Tag Archive for: Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Gvendarsel

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði“ 1998 er m.a. fjallað um gamlar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur; Vatns- eða Dalaleið, sem voru í raun sitthvor leiðin vestan og austan Kleifarvatns millum Krýsuvíkur og Kaldárssels.

Vatns- eða Dalaleið

Breiðdalur

Breiðdalur.

„Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki farið áður. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið.

Slysadalur

Slysadalur.

Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara [þessa] leið en áður var. …Það er þá fyrst, að þessi leið er stysta og beinasta lestarleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðastaða og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún er nokkrum annmörkum háð, – og hún gat verið hættuleg. Þessi leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar verið tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrfyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávalt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vega á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

…Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun vikið að. …Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrri suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðarbunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypst hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvammahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær er hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í henni við landið. Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar ufir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tildóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur upp á stöpunum, em milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjara. – eða lítið vaxið ef í vexti var. Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamrar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella.

Nýjaland

Nýjaland.

Þegar hátt er í vatninu, náði það upp í Helluna, er stórgrýtt er í botnin undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10-20 , ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir:

Svunta

Svunta.

Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. …Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn á Blesaflöt…. Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn í Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur, harðvellisgróður og sem tún yfir að líta.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Upp úr norðurbotni Breiðadals er farið yfir allbratt malhaft, og þegar norður af því kemur, er komuð í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og svo má heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið. – Slysadal. …Þegar Slysadal sleppur, er komið í Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu. Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadali, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldárssels.“

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 271-272.
-Ólafur Þorvaldsson; Ábók 1943-48, bls. 91-94.

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Krýsuvík

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998“ segir m.a. um Gestsstaði og Kaldrana í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

„Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“
„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skammt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir [jarð]eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“

Kringlumýri

Kringlumýri undir Móhálsum.

Fram kemur að Gestsstaðir hafi fyrst, eftir eldana, sem lögðu Gömlu Krýsuvík í og við Húshólma í eyði, verið „Fram undan Hverafjalli, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað“. Sunnan undir Hverafjalli, nú Hettu, er að finna minjar, mjög fornar, í svonefndri Kringlumýri. FERLIRsfélagar fundu rústirnar árið 2010 og töldu að þar hefði verið selstaða frá Húshólmabæjunum fyrrum. Selstígurinn liggur til suðurs í átt að Krýsuvíkur-Mælifelli. Minjarnar, sem eru miklar umleikis, verulega fornfálegar, eru í grasi gróinni hlíð ofan mýrardraga. Neðan þeirra er ágætt vatnsból í grónum gígbotni.

Kringlumýri

Minjar í Kringlumýri. – uppdráttur ÓsÁ.

Minjar þessar hafa nánast ekkert verið metnar,  hvergi skráðar (annars staðar en hér á vefsíðunni – sjá HÉR), en þær eru augljóslega eldri en þær fornu minjar,  sem nú má sjá sunnan við Gestsstaðavatn.

Kaldrani

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

„Inn við Kleifarvatn er svo kallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarðu úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhál.“ „Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafði eyðst vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilungi verða, en hann á óætu að vera, samanber vísuna sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafi étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi.“. Vísan er svona:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana
utan ein niðurseta
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – garður.

„Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi fólk dáið af loðsilungsáti. Örnefnið Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fm langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bæ. Því garðsspottinn sýnir að þar hafi menn búið á sínum tíma.“

Því miður hefur vegur nú verið lagður yfir meint bæjarstæði Kaldrana. Mönnum hefur löngum verið meint að sjá fyrir gildi þess, sem raunverulega skiptir máli…

Það er ávallt gaman að uppgötva eitthvað nýtt (reyndar er allt slíkt nýtt nú orðið gamalt).

 

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Hér kemur fram að Gömlu Gestsstaðir hafi verið vestan við Móhálsa, en í dag er þeirra minnst austan þeirra, sunnan undir Gestsstaðavatni, sem fyrsta byggð Krýsuvíkur eftir eldanna 1151. Eldri bústaðurinn er sagður týndur í heimildum.
Vestan hálsanna eru reyndar óskráðar tóftir, sem að öllum líkindum voru framhald byggðarinnar í Húshólma og því líklega eldri en elstu heimildir eru um byggð í þeirri Krýsuvík, sem við þekkjum í dag.

Sjá meira um Krýsuvík og Kaldrana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Ö-Krýsuvík, 8-9; Árbík 1943-48, 92, Árbók 1803, 59.

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við „Seltún í Krýsuvík“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.

Grindavík

Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.

Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.

Sogin

Sogin – hátitasvæði.

Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.

Seltún

Seltún – borhola.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.

Austurengjar

Krýsuvík – Austurengjalækur.

Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.

Soppmosar

Soppmosar.

Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.

Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.

Augun

Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.

Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.

Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.

Krýsuvík

Krýsuvík – skólinn.

Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

-ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Kleifarvatn

Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr „Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesskaga 1752-1757„:

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

„-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns.

Grænavatn

Grænavatn.

Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn.

Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.

Hverinn eini

Hverinn eini.

-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar.

Gluggi

Gluggi (skjár) á torfbæ.

Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“

-ÓSÁ tók saman.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn

Pálmi Hannesson skrifaði um „Kleifarvatn“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Þá skrifaði geir Gígja um vatnið í Sunnudagsblað Vísis sama ár:

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Sumarið 1930 rannsakaðii ég Kleifarvatn eftir tilmælum dr. Bjarna Sæmundssonar. Tilgangur rannsóknanna var sá að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar til skiptis, eins og kunnugt er, og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Í þennan tíma var eigi bílfært nema skammt eitt suður frá Hafnarfirði, og gat ég því eigi komið við þeim tækjum, er ég hefði helzt kosið. Ég keypti norskan bát, fjórróinn, og lét flytja hann suður að vatninu með allmiklum erfiðismunum. Dvaldist ég við vatnið í vikutíma um miðjan júlímánuð, ásamt þeim kennurunum, Einari Magnússyni og Sveinbirni Sigurjónssyni, sem voru mér til aðstoðar. Bjuggum við í tjaldi í brekkukorni gegnt Lambhaga og höfðum yfirleitt allgott veður. Að lokum settum við bátinn á hellisskúta einn í Lambhaga, og sá lengi síðan nokkur merki þeirrar útgerðar.

DÝPTARMÆLINGAR.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Höfuðverkefni mitt var það að fá vitneskju um dýpi vatnsins og botnlag, enda hafði hvorugt verið nannsakað áður, svo kunnugt væri. Mældi ég dýpi á fjórum línum þvert yfir vatnið, en auk þess allvíða annars staðar, bæði út frá landi og úti á vatninu.

Niðurstaðan af mælingunum er í stuttu máli þessi: Vatnið er yfirleitt mjög djúpt eftir stærð og víðast mjög aðdjúpt, einkum undir Sveiflubálsi. Mest dýpi í vatninu, 87,5 m, mældist út frá Syðri-Stapa, aðeins 200 m frá landi. En þar er megindýpið mjóst, því að Stapinn þrengir að því sín megin, en frá hinu landinu gengur grunn lengra út en í mitt vatnið.

Fremri-Stapi

Stapi við Keifarvatn.

Sunnan við þessa mjódd breiðist megindýpið út, og er vatnsbotninn suður þaðan nokkuð regluleg skál með jöfnu aðdýpi og þó allmiklu, allt suður undir Geithöfða. Þó verður þar um 50 m. hár hamar, er gengur suður frá Syðri-Stapa nokkuð úti í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsflöturinn er um 9,5 km2, og er þá mælt eftir uppdrætti herforingjaráðsins danska, sem gerður er samkv. mælingu frá 1908, en þá var mjög hiátt í vatninu. Árið 1930 var vatnið allmiklu minna. Þá var þurr fjara framan við Innri-Stapa, norðurvík vatnsins, Lambhagatjörn, þurr með öllu, svo að hvergi sá þar vatn, en að sunnan vatnaði aðeins inn fyrir tangana, sem afmarka víkina, er gengur upp að Nýjalandi. Telst mér svo til, að þá hafi flatarmál vatnsins verið um 8,65 km2 eða nærri 90 ha minna en þá, er mest er í vatninu.

BOTN.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í öllu megindýpi vatnsins er leirbotn og raunar víðast þar, sem dýpi er 15 m eða meira. Út frá Syðri-Stapa eru þó hamrar og stórgrýti að minnsta kostá niður á 40 m dýpi. Leirinn á vatnsbotninum er límkenndur og mislitur, víðast gráblár eða grár, en sums staðar þó svartur, rauðleitur eða mógulur. Hann reyndist að langmestu leyti ólífrænn, enda mun hann vera veðrað móberg og hafa borizt í vatnið með vindi og í leysingum. Nokkuð er hann þó blandaður rotleifum (detritus) og eskilögnum (diatomea), og sunnan til í vatninu reyndist í honum vottur af brennisteini. Á grunnunum er sandur í botni, eða leir, en grjót næst landinu og sums staðar móibergsklappir alllangt úti. Ofan á sandinum er víðast mógrátt lag eða himna, og kveður þar mest að lífrænum efnum, rotleifum og eskilögnum. Í víkunum undir Sveifluhálsi er dökkur vikursandur, léttur og hvarflandi fyrir öldugangi. Við báða enda vatnsins og víkina sunnan við Lambhaga er kastmöl í fjörum og út þaðan í vatnið. Hefir öldurótið orpið henni upp í granda og malargarða.

FJARA.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Við suðvesturlandið er fjaran víðast föst, og er þar víðast grjót, en sums staðar klappir. Svo er og við stapana báða, Lambatanga, Geithöfða og Lambhaga, nema hvað þar eru hamrar víðast. Í víkunum beggja vegna við Syðri-Stapa er dökkur vikursandur mjög laus, en malarfjörur við vatnsendana, eins og áður getur.

HITI.

Kleifarvatn

Jarðhiti í og við Kleifarvatn.

Þá daga, er ég dvaldist við vatnið, neyndist yfirborðshiti þess um 10° C eða mjög hinn sami og meðalhiti loftsins í júlímán., enda breyttist hann með lofthitanum. Botnhiti á megindýpinu mældist 4,6° C, en á grunnunum tæp 9° C. Hitavarp (Sprungschicht) virtist eigi greinilegt, en þó lækkað hitinn mest á 20—30 m dýpi.
Tveir hverir að minnsta kosti koma upp í vatninu, báðir í því sunnanverðu, er annar skammt norður frá Lambatanga, en hinn austan við Geithöfða, nærri landi. Virðast þeir hafa hlaðið um sig hóla á vatnsbotninum og kemur allmikið vatn upp úr þeim.

Kleifarvatn

Hverir við Kleifarvatn.

Hita gætir þó eigi nema örskammt út frá þeim og aðeins í yfirborði, enda hafa þeir engin áhrif á hita vatnsins í heild. Sumarið 1930 vatnaði yfir hveri þessa, en þó eigi meira en svo, að báturinn flaut ekki yfir þann eystri, og rauk þar upp úr vatninu, þegar loft var kyrrt og rakt. Árið 1932 voru þessir hverir komnir upp úr vatninu.

AÐRENNSLI OG VATNSKOSTIR.

Svæði það, er veitir vatni til Kleifarvatns, er ca 30 km-, enda hefir vatnið ekkert fast aðrennsli ofan jarðar.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Lækjarkorn eitt rennur þó að jafnaði sunnan í það, en sumarið 1930 þornaði þessi lækur upp áður en hann næði vatninu. Hann kemur frá hverasvæðinu hjá Seltúni og er nokkuð mengaður brennisteinssamböndum.
Allt umhverfis vatnið má kalla gróðurleysur, nema að suðvestan, en þar liggja engjalönd frá Krýsuvík. Mjög lítið af áburðarefnum, einkum köfnunarefni, mun því berast í vatnið, enda er það ófrjótt. Sjóndýpi mældist ca 8 m norðanvert í vatninu, en ca 4,5 í því sunnanverðu, og hygg ég, að þar kenni brennisteinssambanda frá hverunum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – uppdráttur.

GRÓÐUR OG DÝRALÍF.
Botnfastur gróður í vatninu er nær einvörðungu bundinn við grunnin, en þar eru talsverðar græður af þara allt út á 10 m dýpi.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Annarra plantna gætir lítið. Allstórir blettir eru þó á víð og dreif gróðurlausir með öllu, og yfirleitt eru plönturnar heldur þroskalitlar, enda mun köfnunarefni skorta. Grunnin og þeir aðrir hlutar vatnsins, þar sem botngróður getur þrifizt, munu varla vera meira en ca 180 ha, þegar ekki eru taldar víkurnar við vatnsendana, er þurrar voru vorið 1930.

