Tag Archive for: Kolviðarhóll

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.

Hellisskarð

Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.

Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.

Kolviðarhóll.Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakin möl og mylsnu.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Kolviðarhóll

Í Fréttabréfi Ættfræðingafélagsins 2021 tók Guðfinna Ragnasdóttir m.a. saman eftirfarandi fróðleik um „Kolviðarhól„:

Fréttabréf Ættfræðingafélagsins 2022

Fréttabréf Ættfræðingafélagsins 2022.

„Þegar farið var forðum úr Árnessýslu vestur yfir heiðar, var lengst af um þrjár leiðir að velja. Syðsta leiðin var yfir Grindaskörð, milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Miðleiðin var yfir Ólafsskarð, sem lá austan Geitafells í Þrengslum, en lang algengast var að fara yfir Hellisheiðina. Sú leið er um 35 km og var talin tæp þingmannaleið. Þar má enn sjá götur sem járnslegnir hesthófarnir hafa markað í hraunið, sumar svo djúpar að þær ná manni í ökla, eða allt að 20 sm. Enginn veit hvenær fyrst voru hlaðnar vörður yfir Hellisheiðina, en þeirra er fyrr getið 1703. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg og það er gaman að hugsa til þess að stór hluti af þessari gömlu leið er enn varðaður. Oftast voru 60-80 faðmar á milli varðanna, eða 115-150 m.

Margir kunna vísuna um vörðurnar og hlutverk þeirra:

Kerling ein á kletti sat
kletta byggði stræti.
Veginn öllum vísað gat
var þó kyrr í sæti.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Á Hellisheiðinni mun ekki hafa verið neitt húsaskjól að finna fyrr en 1830, þegar Þórður bóndi á Tannastöðum í Ölfusi hlóð byrgi eða kofa uppi á heiðinni, sem enn stendur, og við þekkjum sem Hellkofann. Hann er mikil listasmíð og enn í besta ástandi. Hann er eins og nafnið gefur til kynna alfarið byggður úr hraunhellum og er þakið einnig stór hraunhella. hann er tæpir tveir m á hvorn veg og tveir m til lofts. Þar geta 4-5 menn sofið. Hann mun hafa verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“. Hún var ævafornt mannvirki, um sex fet á hæð, krosshlaðin, þannig að menn og hestar gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Biskupsvarðan stóð fram á 19. öld, en ehnni var ekki haldið við, og var svo notuð til þess að byggja Hellukofann. hann var friðaður 1. jan. 1990.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann, í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:

„Á norðanverðum Hvannavöllum, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Þetta hús stóð í nánd við Húsmúla og gæti það örnefni bent til þess að þar hafi hús staðið allt frá fyrtu öldum byggðar og verið ævafornt ferðamannaskýli. Þetta sæluhús var um einn og hálfan km norðvestan við Kolviðarhól.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á þetta sæluhús, átt í öld síðar, árið 1873, og segir að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.

Grjótbálkur og gluggabora

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Jón Vídalín lýsir smæð manna í skammdegismyrkri og hríðarkófi vel í vísu sinni:

Fyrir þreyttum ferðasegg
fölskvast ljósin brúna,
ráði guð fyrir odd og egg,
ekki rata ég núna.

Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Frægar eru lýsingar Nesjavalla-Gríms Þorleifssonar sem hitti þar mann sem tók ofan hausinn fyrir honum og hvarf svo!

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum á Mosfellsheiði 1896 – Daniel Bruun. Sæluhúsið við Húsmúla var frá svipuðum tíma.

Þótt Draugatjarnarkofinn væri ísköld og ömurleg vistarvera, var hann þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2.5 m og breiddin 1.5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar, á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla. þarna fundust merkar minjar við fornleifagröft 1958, m.a. járn af reku, til að moka snjó, járnfleygur, til að gera vök á tjarnarísinn. flatsteinn til að kveikja á eldspýtu og blátt bóluglas undir brjóstbirtu. Allir þessir munir eru varðveittir á Byggðasafni Árnesinga.

Húsið á Hólnum

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhúsið 1844.

Þar kom að mönnum þótti litli kofinn undir Húshólmanum ófullnægjandi og hafist var handa um söfnun fyrir nýju húsi. Það var svo árið 1844 að reist var sæluhús á hólnum undir Hellisskarði, en svo nefnist skarðið ofan af heiðinni vestanverðri við Kolviðarhól. Þar var þá engin búseta eða eftirlitsmaður. Kolviðarhóll þótti ákjósanlegur staður, en þó var vatnsskortur þar viðloðandi lengi. Hóllinn er heitinn eftir Kolviði sem bjó á Elliðavatni, en var drepinn við Kolviðarhól af Búa Andríðarsyni, eins og segir í Kjalnesingasögu. Til gamans má geta þess að Ólafur Árnason, einn gestgjafanna á Hólnum löngu síðar, skírði son sinn Búa Kolvið.

Kolviðarhóll.Nýja sæluhúsið var timburhús sem stóð á álnardúpri grjóttótt með hellugrjóti á gólfi. Í húsinu gátu gist 24 menn á loftinu og 16 hestar lausar niðri. Þetta þótti gríðarleg framkvæmd og húsið var svo griðastaður ferðalanga yfir Svínahraun og Hellisheiði á fjórða áratug, en um 1855 var það rifið.

Um 1878 var vegur lagður yfir Svínahraun og um Hellisheiðina og kambana um 1880. Þar var mikil samgöngubót, þótt vegurinn yfir hraunið þætti lengi grýttur og hrjúfur.

Söfnun og draumar
KolviðarhóllUm 1870 var sæluhúsið orðið mjög lélegt og hafist var handa um að safna fé til byggingar nýs húss. Þá var það enginn annar en Sigurður Guðmundsson málari sem var hvatamaður að söfnun fyrir nýju húsi. Hann sá fyrir sér veitingahús sem gæti fullnægt flestum þörfum ferðamanna. Hreyfði hann því á fundi í Kveldfélaginu 1871 og lagði þar fram teikningar af húsi. Á miðju þakinu átti að vera turn með gluggum og í gluggunum átti að loga ljós. Blása átti í lúðra þriðja hvern tíma til þess að vísa mönnum veginn og hundar áttu að vera til taks við leit að mönnum. Aldrei sá hann þann draum sinn rætast, því hann lést 1874, þrem árum áður en nýtt hús reis á Kolviðarhóli.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leiðin.

Bændur austanfjalls, sem mest mæddi á, gáfu flestir eina krónu og stórbændur tíu krónur. Söfnunin gekk þó hægt. Að lokum fengust þó eitt þúsund krónur úr Landsjóði og árið 1877 reis nýtt sæluhús á Hólnum og sértakur sæluhúsvörður var ráðinn.

Klukkan góða

Kolviðarhóll

Á Kolviðarhóli var fyrst reist sæluhús 1844. Sigurður Guðmundsson málari var hvatamaður að söfnun fyrir nýju húsi á Kolviðarhóli 1870. Þar vildi hann hafa ljós í gluggum, lúðra sem blésu og hunda sem leituðu manna. Þótt draumur Sigurðar málra um lúðrana rættust ekki, þá var í nýja sæluhúsinu þessi koparklukka, sem hring var í dimmviðrum, vegfarendum til leiðbeiningar heim á Hólinn. Varð hún mörgum til bjargar. Hún hringdi frá 1885 allt til ársins 1907, var geymd á Hólnum, týndist svo í 30 ár. 1927-1957, fannst þá af tilviljun og er geymd á Byggðasafni Árnesinga á Eyrabakka.

Þótt draumur Sigurðar málara um lúðrana rættust ekki þá var í þessu sæluhúsi klukka sem hringt var í vondum veðrum til þess að vísa mönnum á húsið. varð hún mörgum til bjargar. Hún hringdi allt fram til ársins 1907, var þá geymd á Hólnum, týndist svo í 30 ár, 1927-1957, og fannst þá af tilviljun og er nú geymd á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka.

Lengst af voru flestir sem komu yfir heiðina gangandi eða ríðandi, margir með lausa hesta eða taglhnýtta í lest, oftast með bagga. Þannig gekk það uns hestvagnatómabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp og niður Hellisskarðið, ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur.

Koparklukkan; barmavídd 24.0 cm og hæð 24.0 cm, þyngd 7.8 kg. Hún var notuð í gamla sæluhúsinu á Kolviðarhóli og hringt í dimmviðrum, vegfarendum til leiðbeiningar heim á Hólinn. Hún var sett þar upp 1885 og tekin niður mörgum áratugum seinna, en þó lengi geymd á Hólnum, uns hún hvarf þaðan og enginn vissi um hana. Skúli Helgason hélt uppi spurnum um hana um skeið og til ellefu manna var leitað upplýsinga, uns hún kom loksins fram hjá Jóni Sigurðssyni smið á Laugavegi 54 í Reykjavík. Hún hafði þá legið lengi í járnhrúgu í smiðju hans. Einhvern tíma hafði verið komið með klukkuna til Jóns og hún boðin sem brotakopar til bræðslu.

Kolviðarhóll

Koparklukkan, varðveitt í Byggðasafni Árnesinga.

Jón keypti hana en tímdi ekki að bræða hana. Þá falaði bóndi ofan úr Borgarfirði klukkuna og vildi fá hana við heimagrafreit hjá sér. „En ég hummaði það fram af mér“, sagði Jón. Og á síðustu árum var hún geymd, uns Jón var spurður um gripinn. Þá rifjaðist allt upp. Kólfinn vantaði í klukkuna og smíðaði Jón hann sjálfur, þá orðinn áttatíu og sex ára. Renndi hann í rennibekk sínum og gaf klukkuna síðan til Byggðasafns Árnesinga þar sem Skúli var lengi safnvörður. Mælti þá „Það er mikið að hún skyldi ekki vera glötuð fyrir fullt og allt. það er eins og það hafi verið yfir henni einhver hulinn verndarkraftur“.

Gestgjafarnir
EbeneserÁ Kolviðarhóli var búið í 75 ár. Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður, var fyrsti gestgjafinn sem var búsettur á Hólnum, stundum kallaður sæluhúsvörður. Hann var aðeins í hálft annað ár. Með honum var kona hans Sesselja Ólafsdóttir. Eftir henni er haft að hvergi hafi henni liðið verr en á Kolviðarhóli, þar hefði hún þolað bæði hungur og kulda. Þau hjónin þóttu bæði gestrisin og greiðvikin og það oftast um efni fram. Af hjónunum tóku við, árið 1880, Ólafur Árnason og Málfríður Jónsdóttir til 1883.

Þriðji gestgjafinn var Sigurbjörn Guðleifsson og kona hans Soffía Sveinsdóttir, en hún var dóttir Hallberu gestgjafa í Lækjarbotnum, svo hún var svæðinu kunnug.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir.

Þau héldu aðeins út í þrettán mánuði. 1883-1895 eru gestgjafar Jón Jónsson og Kristín Daníelsdóttir, síðan dóttir þeirra Margrét og Guðni Þorbergsson maður hennar, 1895 til 1906. Þá tóku við Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar þekktu eða könnuðust við. Þau urðu síðustu gestgjafarnir á Hólnum.

Þegar Margrét og Guðni tóku við gestgjafahlutverkinu 1895 var nýtt tímabil í samgöngum og hestvagnaöld gengin í garð.
Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt og lítið og um aldamótin 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var út steinsteypu.
Guðni ræktaði tún og fékk að gera Kolviðarhól að bújörð í Ölfushreppi, og var svo til 1936.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1900.

Endalokin
KolviðarhóllEn allt tekur enda, tímarnir breytast, þörfin fyrir athvarf og skjól gegn veðri og vindum er ekki lengur fyrir hendi, vegurinn austur yfir fjall liggur ekki lengur fram hjá, Sigurður dáinn og Valgerður eldist.

Árið 1970, eftir margra ára niðurlægingu staðarins, moluðu stórvirkar vinnuvélar niður sköpunarverk Guðjóns Samúelssonar, með burstunum þrem, á Kolviðarhóli. Allt sem minnir á fortíðina er horfið, gamla koparklukkan löngu hætt að hringja og ísa mönnum veginn, en milli gufustrókanna glittir í lítið leiði, leiði þar sem síðustu gestgjafarnir á Hólnum fengu sína hinstu hvílu, að loknu ómetanlegu dagsverki. Aðeins sagan er eftir, saga merkrar starfsemi á nokkrum gulnuðum blöðum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðingafélagsins, 3. tbl. 39. árg., sept. 2021, Kolviðarhóll – Guðfinna Ragnarsdóttir tók saman, bls. 3-10.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1940.

