Anntependia til vtalltara. Fimm anntependia til haalltaris. Vj. Alltarisdukar. Iiij. Sloppar. Tabulum fyrir alltare oc brijk medur. Smelltur kross oc skrijn. Glodarker. Baksturjarn. Glodaker elldbere. Vijgdz vatz ketill. Iij kerttistikur. Ein ampulla. Ein sacrarij munnlog. Tiolld vmhuerfi kirkiu. Og ad auk steintialld oc hrijnnga refil. Eitt fonntklædi oc skirnarsär. Mariu skript oc nicholas skript og gRadulae cum sequencijs. Iij lesbækur j are per anne circulum de sanctis oc de tempore. Songbokur per anni circulum tuær Euanngeliorum. Martyrjlogium. Capituliarius oc enn nockrar fornar bækur þær sem litit skolu. Fiorar samhrijngiur. Ij smaklockur oc ein vtiklocka. A kirkian. Allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. Þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. Kiosar sker. Fiogara tiga sauda beit j mula lannd. Lamba hofnn j eilyfsdal. Ellefu tigum. Ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. Er annar kastar skurdur j eyiarlannd. Þridie til valldastada. Xij rossa beit j þufu lannd. Vj j eyrar lannd. Seautian kyr. Xij ær. Viij ross. Ij hundrat j metfie. Ij hunndrad j vidum. Fiordung vax. Ij presta skylld og diakns.“ Máld DI III, 70-71.
[1367]: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. Þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann les Vilchinzbok þui þetta ber samann,“ Hítardalsbók, DI III, 219.
1397: „a heimaland allt. Sornsland. Þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. Tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnadal [+kastarskurði, beit, sauðahöfn, skjól í helli, lambarekstur, hrossabeit] er aa Þessu fie tveggia presta skylld og diakns. Portio medann sira Finnur hiellt halftt atta hundrad. Enn medann sira Vigfus hiellt ccc. Oc xiiij aurar. Jtem hefur sira Finnur lagtt til kirkiunnar halft Þridia hundrad,“ Máld DI IV, 116-117.
1397: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. Paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti,“. Máld DI IV, 116 [Eyja]. 1397: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef Þeir vilia.“ Máld DI IV, 118 [2 merkur, Ingunnarstaða]. [1478]: „Reyniveller j kios. Mariukirkia a
reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. Þridiunng j laxfosse. Siofarfoss allann. Kiosarsker. Bollstædijnngahyl. Ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. Kastar skurd j vinndas lannd. Annan j þorlaksstada lannd. Þ[ridia] j ualldastada lannd. Tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. Xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. Lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. Xij hrossa beit a veturinn j þufu land. Vj hrossa beit [j] eyrar lannd. Jtem þetta a hun jnnan sig et cetera. Jtem fiorar merkur vax. Jtem vij kyr oc eina kuijgu tuæuetra. Ix ær oc hrut tuæuetrann. Ij hesta er uoru metnir fyrir iij merkur bäder samann. Ij sænngur lettar. Halfa þridiu vod. Einn pott heilann oc annan brotinn. Eina munnlog sterka. Viij fiordunnga ketil oc annann vonndann. Eitt tinfat. Iij trefot.“ Máld., DI VI, 178-79 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 121a-b – vitnað er í þannan máld. Í virðingargerð frá 2.11.1486 og mun hann því vera frá seinni hl. 15 aldar]. 2.11.1486: „Bref wm kirkiugiord aa Reyneuollum. Þath giorer ek arne prestr snæbiarnarson officialis heilagrar skalholltzkirkiu j mille huitar j borgarfirde ok helkunduheidar skalholltzbiskupsdæmis godum monnum viturligt med þessu minu opnv brefi at þa er ek reid j mitt profastdæme nidri wm gullbringu kom fyrir mik sira nikulas arnason sem þa hellt Reynevallar stad j kios. Beiddj hann mic ok krafdj vpp aa laganna vegna at sia ar at kirkiunne ok stadnum er hann villdj standa