Á grunnunum er allmikið um vatnabobba, einkum nærri landi, þar sem grýtt er. Mest virðist mér kveða að þeim sunnan til, og nálægt hverunum voru þeir mjög margir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – sprengjuhluti a botni vatnsins.

Eigi fann ég önnur botndýr, en þó nokkuð af hömum og hýsum eftir skordýralirfur, bæði í vatninu sjálfu og vogrekum úr því. Aftur er mikil mergð hornsíla í vatninu og mörg stórvaxin. Mjög mörg þeirra voru með bandorm, svo að ég hefi hvergi annars staðar slíkt séð. Veltust þau hundruðum saman við fjörurnar dauðvona með orminn hálfan út úr kviðnum.
Heyrt hefi ég, að eitt sinn hafi lifandi silungur verið fluttur í vatnið, en hans sér nú engin merki. Svifdýr eru fá, einkum virðist einstaklingafjöldinn lítill í samanburði við önnur vötn, og eigi fann ég nema hinar algengustu tegundir.

Fjörubeltið er tiltakanlega lífsvana, og veldur þar vafalaust miklu, að vatnið vex og minnkar frá vori til hausts og ári til árs. Vikurfjaran niður frá Sveifluhálsi má heita aldeyða, og líku máli gegnir um malarfjöruna við vatnsendana. Helzt er líf að finna í fjörunni suðaustan við vatnið, enda er hún grýtt og föst. Nokkurt mý var við vatnið og fáeinar vorflugur. Sundfuglar dvöldust þar ekki að jafnaði, en nokkrar stokkendur komu þangað öðru hverju sem gestir.

VATNSHÆÐARMÆLINGAR.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpt.

Það er gamalt mál, að í Kleifarvatni gæti flóðs og fjöru og komi hvorttveggja á 40 ára fresti þannig, að vatnið vaxi í 20 ár, en minnki í önnur 20. Tvenn merki höfðu menn til þessa. Annað er það, að Krýsvíkingar fóru með kaupstaðarlestir sínar fram með vatninu, þegar þar var fært með hesta, en þar er ófært talið nema fara megi fjöru framan við Innri-Stapa. Hitt merkið er engiland frá Krýsuvík, sem liggur sunnan við vatnið og fer í kaf, þegar hæst er í því. Má gera ráð fyrir því, að Krýsuvíkurmenn hafi gefið gaum að þessum merkjum, og er því líklegt, að munnmælin um vatnið hafi við rök að styðjast.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Guðmundur Jónsson, sem síðastur bænda bjó að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, sagði mér það, sem hér fer á eftir: Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason að Krýsuvík. Var vatnið þá talið minnkandi, en þó mikið. Engjarnar voru komnar upp, en fífugróður þar svo mikill, að á Nýjalandi „fékkst vel á engjalest“, og bendir gróðurfar þetta til þess, að engjarnar hafi verið komnar undan vatni fyrir nokkrum árum, en þó blautar.
Árið 1895 fluttist Guðmundur að Nýjabæ. Var vatnið þá talið vaxandi, og ófært fyrir Stapann. Ekki vissi Guðmundur, hvenær vatnið hefði orðið minnst milli 1880 og 1895, en taldi þó, að það hafi alltaf verið fremur mikið á því tímabili og vafasamt, hvort þá hafi verið fært fyrir Stapann, enda var tíðarfar kalt og votviðrasamt á þeim árum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Eftir 1895 óx vatnið jafnt og þétt, og fóru Krýsuvíkurengjar í kaf árið 1907 eða 1908. Telur Guðmundur, að vatnið hafi komizt hæst árið 1912, en tekið síðan að lækka, og árið 1916 komu engjarnar aftur upp úr. Eftir 1920, einkum eftir 1924, hyggur hann að mestu hafi munað um lækkunina, en ekki var þó farið fyrir stapann fyrri en 1929, en þá var komin þar allgóð fjara, svo að hann telur líklegt, að þar hafi verið fært 1—2 árum fyrr.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Á uppdrætti herforingjaráðsins er vatnsborðið talið 135,00 m yfir sjó árið 1908, en ekki mun sú ákvörðun alls kostar nákvæm. Eftir samanburðarmælingum, sem Jón Víðis hefir gert, stóð vatnið 132,44 m yfir sjó árið 1930, en 131,67 m árið 1932, þegar það var lægst. Samkvæmt þessu hefir vatnið staðið 3,33 m hærra árið 1908 en árið 1932, en eftir 1908 hækkaði það enn til 1911 eða 1912, og má því ætla, að munurinn á mestu og minnstu hæð þess hafi verið 4,0—4.5 m.
Árið 1926 tók Emil Jónsson, vitamálastjóri, mynd við vatnið, og mátti af henni marka hæð vatnsins þá með mikilli nákvæmni. En síðan 1930 hefir vatnshæðin verið mæld árlega og sum árin oftar en einu sinni. Mælingarnar annaðist Emil Jónsson frá 1932 —1938, en vegamálastjórnin eftir það.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Það gefur að skilja, að þessar mælingar séu of fáar til þess, að af þeim megi draga miklar ályktanir um breytingar vatnsins, hversu þær gerist eða hve lengi hver umferð (cyclus) standi. Þó sýna þær, að vatnið hefir ekki vaxið jafnt hin síðari ár, heldur í stökkum með kyrrstöðu á milli eða jafnvel afturhvarfi. Þannig hækkaði vatnsborðið um 212 cm frá 1932—1934, stóð svo í stað til 1935, en lækkaði síðan á næsta ári um 107 cm. En heimildir þær, sem hér hefir verið getið, benda til þess, að hið síðasta breytingaskeið vatnsins hafi verið um 40 ár, eins og munnmælin herma, og má því ætla, að þau styðjist við athuganir. Að minnsta kosti má telja víst, að vatnið hafi orðið mest árið 1911 eða 1912, en farið síðan minnkandi til 1932.

ORSAKIR VATNSBORÐSBREYTINGA.

Reykjanesskagi

Kleifarvatn.

Ýmsar tilgátur hafa komið upp um það, hvað valda muni þessum breytingum á vatninu, og mun sú almennust, að það hafi afrennsli neðanjarðar gegnum gjár eða hella, er ýmist teppist eða lokist einhverra orsaka vegna. Sumir hugsa sér þetta afrennsli sem einhvers konar sogpípu, er taki að verka, þegar vatnið er hœst, en fyllist lofti, þegar í því lækkar. Ekki virðast mér þessar skýringar næsta sennilegar, og kennir þar raunar misskilnings á eðli stöðuvatna. Mun því rétt að ræða þetta mál nánar og freista þess að finna skýringu, er við megi hlíta, að minnsta kosti sem undirstöðu frekari rannsókna.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – kort herforingjaráðsins.

Kunnugt er, að Kleifarvatn vaxi á vetrum, en minnki á sumrum, hvað sem hinum langvarandi breytingum líður. Guðmundur í Nýjaibæ sagði mér, að þegar hátt væri í vatninu, gengi það hærra á Krýsuvíkurengjar á vetur en sumar, og er fjara tæki. Kæmu engjarnar upp úr að sumrinu aðeins, en hyrfu undir vatn á veturna fyrst í stað.
Sumarið 1931 mældum við Emil Jónsson lækkun vatnsborðsins frá efstu fjörumörkum um vorið til 15. júlí, og nam hún 70 em. Síðari mælingar sýna og, að vatnið minnkar frá vori til hausts. Þannig lækkar vatnsborðið um 20 cm frá 18. maí til 25. nóv. árið 1938, en árið 1936 lækkar það um 20 em frá 16. júlí til 16. ágúst, eða nærri því um 0,6 cm á sólarhring að meðaltali. Kleifarvatn er ekkert einsdæmi að þessu leyti, heldur eiga öll afrennslislaus vötn sammerkt í því, og er munurinn á vatnsborðinu vor og haust sums staðar miklu meiri, t. d. í ýmsum smávötnum á hálendinu. Þar hefi ég mælt fulla 6 m frá vatni að efstu fjörumörkum ársins.

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Skýringin á þessum árlegu vatnshæðarbreytingum virðist mér í stuttu máli þessi: Afrennslislaus stöðuvötn eru hluti af jarðvatninu og verða þar, sem jarðvatnið liggur ofar en yfirborð jarðar. Vatnsborð þeirra er því raunar jarðvatnsborðið sjálft. Nú nærist jarðvatnið á úrkomunni, þeim hluta hennar, sem ekki gufar upp eða rennur fram ofanjarðar. Jarðvatnsyfirborðið hækkar því í úrkomum, en lækkar í þurrkum. Sama máli gegnir þá um afrennslislaus vötn. Þau hækka því að jafnaði yfir veturinn, en lækka yfir sumarið. Á hálendinu verður þessi árstíðamunur meiri en á láglendinu, því að þar geymist vetrarúrkoman að mestu sem snjór, er leysir á skömmum tíma á vorin. Vötnin verða því mest, er leysingum lýkur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsborð eftir árum.

Hver er þá orsök hinna langvarandi vatnsborðsbreytinga?
Samkvæmt þeirri skoðun, sem hér hefir verið lýst, verður að ætla, að þær stafi af langvarandi breytingum á úrkomu. Ekki er mér kunnugt um, að slíkar úrkomubreytingar hafi verið rannsakaðar hér á landi, en svo ber við, að erlendir fræðimenn hafa fært að því veigamikil rök, að þær eigi sér stað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dalkvos milli brattra hlíða. Beggja vegna við það hlýtur því jarðvatnsborðið að liggja allmiklu hærra en vatnsflöturinn og halla að honum. Jarðvatnið hlýtur því að streyma stöðugt til vatnslægðarinnar, en aðstreymi þess er ekki svo mikið, að það nægi til þess að fylla hana svo, að vatnið fái framrás ofanjarðar. Hins vegar hallar svo stóru svæði að vatninu, að óhugsanlegt er, að uppgufun frá vatnsfletinum hamli á móti aðrennslinu. Vatnið hlýtur því að hafa afrennsli neðan jarðar, og það afrennsli er rennsli jarðvatnsins. Nú getur jarðvatnið ekki fremur en annað vatn runnið þangað, sem hærra vatnsborð er fyrir, en þannig er háttað beggja megin við Kleifarvatn, eins og áður segir. Hæð Grœnavatns og Gestsstaðavatns sýnir, að sama máli gegnir um lægðina suðvestur frá vatninu. Afrennsli vatnsins hlýtur því að vera til norðausturs, undir skarðinu, sem verður milli Lönguhlíðar og Sveifluháls. Í Kleifarvatni öllu er því straumur til norðausturs — straumur jarðvatnsins.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Þegar vatnið er svo hátt, að Lambhagatjörn sé þurr, liggur afrennslið undir botni hennar. En ef vatn er í tjörninni, rennur fyrst inn í hana úr aðalvatninu, en síðan aftur út úr henni um norðausturfjöruna. Í ósnum hlýtur straumurinn að vera mestur, og þar má mæla afrennslið. Mjög væri fróðlegt að fá úr því skorið, hvort þetta afrennsli er jafnt eða ekki. Í miklum þurrkum er trúlegt, að uppgufunin úr vatninu verði meiri en aðrennsli þess, og ætti þá að renna úr tjörninni inn í vatnið, að minnsta kosti ætti straumurinn í ósnum að verða mjög lítill. Í júlí 1930 mældi ég vatnshæðina daglega, og virtist mér bún fara mjög eftir veðri.

Arnarvatn

Arnarvatn í Krýsuvík.

Mest var lækkunin 0,9 cm á sólarhring, og var þá hinn glaðasti þurrkur. Samkvæmt því hafa á þessum tíma horfið úr vatninu um 778 500 smálestir og svarar það til nærri 9 m3  rennslis á sekúndu. Er næsta ótrúlegt, að aðrennslið nemi svo miklu.
Jarðvatnsborðinu hallar alls staðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu. Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð og eykst því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er ekki ósennilegt, að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn.“

Geir Gígja skrifaði um „Leyndardóm Kleifarvatns„:

Kleifarvatn

Kleifarvatn – loftmynd.