Draugatjrön

Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um „Kolviðarhól undir Hellisskarði„. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni „Kolviðarhóll II“ hér á vefsíðunni.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

„Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

„Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010.

Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).

Búasteinn

Búasteinn.

Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; „skal þá vel við því taka,“ sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá „hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju“. Búi var „ákaflega vígmóður og nokkuð sár“, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: „Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.

Kolviðarhóll.

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.

Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – fyrsta sæluhúsið.

Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til „drengilegra samskota“. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – Konungskoman 1907.

Ebeneser var „veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki“. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól „til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina“. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1929.

Hellukofinn

Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010.

Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.

Hellisskarð

Varða efst í Hellisskarði.

Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.

Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.

Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.

Hellisskarð

Gemgið um Hellisskarð.

Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.

Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.

Hellisheiði

Hellisheiði – forna leiðin um helluna.

Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.

Búasteinn

Búasteinn.

Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.

Hellukofinn

Hellukofinn.

„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.

Hellukofinn

Í Hellukofanum.

Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.

Vörður

Vörður á Hellisheiði.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“

Lakastígur

Lakastígur.

Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“

Orrustuhóll

Orrustuhóll.

Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“

Skógargata

Skógargatan.

Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.

Hveragerði

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.

Hurðarásvötn

Hurðarásvötn.

En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.

Engidalur

Engidalur – hleðslur fyrir skúta.

Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …

Engidalur

Tóft útilegumanna í Engidal.

Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.

Núpastígur

Núpastígur.

1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“

„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.

Hveradalir

Hveradalir.

Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.

Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Kolviðarhóll

Í Tímanum 1977 er fjallað um „Kolviðarhól 1877-1977, fyrsta gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…„:

Kolviðarhóll
„Í byrjun júlí síðastliðins var gamla gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er eign Reykjavíkurborgar rifið til grunna.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Fyrsta gistihúsið á þessum stað var reist 1877, en áður var sæluhús á Kolviðarhóli og var það orðið léleg vistarvera þeim, sem þangað leituðu í vondum veðrum. Þetta fyrsta gistihús var lengi eina húsið á staðnum. Oft var þröngt setinn bekkurinn og þúsundir manna munu hafa gist þar. Matthías Jochumson, þá prestur i Odda, kom þar í janúar 1884 og hitti 40 ferðamenn, sem voru veðurtepptir. Og á loftinu í þessu húsi gisti í rúmi með mosadyngju sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup, lítill drengur í fyrstu ferð sinni til sumardvalar austur í Ölfus.
Kolviðarhóll
Þriðja og síðasta gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er horfið, reisti Sigurður Daníelsson gestgjafi 1929 og var það með öllu nýtízku þægindum, sem þá þekktust hér á landi, m.a. ljósavél og raflýsingu.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Þjóðvegurinn forni milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá nokkru norðar en nú er farið og skammt frá Kolviðarhóli. Sæluhús var fyrst reist á þessum slóðum 1703 við svonefnda Draugatjörn fyrir framan Húsmúlann, og var það eina vistarveran milli byggða fram til 1844, að sæluhús var reist á Kolviðarhóli. Sumarið 1877 sama ár og fyrsta gistihúsið var reist að Kolviðarhóli hófst vegagerð yfir Svínahraun sem var lokið sumarið eftir.
Hellisheiði var um aldir og er enn einn fjölfarnasti fjallvegur landsins. Við sem ökum þessa leið í upphituðum bílum höfum litla hugmynd um þá baráttusem forfeður okkar háðu hér í vetrarferðum. Mannskaðar voru tíðir á þessum slóðum, þótt engar tölur séu til um hversu margir hafa látið þar líf sitt. Trúlegt er að flestir hafi orðið úti á þessum slóðum á 18. öld, einkum eftir móðuharðindin 1784. Fólk flúðu heimili sín og reikaði allslaust undan hörmungunum í vesturátt.

Hellisheiði

Hellsiheiði – forna leiðin um helluna.

Skjalfestar heimildir eru um manntjón á Hellisheiði á 130 ára timabili frá 1792-1922. Í bók sinni Sögu Kolviðarhóls greinir Skúli Helgason frá 24, sem urðu úti á heiðinni á þessu tímabili, en getur þess að ekki sé víst að þar séu allir upp taldir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Einn þeirra fyrstu sem vakti máls á að reist skyldi veitingahús á Kolviðarhóli var Sigurður Guðmundsson málari á fundi í „Kveldfélaginu“ svonefnda sem var e.k. leynifélag í Reykjavík árið 1871.
„Þar mætti hafa hvers kyns veitingar. Þar þyrfti að blása í lúðra svo sem þriðja hvérn tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum, sömuleiðis hafa alpahunda og fl.“ Í fundargerðinni, sem virðist rituð af Sigurði sjálfum, er rissmynd af þessu fyrirhugaða húsi. Er á miðju þaki þess turn mikill með gluggum, sem ætlazt var til að ljós logaði í, þá er dimma tæki, en upp af honum var stöng með flaggi. Þar sem Sigurður talar um „alpahunda“, á hann við að þeir gætu orðið til bjargar villtum ferðamönnum, er úti lægju í illviðrum og ekki næðu til mannabyggða.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hugmynd Sigurðar málara um veitingahúsbyggingu á Kolviðarhóli virðist þó hafa þótt ærið loftkastalakennd, eins og flest annað hjá honum á þeim tíma, og var henni víst lítill gaumur gefinn. Þegar hann lézt þrem árum síðar sá hann ekki votta fyrir framkvæmdum á þessari hugmynd sinni fremur en öðrum hugsjónum sínum, þótt margar ættu þær eftir að verða að veruleika i einhverri mynd.
Fyrsti gestgjafi að Kolviðarhóli var Ebernezer Guðmundsson frá Minna-Hofi á Rangárvöllum, en kona hans var Sesselja Ólafsdóttir frá Geldingaholti. Þau voru þar hálft annað ár, en þá tók við Ólafur Arnason frá Hlíðarendakoti, og heitkona hans Málfríður Jónsdóttir af Vatnsleysuströnd.
KolviðarhóllBjuggu þau við harðindi og fátækt og höfðu sama og engar tekjur af ferðamönnum. Frumburður þeirra fæddist að Kolviðarhóli og var skírður eftir staðnum, en andaðist fimm vikna gamall. Ólafur og Málfríður fóru til Ameríku 1886 og komust þar vel af. Næsti gestgjafi, Sigurbjörn Guðleifsson, var kunnur fyrir lækningar. Sambýliskona hans var Soffía Sveinsd. Þau bjuggu einnig við kröpp kjör að Kolviðarhóli og voru þar aðeins í eitt ár í nábýli við Jón Jónsson, sem tók við Sigurbirni, en þeir eltu grátt silfur saman. Kona Jóns var Kristin Daníelsdóttir. Guðni Þorbergsson tengdasonur þeirra og Margrét dóttir þeirra tóku síðan við, en í tíð þeirra jókst umferð mjög. Nýr akvegur var lagður á svipuðum slóðum og farið er enn í dag. Hestavagnaöldin hófst og samgöngur urðu meiri. Guðni lét reisa nýtt gistihús á Kolviðarhóli aldamótaárið.
Sá gestgjafi sem lengst sat að Kolviðarhóli og varð viðkunnastur þeirra allra var Sigurður Danlelsson 1906-1935. Valgerður Þórðardóttir hafði verið vinnukona að Kolviðarhóli um þriggja ára skeið þegar Sigurður kom þangað ókvæntur maður, og gengu þau í hjónaband ári síðar. Sigurður og kona hans voru mikið fyrirhyggju- og framtaksfólk og unnu margvíslegar framkvæmdir á staðnum.
KolviðarhóllSigurður hafði jafnan margt hesta og var fylgdarmaður og vann oft björgunarstarf í illviðrum. „Það var gömul hefð á Kolviðarhóli, að húsinu var aldrei lokað um nætur. Þar voru opnar dyr allan sólarhringinn, svo að ferðamenn, sem bæri þar að garði um nætur í vonskuveðri, gætu tafarlaust komizt í húsaskjól. Enda var það almenn venja ferðamanna, er komu þar eftir háttatíma að þeir gengu inn og kveddu þar nauðþurfta sinna. Þar var alla jafna allt til reiðu. Þar var matur og drykkur veittur, þó um hánótt væri, og þar var fylgdarmaður og hestur til taks, ef með þurfti, á hvaða tíma sólarhrings sem var, hvort heldur var austur yfir fjall eða suður yfir Svínahraun. Þetta var erilssöm og erfið þjónusta, en hún var álitin næstum sjálfsögð og ekki talin eftir. Hún var ávallt seld við vægu verði og margur var sá, er lítið gat goldið fyrir sig fyrr á árum og sumir ekki neitt. Þannig gekk starfið á Kolviðarhóli ár eftir ár, gestastraumarnir komu og fóru, en mitt í þeirri miklu mannös stóð gestgjafinn sjálfur, Sigurður Danlelsson, alltaf samur og jafn, veitti öllum fyrirgreiðslu og leysti úr vandkvæðum manna, sem gátu verið mörg. Þar komu menn af öllum stéttum þjóðfélagsins og var það stundum hnöttóttur lýður, er hafði á sér litla háttvísi né siðmenningarbrag. Þangað komu oft ölvaðir menn, er höfðu í frammi heimtufrekju og ódámshátt. Slíkum gestum sýndi Sigurður fulla einurð og mælti þá stundum til þeirra ekki með neinni silkitungu. En svo var það búið, og enginn erfði slíkt við hann, enda lá það orð á að hann ætti engan óvildarmann.“ (Úr sögu Kolviðarhóls).
KolviðarhóllSíðasta árið sem Sigurður lifði, sumarið 1935 hófst hann handa um að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður, að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf, með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var steinhella gerð. Grafhvelfingin er það há undir loftað hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir. Í grafhvelfingunni hvíla jarðneskar leifar Sigurðar Daníelssonar, Valgerðar Þórðardóttur og sonar þeirra Davíðs Sigurðssonar, járnsmíðs, sem lézt af slysförum 25 ára gamall.
Valgerður kona Sigurðar, var annáluð fyrir hjálpfýsi og margar sögur fóru af viðbrögðum hennar við veikt og hrakið ferðafólk. Hún var mikill dýravinur, og henni var ekki nóg að gera gestunum gott heldur þurftu hestar og hundar þeirra að fá sitt. Valgerður bjó í tæp þrjú ár að Kolviðarhóli eftir að hún missti mann sinn 1935.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Haustið 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól með öllum mannvirkjum. Hún lét þó ekki af störfum þar heldur veitti gistihúsinu áfram forstöðu næstu 5 ár eða til 1943. Var hún þá orðin 72 ára, hafði hana ekki grunað 40 árum áður, er hún fyrir tilviljun réðst að Kolviðarhóli, að hún ætti þar svo langan starfsdag framundan. Bjó hún síðan í þrjú ár í litlu húsi skammt frá sem Sigurður maður hennar hafði látið byggja og svo 10 ár í Hveragerði unz hún lézt í Landakotsspítala eins og maður hennar.
KolviðarhóllTignir menn og tötrum búnir hafa haft viðkomu að Kolviðarhóli og um síðustu aldamót settu förumennirnir svip á staðinn, svo sem Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjðlfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
Margar sagnir eru af minnisverðum atburðum á Hellisheiði, svo sem þegar Þuríður formaður átti þar leið um og síðar er Indriði Einarsson skáld lá þar úti, eða barnsfæðing, sem átti sér þar stað sumarið 1890 og loks eru allar draugasögurnar.
KolviðarhóllÍþróttafélag Reykjavíkur ætlaði að gera Kolviðarhól að miðstöð vetraríþrótta og eftirsóttum hvíldarstað á sumrin. Félagið átti einnig að halda uppi greiðasölu fyrir ferðamenn. Áhugamenn unnu að ýmsum framkvæmdum, byggður var pallur framan við húsið, upplýst og hituð skíðageymsla, skíðabrekkur lagfærðar og byggðir stökkpallar.
Þegar Valgerður Þórðard. fór frá Kolviðarhóli var sem brotið blað í sögu Kolviðarhóls.
Veitingamennirnir, sem komu eftir hana urðu ekki „mosavaxnir“ á staðnum. Í nóvember 1951 kemst Kolviðarhóll á síður Reykjavíkurblaðanna vegna veru varnarliðsmanna og íslenzkra stúlkna þar.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á vordögum 1952 var svo komið um stjórn og starfsemi Kolviðarhóls, að enginn fékkst til þess að vera þar, og ferðafólk virtist forðast staðinn. Var þá húsunum lokað og enginn maður hafði þar aðsetur lengur. Strax á fyrsta ári fór að bera á því að óheiðarlegir vegfarendur legðu þangað leið sína. Rúður voru brotnar í gluggum, ruplað og rænt úr stofum, og þessi saga endurtók sig æ ofan í æ. Loks var staðurinn viðurstygging og eyðileggingin uppmáluð og var svo síðustu tvo áratugina eða meir.
„Hvort Kolviðarhóll á eftir að rísa úr auðn og niðurlægingu skal engu um spáð“, segir Skúli Helgason í bók sinni 1959. „En eitt er víst: hann verður aldrei aftur það, sem hann einu sinni var. Því valda fyrst og fremst breyttir tímar og allt viðhorf þjóðlífsins.“
Kolviðarhóll
„Guð gaf okkur Hólinn til hjálpar hröktum ferðamönnum af fjallvegum, en ekki til leikaraskapar“. Þessa látlausu setningu mælti Valgerður Þórðardótur, þegar hún var flutt af Kolviðarhóli fyrir fullt og allt. Þessi orð hins síðasta fulltrúa staðarins fela í sér stærri staðreyndir en í fljótu bragði kann að virðast. Líf og starf þeirra gestgjafa, sem lengst og bezt sátu Kolviðarhól var enginn leikaraskapur.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Með þrotlausu starfi, þrautseigju og fórnfýsi unnu þeir sig upp og gerðu þannig „garðinn frægan“. Þeir gerðu jafnan fyrr kröfu til sjálfra sín en annarra. Þeir vissu það, að lífinu varð ekki lifað þar, svo yrði með sæmd á værðarsvæflum við sukk og sællífi. Þess vegna gátu þeir haldið uppi reisn staðarins svo lengi, sem þeirra naut við. En þegar þeir hurfu þaðan á braut, komu „nýir siðir með nýjum herrum.“ Tíminn er búinn að skera úr því, hvernig þau siðaskipti reyndust. Máltækið segir, að „maður komi manns í stað“, og er það að vissu leyti sannleikur. Er þar átt við það að þótt einn hverfi frá athöfn og ævielju, þá komi aðrir og taki við. En svo bezt getur það gengið, að þeir, sem eftir lifa og áfram halda, hafi manndóm til þess að halda í horfinu. Því eins og segir í Hávamálum: „Bautasteinar standa í brautu nær, nema reisi niður að níð.“
Með þeim orðum skal sögunni lokið.“ SJ tók saman.