sinne kirkiu reikninigsskp. Kalladj ek til med mier sex skælega menn presta ok leikmenn. Hafdj hann latid giora kirkiuna ok stadinn þa hann tok med. Var þa kirkia giord fyrir þriu hundrut. Enn stadurinn fyrir fimm hundrut. Jtem giordum vjer þa kirkiuna fyrir tuttugu hundrut enn stadinn fyrir fimtan hundrut. Atti kirkian at vera med golfi ok beckium. Ok aull vnder hellu. Fell þa aptur seytian hundrut fyrir kirkiubota. Enn tiu hundrut fyrir stadarbota. Hier med lagdj adrgreindur sira nikulas kirkiunne. Tiu hundrut j bokum ok messuklædum. Jtem stod þa epter j porcio ok mortuaria tuttugu hundrut. Var fyrgreindr sira nikulas hier med aullungis kvittur wm allan fornan reikningsskap kirkiunnar aa Reyneuollum fra þui er hann tok stadinn ok framan til þess sem þa war komet. Skylldj þesse fyrr greind tuttugu hundrut leggiazt kirkiunne til jnnstædu æfinlega hier epter þui hun var litil adr. Skylldj þesse tuttugu hundrut lukazt j suo uordnum peningvm. Tiu malnytu kugilldi ok tiu hundrut j aullvm þarfligvm peningum fridvirtvm. Jtem var adr gomul jnnstæda vij kyr ok tuæutur kuiga milk. Ix ær tuæuetur hrutur ok .ij. Hestar firir iij. Merkr bader ok þath at auk sem skrifath stendr jnnan gatta. Ok til sannennda hier vm settj ek officialatus jnscigle fyrir þetta bref skrifath aa Reyneuollum j kios fimtudaginn næsta epter festum sanctorum omnium anno dominj. M°. Cd° lxxx° sexto.“ Virðing DI VI, 586-87 [Þjsks Bps Fasc. XII, 1, frumrit á skinni; AM Apogr. 2442]. 1575: Máld DI XV, 632-633. 26.2.1880:
Saurbæjarsókn lögð undir Reynivelli; (PP, 112) [lög].
Gíslagata (leið)
Gíslagata.
„Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins frá árinu 1985 í grein eftir séra Gunnar Kristjánsson segir: „Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til
norðurs yfir Hálsinn.“ Gíslagata lá upp á Reynivallaháls í norðaustur upp með Gíslholti og meðfram Gíslalæk á landamerkjum milli Reynivalla og Vindáss GK-347 um 2,2 km suðaustan við bæ 003. Gatan er ennþá mjög greinileg á hálsinum. Á þessu svæði niðri á jafnsléttu er skógræktargirðing og malarvegur. Hlíðar Reynivallaháls eru þarna lítt grónar og grýttar. Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg 356:026 ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt.
Seljadalur/Reynivallasel
Reynivallasel.
„[Björn Erlendsson] … Byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921. Kjósarmenn, 195-196. „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km. Frá bænum. Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel.“ Ö-Hækingsdalur, 9. „Þar var byggður lítill bær og fjenaðarhús … Er á Seljadal ágætt sauðfjárland, mýraflói og lyng og furðu hagsælt. Lítið tún var ræktað umhverfis þetta býli.“
Reynivallasel (sel)
Reynivallassel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.
„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í bókinni Kjósarmenn segir svo: „[Björn Erlendsson] … byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og
nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921.“ Bærinn Reynivallasel er í Seljadal um 4,7 km ASA við Reynivelli og um 2,8 km SSA við Fossá, í litlu dalverpi um 1 km SSA við mynni Seljadals og um 400 m austan við Seljadalsá við suðvesturrætur Hornafells.
Seljadalur er um 2 km langur, 0,5-1 km breiður og snýr norður-suður. Gengið er inn í dalinn að norðanverðu úr Fossárdal upp nokkuð brattar grasigrónar brekkur sem halla í 10-45° til norður. Seljadalur er vel grasigróinn og þýfður en á köflum er dalurinn nokkuð deigur á bökkum Seljadalsár, sérstaklega í dalnum vestanverðum. Seljadalsá liggur norður-suður um miðjan dalinn. Umfangsmiklar hálfgrónar skriður eru í dalnum austanverðum undir Hornafelli um 400 m sunnan við bæjarstæðið í Seljadal. Einnig var hægt að ganga yfir í dalinn miðjan að vestanverðu frá syðri landamerkjum Reynivalla um Gíslagötu. Umhverfis Reynivallaselsbæ er vel grasigróin þýfð brekka sem hallar í 5-20° til vesturs í norðvesturhlíð/rótum Hornafells.