I.
Kleifarvatn hefir lengi verið mönnum ráðgáta. Fá vötn, sem ekkert gefa í aðra hönd, hafa vakið eins mikla athygli hjá alþýðu manna og einmitt það.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Aðalástæðan til þessa eru breytingar þær, sem verða á yfirborðshæð vatnsins og hafa valdið tjóni á engjum í Krýsuvík, sem liggja að vatninu að sunnan. Einnig er leiðin um fjörurnar, fram með vatninu að vestan, ófær, þegar hátt er i því. Kleifarvatn hefir lítið verið rannsakað vísindalega fram til ársins 1940, að Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans lét gera nákvæmar rannsóknir á því í samráði við Hafnarfjarðarbæ, sem kostaði þær að mestu leyti. Við dr. Finnur Guðmundsson unnum að rannsóknum þessum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Rannsökuðum við vatnið á 32 stöðum, þannig, að við mældum dýpi þess, hita við botn og yfirborð með samanburði við lofthita og tókum jarðefni á vatnsbotninum og sýnishorn af gróðri hans og dýralífi. Einnig tókum við sýnishorn af svifi við yfirborð vatnsins og sýnishorn af vatninu sjálfu til efnarannsókna. Við athuguðum og fjörurnar fram með vatninu, gróður þeirra og dýralíf og jarðmyndanir í umhverfi vatnsins. Sá, sem þetta ritar, hefir auk þess gert nokkrar athuganir í sambandi við hækkun og lækkun á yfirborði Kleifarvatns, og verða hér birtar í fáum dráttum helztu niðurstöður af þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnshæðarmælir.

En áður en farið er út í það, skal geta um nokkra fræðimenn, er hafa athugað vatnið og sumir þeirra getið þess í ritum sínum. Þorkell Vídalín segir t. d., að Kleifarvatn hafi breytzt við jarðskjálfta árið 1663. Þorvaldur Thoroddsen lýsir umhverfi vatnsins og skýrir frá ferð sinni fram með því 1883. Segir hann, að vatnið hækki og lækki til skiptis og getur þess, að svo hátt hafi verið í því, þegar hann var þar, að ekki hafi verið fært fyrir Stapann.
Árið 1930 lét Emil Jónsson vitamálastjóri setja merki við Kleifarvatn til þess að sjá, hvernig hækkun og lækkun í vatninu væri háttað. Hefir svo afstaða merkjanna til vatnsyfirborðsins verið athuguð árlega síðan. Sama ár athugaði Pálmi Hannesson rektor vatnið og mældi dýpi þess, en ekkert hefir hann birt um þær rannsóknir.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 ritar dr. Bjarni Sæmundsson grein, er hann nefnir „Suðurkjálkann“. Segir þar meðal annars: „Kleifarvatn er þriðja stærsta vatn á Suðurlandi, 6—7 km. langt frá NA til SV, og 2 km. breitt og auðsjáanlega orðið til við landsig milli Sveifluháls og vesturhlíða Lönguhlíðarhásléttunnar. Liggur vatnið þarna allniðurgrafið á milli hamraveggja Sveifluháls og snarbrattra skriðna Vatnshlíðarinnar, afskekkt og lítið þekkt eins og óbyggðavatn, enda þótt það hafi hingað til verið nálægt byggð og árlega heyjað á bökkum þess, og má það furðulegt heita, þegar þarna er um eitt merkasta stöðuvatn heimsins að ræða, enda þótt umhverfið sé hrjóstrugt í meira lagi.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnshæðamælingar á vegum Orkustofnunar.

Vatnið hefir lítilsháttar aðrennsli, en ekkert sýnilegt frárennsli. Það er stórmerkilegt vegna þess,að yfirborð þess,sem að jafnaði er ca. 135 m.y.h. hækkar ca. 4 m. á fáum árum og lækkar svo smám saman aftur á ca. 30 árum, án þess menn viti neitt um, hvernig á því stendur.“ Dr. Bjarni hafði þekkt Kleifarvatn um langt skeið, að minnsta kosti af afspurn, því að hann var alinn upp í Grindavík og sjálfur hafði hann séð vatnið. Er því óhætt að fullyrða að það, sem hann segir hér um það, er það réttasta, sem vitað var um það á þeim tíma.

Árið 1938 athugaði Ólafur Friðriksson rithöf. Kleifarvatn og lét í ljósi þá skoðun, að hækkunin og lækkunin í því stafaði af breytingu á afrennsli þess neðan jarðar. Ekkert hefir hann birt á prenti um þessar athuganir sínar.

Kleifarvatn

Eyja, „Litla-Grindavík“, kom upp úr vatninu fyrir nokkrum árum. FERLIRsfélagar helguðu sér hið nýja land.

Árni Óla blaðamaður getur um Kleifarvatn í Lesbók Morgunblaðsins árið 1932 og 1940. Í síðari greininni, þar sem hann ræðir um hækkun og lækkun í vatninu, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að vatnið fái afrennsli um sprungur, er opnist við jarðskjálfta, en sígi svo saman og smáfyllist af sandi.

II.

Lambhagatangarrétt

Lambhagatangarrétt.

Hér á undan hefi eg drepið á það helzta, sem gert hefir verið til þess að auka þekkingu manna á Kleifarvatni, sérstaklega með tilliti til hækkunar og lækkunar í vatninu, og skal nú fara um það nokkrum orðum.
Menn virðast helzt hafa hallazt að þeirri skoðun, að breytingarnar á yfirborði vatnsins væru jarðfræðilegs eðlis. Þorkell Vídalín getur um lækkun í vatninu við jarðskjálfta, Ólafur Friðriksson álítur orsökina breytilegt niðurrennsli og Árni Óla telur breytingarnar á vatninu stafa af jarðskjálftum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það þarf ekki annað en að koma að Kleifarvatni og sjá jarðlögin í Sveifluhálsinum til þess að ganga úr skugga um, að miklar byltingar af völdum jarðskjálfta hafa átt sér þar stað, enda mun vatnið aðallega myndað við landsig. Og það er ekki ósennilegt, að enn geti jarðhræringar valdið breytingum á vatninu. Eg hefi þó ekki getað aflað mér neinna upplýsinga, sem benda tilþess, að svo hafi orðið undanfarna áratugi. Magnús Ólafsson, sem hefir átt heima í Krýsuvík um hálfa öld, telur, að engar sýnilegar breytingar hafi orðið á vatninu, þegar hinn mikli gufuhver — Austurengjahver — breyttist í sína núverandi mynd árið 1924, eða endranær, þegar jarðhræringar hafa verið þar syðra. Breytingunum á vatninu er heldur ekki þann veg háttað, að líkur séu til að þær eigi yfirleitt rætur sínar að rekja til jarðskjálfta.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það sem dr. Bjarni Sæmundsson segir um breytingarnar á vatnshæðinni i Kleifarvatni, er í aðaldráttum i samræmi við það, sem eg hefi heyrt eftir mönnum, sem átt hafa heima í Krýsuvík fyrr eða síðar, og hafa orðið að veita þessu nána athygli vegna þess að vatnið flæðir fljótt yfir meira eða minna af engjunum, þegar hækkar í því. Hæð vatnsborðsins snerti þvi beinlínis afkomu manna þar, og því hlutu þeir að fylgjast með öllum stærri breytingum, sem urðu á því.
Hin síendurtekna hækkun og lækkun i vatninu, getur ekki að öllu leyti stafað af niðurrennsli um vatnsbotninn, enda hefir engum tekizt enn þá að finna eðlilegt samband þar á milli. Eg mun síðar í þessari ritgerð sýna fram á, að aðalorsakirnar eru líka allt aðrar, nefnilega, tímabilaskipti í úrkomunni. En með því er ekki sagt, að niðurrennsli eigi sér ekki stað, þó að í því sé ekki að finna skýringuna á aðalbreytingunum á vatnsborðinu.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Nokkrar líkur eru fyrir því, að Kleifarvatn hafi frárennsli neðan jarðar í Lambhagatjörn, en það lítur út fyrir að vera svo takmarkað, að það geti ekki tekið á móti nema vissu vatnsmagni, þyi að það virðist ekki hafa yeruleg áhrif á breytingar vatnsins, eins og síðar mun sýnt fram á. En það, sem bendir til þess, að vatnið hafi þarna afrennsli, er sífellt innstreymi í tjörnina úr Kleifarvatni. Þann 23. ágúst i sumar kom i ljós við nákvæmar mælingar, að úr Kleifarvatni og inn í Lambhagatjörn runnu 282,5 lítrar á sek., en í vatnið runnu samtals (lindir og lækir) 234,75 lítrar á sek. eða 47.75 lítrum minna en úr því. Ef niðurrennsli, sem enginn hefir enn séð, á sér stað úr Lambhagatjörn, getur það haft nokkur áhrif á lækkun vatnsins ásamt uppgufuninni, gagnstætt úrkomunni, sem er aðalgerandinn í hækkun þess.

Kleifarvatn

Hellir í Fremri-Stapa.

III.
Til þess að fá úr því skorið, hvaða orsakir lægju til breytinganna á Kleifarvatni, hefi eg í fyrsta lagi fylgst með hækkun og lækkun vatnsborðsins að undanförnu, í öðru lagi gert samanburð á vatnshæð Kleifarvatns og Rauðavatns, sem er hér austan við Reykjavík, og í þriðja lagi hefi eg gert samanburð á vatnshæð Kleifarvatns og úrkomu á Eyrarbakka.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það sem vakti fyrst athygli mína, þegar eg fór að fylgjast með breytingunum á vatnshæðinni i Kleifarvatni, var það, að þegar þurrviðri gengu, lækkaði stöðugt i vatninu og gat lækkað nm 2 cm. á sólarhring og stundum meira. En þegar úrkomur voru, lækkaði hins yegar minna í því, stóð í stað eða jafnvel hækkaði, eftir því hvað úrkoman var mikil, Eg sá á þessu, að úrkoma og uppgufun áttu mikinn þátt í breytingunum á vatnshæðinni eða voru aðalástæðurnar.
Syðst í vatninu er og nokkur jarðhiti, sem hefir ef til vill örfandi áhrif á uppgufun þess. Svo þegar hátt er í vatninu og það gengur upp á engjarnar í Krýsuvík, myndast þar grynningar, sem hafa tiltölulega meiri uppgufun en vatnið sjálft. Þá er Lambhagatjörn norðan við vatnið með miklu flágrynni, en ekki djúp. Tjörnin er enn þá inniluktari en vatnið, því að hár höfði, Lambhagi, er á milli. Á tjörninni er stundum hlýtt og „sléttur sjór“, þó að kul og alda sé á vatninu. Þar ætti því einnig að vera talsverð uppgufun og tiltölulega meiri en úr vatninu. Þá vinnur og niðurrennsli, ef á sér stað, að lækkun í vatninu eins og uppgufunin, svo sem fyrr er greint.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

IV.

Hér á undan hefi eg leitast við að sýna fram á, að hækkun og lækkun í Kleifarvatni stafaði aðallega af úrkomu og uppgufun, og það væri úrkoman, sem aðalbreytingunum ylli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það ætti því að vera vaxandi úrkoma, sem veldur því, að Kleifarvatn fer smáhækkandi ár frá ári um langt skeið, þó að stundum smálækki á milli, og svo aftur minnkandi úrkoma, sem veldur þvi, að vatnið fer lækkandi um mörg ár, unz hækkun hefst að nýju, og svo koll af kolli. Til þess að geta gengið úr skugga um þetta, vantaði enn tilfinnanlega úrkomumælingar frá KIeifarvatni, eða fjallgarðinum þar í grennd, úrkomumælingar, sem næðu yfir marga tugi ára, helzt tvö eða fleiri tímabil að jafnlengd við þau, sem Kleifarvatn á að þurfa til þess að hækka og lækka, svo að bera mætti saman, hvort nokkur slík sambærileg hækkunar og lækkunar tímabil væru í úrkomunni.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

V.
Vegna þess, hvað vatnshæðarmælingar á Kleifarvatni ná skammt aftur í tímann, hefi eg aflað mér upplýsinga hjá mönnum, kunnugum vatninu, um breytingarnar á yfirborði þess fyrr á tímum.

Jón Magnússon, sem bjó i Krýsuvik á árunum 1907—14 hefir tjáð mér, að þegar Árni Gíslason sýslumaður fluttist þangað um 1880, hafi verið að koma slægja á Nýjalandi, en svo heitir engjaflæmi, sem Krýsuvík á við suðurenda Kleifarvatns, og vatnið flæðir yfir að meira eða minna leyti, er hátt er í því.

Nýjaland

Nýjaland.