Í Lesbók Morgunblaðsins 2001 fjallar Gísli Sigurðsson um „Kolviðarhól – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum„:

Kolviðarhóll
„Gistihúsbygging þeirra Sigurðar Daníelssonar og Valgerðar Þórðardóttur á Kolviðarhóli árið 1929 var afreksverk og húsið sjálft byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar. Umsvifin á Kolviðarhóli urðu mest í tíð Sigurðar og Valgerðar, enda bílaöld gengin í garð. Með breyttum Suðurlandsvegi varð Kolviðarhóll ekki lengur í þjóðbraut, þar var ekki lengur þörf á gististað. Hugmyndir og dug vantaði til að finna húsinu nýtt hlutverk. Skemmdarvargar unnu á því tjón, en bæjarstjórn Reykjavíkur gekk í lið með þeim og lét mola húsið mélinu smærra.
Kolviðarhóll
Fáar ljósmyndir eru til frá tímaskeiði lestaferðanna sem vonlegt er. Þó hefur ein verið tekin við Kolviðarhól 1904 og sýnir hún Hannes póst Hannesson, annálaðan ferðagarp, leggja upp í dumbungsveðri af Hólnum. Hann er með sex hesta undir koffortum og sjálfur blæs pósturinn í lúður í nafni embættisins. Á mynd sem tekin er líklega áratug síðar sést að tæknileg umskipti hafa orðið; þá er póstvagnalest á ferð suður með Reykjafellinu; póstvagnarnir með háu þaki og sýnilegt að þeir hafa getað tekið farþega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Þægindin eru komin til sögunnar, bílaöldin rétt handan við hornið. Þriðja myndin sem varðveizt hefur er tekin á Kolviðarhólshlaði í tíð Guðna og Margrétar um aldamótin 1900. Þetta hefur verið snemma vors og enn mikill snjór norður í Skarðsmýrarfjalli… Ferðamenn hafa brugðið sér inn til að fá sér hressingu og hefur ekki þótt taka því að spenna frá vagnhesta eða taka ofan koffort af baggahestum. Á myndinni sem birtist í síðustu Lesbók er fortíðin að syngja sitt síðasta og millistigið, hestvagninn, er kominn til sögu; fyrsti bíllinn þó ókominn til landsins. Enn er til ljósmynd, tekin tveimur áratugum síðar. Þá hafði verið ekið upp að Kolviðarhóli á virðulegri, svartri drossíu eins og þessi farartæki voru gjarnan kölluð þá. Hún er með bílnúmerið RE 85 og bílstjórinn er Vígmundur Pálsson úr Mosfellssveit. Bíllinn var orðinn þarfasti þjónninn.

Teningunum kastað og örlög ákveðin

Kolviðarhóll

Landpóstur á ferð með lúður sinn.

Gestgjafarnir á Hólnum, Sigurður Daníelsson frá Herríðarhóli og Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti, voru í rauninni fulltrúar nýrrar aldar og gerbreyttra samgangna sem gerðu hvorttveggja, að umferðin að Kolviðarhóli margfaldaðist, en kipptu líka fótum undan þessum rekstri með tímanum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Menn urðu fljótir í förum og sífellt færri þurftu á gistingu að halda. Óhætt er að segja að Sigurður og Valgerður á Kolviðarhóli hafi orðið þjóðkunnar persónur, enda bæði afburðafólk fyrir áræði og dugnað. Þau voru gestgjafar á Kolviðarhóli frá 1906 til 1935 og Valgerður var þar lengur, eða til 1943.
Sigurður Daníelsson var Holtamaður að uppruna, kominn af Torfa sýslumanni í Klofa á Landi. Hálfbróðir hans var Daníel bóndi í Guttormshaga, faðir Guðmundar rithöfundar. Sigurður þótti bráðþroska ungur maður og var fljótt talinn óvenjulegt mannsefni, hjálpsamur og ljúfur og ávann sér alls staðar traust.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Eftir 1902 er Sigurður skráður í Reykjavík og stundar þá ýmsa vinnu til sjós og lands; þar á meðal voru fjárkaupaferðir fyrir ýmsa kaupmenn á haustin. Mikilvægasti vendipunkturinn í lífi hans var hinsvegar þegar hann réðst í að kaupa Kolviðarhól, þá 37 ára og ókvæntur. Um þriggja ára skeið hafði Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti í Stokkseyrarhreppi verið vinnukona hjá Guðna og Margréti á Hólnum. Hún var öllum hnútum kunnug í rekstrinum og Sigurði þótti fengur í að fá hana sem ráðskonu. Raunar voru þau orðin hjón eftir fyrsta árið. Hjónaband þeirra varð barnlaust, en áður hafði Sigurður eignast soninn Davíð.
Kolviðarhóll
Sigurður Daníelsson þótti „réttur maður á réttum stað“ á Kolviðarhóli, öflugur arftaki þeirra Jóns Jónssonar og Guðna Þorbergssonar. Í þau 30 ár sem hann var gestgjafi á Hólnum gerði hann stórfelldar umbætur í ræktun og byggingum; menn kölluðu það þrekvirki.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hann varð meðal hinna allra fyrstu meðal bænda til að fá þúfnabana til að slétta og brjóta land og jók svo túnrækt á Kolviðarhóli að töðufengur margfaldaðist og fór yfir 400 hestburði um það er lauk. Á síðasta áratugnum sem hann lifði lét hann vinna á fjórða þúsund dagsverk að túnrækt og fénaðarhúsbyggingum og gat þá losað sig við jörð austur í Ölfusi sem hann hafði nýtt til heyskapar.
Sigurður Daníelsson var meðalmaður á hæð en þrekinn. Hann var svipsterkur maður, hærður vel með dökkar og miklar augabrúnir og yfirskegg. Á yngri árum var hann með glóbjart hár. Aldrei kvartaði hann þótt móti blési, æðraðist ekki yfir því sem orðið var, áreiðanlegur í viðskiptum, reglusamur og gerði vel við sitt fólk, höfðingi í lund.
KolviðarhóllValgerður Þórðardóttir var ekki síður framúrskarandi og þótti bera af ungum stúlkum í sinni sveit. Ung fór hún að heiman til vinnumennsku á Háeyri og á Stokkseyri. Þar kynntist hún ungum manni frá Ísafirði og átti með honum tvær dætur. En sambúð þeirra varð ekki til framtíðar. Maðurinn flutti til Noregs og Valgerður átti ekki annarra kosta völ en að koma dætrum sínum í fóstur. Ætlun hennar var að fara í atvinnuleit til Austfjarða og ásamt vinkonu sinni lagði hún af stað fótgangandi til Reykjavíkur. Veður var vont og þung færð á leiðinni yfir heiðina. Þær stöllur náðu samt að Kolviðarhóli og gistu þar. Matreiðslukona sem verið hafði í vinnu hjá Guðna og Margréti var þá á förum og Guðna leizt strax vel á þessa kraftmiklu, ungu konu úr Flóanum og falaði hana umsvifalaust. En Valgerður setti þá upp mun hærra kaup en þekktist og Guðni kvaðst ekki geta gengið að því. „Gott og vel, þá er því sleppt,“ svaraði Valgerður og bjóst til brottferðar með vinkonu sinni. En ekki voru þær komnar lengra en niður af hólnum þegar Guðni kom hlaupandi og vildi ganga að kröfum Valgerðar. Hún sneri við; teningunum hafði verið kastað, örlög ráðin. Upp frá því var hún kennd við Kolviðarhól. Í fjögur ár var Valgerður í þjónustu Guðna og Margrétar og svo tók hún við gestgjafahlutverkinu sem eiginkona Sigurðar Daníelssonar eins og áður var sagt.

Kolviðarhóll

Saga Kolviðarhóls.

Í Kolviðarhólssögu sinni segir Skúli Helgason, að aldrei verði hægt að lýsa ævistarfi Valgerðar á Kolviðarhóli svo að glögg mynd fáist af því: „Allar frásagnir verða eins og veikt bergmál af því sem hún var. Henni er svo lýst, að skapgerðin var sterk, viljaþrekið óbilandi, framkoman uppörvandi og hressileg, hjálpfýsin með afbrigðum og velviljinn einstæður, hver sem í hlut átti. Hún krafðist mikils af starfsfólki sínu og þoldi illa sérhlífni. En hjúum sínum reyndist hún ævinlega hin ágætasta húsmóðir.“ Björgunarstörf Sigurðar fólust í að koma örmagna mönnum inn úr dyrum á Kolviðarhóli. Þar tók Valgerður við þeim, dró af þeim vosklæði, háttaði þá ofan í rúm og hjúkraði þeim eins og með þurfti. Þegar þeir fóru að skjálfa kvaðst hún hafa hætt að óttast um líf þeirra.

Stórvirki á Kolviðarhóli

 

Árið 1929 réðst Sigurður Daníelsson í að byggja 140 fermetra steinhús, kjallara hæð og ris. Megineinkenni hússins voru þrjár svipmiklar burstir. Þetta hús reis tignarlega á Hólnum, byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem var einmitt á þessu tímaskeiði að gera athyglisverðar tilraunir til að endurvekja burstabæjarstílinn með nýju byggingarefni, steinsteypunni. Laugarvatnsskólinn er til dæmis frá sama tíma.
Kolviðarhóll
Margir hafa tekið eftir því að burstir fara vel undir fjallshlíðum og sannaðist það bæði á Laugarvatni og Kolviðarhóli. Þetta svipmót fær líka aukinn styrk sé húsið hátt. Sérkennilegt var, að miðburstin var mjórri en hinar og ögn lægri og í öðru lagi það, að kvistur gekk í gegnum burstirnar þrjár. Þá lausn notaði Guðjón ekki annarsstaðar.
Nú varð heldur betur staðarlegt heim að líta á Hólinn; „skýjaborgir“ Sigurðar málara orðnar að veruleika og gott betur. Í húsinu voru 20 vistarverur, 6 herbergi í kjallara, önnur 6 herbergi og 2 stofur á hæðinni og 8 herbergi undir súð í burstunum. Húsið var allt steinsteypt, miðstöðvarhitun frá kolakatli í kjallara og raflýsing frá stórri ljósavél. Byggingarkostnaðurinn nam 70 þúsundum sem var stórfé á árunum 1929–30. Úr ríkissjóði fékkst 12 þúsund króna styrkur; hitt kostuðu þau Sigurður og Valgerður sjálf.