Þegar gengið er inn í Seljadalinn að norðanverðu sést ekki til bæjarins fyrr en komið er 300-350 m inn í dalinn. Seljadalur er mjög grösugur en trúlega hefur ekki mikið verið gert af því að slétta tún á þeim tíma sem búið var í dalnum. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir: „Seljadalur dregur nafn sitt af seli sem var þar frá prestsetrinu á Reynivöllum. Tóft sem er alveg að hverfa er það eina sem minnir á selið. … Selið í Seljadal var byggt upp aftur að einhverju leyti því að í því var búið í nokkur ár, líklega frá því um 1870. Föðurbróðir Hannesar [Guðbrandssonar í Hækingsdal f.1897] bjó þar síðastur manna til ársins 1921.“ Í Innsveitum Hvalfjarðar segir Kristján Jóhannsson um Reynivallasel: „Rústirnar eru allmiklar og ekki auðvelt að ráða í hvernig húsaskipan hefur verið … Útihúsarústir eru skammt frá bænum, ögn ofar. Rétt norðan við bæjarhólinn er réttin og er hún mjög fallin.“ Eins og áður var sagt er bæjarstæðið í litlu grasigrónu dalverpi á milli tveggja lækjargilja að norðan og sunnan sem eru 1-2 m djúp og 0,5-4 m á breidd. Svæðið sem flestar tóftirnar á er um 100 x 80 m að stærð, snýr austur-vestur og hallar í 5-20° til vesturs. Tóftirnar eru vel grasigrónar en hleðslur standa að mestu nokkuð hátt þó þær séu sannarlega víða mjög signar. Þrjár tóftir og tvær þústir voru skráðar á svæðinu. Norðan við nyrðra lækjargil eru svo tvær tóftir til viðbótar utan svæðis.
Sel
Hækingsdalssel.
„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Vindás: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.“ Falleg seltóft er innst í suðausturenda Seljadals á austurbakka Seljadalsár, um 1 km sunnan við Reynivallasel. Tóftin er um 3,3 km NNV við Hækingsdalsbæinn en aðeins um 900 m NNV við mót landamerkja milli Hækingsdals, Vindáss og Seljadals. Á þessu svæði er grasigróinn árbakki Seljadalsár. Tóftin er vestan undir 2-3 m háum hól, 2-4 m í austur frá ánni þar sem hún rennur niður í Seljadal að SSAverðu. Tóftin er þrískipt, um 15×5-10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggir tóftarinnar eru um 2 m á breidd, 0,4-1 m á hæð og mjög grasigrónir. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar.
Vesturkot
Hjáleiga Reynivalla, í byggð 1705: „Vesturkot, þriðja býli, gömul hjáleiga.
Dýrleikinn óviss, telst með heimastaðnum.“ JÁM III, 424. Byggð lögð niður árið 1877 samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Péturson (bls. 194). Á túnakorti Reynivalla frá 1917 stendur um Vesturkot: „Túnblettur, grýttur sumstaðar og raklendur, ekki notaður.“
„Skammt fyrir utan bæinn að Reynivöllum er gil á merkjum móti Sogni. Það heitir Kotagil. Þar inn af heitir Vesturkot. Þar var býli austur frá gilinu,“ segir í örnefnaskrá. „Kotin voru tvö, Vesturkot og Austurkot. Austurkot var nokkru austan við Reynivelli. Það fór úr byggð fyrir aldamót. Vesturkot var fyrst nefnt Sólbrekka,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í bókinni Kjósarmenn segir um kotið: „Arnór Björnsson og fyrri kona hans Lilja Jónsdóttir tóku við búi í Vesturkoti af móður Lilju, og bjuggu þar 1857-1877, voru þau síðustu húsráðendur í Vesturkoti, við brottför þeirra var kotið lagt undir heimajörðina Reynivelli.“ Þar segir einnig: „Þessi bær var nefndur Sólbrekka 1753, en ekki hélzt það.“ Tóftir Vesturkots eru um 270 m NNV við Reynivelli, um 460 m NNV við Nýjabæ og um 95 m suðaustan við landamerkjagarð. Á þessu svæði er grasigróin, grýtt brekka sem hallar í 5-20° til suðvesturs, fast suðaustan við landamerki Sogns og Reynivalla. Í bókinni Ljósmyndir IIa eftir Halldór Jónsson kemur fram að um 1900 voru í Vesturkoti aðeins rústir af bæjarhúsum og léleg fjárhús ásamt heykumli. Túnbletturinn var sleginn af prestsetrinu en síðar notaður sem kúahagi. Svæðið sem Vesturkotstóftir ná yfir er um 35×25 m stórt og snýr norðaustursuðvestur. Bæjarstæðið er mjög sigið og illa farið vegna ágangs búpenings en þó grasigróið. Bæjartóftin er um 22×17 m stór og snýr norðaustur-suðvestur. Veggir eru grjót- og torfhlaðnir, 0,4-1,5 m á hæð og 2-5 m á breidd. Grjóthleðslur eru signar en greinilegar.
Sogn
1705: 12 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. JÁM III, 426. 1352, [1367] 1397 [1478]: Jörðin eign Reynivallakirkju. DI III, 70-71, DI III, 219, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79.