Nýjaland kvað hafa gefið af sér um 600 hesta, þegar bezt var. Jón segir og, að árið 1907, þegar hann fluttist þangað, hafi verið síðasta árið, sem hægt var að heyja á Nýjalandi um langt skeið, vegna þess hvað þá var orðið hátt í vatninu, og hafi aðeins kragi af Nýjalandi verið upp úr, enda ekki heyjaðir nema um 100 hestar það ár. Sama ár er haft eftir Guðmundi, sem þá bjó í Nýjabæ og hafði búið að undanförnu, að hann hefði aldrei séð vatnið eins mikið og þá, en þó segir Jón Magnússon, að hækkað hafi í því eftir það.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Um 1912 kvað svo hafa verið hæst i vatninu á þeim tíma, sem Jón Magnússon var í Krýsuvík, og mun það þá hafa flætt hér um bil yfir Nýjaland. Skömmu síðar fór svo vatnið að lækka og hefir yfirleitt farið lækkandi fram til ársins 1932, en úr þvi fór það svo að hækka aftur, sem kunnugt er, og hefir farið hækkandi í stórum dráttum síðan.
Í þau sjö ár, sem Jón Magnússon bjó i Krýsuvík, var ófært fyrir Stapann. Þess má og geta, að árið 1908, þegar herforingjaráðið danska vann að landmælingum við Kleifarvatn, hafði vatnið flætt upp á Nýjaland, samkvæmt því sem kortið eftir þessum mælingum sýnir. Um 1880 er að koma slægja á Nýjaland, af því að yfirborð vatnsins hefir farið lækkandi að undanförnu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Nú koma ár, þegar Nýjaland gefur af sér nokkur hundruð hesta, og það hefir verið snemma á þessu tímabili. En árið 1907 er orðið svo hátt i vatninu, að það er síðasta árið, sem þar er heyjað um langt skeið. Og þá hefir Guðmundur í Nýjabæ heldur aldrei fyrr séð vatnið svona hátt. Það átti þó enn eftir að hækka og úrkoman í Vestmannaeyjum er einnig miklu hærri árið eftir. Um 1912 var svo hæst í vatninu að sögn Jóns Magnússonar, og flæddi það þá um það bil yfir Nýjaland.

VI.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Það, sem eg hefi viljað sýna fram á í þessari ritgerð og færa rök að, er þetta: Að hækkunin og lækkunin í Kleifarvatni, sem telja má reglubundna, en ýmsir hafa álitið að stafaði af breytilegu niðurrennsli um vatnsbotninn, eigi aðalorsakir í tímabilaskiptum í úrkomunni.

Sjá Myndir.

Heimildir:
– Náttúrufræðingurinn 3.-4. tölublað (01.10.1941) – Pálmi Hannesson: KLEIFARVATN, bls. 256 – 168.
-Sunnudagsblað Vísis, 29. okt. 1941, Geir Gígja; Leyndardómur Kleifarvatns, bls. 1,2,3 og 7.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Reykjanesskagi

Helgi Páll Jónsson skrifaði ritgerð um „Eldfjallagarð og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga“ við jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2011. Hér má sjá þann hluta af ritgerðinni er fjallar um einstaka staði innan slíks svæðis:
Eldfjallagarður„Í ritgerðinni er fjallað um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins er lýst og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem mun gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu. Megininntak ritgerðarinnar er lýsing á 14 jarðminjasvæðum á skaganum sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði, verði ákveðið að skipuleggja hann úr frá slíku svæðisvali.

Reykjanes

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Reykjanes er í jarðfræðilegu tilliti merkasta svæðið á Reykjanesskaga, þar sem Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Í fjörunni vestur af Valahnúkum er að finna rofnar gígleifar sem eru til marks um sprungugos sem varð bæði í sjó og á landi samtímis. Magnús Á. Sigurgeirsson hefur lýst þessum gosviðburðum í grein sinni um yngra Stampagosið á Reykjanesi sem átti sér stað í goshrinu Reykjaneselda um 1226, en Magnús byggir rannsóknir sínar einkum á athugunum á gjóskulögum. Frá gígunum sem kallast Stampagígar-Yngri er Yngra-Stampahraunið runnið, en það er yngsta hraunið á svæðinu. Í þessu gosi myndaðist einnig Miðaldalagið sem er útbreitt gjóskulag á Reykjanesskaga og þykkast við Reykjanes.
StamparYngri-Stampagígar tilheyra gígaröð sem er sú vestari af tveimur gígaröðum sem þarna ganga inn til landsins frá sjónum, en gosvirkni hefur verið bundin við hana síðustu tvö þúsund árin á meðan ekki hefur gosið á hinni austari í þrjú þúsund ár. Gígaraðirnar stefna í NA-SV frá Kerlingarbás og inn til lands og fylgja þannig algengustu stefnu sprungna á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Gígarnir í austari gígaröðinni nefnast Stampagígar-Eldri og frá þeim hefur Eldra-Stampahraunið runnið. Víðáttumesta hraunið á Reykjanesi nefnist Tjaldstaðargjárhraun. Það er skammt austur af Eldra-Stampahrauni og hefur runnið frá gígum sem eru í beinu framhaldi af Eldri-Stampagígum. Rannsóknir með gjóskulögum og geislakoli hafa leitt í ljós að þessi síðastnefndu hraun hafa að öllum líkindum myndast í gosum fyrir um 2000 árum en Tjaldstaðagjárhraun hefur þó runnið eitthvað fyrr en Eldra-Stampahraunið.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Á Reykjanesi eru tvær dyngjur sem eru af ólíkum aldri en þó líklega báðar myndaðar í upphafi nútíma. Stærri dyngjan er Skálafell og basaltið í henni er af ólivínþóleiít gerð. Frá Skálafelli hafa hraun runnið ofan á hraun eldri dyngjunnar sem nefnist Háleyjarbunga, en í henni er basaltið af pikrít gerð. Í fjörunni austan við Háleyjarbungu hefur sjórinn rofið dyngjuna og má þar sjá afar fróðlegar opnur sem gefa innsýn inn í hvernig dyngjan er byggð upp. Háhitasvæði er á Reykjanesi og kemur að vel fram á yfirborði en þar er að finna hveravirkni og litskrúðugar ummyndanir á yfirborði.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

Háhitasvæðið er nýtt af Hitaveitu Suðurnesja sem þarna hefur sett upp jarðvarmavirkjun en inni í húsakynnum hitaveitunnar er sýningarsalur þar sem er orkusýning. Saltverksmiðja var reist á þessu svæði eins og áður hefur verið minnst á en hún er ekki í rekstri og eru mannvirkin sem henni fylgja eru nokkuð lýti á þessu svæði.
Mælt er með Reykjanesi sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna sérstakrar jarðfræðilegrar legu og tengsla við Atlantshafshrygginn en ekki síður vegna fróðlegra jarðmyndana sem þar er að finna.

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – Karlinn fjær.

Í fjörunni skammt vestan Valahnúks má fá innsýn í hvernig jarðlög hlaðast upp við neðansjávargos eða Surtseysk gos (nefnd eftir gosinu sem myndaði Surtsey árið 1963) sem mynda gjóskugíga af hverfjallsgerð. Söguleg hraun, dyngjur, gígaraðir og háhitasvæði eru á svæðinu og er landslagið allt mjög mótað af mikill eldvirkni. Auk þess gefst þarna kostur á að kynna sér nýtingu jarðhitans vegna jarðhitavirkjunarinnar sem þar er til staðar. Sprungumyndunin á svæðinu er lýsandi fyrir gliðnun milli jarðskorpufleka og eru fá svæði á jörðu, fyrir utan Afar sigdalinn í Austur-Afríku, þar sem jafn auðvelt er að skoða slíkar jarðfræðilegar aðstæður. Fremur auðvelt aðgengi er víða um Reykjanes, en um það liggja vegir og slóðar og eru til að mynda bílastæði og upplýsingaskilti til staðar við Valahnúk og útsýnispallar við húsakynni orkuveitunnar.

Hafnarsandur

Sandvík

Stóra-Sandvík.

Á Hafnarsandi rétt austan við Stóru-Sandvík, er svæði þar sem sprungur eru sérstaklega áberandi á yfirborði. Sprungurnar liggja í dyngjuhraunum sem runnið hafa frá Sandfellshæð í austri og Langhól rétt norðan við svæðið. Landrekið hefur síðan opnað sprungur í hraunið þar sem gjár hafa myndast. Gjárnar eru breiðar, nokkrar rúmir 40 m á breidd en dýptina er erfiðara að ákvarða þar sem margar þeirra eru að fyllast af sandi, en á þessu svæði er sandfok mikið og hraunið víðast hvar orðið slípað og matt vegna sandroksins. Sprungusvæðið liggur einnig í grágrýtishrauni frá dyngjunum Berghól norðan við svæðið og frá dyngjunni Sandfellshæð sem nánar verður fjallað um síðar. Val á þessu svæði fyrir eldfjallagarð byggðist fyrst og fremst á hinum sýnilegu og stórbrotnu sprungum sem þar eru.

Reykjanes

Reykjanes – „Brú milli heimsálfa“.

Talið að svæðið gæti vel hentað vel til að gera grein fyrir gliðnun jarðskorpuflekanna og þeim ferlum sem því fylgja. Önnur helsta ástæða fyrir vali svæðisins er að þarna hefur þegar verið komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn með hinni svonefndu Álfubrú, sem er göngubrú yfir eina sprunguna og einskonar minnisvarði um flekaskilin á Reykjanesskaga. Við brúnna hefur verið komið fyrir bílastæði sem gerir svæðið mjög aðgengilegt og er það þegar orðin að vinsælum viðkomustað á Reykjanesskaga. Svæðið gæti einnig hentað vel sem æfingasvæði í sprungukortlagninu t.d. fyrir jarðfræðinema.

Eldvörp-Sandfellshæð

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Eldvörp er stórbrotin gígaröð sem liggur norðvestur af Grindavík. Hún stefnir NA-SV og er hún um 10 km á lengd. Dyngjan Sandfellshæð liggur rétt vestur af gígaröðinni, en hún er stærsta og reglulegasta dyngja á utanverðum Reykjanesskaga.
Norðan Sandfellshæðar er Sandfell sem er lítið fell, að mestu úr bólstrabrotabergi og þar norðan við er svo önnur dyngja er nefnist Lágafell. Hraun á Eldvarpasvæðinu tengjast eldgosum frá tveimur tímaskeiðum eldsumbrota. Á fyrra tímaskeiðinu hefur hraun runnið frá Sandfellshæð, líklega í upphafi nútíma eða fyrir 12.500 árum síðan. Ofan á Sandfellshæðarhraunið leggst síðan Eldvarpahraunið, sem runnið hefur frá gígaröðinni og hafa rannsóknir sýnt fram á að þetta hraun rann í Reykjaneseldum.

Eldvörp

Eldvörp.

Reykjaneseldar geisuðu á tímabilinu 1211-1240, en Eldvarpahraun er líklega frá árinu 1226 líkt og Stampahraun-Yngra á Reykjanesi, Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi. Sandfellshæðardyngja er eldri en dyngjan Lágafell, því hraun frá Sandfellshæð hafa runnið yfir hraun frá Lágafelli. Lágafell er pikrít-dyngja líkt og Háleyjarbunga á Reykjanesi.

Svæði við Eldvörp og Sandfellshæð voru valin sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð af nokkrum ástæðum. Þar er til dæmis einfalt að sýna fram á ákveðna tímaröð jarðlaganna á svæðinu og bera kennsl á hvernig mismunandi eldvörp hafa gosið á mismunandi tíma.

Eldvörp

Eldvörp – borstæði.

Önnur ástæða er hin langa og stórbrotna gígaröð sem liggur á svæðinu en hún hefur að mati höfundar hátt verndargildi en er þó ekki friðuð sem náttúruvætti. Skammt austur af Sandfellshæð liggur háhitasvæði í gígaröðinni og er þar að sjá gufuaugu og ummyndunarskellur í gígunum. Þar hefur nú verið sett niður borstæði þar sem er blásandi jarðhitahola, en af henni er talsverður hávaði sem gefur til kynna orkuna á svæðinu. Borframkvæmdum hefur fylgt vegalagning þannig að auðvelt aðgengi er að háhitasvæðinu auk þess sem gönguleið liggur meðfram gígunum og gerir göngu um umhverfi gígana einfalda.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Þarna er mikill fjölbreytileiki gjall- og klepragíga, og hraunmyndana sem vert er að skoða. Svæði í kringum Eldvarpagígaröðina og Sandfellshæðardyngju er tiltölulega afskekkt þótt stutt sé í bæði í Grindavíkurkaupstað og baðstaðinn Bláa lónið sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesskaga.
Það væri því mögulegt að vekja meiri athygli á fróðlegu jarðfræðilegu umhverfi svæðisins t.d. fyrir þá ferðalanga sem viðkomu hafa í baðstaðnum vinsæla.