Ekki allar ferðir til fjár

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Hér var gengið fram af miklu áræði og ekki vissu menn þá að heimskreppan mikla var framundan. Nú var sú aðstaða fengin sem lengi hafði verið nauðsynleg og þau hjón urðu þekkt sem afburða gestgjafar. En ekki voru allar ferðir til fjár og enn sem fyrr var Kolviðarhóll björgunarstöð við alfaraleið í óbyggðum. Fyrir mikla og óhemju erfiða vinnu við hjálparstarf og björgun mannslífa var einskis krafizt.
Þó að vegum sé nú haldið opnum með snjómokstri þekkja margir þann ótrúlega mun sem orðið getur á veðri í Reykjavík og uppi í Svínahrauni. Hæðarmunurinn er þó ekki ærinn. Fyrsti vegurinn upp eftir Svínahrauni var lítið sem ekki neitt upphlaðinn og hann varð ófær í fyrstu snjóum.

Símastaurar

Símastaurar við fjallveg.

Árið 1907 var sími lagður austur yfir Hellisheiði og sími kom þá að Kolviðarhóli. Eftir það varð föst venja Sigurðar að nota símann til að fylgjast með mannaferðum ef illa leit út með veður og færð. Þá hafði hann annarsvegar samband við Lögberg, efsta byggða ból ofan Reykjavíkur og hinsvegar við Kotströnd í Ölfusi. Þegar Sigurður frétti að einhver hefði lagt af stað í tvísýnu veðri og skilaði sér ekki á eðlilegum tíma, fór hann óbeðinn af stað til leitar og aðstoðar þó ekki sæist út úr augum, ýmist einn eða með einhvern með sér. Aftur og aftur kom hann að mönnum sem voru búnir að gefa allt frá sér og lagstir fyrir. Alltaf tókst Sigurði að bjarga þeim. Á verstu snjóavetrunum kom fyrir að hann færi tvær eða þrjár björgunarferðir sama daginn, ýmist upp á Hellisheiði eða fram í Svínahraun Þegar heilsu Sigurðar fór að hraka 1935 lét hann það verða sína síðustu framkvæmd á Kolviðarhóli að útbúa heimagrafreit með steinsteyptu grafhýsi. Þarna vildi hann bera beinin og nú er þetta grafhýsi eina mannvirkið sem uppi stendur á staðnum fyrir utan nokkra grjótgarða. Krabbamein í hálsi dró Sigurð til dauða. Hann var þá 67 ára og fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar.

Frægir menn og flakkarar

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson gat kvartað yfir verðskránni á Kolviðarhóli.

Förumenn, eða flakkarar eins og þeir voru nefndir, áttu vísan næturstað á Kolviðarhóli og ekki gátu þeir borgað fyrir sig. Einn þeirra, sem margoft hafði gist á Hólnum og þegið matarbita, kom þangað aldraður og þrotinn að kröftum með þá ósk eina að hann mætti fá að deyja hjá Valgerði. Honum varð að ósk sinni. „Ég saknaði þessara manna þegar þeir hættu að koma,“ sagði Valgerður, „þó að mér væri alltaf illa við sóðaskapinn sem þeim fylgdi.“ Meðal förumanna sem oft komu að Kolviðarhóli voru Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjólfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.

En þjóðskáld, stjórnmálamenn og frægir erlendir ferðamenn gistu líka á Kolviðarhóli. Á gestalistanum eru ýmis þjóðkunn nöfn: Sigurður Breiðfjörð skáld, Þuríður formaður og séra Matthías Jochumsson.

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hann segir frá því í ævisögu sinni, að hann gisti á Hólnum 1884 á austurleið. Ófærð var og hríðarveður og 40 ferðamenn höfðu þá verið hýstir á Hólnum. Þeim gaf séra Matthías öllum staup af brennivíni og síðan gengu menn til náða.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra kom oft á Hólinn og gisti þar tvívegis. Í eitt skiptið var hann á ferð þeirra erinda að vígja Sogsbrúna. Þótti heppilegt að skipta þeirri löngu leið austur að Sogi í tvo áfanga og gista á Kolviðarhóli. Annað skáld, Einar Benediktsson, gisti þar ásamt konu sinni þegar hann var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Það var ólíkt Einari sem að jafnaði jós út fé, að hann kvartaði yfir háu verði á gistingunni. Gott hjá Guðna, að hann bauðst þá til að gefa honum gistinguna eins og flökkurunum, en ekki þáði skáldið það. Eitt skáldið enn, Grímur Thomsen, hafði sérstaklega stutt húsbygginguna á Hólnum 1877 og gisti þar löngu síðar og bað um tvennt: Þrjú staup af brennivíni og að hestur hans yrði látinn í hús og breitt yfir hann. Grímur átti þá fá ár eftir.
Daniel Bruun.Íslandsvinurinn Williard Fiske gisti á Kolviðarhóli 1879 ásamt séra Matthíasi. Daniel Bruun gisti þar oft og baróninn á Hvítarvöllum hafði þar viðkomu þegar hann fór til að athuga ölkelduvatn í Hengli, sem hann hugðist nýta. Áður var minnst á Friðrik kóng VIII sem kom að Kolviðarhóli í Íslandsförinni 1907.
Hnignun og fall á Kolviðarhóli Eftir lát Sigurðar bjó Valgerður áfram á Kolviðarhóli til ársins 1938 og sinnti gestgjafahlutverki. En 10. apríl 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól ásamt öllum mannvirkjum. Þá var sá skilningur ríkjandi að ÍR ætti að annast áfram greiðasölu og gistingu og Valgerður var ráðin næstu 5 árin til að veita gistihúsinu forstöðu.
Í fardögum 1943 lét hún starf sitt laust, þá orðin 72 ára. Á þriðja ár bjó hún áfram í litlu timburhúsi sem Sigurður hafði byggt norður á völlunum. Þar bjó öldruð kona með henni sem lengi hafði starfað á Hólnum og saman hugsuðu þær um nokkrar kindur og hænsni. Þær fóru alfarnar 1946 og settust að í Hveragerði. Þar bjó Valgerður til dauðadags 13. júní 1946, þá orðin 86 ára. Þá var aðeins eftir síðasta ferðin á Hólinn þar sem kistu hennar var komið fyrir í grafhýsinu.

KolviðarhóllHjá Íþróttafélagi Reykjavíkur voru uppi stór áform um að Kolviðarhóll skyldi verða miðstöð vetraríþrótta. Breyta átti húsinu svo það rúmaði a.m.k. 100 næturgesti. Í sjálfboðavinnu átti að fegra staðinn, planta trjám, hreinsa skíðabrekkur, hlaða stökkpall og undirbúa gott skautasvell á vetrum. Á sumrin átti Kolviðarhóll að vera hvíldar- og skemmtistaður fyrir Reykvíkinga.
Í Alþýðublaðinu sagði svo 1. september 1938: „25 piltar við vinnu og vinnunám á Kolviðarhóli. Miklar framkvæmdir á hinum nýja skíðastað Reykvíkinga. Unglingavinna byrjar að líkindum uppúr næstu mánaðamótum.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – skíðasvæði.

Piltarnir unnu m.a. að því að byggja pall á hlaðinu. „Hefur verið gerð mikil og rammleg upphækkun fyrir framan húsið og hefur það verið mikið verk og vandasamt. Grjót hafa piltarnir sprengt upp í hrauninu og flutt það á bíl þaðan. Þá vinna þeir að gerð skíðastökkbrautar við Búastein þar sem skilyrði eru sögð mjög góð fyrir stökkpall.“
Skemmst er frá því að segja að pallurinn sem gerður var við húsið sumarið 1938 var það eina af þessu sem komst í framkvæmd. Hlaðinn kantur hans að framanverðu er nánast það eina sem ekki var eyðilagt og sést enn. Trjárækt varð aldrei að veruleika; ekki skautasvellið heldur. Talsverð vinna var lögð í lagfæringar á skíðabrekkum og sumarið 1945 lagði ÍR nýja vatnsveitu heim í hús og byggði skíðageymslu. Um 30 manns unnu að þessu í sjálfboðavinnu.

Kolviðarhóll 1910

Kolviðarhóll 1910.

ftir að Valgerður hætti umsjón með veitingarekstri gekk á ýmsu og alls komu níu menn að rekstrinum á tímabili sem lauk 1948, þegar Kolviðarhóll var leigður Rauða krossi Íslands fyrir barnaheimili. Það stóð í ár og eftir það var ekki um neinn samfelldan rekstur að ræða. Síðastur til þess að bjóða gestum veitingar á Kolviðarhóli varð Guðni Erlendsson sem einnig rak veitingaskála við Gullfoss.
Pólitískur hanaslagur varð til þess að flýta fyrir endalokunum á Kolviðarhóli. Hann varð með þeim hætti að dagblöð í Reykjavík, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn, birtu æsifréttir um að bandarískir hermenn hefðu sést með íslenzkum stúlkum á Kolviðarhóli. Þær áttu að hafa verið drukknar. Einkanlega var það Þjóðviljinn sem gerði sér mat úr þessu og var þar talað um Kolviðarhólshúsið sem aðstöðu fyrir „telpnaveiðar hernámsins“. Formaður ÍR lofaði að láta stöðva meintan ósóma, en Morgunblaðið taldi að þessi umræða væri byggð á ýkjum.
Kolviðarhóll
Vorið 1952 var hún Snorrabúð sannarlega orðin stekkur; enginn fékkst þá til að vera á staðnum og um líkt leyti fór að bera á því að skemmdarvargar og bullur legðu leið sína á Hólinn til þess eins að skemma húsið. Rúður voru brotnar, hurðir sprengdar upp og húsbúnaði, sem þar hafði orðið eftir, var stolið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Árin liðu og á síðari hluta sjötta áratugarins leit hin glæsta burstabygging Sigurðar og Valgerðar á Kolviðarhóli út eins og þau hús sem orðið hafa fyrir árásum í stríði. Búið að brjóta allar rúður, jafnvel karmana með og hnullungar lágu um öll gólf, svo stórir að fíleflda karlmenn hefur þurft til að kasta þeim inn af þvílíku afli að þeir moluðu bæði rúður og gluggapósta. Allur húsbúnaður var sömuleiðis í méli og með mikilli fyrirhöfn höfðu miðstöðvarofnar jafnvel verið slitnir frá. Umhverfis húsið var allt í braki, útihúsin fallin og túnið í órækt.
Kolviðarhóll
æjarráð Reykjavíkur samþykkir að brjóta húsið niður Hjá öllu þessu hefði mátt komast með því einu að ráða húsvörð og halda húsinu við. Það hefði kostað einhverjar krónur en við ættum í staðinn hús sem væri byggingarsögulegt verðmæti og því hefði verið fundið nýtt hlutverk við hæfi.. Þar hefði til að mynda getað orðið miðstöð gönguferða um Hengilssvæðið eða safn um samgöngur og flutningatækni fyrr á tímum. Ekkert slíkt safn er til. Þeir tímar þegar ekkert var hægt að flytja nema lyfta því á klakk, svo og hestvagnaöldin, eru ungu fólki jafnfjarlægir og söguöldin og samt er ekki lengra síðan en svo að reiðingar og hestvagnar tilheyrðu daglegum veruleika þegar elzta kynslóðin í landinu var ung. Jafnvel þótt skemmdarvargar brytu allt á Kolviðarhóli sem brotnað gat og fátt væri óskemmt innanstokks, þá stóð þetta sögulega hús eftir sem áður. Það var ekki fyrir neinum.
Einhverntíma hefði komið að því að framsýnir menn tækju til hendinni og þá hefði húsið gengið í endurnýjun lífdaganna. En því miður réð sú skammsýni ferðinni sem telur fara bezt á því að brjóta allt niður sem er gamalt og slétta yfir öll gengin spor.
Kolviðarhóll
Tímanum 22. janúar 1960 segir svo í fyrirsögn: „Aldargamall gististaður lagður undir fallhamar.“ Og í frétt blaðsins er m.a. eftirfarandi: „Sl. þriðjudag kl. 16 gerði bæjarráð Reykjavíkurbæjar samþykkt um að fela bæjarverkfræðingi að fjarlægja húsin að Kolviðarhóli. Þá er lokið langri og litríkri sögu. Þegar starfsmenn bæjarverkfræðings hafa brotið þar gömlu húsin sem eftir standa, mun þögnin geyma Kolviðarhól.
Íþróttafélag Reykjavíkur hafði selt Reykjavíkurbæ húsin á Kolviðarhóli og höfðu áhugasamir menn gert tilraun til endurbóta; skipt um glugga og ýmislegt fleira.“
En það var ekki fyrr en 12. júlí 1977 að menn á vegum bæjarverkfræðingsins komu að Kolviðarhóli með járnkúlu til að mola steinveggina.. Ekki hafa allir verið sannfærðir um réttmæti þess, því málið var borið undir Þór Magnússon þjóðminjavörð, en hann beitti sér að minnsta kosti ekki gegn eyðingunni. Tíminn er eina blaðið sem ýjar að því að þetta sé vafasamur verknaður og segir í fréttinni um niðurbrotið 14. júlí 1977: „Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er í.“
Í Morgunblaðinu er smáfrétt 28. júlí 1977 með ljósmynd sem Ragnar Axelsson hefur tekið og sýnir hún þegar verið er að skófla því síðasta af steinhúsinu upp á vörubíl.
Síðan hefur þögnin ríkt á Kolviðarhóli – og skömmin.“