Árið 1705 er jörðin nefnd Sofn eða Sogn, 1840 Sorn en 1847 Sogn. Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255. 1705: „Tún eru lítil og fordjarfast mjög af skriðum. Engið er gott en ærið votlent mikinn part og forað yfir að sækja, sem brúka þarf.“ JÁM III, 426. 1840: „… heflir lítið tún og veitiland, en engi mikið á Laxárbökkum, vantar mótak …“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255.
Bærinn Sogn er við rætur Reynivallaháls, um 400 m ASA við Valdastaði og um 1,4 km VNV við Reynivelli. Á þessu svæði er núverandi íbúðarhús byggt 1946, sléttað malarplan, gamalt steinsteypt fjós og stór barrtrjáreitur við norðvesturhorn fjóssins. Fast framan og SSV við malarplanið er brekka með lauf- og barrtrjálundi og malbikaðri heimreið heim að bænum. Brekkunni hallar í 5-10° til SSV. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað og rennur hann til SSV vestan við bæ en ábúendur hafa þó breytt rennsli hans neðan við gamla bæjarstæðið en þar rennur hann nú áfram í SSV í stað þess að beygja í SSA eins og sést á túnakorti frá 1917. Samkvæmt Snorra Ö. Hilmarssyni bónda á Sogni voru öll þau tré sem nú standa á bæjarstæðinu gróðursett árið 1991. Á heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er að finna almennar upplýsingar um Sogn í Kjós og ljósmynd af bænum frá því um 1918.
Heimildamaður er Ingunn Þormar f.21.11.1921 en hún var í sveit að Sogni á sumrin frá 1926-1931. Þá var tvíbýli að Sogni. Þar segir m.a.: „Ekki er vitað hvenær bærinn var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. … [Torfbær á ljósmynd frá 1918 og á túnakorti frá 1917:] Frá hægri: 1. Geymsla fyrir reiðtygi, ljái og allar þurrar vörur en áður fyrr bjuggu þarna foreldrar Gróu [Guðlaugsdóttur] og Jakobs [Guðlaugssonar]. 2. Inngangur. Ef farið var strax til hægri var gengið inn í geymsluna þar sem foreldrar Gróu [Ragnhildur Guðmundsdóttir og Guðlaugur Jakobsson] bjuggu áður. Innar voru hins vegar 3 tröppur og þar til hægri var herbergið þar sem Ragnhildur [Guðmundsdóttir], móðir Gróu, bjó nú en til vinstri var gengið inn í baðstofuna. 3. Þarna var búr og inn af því eldhús. Innar var síðan baðstofan þar sem heimilisfólkið bjó gisti [svo]. Í baðstofunni voru 4 rúm, 2 sitt hvoru megin. Oft var því tví- og þrímennt [svo] í hverju rúmi. 4. Smiðjan. Þar vann Jakob, se [svo] var járnsmiður, við að búa til skeifur og brýna ljái. 5. Geymslur fyrir Jakob, svipaðar þeim er Gróa og Sigurjón [Ingvarsson f. 29.10.1889] höfðu í húsinu lengst til hægri. 6. Steinhús [trúlega vestan við Bæjarlæk] þar sem Jakob bjó með fjölskyldu sinni. [Það sem ekki sést á ljósmynd:] Hægra megin við bæinn var fjósið [í bæjarröðinni samkvæmt túnakorti frá 1917], fjárhúsin [hugsanlega 008] voru vinstra megin en myndin er tekin fyrir framan hlöðuna [sjá 002]. … Segir Ingunn að allur fatnaður hafi verið skolaður úti við læk eftir að hafa verið þveginn inni í eldhúsi. Til að ná sem mestu vatni úr hverri flík voru þær lagðar á stein og spýtum slegið í fötin. Það var útikamar við bæinn [nákvæm staðsetning óþekkt] … Trégólf í baðstofunni en moldargólf annars staðar. Trégólfið var þvegið upp úr sandi. Vatn og sandur notað til að þvo gólfið, strigapoki notaður sem tuska. Bærinn var kyntur með taði og mó, … Sérstök kynding kom ekki í baðstofuna fyrr en 1928 þegar fyrsti ofninn kom þangað.“ Samkvæmt túnakorti hefur bæjarstæðið verið a.m.k um 50×50 m að stærði. Á þessu svæði var m.a. sjálf bæjarröðin sem virðist hafa verið um 30×15 m að flatarmáli og snéri VNV-ASA, hlaða, þrjú útihús (002-004) og kálgarður 021. Gengið var inn í bæ að sunnanverðu. Engin greinileg merki um gamla bæinn eða bæjarhól.
Sognssel (sel)
Sognsel.
„Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognssel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. Frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur,“ segir í örnefnaskrá Bjarna Ólafssonar frá Króki. „Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognssel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir,“ segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar. Sognsselstóft er um 1,6 km ANA við bæ 001, um 4,9 km suðaustan við Sogn 350:001 og um 250 m norðvestan við Sandfellstjörn. Seltóftin er fast utan í 2-4 m háu holti að suðvestan. Holtið er aflangt, um 250 m á lengd, um 150 m á breidd og snýr NNA-SSV. Hlíðar holtsins eru þýfðar og mosa-, grasi- og lyngigrónar en holtið er þó ógróið í toppinn. Sognsselstóft er fjórskipt, ferköntuð og grjóthlaðin. Hún er um 8 x 7 m stór og snýr NNA-SSV. Veggir tóftarinnar eru 1-2 m á breidd og 0,5-1,2 m á hæð en hleðslur eru víða nokkuð signar og grasi- og mosagrónar. Gengið var inn í tóftina á VNV-hlið gróflega fyrir miðju eða um 4 m frá
norðvesturhorni tóftar.
Hvítanes
20 hdr. 1705. JÁM III, 435. 1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18. Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Vígdrekar og Vopnagnýr, 69-76. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: „Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“ Kjósarmenn, 81. 1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“ JÁM III, 435. 1840: „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ SSGK, 255. Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar m2.“
„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu. … Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ Bæjarhóllinn á Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá.
Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina fyrir utan lítinn sumarbústað norðaustarlega á nesinu. Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Bæjarhóllinn á Hvítanesi virðist alveg óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASAVNV. Steinveggir yngsta íbúðarhúss 001B sem byggt var 1914 standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja. Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti. Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan.
Þrándarstaðir
20 hdr. 1705. Bænhús var á jörðunni. JÁM III, 437-438. 1705 er nefnd nafnlaus eyðihjáleiga, í byggð um 1675-1700. Talin vera sama jörð og Þorbjarnarstaðir nefndir í Harðarsögu sem talin er rituð á fyrir hluta 13. aldar. ÍF XIII, xlix. Jörðin nefnd í dómabréfi 1509 vegna úrskurðar um eignarétt á henni. DI VIII, 284. Bændaeign. 20 hdr. 1847. „Prestur einn nefnir Þrándarstaði „neðri“ og „efri“. Skálholtsstóls hjálendan er talin í jarðabóks stólsins 13 2/3 h. að dýrleika.“ JJ, 101 (nmgr.). 1840: „… heyskapur er ekki mikill, en beitarland betra og útigangur nokkur.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 254-255. Túnakort 1917: Tún 6,4 teigar, meira en 1/2 sléttað, garðar 1100 m2.
Bæjarhóllinn á Þrándarstöðum er að mestu óhreyfður. Hann er tæpum 200 m neðan (norðan) við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum. Grösugur hóll í sléttu túni. Hóllinn er stæðilegur. Síðustu leifar á honum voru nokkurra kálgarða en úr þeim hefur verið sléttað. Ryðja átti úr hólnum á síðari hluta 20. aldar en hætt var við það vegna þeirra minja sem þar kynnu að leynast. Þó var aðeins rutt úr austurhlið hans og jafnvel örlítið að sunnan. Norður- og austurhlið eru mun brattari heldur en aðrar hliðar. Samtals er bæjarhóllinn 40×30 m stór og er 2-3 m á hæð þar sem hann er hæstur. Dældir eru í hólnum en ekki sér móta fyrir neinum tóftum. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og allur húsakostur illa þekkt.
Bænhús
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Þrandarstader. Hjer hefur til forna bænhús verið, og heitir þar enn nú Bænhústóft í túninu. Enginn minnist sá, sem nú er á lífi, nær það hafi eyðilagst.“ Ekkert er nú (2006) vitað um staðsetningu bænhúss á Þrándarstöðum en líklega hefur það verið nálægt gamla bænum á bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 200 m norðan við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum.
Efri-Þrándarstaðir
Nálega mitt á milli núverandi íbúðarhúss á Þrándarstöðum og bæjarhólsins var bærinn á EfriÞrándarstöðum þegar tvíbýlt var á jörðinni. Bæjarstæðið er um 80 m sunnan við bæjarhól 001 og um 110 m norðan við núverandi íbúðarhús.