Hrólfsvík-Festarfjall

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Hrólfsvík er grýtt fjara sem liggur innan stærri víkur, Hraunsvíkur, skammt austur af Grindavík. Rétt norður af þessu svæði eru Vatnsheiðardyngjur, en þær eru sömu gerðar og dyngjurnar Háleyjarbunga á Reykjanesi og Lágafell norðan Sandfellshæðar þar sem bergtegundin er pikrít basalt. Í Hrólfsvík er að finna hraunlag úr pikríti sem inniheldur talsvert magn af hnyðlingum (eða framandsteinum) úr djúpbergstegundinni gabbrói, en þeir hafa borist upp um gosrás við eldgos. Undir hraunlaginu er einnig móbergslag þar sem töluvert er um samskonar hnyðlinga.

Hnyðlingur

Hnyðlingur í Hrólfsvík.

Hnyðlingar eru rannsóknarviðfangsefni innan bergfræðinnar þar sem þeir eru taldir veita upplýsingar um uppruna úthafsbasalts (úthafsþóleiíts). Um bergfræðilega tilurð hnyðlingana í Hrólfsvík hefur Ingar A. Sigurðsson ritað í námsritgerð sína og skal nánar vísað til skrifa hans um það efni. Hnyðlingar finnast reyndar víða á Reykjanesskaga, en hvergi munu þeir þó finnast í jafnmiklum mæli og í Hrólfsvík. Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hraunlagið í Hrólfsvík er komið en það gæti verið komið frá Vatnsheiðardyngjum norðan við víkina, eða verið rofleif af gamalli eldstöð sem að tengist Festarfjalli skammt austur af víkinni og sjórinn hefur nú brotið niður.

Festarfjall

Festarfjall og Ægissandur.

Þegar gengið er austur eftir Hraunsvíkinni frá Hrólfsvík, er komið að móbergsklettum með mjórri sandfjöru neðan við sem nefnist Hraunssandur eða Ægissandur.
Skammt austar er Festarfjall, sem er 190 m hátt og rofið af sjónum til hálfs. Rétt við Festarfjall er hægt að komast niður í sandfjöruna og má þar sjá fróðlegar jarðmyndanir, s.s. rauðleit gjalllög sem hraun hefur runnið yfir, jökulberg, bergganga, auk jarðlagastafla þar sem skiptast á basalthraun og móbergslög frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar.

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

Hrólfsvík er valin sem svæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna hnyðlinganna sem eru bergfræðilega forvitnilegir og varðveita ákveðna upplýsingar um kvikuna og bergið sem upp kemur í eldgosum á skaganum. Víkin og umhverfi hennar er því fróðlegur staður og þá sérstaklega fyrir fræðimenn á sviði bergfræði og skyldum greinum. Fjaran við Festarfjallið er afar fróðleg vegna jarðlaganna sem þar er að finna auk þess sem hún er skemmtilegt göngusvæði, en sjávargangur verður þó að vera með minnsta móti. Aðgengi að fjörunni þyrfti að bæta ef svæðið ætti að verða aðdráttarafl í eldfjallagarði og fara skyldi með varúð undir háa klettana þar sem talsverð hætta er þarna á grjóthruni og augljós ummerki eru um hrun úr Festarfjalli og móbergsklettunum ofan fjöruna.

Méltunnuklif
Méltunnuklif kallast svæði á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur sem liggur í Ögmundarhrauni. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér, en við akveginn sem liggur framhjá því er opna þar sem finnast nokkuð athyglisverðar jarðmyndanir.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif- misgengi.

Í rannsóknum sínum á jarðfræði Reykjanesskaga hafa jarðfræðingarnir Jón Jónsson og Freysteinn Sigurðsson sérstaklega lýst jarðlögum við Méltunnuklif. Í opnunni er að finna þrjú grágrýtishraunlög og að minnsta kosti tvö jökulbergslög inni á milli þeirra. Efst í þessum jarðlagastafla er svo að finna móberg.
Hraunlögin eru jökulrákuð við efri lagmót. Méltunnuklif geymir því nokkrar „blaðsíður” í jarðsögu Reykjanesskagans ef svo má að orði komast.

Méltunnuklif

Méltunnuklif – gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur.

Jökulbergið ber vitni þess, að minnsta kosti tvisvar sinnum hafa jöklar gengið yfir þetta svæði. Hraunlögin benda til að svæðið hafi síðan orðið íslaust og eldgos með tilheyrandi hraunrennsli hafi átt sér stað.
Móbergið efst í syrpunni bendir til að jöklar hafi gengið yfir svæðið í þriðja skipti og eldsumbrot hafi orðið undir jökli. Í þessari opnu eru því ummerki um þrjú hlýskeið og þrjú jökulskeið sem orðið hafa á Reykjanesskaga. Önnur sérkennileg myndun á þessu svæði er misgengi og djúp gjá í Katlahrauni, sem rekja má um 2 km til suðvesturs frá opnunni.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Í Skála-Mælifelli sem liggur rétt vestur af Méltunnuklifi er einnig að finna jarðsögulega merkilegt hraunlag með öfuga segulstefnu, tengda er við skammlífan viðsnúning í segulstefnu jarðar fyrir um 43 þúsund árum. Hefur hraunið því runnið um það leyti. Þessi viðsnúningur segulsviðsins er kenndur við Laschamp í Frakklandi, en þar finnast jarðlög tengd þessu skeiði auk þess sem þau finnast á Nýja-Sjálandi og víðar.

Keilir-Keilisbörn

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Keilir er líklega þekktasta fjall á Reykjanesskaga, en fjallið er mjög reglulega lagað og formfagurt á að líta. Hæð fjallsins er þó ekki mikil, eða 379 m yfir sjó.
Keilir er myndaður við gos undir jökli, sennilega á stöku gosopi eða stuttri sprungu þar sem hann er hvorki stapa- eða hryggjarmyndun. Fjallið stendur upp úr Þráinsskjaldarhrauni og sker sig nokkuð úr fjallamyndinni þegar horft er yfir Reykjanesskaga úr fjarska. Norðan Keilis eru lægri hnúkar sem nefnast Keilisbörn og eru einnig úr móbergi. Á toppi fjallsins hefur verið komið fyrir útsýnispalli og gestabók en útsýni af toppi fjallsins er afar mikið yfir Reykjanesskaga.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Í Keili og Keilisbörnum er ekki mikil fjölbreytni jarðmyndana þar sem fjallið er að öllu leyti gert úr móbergi. Þegar hinsvegar móbergið er skoðað nánar og þegar gengið er niður fjallið að norðanverðu eru talsvert fjölbreytt rofform í móberginu og áhugavert að skoða samsetningu þess.
Keilir er valin sem jarðminjasvæði inn í eldfjallagarð einkum vegna þess að hann er einkennisfjall á Reykjanesskaga og vekur mikla eftirtekt vegna forms síns vegna. Hann hefur þannig einnig nokkuð táknrænt gildi fyrir Reykjanesskagann auk þess að vera vinsælt göngufjall og útivistarsvæði sem auðvelt er að komast að.

Trölladyngja-Sog

Trölladyngja

Á Trölladyngju.

Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku. Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði sem kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls.

Sogin

Sogin.

Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól.
Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu. Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins.
Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.

Grænavatn-Seltún

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Grænavatn er sprengígur í Krýsuvík. Gígurinn tilheyrir þyrpingu sprengigíga í Krýsuvík sem eru yfir 6000 ára gamlir. Annar sprengigígur rétt við Grænavatn er Gestsstaðavatn. Þess má þó geta þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsir Gestsstaðavatni ekki sem sprengigíg heldur sem dauðísmyndun eða jökulkeri og telur þannig vötnin tvö af gjörólíkum uppruna. Sprengigígar myndast í sprengigosum þar sem lítið er um gjóskumyndun og gosefnin eru aðallega gosgufur og vatnsgufur.

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn.

Hægt er að ganga hringinn í kringum vatnið meðfram fjöruborði gígsins, en fróðleg hraunlög eru á austurbakkanum en þar er hraunlag með gabbróhnyðlingum. Vatnið í gígnum hefur sérstakan grænan lit sem mun vera vegna kísils og brennisteins sem í því er. Grænavatn er sérstætt eldvarp og því talið vera ágætt dæmi um jarðminjasvæði í eldfjallagarði og ætti að vekja þar nokkra eftirtekt.
Seltún er vinsæll viðkomustaður í háhitasvæðinu í Krýsuvík og er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Helsta aðdráttarafl svæðisins er yfirborðsvirkni jarðhitans og má þar sjá litskrúðugar ummyndunarskellur og leirhveri. Á þessu svæði þarf þó að fara gætilega því jarðhitasvæði með hveravirkni geta reynst varhugaverð ef göngufólk og ferðafólk gáir ekki að sér, en þegar hefur verið komið upp viðvörunarskiltum og göngupöllum í Seltúni. Bílastæði eru bæði við Seltún og Grænavatn og aðgengi að svæðunum auðvelt.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á Reykjanesskaga eru nokkrir gígar af eldborgargerð og er einn sá reisulegasti þeirra staðsettur undir móbergsstapanum Geitahlíð. Eldborgir hlaðast upp á gosopi þar sem lítið er um kvikustrókavirkni, en hraunslettur mynda háa gígbarma. Eldborgirnar undir Geitahlíð eru í raun tvær, Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg en þeirri síðarnefndu hefur verið raskað verulega með efnistöku. Litla-Eldborg er í raun gígaröð af hraunklepra og gjallgígum og ætti því síður að tala um hana í eintölu líkt og Stóru-Eldborg. Eldborgirnar eru ekki af sama aldri og hraunið sem rann frá Litlu-Eldborg er mjög ólíkt hrauninu frá Stóru-Eldborg að samsetningu. Stóra- Eldborg er þó einnig partur af gígaröð sem stefnir SV-NA sem má greinilega sjá þegar staðið er upp á henni. Þegar komið er upp á Geitahlíð heldur þessi gígaröð þar áfram í sömu stefnu.

Stóra-Eldborg

Eldborgarhraunin – uppdráttur Jón Jónsson.

Hraunið frá eldborgargígunum báðum hefur runnið til sjávar og út frá Stóru-Eldborg liggja nokkrar hrauntraðir. Eldborg er eins og áður hefur komið fram friðað náttúruvætti. Jón Jónsson jarðfræðingur rannsakaði þessar gígmyndanir sérstaklega og lýsir Stóru-Eldborg á eftirfarandi hátt: „Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.“

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldborgir eru sjaldgæf eldvörp utan Íslands, þótt Stóra-Eldborg sé ekki eina eldborgin á Reykjanesskaga eða á landinu. Hún er þegar friðað náttúruvætti og er það áberandi gígmyndun að hún vekur eftirtekt hjá hverjum ferðalangi, sem áhuga hefur á náttúrunni og fer um veginn sunnan við Geitahlíð. Að þessu leyti á Stóra-Eldborg undir Geitahlíð fullt erindi sem jarðminjasvæði í Eldfjallagarði.

Hrútagjárdyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Við norðanverðan Sveifluháls er Hrútagjárdyngja, eitt sérstæðasta eldvarp sem finnst á Reykjanesskaga. Jón Jónsson kortlagði dyngjuna og lýsir henni svo í Árbók Ferðafélags Íslands 1984: „Það er afar stór og mjög sérkennileg eldstöð sem ekki á sinn líka á Reykjanesskaga og ekki þekki ég annað eldvarp þessu líkt. Hingað til hef ég kennt það við Hrútagjá en það er sprunga í annarri hlið þessarar miklu eldstöðvar. Dottið hefur mér í hug að e.t.v. mætti nefna eldstöð þessa Eldriða en skýring þess nafns kann að reynast hæpin.

Hrútagjá

Hrútagjá – hrauntröð í Hrútargjárdyngju.