Í Óðni  1923 er fjallað um „Ebenesar Guðmundsson, gullsmið„, en hann réði húsum á Kolviðarhóli fyrstur ábúenda:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010. Horft frá Hellisskarði.

Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frumbýliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkurinn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur, erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sumpart sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin tafði húsbóndan frá handverkinu.
Loks þreyttist Ebeneser á öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags; hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921. Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta myntust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega Jóns landæknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum ölkelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði allmikið.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1972 er „100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll

Valgerður Þórðardóttir.

„Valgerður fœddist 30. jún i 1871 að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hennar voru Þórður bóndi Þorvarðsson frá Brattsholti í Flóa og kona hans Guðríður Jónsdóttir, komin af Bergsætt.
Átján ára fór hún í vist til Jóns ríka í Móhúsum á Stokkseyri og var þar um skeið ásamt nokkurri dvöl heima í Traðarholti.
Það var vorið 1902, að hún ætlaði sér að breyta um störf og þá fór hún að heiman. Leiðin lá um Kolviðarhól, sem var gististaður. Gestgjafinn naut þá lítillega fjárhagsstuðnings frá sýslumanni. Það var áskilið að þar væri höfð stúlka, er kynni til matreiðslustarfa.
Guðni Þorbergsson og kona hans Margrét bjuggu þar, er Valgerður og önnur stúlka með henni gistu þar umrætt vor. Guðni hafði haft spurnir af Valgerði og verið bent á að hún hentað í vel í starf þetta. Hann falaði hana því til þjónustu, en hún setti upp óvenju hátt kaup á þeirra tíma mælikvarða. Fór svo, að Guðni veigraði sér við að ganga að kröfu hennar. Lagði Valgerður þá úr hlaði. Ekki var hún langt komin, er gestgjafinn kallaði á eftir henni til frekara viðtals. Sagðist hann ganga að skílmálum hennar og sneri hún þá aftur heim með honum.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Margrét og Guðni.

Urðu þau Guðni og Margrét, ásamt börnum þeirra, tryggir vinir Valgerðar alla tíð. Það má með sanni segja að þessi næturgisting varð afdrifarík, því Valgerður átti heima á Kolviðarhóli í nærri hálfa öld, og þar varð hennar lífsstarf.
Nafn hennar er þekkt um land allt. Þessari sérstöku ágætiskonu hefur verið þakkað af almenningi og hinu opinbera. Hennar óvenjulega erfiða starf krafðist mikilla hygginda og framsýni til þess að geta rækt það grundvallaratriði að hlúa að öðrum. Hún sagði: „Guð gaf okkur „Hólinn“ (svo var Kolviðarhóll oft nefndur) til þess að hlúa að hröktum og þreyttum ferðamönnum, en ekki til leikaraskapar.“ Sýna þessi orð að hún hefur tekið starf sitt alvarlega og skilið tilgang veru sinnar í þessum fjallasal, sem svo sannarlega gaf ekki mikinn tíma til frjálsræðis. Geysilega vandasamt verk hvíldi á henni, þegar á það er litið, að hún var í þessari stöðu til sjötíu og tveggja ára aldurs, og mörg ár með fullri reisn eftir að hún missti mann sinn. Til gamans má geta þess, að árið sem Valgerður fæddist var haldinn fundur í Reykjavík um þá nauðsyn að veitingahús væri rekið á Kolviðarhóli. Sigurður Guðmundsson málari bar þá hugmynd fram á fundi 26. janúar 1871 í „Leynifélaginu“ svokallaða.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson, málari.

Árið 1905 seldi Guðni Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum. Þann 16. apríl 1906 giftust þau Sigurður og Valgerður og hófu þar búskap sama vor, og bjuggu þar til ársins 1935, er Sigurður lézt. Hann var mesti myndar- og ágætismaður og góður gestgjafi.
Varla verður annars þeirra hjóna minnzt án þess að hins sé getið, því að svo var starf þeirra samofið. Sigurður var framkvæmdasamur dugnaðarmaður. Hann byrjaði á því að rækta þar jörðina, sem var mjög erfitt og dýrt, vegna þess hversu hátt hún liggur yfir sjávarmáli, 200 m. Árið 1929 var húsið á Kolviðarhóli byggt og stendur enn. Það var stórt og vandað þriggja hæða hús með miðstöðvarhitun og rafmagni frá olíukyntri ljósavél, sem sérstakt hús var byggt yfir. Vatnsleiðsla var lögð, svo rennandi vatn var þar. Áður var vatni dælt úr brunni með dælu, en síðar með vatnshrút frá uppistöðu. Var þetta mikil hagræðing frá því, er vatni var ekið heim á vagni í tunnum, og þó var erfitt að ná því. Sigurður byggði líka votheysgryfjur með allra fyrstu bændum; var að þeim nokkurt öryggi. Ekki veitti af, fjallaskúrir komu skyndilega og gegnvættu nærri þurrt hey. Um langan veg þurfti að fara til þess, að afla heyfanga; alla leið austur í Ölfus. Þar átti Sigurður jörð, sem nýtt var til slægna.“

Í Vísi 1977 er sagt frá „Veislunni á Kolviðarhól“:

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

„Halldór Laxness segir á einum stað um Kolviðarhól: Þar ætti að vera viðboð handa prestum/mikið voðalega er skemmtilegt á Hólnum. Og satt er það, að Kolviðarhóll er kunnur aö skemmtilegheitum. Um mitt sumar árið 1907 kom Friðrik konungur áttundi í heimsókn hingað, og meðal annarra ágætra verka gaf hann út á fyrsta degi heimsóknarinnar konunglega tilskipun, þar sem sagði að samkvæmt óskum forsætisráðherra beggja landanna „höfum vér með allra hæstum úrskurði, dagsettum í dag (þ.e. 30. júlí), skipað nefnd alþingismanna“ og ríkisdagsmanna til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs.“ Að líkindum mun Friðrik áttunda varla hafa órað fyrir því að sú sambandslaganefnd, sem hann var að stofna til, yrði upphafið að lokasprettinum í sjálfstæðismálum Íslendinga. Hins vegar hafði konungur þær artir til landsins, að hann hefði eflaust látið kyrran liggja slíkan grun.
En viðbrögð við frægri ræðu, sem konungur flutti, kominn austan frá Gullfossi og Geysi, benda eindregið til þess að hið danska fylgdarlið hafi um margt talið að einungis væri verið að sinna daglegu nuddi um sífeldar athuganir á réttarstöðu landsins innan veldis Danakonungs.

FriðrikSamtímaheimildir skýra frá því að konungur hafi fengið gott veður í austurreisunni, heiðan himinn og sólskin frá morgni til kvölds. Og ekki skemmdi að töluvert var af kampavíni með í förinni. Svo fóru leikar, þegar komið var að Kolviðarhóli undir kvöld, áður en lagt var upp í síðasta áfangann til Reykjavíkur að Friðrik konungur flutti stutta tölu yfir nærstöddum, hrifinn eftir velheppnaða ferð, hýr af freyðandi veigum, og þess fullviss að allir konungar og keisarar Evrópu mundu öfunda sig af þeirri för, sem var að ljúka.
Í hinni stuttu ræðu talaði hann um ríkin tvö, þ.e. Ísland og Danmörku. Lengi hefur verið deilt um það, hvort konungi hafi orðið á mismæli, eða hvort hann var með vilja að ýta bæði við Íslendingum og Dönum með því að tala um hin tvö ríki. Of seint er að spyrja Friðrik, en eftir þessa ræðu óx Íslendingum ásmegin, enda liðu ekki nema ellefu ár þangað til þessi hugsun Danakonungs var orðin að veruleika með sambandslögunum. En þetta orðalag konungs var merkilegt að öðru leyti, og má Kolviðarhóll vel njóta þess, það benti viðstöddum á, að utanríkismál, eða öllu heldur milliríkjamál, eru flókin og vandasöm og þeirra verður varla gætt sem skyldi yfir glösum af freyðivíni á sólskinsstund. Orðræðan um ríkin tvö var því nokkur kennslustund jafnframt því að vera fagnaðarefni þeim, sem lengi höfðu beðið eftir skilningi á þörfum og vilja eyþjóðarinnar.“

Í Vísi 1976 er sagt að „Húsið á Kolviðarhóli [sé] nær ónýtt vegna vanhirðu og skemmdarverka“. „Ætti að brjóta húsið niður“, segir borgarverkfræðingur.

Kolviðarhóll
„Þeir sem lagt hafa leið sina upp að Kolviðarhóli hin síðustu misseri hafa varla komist hjá að taka eftir því hve hroðalega illa útleikið hið stóra og fyrrum glæsilega húsa þar er. Í öllu húsinu er ekki ein einasta heil rúða, allar hurðir hafa verið rifnar af hjörum, ofnar, kranar, vaskar og annað þess háttar liggur ýmist brotið um öll gólf, eða þá að því hefur verið stolið. Fyrir nokkrum mánuðum kviknaði í efstu hæðinni í austurhluta hússins, og hefur engin viðgerð farið fram ennþá.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Saga Kolviðarhóls er bæði löng og merkileg, og þar var um áratuga skeið rekin veitingasala og gistihús. Er ekki að efa að margur ferðalangurinn hafi rennt hlýjum og þakklátum augum heim að Kolviðarhóli í frosti og kafaldsbyl á ferðum sínum milli þéttbýlisins við Faxaflóa og sveitanna austur í Árnessýslu. Þó Hellisheiði þyki nú ekki erfið yfirferðar né hættuleg ferðamönnum, þá hafa sennilega fleiri orðið þar úti en á nokkrum öðrum fjallvegi á Íslandi. Stafar það trúlega bæði af því hve umferð um hana hefur jafnan verið mikil, og ekki síður vegna þess hve leiðin er stutt. Þá ber allt húsið þess merki, að sauðfé getur gengið þar um að vild sinni, því sum gólfin eru verr útlítandi en mörg fjárhús sem ekki hefur verið stungið út úr lengi.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Þannig er í stuttu máli útlits í þessu stóra húsi, sem eitt sinn var ein glæsilegasta bygging í allri Árnessýslu, og þó víðar væri leitað.
Jörðin Kolviðarholl hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar í nokkur ár, en jörðin er í Ölfushreppi í Árnessýslu. Hjón úr Reykjavík bjuggu þar með börnum sínum fyrir örfáum árum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

