Stefnt var að því að ganga upp í Melaseljadal ofan við Tindsstaði, Kiðafell og Mela í Kjós. Áður en lagt var af stað var kíkt á eftirfarandi grein um svæðið, sem birtist í MBL 24. nóv. 1968 og bar fyrirsögnina “Hún amma mín það sagði mér”.
“Í þetta skiptið ætlum við að ganga í Tinnuskarð og í Þjófagil, og ef okkur endist þrek, að ganga það allt til enda, þar til Melaseljadal er náð, en hann öðlaðist frægð sýna skyndilega þegar reist var þar brugghús á þeim tíma, þegar “bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó” eins og sagði í kvæðinu.
Við erum fljót yfir bergvatnsána tæru Kiðafellsá upp á Kleyfarnar framhjá klettinum, sem hún amma mín sagðist alltaf sjá álfaborgina í, einkanlega þegar kvöldsólin skein á hana. Ég held að hún hafi þar fyrir utan bæði séð álfakónginn og álfadrottninguna, en henni fannst alltaf álfaborgin hafa burstir, eins og íslenskur sveitarbær. Burstirnar voru þrjár, sagði hún.
Allt er þetta á fótinn, en Tinnuskarð er ekki hátt, þótt klettabeltið sé tilkomumikið og reglulegt, og brátt náum við upp á sléttuna ofanvert við Tinnuskarð.
Enga finnum við samt tinnuna, en hins vegar er mikið um jaspis og kvartzmola, sem liggja á melnum, út um allt. ekki er önnur skýring á nafngiftinni en sú, að gömlu mönnunum hafi fundist jaspísinn svo harður, – þeir gátu skorið með honum gler – og kallað skarðið eftir því.
Og nú sjáum við ofan á þetta einkennilega náttúrufyrirbæri Tinnuskarðið sjálft. Eiginlega er þetta ekki skarð, nema yzt við klettabeltið. Miklu frekar er þetta lítil dalkvos. Sé maður staddur í botni hennar, sér mann enginn. Skarðið er aðeins opið til vesturs, út til fjarðarins, og þeir sem um þjóðveginn fara fyrir neðan, myndu ekki hafa hugmynd um þótt þúsundir manna hefðust við í dalkvosinni innan við sjálft skarðið. Grasivaxnar brekkur eru á allar hliðar og þar er einskonar sæti allt um kring og er þetta engu líkara en [í] rómversku hringleikahúsi. Colosseum er að vísu gert af steini og mannavöldum, en þarna gætu vel farið fram leikar og mannfundir, og nógir eru áhorfendabekkir. Einnig hagar þannig svo til, að innanvert við skarðið, norðanmegin er ræðupallur af náttúrunni gerður hátt í klettum og þar reyndi maður raddþolið hér áður. Það er engu líkara, en klettarnir vörpuðu hljóðinu inn í þetta hringleikahús og óþarft myndi þar að nota gjallarhorn. Tinnuskarð er sem sagt tilvalið fyrir mannafundi.
Rétt sunnan við komum við svo niður í Þjófagil. Eftir því rennur lítill lækur, skoppar stein af steini og fellur svo meðfram norðurjarðri Melaflatar og niður Melagil til sjávar hjá Niðurkoti, en sá bær er nú í eyði. Á Melaflöt var það venjan hér áður að hleypa hestunum á leið til kirkju í Saurbæ, og var hún tilvalinn skeiðvöllur.
Enginn veit ég deili á nafngift þessari, Þjófagil. Veit um enga þjófa, sem hafa verið að sniglast í gili þessu. Það er víða grösugt og auðvelt yfirferðar, og endar ekki fyrr en í Melaseljadal bak við Stampana.
Og þá er að segja frá Melaseljadal. Hann er eiginlega örlítið dalverpi opið í báða enda, en þar hefur sjálfsagt verið haft í seli frá Melum hér áður, eins og nafnið bendir til. Ekki hef ég séð neinar rústir aðrar en þær af brugghúsinu fræga, sem nú greinir frá.