Ljóst er að nafnið Eldriði hefur ekki haldist um þetta eldvarp, en Hrútagjárdyngja er með sanni furðulegt eldvarp og hefur afar sérstæða lögun. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða dyngjumyndun og hefur hraun frá henni líklega breiðst yfir um 100 km2 lands (3-4 km3) allt til sjávar á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 5000 árum. Það sem einkum gerir Hrútagjárdyngju svo sérstaka er að hún er umkringd gjám á þrjá vegu og er sú stærsta þeirra að vestanverðu og er nefnd Hrútagjá.“

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hvernig nákvæmlega Hrútagjárdyngja og gjárnar í kringum hana eru til orðnar er ekki að fullu þekkt en Jón Jónsson setur fram eftirfarandi tilgátu um myndun dyngjunnar: „Sennilega hefur hraunið komið upp á tveim stöðum, þ.e. þar sem stóri hraungígurinn nú er og þar sem sigketillinn er. Gosið hefur verið hægfara og yfirborð hraunsins hefur storknað fljótt. Hraunkvikan hefur haldið áfram að streyma upp undir þaki úr storku og á þann hátt hefur myndast hraunbunga, sem fljótandi hraunkvika var undir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Nú er tvennt til: Annað hvort hefur það hraun fengið örvaða útrás einhvers staðar svo að það hefur streymt út en hraunstorkan við það sigið niður og sprunga myndast allt í kring, eða þá að hraunið hefur í lok gossins sigið niður í gosopið, en við það sígur hraunsléttan öll, gjárnar myndast umhverfis hana og jafnframt sigketillinn, sem áður er getið, en hann er vafalítið yfir gosopi.

Að dæma af útliti aðal gígsins hefur að gosinu loknu gígbotninn í heild sigið.
Af ofangreindu má ráða að Hrútagjárdyngja er með forvitnilegri eldvörpum á Reykjanesskaga og er atburðarrásin í kringum myndun hennar nokkur ráðgáta. Ekki hefur höfundur fundið neinar heimildir um frekari rannsóknir sem hafa farið fram varðandi myndun Hrútagjárdyngju. Væri hún eflaust heppilegt viðfangsefni fyrir nemendur í eldfjallafræðum í eldfjallagarði.“
Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn vestanvert.

Sveifluháls er einn mesti móbergshryggur á Reykjanesskaga en austan hans og rétt norðan við Krýsuvík liggur stöðuvatnið Kleifarvatn. Krýsuvíkurvegur liggur eftir Sveifluhálsinum austanverðum og meðfram vesturbakka vatnsins. Á þessu svæði frá Miðdegishnúki að Hellutindum eru mjög fjölbreyttar ásýndir móbergs og má þar sjá fróðlegar opnur inn í móbergsmyndun Sveifluhálsins. Svæði sem þetta gæti t.d. verið tilvalið til kennslu (t.d. fyrir jarðfræðinema) um móbergsmyndanir og samspil eldvirkni og jökulíss en líklega eru fá svæði jafn aðgengileg í þeim tilgangi og einmitt þarna við vesturbakka Kleifarvatns. Þarna er hægt að skoða uppbyggingu og samsetningu móbergsmyndana, lagskiptingu, bólstrabrot og bergganga sem ganga í gegnum móbergið. Rofform móbergsins eru fjölbreytt og víða mikið sjónarspil því að móbergið er auðrjúfanlegra en storkubergið. Svæði sem þetta er hér talið hafa talsvert fræðslugildi í eldfjallagarði því móbergsmyndanir eru einna sýnilegastar hér á landi og eru þarna talsvert fjölbreyttar á ekki stærra svæði.

Brennisteinsfjöll-Grindaskörð

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Brennisteinsfjöll liggja suðaustur af Kleifarvatni og eru eitt víðáttumesta svæðið á Reykjanesskaga. Brennisteinsfjöll eru hraunaflæmi prýdd fjölbreyttum eldvörpum sem myndast hafa á eldstöðvarkerfinu sem kennt er við fjöllin. Apalhraun og helluhraun þekja mestan hluta svæðisins. Þarna eru mikil hraunaflæmi sem runnið hafa bæði til norðurs og suðurs meðal annars steypst fram af Herdísavíkurfjalli í hraunfossum og þaðan runnið ofan í sjó.

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Í helluhrauninu er mikið um hella, stórbrotnar hrauntraðir og niðurföll. Margir reisulegir gígar eru á svæðinu en mesta jarðfræðilega undrið verður þó að telja Kistufell sem er afar sérstæð gígmyndun. Gígveggirnir eru stuðlaðir og hafa yngri hraun runnið inn gíginn. Jafn sérstætt eldvarp og hér um ræðir hefur að mati höfundar mikið verndargildi og spurning hvort slíkt eldvarp ætti ekki að njóta algjörrar friðunar.
Lítið háhitasvæði er í Brennisteinsfjöllum sem sýnir ekki miklar virkni á yfirborði en kemur fram í gufuaugum og ummyndunarskellum á yfirborði.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingar, hafa gert úttekt á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum í ritgerð þeirra segir meðal annars um fjölbreytileika svæðisins: „Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum […] Við rannsóknir á jarðhita með borunum á þessum slóðum þarf að taka tillit til umhverfisins auk mikillar umbrotasögu svæðisins, en þar hefur oft verið umbrotasamt og lega mannvirkja þarf að taka mið af því. Þá þarf að huga vel að því að spilla ekki sérstæðri náttúru svæðisins.“

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Í Grindaskörðum er einnig fjöldi reisulegra gíga. Þegar komið er upp úr skarðinu er þar allnokkuð misgengi og sigdalur. Í sigdalnum að norðan eru áhugaverðir gígar á gígaröð en sunnar er dalurinn þakin helluhrauni sem er afar auðvelt að ganga eftir. Mestur gíga á þessu svæði er sá sem Jón Jónsson hefur nefnt Gráfeld en frá honum hefur Selvogshraun runnið. Grindaskörð tengjast einnig brennisteinsnámi sem stundað var í Brennisteinsfjöllum um skeið og á sér nokkuð fróðlega sögu.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Í pistli Sveins Þórðarsonar um brennisteinsvinnslu á Íslandi vísar hann í rit Páls Eggerts Ólasonar prófessors, Saga Íslendinga, en þar segir: „Var Ísland snemma frægt brennisteins land, og er það til marks, að í tilraunum Danakonungs til að veðsetja landið er því einkum til gildis talið, að þar séu gnægðir miklar af brennisteini. Var þetta þá arðvænleg verzlunarvara, enda nauðsynleg hernaðarþjóðum til púðurgerðar, eins og hún fór þá fram“.
Agnes Stefánsdóttir (2008) fjallar nokkuð um Brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu. Þar segir að Jón Hjaltalín landlæknir hafi rannsakað brennisteinsnámur árið 1851.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Fann hann fjórar námur í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík sem síðar voru keyptar af Englendingnum J. W. Busby fyrir tilstuðlan Jóns. Námastígurinn liggur af Grindaskarðavegi meðfram Draugahlíðum og niður í Námahvamm, en þar sést ennþá rúst Námamannaskálans og ummerki námugraftarins.
Brennisteinninn var unnin bæði í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, en brennisteinninn úr Brennisteinsfjöllum þótti hreinni og virtist hagkvæmara að flytja hann, þar sem styttri vegalengd var þaðan til Hafnafjarðar. Það reyndist þó örðugra að komast að Brennisteininum í Brennisteinsfjöllum þar sem hann lá undir nærri metra þykku hraunlagi. Fluttur var inn vír frá útlöndum sem áætlað var að strengja frá fjallsbrún niður á jafnsléttu. Var þetta gert til að sleppa við að flytja brennisteininn á hestum niður Kerlingaskarð. Vírinn reyndist hinsvegar of þungur til að flytja hann upp í Brennisteinfjöll og varð því aldrei neitt úr þessum áformum og fór að draga út brennisteinsvinnslunni eftir þetta. Það tók um 12-14 tíma að flytja brennistein á hesti til Hafnafjarðar og var borguð ein króna (þess tíma) á hvern hestburð.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Ljóst er af ofansögðu að Brennisteinsfjöll eru einstakt jarðminjasvæði og ættu að vera mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði á Reykjanesskaga, bæði vegna mikils fjölda eldvarpa og ekki síður vegna menningarminja. Brennisteinsfjöll liggja nokkuð afskekkt og eru fremur óaðgengileg því þangað liggja engir akvegir. Svæðið myndi því henta vel fyrir ferðafólk sem vill njóta ósnortins víðernis og náttúru og í lengri ferðum og upplifa stórbrotnar hraunmyndanir, eldvörp og eldfjallalandslag.

Búrfell

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Búrfell er gígur sem er staðsettur skammt austan við Hafnafjörð og myndar nyrsta gíginn í Krýsuvíkur- eða Trölladyngjukerfinu. Gígurinn er af eldborgargerð, en frá honum liggur einhver lengsta hrauntröð á Íslandi sem er Búrfellsgjá. Mikil misgengi eru auk þess á svæðinu við Búrfell og er Hjallamisgengið þeirra mest. Árni Hjartarson skiptir gossögu Búrfells í fjóra þætti eða lotur sem hér segir:

Hraunflæði

Búrfellshraun.

1. Straumsvíkurlota: þá rann Búrfellshraun til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum og niður til sjávar hjá Straumsvík og þar í grennd. Hraunið er nú hulið yngri hraunum.
2. Lambagjárlota: Hraunið rennur niður með Ásfjalli og nær hugsanlega til sjávar utan við Hamarinn í Hafnafirði. Þarna myndaðist Lambagjá sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
3. Urriðavatnslota: Hraun fyllir sigdalinn neðan við Búrfell og tekur að renna niður með Vífilsstaðahlíð. Það stíflar uppi Urriðavatn og nær til sjávar bæði við Hafnafjörð og í Arnarnesvogi. Hraunrennslið hefur verið langvarandi og þarna myndast Búrfellsgjáin sem meginfarvegur hraunsins frá gígnum.

Búrfell

Búrfellsgjá.

4. Goslok: Hraunrennsli hættir í Búrfellsgjá og hraunrennsli hefst til suðurs frá gígnum um undirgöng. Þá verða til hrauntjarnir sem tæmast svo í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Gosið hefur líklega staðið í 1-2 ár þar sem hrauntraðir og hellar þurfa nokkurn tíma til að myndast.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur ritaði ítarlega grein um Búrfellshraun og lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undan því og ofan af því.

Búrfell

Búrfell og nágrenni – herforingjakort 1903.

Árni Hjartarsson umreiknar þessar aldursákvarðanir yfir í raunaldur og sýna niðurstöðurnar að Búrfellshraun er líklega um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f. Kr. Sjávarstaða hefur á þessum tíma verið um 10 m lægri og eru því ystu mörk hraunsins neðan sjávarborðs í dag.
Nokkrar hrauntraðir hafa myndast í eldsumbrotunum sem mynduðu Búrfell. Elsta tröðin nefnist Lambagjá og liggur niður hjá Kaldárseli en yngst er Kringlóttagjá sunnan við Búfellsgíginn.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfellsgjáin er þó sú hrauntröð sem vekur mesta eftirtekt og mun eiga fá sína líka á Íslandi. Veggir traðarinnar eru oft 5-10 m háir og sumsstaðar slútandi þannig að víða hafa myndast skjólríkir skútar sem áður fyrr var notað sem afrep fyrir sauðfé í vondum veðrum, en þar finnast einnig gamlar seljarústir og minjar um forna búskaparhætti. Búrfell og Búrfellsgjár eru jarðminjar um eldgos sem myndað hefur sérstæð eldvörp, Búrfellsgíg og Búrfellsgjánna. Í gjánni eru einnig menningarminjar og er svæðið þegar orðið afar vinsælt útivistar og göngusvæði sem á tvímælalaust heima sem jarðminjasvæði í eldfjallagarði.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Það eldvarp á Reykjanesskaga sem hefur líklega fengið meiri umfjöllun en nokkuð annað sem mögulegt aðdráttarafl í eldfjallagarði er Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er staðsettur á milli Grindaskarða og Stóra-Kóngfells skammt norðvestan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Lítið var vitað um tilurð hinnar miklu hvelfingar eða hellis ofan í gígnum fyrr en sigið var ofan í hann árið 1974. Fyrstur til að síga í hellinn var Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður sem lýsir hellinum í grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Sigdýptin í hvelfingunni í hellinum er um 120-130 m og er þvermálið á botni hennar um 50 m. Nákvæma lýsingu á umfangi hellisins er að finna í áðurnefndri grein Árna þar sem ítarlega er fjallað um sigferð í hellinn. Í seinni tíð hefur Árni komið fram með þær hugmyndir að bora í Þríhnúkagíg í þeim tilgangi að kynna almenningi innihald hvelfingarinnar.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Nokkur svæði á Íslandi eru friðuð sem náttúruvætti vegna sérstöðu sinnar og sé Þríhnúkagígur í slíkum sérflokki sem raun ber vitni, jafnvel einstakur á heimsvísu, má spyrja hvort að ekki væri skynsamlegra að vernda hann algjörlega í stað þess að bora í hann? Samkvæmt Umhverfisstofnun eru 34 svæði á Íslandi friðlýst sem náttúruvætti en um þau segir: „Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og hraun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask.“

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Þríhnúkagígur er ekki friðaður sem náttúruvætti en liggur innan Bláfjallafólkvangs sem nýtur friðunar upp að ákveðnu marki. Ljóst má vera að borun í gíginn er rask á eldvarpinu og borframkvæmdir munu hafa jarðrask í för með sér. Sumir hraunhellar landsins eru lokaðir gagnvart átroðningi vegna þeirra dropasteinsmyndana sem þar er að finna og má spyrja hvort slík lokun ekki einnig að gilda um Þríhnúkagíg þar sem hvergi annarsstaðar á Íslandi er vitað um sambærilegar jarðminjar? Á annað borð mætti ef til vill benda á þau rök að engin vissi af innviðum Þíhnúkagígs ef ekki hefði verið sigið í hann og frægð hans myndi aukast ef borað væri í hann og innihaldið sýnt almenningi. Það myndi jafnvel glæða áhuga á jarðfræði nærliggjandi svæðis og vera eitt mesta aðdráttarafl í eldfjallagarði. Þetta gæti verið eitt sjónarmið fyrir borun í gíginn. En gæti verið að Þríhnúkagígur yrði jafnmikið aðdráttarafl ósnertur ef einfaldlega yrði kynnt hvað leyndist í gígnum? Yrði dulúð hans þá meiri og væru ferðalangar og ævintýramenn hugsanlega tilbúnir að borga fyrir dýrar sigferðir ofan í hellinn? Eða á hellirinn einfaldlega að vera öllum opinn? Hvort væri betra í eldfjallagarði á Reykjanesskaga?