Áður en hús var reist á Kolviðarhóli var um langan aldur sæluhús þar skammt frá, við svonefndan Húsmúla, sem dregur nafn af sæluhúsinu sem þar stóð undir múlanum. Eru til heimildir um hús þar allt frá árinu 1703, og vafalaust hefur sæluhús verið löngu áður þó ekki finnist um það skriflegar heimildir.
Fljótlega mun það þó hafa þótt ófullnægjandi að hafa sæluhúsið undir Húsmúlanum, og því var það að menn úr Reykjavik og Ölfusi tóku sig saman um að byggja sæluhús á Kolviðarhóli við, Hellisskarð. Var fyrsta sæluhús á þeim stað reist árið 1844.
KolviðarhóllStarfræksla gistihúss á Kolviðarhóli hófst síðan árið 1878, og var frá þeim tíma rekið þar gistihús og greiðasala með stuttum hléum allt fram til ársins 1952, en síðustu árin var gistihúsið og greiðasalan rekin af Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR).
Sögu Kolviðarhóls verða gerð nánari skil hér í blaðinu á næstunni, en vert er að hafa það í huga er menn leggja leið sina að Kolviðarhóli að þar var eitt sinn rekið glæsilegt gistihús, og staðurinn er þess alls ómaklegur að hann verði látinn grotna niður eins og nú er að gerast. Betur hefði þá farið að húsið brynni niður á einni nóttu, og hyrfi þar með niðurlægingarlaust af sjónarsviðinu. Það væri vissulega verðugt verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Ölfushrepp og Árnesingafélagið að stuðla að því í sameiningu að reisa staðinn til fornrar virðingar að nýju.
Eins og er eru þó ekki miklar líkur á að svo verði, því samkvæmt upplýsingum borgarverkfræðings í gær eru ekki uppi neinar áætlanir um að gera við húsið, enda sé það í lakara ástandi en fokhelt hús. „Ef ég mætti ráða myndi ég láta kúluna á húsið og brjóta það niður“, sagði borgarverkfræðingur.“ -AH

Í Tímanum  segir; „Rifið niður á Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll
„Þriðjudag sl. var hafizt handa um að brjóta niður gamla gistihúsið á Kolviðarhóli, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki er liðinn nema rétt rúmur áratugur síðan húsið var lagfært mjög, skipt um glugga í því og ýmislegt fleira. Voru þar á ferðinni áhugasamir menn um framtíð staðarins og er nú verk þeirra að engu að verða. Spellvirkjar ýmsir hafa að vísu lagt gjörva hönd á niðurrif hússins, brotið allar rúður og hurðir og jafnvel kveikt í húsinu. Er þetta starf þeirra nú fullkomnað og verið að rifa niður húsið. Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er af. Kolviðarhóll er sögufrægur staður og lá þar gamla þjóðleiðin um Hellisskarð fram til þess að akvegur var lagður yfir Hellisheiði. Leiðin frá Lögbergi að Kolviðarhóli, eða austan úr Ölfusi var hér áður drjúgur spotti, sem menn nú aka á rúmum stundarfjórðungi.
Þegar hin „græna bylting“ hefur lokið sínu verki, mun heimagrafreitur síðustu gestgjafanna á Kolviðarhóli, Valgerðar Þórðardóttur og Sigurðar Danlelssonar, verða einu minjarnar á þessum sögufræga stað.“

Sjá meira um Kolviðarhól HÉR.

Heimildir:
-Tíminn, 158. tbl. 24.07.1977, Kolviðarhóll 1877-1977, fyrsti gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…, bls. 2-3.
-Lesbók Morgunblaðsins 07.04.2001, Kolviðarhóll – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum, – Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.
-Óðinn, 7.-12. tbl. 01.07.1923, Ebenesar Guðmundsson, gullsmiður, bls. 56-57.
-Lesbók Morgunblaðsins, 16. tbl. 30.04.1972, 100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli, bls. 8-9 og 16.
-Vísir, 5. tbl. 07.01.1977, Veislan á Kolviðarhól, bls. 10-11.
-Tíminn, 149. tbl. 14.07.1977, Rifið niður á Kolviðarhóli, bls. 1.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 28. júlí 1977.

Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um „Sögu Kolviðarhóls„:

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.“

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Engidalur

Í „Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps„, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

„Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur austan Lyklafells.

Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi.

Grafningsvegur

Grafningsvegur.

Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – yngsta húsið á hólnum.

Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.“ Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.

Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ SSÁ, 205

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“

Hellisheiði

Hellisheiði – gamla gatan.

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“

Hellisheiðarvegur

Eiríksvegur ofan Hveragerðis.

„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“

Hellisheiðarvegur

Austurvegur 1880.

„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur við Þrívörður.

Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ Útivist 6(1980), 82-86.
„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .

Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. „var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).

Hellukofinn

Hellukofinn.

„Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

1703: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“
19.6.1793: „Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.“

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

„Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“ „Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.“ „Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].“ „Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.“ „Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.“ Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

1703: „Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.“ „Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.“
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

„Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.

Engidalur

Engidalur – tóftir.

„Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.“ Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Kolviðarhóll

„Elzta draugasagan, sem nú mun þekkjast frá sæluhúsinu við Húsmúlann, er meira en tvö hundruð ára gömul.
Hún kolvidarholl-321segir frá viðskiptum Eiríks í Haga í Eystrihrepp við draugana í sæluhúsinu, en Eiríkur var bóndi í Haga um og eftir aldamótin 1700, en andaðist gamall nálægt miðju átjándu aldar. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi ritaði sagnir um Eirík og birtust þær í þjóðsagnaritinu Huld, sem út var gefið á árunum 1890—98. En þar segir svo um Eirík:

„Eiríkur var ekki myrkfælinn, tenda þó hann væri ekki laus við draugtrú, heldur en aðrir í þá daga. Eitt haust fór hann einn síns liðs suður með sjó til skreiðarkaupa, og var um nótt í sæluhúsinu á Bolavöllum, það var þá ekki á Kolviðarhóli, heldur norður undir Húsmúlanum, þar sem enn sér tóftina. Þar þótti mjög reimt. Þegar Eiríkur hafði búizt um, tók hann til matar. Myrkur var inni. En allt í einu sá hann eldglæringum bregða fyrir í hinum enda kofans. Þá segir Eiríkur: „Kveikið þið kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn“. Þá hættu eldglæringarnar; hann varð einskis var framar og svaf þar nótt til morguns.“
Eftirfarandi draugasögur eru skráðar í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar II. bindi, bls. 44—438:
kolvidarholl-233Það hefur verið draugagangur á Kolviðarhóli um langan aldur. Fyrst stóð þar sæluhúskofi úr torfi, og þótti alreimt í honum; sótti kvendraugur á ferðamenn, er lágu þar. Svo stóð á draug þessum, að stúlka ein lagðist út í Svínahraun og rændi ferðamenn. Hún lagðist vist út um sumar, og rak hún iðn sína svo duglega um veturinn, að þeir voru margir, er ekki þorðu að fara um veginn, enda urðu flestir, er það gjörðu, fyrir skaða og skömm. Á útmánuðum fór maður einn um veginn sem oftar. Stúlkan réðst á hann, en hann vann hana og skar af henni hausinn. Stúlkan gekk aftur og sótti á ferðamenn ,sem lágu á Hólnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – fyrsta sæluhúsið.

Snemma var reist sæluhús á Kolviðarhóli úr timbri. Þar dó maður einn, og er ekki alllangt síðan. Hann gekk aftur. Úr því voru draugarnir tveir, karldraugur og kvendraugur. Einu sinni lá maður þar um hávetur. Hann var skikkanlegur og sannsögull. Ekki veit ég um nafn hans. Hann fór þaðan um hánótt í grenjandi hríð, og sagði hann seinna, að hann hefði ekki haft neina von um líf, er hann hélt af stað, en kvaðst heldur hafa viljað verða úti en þola draugagang þann, er hefði verið á Kolviðarhóli þessa nótt.
kolvidarholl - heimagrafreiturEinu sinni voru gangnamenn að borða þar haustkvöld eitt. Þeir sátu flötum beinum á gólfinu, því lítið var um stóla í kotinu, þeir eru að éta í bezta gæti. Allt í einu er stóreflis högg rekið í hlerann, og spratt hann upp eins og stálfjöður. Einn gangnamanna kvað fjanda þann furðu djarfan, sem settist á hlerann, og bað þann, er rekið haefði höggið á hlerann, að koma nú aftur, ef hann andskotans þyrði. Þá er hann hafði nýsleppt orðinu, var rekið högg í hlerann miklu meira en áður, og maðurinn hentist upp í háa loft. Hann settist á hlerann aftur eins og ekkert hefði í skorizt, og urðu þeir félagar ekki varir við neitt eftir það. Sumir segja samt, að maðurinn hafi verið keyrður þrisvar upp á hleranum. og hann hafði boðið draugnum inn.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóft.