Bæjarstæði Efri-Þrándarstaða er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn var í aflíðandi túni sem hallar 5-10° til NNA. Hann var byggður norðan í lágri hæð. Búið er að slétta yfir bæjarrústir Efri-Þrándarstaða. Þar sem bærinn stóð er þó enn óljós þúst sem er um 16 x 10 m stór, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Tvær um 0,4 m djúpar dældir eru í þústinni og snúa þær norður suður. Dæld A er vestar og er hún um 2×2,5 m að innanmáli á meðan dæld B er um 1 m austar og um 4×2 m að innanmáli. Lúther Ástvaldsson heimildamaður kannaðist ekki við öskuhaug á svæðinu en samkvæmt honum var gengið inn í gamla bæinn að norðvestanverðu og sést þar ennþá óljós tota í vestari dældinni. Lúther kannaðist ekki við neina brunna á svæðinu en hann telur að vatn hafi yfirleitt verið sótt í árnar. Bærinn hefur líklega verið byggður úr steinsteypu, timbri og bárujárni. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og húsakostur illa þekkt.
Íngunnarstaðir
20 hdr 1705, Skálholtsdómkirkjueign, talið að hún hafi til forna verið 30 hdr. Bændaeign. 27 1/3 hdr. 1847. Kirkju á Ingunnarstöðum er fyrst getið í máldaga frá um 1180: „Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande.“ (DI I 266). Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls frá um 1200 (DI XII 10). Í máldaga frá því um 1367 segir: „Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande.“ (DI III 219) Í Vilcinsbók frá um 1397 segir: „a heimaland allt oc settung j Eyalanndi.“ (DI IV 118) 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV 632). „Jarðabækurnar (hinar eldri, nema stólsjarðabókin) telja jörð þessa með Hrísakoti (A. M.), aðeins 20 hdr. Að dýrleika, og leggur sýslumaður 5 h. Þaraf á Hrísakot.“ Jarðabók Johnsens, 101 (nm.gr.) Hrísakot var hjáleiga 1705 en er orðin bændaeign 1847. Tvö eyðibýli eru nefnd 1705, Gullhlaðsvellir og Þórunnarsel. Hálfkirkja var á jörðinni. JÁM III, 339-441.
1705: „Túnum og engjum grandar skriða til stórmeina og kostar oft stórerfiði af að moka. Hætt er fyrir snjólfóðum bæði á bæ og tún.“ JÁM III, 440.
1840: „… sæmileg heyskapar og útigangsjörð; á hún hrístak og fjárbeit fram í dalnum, ekki frí fyrir skiðuáföllum og hefir lítið mótak eður ekki.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og
Kjósarsýslu, 254.
Gamli bærinn á Ingunnarstöðum stóð á svipuðum stað og nú (2003) stendur steinsteypt íbúðarhús. Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1914-20 en þar á undan stóð timburhús á jörðinni um skeið. Búið var að rífa síðasta torfbæinn um aldamótin 1900. Ógreinilegur bæjarhóll er á þessum stað. Hann má merkja að sunnan og vestan en fjarar hins vegar út til norðurs (inn í brekkuna ofan við) og austurs. Erfitt er að áætla stærð bæjarhólsins þar sem erfitt er að greina mörk hans til norðurs og austurs. Hann er þó nálægt því að vera 50-60×40 m og er mest 1,5 m á hæð. Þegar afi Guðrúnar Björnsdóttur heimildamanns kom að Ingunnarstöðum 1912 hafði síðasti torfbærinn verið rifinn. Hann hafði verið á svipuðum slóðum og steinsteypta íbúðarhúsið er í nú. Þegar það var byggt var komið ofan á nokkuð af grjóthleðslum og ösku og voru grjóthleðslurnar að hluta endurnýttar til að byggja lítinn garð vestan við íbúðarhúsið. Íbúðarhúsið sem nú er á bæjarhólnum er steinsteypt með kjallara. Íbúðarhúsið á Ingunnarstöðum var fyrsta timburhúsið í sveitinni.
Hálfkirkja
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 er getið um hálfkirkju á jörðinni: „Hjer er hálfkirkja og embætti flutt þá er heimafólk er til sacramentis.“ Bænhús var á Ingunnarstöðum en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var. Samkvæmt heimildamanni fór tveimur sögum af staðsetningu bænhússins. Annars vegar var talað um að það hefði verið heima við bæinn en hins vegar að það hefði verið í nokkurri fjarlægð suðvestan við bæ. Lengi mátti sjá glitta í hleðslu við suðausturhorn íbúðarhússins á Ingunnarstöðum, milli þess og fjárhúss og voru uppi getgátur um að sú hleðsla gæti staðið í samhengið við bænhúsið. Lágur bæjarhóll þar sem steinsteypt íbúðarhús með kjallara og fjárhús standa. Vegur liggur að bænum og annar spotti fram hjá honum.
Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande. kyr .vi. oc .xxx. a. fiogur kugillde j gelldfe. halft annat hundrat j busgognom oc j husbuninge. hestr gelldr lastalauss. xij manaþa tiþa bæcr oc messo fot. silfr kalec. roþo cross. alltara klæþe ij oc blæia. bricar clæþe gloþa ker oc gloþa jarn [alltara steinn. kirkiu stoll. bakstr jarn* oc linslopp. kerta stika. munnlogar .ij. oc lyse steinn. biollur .v. Su er afvinna skylld a þeso fe. at þar scal vera seto prestr ef sa vill er þar byr. meþ biscops raþe. Joan prestr scal vera þar meþan hann vill oc fylgia þessu fe at allda eyþle. Heima manna tiund alla a circia þar er scylldoct at syngia annan hvarn dag oc inn .iiij. hvern otto song oc kaupa at preste .ij. morcom oc ef enginn fæsc prestr. þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til þessa kaup[s] ef þeir vilia. Biscops handsol ero a þessum circio fiam ollom. oc hann a valld oc forræþe einn at kavpa þessom kirkio fiam sva sem hann vill oc þa er hann vill til þurþar oc til miclonar vm fe eþa afvinno; Máld DI I 266 [* bætt við utanmáls í hdr. C. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10. [1367]: xlix. Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande. vij kyr og xxx asaudar. les Vilchinsbok þui þetta er eins; Hítardalsbók DI III 219. 1397: a heimaland allt oc settung j Eyalanndi. Sia er skylld af fie þessu ad þar skal vera setuprestur ef sa vill er þar byr med biskups rade. heimamanna tiund allra a kirkiann. Þar er skyllt ad syngia annann hvern dag oc fiorda hvern ottusong. lvka presti ij merkur. og ef ei fæst prestur. þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef þeir vilia. biskups handsol eru aa Þessum kirkiufiam ollumm Þar til Þurdar oc miklanar sem hann vill; Máld DI IV 118. 1575: Máld DI XV 632 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 64}.
Sel
Ingunnarstaðir – sel.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir:“Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir: „Næst eru Selflatir. Í botni [Brynju]dalsins og þar næst er hjalli sem heitir Langihjalli.“ Í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar segir einnig um selið: „Austur af bakkanum er flatlendi, sem kallað var Eyrar einu nafni.
Þá taka við ónafngreindir hjallar og austur af [þeim] þeim Selflatir [svo], sem eru beint á móti gömlu beitarhúsunum frá Ingunnarstöðum. Þorlákur álítur, að þeir sem höfðu þar í seli, hafi haldið til í beitarhúsunum. Þorlákur sat þar yfir ám í kvíum, sem Kjósarmenn höfðu þar sameiginlega. Fært var frá í Hrísakoti til 1907.“ Selið á Selflötum er um 2,5 km suðaustan við Ingunnarstaði, um 300 m sunnan við beitarhús og um 50 m sunnan við Brynjudalsá. Á Selflötum er grasigróið og víðáttumikið þýft graslendi sem hallar í 2-10° til norðausturs, að Brynjudalsá. Á Selflötum eru þrír áberandi hólar í hnapp á svæði sem er um 60×60 m stórt. Á stærsta hólnum er greinileg tvískipt tóft A sem er um 10 x 6 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Gullhladsveller (býli)
Stykkisvellir – tóft.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Gullhladsveller heita í Ingunnarstaða landi. Þar ætla sumir að hafi bygð í gamla daga, og sjást þar enn nú nokkrar tóftaleifar. Ekki verður þar bygð þett, nema með stórskaða heimajarðarinnar, og enginn veit nær það hafi í eyði fallið, meina þó að landþröng hafi til þess verið orðsök.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um þetta svæði: „Þegar kemur fram úr Bótinni, taka við Gulllandsvellir, grasivaxin hæð, sem hallar niður af á smámýri. Þar út af er Gulllandsvallarmýri. Á ásnum eru gamlar tættur. Talið er, að þarna hafi verið býli.“
Stykkisvellir eru ofan og sunnan við suðurbakka Brynjudalsár um 850 m ASA við bæ 001 og um 600 m suðvestan við Hrísakot 360:001.
Gullvallsvellir – uppdráttur.