Þríhnúkar

Í Þríhnúkagíg.

Hér að ofan hefur verið velt upp ýmsum spurningum hvað varðar borun í Þríhnúkagíg en tekið skal skýrt fram að ekki er verið að taka afstöðu til þess hvort borun í gíginn sé réttlætanleg. Það sem helst vakir fyrir höfundi með ofangreindum vangaveltum er að borun í Þríhnúkagíg á erindi við umræðuna um verndun jarðminja og náttúruvernd. Má vel vera að borunin sjálf gæti leitt til aukinnar verndunar svæðisins og nánasta umhverfi þess. Sjálfsagt er þó að allar hliðar málsins séu skoðaðar. Það er þó ljóst að Þríhnúkagígur hvort
sem borað verður í hann eða ekki, á mikið erindi í eldfjallagarð sem stórbrotið eldvarp og jarðminjasvæði.“

Heimild:
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga, Helgi Páll Jónsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2011.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga 2021.

Kleifarvatn

Í Morgunblaðinu 1967 fjallar Óttar Kjartansson um „Kleifarvatn„.

Reykjanesskagi

Sveifluháls á Reykjanesskaga.

„Að margra áliti er Reykjanesskaginn bæði ljótur og leiðinlegur. Þar dæmast fjöllin dökk og úfin, gróðursnauð og laus við alla formfegurð, nema þá kannski Keilir, en skaginn í heild nakinn grjótauðn, þurr og óbyggileg að mestu. Jú, rétt er það, víða er þar langt milli vatnsbóla, en ég held samt að margir sem sterk orð nota um eyðileika Reykjanessins séu þeir sem minnst hafa skoðað það. Því, við nánari athugun kemur í ljós að á skaga þessum finnst ótrúlega margt sem gleður augað;

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Göngumaðurinn uppvötvar grösuga velli og gróin heiðarlönd, fjallið reynist geyma bæði mosa og lyng, jafnvel fagra blómabrekku. Og þótt hraun og mosi þeki miklar víðáttur, og þótt móbergsfjöllin og skagarnir séu hvert öðru lík, langt að séð, er fjölbreytnin í smáatriðum óendanleg þegar betur er að gáð. Verði svo fyrir lækur eða stöðuvatn, eða máske aðeins lítil tjörn, sem raunar er allt helzt til fáséð á þessum slóðum, má ganga að því sem vísu að þar í nánd megi finna fornar hleðslur og veggjabrot sem segja utan og ofan af sögu selsins í heiðinni og lífsbaráttunni sem þar var háð. En nú á tímum traktora og mjaltavéla gleymist víst flestum að hugsa til þess hve raunvenulega er stutt síðan öldin var önnur.

Selalda

Vestari Lækur í Krýsuvík.

En það verður víst ekki hrakið, að Reykjanesskaginn er þurrt land. Mig minnir að hafa megi eftir Sigurjóni Rist vatnsmælingamanni, að ef allt vatn afrennslissvæðis Elliðaánna rynni rétta boðleið ofanjarðar, yrði vatnsmagn þeirra sex til áttfallt það sem nú gefur að líta. Þegar svo vestar dregur á nesinu verða hlutföllin milli úrkomu, afrennslis og rennandi vatns enn óhagstæðari, því það er kunnara en frá þurfi að segja, að rekja má alla strandlengjuna frá Elliðaám, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanestá, og þaðan allt austur að Ölfusárósum, án þess að fyrir verði nokkurt vatnsfall sem orð er á gerandi. Ferðast má tugi kílómetra með ströndinni án þess að finna svo mikið sem uppsprettulind. Þó eru þær ekki með öllu óþekktar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Á Vatnsleysuströnd eru til dæmis öflugar lindir í fjöruborðinu. Talið er að nafnið Vatnsleysa tákni ekki vatnsleysi, eða vatnslausan stað, heldur hið gagnstæða, það er að segja staðinn þar, sem vatnið losnar úr læðingi. En eins og rennandi vatn er fátítt á Reykjanesskaga, er þar einnig lítið af stöðuvötnum, þó finnast þau, jafnvel mörg ef allt er tíundað, en hér verður fjallað um hið stærsta þeirra, Kleifarvatn.
Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn í næsta nágrenni Reykjavíkur. Það liggur inni í miðjum Reykjanesskaga, svo til beint í suðurátt frá höfuborginni, í um 25 km fjartægð mælt í beina línu. Hæð þess yfir sjávarmáli er um 140 metrar, og í eðli sínu og útliti er það sannkallað fjallavatn, fagurblátt á sólbjörtum degi.
Vatnið liggur í dalhvilft sem verður milli Sveifluháls að vestanverðu og mikillar heiðarbungu sunnan Lönguuhlíðar að austanverðu. Síðan bílvegur var lagður um Krýsuvík og meðfram Kleifarvatni hefur þar verið fjölfarin leið, en áður en það varð vatnið teljast afskekkt, þótt skammt væri það frá byggðu bóli, Krýsuvík. Fjölfarnasta leiðin milli Hafnarfjarðar var ekki með vatninu, eins og nú er, heldur vestan Sveifluhálsins. Þó var stöku sinnum fært meðfram vatninu þegar lágt var í því, á fjöru undan Stapanum, en það var fremur sjaldgjæft. Kleifarvatn er nokkuð ílangt norðaustur, suðvestur. Það eru röskir 5 kílómetrar að lengd. Flatarmálið er mjög nærri 10 ferkílómetrum.

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Samkvæmt dýptarmælingum, sem gerðar voru veturinn 1963—64, reyndist mesta mesta dýpi 97 metrar. Þetta var við lága vatnsstöðu, þannig að dýpið nær sennilega 100 metrum þegar vatnsborðið stendur hæst. Rúmtakið reyndist 200 gigalítrar þ.e.a.s. 290 milljónir teningsmetra, og meðaldýpið er samkvæmt því 29 metrar.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Nokkrir klettahöfðar ganga út í vatnið, að austanverðu og eru tveir nafngreindir, sá nyrðri heitir Lambhagi, norðan hans er Lambhagatjörn, nyrsti hluti Kleifarvatns. Syðri höfðinn við austanvert vatnið beitir Geithöfði og gengt honum að vesanverðu er Lambatangi. Aðrir tveir höfðar við vestanvert vatnið eru vel kunnir, þeir eru Syðri-Stapi og Innri-Stapi eða Stapinn syðri og Stapinn innri. Við bílveginn yfir Innri-Stapa er greypt í bergið málmplata með nafninu „Stefánshöfði „. Hvort það táknar að nafnið Innri-Stapi sé úr gildi fellt veit ég ekki, en ég vona þó að svo sé ekki. Staparnir tveir, svo og Sveifluhálsinn eru úr móbergi sem veðrast mikið og festir þar lítt gróður, en víða er bergið sérkennilega sorfið, og í Syðri-Stapanum eru skemmtilegir skútar og skvompur sem gaman er að skoða, þá eru staparnir báðir ágætir útsýnisstaðir, sér í lagi liggur vel við að stöðvabifreið á Innri-Stapanum, ganga fram á brúnina og njóta útsýnis yfir vatnið.

Gullbringa

Gullbringa.

Í heiðinni í suðaustur af vatninu og ekki langt frá því er lítið fell, 306 metra hátt yfir sjávarmál, fell þetta heitir Gullbringa, og er talið, þótt ótrúlegt kunni að virðast, að Gullbringusýsla hafi nafn af þessu felli. Krýsuvíkurengjar ganga að vatninu sunnanverðu, þar eru tvö fell, Litla- og Stóra-Lambafell. Skammt austan Stóra Lambafells er hverasvæði sem breyttist mikið í jarðskjálftanum 1924, kom þar m.a. fram mikill gufuhver, sem nefndist Austurengjahver.

Þar til nú fyrir ekki mörgum árum, að fiskiræktartilraunir hófust í Kleifarvatni, hefur það verið talið dautt vatn, það er að segja, botngróður hefur verið þar í minnsta lagi og ekki hefur veiðst þar nytjafiskur.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Fyrr á tímum hafa menn orðið að finna skýringar á þessu fyrirbæri sem öðrum, og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur þar að lútandi. Nefna má til dæmis söguna um Krýsu og Herdísi sem í eina tíð bjuggu á þessum slóðum, Herdís í Herdísarvík, en Krýsa í Krýsuvík, en frá þeim segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar; Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geithlíð alla og væru landamerki í stórum stein sem stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkru vestar en undir miðri Geithlíð og hefur spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til að þær báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan því henni veitti miður þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörninni í Herdísarvík. Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á tjörnina í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna. Þetta gekk allt eftir. Og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu stjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn“.
Fleiri þjóðsögur eru til sem, Kleifarvatn varða, til dæmis segja sumir að bærinn Kaldrani hafi staðið við suðurenda þess. En á þeim bæ dó fólk af að éta öfugugga sem veiðst hafði í vatninu, var Herdísu tröllkonu kennt um tilveru hans þar.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Þá eru einnig sagnir um skrímsli í Kleifarvatni. Eggert og Bjarni segja frá slíkum kynkvendum í ferðabók sinni í Grænavatn í við Krýsuvík og í Kleifarvatni, þeir segja: „öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu. Þegar við vorum á þessum slóðum árið 1750, var okkur sagt margt um Klelfarvatn, aðallega þó það, að vatnið væri fullt af fiski, sem var þar í sífellu í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða hann fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli eða 30—40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þennan, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annara manna, því oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tíu mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig að í ágústmánuð i 1749 hefði allmarg t fólk, bæði karlar og konur, sem þarna var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskinL séð o r m þennan miklu betur en nokkur maður hefði áður gert, því að hana hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það og þar hefði hann legið í hartnær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný. Fólkiið var svo skelft allan þennan tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land, eða hvernig hann fór aftur í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða stækkaði og skreið áfram, meðan þess að á því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til“.