Kolviður sá, sem hóllinn er kenndur við, er heygður skammt frá sæluhúsinu. Dag einn fór Ebenezer og kona hans að skoða hauginn; þeim þótti gaman að því og gátu þess, að gaman væri að sjá Kolvið gamla og félaga hans eiga vopnaskipti í öllum hertygjum. Um kvöldið sátu þau hjón í baðstofu sinni, en stúlka var í gestastofu; hún var skyggn. Þau hjónin heyrðu hávaða frammi í stofu, litu þangað inn, en sáu ekkert. Aftur sá stúlkan 4 hertygjaða menn, og börðust þeir í ákafa. Þessu fór fram nokkra stund. Loksins fóru þeir út, og varð engum meint við komu þeirra. Ebenezer var tvö sumur og loft upp um miðja nótt og aftur öfugur, svo að vinnumaðurinn hafði orðið undir honum. Skömmu seinna gekk vinnumaðurinn í burtu, því að hann vildi ekki oftar hafa rúmrusk af draugnum.
Reykjafell-231Á fyrstu árum Jóns Jónssonar sem gestgjafa á Kolviðarhóli var það vor eitt, að danskan ferðalang bar þar að garði. Þetta var ungur maður, skólalærður, og hafði lagt stund á náttúrufræði og var því nefndur „náttúruskoðari“. Erindi hans upp á Kolviðarhól var, að hann hugði að dveljast þar á fjöllunum fram eftir sumri að rannsaka grös og jurtir, Hafði hann meðferðis topptjald lítið og eitthvað af vistum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Steinhús var reist á Kolviðarhóli fyrir örfáum árum. Sá hét Ebenezer, er fyrstur annaðist þar veitingar. Einu sinn kom karl og kona austan yfir heiði, seint um kvöld. Þau börðu að dyrum. Ebenezer kom út. Honum sýndist þrír menn standa úti, karl og kona og stálpaður strákur. Karlinn og konan gengu inn, en strákurinn gjörði sig ekkert líklegan til þess. Ebenezer yrti á hann, og spurði, hvort hann ætlaði ekki að koma inn líka. Þá brá strákur við og fór inn í ræfil af viðsæluhúsinu, er stendur skammt frá hinu.
Ebenezer spurði gestinn, hvernig stæði á strák þessum. „Strák“, þau vissu ekki af neinum strák, þá sá Ebenezer, hvernig í öllu lá. Strákurinn hafði verið draugur.
Daudidalur-231Eins og kunnugt er, er Kolviðarhóll í þjóðbraut á Hellisheiði og hefur margur haft þar viðdvöl um dagana. Sæluhúsin á Hellisheiði eiga sér viðburðaríka sögu. Kolviðarhóll hefur að undanförnu verið mjög á dagskrá og í fyrra kom út skemmtileg bók eftir Skúla Helgason: Saga Kolviðarhóls. Eins og að líkum lætur telja ýmsir sig hafa orðið vara viS reimleika á Kolviðarhóli — þó að þeirra sé nú hætt að gæta nú í allri birtunni. TÍMINN birtir í dag nokkra kafla úr bókinni Saga Kolviðarhóls um reimleika á Hellisheiði. einn vetur á Kolviðarhóli. Þá fór hann þaðan. Skömmu síðar kom þangað bókbindari einn, er Ólafur hét. Hann hefur nú (31. des. 1881) verið þar tæp 2 ár. í fyrravetur var mikill draugagangur á Kolviðarhóli; gengu ýmsar sögur um það manna á milli. Ein var sú, að beddi, er vinnumaður Ólafs hafði sofið í, hefði verið keyrður í um. Eigi vildi hann reisa tjald sitt heima á Kolviðarhóli, heldur kaus hann sér verustað í dalverpi einu á bak við Hádegishnúkinn.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Nefnist það Dauðidalur. Þessi ungi Dani var glæsilegur maður og mesta prúðmenni í framkomu; skildi hann eitthvað íslenzku og kynntist fólki vel. Hann samdi við Jón gestgjafa að hann seldi honum þær nauðsynjar, er hann þarfnaðist á meðan hann dveldist við rannsóknir sínar þar á fjöllunum. Var það föst venja hans að koma úr tjaldi sínu á kvöldin heim á Kolviðarhól og fá þar soðið vatn, er hann hellti á telauf, sem hann sjálfur hafði meðferðis.
Um sömu mundir og náttúruskoðarinn danski kom að Kolviðarhóli, réðst þangað til sumardvalar ung stúlka úr Reykjavík. Hafði hún veturinn áður verið „húsþerna“ hjá danskri fjöl skyldu. Það varð hlutskipti hennar að ganga náttúruskoðaranum um beina. Brátt fór það að kvisast milli heimafólksins, að vingott væri orðið milli þeirra. Fór það eins og jafnan fyrst með leynd, en þeir, sem bezt tóku eftir, vissu, að þau felldu hugi saman. Og er fram liðu stundir, varð það á vitorði vinnukonunnar þar á staðnum, að þá er fólk var til sængur gengið, laumaðist stúlkan út úr húsinu. Lagði hún þá leið sína austur í Dauðadal til ástarfunda við náttúruskoðarann.
Reykjafell-234Þegar halla tók sumri, hugði náttúruskoðarinn til heimferðar. Kvaddi hann heimamenn á Kolviðarhóli og kvaðst mundu þangað aftur koma á næsta sumri, ef örlögin breyttu ekki ákvörðun sinni. Var hans saknað af heimamönnum, svo vel hafði hann kynnzt þeim öllum. En síðustu nóttina, sem hann gisti í tjaldi sínu í Dauðadal, hafði vinkona hans dvalizt hjá honum lengi nætur. Sagði hún svo frá síðar, að þá hefði hann heitið sér eiginorði og mundi hann sækja hana á næsta sumri. Næsta dag reið náttúruskoðarinn til Reykjavíkur og lét í haf með dönsku kaupfari til Kaupmannahafnar.
Sumarið kvaddi og veturinn gekk í garð, og þjónustustúlkan var farin frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur.
En á milli jóla og nýárs skrapp hún í orlofsferð upp á Kolviðarhól að finna vinstúlku sína, sem hún hafði þar verið með um sumarið.
kolvidarholl - saeluhusid 1844Ekki ætlaði hún að dvelja þar nema eina nótt, en þá atvikaðist það þannig, að húsbændurnir buðu henni að vera þar um áramótin, og þá hún það.
Á gamlárskvöld sat heimilisfólkið saman og spilaði á spil, og lék þá aðkomustúlkan á alls oddi. Allt í einu sá fóik, að hún hrökk við og fölnaði upp, og í sama mund gaf hún frá sér hljóð og féll í öngvit. Var stumrað yfir henni um stund, unz hún raknaði við. Var hún þá mjög þjökuð og óttaslegin og vildi lítið mæla við menn. Lá hún rúmföst næsta dag, en hresstist smám saman, og er hún var ferðafær, var henni fylgt til Reykjavíkur. Eigi vissi almenningur, hvað olli hinu hastarlega veikindakasti stúlkunna. Síðar vinkonu sinni sagði hún í trúnaði, hvað fyrir hefði komið. Þegar hún ásamt heimilisfólkinu sat að spilunum, vissi hún ekki fyrri til en henni þótti danski náttúrufræöingurinn standa á gólfinu andspænis henni. Horfði hann á hana nokkur augnablik með angurblíðum svip. Síðan rétti hann fram aðra hendina og kippti hjartatíunni úr lófa hennar. Með það hvarf hann, og þá veinaði stúlkan upp.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Veturinn leið, og það voraði aftur. Stúlkan taldi dagana og vikurnar í þögulli þrá að frétta af unnusta sínum, og voru það henni langar stundir. Loks barst henni sú harmsaga, með sumarskipum frá Kaupmannahöfn, að náttúruskoðarinn danski væri dáinn. Með sviplegum hætti hefði hann kvatt þennan heim. Á milli jóla og nýárs hafði hann verið á skemmtigöngu ásamt félögum sínum á brú einni, er lá yfir síki eða skurð. Varð honum fótaskortur, hrökk út af gangstígnum niður í vatnið og drukknaði. Var það trú manna, að hann hefði andaður verið kominn upp að Kolviðarhóli á gamlárskvöld með svo miklum krafti, að hann birtist unnustu sinni og kippti hjartatíunni úr hendi hennar, þar sem hún sat að spilunum.
(Sagan er skráð eftir frásögn Kristbjargar, dóttur Jóns á Kolviðarhóli. Hún var bæði greind kona og fróð á fyrritíðar sagnir.)“

Heimild:
-Tíminn 30. október 1960, bls. 9 og 12.
Kolviðarhóll

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Þingvellir

Björn H. Bjarnason fjallar í hugi.is um gamlar götur og komu Friðriks VIII Danakonungs hingað til lands árið 1907:

Inngangur

Konungsvegur

Friðrik VIII.

„Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Konungskoma
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.
Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörkudugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Konungsvegur
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á leið til Þingvalla.

Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Konungsvegur
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Daníelsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Konungskoman
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907, m.a. danskir sjóliðar.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.

Valhöll

Í Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.
Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.

Þingvellir

Gálgaklettur á Þingvöllum. Árni Björnsson lýsir aðstæðum.

Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.
Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.

Frá Þingvöllum að Geysi
Konungsvegur
Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð.
Ýmsir ferðahópar ríða um landið í dag maulandi kramdar samlokur úr vasa sér og drekka volgt djús. Þarna í veitingatjaldinu voru ekki kramdar samlokur og kræsingunum var skolað niður með kampavíni. Hákon Noregskonungur átti afmæli þennan dag og það var hrópað húrra fyrir honum. Á eftir lágu menn rjóðir og mettir á meltunni í grængresinu þangað til lúðurþeytarar blésu í horn sín og allir stigu á bak aftur, en Pagh veitingastjóri og hans fólk átti eftir að vaska upp.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Eins og að ofan greinir var farið um Gjábakkastíg og má láta þess getið að Hallmundur Eiríksson á Gjábakka lánaði 3 hesta í konungsreiðina í 7 daga og fékk fyrir það 84 kr., en auk þess fékk hann 4 kr. fyrir að koma hestunum til Þingvalla. Þetta má sjá í bókhaldsgögnum vegna konungskomunnar sem geymd eru í þremur pappaöskjum í Þjóðskjalasafninu við Laugaveg.
Áfram var haldið um Laugardal og hjá Laugardalshólum og Efstadal og austur með Hlíðum ofan við túnið á Úthlíð í Biskupstungum, neðan við Múla, upp undir Helludal og þaðan austur að Geysi í Haukadal. Brú yfir Brúará hafði verið byggð árið 1901 þar sem steinboginn hafði áður verið. Ekki ætla ég að rifja hér upp lánleysi biskupsfrúarinnar sem lét brjóta þennan steinboga niður árið 1602 svo að soltið fólk kæmist ekki í birgðaskemmurnar í Skálholti, en brytinn sem hjálpaði henni við þetta verk drukknaði seinna í Brúará.

Brúará

Ýmsir fleiri hafa drukknað í Brúará. Árið 1958 var skoskur maður hér á ferð með hóp breskra skáta. Hann hét Stuart A. Mcintosh og reið út í ánna ofan við Brúarfoss. Áin hremmdi Stuart og drukknaði hann. Þetta er háskafljót.
Það var ekki soltið fólk sem stóð upp frá borðum á Geysi þetta kvöld. Á matseðlinum var súpa, lax í forrétt, svo nautasteik og að lokum ávaxtaábætir. Þessu var skolað niður með kampavíni. Ekki minnkaði aðdáun gestanna á skipulagi ferðarinnar við þetta.

Geysir-Gullfoss-Geysir

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Þann 4. ágúst reið hópurinn að Gullfossi og til baka aftur. Konungsfylgdin tyllti sér á ystu nöf og var skálað fyrir framtíð lands og þjóðar. Um kvöldið var enn ein veislan. Þar tóku margir til máls m.a. Þorvaldur Thoroddsen. Hann fjallaði um jarðfræði og heitu hverina og eldfjöll. Hann sagði sögu af því að eitt sinn hefði hraungrýti úr Heklu steinrotað mann sem stóð á hlaðinu í Skálholti. Þarna er yfir Ytri-Rangá, Þjórsá og Hvítá að fara. Þetta fannst veislugestum áhugavert. Þorvaldur sagði frá fleiru skemmtilegu. Á eftir stóð konungur upp og kvað Þorvald vera vísindamann á heimsmælikvarða. Sá kunni lagið á því.

Frá Geysi að Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Daginn eftir þann 5. ágúst var riðið um nýju brúna yfir Hvítá hjá Brúarhlöðum og niður með Hvítá að austanverðu hjá Skipholti og að Álfaskeiði. Farið var yfir Langholtsós og Stóru-Laxá á Langholtsvaði skammt frá Syðra-Langholti. Þaðan svo sem leið lá að Þjórsárbrú. Vaðið á Laxá er nokkuð breitt þarna og þéttskipuð fylkingin var lengi að ösla í vatni en það náði hestunum stundum í kvið.
Þegar neðar dró sást yfir Hvítá heim að Bræðratungu þar sem Snæfríður Íslandssól bjó með júnkærnum Magnúsi Sigurðssyni eins og sagt er frá í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness. Þegar Magnús slæmdist í lekabytturnar hjá faktornum niðri á Eyrarbakka fór hann um Hvítárholtsferjuna þangað og heim aftur, en hjá Bræðratungu lágu þjóðgötur. Þar eru m.a. Flosatraðir.
Um ráðahag hennar og Magnúsar sagði Snæfríður eitt sinn: “Frekar þann versta en þann næst besta.” Snæfríður hafði ung fellt ástarhug til Árna Magnússonar handritasafnara, en hann vildi frekar giftast ríkri, danskri konu svo að hann gæti haldið áfram að safna handritum. Þegar sérviskan og ástin togast á í hausnum á karlmönnum þá hefur sérviskan ætíð betur. Snæfríður hins vegar taldi sig hafa kynnst ágætum manni þar sem Árni var og fannst þess vegna góður maður eftir það blátt áfram hlægilegur, ekki síst vonbiðill hennar Sigurður dómkirkjuprestur í Skálholti.
Konungsvegur
En áfram með ferðalagið. Hjá Skipholti hafði hádegisverður verið framreiddur en við Álfaskeið var boðið upp á mjólk, öl, sódavatn og kampavín. Þarna voru söngvarar, hljóðfæraleikarar, tónskáld, steikarar og þjónar, íslenskir þingmenn, danskir þingmenn, þýsk kerling frú Rosa Bruhn að skrifa fréttir, kóngur og Haraldur prins í húsarabúningi og Hannes Hafstein á hátindi síns ferils. Í hópi þingmanna voru margir úr bændastétt. Þeir söknuðu þess að sjá hvergi rakstrarvélar og herfi eða plóga á leið sinni, fannst hrífan óþarflega seinvirk. Bændur í Hreppunum og þeirra fólk var úti á túni þegar hersingin fór hjá og konungur ræddi við fullorðna fólkið og börnin líka, blessaða sakleysingjana.
Á fylgiskjali í Þjóðskjalasafninu sést að Ágúst Helgason í Birtingarholti lét senda 60 lítra af nýmjólk að Álfaskeiði. Hann seldi hvern lítra á 18 aura. Heimboðsnefnd Alþingis gerði hann einnig reikning fyrir tveimur glösum sem höfðu brotnað samtals 70 aurar.
Vagnar og ýmislegt dót varð eftir á Álfaskeiði. Þetta dót tók Ágúst til handargagns heim í Birtingarholt. Hann langaði mikið í einn vagninn og í því efni bar hann sig upp við séra Þórhall Bjarnarson, hvort ekki væri hægt að hafa uppboð á þessu dóti um það leyti sem búnaðarþingi lyki, en Þórhallur var formaður Búnaðarfélags Íslands. Ekki veit ég hvort Ágúst eignaðist þennan vagn.
En þetta dót á Álfaskeiði var ekki eini lausi endinn að lokinni þessari hestaferð. H. (Halldór) Einarsson á Kárastöðum í Þingvallasveit sendir eftirfarandi reikning til Heimboðsnefndarinnar.
Lán á hesti í 7 daga kr. 21.
Fyrir 2 hnakka og 4 beisli í 7 daga kr. 7.
Fyrir beisli er tapaðist kr. 10.
Fyrir að gera ferð til Reykjavíkur að sækja hnakkana og beislin og leita að hestinum sem var týndur 3 dagar á 9 kr. samtals kr. 27.
Konungsvegur
En við vorum stödd hjá Langholtsvaði. Þaðan reið konungsfylgdin á Þjórsárbakkana og eftir þeim endilöngum. Ekki var riðið á seinagangi og inn á milli með slætti. Í gamla daga riðu menn mikið á einhvers konar skeiðjagi eða kerlingargangi sem kallaður var eða valhoppi. Töltið eins og við þekkjum það í dag kom ekki inn í íslenska hestamennsku fyrr en seinna. Þó brugðu menn fyrir sig hýruspori ef mjúkt var undir fót og einn og einn kappkostaði að halda hesti sínum til t.d. Daniel Danielsson í Stjórnarráðinu og Ólafur Magnússon ljósmyndari. Ágætar ljósmyndir eru til af þessum mönnum og hestum þeirra.
Hjá Þjórsárbrú tók Sigurður Eggerz á móti fólkinu en hann hafði verið settur sýslumaður í Rangárvallasýslu frá 1. maí 1907 og tók við af Einari Benediktssyni. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn sem heilsaði hestafólkinu með dynjandi fagnaðarlátum. Undirbúin hafði verið vegleg búfjársýning sem hefjast átti daginn eftir.
Skrá frá Landssímanum yfir útsend símskeyti frá Þjórsárbrú þann 5. ágúst sýnir, að umheimurinn hafði mikinn áhuga á því sem þar var að gerast. Þessir aðilar sendu skeyti þaðan: Dannebro, Ritzau, National tidende, Politiken og Berlinske tidende. Þessa skrá er að finna í einni af öskjunum þremur í Þjóðskjalasafninu.
Á búfjársýningunni næsta dag voru sýndar kýr, kindur og hestar. Margir Danir söknuðu svína og alifugla svo sem anda og gæsa. Þess má geta að árið 1900 voru 50.000 hross í landinu og voru 3095 hestar fluttir út það ár. Álitið var að þrefalda mætti þessa tölu þ.e. koma hestunum upp í 150.000 og töldu ýmsir að útflutningur hrossa gæti orðið hrossarækt í landinu lyftistöng. Verst er að Íslendingar hafa aldrei getað selt nokkurn skapaðan hlut annað en fisk, en fiskur selur sig sjálfur. Í þessu efni gætum við lært mikið af Dönum, framleiða minna og selja dýrara. Líflegar samræður fóru fram um smjörframleiðslu og bar öllum saman um að íslenska smjörið væri einkar aðlaðandi.