Rústirnar eru friðlýstar og í Friðlýsingaskrá segir: „Ingunnarstaðir. Forn rúst, er nefnist Gulllandsvellir, að sunnanverðu við Brynjudalsá, fyrir innan Þrándarstaði. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938.“ Stykkisvellir eru þýft graslendi á eyri lækjar sem rennur úr Gjáargili norðan undir Suðurfjalli. Svæðinu hallar í um 2-5° til norðurs niður að Brynjudalsánni. Stykkisvellir eru svæði sem er um 250×120 m stórt og snýr norðvestur-suðaustur úr fjallshlíðinni niður á eyri Brynjudalsár. Vestan við Stykkisvelli er brött brekka sem hallar í 30-40° niður í mýri. Brúnin er 3-4 m há á þessu svæði. „Austur af Bótinni taka við sléttir vellir, Gullásvellir, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna. Framan vallanna er hár bakki, Gullásvalla-bakki. Norðan hans, að ánni, liggur lítil mýri, Gullásvallamýri (Gull-Þórir).“ segir í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar. Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson um vellina: „Af stöðum sem nú eru óbygðir í Brynjudal eru Gulllandssvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Þar er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan að gil sem þar kemur ofan hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær hann. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom austan á hana. Þó sér svo vel fyrir henni að ég gat gjört uppdrátt af henni. … Tóftirnar eru 3. hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengda allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 31/2 fðm. Fjós rúst sést eigi, mun vera afbrotin.“ Við skráningu fundust þrjár þústir á þessu svæði sem er um 60 x 40 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Svæðið er þýft og líklegt að fleiri mannvirki geti leynst í þúfunum á svæðinu þó ekkert sjáist á yfirborði.
Hrísakot
Árið 1705 er Hrísakot afgömul hjáleiga eða afbýli Ingunnarstaða GK-359:001. JÁM III, 439-440. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson fór kotið í eyði árið 1919 en var nytjað frá Ingunnarstöðum fram til ársins 1953. Það ár byggðist kotið upp aftur fólki frá Ingunnarstöðum. Kjósarmenn, 43. Samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttiur, heimildamanni, fór Hrísakot endanlega í eyði um 1964. 1840: „… Heyskaparlítið; á skógarland og allgóða útbeit við hagahús [GK-360:013]; þar er ekki mótar …“
„Hrísakot stendur innarlega í dalnum innan við Ingunnarstaði og sömu megin í dalnum,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarhóll Hrísakots er sunnan undir Múlafjalli og norðan við Brynjudalsá, um 1,1 km austan við Ingunnarstaði 359:001. Hrísakot er nú (2011) skógræktarjörð en hætt var búskap á jörðinni að mestu um 1964. Á bæjarhólnum stendur tvískipt timbur- og bárujárnsfjárhús sem, samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttur heimildamanni, var byggt einhvern tíman milli 1925-30 þá trúlega frá Ingunnarstöðum. Suðvestan við bæjarhólinn og fjárhúsin er sléttað tún og suðaustan
við fjárhúsin er sumarbústaður og skógræktarreitur. Greinilegar mannvistarleifar eru á bæjarhólnum norðvestan, norðan og norðaustan við fjárhúsin. Á hjalla norðaustan og ofan við bæjarhólinn er barrskógur en norðvestan við hólinn er graslendi og stór ræsiskurður 5-10 m í burtu. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Hrísakoti bjó Pjetur Ottesen til ársins 1902, … Í Hrísakoti var, er hjer kemur sögu, fremur ljelegur bær, en túnið fremur greiðslægt. … Eftir að Pjetur Ottesen fór frá Hrísakoti, tekur jörðina bróðursonur hans, Oddur Pjetur Jónsson frá Ingunnarstöðum, … og býr hann þar til ársins 1919. … Oddur Pjetur byggði nýja baðstofu í Hrísakoti, bjarta og allvistalega og fleiri bæjarhús. … Er þessi baðstofa fyrir löngu horfin [árið 1953] og hin gömlu hús önnur.“ Bæjarhólnum hefur verið raskað þó nokkuð á 20. öld en hefur hann trúlega verið um 50×50 m stór og 1-2 m á hæð. Fjárhúsin standa á miðjum hólnum. Lítið er greinanlegt af gamla bæ Odds Pjeturs sem stóð árið 1917 annað en 2-3 grasigrónir og þýfðir hólar sem eru 1-1,5 m á hæð og er 1-2 m norðvestan við timburfjárhúsin. Grjót má er víða í hólunum. Hólarnir mynda saman aflanga þúst sem er um 25×15 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í gegn um þústina er dæld sem er 5 x 1-3 m stór og snýr NNV-SSA. Dældin er 0,5-1,5 m djúp og sker þústina næstum í tvennt. Hér er líklega um að ræða rof vegna ágangs búpenings.
Engar aðrar dældir eru í þústinni. Ekki er ljóst hvort þessi þúst er leifar af gömlu húsunum sem hugsanlega hefur verið ýtt eitthvað til eða hvort þarna voru aðeins gamlir taðhaugar.
Heimild:
-„Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.
Reynivellir.