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Menn hafa veitt því athygli að vatnsborð Kleifarvatns er mjög breytilegt, hækkar ýmist eða læklfar á löngum tíma, jafnvel svo að metrum skiptir. Þetta hafa menn að sjálfsögðu undrast alla tíð, og reynt að finna skýringu á. Eins og kunnugt er hefur vatnið ekki afrennsli ofansjávar, en menn hafa samt viljað meina að einhverskonar göng væru milli þess og sjávar, og bent á eitt og annað því til stuðnings.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í þessum göngum átti svo að vera einhver dularfullur sogkraftur að verki sem ylli þeirri miklu lækkun sem orðið gat í vatninu. Þorvaldur Thoroddsen kemur að þessu í ritum sínum, án þess þó að útskýra það frekar. Hann segir til dæmis í Lýsingu Íslands um Kleifarvatn: „Kleifarvatn liggur sem hvos milli Lönguhlíðar og Sveifluháls, menn þykjast hafa tekið eftir því, að vatnið vex og þverrar á víxl, og jafnvel mest þegar þurrkar ganga að því er menn segja; í því e r engin veiði, engin branda nema hornsíli. Á 18. öld gengu munnmæli um að þar hefði áður verið mikil silungaveiði, en menn þorðu þó ekki að reyna veiði sakir skrímsla, sem þeir þóttust hafa séð. Við jarðeldana 1663 er mælt að vatnið hafi orðið fyrir nokkrum breytingum“.
Sumarið 1930 dvaldi Pálmi Hannesson við Kleifarvatn í nokkurn tíma við þriðja mann, gerðu þeir allýtarlegar dýptarmælingar á vatninu og fleiri athugasemdir, eða eins og Pálmi segir sjálfur: „Tilgangur rannsóknanna var að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar eins og kunnugt er og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga“. Páll lýsir útbúnaði iþeirra félaga við rannsóknirnar, sem líklega mundi þykja helzt til frumstæður í dag, þegar t.d. vatnamælingamenn nota hraðskreiðan vélbát og sjálfritandi mæliæki við dýptarmælingar á vötnum. Árið 1930 var aðeins bílfært skammt suðurfyrir Hafnarfjörð, þannig að ærin fyrirhöfn var að koma nothæfum báti austur að Kleifarvatni.
Niðurstöður Pálma eru í skemmstu máli þær að vatnshæð Kleifarvatns stendur í beinu sambandi við hæð jarðvatnsborðs hverju sinni, en jarðvatnsyfirborðið breyttist í samræmi við úrkomumagn á hverjum tíma.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í lok greinargerðarinar um þessar rannsóknir, sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 1941 segir Pálmi: „Jarðvatnsborðinu hallar allstaðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast hvar mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu, Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð, og eyks því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er eklki ósennilegt að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn“, segir Pálmi Hannesson.
Tíu árum síðar, eða árið 1940, eru aftur gerðar all ýtarlegar rannsóknir við Kleifarvatn. Fyrir þeim stóð Geir Gígja ásamt dr. Finni Guðmundssyni, en rannsóknar þessar vonu gerðar með sérstöku tilliti til athuguna á lífs skilyrðum fyrir silung í varninu, og samkvæmt ósk og að tilhlutan Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Rannsóknir þessar voru mjög alhliða og gerir Geir Gígja grein fyrir þeim í riti um Kleifarvatn sem út kom árið 1944. Niðurstöður hans varðandi fiskeldi í Kleifarvatni voru í stuttu máli þær, að þrátt fyrir allt væru tilraunir í þá átt ómaksins verðar, og leggur hann á ráðin um hvernig haga megi þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og þessi tilraun var gerð. Árið 1963 stofna Hafnfirðingar með sér veiðifélag sem strax í upphaf hafði á stefnuskrá sinni fiskiriækt á Kleifarvatni og fleiri vötnum í Reykjanesi. Samið var við Hafnarfjarðarbæ árið 1954 um afnot af Kleifarvatni til 30 ára, og þegar tekið til óspilltra málanna við framkvæmd áætlana um fiskirækt í vatninu. Þetta ár voru 14000 silungsseiði af Þingvallastofni flutt í vatnið, og síðan hafa bætst við tugir þúsunda seiða. Árið 1959 byrjuðu fyrst veiðar í vatninu og hafa haldið áfram síðan, hafa þær orðið í samræmi við vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Nokkurir tímabundnir örðugleikar hafa raunar gert vart við sig, vegna þess að nú stendur vatnsborð í Kleifarvatni óvenjulega lágt, en það hefur áhrif á botngróður. En fiskiræktarmenn við Kleifarvatn ráða væntanlega bót á þessum vanda sern öðrum.

Lambhagatjörn

Lambhagatjörn.

Að lokum langar mig til að minnast í stuttu máli á mjög skemmtilega tilraun sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur gerði við Kleifarvatn árið 1949. Guðmundur segir frá þessari tilraun í Náttúrufræðingnum 2. hefti þetta sama ár, og kallar greinina „Lítil athugun við Kleifarvatn“.
„Sunnudaginn 20. marz síðastliðinn skrapp ég á reihjóli suður að Kleifarvatni til að viðra mig og stíga á skíði mér til skemmtunar. Auðvelt er að binda skíði á reiðhjól svo að vel fari. Ég gerði mér einnig vonir um að geta í þessari ferð gert dálitla athugun, sem mig hafði lengi langað til og hér verður sagt frá. Veður var ókjósanlegt, norðankaldi framan af degi, bjartviðri, hiti um frostmark og sólbráð, en lyngdi um hádegið og þykknaði upp, hvessti síðan af suðri með lítils háttar fjúki — byr báðar leiðir“.
Og Guðmundur segir frá athugunum annarra fræðimanna, sem ásamt hans eigin, bentu til að straumur væri úr aðalvatninu norður í Lambhagatjörn.

Kleifarvatn

Tröllkerling í einum af Kleifarvatnshellunum.

Þegar svo Guðmundur kemur að vatninu í þetta skipti, eru aðstæður eins og hann óskar, vatnið ísi og lagt að msstu, þannig að hvorki vindur né uppgufun gat tnuflað tilraunina sem hann hsifði hugsað sér að gera, að ganga úr skugga um hvort álit manna um strauminn inn í Lambhagatjörn hefði við örugg rök að styðjast. Með einföldustu tækjum hefur svo Guðmundur tilraunina. Hann segir: „Tækin sem ég hafði til athugana minna, voru einföld í meira lagi: öxi, hönk af grönnu snæri, skíðabindin (stálgormur) sígarettur („Raleigh“), málband og úr með sekúnduvísi“. Hér verður þessari tilraun ekki lýst í smærri atriðum, en hún byggist í stuttu máli á því, að Guðmundur hjó vakir með jöfnu millibili þvert yfir ósinn inn í Lambhagatjörn, mældi dýpið í hverri vök, og lét síðan sígarettu pappír sökkva til botns í vðkinni, mældi tímann sem það tók og vik frá lóðréttri stefnu. Með þessu fann hann út með nokkurrn nákvæmni, að rennsli úr aðalvatninu inn í Lambhagatjörn voru fullir 200 lítrar á sekúndu þennan dag.

Kleifarvatn

Hvyrfilstormur í þurri Lambhagatjörn.

Að lokum segir Guðmundur: „Eftir þessa athugun tel ég fullsannaða þá kenningu, sem Ólafur Friðriksson hélt fyrstur fram og nánar var skýrð af Pálma Hannessyni, að vatn streymi stöðugt úr Kleifarvatni inn í Lamibhagatjörn (nema þegar hún er þurr), sígi þar niður og renni burt neðansjávar“.
Eins og Guðmundur Kjartansson nefnir, var það hinn merki áhugamaður um náttúruskoðun, Ólafur Friðriksson, sem fyrstur hélt opinberlega fram kenningu þeirri um afrennsli Kleifarvatns sem nú er viðurkennd. Var það í grein sem hann nefndi „Leyndist í sunnudagsblaði Vísis 29. október 1941.
Umhverfi Kleifarvatns er mjög vel fallið til gönguferða og útivistar, og þar eru ótal viðfangsefni fyrir náttúruskoðara. Sveifluhálsinn er ákjósanlegt verkefni fyrir þá sem vilja fara í stutta fjallgöngu, en kjósi menn lengri gönguferðir, er um að velja t.d. Grindaskörð eða Brennisteinsfjöll austan vatnsins eða t.d. Vesturháls og Trölladyngiu vestan þess. Sunnan vatnsins má nefna Krýsuvíkurberg, skemmtilegt fuglabjarg er nær Reykjavík en margur hyggur.“
Hafa ber í huga að ekki er allt satt, sem sagt er…[ritstjóri FERLIRs].

Heimild:
-Morgunblaðið 25.05.1967, Kleifarvatn eftir Óttar Kjartasson, bls. 7-8.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stefánshöfði

Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina „Skrímsli í Kleifarvatni.“ Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.

Kleifarvatn

Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.“
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
KleifarvatnKleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
KleifarvatnMaður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn

„Sum vötn eru dularfull. Þeim er öðruvísi farið en öðrum vötnum, og enginn botnar í afbrigðilegri háttsemi þeirra. Slíkt vatn var og er Kleifarvatn. Um þess konar vötn myndast sögur, og þannig er því líka einmitt farið um Kleifarvatn.
Þar herma gamlar sagnir, að kleifarvatn-321sézt hafi skrímsli, en það hefur líklega ekki verið nógu athafnasamt skrímsli, sem bjó í Kleifarvatni, því að það hefur einhvern veginn lognazt út af í þjóðtrúnni, þó að Lagarfljótsormurinn lifi enn bezta lífi við slíka ástsæld austan lands, að fólk þar vill með engu móti missa hann. Hitt hefur aftur á móti haldið uppi frægð Keilfarvatns, að mikill áramunur er að því, hversu hátt er í því. Þeir, sem kunnugir voru á þessum slóðum, töluðu um tuttugu ára sveiflur. En eins og kunnugt er hefur Kleifarvatn enga afrás, nema hvað áll er í tengslum við litla tjörn (sem ekki hefur heldur neitt afrennsl) & meðan allhátt er í því. En þau árin, sem lágt er í vatninu, þornar þessi tjörn með öllu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Ytri-Stapi.

Með því að við erum öll fædd á öld vísindanna, hafa menn ekki látið sér nægja alþýðlegar skýringar á fyrirbærinu nú hina seinni áratugi. Vísindamenn hafa farið á stúfana til þess að svipta hulunni af leyndardómum Kleifarvatns, svo að naktar staðreyndir geti komið í stað trúarlærdóma um hegðun þess Meðal þeirra, sem hafa gefið sig að slíkri könnun, eru þeir Geir Gígja, Guðmundur Kjartansson og Pálmi Hannesson, svo að nefnd séu nöfn, sem koma í hugann, þegar hann beinist að dulúð Kleifarvatns. Ef ég man rétt, þá er skýring vísindamanna sú, að vatnsborðið hækki þau árin (eða kannski öllu heldur eftir þau ár), er úrkoma er í meira lagi á svæðinu umhverfis Kleifarvatns, en lækki, þegar úrkoma er í minna lagi. Vatnsbúskap Kleifarvatns er með öðrum orðum svo háttað, að halli er á honum, þegar aðrennsli er í minna lagi, því að þá síður meira niður í hraunið, sem undir því er, heldur en í það bætist, en svo mjótt er á mununum, að hraunið hefur ekki undan að fleyta vatninu burt, þegar öllu meira berst að.
kleifarvatn-322Og ætli við verðum þá ekki að hafa það svo, úr því að vísindin hafa talað. En hitt getum við haldið okkur þeim fastar við, að það er ekki neitt fleipur, að miklu getur munað á vatnsborðinu. Það sýna myndirnar tvær, sem þessum línum fylgja, teknar á sama stað með átta ára millibili.
Árið 1931 var lágt í Kleifarvatni, og frá því ári er þessi mynd. Allra lægst mun þó vatnsborðið hafa verið árið 1932. Síðan fór hækkandi í vatninu. Það var ekki kreppan þar á þeim árum.
Svo fór Kleifarvatn að búa betur. Þessi mynd sýnir, að það hefur heldur hækkað vatnsborðið árið 1939. Drangurinn er hinn sami og sést á hinni myndinni, og nú varð ekkl aldeilis gengið út að honum þurrum fótum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn 2023.

Eins og nú standa sakir er hátt í Kleifarvatni, en ekki skal fullyrt, hvort heldur vatnsborðið fer hækkandi eða lækkandi þessi misserin. En víst er það, að lítið hefur verið lagt inn í bankareikning þess hjá náttúrunni þessar síðustu vikur, er sólskinið hefur oftast bakað brunafjöll Reykjanesskagans. Það kemur einhvern tíma fram sem yfirdráttur, eins og það heitir á bankamáli, nema himininn bæti það upp með því að opna gáttir sínar þeim mun rösklegar, þegar kemur fram á sláttinn, en það er ekki dæmalaust hér á Suðurlandi eins og einhverjir kunna að minnast. (Að minnsta kosti erum við hér sannfærð um, að Benedikt frá Hofteigi er það fast í minni.) Og eftir sumar kemur haust, og svo hressilegar eru haust rigningarnar oft, að þær geta hæglega jafnað metin á skömmum um tíma, ef landsynningarnir leggja sig fram. Þannig eiga veðurguðirnir marga leiki á borði til þess að bæta hag Kleifarvatns.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 20 júní 1971, bls. 538-539 – (ljósmyndir; Stefán Nikulásson).

Kleifarvatn

Kleifarvatn 2021.