Frá Þjórsárbrú að Arnarbæli í Ölfusi
Konungsvegur
Að loknum hádegisverði var haldið yfir hengibrúna á Þjórsá. Konungur og Hannes Hafstein riðu í fararbroddi og fór hersingin eftir eggsléttum þjóðveginum í vestur. Stansað var við Ölfusárbrú en þar hjá var gamli sveitabærinn Selfoss. Nielsen faktor á Eyrarbakka stóð fyrir móttökum en hann var rómaður um land allt fyrir gestrisni. Konungur þakkaði viðurgjörninginn og óskaði Eyrarbakka velfarnaðar.
Í bókhaldsgögnum kemur fram á fylgiskjali 139 að séra Þórhallur Bjarnarson hefur fengið 20 flöskur af öli í Tryggvaskála á 35 aura stk. með gleri samtals kr. 7. Svo er að sjá að hann hafi fengið þessar 20 flöskur sendar í Hraungerði. Á fylgiskjali 143 sést að séra Þórhallur hefur ásamt 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum gist hjá séra Ólafi Sæmundssyni í Hraungerði aðfaranótt 6. ágúst.
Séra Ólafur fékkst ekki með nokkru móti til að setja upp ákveðið verð fyrir gistinguna, en lét séra Þórhall um að ákveða endurgjaldið sjálfur. Honum fannst hæfileg þóknun fyrir þetta vera kr. 50, en inni í þessu var mjólk, kaffi og dálítið skyr, eins vöktun á 30 hestum. Varla getur talist að séra Þórhallur hafi ástundað glannalegt líferni úr því að ölflöskurnar frá Tryggvaskála voru ekki nema 20 handa 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum.
Kolviðarhóll
Frá Ölfusárbrú var haldið hjá Ingólfsfjalli að Kögunarhól en þar var áð. Síðan var riðið að Arnarbæli. Þar beið gestanna reisuleg tjaldborg en kóngur og Haraldur prins gistu inni á prestssetrinu. Prestur í Arnarbæli var séra Ólafur Magnússon. Hann þótti ágætur söngmaður og tónaði manna best.
Dönunum fannst mikið til um mýrarnar þarna allt í kring og töldu að með framræslu mætti rækta upp mikið land í Ölfusinu. Þarna heita Forir og heyjaði séra Kjartan Kjartansson þar seinna. Hann notaði hesta við heyskapinn en undir þá setti hann þrúgur svo að hestarnir sykkju ekki á bólakaf.
Öldum saman bölvaði þjóðin mýrunum. Þær voru mikill farartálmi og menn urðu blautir í fæturna að ösla í þeim. Svo voru mýrarnar þurrkaðar upp en það spillti fuglalífi. Nú eru menn til sveita ekki lengur blautir í fæturna en þeir sakna fuglatístsins. Til þess að kalla fram fuglatístið verður aftur að búa til mýrar, en þá verða menn blautir í fæturna þegar þeir fara að sækja hestana sína út í haga. Lífið er ekki auðvelt.

Frá Arnarbæli til Reykjavíkur

Arnarbæli

Arnarbæli – konungskoman 1907.

Síðasta daginn 7. ágúst var farið upp Kamba en þeir hafa verið taldir vegaminjasafn þjóðarinnar enda þar götur og troðningar frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Þaðan var riðið um Hellisheiði hjá Hveradölum, Kolviðarhóli, í Lækjarbotna, hjá Geithálsi, Rauðavatni og fyrir norðan Árbæ. Aftur var komið til Reykjavíkur.
Upp Kambana riðu þeir samsíða á fetgangi Hannes Hafstein og Friðrik 8. Hannes reið brúnum hesti en konungur var áfram á gráum hesti. Hann innti Hannes eftir því hvernig hann teldi fólkinu hafi líkað ræðurnar hans. Þessa sömu spurningu hafði hann lagt fyrir séra Matthías Jochumsson er hann hitti hinn aldna prest í Almannagjá fyrr í ferðinni. Honum virtist mjög umhugað um að sér væri vel tekið. Hann var mun frjálslyndari en Kristján 9. faðir hans og menntaður maður í besta skilningi þess orðs bæði bókhneigður og mannblendinn, í senn hlédrægur og opinskár.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Snætt var í stóru tjaldi á Kolviðarhóli og hélt konungur þar þakkarræðu. Sterkt útiloftið og samneytið við íslenska hesta hafði gert hann ögn óvarkáran og léttan í höfðinu. Í ræðu sinni sagði hann m.a.: “Látum oss verða samferða og trúa og treysta hverir öðrum. Látum þessa ferð tengja fast band milli íslensku og dönsku þjóðarinnar og mín, sem ekki hef annað markmið en sannleik og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.” Þetta orðalag “báðum ríkjum,” fór mjög fyrir brjóstið á Christensen forsætisráðherra. Það var of mikill sjálfstæðiskeimur yfir þessu.
Er konungur hafði lokið máli sínu mælti Rambusch undirofursti fyrir minni framreiðslustúlkna m.a. þeirra sem höfðu vaskað upp á Laugarvatnsvöllum og gengið um beina. Hann ræddi um þolgæðisbros þessara erilsömu matvæladreifara. Sem hermaður vissi hann að án kokksins vinnst ekkert stríð og lítið fer fyrir matnum ef enginn nennir að bera hann á borð. Og ekki brást Franz Håkansson, bakari og conditori. Á Kolviðarhól hafði hann látið senda 175 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Hann átti hrós skilið.
Hraðboðar komu á móti konungsfylgdinni upp að Lækjarbotnum en þeystu síðan til baka að segja frá komu konungs svo að fólkið í Reykjavík gæti verið til taks að hrópa húrra. Þessa hraðboðun hafði Gísli J. Ólafsson tekið að sér sem verktaki fyrir kr. 400. Á sundurliðuðum reikningi frá honum stendur: “Til móttökunefndarinnar. Fyrir að senda hraðboð milli Reykjavíkur og Þingvalla, Reykjavíkur og Geysis, Reykjavíkur og Þjórsárbrúar og Reykjavíkur og Selfoss bera mér samkvæmt samningi kr. 400.-“

Niðurlag

Konungsvegur

Konungsvegur – áningarstaður á Laugarvatnsvöllum 1907.

Hestaferð þessi var í alla staði talin hafa heppnast með ágætum og bar öllum saman um að Friðrik 8. væri vænsti maður á margan hátt. Rómverjar til forna höfðu þann sið þegar sigursæll herforingi hélt inn í Rómaborg, að hafður var hjá honum þræll í stríðsvagninum. Á meðan lýðurinn hyllti herforingjann var það hlutverk þrælsins að endurtaka í sífellu: “Þú ert bara maður, þú ert bara maður.”
Hvern skyldi Friðrik 8. hafa haft við hlið sér í Ísalandsför sinni? Hann var svo alþýðlegur að enginn sem kynntist honum efaðist um að ef hann hefði verið beðinn um það hefði hann brett upp skyrtuermarnar og undið sér í uppvaskið. En hann var ekki beðinn um það. Hann var beðinn um að sitja í hásætinu. Það hásæti sem honum var ætlað hér á landi var í fornum stíl og smíðað af Stefáni Eiríkssyni. Það kostaði kr. 600.- Á sama tíma járnaði Jón Sigurðsson hest fyrir Axel Tulinius sýslumann og tók fyrir það kr. 1.75 með skeifum. Ef járnað var á gamalt kostaði það 25 aura á löpp. Þarna er dæmi fyrir Hagstofu Íslands að umreikna til verðlagsins í dag.
Af því að verið er að tala um verðlag má geta þess að Jónatan Guðmundsson fékk greiddar kr. 4 fyrir að spila á harmoniku á Þingvöllum. Vinna við að gera akfæran veg frá Skipholti að Brúarhlöðum 51 dagsverk kostaði kr. 204.- En brú á Langholtsós kr. 35.- Þetta sést á reikningi frá Ágústi Helgasyni í Birtingarholti. Í bréfi sem hann lét fylgja með kvað Ágúst vaðið á ósnum hafa spillst mjög. Upphæð þessi kr. 35.- var hins vegar dregin frá reikningnum til heimboðsnefndarinnar þar sem brúargerð á Langholtsós var talin utan við umsamda vegaframkvæmd.

Konungsvegur

Friðrik 8. var eins og milli steins og sleggju. Evrópa var að breyta um ásjónu og nýir tímar fóru í hönd. Aðeins 7 árum síðar braust fyrri heimsstyrjöldin út og álfan logaði öll. Þá var Friðrik 8. látinn en í skotgröfunum við Somne eða Verdun var ekki boðið upp á lax í forrétt og nautakjöt í aðalrétt og ávaxtaábæti á eftir.
Hannes Hafstein var líka milli steins og sleggju. Hann vildi sjálfstæði að því marki að eftir sem áður væri hægt að slá Dani um peninga fyrir verklegum framkvæmdum. Draumur hans var að hefja stórfelda ræktun í frjósömustu héruðum sunnanlands m.a. í Flóanum og austur á Skeiðum. Svo langaði hann að leggja járnbraut um Þrengslin austur fyrir fjall. Það er seinlegt að hossast á hestbaki, en það var glaður hópur sem skilaði sér aftur til Reykjavíkur eftir þessa hestaferð um Kóngsveginn í byrjun ágúst árið 1907.
Það er ekki fyrir leikmann að fara nánar út í þann stjórnmálalega undirtón, sem bjó að baki þessarar heimsóknar Danakonungs, en svona var hestaferðin. Friðrik 8. var þá 64 ára gamall. Það er svo sem ekki hár aldur miðað við að öldruð kona í Neðri-Fáki við Bústaðaveg byrjaði í hestamennsku 76 ára gömul. Hún er nú komin vel yfir áttrætt og búin að taka mestu kitlurnar úr vindótta klárnum sem hún keypti sér.“

Heimild:
-https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/ – Örn H. Bjarnason.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.