Þetta var á þeim tímum, eins og áður sagði, þegar bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó en Björn sálugi Blöndal var lögreglueftirlitsmaður með landabruggi þá.
Það var á allra vitorði, að nokkrir þarna í nánd stunduðu lítilsháttar brugg sér til búdrýginda, en allt voru þetta heiðursmenn, og aldrei fannst brugghúsið, fyrr en sólheitan sumardag einn að maður nokkur skapp í fjallgöngu á Dýjadalshnúk í Esju. Á niðurleið gekk hann yfir Melaseljadal, og sá þá lækjarsprænu koma undan einhverri þúst. Við nánari athugun kom í ljós hið haganlegasta brugghús með landalögum í mörgum brúsum og tunnum á stokkunum. Lækurinn var leiddur í gegnum húsið til hagræðingar. Tveir kjóar sátu þar nærri og söng ámátlega í þeim, eins og þeir væru búnir að fá sér heldur mikið neðan í því af framleiðslunni.
Ekki sagði maðurinn frá þessu, en upp komst um húsið fyrir annarra tilverkanað um síðir, og var þá úti hin hagstæða tíð. Einhversstaðar í Þjófagili fann ég líka einu sinni eitthvað af tunnustöfum, sem vafalaust hafa ekki átt annað erindi þar, en til verksmiðjunnar í Melaseljadal. Vafalítið hefur það verið góð heilsubótarganga að ganga til verksmiðurekstursins, en þetta varðaði við landslög og öllu var hellt niður. Æ, það má ekkert skemmtilegt gera á þessu landi lengur.
Nú var orðið kvöldsett, sólin að síga bak við Akrafjall, og við höldum niður með Þverá til byggða.
Alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, alltaf opnast meir og meir af íslenskri náttúru fyrir okkur, og við raulum fyrir munni okkar niður Kleyfarnar hið gullfallega erindi Guðmundar skólaskálds:
“Kvöldblíðan lognværa kyssir hvern reit.
Komið er sumar, og hýrt er í sveit.
Sól er að kveðja við bláfjallabrún.
Brosa við aftanskin fagurgræn tún.
seg mér, hvað indælla auga þitt leit
íslenska kvöldinu í fallegri sveit.”
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. Um Neðrakot [Niðurkot]: “Fjórða býli á jörðinni [Kiðafelli], sem ekki er með hjáleigum talið.” Í umsögn um Kiðafell er ekki getið um selstöðu. Minnst er á selstöðu Mela upp í Esju í Jarðabókinni: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Mela Seljadalur, og eru þeir hagar að mestu aleyddir af skriðum.”
Að sögn Sigurbjörns Hjaltasonar á Kiðafelli var greinin í Lesbókinni eftir föðurbróður hans, Friðrik Sigurbjörnsson, fyrrverandi lögreglustjóra á Ísafirði. Hann skrifaði m.a. bókina “Sól skein sunnan” og þar mun vera umfjöllun um svæðið (náttúrufarslýsingar). Tóftir væru í Melaseljadal, en sá dalur væri mun neðar en virðist við fyrstu sýn, eða einungis lítil skál. Þær tóftir voru m.a. notaðar fyrir brugghúsið nefnda. Tinnuskarð hefði verið nefnt Tvistakarð og Þjófadalur Þjódalur vegna þjóhnappalíki, sem í honum eru. Tíminn verður nýttur til að afla fleiri heimilda um svæðið.
Vegna veðurs, ofankomu og skafrennings, var ákveðið að freysta ekki uppgöngu í Melaseljadal að þessu sinni. Uppförin þangað bíður leysinga.
Heimild:
-Mbl. 24. nóv. 1968 – Hún amma mín það sagði mér, bls. 7, úr ritröðinni “Á víðavangi” (Friðbjörn Sigurbjörnsson).
-Jarðarbók Ám og PV 1703, bls 381 og 394.